Fyrirhuguð er stækkun álversins í Straumsvík. Stækkunin felur í sér framleiðsluaukningu um 260.000 tonn á ári frá núgildandi starfsleyfi – í tveimur áföngum.
Í skýrslu Hönnunar um stækkun álversins í Straumsvík frá því júní 2002 segir að “fyrirhugað er að reisa tvo tæplega 950 m langa kerskála, sunnan núverandi Reykjanesbrautar. Önnur helstu mannvirki fyrirhugaðrar stækkunar eru súrálsgeymir, tvær þurrhreinsistöðvar, skautsmiðja, kersmiðja og stækkun steypuskála, spennistöðvar og geymsluhúsnæði. Nokkurt bil (um 130 m) verður á milli núverandi kerskála og fyrirhugaðra kerskála. Ástæða þess er sú að forðast þarf rask á fornri tóft kapellu, sem Kapelluhraun dregur nafn sitt af, með því að staðsetja skálana sunnan hennar.”
Umrædd kepallutóft er nú sunnan núverandi Reykjanesbrautar. Í rauninni er fátt “fornt” við þessa kapellu nema staðsetningin. Þótt jafnan hafi verið litið til kapellunnar af sögulegum og trúarlegum ástæðum má segja að núverandi “kapella” hafi takmarkað gildi í því samhengi. Um er að ræða uppgert nútímamannvirki (frá því á sjöunda áratug 20. aldar), hlaðið með öðru lagi en upphaflega og á í rauninni takmarkaðan skyldleika við þá fornleif, sem þá var.
Hraunið, sem kapellan, var í hefur verið nefnt Kapelluhraun. Áður var það nefnt Bruninn og þar áður Nýjahraun, eins og hraunið var nefnt eftir að það rann seint á 12. öld (á tímabilinu 1151-1188). Við “kapelluna” er merki er segir til að þarna sé um friðlýstar fornminjar að ræða. Kristján Eldjárn, ásamt fleirum, gerði rannsókn á kapellunni í Kapelluhrauni árið 1950, en þá var kapellan í óröskuðu gamburmosahrauni, “niðurgrafin” í það og jarðlæg að mestu. Í rústinni fundust ýmsir munir, m.a. líkneski af heilagri Barböru, verndardýrlingi ferðalanga og síðar málmiðanaðarmanna. Kristján fjallaði um hana í grein sinni: “Kapelluhraun og Kapellulág” (Fornleifarannsóknir 1950 og 1954). Einnig í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1955-1956, Rvk. 1957, bls. 5-34. Þá er fjallað um kapelluna í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. II bindi. Rvk. 1954, bls. 78.
Síðan hefur mikið gengið á, gamburmosahraunið fjarlægt, hinni fornu kapellu verið raskað og “ný” hlaðin í staðinn á hraunhól í hennar stað. Leifar af gömlu þjóðleiðinni í gegnum “Brunann”, um 10 metra kafli, sést enn sunnan núverandi hleðslu.
Eftir að Kristján Eldjárn rannsakaði kapelluna ásamt fleirum 1950 segir hann svo frá:
„Fyrir sunnan Hafnarfjörð liggur leiðin yfir úfinn brunafláka sem á upptök sín í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Í þessu hrauni er Kapellan og eftir henni heitir hraunið Kapelluhraun, en hefur heitið Nýjahraun á miðöldum, því að það hefur runnið eftir að land byggðist, líklega þó mjög snemma á öldum. Kapellan er lítil opin húsarúst rétt við gamla krákustíginn, sem ruddur hefur verið þegar eftir að hraunið rann og hefur verið alfaraleið út á nes öldum saman.“ Rétt er að geta þess í þessu sambandi að gamli stígurinn (Alfararleiðin) í gegnum hraunið lá (og liggur) sunnan Þorbjarnarstaða, ofan Gerðis, í krikann, sem þar er og þaðan í gegnum hraunið. Hefur hann stefnt á vörðu, sem enn sést og er sunnan vegarins skammt austan Álversins. Þaðan lá hann á ská í gegnum hraunið áleiðis að Hvaleyri. Núverandi “kapella” er norðan við þennan stíg, sem þá var. Segja má að “kapellan” haldi við að nokkru minningunni um gömlu kapelluna sem og tilgang hennar á langri leið í gegnum úfið hraun, sem reyndar var það eina á Alfararleiðinni því alls staðar annars staðar er um um greiðfært helluhraun að fara, nema ef vera skyldi við rönd Afstapahrauns í Kúagerði.
Núverandi “Kapella” er 2,40 m á lengd og 2,10 m á breidd að innanmáli. Veggirnir eru hlaðnir úr hraunhellum og að mestu uppistandandi. Ekki vottar fyrir mosató á veggjum, líkt og sjá má á myndunum af gömlu kapellunni frá 1950, en þá var rústin þakin – reyndar falin í mosa.
Við uppgröftinn 1950 fundust allmargir gripir. Sá merkasti þeirra er lítið líkneski af heilagri Barböru, brotið um mjaðmir en nú um 3,3 cm á hæð. Líkneskið er varðveitt í Þjóðminjasafni (Þjms. 14293). Þessi fundur benti til þess að húsið væri í raun og veru kapella frá katólskum tíma og að ferðamenn um hraunið hafi komið þar við og gert bæn sína. Þann 4. des. 1981 var styttu af heilagri Barböru, gerð af W. Millmann, komið fyrir í hinni nýju”kapellu” í Kapelluhrauni.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því að einn af mönnum Kristjáns skrifara hafi verið drepinn í Kapelluhrauni og grafinn í kapellunni til hefnda eftir Jón biskup Arason og syni hans. Engin ummerki eru á staðnum (endar búið að raska öllu svæðinu meira og minna) benda þó til þess að þessi sögn eigi stoð í raunveruleikanum, en hins vegar styrkja frásagnir af aðförinni að Kirkjubóli á Rosmhvalanesi, þar sem sótt af að Kristjáni skrifara og þeim er hann hýsti eftir dráp Jóns Arasonar 1550, að nokkru þá frásögn. Þar voru drápsmenn Jóns handteknir, sumir drepnir en aðrir færðir áleiðis til yfirvaldsins á Bessastöðum. Á leiðinni leiddist mönnum þófið og stjaksettu við kapelluna í Kapelluhrauni. Það segir sagan að minnsta kosti. Líklega hefur verið erfitt að “grafa” menn í hrauninu, en þá hefði verið hægt að husla. Ef það hefur verið gert eru bein þeirra nú komin undir álverið svo segja má með nokkru að álverið sjálft sé að nokkru meiri “fornleif” en kapellan.
Á bls. 7 í 32. tbl. Fjarðarpóstsins, 24. árg. (2006) er fjallað um “Menningardag Evrópu”, sunnudaginn 3. september. Áætlað var skv. umfjölluninni að hafa dagskrá við “kapelluna” í Kapelluhrauni kl. 14.00 þennan tiltekna dag. Í umfjölluninni segir m.a.:
“Álverið í Straumsvík stendur á hrauni sem ber nafnið Kapelluhraun. Hraunið á upptök sín í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Talið er að hraunið hafi komið upp í eldgosi árið 1151, svokölluðum Krýsuvíkureldum.
Hraunið dregur nafn sitt af Kapellunni, rúst af litlu húsi skammt suður af Reykjanesbraut gegnt álverinu. Kristján Eldjárn rannsakaði kapelluna árið 1950 ásamt fleirum. Kapellutóftin snýr því sem næst í austur-vestur og er 240 cm löng og um 220 cm breið. Húsið hefur verið reist við götu sem rudd var gegnum hraunið og lá út á Reykjanes. Vegna mikillar efnistöku í kringum kapelluna er gatan nú að mestu horfin í nágrenni kapellunnar en smá bútur sést þó sunnan rústarinnar. Í kapellunni fundust nokkrir gripir. Þar á meðal brot af rafperlu, leirkersbrot, látúnslauf, kríptarpípuleggur, skeifubrot og naglar. Merkasti fundurinn var þó líkneski af heilagri Barböru.
Staðsetning rústarinnar við veginn og fundur líkneskisins í rústinni benti að mati Kristjáns Eldjárns til þess að þarna hefði staðið vegakapella á kaþólskum tíma. Líkneskið er tálgað úr grágulum leirsteini. Aðeins efri hluti þess fannst og er sá hluti 3,3 cm á hæð en talið að líkneskið haf upphaflega verið um 5,5 cm. Andlit heilagrar Barböru er nokkuð máð en hún er með mikið hrokkið hár niður á herðar og sveigur er um yfir ennið. Í vinstri endi heldur Barbara á einkenni sínu, turninum, og hvílir hann við vinstri öxl og upp með vinstri vanga hennar. Gott þótti að heita á Barböru í háska af eldi, húsbruna, sprengingum og þess háttar. Hún var verndardýrlingur stórkotaliðs, ferðamanna og síðar málmiðnaðarmanna. Barbara kann því að hafa þótt duga vel gegn háska af völdum jarðelds og hraunbruna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi.” Einnig var hún verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðs- manna, námumanna, verkfræðinga og jarðfræðinga. Þá er athyglisverð sú staðreynd að álver skyldi byggt við hlið kapellu verndardýrlings málmiðnaðarmanna.
Kapellutóftin er á fornminjaskrá. Fróðlegt er að skoða ljósmyndir, sem teknar voru af tóftinni við upphaf rannsóknar Kristjáns Eldjárns og félaga, en á þeim sést m.a. úfið mosahraunið og einungis hluti kapellunnar standur upp úr því.
“Í ýmsum kristnum löndum eru enn til smákapellur, sem reistar hafa verið við vegi á miðöldum, ætluðum vegfarendum til bænagerðar. Krossar hafa verið reistir á víðavangi í sama tigangi. Í Njarðvíkurskriðum, milli Njarðvíkna og Borgarfjarðar eystri, stóð lengi kross þar sem menn, sem áttu leið um skriðurnar, áttu að lesa faðirvorið.”
Í lok greinarskrifanna er lýst hinum “evrópska menningardegi” sem og tilgangi hans, sem reyndar skiptir kapelluna í Nýjahrauni litlu máli.
Saga og hlutverk kapellunnar í Kapelluhrauni (Brunanum/Nýjahrauni) ofan við Straumsvík er einungis mikilvæg vegna staðsetningarinnar og þeir atburða er síðar gerðust í nágrenni við hana (hefndin á drápi Jóns Arasonar Hólabiskupi við Skálholt árið 1550). Þá er hún ekki síður vitnisburður og staðfesting á hinni fornu leið, sem um hana lá yfir hraunið, frá Vestari-Brunabrúninni að hinni Austari, eins og segir í örnefnalýsingum. Hins vegar er kapellan sjálf tiltölulega nýtt mannvirki, sem fyrr sagði, reist á gömlum stað. Af myndum og uppdráttum Kristján Eldjárns (frá 1950) að dæma var kapellan, ferköntuð, niðurgrafin og hálffallin í kafi í mosavöxnu hrauninu.
Núverandi kapella er endurhlaðin með breyttu lagi (sporöskulaga), en á sama gólffleti og sú sem þar var fyrir. Best hefði farið á því að láta þessa tilteknu kapellutóft óhreyfða, eins og hún var, en ekki endurhlaða hana með þessu hæpna tilgátulagi. Betra hefði verið að reisa tilgátugerð hennar annars staðar í óhreyfðum hluta hraunsins, s.s. við vestanverða Brunabrúnina. Með þessari endurgerð varð, og verður, hún ekki eins markverð og “ekta” og hefði hún fengið að halda hrumleika sínum. Í augum “meðvitaðra” er mannvirkið óekta og miklu mun minna áhugaverðara en ella. Hafi menn viljað endurgera þessa fornleif með tilgátulagi gátu þeir alveg eins byggt hana upp við Alfaraleiðina þar sem hún kemur upp á Brunabrúnina vestari ofan Gerðis – í óröskuðu gamburmosahrauni. Mannvirkið hefði betur verið látið óhreyft þarna en að byggja það upp með núverandi og öðru lagi en það upphaflega var.
Árið 1551 dró heldur betur til tíðinda á Suðurnesjum. Árið áður hafði síðasti kaþólski biskupinn, Jón Arason, verið tekinn af lífi og nú vildu ættingjar hans ogbandamenn leita hefnda. Nærtækast þótti að láta hefndina koma niður á umboðsmanni danska hirðstjórans, Kristjáni skrifara, sem kveðið hafði upp úrskurðinn um að biskup skyldi hálshöggvinn.
Í ársbyrjun var Kristján staddur í konungserindum á Suðurnesjum og hafði fjölmennt fylgdarlið. Norðlenskum vermönnum barst njósn af ferð hans og héldu í skjóli nætur 30 saman að Kirkjubóli þar sem Kristján dvaldist ásamt mönnum sínum og ungum syni.
Norðanmenn fengu leyfi bóndans á bænum til að rjúfa þekjuna og gátu því komið skrifaranum að óvörum og drepið þá einn af öðrum. Kristján náði þó að brjótast út úr húsinu án teljandi sára því hann var brynjuklæddur.
Kom þá aðvífandi 18 ára piltur, sveinn Þórunnar á Grund, dóttur Jóns Arasonar. Hann var vopnaður lensu, sem hann rak í smáþarmana og mælti í sömu svifum: “Ég skal finna á honum lagið”.
Því næst héldu Norðlendingar um Suðurnes og drápu þá konungsmenn, sem þeir náðu í. Á Másbúðum rákust þeir á tvo fylgdarmenn Kristjáns og felldu annan, en hinn slapp með því að skjóta einn norðanmanna á flóttanum. Er þetta e.t.v. fyrsti íslenski byssubardaginn.
Loks hermir Setbergsannáll að Norðlendingar hafi haldið norður á Álftanes þar sem þeir tóku höndum böðul Jóns Arasonar, Jón Ólafsson,…”og héldu í sundur á honum túlanum og helltu svo ofan í hann heitu blýi. Með það lét hann líf sitt, en þeir riðu norður.”
Vitaskuld brugðust dönsk stjórnvöld illa við þessu framferði og sumarið eftir létu þau hálshöggva bóndann á Kirkjubóli og hjáleigumann hans. Voru höfuðin sett á stengur en búkarnir á hjól og haft sem víti til varnaðar við þjóðveginn við Straumsvík.
Mest gramdist yfirvöldum þó meðferð norðanmanna á líkum þeirra er féllu við Kirkjuból. Þeir voru dysjaðir fyrir norðan tún og líkin svívirt með því að höfuðin voru höggvin af og nefin sett milli þjóanna, til að þeir gengju síður aftur.
Hvort þessi tilltekna nútímalega “kapelluuppgerð” getur talist sannur táknrænn vitnisburður um sögulega “menningararfleifð” á evrópskan mælikvarða skal ósagt látið. Líklegra hefði hin sandorpna kapella á Hraunssandi, frá sama tíma, er Kristján Eldjárn og félagar grófu upp skömmu fyrir 1950, orðið miklu mun áhugaverðari minnisvarði (enn óhreyfður) um það sem var og þjónað miklu mun betur betur tilgangi tilefnisins. Hún er þó í dag, því miður, táknrænt virðingarleysi, sem fornleifunum hefur til langs tíma verið sýnt.
Við kapelluna eru tvö skilti, annað frá Byggðasafni Hafnarfjarðar og hitt frá Þjóðminjasafninu. Upplýsingarnar eru svipaðar. Friðlýsingarmerki er við innganginn. Á öðru skiltinu segir að talið sé að Kapelluhraun hafi runnið á 11. öld. Á hinu segir að hraunið hafi runnið á 13. eða 14. öld. Nú liggur hins vegar fyrir að hraunið rann hvorki á 11. eða 13. öld, heldur árið 1151. Venjulegur ferðamaður gæti hæglega orðið ráðvilltur þarna og það áður en hann kemur að sjálfum “fornminjunum”. Á sama hátt og upplýsingarnar á staðnum eru misvísandi er kapellan sem fornleif varla “sjálfri sér samkvæm”. Grunnmynd á skilti sýnir ferhyrnda tóft, eins og dr. Kristján Eldján rissaði hana upp á sjötta áratug 20. aldar. Innanmálið er að vísu ferhyrnt svo fá má á tilfinninguna að þar og þannig hafi gólfflöturinn verið upphaflega, en utanmál kapellunnar, eins og hún er í dag, er fremur sporöskjulaga. Önnur, gömul mynd, tekin við sama tækifæri, sýnir að mestu hrunda mosavaxna kapelluna í úfnu hrauninu, en nú er hún svo formlega löguð, ber og svo vel uppi standandi að varla getur talist um forna leif sé að ræða – nema að hluta til. Endurgerð fornleif stendur þó ávallt fyrir sínu – a.m.k. að ákveðnu marki.
Annar hluti gamla stígsins, sem enn sést, er sunnan við kapelluna. Sennilega er um einskæra tilviljun að ræða að hann skuli hafa fengið að halda sér. Hinn hlutinn er þar sem komið er inn í hraunið af Alfaraleiðinni suðaustan við Gerði. Í örnefnalýsingu segir m.a. um stíg þennan: “Alfaraleiðin út á Útnes lá svo að segja um túnblettinn. Hann lá yfir Kapelluhraunið, eða Brunann, eins og það var stundum nefnt, síðan lá leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri. Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys.
Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum”.
Kapelluhraunið hefur að geyma marga fornleifina. Þá þar nefna Þorbjarnastaðaborgina neðan við Brunntorfur, garða og hleðslur ofan við Gerði, hlaðnar brýr og byrgi skammt norðan við gasstöðina. Þá liggja yfir hraunið fornar götur og syðst í því eru myndarlegar hrauntraðir. Í fornleifaskráningu, sem jafnan er vitanð til í lærðum skýrslum um fyrirhugaða stækkun er einungis getið um þrjár eða fjórar fornleifar á svæðinu, allar fremur ómerkilegar. Staðreyndin er hins vegar sú að þær eru miklu mun fleiri – fylla annan tuginn. Þeirra er getið annars staðar á vefsíðunni í umfjöllun FERLIRs um svæðið.
Álverið við Straumsvík stendur á Kapelluhrauni, eða Nýjahrauni eins og það fyrst var nefnt, og er allra yngsta hraunið á svæðinu í kringum Hafnarfjörð. Það er frá árinu 1151 skv. upplýsingum frá Íslenskum orkurannsóknum. Það á upptök undir Undirhlíðum og hefur komið úr gígaröðum, sem virðast vera tengdar misgengissprungum. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu hjá Krísuvíkurkerfinu. Þá opnaðist gossprunga undir Undirhlíðum sem var alls um 25 metra löng en slitin í miðjunni.
Kapelluhraun rann norðan á skaganum og til sjávar og myndað þar tanga, en vestan undir honum er Straumsvík.
Kapelluhraun er ákaflega fallegt úfið og mosagróið apalhraun en hörmung er að sjá hvernig karganum hefur verið rutt af yfirborði þess á stórum svæðum. Hraunið er fínkornótt með einstaka tiltölulega stórum dílum. Dílarnir eru oftast plagioklas, pyroxen og einstaka ólivín. Stærð hraunsins er 11,6 km2.
Miklar framkvæmdir hafa verið í kringum Álverið í Straumsvík, auk þess sem Skógrækt ríkisins, fyrrum eigandi svæðisins, hefur leyft töku á gífurlegu efnismagni úr hrauninu. Þá hefur það verið sléttað út á stóru svæði og óþarflega miklu magni efnis hefur verið rutt út yfir hraunjaðrana. Þegar horft er yfir svæðið virðast “skemmdirnar” hafa bæði verið óstjórnlegar og að stórum hluta óþarflega ómarkvissar.
Nú hefur Álverið fest kaup á landinu ofan þess. Hjörleifur Guttormsson, fyrrum alþingismaður, skrifaði Skipulagsstofnun árið 2002 þar sem hann geldur vara við frekari framkvæmdum Álversins í Kapelluhrauni. Með bréfi sínu til stofnunarinnar gerir hann athugasemdir og bendir á náttúruvá sem steðjað getur að mannvirkjum við Straumsvík og lítil sem engin skil eru gerð í matsskýrslu vegna stækkunar álverksmiðju ÍSALs.
Þegar álverksmiðja var staðsett og reist við Straumsvík fyrir um aldarþriðjungi gerðu menn sér litla sem enga grein fyrir samhengi eldvirkni og hraunstrauma á svæðinu. Síðan hafa verið gerðar ítarlegar rannsóknir á eldvirkni á Reykjanessskaganum, gosstöðvar frá nútíma verið staðsettar og hraunstraumar sem frá þeim hafa runnið eftir að ísöld lauk, sumpart eftir landnám.
Páll Imsland ritaði um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu í Náttúrufræðinginn árið 1998, 67. 263-273. Af rannsóknum og greinum höfunda má m. a. ráða, að líkur séu á að þunnfljótandi hraunstraumar geti runnið í sjó fram frá gosstöðvum vestan Undirhlíða og víðar yfir það svæði sem núverandi álverksmiðja stendur á auk þess sem önnur mannvirki svo sem raflínur og vegir eru í hættu á þessu svæði og víða í grenndinni.
Sem dæmi má nefna eftirfarandi úr grein Hauks Jóhannessonar og Sigmundar Einarssonar 1998, s. 175:
“Yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess. Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krísuvíkurrein árið 1151. Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni. Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krísuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík … Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu”.
Í niðurlagi greinarinnar segja höfundar m. a. (s. 177):
“Eldgos á Rekjanessskaganum virðast koma í hrinum og á milli er minni virkni. Hrinurnar verða á um þúsund ára fresti og hver hrina stendur yfir í nokkur hundruð ár. Síðasta hrinan hófst upp úr miðri tíundu öld og endaði um 1240. Í hverri hrinu verða umbrot í öllum eldstöðvareinunum á skaganum og í síðustu hrinu færðist virknin frá austri til vesturs. Einnig er nokkuð víst að verði eldgos í Brennisteinsfjöllum og í norðanverðum Móhálsadal munu hraun þaðan renna niður til strandar milli Hrútagjárdyngjunnar og Hvaleyrarholts, sömu leið og Hellnahraun eldra og yngra og Kapelluhraun.
Af ofansögðu er ljóst að hraun geta runnið til Straumsvíkur bæði frá Brennisteinsfjallarein, en þar gaus síðast á 10. öld, og frá Krísuvíkurein þar sem síðast gaus um miðja tólftu öld. Síðast urðu með vissu eldsumbrot á Reykjanesskaga á fyrri hluta 13. aldar í Reykjanesrein. Nær útilokað er að hraun frá gosum í þeirri rein geti runnið til Straumsvíkur en hins vegar gæti þar hugsanlega orðið vart landsigs vegna meðfylgjandi gliðnunar í reininni”.
Í grein sinni um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu (s. 271) segir Páll Imsland m. a.:
“Eftir Krýsuvíkurelda á 13. öld hafa ekki komið upp hraun í nágrenni Straumsvíkursvæðisins. Landslagi er þannig háttað að hraun sem koma upp vestanundir Undirhlíðum eiga ekki annarra kosta völ en að renna út á hraunflákana til vesturs og norðurs og leita undan halla og þrýstingi frá kvikunni sem flæðir úr gígunum í átt til strandar, í átt að Straumsvík. Áður en að álverinu sjálfu kemur eru raflagnir, spennuvirki, þjóðvegur og fleira slíkt í rennslisleiðum hrauna; mannvirki sem skipta verulegu máli, bæði fyrir starfrækslu álversins og alla byggð sunnar á skaganum. Það er því ljóst að hraunflóðahætta er þarna til staðar, en ekkert er þekkt sem bendir til yfirvofandi hættu.
Náttúran á svæðinu hefur ekki sýnt nein þekkjanleg merki þess að þarna séu eldgos í uppsiglingu. Á hitt ber samt að líta að þetta er afkastamikið, virkt eldgosasvæði þar sem ekki hefur gosið í um 850 ár, og til eru vísbendingar um að virknin á Reykjanesskaganum gangi í hrinum með nokkurra alda aðgerðarlitlum hléum. Hrinur þessar einkennast af jarðskjálftum, sprungumyndun og eldgosum.”
Í greininni “Hamfarir á höfuðborgarsvæðinu” eftir Þórdísi Lilju Gunnarsdóttur, sem birtist í tímaritinu Ský, 6 2001-2002, s. 36, má lesa eftirfarandi:
“Í Kröflueldum í september 1984 rann glóandi hraunáin um tíu metra vegalengd á sekúndu. Það gera 36 kílómetrar á klukkustund. Að mati jarðfræðinganna Páls Imslands og Karls Grönvolds er það álíka hraði og væri á nýju hrauni við höfuðborgina í dag. Því myndi hraunelfan geta náð efstu byggðum borgarinnar á fáum klukkustundum … Ef eldgos brytist út í Húsfelli, Búrfelli eða Trölladyngju gæti hraun runnið niður Kúagerði og yfir Reykjanesbraut, yfir álverið í Straumsvík, rafstöðina við Hamranes og nýjustu byggð Hafnfirðinga sunnan við Reykjanesbraut sökum þess hve Reykjanesskaginn er mjór sunnan við Hafnarfjörð. Í miklum hamförum á þessum slóðum gæti hraun einnig náð til byggðar í Garðabæ og yfir Álftanesið.”
Fornleifavernd ríkisins segir að “hraunið dragi nafn sitt af Kapellunni, rúst af litlu húsi skammt frá veginum vinstra megin þegar ekið er suður Reykjanesbrautina. Sem fyrr segir rannsakaði Kristján Eldjárn kapelluna ásamt fleirum 1950 og segir svo frá:
“Fyrir sunnan Hafnarfjörð liggur leiðin yfir úfinn brunafláka sem á upptök sín í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Í þessu hrauni er Kapellan og eftir henni heitir hraunið Kapelluhraun, en hefur heitið Nýjahraun á miðöldum, því að það hefur runnið eftir að land byggðist, líklega þó mjög snemma á öldum. Kapellan er lítil opin húsarúst rétt við gamla krákustíginn, sem ruddur hefur verið þegar eftir að hraunið rann og hefur verið alfaraleið út á nes öldum saman.“
Kapellan er 2,40 m á lengd og 2,10 m á breidd að innanmáli.
Veggirnir eru hlaðnir úr hraunhellum og að mestu uppistandandi.
Við uppgröftinn 1950 fundust allmargir gripir. Sá merkasti þeirra er lítið líkneski af heilagri Barböru, brotið um mjaðmir en nú um 3,3 cm á hæð. Líkneskið er varðveitt í Þjóðminjasafni (Þjms. 14293). Þessi fundur bendir til þess að hús þetta sé í raun og veru kapella frá katólskum tíma og að ferðamenn um hraunið hafi komið þar við og gert bæn sína.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því að einn af mönnum Kristjáns skrifara hafi verið drepinn í Kapelluhrauni og grafinn í kapellunni til hefnda eftir Jón biskup Arason og syni hans. Engin ummerki benda þó til þess að þessi sögn eigi stoð í raunveruleikanum, en sagan er góð búbót við annars sagnaríkt umhverfi á sögulegum tíma.
ISOR (Íslenskar orkurannsóknir) kveða á um á vefsíðu sinni (isor.is) að aldur Kapelluhrauns sé 1151. Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þetta ár tók af stórbýlið Krísuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum.
Í úrskurði Skipulagsstofnunnar um mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar stækkunnar Álversins í Straumsvík (2002) kemur fram að innan fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis, sunnan Reykjanesbrautar í landi Lambhaga, sé forn kapellutóft úr grjóti, sem Kapelluhraun dragi nafn sitt af. Sjálf tóftin standi á hraunhól, en svæðið umhverfis hólinn hafi verið sléttað. Til þess að forðast frekari röskun á næsta nágrenni kapellutóftarinnar þurfi að staðsetja fyrirhugaða kerskála sunnan kapellunnar í nokkurri fjarlægð frá eldri kerskálunum. Gert hafi verið ráð fyrir þessu við hönnun verksins í samráði við Fornleifavernd ríkisins og kaþólska söfnuðinn á Íslandi. Endanleg staðsetning kerskálanna með tilliti til fjarlægðar frá kapellunni, verði ákveðin við nánari hönnun kerskálanna og í samráði við hlutaðeigandi aðila.
Aðgengi almennings að kapellunni á milli kerskálanna verði tryggt með sérstakri aksturs- og gönguleið, óháð starfsemi á afgirtri lóð álversins.
Fram kemur að í nýlegri skráningu á fornleifum á svæðinu vestan álversins komi fram að mikið sé um fornleifar á jörðunum Þorbjarnarstöðum og Lambhaga. Einnig séu fornleifar mjög nærri núverandi vegi og því gætu breytingar á honum einnig raskað fornleifum. En hluta þeirra minjastaða, sem kortlagðir voru í athuguninni, hafi þegar verið raskað vegna núverandi mannvirkja og vega á svæðinu.
Lega aðkomuvegar að álverinu verði austan við það en þannig liggi vegurinn fjarri áðurnefndum fornleifum vestan álversins. Við hönnun annarra vega verði tekið tillit til fyrirliggjandi fornleifaskráningar.
Í umsögn Fornleifaverndar ríkisins er vakin athygli á að á því svæði þar sem aðkomuvegur að álverinu sé fyrirhugaður séu skráðar tvær gamlar leiðir og ein landamerkjavarða. Ekki hafi fundist merki um leiðirnar en varðan standi enn. Fyrirhugað sé að framlengja núverandi veg vestan álversins í átt að nýrri Reykjanesbraut og muni það hafa áhrif á fornleifar. Fram kemur að hluta þeirra fornleifa, sem skráðar hafi verið vestan álversins, hafi þegar verið raskað, en engu að síður séu ennþá minjar á þessu svæði, einkum sunnan Reykjanesbrautar, sem
mannvirkjagerð síðustu áratuga hafi ekki raskað. Sem dæmi megi nefna: tóftir á bæjarstæði Stóra Lambhaga og útihúsatóft norðan Reykjanesbrautar og leifar útihúsa, steinboga, gamlar leiðir, tóftir og garða sunnan brautarinnar.
Kapelluhraunið er stórbrotið í tvennum skilningi. Annars vegar hefur hraunið mikið gildi vegna þess að það rann á sögulegum tíma og því merkilegt náttúru- og jarðfræðifyrirbæri sem slíkt. Hins vegar hefur óhóflegum hluta þess verið spillt af mannavöldum – af ótrúlegri skammsýni.
Við þetta má bæta að fyrrnefnd kapella er ekki óhreifð eða óröskuð fornleif í þeim skilningi orðisins. Hún er ónákvæm endurgerð fornleifar er var til um 1960 og virðist standa á sínum upprunalega stað – líkt og von um fyrirgefningu um fyrrum eyðileggingu. En staðurinn, þar sem hin forna kapella var, er engu að síður merkilegur, bæði út frá fornleifalegum sem og sagnfræðilegum skilningi.
Hins vegar mætti vel, án tilfallandi skaða, ef nauðsyn bæri til, endurbyggja hana á annars röskuðu hrauninu – þ.e. endurreisa kapelluna á ósnortnu hrauninu vestan og ofan við Vestari Brunaskarð, sem fyrr er nefnt, við gömlu götuna skammt ofan við Gerði þar sem Alfaraleiðin liggur upp á það. Kapellan yrði þar engu minni “fornleif” en nú er.
Mannvirkið “gekk úr sér” á sínum tíma og “týndist”, en var síðan “endurvakið” með fyrrnefndum uppgrefti. Sem slíkt hefur staðurinn einungis tilfinngalegt gildi líkt og hver annar staður gæti haft með sama tilgang, hvar sem hann er á hverjum tíma. Það hefði hvorki áhrif á sagnfræðina né fornleifafræðina sem slíkar.
Kapellan á Hraunssandi, fyrrum einnig nefnd Dysin, er sambærilegt mannvirki, en öllu merkilegri. Hún var grafin upp á svipuðu tíma, urðuð á ný og hefur því ekki verið “endurgerð”. Við hana eiga að vera grafinn á þriðja tugur manna, án þess að staðnum sé sýnlega nokkur tilhlýðileg virðing sýnd.
Það að “ástæða sé að forðast rask á fornri tóft kapellu, sem Kapelluhraun dregur nafn sitt af, með því að staðsetja skálana sunnan hennar” er þó þrátt fyrir allt bæði vitnisburður og viðurkenning á að “fornleifar” hafi eitthvert vægi þegar slíkar stórframkvæmdir eru undirbúnar. Því ber að fagna.
Heimildir m.a.:
-Kristján Eldjárn – “Heilög Barbara mær og kapella hennar”, Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Rvk. 1973, bls. 88.
-Kristján Eldjárn – “Kapelluhraun og Kapellulág” (Fornleifarannsóknir 1950 og 1954).
-Kristján Eldjárn – Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1955-1956, Rvk. 1957, bls. 5-34.
-Jón Árnason – Þjóðsögur, II bindi. Rvk. 1954, bls. 78.
-www.fjardarposturinn.is – 32 tbl, árg. 2006, bls. 7.
-Samantekt frá Fræðsasetrinu í Sandgerði.
-Guðmundur Kjartansson – Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð árið, 1973. Náttúrufræðingurinn 42. 159-183.
-Jón Jónsson – jarðfræðikort af Reykjanesskaga 1978.
-Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson – Krísuvíkureldar I – Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins – Tímaritið Jökull 1989, 38. 71-87.
-Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir – Krísuvíkureldar II. – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns yngra – Jökull 1991, 41. 61-80.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson – Hraun í nágrenni Straumsvíkur – Náttúrufræðingurinn 1998, 67. 171-177.
-Páll Imsland – Náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu – Náttúrufræðingurinn 1998, 67. 263-273.
-nat.is
-http://www.flensborg.is
-http://www.eldhorn.is
-http://www.isor.is/stadlar/hraun/allt_um_hraun.html
-http://www.reykjanesbaer.is
-http://www.solistraumi.org/Mat_skipulagsstofnunar.pdf