Slóðaketill

Farið var aftur inn í hraunið austan Geitahlíðar til að leita að Snorra, jarðfalli sem upplýsingar höfðu fengist um að ætti að vera þar inni í hrauninu.

Snorri

Leitin að Snorra.

Smali hafði gengið frá Vörðufelli í gegnum mosahraun, komið að grasbrekkum neðan við Melhóla og haldið áfram til suðvesturs að geilinni á Geitahlíð ofan við Sláttudal. Austan Geitahlíðar eru allnokkrir eldgígar og eldborgir. Vestara hraunið hefur runnið til vesturs og niður í Kálfadali, en eystra hraunið hefur runnið til austurs og niður með austanverðri Geitahlíð vestan Sláttudals. Um er að ræða mikil hraun. Smalinn hafði á leið sinni gengið fram á mikið jarðfall, sem birtist fyrirvaralaust framundan í hrauninu. Yfir jarðfallið átti að vera falleg steinbrú.

Snorri

Á leið í Snorra.

Svarta þoka var á fjallinu þegar að var komið, en milt veður. Haldið var fyrst í um kílómetra til vesturs yfir hraunið, að brún Kálfadalahraunsins, síðan til suðausturs og loks til austurs. Jarðskálftinn 17. júní árið 2000 hafði greinilega leikið hraunhólana þarna illa. Margir þeirra voru klofnir, aðrir maskaðir. Ekki er ólíklegt að seinni skjálftinn þennan dag hafi átt upptök sín einhvers staðar þarna undir hrauninu. Þegar um 500 metrar voru eftir í vestari melhólinn birtist jarðfallið fyrirvaralaust framundan, djúpt og mikið um sig. Steinboginn var fallinn niður í jarðfallið, en hann hefur verið nokkuð stór.

Snorri

Leitin að Snorra.

Gríðarlegt gat var inn í jarðfallið til vesturs. Þar hefur runnið mikið hraunmagn. Veggir voru sléttir og virtist rásin hafa verið nær hringlaga. Fallið hefur úr loftinu, svo mikið að lokast hefur fyrir rásina rétt fyrir innan opið. Á milli steina fremst í rásinni sást þó niður í dimman “kjallara”. Með nokkrum tilfæringum var hægt að forfæra grjót og var þá hægt að láta sig síga niður um gat. Um mannhæðar hátt er niður á fast, en þar í frá lækkar hvelfingin, sem þar er undir, inn til miðjunnar. Hún er mikil um sig og er undir stóru hraunrásinni. Inni í enda hennar er lítið gat í um tíu metra hæð.

Snorri

Unnið að inngöngu í Snorra.

Stiga þarf til að komast upp í hana. Út um gatið hefur seitlað þunnfljótandi hraun og myndar það fallegan storknaðan foss svo til beint niður úr gatinu. Þá var farið inn í eystri rásina, sem eiginlega liggur fyrst til suðurs og beygir síðan til austurs. Mikið hrun er í henni. Var rásinni fylgt í um 20 metra, en þá lokaðist hún nær alveg í hruni. Loftið virtist ótryggt.
Á leiðinni til baka var aftur litið á Slóðaketilinn austan Geitahlíðar. Ekki verður hjá því komist að nota stiga til að komast ofan í neðri rásina í katlinum sjálfum til að kanna hvort og hversu löng neðri rásin kann að vera.
(Framhald í annarri lýsingu – Snorri sigraður – óvæntur fundur).

Snorri

Snorri – kort.