Herdísarvík

“Herdísarvík er býli í Selvogi, vestast Selvogsjarða og allra jarða í Árnessýslu. Er nú í eyði. Jörðin var lengi eign Krýsuvíkurkirkju.

Herdísarvík

Herdísarvíkurtjörn.

Herdísarvíkurbær stóð vestarlega í Herdísarvíkurtúni, Vesturtúni svonefndu, undir svonefndum Skyggni, sem var klöpp, aflöng, og sneri suðaustur-norðvestur. Neðst bæjarhúsanna voru stofan og bæjardyrnar undir einu og sama þaki. Bak við stofuna var búrið, en fram af bæjardyrunum var eldhúsið. Þar framan við á vinstri hönd voru göngin og þrjú þrep upp að ganga í baðstofuna, sem var fimm stafgólfa, en hlutuð í þrennt. Miðhlutinn, sem var eitt stafgólf, frambaðstofan, er var á hægri hönd, er inn var komið, og aðalbaðstofan á vinstri hönd. Baðstofurnar voru hver fyrir sig tveggja stafgólfa, langar og rúmgóðar. Bak við eða norðan við eldhúsið var fjósið fyrir tvær kýr og kálf.

Herdísaarvík

Herdísarvík um 1900.

Á lágum hól nær vatninu voru þessi hús: Smiðja, hjallur og austur af þeim var pakkhús.
Þegar komið er yfir Rásina, blasa við rústir gamla Herdísarvíkurbæjarins, en hann lagðist af í miklum flóðum 25. febrúar 1925. Fram undan bænum var vik, er nefnist Heimavör. Hér mun hafa verið um að ræða aukanafn á Rásinni. Þá er í Vesturtúninu eykta-markið Nónklöpp. Fram undan bænum var hóll, er gekk undir ýmsum nöfnum, svo sem Smiðjuhóll, þar var smiðjan; Hjallhóll, þar stóð hjallur, og geymsla var þar ýmiss konar matfanga; Öskuhóll var hóll þessi einnig kallaður, því þangað var askan borin frá bænum og kastað í tjörnina.

Herdísarvík

Herdísarvík – þurrkgarðar.

Eins og áður segir, gerði mikið flóð í Selvogi og Herdísarvík 25. febrúar 1925. Flæddi þá inn í bæinn og gerði flóðið mikinn usla. Bæinn tók þá af, hjallinn og smiðjuna. Fór þá margt til spillis, bæði matvara, áhöld ýmiss konar og mikill hluti innbús þeirra hjóna, Þórarins Árnasonar og konu hans, Ólafar. Frú Ólöf hafði af sjálfsdáðum lært esperanto, og skiptist hún á bréfum og póstkortum við ýmsa esperantista víða um heim. Átti hún dragkistu, þar sem hún geymdi allt þetta. Fór það allt til spillis í flóði þessu. Mátti um árabil finna bréf og bréfspjöld á esperanto upp um allt hraun, í holum og hellisskútum. Fór þar mörg vinarkveðjan forgörðum.

Herdísarvík

Herdísarvík – Stoðhola í elstu bæjartóftinni.

Upp frá Kattatjörn stóðu útihúsin. Efst var hesthúsið, sem eftir flóðið var breytt í fjós fyrir þessar tvær kýr, sem hægt var að fóðra af túninu. Þá kom Stóra-Lambhúsið og Litla-Lambhúsið, sem einnig var notað sem heyhlaða. Þá kom hrútakofi, sem síðar var breytt í sjóbúð, Krýsuvíkursjóbúð eða Guðmundarbúð, kennd við Guðmund Jónsson bónda í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvíkurhverfi. Guðmundur var lengi formaður á skipi, er reri frá Herdísarvík á vetrarvertíðum.
Í þessa sjóbúð fluttust þau Þórarinn og Ólöf eftir flóðið mikla 1925. Byggðu þá upp baðstofu, tveggja rúma langa með eldhúsi vestur af. Litla-Lambhúsið varð þá að bæjardyrum og göngum.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Frá bænum, milli Skyggnis og Hjallhóls, lá heimreiðin, gata ofan frá aðaltúngarðshliðinu. Til hægri við heimreiðina var svo aðalvatnsbólið, nefndist Kattatjörn. Þar þraut oft vatn í miklum þurrkasumrum. Upp af vatnsbólinu var svo Urðin, lábarin stórgrýtisurð, til vitnis um, að þangað hefur sjór fallið einhvern tíma á löngu liðnum öldum. Urð þessi liggur síðan vestur og út, vestur fyrir túngarð og þar langt vestur á hraun.

Heimagarðurinn var matjurtagarður ofanvert og lítið eitt framan bæjarins. Stígurinn lá norður milli bæjarhúsanna og smiðjunnar að útihúsunum, sem stóðu spölkorn norðan bæjarins. Þar voru þessi hús: Fjós og hesthúskofi, Lambhúsið stóra, Lambhúsið litla, sem líka var notað sem hlaða, og síðan kom hrútakofi, sem seinna var stækkaður, og þar var sjóbúð, sem kölluð var Krísuvíkursjóbúð.

Herdísarvík

Herdísarvík – gamli bærinn.

Þar norður af er svo Herdísarvíkurhúsið, en þar bjó síðast Einar skáld Benediktsson, og var húsið allt eins kallað Einarshús, eða þá kennt við seinni konu hans og nefnt Hlínarhús, og voru ekki fleiri byggingar í Herdísarvíkurtúni.
Túnið var lítið og lá um klappir og lægðir, mun ekki hafa verið grasgefið, því jarðvegurinn var grunnur. Túnið var að ofan girt grjótgörðum, en skiptist um túnhliðið bak við bæinn í Vesturtún og Austurtún eða Háatún, þó lítill munur væri á hæðinni. Auk aðalhliðsins var vesturhlið og austurhlið. Fram undan túninu var svo Herdísarvíkurtjörn. Rétt innan við vesturtúngarðinn var Sauðatangi. Rétt innan við þennan tanga lágu hólmar tveir fram í tjörnina.

Herdísarvík

Vatnshólmi.

Vatnshólmi nefndist sá ytri, en hinn innri Þvottahólmi, Þvotthóll eða Brúarhólmi. Milli hólma og lands var svo Rásin og yfir hana brúin. Séra Jón Vestmann [prestur í Selvogi 1811-1843] nefnir í sóknarlýsingu sinni Varghól og Varghólsbrunn. Mun hér vera um sömu staði að ræða. Túngarðar lágu um túnið, vesturtúngarður að vestan, norðurtúngarður ofan bæjarins og austurtúngarður að austan. Skarðið var á vesturtúngarði. Bæjarhliðið var ofan bæjarins. Fjárhúshlið var rétt við útihúsin, og svo var hlið ofan Einarshúss, sem ég kalla Jöfurshlið. Þar um gekk skáldjöfurinn, er hann tók sér hressingargöngur um nágrennið.

Herd´siarvíkurtjörn

Brú og gerði í Herdísarvíkurtjörn.

Herdísarvíkurtjörn lá framan túnsins, milli þess og Kampsins, og var nefnd Tjörnin ekki síður, stundum var í henni veiði. Vestri tjarnarendinn náði nokkuð vestur fyrir túngarðsendann vestari. Rétt innan við hann var lítill tangi, er lá fram í Tjörnina, hét Sauðatangi. Þar austan við var lítið vik, og þar í tveir litlir hólmar, Vatnshólminn og hinn, sem Þvottahóll var nefndur eða Brúarhóll, en milli hólma og lands var Rásin og yfir hana brúin.
Varghólsbrunnur er nefndur í sóknarlýsingu séra Jóns Vestmanns, og þá hefur þar verið Varghóll og var í Tjörninni. Þá kom vik fram af bænum, og var þar Heimavörin, þá kom Öskuhóll, og var þangað borin askan.

Herd´siarvík

Herdísarvík – tóftir elsta bæjarins.

Þá kom Hjallhóllinn, öðru nafni Smiðjuhóllinn, og Tungan þar fyrir innan með lágu garðlagi. Austan við hana Hestaklettur, þar austan við Hestavik og upp af því Hestaviksvör og Hestahvammur. Þar austur af var Bolaklettur og þá tjarnarendinn eystri, sem lá nokkuð austur fyrir túngarðsendann eystri.
Í Vesturtúni var Nónklöpp, en bak við Skyggni var Kattatjörn, sem þraut í þurrkum á sumrum. Milli Kattatjarnar og útihúsanna var Urðin með lábörðu stórgrýti. Sýnilega hefur sjávarkampurinn forðum tíð verið þarna, því bæði grjótið í Urðinni og klettarnir, sem ganga fram í Tjörnina, er mjög lábarið.

Herdísarvík

Herdísarvík – Langsum og Þversum í Austurtúninu.

Austurtúnið var allt eins kallað Hátún. Stígurinn frá bænum að útihúsunum lá áfram austur túnið, og var þá nefndur Sjávarstígurinn, út um Austurtúngarðshliðið, sem lá alveg niður við austurtjarnarendann. Hér fyrir austan taka við Gerðin, sem voru tvö, Vestragerði og Eystragerði. Einnig var talað um Vestragerðistún og Eystragerðistún. Herdísarvíkurgerðin var líka nafn á þessu svæði. Gerðin voru umgirt miklum grjótgarði, sem kallaður var Langigarður. Hlaðinn að mestu af manni, er Arnór hét, austan frá Ási í Ytri-Hrepp. Á garðinum var svo Langagarðshlið. Garður þessi var stundum kallaður Vitlausigarður eða Langavitleysa.

Herdísarvík

Herdísarvík

Krókur myndaðist, þar sem saman komu eystri túngarður og Langigarður, þar stóð Fjárréttin nýja og er enn notuð. Niður með eystri túngarði var sjóbúð, kölluð Ólabúð, og við hana Ólabúðarbyrgi. Sjávarstígurinn lá með austurtjarnarenda niður á Kamp, en af honum lá annar stígur, Gerðisstígurinn, austur um Gerðin. Búðirnar gömlu voru rétt við stíginn, en þar eru nú rústir einar. Lítið eitt austar er lágur klapparhryggur, sem heitir Hryggur, og þar á tvær gamlar sjóbúðir, Hryggjarbúðir, og stóð önnur framar en hin, kallaðar Hryggjarbúðin fremri, sú er stóð nær sjónum, og Hryggjarbúðin efri. Austan við Hrygginn var lægð, slétt, kölluð Dalurinn. Þar var skiptivöllur. Á Dalnum var vestar Skiparéttin, þar sem skipin voru höfð milli vertíða, og Fjárréttin gamla. Má enn sjá góðar hleðslur þessara mannvirkja.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Herdísarvíkursjóbúðir stóðu saman sunnan í hrygg, lábörðum, norðan Dalsins. Þær voru nefndar ýmsum nöfnum eftir formönnum, sem þær byggðu ár hvert. Aðeins ein er nú með þaki, en hinar vel stæðilegar. Bjarnabúð, Guðmundarbúð, kennd við Guðmund Jónsson í Nýjabæ í Krísuvík. Halldórsbúð, kennd við Halldór í Klöpp í Selvogi og var einnig nefnd Dórabúð. Guðmundarbúð var einnig kölluð Gamlabúð og þá Stórbúð. Þá var Símonarbúð og Hjálmholtsbúð og Krísuvíkurbúð önnur en sú, sem stóð heima við útihúsin. Bjarnabúð mun einhvern tíma á árum 1920 eða þar um kring hafa verið gerð að fjárhúsi og garði hlaðinn eftir búðinni endilangri, sem enn sér merki. Nú er aðeins ein þessara búða með þaki.

Herdísarvík

Herdísarvík 1940-1950.

Gerðisgarður skipti Gerðunum í tvennt, og þar á var Gerðisgarðshlið. Í Eystragerðinu voru tvö stór fjárhús. Það vestra hét Þversum og lá þvert suður-norður og hitt lengra burtu, Langsum, lá austur-vestur.

Herdísarvíkurkampur liggur milli Herdísarvíkurtjarnar og sjávar. Hann er lægstur vestur undir hrauni, og þar flæðir sjór yfir og stundum inn í Tjörn, en svo hækkar hann austur. Sjávarkampur er hann nefndur eða aðeins Kampur.
Fram undan kampinum voru í fjörunni Básar austast, þá komu Gjögrin. Þar er fjaran mjög óslétt með Gatklettinum. En vestan Gjögra, milli þeirra og Herdísarvíkurkamps, var svo Herdísarvíkurvör. Hér var allgott til lendingar skipum. Þau stóðu efst í kampinum upp undir Hryggjarbúðum. Rétt utan við vörina tók við Bótin eða Herdísarvíkurbót. Þá kom Leiran. Austarlega á henni var blindsker, sem nefndist Prettur. Þar utar kom svo Herdísarvík, þar var jafnan fiskisæld mikil og því stutt að róa að jafnaði.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Upp af Vörinni var Herdísarvíkurnaustið. Þar voru fiskabyrgin, þar sem fiskurinn var kasaður, má þar enn sjá hleðslur. Það var einnig í eina tíð Sundtréð, en sunnan vararinnar Vararklöppin. Yfir í Básum var hlykkjótt renna, sem nefndist Skökk. Þar var oft skipum lent í lá-deyðu, en austast í Básum voru svokölluð Löngusker, en svo tók við Breiðibás með Markakletti fram í sjó og Breiðabásarkampi áðurnefndum. Á hraunbrúninni ofan Breiðabásarkamps er Hellir eða Fjárhellir, þar leitaði fé sér skjóls oft og tíðum. Á brunanum var mikið um fiskigarða. Þangað báru vermenn fiskinn úr kösunum til þurrkunar. Þeir eru sjálfsagt nokkrir kílómetrar að lengd, ef mældir væru, því þeir eru bæði ofan og neðan vegarins. Þarna gefur einnig að líta gömlu alfaraleiðina, hestaslóð aldanna, fjölfarin fram um 1950. Austur undir landamerkjum stóð í eina tíð Sundvarðan eystri. Þegar sundvörðuna á kampinum og þessa bar saman, þá var rétt tekin leiðin inn í Vörina.

Herdísarvík

Hlínargarður.

Í klöppunum ofan húshliðsins, Jöfurshlið, var í hrauninu Kátsgjóta. Frá aðaltúngarðshliðinu lá Kýrgatan eða Kúavegur. Miðja vegu milli túns og fjalls var Kýrvarðan eða Kúavarðan. Út og upp frá Vesturtúngarði var gjóta með vatni í, kölluð Hvolpatjörn. Þegar komið var út úr Vesturtúngarðshliði, var á hægri hönd svokallaður Nýigarður, matjurtargarður. En stígurinn nefndist Brunnastígur, þegar hér var komið. Hér voru tjarnir út frá vesturenda Herdísarvíkurtjarnar, og nefndust þær Brunnar. Yfir þá lágu Stiklurnar, sem einnig nefnast Steinbogi. Vestan úr hrauninu lá Langitangi út í Brunna. Úr Herdísarvík liggur Brunnrásin inn í Brunna. Í stórstraumi og við sjávarflóð mikil flæðir sjór hér inn, og hækkar þá vatns- eða sjávarborðið í Herdísarvíkurtjörn að miklum mun, samanber flóðið mikla 25. febrúar 1925.

Herdísarvík

Herdísarvík – yngri bærinn.

Rétt sunnan við Brunna eru fjárborgirnar tvær, nefnast Borgin efri og Borgin neðri. Kartöflugarðar voru í Borgunum og nefndust Borgagarðar. Á klöppum rétt utar var svo varða, eyktamark, Hádegisvarða, einnig nefnd Sundvarða. Þá var rétt tekin stefna í Vörina, þegar skutur skips sneri í vörðu þessa, en stafn í Sundvörðuna á kampinum upp af Vörinni.
Nú taka við gjögur mikil og klappir, en ofan við eru Flatirnar allt út á Alboga, þar um liggja fjárgöturnar, sem líka voru Selsgötur til Herdísarvíkursels í Seljabót. Frá Alboga beygir ströndin til vesturs, og nefnist þar Háaberg.

Herdísarvíkurbjarg

Herdísarvíkurbjarg.

Spölkorn vestan Alboga er Háabergsgjóta, mikið gjögur, þar sem sjórinn spýtist upp í stórbrimi, líkt og gos úr hver. Háaberg er eggslétt hraunklöpp, en uppi á klöppinni liggja víða gríðarstórir steinar, sem brimið hefur brotið úr berginu og velt upp á klappirnar. Í norðvestur og upp frá Alboga eru Langhólar, Langhóll fremri og Langhóll efri.
Á Alboga beygir ströndin til Háabergs. Ofanvert við það er djúp gjóta, Háabergsgjóta. Eftir berginu eru Háabergsflatir allt vestur í Seljabót. Á Seljabót eru landa- og sýslumörk. Landamörk milli Herdísarvíkur og Krísuvíkur og sýslumörk milli Gullbringusýslu og Árnessýslu. Seljabótarnef er staður þessi nefndur. Þarna má sjá selrústir gamlar, og þarna rétt hjá er hellir, Seljabótarhellir. Þá er þess að geta, að í máldaga Strandarkirkju má finna nafnið Selstaður, og hygg ég þar sé átt við þennan stað.

Herdísarvík

Herdísarvík – túngarður.

Norðvestur og upp frá Alboga eru Langhólar, Langhóll fremri og Langhóll efri. Þá er Hvíthóll upp af Háabergi. Gamlivegur er götuslóði, er liggur upp frá Seljabót, upp undir austurhorn Geitahlíðar. Milli Kolhrauns og Seljabótarbruna, en yfir suðurenda þess, liggur landamerkjalínan.
Selvegur er slóði, sem liggur út af Gamlavegi upp undir Löngubrekkum, sem eru nokkrir hraunhryggir uppi í hrauninu. Austur með Selvegi er Selhóll og Selhólsbruni. Þá eru Ingimundarhæðir ofanvert við Selhól og þá Hrísbrekkur þar enn ofar og skiptast í Litlu-Hrísbrekku og Stóru-Hrísbrekku.

Sængurkonuhellir

Herdísarvíkurhraun – Sængurkonuhellir.

Alfaravegurinn gamli liggur þarna um hraunið um Klifhæð, sem einnig ber eftirtalin nöfn: Klifið, Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur mikil og stæðileg varða verið hlaðin í Klifið, Klifsvarða, og ofan hennar er svo Sýslusteinn, og liggur (svo) þar um landa- og sýslumörk. Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.
Herdísarvíkurhraun eru mikil og ná ofan frá fjalli allt niður að sjó, og er rétt að deila þeim nokkuð. Herdísarvíkurhraunið eldra er klapparhraun og er fornt mjög. Herdísarvíkurhraunið yngra er það hraun, sem runnið hefur fram vestan Lyngskjaldar, og Herdísarvíkurbruni, sem liggur austan bæjarins og hefur runnið ofan um Mosaskarð í sjó fram. Þar eru fiskigarðarnir. Herdísarvíkurfjall rís hátt yfir hraunbreiðuna með bröttum skriðum og ókleifum hömrum ofan þeirra.

Herdísarvík

Herdísarvíkurgata til austurs.

Lyngskjöldur er vestast í fjallinu, en hann er nefndur Skjöldur í gömlum landamerkjalýsingum. Þá er Fálkageiri, gróðurtunga í skriðunum, og Fálkahamar. Þar er og Fálkageiraskarðsstígur; Fálkagil er nafn, sem finna má á landakortum. Breiðigeiri er austar í fjallsbrekkunum. Grænaflöt liggur undir fjallsrótunum, og upp af henni er Grænuflatarskarð, og liggur fjárgata um skarðið. Herdísarvíkurfjallsskriður liggja þar austar allt að Mosaskarði. Þar upp af er Bæjarhamar, og ofan brúna er Geldingatorfa. Þá kemur Klaufhamar og austar Sundhamar. Þar eru bryggjur, sem fé fór eftir, og lenti þá oft í sjálf-heldu. Stallar voru þessar bryggjur kallaðar. Varð oft að síga þar eftir fénu. Brúnir voru Herdísarvíkurfjallsbrúnir nefndar. Mosaskarð var austan fjallsins með Mosaskarðsstíg. Þar rann fé niður, er fjallið var smalað. Austast í Mosaskarði var svo Hamragerði, þar um lá landamerkjalínan úr Breiðabás. Svörtubjörg kölluðu útróðrarmenn fjallið af sjó, var þangað oft dimmt að líta.

Herdísarvíkurvegir

Herdísarvíkurvegir. ÓSÁ

Eru þá nefnd örnefni þau, sem Herdísarvík tilheyra, nema uppi á fjallinu, en þau heyra undir afrétt og verða þar talin.
Svartbaksklettur er klettur í fjöru við Alboga. Fálkageiraskarð er skarðið, sem stígurinn liggur um.
Herdísarvík liggur við sjó, vestust allra jarða Árnessýslu.
Vesturmörk Herdísarvíkur eru þessi: Seljabótarnef í Seljabót við Seljabótarhelli. Þar eru hreppamörk Selvogshrepps og Grindavíkurhrepps, landamerki Herdísarvíkur og Krýsuvíkur, sýslumörk Árnessýslu og Gullbringusýslu. Þaðan liggur landa-merkjalínan upp flatt klapparhraun upp um Herdísarvíkurhraun vestra í Sýslustein, rétt ofan vegarins. Þaðan í Lyngskjöld eða Skjöld, lyngvaxna brekku, bratta og umflotna hraunum á báðar hendur. Þaðan um Sandfellið neðra og Sandfellið efra og þaðan í Eldborg, fagurgerðan gíg, þaðan í Kistufell, sem einnig er gígur mikill og sérkennilegur, þaðan um Draugahlíðar vesturenda þeirra, í Kóngsfellið, Litla-, eldvarp, sem snýr útrennslisdyrum til suðausturs.

Herdísarvík

Herdísarvík – markasteinn.

Að austan eru landamerkin sem hér segir: Merkisteinn í fjöru, þaðan um mikinn malarkamp, sem nefnist Breiðibás eða Breiðabásarkampur, upp um Herdísar-víkurhraunið eystra upp í Mosaskarð, um svonefnt Hamraskarð, þaðan upp um Mosaskarðsbrúnir, þaðan um Vesturása og síðan, sem leið liggur, í Litla-Kóngsfell.
Eru þá talin örnefni þau, sem tilheyra Herdísarvíkurlandi eftir því, sem mér hefur tjáð það fólk, sem bezt mátti vita, Ólafur Þorvaldsson, er bjó í Herdísarvík á árunum 1928 til 1934.”

-Gísli Sigurðsson skráði.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur gefinn af FERLIR.