Í kvos ofan við Flengingarbrekku í Hveradal undir Hellisheiði eru tóftir. Þarna bjuggju hjónin Blómey Stefánsdóttir og Óskar Magnússon. Í Tímanum árið 1976 má sjá eftirfarandi viðtöl við þau hjónin undir fyrirsögninni “Búa í Hellisheiði og vefa myndir af þjóðskáldum”:
“Við rákum nýlega augun í ofnar myndir í Verzluninni að Laugavegi 42, þar sem einkum eru seldar útlendar listiðnaðarvörur, og grennsluðumst fyrir um uppruna þeirra. Höfundarnir reyndust íslenzkir, enda hefðu erlendir vefarar tæpast farið að gera myndir af þjóðskáldum okkar, Þorsteini Erlingssyni og Matthíasi Jochumssyni. Eigandi verzlunarinnar, Jörgen Hansen, sagðist fyrir skömmu hafa haft til sölu þriðju ofnu myndina af einu góðskáldi okkar, Bólu-Hjálmari. Vakti hún mikla athygli viðskiptavina. Listafólkið, sem hefur ofið þessar myndir, eru hjónin Blómey Stefánsdóttir og Óskar Magnússon, og hafa þau gert sína myndina hvort, en okkur er ekki kunnugt um hvor er eftir Blómeyju og hvor eftir Óskar.
Þau Blómey og Óskar eru ekki langskólagengin í myndlist, en hafa lagt stund á hana í tómstundum og í vaxandi mæli síðari ár. Fyrir nokkrum árum sóttu þau námskeið í myndvefnaði hjá Hildi Hákonardóttur, núverandi skólastjóra Myndlista- og handiðaskólans, og sagði Óskar þá við hana, að hann hefði alltaf talið vefnaðinn æðri málaralistinni, sem hann hafði fram að því helgað krafta sína. Eftir þetta fóru þau hjónin að vefa eingöngu. Þau hafa ekki haldið sýningu á verkum sinum hér á landi, en tóku þátt i farandsýningu SÚM, sem send var um Norðurlönd, og vöktu listaverk Óskars og Blómeyjar athygli þar. Norrænir listfræðingar, sem hingað hafa komið, hafa beðið um það sérstaklega að fá að hitta þau og kynnast list þeirra. Óskar hefur raunar verið þekktari meðal Reykvíkinga fyrir annað en myndlist og vefnað, þ.e.a.s. sérkennilega húsagerðarlist. Hann byggði sér hús inni i Blesugróf úr litlu efni og nefndi Garðstungu. Það hefur nú orðið að víkja fyrir vegi að nýju hverfunum í Breiðholti.
Þegar borgarmenningin hélt innreið sína í Blesugrófina, fluttu þau Óskar og Blómey upp á Hellisheiði, þar sem þau búa nú aftur í sérkennilegu húsi, eins og hér áður. Til félagsskapar hafa þau hjá sér geitur og ketti. Þau höfðu haft miklar mætur á Hellisheiðinni og dvalizt þar í tjaldi áður, varð því þessi staður fyrir valinu sem heimili þeirra. Ein af ofnu myndunum, sem nú eru á boðstólum, heitir einmitt Sólaruppkoma á Hellisheiði. Óskar vefur mjög mikið, en Blómey minna, af heilsufarsástæðum.
Óhætt er að segja, að þau eru mjög sérstæðir listamenn, og öskar mun vera eini karlmaðurinn hér á landi, sem leggur stund á myndvefnað, en konum sem helga sig þeirri listgrein, fer hins vegar sífellt fjölgandi.”
Í dagblaðinu Vísi var einnig viðtöl við þau hjónin árið 1975 undir fyrirsögninni “Býlið þeirra er byggt úr torfi og kassafjölum” – vefa og ala geitur á Hellisheiði:
“Sá sem ekur um Hellisheiðina og tekur eftir bæ efst á Flengingarbrekku í Hveradölum verður að teljast mjög glöggur. Það er rétt svo að hægt sé að greina kofana, sem þarna er búið í, neðan frá veginum, ef vitað er af þeim. Torfið, sem þekur þá, felur þá fullkomlega í landslaginu. Þeim, sem koma gangandi ofan frá Skarðsmýrarfjalli og fram á bæinn, þar sem hann hvílir undir háum hamri upp af Hveradölum, detta fyrst Útilegumenn eða Inkar í hug. Torfkofarnir eru grafnir inn í jörðina og i kringum þá er hlað umlukt hlöðnum grjótvegg.
Utan við grjótvegginn eru geitur á beit og hænsni sjást i kringum kofana sjálfa. Hvorki er þarna sími eða rafmagn né nein nútímaþægindi önnur. Ein kolakamína sér fyrir upphitun og matarsuðu.
Þarna er búið og heitir bóndinn Óskar Magnússon og húsfreyja Blómey Stefánsdóttir.
„Maðurinn getur ekki lifað á neinu einu sér,” segir bóndinn, þegar hann er spurður um sitt lifibrauð þarna á heiðinni. „Við höfum hænsnin og geiturnar. Geiturnar hafa að vísu lítið gefið af sér enn. Þær mjólka aðeins dreitil og engri þeirra höfum við slátrað hingað til. Einnig hef ég stundað verkamannavinnu i Reykjavík og unnið hjá Steingrími í Skíðaskálanum,” segir Óskar.
Óskar býður gestum sinum í húsið, sem er byggt úr tilfallandi kassafjölum og timbri þöktu tjörupappa og torfi. Lágt er til sigins loftsins og stutt til veggjanna en plássið er engu að síður vel nýtt undir listina. Heimilið undir torfunum er þakið vefnaði og málverkum eftir hjónin. Myndefnið er einkum Matthías Jochumsson, Stalín og Halldór Vilhjálmsson á Hvanneyri. Sum verkin hafa farið svo langt sem til Danmerkur á sýningu ásamt öðrum verkum alþýðulistamanna. Ekkert af verkum þeirra hjóna seldist þar en einu var stolið, og fékkst það bætt.
„Ég hef lengi málað, en eftir að ég fór ásamt konu minni á námskeið í Myndlista- og handiðaskölanum og lærði vefnað, hefur það verið mín list”, segir Óskar.
„Vefnaðurinn er list alþýðumannsins. Ekkert horn er það dimmt og ekkert hreysi það smátt að þar megi ekki vefateppi. Málaralistin er hins vegar yfirstéttarlist,” segir Óskar. „Hérna hafið þið einnig myndir af Jónasi Hallgrímssyni, Þorsteini og Stephani G. Hver haldið þið svo að þessi þarna sé? Þetta er Nixon. Átti að vísu fyrst að vera Matthías en breyttist svo í Nixon. Hann er ekki verri en aðrir menn. En þeir fóru illa með hann,” heldur Óskar áfram. „Stalln kann ég lika vel að meta, eins og sést og Halldór á Hvanneyri. Ég nam hjá honum búfræði á sinum tíma,” segir Óskar.
Óskar er fæddur í Þistilfirði og að miklu leyti alinn upp í Garðstungu, einum Fjallabæjanna. Eftir þeim bæ nefnir Óskar bæ sinn á heiðinni og eins hús það er hann bjó í í Blesugróf þar til í hitteðfyrra. Hús það líktist mest grasi vöxnum hól, sem upp úr skagaði múrhúðaður turn. Híbýli þessi voru almennt nefnd kastalinn og vöktu óskipta athygli þeirra er leið áttu um Blesugrófina.
Blómey er ættuð frá Reyðarfirði. Þau hjónin áttu einn son, en hann lézt fyrir um 10 árum. „Ég fer til Hveragerðis að sækja nauðsynjar einu sinni í viku. Af og til held ég svo til Reykjavíkur með teppi til að, selja. Þá fæ ég lika blöðin”. Síðasti vetur var fyrsti vetur hjónanna á heiðinni. Haustið var verst. Þá fýkur allt sem fjúka vill, en þegar snjórinn leggst yfir, er okkur borgið. Þá verður umhverfið jafnframt fegurra, en vetrarveðrin taka að vísu nokkuð á taugarnar til lengdar,” heldur Óskar áfram, sem jafnan hefur orð fyrir þeim hjónum. Um jólin héldu hjónin til niðri í Skíðaskála. Það voru fyrstu jólin, sem þau héldu með rafmagnsljósum, og fyrsta sinn, sem þau höfðu sjónvarp til að horfa á.
Í fyrstu þótti þeim lítið til þessa tækis koma og kváðu það frá hinu illa komið, en undir lokin höfðu þau bæði hið mesta gaman af að horfa á sjónvarpið. Í Skíðaskálanum vann Óskar við tiltektir. Bráðlega hyggst hann aftur fá sér vinnu í einn mánuð eða svo. Það verður í Reykjavík. „Það má alltaf aura saman í fljótheitum með þvi að vinna á eyrinni. Á meðan búum við í tjaldi í Laugardalnum en flytjum síðan aftur hingað upp eftir.
Ég er hugfanginn af að búa hér”, segir Óskar um leið og hann fylgir gestunum úr hlaði. Hann gengur með þeim niður undir gamla Suðurlandsveginn. Þar við hverina hefur Óskar fengið gamlan kofa gefins. „Ég er svona að dytta að honum núna. Það verður gott að geta flúið hingað ef veturinn verður mjög harður.
Hingað hef ég einnig flutt þau málverk, sem enn eru heil. Kannski ég opni hér sýningu einhvern tímann á myndunum mínum”, segir hann að lokum.”
Í grein í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 1996 er endurritað viðtal Ómars Ragnarssonar við þau hjónin undir fyrirsögninni “Húsið á fjallinu”. Ómar segir frá því er hann kynntist Óskari sem þá var að fara sína síðustu ferð upp á „fjallið.” Óskar lést 1993 en Blómey býr nú á dvalarheimili aldraðra, Hrafnistu. Fer hér á eftir stuttur kafli úr bókinni þar sem Blómey segir frá: „Ég skildi hann aldrei,” segir Blómey Stefánsdóttir, þessi grannvaxna og netta kona þar sem hún situr í herbergi sínu og segir mér frá manni sínum sem hún missti í janúar 1993 eftir 54ra ára sambúð. Á borðinu við hlið hennar liggja nokkur myndaalbúm og skáldsögur en hún bendir mér sérstaklega á hausthefti Skírnis 1995 þar sem mynd af verki eftir Óskar heitinn prýðir forsíðuna en í heftinu er grein eftir Ólaf J. Engilbertsson um myndlistarmann Skírnis undir heitinu: „Leitin að paradís.”
Blómey er orðin 82ja ára gömul og hefur reynt margt um dagana. Í níu löng ár bjó hún á fjallinu með manni sínum við ótrúlegan kost. Það hefur áreiðanlega reynt á þolrifin í öllum skilningi. Hún virðist rósemdarkona og er mjög alúðleg í viðkynningu, í fullkomnu jafnvægi, jarðbundin, raunsæ og óvenjulega hreinskilin. Þegar ég segi henni frá kynnum mínum af Óskari kannast hún vel við það að hann hafi sagt henni frá því að hann hafi hitt mig þegar hann kom í bæinn um kvöldið. Mér finnst í fyrstu merkilegt að hún skuli muna það eftir svo mörg ár en þegar hún segir mér nánar frá þessum degi er ekki að undra þótt hún muni þetta eins og það hafi gerst daginn áður.
„Þetta var örlagadagur,” segir hún. „Honum fannst hann endilega þurfa að fara þessa ferð þótt veðrið væri ekki gott. Það þýddi yfirleitt ekki að malda í móinn þegar honum datt slíkt í hug og þótt ég sæi að hann væri mjög illa fyrirkallaður og ætti því ekkert erindi upp á heiði, veiklulegur maður að nálgast áttrætt, sat hann fast við sinn keip og fór samt. Þegar hann kom loks heim um kvöldið, seint og um síðir, var hann alveg örmagna. Ég sá strax að það var eitthvað mikið að. Hann var fársjúkur og morguninn eftir fór hann í læknisskoðun sem leiddi í ljós að hann var haldinn ólæknandi krabbameini á háu stigi. Þetta var upphaf dauðastríðs hans og banalegu og í síðasta sinn sem hann sá bæinn okkar. Hann dó tveimur mánuðum síðar.”
Hún þagnar og við sitjum nokkur augnablik þegjandi, því þetta snertir mig djúpt. Mér verður ljóst að stund okkar á fjallinu hafði verið svanasöngur hans og að við hefðum hvort eð er aldrei getað gert neinn sjónvarpsþátt saman. Nú átta ég mig á því hvers vegna mér hafði á stundum sýnst hann eins og vofa með þennan kuldalega náfölva í andlitinu. Það var eins og einhver ósýnileg og máttug hönd hefði stýrt þessu öllu á þennan veg.
Engan þurfti að undra að þessi síðasti dagur í venjulegu lífi þeirra Blómeyjar og manns hennar væri henni enn í fersku minni og undarleg tilviljun að leiðir okkar Óskars skyldu liggja saman einmitt þennan dag. Þessi dagur var nokkuð sem ég hefði alls ekki viljað missa af að upplifa.
Ég bendi Blómeyju á fyrirsögn Skírnisgreinarinnar um Óskar; „Leitin að paradís.”
„Já,” svarar hún. „Honum var hið einfalda og fullkomna alltaf hugstætt.”
„Var bærinn á fjallinu paradísin sem hann leitaði að?” spyr ég.
„Ég skildi hann aldrei,” endurtekur hún. „Leit að paradís er fyrirfram dauðadæmd hér á jörðinni. Það er engin paradís til. Ég skildi aldrei hvers vegna hann þráði þetta svona mikið og var að reyna þetta. En svona var þetta nú samt.”
„Sloppurinn hans og húfan héngu enn á snaganum eins og hann hefði verið þarna í gær,” sagði ég. „Á ég að koma með þetta til þín þegar ég hitti þig næst?”
Svipur hennar verður alvarlegur og dapurlegur. „Nei,” svarar hún, fljótmælt og ákveðin. „Ég vil ekkert vita af neinu frá þessum stað og aldrei koma þangað aftur.”
„Það hefur verið erfitt að búa þarna,” segi ég.
„Já, það var ömurlegt, öll þessi ár,” svarar hún.
Þessi lífsreynda kona er að hefja grípandi, fáorða og hreinskilna frásögn af einstöku ævihlaupi sínu. Hún svarar spurningum með meitluðum setningum, vafningalaust. Oft brosir hún þegar hún svarar, ýmist góðlátlega eða kaldhæðnislega. Aðeins einu sinni í frásögninni viknar hún, þegar talið berst að Blómey Stefánsdóttir einkabarni hennar og Óskars, syni þeirra, sem þau misstu með sviplegum hætti.
Við skiptumst á fáorðum spurningum og svörum um undarleg örlög og oft óskiljanleg: „Ég er af skaftfellskum ættum en ég fæddist og ólst upp á Austfjörðum. Firðirnir eru lokaðir og mér fannst þröngt í þeim. Ég þráði víðáttuna, frelsið, að geta flakkað um. Strax og ég var oðin sextán ára hleypti ég heimdraganum og leiðin lá næstu árin um Austurland. Ég hafði yndi af því að flakka, hef alltaf verið flökkukind í eðli mínu. Best leið mér meðan ég var á Aðalbóli í Hrafnkelsdal. Það er svo fallegt þar. Bærinn er sá syðsti í byggðinni, efst uppi í dalnum, næstur öræfunum og heiðarlöndunum. Þar blasa endalaus, ósnortin víðerni við með jöklasýn í fjarska en heiðum, vötnum og hreindýrahjörðum nær. Hreindýrin eru tignarleg og falleg dýr. Það er varla hægt að hugsa sér neitt fallegra en hreindýr sem stendur uppi á hæð með Snæfell í baksýn og reisir myndarleg horn sín mót himni. Það er tákn máttar og dýrðar og slík sýn efldi í mér þrána eftir hinu fullkomna, ótakmarkaða frelsi.
Einu sinni sátum við saman, ég og vinkonur mínar, og ræddum um framtíðina. Ég sagði: „Mig dreymir um að verða piparmey, ein á eyju, fjarri öllum karlmönnum.” Þær tóku undir þetta. Okkur fannst karlmenn vera upp til hópa stórbokkar, frekjuhundar og drillusokkar. Það var ekkert jafnrétti til í landinu; misrétti og ofríki karlmanna blasti alls staðar við. Þeir réðu öllu og áttu allt. Við hétum því að breyta þessu, ráða okkur sjálfar og láta ekki kúga okkur. Ég var alveg ákveðin: Draumur minn var að verða ein og frjáls, engum háð, úti á eyju.”
Þetta er einkennileg orðræða konu spámannsins sem fylgdi honum upp á heiði og þraukaði þar með honum í níu erfið ár til þess að hann gæti uppfyllt draum sinn.
„Hvernig fór?” ”
„Við giftumst allar, hver og ein einasta. Mín örlög réðust á dansleik á Kópaskeri. Þá var ég í vinnu á Raufarhöfn og fór á þennan dansleik sem átti eftir að verða svo afdrifaríkur. Það voru margir fallegir strákar á Kópaskeri en ungur maður, sem sagðist heita Óskar Magnússon, fór að dansa við mig. Hann virtist verða mjög hrifinn af mér og gekk beint að efninu og spurði: „Viltu koma með mér og verða stúlkan mín?”
„Nei,” sagði ég.
„Jú,” sagði hann.
Hún segir þetta blátt áfram og næstum svipbrigðalaus þótt ekki sé laust við kaldhæðnislegt bros þegar hún rifjar þetta upp. Þessi lýsing hennar er eins og í Íslendingasögunum, „Ung var ég gefin Njáli…” og allt það. í örfáum orðum dregur Blómey Stefánsdóttir saman aðalatriði lífshlaups síns: „Nei,” sagði ég. „Jú,” sagði hann.”
„Ég veit að margir kynntust skapofsa hans,” segi ég við hana þegar hún lýsir þessari afdrifaríku innkomu Óskars í líf sitt og ég bæti því við að ég hafi, uppi á fjalli, kynnst fleiri hliðum hans, viðkvæmni og mikilli hlýju; ég hafi hrifíst af margbreytilegri persónu hans og þó einkum hlýjunni sem leyndist undir kaldri skel.
„Varst þú ekki hrifin af þessari hlið hans?”
Svarið er stuttort, hreinskilið og næstum ótrúlegt:
„Ég var aldrei hrifin af þessum manni. Aldrei.”
Hún segir þetta eins og hún hafi þar með afgreitt með hvaða hætti 54ra ára samband þeirra var og þurfi ekki að orða það frekar. Síðan heldur hún áfram sögu sinni:
„Ég sá öll tormerki á að ég gæti gifst Óskari. Við vorum gerólík og ég var ekkert hrifin af honum. Ég átti þá barn með öðrum manni og gat ekki séð hvernig samband okkar gæti blessast. Samt fór ég með honum. Hann var óskaplega afbrýðisamur og hræddur um mig, óttaðist alltaf að ég væri á karlafari. Strax á ballinu á Kópaskeri var hann altekinn af þessum ótta. Það voru líka mjög sætir og myndarlegir strákar þar, satt er það. Hann fór með mig til Reykjavíkur og við bjuggum um tíma hjá föður hans. Hann vildi mennta sig eftir fremsta megni og lauk búfræðinámi frá Bændaskólanum á Hvanneyri. Vafalaust hefði hann viljað mennta sig meira eða eignast jörð en hvorugt var hægt. Það var kreppa og maður mátti þakka fyrir að skrimta.
– Við giftum okkur í Dómkirkjunni. Það var ekki venjulegt brúðkaup. Við vissum að sambúð okkar yrði mjög sérstök og ákváðum að gera þetta í kyrrþey og ein. Við stóðum þar fyrir altari tvö ein með séra Bjarna og konunni hans. Þar voru engir aðrir. Mér fannst það samt ekki síður eftirminnileg athöfn en þótt það hefði verið margmenni viðstatt. Við sögðum bæði ,já” í það skiptið og þegar ég játaðist honum út yfir gröf og dauða vissi ég að þannig yrði það af minni hálfu og yrði aldrei aftur tekið. Og þannig var það. Það var dauðinn sem aðskildi okkur.”
Hún er skammt komin í frásögn sinni og maður skilur hvorki upp né niður. Hvað um allt frelsið sem hana dreymdi um, eyðieyjuna og allt það? En hún heldur áfram: „Svo kom stríðið og Óskar fór í Bretavinnuna. En einmitt þegar það virtist ætla að skána fjárhagslega hjá okkur varð ég heltekin af berklum. Ég var á Vífilsstöðum í tvö ár og fjölskyldulífið rofnaði; ég varð að láta barnið mitt frá mér og berjast ein fyrir lífi mínu. Síðan var ég á Kristneshæli. Þar var ég hoggin.” Fá og einföld orð um mikla baráttu og fórnir Blómeyjar þessi erfiðu ár þegar hún mátti þakka fyrir að komast lífs af í glímunni við „hvíta dauðann”.
Að vera „hoggin” var stór brjóstholsaðgerð og þetta lýsingarorð er jafn miskunnarlaust og aðgerðin. Áfram heldur Blómey: „Ég jafnaði mig furðu fljótt en var þó alla tíð upp frá því máttlítil í hægri öxl oghendi. Þegar ég kom suður hafði Óskar reist sér kofa inni í Blesugróf og bjó þar. Ég hefði aldrei tekið í mál að vera með honum í að reisa þennan kofa ef ég hefði verið hjá honum allan tímann. En ég stóð frammi fyrir gerðum hlut og nýkomin af hæli var ég ekki í neinni aðstöðu til að breyta þessu. Mér fannst kofinn ömurlegur alla tíð, sama hve miklu hann bætti við hann og breytti honum uns hann var orðinn að stærðar húsi. Honum fannst hann stórkostlegur.
Honum fannst alltaf allt svo stórkostlegt sem HANN gerði.” Hún leggur áherslu á síðustu orðin rétt eins og hún sé nú að afgreiða endanlega í einni setningu viðhorf þeirra tveggja til flestra, ef ekki allra; þeirra hluta sem hann gerði. Einkennilegt hefur það verið, samband þessara tveggja ólíku póla, sem þau hjón hafa verið í hinni löngu sambúð sinni, ef marka má frásögn hennar. Eftir því sem líður á frásögn hennar verður samband þeirra æ sérstæðara í augum þess sem á hlustar.
„Við eignuðumst einn son,” segir hún. „Árin liðu og þótt líf okkar og aðstæður væru nokkuð sérstæðar vorum við þó þrátt fyrir allt fjölskylda í Reykjavík. Það er svo sem ekkert í frásögur færandi. Af því að Óskar var lærður búfræðingur hafði hann mikinn áhuga á því að hafa skepnur. í Blesugrófinni höfðum við endur, hænsn, hunda, ketti og meira að segja kalkúna.”
Í þessari látlausu frásögn finnst Blómeyju greinilega að b
Talið berst varfærnislega að einkasyni þeirra hjóna sem þau misstu á besta aldri. Það er ævinlega erfitt að ræða um slíka hluti og hún, sem hefur hingað til getað talað hispurslaust og næsta glaðlega um hin viðkvæmustu mál, viknar skyndilega þegar talið berst að þessu og bindur í raun enda á alla umræðu um það með því að segja stuttlega: „Það var mjög sárt og óvænt. Allt í einu var hann dáinn. Hann var hrifinn frá okkur á einu augabragði.” Orð hennar nísta eins og eggjárn. Enn er mikil harmsaga afgreidd í fáum orðum og sem þungt ský leggist yfir andlit þessarar lífsreyndu konu.
Búskapur þeirra í Blesugróf hafi ekki verið neitt sem þótti óvenjulegt á þeim tíma, enda hafði Reykjavík þá enn ekki breyst úr bæ í borg. Það var víða í bæjarlandinu sem eimdi eftir af sveitasamfélaginu og Óskar var ekki eini hafnarverkamaðurinn sem fékkst við búskap í smáum stíl. Þórarinn á Melnum bjó með skepnur við Ásvallagötu fram á miðja öldina og Blesugrófin var hálfgert sveitaþorp.Með því að víkja talinu á ný að öðru umræðuefni birtir á ný yfir henni. Þegar spurt er um það hvernig hún sjálf hafi haft betur í baráttu við illvígan sjúkdóm og aðrar þrautir, sem lífíð hefur gert henni að leysa, færist líf og ljómi í andlit hennar og hún svarar: „Ég lét aldrei neitt hagga mér, aldrei neitt á mig fá. Þess vegna er ég enn lifandi og orðin þetta gömul.”
Við höldum áfram að tala um lífið í Blesugrófinni. Ég segi henni frá ýmsum sögum sem nágrannar hafa sagt af Óskari. Þeim eru minnisstæð atvik í ætt við eldmessuna í Litlu kaffistofunni þegar skapið hljóp í hann og hann snöggreiddist. „Já,” segir Blómey, „Hann var svona. Sumir eru skapaðir með þessum ósköpum og geta ekkert að því gert. Þegar hann snöggreiddist var honum ekki sjálfrátt. Svo tók hann það alveg óskaplega nærri sér þegar okkur var skipað að fara úr húsinu í Blesugrófinni vegna þess að það þyrfti að gera braut upp í Breiðholt.
Það var alveg sama þótt þeir byðu honum gull og græna skóga. Þeir buðu okkur íbúð í blokk en hann hafnaði því. Þá voru viðbrögð okkar Óskars ekki samhljóma frekar en fyrri daginn, nema hvað ósamræmið var öfugt við það sem hafði verið á dansleiknum á Kópaskeri, því ég sagði: „Jú,” en hann sagði: „Nei.” Eftir að hafa margstækkað og breytt húsinu á þeim þrjátíu árum sem við bjuggum þar, fannst honum þetta orðið eitthvert snilldarverk, bara af því að HANN hafði smíðað það. Í húsinu var allt hans líf, veflistarverkin og hvaðeina. Eftir að við misstum einkason okkar var þetta hús, sem hann hafði reist með berum höndum og það sem í því var, eina sköpunarverk hans sem hann átti eftir, það eina sem honum fannst hann hafa lagt af mörkum hér á jörðinni. Það var eina barnið sem hann átti eftir og var sem hold af hans holdi.”
Stuttorð frásögn Blómeyjar varpar nýju ljósi á aðstæður búfræðingsins með háu hugsjónirnar. Á fundi okkar uppi á fjallinu fyrir fjórum árum virkaði lýsing hans á brottvikningu hans úr Blesugrófinni sem hreinar ýkjur og ofsóknarbrjálæði. En nú blasti við að dramatísk frásögn hans hafði verið rétt í minningunni og fullkomlega eðlileg út frá hans sjónarhóli. Að taka af honum húsið og jafna það við jörðu var eins og að taka af honum einkabarn og deyða það. Þá fannst honum hann ekkert eiga eftir af því sem hann hafði skapað og eignast.
Talið berst nánar að myndvefnaði þeirra. „Ég átti víst upptökin að því að hann byrjaði að vefa fyrir alvöru,” segir hún. „Við höfðum haft vefstól og gert nokkur teppi og þegar Hildur Hákonardóttir sá þau vildi hún endilega að ég kæmi til sín á námskeið. Þegar ég minntist á það við Óskar harðbannaði hann mér það. Hann var alltaf svo hræddur um mig og afbrýðisamur. Á endanum féllst hann þó á að fara með mér, rétt eins og hann þyrfti að passa mig. Þegar hann hafði fylgst með mér í nokkurn tíma, fór hann að fíkta við að gera svipað, fyrst í smáum stíl og af forvitni en síðan af vaxandi áhuga uns þessi listgrein átti hug hans allan.”
Blómey bendir mér aftur á tímaritshefti Skírnis sem er á borðinu hjá henni. Hún virðist ýmist tala kuldalega um sérvitringinn, sem hún bjó með í 54 ár, eða sýna verkum hans skilning og vera áhugasöm um að ég kynnist öllu því sem best sem honum viðkom. Hún tekur fram albúm á borðið og flettir því. Þar má sjá myndir af þeim hjónum og þar er meðal annars úrklipga úr blaði, úr minningargrein um Óskar þar sem þess er getið að hann hafi ekki verið allra en hafi hins vegar verið þeim góður og reynst þeim vel sem hann blandaði geði við. Hún bendir mér á greinina. Ég les umsögnina og segi við hana: „Hann hefur átt góðar hliðar. Þegar við hittumst fann ég að það sló heitt hjarta undir þessari hrjúfu skel. Sástu ekki eitthvað slíkt við hann þegar þið kynntust?”
Aftur svarar hún neitandi og ítrekar: „Ég var aldrei hrifin af honum.” Einfalt og endanlegt svar um upphaf meira en hálfrar aldar sambúðar sem á sér vart sinn líka á okkar dögum.”
Í Þjóðviljanum árið 1981 er opna tileinkuð þeim hjónum undir yfirskriftinni “Fólkið á fjallinu”. Þar segir m.a.:
“Hann stóð keikur við vegkantinn með stóran poka á baki og leit um öxl. Ég frekar fann að hann þurfti far, en að hann gæfi það til kynna. Ég þarf ekki lengra en móts við Skíðaskálann, sagði hann.
— Vinnuru hjá Steingrími?
— Nei, ég bý þarna í grennd.
Hann kom sér fyrir i framsætinu með stóran pokann í fanginu og vildi alls ekki leggja hann frá sér — Þetta er okkur dýrmætt sem í pokanum er og ég vil ekki að nokkuð komi fyrir það, — sagði hann og þykkar brúnirnar sigu.
— Ertu vefarinn?
— Já.
— Ég hélt þú værir dauður, segi ég og lít glottandi á kall.
— Nei, ég er langt í frá dauður — og hann hristist í hlátri, — en það er hvorki að þakka þeim gamla, né heldur þessum Kristi í Himnaríki — og á eftir fylgja óprenthæfar lýsingar á guðskristni í landinu.
Við ókum inni heiðina og vegurinn var svell á köflum og bíllinn dansaði áfram i rykkjum eins og öldruð ballerína sem þykist ung, og veröldin brosti við okkur snæhvít og heið.
Heldur fannst mér samt syrta i álinn, er hann tók að úthúða kommunum.
— Stalín var mikilmenni og Beria var virðingarverður maður. Þegar þeirra naut ekki við hallaði undan fæti og nú hafa kommarnir svikið allt sem máli skiptir og ég er að gefast upp á þeim, þekki þá ekki lengur frá andskotans íhaldinu, sem ég hata þó heitast af öllu og þennan yfirstéttarguð þeirra Krist.
— Hvað kom til að þið fluttuð í heiðina?
Hann litur háðslega til mín og brosir svo útí annað.
— Þú spyrð eins og ég hafi hrakist úr sælunnar dal. Reyndar var ég flæmdur úr mínu húsi, en ég kaus einnig sjálfviljugur að yfirgefa þetta vitfirrta samfélag þar sem lífið sjálft er sett að veði fyrir falsguði og fölsk gæði og fólkið ferðast um i lyftum allan daginn i eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Börn hafa gaman af lyftum, en ég skil ekki það sé fyrir fullorðið fólk.
— Segðu mér frá húsinu.
— Garðstunga hét það í Blesugróf og er farið undir veg. Satt er það að veggirnir voru sprungnir, en inni var stolt heimili og hlýlegt og garðurinn var dýrgripur og það eru einmitt trén úr honum kringum hestinn og reyndar uppmeð Miklubrautinni alllangt, segir hann og verður dreyminn í augunum.
Framundan er brekkan við Skíðaskálann og þegar upp hana er komið legg ég bílnum utan vegar og áræði að spyrja hvort ég megi fylgja honum til bæjar. Færðin er góð, örþunnt lag af nýföllnum og fisléttum snjó hylur hjarnbreiðu heiðarinnar og hann gengur á undan léttur i spori eins og unglingur með þungan pokann á baki og stefnir á lítinn kofa og leggur kolareyk frá honum. Allstór vefstóll nær fyllir gólfrýmið en kolaofn er í horninu við dyrnar. Veggirnir eru þaktir einföldum og tvöföldum myndvefnaði og strangar eru á gólfi og hillum. Húsgögn eru fábreytt nema tveir stólar og mér sýnist enginn heima nema kettir sem eru i hverju horni. Ekki er allt sem sýnist og konurödd fagnar honum og spyr hver gesturinn sé og þegar augun venjast rökkri kofans kemur i ljós lítill pallur undir kvistglugga á austurvegg með tveimur rúmbálkum og sat lítil kona í öðrum og óf.
Þrátt fyrir þröng húsakynni hér er margt fyrir augað, og þegar hann veltir við ströngum vefnaðar opnast víðari heimur og kofaveggirnir þrengja ekki að.
Greinilegt er að þótt að hann standi nú utan við stéttabaráttu og sé ekki lengur i hörðu stríði við íhaldið, svikakomma og trúna, en búi að fjallabaki, þá hefur víglínan aðeins færst til og í myndheiminum geysar þetta stríð enn.
— Hér er Óðinn, segir hann og er okkar ættfaðir. Ég trúi á náttúruna, sem ég er sprottinn úr, stokka og steina, en enga drauga. Óðinn lét annað auga sitt fyrir skynsemina og skáldgáfuna og honum vil ég líkjast og rísa upp til orrustu að morgni, þótt falli að kveldi, ekki bardagans vegna, heldur þess að gefa ekki eftir, en verjast kúgunaröflunum. Hér við hlið Óðins er önnur mynd sem ég nefni Vort daglega brauð og það eru einmitt brauð sem stíga á myndinni upp af krossi þjáninganna. Þú mátt gjarnan skilja af þessu að ég er enginn dýrkari vinnunnar, því að hún er böl og hefur alltaf verið og ég vil að henni sé skipt réttlátlega á fólk, sem og afrakstri hennar líka.
Konan hafði til þessa setið og gert gælur við kettina en fór nú á stjá að kurla brenni og huga að ofninum. Síðan setti hún upp tepott. Mér lá forvitni á að vita nánar um húsmissinn.
— Það hét Garðstunga, sagði hann og starði annars hugar út um gluggann, þar sem einn kattanna sat og veiddi flugur af mikilli list. Og nú kom hún með te í drifhvítum postulínsbolla, og teilmurinn blandaðist ullarlyktinni og ég fann hlýjuna og notalegheitin í þessum litla bæ og seytla um hverja taug.
— Garðstunga og var ekki byggð á leifum og skilyrðum frá þeim háu og reyndar gaf ég einu yfirvaldinu hjá Borginni munnlegt loforð á sínum tíma um að þrjóskast ekki við, ef þeir þyrftu á landinu að halda. Árin liðu og að því kom að þessir skrattar létu í sér heyra — og hann tekur snöggt viðbragð, stendur upp af stólnum og augun loga af heift, en kattaragnið i glugganum missti jafnvægið og datt ofaní bollann minn.
Hann gengur um gólf og þylur: Náköld er Hemra því Niflheimi frá nöpur sprettur á. En kaldara und rifjum er konungsmönnum hjá. Kalinn á hjarta þaðan slapp ég.
— Svo hafa þeir tekið húsið?
Hann horfir á mig og nú er ró og staðfesta í svipnum. — Þeir héldu áfram að þrátta í þessu með veginn sem endilega átti að liggja gegnum húsið okkar og þegar ég fann alvöruna vildi ég að sjálfsögðu efna loforð mitt, þótt kallinn sem ég gaf það væri reyndar dauður. Reyndar bað ég um einhvern skúr eða aflóga sumarbústað í nágrenni borgarinnar i staðinn, af því að ég kunni ekki að meta eign mína til verðs, en því var ekki ansað og í mig hent einhverjum skitnum peningum sem þeir náðu aftur með þessu apparati verðbólgunni.
— Þú hefur staðið á götunni?
— Hann litur útundun sér og glottir. — Ekki alveg kannski. Mig hafði um skeið grunað hvernig fara myndi. Árið 1967 byrjaði ég að byggja þennan bæ hér utan í Reykjafellinu og var næstum því búinn árið 1974, þegar Borgin lét til skarar skríða og tók af mér húsið. Reyndar höfðum við dvalið hér að sumarlagi um nokkur ár. Eins og ég sagði var nýja Garðstunga ekki fullbúin 1974 sem leiddi m.a. til þess að ég varð að tjalda hér uppfrá yfir myndirnar mínar sem sumar skemmdust af raka því að það var rigningartíð.
— Innan um öll þessi teppi hangir eitt málverk, þú hefur málað talsvert?
— Það er rétt, en ég var aldrei sáttur við málverkið, þótt sköpunargleðin fengi þar útrás, þettað er yfirstéttarlist, kirkjulist. Myndin sem þú sérð hér er máluð eftir minni af Fjallabæjunum. Brekknakot er þarna efst við fjallsræturnar og þar er ég upp alinn hjá elskulegum fósturforeldrum, sem Einar frá Hermundarfelli hefur skítlega rægt í skrifum sínum um þessa byggð, á sama hátt og bróðir minn Siggi Magg hefur rægt föður okkar á prenti, ómaklega, til að græða á, og veri þeir báðir margbölvaðir fyrir orðin. Það á að fara varlega með orð.
— Hvenær byrjið þið að vefa?
— Vefnaður er alþýðulist, segir hann. Aðminnsta kosti fer myndvefur jafn vel i koti og höll og þessi löngun hafði lengi brunnið í okkur, en vissum varla hvar leita skyldi tilsagnar í listinni. En svo bar við fyrir einum átta árum að hún Hildur Hákonardóttir leit inn til okkar og fann þá inná þessa þrá hjá konunni og bauð henni á námskeið i Myndlista-og handiðaskólanum og ég elti og þá bauð hún mér líka. Þetta var góður tími og í lokin bætti Hildur enn um og seldi konunni ódýrt lítinn myndvefstól.
— Þú varst pólitískur og kunnir vel við Stalin. Hvað viltu segja um pólitíkina núna?
— Ég var nú áðan að skamma kommana fyrir aumingjaskap og þú ert frá Þjóðviljanum og ég get svosem sagt það af því að raunsæi er í tísku, að þið áttuð kannski ekki um nema tvær leiðir að velja, þessa sem þið fóruð og svo hina sem ég fór. Þannig er þetta andskotans viðskiptaþjóðfélag.”
Í Helgapóstinum 1979 er fjallað um listamanninn Óskar Magnússon í Garðstungu. Þar er m.a. stutt lýsing innandyra: “Garðstunga heitir bærinn. Byggður úr torfi og grjóti og snýr stafni, með vindskeiðum efst á burstinni, fram á hlað, sem er girt með hlöðnum grjótgarði.
Bærinn er byggður inn í grjóthól. Fyrst er gengið inn í anddyri þar sem níu vingjarnlegir kettir á öllum aldri tóku á móti okkur, nudduðu sér utan í fætur okkar og sníktu klapp. Beint innaf anddyrinu er svefnherbergi þeirra hjóna. Gengið upp tvær tröppur, og inni er rétt pláss fyrir tvö rúm.”
“Óskar Magnússon listvefari, verkamaður og sérvitringur, fæddist á Sauðanesi í Þistilfirði 20. júní árið 1915. Hann var sonur Margrétar Guðbrandsdóttur frá Hrollaugsstöðum í Norður-Þingeyjarsýslu og Magnúsar Jónssonar frá Selalæk. Óskar hét fullu nafni Óskar Bertels Magnússon en honum virðist hafa verið gefið nafnið Óskar Bartel og þannig er hann skráður í opinberum gögnum fyrstu æviár sín en síðar breytist millinafnið í Bertels.
Magnús átti óvenju litríka ævi í samskiptum við konur því hann átti mýgrút barna með mörgum konum, sumum þeirra bjó hann með en átti lausakaup við aðrar. Óskar varð frumraun hans á þessu sviði en Magnús mun hafa verið í vinnumennsku á Sauðanesi líkt og Margrét þegar kynni þeirra hófust.
Magnús varð nafntogaður hestamaður og gleðimaður í Reykjavík á fyrri hluta tuttugustu aldar sem bjó yfirleitt við kröpp kjör og mikla ómegð á útjaðri samfélagsins. Einn sona hans og hálfbróðir Óskars, var Sigurður A. Magnússon rithöfundur og hálfbróðir Óskars. Óskar var því elstur barna Magnúsar en fjórða barn móður sinnar. Margrét hafði átt þrjú börn vestur í Bolungarvík með tveimur mönnum áður en hún kynntist Magnúsi en með honum eignaðist hún síðan þrjú börn til viðbótar. Ekki ól Margrét öll sín börn upp sjálf því a.m.k. eitt þeirra varð eftir fyrir vestan þegar hún fór þaðan og Óskar ólst upp að einhverju eða mestu leyti í Brekknakoti í Þistilfirði hjá vandalausum.
Óskar hafði áhuga á að komast til betri kjara og fór til náms á Hvanneyri þegar hann hafði aldur til og lauk þaðan námi.
Hann settist að í Reykjavík árið 1941 í Blesugróf þar sem einyrkjar og fátæklingar höfðust við utan borgarmarkanna í einhvers konar sjálfsmennsku eða þurrabúðum og hefur Tryggvi Emilsson rithöfundur dregið upp átakanlegar myndir af fátæktarbasli Blesugrófarbúa í bók sinni Baráttan um brauðið.
Óskar kynntist eiginkonu sinni Blómeyju Stefánsdóttur á þessum árum en þau eignuðust saman einn son, Hallmar Stálöld, sem fæddist árið 1941. Fyrir átti Blómey eina dóttur, Sigríði, sem fæddist á Siglufirði 1939. Hallmar er samkvæmt Ættum Þingeyinga fæddur á Raufarhöfn 1941.
Blómey veiktist af berklum snemma í sambúð þeirra og dvaldi lengi á Vífilsstöðum og á Kristneshæli. Á meðan var sonur þeirra í fóstri en Óskar í vinnu hjá breska setuliðinu.
Þegar sjúkravist Blómeyjar lauk og fjölskyldan sameinaðist á ný hófu þau búskap í Blesugrófinni þar sem Óskar hafði reist kofann yfir þau. Kofinn átti eftir að stækka og breytast því Óskar var sífellt að byggja við hann og fór virkilega ótroðnar slóðir í sinni húsagerðarlist. Hús þeirra hét opinberlega Garðstunga en var ávallt kallað Kastalinn í munni þeirra sem til þekktu. Kastalinn var líkt og virki, með hlöðnum torfveggjum en afar sérstæðri gluggasetningu og mátti auðveldlega sjá áhrif frá erlendum arkitektúr í byggingunni, bæði Gaudí og fleiri. Þetta undarlega útlit hússins dró að sér athygli manna og varð húsið landsþekkt eftir að myndir fóru að birtast af því í blöðum og tímaritum og munu einnig hafa ratað á síður erlendra tímarita um arkitektúr.
Óskar nýtti búfræðikunnáttu sína í Garðstungu og þau hjónin fengust við garðyrkju og ræktuðu trjálund við hús sitt. Dýrahald var talsvert í Kastalanum því Óskar og Blómey og áttu hænur, hunda, kalkúna, endur, ketti og geitur en þessháttar frístundabúskapur var algengur í Blesugróf og víðar í útjaðri Reykjavíkur á þessum árum.
Búskapurinn í Blesugrófinni var ekki sá sæli sjálfsþurftarbúskapur sem ætla mætti. Flestir íbúanna stunduðu vinnu í Reykjavík en nær engir þeirra áttu bíl og almenningssamgöngur voru lengst af engar við Blesugróf og þurfti því að ganga langa leið til að komast í strætó eða nota reiðhjól sem Óskar reyndar gerði yfirleitt. Ekkert rafmagn eða hitaveita var í Kastalanum frekar en öðrum húsum í Blesugróf og þar inni var því afar saggafullt og megn fúkkalykt af öllu innanstokks þar með töldum íbúunum og fatnaði þeirra.
Óskar var ákaflega ofsafenginn í skapi og snöggreiddist af minnsta tilefni við nágranna sína og samstarfsmenn. Hann átti það til að elta þá með ópum og skömmum og hótunum um barsmíðar sem honum sinnaðist við hvort sem það voru innheimtumenn frá bænum eða nágrannar og þetta varð til þess að nánast engir komu nokkru sinni í heimsókn í Kastalann. Óskar var af þessum sökum af mörgum talinn stórlega ruglaður ef ekki beinlínis hættulegur.
Þau hjónin urðu fyrir afskaplega miklu áfalli þegar Hallmar Stálöld einkasonur þeirra lést þann 10. desember 1964, aðeins 23 ára að aldri. Hallmar varð úti í Reykjavík. Sigurður A. Magnússon, rithöfundur og hálfbróðir Óskars, segir í ævisögu sinni Undir dagstjörnu að það hafi gerst með þeim hætti að Hallmar hafi verið sjómaður sem átti það til að skvetta svolítið í sig í landlegum að þeirra tíma hætti. Hann hafi knúið dyra hjá hálfsystur sinni í móðurætt í Höfðaborg eitt kvöldið og verið nokkuð undir áhrifum. Hún vildi ekki hleypa honum inn og hann ráfaði frá Höfðaborg og niður að Höfða þar sem hann lagðist undir vegg og sofnaði og fannst örendur þar morguninn eftir.
Kastali Óskars og Blómeyjar var eins og önnur hús í Blesugróf byggður án tilskilinna byggingarleyfa og var ekki hluti af neinu borgarskipulagi. Þegar borgaryfirvöld hófu að skipuleggja byggð í Breiðholti á árunum fyrir 1970 lenti Blesugrófin milli stafs og hurðar í þeirri skipulagsvinnu.
Eftir því sem Breiðholtið stækkaði varð nauðsynlegt að leggja stofnbraut þangað og þegar Breiðholtsbrautin var lögð þurftu nokkur hús í Blesugróf að víkja og þar með talið Kastalinn sem var tekinn eignarnámi af borgaryfirvöldum.
Óskar taldi þessa gjörð borgaryfirvalda gegn sér ófyrirgefanlega með öllu. Geir Hallgrímsson, þáverandi borgarstjóri, mun hafa gengist fyrir því að fjölskyldunni var boðin blokkaríbúð í stað hússins en Óskar taldi það af og frá og varð engu tauti við hann komið. Við þessi umskipti ákvað hann að flytja til fjalla og reisti sér hús á Hellisheiði langt fjarri hinum langa armi borgarinnar og utan allra skipulagsreglna.
Vistarverurnar á Hellisheiði voru afleitar vistarverur, bæði þröngar, kaldar og saggafullar. Hún sagði að húsakynnin láku aldrei í slagviðrum en vegna sérviskulegrar staðsetningar hússins spruttu lækir upp úr gólfinu. Blómey var langtímum saman ein á Hellisheiði meðan Óskar var í vinnu og þá farið einförum um heiðina og frekar viljað vera úti undir berum himni en hírast í kofanum.
Hús Óskars og Blómeyjar stóð uppi á háheiðinni rétt austan við skíðaskálann í Hveradölum en þar undir brattri brekku stóð gamall skíðaskáli en leifar af skíðaaðstöðu, meðal annars stökkpalli hlöðnum úr grjóti, má enn sjá á staðnum. Í þessum niðurnídda skíðaskála fengu Óskar og Blómey oft að dvelja á vetrum þegar snjóalög voru mikil og veður vond. Af tvennu illu þótti hann skárri vistarvera en húsin uppi á brekkunni og auðveldara að komast þangað þegar snjór var mikill og segir þessi ráðstöfun sína sögu um erfiðar aðstæður þeirra og ástand húsakynnanna.
Óskar var ekki mjög mannblendinn, eiginlega viðskotaillur og fullur af reiði út í heiminn og flest fólk sem í honum var. Skapofsa hans og einstrengingshætti var viðbrugðið og hann var því vinafár einfari meðan hann lifði.
Ómar Ragnarsson lýsir fyrstu fundum þeirra Óskars í Litlu kaffistofunni í nóvember 1992 en þá var Óskar fluttur af heiðinni en var á leið upp eftir til að líta eftir húsakosti sínum. Óskar hélt mikla þrumuræðu yfir Ómari og úthúðaði honum og fjölmiðlum samtímans af fádæma mælsku og kynngikrafti.
Um veru sína í heiðinni og ástæður fyrir sjálfskipaðri útlegð sagði Óskar: „Sjáðu til. Það er alvara á bak við þennan torfbæ. Hann er ekki bara eins og eitthvert fíflalegt stöðutákn í þéttbýlli sumarbústaðabyggð þar sem er sjónvarpsloftnet á hverju þaki, farsímar í öllum herbergjum, lúxusjeppi í hverju hlaði og bústaðabyggðin orðin svo stór og þétt að á hverju strái eru skilti sem banna hundahald!
Nei, þessi bær er vin í auðninni. Hér hljómar rödd hrópandans í eyðimörkinni. Þess vegna stendur hann uppi á fjalli fjarri allri firringunni.”
Óskar og Blómey munu hafa flutt í heiðina árið 1973 en þá var Óskar að verða sextugur. Hann sótti vinnu til Reykjavíkur nær allan tímann sem hann bjó þar en hann starfaði hjá Skipaútgerð ríkisins. Stundum hjólaði hann til borgarinnar en oft fékk hann far með bílum sem áttu leið um veginn.
Óskar og Blómey bjuggu í heiðinni þar til Blómey varð sjötug 1992 [á að vera 1984] en þá flutti hún frá Óskari samkvæmt samkomulagi sem hún hafði gert við hann þegar þau fluttu úr Blesugróf. Þar kvaðst hún mundu flytja með honum til fjalla með því skilyrði að hún flytti aftur til borgarinnar þegar hún væri sjötug. Óskar var einn í kofunum á Hellisheiði í fáeina mánuði eftir að Blómey fór en flutti svo til hennar í húsnæði sem henni hafði áskotnast í Smálöndum. Smálönd voru við rætur Grafarholts, nálægt núverandi Árbæjarhverfi, en þar voru allmargir gamlir sumarbústaðir og kartöfluskúrar sem notaðir voru sem íbúðir. Óskar vitjaði híbýla sinna í heiðinni til dauðadags en Blómey mun aldrei hafa komið þangað aftur.” Í Morgunblaðinu 23. jan. 1993 er eftirfarandi dánartilkynning: “Eiginmaður minn, Óskar Magnússon, er látinn – Blómey Stefánsdóttir.
Blómey Stefánsdóttir fæddist 20. nóv. 1914 og dó 18. des. 1997. Eftirlifandi dóttir hennar var Sigríður Sívertsdóttir Hjelm, fædd 1939. Í minningargrein um ömmu sína skrifar Ásdís Halla Bragadóttir m.a.: “Amma var fámál um fortíðina við mig og Heiðu systur mína sem þó gerðum okkar besta til að fá hana til að segja okkur sögur úr hennar eigin lífi. Þegar við eltumst áttuðum við okkur þó á því að ævi ömmu hafði verið erfiðari en flestra annarra. Hún eignaðist móður okkar utan hjónabands 25 ára gömul. Amma var vinnukona og fátæk einstæð móðir þegar hún síðan kynntist Óskari Magnússyni manninum sem hún eyddi stórum hluta ævinnar með. Þeim fæddist sonur skömmu síðar. Með tvö ung börn veiktist amma mikið af berklum. Vegna erfiðra veikinda þurfti hún að láta börnin frá sér en tók soninn aftur þegar henni skánaði.
Minning mín um ömmu er um konuna sterku sem bjó á fjallinu. Konuna sem óð snjó og krap á veturna til að komast heim til sín. Konuna sem naut sín í gönguferðum um hlíðar fjallsins á góðum sumardögum. Lágvaxin, grönn og veðurbarin með flaksandi sítt hárið var hún tignarleg úti í náttúrunni. Á þessu tímabili kynntumst við amma sem einstaklingar í oft viðburðaríkum heimsóknum þegar við systurnar fórum með mömmu og pabba upp á Hellisheiði til að heimsækja ömmu og Óskar, sem við alltaf kölluðum afa vegna mikillar væntumþykju okkar í hans garð.
Þegar afi hélt ræðurnar sínar miklu um ágæti Stalíns og fyrirsjáanlegan heimsendi blikkaði amma okkur systurnar og með látbragði sínu sagði hún okkur að taka orð hans ekki of alvarlega. Hún tók okkur afsíðis og laumaði hundraðkalli í lófa okkar en gaf jafnframt í skyn að við mættum engum segja frá því að hún væri að taka skerf af litlum fjárráðum heimilisins. Með sínum hætti fannst mér hún oft vera að reyna að bæta okkur systrunum upp það að hún skyldi hafa látið dóttur sína og móður okkar frá sér.
Í bókinni Mannlífsstiklur eftir Ómar Ragnarsson, lýsti hún draumum sínum sem ungrar stúlku og skoðunum sínum og vinkvenna sinna á karlmönnum: “Það var ekkert jafnrétti til í landinu; misrétti og ofríki karlanna blasti alls staðar við. Þeir réðu öllu og áttu allt. Við hétum því að breyta þessu, ráða okkur sjálfar og láta ekki kúga okkur. Ég var alveg ákveðin: Draumur minn var að verða ein og frjáls, engum háð, úti á eyju.” Opinskáar lýsingar hennar komu mér á óvart vegna þess að ég hafði aldrei gert mér grein fyrir því hve óánægð hún var að mörgu leyti við hlutskipti sitt í lífinu. Þegar hún gifti sig gaf hún manni sínum það loforð að ekkert skildi þau að nema dauðinn, hún stóð við það þó að hann tæki ákvarðanir um líf þeirra sem hún var mjög ósátt við. Hún hafði engan áhuga á að búa í kofum á fjöllum, hún vildi ferðast um heiminn og njóta frelsisins.
Amma mín var fulltrúi þeirrar kynslóðar kvenna sem stóðu við sitt þó að oft kostaði það svita og tár. Hún lærði af mistökunum og miðlaði áfram til næstu kynslóða. Hún brýndi fyrir okkur systrunum að vera sjálfstæðar, ákveðnar og sjálfum okkur samkvæmar.”
Í Morgunblaðinu 1993 birtist stutt grein undir fyrirsögninni “Ég heiti…”. Þar segir m.a.: “Ein þeirra Íslendinga sem á sér ekki nöfnu er Blómey Stefánsdóttir. Nafnið er hugmynd föður hennar.
Blómey er fædd á Seyðisfirði en föðuramma hennar var búsett á einni af Breiðafjarðareyjunum. Er faðir Blómeyjar eignaðist sitt fyrsta barn af níu, vildi hann gefa því nafn sem minnti hann á eyna. Blómey segist ekki muna lengur nafn eynnar en faðir hennar hafi sagt hana hafa verið blómum vaxna og því hafi hann valið nafnið Blómey. „Ég hef hins vegar verið kölluð gælunafninu Eyja og þegar ég var yngri var ég gjarnan kölluð Lóa, því mér leiddist Blómeyjarnafnið sem krakka. Auðvitað vandist ég því síðar meir og finnst það raunar ágætt að vera eini nafnberinn.”
Í dag (árið 2010) bera tvær stúlkur Blómeyjarnafnið skv. Þjóðskrá.
Heimild:
-Tíminn, 25. jan. 1976, bls. 2.
-Vísir, 27.06.1975, JH, bls. 2-3.
-Morgunblaðið – Sunnudagsblað, 8. des. 1996, bls. 10-11 (úr Mannlífsstiklum Ómars Ragnarssonar).
-Þjóðviljinn 17. janúar 1981, je, bls. 16-17.
-Helgarpósturinn 19. október 1979, Þorgrímur Gestsson, bls. 10-11.
-Miðvikudaginn 24. desember, 1997 – Minningargreinar (Ásdís Halla Bragadóttir skrifar um ömmu sína, Blómeyju).
-Morgunblaðið 25. apríl 1993, sunnudagsblaðið, bls. 30.
-Morgunblaðið 23. jan. 1993, dánartilkynning.
-http://heimur.is/heimur – páá.