Draugshellir

Samþykki jarðeigenda hafði fengist til að opna Draugshellinn í Litlalandslandi í Ölfusi. Hellirinn var lokaður fyrir allnokkru síðan (sennilega um 1960) til að varna fé inngöngu. Þá tapaðist vitneskjan um opið. Draugasaga er kennd við hellinn og hann því vel þjóðsagnarkenndur. Um Draugshelli er skráð saga í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, útg. 1955, um pilt sem lézt þar fyrir 200 árum. Hann var jarðsettur að Hjallakirkju, en þoldi ekki við í jörðu, gekk því aftur, settist að í hellinum og gerði ferðamönnum glettingar.

Draugshellir

Bóndinn á Litlalandi við hellisopið.

Nú var ætlunin að reyna að finna opið og þar með hellinn. Þátttakendur mættu með stunguskólfur við Litlaland í birtingu. Byrjað var á því að bera saman gögn og munnmæli og bera hvorutveggja saman við landshætti
Í örnefnalýsingu fyrir Litlaland frá 17. nóv. 1968 eftir Eirík Einarsson, segir m.a.: “Sunnan undir honum (Litlalandsáss) er Draugshellir, lítill hraunhellir í mörkum Litlalands og Breiðabólsstaðar…”.
Í annarri örnefnaskrá fyrir Litlaland í Ölfusi segir m.a. um Draugshelli:
“Rétt ofan við Vörðuás, við markagirðinguna milli Breiðabólsstaðar og Litlalands, er lítill hóll og í honum lítill hellir, sem heitir Draugshellir.”
Þegar framangreind möguleg misvísun var borin undir heimamann kom í ljós að Litlalandsháls er múlinn eða ásinn ofan við hól þann, sem Draugshellir átti að vera við. Syðst í ásnum eru Rifjabrekkur. Allt virtist því koma heim og saman við fyrirliggjandi lýsingar.

Draugshellir

Grafið í Draugshelli.

Heimamaðurinn fylgdi þátttakendum á vettvang. Benti hann á stað í túninu, vestan hólsins, og sagði hon gömlu landamerki hafa legið úr vörðu sunnar í Leitarhrauni með línu í klofa í hlíðinni norðnorðaustan við bæinn. Vel mátti greina hin gömlu gróðurmörk því eldri girðing virðist hafa verið í línunni, skammt vestan núverandi girðingar. Þá benti hann á að fyrir ári síðan hafi op opnast í túninu á tilgreindum stað og vatn lekið þar niður. Hafi bóndinn fyllt upp í það með tveimur dráttarvélaskólfum.
Gróið hafði yfir það. Staðurinn var vestan við tilnefndan hól á landamörkunum, sem fyrr segir.
Hafist var handa við mokstur. Þátttakendur unnu kappsamlega og ekki leið á löngu að sjá mátti niður um opið. Skurður var stækkaður og lengdur og grafið var með stefnu á miðju jarðar. Eftir að hafa grafið mannhæðardjúpa holu og rúmlega það, opnaðist hellirinn. Hreinsað var frá opinu og við blasti hinn fallegasti fjárhellir, litlu minni en t.d. Bjargarhellir eða Strandarhellir. Einn þátttakenda skreið inn og skoðaði sig um. Mikil mold hefur runnið niður í hellinn á löngum tíma, en svona til að undirstrika að mannvistarleifar væri að finna í honum, skein ljósið á bein á moldinni í miðjum hellinum. Það var látið óhreift.

Draugshellir

Opið.

Ljóst er að mikil vinna verður að hreinsa moldina úr hellinum. Grafið var spölkorn áfram niður framan við opið, en ljóst er að þar er enn talsvert niður á fast. Hér getur því orðið um þarft verkefni fyrir vinnuskólabörn í Ölfushreppi að vinna á sumri komanda. Þá þurfa fornleifafræðingar að líta þarna við og skoða fyrirbærið, því til hliðar við innganginn, í moldinni virðist votta fyrir hleðslum.
Draugshellir er fundinn. FERLIRsfélagar voru ánægðir með ágætt dagsverk. Samráð verður haft við landeigandann um frágang við hellisopið.
Þjóðsagan er um Björn Jónsson í Haga. “Eitt sumar sem ofar ferðaðist Björn um lestatímann til skreiðarkaupa suður í Garð. Venjulegur áfangastaður ferðamann var þá eins og enn viðgengst á svokölluðum Rifjabrekkum millum Breiðabólstaðar og Litlalands í Ölvesi. Þótti mörgum illt þar að vera vegna draugs þess er oft gjörði ferðamönnum er á brekkunum lágu usla og ónáðir og hélt sig í helli þeim er síðan er við hann kenndur og kallaður Draugshellir. Reif hann og tætti sundur tjöld og fans fyrir sumum, en fældi hesta og jafnvel drap fyrir sumum. En ekki er þess getið að hann réðist á menn, en marga dreymdi þar illa í tjöldum sínum, en enginn var sá er vogaði að leggjast í hellirinn þótt tjaldlaus væri. Björn var við annan mann; voru þeir tjaldlausir, taka nú af hestum og bera saman farangur nærri hellinum draugsins. Þetta var að áliðnum degi. Regn var mikið. Förunautur Björns spyr þá hvursu hann hugði þeim um umbúnað, kvað það eitt tiltækilegt að þeir gjörðu sér skýli í farangrinum til að sofa í. Björn kvað þá í hellinum mundu taka á sig náðir. Förunautur hans var þess allófús, en kvaðst þó hans forsjá hlíta mundu. “Bessaleyfi hér á híbýlum,” segir Björn. Ganga þeri síðan í hellirinn, búast þar um, tóku að snæða og lögðust til svefns. Var nú allt kyrrt. Lagsmaður hans sofnar skjótt, Björn vakir og verður var við er draugsi kom inn og litast um eins og hann undrist dirfsku komumanna er leyfðu sér að taka á sig náðir í hans híbýlum leyfislaust, en var annars óvanur að mæta þar gestum. Draugurinn ræðst síðan að förunaut hans og ætlar að kyrkja hann.

Draugshellir

Draugshellir.

Björn stóð þá upp, hratt draugnum frá og tók manninn í fang sér og bar hann út og lagði hann niður undir farangur þeirra, vakti hann því næst og bað hann gæta hesta þeirra, kvað drauginn hafa fælt þá í burtu, “en ég mun,” segir hann, “fara að hitta betur húsbóndann fyrst hann gat ekki setið á sér við oss með eljarglettingar sínar.”
Björn fer að hitta aftur drauginn, spyr hann hvurnig á honum standi og því hann hafðist við hér við í helli þessum. Draugur svarar: “Sagt get ég þér sögu mína. Ég var ungur maður og þótti heldur ódæll. Ég átti heima austur í Fljótshlíð; var ég sendur suður í Njarðvíkur í skreiðarferð og sýktist á heimleiðinni og lagðist fyrir í helli þessum og dó á þriðja degi og fundu menn mig hér nokkru síðar. Var ég fluttur að Hjallakirkju og grafinn þar, en ég þoldi ekki í jörðu og gekk aftur og vitjaði hellis míns. Hefi ég síðan hér verið og gjört ferðamönnum ýmsar óspektir um átta ár.” Björn spyr hvursu lengi hann ætli framvegis hér að verða. Draugur svarar: “Tuttugu ár og mun ég jafnan fara versnandi.”. “Fyrst þú fórst að gjöra mér glettingar skal ég vísa þér á bug héðan,” segir Björn. “Hellir er í Hengilshömrum, þangað stefni ég þér. Skaltu þaðan aldrei út fara né nokkurn mein gjöra.” Draugnum brá svo við að hann hljóp í skyndi út og tók á rás upp á fjall. Hefur síðan aldrei orðið vart við reimleik á Rifjabrekkum.”

Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar, III. bindi, bls. 592-593.

Draugshellir

Í Draugshelli.