Hveragerði er að mörgu leyti sérstakt samfélag – svo að segja í miðju öðru sveitarfélagi. Í Sveitarstjórnarmálum 1986 fjallar Karl Guðmundsson um “Hveragerðishrepp fjörutíu ára“. Þar segir m.a.:
“Á árinu 1946 var Hveragerðishreppur stofnaður með skiptingu úr Ölfushreppi. Dómsmálaráðuneytið gaf út tilskipun hinn 13. marz það ár þess efnis, að frá og með 1. janúar sama ár væri Hveragerði sjálfstætt sveitarfélag. Í framhaldi þessa var fyrsta hreppsnefnd hins nýja hrepps kjörin hinn 28. apríl, og kom hún saman til fyrsta fundarsins hinn 29. apríl. Hreppsnefndin var skipuð 5 fulltrúum.”
Í Sveitarstjórnarmálum 2016 segir af “Hveragerðisbæ 70 ára“:
“Byggðar við Varmá mun fyrst getið í Fitjaannál fyrir 1700 þar sem sagt er frá tilfærslu goshvers í jarðskjálfta árið 1597. Í lýsingum Hálfdáns Jónssonar, lögréttumanns á Reykjum um Ölfushrepp frá árinu 1703, kemur fram að fólk hafi nýtt hverahitann til þvotta, suðu matvæla og jafnvel baða á þeim tíma. Á fyrsta áratug 20. aldar var nokkuð um svonefnt þurrabúðarlíf eða býli án mjólkurframleiðslu við Varmá. Þessi fyrsta byggð tengdist ullarverksmiðju sem var byggð 1902 og drifin var af vatnshjóli og reimdrifi virkjunar sem byggð var við Reykjafoss. Ullarverksmiðja þessi starfaði fram til 1912 en var þá rifin að öðru leyti en því að grunnur hennar stendur enn. Fyrsta raunverulega byggðin sem um getur varð til um 1929 ef frá er talið þurrabúðarlífið í kringum Varmá. Á þeim grunni var Hveragerðishreppur stofnaður 1946 sem sjálfstætt sveitarfélag út úr Ölfusinu og hreppnum var síðan breytt í bæjarfélag 1987.”
Í Morgunblaðinu 1987 segir Sigurður Jónsson um Hveragerði: “Stöðug fjölgun íbúa síðastliðin 20 ár“:
“Hveragerði öðlaðist bœjarréttindi miðvikudaginn 1. júlí 1987, samkvæmt nýjum sveitarstjórnarlögum. Hveragerði varð sjálfstætt sveitarfélag 13. mars 1946. Íbúafjöldi í Hveragerði þann 1. desember 1986 var 1462. Íbúafjöldi í Hveragerði hefur aukist jafnt og þétt síðastliðin ár en 1970 bjuggu þar um 800 manns.
Upphaf byggðar í Hveragerði er rakin til þess að Ölfusingar stofnuðu með sér samvinnufélag um mjólkurbú sem reist var í Hveragerði. Mjólkurbúið lét gera drög að skipulagi og leigði mönnum lóðir. Vorið 1929 voru reist tvö íbúðarhús, Sigurður Sigurðarson búnaðarmálastjóri reisti hús sitt, Fagrahvamm, við Varmá þar sem er elsta gróðarstöðin í Hveragerði. Bóndi úr Ölfusi Guðmundur Gottskálksson reisti hús undir brekkunni og nefndi Varmahlíð og stendur það hús enn. Hann reisti sér þar hús til elliáranna en hann gekk ekki heill til skógar. Í árslok var fjölskylda Guðmundar, 5 manns, sú eina sem skráð var á manntal 1929.
Segja má að upphaf byggðarinnar sé táknrænt fyrir þá byggð sem þróaðist í Hveragerði annars vegar garðyrkjan og hins vegar áhugi að búa sér í haginn á þægilegum stað.
Garðyrkjan og gróðurhúsin hafa verið vaxtarbroddur Hveragerðis. Í kringum gróðurhúsin og blómaræktina hefur þróast mikill ferðamannastraumur sem nú er vaxandi atvinnugrein. Einnig er þjónusta í kringum dvalarheimili og heilsuhæli stór þáttur í atvinnulífinu. Þó undarlegt megi virðast var það ekki jarðhitinn sem laðaði menn að Hveragerði í fyrstu heldur fossinn í Varmá, Reykjafoss. Þar var reist ullarþvottastöð og vatn leitt úr fossinum til að knýja vélarnar. Grunnur stöðvarinnar sést ennþá, einnig stíflan í ánni og rústir fyrstu rafstöðvarinnar sem sett var upp austan fjalls, 1906. Í ullarþvottastöðinni var og greiðasala fyrir ferðamenn, fyrsti vísir þess sem koma skyldi.
Athafnasemin í kringum Reykjafoss stóð í 12 ár og var byggðin í kring alltaf kennd við fossinn. Hús Ullarþvottastöðvarinnar voru rifin 1915.
Meginatvinnuvegur í Hveragerði hefur ávallt verið garðyrkja. Gert er ráð fyrir að hlutfall garðyrkjunnar í atvinnulífinu sé nú 15%. Gróðurhúsin eru hituð upp með gufu sem fengin er frá hverasvæðinuí miðju bæjarins. Þar og í hverasvæðum í kring er gífurleg orka til staðar.
Þjónusta á heilsuhælum og við elliheimili er um 15% í atvinnulífinu en Hveragerðis hefur lengi verið getið í tengslum við náttúrulækningar og þjónustu elliheimilisins. Hlutur iðnaðar í atvinnulífinu er um 15%. Aðallega er um að ræða minni fyrirtæki. Eitt öflugasta og þekktasta iðnfyrirtækið er Kjörís sem verið hefur í stöðugum vexti undanfarin ár.
Opinber þjónusta hefur farið vaxandi í Hveragerði og staðurinn fyrir löngu orðinn þjónustubær. Hlutfall opinberrar þjónustu nemur 35% í atvinnulífinu og önnur þjónusta svo sem þjónusta við ferðamenn er um 20%. Ferðaþjónustan hefur vaxið gífurlega í Hveragerði og eru þar öflugir máttarstólpar, Eden, Tívolíið, Blómaborg, Hótel Ljósbrá og nú síðast Hótel Örk.
Hjá hinu nýja bæjarfélagi sem er í örum vexti eru mörg verkefni framundan. Það helsta er nýbygging við Grunnskólann sem hýsa mun alla starfsemi skólans. Gagnfræðaskólinn í Hveragerði hefur verið í leiguhúsnæði og mun nýja húsnæðið leysa mikinn vanda. Áformað er að koma skólanum í notkun fyrir haustið 1988. Hann á allur að geta hýst 500 nemendur í 10 bekkjardeildum.
Átak í gatnagerð er meðal þess sem framundan er. Gatnakerfið í Hveragerði er óvenju langt, rúmir 16 kílómetrar. Ástæða þess eru hverasvæðin og gróðurhúsabyggðin í bænum sem taka mikið landrými. Til samanburðar má nefna að í Þorlákshöfn er gatnakerfíð í kringum 8 kílómetrar. Búið er að leggja bundið slitlag á helming gatnanna í Hveragerði og verður ein gata tekin fyrir í sumar. Þá er verið að gera nýja knattspyrnuvöll í Reykjadal en uppgangur er í Hveragerði á íþróttasviðinu.”
Skáldagatan hefur aðdráttarafl
“Andans gata er til í Hveragerði og ber hún nafnið Frumskógar. Þar hafa margir andans menn átt heima, má þar nefna skáldin Jóhannes úr Kötlum, Kristmann Guðmundsson, Kristján frá Djúpalæk, sr. Helga Sveinsson, Gunnar Benediktsson og Ólaf Jóhann Sigurðsson.
Aðrir, sem búið hafa við götuna, eru Gunnlaugur Scheving listmálari og Ríkharður Jónsson átti þar sumarbústað. Þessi gata er gjarnan kölluð Skáldagata og hverfið listamannahverfi Hveragerðis. Í næstu götum bjuggu til dæmis Höskuldur Björnsson listmálari, Arni Björnsson tónskáld, Hannes Sigfússon og Kári Tryggvason. Einnig ólst Bergþóra Arnadóttir lagasmiður og söngkona upp í þessu hverfi.
Gatan hefur mikið aðdráttarafl og er snyrtileg. Gísli Sigurbjörnsson, forstjóri Grundar, hefur látið sér annt um viðhald húsa þar en Grund á velflest húsin við götuna.
Hópar, sem leið eiga um Hveragerði, vilja gjarnan fara um þessa götu og hópur kvenna kom þar við fyrir skömmu og gerði sérstaka kröfu um að sjá hús Kristmanns Guðmundssonar.”
Í Sunnudagsblaði Vísis 1942 skrifar Kristmann Guðmundsson um “Hveragerði, Sveitarþorpið, sem vísir til framtíðar hins nýja Íslands“:
“Einu sinni s.l. sumar gekk eg með miðaldra manni, útlendum, um Hveragerði. Hann var hugsjónamaður mikill, og hafði fest yndi við þetta land, sem er erlendu fólki oftast erfitt í fyrstu, sökum auðna og hrjósturs. „Í þessum fjallkrika”, sagði hann, „í þessu „alpvesi” er framtíð hins nýja Íslands að bruma.”
Hann hafði rétt fyrir sér. Hér í Hveragerði mun upp rísa fyrsta og mesta landhúnaðarborg Íslands. Og að fimmtíu árum liðnum mun hún ná alla leið til Þorlákshafnar, sem þá verður stærsta höfn landsins, og miðstöð allra viðskipta við útlönd; en óslitið þéttbýli nær þá yfir alla Rangárvallasýslu! Dagar hirðingjabúskapar á Íslandi munu senn taldir. Á næstunni munu tugir þúsunda af ungu fólki leita úr andstyggð borgarlífsins. og vígja líf sitt gróandanum, í tvennum skilningi! Vér höfum nú um skeið verið á bullandi „túr” í annarlegri kvikmyndamenningu, pólitískum grillum, búðarlokufínheitum, og öðrum óþverra sem hingað hefir skolast. Gleði- og menningarþorsti margra gáfaðra hirðingjakynslóða hefir farið með oss í allskonar gönur. Vér stigum úr móbíl miðaldanna, upp í nýtízku flugvél framtíðarinnar, og því engin furða þó á oss rynni, fyrst í stað. En vér höfum fyrr siglt krappan sjó, og náð þó höfn, heilir að mestu.
Svo mun enn verða. Eg sé ekki ástæðu til að bera kvíðboga fyrir framtíð íslenzks kyns, og íslenzkrar tungu, þó að nokkur þúsund erlendir hermenn dvelji hér með oss um hríð. Sú raun, sem vér nú þolum, er ekki meiri en það, að hún mun verða oss til blessunar, ef vér erum þeir menn, sem vér sjálfir höfum lengi gumað af. Og ef svo er ekki, ef vér erum lubbar og aumingjar, þá er ekki nema vel farið að vér hverfum í deiglu sköpunarinnar! En það er undir oss sjálfum komið, og því má enginn ábyrgur Íslendingur gleyma!
Eg vil leyfa mér að skjóta hér inn atriði, sem er ekki beinlínis tilheyrandi því efni sem þetta greinarkorn á að fjalla um. Ef menning vor þolir ekki þá þrekraun, sem sambúðin við erlent setulið, og allt sem stríðinu fylgir, hlýtur að hafa í för með sér, þá skulum vér að minnsta kosti ekki láta eftir oss þann lúalega ræfilsskap, að kenna kvenfólkinu um það! Ef piltar vorir hefðu ahnennt tamið sér prúðmennsku og siði hvítra manna, í stað allskonar hornrónaháttar, sem hér er landlægur, þá hefði vissulega aldrei þurft að skipa neina nefnd til viðreisnar íslenzku kvenfólki!
Nei, vinir góðir, skipið heldur nefndir sem vinna að því, að gera mönnum kleift að græða og rækta þetta óviðjafnanlega fagra land! Einblínið ekki á hættur og erfiðleika, skapið yður umfram allt ekki grýlur, málið ekki andskotann á vegginn! Segið við sjálfa yður hið sama og engillinn sagði við kerlinguna, sem horfði hugstola á ljá þá hina miklu, er hún skyldi raka:
„Horf þú ekki á ljá þína langa,
láttu heldur hrífuna ganga!”
Hér er yfrið nóg að vinna. Setjið þennan margumtalaða stríðsgróða í ræktun og uppbyggingu nýrra sveitabýlahverfa, fyrst ekki er hægt að kaupa fyrir hann skip! Stríðsgróðinn verður yður hvort sem er því aðeins til blessunar, að hann sé notaður í þjónustu gróðurs og lífs! Annars verður hann ólánið einbert! — Fylgið dæmi Hveragerðinga, og skapið ný verðmæti handa framtíðinni, fyrir það fé, sem berst yður í hendur sökum niðurrifs og eyðilegginga annarsstaðar í heiminum. Þá mun það aldrei svíða hendur yðar, og þér finnið aldrei af því þann þef blóðs og tára, sem við það er bundinn!
Hér í Hveragerði er handagangur í öskjunni. Eftir því sem eg kemst næst, á að byggja hér 25—30 gróðurhús á þessum vetri og 20 íbúðarhús. Illlendismóar, sem legið hafa gagnslitlir um þúsundir ára, eru rifnir sundur með traktorum, og úr þeim skal á sumri komanda vaxa lífsþróttur og hamingja til handa börnum þessa lands!
Jarðhitinn, sem allt fram að þessu hefir unnið óbundinn í þjónustu eyðingarinnar, er færður í fjötra og látinn mala gull og gæfu bornum og óbornum. Á hrjóstrum íslenzkra móa vaxa rósir og nytjajurtir, sem auka fegurðina og efla lífskraftinn. Þetta er að vinna í þjónustu lífsins, mínir elskanlegir, þetta er að byggja upp án hiks og æðru, hvað sem hrynur og brotnar í kringum mann. Í þessu starfi liggur einn af sterkustu þáttum framtíðar vorrar, heilla og hags. Í móðurfaðm náttúrunnar eigum vér að sækja endurnýjungu kraftarins, gleðinnar, ástarinnar, alls þess sem gerir oss heila og sterka, og veitir oss þrótt til að vinna bug á hverju því mótlæti sem oss er ætlað.
Lífskjör þjóðarinnar þurfa að komast sem fyrst í heilbrigðara horf. Vér erum bændaþjóð, en búskapur vor er orðinn á eftir tímanum, og vér flykktumst í kaupstaðina úr fátækt og fásinni sveitanna. Vér fórum þangað í gæfuleit; manneskjan er ávallt að leita að gæfu sinni. En grunur minn er sá, að almenningur íslenzkur finni ekki gæfu sína í borgum, og hvar er hennar þá að leita? Ætli hún sé ekki einmitt í sveitunum semvér yfirgáfum, í samstarfinu við hið skapandi líf, í hollu erfiði daganna og draumlausri hvíld næturinnar? Ef til vill er hún í því fólgin að sjá börn vor vaxa upp í félagsskap við jurtir og dýr, og sjá á andlitum þeirra hinn hreina svip heilbrigðinnar?
Mér hefir þótt það sérstaklega eftirtektarvert hvað fólkið hérna í Hveragerði er ánægt að sjá. Það á sér efalaust sínar sorgir, hjá því verður ekki komizt í henni veröld, en almennt séð, virðist vera meiri vellíðan hér en annarsstaðar, þar sem eg þekki til. Skyldi það ekki koma til af því, að menn eru hér í starfi sínu sifellt í nánu sambandi við móður Náttúru?
Hveragerði er ekki staður fyrir svokallaða „snobba”. Hér þrífst engin „buxnavasamenning”, eins og einn Hveragerðingur hefir komizt að orði. Hér er unnið, og unnið vel! Aðra eins blómgun í einu þorpi hefi eg aldrei séð. Þetta er góður staður fyrir skáld, sem vilja vera í stöðugu sambandi við hið lifandi líf! Enda eru nú skáld og aðrir listamenn sem óðast að flytja hingað búferlum, og vel sé þeim! Hér ríkir andi samstarfs og hjálpsemi; vér erum allir verkamenn í víngarði Drottins, og skiljum nauðsyn hvors annars. Þeir, sem ætla sér að okra á náunganum, eru hér illa séðir og munu aldrei þrífast. Enda höfum við ekki haft marga þesskyns fugla hérna. Sá eini, sem mér vitanlega hefir reynt það, komst skjótlega að því, að almenningsálitið var honum ekki hliðhollt!
Það eru ekki nema tólf ár síðan fyrsta býlið var reist í Hveragerði. Þá byggði Sigurður heitinn Sigurðsson búnaðarmálastjóri Fagrahvamm. Þar situr nú sonur hans, Ingimar, og er garðyrkjustöð hans hin stærsta innan þorpsins: fimmtán hundruð fermetrar undir gleri. Enn stærri garðyrkjustöðvar eru þó á Reykjabúinu, og í Gufudal. Pálmi Hannesson réktor hefir og snotra garðyrkjustöð í Reykjakoti, þar sem Menntaskólaselið er. Í Gufudal býr Guðjón Sigurðsson, mikill dugnaðarmaður; eru þar um álján hundruð fermetrar undir gleri, og hefir hann byggt það allt upp á fimm árum. Í Fagrahvammi er trjáræktarstöð blómleg, hjá Ingimar Sigurðssyni, og er mikil prýði að henni í þorpinu.
Auk þess, sem eg þegar hefi nefnt, eru 14 garðyrkjustöðvar í Hveragerði, og útlit fyrir að annað eins verði byggt á næstunni, eða meira. Þorpsbúar eru nú þegar á þriðja hundrað, en þeim mun fjölga talsvert á næstunni, því margir eru í þann veginn að flytja hingað.
Kaupfélag Árnesinga á grunninn sem þorpið stendur á, en það er almennur vilji Hvergerðinga að ríkið eignist staðinn, og heyrst hefir, að ekkert sé því til fyrirstöðu frá kaupfélagsins hendi. Væri það líka eðlilegast að svo yrði, og að lóðirnar fengjust á erfðafestu. Þá þyrfti einnig sem fyrst að leggja götur og ræsi, því að enn er frumbýlingsháttur á slíku.
Hverir og laugar eru nær óteljandi í Hveragerði. Mestir eru Bláhver, Bakkahver og Sandhólahver, en í kringum þá er allstórt svæði óbyggilegt, og hefir það verið afgirt. Goshverir eru nokkrir; þekktastur þeirra er Grýla, sem gýs 20—30 metra i loft upp, en henni miklu meiri er Svaði, er á það til að gjósa all stórkostlega. Hann er uppi í hlíðinni fyrir ofan og austan Varmá. Jarðhitinn er mjög mikill, og skorpan ofan á honum sumstaðar nokkuð þunn, að því er bezt séð verður. Hefir víða verið borað eftir gufu með jarðborum, og tekist vel. Jarðskjálftar eru tíðir en sjaldan verulegir, hverakippir svokallaðir. S.l. sumar voru þeir þó all snarpir og komu með stuttu millibili í nokkra daga.
Náttúrufegurð er mikil í Hveragerði. Úr þorpinu blasir við Ölfusið allt, og ósar Ölfusár, sést þar á sjó fram. Húsin standa skammt frá hlíðum Reykjafjalls, en fagur klettahjalli vestan við þorpið, og fyrir innan hann dalur grösugur og ljúfur.
Fram úr honum rennur Varmá, en við hana hefir verið byggð rafstöð sem lýsir upp þorpið. Foss er i ánni, fagur mjög, í sjálfu Hveragerði, og er mikil bæjarprýði að honum. Undir klettahjallanum, sem að ofan er nefndur, er falleg hlíð, vaxin víði og blágresi, og mun þar verða lystigarður þorpsins innan tíðar.
Í Hveragerði er barnaskóli, garðyrkjuskóli og kvennaskóli. Garðyrkjuskólinn er rekinn fyrir ríkisfé, í sambandi við Reykjabúið, og læra unglingarnir þar að yrkja og græða land sitt. Kvennaskólanum veitir forstöðu stofnandi hans og eigandi, Árný Filipusdóttir, sem mörgum er að góðu kunn, fyrir gestrisni, listfengi og fádæma dugnað í starfi sínu. Þá er í Hveragerði stærsta sundlaug landsins. Stjórnandi hennar er þjóðkunnur ágætismaður, Lárus Rist sundkennari.
Uppi í hlíðinni, undir Reykjafjalli á Jónas Jónsson frá Hriflu sumarbústað, ásamt fleiri góðum mönnum. Annar alþingismaður er nýbúinn að byggja sér hús í Hveragerði: Jóhannes úr Kötlum, sem er þjóðinni reyndar kunnari fyrir skáldskap sinn en þingmensku, að hvorutveggja ólöstuðu. Fleiri listamenn eru hér búsettir, og í ráði að enn nokkrir flytjist hingað, og er það vel. Einn dýrmætasti auður íslenzku þjóðarinnar eru listamenn hennar, og hefir aldrei verið meiri nauðsyn til að hlúa vel að þeim en nú. Og hér í Hveragerði myndi þeim líða vel, ef þeim væri gert kleift að eignast hér heimilL og lifa sæmilegu lífi. Vonandi þekkir nú þjóðin sinn vitjunartíma, og sér sóma sinn í því að reisa nú þegar þetta listamannahús, sem lengi hefir verið um talað! Því væri hvergi betur í sveit komið en í Hveragerði, og nú eru til nógir peningar að byggja það fyrir, svo hvað dvelur orminn langa? Er ekki sífellt verið að prédika í blöðum og útvarpi, að oft hafi verið þörf, en nú sé nauðsyn, að styðja og styrkja íslenzka menningu af fremsta megni, vernda málið, og útbreiða þekkinguna á landinu? Hverjir haldið þér að séu líklegastir til alls þessa? Hverjum eiga Íslendingar að þakka tungu sína og þjóðerni, og þar með líf sitt og tilveru? Hverjir hafa verið inn – og útverðir íslenzkrar menningar gegnum aldirnar? Hverjum er það að þakka að Íslendingar njóta þó nokkurrar virðingar meðal þjóðanna? Sérhver dómbær útlendingur myndi svara: Skáld, fræðimenn og listamenn! En farið þér nú að svara því sjálfir, mínir elskanlegir, og svarið því þannig, að yður sé heldur sómi að en skömm.
Það kveður nú við úr öllum áttum, að nú séu myrkir tímar og kvíðvænlegir, og er það ekki of sagt. En „él eitt mun vera”, eins og Njáll gamli á Bergþórshvoli sagði. Aftur mun Birta, og vér fáum að sjá „upp rísa, öðru sinni, jörð úr ægi iðjagræna”. En á þeirri jörð mun Hveragerðis oft verða að góðu getið, því að hér er framtíð hins nýja Íslands að rísa úr grasi.”
Heimildir:
-Sveitarstjórnarmál. 2. tbl. 01.04.1986, Hveragerðishreppur fjörutíu ára – Karl Guðmundsson, bls. 66.
-Sveitarstjórnarmál, 5. tbl. 01.09.2016, Hveragerðisbær 70 ára, bls. 8.
-Morgunblaðið, 145. tbl. 01.07.1987, Stöðug fjölgun íbúa síðastliðin 20 ár, bls. 26.
-Vísir Sunnudagsblað, 8. blað 12.04.1942, Hveragerði, Sveitarþorpið, sem vísir til framtíðar hins nýja Íslands – Kristmann Guðmundsson, bls. 1-3.
–https://www.facebook.com/HveragerdiSightseeing/photos/