Færslur

Krýsuvíkurbjarg

Gengið var niður í Seljabót frá Sýslusteini. Girðing er þar á mörkum Herdísarvíkur og Krýsuvíkur, en þau eru jafnframt sýslumörk Árnessýslu og Gullbringusýslu.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Við girðinguna eru einnig endamörk Grindavíkurumdæmis að austanverðu. Reyndar mætti deila um staðsetningu markanna, en venjulegast er miðað við línu milli Seljabótanefs og Sýslusteins og þaðan í Kóngsfell (Konungsfell), öðru nafni Stóra Bolla. Eldri girðing liggur á ská til norðausturs í gegnum Herdísarvíkurhraun og í Fálkagilsskarð (Fálkageirsskarð) í Herdísarvíkurfjalli. Austan við girðinguna nefnist hraunið (sem reyndar eru nokkur) Herdísarvíkurhraun, en vestan við hana Krýsuvíkurhraun. Sum vestari hraunanna eru komin úr Edborgum (Litlu og Stóru) undir Geitahlíð, en einnig úr fallegum gígum ofan Geitahlíðar, sbr. hraunið er rann niður Slátturdal, oft nefnt Fjárskjólshraun.
Skömmu áður en komið er niður í Seljabót, suður undir syðstu hraunbrúninni, er Herdísarvíkursel, nokkrar tóftir og stekkur. Nokkur austar með ströndinni má enn sjá móta fyrir a.m.k. einni hlaðinni refagildru, sem minnst hefur verið á í gömlum lýsingum af þessu svæði. Sjórinn er búinn að brjóta aðrar undir sig.

Seljabót

Gerði í Seljabót.

Í Seljabót er hlaðið gerði. Ofan þess er gróinn hóll uppi í brunahrauninu, að hluta til manngerður. Girðingin svo að segja frá honum í beina línu til norðurs, að Sýslusteini. Seljabótanefið er fremst en frá því er fallegt útsýni austur eftir Háabergi, stundum nefnt Herdísarvíkurberg.
Haldið var til vesturs með ströndinni. vel má sjá lagskiptinguna á hinum ýmsu hraunum sem og tegundum hrauna, er runnið hafa þarna í sjó fram. Neðst og næst sjónum eru fallegar hraunæðar og rásir, sem sjórinn hefur hreinsað allt laust ofan af. Ofar er gjallmulningur og ofan á því grágrýti og hraungrýti. Allt myndar þetta hina fallegustu hraun- og litasamsetningu þarna á mörkum lands og sjávar.

Herdísarvíkurbjarg

Á Herdísarvíkurbjargi.

Á einum stað, á örlitlu svæði, eru hraunlistaverk, sem myndu sóma sér vel í hvaða stofu sem væri. Fallegust er þau þarna ofan strandarinnar – þar sem þau urðu til er herra Ægir og frú Hraun runnu saman í eitt.
Víða eru mjóar víkur eða básar inn í ströndina og oftlega opnast fallegt útsýni yfir hluta strandarinnar. Vel grói er ofan strandarinnar. Svo til miðja vegu milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur er hóll er ber hæst í landslagið, sama úr hvorri áttinni er komið. Á hólnum er hlaðin beinakerlning eða skilaboðavarða.
Stórir sjávarhellar eru sums staðar inn undir bergið og gatklettar eru nokkrir. Þrír eru þó tilkomumestir. Skammt vestan og neðanundir beinakerlingunni er feiknafallegur og mikill svelgur, opinn með stórri steinbrú til hafs, ótrúleg náttúrusmíð. Ekki er gott fyrir lofthrædda að standa of nærri brúninni. Skammt vestar er fallegt útsýni vestur með berginu, m.a. gatkletti skammt austan Kefavíkur.

Keflavík

Keflavík.

Vestar er Keflavík. Víkin ber nafn með réttu; stórum keflum hefur skolað þar á land. Stígur liggurniður í víkina, sem er gróinn næst berginu, en utar eru stórt ávalt fjörugrjótið. Vestan við Keflavík má slá leifar af gamla berginu. Ofan á því standa nokkrir gulskófnir steinar (fuglaglæða/húsglæða). Nefnast þeir Geldingar. Af grashól vestan við keflavík, austan Geldinga, er fallegt útsýni austur eftir berginu, m.a. að gatklettinum fyrrnefnda.
Haldið var áfram yfir apalhraunið neðan Klofninga. Ofar í þeim er Arngrímshellir, stundum nefndur Gvendarhellir.

Keflavík

Keflavík – gatklettur.

Gengið var niður undir gamla bergið neðan Krýsuvíkurhellis. Þar sést vel hvernig hraunið hefur runnið niður af berginu og fram af því, en skilið hluta þess eftir sem fagurt sýnishorn af því sem var.
Skammt vestar eru Bergsendar, grasi grónir. Af þeim er einn fallegasti útsýnisstaðurinn vestur eftir Krýsuvíkurbjargi, háu og tilkomumiklu. Gengið var upp eftir fjárhólfsgirðingunni ofan Bergsenda og að réttinni undir Stóru Eldborg.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Krýsuvíkurbjarg

Á Krýsuvíkurbjargi.

Herdísavíkursel

Haldið var niður frá Sýslusteini, eftir slóðanum með sýslugirðingunni, og staðnæmst við Gamla veg, er liggur þarna á milli hrauna, þvert á girðinguna. Önnur gömul gata, líklega angi af hinni, er þarna litlu norðar. Gengið var eftir veginum með hraunjaðrinum, líklega Krýsuvíkurhrauns, framhjá vatnsstæði og áfram niður og suður með austanverðum hraunkantinum. Þegar komið var að horni hans var beygt til vesturs og hraunkantinum og veginum fylgt áfram. Einn angi hans liggur þarna áfram til suðurs.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel.

Skammt vestan við hornið eru nokkrar tóttir Herdísarvíkursels. Fyrst er langur stekkur ofan við graslægð, annar minni stekkur vestan hans og ein tótt aðeins lengra til vesturs. Norðan þeirra er meginselið, tóttir með tveimur rýmum, en beggja vegna þess eru minni tóttir.

Seljabót

Í Seljabót.

Skammt vestan við selið, uppi í skjóli, eru hleðslur eða tótt undir steini. Enn vestar, handan gamallar girðingar, eru brunnar og skammt vestan girðingarinnar er skjól undir hraunrana.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel – byrgi refaskyttu. Geitahlíð fjær.

Niður við Seljabótanef er hlaðin rétt sunnan og innanundir því. Austan við nefið er skúti og gat ofan hans. Þessi skúti gæti verið svonefndur Seljabótahellir, sem m.a. Gísli Sigurðsson lýsir. A.m.k. passar lýsingin við staðsetningu skútans. Talsverður sandur hefur lekið inn í skútann. Hann virðist nú vera notaður sem greni. Austan skútans er lægð og í henni hraunrani. Í honum er einnig greni. Enn eitt grenið er norðan lægðarinnar, í hraunhól. Þar norðaustanvið er hlaðið skotbyrgi refaskyttu. Sunnan þess er einnig skúti er virðist hafa verið greni. Allnokkru austar með ströndinni má sjá hlaðin refabyrgi, ef vel er að gáð, en ágangur sjávar hefur leikið þær illa.
Gangan frá Sýslusteini niður í Seljabót tekur um 20 mínútur eftir aðgengilegum slóða með girðingunni. Frábært veður.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Sýslusteinn

Gengið var frá Sýslusteini í Seljabót, um 20 mínútna gang eftir greiðfærri götu í gegnum Herdísarvíkurhraun, niður með sýslugirðingunni. Hún er á mörkum Gullbringusýslu og Árnessýslu í línu úr Seljabót um Sýslustein og áfram upp að Kóngsfelli. Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir m.a.: “Á Seljabót eru landa- og sýslumörk. Landamörk milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur og sýslumörk milli Gullbringusýslu og Árnessýslu. Seljabótarnef er þessi staður nefndur. Þarna má sjá selrústir gamlar…”

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel.

Í Bótinni var gamla réttin skoðuð og síðan gengið upp í Herdísarvíkursel, sem liggur undir hraunkantinum u.þ.b. 5 mínútum ofan við ströndina í austnorðaustur. Selið er þrjú hús og lambastekkur framar. Hreyfing var á logninu, en þegar komið var undir hraunkantinn varð hreyfingin að engu.
Í örnefnalýsingunni segir að “Gamlivegur er götuslóði, er liggur upp á Seljabót, upp undir austurhorn Geitahlíðar.” Gamlavegi var fylgt upp hraunið að upphafsstað.

Herdísarvík

Herdísarvíkurvegir – uppdráttur ÓSÁ.

Þá var gengið upp Selstíg ofan við Hlíðarvatn. Haldið var upp í Selbrekkur, en þar má enn sjá tóttir Stakkavíkurselsins.

Til að nota góða veðrið var ákveðið að halda áfram upp Stakkavíkurveginn, yfir Dýjabrekkur, að Vestur-Ásum og að Hvalskarði þar sem hann og Selvogsgatan koma saman. Þá var haldið niður Stakkavíkurveginn til baka og komið við í tóftum fjárhúss í Stakkavíkurhrauni skammt fyrir neðan þjóðveginn.
Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Stakkavík

Stakkavík – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvíkurhellir

Gengið var frá Sýslusteini að Herdísarvíkurseli og þaðan í Seljabót. Síðan var gengið vestur með ströndinni. Um er að ræða magnaða leið.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg.

Fjölbreytilegt ber fyrir augu, hvort sem um er að ræða stórbrotið útsýni eða merkileg náttúrfyrirbæri. Leitað var að Skyggnisþúfu. Hún fannst nokkurn veginn miðja vegu á milli Seljabótar og Keflavíkur. Á henni er varða og í vörðunni er hólf sem skilaboð á milli bæja voru látin í. Skammt vestan hennar er stórbrotinn djúpur svelgur ofan í jörðina og sér út á hafið í gegnum stórt gat á honum. Nokkru vestan var gengið ofan í Keflavík eftir stíg. Þar er gróið undir bjarginu, en framar eru lábarðir steinar. Af þeim, horft til austurs með berginu, er hár og fallegur gatklettur út í sjó – stórbrotið útsýni.

Keflavík

Keflavík í Krýsuvík – einnig nefnd Kirkjufjara. Þangað áttu kirkjur norðan Reykjanesskaga rekaítök fyrrum.

Vestan Keflavíkur eru leyfarnar af gamla Krýsuvíkurbjarginu, en hraun hefur síðan runnið allt um kring og út í sjó. Sjá má gömlu hamrana standa tígurlega upp úr á smá kafla. Á þeim eru svonefndir Geldingasteinar, mosavaxnir gulbrúnir steinar, en grasi gróið í kringum þá. Liggur rekagata vestur með ströndinni frá þeim, neðan gamla bergsins, sem nýtt hraun hefur runnið fram af og framlengt ströndina sunnan þeirra.

Krýsuvíkurhellir

Krýsuvíkurhellir.

Gengið var ofan gömlu hamrana, yfir mosahraun og var þá komið að helli er gæti verið hinn týndi Krýsuvíkurhellir. Snjór var framan við opið og var að sjá hleðslur ofan þess. Tekinn var punktur og verður hellirinn skoðaður betur við tækifæri. Neðan hellisins er nýja bergið og liggur gömul gata efst á því. Honum var fylgt til vesturs og opnaðist þá stórkostlega sýn vestur Krýsvíkurbjargið, hátt og tignarlegt. Fram af því steyptist Eystri-lækur og hefur hann varla í annan tíma sést jafn vel og núna. Frábært myndefni – með hæstu fossum á landinu.

Eystri-Bergsendi

Horft vestur yfir krýsuvíkurbjarg frá Eystri-Bergsenda.

Þegar komið var út á Bergsenda var strikið tekið að Sundvörðunni ofan við bjargbrúnina skammt vestar, síðan upp í fjárhellir í Litlahrauni og loks komið við í réttinni og fjárhústóttinni ofan hans áður en haldið var að Krýsuvíkurrétt undir Eldborgum.
Þessi gönguleið er ein sú stórbrotnasta, sem hægt er að fara á Reykjanesi og ættu sem flestir að nýta sér það tækifæri í góðu veðri.

Keflavík

Keflavík.

Herdísarvíkurfjara

“Herdísarvíkurhraun eru mikil og ná ofan frá fjalli allt niður að sjó, og er rétt að deila þeim nokkuð. Herdísarvíkurhraunið eldra er klapparhraun og er fornt mjög. Herdísarvíkurhraunið yngra er það hraun, sem runnið hefur fram vestan Lyngskjaldar, og Herdísarvíkurbruni, sem liggur austan bæjarins og hefur runnið ofan um Mosaskarð í sjó fram.”

Herdísarvík

Framangreint kemur fram í örnefnalýsingu sem hér verður stuðst við.
Gengið var niður með vestanverðum bæjarleifum Herdísarvíkur og áfram til suðurs vestan Brunna. Ætlunin var að ganga niður að Hádegisvörðu, um Alnboga og Háaberg að Herdísarvíkurseli.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar um Herdísarvík segir m.a. um svæðið suður og vestur af bænum:
“Haldið er nú vestur ofan túngarða, þar er Kátsgjóta, út frá Jöfurshliði. Upp frá Bæjarhliðinu var Kúavegur fram hjá Kúavörðu og lá allt upp undir fjallið.

Hádegisvarða

Upp frá vesturtúngarði er í hrauninu Hvolpatjörnin. Sjávarkampurinn forni er þarna í hrauninu, því vestur frá túninu má sjá mikið af lábörðum steinum, eins og í Urðinni, og áfram liggur kampur þessi austur um Gerðin. Vestan túngarðins var Nýigarður, maturtagarður. En úr Skarðinu lá Brunnastígur, og þar suður af eru tjarnir, sem nefnast Brunnar. Milli tjarnanna voru stiklur nefndar Steinbogi.  Þar vestur af er hrauntangi kallaður Langitangi.
Sunnan við Brunna voru á hrauninu tvær fjárborgir, sem nefndust Borgin efri og Borgin neðri. Matjurtagarðar voru í báðum Borgunum, kallaðir Borgararðar. Þarna á klöppunum er Sundvarða vestari, sem einnig er kölluð Hádegisvarða. Nú taka við gjögur mikil og klappir, en ofan við eru Flatirnar allt út á Alboga, þar um liggja fjárgötur. Á Alboga beygir ströndin til Háabergs.

Hnyðja

Ofanvert við það er djúp gjóta, Háabergsgjóta. Eftir berginu eru Háabergsflatir allt vestur í Seljabót. Á Seljabót eru landa- og sýslumörk. Landamörk milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur og sýslumörk milli Gullbringusýslu og Árnessýslu. Seljabótarnef er staður þessi nefndur. Þarna má sjá selrústir gamlar, og þarna rétt hjá er hellir, Seljabótarhellir. Þá er þess að geta, að í máldaga Strandarkirkju má finna nafnið Selstaður, og hygg ég þar sé átt við þennan stað.
Norðvestur og upp frá Alboga eru Langhólar; Langhóll fremri og Langhóll efri. Þá er Hvíthóll upp af Háabergi. Gamlivegur er götuslóði, er liggur upp frá Seljabót, upp undir austurhorn Geitahlíðar. Milli Kolhrauns og Seljabótarbruna, en yfir suðurenda þess, liggur landamerkjalínan.
Selvegur er slóði, sem liggur út af Gamlavegi upp undir Löngubrekkum, sem eru nokkrir hraunhryggir uppi í hrauninu. Austur með Selvegi er Selhóll og Selhólsbruni. Þá eru Ingimundarhæðir ofanvert við Selhól og þá Hrísbrekkur þar enn ofar og skiptast í Litlu-Hrísbrekku og Stóru-Hrísbrekku.

Varða

Alfaravegurinn gamli liggur þarna um hraunið um Klifhæð, sem einnig ber eftirtalin nöfn: Klifið, Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur mikil og stæðileg varða verið hlaðin í Klifið, Klifsvarða, og ofan hennar er svo Sýslusteinn, og liggur (svo) þar um landa- og sýslumörk. Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.” 

Varða er við fyrrnefnda Háabergsgjótu. Einnig voru fleiri vörður á leiðinni ofan við Háabergið, einkum um Gjögrin. Í fyrstu mátti ætla, vegna stopulleika, að þarna væru hlaðin kennileiti fyrir rekastaði eða jafnvel greni/refagildrur, en svarið felst í annarri örnefnalýsingu þar sem m.a. er getið um selstíg á þessum slóðum: “Áður er frá því skýrt, að leiðin til selja lá eftir Gjögrunum og um Háaberg. En einnig lá Seljavegur beint frá Seljabót í Brunna.”
Þessi leið milli bæjar og sels Seljabóthefur verið mjög greiðfær, auk þess sem ferðin hefur þá gjarnan verið notuð til að athuga með nýlegan reka, sem gnægð er af á köflum. Hér eftir, til aðgreiningar frá efri selstígnum, verður þessi leið nefnd Neðri-Selstígur. Ætlunin er að ganga hinar Herdísarvíkurgöturnar fljótlega, þ.e. Herdísarvíkurgötu frá Geitahlíð svo og efri-selstíginn að selinu og Seljaveginn um Gamlaveg til baka að upphafsstað. 

Í annarri örnefnalýsingu GS um þetta svæði segir:
“Rétt sunnan við Brunna eru fjárborgirnar tvær, nefnast Borgin efri og Borgin neðri. Kartöflugarðar voru í Borgunum og nefndust Borgagarðar. Á klöppum rétt utar var svo varða, eyktamark, Hádegisvarða, einnig nefnd Sundvarða. Þá var rétt tekin stefna í Vörina, þegar skutur skips sneri í vörðu þessa, en stafn í Sundvörðuna á kampinum upp af Vörinni.
TófusporVið Herdísarvík voru berar klappir allt innan frá Brunnrásinni út á Alboga. Gjögur var strandlengjan kölluð. Út af Alboga var klettur í fjörunni, er nefndist Svartbaksklettur. Ofan Gjögranna var nafnlaust sandflæmi allt út á Alboga, en ofan við sandinn tóku við Flatirnar, og eftir þeim lágu fjárgöturnar, sem líka voru Selsgötur til Herdísarvíkursels í Seljabót. Frá Alboga beygir ströndin til vesturs, og nefnist þar Háaberg. Spölkorn vestan Alboga er Háabergsgjóta, mikið gjögur, þar sem sjórinn spýtist upp í stórbrimi, líkt og gos úr hver. Háaberg er eggslétt hraunklöpp, en uppi á klöppinni liggja víða gríðarstórir steinar, sem brimið hefur brotið úr berginu og velt upp á klappirnar.  Í norðvestur og upp frá Alboga eru Langhólar, Langhóll fremri og Langhóll efri.
Upp frá Háabergi eru Háabergsflatir. Hér ofar á hrauninu er Hvíthóll. Áður er frá því skýrt, að leiðin til selja lá eftir Gjögrunum og um Háaberg. En einnig lá Seljavegur beint frá Seljabót í Brunna. Þegar austur var haldið úr Seljabót, var á vinstri hönd Selhóll, en hrauntunga lá niður undir hann og nefnist Selhólsbruni. Á brunanum voru svo Ingimundarhæðir og þar upp af Hrísbrekkur, Litla-Hrísbrekka og Stóra-Hrísbrekka. Litlu vestar en Sýslusteinn lá alfaraleiðin gamla um Klifið, sem eiginlega var vestan landamarka. Það nefndist ýmsum nöfnum, svo sem Háaklif, Illaklif og Vondaklif.
Nú hefur verið hlaðin varða í Illaklifi, nefnist Klifsvarða. Sunnan yngra hraunsins er hellisskúti, nefnist Sængurkonuhellir.Herdísarvíkursel Þar leitaði kona einu sinni skjóls og fæddi þar barn. Niður frá Geitafellsendanum eystri lá stígur milli Krísuvíkurhrauns eða Krísuvíkurbruna og Herdísarvíkurbruna, neðan brunans austur í Brunna. Þótti hann betri en að fara um Háaklif. Neðrileið var hún nefnd.”
Fyrrnefndar fjárborgir eru nú uppgrónar þótt enn megi sjá móta fyrir svonefndum Borgargörðum.

Á leiðinni bar fjölmargt fyrir augu, s.s. margslungnar hnyðjur, sæbarin björgin og ýmsar grjótmyndanir. Mávager setti svip sinn á bjargsýnina og refur reyndi að komast undan á flótta ofan við Seljabót. Þegar staðið var á bjargbrúninni austan víkurinnar neðan Seljabótar mátti vera augljóst að hún heitir því nafni, enda bótanefnan jafnan notað fyrir víkur og smávoga.
Frábært veður. Gangan, sem var 9.3 km, tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing I GS fyrir Herdísarvík.
-Örnefnalýsing II GS fyrir Herdísarvík

Mávager

Herdísarvíkursel

Gengið var frá Herdísarvíkurvegi neðan við Sýslustein suður í Seljabót, með ströndinni til vesturs yfir í Keflavík og síðan upp (norður) Klofninga í Krýsuvíkurhrauni, upp á þjóðveginn og gamla þjóðleiðin síðan gengin til baka að Sýslusteini.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Girðing er á sýslumörkum Ánessýslu og Gullbringusýslu. Þjóðvegurinn liggur í gegnum girðinguna. Ofan við þjóðveginn er stór rúnaður kleprasteinn; Sýslusteinn. Um hann liggja sýslumörkin úr Seljabót og upp í Kóngsfell. Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu og landamerkjadeilur þeirra segir að “svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn”.
Gengið var niður hraunið með girðingunni. Að austanverðu heitir hraunið Herdísarvíkurhraun, en Krýsuvíkurhraun að vestanverðu. Í raun eru ekki skörp skil á hraununum, auk þess sem um mörg hraun er að ræða, hvert á og utan í öðru.
Eftir u.þ.b. 20 mín gang er komið niður fyrir neðsta hraunkantinn. Á vinstri hönd, undir honum, eru tóftir Herdísarvíkursels.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel.

Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir að “allar gamlar menningarminjar á jörðinni Herdísarvík, svo sem fiskigarðar verbúðir, tættur af íveruhúsum, peningshúsum og öðrum útihúsum, þar á meðal seljarústir í Seljabót voru friðlýstar af Þór Magnússyni 7.9.1976.” Skammt frá hraunkantinum eru fleiri tóftir, s.s. stekkur og hús. Vatnsstæðið er skammt vestar.
Sjávarmegin við selið er eldra hraun, slétt og greiðfært. Í því eru nokkrir skútar og merkt greni. Seljabótin er í grónum krika undir nýrra hrauni og Seljabótanef þar framan við að vestanverðu. Í gömlum sögnum segir að Krýsuvíkurhellir hafi verið við Seljabót.

Seljabót

Seljabót undir Seljabótarnefi – gerði.

Landamerkin eru um Seljabótanefið. Þar er merkjastaur. Eini hellirinn á svæðinu er lágur skúti vel austan markanna, í Herdísarvíkurlandi. Ofan við hann er manngerður gróinn hraunhóll. Hafi hellirinn verið í berginu er hann löngu horfinn, enda sér sjórinn um að brjóta það markvisst niður. Líklegra er að þarna hafi einhver villst á Seljabót og Bergsendum í Krýsuvíkurlandi. Við þá er hellir með mannvistarleifum. Hann nær bæði inn í gamla bergið og er ofan við það.

Seljabót

Gerði í Seljabót.

Gerði eða rétt er í Seljabótinni. Orðið “bót” virðist vera til allvíða um land, en í mismunandi merkingum eftir því hvar er. Það getur bæði þýtt ‘hvilft, dalbotn’ og ‘vík, smávogur’, skylt orðinu bugt, sbr. Þórkötlustaðabót. Stundum er það notað um fiskimið, en sennilega er orðið hér notað um hvilftina þar sem gerðið er.
Af fiðrinu að dæma virðist refurinn una hag sínum vel þarna. Af Seljabótanefi er fagurt útsýni austur með Herdísarvíkurbjargi.

Keflavík

Í Keflavík.

Gengið var til vesturs ofan við bjargið, áleiðis að Keflavík. Umhverfið er stórbrotið. Skammt austan við Keflavík er stór “svelgur” og gatklettur. Hvorutveggja eru ágætt dæmi um hvernig sjórinn hefur náð að brjóta sig í inn undir bergið og upp úr því, en skilið eftir stöpul líkt og eyju utan við það. Síðan mun hann smám saman leika sér að því að brjóta hana niður líkt og aðra hluta bergsins.
Gatklettur er austan við Keflavík. Niður í víkina er stígur, en þangað hefur rekaviður án efa verið sóttur fyrrum. Nóg er af keflunum í víkinni. Í henni er og gott skjól. Utan við hana er lágbarið stórgrýti, gott dæmi um bergmola sem sjórinn hefur “tuggið” og hnoðað smám saman og í langan tíma, en síðan kastað á land. Hluti af mun eldra bergi er þarna í og við víkina. Geldingar heita glæðuklæddir steinar vestan og ofan við Keflavík. Þeir standa á þessu gamla bergi, sem nýrra hraun, er nú myndar bergvegginn, hefur runnið að og útvíkkað landið.

Gvendarhellir

Gvendarhellir/Arngrímshellir – tóft.

Gengið var upp Klofninga í Krýsuvíkurhrauni með viðkomu í Arngrímshelli (Gvendarhelli) á leiðinni upp á þjóðveginn og til baka eftir gömlu þjóðleiðinni milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur. Hún liggur að mestu skammt ofan núverandi vegar.
Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu segir að “Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís á Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefir spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefir runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar.”
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Ásgeir Bl. Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Rvk. 1989.

Herdísarvíkurbjarg

Gatklettur í Herdísarvíkurbjargi.