Ætlunin var að skoða útilegumannahella í Innstadal, Engidal og Marardal.
Gengið var frá sæluhúsinu og réttinni við Draugatjörn. Saga er að segja frá hvorutveggja, en það verður gert í annarri lýsingu. Haldið var upp með Húsmúlanum að Sleggjubeinsskarði og áfram upp skarðið. Þá var komið í Innstadal. Gengið var austur dalinn og alveg inn að hverasvæði, sem þar er. Volg laug er læk, sem rennur niður úr hlíðinni innst í dalnum. Ofarlega í klettum er hellir og dálítil grastó fyrir framan. Hellirinn sást vel þegar gengið var inn dalinn.
Mjög bratt er upp í hellinn um einstigi og nær ókleift á kafla. Hann er rúmlega tveggja metra langur inn í botn og um tveggja metra breiður. Hlaðið hefur verið fyrir hellismunnan, en hleðslurnar hafa mikið til fallið niður. Talið er að útilegumenn hafi hafst við í helli þessum. Engin leið virtist vera að komast að þeim. Sagt var að útilegumennirnir hafi verið skipshöfn, 6-7 menn, úr Höfnum, sem átti að hafa unnið eitthvert níðingsverk. Þeir áttu að hafa hafst við í hellinum í um tvö ár – aðrir sögðu eitt sumar, ásamt tveimur hlutakonum. Þeir höfðu með sér kaðal og drógu konurnar á honum upp í hellinn sem og föng sín, sem voru að mestu sauðfé Ölfusinga og Grafningsmanna. Bændur héldu uppi njósn um þá. Þegar útilegumennirnir fóru úr hellinum og voru á leið til baka með sauðfé, sátu þeir fyrir þeim og höfðu betur. Hellismenn flýðu, en sveitamenn eltu þá uppi.
Upphófust þá miklar eltingar í Hengafjöllunum, sem enduðu með því að hellismenn voru allir drepnir, ýmist vestan í Henglinum eða á Mosfellsheiði þar sem þeir gátu vart veitt viðnám sökum mæði, illa skóaðir. Hálfu verra var fyrir bændu að sækja að konunum í hellinum. Samt urðu þær þó teknar að lokum og fluttar á brott. Eftir stendur hellirinn – auður.
Gengið var til baka vestur Innstadal. Þegar komið var að skarðinu var beygt til norðurs og haldið niður, efst í skarð á milli Hengils og Húsmúla. Þar var stíg fylgt norður með vestanverðum Hengli. Þegar tók að halla undan á ný blasti Engidalur við fyrir neðan. Gengið var ofan við gilskorninga, sem eru þarna utan í hlíðinni og haldið áfram niður á Reykjaveginn, sem liggur þarna frá Nesjavöllum og áfram út á Reykjanestá, og yfir Engidalsá.
Áð var við sæluhúsið norðvestan í dalnum. Frá húsinu blasir móbergsklettahæð við þar sem hann gengur út frá Marardal í suðaustri. Í hæsta og þriðja síðasta hnúknum í móbergsrananum við ána, um 400 metra frá sæluhúsinu, uppi í hæðinni, er hellisgjögur. Þar eru hleðslur og hafa verið dyr á veggnum. Skútinn snýr í suður og blasir við frá skálanum þegar betur er að gáð. Hann er um 5 metra breiður og innan við tveir metrar á dýpt. Hæðin er um tveir metrar. Skammt frá þessum helli, u.þ.b. 30 metrum og litlu neðar, er annar skúti. Hann er um 3 metra langur, 2 metra breiður og rúmlega meter á hæð. Einnig hefur verið hlaðið fyrir minni þessa skúta. Þar er þrifalegt og virðist hafa verið ákjósanlegt svefnstæði.
Talið er að útilegumenn, Eyvindur Jónsson og Margrét Símonardóttir hafi hafst við í skútum þessum um tíma í seinni útlegð sinni vorið 1678. Þeirra er getið í annálum. Einnig að hreindýraveiðimenn hafi hafst þar við um 1835. Eyvindur og Margrét lögðust út í Henglafjöllum, en náðust. “Réttað var í máli þeirra á Alþingi og var Eyvindur höggvinn þar og Margréti drekkt í Öxará. Þau höfðu verið strýkt veturinn fyrir og látin laus, en tóku sig saman, þá voraði og lögðust á nýju á fjöll”. Eyvindur og Margrét eru einnig sögð hafa dvalið um tíma í helli sunnan undir Þríhnúkum suður af Örfiriseyjaseli undir Selfjalli (sjá FERLIR-103). Hellir sá er ofan við gilskorninga og eru hleðslur bæði inni í hellinum og við inngang.
Gengið var um þrengsli inn í Marardal. Dalurinn er sléttur og grösugur, umlukinn á svo til alla vegu. Þegar komið er inní dalinn í gegnum þrengslin sést hlaðinn garður. Hann er talinn hafa verið fyrirstaða nauta er beit var í dalinn á öldum áður. Nokkrir hellar eru í Marardal, tiltölulega hátt uppi í hömrunum. Við þá og í þeim eru hleðslur, ártöl og fangamörk.
Einn þessara hella er skammt frá götunni, sem liggur inn í dalinn. Hann var notaður sem skýli handa réttamönnum. Fyrir framan hann hefur verið hlaðinn garður til skjóls. Hellirinn er austan megin í dalnum, um 30 metra frá gönguleiðinni og um 3 metra uppi í hlíðinni. Grasi gróin brekka er upp í skútann. hann er um 12 metra langur og 3 metra djúpur. Hleðslan fyrir norðurhlutanum er um 6 metra löng.
Gengið var úr Maradal til baka um opið og sömu leið til vesturs upp norðurhlíð Hengilsins og yfir Húsmúlann.
Gangan tók rúmlega 5 tíma. Veður var hlýtt og þurrt.