Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson lýsir hýsingu jarðarinnar Herdísarvík í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1948:
Herd-998“Nú skal minzt gömlu bæjarhúsanna, ásamt útihúsum, sem stóðu vestast á túninu á bakka tjarnarinnar. Öll eru hús þessi nú horfin. Á þessum umgetna stað við tjörnina mun Herdísarvíkurbærinn, ásamt fleiri og færri útihúsum hafa verið búinn að standa um aldir. Þess sjást hvergi merki, að bærinn hafi annars staðar verið, en vitað er, að byggð í Herdísarvík er mjög gömul. A þessum staö í túninu við tjörnina var Herdísavík. Á þessum stað lifði og starfaði fólkið, — og dó, kynslóð eftir kynslóð. Þarna bjó fólkið í nýjum bæ eða gömlum bæ, byggði upp og endurbætti. Þarna bjuggu oft stórbændur til lands og sjávar, og flestum mun hafa vegnað þar vel efnalega, enda var haft að orðtaki austur þar, að „Herdísarvíkin fæddi sofandi sína.”
Mun ég nú lýsa bæjar- og útihúsum, sem á áðurnefndum stað stóðu, eins og þau litu út, þegar ég tók við þein 1927, og voru svo, þar til þau voru rifin eða féllu, eftir að ég fór þaðan 1933. herd-1000
Bæjarhúsin þrjú snéru stöfnum mót suðri. Vestast stóð baðstofan, hliðarveggir úr grjóti, hlaðin undir syllur, framslafn úr timbri nokkuð niður fyrir glugga, sem var með sex rúðum, norðurstafn úr timbri, jafn risi, en sléttur grasbali fyrir neðan í tóftarstað, á þeim stafni gluggi með fjórum, stórum rúðum, annar helmingur hans á lömum. Þessi gluggi var, auk þess sem opnanlegir gluggar eru ætlaðir til, öryggis-útkomustaður fyrir fólkið, þegar svo bar við, að sjór gekk á land og fyllti svo bæjarhús, að útgöngu var ekki auðið um bæjardyr, þar eð þær ásamt frambænum öllum lágu mun lægra en baðstofa. Öll var baðstofan þiljuð í hólf og gólf, skarsúð úr þykkum og breiðum borðum á sperrum, þiljur og gólf sömuleiðis af breiðum og plægðum borðum. Þessi baðstofa var rifin 1934, þá um sjötíu ára gömul, ófúin, nema eitthvað af undirviðum, sem sjór var svo oft búinn að leika um öll þessi ár. Inni var baðstofunni skipt í þrennt: til endanna afþiljuð herbergi, tveggja rúma lengd hvort, en í miðju var gangur, sem svaraði til einnar lengdar, var þar lítill kvistur á vestursúð, undir honum stór skápur, á honum var tekinn til matur og kaffi skenkt. Úr þessum gangi lágu fjórar tröppur til bæjardyra. Austan við baðstofu var frambærinn, með heilu þili.
Vestast á þilinu voru háar dyr og inn af þeim afþiljaður gangur, og úr honum miðjum göng til baðstofu, en innst úr ganginum var gengið inn í stórt eldhús, og var í því stór eldavél. herd-1001Utarlega í ganginum voru dyr til hægri, sem lágu til stofu, stóð þar alltaf uppbúið gestarúm. Loft var uppi yfir frambænum, vel til hálfs. Fjögurra rúðna gluggi var á stafni ofarlega fyrir loftið, en sex rúðna niðri fyrir stofu. Þriðja húsið, með stafni mót suðri, var búrið, með litlu hálfþili, og tók ekki eins langt fram og hin húsaþilin. Öll voru hús þessi byggð af rekaviði að öllu leyti, öll voru þau járnvarin utan, en torf á járni á frambæ og búri. Veggir allir þykkir, hlaðnir úr grjóti. Þá voru aðeins sunnar á hlaðinu, nær tjörninni, tvö hús, sem snéru stöfnum til vesturs. Var syðra húsið smiðja, en hið nyrðra hjallur; hliðarveggir hlaðnir af grjóti, þiljaðir stafnar jafnt sperrum, en minna klæddir hið neðra. Loft var yfir hjallinum óllum: Norðan við hjallinn var stór grunnur undan húsi, hlaðinn af grjóti, og stóð þar áður geymsluhús, venjulega nefnt „pakkhús”. Eitt milliþil var í húsi þessu og var minni karmurinn notaður sem smíðahús, en sá stærri fyrir matarforða heimilisins, aðallega kaupstaðarvarning, sem oft var nokkuð mikill, þar eð venja var að fara aðeins eina kaupstaðaríerð á ári. Hús þetta tók af grunni með öllu sem í var í aftaka sunnanveðri með óvenjulega miklu stórbrimi hinn 25. febrúar 1925, og var talið, að sjór hefði ekki í marga áratugi, jafnvel frá því er Bátsenda tók af, gengið svo á land hér sunnanlands sem í þessu flóði. Sjórinn tók húsið í heilu lagi af grunni, því að vel var viðað og traustlega byggt, og setti niður fyrir fjósdyrum úti (fjósið stóð þá austan undir bænum), svo að ekki var hægt að koma kúnum úr fjósinu, fyrr en út féll og hægt var að fara með þær út um bæjardyr. Það, sem bjargaði kúnum frá drukknun, var það, að þær náðu fótfestu með framfótum uppi í veggnum, fyrir básunum, og stóðu þar með upp úr sjó að framan, en svo mikill var sjór í fjósinu, að á básunum náðu þær ekki niðri, og var svo meira en eina stund. Semi dæmi þess, hve hafrótið var mikið og að sjór, sem á land gekk, hefur átt rætur langt undan landi, má geta þess, að þegar sjór féll út, kom í ljós, að mikið af smákarfa og keilu, hafði skolað á land, og keila fannst í bæjardyrum og öðrum húsum, sem sjór braut upp og flæddi inn í.
herd-1002Eftir þetta flóð var „pakkhúsið” flutt upp og norður fyrir tún og sett á sléttan hraunbala og stóð þar enn fyrir fáum árum, en mun hafa lítið verið notað nú í seinni tíð. Nýtt fjós var byggt næsta vor og fært vestast á túnið, fjær tjörninni.
Vestan undir baðstofunni var matjurtagarður, annars voru kartöflur aðallega ræktaðar í gömlum fjárréttum og borgum, svo og í Skiparéttinni, sem nefnd er í örnefnalýsingunni. Eins og fyrr segir, eru öll þessi hús, sem hér hafa verið talin, rifin eða fallin, en rústir sumra þeirra munu lengi enn sjást.

Hið nýja íbúðarhús, sem byggt var á jörðinni 1932, var sett niður, ekki “utan garðs”, en nyrzt og efst á túnið, mjög skammt frá útihúsum, sem þar voru fyrir. Í þessu nýja húsi dó skáldið Einar Benediktsson eftir nokkurra ára veru þar, farinn mjög að heilsu og kröftum.
Hér hefur náttúran skrifað sína sögu sem annars staðar, hér hefur hún mótað myndir og rúnir á steintöflur sínar, og hér hefur fólkið, öld eftir öld, lesið og ráðið þær rúnir og lifað eftir. Hér hefur fjármaðurinn reikað með hjörð sína um haga úti, talað við fé sitt og talað við náttúruna, og oft fengið svar við hljóðum spurningum. Nú er svo komið hér sem víða annars staðar á afskekktum jörðum, að nú er enginn orðinn eftir til að tala við náttúruna, svo að nú talar hún “ein við sjálfa sig.” – Reykjavík, síðasta vetrardag 1948. Ólafur Þorvaldsson.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 49. árg. 1943-1948, bls. 129-139.

Herdísarvík

Herdísarvík – byggt 1932.

Herdísarvík