Þorlákshöfn

Til að hefta sandfokið nálægt Þorlákshöfn var landið friðað fyrir búfjárbeit 1935 og girt af. Girðingin er 21,8 km löng og telst þetta með stærri landgræðslusvæðum um 7.550 ha.
Þorlakshofn-sandgraedslan-1Svæðið nær frá Ölfusá og að Nesvita í Selvogi, en sjórinn afmarkar svæðið að sunnan allt austur að Hamarendum sunnan við Hraun í Ölfusi og neðan við Vindheima, Breiðabólsstað, Litlaland, Hlíðarenda yfir Selvogsheiði og allt til sjávar austanvert við Nes í Selvogi.
Sandgræðslan keypti lönd frá Nesi í Selvogi, Hlíðarenda, Litlalandi, Breiðabólstað og Vindheimum í Ölfushreppi. Seinna var eigendum Hrauns Í Ölfusi afhent það land er þeir áttu innan girðingarinnar.
Landgræðslan á núna allt land innan girðingar nema Þorlákshafnarland.
Eftir að girðingin var komin var reynt að vinna að sandgræðslu eftir því sem fjármagn og geta leyfði en fyrstu 30 árin var lítill sem enginn árangur.
Þorlakshofn-sandgraedslan-2Í bókinni „Græðum Ísland – landgræðslan 1988” er eftirfarandi haldið fram: „Sjómenn hafa haldið því fram að aðalástæða fyrir því að fiskigöngur hurfu þarna skyndilega af landgrunninu hafi verið sandfok ofan af landinu. Hinir tíðu norðaustanvindar, sem bera sandinn í sjó fram, hafa einnig iðulega gert mönnum erfitt fyrir að stunda fiskvinnslu í Þorlákshöfn enda vart hægt að hugsa sér óeðlilegri og óæskilegri aðstæður við fiskvinnslu en sandfok”. (Bls. 146-147).
Í samvinnu við fólkið í þorpinu hóf Sandgræðslan (nafninu var síðar breytt í Landgræðslan) að gera stórátak í að hefta sandfokið með því að sá melgresi.
Landslagið innan landgræðslusvæðisins er hraun sem er erfitt viðureignar, þar skiptast á hraunhólar og lægðir sem eru fullar af sandi og þegar blæs þyrlast sandurinn upp. Landslagið gerir það einnig að verkum að það getur verið erfitt að nota vélar við sáningu. Þá hefur oft á tíðum þurft að grípa til þess að sá og slétta úr sandhólunum með berum höndum.
Þorlakshofn-sandgraedslan-3Erfitt er að eiga við sjávarsandinn í flæðarmálinu, því hann skolar upp á háflóði og þegar hann þornar fýkur hann og það sama gerist með framburðinn úr Ölfusá. Þetta ástand er verst alveg við þorpið í Skötubótinni. Eftir að höfnin var stækkuð 1974-1976 safnast sandurinn að hafnargarðinum og þar getur orðið upphaf sandfoks.
Fyrstu stóru landgræðsluframkvæmdirnar voru gerðar 1958 þegar byggðir voru sandvarnargarðar á leirunum austan við þorpið. Hælar voru reknir niður í sandinn og negld vour á þá tvö 6 tommu borð. Milli garða voru hafðir 100 m en alls voru notuð í þá rúmlega 17 km af borðum. Melgresi var sáð beggja megin garðanna. Garðarnir drógu verulega úr sandskriði og sandurinn færði garðana í kaf.
Í kjölfar landgræðsluframkvæmdanna myndaðist sjávarkambur sem hefur hækkað mjög vegna áfoks sands.
Þorlakshofn-sandgraedslan-4Kamburinn er án efa merkasti melgresissjóvarnar-garður hér á landi. Til glöggvunar má nefna að fyrsti síminn var lagður á þessu svæði 1920 eftir innanverðum kambnum. Nú eru nokkrir símastauranna komnir í kaf í sandinn.
Árið 1958 var byrjað að dreifa fræi og áburði úr flugvél í Þorlákshöfn. Í fyrstu var notuð lítil flugvél til dreifingar og hörð leira notuð sem lendingarstaður en hún var í fjöruborði við Ölfusá vestan Hamarenda, sunnan Hrauns í Ölflusi. Þetta gaf svo góða raun að hafist var handa við byggingu flugbrautar við Hafnarnes 1968 sem notuð var í nokkur ár þar til að farið var að nota áburðarflugvélina Páll Sveinsson. Með til komu áburðarvélarinnar margfaldaðist afkastagetan við styrkingu gróðurs innan landgræðslugirðingarinnar.
Helstu markmið Landgræðslunnar í Þorlákshöfn er að verja byggðina fyrir sandfoki með landgræðslu sem fellst í því að sá fræjum, gróðursetja plöntur og bera áburð á svæðið. Landgræðslan vaktar ástand á gróðri og jarðvegi og gerir framkvæmdaáætlanir með tilliti til árangurs og framvindu gróðurs.

Heimild:
-ismennt.is/not/siggud/landgr/girding.htm

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – Skötubót.