Kaupstaðagatan

Ljóst er að hjarta landsins slær á Reykjanesi.

Hjartasteinn

Hjartasteinn við Ósa.

Í ferð FERLIRs um norðanverða Ósabotna var gengið fram á meirt, en mjúkt hjarta, þar sem það var grópað litskrúðugt í grjóthart grágrýtið – skammt frá þeim stað þar sem hella með fangamarki Hallgríms Péturssonar, prests í Hvalsnesi, átti að hafa verið til langs tíma, en er nú varðveitt í geymslum Þjóminjasafnsins (engum til ánægjuauka). Umhverfið er sandauðn og berar klappir, óspillt land, en inni á milli þeirra vaxa harðgerar landnámsplöntur. Líkja má aðstæðum við frumbýlið forðum.
Hjartað gæti, einhvern tímann, hafa slegið í suðvestrænum landvættarskrokki griðungsins, en síðan fengið að slá áfram er griðingurinn varð að þjóðsagnakenndum steini. Þannig er hjartað og bein skírskotun til sögunnar, þjóðsagnanna sem og jafnvel allrar tilveru lífsins. Einnig er táknrænt að hjartað skuli vera þarna, inni á Varnarsvæði hersins, á íslensku landi undir erlendum yfiráðum [2003].

Þórshöfn

Þórshöfn.

Annars bjóða norðanverðir Ósar upp á fjölbreytilega möguleika. Þar má sjá gömlu Kaupastaðagötuna; fallega götu er liggur svo til bein á kafla um heiðina, tóftir Gamla Kirkjuvogs, sem taldar eru vera frá fyrstu byggð á svæðinu, tóftir við Djúpavog og gamlan brunn, tóftir Stafnessels, tóftir á Selhellu, garða út í sjó vestan Djúpavogs, verslunina við Þórshöfn og áletranir á klöppum, Gálga (sem engar eru þó heimildir til að hafi verið notaðir sem aftökustaður, en uppi á einum þeirra er manngerð tóft) og Básenda, hinn gamla verslunarstað svo eitthvað sé nefnt. Verndarnir skiptu sér áður fyrr af ferðum fólks um þetta svæði (ofar ströndum), en voru sem betur fer hættir því nokkru áður en þeir hurfu af landi brott.
FERLIR fékk þó margsinnis að ganga óáreittur um þetta svæði meðan á hersetunni stóð – og njóta alls þess, sem það hefur upp á að bjóða, en auk minjanna og sagnanna er dýra- og náttúrufegurð þarna veruleg.

Kaupstaðagata

Kaupstaðagatan ofan við Gamla-Kirkjuvog.

Nýlega (skömmu fyrir brottför verndarana) var gengið fram á þá tvo slíka saman, alvopnaða, en reykspúandi, skammt vestan við Gálga. Þrátt fyrir meint hlutverk sitt gáfu þeir sér góðan tíma til að spjalla við göngufólkið um umhverfið og söguna, sem þeir sýndu verulegan áhuga. Þótt hugur þeirra væri á reiki víðsfjarri var áhuginn þó nærri. Og hann óx í réttu hlutfalli við umræðuna. Við Gálga innanverða er t.d. upplýsingaskilti fyrir göngufólk um aftökusiði og upp á íslenskan máta. Þaðan er ágæt útsýn milli klettastapanna og ímyndaðs aftökustaðar með tré á millum.
Sunnan Ósabotna er Hunangshellan, en henni tengist þjóðsagan af viðureign Hafnarbúa við finngálknið. Þar er einnig gamla gatan (eða réttara sagt göturnar) milli Njarðvíkur og Hafna.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel.

Sunnar er staður er nefndur hefur verið Gamli kaupstaður, sem sumir álíta að hafi verið verslunarstaður eða verslunarsvæði fyrrum. Framhjá honum á Kaupstaðagata að hafa legið áleiðis yfir heiðina til Grindavíkur. FERLIR skoðaði þann stað fyrir nokkru og má vel gera sér í hugalund að þar hafi verið sammerkur áningarstaður á leiðum fyrrum. Þessi leið er a.m.k. bein og greið.
Kirkjuvogssel er sunnan þjóðvegarins og skammt norðvestan Gamla kaupstaðar. Þar eru verulega tóftir húsa og fallega hlaðinn stekkur, auk gerðis og fleiri mannvirkja er tilheyrðu selstöðunni fyrr á öldum. Enn ofar eru Möngusel og Merkinesselin.

Ósar

Ósar.

Af veginum á Þrívörðuhæð sjást Ósar, eða Kirkjuvogur, en svo nefnist fjörðurinn sem talinn er hafa myndst vegna landsigs. Vísbendingar um það er að minnst er á 50 kúa flæðiengi, sem lægi undir jörðina Vog sem var norðan Ósa, í Vilkinsmáldaga frá 1397.
Ósar eru eitt af náttúruverndarsvæðum landsins. Þar er óvenjuleg fjölbreytni í lífríki fjöruborðsins auk fuglalífs.
Frábært veður.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.