Brunnstígur

Á upplýsingaskilti við gatnamót Brunnstígs og Vesturgötu í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi:

Brunnstígur

Brunnurinn (svartur depill).

“Á fyrrihluta 20 aldar fjölgaði íbúum Hafnarfjarðar mjög hratt. Samhliða fólksfjölguninni jókst útgerð til mikilla muna og varð þá snemma knýjandi þörf á að koma upp hafskipabryggju í bænum.

Bryggjusmíðin sjálf hófst í mái 1912 og varð hún gerð samkvæmt uppdrætti Th. Krabbe, landsverkfræðings, en bryggjusmiður var Björn Jónsson frá Bíldudal. Laugardaginn 28. desember sama ár lagðist fyrsta skipið að bryggjunni en það var gufuskipið Sterling. Með tilkommu bryggjunnar varð til eftirspurn eftir ýmiss konar þjónustu, þar á meðal vatnssölu til skipanna. Vatnsveita bæjarins var hins vegar ekki í stakk búin að óbreyttu til að veita þessa þjónustu og var því brugðið á það ráð að koma upp geymi til vatnsmiðlunar fyrir bryggjuna. Vatnsgeymirinn eða brunnurinn var reistur hér; honum var valinn staður í hraunbolla við nýja götu sem bar nafnið Vesturbrú en síðar var Brunnstígurinn lagður og er hann nefndur eftir brunninum. Vatn safnaðist í brunninn á næturbar þegar notkun bæjarbúa var í lágmarki en á daginn var því veitt úr honum og niður í vatnsveitukerfi bryggjunnar.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – fyrsta hafskipabryggjan.

Samkvæmt lýsingu í útboði vegna byggingar vatnsgeymisins var hann 3,2 metrar á dýpt, 9,2 metra víður að innan máli og rúmaði 200 smálestir vatns. Veggirnir voru 50 cm þykkir og inni í geyminum voru fjórar súlur sem héldu þakinu uppi. Eftir að geymirinn var steyptur var jarðvegur setuur upp að honum en þó stóðu alltaf um 40 cm upp úr jörðinni. Geymirinn var niðurgrafinn að stærstum hluta líkt og brunnur og skýrir útlitið því nafngiftina. Guðni Guðmundsson, steinsmiður, sá um að steypa geyminn en Sigurður Thoroddsen, verkfræðingur, teiknaði hann.

Brunnurinn gegndi þessu miðlunarhlutverki fram yfir 1950 en vatn rann þó enn í hann næsta áratuginn. Dæmi eru um að íbúar hafi þurft að ná sér í vatn í brunninn þegar bera fór á vatnsskorti upp úr 1960. Eftir það var brunnurinn meðal annars nýttur sem grænmetisgeymsla.”

Brunnstígur

Brunnstígur – brunnurinn var t.v. á myndinni.