Færslur

Tyrkjahellir

Heimamönnum var mætt við sundlaugina og gengið þaðan undir leiðsögn þeirra austur með Stamphólsgjá.

Grindavíkurhellir

Grindavíkurhellir.

Að sögn Erlings Einarssonar mun gjáin áður fyrr hafa náð svo til upp í gegnum Járngerðarstaðahverfið. Hún hafi verið fyllt meira og minna, enda komin undir íbúðarbyggð, en áður fyrr hafi hún verið með þaki hluta leiðarinnar. Í botni gjárinnar hafi verið vatn á köflum. Skoðað var gat efst í gjánni. Þar niðri er hægt að komast niður í hana og eftir henni, bæði til vesturs og austurs. Ekki er ólíklegt að ætla að Grindavíkurhellir hafi verið í Stamhólsgjá, jafnvel þarna sem gatið er núna. Það verður kannað betur síðar. Tiltölulega auðvelt er að komast þarna niður með aðstoð bands, en rusl hefur safnast fyrir á botninum og við opið.

Frá gjánni var gengið upp á Hópsheiðina eftir hluta Skipsstígs, sem leggur frá Njarðvíkum til Grindavíkur. Þarna er leiðin austur að Þórkötlustöðum. Tvær fallnar vörður á er á þessum kafla, austan og ofan við íþróttasvæðið.

Stamphólsgjá

Grindavíkurhellir í Stamphólsgjá.

Skammt sunnar kemur stígurinn inn á Skógfellaveginn, sem liggur að Vogum. Honum var fylgt spölkorn til norðurs og síðan beygt af honum til austurs að Hópsvörðunni, stóra og mikla vörðu efst á heiðinni. Hún hefur augsýnilega verið mið inn í Hópið því hún er í beina línu við Hópsvörðurnar austan og suðaustan við Hóp. Haldið var áfram upp á Vatnsheiði. Á heiðinni eru a.m.k. þrjár hæðir (dyngjur). Úr þeim rann hraunið, sem myndaði Hópsnesið og Þórkötlustaðanesið auk hraunanna austan Grindavíkur. Uppi á syðstu hæðinni er gat ofan í jörðina, um 12 metra djúpt. Það varð til er Catepillar 9 jarðýtu var ekið þarna vestur yfir hæðina. Ökumaðurinn fann að hún var farin að síga ískyggilega að aftan svo hann jók hraðann. Fyrir aftan jarðýtuna myndaðist gatið. Þarna er nú gjallgígop, nefnt Nían eða K-9. Niður í gígnum má sjá hraunrás liggja úr honum til vesturs.

Tyrkjahellir

Í Tyrkjahelli (á Efri-hellu).

Austan í hæðinni var leitað að kvarnarsteini, sem þar átti að vera. Grindvíkingar munu hafa hoggið sína kvarnasteina þarna áður fyrr, en brotnað hafði úr þessum þegar verið var að gera miðjugatið. Brotið fannst, en ekki það sem eftir var af steininum.
Þá var haldið niður að Húshelli vestan Húsafjalls. Erfitt er að finna opið á hellinum, enda ætluðu Grindvíkingar að flýja þangað ef Tyrkirnir létu sjá sig á ný í þorpinu. Eftir það mun hellirinn fallið í gleymsku og týnst. Norðaustan við opið er hlaðið byrgi. Hægt er að ganga í gegnum hellinn, þ.e. fara ofan í hann á einum stað og upp úr honum á öðrum. Hellirinn er u.þ.b. 30 metra langur. Hann er ekki hár, en í honum hafa verið pláss fyrir mörg bæli. Sandur hefur fokið niður í hellinn, en talsvert landrof er allt í kring.

Hraun

Refagildra við Hraun. Sigurður Gíslason vísaði FERLIRsfélög á gildruna.

Haldið var niður í hraunið vestan Hrauns. Þar, skammt ofan Sanddals, er all sérstök refagildra, hlaðin krossgildra, þ.e. með fjórum inngöngum. Sigurður Gíslason á Hrauni sýndi FERLIR gildru þessa fyrir nokkrum misserum síðan. Þegar gengið var niður Sanddalinn rak einn þátttakenda augun í gamla hleðslu. Við nánari skoðun reyndist það vera gömul refagildra, sú 23. sem FERLIR skoðar á Reykjanesi. Haldið var yfir í gömlu garðana vestan Hrauns með viðkomu í Guðbjargarhelli. Í hann flýði Guðbjörg á Hrauni jafnan fyrr á öldum er hún vildi fá að vera í friði. Erfitt er að finna hellinn, en Sigurður Gíslason hafði áður sýnt FERLIR hann eftir nokkra leit á sínum tíma. Nú var hægt að ganga að opi hans vísu.

Sloki

Fiskgarðar í Slokahrauni.

Tekið var hús á Sigurði og síðan gengið þaðan með ströndinni yfir í Slokahraun. Í hrauninu eru langir herðslugarðar og heilleg fiskibyrgi, líkt og á Selatöngum og austan við Ísólfsskála. Litið var á Sögurnarhól, en á honum var rekaviður sagaður fyrrum. Þaðan var haldið yfir að Hraunkoti, fallegu bæjarstæði austast í Þórkötlustaðahverfi. Mjög vel hlaðin heimtröð ásamt verklegum hleðslum eru þar allt í kring. Gömlu steingarðanir standa enn.
Tekið var hús á Stakkavíkurfólkinu í Buðlungu og Buðlunguvörin síðan skoðuð. Þá var leitað að dys Þórkötlu, en sagan segir að hún hafi mælt svo fyrir að hún yrði dysjuð þar sem hún sæi út yfir Þórkötlustaðarbótina. Ólafur Gamalíasson vísaði hópnum á dysina, en hún er í túninu austan við Hof.
Frábært veður.

Tyrkjahellir

Op Tyrkjahellis ofan Hrauns.

Elvarpahraun

Gengið var um hið misgreiðfæra Berghraun vestan við Staðarhverfi í Grindavík. Berghraunið er ofan við Staðarbergið og sennilega eitt af Eldvarparhraunum. Þrátt fyrir úfið apalhraun eru helluhraunssléttur inni á milli og því auðveld yfirferðar.

Refagildra

Refagildra á Staðarbergi.

Næst berginu er sambland af hvorutveggja. Þegar gengið var ofan við Klaufir austarlega ofan við Staðarbergið sást glöggskyggnum heilleg hleðsla uppi í hrauninu, undir hraunbakka. Staðsetningin er augljós þar sem lágtófan er annars vegar, þá er “dældirnar smjó”. Þegar hleðslan var skoðuð kom í ljós alveg heil refagildra. Meira að segja fellihellan var enn fyrir opinu. Gildran er hlaðin úr hraunhellum, en stoðsteinarnir sitt hvoru megin við helluna eru úr grágrýti. Þetta var 26. hlaðna refagildran, sem FERLIR hafði skoðað á Reykjanesskaganum.

Staðarberg

Staðarberg – refagildra.

Skömmu síðar fundust tvær gamlar refagildrur austan við Ísólfsskála auk tveggja til viðbótar einni austan við Húsatóftir. Fyrir einungis nokkrum misserum var einungis talið að 3-5 slíkar væru til á Nesinu öllu. Ljóst er nú að mun fleiri slíkar eiga eftir að finnast á svæðinu. Þekktar refagildrur hafa allar verið skráðar, myndaðar og staðsettar með gps-hnitum.
Stuttu eftir að þetta var skrifað fór FERLIR aftur um svæðið í öðrum tilgangi. Í þeirri ferð var gengið fram á enn eina refagildruna, skammt norðvestan við hina fyrrnefndu. Sú gildra er einnig alveg heil. Talan er því komin yfir á átta tuginn.
Sjá meira um refagildrur HÉR.

Staðarberg

Staðarberg – refagildra.

 

Staðarberg

Gengið var um hið misgreiðfæra Berghraun austan við Staðarhverfi í Grindavík.

Refagildra

Refagildra á Staðarbergi.

Berghraunið er ofan við Staðarbergið og sennilega eitt af Eldvarparhraunum. Þrátt fyrir úfið apalhraun eru helluhraunssléttur inni á milli. Næst berginu er sambland af hvorutveggja. Þegar gengið var ofan við Klaufir austarlega undan Staðarberginu sást glöggskyggnum heilleg hleðsla uppi í hrauninu. Þegar hún var skoðuð kom í ljós alveg heil refagildra. Meira að segja fellihellan var heil fyrir opinu. Gildran er hlaðin úr hraunhellum, en stoðsteinarnir sitt hvoru megin við helluna eru úr grágrýti. Þetta var 75. hlaðna refagildran, sem FERLIR hefur skoðað á Reykjanesi. Nýlega fannst gömul refagildra austan við Ísólfsskála. Fyrir nokkrum misserum var einungis talið að 3-5 slíkar væru til að Nesinu. Í dag eru u.þ.b. 90 slíkar þekktar á Reykjanesskaganum.
Fyrir skömmu var skoðuð önnur hlaðin refagildra í Básum ofan við Staðarberg (sjá að neðan). Án efa kunna fleiri hlaðnar refagildrur að leynast þarna í hraununum.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Refagildra

Refagildra í Básum.

Staður

Þegar ekið var til Grindavíkur skein sólin skemmtilega á Þorbjarnarfell. Mátti þá vel sjá hvernig misgengið liggur þvert í gegnum fellið hvernig toppur þess hefur sigið með því niður á milli gjárbarmanna.

Staðarvör

Staðarvör.

Gengið var niður að Staðarvör við Staðarklöpp í Arfadalsvík. Innan hennar er flórað gólf í fjöruborðinu Utan við klöppina er festikengur á tanga (Vatnstanga). Ekki var nægilega lágsjávað að þessu sinni til að sjá hann. Haldið var framhjá Kasalóni, gengið með fjörunni og yfir á Gerðistanga. Ofar lágu kollur grafkyrrar á hreiðrum sínum. Ofar mátti slá leifar gamallar réttar á hól.
Á Gerðistanga voru skoðaðar heillegar tóftir Stóra-Gerðis, garðar heimtröðin og brunnurinn. Áður fyrr voru miklir hlaðnir garðar í Staðarhverfi, en þegar bryggjan var byggð í Hópinu var komíð á vörubílum og grjótið úr görðunum, réttinni og öðru, sem hlaðið var, sótt í höfnina. Nú má einungis sjá þarna búta úr görðunum.

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Utar á kambinum eru tóftir Litla-Gerðis og síðan Kvíadalur enn utar. Neðan hans er Staðarbótin. Með henni vestanverðri eru Malarendar. Innan þeirra eru tjarnir. Þýski togarinn Schluttup kom upp á Malarenda í ársbyrjun 1924. Sagan segir að fólkið í Móakoti og fleira fólk hafi verið að spila um þokukennt kvöldið þegar einhver hafi haft á orði að gott væri nú að fá svo sem eitt strand þarna fyrir utan. Um morguninn stóð togari í heilu lagi uppi á Mölunum fyrir neðan bæinn. Hafði honum verið siglt upp í fjöruna um nóttina. Varð að reisa planka með síðu hans til að ná skipstjóranum frá borði því feitari gerðust þeir varla í þá daga.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Ofan við Malarenda er gömul fjárhústóft. Í hana voru þeir, sem fórust í strandi Önnu frá Tofte, lagðir. Þessi færeyski kútter kom upp við Bergsendasker, sem er við austurenda Staðarbergs, þann 4. apríl 1924. Fimmtán eða sextán fórust þá, flestir ungir menn úr sömu fjölskyldum frá litlu þorpi í Færeyjum. Þeir voru síðan jarðsettir í kirkjugarðinum í Reykjavík. Tóftin sést enn niður við Endana.

Sléttlent og grösugt er ofan við Staðarmalir. Þar mátti sjá móta fyrir gömlum görðum á tveimur klapparhólum og svo virðist sem gerði hafi verið í lægðinni milli hólanna. Vestan þeirra er nokkuð stór aflöng tóft. Svo er á sjá sem hlaða hafi verið í vesturendanum á henni. Hluti skipsskrokks var upp á Staðarmölum sem og ýmislegt brotakyns. Ofan þeirra mátti t.d. sjá hvalbein og ýmislegt annað forvitnilegt.

Staðarberg

Staðarberg – Bergsendi ofan Ræningjaskers.

Þegar komið var út á Bergsenda mátti sá Bergsendaskerið þar utan við. Ræningjasker er nokkru austar. Klappirnar á Berghrauni eru þarna vel sléttar og þarna er ákaflega fallegt í góðu veðri, eins og nú, en eflaust getur þarna verið skaðvænlegt líkt og verið hefur þegar kútterinn Anna rak þar upp í bergið. Gengið var eftir Staðarberginu. Það er nokkuð slétt að ofan og útsýni af því eftir berginu er fagurt. Litadýrðin er mikil og margt ber fyrir augu. Önd lá t.d. grafkyrr á hreiðri sínu uppi á svörtu bjarginu. Áð var á einni syllunni þar sem lítill gatklettur var undir, en víða eru básar og rásir inn í bergið þar sem hraunrásir hafa legið áður með mýkra bergi í.

Staðarberg

Staðarberg.

Ofan við bergið má sjá lagskiptingu nokkurra hrauna, en meginhraunin eru frá Sandfellshæðargígnum og Eldvörpum. Skammt vestar eru Víkur. Skammt ofan við þær má m.a. sjá litla gíga, sem virðast hvorki vera gervigígar né sprengigígar. Helst er að sjá að lítið gos hafi orðið þarna á tiltölulega afmörkuðu svæði eða í samhengi við annað fjær.Sumstaðar mótar fyrir hraunæðum og öðrum skemmtilegum jarðfræðilegum fyrirbærum.

Skoðuð var hlaðin refagildra í Básum ofan við Víkur, en hún er með þeim heillegri á Reykjanesi.

Reykjanesviti

Vagnvegur að Reykjanesvita frá Grindavík.

Gamli vegurinn úr á Reykjanes liggur þarna skammt ofar, svo til nakinn á sléttu helluhrauninu. Sennilega hefur þetta upphaflega verið vegurinn, sem lagður var út að vitanum árið 1918, en síðan hefur verið farið í far vegarins og hann endurbættur. Veginum var fylgt til baka yfir á nýja veginn. Komið var við á hól norðan vegarins, en á honum eru þrjár vörður. Virðast tvær þeirra nýlegri, en sú stærsta gæti hafa verið nota sem mið af annarri vörðu, eða vörðum, sunnar. Gengið var yfir Grænubergsgjá, en í botni hennar er tandurhreint ferskvatn. Austanhennar er hóll, sem Tyrkjavarðan stendur á. Af fæti vörðunnar að dæma hefur hún verið allmyndarleg á meðan var. Þau álög hvíla á vörðunni að Staðarhverfi sé óhætt á meðan hún stendur. Kríuhreiðrum var raðað í móann umhverfis vörðuna.

Staðarhverfi

Staðarbrunnurinn hefur nú verið endurhlaðinn.

Loks var staldrað við Staðarbrunninn vestan við kirkjugarðinn. Brunnurinn var hlaðinn árið 1914 og nú, níutíu árum síðar, er hann að ganga í gegnum endurnýjun lífdaga. Verið er að gera brunninn upp til ánægju, fróðleiks og yndisauka fyrir aðkomandi vegfarendur. Ekki væri úr vegi, einhvern tímann í framtíðinni, að kíkja inn í hólinn sunnan við brunninn. Í honum á að vera gamall bær, Krukka, sem sandfok lagði í eyði, sennilega á 16. eða 17. öld. Ekki er ósennilegt að minjar kunni að leynast í öðrum hólum við Hundadalinn (í túninu).
Líkt og staðendurnar er lágu á hreiðrum sínum ofan við Staðarvörina lágu frænkur þeirra, syrgjendurnar, á hreiðrum sínum í kirkjugarðinum á Stað. Friður og ró ríkti á svæðinu.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 4 klst. og 4 mín.

Refagildra

Refagildra í Básum.

Vatnsleysa

Gengið var um Keilisnesið og skoðuð refagildra, sem þar er, ein af nokkrum.

Keflavíkurborg

Keflavíkurborg.

Þá var haldið til Keflavíkur þar sem Sturlaugur Björnsson fylgdi FERLIR um Hjalla. Gerð var leit að Ásrétt innan Vallargirðingar, en mikil spjöll hafa verið unnin þar á varnasvæðinu og erfitt að sjá hvar réttin gæti hafa verið. Þó mátti giska á hvar bærinn Hjallatún hafi verið. Skoðaðar voru tóttir austan Flugstöðvarinnar og er ein þeirra greinilega gömul fjárborg (Keflavíkurborg).
Skoðuð var gömul rétt sunnan við Bergvötn, brunnur vestan við vötnin og hugsanlega gamlar seltóttir þar nálægt. Mjög gróið er í kringum Bergvötn. Sunnan þeirra lá gamla þjóðleiðin milli Keflavíkur og Leiru.

Stapi

Stapi – landamerkjavarða.

Í bakaleiðinni var komið við á landmælingavörðu á Stapa, en í henni er gamall koparskjöldur með merki Landmælinga Íslands þar sem segir m.a. að “Röskun varði refsingu”. Þá var komið við í Hrafnagjá og skoðuð áletrunin ofan við Magnúsarsæti (SJ-1888-ME) og loks var ákveðið að líta betur á letursteininn dularfulla við Stóru-Vatnsleysu. Sæmundur bóndi á Stóru-Vatnsleysu hafði beið FERLIR um að gera sér nú þann greiða að ráða letrið áður en hann færi yfir um. Það hefði alltaf verið leyndardómur á bænum og hann og fleiri hefðu lengi reynt að ráða í hvað stæði á steininum.

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinninn við Stóru-Vatnsleysu – á hvolfi.

FERLIRsfarar settu upp húfurnar máttugu og síðan var reynt að ráða gátuna, sem óleyst hefur verið í gegnum aldirnar þrátt fyrir margar tilraunir hinna hæfustu manna. Tvær gamlar sagnir eru til um stein þennan, en aldrei hefur tekist að lesa hvað á honum stendur – þangað til núna. Á steininn er klappað ártalið 1643 og á honum eru stafirnir GI er mætast í keltneskum krossi ofan við I-ið.
Galdurinn við ráðninguna var að lesa steininn “á röngunni”. Hann hefur einhvern tíman oltið um og snýr hann því einkennilega við mönnum þegar reynt er að lesa á hann. En sem sagt – þessi gáta er ráðin. Steinninn er því næst elsti ártalssteininn á Reykjanesi, sem enn er fundinn.

Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa. Tóftir kirkju og kotbýlis.

Skammt frá, nær íbúðarhúsinu á Vatnsleysu, var áður kirkja. Á rústum hennar var reist hús, en svo mikill draugagangur var þar að hurðir héldust ekki á hjörum. Það var síðan rifið. Ekki er ólíklegt að steinnin hafi verið grafsteinn eða til minningar um einhvern tiltekinn atburð eða ábúanda/fólk á svæðinu.
Frábært veður.

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinninn við Stóru-Vatnsleysu.

Kálfatjörn

Haldið var Kálfatjörn og farið þar niður í fjöru með fyrrum leturstein (hornstein) úr sjóbúð þar í huga. Ofan við Kálfatjarnarvör hafði verið steinhlaðið sjóbyrgi, sem sjórinn hafði tekið. Í birginu átti að vera ártalssteinn með áletruninni 1677 skv. Ægi, 9. tbl. árg. 1936.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – letursteinn/hornsteinn í fjörunni.

Á göngunni kom í ljós “Steinninn”. Hann lá efst í fjörunni og hafði jarðýtu nýlega verið ekið yfir hann. Á steininum stóð áletrað “A° 1674. Hann var ljósmyndaður og birtist frásögn um þann merkilega fund í MBL. Þá var skoðaður ártals- og skósteinn í brú vestan Kálfatjarnarkirkju. Á honum átti að vera ártalið 1776, en á honum er áletrunin A°1790. Loks var skoðaður gamall fallega hlaðinn brunnur norðvestan við kirkjuna.
Frá Kálfatjörn var haldið á Vatnaheiði og síðan farið að Vesturbæ á Þórkötlustöðum.

Heródes

Heródes – álaga- og rúnasteinn.

Vestan við Vesturbæinn er álagasteinn, Heródes, sem þar hefur verið óhreyfður í margar kynslóðir. Á meðan hann fær að vera í friði er íbúunum óhætt.

Þá var haldið vestur fyrir Járngerðarstaði og skoðað fjárskjól við vegkantinn og loks haldið að Klifi þar sem Helgi Gamalíasson tók á móti hópnum. Leiddi hann hópinn um gamla Reykjanesveginn (sem ekki var vitað að væri til) að Básum þar sem leitað var að ævargamalli steinrefagildru. Þjálfað liðið fann gildruna í hraunkanti skammt ofan við ströndina. Um er að ræða einstakar og heillegar minjar.
Frábært veður.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – ártalssteinninn.

Refagildra

Eftirfarandi er hluti af skrifum Þórs Magnússonar, Hrafnahrekkurinn – sitt af hverju um refagildrur – úr Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1980. Skrifin eru í framhaldi af skoðun hans á hlaðinni refagildru á Norðausturlandi er þótti merkileg, ekki síst fyrir það að einungis var þá vitað um mjög fáar aðrar slíkar hér á landi, þ.á.m. við Selatanga og Grindavík. Skrifin eru einkar áhugaverð þegar haft er í huga að nú, aldarfjórðungi síðar, eru 102 slíkar þekktar á Reykjanesskaganum einum, landssvæði sem jafnan hefur þótt lítt áhugavert í augum fornleifafræðinga.

Refagildra ofan við Húsatóftir

“Víða um landið eru örnefni, sem hafa að fyrra lið orðið gildra. Þannig eru fjölmörg Gildruholt, Gildruklettar og Gildrumelar og getur sumsstaðar að líta á þessum stöðum steinhrúgur, sem líkjast stundum föllnum vörðum, en sums staðar sést á þeim nokkur lögun. Þetta eru refagildrurnar, sem tíðast hafa verið hlaðnar á klöpp eða þar sem jarðvegur var svo þéttur, að refirnir gátu ekki grafið sig út úr þeim.
Sennilegt er, að grjótgildrur þessar hafi verið algengasta veiðitækið á refi hérlendis áður en byssur urðu algengar. Dýrabogar hafa þó þekkst lengi, enda er minnst á boga í kvæðinu um Hrafnahrekkinn og notaði veiðimaðurinn hann samhliða gildrunni, en trúlega hafa þeir fyrst orðið algengir á síðustu öld.

Krossgildra ofan við Hraun

Erlendis voru stærri veiðidýr, svo sem hreindýr, úlfar og birnir veidd í fallgryfjur, en eiginlegar fallgryfjur eru vart þekktar hérlendis. Thedór Gunnlaugsson lýsir þó í bók sinni Á refaslóðum, fallgryfjum sem gerðar hafi verið í snjó fyrrum, en ekki getur hann þess, hve veiðnar þær hafi verið, enda hefur hann aðeins heyrt um þessa veiðiaðferð. Heimild er þó um, að í Hornafirði hafi gryfjur verið hlaðnar úr grjóti með lóðréttum veggjum eða jafnvel svolítið inn yfir sig. Dýpt þeirra var nokkur, eða svo mikil að öruggt væri að dýrin gætu ekki stokkið eða klifrað upp úr gryfjunum. Á gryfjubotninum var agninu dreift.
Til eru lýsingar af grjótgildrum þar sem hvatt er til að bændur útbúi þær til refaveiða. Elsta og jafnframt gleggsta lýsing þeirra er í Atla, riti Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal, fyrst pr. Í Hrappsey 1780. Þar segir, að dýrabogar leggist nú mjög af, en bóndi veitir Atla þarna nákvæma fyrirsögn um, hversu hann skuli útbúa gildrur sínar. Er lýsingin í rauninni nákvæmlega hin sama og hér mun brátt skýrt frá, en gert er ráð fyrir að hellan, sem lokar munnanum, sé krossbundin eða með gati, til að hún hlaupi niður í réttri andrá.

Refagildra ofan við Bása

Í Lærdómslistafélagsritunum, XII b. 1792, er grein um refaveiðar eftir Þórð Þorkelsson. Hann nefnir grjótgildrurnar en lýsir þeim ekki, þar sem þeim sé lýst í Atla og efast hann jafnvel um gagnsemi þeirra. Víða í 19. aldar ritum eru greinar og leiðbeiningar um refaveiðar og má t.d. nefna grein í Reykjavíkurpóstinum 1848 þar sem segir, að slíkar grjótgildrur hafi verið víða tíðkaðar fyrrum en nær enginn beri nú við að nota þær. Þar segir einni, að dýrabogar séu nú orðnir sjaldséðir, og hafi hina gömlu veiðiaðferðir vafalaust þokað fyrir skotveiðinni á þessum tíma.
Theodór Gunnlaugsson, hin þekkta refaskytta, segist í fyrrnefndri bók sinni stundum hafa Refagildra við Húsfellhlaðið grjótgildrur við greni til að veiða yrðlinga í eftir að fullorðnu dýrin höfðu verið unnin og mun hann sennilegast vera síðastur manna til að nota þær hérlendis.
Vafalaust hafa ýmsir orðið til að taka upp notkun grjótgildra eftir hvatningu Björn Halldórssonar í Atla. Atli var prentaður þrívegis og fyrstu prentuninni að minnsta kosti dreift ókeypis og hafa því margir kynnst því riti á 18. og 19. öld. En það lætur að líkum að veiðiaðferðin hefur verið seinleg og gildrurnar ekki alltaf fengsælar og hefur t.d. skotveiði úr skothúsum verið margfalt stórvirkari, enda mjög tíðkuð á síðustu [19.] öld að minnsta kosti.
Grjótgildrur eru þekktar á Grænlandi og hefur svo verið talið, að þær væri frá tímum Grænlendinga hinna fornu, en þær hafa einnig verið notaðar þar í seinni tíð af bændum landsins. Er mér næst að ætla, að Grænlendingar hafi lært notkun þeirra af norrænum mönnum ámiðöldum, en dæmi eru um, að þeir hafi tekið upp áhöld og vinnuaðferðir norrænna manna. Sá ég líka gildru á Grænlandi 1977 í grennd við forna rúst í Qordlortoq-dal, og virtist hún helst vera frá byggð norrænna manna, en einnig voru þar í notkun nýjar refagildrur af nokkuð annarri gerð.

Refagildra í Vogaheiði

Sigurður Breiðfjörð lýsir grænlenskum gildrum í bók sinni frá Grænlandi, sem kom út 1836, en einkennilegt er, að hann virðist ekki þekkja notkun slíkra gildra á Íslandi og hvetur bændur hér til að setja slíkar skollagildrur, eins og hann nefnir þær, í landareignum sínum.
Ég hef ekki gert gangskör að því að kanna útbreiðslu þessara gildra, en viðbúið er að langflestra þeirra sé getið í örnefnaskrám einstakra jarða, sem vaðveittar eru í Örnefnastofnun Þjóðminjasafnsins. Árið 1964 var send út spurningaskrá frá Þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins þar sem spurt var aukalega um slíkar refagildrur og hvað menn kynnu að segja um notkun þeirra. Bárust svör allvíða að af landinu og reydust 20 heimildarmenn þekkja gildrur eða leifar þeirra eða þá örnefni, sem ótvírætt benda til að gildrur hafi verið á þeim stöðum, þótt þeirra sæjust stundum engar leifar nú. Eru þessir staðir dreifðir um allt land að kalla má, sumir úti við sjó en aðrir inn til landsins, venjulegast í grennd við bæi eða beitarhús, þar sem menn fóru of um á vetrum…

Refagildra við Selatanga

Á hraungarði vestan við Selatanga eru nokkrar hlaðnar refagildrur og hjá Grindavík er rúst af gildru.
Greinilegt er af lýsingum þeirra, sem upplýsingar hafa gefið um gildrur þessar, að þær eru flestar af sömu gerð, úr allstóru grjóti, aflangar og munninn látinn snúa undan veðurátt.
Einn heimildarmaður greinir frá slíkri gildru úr tré, aflöngum tréstokki um 3 álnir á lengd og voru lok við báða enda og rann annað fyrir er refurinn var kominn inn í stokkinn, en grjóti var hlaðið umhverfis stokkinn svo að minna bæri á honum utan frá séð.
Gildra á Húsafelli sýnir vel hversu grjótgildrur voru gerðar í meginatriðum. Gildran er hlaðin efst á klettakambi og lítur út til að sjá eins og grjóthrúga. Hefur hún áreiðanlega alla tíð verið mjög áberandi og er svo um aðrar þær gildrur, sem ég hefi séð og hefur greinilega ekki verið reynt að fela þær eða hylja þær jarðvegi. Hefur verið leitast við að hafa gildrurnar þar sem hátt bar svo að þær færu ekki á kaf í snjó og mestu máli skipti, að þær væru þar sem refir fóru um í ætisleit á vetrum, en gildruveiðar munu einkum hafa verið stundaðar að vetrarlagi.

Refagildra í Berghrauni

Gildran á Húsafelli er þannig gerð, að á klappirnar hefur verið hlaðið stórum steinum, sem sumir eru vel meðalmannstak. Eru þrír steinar í röð hvorum megin og milli þeirra um 30 cm bil, en fyrir enda tveir steinar. Þannig myndast eins konar gangur, um 150 cm langur, sem er opinn í þann enda sem í norður snýr, og þar er munninn, sem lágfótu hefur verið ætlað að fara inn um. Ofan á grjótganginum eru síðan aðrir stórir steinar, sem mynda þak. Síðan hafa allar glufur og op verið þéttuð með minni steinum oggengið svo frá, að sem minnst op væru á gildrunni nema munninn.

Refagildra

Milli tveggja fremstu steinanna í þakinu er nokkur glufa. Þar hefur verið skorðað allvænlegt hellublað, sem enn lá hjá gildrunni, um 20 cm breitt neðst og um 30 cm hátt, og gegnum það er klappað smágat ofarlega. Í gatinu hefur verið trétittur, sem legið hefur milli þaksteinanna og hellan þannig hangið uppi. Í tittinn var síðan bundið snæri, sem lá ofan á gildrunni og niður í hana aftast, hinn endinn bundinn í agnið, sem væntanlega heftir tíðast verið kjötbiti. Lá agnið innst í gildrunni og var nú útbúnaðurinn þannig, að þegar tófan skreið inn í gildruna og glefsaði í agnið og dró það til sín, kipptist titturinn úr gatinu og hellan rann niður.

Refagildra

Rýmið í sjálfri gildrunni hefur verið við það miðað, að tófan kæmist mátulega fyrir en gæti ekki snúið sér við. Þannig átti hún erfitt með hreyfingar og gat með engu móti komist út aftur, enda var hún nú auðunnin í gildrunni, t.d. með broddstaf, sem lagt var inn á milli steinanna.
Gildra af þessari gerð er í raun einföld, en talsverða nákvæmni hefur þurft til að stilla helluna svo vel af, að hún rynni auðveldlega niður og skorðaðist og lokaði refinn inni. Er líklegt, að gildrur þessar hafi verið misvel veiðnar, enda er lágfóta kæn og kvekkist auðveldlega og er vör um sig, ekki síst ef hún finnur mannaþef af agninu. En í hörðum árum, þegar sultur svarf að, hefur svengdin orðið tortryggninni yfirsterkari.
Þessi gildra er hin eina, þar sem ég veit til að hellan hafi verið með gati fyrir trétitt. Annars hefur hellan yfirleitt verið krossbundin og lykkju á hinum enda bandsins bundið um afsleppan trétitt eða hvalbeinshæl innst í gildrunni þar sem agninu var komið fyrir, líklegast oftast smeygt bak við bandið.

Refagildra

Þegar glefsað var í agnið kipptist bandið fram af tittinum og hellan féll niður.”
Rétt er að endurtaka það sem fyrst var sagt; að FERLIR hefur nú staðsett og skoðað um 80 hlaðnar refagildrur, sem hér hefur verið lýst, á Reykjanesskaganum. Sumar þeirra verða að teljast fornar og sennilega eru þær allar eldri en 100 ára og því friðaðar skv. ákvæðum gildandi þjóðminjalaga.

Heimild m.a.:
Hluti af skrifum Þórs Magnússonar, Hrafnahrekkurinn – sitt af hverju um refagildrur – úr Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1980.

Refagildra í Eldvörpum - fallhellan er fyrir opinu

Selatangar

Á Selatöngum eru minjar gamallar verstöðvar. Núverandi minjar eru líkast til u.þ.b. tveggja alda gamlar, en eflaust hafa þær tekið breytingum frá því að verstöðin var fyrst notuð sem slík.

Á Töngunum

Á Selatöngum.

Á Selatöngum má enn sjá tóftir tveggja búða (Vestari búð og Austari búð) auk þess sem sést móta fyrir útlínum fleiri, verkunarhús þar sem gert var fyrst að fiskinum, þurrkbyrgi, þurrkgarða, þurrkreiti, brunn, smiðju, skúta með fyrirhleðslum, hesthúsi, Nótarhelli (þar sem dregið var fyrir sel), Mölunarkór, Sögunarkór og Smíðahelli, auk gamalla gatna og hlaðinna refagildra. Vestan við Seltanga er hið merkilega náttúrufyrirbrigði “Ketillinn” í Katlahrauni og fjárskjól þeirra Vigdísarvallamanna (hlaðið skömmu eftir aldarmótin 1900).

Selatangar

Selatangar – rekagatan um Katlahraun.

Gengið var einn góðan sumardag árið 2002 um Selatanga með Jóni Guðmundssyni frá Ísólfsskála, sem hann man eftir minjunum eins og þær voru þegar hluti verstöðvarinnar var enn í notkun. Hann lá þar með föður sínum í Vestustu búðinni árið 1926 er Skálabóndi gerði enn út frá Töngunum. Jón minntist þess að reki hafi verið reiddur þaðan að Ísólfsskála eftir vestari Rekagötunni, sem liggur í gegnum Ketilinn og áleiðis heim að Skála. Leiðin er vörðuð að hluta, en víða sjást förin eftir hófa og fætur liðinna alda í klöppinni. Austari Rekagatan liggur til norðurs vestan vestari Látra. Rekagötunar voru einnig nefndar Tangagötur. Tækifærið var notað og svæðið rissað upp eftir lýsingu Jóns.

Selatangar

Á Selatöngum.

Jón sýndi m.a. Smíðahellinn, Sögunarkórinn, Nótahellinn, refagildrurnar, brunninn, smiðjuna, búðirnar, fiskvinnslubyrgin, þurrkbyrgin, þurrkgarðana, smiðjuna, skútana, lendinguna, Dágon (landamerkjastein Ísólfsskála og Krýsuvíkur, en verstöðin er að mestu innan landamerkja síðarnefndu jarðarinnar), skiptivöllinn o.fl. Ljóst er að ströndin hefur tekið miklum stakkaskiptum á síðustu áratugum og þarf að horfa á og meta aðstæður með tilliti til þess. Sjórinn hefur nú að mestu brotið skiptivöllinn sem og Dágon.

Selatangar

Selatangar – refagildra.

Jón taldi almennan misskilning ríkja um hlaðna fjárbyrgið norðan við Ketilinn. Sumir telja það mjög fornt, en það hefði í rauninni verið hlaðið af föðurbróður hans frá Vigdísarvöllum skömmu eftir aldarmótin 1900 vegna þess að fé þeirra Vígdísarvallamanna hefði tíðum leitað í fjöruna og þeir þá átt í erfiðleikum með að reka það hina löngu leið til baka. Því hafi skútinn verið hafður þarna til skjóls.

Selatangar

Fjárskjól í Katlahrauni.

Borgarkot

Gengið var frá Stefánsvörðu, um Borgarkotsstekk, að hlaðinni refagildru ofan við Borgarkotstúnið. Þaðan var gengið að Hermannavörðunni, fallinni og raskaðri á hól við austurlandamerki Borgarkots, stórgripagirðingunni gömlu er liggur við hann áleiðis upp frá ströndinni og síðan þaðan til veturs í átt að Kálfatjörn. Henni var fylgt niður að Þjófabyrgi og síðan vestur með ströndinni að Borgarkotstóttunum. Láfjöróttur sjórinn var spegilsléttur. Krían var mætt á svæðið og fór mikinn.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.

Við skoðun á tóttum Borgarkots bættust þrjár tóttir við þær fjórar, sem áður höfðu verið skoðaðar. Ljóst er að þarna hafa verið mun meiri umsvif en álitið hefur verið. Sjórinn hefur brotið smám saman af ströndinni, en túnið hefur náð mun lengra fram á klappirnar líkt og annars staðar með ströndinni. Framan við þær er myndarleg vör, sem líkast til hefur verið notuð fyrr á öldum, en kotið fór í eyði á 18. öld þegar bóndinn var ranglega sakaður um að hafa skorið sauð Flekkuvíkurbónda á aðfangadag. Síðar mun hafa komið í ljós að sauðurinn var prestsins á Kálfatjörn. Vont að þurfa að missa allt sitt fyrir sauðsmisskilning. Lokið var við uppdráttargjörð af svæðinu.
Borgarkot var um tíma nýtt frá Viðeyjarklaustri (sjá fyrri umfjöllun um Borgarkotssvæðið). Klaustrið átti margar jarðir með norðanverðum skaganum, umhverfis Reykjavík og á sunnanverðu vesturlandi (sjá meðfylgjandi kort).
Vatnssteinar (Vaðsteinar) voru litnir augum, en á milli þeirra er fallegt vatnsstæði. Vestan þess er hlaðið gerði eða rétt. Vestan réttarinnar má sjá hleðslur er að öllum líkindum tengjast refaveiðum. Ein hrúgan ber þess ummerki að hafa verið refagildra. Sjá má hlaðinn “ganginn” í henni ef vel er að gáð.

Borgarkot

Jarðeignir Viðeyjarklausturs á Reykjanesskaga.

Að þessari gaumgæfingu lokinni var strikið tekið suður heiðina í leit að svonefndum Bakkastekk. Hann fannst eftir stutta leit, greinilega mjög forn. Hann er á hraunhól allnokkuð suðsuðaustur af Bakka. Búið var að umbreyta austurhluta hans og hlaða úr honum refagildru. Þarna virðist því víða hafa verið átt við refaveiðar. FERLIR hefur skoðað um 70 hlaðnar refagildrur á Reykjanesi en ótaldar eru tvær mjög gamlar gildrur skammt ofan við gildruna ofan Borgarkots, gildra ofan við Húsatóftir, sem og tvær gildrur í Hraunsleyni ofan við Hraun og jafnvel gildra á Stóruflöt við Grindavík. Gildrurnar þarna virðast allar hafa sömu lögun og líklega gerðar af sama manninum. “Fellan” virðist hafa verið hentugur steinn, en ekki slétt þunn hella, eins og t.d. í gildrunum á Selatöngum, við Húsfell, í Básum og undir Sundvörðuhrauni. Sumar heimildir segja gildruveiðar þessar vera komnar frá landnámsmönnum, en aðrir vilja meina þær yngri. Þær virðast þó að mestu hverfa eftir að byssur urðu almenningseign hér á landi. Þó er ekki óraunhæft að álíta að menn hafi haldið við einstaka refagildrum, einkum þeim sem voru á reglulegri leið þeirra, s.s. í beitarhús eða á rekagöngum.
Tiltölulega auðvelt væri að endurgera refagildrur líka þeim, sem fyrr voru notaðar, svo heillegar eru þær sem eftir standa.
Veður var frábært – sól og blíðviðri.
Gerður var uppdráttur af svæðunu (sjá mynd).
Frábært veður.

Borgarkot

Refagildra ofan Borgarkots.

Hlíð

Refagildrur eru nokkuð misjafnar að gerð en oftast grjóthlaðnir stokkar eða kassar sem hellur hafa verið lagðar yfir og grjóti jafnvel hlaðið þar ofan á. Agn var látið inn í gildruna og tófan þannig tæld inn en þá lokaðist stokkurinn með þar til gerðum lokubúnaði.
RefagildraTalið er að fyrstu gerð refagildra hafi komið með norrænum landnámsmönnum frá Noregi. Þar hafa fundist sambærilegar gildrur og hér á landi.
Refagildrurnar voru hlaðnar úr hellum þannig að þegar tófan ætlaði að sækja agn sem var inni í gildrunni féll dyrahellan aftur og lokaði dýrið inni.
Fyrir u.þ.b. 30 árum þótti það sérstökum tíðindum sæta að hlaðin refagildra fannst á Norð-Austurlandi. Embættismenn úr Reykjavík gerðu sér ferð norður til að líta fyrirbærið augum. Eftir miklar vangaveltur og pælingar kom út skýrsla um þessar svo merkilegu mannvistarleifar.
RefagildranÁ sama tíma mátti  lesa í örnefnalýsingum bæja á Reykjanesskaganum að þar hefðu verið til sambærilegar mannvistarleifar frá löngu liðnum tíma. Fáir virtust hafa sérstakan áhuga á því.
Eftir að FERLIR fór að leita skipulega að mannvistarleifum á Reykjanesskaganum hafa verið staðsettar um 90 hlaðnar refagildur í misjöfnu ástandi. Sumar eru alveg heilar og nánast ósnertar á meðan öðrum hefur verið raskað. Nýjasta refagildran (og varla sú yngsta) fannst nýlega austan við Hlíð í Selvogi. Hún er á lágu klapparholti og snýr opið til norðurs. Gildran, sem er mjög heilleg, fellur mjög vel inn í umhverfið. Nú er hún orðin bæði mosa- og skófvaxin svo mjög erfitt er að koma auga á hana í landinu.

Heimildir m.a.:
-www.instarch.is/instarch

Hlíð

Hlíð – uppdráttur.