Herdísarvík

Siglt var um Herdísarvíkurtjörn.
Í þjóðsögunni um Krýs og Herdísi segir m.a. um tjörnina: “
Lagði þá Herd-301Krýs það á Herdísi, að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aptur full af loðsilungi, sumir segja Öfugugga. En Herdís lagði það aptur á Krýs, að allur silúngur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Af ummælum þeirra er það að segja, að í veiðivötnum Krýsuvíkur hefir einginn silungur feingizt, svo menn viti, nokkurn tíma síðan, en fult er þar af hornsílum, og í Herdísarvíkurtjörn hefir ekki heldur orðið silungs vart; en loðsilungar ætla menn bar bafi verið, þótt ekki sé þess getið, að neinn hafi af því bana beðið. Aptur var það einn vetur eptir þetta, er sjómenn geingu til sjávar snemma morguns frá Herdísarvík, en skemst leið er að gánga til sjávar þaðan yfir tjörnina, þegar hún liggur, að þeir fórust allir í tjörninni ofan um hestís, og segja menn þeir hafi verið 24 að tölu.”
Herd-302Í Lesbók Morgunblaðsins 1951 segir m.a. um silung í Herdísarvíkurtjörn: “Árið 1861 var silungur fluttur úr Hlíðarvatni í Ölfusi í tjörnina hjá Herdísarvík. Silungarnir voru fluttir í opnu íláti og tókst það svo vel, að eftir 5 ár fór silungur að veiðast í tjörninni og hefir veiðst þar meira og minna á hverju ári síðan.”
Ólafur Þorvaldsson lýsir Herdísarvíkurtjörn í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-1948: “Jörðin Herdísarvík er vestasti bær í Selvogshreppi og þar með vestasti bær í Árnessýslu með sjó fram. Jörðin liggur fyrir botni samnefndrar víkur, og er hún vestast í vogi þeim, er Selvogur heitir, allvíður og bogamyndaður, gengur inn í landið frá suðri. Takmörk hans eru: Selvogstangar að austan, en Olnbogi, austan Háabergs í Herdísarvíkurlandi, að vestan. Tún jarðarinnar er í suðurjaðri Herdísarvíkurhrauns, hólótt og dældótt, jarðvegur grunnur því að víðast er grunnt á hrauni. Með beztu umhirðu gefur túnið (heimatúnið) af sér um tvö kýrfóður, ca 80 hesta.

Herd-303

Fyrir öllu túninu að sunnan er smátjörn, og er dálítil silungsveiði í henni, fáu fólki til smekkbætis og nokkurra búdrýginda, en skynsamlega verður að fara að þeirri ve;ði, ef ekki á að uppræta stofninn, þar sem líka utanaðkomandi, óviðráðanleg atvik geta stórfækkað silungnum á nokkrum klukkutímum, og er það þegar stórflóð koma í tjörnina af völdum stórviðra af hafi, en þeim fylgir þá ævinlega stórbrim. Annars er saga Herdísarvíkursilungsins þannig: Fyrir um sjötíu árum lét Árni Gíslason, fyrrv. sýslumaður í Skaftafellssýslum, sem þá bjó í Krýsuvík og átti báðar jarðirnar, flytja um eða innan við 100 silunga, fullþroskaða, sem hann fékk úr Hlíðarvatni, út í Herdísarvíkurtjörn.
Voru þeir bornir í bala og Herd-304fötum með vatni í. Flestir munu þessir silungar hafa komizt lifandi í tjörnina, og kona, sem þá var unglingur í Herdísarvík, sagði þeim, er þetta ritar, að morguninn eftir hefðu nokkrir silungar legið dauðir við landið, þar sem þeim var sleppt í tjörnina, en hinir verið horfnir út í vatnið. Eftir nokkur ár fór að veiðast þarna við og við silungur til matar fyrir heimafólk. Þegar fram liðu stundir, kom í ljós, að þarna náði silungurinn miklu meiri þroska en hann nær yfirleitt í Hlíðarvatni, og mun aðalorsök þess vera meira og betra æti, t. d. er þar um mikla marfló að ræða, svo og mikinn botngróður.
Spölkorn fyrir austan túnið var áður fyrr hjáleiga, Herdísarvíkurgerði, og sjást nú íáar minjar þess, að þar hafi bær verið, en tún er þar nokkurt enn; þó hefur sjór brotið eitthvað af því. Tún þetta mun aðallega hafa gróið upp undan sjófangi; fiskur borinn þangað upp til skipta, kasaður þar áður en upp var borinn til herzlu; þorskhöfuð og hryggir þurrkaðir þar, og öðrum fiskúrgangi kastað þar út, — en undan honum grær jörð fljótast.

Herd-305

Útræði var mikið úr Herdísarvík og hafði verið öldum saman, og var talið með beztu verstöðvum austanfjalls, og við og við var gert út þaðan fram á þriðja tug tuttugustu aldar. Fiskisælt var þar í bezta lagi og lending góð; þó var oft nokkur lá í bótinni, þar sem lent var, þótt útsjór væri allgóður. Fiskurinn var yfirleitt hertur til útflutnings, og má enn sjá þurrkgarða á allstóru svæði í brunabelti uppi undir fjalli. Var fiskurinn, eftir að hafa legið í kös, jafnvel í fleiri vikur, borinn á bakinu eða í laupum eða kláfum til þurrkgarða. Þetta, að kasa fisk undir herzlu, var talsvert vandaverk, enda formenn vandlátir þar um, því að ef illa var gert, gat meira eða minna af fiski, sem í kösinni var, stórskemmzt, en þetta er önnur saga og því ekki sögð nánar hér.

Herd-306

Landi í Herdísarvík má skipta í tvennt, er lýsa á. Fjallinu með sínu upplandi og landi neðan fjalls. Neðan fjalls er landið allt brunnið, — hraun eldri og yngri. Eldri hraunin mikið gróin og fjárbeit þar með ágætum. Fjallið er allt að kalla skriðurunnið hið neðra, en háir og fagrir hamrar hið efra. Þó eru nokkrar grónar brekkur í fjallinu vestanverðu, og er þar dálítið viðarkjarr. Fjallið má teljast allt jafnhátt og brúnir þess sléttar og reglulegar.
Hlunnindi Herdísarvíkur voru talin: Sauðfjárbeit góð, svo að af bar, bæði til fjalls og fjöru. Útræði ágætt, og er þá aðallega átt við góða lendingu og fiskisæld. Viðarreki var, þegar reka-ár komu, oft allmikill, og nú, um síðastliðin 50—60 ár, silungsveiði til skemmtunar og nokkuð til búdrýginda.
Fiski og hrognkelsum skolaði þar stundum á land til muna seinni part vetrar, þegar fiskur Herd-307var í göngu. Flæðihætta við sjó engin fyrir sauðfé, og er það mjög mikill kostur, þar sem fé gekk svo mikið sjálfala allan ársins hring. Fjöruskjögur í unglömbum þekktist ekki, og mun þar um valda, að fjaran er ekki mjög sölt sökum vatna, sem um hana renna, — en sér í lagi þó kjarnamikill gróður til landsins, strax upp frá fjörunni, og í þriðja lagi mætti nefna, að fjörubeitin er fyrir það mesta bitfjara, en ekki rekafjara. Til galla má helzt telja, að mjög sterk veður af norðri koma þar stundum, og kom fyrir, að skaði hlytist af, ef hey voru á túnum, og máttu búendur illa við, þar eð heyskapur er enginn utan túns, en þau heldur lítil.”
Nú hefur sjórinn rofið eiðið sem aðskildi tjörnina frá opnu hafinu og náð að nánast þurrka út bæði gamla bæjarstæðið og útihúsin (smiðjuna og geymsluna) er stöðu þeim næst.
Tilgangurinn með ferðinni var að mæla dýpið í Herdísarvíkurtjörninni. Háflóð var. Dýpið mældist 2.5 m næst landi og 3.5 m fjær, en tjörnin grynntist síðan eftir því sem nær rifinu dró. Á stuttum köflum náði dýpið allt að 7 metrum, en þar eru sennilega gjár undir. Talsverð lóðning var af fiski í tjörninni.
Frábært veður. Ferðin tók 1 klst og 1 mín.

Heimild:
-Íslenskar þjóðsögur og æfintýri, Jón Árnason, 1862, 1. b. bls. 476-477.
-Lesbók Morgunblaðsins, 18. nóvember 1951, bls. 548.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Ólafur Þorvaldsson, Herdísarvík,  49. árg. 1943-1948, bls. 129-130.

Herdísarvík

Herdísarvíkurtjörn.