Færslur

Hnúkar

Gengið var um Hnúka á Selvogsheiði.

Hnúkar

Í Hnúkum.

Ætlunin var m.a. að skoða Hnúkahelli suðaustan undir Efstahnúk og mannvistarleifar norðaustan við hann – við stóra hraunbólu. Við hann eru tóftir og hleðslur, óskráðar. Norðan við hnúkinn er hraundrýli, eitt hið fallegasta á landinu, þriggja mannhæðarhátt og um fimm metra djúpt. Ekki er vitað til þess að maður hafi stigið þar niður fæti. Hæfilega langur sigbúnaður var með í för. Norðar er gróin hrauntröð, hluti Selvogsheiðardyngjunnar, og vatnsstæði. Norðvestar er gat ofan í jörðina. Lítið ber á því, en óvíst var hvað það hefði að geyma. Vestar er Afmælishellir þar sem haldið var upp á FERLIR-800 með reyktri grásleppu, lifrapylsu og harðfisk að þjóðlegum sið – niðurskolað með mysu. Ætlunin var að skoða hellinn og nágrenni hans gaumgæfilega. Um er að ræða stóra klofna og heillega hraunbólu með ágætt útsýni yfir Selvogsheiði.

Hnúkar

Hnúkar – Bjrn Hróarsson í hraundríli.

Í ferðinni, auk þessa, fannst hellir í austanverðum Hnúkum. Við op hans er klöppuð áletrun í bergið.
Hnúkar skiptast í Austurhnúka og Vesturhnúka. Austurhnúkar eru þrír, Syðstihnúkur, Austastihnúkur og Vestastihnúkur. Vesturhnúkar eru líka þrír, Neðstihnúkur, Miðhnúkur og Efstihnúkur. Hnúkarnir, strýturnar á Selvogsheiði, eru ekki gjall- eða klepragígar líkt og halda mætti við fyrstu sýn – þegar horft er á þá úr fjarlægð. Þeir eru í rauninni af ætt hraundrýla – þ.e. risaætt þeirra. Selvogsheiðin er dyngja. Strýturnar marka nokkurn veginn gíginn. Hraundrýli myndast oft á yfirborðsþekju hrauna við uppstreymisop, nálægt gígnum, þar sem lofttegundir, einkum vetni (H2), streyma upp, brenna, og rífa með sér hraunslettur. Hraunsletturnar falla sem kleprar umhverfis opið og mynda þannig holan kleprahrauk sem oft líkist einna helst ofni, samanber erlenda heitið á þessum myndunum, hornito. Það mun vera komið úr spænsku og merkir ofn.

Hnúkar

Hnúkar – hraundríli.

Algengast er að hraundrýli myndist nálægt eldgígum t.d. á gígbörmunum umhverfis hrauntjarnir í dyngjum eins og Selvogsheiði. Hraundrýli eru nokkuð algeng í hraunum og þá jafnvel langt frá gígunum eins og t.d. Tröllabörn í Elliðaárhrauni (Leitahrauni) neðan Lækjarbotna, í Eldvarpahrauni og í Hvassahrauni. Þar eru reyndar um að ræða hraundrýli af “eðlilegri” stærð, en hnúkana sjálfa verður hins vegar að telja til yfirstærðar slíkra drýla. Þeir eru mjög form- og litfagrir á að líta – myndast vel. Eflaust munu einhverjir framkvæmdaverktakar renna hýrum augum til þeirra í framtíðinni. Í þeirra augum eru slík fyrirbrigði fyrst og fremst efnisleg verðmæti en ekki jarðfræðidjásn eins og þau eru í augum ferðamanna og náttúruunnenda. Nefna má önnur sambærileg dæmi: Í augum hestamannsins er hesturinn farartæki, gæðingur, vinur, fegurð og náttúruundur, en í augum kaupmannsins er hann kjöt. Í augum sumarbústaðaeigandans er sumarbústaðurinn afdrep, snerting við umhverfið, hvíld, endurnæring, en í augum innbrotsþjófsins er hann verðmæti í skiptum fyrir fíkniefni. Í augum bíleigandans er bíllinn tæki til að komast á milli staða, tímasparnaður, möguleiki, stöðutákn, en í augum bifvélavirkjans er hann tekjulind. Hjólhýsi eru væntingar um þægindi í augum sumra, en óþarfi í augum annarra. Svona lítur fólk misjöfnum augum á lífsins gæði/verðmæti. Það sem einum er kært er öðrum kærara – á annan hátt. Góð heilsa er þó jafnan fyrir mestu.

Hnúkar

Fjárskjól í Hnúkum.

Því miður er hin sögulega staðreynd sú að “hugverðmæt” náttúran og umhverfið hefur ávallt þurft að víkja fyrir “krónuverðmætum”, jafnvel þótt mun færri hafi með umtalsverðar krónur að gera en hughrif. Hið síðarnefnda er og hefur alltaf verið allra – og gagnast öllum – alltaf, en eir og seðlar verða að teljast “glópagull” – a.m.k. að fenginni reynslu í meira en 5000 ára menningarsögu mannkynsins. En hversu mörg árhundruðin eða jafnvel -þúsundin enn þarf maðurinn til að læra það sem til þarf? Flestar “mikilvægar” ákvarðanir, sem taka þarf í dag, hafa verið teknar áður (sumar með hörmulegum afleiðingum), flest viðbrögð fólks við teknum ákvörðum hversdagsins hafa áður komið fram og flest af því sem skiptir “raunverulegu” máli hefur því miður einungis varðað fáa. Þannig er og verður rándýrt hjólhýsið einungis skammvinn ánæga – eða í besta falli dýrmæt reynsla.
Að framansögðu má ekki endilega halda að um einskæra speki sé að ræða, heldur er hér fyrst og fremst verið að reyna að nota ákveðna orðtækni til að koma að a.m.k. einni af hinum góðu myndum til viðbótar, sem teknar voru á hinu myndræna svæði Hnúkanna. Í rauninni skiptir umhverfið – jörðin okkar – engu máli. Hún er og verður – meðan við lifum a.m.k. Og af hverju ættum við að hafa áhyggjur af öðrum, sem á eftir koma?
Hnúkahellir er suðaustan undir Efstahnúk. Hann er um 30 metra langur, sléttur í botninn. Við suðurvegg hans eru smávaxnir dropsteinar.
Suðaustan við Hnúka var gengið fram á op í jörðinni. Nálægt því var lítil varða. Hellirinn er um 20 m langur, mannhæðarhár og sléttur í botninn. Við op hans er klöppuð áletrun í bergið. Svo virðist sem sjá megi ?ÖKJU – HE??. Fróðlegt væri að reyna að komast að því fyrir hvað þetta gæti staðið. Hellirinn hefur fengið vinnuheitið “Leturhellir”.
Nokkru vestan við hellinn eru mannvistarleifar við stóra hraunbólu; tvær tóftir og hleðslur, óskráðar.
Í hellinum, hér nefndur “Tóftahóll”, eru hleðslur, m.a. hringhleðsla. Tóftin framan við munnan er greinilega gömul. Hin tóftin er norðan við hólinn. Þá sést vel móta fyrir stvískiptum hlöðnum stekk eða kví norðan við hólinn. Hellirinn sjálfur er aðgengilegur og hin myndarlegasta aðstaða. Hraunbólur sem þessi eru jafnan nefndar hraunhvel á jarðfræðimáli. Þau myndast vegna þrýstingsáhrifa sem verða sökum mismunandi rennslishraða á milli hálfstorknaðs yfirborðs og hraunkviku undir. Hólar og hæðir í helluhraunum stafa líka af því að djúpir hraunstraumar kaffærðu hóla og hæðir sem fyrir voru í landslaginu. Mishæðirnar koma svo aftur í ljós þegar kvikan rennur undan storknaðri hraunskáninni í lok gossins. Þarna norðvestan við er gróin hluti dyngjugígsins. Norðvestast í henni er vatnsstæði. Ekki er ólíklegt er hér sé um að ræða gamalt sel frá Nesi í Selvogi, en svæðið er innan landamarka þess. Nes er fyrrum stórbýli.

Hnúkar

Hnúkar – hellir.

Norðan við hnúkinn er hraundrýli, eitt hið fallegasta á landinu, þriggja mannhæðarhátt og um fimm metra djúpt. Björn Hróarsson fór niður í það og niður á botn. Botninn er heill svo lengra verður ekki komst niður á við.
Norðvestar er gat ofan í jörðina. Lítið ber á því, en óvíst var hvað það hafði að geyma. Eftir að hafa fjarlægðir höfðu verið nokkrir steinar fór Björn niður. Þar kom hann inn í lítið herbergi og voru veggir þess “glerjaðir” með þunnu hraunlagi. Ekki sást í rás út úr því. Svo virðist sem þarna hafi legið glóandi kvika um tíma og brætt grannbergið, en sigið síðan undan.
Vestar er Afmælishellir (FERLIR-800). Ætlunin var að skoða hann gaumgæfilegar. Um er að ræða stóra klofna, rúmgóða og heillega hraunbólu. Hann vildi hins vegar ekki láta líta á sig í þetta skiptið. Það er reyndar ekkert verra því fara þarf á þetta svæði að nýju fljótlega og skoða þá svæðið norðvestan við dyngjuna.

Hnúkar

Hnúkar – áletrun við hellisop.

Hnúkarnir eru einstaklega fallegt útivistarsvæði og líklegt má telja að þarna kunni við nákvæma leit að leynast áður ófundnar minjar og mannvistarleifar.
Hins vegar fannst fjárskjól vestan við Hnúka. Þar er rúmgott gat á jafnsléttu og fallin varða ofan við. Verður skoðað betur næst.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mínútur.

Heimild m.a.:
-http://www.ismennt.is/not/gk/jfr/ordskyr/
-Örnefnaskrá fyrir Nes.

Hnúkar

Hnúkar.

Nessel

Við Hnúka í Selvogsheiði er margt að sjá, bæði mannvistarleifar og jarð- og náttúrufyrirbæri.

Hnúkar

Hnúkar.

Þrátt fyrir hellirigningu í bænum var bjart og blíðviðri þegar komið var á vettvang. Byrjað var á því að skoða skúta norðan við Hnúkana. Reyndist hann um 30 metra langur, en fremur lágur. Í göngunni fundust margar yfirborðsrásir, en þær voru allar fremur stuttar. Þó er ljóst að víða eru göt og stutt í rásir. Sem dæmi má nefna gat suðvestan við vatnsstæðið, sem síðar verður minnst á. Það liggur niður á við og virðist vænlegt. Ekki var farið niður í það að þessu sinni því til þess þarf hinn góða hlífðarfatnað hellamanna. Opið var sett á minnisspjaldið.
Leitað var tóftar norðaustan í Hnúkunum. Gekk greiðlega að finna hana. Tóftin er austan við holan hraunhól, sem er sléttur í botninn. Greinilegt er að einhvern tímann hefur grjót, sem í honum er, verð notað í einhverjum tilgangi. Enn sést móta fyrir hringhleðslu. Tóftin framan við munnan er greinilega gömul. Við skoðun á svæðinu fannst önnur tóft norðaustan við hólinn. Þá sést vel móta fyrir stvískiptum hlöðnum stekk eða kví norðan við hólinn. Þarna norðvestan við er gróin hraunrás. Norðvestast íhenni er vatnsstæði. Ekki er ólíklegt er hér sé um að ræða gamalt sel frá Nesi í Selvogi, en svæðið er innan landamarka þess. Nes er fyrrum stórbýli.

Hnúkar

Hnúkar – sel.

Vestan við tóftina er nokkurra mannhæða hátt hraundrýli, holt að innan, einstaklega formfagurt. Dýptin, niður á botn, virðist vera um fimm metrar. Ekki er gott að segja hvort þá taki við rás. Hraundríli eða hraunkatlar eru merkileg náttúrufyrirbæri sem líkjast einna helst gömlum strokkum. Nokkurs konar strompar sem hafa hleypt upp lofti/gastegundum þegar hraun rann um svæðið en um leið hefur hlaðist utan á þá og þeir stækkað. Í miðju þeirra er op sem nær niður í hraunhelluna.
Efst vestan undir hæðinnni sunnan vatnsstæðisins er gat. Færa þarf til einn eða tvo steina til að komast niður. Ekki var farið niður að þessu sinni – til þess þarf góðan hlífðarfatnað. Undirlagningin er óljóst.

Hnúkar

Hnúkar – hellir.

Eftir að hafa skoðað í kringum vatnsstæðið var haldið vestur með Hnúkunum, sem virðast vera um 10 talsins. Vestast í þeim er hellir, sem FERLIR hafði áður komið við í á ferð sinni um Selvogsheiðina. Um er að ræða rúmgóðan helli, um 40 metra að lengd og um 15 metra á breidd. Hann er sléttur í botninn, en innan við munnann virðast vera hleðslur. Hellirinn hefur myndast er stór hraunbóla hefur gliðnað. Hinn hluti hellisins er mun minni að vestanverðu. Þarna var haldið upp á fjögurra ára afmæli FERLIRs með slátri, reyktum rauðmaga og harðfisk. Erfitt er að koma auga á opið, en hellirinn hefur verið nefndur Afmælishellir í tilefni dagsins. Frá honum sést ágætlega yfir Selvogsréttina austan við Svörtubjörg.
Gengið var til baka til suðausturs með sunnanverðum Hnúkunum og þeir barðir augum í kvöldsólinni. Utan í einum hólnum var hlaðið byrgi refaskyttu. Frá byrginu sást vel yfir neðanverða heiðina.
Tækifærið var notað og Hnúkasvæðið rissað upp.

Hnúkar

Tóftir í Hnúkum.

Hnúkar

Gengið var um Hnúkana á Selvogsheiði. M.a. var ætlunin að skoða hellisskúta undir Austurhnúkum, skoða tóftir og mannvistarleifar í skúta við þær, ganga um Hnúkavatnsstæðið og síðan halda suður með Efstahnúk og í sveig að upphafsstað um Neðstahnúk.

Hnúkar

Hnúkar – sel.

Hnúkarnir eru eldborgir á háheiðinni og eru í Neslandi. Hnúkar skiptast í Austurhnúka og Vesturhnúka. Austurhnúkar eru þrír, Syðstihnúkur, Austastihnúkur og Vestastihnúkur. Vesturhnúkar eru líka þrír, Neðstihnúkur, Miðhnúkur og Efstihnúkur. Milli Vesturhnúka er bungumynduð hæð, Vatnsstæðishæð, sem er eldgígur, og ofan í hana er Vatnsstæðið, sem þornar sjaldan eða aldrei alveg. Víða er einnig vatn í gígunum. Brekkur fyrir innan Hnúkana í áttina að Geitafelli heita Norðurslakkar. Þeir eru milli heiðarinnar og Gjánna. Þessar brekkur voru slegnar frá kotunum. Um Gjárnar liggja gjár, sem það dregur nafn af. Þær liggja allar í sömu átt, frá Geitafelli. Austust og næst landamerkjum er Nesgjá. Vestar og nær Geitafelli er Réttargjá. Við hana var áður fyrr rétt, Geitafellsrétt, austur undir Geitafelli. Það var fyrrum aðalrétt Selvogsmanna og Ölfusinga.

Hnúkar

Hnúkar.

Byrjað var á því að skoða skútann norðan við Hnúkana. Þá var gengið upp um miðja Hnúka austanverða og litið á tóftir, sem þar eru austan við holan hraunhól, sem er sléttur í botninn. Greinilegt er að einhvern tímann hefur grjót, sem í honum er, verð notað í einhverjum tilgangi. Enn sést móta fyrir hringhleðslu. Tóftin framan við munnann er greinilega gömul. Önnur tóft er norðaustan við hólinn. Þá sést vel móta fyrir stvískiptum hlöðnum stekk eða kví norðan við hólinn. Ekki er vitað til þess að minja þessara sé getið í örnefnalýsingum. Líklegt er að þarna hafi verið selstaða, hugsanlega frá Nesi eða einhverjum hjáleiganna á Nesi í Selvogi.

Hnúkar

Hnúkar – vatnsstæði.

Norðvestan við minjasvæðið er stór gróin hraunrás. Norðvestast í henni er vatnsstæðið. Vel gróið er í hvylftum og hraunbollum. Aðstaðan þarna hefur verið hin ágætasta á þeirra tíma mælikvarða.
Skammt sunnar er nokkurra mannhæða hátt hraundrýli, holt að innan, einstaklega formfagurt. Dýptin, niður á botn, virðist vera um fimm metrar. Ekki er gott að segja hvort þá taki við rás. Hraundríli eða hraunkatlar eru merkileg náttúrufyrirbæri sem líkjast einna helst gömlum strokkum. Nokkurs konar strompar sem hafa hleypt upp lofti/gastegundum þegar hraun rann um svæðið en um leið hefur hlaðist utan á þá og þeir stækkað. Í miðju þeirra er op sem nær niður í hraunhelluna.

Hnúkar

Lóa í Hnúkum.

Vestan undir Efstahnúk er hellir. Um rúmgóðan helli, um 40 metra að lengd og um 15 metra á breidd, er að ræða. Hann er sléttur í botninn, en innan við munnann virðast vera hleðslur. Hellirinn hefur myndast er stór hraunbóla hefur gliðnað.
Gengið var til baka til suðausturs með sunnanverðum Hnúkunum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Hnúkar

Hraundríli í Hnúkum.

Nessel

Gengið var um Djúpudalahraun að Djúpudalaborg, þaðan upp í Nessel og áfram upp á Kvennagönguhól. Þá var haldið upp á Hellisþúfu og skoðaður Hellisþúfuhellir. Loks var gengið niður hæðina að vestanverðu, að klöppinni Fótalaus og staðnæmst við Imphólaréttina.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.

Austurmörkin á Nesi lágu frá Þrívörðum við sjó, um Djúpudali og þaðan í Kálfahvamm í Geitfelli (Fálkaklett). Djúpudalaborgin er skammt frá mörkunum, vandlega hlaðin. Hana hefur átt að topphlaða, enda ber hún þess merki. Þessi fjárborg hefur að öllum líkindum þótt mikið og merkilegt mannvirki á sínum tíma, enda virðast menn hafa reynt að líka eftir henni annars staðar á landinu (sjá Þorbjarnastaðaborg).
NesDjúpudalir horfa mót suðri og eru mikil gróðurvin við efri brún sandflákana ofan við ströndina vestan Þorlákshafnar. Geldingahnappur, brönugrös, hvönn, bláklukka og fleiri villt blóm vaxa þar í hraunskjólunum. Bláberjalyngið er áberandi sem og kjarr og einir.
Allt land þarna fyrir vestan tilheyrði Nesi í Selvogi. Þar var, skv. jarðabók ÁM 1703, “jarðdýrleiki lx og so tíundast fjórum sinnum.” Árið1397 var Mariukirkja í Nesi “…lofadur gropttur heimamönnum oc fátækum monnum. Árið 1508 hafði Þorvarður Erlendsson lögmaður til kaups við Kristínu Gottskálksdóttur Nes í Selvogi fyrir 60 hdr.

Nes

Jóhann Davíðsson með legstein úr Nesskirkjugarði.

Árið 1523 hafði Erlendur Þorvarðsson lögmaður fengið Skálholtskirkju Hof á Kjalarnesi í reikningsskap ýmissa kirkna, þ.á.m. Neskirkju sem “war komin ad nidurfalli” og lofaði “Erlindur at lata innstædu til neskirkiu.” Í desember 1525 lagði Erlendur Þorvarðsson Strönd og Nes í Selvogi “med þeim jordum sem þar til liggia” til kaups við Þórunni Stulladóttur og skyldi Þórunn vera helmingakona og hafa Nes fyrir 80 hdr og 40 kúgildi “nema hun villdi sialf helldur hafa jardernar Hlidarenda, Breidabolstad og Littllaland. allar fyrir lxxxxc.” 1595 er Grími Einarssyni dæmt Nes, 60 hdr, í arf eftir Guðbjörgu Erlendsdóttur föðurömmu sína. Búa í Nesi 2 Jónar, 2 Árnar, 2 Ormar, Hallur, Hróbjartur, Hafliði, Þorgeir, Einar, Sveinn og Gísli sbr. Sveitarbrag Jóns Jónssonar í Nesi.”

Nes

FERLIRsfélagar í Nesi.

Nes er austasta býli í Selvogi. Landamerki Ness að austanverðu, móti Þorlákshöfn og Hlíðarenda í Ölfusi eru þannig: Þrívörður, þrjár vörður á berginu milli Ness og Þorlákshafnar, þaðan í Dimmadalsklöpp á miðjum sandinum, og munu þar byrja mörkin móti Hlíðarendalandi; þaðan í Markhól í Djúpadalshrauni fyrir vestan Hlíðarendsfjallsenda, þaðan í Fálkaklett syðst í Geitafelli. Milli Ness og Bjarnastaða eru mörkin: Selós milli Selaskers og Stórhólms er fremsta mark, þaðan í Markasker, þaðan í garðsenda á kampinum milli túna Ness og Bjarnastaða, og þaðan í Unhól efst í túngarði, þaðan í Stóra-Hástein í Selvogsheiði fyrir neðan Hnúka, þaðan í Eystri-Kálfahvammsöxl í Geitafelli.

Kvennagönguhóll

Varða á Kvennagönguhól.

Neshverfi eða Nestorfa var sameiginlegt heiti á Nesi og hjáleigum þar. Einnig var hverfið nefnt Austurvogur eða Austurvogshverfi.” Árið 1840 segir m.a. að “á öllum þessum bæjum [Nes og 11 hjáleigur] liggja túnin saman, og er hverfi þetta kallað Austurvogur. Fyrir framan túnin er sjávarkampurinn, snýr á móti hafútsuðri. Allar þessar jarðir eru undirorpnar grófum sandágangi, so tún verða þá kolsvört eftir hvört austan- land- og útnorðan stórviðri. Af þessari orsök hafa þær stórum spillst og spillast árlega nokkuð.” Bærinn að Nesi stóð á Bæjarhól neðan við mitt tún. Þegar tvíbýli var í Nesi, voru bæirnir nefndir Austurnes og Vesturnes.”

Nes

Kirkjugarðurinn í Nesi.

Heimild er um kirkju, Maríukirkju, í Nesi, sem fyrr segir. “Glergluggar .iij. austann a kirkiunni. glitadur alltaradvukur .ij. handklædi.” Fyrrum mun hafa verið kirkja í Nesi og staðið, þar sem nú er braggabygging, notuð síðast sem heygeymsla. Legsteinar komu upp, þegar grafið var fyrir þessu húsi, og munu þeir vera þarna á hlaðinu.” FERLIR fann ekki fyrir löngu einn af þessum legsteinum, en aðrir höfðu verið fluttir á minjasafnið á Selfossi. Þessi eini legsteinn, er talinn hafa verið á leiði barns er dó úr svarta dauða og grafið var í kirkjugarðinum að Nesi, væntanlega með þeim síðustu er þar voru grafnir. Steinninn er enn við Nes og fær vonandi að vera þar um ókomna tíð.

Hellishæðahellir

Merkismenn við Hellishæðahelli.

Erlendur sterki er talinn hafa búið í Nesi og dó 1312. Járngerður, var Þórðardóttir Böðvarssonar og var kona Erlends, en Valgerður var dóttir þeirra og hefur Halfdan sennilega verið maður hennar. Finnur var sonur Bjarnar Hamra-Finnsonar, en Þóra hét systir Bjarna og var hún kona Þormóðs í Gufunesi. Það er óvíst að það sé sama Þóra og nefnd er í máld.
Erlingur Jonsson [sagdi] ad kirkian j Nesi skylldi eiga .vjc. j þwfulandi þar til sem hann leisti vr .ij. kugilldi .cc. vadmala .ijc. j vide. enn .xij. alnar fyrer .c. j leiguburd þar til sem leist er vr jordunni.
Í júlí 1523 hafði Erlendur Þorvarðsson lögmaður fengið Skálholtskirkju Hof á Kjalarnesi í reikningsskap ýmissa kirkna, þ.á.m. Neskirkju sem “war komin ad nidurfalli” og lofaði “Erlindur at lata innstædu til Neskirkiu.” Kirkjan lögð niður í Nesi 1706.

Nessel

Nessel – skúti.

Gengið var inn fyrir girðingu og að litlum hraunhól þar. Hóllinn reyndist holur að innan með sandi í botni. Hann hefur áreiðanlega orðið einhverju gott skjól. Selið er skammt ofar. Megintóftin er í jarðfalli, sem líklega hefur verið reft yfir, en er nú fallið. Tóftir við selið benda til þess að það sé mjög gamalt. Í heimildum segir að “spölkorn fyrir ofan Kvennagönguhól (að vestan) eru aðrir hraunhólar og kringum þá grösugar flatir. Þarna var Nessel, og sést enn fyrir tóftum þess. Selið er innan sandgræðslugirðingarinnar. Nú hafa verið reist fjárhús á móti selinu. Nessel er merkt norðan þjóðvegarins, en þar er samnefndur sumarbústaður.

Gengið var á fótinn, upp á Kvennagönguhól. Honum tengist þjóðsaga. “Suður frá þjóðveginum liggja suðurslakkar, allt að Kvennagönguhól, sem er grasi gróinn hraunhóll.”

Hellholt

Hellholt – uppdráttur ÓSÁ.

Jafnframt segir að “Kvenna-Gaungu-Hólar á Selvogs-Heidi í Árness Sýsslu þángad géngu í Papiskri Óld, aldradar og veikar Kvennpersónur úr Selvogi, til ad festa sión á Krossmarki þvi, sem upp var Fest á Kaldadar-Ness-Kyrkiu, og þókti sér batna ef séd féngu; Hólarner eru 2, skaparans, enn ei Manna verk.” Um nafnið Kvennagönguhóll er ýmsar sagnir, sem Gísli Sigurðsson tilfærir í sinni skrá, og kannast Eyþór við þær allar: 1. Í kaþólskri trú var kross einn mikill í landi Kaldaðarness. Konur í Selvogi gengu þá oft á hól þennan, horfú til krossins og gerðu bænir sína. 2. Mikið útrlði var í Selvogi. Þar gerði oft þau veður, að ekki var lendandi. Var þá hleypt austur í Þorlákshöfn. Tækist lendingin vel, var veifa dregin á stöng. Fóru konur úr Selvognum á Kvennagönguhól að sjá, hvort veifa væri á lofti og menn þeirra lentir heilu og höldnu. 3. Í fyrndinni bjó tröllkona í hólnum. Hún reri nökkva sínum úr Keflavík undir bjargi. Aflann bar hún heim og gerði að honum á Kvennagönguhólaflöt. Ekki hefur annað heyrzt, en hún hafi verið Selvogsingum góður nágranni.”

Hellishæðahellir

Hellishæðahellir.

Haldið var enn á fótinn með Hnúkana á hægri hönd. Smám saman lagðist Selvogsheiðin yfir hægri vænginn, en framundan er slétt afgirt tún efst á hæðinni. Þar á er gróinn hraunhóll; Hellisþúfa. “Hellisþúfa er hraunhóll mikill í vestur frá Háaleiti og í honum Hellisþúfuhellir. Í hellinum var eitt sinn búið, og er einhver hleðsla úti fyrir. Sá mun hafa heitið Gísli, er þarna bjó. Ekkert vatn er þarna að hafa, það var sótt í belgjum í Flæðitjarnirnar niðri á Öldunum. Þetta var fyrir minni Eyþórs, en hann heyrði þetta sagt.”
Nú hallaði til vesturs. Gengið var að klöppinni Fótalaus ofan þjóðvegarins, skammt ofan við hrjálegan sumarbústað. Í örnefnalýsingu segir að “mörkin milli Ness og Bjarnastaða eru austan í [Stóra-Hásteini]. Þar við hann er klöpp, sem kölluð er Fótalaus, og var merki klappað í hana. Ókunnugt er um tildrög þessa nafns.”

Strandarhæð

Strandarhæð – Strandarborg.

Skammt neðar (suðvestar) er Imphólarétt. “Austur með þjóðveginum eru Imphólar, lágir grashólar. Þar var Imphólarétt, sem nú er farin.” Að sögn Þórðar Sveinssonar frá Bjargi í Selvogi er Imphólarétt 8-900 metrum suðsuðaustan litla Hásteins.
Önnur rétt er undir litla Hásteini. Þjóðvegurinn liggur í gegnum hana miðja, svo sem algengt er um fornminjar hér á landi. Kosturinn við það er að fólk þarf ekki að stíga út úr bílunum til að virða mannvirkið fyrir sér. Á móti kemur að sárafáir, sem aka um þjóðveginn, og í gegnum réttina, hafa hugmynd um að þarna hafi verið rétt með öllu sem réttum tilheyrir með réttu.
Útlit og stærð réttarinnar sést enn vel og hleðslur marka lögun hennar. Að sögn Þórðar var þessi rétt hlaðin af Þórðarkotsmönnum eftir 1950. Hún var notuð fyrir rúning og flutning á fé með bílum.
Leitað verður nánari upplýsinga, bæði um réttina undir Hásteinum og Imphólarétt, sem enn á eftir að skoða.

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn

Imphólarétt

Imphólarétt.

Hnúkar

Gengið var frá þjóðveginum um Selvog, gegnt Hnúkunum, áleiðis niður á Kvennagönguhól, eða-hóla. Á leiðinni var rifjuð upp þjóðsagan um hólinn sem og notkunargildi hans fyrrum.

Kvannagönguhóll

Kvennagönguhóll.

Kvennagönguhóll og Orustuhóll eru á miðri Selvogsheiði í Árnessýslu. Saman eru þeir nefndir Kvennagönguhólar. Þá eru til Kvennagönguhóll í Viðey við Reykjavík og Kvennagönguhólar í landi Minna-Mosfells í Grímsnesi í Árnessýslu. Auk þess er Kvennagönguskarð á Vogastapa en það er skarð fast vestan við Reiðskarð. Loks var haldið í Djúpudalahraun, gengið um Djúpudali og Djúpudalaborgin barin augum.Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir að hólarnir á Selvogsheiði hafi verið tengdir sögum um konur sem þangað fóru og “ekki treystust að fara krossför alla leið til Kaldaðarness”. Seinni tíma þjóðsögur telja að konurnar hafi verið að huga að mönnum sínum sem voru á sjó.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.

Í heimild frá 1821 segir að “Kvenna-Gaungu-Hólar á Selvogs-Heidi í Árness Sýsslu þángad géngu í Papiskri Óld, aldradar og veikar Kvennpersónur úr Selvogi, til ad festa sión á Krossmarki þvi, sem upp var Fest á Kaldadar-Ness-Kyrkiu, og þókti sér batna ef séd féngu; Hólarner eru 2, skaparans, enn ei Manna verk.”

Um nafnið Kvennagönguhóll er ýmsar sagnir, sem Gísli Sigurðsson tilfærir í sinni skrá: 1. Í kaþólskri trú var kross einn mikill í landi Kaldaðarness. Konur í Selvogi gengu þá oft á hól þennan, horfðu til krossins og gerðu bænir sína. 2. Mikið útræði var í Selvogi. Þar gerði oft þau veður, að ekki var lendandi. Var þá hleypt austur í Þorlákshöfn. Tækist lendingin vel, var veifa dregin á stöng.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.

Fóru konur úr Selvognum á Kvennagönguhól að sjá, hvort veifa væri á lofti og menn þeirra lentir heilu og höldnu. 3. Í fyrndinni bjó tröllkona í hólnum. Hún reri nökkva sínum úr Keflavík undir bjargi. Aflann bar hún heim og gerði að honum á Kvennagönguhólaflöt. Ekki hefur annað heyrzt, en hún hafi verið Selvogsingum góður nágranni.”
Hvað sem sögum og sögnum líður er hið ágætasta útsýni af hólnum yfir Selvoginn og austur með ströndinni.
Haldið var niður í Djúpudalahraun. Í örnefnaslýsingu fyrir Þorkelsgerði er tiltekið að “austan við Strandhæð eru mikla lægðir, kallaðar Djúpudalir, og tilheyra Útvogi. norðaustur af þeim er Þorkelsgerðisból eða -sel.” Ofan við Djúpudali er myndarleg og nokkuð heilleg fjárborg, Djúpudalaborgin. Hún var skoðuð í þessari ferð og ástand hennar metið.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/fornleifaskra/fornleifaskra_nes.htm

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.

Portfolio Items