Krýsuvíkurbjarg

Gengið var niður í Seljabót frá Sýslusteini. Girðing er þar á mörkum Herdísarvíkur og Krýsuvíkur, en þau eru jafnframt sýslumörk Árnessýslu og Gullbringusýslu.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Við girðinguna eru einnig endamörk Grindavíkurumdæmis að austanverðu. Reyndar mætti deila um staðsetningu markanna, en venjulegast er miðað við línu milli Seljabótanefs og Sýslusteins og þaðan í Kóngsfell (Konungsfell), öðru nafni Stóra Bolla. Eldri girðing liggur á ská til norðausturs í gegnum Herdísarvíkurhraun og í Fálkagilsskarð (Fálkageirsskarð) í Herdísarvíkurfjalli. Austan við girðinguna nefnist hraunið (sem reyndar eru nokkur) Herdísarvíkurhraun, en vestan við hana Krýsuvíkurhraun. Sum vestari hraunanna eru komin úr Edborgum (Litlu og Stóru) undir Geitahlíð, en einnig úr fallegum gígum ofan Geitahlíðar, sbr. hraunið er rann niður Slátturdal, oft nefnt Fjárskjólshraun.
Skömmu áður en komið er niður í Seljabót, suður undir syðstu hraunbrúninni, er Herdísarvíkursel, nokkrar tóftir og stekkur. Nokkur austar með ströndinni má enn sjá móta fyrir a.m.k. einni hlaðinni refagildru, sem minnst hefur verið á í gömlum lýsingum af þessu svæði. Sjórinn er búinn að brjóta aðrar undir sig.

Seljabót

Gerði í Seljabót.

Í Seljabót er hlaðið gerði. Ofan þess er gróinn hóll uppi í brunahrauninu, að hluta til manngerður. Girðingin svo að segja frá honum í beina línu til norðurs, að Sýslusteini. Seljabótanefið er fremst en frá því er fallegt útsýni austur eftir Háabergi, stundum nefnt Herdísarvíkurberg.
Haldið var til vesturs með ströndinni. vel má sjá lagskiptinguna á hinum ýmsu hraunum sem og tegundum hrauna, er runnið hafa þarna í sjó fram. Neðst og næst sjónum eru fallegar hraunæðar og rásir, sem sjórinn hefur hreinsað allt laust ofan af. Ofar er gjallmulningur og ofan á því grágrýti og hraungrýti. Allt myndar þetta hina fallegustu hraun- og litasamsetningu þarna á mörkum lands og sjávar.

Herdísarvíkurbjarg

Á Herdísarvíkurbjargi.

Á einum stað, á örlitlu svæði, eru hraunlistaverk, sem myndu sóma sér vel í hvaða stofu sem væri. Fallegust er þau þarna ofan strandarinnar – þar sem þau urðu til er herra Ægir og frú Hraun runnu saman í eitt.
Víða eru mjóar víkur eða básar inn í ströndina og oftlega opnast fallegt útsýni yfir hluta strandarinnar. Vel grói er ofan strandarinnar. Svo til miðja vegu milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur er hóll er ber hæst í landslagið, sama úr hvorri áttinni er komið. Á hólnum er hlaðin beinakerlning eða skilaboðavarða.
Stórir sjávarhellar eru sums staðar inn undir bergið og gatklettar eru nokkrir. Þrír eru þó tilkomumestir. Skammt vestan og neðanundir beinakerlingunni er feiknafallegur og mikill svelgur, opinn með stórri steinbrú til hafs, ótrúleg náttúrusmíð. Ekki er gott fyrir lofthrædda að standa of nærri brúninni. Skammt vestar er fallegt útsýni vestur með berginu, m.a. gatkletti skammt austan Kefavíkur.

Keflavík

Keflavík.

Vestar er Keflavík. Víkin ber nafn með réttu; stórum keflum hefur skolað þar á land. Stígur liggurniður í víkina, sem er gróinn næst berginu, en utar eru stórt ávalt fjörugrjótið. Vestan við Keflavík má slá leifar af gamla berginu. Ofan á því standa nokkrir gulskófnir steinar (fuglaglæða/húsglæða). Nefnast þeir Geldingar. Af grashól vestan við keflavík, austan Geldinga, er fallegt útsýni austur eftir berginu, m.a. að gatklettinum fyrrnefnda.
Haldið var áfram yfir apalhraunið neðan Klofninga. Ofar í þeim er Arngrímshellir, stundum nefndur Gvendarhellir.

Keflavík

Keflavík – gatklettur.

Gengið var niður undir gamla bergið neðan Krýsuvíkurhellis. Þar sést vel hvernig hraunið hefur runnið niður af berginu og fram af því, en skilið hluta þess eftir sem fagurt sýnishorn af því sem var.
Skammt vestar eru Bergsendar, grasi grónir. Af þeim er einn fallegasti útsýnisstaðurinn vestur eftir Krýsuvíkurbjargi, háu og tilkomumiklu. Gengið var upp eftir fjárhólfsgirðingunni ofan Bergsenda og að réttinni undir Stóru Eldborg.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Krýsuvíkurbjarg

Á Krýsuvíkurbjargi.