Krýsuvíkurheiði

Haldið var inn á Krýsuvíkurheiði frá gömlu réttinni undir Stóru-Eldborg.

Jónsbúð

Jónsbúð.

Heiðin er mikið fokin upp og sjá má stór rofabörð á stangli. Auðvelt er að ganga um heiðina og af henni er hið fallegasta útsýni, bæði til fjalla og hafs. Eldborgin tekur sig vel út sem og Geitahlíðin, Vegghamrarnir, Sveifluhálsinn, og heimafellin í Krýsuvík. Efst á heiðinni er stór fjárhústóft eða sauðakofi, stundum nefnd Jónsbúð eða Jónsvörðubúð. Elstu menn segjast hafa heyrt af því að þar hafi Magnús, síðasti íbúinn í Krýsuvík, setið yfir sauðum á yngri árum er hann var þar í vist hjá sýslumanninum.

Krýsuvíkurheiði

Krýsuvíkurheiði – skjól.

Skammt suðsuðaustar, þegar fer að halla undan á heiðinni til suðurs er heillegt og vandlega hlaðið hús. Dyr vísa til suðurs. Ekki er vitað til hvers það var notað. Stigið er ofan í það af þröskuldi og hefur gluggi verið á norðurstafni. Útsýni er þarna yfir neðanverða heiðina, Litlahraun þar sem fyrir eru allnokkrar minjar, s.s. fjárskjól, hústóft, rétt o.fl. og niður að Sundvörðunni á Krýsuvíkurbjargi.
Þarna gæti hafa verið útstöð Arnarfellsbónda hér áður fyrr eða hús hlaðið af refaskyttum, sem voru við veiðar ofan við bjargið. Þá gæti Magnús hafa dundað sér við að hlaða húsið sem skjól á meðan hann fylgdist með sauðunum. A.m.k. tiplaði hvítur rebbi eftir neðanverðri heiðinni þegar FERLIRsfélagar sátu í tóftinni og virtu fyrir umhverfið.
Húsin eru, nákvæmlega á þessari stundu, hvorki á kortum né skráð í fornminjaskrár.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.