Arnarbæli

Upp með Arnarbælisveggjum innan við Kirkjuvogslágar ofan Ósabotna í Höfnum liggur vörðuröð.
Varda-33Auk hennar má sjá fallnar vörður, sem verið hafa allstórar á meðan þær stóðu heilar. Ein þeirra er nánast grasi gróin, líklega mið frá Kirkjuvogi eða Kotvogi í Súlur. Nokkrar vörður standa þó enn heilar. Ætlunin er að reyna að fylgja þessum vörðum áleiðis upp í heiðina og sjá hvert þær leiddu. Í leiðinni var stefnan tekin á Arnarbæli, áberandi klapparhól. Á honum er varða.
Þegar skoðuð er örnefnalýsing Vilhjálms Hinriks í Merkinesi um Hafnir má sjá eftirfarandi um göngusvæðið: “
Nú ökum við til baka og tökum veginn, sem liggur til Hafna. Þegar kemur niður fyrir Bringa, sem áður eru nefndir, sjáum við litla tjörn á vinstri hönd, Vötn (í Vötnunum). Í leysingum getur verið þarna vatnsagi talsverður, því landi hallar þarna alls staðar að og verður stór slakki milli Arnarbælis að vestan og Selsins og Gjáhóla að austan. Ofarlega í hvilft þessari, sem er að mestu basaltklappir, eru þrír talsverðir hólar, og heita þeir einu nafni Hvalhólar. Ef við horfum til Arnarbælis, sjáum við bríkur og brúnir, sem lækka til norðvesturs, Arnarbælisveggir, en lægðin kölluð einu nafni Kirkjuvogslágar.
ArnarbaeliÍ nærri beinni línu frá Arnarbæli til norðvesturs eru þrír hólar. Hinn efsti heitir Sjónarhóll. Sá í miðið heitir Torfhóll og er hann þeirra stærstur, með rofhnubb uppi á toppnum. Neðst er strýtumyndaður, grasi vaxinn hóll, sem heitir Grænhóll.”
Skotæfingasvæði Keflavíkur er þarna í heiðinni. Skothvellir heyrðust af og til þegar gengið var samsíða skotstefnunni áleiðis upp í Arnarbæli. Hrunin varða, áður stór, var þar fremst á lágu klapparholti. Þegar komið var upp og inn fyrir skotbrautina kom í ljós stór heilleg varða. Gul málning var á einum steininum. Hún gat því verið landamerkjavarða, líklega á gömlum hreppamörkum.
Varda-34Önnur minni var skammt ofar, með stefnu á Stapaþúfu. Skammt frá henni var minni varða, með stefnu á Arnarbæli. Þegar horft var upp að Hvalhólum, mátti sjá vörðu hægra megin ofan þeirra. Þar er lægð í landið er liggur síðan niður með vestanverðu Arnarbæli.
Á Arnarbæli er varða á hraundrangi. Af honum er hið ágætasta útsýni yfir nágrennið, allt niður í Hafnir. Ekki er erfitt að álíta að Össur hafi gert sér bæli þar fyrrum.
Neðan Arnarbælis eru vörðubrot, en allt umleikis hefur verið tiltölulega greiðfært um heiðina, hvaðan og hvert svo sem ferðinni hefur verið heitið.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild:
-Hafnir (Hafnahreppur) Vilhjálmur Hinrik Ívarsson skráði; fæddur 12/8 1899, Eyvík, Grímsnesi, Árnessýslu; flytur að Merkinesi í Höfnum 1934.

Arnarbælisgjá

Arnarbælisgjá.