Hnúkar

Gengið var um Hnúka á Selvogsheiði.

Hnúkar

Í Hnúkum.

Ætlunin var m.a. að skoða Hnúkahelli suðaustan undir Efstahnúk og mannvistarleifar norðaustan við hann – við stóra hraunbólu. Við hann eru tóftir og hleðslur, óskráðar. Norðan við hnúkinn er hraundrýli, eitt hið fallegasta á landinu, þriggja mannhæðarhátt og um fimm metra djúpt. Ekki er vitað til þess að maður hafi stigið þar niður fæti. Hæfilega langur sigbúnaður var með í för. Norðar er gróin hrauntröð, hluti Selvogsheiðardyngjunnar, og vatnsstæði. Norðvestar er gat ofan í jörðina. Lítið ber á því, en óvíst var hvað það hefði að geyma. Vestar er Afmælishellir þar sem haldið var upp á FERLIR-800 með reyktri grásleppu, lifrapylsu og harðfisk að þjóðlegum sið – niðurskolað með mysu. Ætlunin var að skoða hellinn og nágrenni hans gaumgæfilega. Um er að ræða stóra klofna og heillega hraunbólu með ágætt útsýni yfir Selvogsheiði.

Hnúkar

Hnúkar – Bjrn Hróarsson í hraundríli.

Í ferðinni, auk þessa, fannst hellir í austanverðum Hnúkum. Við op hans er klöppuð áletrun í bergið.
Hnúkar skiptast í Austurhnúka og Vesturhnúka. Austurhnúkar eru þrír, Syðstihnúkur, Austastihnúkur og Vestastihnúkur. Vesturhnúkar eru líka þrír, Neðstihnúkur, Miðhnúkur og Efstihnúkur. Hnúkarnir, strýturnar á Selvogsheiði, eru ekki gjall- eða klepragígar líkt og halda mætti við fyrstu sýn – þegar horft er á þá úr fjarlægð. Þeir eru í rauninni af ætt hraundrýla – þ.e. risaætt þeirra. Selvogsheiðin er dyngja. Strýturnar marka nokkurn veginn gíginn. Hraundrýli myndast oft á yfirborðsþekju hrauna við uppstreymisop, nálægt gígnum, þar sem lofttegundir, einkum vetni (H2), streyma upp, brenna, og rífa með sér hraunslettur. Hraunsletturnar falla sem kleprar umhverfis opið og mynda þannig holan kleprahrauk sem oft líkist einna helst ofni, samanber erlenda heitið á þessum myndunum, hornito. Það mun vera komið úr spænsku og merkir ofn.

Hnúkar

Hnúkar – hraundríli.

Algengast er að hraundrýli myndist nálægt eldgígum t.d. á gígbörmunum umhverfis hrauntjarnir í dyngjum eins og Selvogsheiði. Hraundrýli eru nokkuð algeng í hraunum og þá jafnvel langt frá gígunum eins og t.d. Tröllabörn í Elliðaárhrauni (Leitahrauni) neðan Lækjarbotna, í Eldvarpahrauni og í Hvassahrauni. Þar eru reyndar um að ræða hraundrýli af “eðlilegri” stærð, en hnúkana sjálfa verður hins vegar að telja til yfirstærðar slíkra drýla. Þeir eru mjög form- og litfagrir á að líta – myndast vel. Eflaust munu einhverjir framkvæmdaverktakar renna hýrum augum til þeirra í framtíðinni. Í þeirra augum eru slík fyrirbrigði fyrst og fremst efnisleg verðmæti en ekki jarðfræðidjásn eins og þau eru í augum ferðamanna og náttúruunnenda. Nefna má önnur sambærileg dæmi: Í augum hestamannsins er hesturinn farartæki, gæðingur, vinur, fegurð og náttúruundur, en í augum kaupmannsins er hann kjöt. Í augum sumarbústaðaeigandans er sumarbústaðurinn afdrep, snerting við umhverfið, hvíld, endurnæring, en í augum innbrotsþjófsins er hann verðmæti í skiptum fyrir fíkniefni. Í augum bíleigandans er bíllinn tæki til að komast á milli staða, tímasparnaður, möguleiki, stöðutákn, en í augum bifvélavirkjans er hann tekjulind. Hjólhýsi eru væntingar um þægindi í augum sumra, en óþarfi í augum annarra. Svona lítur fólk misjöfnum augum á lífsins gæði/verðmæti. Það sem einum er kært er öðrum kærara – á annan hátt. Góð heilsa er þó jafnan fyrir mestu.

Hnúkar

Fjárskjól í Hnúkum.

Því miður er hin sögulega staðreynd sú að “hugverðmæt” náttúran og umhverfið hefur ávallt þurft að víkja fyrir “krónuverðmætum”, jafnvel þótt mun færri hafi með umtalsverðar krónur að gera en hughrif. Hið síðarnefnda er og hefur alltaf verið allra – og gagnast öllum – alltaf, en eir og seðlar verða að teljast “glópagull” – a.m.k. að fenginni reynslu í meira en 5000 ára menningarsögu mannkynsins. En hversu mörg árhundruðin eða jafnvel -þúsundin enn þarf maðurinn til að læra það sem til þarf? Flestar “mikilvægar” ákvarðanir, sem taka þarf í dag, hafa verið teknar áður (sumar með hörmulegum afleiðingum), flest viðbrögð fólks við teknum ákvörðum hversdagsins hafa áður komið fram og flest af því sem skiptir “raunverulegu” máli hefur því miður einungis varðað fáa. Þannig er og verður rándýrt hjólhýsið einungis skammvinn ánæga – eða í besta falli dýrmæt reynsla.
Að framansögðu má ekki endilega halda að um einskæra speki sé að ræða, heldur er hér fyrst og fremst verið að reyna að nota ákveðna orðtækni til að koma að a.m.k. einni af hinum góðu myndum til viðbótar, sem teknar voru á hinu myndræna svæði Hnúkanna. Í rauninni skiptir umhverfið – jörðin okkar – engu máli. Hún er og verður – meðan við lifum a.m.k. Og af hverju ættum við að hafa áhyggjur af öðrum, sem á eftir koma?
Hnúkahellir er suðaustan undir Efstahnúk. Hann er um 30 metra langur, sléttur í botninn. Við suðurvegg hans eru smávaxnir dropsteinar.
Suðaustan við Hnúka var gengið fram á op í jörðinni. Nálægt því var lítil varða. Hellirinn er um 20 m langur, mannhæðarhár og sléttur í botninn. Við op hans er klöppuð áletrun í bergið. Svo virðist sem sjá megi ?ÖKJU – HE??. Fróðlegt væri að reyna að komast að því fyrir hvað þetta gæti staðið. Hellirinn hefur fengið vinnuheitið “Leturhellir”.
Nokkru vestan við hellinn eru mannvistarleifar við stóra hraunbólu; tvær tóftir og hleðslur, óskráðar.
Í hellinum, hér nefndur “Tóftahóll”, eru hleðslur, m.a. hringhleðsla. Tóftin framan við munnan er greinilega gömul. Hin tóftin er norðan við hólinn. Þá sést vel móta fyrir stvískiptum hlöðnum stekk eða kví norðan við hólinn. Hellirinn sjálfur er aðgengilegur og hin myndarlegasta aðstaða. Hraunbólur sem þessi eru jafnan nefndar hraunhvel á jarðfræðimáli. Þau myndast vegna þrýstingsáhrifa sem verða sökum mismunandi rennslishraða á milli hálfstorknaðs yfirborðs og hraunkviku undir. Hólar og hæðir í helluhraunum stafa líka af því að djúpir hraunstraumar kaffærðu hóla og hæðir sem fyrir voru í landslaginu. Mishæðirnar koma svo aftur í ljós þegar kvikan rennur undan storknaðri hraunskáninni í lok gossins. Þarna norðvestan við er gróin hluti dyngjugígsins. Norðvestast í henni er vatnsstæði. Ekki er ólíklegt er hér sé um að ræða gamalt sel frá Nesi í Selvogi, en svæðið er innan landamarka þess. Nes er fyrrum stórbýli.

Hnúkar

Hnúkar – hellir.

Norðan við hnúkinn er hraundrýli, eitt hið fallegasta á landinu, þriggja mannhæðarhátt og um fimm metra djúpt. Björn Hróarsson fór niður í það og niður á botn. Botninn er heill svo lengra verður ekki komst niður á við.
Norðvestar er gat ofan í jörðina. Lítið ber á því, en óvíst var hvað það hafði að geyma. Eftir að hafa fjarlægðir höfðu verið nokkrir steinar fór Björn niður. Þar kom hann inn í lítið herbergi og voru veggir þess “glerjaðir” með þunnu hraunlagi. Ekki sást í rás út úr því. Svo virðist sem þarna hafi legið glóandi kvika um tíma og brætt grannbergið, en sigið síðan undan.
Vestar er Afmælishellir (FERLIR-800). Ætlunin var að skoða hann gaumgæfilegar. Um er að ræða stóra klofna, rúmgóða og heillega hraunbólu. Hann vildi hins vegar ekki láta líta á sig í þetta skiptið. Það er reyndar ekkert verra því fara þarf á þetta svæði að nýju fljótlega og skoða þá svæðið norðvestan við dyngjuna.

Hnúkar

Hnúkar – áletrun við hellisop.

Hnúkarnir eru einstaklega fallegt útivistarsvæði og líklegt má telja að þarna kunni við nákvæma leit að leynast áður ófundnar minjar og mannvistarleifar.
Hins vegar fannst fjárskjól vestan við Hnúka. Þar er rúmgott gat á jafnsléttu og fallin varða ofan við. Verður skoðað betur næst.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mínútur.

Heimild m.a.:
-http://www.ismennt.is/not/gk/jfr/ordskyr/
-Örnefnaskrá fyrir Nes.

Hnúkar

Hnúkar.