Leitað var Valahnjúkshellis, en gamlar sagnir eru um mikinn draugagang í hellinum. Eftir að mikið timbur rak á Valahnjúksmalir á 18. öld voru vinnumenn Kirkjuvogsbónda við sögunarvinnu á mölunum. Þeir hlóðu byrgi og tjölduðu á mölunum.
Við Draugahelli í Valahnúk.
Sagan segir að einn sögunarmanna hafi fundið þurran og rúmgóðan helli uppi í hnúknum og hafi þeir flutt sitt hafurtask þangað. Fyrsta kvöldið, eftir að hafa farið með bænir og sygnt sig, sofnuðu þeir, en vöknuðu fljótlega aftur við lætin í hundunum og raddir ósýnilegra manna. Kvað svo rammt að þessu að þeir urðu að flýja út í sunnanbálið, sem þá geisaði. Nokkru seinna komu tveir menn til sögunarvinnu frá Kirkjuvogi, en vildu ekki, þrátt fyrir beiðni heimamanna, að taka með sér tjald, því þeir höfðu ákveðið að gista í hellinum. Um nóttina kom annar mannanna aðframkominn heim að Kirkjuvogi.
Félaga hans var leitað og fannst hann á reiki um hraunssandinn. Aldrei fékkst upp úr þeim hvað gerðist í hellinum um nóttina. Hellirinn sést ekki nema þegar komið er alveg að opinu.
Skoðaður var upphlaðinn stígur, sem liggur frá Bæjarfelli að Valahnjúkum.
Hellisskútinn uppi í austanverðum Valahnúk er ekki verri Draugahellir en hver annar. A.m.k. fékkst hundkvikindi, sem var með í för, ekki til þess að fara þangað inn ótilneytt. Hafi hellirinn verið sunnan í hnúknum er hann löngu horfinn því aldan sverfur stöðugt af honum framanverðum. Sjá myndband.
Undir austanverðum Valahnúk má sjá sjá hleðslu undan búðum. Hún gæti hafa verið gerð þegar fyrsti vitinn á Íslandi var reistur á Valahnjúk 1878. Leifar vitans liggja nú neðan við hnúkinn.
Þá var skoðuð gamla hlaðna sundlaugin, sem Grindavíkurbörn lærðu að synda í um og eftir 1930.
Frábært veður.