Færslur

Draugshellir

Leitað var Valahnjúkshellis, en gamlar sagnir eru um mikinn draugagang í hellinum. Eftir að mikið timbur rak á Valahnjúksmalir á 18. öld voru vinnumenn Kirkjuvogsbónda við sögunarvinnu á mölunum. Þeir hlóðu byrgi og tjölduðu á mölunum.

Valahnúkar

Tröll á Valahnúkum.

Sagan segir að einn sögunarmanna hafi fundið þurran og rúmgóðan helli uppi í hnúknum og hafi þeir flutt sitt hafurtask þangað. Fyrsta kvöldið, eftir að hafa farið með bænir og sygnt sig, sofnuðu þeir, en vöknuðu fljótlega aftur við lætin í hundunum og raddir ósýnilegra manna. Kvað svo rammt að þessu að þeir urðu að flýja út í sunnanbálið, sem þá geisaði. Nokkru seinna komu tveir menn til sögunarvinnu frá Kirkjuvogi, en vildu ekki, þrátt fyrir beiðni heimamanna, að taka með sér tjald, því þeir höfðu ákveðið að gista í hellinum. Um nóttina kom annar mannanna aðframkominn heim að Kirkjuvogi.
Félaga hans var leitað og fannst hann á reiki um hraunssandinn. Aldrei fékkst upp úr þeim hvað gerðist í hellinum um nóttina. Hellirinn sést ekki nema þegar komið er alveg að opinu.

Valahnúkur

Valahnúkur – Draugahellir.

Skoðaður var upphlaðinn stígur, sem liggur frá Bæjarfelli að Valahnjúkum.
Hellisskútinn uppi í austanverðum Valahnúk er ekki verri Draugahellir en hver annar. A.m.k. fékkst hundkvikindi, sem var með í för, ekki til þess að fara þangað inn ótilneytt. Hafi hellirinn verið sunnan í hnúknum er hann löngu horfinn því aldan sverfur stöðugt af honum framanverðum.
Undir austanverðum Valahnúk má sjá sjá hleðslu undan búðum. Hún gæti hafa verið gerð þegar fyrsti vitinn á Íslandi var reistur á Valahnúk 1878. Leifar vitans liggja nú neðan og norðan við hnúkinn.

Reykjanes

Reykjanes – sundlaug.

Þá var skoðuð gamla hlaðna sundlaugin, sem Grindavíkurbörn lærðu að synda í um og eftir 1930.
Frábært veður.

Reykjanes

Við Reykjanesvita – uppdráttur ÓSÁ.

Reykjanes

Gengið var um suðvestanvert Bæjarfellið sunnan Vatnsfells á Reykjanesi og litið í fallegan brunn er hlaðinn er úr “betons”grjóti upp á dönsku.

Skálafell

Áletrun við Skálabarmshelli.

Hann er sérstakur að því leyti að gengið er inn í hann til að sækja vatn, en ekki bara horft ofan í vatnsaugað eins og algengara var. Segja má að þessi brunnur hafi verið forveri fölmargra annarra er á eftir komu víðar um Reykjanesskagann. Brunnurinn var byggður á sama tíma og (gamla) vitavarðarhúsið, þ.e. þegar fyrsti vitinn hér á landi var reistur á Valahnúk (1879). Næstu brunnar voru grafnir og hlaðnir við helstu kirkjustaðina og síðan við hvern bæinn á eftir öðrum. Flesta þeirra má sjá enn þann dag í dag. Þeir voru reyndar sumir fylltir eða fyrirbyggðir eftir miðja 20. öldina þegar vatnsleiðslur höfðu verið lagðar í hús svæðisfólksins, en enn má berja marga þeirra augum.

Reykjanes

Reykjanes – brunnur.

Tóftir fyrrum útihúsa fyrrum vitavarðar á ystu mörkum Reykjanessins eru skammt frá brunninum. Vitinn sjálfur var hlaðinn úr tilhöggnu grjóti þarna skammt frá, sem dregið var upp á Valahnúk og raðað þar vandlega saman eftir fínni teikningu. Mannvirkið átti að standa um aldur og ævi, en 8 eða 9 árum seinna gerði mikla jarðskjálfta og mynduðust þá þrjár stórar sprungur í bergið skammt frá honum. Bær vitavarðarins skemmdist í jarðskjálftunum og enn meira rask varð á jörðu og öðrum mannvirkjum. Var annar viti byggður á Vatnsfelli (Grasfelli), síðar nefnt Bæjarfell, þar sem hann er nú, á árunum 1907-1908.

Reykjanes

Reykjanesviti á Vatnsfelli.

Skammt undan landi trónar 52 m hár móbergsdrangur úr sjó. Heitir sá Karl. Sjá má þverhnípta klettaeyju (77 m.y.s.) 8 sjómílur utan af Reykjanesi. Eldey er mynduð úr móbergi og er 0,03 km2. Hún er innsta skerið í skerjaklasa miklum. Annað sker, Geirfuglasker, er skammt undan. Þar voru síðustu höfuðstöðvar geirfuglsins, Sothbysuppboðsvæna, en skerið sökk að mestu í eldsumbrotunum 1830. Í Eldey er mesta súlubyggð sem þekkist í heiminum og er eyjan jafnan þakin súlum. Súludans er þar algengur, einkum fyrir varptímann. Við talningu, sem gerð var 1949, var fjöldi súlna þar talin um 70 þúsund.

Reykjanesviti

Flóruð gata milli vitavarðarhússins og Valahnúks, áleiðis að gamla vitanum.

Fuglinn hefur hins vegar ekki verið talinn þar á síðari árum, a.m.k. ekki fugl fyrir fugl. Drangarnir voru baðaðir sól.

Gengið var eftir flóraðri “vitagötunni” að Valahnúk. Undir honum má sjá leifar af vitanum, fast við grjóthlaðið hesthús. Gengið var á Valahnúk, skoðað gerðið, sem áður stóð neðan og til hliðar við gamla vitann. Gott útsýni yfir umhverfið (tækifærið notað og uppdráttur gerður af svæðinu). Hægur andvari var og 8 gráðu hiti. Gengið með austanverðum Valahnúk og litið upp í draugahellir þann er svo rammlega er fjallað um í Rauðskinnu. Þeir, sem þar gistu að næturlagi eftir rekasögun, eru sagðir aldrei hafa orðið samir á eftir – sjá meira HÉR.
Frá hellinum var gengið austur yfir að gamalli volgrusundlaug Grindvíkinga í Valbjargargjá (Saga Grindavíkur). Elstu núlifandi grindjánar (innfæddir) lærðu sína sundfimi í þessari laug – syntu bakka á millum. Hún er hlaðin utan um vermslagjá og þótti allvelboðleg á þeim tíma. Laugin er innan túngarðs.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Lagt var á misgengið eftir að hafa litið á hlaðið skjól refaskyttu neðan við Keldutjarnir. Olíuskipið Clam strandaði undan ströndinni skammt austan við hamravegginn 28. febr. 1950, á stað, sem nefndur var Kirkjuvogsbás (Suður með sjó – leiðsögn um Suðurnes). Það var um tíu þúsund smálesta olíuskip með 54 manna áhöfn. Tuttugu og sjö úr áhöfninni, bretar og kínverjar, drukknuðu, en öðrum var bjargað.
Gengið var austur með ströndinni að Blásíðubás. Básinn er í senn bæði falleg og hrikaleg Ægissmíð (sjá mynd í Grindavíkurbókinni). Í fárvirði 24. mars 1916 hleypti Einar Einarsson frá Merki í Staðarhverfi, þar upp skipi sínu. Áhöfnin, 11 manns, bjargaðist, en skipið brotnaði í spón. Oftar mun básinn hafa bjargað sjómönnum í vanda.

Reykjanes

Reykjanesviti á Reykjanesi. Bæjarfell t.v., Vatnsfell t.h. og Valahnúkar framundan. Eldey við sjóndeildarhringinn.

Áð var við vitann (byggður 1970 – áletrun), sem þar er á bjargbrúninni. Skammt austan við hann er fallegur gatklettur undan bjarginu.

Allt er svæðið þarna mjög eldbrunnið og sundurskorið af gjám, enda snautt að gróðri, nema ef vera skyldi ofanvert Krossavíkur- og Hrafnkelsstaðabergið (borgin). Gamlar sagnir segja frá byggð þar fyrrum, en lítið hefur fundist af minjum. Ætlunin var að nota tækifærið og gaumgæfa það vel að þessu sinni, en engar slíkar fundust. Hins vegar fundust þrjú merkt greni (vörður).

Reykjanes

Reykjanes – Skálafell.

Eldfjöll eru þarna mörg, en öll fremur lág. Þau eru einkum hraundyngjur, s.s. Skálafellið og Háleyjarbungan. Komið var við á hinu fyrrnefna og lóðrétt hellisopið var barið augum (BH-Hraunhellar á Íslandi). Á klöpp nálægt opinu er gömul áletrun í berginu (?RELDA). Forvitnilegt væri að grennslast meira fyrir um þetta.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Á Reykjanestánni er mikið hverasvæði, leirhverir og vatnshverir. Allt er landið þar sundurtætt af jarðeldum, gígum, leirpyttum, gufuhverum o.fl. Stærsti leirhverinn heitir Gunna. Um þann hver er til sú þjóðsaga að kona ein, sem Guðrún hét, hafi gengið aftur. Lék hún menn grátt, reið húsum og fældi fénað. Loks var galdraprestur nokkur fenginn til koma draugnum fyrir og gerði hann það í hver, sem síðan var nefnd Gunna. Við hverasvæðið eru gamlar minjar búsetu og byggðar. Þar er einnig mikið kríuvarp, en fuglinn sá kemur ekki á varpstað fyrr en líða tekur á þriðjungsbyrjun maímánaðar.

Gangan tók 1 og 1/2 klst. Frábært veður.

Reykjanesviti

Skjöldur konungs á Reykjanesvita.

Reykjanesviti

Gengið var frá vitanum á Vatnsfelli á Reykjanesi, með ströndinni og yfir að Litlavita á Skarfasetri, austar á bjarginu, nokkru austan Valahnúks. Vitinn á Vatnsfelli, sem margir telja að heiti Bæjarfell, var tekinn í notkun árið 1908. Nafnið á fellinu er tilkomið vegna lítilla tjarna norðan við hæðina. Vitavarðahúsið stóð hins vegar upp af Bæjarfelli, utan í Vatnsfellinu, þar sem það stendur enn.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – gata að gamla Reykjanesvita á Valahnúk.

Genginn var gamall flóraður stígur, sem er nokkuð greinilegur og liggur frá Bæjarfelli að Valahnúk. Þessi stígur var notaður af vitaverðinum þegar vitja þurfti gamla vitans. Gamli vitinn á Valahnúk var fyrsti ljósvitinn á Íslandi og reistur árið 1878. Hann var ekki mjög lengi í notkun því árið 1887 urðu miklir jarðskjálftar á þessu svæði og hrundi þá mikið úr fjallinu og óttaðist fólk að vitinn hyrfi í hafið. Því var hætt að nota hann og vitinn á Vatnsfelli byggður.

Uppi á Valahnúk má enn sjá hleðslu úr grunninum af gamla vitanum (undir fjallinu liggja brotin úr gamla vitanum og bíða þess að verða raðað upp á ný). Fara þarf varlega þegar upp er komið, því brúnirnar eru mjög sprungnar og lausar undir fæti. Þaðan er víðsýnt til allra átta.
Í fjarska trjónir Eldey, 77 metra hár þverhníptur klettastapi. Þar er ein stærsta súlubyggð sem þekkist í heiminum (talning 1949) og þar er talið að geirfuglar hafi verpt fyrrum. Eldey var friðlýst árið 1974. Nú er hún sennilega önnur eða þriðja stærsta súlubyggð í heimi.
Karlinn, virðulegur klettadrangur, stendur rétt utan við ströndina, hann er hluti af gömlum gígbarmi, líkt og Eldey, en Kerlingin, sem var þarna skammt vestar, er nú komin undir sjó. Bæði Karlinn og Kerlingin eru leifar gíga úr sitt hvorri Stampagosgígaröðinni, en þær eru fjórar talsins frá mismunandi tímum. Raðirnar eru dæmigerðar fyrir gígaraðirnar á Reykjaneshryggnum (blunda í 1000 ár en eru jafnan virkar í Önnur 300).
Þegar gengið er niður af Valahnúk er gengið með ströndinni til suðurs meðfram Valahnúkamöl sem er mjög sérstakur sjávarkambur með stóru sæbörðu grjóti. Árið 1950 strandaði breska olíuskipið Clam við Reykjanes og rak upp í Valahnúkamöl, þá drukknuðu 27 menn en 23 var bjargað með fluglínu.

Draugshellir

Draugshellir í Valahnúk.

Uppi á austanverðum Valahnúk er Draugsskúti, en tvennar frásagnir eru til af draugagangi þar er menn ætluðu að gista í honum. Kvað svo rammt af draugagangnum að lá við sturlun þeim er hlut áttu að máli. Um þetta eru skráðar sagnir í Rauðskinnu.
Nafnið má ætla að sé dregið af valabjörgum, en það var áður haft um Valahnúka. Valahnúkamöl lokar dalnum að vestan en Valabjargargjá að austan. Stórgrýttur sjávarkamburinn hindrar að úthafsaldan nái inn í dalinn, en sjór egngur þó langt á land eftri sprungum í hraununum. Þar kemur hann inn á jarðhitasvæði og hitnar. Það gerði möguleika laugarinnar, sem síðar verður minnst á, að veruleika.
Frá Valahnúkamöl er gengið með ströndinni til suðurs, á þeirri leið er gaman að virða fyrir sér þær hraunmyndanir sem ber fyrir augu og gera sér í hugarlund hvers konar ógnaröfl hafa verið þar að verki. Gengið er fram hjá fjölbreyttum básum þar sem brimið ólgar og svellur, sérstaklega er það tilkomumikið í þröngum bás, Blásíðubás, rétt áður en komið er að vitanum. Inn í hann eru nokkur dæmi um að sjófarendur hafi ratað lífsróður í sjávarháska.
Stefnan er tekin á litla vitann á Skarfasetri, hann var byggður sem aukaviti árið 1909 og endurgerður árið 1914 og síðast endurgerður árið 1947. Ástæðan fyrir byggingu hans var að nýji vitinn á Bæjarfelli hvarf á bak við Skálafell þegar siglt var frá suðaustri. Hann kom því ekki að notum fyrir skip sem komu að austan. Einnig liggur oft þoka yfir Bæjarfelli þannig að Reykjanesviti sést ekki. Fyrsti vitinn á Skarfasetri gekk fyrir gasi og var einn fyrsti sjálfvirki vitinn við Íslandsstrendur.

ReykjanesvitiUndir berginu skammt austan við vitann er fallegur gatklettur.
Þegar gengið er til baka er gott að ganga upp með Skálafelli og líta ofan í Skálabarnshelli eða bara ganga sömu leið til baka.

Reykjanes

Reykjanes – sundlaug.

Þegar komið er að Valahnúkamöl er gott að taka stefnuna yfir túnið að Bæjarfelli. Á þeirri leið má finna litla tjörn/gjá, sem er að mestu náttúrusmíð, og er örlítið hlýrri en sjórinn. Sést móta fyrir hleðslum bæði við gjána og einnig ofan í henni líkt og hlaðnir hafi verið veggir og tröppur niður í hana. Í þessari tjörn fengu börn úr Grindavík tilsögn í sundi um og eftir 1930. Þaðan er stutt upp á veg og þar með hringnum lokað.
Undir Bæjarfelli eru tóftir útihúsa frá bæ gamla vitavarðarins sem og hlaðinn brunnur, er gerður var á sama tíma og vitinn á Valahnúk 1878. Umhverfis eru hlaðnir garðar frá búskap vitavarða, en vestan við Valahnúk má enn sjá hlaðinn veg upp úr fjörunni, en eftir honum var grjóti í elsta vitann og íbúðarhúsið ekið úr hraunhellunni, sem þar er.
Meira um nágrenni Reykjanesvita HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild m.a.:
-Árbók FÍ 1984 – séra Gísli Brynjólfsson.

Reykjanes

Reykjanesviti – hliðarstólpar.

 

Draugshellir

Samþykki jarðeigenda hafði fengist til að opna Draugshellinn í Litlalandslandi í Ölfusi. Hellirinn var lokaður fyrir allnokkru síðan (sennilega um 1960) til að varna fé inngöngu. Þá tapaðist vitneskjan um opið. Draugasaga er kennd við hellinn og hann því vel þjóðsagnarkenndur. Um Draugshelli er skráð saga í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, útg. 1955, um pilt sem lézt þar fyrir 200 árum. Hann var jarðsettur að Hjallakirkju, en þoldi ekki við í jörðu, gekk því aftur, settist að í hellinum og gerði ferðamönnum glettingar.

Draugshellir

Bóndinn á Litlalandi við hellisopið.

Nú var ætlunin að reyna að finna opið og þar með hellinn. Þátttakendur mættu með stunguskólfur við Litlaland í birtingu. Byrjað var á því að bera saman gögn og munnmæli og bera hvorutveggja saman við landshætti
Í örnefnalýsingu fyrir Litlaland frá 17. nóv. 1968 eftir Eirík Einarsson, segir m.a.: “Sunnan undir honum (Litlalandsáss) er Draugshellir, lítill hraunhellir í mörkum Litlalands og Breiðabólsstaðar…”.
Í annarri örnefnaskrá fyrir Litlaland í Ölfusi segir m.a. um Draugshelli:
“Rétt ofan við Vörðuás, við markagirðinguna milli Breiðabólsstaðar og Litlalands, er lítill hóll og í honum lítill hellir, sem heitir Draugshellir.”
Þegar framangreind möguleg misvísun var borin undir heimamann kom í ljós að Litlalandsháls er múlinn eða ásinn ofan við hól þann, sem Draugshellir átti að vera við. Syðst í ásnum eru Rifjabrekkur. Allt virtist því koma heim og saman við fyrirliggjandi lýsingar.

Draugshellir

Grafið í Draugshelli.

Heimamaðurinn fylgdi þátttakendum á vettvang. Benti hann á stað í túninu, vestan hólsins, og sagði hon gömlu landamerki hafa legið úr vörðu sunnar í Leitarhrauni með línu í klofa í hlíðinni norðnorðaustan við bæinn. Vel mátti greina hin gömlu gróðurmörk því eldri girðing virðist hafa verið í línunni, skammt vestan núverandi girðingar. Þá benti hann á að fyrir ári síðan hafi op opnast í túninu á tilgreindum stað og vatn lekið þar niður. Hafi bóndinn fyllt upp í það með tveimur dráttarvélaskólfum.
Gróið hafði yfir það. Staðurinn var vestan við tilnefndan hól á landamörkunum, sem fyrr segir.
Hafist var handa við mokstur. Þátttakendur unnu kappsamlega og ekki leið á löngu að sjá mátti niður um opið. Skurður var stækkaður og lengdur og grafið var með stefnu á miðju jarðar. Eftir að hafa grafið mannhæðardjúpa holu og rúmlega það, opnaðist hellirinn. Hreinsað var frá opinu og við blasti hinn fallegasti fjárhellir, litlu minni en t.d. Bjargarhellir eða Strandarhellir. Einn þátttakenda skreið inn og skoðaði sig um. Mikil mold hefur runnið niður í hellinn á löngum tíma, en svona til að undirstrika að mannvistarleifar væri að finna í honum, skein ljósið á bein á moldinni í miðjum hellinum. Það var látið óhreift.

Draugshellir

Opið.

Ljóst er að mikil vinna verður að hreinsa moldina úr hellinum. Grafið var spölkorn áfram niður framan við opið, en ljóst er að þar er enn talsvert niður á fast. Hér getur því orðið um þarft verkefni fyrir vinnuskólabörn í Ölfushreppi að vinna á sumri komanda. Þá þurfa fornleifafræðingar að líta þarna við og skoða fyrirbærið, því til hliðar við innganginn, í moldinni virðist votta fyrir hleðslum.
Draugshellir er fundinn. FERLIRsfélagar voru ánægðir með ágætt dagsverk. Samráð verður haft við landeigandann um frágang við hellisopið.
Þjóðsagan er um Björn Jónsson í Haga. “Eitt sumar sem ofar ferðaðist Björn um lestatímann til skreiðarkaupa suður í Garð. Venjulegur áfangastaður ferðamann var þá eins og enn viðgengst á svokölluðum Rifjabrekkum millum Breiðabólstaðar og Litlalands í Ölvesi. Þótti mörgum illt þar að vera vegna draugs þess er oft gjörði ferðamönnum er á brekkunum lágu usla og ónáðir og hélt sig í helli þeim er síðan er við hann kenndur og kallaður Draugshellir. Reif hann og tætti sundur tjöld og fans fyrir sumum, en fældi hesta og jafnvel drap fyrir sumum. En ekki er þess getið að hann réðist á menn, en marga dreymdi þar illa í tjöldum sínum, en enginn var sá er vogaði að leggjast í hellirinn þótt tjaldlaus væri. Björn var við annan mann; voru þeir tjaldlausir, taka nú af hestum og bera saman farangur nærri hellinum draugsins. Þetta var að áliðnum degi. Regn var mikið. Förunautur Björns spyr þá hvursu hann hugði þeim um umbúnað, kvað það eitt tiltækilegt að þeir gjörðu sér skýli í farangrinum til að sofa í. Björn kvað þá í hellinum mundu taka á sig náðir. Förunautur hans var þess allófús, en kvaðst þó hans forsjá hlíta mundu. “Bessaleyfi hér á híbýlum,” segir Björn. Ganga þeri síðan í hellirinn, búast þar um, tóku að snæða og lögðust til svefns. Var nú allt kyrrt. Lagsmaður hans sofnar skjótt, Björn vakir og verður var við er draugsi kom inn og litast um eins og hann undrist dirfsku komumanna er leyfðu sér að taka á sig náðir í hans híbýlum leyfislaust, en var annars óvanur að mæta þar gestum. Draugurinn ræðst síðan að förunaut hans og ætlar að kyrkja hann.

Draugshellir

Draugshellir.

Björn stóð þá upp, hratt draugnum frá og tók manninn í fang sér og bar hann út og lagði hann niður undir farangur þeirra, vakti hann því næst og bað hann gæta hesta þeirra, kvað drauginn hafa fælt þá í burtu, “en ég mun,” segir hann, “fara að hitta betur húsbóndann fyrst hann gat ekki setið á sér við oss með eljarglettingar sínar.”
Björn fer að hitta aftur drauginn, spyr hann hvurnig á honum standi og því hann hafðist við hér við í helli þessum. Draugur svarar: “Sagt get ég þér sögu mína. Ég var ungur maður og þótti heldur ódæll. Ég átti heima austur í Fljótshlíð; var ég sendur suður í Njarðvíkur í skreiðarferð og sýktist á heimleiðinni og lagðist fyrir í helli þessum og dó á þriðja degi og fundu menn mig hér nokkru síðar. Var ég fluttur að Hjallakirkju og grafinn þar, en ég þoldi ekki í jörðu og gekk aftur og vitjaði hellis míns. Hefi ég síðan hér verið og gjört ferðamönnum ýmsar óspektir um átta ár.” Björn spyr hvursu lengi hann ætli framvegis hér að verða. Draugur svarar: “Tuttugu ár og mun ég jafnan fara versnandi.”. “Fyrst þú fórst að gjöra mér glettingar skal ég vísa þér á bug héðan,” segir Björn. “Hellir er í Hengilshömrum, þangað stefni ég þér. Skaltu þaðan aldrei út fara né nokkurn mein gjöra.” Draugnum brá svo við að hann hljóp í skyndi út og tók á rás upp á fjall. Hefur síðan aldrei orðið vart við reimleik á Rifjabrekkum.”

Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar, III. bindi, bls. 592-593.

Draugshellir

Í Draugshelli.