Færslur

Krýsuvíkurhellir

Farið var frá Bergsendum eystri að Krýsuvíkurhelli neðan Klofninga.

Krýsuvíkurhellir

Við Krýsuvíkurhelli.

Mannvistarleifar eru bæði ofan við hellisopið og niðri í hellinum sjálfum. Þar er hlaðið skjól. Innan við það liggur rás út að gömlu bjargbrúninni og opnast þar út. Rásin er um 30 metra löng. Út um gatið er hægt að skoða bergið og nýrra hraun fyrir neðan. Til hliðar, innan við opið, er önnur rás, sem liggur um hraunssúlu og opnast yfir í hina efst í henni. Mikill steinbekkur er framan við súluna, sem skipt hefur hraunstraumnum um rásirnar.
Jarðfall norðan við Krýsuvíkurhelli var kannað, en einungis var hægt að komast stutt þar inn á hvorn veginn sem var. Mögulegt væri að forfæra gjót í hruni innan við eitt opið, en það myndi kosta talsverða vinnu. Rás gæti legið þaðan og upp í gegnum hraunið.

Bálkahellir

Við Bálkahelli.

Bálkahellir var nú skoðaður að nýju. Kom sú skoðun mjög á óvart. Fyrst var farið niður um neðsta jarðfallið og niður í hellinn. Farið var með jarðfallinu vinstra megin, en þar lækkað rásin nokkuð en hækkar að nýju uns gólf og loft koma alveg saman. Þarna undir vegg eru tvö stór hraundríli. Farið var til baka og niður aðalgönginn. Þau beygja fyrst til hægri og síðan aftur til vinstri. Þessi göng eru um 200 metra löng og ekkert hrun nema svolítið fyrst.

Hellirinn er mjög breiður og þarna á gólfum eru fjölmargir dropasteinar og hraunstrá hanga í loftum. Fara þarf varlega um göngin. Hraunnálar eru í lofti. Þessi hluti hellisins hefur varðveist mjög vel og full ástæða til að fara þarna mjög varlega. Um er að ræða einn fallegasta helli á Reykjanesi. Neðst beygir hann enn til hægri og þrengist síðan. Í þrengslunum tekur við samfelld dropasteinabreiða.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Skoðað var að nýju upp rásina í neðsta jarðfallinu. Hún er víð og há uns hún lækkar og þrengist. Loks koma gólf og loft saman. Þessi hluti er um 40 metrar. Þá var haldið niður í miðrásina, á móti þeirri, sem skoðuð var áður. Hún lokast loks í þrengslum, en mikið er um fallega dropasteina og hraunnálar. Alls er þessi hluti hellisins um 100 metrar.
Loks var gengið upp úr miðjarðfallinu og upp aðalhellinn. Hann er víður og hár. Skammt fyrir ofan opið skiptist hellirinn í tvennt og hægt að fara umhverfis tvær breiðar hraunsúlur, en meginrásin er til hægri. Ekki er hægt að villast í Bálkahelli.

FERLIR

FERLIRsfélagar í Bálkahelli. (Ljósm. Júlíus)

Haldið var áfram upp rásina og yfir hrun, sem þar er ofarlega. Þá sést í efsta opið og bálkana beggja vegna, en af þeim mun hellirinn draga nafn sitt. Samtals er Bálkahellir um 450 metra langur, fyrst hár og víður, en nokkuð hrun, síðan hraunsúlur og syllur, dropsteinar og hraunstrá. Neðsti hluti hans þó sýnum fallegastur.
Að lokum var Arngrímshellir (Gvendarhellir) skoðaður, en frásagnir eru til um hellinn er hann var notaður sem fjárhellir á 17., 18. og 19. öld. Gamlar sagnir eru til af því. Hleðslur eru fyrir opum og er tótt framan við stærsta opið, það nyrsta. Inni í hellinum eru allmiklar hleðslur. Hellirinn er bjartur og auðvelt að skoða sig um þar inni, jafnvel ljóslaus.

Bálkahellir

Í Bjössabólum.

Á bakaleiðinni var skoðað ofan í nokkrar rásir. Ein var þeirra stærst, en rásin endaði í þrengslum. Önnur var yfir 300 m löng og er enn ókönnuð.
Ekki er vitað nákvæmlega um aldur þessara hrauna. Samkv. upplýsingum Kristjáns Sæmundssonar, jarðfræðings, er hraunið úr úr Stóru-Eldborg frá fyrri hluta nútíma, þ.e. töluvert eldra en 5000-6000 ára. Hitt úr Litlu-Eldborg er yngra. Það gæti verið kringum 5000-6000 ára.

Frábært veður.

Bálkahellir

Bálkahellir – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvíkurbjarg

Gengið var niður í Seljabót frá Sýslusteini. Girðing er þar á mörkum Herdísarvíkur og Krýsuvíkur, en þau eru jafnframt sýslumörk Árnessýslu og Gullbringusýslu.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Við girðinguna eru einnig endamörk Grindavíkurumdæmis að austanverðu. Reyndar mætti deila um staðsetningu markanna, en venjulegast er miðað við línu milli Seljabótanefs og Sýslusteins og þaðan í Kóngsfell (Konungsfell), öðru nafni Stóra Bolla. Eldri girðing liggur á ská til norðausturs í gegnum Herdísarvíkurhraun og í Fálkagilsskarð (Fálkageirsskarð) í Herdísarvíkurfjalli. Austan við girðinguna nefnist hraunið (sem reyndar eru nokkur) Herdísarvíkurhraun, en vestan við hana Krýsuvíkurhraun. Sum vestari hraunanna eru komin úr Edborgum (Litlu og Stóru) undir Geitahlíð, en einnig úr fallegum gígum ofan Geitahlíðar, sbr. hraunið er rann niður Slátturdal, oft nefnt Fjárskjólshraun.
Skömmu áður en komið er niður í Seljabót, suður undir syðstu hraunbrúninni, er Herdísarvíkursel, nokkrar tóftir og stekkur. Nokkur austar með ströndinni má enn sjá móta fyrir a.m.k. einni hlaðinni refagildru, sem minnst hefur verið á í gömlum lýsingum af þessu svæði. Sjórinn er búinn að brjóta aðrar undir sig.

Seljabót

Gerði í Seljabót.

Í Seljabót er hlaðið gerði. Ofan þess er gróinn hóll uppi í brunahrauninu, að hluta til manngerður. Girðingin svo að segja frá honum í beina línu til norðurs, að Sýslusteini. Seljabótanefið er fremst en frá því er fallegt útsýni austur eftir Háabergi, stundum nefnt Herdísarvíkurberg.
Haldið var til vesturs með ströndinni. vel má sjá lagskiptinguna á hinum ýmsu hraunum sem og tegundum hrauna, er runnið hafa þarna í sjó fram. Neðst og næst sjónum eru fallegar hraunæðar og rásir, sem sjórinn hefur hreinsað allt laust ofan af. Ofar er gjallmulningur og ofan á því grágrýti og hraungrýti. Allt myndar þetta hina fallegustu hraun- og litasamsetningu þarna á mörkum lands og sjávar.

Herdísarvíkurbjarg

Á Herdísarvíkurbjargi.

Á einum stað, á örlitlu svæði, eru hraunlistaverk, sem myndu sóma sér vel í hvaða stofu sem væri. Fallegust er þau þarna ofan strandarinnar – þar sem þau urðu til er herra Ægir og frú Hraun runnu saman í eitt.
Víða eru mjóar víkur eða básar inn í ströndina og oftlega opnast fallegt útsýni yfir hluta strandarinnar. Vel grói er ofan strandarinnar. Svo til miðja vegu milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur er hóll er ber hæst í landslagið, sama úr hvorri áttinni er komið. Á hólnum er hlaðin beinakerlning eða skilaboðavarða.
Stórir sjávarhellar eru sums staðar inn undir bergið og gatklettar eru nokkrir. Þrír eru þó tilkomumestir. Skammt vestan og neðanundir beinakerlingunni er feiknafallegur og mikill svelgur, opinn með stórri steinbrú til hafs, ótrúleg náttúrusmíð. Ekki er gott fyrir lofthrædda að standa of nærri brúninni. Skammt vestar er fallegt útsýni vestur með berginu, m.a. gatkletti skammt austan Kefavíkur.

Keflavík

Keflavík.

Vestar er Keflavík. Víkin ber nafn með réttu; stórum keflum hefur skolað þar á land. Stígur liggurniður í víkina, sem er gróinn næst berginu, en utar eru stórt ávalt fjörugrjótið. Vestan við Keflavík má slá leifar af gamla berginu. Ofan á því standa nokkrir gulskófnir steinar (fuglaglæða/húsglæða). Nefnast þeir Geldingar. Af grashól vestan við keflavík, austan Geldinga, er fallegt útsýni austur eftir berginu, m.a. að gatklettinum fyrrnefnda.
Haldið var áfram yfir apalhraunið neðan Klofninga. Ofar í þeim er Arngrímshellir, stundum nefndur Gvendarhellir.

Keflavík

Keflavík – gatklettur.

Gengið var niður undir gamla bergið neðan Krýsuvíkurhellis. Þar sést vel hvernig hraunið hefur runnið niður af berginu og fram af því, en skilið hluta þess eftir sem fagurt sýnishorn af því sem var.
Skammt vestar eru Bergsendar, grasi grónir. Af þeim er einn fallegasti útsýnisstaðurinn vestur eftir Krýsuvíkurbjargi, háu og tilkomumiklu. Gengið var upp eftir fjárhólfsgirðingunni ofan Bergsenda og að réttinni undir Stóru Eldborg.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Krýsuvíkurbjarg

Á Krýsuvíkurbjargi.

Stóra-Eldborg

Gengið var um Krýsvíkur- og Fjárskjólshraun vestan Herdísarvíkurhrauns.

Krýsuvíkurhraun

Krýsuvíkurhraun – herforingjaráðskort.

Krýsuvíkurhraun neðan Eldborganna, Litlu- og Stóru-Eldborg, hefur margra hrauna nefnur. Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar má lesa eftirfarandi:
“Hér blasir Eldborgin við, Stóra-Eldborg. Milli hennar og Geitahlíðar er skarð, nefnt Deildarháls. Þegar komið er fram úr skarðinu blasir við Hvítskeggshvammur er skerst inn og upp í Geitahlíðina. Þá blasir við hraunbunga með smá strýtum á. Þarna eru Dysjarnar. Þarna mættust þær eitt sinn þær maddömurnar. Krýsa úr Krýsuvík og Herdís úr Herdísarvík með smölum sínum og hundum þeirra. Deildu þær um beit, veiði í Kleifarvatni og fleira. Urðu báðar reiðar. Drap þá Dísa smalamann Krýsu. Krýsa drap þegar í stað hinn smalann. Þá sló í svo harða brýnu milli þeirra og heitingar, að báðar létur þarna líf sitt og hundarnir.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

Síðan eru þarna Kerlingadysjar, Smaladysjar og Hundadysjar, Krýsudys og Dísudys. Neðan við bunguna er Kerlingahvammur. Síðan heldur leiðin áfram um Geitahlíðardal, austur milli hrauns og hlíðar. Þegar austar kemur með hlíðinni er Sláttudalur skarð upp í henni. Upp hann liggur Sláttudalsstígur. Af Breiðgötum syðst lá stígur niður með Vesturbrún hraunsins, sem runnið hefur frá Eldborgunum. Eldborg stóru, sem áður er á minnst, og Eldborg litlu, sem er aðeins neðar og liggur Akvegurinn milli þeirra. Krýsuvíkurhraun kallast allt hraunið, en niður af Eldborgunum er Klofningur eða Klofningshraun. Milli Eldborganna er reyndar talað um Eldborgahraun. Neðst á Klofningi er Kletturinn og þar rétt hjá er Klettsgreni.

Keflavík

Hellnastígur milli Bergsenda og Keflavíkur.

Stígurinn sem liggur af Breiðgötum nefnist Bergsendastígur. Neðan við Klett spölkorn liggur stígur upp á hraunið og austur um það, nefnist Hellnastígur. Í austur frá honum þar sem hann beygir niður og í suðurátt blasir við Hellnahæð, og á henni Hellnahæðarvarða. Þar spölkorn neðar á sléttu klapparhrauni eru hellar. Gvendarhellir er þeirra merkastur, tekur móti 200 fjár. Hellir þessi var áður nefndur Arngrímshellir eftir samnefndum manni frá Læk í Krýsuvík. Hann lést er sylla undir berginu féll á hann um 1700. Arngrímur kemur við sögu í þjóðsögunni um Grákollu (Mókollu). Frá fjárskjólinu liggur stígur til vesturs um Klofningahraun og áfram að Krýsuvík framhjá Jónsbúð. Annar stígur liggur til norðurs um Eldborgarhraun að Eldborgunum sunnanverðum.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli / Arngrímshelli.

Nokkru neðar er svo Bjálkahellir, og austur frá þessum hellum er svo Krýsuvíkurhellir og enn austar er Fjárskjólshellir í Fjárskjólshrauni.
Guðmundur sá er byggði Lækjarbæinn hafði fé sitt í Gvendarhelli. Hann byggði sér skýli allgott við Hellismunnann. Að sunnan var íbúðarkompa hans, en að ofan var geymsla. Þar á milli var gangur, þar um fór féð í hellirinn. Við þetta bjó Guðmundur nokkra vetur: Þótti honum langt að fara að fé daglega heima frá Læk austur í hraunið.

Fjárskjólshraunshellir

Fjárskjólshraunshellir (Krýsuvíkur(hrauns)hellir.

Klettstrýta er hér ekki langt frá Hellunum, nefnist hún Arnarsetur. Héðan er skammt niður í Keflavík. Austur af Fjárskjólshrauni er Háahraun. Í því er Háahraunsskógur. Þar var gert til kola frá Krýsuvík. Tvær hraunnybbur eru þarna á hrauninu, nefnast, önnur Skyggnisþúfa, hin Hraunþúfa. Er þá komið á Austurbrún hraunsins.
Í austur frá Krýsuvík blasir við fallegt fjall, heitir Geitahlíð. Uppi á fjalli þessu eru þúfur. Nefnast Ásubúðir eða Æsubúðir. Hlíð sú er í norður snýr, nefnist Hálaugshlíð. Nyrst í vesturhlíðum fjallsins eru klettabelti, nefnast Veggir. Suður og upp frá eru Skálarnar, Neðri-Skál og Efri-Skál.

Breiðivegur

Breiðivegur (Breiðgötur).

Þá er upp frá Breiðgötum austast Geitahlíðarhorn vestra og nær allt inn að Hvítskeggshvammi. Herdísarvíkurvegur nefnist vegurinn og liggur um dalkvos milli hrauns og hlíðar, nefnist Geitahlíðardalur. Hér upp á brún hlíðarinnar er klettastallur, nefnist Hnúka. Um Sláttudal hefur Sláttudalshraun runnið. Skammt hér austar er Geitahlíðarhorn eystra. Hér tekur við úfið hraun, er nefnist allt Herdísarvíkurhraun. Á hæstu bungu þess er Sýslusteinn. Þar eru jarða-, hreppa- og sýslumörk. Alfaraleiðin lá upp með horninu og ofar en vegurinn liggur nú út á hraunið. Neðan við Sýslustein er Vondaklif, Illaklif eða Háaklif. Úr Sýslusteini liggur línan í Skjöld öðru nafni Lyngskjöld sem er breið bunga vestast í Herdísarvíkurfjalli. Úr Lyngskildi miðjum lá L.M. línan um Lyngskjaldarbruna uppi á fjalli og um Stein á Fjalli, eins og segir í gömlum bréfum.”

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um sama svæði segir: “Skreppum nú austur á merki, austur að Seljabótarnefi, og höldum þaðan vestureftir. Vestan við nefið heita Seljabótarflatir. Vestur og upp frá þeim er allmikið hraunsvæði, sem heitir einu nafni Krýsuvíkurhraun. Norður af því uppi við veg, sitt hvoru megin hans, er svo Litla-Eldborg og Stóra-Eldborg. Líkjast þær nokkuð að lögun Eldborg í Hítardal, en frá Eldborgum og heim að bæ í Krýsuvík eru 3-4 km, og mundi þá haldið í vestur. Í Krýsuvíkurhrauni eru gróðurblettir, góðir sauðhagar, þar sem heitir Eystri-Klofningar upp af Seljabót, en Vestri-Klofningar eru upp af Keflavík, er síðar getur. Í Klofningum eru tveir hellar. Annar er Gvendarhellir, sem ber nafn Guðmundar nokkurs Bjarnasonar, er bjó þar einn á vetrum með sauðfé sitt um 1840. Hellir þessi er víðáttumikill og lágur. Bálkahellir heitir hinn. Hann er lítt kannaður, en nafn sitt hefur hann af því, að þegar litið er inn í hann, virðist sem bálkur sé með hvorum vegg, eins og í fjárhúsi. Nálægt Seljabót er svo einn hellir enn, sem heitir Krýsuvíkur[hrauns]hellir. En í Klofningum er Klettagren.

Lyngskjöldur

Lyngskjöldur – þrætugrenið við Steininn.

Beint upp af Stóru-Eldborg og austur af bæ er allhátt fell, sem heitir Geitahlíð. Milli Eldborgar og Geitahlíðar er Eldborgarskarð, en litlu austar er Deildarháls; um hann lá vegurinn áður. Beint upp af Stóru-Eldborg er hvammur, sem Krýsvíkingar kalla Hvítskeggshvamm, en annarstaðar heitir Hvítserkshvammur eða jafnvel Hvítskeifuhvammur. Hvítskeggshvammur er hann nefndur í Landfr. s. Ísl II, 312, þar sem sagt er frá því, að þar hafi fundizt fleiri lækningajurtir en á nokkrum öðrum stað. Austan við hvamminn og hálsinn eru þrjú dys, austust er Herdís, svo er Krýs og loks Smalinn. Er hann ofan götunnar, en þær neðan; má um þetta lesa í þjóðs. J. Á. En eitthvað hafa merki færzt til síðan, ef þetta hefur verið á merkjum áður fyrr. Austast í Geitahlíð er dalur, er liggur inn í hlíðina, og heitir hann Sláttudalur.

Keflavík

Keflavík.

Nú bregðum við okkur aftur til sjávar. Vestarlega undir Krýsuvíkurhrauni gengur inn vík ekki kröpp, sem heitir Keflavík. Vestan við víkina fer landið aftur að ganga meira til suðurs. Tekur þar við berg, sem heitir einu nafni Krýsuvíkurbjarg.”

Í skráningunum segir ýmist: “Í Klofningum Krýsuvíkurhrauns er Gvendarhellir (Arngrímshellir) vestastur, þá Bálkahellir skammt austar, þá Krýsuvíkurhellir  og Fjárskjólshraunshellir þaðan til suðausturs neðar í hrauninu” eða “Krýsuvíkurhellir er austur af Bálkahelli, nær Seljabót”. Þar er einmitt “Fjárskjólshelli” að finna. Nefndur “Krýsuvíkurhellir er því annað hvort neðra op (miðop) Bálkahellis (ofan við opið er gömul varða) eða annað nafn á “Fjárskjólshelli”.

Frábært veður. Gangan tók 3. klst og 3. mín.

Krýsuvíkurhraun

Krýsuvíkurhraun – herforingjaráðskot.

Krýsuvíkurhellir

Gengið var frá Sýslusteini að Herdísarvíkurseli og þaðan í Seljabót. Síðan var gengið vestur með ströndinni. Um er að ræða magnaða leið.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg.

Fjölbreytilegt ber fyrir augu, hvort sem um er að ræða stórbrotið útsýni eða merkileg náttúrfyrirbæri. Leitað var að Skyggnisþúfu. Hún fannst nokkurn veginn miðja vegu á milli Seljabótar og Keflavíkur. Á henni er varða og í vörðunni er hólf sem skilaboð á milli bæja voru látin í. Skammt vestan hennar er stórbrotinn djúpur svelgur ofan í jörðina og sér út á hafið í gegnum stórt gat á honum. Nokkru vestan var gengið ofan í Keflavík eftir stíg. Þar er gróið undir bjarginu, en framar eru lábarðir steinar. Af þeim, horft til austurs með berginu, er hár og fallegur gatklettur út í sjó – stórbrotið útsýni.

Keflavík

Keflavík í Krýsuvík – einnig nefnd Kirkjufjara. Þangað áttu kirkjur norðan Reykjanesskaga rekaítök fyrrum.

Vestan Keflavíkur eru leyfarnar af gamla Krýsuvíkurbjarginu, en hraun hefur síðan runnið allt um kring og út í sjó. Sjá má gömlu hamrana standa tígurlega upp úr á smá kafla. Á þeim eru svonefndir Geldingasteinar, mosavaxnir gulbrúnir steinar, en grasi gróið í kringum þá. Liggur rekagata vestur með ströndinni frá þeim, neðan gamla bergsins, sem nýtt hraun hefur runnið fram af og framlengt ströndina sunnan þeirra.

Krýsuvíkurhellir

Krýsuvíkurhellir.

Gengið var ofan gömlu hamrana, yfir mosahraun og var þá komið að helli er gæti verið hinn týndi Krýsuvíkurhellir. Snjór var framan við opið og var að sjá hleðslur ofan þess. Tekinn var punktur og verður hellirinn skoðaður betur við tækifæri. Neðan hellisins er nýja bergið og liggur gömul gata efst á því. Honum var fylgt til vesturs og opnaðist þá stórkostlega sýn vestur Krýsvíkurbjargið, hátt og tignarlegt. Fram af því steyptist Eystri-lækur og hefur hann varla í annan tíma sést jafn vel og núna. Frábært myndefni – með hæstu fossum á landinu.

Eystri-Bergsendi

Horft vestur yfir krýsuvíkurbjarg frá Eystri-Bergsenda.

Þegar komið var út á Bergsenda var strikið tekið að Sundvörðunni ofan við bjargbrúnina skammt vestar, síðan upp í fjárhellir í Litlahrauni og loks komið við í réttinni og fjárhústóttinni ofan hans áður en haldið var að Krýsuvíkurrétt undir Eldborgum.
Þessi gönguleið er ein sú stórbrotnasta, sem hægt er að fara á Reykjanesi og ættu sem flestir að nýta sér það tækifæri í góðu veðri.

Keflavík

Keflavík.