Refagildrur eru nokkuð misjafnar að gerð en oftast grjóthlaðnir stokkar eða kassar sem hellur hafa verið lagðar yfir og grjóti jafnvel hlaðið þar ofan á. Agn var látið inn í gildruna og tófan þannig tæld inn en þá lokaðist stokkurinn með þar til gerðum lokubúnaði.
Talið er að fyrstu gerð refagildra hafi komið með norrænum landnámsmönnum frá Noregi. Þar hafa fundist sambærilegar gildrur og hér á landi.
Refagildrurnar voru hlaðnar úr hellum þannig að þegar tófan ætlaði að sækja agn sem var inni í gildrunni féll dyrahellan aftur og lokaði dýrið inni.
Fyrir u.þ.b. 30 árum þótti það sérstökum tíðindum sæta að hlaðin refagildra fannst á Norð-Austurlandi. Embættismenn úr Reykjavík gerðu sér ferð norður til að líta fyrirbærið augum. Eftir miklar vangaveltur og pælingar kom út skýrsla um þessar svo merkilegu mannvistarleifar.
Á sama tíma mátti lesa í örnefnalýsingum bæja á Reykjanesskaganum að þar hefðu verið til sambærilegar mannvistarleifar frá löngu liðnum tíma. Fáir virtust hafa sérstakan áhuga á því.
Eftir að FERLIR fór að leita skipulega að mannvistarleifum á Reykjanesskaganum hafa verið staðsettar um 90 hlaðnar refagildur í misjöfnu ástandi. Sumar eru alveg heilar og nánast ósnertar á meðan öðrum hefur verið raskað. Nýjasta refagildran (og varla sú yngsta) fannst nýlega austan við Hlíð í Selvogi. Hún er á lágu klapparholti og snýr opið til norðurs. Gildran, sem er mjög heilleg, fellur mjög vel inn í umhverfið. Nú er hún orðin bæði mosa- og skófvaxin svo mjög erfitt er að koma auga á hana í landinu.
Heimildir m.a.:
-www.instarch.is/instarch