Færslur

Hlíð

Hlíð stendur við Hlíðarvatn í Selvogi. Hún mun vera landnámsbær. Þórir haustmyrkur er sagður hafa sest þar að fyrstur manna. Mikið af minjum er við vatnið, en upphaflega mun bærinn hafa verið í Hjallhólma, sem nú er varla svipur hjá sjón eftir að hækkaði í vatninu. Nú vottar einungis fyrir minjum utan í hólmanum.

Hlíð

Tóftir við Hlíð.

Gengið var um tóftirnar norðaustan vatnsins, um Hjallhólma, Arnarþúfu og yfir á Réttartanga. Þar skammt sunnar eru Borgirnar þrjár, fjárborgir frá Vogsósum. Gömlu götunni frá Vogsósum áleiðis að Selvogsgötu (Suðurfararvegi) var fylgt til austurs, framhjá Vogsósaseli og upp í Katlabrekkur. Þar var Hlíðarselið og Hlíðarborgin skoðuð áður en haldið var vestur Hlíðargötu, framhjá Borginni undir Borgarskörðum, fjárhústóftum skammt vestar og endað í rústunum ofan við Hlíð (ofan þjóðvegarins).

Stakkavík

Stakkavík og Hlíðarvatn – örnefni.

Gísli Sigurðsson ritaði m.a. um Hlíð. Hann taldi þar hafa verið stórbýli fyrrum. Hafi hún um aldaraðir verið eign Strandarkirkju og er það enn. Jörðin hafi verið í eyði um 90 ára skeið. “Þar eru nú rústir einar. Bærinn stóð á Bæjarhólnum, lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn.
Hlíðartún er nú óræktarskiki, en hafði verið mun stærra í eina tíð. Auk Bæjarhólsins eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Fornmannshóll er í túninu norðaustan og ofan bæjarins.

Tlíð

Tóft við Hlíð.

Hlíðarvatn liggur undan túnfætinum og voru mikil hlunnindi að, enda galt Hlíðarbóndinn þangskurð og reka með silungi til annarra jarða í Selvogi. Vestast voru mörkin milli Hlíðar og Stakkavíkur um vik niður undan Urðarskarði. Innar eða fyrir miðri Urðinni er Bleikjunef; þar var góður veiðistaður. Hlíðarmöl er þar innar, vestan túnsins, sem einnig var aðeins nefnd Mölin. Uppspretta er nálægt miðri Mölinni, heitir Buna.
Ofan Malarinnar eru rústirnar, en þar segja fróðir menn og konur, að bærinn hafi staðið, eftir færslu úr Hjalltanga. Innarlega á Mölinni er tjörn, kölluð Hvolpatjörn eða Kettlingatjörn, og rennur úr henni vatn um Tjarnarlæmið.

Stakkavíkurselsstígur

Útsýni úr Selskarði yfir Hlíðarvatn og Stakkavík.

Tangi eða hólmi er úti í vatninu fram undan bænum; Hjalltangi eða Hjallhólmi er hann nefndur. Þar á bærinn að hafa staðið upphaflega. Arnarþúfa er suður af tanganum. Sat þar örninn oft og hlakkaði yfir veiði. Þar fyrir sunnan skerast inn í landið vikin þrjú. Þar er fyrst Kristrúnarvik, og þá Girðingarvik, sem er nýlegt nafn, og þá vik með mörgum nöfnum, Vondavik, Forar-vik og Moldarvik. Í viki þessu var venjulega kafhlaup af for, og því eru nöfnin. Gerð hafði verið brú með grjóti yfir vikið, og var að því nokkur bót. Rakarsker er nýnefni á skeri einu eða hólma fram af vikunum. Nethóll er tangi með hundaþúfu á og er hann einnig nefndur Jónstangi, en fram af honum drekkti sér maður, er Jón hét.

Borgarskörð

Fjárborg undir Borgarskörðum.

Handan við Vondavik er Réttartangi, og eru þar Selvogsréttir, með safngirðingu, almenningi og dilkum. Í Réttartanga skerst vik, sem sumir kalla Selvik, en suður frá réttunum eru Selbrekkur. Þar á að hafa verið sel frá Hlíð eða Hlíðarsel; ber þó ekki öllum saman. (Þórarinn Snorrason á Vogsósum sagði selið hafa verið frá Vogsósum, enda í landi jarðarinnar). Marknes var þar utar eða um 400 metra frá Selvogsréttum. Úr nesi þessu lá landamerkjalínan milli Hlíðar og Vogsósa. Hlíðarfjall byrjar við Urðarskarð, og eru þar landamerki Hlíðar og Stakkavíkur, og nær inn að Katlabrekkuhrauni.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Hlíðin, Brekkur, Hlíðarbrekkur og Hlíðarfjallsbrekkur eru brekkurnar inn með fjallinu kallaðar. Einnig eru brekkurnar nefndar Urðin eða Stórurð, en rétt mun vera, að hluti sá, sem stórgrýttastur er, heitir svo, en það er mikil og stór-grýtt urð ofan frá brúnum niður í vatn, nær miðju. Slóðir tvær liggja eftir Brekkunum og eru nefndar Slóðin neðri og Slóðin efri.
Skjólbrekka var vestan Hlíðarskarðs. Hlíðarfjallsbrúnir voru brúnir fjallsins nefndar, en þær byrjuðu við Urðarskarð.
Á brúnunum norður og upp frá bænum voru Hamrarnir og voru fjórir móbergsstallar. Hinn vestasti hét Arnarsetur og hinn austasti Skjólbrekkuhamar upp frá Skjólbrekku. Þá tók við Hlíðarskarð með Hlíðarskarðsstíg.

Hlíðarkot

Hlíðarkot.

Skútar nokkrir, sem fé leitaði skjóls í, voru uppi undir Hömrunum. Stekkatúnsbrekkur voru brekkur í fjallinu vestan við Háhamar, og þar hafði verið Stekkur og Stekkatún.
Hlíðargata lá frá Hlíð austur og inn með fjallinu. Kirkjugata lá frá Hlíð suður með vatninu um Vondavik að Vogsósum og áfram suður að Strandarkirkju.”

Vogsósasel

Vogsósastekkur (heimasel).

Í Selbrekkum eru tóftir Vogsósasels. Götunni var fylgt upp Katlabrekkurnar þangað til komið var að Hlíðarseli. Fjárborg er við selið, en norðan þess er Hlíðarborgin undir háum klapparhól. Hlaðin tóft er í borginni. Enn ofar, undir Svörtubjörgum er Strandarsel (Staðarsel). Skammt frá borginni er fjárborgin undir Borgarskörðum. Hún stendur, gróinn, á hól og sést því vel úr nokkurri fjarlægð. Vestan hennar eru tóftir fjárhúsa eða sauðakofa. Við þau liggur Hlíðargatan niður að Hlíð. Á leiðinni var komið við í Ána, stórum skúta í Katlahrauni. Hlaðið hefur verið umhverfis opið, en auk þess er hleðsla sunnan við þá hleðslu.
Tækifærið var notað og minjasvæðið við Hlíðarvatn rissað upp.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Stakkavík

Hlíðarvatn – Stakkavík – örnefni.

Hlíðarvatn

Gengið var um Selvogsgötu frá Bláfjallavegi, upp Kerlingarskarð og áfram niður Hlíðarveg, um Hlíðarskarð og niður að Hlíð við Hlíðarvatn.

Selvogsgata

Selvogsgata – Gísli Sigurðsson.

Skammt ofan Bláfjallavegar greinist Selvogsgatan. Annars vegar liggur hún áfram áleiðis upp að Kerlingarskarði og hins vegar til vinstri, áleiðis að Grindarskörðum. Síðarnefnda leiðin hefur lítið verið farin í seinni tíð, en þá leið var t.d. farið þegar burðarhestar voru með í för.
Á leiðinni upp í skarðið blasir Stóri bolli, Tvíbolli og Þríbolli við, en eru einu nafni nefndir Bollar eða Grindaskarðshnúkar. Beggja vegna götunnar eru hellisskútar. Einn þeirra er með einstaklega fallegu rósamynstri í lofti. Skammt austan hennar er stórt ílangt jarðfall, hrauntröð úr Miðbolla, en hann er einn fallegasti eldgígur landsins. Í rauninni eru þrír gígar í honum; sá stærsti efst, einn í honum norðanverðum og annar norðvestanvert í honum.
Ofarlega undir Kerlingarskarði eru tóftir af húsi brennisteinsnámumanna. Efst í því, vinstra megin þegar komið er upp, er drykkjarsteinn, skessuketill í móbergssteini. Hann hefur löngum komið til tals þegar fjallað er um þessa leið, enda stólaði fólk yfirleitt á vatnið í steini um á ferðum sínum. Í sumum frásögnum er talað um fleiri en einn drykkjarstein í skarðinu.

Kerlingarskarðsvegur

Kerlingarskarðsvegur – drykkjarsteinn.

Þegar komið er upp á brún sjást eldgígar á hægri hönd, Draugahlíðar framundan og Miðbolli og Kóngsfell á vinstri hönd. Utar má sjá Stóra-Kóngsfell og Drottningu, Stórkonugjá og Bláföllin. Reykjavegurinn kemur þarna inn á Selvogsgötuna. Þegar gengið er niður brekkuna mót suðri er komið að gömlu hliði á götunni. Nálægt því eru gatnamót. Selvogsgatan heldur áfram áleiðis niður að Litla-Kóngsfelli og síðan áfram til suðurs um Hvalskarð og Strandarhæð í Selvog.
Gata, sem liggur til hægri og nú er vel vörðuð, nefnist Hlíðarvegur og liggur að Hlíðarskarði ofan við Hlíð. Þessi gata hefur verið vinsæl gönguleið í seinni tíð. Hún er vel greiðfær, liggur niður með vestanverðum Hvalhnúk og Austurásum og er síðan tíðindalítið að skarðinu ofan við Hlíð. Stakkavíkurselsstígur kemur inn á götuna neðan Vesturása og miðja vegu að Hlíðarskarði er stór og falleg hraunbóla í hraunhól (hægra megin – lítil varða við opið). Skömmu áður en komið er að henni er ágætt skjól í lágum grónum hraunhól, kjörinn áningarstaður.

Selvogsgata

Selvogsgata – Ólafur Þorvaldsson.

Þegar komið er í Hlíðarskarð blasa við fallegar klettamyndanir og fallegt útsýni yfir Hlíðarvatn, Vogsósa og Selvog. Ágætt er að feta sig rólega niður skarðið og njóta útsýnisins og gróðursins í hlíðinni.
Tóftir eru undir Hlíðarskarði og ofan (norðan) og vestan við veiðihúsið undir skarðinu. “Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn. Tangi eða hólmi er út í vatninu fram undan bænum; Hjalltangi eða Hjallhólmi er hann nefndur. Þar á bærinn að hafa staðið upphaflega . Árið 1501 selur Grímur Pálsson Þorvarði Erlendssyni lögmanni Hlíð. Auk Bæjarhóls eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Ofan við Malarinnar eru rústirnar, en þar segja fróðir menn og konur, að bærinn hafi staðið, eftir færslu úr Hjalltanga.”
Veður var frábært – sól og lygna. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimildir eru m.a. úr örnefnaskrá fyrir Ölfus; Orri Vésteinsson og Hildur Gestsdóttir.

Hlíðarskarð

Hlíðarskarð.

Selvogsgata

“Þetta var æði”. Svona hljómaði ein lýsingin á ferðinni að henni lokinni.

Selvogsgata

Selvogsgata/Grindarskörð.

Gengið var inn á Selvogsgötu við Bláfjallaveg, en beygt út af henni til austurs skömmu síðar. Ætlunin var að feta Grindarskarðsgötuna upp að Stórabolla og síðan áfram áleiðis til suðurs. Venjan er að ganga Selvogsgötuna upp Kerlingarskarð og síðan áfram hana með Draugahlíðum, niður með Austurásum og síðan niður Hlíðarskarð. Þetta var ekki ferð um hefðbundna leið. Þetta var ferð um gömlu Selvogsgötuna eða Suðurfararleiðina eins og Selvogsbúar nefndur hana, en hún er liggur austar en Selvogsgata sú (stundum nefnd Hlíðarvegur, en var vetrarvegur (KB)) er kemur upp úr Kerlingarskarði og liggur niður með Draugahlíðum, að Hlíðarskarði.

Selvogsgata

Grindarskarðsgata á Hellunni.

Þegar komið var að jeppaslóðinni neðst í Grindarskörðum sást hvar hann liggur á gömlu götunni að hluta. Þegar komið var u.þ.b. þriðjung upp hlíðina beygði gamla gatan til hægri og síðan í hlykki upp hana. Auðvelt var að fylgja henni í hlíðinni því hún var mjög greinileg á köflum. Auðsýnt var að um hestagötu var að ræða. Gatan liggur að vörðu á hraunöxl svo til í miðri hlíðinni og síðan liðast hún áfram upp hana. Gatan hverfur þar sem vatn hefur lekið niður hlíðina og rutt með sér möl og grjóti, en kemur síðan í ljós í næst efstu brekkunni undir Stórabolla. Skammt neðar er varða. Þar liggur hún á ská upp hana og hefur greinilega verið lögið til. Efst við rætur Stórabolla er skarð í klöppina þar sem gatan liggur í gegn. Við skarðið er varða. Gangan upp í skarðið var auðveld, tók u.þ.b. 35 mín. í stað 50 mín. upp Kerlingarskarðið. Þaðan liggur gatan með gígnum að austanverðu og beygir með honum að sunnanverðu. Þar liggur hún til vesturs um gróna velli. Leifar gamallar girðingar er sunnan við Stórabolla. Hún liggur til vesturs og hefur verið hlaðið undir hana á kafla. Skömmu síðar var komið að gatnamótum.

Selvogsgata

Á Selvogsgötu.

Vörðuð leið lá til suðausturs að Stórkonugjá og önnur til suðurs. Eystri gatan er að öllum líkindum Heiðarvegurinn er liggur þaðan um Heiðina há og yfir á Ólafsskarðsveg. Vestari götunni var fylgt yfir slétt helluhraunið áleiðis að Litla-Kóngsfelli.
Veður hafði hangið þurrt þangað til komið var suður fyrir Stórabolla. Þá léku litlir regndropar sér að því að falla ofurvarlega lóðrétt til jarðar. Golan virtist hafa gufað upp. Stillilogn og bráðfallegt veður. Miðbolli og Kóngsfellið böðuðu sig í heiðskírunni og dulrænum bjarma sló á Draugahlíðarnar. Spóavellingur fyllti loftið. Kistufellið vildi greinilega ekki láta sitt eftir liggja til að gera þennan dag ógleymanlegan. Hvítur snjókollurinn reis hæst upp úr nágrannahlíðunum, eins og hann vildi að eftir honum væri tekið. Svona eiga háir tindar að haga sér.

Selvogsgata

Varða á Selvogsgötu.

Komið var að hárri vörðu. Við hana voru greinileg gatnamót. Gata lá við hana frá Selvogsgötunni og áleiðis yfir á Heiðarveginn.
Grindarskarðsgatan hélt áfram frá henni til suðurs. Hún var æ meir áberandi. Kastað hafði verið úr götunni á köflum – greinilega hesta- og lestargata. Hún lá niður með Litla-Kóngsfelli. Suðvestan við fellið, þar sem suðurgígur þess opnast, var komið að mótum þriggja gatna. Þrjár vörður voru við þau. Ein gatan lá áleiðis til norðvesturs að Selvogsgötu þar sem hún liggur efst við Draugahlíðar, önnur lá til suðausturs og sú þriðja til suðurs. Síðastnefnda gatan var greinilega framhalda af þeirri, sem fylgt hafði verið ofan frá Grindarskörðum. Hún var mjög áberandi og greinilega mikið notuð fyrrum.

Selvogsgata

Selvogsgata.

Kastað hafði verið upp úr götunni svo djúp för höfðu myndast. Tekið hafði verið úr hraunhöftum og gatan greinilega gerð eins greiðfært og unnt var. Henni var fylgt niður með hraunkanti sunnan Litla-Kóngsfells. Komið var að talsvert miklu gili í hlíðinni á vinstri hönd, sem vatn hafði mótað. Lækjarfarvegurinn var nú þurr, en einhvern tímann hefur verið þarna mikill lækur er streymt hafði niður með austanverðu apalhrauni, sem þarna er á hægri hönd. Loks hefur vatnið staðnæmst í krika og væntanlega myndað þar talsverða tjörn. Moldarbotn benti til þess að þarna hafi verið allnokkurt vatn fyrir ekki svo löngu síðan. Á kortum heitir þarna Stóri-Leirdalur. Gatan lá niður með lækjarfarveginum.
Nokkru neðan við gilið skiptist hún í tvennt. Stígur lá til vesturs í gengum apalhraunið þar sem það var mjóst og yfir á Selvogsgötuna (Hlíðarveg) þar sem hún krækir fyrir nef hrauns er runnið hefur úr Draugahlíðargígnum skammt þar fyrir ofan.

Selvogsgata

Selvogsgata – varða.

Varða er við hraunið þar sem stígurinn kemur út úr því. Hestagatan lá hins vegar áfram niður með hraunkantinum, fyrir hraunrana og síðan skiptist hún í tvennt; annars vegar liggur hún vestur og niður með Hvalhnúk og Austurásum og hins vegar áfram um Hvalskarð, í fallegum sneiðingi niður Litla-Leirdal, niður í Hlíðardal, um Strandardal, framhjá Kökuhól og áfram áleiðis niður í Selvog.
Fyrrnefnda gatan kom inn á Selvogsgötuna (Hlíðarveg – vetrarveginn) efst við vestanverða Austurása. Tvær vörður eru þar sem göturnar koma saman.

Hlíðarborg

Tóft í Hlíðarborg.

Þaðan í frá liggur Selvogsgatan niður heiðina, áleiðis niður að Hlíðarskarði, vel vörðuð. Svo er að sjá sem Selvogsgata, eins og hún er vörðuð í dag, sé önnur og nær Draugahlíðum en sú, sem sýnd er á gömlum uppdráttum. Sú mynd, sem þeir sýna, fellur betur að þeirri götu, sem lýst er hér að framan. Áður en komið er niður brekkuna vestan Austurása liggur gata þar til vesturs. Þrjár vörður eru þar við og ein þeirra fallin. Þarna gæti verið um að ræða Stakkavíkurselstíginn er liggur væntanlega út með Vesturásum sunnanverðum og síðan til suðurs að Selsstíg ofan við Höfða norðvestan við Hlíðarvatn.

Strandardalur

Strandardalur.

Í stað þess að fylgja Selvogsgötunni (Hlíðarvegi) áleiðis niður að Hlíðarskarði var gömlu hestagötunni fylgt niður Hvalskarð og áfram niður í Strandardal. Lítið er um vörður á þeirri leið, en hins vegar liggur gatan nokkuð vel við landslaginu. T.d. er um gróna velli er að fara í Litla-Leirdal. Suðvestur af Hvalskarði er Hvalhnúkur, mjór og allhár. Ólafur Þorvaldsson segir þjóðsöguna kveða á um að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnúkurinn þar suður af Hvalhnúkur. Undir hraunklettum vestan við götuna er komið er niður í Strandardal er Stínurétt. Slóði liggur upp í Strandardal, en gatan er liggur niður úr dalnum skammt vestan hans. Þar liggur hann áfram áleiðis niður að Strandarheiði, en girt hefur verið þvert fyrir hann.

Selvogsgata

Á Hlíðargötu.

Í fyrri FERLIRsferðum, þar sem gatan var rakin neðan frá Selvogi og áleiðis upp að dalnum, sést hún vel þar sem hún liggur upp heiðina. Við hana á einum stað er tóft, sem ekki er vitað hvaða tilgangi hefur þjónað.

Gengið var til vesturs með girðingunni þegar niður úr dalnum var komið. Valgarðsborg er innan girðingar svo hún var ekki “heimsótt” að þessu sinni. Hlíðarborg er hinsvegar “réttu megin” girðingar svo hún var barin augum. Frá borginni liggur gata. Við hana eru litlar gamlar vörður, sumar fallnar. Gatan sést vel af og til þars em hún liggur til vesturs niður heiðina, áleiðis að Hlíð. Henni var fylgt, m.a. framhjá hellinum Ána. Talsverðar hleðslur eru umhverfis opið. Einnig eru hleðslur sunnan við opið og norðan. Ekki er vitað annað en að hlaðið var um opið til þess að varna því að fé leitaði skjóls niður í hellinum.

Hlíðarborg

Hlíðarborg í Selvogi – síðar stekkur.

Gatan liggur áleiðis að borginni undir Borgarskörðum, svonefnd Hlíðargata skv. örnefnalýsingu. Hún hefur verið vegleg á sínum tíma. Bæði hún og Hlíðarborgin eru hlaðnar vestan undir hraunkletta í heiðinni. Neðan borgarinnar undir Borgarskörðum eru tóftir tveggja húsa utan í klettum, sennilega beitarhúsa frá Hlíð.

Gangan endaði síðan við einn bæjarhól bæjarins að Hlíð. Eldri tóftir eru norðan við þjóðveginn sem og á tanga sunnan við veiðihús SVFH, en útihús eru vestar með vatninu og hafa þau sennilega tilheyrt bænum, sem var við núverandi veiðihús.

Áni

Áni.

Í örnefnalýsingu segir að Hlíð hafi verið fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar. Gamli bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn.
Þessi ganga var á Jónsmessunni. Þjóðtrúin kveður á um um ýmsa dytti henni samfara. Án þess að ætla að fjalla í löngum texta um álfa og huldufólks, ekki sést á nefndu kvöldi, er rétt að geta þess, að sá sem ekki trúði á álfa og huldufólk áður en hann lagði af stað í þessa ferð, gerir það núna. Borgarskörð draga ekki nafn sitt af fjárborginni undir Skörðunum heldur háum og virðulegum klettastandi skammt ofan við skörðin. Hann sést vel þegar gengið er að skörðunum ofan frá, en gæta þarf þess vel að fylgja kennileitum því annars…

Selvogsgata

Selvogsgata – kort ÓSÁ.

Í lýsingu einni um þennan áfanga Selvogsgötunnar kemur eftirfarandi m.a. fram til frekari glöggvunar:
Selvogsgatan er gömul leið á milli Hafnarfjarðar og Selvogs og hefur líklega verið farin frá því að menn settust að í Selvogi. Þetta er skemmtileg leið um áhugavert landsvæði og hollt er að leiða hugann að þeim aðstæðum sem forfeður okkar þurftu að takast á við til þess að draga björg í bú.

Áfram er haldið um skýra götu sem hófar hestanna hafa markað í tímans rás. Framundan eru Lönguhlíðar og Grindaskörð. Stóribolli og fleiri bollar blasa við en þeir hafa verið notaðir sem mið af sjó. Þegar í Grindaskörð kemur er gott að líta til baka og horfa yfir leiðina sem lögð hefur verið að baki og sjá hvað gatan er mörkuð í mosann og klöppina.
Frá Grindaskörðum er stefnt að litlu fjalli með stórt nafn, Kóngsfell, en það mun bera nafn af fjallkóngi þeirra í Selvogi. Þarna greinist leiðin og kallast vestari leiðin Hlíðarvegur sem skiptist síðar í Stakkavíkurveg. Haldið verður austustu leiðina sem er hin eiginlega Selvogsgata eftir greinilegum götum um Grafning og Stóra-Leirdal þar sem menn áðu ávallt þegar þeir áttu þarna leið um og fengu sér nesti og kannski smá brjóstbirtu.

Selvogsgata

Gengið um Hvalskarð.

Síðan verður gengið upp í Hvalskarð eftir Hvalskarðsbrekkum með Urðarfelli að Hlíðarvatni. Tröllkona ein nappaði sér hval í Selvogi en til ferða hennar sást. Hún var elt og náðist þarna í skarðinu. Af fjallinu fyrir ofan Hlíðarvatn er fagurt útsýni. Þaðan sér yfir þessa afskekktu byggð Selvoginn, til Strandarkirkju og vitans. En það sem fangar augað er djúpblátt og óravítt hafið (Úr leiðarlýsingu Útivistar).
Við leiðarlýsinguna er rétt að bæta við ferðum námumanna í Brennisteinsfjöllum. Þeir munu hafa farið um Grindarskörðin með hestalestir sínar. Leiðir liggja frá námunum, bæði ofan við Draugahlíðar og neðan.

Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Selvogsgata

Selvogsgata – kort ÓSÁ.

Hlið

Leitað var Skjónaleiðis að Hliði á Álftanesi, en á því var sagður vera áletrunarsteinn frá árinu 1807. Steinninn var friðlýstur árið 1965, en hann hefur verið talinn glataður. Hans er m.a. getið í Árbók Fornleifafélagsins 1966 í umfjöllun Kristjáns Eldjárns eftir að Gísli Sigurðsson sýndi honum hann árið 1963.

Álftanes

Skjónaleiði.

Gengið var skipulega um svæðið og tekin mið af fyrirliggjandi vísbendingum, s.s. “innan garða” og “eigi langt frá”.
Eftir nokkra leit á svæðinu fannst steinninn. Einungis sást lítillega í hann þar sem algróðið er í kring og jarðvegurinn að færa steininn í kaf. Eftir að hafa flett jarðveginum af steininum kom áletrunin í ljós svo og ártalið 1807. Um er að ræða vísu, sem klöppuð er á steininn. Hann var settur þarna yfir dauðan og eftirsjáanlegan Skjóna bóndans á Hliði. Gamlar sagnir eru til um steininn, en sennilega vita fáir núlifandi af honum (árið er 2000). Torfið var sett varfærnislega yfir steininn aftur og allt lagfært svo sem það var.

Best er að ganga að steininum á auðri jörð að vetrarlagi því á sumrin grær hár grasagróður á svæðinu og hylur undirborðið.

Álftanes

Hlið – túnakort 1917.

Á Hliði eru ýmsar sögulegar minjar. Sjórinn hefur hins vegar verið að brjóta þær niður smám saman og taka þær til sín. Þarna væri því tilvalið að koma upp golfvelli ef það mætti verða til þess að varnargarðar yrðu settir upp áveðurs með ströndinni.
Áletrunin á steininum hefur varðveist vel, en líklegt má telja að hún hafi lengi framan af verið ofan jarðar, en síðan smám saman hulist jarðvegi, hann sigið og loks gróið yfir.
Vísan hefur varðveist á prenti. Hún mun vera eitthvað á þessa leið:

1807

HEIGDAN
SKIONA HIER EG TEL
HESTEN BEST AD
LIDE ÞESSE JÖRSA
ÞIENTE VEL ÞEGAR HAN
BIO A HLIDE

Öll N eru öfug í áletruninni eins og altítt er. Vísan, uppfærð, er því svona;

(Heygðan Skjóna hér ég tel,
hestinn bezt að liði;
þessi Jörsa þénti vel,
þegar hann bjó að Hliði).

Skjónaleiði

Skjónaleiði – letursteinn.

Jörsi mun hafa verið Jörundur Ólafsson, ættaðan frá Fossum í Andakíl; hann kom um aldamótin 1800 að Hliði og bjó þar lengi, dó 1843. Kristján Eldjárn nefndi staðinn “Skjónaleiði”.

Rétt er að árétta að skv. núgildandi lögum (sem vonandi verður breytt fljótlega) skal hafa samráð við Fornleifavernd ríkisins áður en fornleifar eru grafnar upp, en að þessu sinni var einungis ætlunin að leita staðfestingar á að umrædd sögn ætti við rök að styðjast eður ei. Gengið var frá öllu sem fyrr og steinninn hulinn torfi.

Hlið

Við Hlið á Álftanesi.

Í nýjum þjóðminjalögum, eða í reglugerð þeim tengdum (sem ekki er til m.v. núverandi lög), þarf að skapa eðlilegan og sjálfsagðan samhljóm á milli stofnana (fagfólks (lærðra)) og áhugasamtaka (leikinna) um söfnun og skráningu upplýsinga. Ljóst er að áhugafólk virðist eiga mun greiðari leið að t.d. eldra fólki (vegna áhuga síns og fórnfýsi (ekki krafist greiðslu fyrir ótakmarkað vinnuframlag)) á hinum ýmsu stöðum og svæðum, fólki sem býr að öllu jöfnu yfir miklum upplýsingum um fyrri búsetu og búsetuhætti, minjar og sögu.

Hlið

Hlið á Álftanesi.

Áhugafólk virðist einnig vera fundvísara á minjar, sem ekki virðast meðvitaðar fræðingum. Hinir síðarnefndu virðast of uppteknir af greiningu, flokkun og fyrirfram mótuðum listum (formúlum), en hinir fyrrnefndu geta leyft sér að “leika af fingrum fram”, óháð kerfisskráningunni. Hvorutveggja er gott, út af fyrir sig, en saman mætti ná enn betri árangri. Búa þarf til vettvang til þess að þessar upplýsingar, sem ávallt eru að glatast, nýtist sem skyldi. Vettvangurinn þarf ekki að vera stofnun (opinberra kvenna eða karla) með lögbundið vald. Hún getur alveg eins verið aðstaða þægilegs viðmóts og gagnkvæmrar virðingar – samtalsvettvangur “jafningja” án þvingana.

Hlið

“Minjar” á Hliði.

Hlíð

Refagildrur eru nokkuð misjafnar að gerð en oftast grjóthlaðnir stokkar eða kassar sem hellur hafa verið lagðar yfir og grjóti jafnvel hlaðið þar ofan á. Agn var látið inn í gildruna og tófan þannig tæld inn en þá lokaðist stokkurinn með þar til gerðum lokubúnaði.
RefagildraTalið er að fyrstu gerð refagildra hafi komið með norrænum landnámsmönnum frá Noregi. Þar hafa fundist sambærilegar gildrur og hér á landi.
Refagildrurnar voru hlaðnar úr hellum þannig að þegar tófan ætlaði að sækja agn sem var inni í gildrunni féll dyrahellan aftur og lokaði dýrið inni.
Fyrir u.þ.b. 30 árum þótti það sérstökum tíðindum sæta að hlaðin refagildra fannst á Norð-Austurlandi. Embættismenn úr Reykjavík gerðu sér ferð norður til að líta fyrirbærið augum. Eftir miklar vangaveltur og pælingar kom út skýrsla um þessar svo merkilegu mannvistarleifar.
RefagildranÁ sama tíma mátti  lesa í örnefnalýsingum bæja á Reykjanesskaganum að þar hefðu verið til sambærilegar mannvistarleifar frá löngu liðnum tíma. Fáir virtust hafa sérstakan áhuga á því.
Eftir að FERLIR fór að leita skipulega að mannvistarleifum á Reykjanesskaganum hafa verið staðsettar um 90 hlaðnar refagildur í misjöfnu ástandi. Sumar eru alveg heilar og nánast ósnertar á meðan öðrum hefur verið raskað. Nýjasta refagildran (og varla sú yngsta) fannst nýlega austan við Hlíð í Selvogi. Hún er á lágu klapparholti og snýr opið til norðurs. Gildran, sem er mjög heilleg, fellur mjög vel inn í umhverfið. Nú er hún orðin bæði mosa- og skófvaxin svo mjög erfitt er að koma auga á hana í landinu.

Heimildir m.a.:
-www.instarch.is/instarch

Hlíð

Hlíð – uppdráttur.

Valgarðsborg

Öxl skilur af Strandardal og Hlíðardal vestan Svörtubjarga. Úr bergöxlinni sprettur silfurtær vatnslind, Sælubuna, sem var ómetanleg fyrir heyskapafólk í dölunum. Efst í Hlíðardal var bær Indriða lögréttumanns Jónssonar. Hann var þar á fyrri hluta 17. aldar, merkur maður, góður skrifari og smiður. Ætlunin er að finna Sælubunu og tóftir af bæ Indriða.

Strandardalur

Varða við Katlabrekkur.

Auk þess var ætlunin að skoða Vogsósasel, Hlíðarborg, Hlíðarsel, Valgarðsborg, Hlíðarveg, Selvogsgötuna gömlu (Suðurferðaveg), Dísurétt, Borgarskarðsborg og tóftir vestan hennar, auk Ána.
Lagt var af stað frá réttinni austan Hlíðarvatns. Gengið var upp að Vogsósaseli, tóftir þess skoðaðar og síðan haldið upp slóða áleiðis að Hlíðarborg. Eftir að hafa skoðað borgina, sem er í heiðinni vestan undir háum hraunhól, fallega hlaðin, var haldið spölkorn til suðurs, yfir girðinguna, og litið á tóftir meints Hlíðarsels. Ekki er vitað til þess að selið hafi verið skráð. Reyndar gildir það einnig um Hlíðarborgina, sem er þarna skammt norðar.
Selstígurinn vestan tóftanna sést enn vel. Seltóftirnar eru vestan undir grónum hól, en sunnan hans er Valgarðsborg. Tækifærið var notað og selið rissað upp.
Stefnan var tekin inn á Hlíðargötu er liggur frá Hlíð, upp með Hlíðarfjalli og inn með Kötlubrekkum. Nefjavarða er þar á Rofunum. Gísli Sigurðsson segir í lýsingu sinni um þetta svæði að “ekkert örnefni sé á Hlíðarfjalli uppi, þar til kemur að Hlíðarfjallsenda, þar sem það hverfur undir Katlahraunið, sem er uppi á brún, fyrir ofan Katlabrekkur.

Sælubuna

Sælubuna í Standardal.

Í Katlahrauni eru grónar lautir, og var slegið þar áður fyrr. Hér er komið á aðalleiðina úr Selvogi til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Leiðin liggur af Katlabrekkubrún, skáhallt upp og yfir Katlahraunið. Katlabrekkur eru framan í brún, vestan við Björgin. Þær eru rétt við vegslóðann, farið er milli þeirra og Bjarganna. Þegar upp er komið, blasa við á hægri hönd Hlíðardalir, Hlíðardalur efri og Hlíðardalur neðri, vestan við Stóra-Urðarfell. Efri dalurinn er stærri.
Á milli dalanna er Dalshryggur, svolítill berghryggur eða klettar.” Farið var fyrir endann á honum. Þá blasti við lægð í Urðarfellin. Fram af þeirri lægð er Kálfsgil, sem er á landamerkjum Hlíðar og Strandar.
Sagan segir að séra Eiríkur á Vogsósum (1677-1716) hafi grafið Bók bókanna, mestu galdrabók allra tíma, Gullskinnu, í Kálfsgili. Segir í sögunni að sá, sem ráði þeirri bók, hafi vald á því sem hann velja vildi.
Bunga er í Urðarfellunum alveg fram á Svörtubjörg. Þar í er Sælubuna, uppspretta út úr klettum, og rennur ofan í Strandardalinn. Hún þornar aldrei alveg. Strandardalur er austan eða suðaustan við Kálfsgil. Er Litla-Urðarfell fyrir austan, en Stóra-Urðarfell fyrir vestan.

Strandardalur

Strandardalur.

Urðarfellin eru skriðurunnin fell, en ekki hraun. Litla-Urðarfell er nokkurn veginn stakt, hnöttótt ofan með klappabrúnum. Þar eru fellin einna hæst. Hæðin fram á Björgin er frá Litla-Urðarfelli. Kálfsgil er myndað af vatnsrennsli úr fellunum. Það er á mörkum Hlíðar og Strandar. Í stórleysingum rennur vatn úr Kálfsgili fyrir austan Katlabrekkur.
Austan við Litla-Urðarfell eru Merarbrekkur. Fyrir innan (norðan) Stóra-Urðarfell er lægð, sem kölluð er Móvatnsstæði. Snarhallar af fellinu ofan í það. Þar var smáblettur, þar sem var mótak frá Hlíð. Það var eini mórinn, sem til var í Selvogi, en hann var lélegur.

Svörtubjörg

Við Stígshella í Svörtubjörgum.

Svörtubjörg blasa við sjónum alls staðar úr Selvogi, bæði af sjó og landi. Þau eru oft í daglegu tali kölluð Björgin. Vestari endi Bjarganna er mið af sjó. Vestarlega á Björgunum ber Grágæsanípu hátt. Það er klettur, sem slútir fram. Þar var oft hrafn. Eiríksvarða er því sem næst á Björgunum miðjum. Sagt er, að Eiríkur prestur á Vogsósum hafi hlaðið hana til varnar gegn Tyrkjum. Eitt fet er frá Eiríksvörðu fram á brún.
Sagt er, að sá, sem hreyfi vörðuna, eigi að fara fram af Björgunum. Varðan stendur enn. Austast í Björgum er Gatahóll. Geta bæði menn og skepnur gengið í gegnum hann. Einna hæst eru Björgin um Grágæsanípu og Eiríksvörðu, og Gatahóll er einnig hátt, líkt og Eiríksvarða.
Kindaslóði er alveg niður í Björgin. Þar fóru kindur niður og í Stígshellra, sem eru smáskútar fyrir neðan. Fyrir þá fennti í norðanbyljum, og fé tepptist þar. Þeir eru vestarlega við Björgin. Vestan við Björg, niður undan Stígshell(r)um, er Hofmannaflöt; þar var áningarstaður.”

Hlíðardalur

Tóft Erlends í Hlíðardal.

Fallega hlaðin varða er á klapparrananum er aðskilur dalina. Undir henni er Sælubuna. Hún er greinilega sírennslislind og kemur úr hlíðinni. Eflaust er vatnið úr henni allra meina bót. Leitað var eftir tóftum af bæ Indriði í Hlíðardal. Mikið gróðurrof hefur orðið í dalnum. Einungis eru nú torfur upp með hlíðum Urðarfells. Fallegur einir á klöpp gaf þó dalnum lit. Hlíðardalur er ekki fullkannaður, enn á eftir að skoða efsta hluta hans m.t.t. hugsanlegra tófta. Það verður gert á sumri komanda.
Í bakaleiðinni var komið við í Dísuréttum í Katlahrauni vestan Hlíðardals. Um er að ræða fallega hlaðna rétt austan undir hraunhól. Erfitt getur reynst að finna hana í hrauninu. Þegar leitað var að réttinni fannst stór og fallegur hellir. Um er að ræða hraunbólu, um 3 m á hæð og um 15 metra breiða. Inn úr henni er rás og innan af henni þverrás. Vel er hægt að ganga þar uppréttur. Úr loftinu hengu um tveggja metra langar rætur. Fallegar klakamyndanir voru á gólfum. Þau eru slétt og ekkert fallið úr loftum. Hellirinn er ekki fullkannaður, en hann er a.m.k. 40-50 m. langur.

Borgarskraðsborg

Borgarskarðsborg.

Gengið var niður Borgarskarð og vestur Hlíðarveg með Hlíðarfjalli. Borgarskarðsborg neðan við skarðið var skoðuð sem og tóftir skammt vestan hennar, við Hlíðarveg. Stefnan var tekin á hellinn Ána og síðan haldið sem leið lá að upphafsstað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Dísurétt

Dísurétt.

Hlið

Í Tímanum árið 1947 var m.a. fjallað um Nýtt hitaveitu svæði í nágrenni Hafnarfjarðar og Rvíkur – “Heitu vatni dælt upp úr borholu á túninu á Hliði á Álftanesi”.
Hlid-tunakrt-II“Hlið á Álftanesi var fyrir nokkrum áratugum frægt útvegssetur, og þar bjuggu lengi einhverjir harðskeyttustu útvegsbændurnir við Faxaflóa. Á seinni árum hefir verið hljóðara um höfuðból hinna gömlu sægarpa. Nú kann þó svo að fara, að athygli manna beinist aftur að þessum stað, þótt af öðrum ástæðum sé en fyrrum. Síðastliðinn laugardag kom nefnilega mikið af heitu vatni upp ur borholu, sem þar hefir verið gerð, og líkindi eru til, að þarna sé enn meira af enn heitara vatni. Hiti og vatnsmagn hefir þó eigi verið mælt enn.
Boranir þær, sem gerðar hafa verið á Hliði á Álftanesi, voru hafnar sumarið 1943. Hefir verið unnið að þeim síðan, eftir því sem ástæður hafa leyft. Munu þessar rannsóknir þegar hafa kostað yfir 140 þúsund krónur.
Á laugardaginn var fór Jón Einarsson, forstjóri Orku, sem fyrir nokkru hefir yfirtekið hitarannsóknirnar, út að Hliði og lét dæla lofti niður í borholuna, sem mun vera hátt á fjórða hundrað metra djúp. Hafði áður verið settur þar upp turn og pípum verið rennt um 80 metra niður í hana. Kom innan stundar upp gusa mikil af brennheitu vatni. Þegar á þessu hafði gengið um stund, fóru Jón og aðstoðarmenn hans heim að Hliði og drukku þar kaffi í makindum, en létu dæluna vera í gangi á meðan. Hélt vatnið áfram að streyma upp úr holunni meðan þeir voru inni og allt þar til dælan var stöðvuð.
Hlid-22Sigurður Jónasson forstjóri festi kaup á jörðinni Hliði árið 1943. Lét hann hefja þar vatnsboranir þegar samsumars. Var notaður til þessa fjögurra þumlunga bor, sem fenginn var að láni hjá Reykjavíkurbæ. Um 230 metra út frá túninu á Hliði, út af svonefndri Helguvík, er heitt vatn í skeri, sem nú orðið kemur ekki upp úr sjó nema um stórstraumsfjöru nokkrum sinnum á ári.
Dr. Trausti Einarsson og Helgi Sigurðsson, nú hitaveitustjóri, og fleiri höfðu mælt þar 80—85 stiga heitt vatn, sem kom upp úr augum og sprungum á skerinu, og virtist margt benda til þess, að þarna væri enn heitara vatn, þar eð sjór gjálpar alltaf við og við yfir hitasvæðið, svo að erfitt var að mæla hitann nákvæmlega. Þótti sérfræðingum þessi mikli hiti á þessum stað benda til þess, að jarðhiti myndi einnig vera undir túninu á Hliði.
Samkvæmt ráði dr. Trausta Einarssonar var byrjað að bora eftir jarðhita utarlega í túninu á Hliði, og kom það fljótt á daginn, að hiti var í jörðinni. Borunin gekk aftur á móti illa, þar eð spennan á rafstraumnum frá Sogsstöðinni var mjög lág á þessum árum. Enduðu þessar tilraunir að lokum með því, að borinn brotnaði, þegar búið var að bora hátt á fjórða hundrað metra niður í jörðina. Ekkert vatn hafði þá komið upp, en hitinn mældist um 80 stig niðri í holunni. Hafði hitinn aukizt um 42 stig við síðustu hundrað metrana, nokkurn veginn jafnt og þétt. Virtist allt benda til þess, að náðzt hefði yfir hundrað stiga hiti, ef unnt hefði verið að bora álíka djúpt og gert var með slíkum borum á Reykjum í Mosfellssveit, um 600 metra.
Hlid-23Árið 1945 kom þingað til lands á vegum hlutafélagsins Orku sænskur verkfræðingur, Sven Petterson að nafni, frá hinu heimskunna borfélagi, Svenska Diamantbergborrnings A/B. — Hann taldi, að þarna hlyti að vera heitt vatn, og lagði þau ráð til, að reynt yrði að dæla því upp. Árið 1946 voru fengin tæki frá sænska félaginu, sem Hafnarfjarðarbær hafði keypt til nota í Krýsuvík, en lánaði til tilraunanna á Hliði. Var hafizt handa á laugardaginn um að dæla upp vatninu, og gaf tilraunin góða raun, sem þegar hefir verið lýst, og má líklegt telja, ef dæma má eftir árangri þessarar fyrstu tilraunar, að þarna megi dæla upp miklu heitu vatni, þótt það flæði ekki upp af sjálfu sér.
Þetta nýja- hitasvæði, sem þarna virðist fundið, getur haft mikla þýðingu, ef vatnsmagn og hitamagn reynist þar nægjanlega mikið. Mestu máli skiptir, að ekkert hitasvæði hér á landi (að sundlaugunum í Reykjavík undanskildum) liggur jafn vel við þéttbýli eins og þetta hitasvæði þarna í túninu á Hliði og á ströndinni vestur af því. Þaðan eru aðeins rúmlega fimm kílómetrar til Hafnarfjarðar og rúmlega tólf kílómetrar til Reykjavíkur.”

Myndirnar eru teknar í skerinu út af Helguvík hjá Hliði á Álftanesi. Eins og segir í greininni um jarðhitann á Hliði, kemur skerið nú orðið aðeins úr sjó um stórstraumsfjöru, og voru myndir teknar, þegar svo stóð á sjó. Skerið er gróið þara og þörungum, en af þvi miðju leggur upp gufu mikla frá heita vatninu. Þetta heita vatn þarna í skerinu leiddi hug manna
að því, að víðar myndi jarðhiti á þessum slóðum. —
/ SKERINU UT AF HELGUVIK

Heimild:
-Tíminn 25. febrúar 1947, forsíða.

Hlið

Hlið á Álftanesi.

Hlið

Gengið var um vestanvert Álftanes norðan Skógtjarnar. Litið var m.a. á tóftir Hliðs, Melshúss, Haugshúss, Skógtjarnar, Lákakots og Hliðsness. Reyndar aflitaði snjór jörðina víðast hvar svo eftirfarandi lýsing er að nokkru leyti byggð á upplýsingum úr deiliskráningu í Bessastaðahreppi frá árinu 2004.
Kort af svæðinuHlið er á Hliðstanga. Ysti og syðsti hluti hans tangans nefnist Melshöfði. Það var einn helsti útróðrarstaður á Suðurnesinu í margar aldir. Hliðstangi er vel gróinn og hallar landið mót suðri. Sjó hefur brotið mikið af landinu, tugi metra frá því túnakort var gert af svæðinu 1917. Á honum sjást þó enn allmargar fornleifar, s.s. grónir garðar, tóftir kota, brunnar, varir o.fl.
Hliðs er fyrst getið í skráðum heimildum árið 1395, sbr. “Svo margar jarder hafa vunder komit sidan pall aboti kom til videyiar. … Hlid.” Í Vilchinsmáldaga frá árinu 1397 segir að “Peturskyrkia j Gordum a aaltanesei aa heimaland allt. Havsastder. selskard. hlid…. .” Í ágripi Garðamáldaga og Álptaness 1477 segir: “Peturskirkia j gordum a alftanese a heimaland allt. hausastade. elskard. hlijd. …” Árið 1558 hefur Garðakirkja jarðaskipti við umboðsmann konungs; “… jeg hefe under köngsins eign til Bessastada tekid jördina Hlid. er liggur a Kongsznese. … .”
Mikið útræði var frá Melshöfðanum sem liggur er fyrr segir suðvestur frá Hliðstanga. Melshöfða er getið í fógetareikningum yfir leigu, landskyldur og skreiðargjaldsreikninga af konungsjörðum frá 1547-1548. Einnig í fógetareikningum frá 1552 og 1553. Í Jarðbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703, segir: “Melshöfde, verbúðarstaður og grasnyt nokkur, sem heimabóndinn á Hliði brúkar alleinn, þar eru: …Kastiansshus …Jons Marteinssonar hus …Jonshus … Heimræði er við öll þessi tóm hús í Melshöfða og gánga þar kóngsskip um vertíð, vor og haust, fleiri eður færri, so mörg sem umboðsmaðurinn fær við komið að láta þar gánga, og er þar til þess ætluð verbúð ein fyrir utan þá, sem nú er bygð, til að hýsa fólk, er rær á þessum kóngsbátum, og kaupa þeir soðning af tómthússmönnum þar í stað… Lending er góð.” Jarðardýrleiki árið 1703 er óviss. Fram kemur að m.a.: “Selstöðu hefur jörðin haft þar sem heita Norðurhellrar,…”. Margbýlt var á Hliðstanga.
HliðstangiÁrið 1703 voru “Tún jarðarinnar Hliðs [að] rotna og fordjarfast af sjáfarágángi meir og meir.” Telja verðu því líklegt að tanginn hafi verið mun stærri hér áður fyrr, enda benda grynningar út frá honum að sunnanverðu til þess. Árið 1870 var ein þurrabúð hjá Neðra Hliði og fjórar við Gamla Hlið. Árið 1989 eignast Bessastaðahreppur jörðina. Nú er eitt íbúðarhús á Hliðstanga, norðan við bæjarstæði Neðra-Hliðs. Fátt minja er nú á Melshöfða því hann er strípaður gróðurlaus klettatangi sem fer í kaf á flóði. Af túnakortinu frá 1917 að dæma hafa brotnað um 30 m af landi síðan þá.
Bærinn Efra-Hlið stóð á Hliðstanga þar sem Grandinn er hæstur. Hliðstangi er grasi gróinn og þýfður. Bærinn stóð á náttúrulegum hrygg í landslaginu, sem liggur frá Hliði í vestri alla leið að Bessastöðum í austri. Á háhryggnum liggur malarvegur, þar sem Hliðstraðir lágu áður. Norðan bæjar eru 20-30 m að sjó sem hefur brotið mikið af landi á síðustu áratugum og öldum. Aflíðandi halli er að sjó sunnan til en Þvottatjörn er þar í fjöruborðinu, u.þ.b. 100 m frá Efra Hliði. Í örnefnaskrá segir um Hlið: “Forðum stórbýli á Álftanesi. s.v. horni þess. Var í eigu Garðakirkju til 1556, að konungur skifti á því fyrir Vífilstaði og milligjöf, svo sem mjöltunnu, sem aldrei galzt af konungsins valdmönnum. Þar var margt þurrabúða og þar var margbýlt jafnaðalega.”

Hlið

Á uppdrætti í bók Erlends Björnssonar, “Sjósókn”, þar sem hann sýnir byggð á Álftanesi í kringum 1870, sést að þá eru á Hliðstanga eru þrjú býli; Gamla Hlið, Efra Hlið og Neðra Hlið. Gamla Hlið lagðist í eyði milli 1870 og 1917 vegna landbrots og á túnakortið frá 1917 hefur kortagerðarmaðurinn skrifað: “Gamla Hliðbýli var hér. Nú tóttir einar og kg. [kálgarður?] í eyði…brotnar fast norðan við tætturnar.” Við eyðingu Gamla Hliðs hófst nafnaruglingur og hefur Efra-Hlið stundum verð kallað Gamla-Hlið og ekki er ólíklegt að Gamla Hlið hafi einnig kallast Efra-Hlið áður fyrr enda segir í örnefnaskrá segir: “Efra Hlið: Svo var Gamlahlið einnig kallað.” Einnig kemur fram í örnefnaskrá að bærinn Efra Hlið var kallaður Kristjánshlið þegar maður að nafni Kristján [Jónsson] bjó þar seint á 19. öld.
Í Sjósókn Erlends Björnssonar segir um búendur og býli í Bessastaðahreppi á 8. áratug 19. aldar: “Á Efra-Hliði bjó Kristján Mathiesen, ríkur maður og um leið einn merkasti maður sveitarinnar. Hafði hann útgerð mikla, venjulegast fjögur skip, tvo áttæringa og tvö sexmannaför.” Þegar túnakort var gert fyrir Hlið 1917 eru bæjarhúsin á Efra Hliði úr torfi og grjóti. Húsin snéru þremur burstum til suðurs og eitt hús sambyggt var norðan til. Við bæinn að norðan var kálgarður en bæjarhlað að sunnan. Sunnan bæjarhlaðsins voru einnig kálgarðar og greinir örnefnaskrá frá því að matjurtagarður á hlaðinu hafi heitið Sandagarður. Stórt hús var reist í Efra Hliði snemma á 20. öld og má sjá mynd af því Álftaness sögu. Það hús brann á seinni hluta 20. aldar. Öll ummerki um Efra Hliðsbæ og mannvirki umhverfis hann eru horfin. Rústir hafa verið sléttaðar og ekki sést móta fyrir þeim á yfirborði.

Álftanes

Hlið – túnakort 1917.

Á túnakorti frá 1917 er sýnt mannvirki um 20 m suðaustur frá bæ, fast sunnan við bæjarhlað Efra Hliðs. Á túnakortið er bókstafurinn “f” merktur við mannvirkið og í skýringum við túnakortið merkir f=for. Hugsanlega hefur verið þarna einhvers konar haughús.
Á túnakortið er merkt og sýnt tvískipt útihús úr torfi og grjóti vestast á Hliðstanga. Það stóð um 70 m vestur frá Neðra Hliði 006. Nú er sjávarkamburinn aðeins 40 m vestan við bæjarstæði Neðra Hliðs og útihúsið því horfið í sjóinn.
Inn á túnakortið frá 1917 er merkt útihús úr torfi og grjóti um 30 m NNV frá Neðra Hliði. Það stóð í suðausturhorni kálgarðs sem náði til norðurs fram á sjávarkambinn. Húsið var á vestanverðum Hliðstanga. Þar er sléttað tún, sinuvafið og farið að hlaupa í þúfur. Ekki sést lengur til útihússins eða kálgarðsins. Í örnefnaskrá segir: “Salthúsgarður: Svo hét einn matjurtagarður er lá við Salthúsið rétt ofan við Hliðsvarir.” Að öllum líkindum er útihúsið Salthúsið framangreinda.
Inn á túnakortið er Nýja Hlið merkt, um 180 m VNV við Gamla Hlið, á vesturhluta Hliðstanga. Í örnefnaskrá segir: “Hjallavöllur: Svo hét teigur í túninu sem þar sem Neðra Hlið stóð.”
Bærinn á Nýja Hliði stóð talsvert lægra en Fulltrúi eldri tíma í HliðiEfra Hlið og var því heitið Neðra Hlið réttnefni. Grasi gróið og þýft er á gamla bæjarstæðinu, sem er sinuvafið og komið í órækt. Bærinn stóð á vesturenda náttúrulegs hryggs, Granda, sem býlin á Suðurnesinu eru mörg hver staðsett á. Fjörukambur er aðeins um 40 m vestan og norðan bæjarstæðisins. Í örnefnaskrá kemur fram að á Neðra-Hliði var tvíbýli. Neðra-Hlið gekk einnig undir heitunum Nýja-Hlið og Jörundarhlið. Þar var þurrabúð um aldamótin 1900. Á túnakorti frá 1917 sést að þá var bærinn úr torfi og grjóti og sneru burstirnar tvær til suðurs. Sambyggt að norðan til var eitt hús. Kálgarður var kringum bæinn vestan til. Öll ummerki bæinn og kálgarðana sex sem voru sunnan, og austan við bæinn eru horfin. Bærinn hefur verið rifin og rústirnar sléttaðar í tún. Í Sjósókn Erlends Björnssonar segir um búendur og býli í Bessastaðahreppi á 8.áratug 19. aldar: “Á Neðra-Hliði bjó Ketill Steingrímsson…[hann] hafði alltaf mikla útgerð, þetta tvö og þrjú skip.”
Hliðsbrunnur var í minningum fólks allnokkurt mannvirki. Inn á túnakortinu frá 1917 er merkt einkennilegt mannvirki um 20 m vestur frá Nýja Hliði.

Túngarður í Hliði

Nýja Hlið stendur talsvert lægra en Efra-Hlið og er því heitið Neðra Hlið réttnefni. Grasi gróið og þýft er á gamla bæjarstæðinu Neðra-Hliðs, það er sinuvafið og tún komið í órækt. Í örnefnaskrá segir: “Hjallavöllur: Svo hét teigur í túninu sem þar sem Neðra Hlið stóð…Hliðsbrunnur: Hann var stór og hlaðinn upp í Hjallavelli. Voru þar tröppur niður að ganga í Brunninn. Reft mun hafa verið yfir hann í eina tíð.” Mun hér átt við mannvirkið einkennilega sem sýnt er á túnakortinu. Er þá komin skýringin á teikningunni á túnakortinu, þ.e. þar eru teiknaðar tröppurnar ofan í brunninn. Búið er að afmá ummerki um brunninn, hann hefur líklega verið byrgður og er horfinn í óræktina.
Um 30 m suðvestan við Nýja-Hlið er hlaðinn grjótgarður í fjörukambinum. Vestan garðsins er fjara og en austan hans grasi gróin órækt. Þar er fremur grýtt þar sem sjór hefur borið grjót á land. Skv. túnakotinu frá 1917 var sjóvarnargarður með vesturströnd Hliðstanga, þá 70-80 m frá Neðra-Hliði. Tugir metra hafa brotnað af landinu síðan þá og er grjótgarðurinn sem er í fjörukambinum yngra mannvirki en það sem sýnt er á túnakorti. Garðurinn er örugglega varnargarður og hann liggur suðurnorður. Jarðvegi hefur  verið ýtt upp að garðinum, bæði við norður- og suðurenda hans, til að verjast landbroti. Hæstar eru garðhleðslurnar um 1 m.
Á túnakortinu er sýnd vör 80 m norðvestan við Efra-Hlið og 130 m norðaustan við Neðra-Hlið. Vörin er austast í röð fjögurra vara á norðurströnd Hliðstanga. Austan og vestan vararinnar eru klettatangar. Steinar eru í vörinni og í sandinum upp af. Mikið land hefur brotnað á norðurströnd Hliðstanga og umhverfi vararinnar væntanlega breytt.
SkjónasteinnÍ Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703, segir: “Hjáleiga af Hliði kend við þann, sem ábýr í hvört sinni, og nú kölluð Jóns Björnssonar hús. …Jarðardýrleiki er óviss. … Túnum hjáleigunnar spillir sjór árlega. Selstöðu nýtir ábúandi ásamt heimabóndanum.” Ekki er vitað hvar hjáleigan var á Hliðstanga.
Í Jarðabókinni segir einnig: “Hjáleiga önnur ónafngift, kend í hvört sinn við þann sem á býr og nú kölluð Halfdanarhús. Jarðardýrleiki er óviss. … Túnið brýtur sjór, sandur og veður. Selstaða er ásamt heimajörðinni brúkuð.” Ekki er vitað hvar hjáleigan var á Hliðstanga. Þá segir einnig í Jarðabókinni: ”
Þá er getið um Lonshús: “Jarðardýrleiki er óviss. … Túnunum spillir sands og sjáfarágángur. Vatnsból og selstaða er sem á heimajörðinni.” Ekki er vitað hvar hjáleigan var á Hliðstanga. Einnig; “Melshöfde, verbúðarstaður og grasnyt nokkur, sem heimabóndinn á Hliði brúkar alleinn, þar eru: Tómthús kallað Kastiansshus… Eldiviðartak af móskurði ásamt heimabóndanum. Vatnsból sama sem heima á jörðinni Hliði…Heimræði er við öll þessi tóm hús í Melshöfða…” Melshöfði er brotinn af sjávarágangi. Hann kemur upp á fjöru en er rúinn öllum mannvirkjum. Og; “Melshöfde, verbúðarstaður og grasnyt nokkur, sem heimabóndinn á Hliði brúkar alleinn, þar eru: …Jons Marteinssonar hus, tómthús…Eldiviðartak ásamt heimajörðinni.Vatnsból sama sem heima á jörðinni [Hliði]….Heimræði er við öll þessi tóm hús í Melshöfða…” Einnig; “Melshöfde, verbúðarstaður og grasnyt nokkur, sem heimabóndinn á Hliði brúkar alleinn, þar eru: …Jonshus, þriðja tómthús í sama stað [þ.e. Melshöfða]. Það halda Bessastaðamenn undir sínum umráðum og so hefur lengi verið…Eldiviðartak og vatnsból ásamt Hliði. Heimræði er við öll þessi tóm hús í Melshöfða…”Skjónaleiði skoðað þegar Jói hafði hár
Í Jarðbók Árna og Páls er getið um verbúð: “Melshöfde, verbúðarstaður og grasnyt nokkur, sem heimabóndinn á Hliði brúkar alleinn, þar eru:…Kastiansshus …Jons Marteinssonar hus… Jonshus… Heimræði er við öll þessi tóm hús í Melshöfða og gánga þar kóngsskip um vertíð, vor og haust, fleiri eður færri, so mörg sem umboðsmaðurinn fær við komið að láta þar gánga, og er þar til þess ætluð verbúð ein fyrir utan þá, sem nú er bygð, til að hýsa fólk, er rær á þessum kóngsbátum, og kaupa þeir soðning af tómthússmönnum þar í stað…Lending er góð” ,,Hliðskot: Svo var eitt býlið kallað vestast í túninu [í Hliði]. Partur sá var gefinn Álftaneshreppi 1836…,” segir í örnefnaskrá. Sjór hefur nú brotið mikið land af vestanverðu nesinu og má heita öruggt að Hliðskot sé horfið í sjóinn, sbr. útihúsin fyrrnefndu. “Sveitaparturinn: Hliðskot var einnig kallað þessu nafni. 1910 rak þar hval, en þá átti Hafnarfjörður partinn. Hvalurinn reyndist Andarnefja kasúldinn,” segir í örnefnaskrá.
“Þurrabúð við Kristjánshlíð [sama og Efra-Hlið],” segir í örnefnaskrá. Litli bærinn hefur staðið nálægt Efra Hliði, en ekki er vitað hvar. Hliðstangi er grasi gróinn og þýfður. Bærinn stóð á Grandanum, náttúrulegum hrygg í landslaginu, sem liggur frá Hliði í vestri alla leið að Bessastöðum í austri. Á háhryggnum liggur malarvegur, þar sem Hliðsvegur lá áður. Norðan bæjar eru 20-30 m að sjó, en mikið land hefur brotnað af sjávargangi síðustu áratugum og öldum. Aflíðandi halli er að sjó sunnan til.
“Gula húsið”: Svo var gesthús Kristjáns [Jónssonar] í Hliði kallað. Á hlaðinu…Kinn: Svo var slétta kölluð, er lá framan við Kristjáns Hlið. Þar stóð hús sem kallað var “Gula húsið”,” segir í örnefnaskrá. Gula húsið hefur verið í hlaðvarpanum sunnan við bæinn.
Bærinn stóð á háhæðinni sem fyrr sagði en aflíðandi halli er niður að sjó sunnan til. Kristján Jónsson bjó á Hliði seinni hluta 19. aldar. Þegar túnakortið er gert 1917 er Gula húsið horfið af bæjarhlaðinu.

Skógtjarnarbrunnur

Í örnefnaskrá segir: ,,[Hliðstúngarður] var aðallega reistur á norður og austurhlið túnsins, en sjór braut hann og var hann byggður aftur.” Á túnakortinu er merktur túngarður sem liggur 70 m til austurs frá bæ en beygir þar til suðurs og liggur í um 50 m áður en hann hverfur. Túngarðurinn sést enn. Hann er fast sunnan malarvegarins, 2-3 m, sem liggur eftir tanganum. Garðurinn er alls 90 m, jafnlangur og hann var árið 1917 m skv. túnakorti. Hann er aðallega úr torfi, en þó sést í honum grjót á stöku stað. Hann er siginn, 0,3 m hár.
“Hliðsvegur”: Svo var vegur lagður og hlaðinn eftir Grandanum. Síðan það var hefur jarðvegur hlaðist að veginum og fyllt upp beggja megin við,” segir í örnefnaskrá. Malarvegur er eftir Grandanum miðjum, líklega þar sem Hliðsvegur lá áður, á háhryggnum. Skv. túnakorti lá vegurinn heim að Efra-Hliði, en engar götur eru merktar niður að Neðra-Hliði. Beggja vegna malarvegarins er grasi gróin órækt og mikil sina.
Inn á túnakort frá 1917 er merktar varir 60-70 m norðaustan við Neðra Hlið. Við þá vestustu stendur skrifað á kortið: “Vör (notuð nú).” Sú vör er staðsett u.þ.b. 60 m norðaustur frá Neðra Hliði og 140 m VNV við Efra Hlið. Á staðnum sem vörin á að hafa verið skv. túnakortinu, er slétt klöpp, og fremur stórgrýtt beggja vegna. Aðalvörin frá Hliði var nefnd Gamla-Hliðsvör. Á örnefnakort af Álftanesi er Gamla-Hliðsvör merkt inn 20-40 m norðaustur frá Efra-Hliði. Á þessum slóðum hefur sjór brotið land og allt umhverfi breytt frá því sem áður var. Ekki er alveg ljóst af örnefnaskrá hvaða heiti eiga við hverja vör. Við skráningu Gömlu-Hliðsvarar var fylgt merkingum örnefnakortsins. Í örnefnaskrá segir: “Hliðsvarir: Norðan undir Hliðsbæina Bessastaðirundir miðjum Gamlahliðsbakka. Þar var gott rúm fyrir mörg skip og stór…Nýja Hliðsvör: Svo var annar hluti vararinnar kallaður.” Nýja-Hliðsvör var u.þ.b. 70 m norðaustan við Neðra Hlið. Þar eru tvær varir saman og báðar merktar inn á túnakort frá 1917. Nýja-Hliðsvör var líklega sú eystri. Eystri vörin er ekki eins hrein og sú vestari. Í henni eru flúrur og klettar en sandur í fjörunni.
Ofan við fjöruna var hlaðið byrgi. “Það var allstórt skipahróf, er geymdi skip og báta Hliðsbónda milli,” segir í örnefnaskrá. Inn á túnakort frá 1917 er merkt skiparétt. Hún var á norðurbakka Hliðstanga milli Hliðsvara og, 80 m norðvestur frá Efra-Hliði. Líklega er skiparéttin það sama og nefnt er skipahróf í örnefnaskrá. Núverandi íbúðarhús á Hliðstanga er fast sunnan skiparéttarinnar. Fjörukamburinn er hærri en veggur naustsins. Sunnan naustsins er slétt malarborin lóð að núverandi íbúðarhúsi á Hliðstanga. Aðeins eru 3 m milli hleðslu og húss vestast, en 10 m austast. Aðeins er einn veggur naustsins eftir. Hann er 7 m langur, norðvestur-suðaustur. Hann er 0,6 m hár og sjást fjögur umför af grjóti. Ekki sést hversu breið hleðslan er því mölin í fjörukambinum gengur að honum og upp fyrir hann. Ekki sést nú hvort hleðslan tilheyrir suður- eða norðurlanghlið naustsins. Sé naustið horfið í fjörukambinn, þá er hleðslan leifar suðurlanghliðar. Hafi verið byggt á nauststæðinu er hleðslan leifar norðurlanghliðar.
LáskotsbrunngataHeimild er um sjóbúð, “Beitningabyrgið”: “Það var byrgi austan varanna, líklega Hliðsvara, þar beittu menn lóðir,” segir í örnefnaskrá. Ekki er vitað um staðsetningu byrgisins. Ætla má að það hafi staðið nálægt Hliðsvörum, en mikið land hefur brotnað af norðurströnd Hliðstanga og líklegast að byrgið sé horfið í sjóinn, alltéð sjást leifar þess ekki á þessum slóðum. Hnit var tekið austan varanna fyrrnefndu á norðurströnd Hliðstanga.
Grútarbyrgið var enn eitt byrgjanna. “Það geymdi ker og tunnur undir lifur þá sem kom úr fiskinum,” segir í örnefnaskrá. Ekki er vitað um staðsetningu byrgisins. E.t.v. stóð það nálægt Hliðsvörum, þar sem fiskurinn kom á land, en sjór hefur brotið mikið land af norðurströnd Hliðstanga og líklegast er að byrgið sé horfið í sjó, a.m.k. sjást leifar þess ekki á þessum slóðum.
Sjógatan var gatan kölluð frá vörunum heim til bæjar. Lá hún upp með vesturvegg Gamlahliðs [ekki er ljóst hvort hér sé vísað í Efra-Hlið, að gatan hafi legið upp úr fjörunni við bæinn. Eða hvort vísað er til Gamla-Hliðs],” segir í örnefnaskrá. Milli bæjarstæðis Efra-Hliðs og Hliðsvara er grasi gróið og sinuvafið, svæði. Það sama á við um svæðið að þeim slóðum sem Gamla-Hlið stóð áður. Öll merki um Sjógötuna eru nú horfin og kemur þar sjálfsagt bæði til að sjór hefur brotið mikið land af norðurströnd Hliðstanga og sömuleiðis gætu jarðbætur á 20. öld hafa skemmt götuna.

Tóftir Lásakots

“Fjósbrunnurinn var í túninu austan við Fjósið. Vatnið var með megnu brennisteinsbragði. Fjósið: Það stóð í túninu sunnan bæjanna, sér byggingin alveg,” segir í örnefnaskrá. Ummerki um Fjósið, Fjósbrunn og Fjósgötur eru horfin og ekki vitað hvar þau voru.
Innan túngarðs er Skjónaleiði. “Þar var 1807 heygður hestur Jörundar bónda Ólafssonar á Hliði er Skjóni hét. Skjónasteinn er ofan á leiðinu. “Á þúfu þessari eða leiði liggur steinn. Á hann er klöppuð vísa þessi. Ofan við vísuna er ártalið 1807. Heygan Skjóna hér ég tel/þessi Jörsa þjenti vel/Hestinn bezt að liði./Þegar hann bjó á Hliði,” segir í örnefnaskrá. Það sem sést af steininum er 40 x 30 sm. Steinninn er meira en hálfur á kafi í sinu en og sokkinn í þúfuna. Á þeim hluta sem er ofar moldu má sjá nokkra stafi en ekki vísuna góðu né samhengi í texta, til þess þyrfti að moka ofan af honum. (Sjá meira undir Skjónaleiði).
Sandhús var enn eitt býlið á Hliði, suð-vestur frá Hliðsbæjum. Það stóð þar sem Melshöfði byrjaði. Sandhúsavör lá innan Melshöfða. Var allgóð vör. Þar var lent þegar komið var úr kaupstaðarferðum úr Hafnarfirði,” segir í örnefnaskrá. Sandhúsavör er merkt inn á kort Erlends Björnssonar. Um búendur og býli í Bessastaðahreppi á 8. áratug 19. aldar segir hann: “Hjá Neðra-Hliði var Pétursbúð, er var þurrabýli.” Ekki er vitað hvar Pétursbúð stóð.
LásakotsbrunnurGrasi gróið og þýft er á bæjarstæðinu, sem er sinuvafið og komið í órækt. Bæjarstæðið er á vesturenda náttúrulegs hryggs, Granda. Fjörukambur er aðeins um 40 m vestan og norðan bæjarstæðisins.
“Markasteinn var stór steinn, sem stóð á miðjum Hliðsgranda. Slíkur steinn stendur nú á austanverðum Grandanum. Spurning er hvort þarna kunni að vera um sama steininn að ræða, enda hefur brotið mjög af Grandanum á umliðnum tímum.
Varasteinn var norðar í fjörunni. Þessi steinn var með áletruninni “M.H.S”,” segir í örnefnaskrá. Sjór hefur brotið mikið af norðurströnd Hliðstanga líklegt að Varasteinn sé horfinn í sjó því engin merki fundust um hann við vettvangsathugun.
Um bæinn Skógtjörn er m.a. getið 1248: “Gaf Þórður til staðarins í Skálaholti Skógtjörn á Álftanesi fyrir sál föður síns og móður.”  “… Knud Steinsson konunglig Maiestatis liensmann yfer Island giordi suoddan skiptti og byting vid herra Gijsla Jonson. ,,, ad þær iarder sem Skalholltz domkirkia atti a … Alttanesi … Eyuindarstader. Suidholltt. Skogtiaurn og Brecka. skylldu þessar iarder falla til kongdomsins …”
1703: Tvennar varir… “jarðarinnar brýtur sjórinn í Skógtjörn og ber þar uppá sand og marálm…”  Íbúðarhúsabyggð er risin allt í kringum Skógtjarnarbæjarstæðið gamla utan þess að sléttað tún er austan þess. Land jarðarinnar er í aflíðandi halla mót suðri, niður að Skógtjörn sem er meðfram landareigninni að sunnanverðu. Skógtjörn er merkt inná túnakort frá 1917, um 300 m suðvestan við Brekku. Inn á örnefnakort af Álftanesi er merktur brunnur nálega miðja vegu milli Skógtjarnar og Hólakots. U.þ.b. 80 m VNV frá Hólakoti er steypt þró með járnloki. Að þrónni hefur verið ýtt jarðvegi. Umhverfis þróna er slétt tún, þó farið að hlaupa í þúfur.  Brunnurinn er ekki merktur á túnakort frá 1917.

Garður við Lásakot

Um 260m austan við Skógtjörn og 100 m SSA við Brekku liggur garðlag frá grjótgarði niður að Skógtjörn. Garðurinn er líka merktur inn á túnakort frá 1917. Grónir lyngmóar eru austan garðlagsins en sléttuð tún vestan þess. Garðurinn er mikill um sig, en eingöngu rjóthlaðinn. Hann er um 200 m langur. Op (um 2 m) er á garðinum um 90 m frá norðurenda. Vestan garðsins og í stefnu frá opinu voru hjáleigurnar Gíslakot og Eysteinskot. Að líkindum hefur garðlagið verið Skógtjarnartúngarður. Syðst tengist það garðlögum frá Lásakoti og sjóvarnargarði, sem þarna er.
Skógtjarnarbrunngata lá frá Brunninum heim til bæjar. Brunnurinn hefur verið vel upp hlaðinn. Frá honum lágu götur heim á hverja hjáleigu, og að hverri þurrabúð,” segir í örnefnaskrá. Umhverfis brunninn er sléttað tún en óræktaður rimi að íbúðarhúsbyggð vestar. Ekki sést til Skógtjarnarbrunngötu lengur. Hún er horfin í sléttað tún.
Gíslakot var þurrabúð frá Skógtjörn S-A frá Skógtjörn. Gíslakotstún var lítið gerði sem fylgdi þurrabúðinni. Inn á túnakort frá 1917 er merkt býlið Gíslakot um 160 m SSV við Brekku og 200 m suðaustan við Skógtjörn. Ekki er víst að kotið hafi verið nákvæmlega staðsett á túnakortinu þar sem bæjarheitið er innan sviga og gæti það þýtt að kotið sé í eyði og orðið tóftir einar. Á uppdrætti EB er Gíslakot merkt inn alveg niðri við sjó (Skógtjörn) u.þ.b. 350 m SSV frá Brekku.
Nöfnunum Gíslakoti og Dómhildarkoti hefur slegið saman í gegnum tíðina. Árið 1870 er Gíslakot og Dómhildarkot sitthvor bærinn. Inn á örnefnakort af Álftanesi frá árinu 1977 er Gíslakot nefnt Dómhildarkot í sviga. Árið 1917 er Dómhildarkot ekki merkt inn á túnakortið. Búið er að slétta bæjarstæði Gíslakots í túnið en þar sem býlið stóð skv. túnakortinu eru ójöfnur, þúfnahlaup og einstaka steinar standa upp úr sverði. Þar mætti búast við leifum býlisins undir sverði. Á uppdrætti EB eru merkt inn fjögur kot í einum hnappi norðan Skógtjarnar. Vestast var Gíslakot, 100 m austar var Eysteinskot og Hólakot 50 m austur frá Eysteinskoti. 50 m norðan Gíslakots og Eysteinskots var Dómhildarkot.

Grásteinn

Seint á 19. öld var grasnyt í Gíslakoti og ein kú. Eysteinskot var Þurrabúð í Skógtjarnarlandi, austur frá Eysteinskoti. Ekki sést vottur af Eysteinskoti í túninu, það hefur verið rifið og rústirnar sléttaðar í túnið. Örlitlar ójöfnur eru á þeim stað sem kotið á að hafa verið á skv. túnakorti í rimanum og þar geta leynst leifar Eysteinskots. Í endurminningum EB kemur fram að Eysteinskot um 1870, hafi verið grasbýli, með eitt kýrfóður. Á uppdrætti í bók EB er Eysteinskot 350 m sunnan Brekku og 100 m austan við Gíslakot, af þessu má ráða að staðsetning býlanna hafi skolast til í gegnum tíðina.
Hólakot var einnig þurrabúð í Skógtjarnarlandi, austur frá Eysteinskoti. “Hólakotstún var túnskiki eða gerði við þessa þurrabúð,” segir í örnefnaskrá. Hólakot hefur verið rifið og rústirnar sléttaðar í túnið. Ójöfnur sjást þó í hólnum og steinar standa upp úr sverði á nokkrum stöðum, líklega úr býlinu.
Lásakot er, líkt og aðrar bæir, nú tóftir einar – en þó öllu greinilegri því vel má lesa þar húsaskipan og nýtingu. Lásakot var þurrabúð austast í Skógtjarnarlandi. Þar var búið einna lengst af öllum Skógtjarnarþurrabúðum, eða allt til 1920? Haughúsbrunnur - GAG“Lásakotstún var stærst tún við þurrabúðir Skógtjarnar,” segir í örnefnaskrá. Inn á örnefnakort af Álftanesi er Lásakot merkt skammt norðan Skógtjarnar suðaustan við Hólakot og Gíslakot. Tóftir Lásakots eru á norðurbakka Skógtjarnar, u.þ.b. 450 m suðaustan Brekku, og umhverfis tóftirnar eru miklir grjótgarðar. Bæjarstæðið er í aflíðandi halla mót suðri. Tóftirnar standa fremst á hörðum, grasi grónum en smáþýfðum bökkum Skógtjarnar. Í endurminningum EB kemur fram að Lásaskot (um 1870), var þurrabúð og oftast tvíbýli. Annar þurrabúðarmaðurinn í Lásakoti lifði mikið af því að þurrka og flytja marhálm til Reykjavíkur og selja hann þar. Rústasvæðið er stórt, markað af töluverðum garðlögum og eru tóftirnar í suðausturhorni þess. Bæjartóftin eru 4 hús sambyggð og snúa austur-vestur. Tóftirnar eru úr torfi og grjót, og sést grjót í veggjum bæði að innan-og utanverðu. Austasta húsið í tóftaröðinni er með op á norðurgafli. Vestasta húsið er stærst, skiptist í 3 hólf  og snýr norður-suður. Í nyrst hólfinu er afstúkað smáhólf og þaðan er op til austurs. Úr stærsta hólfinu er svo innangengt í fjórða hólfið í tóftaröðinni sem er smáhólf til austurs. Hæstu hleðslur eru u.þ.b. 1 m á hæð. U.þ.b. 10 m norðvestan við vestasta húsið í bæjarröðinni er tóftarbrot í túninu um 3 x 2 m stór og dæld og stallar þar upp af. Einnig er stallur í túninu bæði upp af miðjutóft bæjarraðarinnar og sömuleiðis austustu tóftinni. Ekki er ljóst hvaða hlutverki stallar þessir hafa gegnt.

Álftanes

Brekka og nágrenni – kort – túnakort.

Stór einföld tóft er í túnhorni 25 m norðvestur frá tóftaröðinni á bakkanum. Sú er hlaðinn úr torfi og grjóti þó hún sé að mestu torfhlaðinn, snýr norður-suður og op nyrst á vesturlanghlið. Suður frá tóftaröðinni eru aðeins 2 – 5 m suður að tjarnarbakka Skógtjarnar en austan, norðan og sunnan liggja garðlög umhverfis bæinn. Garðarnir eru eingöngu hlaðnir úr grjóti og skiptast í ýmsa smágarða. Í sumum má sjá öldukennt yfirborð og eru það líklega gamlir kálgarðar. Í og á tjarnarbakkanum má einnig sjá hleðslur víða. Op er á grjótgarðinum 2 m austan austustu tóftarinnar í bæjarröðinni og einnig er op austan við tóftina sem er stök norðvestast í túninu. Gata hefur legið til vesturs, norðan bæjarraðarinnar. Rústirnar í Lásakoti eru stæðilegar og hafa mikið varðveislugildi sem eini fulltrúi tuga smákota sem voru á Álftanesi. Lásakotsbrunngata lá frá kotunu til vesturs og er enn greinileg. Skógtjarnarbrunnur er nú vestast á sléttu túni vestan Lásakots og suðvestan Brekku. Hann virðist í fyrstu vera hóll, en er betur er að gáð má sjá á honum járnlok; dæmigerður brunnur á þessu svæði fyrrum. Hafsteinn Árnason í Brekku sagði brunninn hafa verið færðan nær Stógtjörn vegna þess að vatnið hafi þótt saltbragðað.
Lásakotstúngarður er austan til við þurrabúðina. Lásakotstúngarðshlið var á þessum túngarði og sést enn. Um 110 m austur frá Lásakoti er mikill garður sem liggur frá fjöru (eða Skógtjarnarbakka) nánast upp að landamerkjagarði. Vegur skilur í milli garðlaganna tveggja.
Lyngmóar eru beggja vegna garðsins. Garðurinn er eingöngu grjóthlaðinn, 2 m breiður og u.þ.b. 160 m langur og liggur í norður – suður. Op er á garðinum um 30 metra frá suðurenda hans.
Lásakot - uppdrátturLásakotsbrunngata lá frá Skógtjarnarbrunni heim í bæ,” segir í örnefnaskrá. Á herforingjaráðskorti frá 1902 er sýnd leið frá Lásakotsbæ til vesturs að Skógtjörn, Árnakoti og Melshúsum. Varla hafa margar götur legið þessa leið og verður að telja hana Lásakotsbrunngötu, þó e.t.v. hafi hún kallast fleiri nöfnum. Enn sést hvar gatan hefur legið frá Lásakoti og vestur að Skógtjarnartúngarði en vestan túngarðsins eru sléttuð tún og þar sést gatan ekki. Grónir lyngmóar eru í kringum Lásakot en sléttuð tún vestar. Umferð um götuna hefur grafið hana niður en hún liggur milli garðlaganna í Lásakoti. Gatan sjálf er mjó, 0,4 m breið og er allt að 0,3 m djúp. Þá breikkar hún er kemur að brunninum. Þangað hafa verið a.m.k. 200 m. En gatan sést nú u.þ.b. 80 m vestur frá Lásakoti, að túngarðinum. Áður farið var á staðinn var leitað upplýsinga hjá Hafteini Árnasyni (áttræðum) í Brekku. Hann sagði brunninn varla hafa verið brunn, frekar holu með steinum í kring. Hann væri skammt neðan við hlaðna túngarðinn ofan strandar, um 10-15 metrum vestan við þvergarðinn, sem þar er og liggur áleiðis upp að Brekku. Í Lásakoti hefði síðast búið Guðmundur nokkur, uppnefndur Kartafla vegna þess hvernig fætur hans væru.
Með bökkum Skógtjarnar er grjótgarður. Sunnan garðsins eru bakkar Skógtjarnar, flatir og blautir (20 metra breiðir) en norðan þess eru sléttuð Suðurtúnin. Garðurinn liggur frá Skógtjörn að Hólakoti. Hann hefur ekki verið hlaðinn upp vandlega á þessum parti og er fremur grjótruðningur en verkleg hleðsla. Suðaustar verður garðurinn verklegri, og greina má hleðslur með 3-4 umförum af grjóti. E.t.v. er grjótruðningurinn yngri en hleðslurnar í austurhluta garðsins. Garðurinn hefur að líkindum gegnt hlutverki túngarðs fremur en sjóvarnargarðs.
Kvöldroði handan göngusvæðisins - bærinn Skógtjörn var efst til hægriLending virðist vera neðan Lákakots. “Ekki er talað um lendingu á þessum slóðum í örnefnaskrá. Brekkuvör, Melhúsavör og Skógtjarnarvör voru við “Helguvík, undir Grandanum að Hliðós.” E.t.v. er þetta lending smákotanna sem voru í suðurtúninu, Lásakots, Eysteinskots, Hólakots, Gíslakots eða Dómhildarkots, en áður fyrr var lagt upp frá Skógtjörn á bátum, skv. heimildamanni, Önnu Ólafsdóttur Björnsson. Á þessum stað er eini staðurinn í fjörunni milli Skógtjarnar og Lásakots, sem virðist vænlegur sem lending. Varirnar virðast tvær, eins og áður segir, og skiptast í miðju af mjóum klettarana. Sandur er í fjörunni. Grjótgarður liggur niður að þessari meintu lendingu, suður frá öðrum grjótgarði.
Brekka er nokkuð ofan skógtjarnar. Bæjarins er getið 1556: ,, … Knud Steinsson konunglig Maiestatis liensmann yfer Island giordi suoddan skiptti og byting vid herra Gijsla Jonson. ,,, ad þær iarder sem Skalholltz domkirkia atti a … Alttanesi … Eyuindarstader. Suidholltt. Skogtiaurn og Brecka. skylldu þessar iarder falla til kongdomsins …” Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703, segir: “Selstöðu hefur jörðin brúkað þar sem heita Norðurhellrar.” Þá er jarðardýrleiki er óviss og jörðin í konungseign. Í sýslu- og sóknalýsingum frá 1842, segir: “…dæmi eru og til, að jarðeigendur hafa selt jarðir sínar svona í smápörtum, og þannig var t.a.m. jörðin Brekka í Álptanesi, 16 hndr. að dýrleika, seld fyrir fáum árum í 7 pörtum, fyrir hverja virðist vanta lagaheimild.” Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703, segir: “Túnunum spillir sjáfarágangur og átroðningur af almenningsvegi.” Tún Brekku eru beggja megin Grandans og kallast Suður-og Norðurtún eftir því hvoru megin þau liggja. Suðurtún eru enn óbyggð en íbúðarhúsabyggð er risin annarsstaðar í kringum Brekkubæ.
Gamli bærinn, sem merktur var inn á túnakort frá 1917, stóð þar sem vesturhluti íbúðarhússins á Brekku er nú. Brekka er á náttúrulegum hrygg í landslaginu. Þar sem gamli bæinn var er nú steinsteypt íbúðarhús með kjallara en vestan við það er hæð í sléttu túninu.Tóft við Haugshús - fyrir trjáplöntun
Hugsanlegt að þarna sé um að ræða útflattar leifar bæjarhúsa þó mestur hluti þeirra sé nú undir íbúðarhúsinu.
Inn á túnakort frá 1917 er merkt útihús innan við 5 m vestsuðvestan við Brekku. Útihúsið hefur verið þar sem nú er hæð í túninu vestan við núverandi íbúðarhús á Brekku. Inn á túnakortið er merkt útihús 300 m suðaustan við Brekku. Tóft hússins sést enn.
Inn á túnakortið er merkt býlið Kirkjubrú u.þ.b. 220 m austan við Brekku. Á Kirkjubrú er nú gamalt steinhús, tvílyft með kjallara, skv. túnakortinu stóð gamli Kirkjubrúarbærinn u.þ.b. 20 m vestan núverandi íbúðarhúss. Kirkjubrú stendur á náttúrulegum hrygg, Granda, sem liggur frá Hliði í vestri að Skerjafirði í austri. Vegur lá eftir Granda, hægra megin við íbúðarhúsið.
Allir Brekkubæirnir (Brekka, Brekkukot og Kirkjubrú) eru á hrygginn og kallast bæjartúnin norður og suðurtún, eftir því hvoru megin hryggjar þau eru. Hóll er vestan við steinsteypta íbúðarhúsið, sem nú stendur. Hann er mjög raskaður, húsum hefur verið ýtt niður brekkuna mót suðri. Útihús stóðu á hólnum í seinni tíð að sögn Friðriks Jóhannssonar ábúanda í Sviðholti en gamli bærinn stóð þar áður, skv. túnakorti. Miklar ójöfnur eru í hólnum og spýtna og steypubrak neðst í honum að sunnanverðu.  Allt bæjarstæðið er mjög raskað af sléttun, niðurrifi og nýrri byggingum. Á Kirkjubrú eru nú, auk steinhússins, útihússkúrar, sem ekki niðurgrafnir. Kirkjubrú hefur verð í eyði í nokkur ár.
Tóft við Haugshús - eftir trjáplöntunInn á túnakort frá 1917 er merkt býlið Núpskot 170 m ASA við Brekku. “Núpskot var á miðju Suðurtúni Kirkjubrúar (Ath.: en talað var um Norðurtún og Suðurtún sitt hvoru megin í áðurnefndum hæðarhrygg [þ.e. Grandi] – bæði frá Brekku og Kirkjubrú). Á rústum þess var kálgarður fram til 1940.” segir í örnefnaskrá. Þar sem Núpskot var, er ávalur hóll í túninu.
Hóllinn er í sléttuðu túni. Landi hallar mót suðri og austri. Vegna þess hversu ávalur hóllinn er, eru mörk hans óskýr. Rústirnar hafa verið sléttaðar í túnið en búast má við að hleðslur leynist undir sverði.  Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703, segir um Brekkuland: “Torfrista og stúnga fer mjög til þurrðar.”
Halakot er merkt inn á túnakort frá 1917 um 420 m vestan við Brekku. Halakot er u.þ.b. 20 austan við Halakotstjörn, Bæjarstæði Halakots. Horft til norðvesturs. Bæjarstæði Hjallakots er hægra megin við golfskálann bláa. Halakotstjörn er neðan við gerðið.
Í endurminningum EB kemur fram að Halakot hafi verið grasbýli og þar venjulega hafðar 3 kýr. Búið er að rífa bæinn og öll ummerki um hann horfin, en gerði um kálgarð sem var við norðan við bæ sést enn. Árið 1917 var vegur heim að bæ frá götunni, þar sem nú heitir Höfðabraut. Timburhús virðast hafa verið í bæjarröðinni vestanverðri en stakt torfhús austan við. Kálgarður var norðan og vestan bæjar.
Jardhysid 2014“Beint vestur af Brekku c.a. 10 m vestan við merkin er Smiðshús. Það stendur á svipuðum stað og býlið Brekkukot, stóð áður. Fyrir 1950 voru þarna tveir kálgarðar og umhverfis þá hlaðnir grjótgarðar. Sjávargatan frá Brekku lá á milli þessara garða. Hún var fjölfarin gönguleið, því eftir henni var t.d. gengið til kirkju að Bessastöðum af bæjunum vestan við Brekku.” segir í örnefnaskrá. Sjávargatan lá frá gamla bænum og til vesturs á hryggnum sem er í landslaginu á þessum slóðum. Gatan lá í túnunum til vesturs þangað sem nú er vegur að Hliði. Hún lá á sama stað og vegurinn liggur þar til komið var að Brekkuvör í Vestri-Skógtjörn. Rennislétt tún eru að mestu þar sem gatan var en þó lá hún að hluta þar sem nú liggur akvegur. Gatan var notuð fram eftir öldinni.
“Í Brekkulandi, fast fyrir austan merkin [líklega við Brekkukot], er Brunnurinn. Í hann var sótt vatn frá Brekku” segir í örnefnaskrá. Brunnurinn var um 80 m norðnorðvestan við bæ en 2-3 m austan við túnjaðar og heimreið að Smiðshúsum. Hann var 30-40 m ofan við Suðurnesveg. Fyllt hefur verið upp í brunninn og hann er ekki lengur greinilegur á yfirborði. Umhverfis eru sléttuð tún en gras er aðeins lægra í námunda við þar sem brunnurinn var.
“Áður mun vegur hafa legið þar sem þessi garður er í stefnu á Selskarð. Hann hefur verið upphlaðinn og púkkaður. Þetta var fyrsti vegur á Suðurnesið og var byggður nokkru fyrir aldamótin” segir í örnefnaskrá. Greinilegur, grjóthlaðinn túngarður sést 80-100 m sunnan við íbúðarhúsið á Brekku. Garðurinn liggur austur-vestur með nokkrum litlum beygjum. Garðurinn liggur í túnjaðri í Brekkulandi en er ennþá greinilegur vestar í íbúðahúsabyggð.
Túngarðurinn er hlaðinn úr stórum grjóthnullungum. Hann afmarkar tún Brekku til suðurs og liggur í suðvesturhorni þess svæðis sem nú er tekið til aðalskipulags (þ.e.a.s. árið 2002) á um 100 m kafla.
“Sýsluvegur var lagður laust fyrir aldamótin 1900 austan frá Selskarði vestur milli Skógtjarnar og Brekku,” segir í örnefnaskrá Álftaness.

Sýsluvegurinn gamli

“Áður fyrr mun vegur hafa legið þar sem þessi garður er í stefnu á Selskarð. Hann hefur verið upphlaðinn og púkkaður. Þetta var fyrsti vegur um Suðurnesið og var byggður nokkur fyrir aldamót,” segir í örnefnaskrá. Vegurinn er orðinn talsvert úr lagi genginn enda byggður á mjög blautu undirlagi. Hlaðið hefur verið undir vegginn með grjóti. Hleðslur eru 0,2-0,4 m háar að sunnan en lægri að norðan því örlítill halli er á landinu. Vegurinn er a.m.k. 400 m langur og víðast um 2 m breiður. Hann liggur í suðaustur -norðvestur. Á honum hafa verið gerðar vegabætur á nokkrum stöðum, t.d. ræsi í gegnum veginn hlaðið svo vatnið safnaðist ekki saman ofan hans. Fyrst hefur verið stungið fyrir ræsinu, það lagt hellum sem eru reistar á rönd og að lokum hellur lagðar yfir.
“Á Grandanum, fast norðan við veginn, sem liggur út á Suðurnes, er stór steinn, sem nefndur er Grásteinn,” segir í örnefnaskrá Brekku. Suðurmerki Sviðholts lágu úr Grásteini “…í Króksgarð miðjan og þaðan í markastein fast norðan við sjávargötu frá Króki,” segir í örnefnaskrá Sviðholts. Grásteinn er 290 m norðaustan við Brekku og 700 m ANA við Sviðholt. Grásteinn er u.þ.b. 10 m norðan Suðurnesvegar á náttúrulegum hrygg í umhverfinu sem kallast Grandi. “Í honum [Grásteini] býr huldufólk. Eitt sinn var reynt að kljúfa Grástein og sjást enn þá fleygaförin í honum. Þegar menn voru byrjaðir að kljúfa steininn sýndist þeim húsin á Eyvindarstöðum standa í ljósum loga og fóru að athuga. Reyndist þá ekki vera kviknað í. Önnur tilraun var gerð til að kljúfa Grástein og fór allt á sömu leið. (Sjá meira um Grástein).
Hefur það ekki verið reynt síðan.” segir í örnefnaskrá Brekku. Fleygförin afdrifaríku eru vel greinileg í Grásteini.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703, segir: “Tómthús [eru] heima við bæinn.” Í Sýslu-og sóknalýsingum er sagt að við Brekku séu tvö tómthús. Ekki sést til býlanna nú og enginn veit hvar við bæinn þau stóðu.
Á túnakorti frá 1917 er merktur inn brunnur 30 m vestur frá vesturhorni Halakots. Þar er þúst á austurbakka Halakotstjarnar. Þústin er fast austan tjarnarinnar í deiglendi á mörkum tjarnar og túns. Ofan og austan þústarinnar er þurr og rennsléttur golfvöllur. Þústin er um 2,5 m í þvermál og 0,6 m á hæð. Steinar sjást í hliðum hennar. Þetta eru síðustu leifar Halakotsbrunns, sem eru nú mjög raskaðar.
Haugshús er 1703 konungseign. “Hálflenda so kölluð, því það hefur ekki fyrirsvar nema til helmíngs á móts við lögbýlisjarðir; þykjast menn heyrt hafa að hálflenda þessi sje til forna byggð úr Sviðholtslandi.” “Haugshús voru um 200 m norður og austur (upp) af Hjallakoti. Þau eru einnig komin í eyði fyrir löngu. Þar var löngum tvíbýli,” segir í örnefnalýsingu.
Haugshús voru á hól, um 100 m suður frá Þórukoti. Sunnan við hólinn er malarvegur niður að golfskála, sem er fast sunnan við bæjarstæði Hjallakots. Haugshús stóðu hér um bil á miðjum golfvellinum.
Brúin yfir norðaustanverða Skógtjörn“Haukshús, hálflenda so kölluð, því það hefur ekki fyrirsvar nema til helmings á móts við lögbýlisjarðir; þykjast menn heyrt hafa að hálflenda þessi sje til forna bygð úr Sviðholtslandi.” segir í JÁM. Ekki er til af jörðinni en hinsvegar hefur kortagerðamaðurinn merkt Haugshús í sviga, til að sýna afstöðu, inn á túnakort Brekku, Skógtjarnar og Halakots.
Gróa Guðbjörnsdóttir, sem er alin upp í Hákoti á Álftanesi, segir bæinn hafa verið á hólnum, sunnan brunnhúss úr torfi og grjóti sem var reist um 1950.  “Við merkin, niður frá Haugshúsum, var Haugshúsabrunnur og voru tröppur niður í hann,” segir í örnefnaskrá.  Hóllinn er sléttaður en þó ber á ójöfnum í honum. Hafsteinn sagði brunninn hafa verið skammt austan götu, sem nú liggur að Haukshúsum, alveg niður undir túnmörkum. Jafnan hefði verið talað um þennan brunn af lotningu. Hann hefði sjálfur lagt til fyrir alllöngu að brunnurinn yrði grafinn upp og hafður til sýnis. Á herforingjaráðskorti frá 1902 sést að leiðin heim að bænum var frá Þórukoti.
Annars er það helst í frásögu færandi að daginn, sem FERLIR gekk um Haughúsasvæðið (Haukshúsasvæðið) og skoðaði m.a. tóft þá er sést á meðfylgjandi myndum að engin tré var þar að sjá. Daginn eftir hafði verið plantað röð trjáa – m.a. þvert á tóftina. Í Þjóðminjalögum segir m.a. í 10. gr. Fornleifum má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi né nokkur annar, spilla, granda né breyta, ekki heldur hylja þær, laga né aflaga né úr stað flytja nema með leyfi Fornleifaverndar ríkisins. Þarna ætti því að liggja fyrir opinbert leyfi fyrir framkvæmdunum. Ef ekki virðast bæði skipulagsyfirvöld á Álftanesi og Fornleifavernd ríkisins hafa verið sofandi á verðinum. (Sjá Þjóðminjalögin frá 2001 í heild).
Í Skógtjörn er gömul hlaðin brú yfir hana norðaustanverða. Um hefur verið að ræða götu er lá frá Garðabæjunum yfir að Bessastaðabæjunum. Hún sést enn glögglega, en hluti hennar fer á kaf á flóði.
Svæðinu hefur verið mikið raskað og erfitt fyrir ókunnuga að staðsetja og greina einstakar tóftir. Í rauninni kom á óvart, miðað við hversu heillegt búsetulandslag var þara skv. fyrirliggjandi upplýsingum, að ekki skuli hafa verið meira tillit til þess er raun ber vitni.
Ekki var gengið um Sviðholt að þessu sinni, en verður gert síðar.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Guðrún Alda Gísladóttir – Deiliskráning í Bessastaðahreppi: Fornleifaskráning á völdum aðalskipulagsreitum – Fornleifastofnun Íslands – Reykjavík 2004.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1703.
-Jarðabók Johnsens, 1847.
-Erlendur Björnsson – Sjósókn.
-Anna Ólafsdóttir Björnsson – Álftaness saga.
-Sturlungu saga II – Þórðar saga kakala.
-Hafsteinn Árnason – Brekku.

Lásakot

Áni

Gengið var frá Selvogsréttunum austan við Hlíðarvatn og upp í Selbrekkur neðst í svonefndu Rofi. Þar voru skoðaðar tóftir Vogsósasel við Stekkjardældir, sem sumir hafa álitið vera Hlíðarsel. Tóftirnar eru innan marka Vogsósa. Þórarinn, bóndi, staðfesti að um sel frá þeim bæ væri að ræða.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Gengið var áfram austur Rofið og stefnan tekin á einn af stærstu hraunhólunum í heiðinni, með stefnu á Katlabrekkur. Þar undir vestanverðum hólnum er Hlíðarborgin. Hún hefur verið allnokkurt mannvirki, en verið breytt síðar því inni í henni er hlaðið hús eða stekkur. Hvorutveggja gæti hafa tengst athöfnum í Hlíðarseli, sem er þarna skammt frá. Selið er í nokkurra mínútna fjarlægð til suðausturs, utan í og á grónum hól. Þar eru talsverðar rústir, sem rissa þarf upp við tækifæri. Austan við tóftirnar er nafngreind fjárborg.

Hlíðarsel

Hlíðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var til norðurs inn á svonefnda Hlíðargötu, er liggur frá Suðurfaravegi (Selvogsgötu) þar sem hann kemur niður úr Strandardal áleiðis að Strönd í Selvogi, og henni fylgt til vesturs, áleiðis að tóftum bæjarins Hlíðar. Við götuna er fjárborg undir Borgarskörðum og tvær tóftir skammt vestar. Op hellisins Ána birtist á vinstri hönd.
Þegar komið er að Hlíð ofan við Hlíðarvatn verða fyrst fyrir tóftir norðan þjóðvegarins. Þar móta fyrir húsum og görðum. Sunnan þjóðvegarins eru bæjartóftir og skammt vestar með vatninu eru tóftir útihúsa og garðar.
Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú í bráðum 80 ár. Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn, en talið er að elsti bæjarhlutinn hafi verið við tanga, sem nú stendur út í vatnið þar fyrir neðan. Þegar hækkaði í vatninu fóru þær rústir í kaf.

Borgarskarðsborg

Borgarskarðsborg.

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagt frá bókinni í álfheimum. Í henni segir frá komu skips á Eyrarbakka; var þar á skipherra er leit út fyrir að vera þar eigi allur er hann var séður. Stýrimaður tók Jón nokkurn með sér út í skipið eftir nokkrun aðdraganda og leggur hann þá Jóni á herðar að sækja bók sem væri sama í og þeirri er hann ætti, en bókinni lauk hann upp sem snarast hann kunni og lét strax aftur. Fekk Jón eigi annað að sjá og fer með það. Ræður faðir hans honum að finna Eirík prest á Vogsósum.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Eiríkur spyr hann að: “Hvað er þér á höndum ljúfurinn minn?” Jón segir honum málavöxtu alla. Eiríkur prestur spyr hann hvort hann muni eftir nokkru letri er á henni var eða geti myndað stafi eftir þeim er í henni voru. Jón kveðst það mundi kunna, og er prestur sér stafina mælti hann: “Það hefur verið sú hin versta galdrabók sem til er og mun þér þungt veita að ná henni, en þú verður hérna í nótt.”
Að morgni fær prestur honum bréf og segir honum að ganga beint á Svörtubjörg er standa spölkorn fyrir norðan Hlíð, bóndabýli í Selvogi; muni hann svo um sjá að hann hitti þar kotbæ; skuli hann þar heim ganga og fá bónda bréfið. Jón gerir sem prestur býður honum; kemur hann að bænum og hittir þar konu aldraða og stúlku; aldraðan mann sér hann þar og, og fær Jón honum bréfið. Kall biður hann inn ganga. Er hann hafði lesið bréfið sagði hann: “Sízt hugða eg að Eiríkur prestur vildi mig feigan. Þó skaltu dvelja hér í vetur, en ég mun eigi heima verða, og máttu mig feigan telja verði ég ei kominn á enn fyrsta sumardag.”

Hlíðarkot

Tóft ofan Hlíðar.

Líkar Jóni þar vel og koma þau bóndadóttur sér vel saman. Á sumardagsmorguninn fyrsta kom karl. Fekk hann Jóni bókina og bréf með til Eiríks prests. Kvaðst hann þann vetur í þyngstar þrautir komið hafa; hefðu þrjár álfkonur geymt bókina í undirheimum og haft að leik að henda henni milli brjósta sinna. Segir hann honum og að dóttir sín sé eigi heilbrigð og muni það vera af hans völdum. Sagðist hann vilja að hann kæmi til sín alfarinn er hann hefði bókinni skilað.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel.

Játaði Jón því og heldur síðan niður að Vogsósum. Fær hann Eiríki presti bréf kalls og bókina. Verður Eiríkur honum feginn og segir hann Jóni að hann hafi hjá álfafólki dvalið þann vetur. Segir hann Jóni að henda bókinni í brjóst stýrimanni er hann komi í land af skipinu.
Síðan heldur Jón austur á Eyrarbakka og bíður þess að skipið kemur; og er stýrimaður rær í land bát sínum rær Jón á móti honum og sendir bókinni á brjóst honum svo stýrimaður fellur aftur á bak í sjóinn og varð eigi bjargað. En með styrk Eiríks prests kemur bókin aftur í höndur Jóni og gefur hann hana Eiríki presti og heldur síðan til kallsins og hefur eigi síðan af honum spurzt.
Segir önnur saga frá því að Eiríkur hafi komið þessari miklu galdrabók, sem síðar var nefnd Gullskinna, fyrir í Kálfgili við Urðarfell ofan við Svörtubjörg. Þess er og getið að í bókinni sé getið um upphaf byggðar á Íslandi og að sú lýsing sé önnur ern segir frá í síðari tíma skrifum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Hlíð

Hlíð – uppdráttur ÓSÁ.

Garðaholt

Í Fornleifaskráningu Garðabæjar 2009 segir m.a. um Miðengi, Hlíð og Móakot:

Miðengi var Garðakirkjueign. 1703: Hjáleiga Garða. Ekki hluti af Hafnarfirði “Gamli menn segja, að Miðengi sje fyrst bygt úr Hlíðarlandi ekki fyrir fullum 100 árum, og hefur í manna vinni verið hálft fyrirsvar, áður en Sr. Ólafur tó það var violenter satir; imó mag. Jón Widalin man og veit að þar hefur hálft fyrirsvar verið.” JÁM III, 187
1918: Tún 1,4 teigar og kálgarðar 1180 m2″.

Hlíð

Miðengi og nágrenni – Túnakort 1918.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnkakorti 1918 má sjá gamla bæjarstæðið sunnarlega í Miðengistúni, nálægt sjónum. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Miðengi er niður frá Háteigi, og er sama heimreið að báðum bæjunum. Húsið í Miðengi stendur u.þ.b. 40-50 m fyrir ofan fjöru. Það var byggt fast aftan (norðaustan) við gamla bærinn (þ.e. þar sem hann var).” […] Skv. Fornleifaskráningu 1984 stóð gamli bærinn beint framan við núverandi íbúðarhús, þar sem hlaðið er nú […]”.
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Bærinn á Túnakortinu samanstendur af um sex torfhúsum en eitt þeirra er opin tóft.
Stefnan er suðvestur-norðaustur. Skrásetjari segir: “Hafa bæjarhúsin vísað til suðvesturs, út á sjóinn og má sjá á hleðsluraðir, niðurtroðnar í hlaðinu.” Skv. Fasteignabók voru timburhús komin í Miðengi árið 1932.” Ekki kemur fram í skráningu RT og RKT hvort bæjarhóll sjáist eða hvert ástand minjanna sé í dag.

Garðaholt

Garðaholt – örnefni – ÓSÁ.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 eru útihús rétt vestan við bæinn, m.a. svolítið ferhyrnt steinhús. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Fjós og hlaða eru u.þ.b. 10 m vestur af íbúðarhúsinu. 100 ára gamall skúr er áfastur fjósinu að sunnan. Séra Hens Pálsson í Görðum lét flytja skúr þennan frá útskálum.” […] Jens var prestur í Görðum á tímabilinu 1895-1912.”

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 má sjá tvo kálgarða framan við bæjarhúsin […] í Miðengi. Sá vestari við útihúsin er líklega sá sem skv. Örnefnalýsingu 1976-7 heitir “Fjósgarður.””

Garðaholt

Garðaholt

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 er kálgarður suðaustan við bæjarhúsin, líklega sá sem kallaður er Framgarður í Örnefnalýsingu 1976-7: “Rétt suður af bænum er Framgarður, kálgarður, aflagður fyrir nokkrum árum.” […] Skv. Fornleifaskráningu 1984 er garðurinn “beint suður af íbúðarhúsinu”…”
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Garðurinn á Túnakortinu er með hlöðnum veggjum, ferhyrndur og hefur stefnuna suðvestur-norðaustur. Kemur það heim við Fornleifaskráningu: “ferhyrndur, grjóthlaðinn garður, sem vísar á lengdina í átt til sjávar”, þ.e. í suðvestur. Utanlengd hans er um 32 m en breiddin 13,6 m. Vesturendinn er betur varðveittur, hæð 0,8 m.”

Miðengi

Miðengi.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 má sjá að varnargarður er neðan Miðengistúns og út frá honum liggja girðingar kringum túnið. Skv. Fasteignabók var Miðengi árið 1932 umgirt túngarði og hagagirðingu […] Miðengistúngarður hét sá hluti sjógarðsins sem var þarna, skv. Örnefnaskrá 1964 “þykkur og mikill” […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Á bakkanum er grjótgarður til varna ágangi sjávar.” […] Neðan túnsins er breið klapparfjara og klapparnef fram í sjó. Þarna er ekkert landbrot en flæðir oft inn á lágt land innan við kambinn.”

Miðengi

Miðengi – útihús 2021.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 sýnist vera breitt hlið á sjóvarnargarðinum þar sem Sjávargata endar en þar fyrir neðan er líklega Miðengisvör. Skv. Örnefnaskrá 1964 var hún “næst fyrir austan Hlíðarvarirnar. Einnig grýtt.” […].
Miðengisklappir hétu “klappirnar í Miðengisvör” […] og í sjónum fram undan henni var Miðengissker, e.t.v. sama og Miðengishryggur […]. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Vörin, nefnd Miðengisvör af bæ, er beint niður undan húsinu. Ofan hennar er hlið á garðinum, og voru bátarnir settir um það upp á tún, þegar vont var á vetrum. Miðengisklappir heita stórar klappir, sem ganga fram í sjó vestan við Miðengisvör. Miðengissker er fram af þeim. Svolítið bil verður milli klappanna og skersins. Á flóði fellur alveg yfir Miðengissker.”

Garðahverfi

Miðengi.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakortinu 1918 má sjá lítið ferhyrnt mannvirki byggt utan í sjógarðinn, e.t.v. grjóthlaðið naust.”

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 sést brunnur utarlega í túninu, suðaustan bæjarstæðisins, nálægt mörkum Miðengis og Garða. Miðengisbrunnur er nefndur í Örnefnaskrá 1964, neðan og sunnan bæjarins. Ekki gott vatn.” […] Skv. Örnefnalýsingu 1976-7 var hann “u.þ.b. 20-25 m norðaustur af hólnum”, þar sem sjóbúð var áður ,,á kampinum milli Miðengis og
Garða […] Af heimafólki var hann bara nefndur Brunnur. Vont vatn þótti í honum og saltblandað.” Vettvangslýsing á aðstæðum fylgir ekki skráningu RT og RKT.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 má sjá götu liggja frá bæjarhúsum, suðvestur milli garða og niður að sjó. Virðist vera hlið á sjógarðinum þar sem gatan endar. Væntanlega er þetta leiðin sem lýst er í Örnefnalýsingu 1976-7: “Gatan liggur frá íbúðarhúsinu á milli Framgarðs og Fjósgarðs, og skiptist hún neðan garðanna. Liggur Sjávargata beint niður að vörinni, en Brunngata suður að brunni”

Garðahverfi

Miðengisbrunnur.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Skv. Örnefnaskrá 1964 var Miðengisbrunnur “neðan og sunnan bæjarins” […] og lá Miðengisbrunngata neðan frá honum “heim til bæjar” […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Gata liggur frá íbúðarhúsinu á milli Framgarðs og Fjósgarðs, og skiptist hún neðan garðanna. Liggur Sjávargata beint niður að vörinni en Brunngata suður að brunni.”

“Þá á Miðengi land uppi á Garðholti, og tilheyra því bæði Völvuleiði [á líklega að vera Mæðgnadys]og Presthóll […] Á háholtinu, suðaustan við Garðholtsveg (þ.e. vegarins (svo) yfir holtið), er þúfa sem kölluð er Völvuleiði.” segir í örnefnaskrá KE. “hér fyrir ofan prestssetrið á Garðaholti…er Völvuleiði, sem fornar sagnir eru um að þar sé grafin Völva (spákona) sem farið hafi um í heiðini. En við leit finnast þar engar menjar eða leifar af nokkru tagi, ” segir í FF.

Garðahverfi

Presthóll.

“Syðst á Garðaholti heitir Holtsendi, þar sem nú eru geysimiklar sandgryfjur. Það, sem mest ber á á holtinu, er, að á því sunnarlega er smáhæð, sem heitir Völvuleiði,” segir í örnefnaskrá AG. Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Skv. fornleifaskráningu 1984 er Völvuleiði “uppi á háhæð vestan við þjóðveginn út á Álftanesi, sunnan vegar út að Görðum, syðst á Garðaholti.”
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Þar er miðlungsgrýttur melur, nokkuð grösugur allt um kring. Hóllinn sést greinilega langt að, grænni en umhverfið og stendur hátt.”
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “[Hóllinn] er grasivaxinn en sjá má grjót og hola er í honum miðjum. Hann er um 11 m að lengd og breidd og snýr í austur (100°) út úr holunni.”

Völvuleiði

Völvuleiði.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Í Örnefnalýsingu 1958 segir: “Það, sem mest ber á holtinu, er, að á því sunnarlega er smáhæð, sem heitir Völvuleiði. Heldur vestar, austanvert, þar sem Garðavegur kemur á Álftanesveg, er grasigróinn klapparhóll, ber að norðan og vestan. Þessi hóll heitir Presthóll. Þar hlóð sr. Jón Loftsson, sem hér var prestur 1562, vörðu og dvaldi þar öllum stundum.” […] Skv. Örnefnaskrá 1964 er þetta “grágrýtisklapparhóll við vegamót Garðaholts- og Álftanesvegar” […] en í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Presthóll er stór klettahóll, klofinn endilangs, í krikanum austan við Garðaholtsveg, þar sem hann liggur af Álftanesvegi.” […] Kristján Eldjárn skoðaði hólinn árið 1978: “Þar sem vegurinn út á Álftanes liggur yfir Garðaholtið er til vinstri handar (þegar út á nesið er ekið) dálítill klettahóll, (eða kannski réttara að segja klappahóll), sem heitir Presthóll. Um hann eru þjóðsögur og mun vera huldufólk í.” Kannski Garðapresturinn hafi átt vingott við það en hóllinn er enn á sínum stað.”

Garðahverfi

Miðengi 2013.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 má sjá lítið ferhyrnt torfhús við girðingu í norðvesturjaðri Miðengistúns. Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: “U.þ.b. 50 m norðvestur af hlöðunni, út við girðingu, milli Hlíðar og Miðengis, er kindakofi, sem tekur um 30 fjár.”

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Í Örnefnalýsingu frá 1958 segir: “Fram af Miðengi er Miðengisbryggja. Það er þangi vaxin flúð. Þar utar er Hlíðarsker […].” […] Þetta er náttúruleg bryggja af sama tagi og voru við Bakka, Dysjar og Hausastaði.”

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 eru tvö samföst útihús rétt vestan við bæinn. Þau eru líklega úr steini og hafa stefnuna suðvestur-norðaustur.” Ekki er frekari lýsing á aðstæðum í skráningu RT og RKT.

Garðar

Garðar – túngarður – Hlíð utar og Hliðsnes fjærst.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Götusteinn var skv. örnefnaskrá 1964 “steinn er lá við götuna milli Hlíðar og Miðengis. Á steini þessum voru þau ummæli, að hann mætti ekki hreyfa.” […] Við þetta gerir Kristján Eiríksson athugasemd í Örnefnalýsingu 1976-7: “Nokkuð stór steinn er í Miðengistúni, fast vestan við brunngötuna frá Hlíð. G.S. Nefnir hann Götustein í lýsingu sinni. Kristján [Eyjólfsson í Miðengi] segir það rangt, en man ekki rétta nafnið” […] Steinninn er enn á sama stað.”

Hlíð 1565: Á lista yfir byggðar hjáleigur í landi Garða. “Hlid byggd Hakone fyrer iij. Vætter fiska. Mannslán og formennska á skilenn. Er med hiáleigunne eitt kugillde. Enn adur voru þar tvo.” DI XIV, 438.
Garðakirkjueign. 1397: Eign kirkjunnar á Görðum. DI IV, 107. 1703: Hjáleiga Garða. Ekki hluti af Hafnarfirði “Hlíð var so sem lögbýli áður en Miðengi var þar frá tekið og var þar þá fyrirsvar að menn meina.” JÁM III, 187.
1918: “Tún 1,4 teigar og kálgarðar 1200 m2”

Hlíð

Hlíð.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakortinu 1918 má sjá þyrpingu húsa í gamla bæjarstæðinu í Hlíð og er hinn svo kallaði Hlíðar-Vesturbær væntanlega vestanmegin. Hann skiptist í tvennt, austara húsið aflangt og hólfast aftur í tvennt. Þetta eru torfhús með standþili og snúa í suðvestur. Af Fasteignabókum má sjá að komið var timburhús árið 1932 […] og járnvarið 1942-4 […] Skv. Örnefnaskrá 1964 voru bæirnir tveir: “Býli í Garðahverfi, hjáleiga frá Görðum, þar var jafnaðarlegast tvíbýli.” […] Við þetta bætir Örnefnalýsing 1976-7: “Húsið í Hlíð er u.þ.b. 150 m beint í norður frá Miðengi, en nokkru lengra frá sjó. í Hlíð var tvíbýli til 1924, en þá fær Gísli Guðjónsson alla jörðina og reisir þá hús það, er nú stendur. Þar hefur að vísu verið stækkað síðan. Fjós og hlaða er rétt norðan þess. Íbúðarhúsið stendur á sama stað og Austurbærinn í Hlíð var áður, en fjósið og hlaðan, þar sem Vesturbærinn stóð.””

Hlíð

Hlíð.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Austan megin í bæjarstæðinu, til hliðar við Hlíðar-Vesturbæ […] er á Túnakorti 1918 stór bygging, líklega svo kallaður Hlíðar-Austurbær. Hann skiptist í sex hluta. Fremst eru tvö aflöng hús sem hvort um sig hólfast í tvennt og virðist snúa í suðvestur. Þvert á norðausturgafl suðaustara hússins liggur minna aflangt hús og samfast við hlið þess annað stærra. Húsin eru úr torfi og e.t.v. með standþili. Skv. Örnefnalýsingu 1976-7 stóðu bæirnir fram til ársins 1924 en þá var reist nýtt íbúðarhús á þeim stað sem Austurbærinn var áður, um “150 m beint í norður frá Miðengi, en nokkru lengra frá sjó” […] og kemur það heim við staðsetningu bæjarins á kortinu.”

Garðahverfi

Karkur.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 liggja fimm samfastir kálgarðar með hlöðnum veggjum kringum bæjarhúsin að norðaustan, norðvestan og suðvestan. Af þeim er væntanlega kominn stóri kálgarðurinn sem í Örnefnalýsingu 1976-7 er sagður vera “fast vestan við íbúðarhúsið” sem Gísli Guðjónsson reisti 1924 í stæði gamla Austurbæjarins […].” Vettvangslýsing á minjunum fylgir ekki skráningu RT og RKT.
Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Hluti garðsins fannst við fornleifaskráningu 1984 framan eða “norðvestan við bæinn í Hlíð en skrásetjari taldi þar vera gömlu heimakálgarðhleðsluna. Þarna er “yfirgróin grjóthleðsla, nú mjög lág” og nær um 30 m til norðurs framan eða vestan “við núverandi íbúðarhús […] þar kemur aðeins horn í hleðsluna til austurs”, síðan heldur hún áfram um 16 m til norðurs”.
Hleðslan “myndar bakka þarna í túnið” og er “uppfyllt að austan”.”

Móakot

Móakot – grunnur sjóbúðar.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Skv. Örnefnaskrá 1964 var Hlíðarkot hjáleiga eða þurrabúð frá Hlíð og stóð vestan Hlíðarbæjanna “samhliða, með stétt” […], skv. Örnefnalýsingu 1976-7 ,,fast austan við Vesturbæinn. Kotið var löngu komið í eyði, þegar Gísli [Guðjónsson] kom að Hlíð” 1924 […] Skv. Fornleifaskráningu 1984 var það í hlaðinu á Hlíð. Minjarnar eru þó horfnar og í þeirra stað komin geymsla.”

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Brunnur í grjótinu mitt á milli Grjóta og Hlíðar hét Karkur. Í hann safnaðist eingöngu rigningarvatn. Annars var vatn í Hlíð aðallega sótt í Garðalind. […] Skv. Fornleifaskráningu 1984 er Karkur “um miðja vegu milli bæjanna” og “grýtt allt í kring.” Vatnsbólið var notað í minni Tryggva Gunnarssonar í Grjóta, þá “um 3 álnir á dýpt”. Brunnurinn er “um 0,75 í þvermál – ekki greinilega kringlóttur”, markaður með grjóti “á allar hliðar og sá í vatn, en hann er nú byrgður með fleka”.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 má sjá götu sem byrjar við skemmu suðaustan Hlíðar-Austurbæjar og liggur þaðan suður um tún bæjanna og gegnum hlaðið í Miðengi. Líklega er þetta Hlíðarbrunngata eða Brunngata sem skv. Örnefnaskrá 1964 lá frá Hlíð og Miðengi að Garðalind ,,því þangað var sótt gott neysluvatn” […] Skv. Örnefnalýsingu 1976-7 “lá brunngata frá Hlíð niður fyrir neðan Miðengi og þaðan austur í Garðalind” og var vatn í Hlíð aðallega sótt þangað.”

Garðaholt

Garðaholt – Götur.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 eru gerði í túninu austan Hlíðarbæja upp við Garðatúngarð. Við suðausturenda þess syðsta er hústóft úr torfi og grjóti, aflöng með stefnuna suðvestur-norðaustur. Trúlega er þetta Gata sem skv. Örnefnaskrá 1964 var “þurrabúð við vestur túngarð Garða, ofan við Hlíðarbæi” […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Í suðaustur (u.þ.b. 150 m) frá íbúðarhúsinu var grasbýli, sem hét Gata. Hún fór í eyði um síðustu aldamót, og féll þá túnið undir Austurbæinn í Hlíð. Var þá byggður þar á tóftunum bær yfir karl og kerlingu á vegum hreppsins. Þau fóru þaðan um 1925, og keypti þá Gísli [Guðjónsson] bæinn og hefur haft hann fyrir fjárhús síðan og gert á honum ýmsar breytingar.” Gísli mundi eftir bænum í Götu en “Götuland girðir að mestu land Miðengis af til austurs. Spildan frá Götu, sem ræktuð er ofan Miðengistúns, er nefnd Götuvöllur, og tilheyrir hún Hlíð.” […] Skv. Fornleifaskráningu 1984 er Gata í eða við suðurhorn garðs “beint upp af Miðengi í suðaustur frá Hlíð”.”
Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Allt um kring er slétt graslendi og aflíðandi halli… Þarna eru tvö fjárhús úr torfi og grjóti með trégafla að ofan og bárujárnsþaki. Aftara eða austara húsið er um 5 m langt að utan og vísar í suðvestur (240°) en hitt húsið kemur hornrétt framan eða vestan á það. Suðurendi garðhleðslunnar liggur nokkurn veginn á mitt austara húsið. Væntanlega eru þetta húsin sem Gísli byggðu á bæjartóftunum.”

Garðar

Garðaholt – loftmynd 1954.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 sést hvernig girt er í kringum allt Hlíðartún með görðum og girðingum. Meðfram Hlíðartröðum sem liggja frá Garðatúngarði til bæja er garður hlaðinn suðvestur að heimakálgarðshleðslunni. Annar garður sem er enn austar skilur milli Götu og Háteigs. Frá honum liggur síðan girðing í vestur milli Götu og Miðengis og við bæjarstæði Hlíðar byrjar aftur garður sem nær suðvestur að sjó. Þar er sjóvarnargarðurinn hlaðinn eftir öllum sjávarkambinum framhjá Hlíðarvörum og hefur framhald hans varðveist neðan Móakots. Rétt austan varanna liggur girðing upp frá sjógarðinum að heimakálgarðshleðslunni og nokkru vestan þeirra liggur landamerkja girðing milli Hlíðar og Móakots. Hún endar við austurvegg Móakotstraða sem liggja áfram norðaustur að Garðatúngarði. Skv. Fasteignabókum eru túngarðar og hagagirðingar við Hlíð árið 1932 […] og áfram 1942-4 […] Við Fornleifaskráningu 1984 fannst hluti Garðatúngarðs ofan Hlíðar en hleðslubrotið endar ofan við Grjótahúsið. Þetta er “þurr grjóthleðsla, þakin skófum og nokkuð gömul að sjá, […] nú innan girðingar Hlíðarmegin á um 70 m kafla eða að heimkeyrslu Hlíðar – og síðan áfram svolítinn spöl”.”

Miðengi

Hlíð – sjóvarnargarður.

“Á sjávarbakkanum fyrir Hlíðartúni lét Gísli hlaða sjóvarnargarð á árunum 1928 – 38. Var hann bæði hlaðinn úr fjörugrjóti og grjóti, sem tekið var upp úr túninu. Grjótið í túninu var tekið upp með svonefndum grjótgálga, en slík verkfæri fluttust þá hingað til lands frá Noregi. Voru þeir ýmist gerðir af þrem eða fjórum löngum spýtum (u. þ. b. 3 – 4 m löngum). Spýturnar mættust í oddi, og var ein lengri og til stuðnings (tvær í fjögurra spýtna gálga). Efst í gálganum var þrískorin blökk og önnur tvískorin rétt fyrir neðan hana. Neðarlega á gálganum voru svo tannhjólin (tvö), og var sveifin fest á svera járnteina á milli aðalspýtnanna. Á endann á vírnum var fest stór járnkjaftatöng til að grípa um steinana. Á veturna var grjótið klofið í hæfilega hleðslusteina. Fyrst voru klappaðar raufir í steinana með stuttu millibili. Mátti það helzt ekki vera lengra en spönn. Til þessa var notaður sérstakur klöppuhamar. Þá voru stálfleygar reknir niður í holurnar. Oddurinn mátti ekki nema við botn holunnar, því þá kom ekki þvinga á steininn. Til að koma í veg fyrir það var sett gyrði báðum megin á fleyginn, og þrýstist það til hliðanna, um leið og fleygurinn var rekinn niður. Eftir að fleygunum hafði verið fest í raufunum, var rekið nokkuð jafnt á fleygaröðina. Klofnuðu steinarnir þá af þvinguninni, og urðu kantarnir merkilega sléttir. Steinarnir, sem voru klofnir, voru fyrst og fremst grágrýti,” segir í Örnefnalýsingu KE.

Hlíð

Hlíð – sjóvarnagarður og varir.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 virðist mega sjá varir sitt hvorum megin við enda sjávargötunnar frá Hlíðarbæjum. Í Örnefnaskrá 1964 eru nefndar Hlíðarvör vestri eða Vesturbæjarvör sem “tilheyrði vesturbænum í Hlíð” […] og Hlíðarvör eystri eða Austurbæjarvör sem ,,tilheyrði Austurbænum” […]. Vesturbæjarvör er líklega rétt fyrir neðan Hlíðarbúð. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Í fjörunni, beint niður af húsinu, er Hlíðarvör. Þar er fjaran nokkuð slétt, en safnaðist í hana stórgrýti á vetrum. Þurfti því að ryðja hana á vorin. Hlið var á garðinum fyrir ofan vörina, og voru bátarnir settir um það upp á tún, ef sjógangur var mikill.” […] Umrætt bátahlið má sjá á Túnakortinu þar sem gatan endar milli vara og er það nokkuð breitt.”

“Þurrabúðin Sólheimar var byggð örskammt norðaustan við Grjóta, og braut ábúandinn svolítinn blett í kringum húsið, og er hann nefndur Sólheimagerði. Húsið sjálft er sem næst því, sem heimreiðin í Grjóta er nú,” segir í örnefnaskrá KE. Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Sólheimar voru við heimkeyrsluna að Grjóta, rétt utan Garðatúngarðs að sögn Tryggva Gunnarssonar. Þar var tómthús en engar minjar fundust við Fornleifaskráningu árið 1984 […] Sólheimar eru ekki nefndir í heimildum fyrri alda og því ekki vitað hvenær þeir voru í ábúð. Eitthvað af tómthúsfólkinu sem getið er um í Hlíð í Manntölum 1801 […] og 1845 […] hefur þó e.t.v. haldið til í þessu húsi.”

Hlíð

Hlíð – Grjóti og Holt – Túnakort 1918.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Skv. Örnefnaskrá 1964 var Holt “þurrabúð í Garðahverfi, ofan Hlíðarbæja” eða “hjáleiga vestan við Götu” Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Í háaustur frá Hlíð er Holt. þar er nú stórt timburhús, byggt nálægt 1942. Rétt fyrir norðan það er pakkhús. Gamli bærinn í Holti stóð u.þ.b. 20 m í suður frá íbúðarhúsinu, sem nú er. Svolítið gerði var í kringum og hann og kálgarður í því, framan við bæinn. Sá bær fór í eyði rétt fyrir aldamótin 1900, og var Holt ekki aftur í byggð, fyrr en reist var húsið, sem nú er. Holt stendur rétt ofan við túngarðinn í Hlíð (þ.e. garðinn, sem Garðaprestar létu hlaða ofan túna í Garðahverfi).” …” Þurrabúðin Holt var eina 150-200 m norðvestur af Háteigi, og verður þess nánar getið síðar”

Miðengi

Miðengi – loftmynd.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti liggur stór ræktarblettur út frá Garðatúngarðiog Illugagerði ofan Hlíðar. Hann er óreglulegur í lögun en þó nokkurn veginn ferhyrndur, umkringdur hlöðnum veggjum, með stefnu norðvestur-suðaustur. Þetta mun vera Holtsgerði en skv. Örnefnaskrá 1964 ræktaði Eyjólfur Eyjólfsson það
umhverfis Holtsbæinn. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Gamli bærinn í Holti stóð u.þ.b. 20 m í suður frá íbúðarhúsinu, sem nú er. Svolítið gerði var í kringum hann og kálgarður í því, framan við bæinn.” […] Trúlega er þetta grjóthlaðni ferhyrndi garðurinn sem fannst við Fornleifaskráningu 1984. Hann liggur beint í suður út frá núverandi Holti, í smáþýfi þar sem er grýtt á köflum.”

Hlíð

Hlíð.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “[Holtsgerði] er um 30×32 m að stærð með stefnu í vestur, veggirnir 1,8 m á breidd.”
Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Rétt við norðurhorn kúagerðis, í miðjum Garðatúngarði, er á Túnakortinu 1918 sýndur ferhyrndur kálgarður með grjóthlöðnum veggjum og stefnu með túngarðinum. Þetta er trúlega Illugagerði sem skv. Örnefnaskrá 1964 var “rétt hjá Holtsgerði”, þ.e. stóra garðinum sem sést austan við það á kortinu . […] Illugagerði var “ræktað […] þarna á holtinu. Það gerði Illugi Brynjólfsson, er bjó um aldamótin 1900 í Holti” […] en þess má geta að alnafni hans og e.t.v. ættingi var bóndi á nágrannabænum Ráðagerði skv. Manntali 1816 […] og bjó þar fram um miðja 19. öldina […]. Garðurinn fannst við Fornleifaskráningu 1984 og er nánar tiltekið staðsettur framan og vestan við núverandi Holt.”

Móakot

Móakot – loftmynd.

Móakot er nefnt árið 1698, Árbók 1929, 6. Garðakirkjueign.
1703: Hjáleiga Garða. Ekki hluti af Hafnarfirði. “… er bygð úr Hlíðarlandi fyrst i þeirra manna minni, sem nú lifa.” JÁM III, 188
1930: Fer í eyði.
1918: Tún 1 teigur og 800 m2″.

Móakot

Móakot.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 sést bæjarstæði Móakots nokkurn veginn í miðju túni, suðvestan Hausastaðakots og norðvestan Hlíðarbæja. Skv. Örnefnaskrá 1964 var býlið “hjáleiga frá Görðum. Ofar en Hlíð.” […] en í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Móakot var u.þ.b. 150 m suðvestur af Hausastaðakoti. Það fór í eyði um 1930. Svolítill blettur kringum kotið var nefndur Móakotstún. Bæjartóftirnar eru í landi Haustastaðakots, en túninu er skipt á milli Hlíðar og Haustasaðakots, og á Hlíð eystri hlutann.” […] Við Fornleifaskráningu 1984 var Móakot staðsett “norðvestur af Grjóta, norðan við Hlíð […] slétt tún fyrir vestan og norðan – aflíðandi gróin en grýtt brekka að baki.”
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakortinu hólfast bærinn í fernt, byggingarefnið er torf en standþil á tveimur framhúsum, stærstu hólfunum, en þau snúa suðvestur að sjónum. Það kemur heim við lýsingu skrásetjara sem segir lengd bæjarhúsa til vesturs vera 5,85 m og þau hafa vísað göflum út á sjó. Aðeins mótar fyrir veggjum, um 1 m á breidd. Skv. Fasteignabók stóð þessi torfbær enn árið 1932.”

Garðar

Móakot – tóftir.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 virðist mega sjá vör fyrir enda götunnar sem liggur frá Móakoti að sjó. Skv. Örnefnaskrá 1964 var Móakotsvör “nokkru sunnar en Hausastaðavör vestust varanna, innan Hausastaðagranda” og Móakotsklappir eða Móakotssker voru “rétt við Móakotsvörina” […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Móakotsvör er beint niður undan tóftunum”, þ.e. bæjartóftunum.”

“Rétt fyrir austan (u.þ.b. 8 m) endann á Stíflisgarði, Katrínarkotsmegin, var Hausastaðabrunnur. Í hann var sótt vatn frá Hausastöðum, Katrínarkoti og Hausastaðakoti og stundum einnig frá Grjóta og Móakoti. Ekki þraut í þessum brunni fyrr en á seinni árum. Einar 6-7 tröppur voru niður í brunninn. Hausastaðabrunnur lagðist af um 1927 … Slóðar frá bæjunum að Hausastaðabrunni nefndust Brunngötur. Var eins frá hverjum bæ.” Búið er að raska brunngötunum með sléttun og vegagerð, t.a.m. með Sjávargötu.

Móakot

Móakot.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Túnakortið 1918 sýnir kálgarða suðvestan, sunnan og suðaustan bæjarins en skv. Fornleifaskráningu 1984 eru hleðslur kálgarðs og kartöflugarðs vestur af bæjarhúsalengjunni.”
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Kálgarðurinn er beint vestur af hústóftinni en í suðurenda hans aflangur kartöflugarður og girðing milli þeirra. Frá húsinu eru um 26 m að vesturvegg kálgarðsins og 3 m í norðurvegginn sem er um 29 m langur að girðingu. Garðurinn virðist opinn til austurs. Stallur hefur myndast við frambrún kálgarðshleðslunnar. Kartöflugarðurinn er um 34 x 7 m að innanmáli með stefnuna vestur-austur. Garðveggirnar eru 1-1,5 m á breidd, grjóthlaðnir í austurhlutanum.”

Móakot

Móakot – brunnur.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Í þýfi um 17 m norðaustur frá Móakoti fannst við Fornleifaskráningu 1984 brunnur. Hann er hringlaga, um 1 m í þvermál og 1,5 m niður að vatnsyfirborði. Hann er hlaðinn úr grjóti og stendur opinn en gaddavír hefur verið settur fyrir.”

“Hausastaðakambur var ofan þessara vara … Og Skiptivöllurinn með búðum og hjöllum bæjanna … Móakotsbúð var á Hausastaðakambi, búð og hjallur frá Móakoti, við Skiptivöllinn,” segir í
Örnefni og leiðir í Garðabæ. Móakotsbúð hefur að líkindum verið upp af Móakotsvör, sem er rúmlega 120 m suðvestur af bæ.

Móakot

Bátar í fjörunni neðan Móakots.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Skv. Túnakorti 1918 liggja traðir úr austurhorni Móakotstúns beint norðaustur framhjá Grjóta og út að hliði í Garðatúngarði sem í Örnefnaskrá 1964 er nefnt Móakotshlið eða Grjótahlið.”

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 sést að girt er kringum allt Móakotstún og liggur sjógarður eftir sjávarkampinum. Skv. Fasteignabók var þar túngarður og hagagirðing árið 1932.”
Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Hluti varnargarðsins fannst við Fornleifaskráningu 1984: “Niður við sjóinn vestan við Hlíð […]. Fallega hlaðinn grjótgarður”, um 1,2 m á hæð og 1,5 m á breidd og nær frá girðingu milli Hlíðar og Grjóta.”

Heimild:
-Fornleifaskráning Garðabæjar 2009.

Móakot

Móakot – kálgarður.