Nessel

Við Hnúka í Selvogsheiði er margt að sjá, bæði mannvistarleifar og jarð- og náttúrufyrirbæri.

Hnúkar

Hnúkar.

Þrátt fyrir hellirigningu í bænum var bjart og blíðviðri þegar komið var á vettvang. Byrjað var á því að skoða skúta norðan við Hnúkana. Reyndist hann um 30 metra langur, en fremur lágur. Í göngunni fundust margar yfirborðsrásir, en þær voru allar fremur stuttar. Þó er ljóst að víða eru göt og stutt í rásir. Sem dæmi má nefna gat suðvestan við vatnsstæðið, sem síðar verður minnst á. Það liggur niður á við og virðist vænlegt. Ekki var farið niður í það að þessu sinni því til þess þarf hinn góða hlífðarfatnað hellamanna. Opið var sett á minnisspjaldið.
Leitað var tóftar norðaustan í Hnúkunum. Gekk greiðlega að finna hana. Tóftin er austan við holan hraunhól, sem er sléttur í botninn. Greinilegt er að einhvern tímann hefur grjót, sem í honum er, verð notað í einhverjum tilgangi. Enn sést móta fyrir hringhleðslu. Tóftin framan við munnan er greinilega gömul. Við skoðun á svæðinu fannst önnur tóft norðaustan við hólinn. Þá sést vel móta fyrir stvískiptum hlöðnum stekk eða kví norðan við hólinn. Þarna norðvestan við er gróin hraunrás. Norðvestast íhenni er vatnsstæði. Ekki er ólíklegt er hér sé um að ræða gamalt sel frá Nesi í Selvogi, en svæðið er innan landamarka þess. Nes er fyrrum stórbýli.

Hnúkar

Hnúkar – sel.

Vestan við tóftina er nokkurra mannhæða hátt hraundrýli, holt að innan, einstaklega formfagurt. Dýptin, niður á botn, virðist vera um fimm metrar. Ekki er gott að segja hvort þá taki við rás. Hraundríli eða hraunkatlar eru merkileg náttúrufyrirbæri sem líkjast einna helst gömlum strokkum. Nokkurs konar strompar sem hafa hleypt upp lofti/gastegundum þegar hraun rann um svæðið en um leið hefur hlaðist utan á þá og þeir stækkað. Í miðju þeirra er op sem nær niður í hraunhelluna.
Efst vestan undir hæðinnni sunnan vatnsstæðisins er gat. Færa þarf til einn eða tvo steina til að komast niður. Ekki var farið niður að þessu sinni – til þess þarf góðan hlífðarfatnað. Undirlagningin er óljóst.

Hnúkar

Hnúkar – hellir.

Eftir að hafa skoðað í kringum vatnsstæðið var haldið vestur með Hnúkunum, sem virðast vera um 10 talsins. Vestast í þeim er hellir, sem FERLIR hafði áður komið við í á ferð sinni um Selvogsheiðina. Um er að ræða rúmgóðan helli, um 40 metra að lengd og um 15 metra á breidd. Hann er sléttur í botninn, en innan við munnann virðast vera hleðslur. Hellirinn hefur myndast er stór hraunbóla hefur gliðnað. Hinn hluti hellisins er mun minni að vestanverðu. Þarna var haldið upp á fjögurra ára afmæli FERLIRs með slátri, reyktum rauðmaga og harðfisk. Erfitt er að koma auga á opið, en hellirinn hefur verið nefndur Afmælishellir í tilefni dagsins. Frá honum sést ágætlega yfir Selvogsréttina austan við Svörtubjörg.
Gengið var til baka til suðausturs með sunnanverðum Hnúkunum og þeir barðir augum í kvöldsólinni. Utan í einum hólnum var hlaðið byrgi refaskyttu. Frá byrginu sást vel yfir neðanverða heiðina.
Tækifærið var notað og Hnúkasvæðið rissað upp.

Hnúkar

Tóftir í Hnúkum.