Prestastígur

Ætlunin var að leita og finna hina fornu leið er farin var milli Hafna og Húsatófta fyrrum. Konungsverslunin var um tíma við Húsatóftir, s.s. örnefni og minjar gefa til kynna, og nálægur Staðarprestur þjónaði jafnt Stað og Höfnum. Hann og aðrir þurftu að fara þarna á millum.
Varða í HafnaheiðiEftir að verslunarhöfn í Grindavík lagðist af 1639 og Hörmagnarar hættu verslun í Arfadalsvík 1745 færðist hún yfir á Þórshöfn og Básenda, eða allt til 1799. Áður fóru yfrumsveitungar til Grindavíkur og til baka og omvent eftir það. Stundum var farin “bæjaleiðin” (með ströndinni) og síðan vent upp úr Hundadal á Prestshól, yfir Haugsvörðugjá og þaðan að Rauðhól. En þeir, sem betur þekktu til og oftar þurfu að fara leiðina, fóru stystu leið um Hafnaheiði. Þegar upp á hábrúnina var komið greindist gatan niður að bæjunum. Þeir, sem austar fóru, fyrir Ósabotna eða til Keflavíkur eða annarra útbæja, fóru um Gamla kaupstað, jafnvel með með viðkomu í Miðseli (allnokkrar næstum jarðlægar tóftir þó enn sjáanlegar), Mönguseli, Merkinesseli eða Kirkjuvogsseli.
Það var ekki fyrr en síðar að farið var að ganga “Prestastíg” líkt og nú er gert. Sá hluti leiðarinnar hefur verið endurvarðaður, en vörðurnar á hinni fornu leið um Hafnaheiði eru nú nær allar fallnar, þó ekki allar, en ágæt kennileiti eftir sem áður. Sandfellshæðin (dyngjugígurinn), bara eitt sér, er verðugt skoðunarefni.
Á kaflanum milli Rauðhóls og Húsatófta má m.a. skjól útilegumanna í hraunrásum, þekkt fiskgeymsluhús frá tímum Básendaverslunarinnar og önnur algerlega óþekkt (nema kannski 2-3 núlifandi mönnum). 

Ef skoðuð er örnefnalýsing fyrir þetta svæði má m.a. lesa eftirfarandi: “
Svo sem 1/2 kílómetra norðaustar í gjánni  [Súlnagjá] er klapparhóll, sem lítið ber á, og heitir hann Gamli-Varða í HafnaheiðiKaupstaður. Ekki er kunnugt um nafngift þessa nema ef vera kynni, að setja megi í samband við alfaraleið (hestagötu) úr Grindavík til Keflavíkur til forna og þarna hafi máske verið áningarstaður. Gren var í hól þessum áður fyrr, en aldrei í tíð núlifandi manna. Í norðaustur frá því, er við stöndum, er gríðarstór klapparhóll og mest áberandi, dyngjulagaður og mjög sprunginn. Hann heitir Grákolluhóll. Þar norðaustur af er hár, klofinn klapparhóll, Stóri-Klofningur. Dálítið ofar er annar hóll, líkur hinum, en minni, Litli-Klofningur. Báðir eru hólar þessir neðan við sjálfa heiðarbrúnina.
Nú ökum við til baka og tökum veginn, sem liggur til Hafna. Þegar kemur niður fyrir Bringa, sem áður eru nefndir, sjáum við litla tjörn á vinstri hönd, Vötn (í Vötnunum). Í leysingum getur verið þarna vatnsagi talsverður, því landi hallar þarna alls staðar að og verður stór slakki milli Arnarbælis að vestan og Selsins og Gjáhóla að austan. Ofarlega í hvilft þessari, sem er að mestu basaltklappir, eru þrír talsverðir hólar, og heita þeir einu Landamerki Grindavíkur og Hafnanafni Hvalhólar. Ef við horfum til Arnarbælis, sjáum við bríkur og brúnir, sem lækka til norðvesturs, Arnarbælisveggir, en lægðin kölluð einu nafni Kirkjuvogslágar.
Í nærri beinni línu frá Arnarbæli til norðvesturs eru þrír hólar. Hinn efsti heitir Sjónarhóll. Sá í miðið heitir Torfhóll og er hann þeirra stærstur, með rofhnubb uppi á toppnum. Neðst er strýtumyndaður, grasi vaxinn hóll, sem heitir Grænhóll.
Nú er rétt að keyra í Hafnir á afleggjarann, sem liggur til Reykjaness, og athuga kennileiti og örnefni þau, sem sjást og með veginum liggja. Fyrsta hæð, sem við förum yfir, eftir að húsum sleppir, heitir Lúðvíkshæð. Skammt suðvestar er hár, klofinn hóll og á sitthvorum barmi sprungunnar eru vörður. Þetta heita Bræður. Garðlag liggur á hægri hönd til sjávar í stefnu á þykka vörðu með dálitlu tré í. Þetta er Sundvarða fyrir Merkinessund, og skal hún bera í Bræður á aðalsundi.
Útsýni að Reykjanesvita og EldeyUpp af Lágunum við dálítið skarð í hæðarkinninni í vestur frá Norður-Nauthólum eru mjög gamlar rústir. Það heitir Gamla-Merkinessel (Miðsel). Augljóst er, að landkostir hafa daprazt og selið fært upp í Mönguselsgjána. Niður af Arnarbæli til vesturs eru hólar og graslautir og er það svæði nefnt Kúadalir.”
Þegar gengið var upp frá Kirkjuvogi í Höfnum virtist heiðin nokkuð flöt á fótinn framundan, sendin en hálfgróin. Myndarleg ferköntuð varða er áberandi í heiðinni. Á leiðinni að henni var gengið framhjá hlöðnum matjurtargarði vestan undir í lágum hól. Frá vörðunni sást vel upp í Torfhóla, en stefnan var tekin á heiðarbrúnina með stefnu á vestanvert Sandfell. Umhverfi hefur breyst þarna mikið í gegnum aldir, bæði vegna eldgosa fyrrum, síðan vegna mikils sandfoks upp úr Stóru-Sandvík og um heiðina og loks vegna markvissar landgræslu. Vörður og vörðubrot eru á leiðinni, misstórar. Efst á brúninni hefur verið myndarleg varða, nú hálffallin. Frá henni er ágætt útsýni niður að Höfnum og suður að Sandfellshæð. Hausgvörðugjá er á millum. Vörðubrotum var fylgt að gjárbrúninni og síðan áfram upp að mörkum Hafnar og Grindavíkur. Á þeim er varða.
Lokaáfanginn ofan við HúsatóftirGullkollur, fjalldrapi, lyn og einir eru áberandi í mosagróðurfari svæðisins sem nú tók við. Í vesturöxl Sandfellshæðar er varða. Hún virðist hafa verið kennileiti fyrir þá er voru á leið frá Húsatóftum og vildu taka stefnuna beint af Prestastíg áleiðis til Hafna. 
Norðan þessa er “Prestastígur” lítt áberandi í landslaginu. Líklega er ástæðan sú að frá gatnamótunum hefur umferðin dreifst yfir Hafnaheiðina, enda ekki nema u.þ.b. 2 klst gangur til bæja.
Frá vörðunni var Prestastíg fylgt framhjá Rauðhól, yfir Eldvörp og að gatnamótum Staðargötu og Húsatóftagötu ofan Hjálmagjár. Síðarnefnda gatan var loks gengin til enda.
Rétt er að geta þess að gatnamót eru á Prestastíg norðan Rauðhóls. Þar liggur gata af honum til norðurs með stefnu á norðuröxl Sandfellshæðar. Vörðubrot er á hraunkolli utan í hæðinni og efst í henni norðvestanverðri er hlaðið gerði. Þaðan sést vel yfir austurhluta Hafnaheiðar. Þessi leið er sú stysta þegar fara átti fyrir Ósabotna.
Þessi leið er 18.1 km, svolítið styttri en ef farið væri frá Höfnum með ströndinni og síðan vent til vinstri í Hundadal eftir núverandi Prestastíg, enda beinni. Útsýni á leiðinni er stórbrotið, bæði til fjalla og stranda. Líklega hafa einungis örfáir menn gengið þessa leið á þessari öld.
Ætlunin er að fara þessa leið rangsælis við tækifæri og skoða þá betur það smáa er fyrir augu ber á göngunni.

Gangan tók rúmlega 4 klst, en alls varaði ferðin í rúmlega 6 klst með góðum hléum, enda veðrið frábært.Prestastígur