Færslur

Kaupstaðagatan

Ljóst er að hjarta landsins slær á Reykjanesi.

Hjartasteinn

Hjartasteinn við Ósa.

Í ferð FERLIRs um norðanverða Ósabotna var gengið fram á meirt, en mjúkt hjarta, þar sem það var grópað litskrúðugt í grjóthart grágrýtið – skammt frá þeim stað þar sem hella með fangamarki Hallgríms Péturssonar, prests í Hvalsnesi, átti að hafa verið til langs tíma, en er nú varðveitt í geymslum Þjóminjasafnsins (engum til ánægjuauka). Umhverfið er sandauðn og berar klappir, óspillt land, en inni á milli þeirra vaxa harðgerar landnámsplöntur. Líkja má aðstæðum við frumbýlið forðum.
Hjartað gæti, einhvern tímann, hafa slegið í suðvestrænum landvættarskrokki griðungsins, en síðan fengið að slá áfram er griðingurinn varð að þjóðsagnakenndum steini. Þannig er hjartað og bein skírskotun til sögunnar, þjóðsagnanna sem og jafnvel allrar tilveru lífsins. Einnig er táknrænt að hjartað skuli vera þarna, inni á Varnarsvæði hersins, á íslensku landi undir erlendum yfiráðum [2003].

Þórshöfn

Þórshöfn.

Annars bjóða norðanverðir Ósar upp á fjölbreytilega möguleika. Þar má sjá gömlu Kaupastaðagötuna; fallega götu er liggur svo til bein á kafla um heiðina, tóftir Gamla Kirkjuvogs, sem taldar eru vera frá fyrstu byggð á svæðinu, tóftir við Djúpavog og gamlan brunn, tóftir Stafnessels, tóftir á Selhellu, garða út í sjó vestan Djúpavogs, verslunina við Þórshöfn og áletranir á klöppum, Gálga (sem engar eru þó heimildir til að hafi verið notaðir sem aftökustaður, en uppi á einum þeirra er manngerð tóft) og Básenda, hinn gamla verslunarstað svo eitthvað sé nefnt. Verndarnir skiptu sér áður fyrr af ferðum fólks um þetta svæði (ofar ströndum), en voru sem betur fer hættir því nokkru áður en þeir hurfu af landi brott.
FERLIR fékk þó margsinnis að ganga óáreittur um þetta svæði meðan á hersetunni stóð – og njóta alls þess, sem það hefur upp á að bjóða, en auk minjanna og sagnanna er dýra- og náttúrufegurð þarna veruleg.

Kaupstaðagata

Kaupstaðagatan ofan við Gamla-Kirkjuvog.

Nýlega (skömmu fyrir brottför verndarana) var gengið fram á þá tvo slíka saman, alvopnaða, en reykspúandi, skammt vestan við Gálga. Þrátt fyrir meint hlutverk sitt gáfu þeir sér góðan tíma til að spjalla við göngufólkið um umhverfið og söguna, sem þeir sýndu verulegan áhuga. Þótt hugur þeirra væri á reiki víðsfjarri var áhuginn þó nærri. Og hann óx í réttu hlutfalli við umræðuna. Við Gálga innanverða er t.d. upplýsingaskilti fyrir göngufólk um aftökusiði og upp á íslenskan máta. Þaðan er ágæt útsýn milli klettastapanna og ímyndaðs aftökustaðar með tré á millum.
Sunnan Ósabotna er Hunangshellan, en henni tengist þjóðsagan af viðureign Hafnarbúa við finngálknið. Þar er einnig gamla gatan (eða réttara sagt göturnar) milli Njarðvíkur og Hafna.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel.

Sunnar er staður er nefndur hefur verið Gamli kaupstaður, sem sumir álíta að hafi verið verslunarstaður eða verslunarsvæði fyrrum. Framhjá honum á Kaupstaðagata að hafa legið áleiðis yfir heiðina til Grindavíkur. FERLIR skoðaði þann stað fyrir nokkru og má vel gera sér í hugalund að þar hafi verið sammerkur áningarstaður á leiðum fyrrum. Þessi leið er a.m.k. bein og greið.
Kirkjuvogssel er sunnan þjóðvegarins og skammt norðvestan Gamla kaupstaðar. Þar eru verulega tóftir húsa og fallega hlaðinn stekkur, auk gerðis og fleiri mannvirkja er tilheyrðu selstöðunni fyrr á öldum. Enn ofar eru Möngusel og Merkinesselin.

Ósar

Ósar.

Af veginum á Þrívörðuhæð sjást Ósar, eða Kirkjuvogur, en svo nefnist fjörðurinn sem talinn er hafa myndst vegna landsigs. Vísbendingar um það er að minnst er á 50 kúa flæðiengi, sem lægi undir jörðina Vog sem var norðan Ósa, í Vilkinsmáldaga frá 1397.
Ósar eru eitt af náttúruverndarsvæðum landsins. Þar er óvenjuleg fjölbreytni í lífríki fjöruborðsins auk fuglalífs.
Frábært veður.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

Kirkjuvogssel

Gengið var upp í Hafnaheiðina. Ætlunin var að skoða svæðið betur í kringum Kirkjuvogssel ofan.

Kirkjuvogssel

Tóftir í Kirkjuvogsseli.

Frést hefur af gömlum hleðslum norðvestan við selið. Þar gætu verið leifarnar af Gamla Kaupstað, sem var gamall áningastaður á milli Grindavíkur og Hafna. Þar á og að vera Hestavegurinn svonefndi.
Selssvæðið er vel varið varúðarskiltum frá verndurum vorum, en þarna mun hafa verið æfingasvæði hersins um tíma. Klæðst var sprengiheldum skóm og stikklað af stað. Selið sást framundan, vel gróið undir hraunhól, mót norðvestri. Talsverar tóftir eru í selinu, m.a. stór stekkur vestan við þær, kví og önnur mannvirki. Ekki var brunn eða vatnsstæði að sjá, enda búið að vera mjög þurrt, en norðan við tóftirnar mótar fyrir reglulegu hringlaga gerði. Talsvert jarðvegsrof er þarna, en svo virðist sem hringurinn hafi verið grunnmynd af torfhlöðnu gerði eða fjárborg.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel.

Ofan við hraunhólinn er tóftir sem og mannvirki eftir verndarana þar sem þeir hafa verið við æfingar. Varða er á klapparhrygg í norðvestri, í línu að “nýja” Kirkjuvogi og Kotvogi.
Ekki gafst tími til að leita þarna að hugsanlegum ummerkjum eftir Gamla Kaupstað eða Hestaveginn að þessu sinni, en það verður gert við tækifæri.
Ágætisveður var á svæðinu. Gangan tók 59 mínútur.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – uppdráttur ÓSÁ 2012.

Kaupstaðavegurinn

Gengið var að Kirkjuvogsseli suðaustan Hafnarvegar. Selið er undir hól innan varnarsvæðisins og hefur fengið að vera óhreyft um langan tíma. Tóttir eru á tveimur stöðum í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Neðan þeirra er stekkur og enn neðar og norðar er reglulegur hringur, sem gæti hafa verið kví eða lítil rétt.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – uppdráttur ÓSÁ.

Selstígurinn sést vel þar sem hann liggur frá selinu í átt að Ósabotnum. Hópurinn gekk hins vegar frá því til norðurs og inn fyrir aðalvarnarsvæðið með leyfi yfirvalda. Ætlunin var að leita að tóftum Stafnessels, sem þar átti að vera ofarlega í heiðinni þar sem hallar til vesturs.

Stafnessel

Stafnessel.

Mikið landrof hefur átt sér stað á svæðinu, auk þess sem framkvæmt hefur verið alveg að brekkunum. Þó má sjá talsvert gras efst undir brekkunum og einnig er ekki ólíklegt að selið hafi verið þar undir eða ofan við klettana. Leið er vörðuð að klettunum og eru vörðurnar, sem greinilega eru mjög gamlar, flestar hrundar. Þó er ein stærst og stendur enn nokkuð neðan við brekkurnar. Hún hefur líklega verið sundvarða inn að Ósabotnum því hún ber frá skerjunum í Keili.
Þá var gengið niður að Djúpavogi og þaðan til norðvesturs eftir gömlu Kaupstaðaleiðinni.

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Gamla-Kirkjuvogs.

Skammt ofan við voginn er 200-300 m langur beinn mjög fallegur kafli á leiðinni, sem greinilega hefur verið ruddur og flóraður á kafla. Þegar hópurinn kom að enda kaflans skein sólin á svæðið svo hún sást mjög vel þar sem hún liggur upp holtið. Leiðinni var fylgt að Gamla Kirkjuvogi þar sem tóttirnar af gamla bænum og kirkjugarðurinn voru skoðaðar, auk garðanna og brunnsins. Þar sem greinilega var að verða mjög lágsjávað var ákveðið að halda áfram framhjá Skotbakka og Þórshöfn yfir að Básendum. Þegar þangað var komið var gengt út í öll sker.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Farið var fetið út í stærsta skerið vestan Básendalægis. Þar í klöpp á því norðanverðu er festahringur í keng, nokkuð ryðbrunninn. Í hring þennan var festi hér á öldum áður og í hana voru kaupskipin, er þarna lágu, fest. Klöppin var öll upp úr sjó, sem ekki er algengt þarna. Eftir að hafa dáðst að litbrigðunum (rautt, brún, grænt og gult) umhverfis hringinn var haldið hægt suður með skerinu. Þar var að sjá annan keng, en í hann vantaði hringinn. Eftir að hafa áð við Draughól var haldið með steingarðinum, sem umlykur Básenda, að Stafnesi þar sem ferðin endaði.
Frábært veður.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – uppdráttur ÓSÁ.

Möngusel

Ofan við Mönguselsgjá er Merkinessel. Þetta eru 4 sérstæðar kofarústir og eru hlaðnar undir gjárbarmi. Þetta er í landi Merkiness og er talið, að haft hafi verið í seli þar fram á 19. öld. Norðan í hæð er kvos, grasi gróin og ofurlitar kofarústir í botni hennar. Þetta er Möngusel.

Möngusel

Möngusel.

Við skoðun á seljunum sumarið 2002 kom í ljós, eftir langan gang, að Möngusel er í bakka gróinar hraunkvosar og virðist vera allgamalt. Merkinessel hið nýrra er suðv við kvosina, undir misgengisvegg. Tóftirnar eru nokkuð heillegar. M.a má sjá glugga á einum vegg einnar húshleðslunnar. Þar er og hlaðinn stekkur og grafið vatnsból. Það var þurrt þegar komið var í selið. Allnokkru norðvestnorður af selinu fannst Merkinesselið eldra. Það var norðaustan undir grónum hól í annars eyðilegu umhverfi. Tóftirnar virtust vera allgamlar. Ekki er auðvelt að finna og staðsetja þetta sel því heiðin þarna er hvert öðru líkt. Gamla-Merkinessel (Miðsel) er í vestur frá Norður-Nauthólum. Augljóst er að landkostir hafa daprast og selið verið fært í Mönguselsgjá.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – uppdráttur ÓSÁ.

Ofan Hafnavegar er Kirkjuvogssel. Ofan þess er gróin hæðarbunga. Undir henni norðanverðri eru tóftir og kví eða stekkur skammt vestar. Kirkjuvogssel hefur verið allveglegt sel á sínum tíma.

Merkinessel

Merkinessel.

Í örnefnalýsingu fyrir Hafnir er getið um sel tilheyrandi bæjum þar: “Nú bregðum við okkur þangað, svo sem hálftímagang, og förum upp á miðhólinn og litumst þaðan um. Rétt norðar en við st er býkúpumyndaður hóll. Í honum, með munna mót norðri, er hellisrifa, sperrulöguð. Þetta er refagren og nefnist Suður-Nauthólagren. Norðan við okkur liggur geysilangt og ca. þriggja til fjegra kílómetra landsig, eða neðan frá Stóru-Sandvík norðaustur í heiði. Gjáin er nefnd Mönguselsgjá. Ofan við miðju gjáarinnar má sjá nokkuð stæðilegar kofarústir. Þetta heitir Merkinessel. Þetta eru 4 rústir og eru hlaðnar að suðurbergveggnum. Þetta er í landi Merkiness og er talið, að haft hafi verið í seli þar fram á 19. öld.

Merkinessel

Gamla Merkinessel.

Upp af Lágunum við dálítið skarð í hæðarkinninni í vestur frá Norður-Nauthólum eru mjög gamlar rústir. Það heitir Gamla-Merkinessel. Augljóst er, að landkostir hafa daprazt og selið fært upp í Mönguselsgjána.

Þegar suður fyrir Lágar kemur, hækkar landið og á hægri hönd er geysimikil hæðarbunga með klappahólum. Norðvestan í hæð þessari eru rústir gamlar og heitir það Kirkjuvogssel.”

Merkinessel

Merkinessel – uppdráttur ÓSÁ.

Hunangshella

Eftirfarandi frásögn Ólafs Ketilssonar, Kirkjuvogi í Höfnum, frá árinu 1886 um komu hans í Kirkjuvogssel birtist í Rauðskinnu hinni nýrri árið 1971:

Kirkjuvogskirkja-201

“Frá því á yngri árum og fram yfir fimmtugsaldur fékkst eg oft við refadráp, einkum þó á haustum. Fór eg oft langt upp til heiða, þá er gott var veður, og leitaði tæfu uppi í greni sínu. Það er vandi tófunnar, að liggja inni í greninu á daginn, en fara á kreik milli sólarlags og dagseturs. Var legan því aldrei löng við grenið og liðu stundum ekki nema fáar mínútur frá því að umsátin byrjaði og þar til tófan kom út. Hins vegar voru fjörulegurnar þrautaverk, sem reyndi á þorifin; þá varð oft að liggja 4-6 klukkutíma í kólgugaddi, og mátti aldrei hreyfa sig hið minnsta, því að tófan hefir, eins og kunnugt er, afar skarpa heyrn og verður tortryggin við hvert hljóð, sem hún heyrir og kannast ekki við, eða á ekki von á.
Kirkjuvogssel-201Í desember 1886 fór eg einn dag upp til heiða á refaveiðar. Veður var tvísýnt, er eg lagði af stað, norðaustan stormur og þykkt loft. Þá er eg kom upp að svo nefndum Klofningum, sem er um það bil 1 1/2 tíma gangur frá Kirkjuvogi, hitti eg þar á greni, og  var tófa inni. Eg mjó mér þegar til skýli og lagðist fyrir. En um sama leyti gekk vindur til suðausturs með rokstormi, og  var þá orðið kafþykkt loft, svo að óðum dimmdi, því að ekki sást til tungls. Þá er eg hafði legið um þriðjung stundar var komin krapaslydda og myrkur. Stóð eg því upp og bjóst til heimferðar, og stefndi beint niður í Ósabotna, á svo nefnda Hunangshellu, en þaðan er góður hálftíma gangur með sjónum heim að Kirkjuvogi.
Kirkjuvogssel-202Þá er eg var búinn að ganga nokkurar mínútur, slitnaði skóþvengur minn; en þar eð komið var slagveður, tók eg skóinn í höndina, því að eg bjóst við að vera kominn alveg að svo nefndu Kirkjuvogsseli, en þar eru gamlar seltóftir; ætlaði eg að laga þar þveng minn í skjólinu. Eg kom og þangað eftir nokkurar mínútur. Eg fór inn í eina tóftina, þar sem skýli var sæmilegt, og fór að basla við að laga skóþvenginn og tókst það loks. En er eg var að binda skóinn, þá heyrist mér, sem sagt sé við eyrað á mér: “Ólafur!”

Kirkjuvogssel-201

Kirkjuvogssel – uppdráttur ÓSÁ.

Eg hélt, að þetta hefði verið misheyrn, og tók vettlingana mína og fór að vinda úr þeim. En þá er aftur kallað snöggt í eyra mér: “Ólafur!” Greip eg þá byssuna, spennti hana upp og sagði: “Hver er að kalla?” Eg fékk ekkert svar og heyrði ekkert annað en köll þessi.
Þó að eg yrði ekki hræddur við köllin, urðu þau þó til þess, að eg hljóp við fót undan veðrinu alla leið niður að Hunangshellu, og varð eg því miklu fljótari en ella.
En er eg var að koma að Hunangshellu, þá var því líkast, sem stór fuglahópur þyti við eyru mín, og á sama vetfangi rauk hann upp með afspyrnuveður af norðvestri og moldöskubyl. Var veðrið svo mikið, að eg ætlaði ekki að geta haldið mig að sjónum, og var það þó eina lífsvonin, og með fram flæðarmálinu rakti eg mig loksins heim. Engan efa tel eg á því, að hefði eg ekki heyrt koll þessi í selinu, sem svo mjög flýttu ferð minni, þá hefði eg orðið úti um nóttina.”

(Handrit Ólafs Ketilssonar)

Heimild:
-Jón Thorarensen – Köllin í Kirkjuvogsselinu, Rauðskinna hin nýrri (Reykjavík, 1971), I, 165-167.

Hafnir

Kirkjuvogur 1873.

Gamli-Kirkjuvogur

Gengið var frá Ósabotnum að Hunangshellu, en við hana er gömul þjóðsaga um finngálkn kennd.
Haldið var eftir gömlu Kaupstaðaleiðinni um Draugavog og að Selhellu. Framan við tangann er tótt og önnur inn á honum. Vestan við tóttina er fallegt vatnsstæði í klöpp.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni.

Efst við sunnanverðan Selvoginn, sem er næsti vogur, er tótt. Gengið var inn fyrir voginn og inn á þjóðleiðina, ofan við Beinanesið að og áfram fyrir Djúpavog. Í botni vogarins liggur girðing upp í heiðina, í átt að varnarsvæðinu. Norðan vogarins, þegar upp á holtið er komið, er Kaupstaðaleiðin rudd svo til þráðbein á drjúgum kafla. Hún var einkar falleg í kvöldsólinni. Í stað þess að fylgja leiðinni niður að tóttum sunnan við Illaklif var haldið áfram vestur yfir holtið, að kletthól, sem þar er beint framundan. Vestan undir hólnum er allnokkuð gras og í því tóttir Stafnessels.

Stafnessel

Stafnessel.

Á landakorti frá árinu 1945, sem haft var meðferðis, er selið merkt þarna og reyndist það rétt vera. Í því eru a.m.k. þrjár tóttir. vatnsstæði er bæði á klapparholti norðan við selið svo og á klapparhól svo til beint í vestur, ofan við Gamla Kirkjuvog. Þar er sögð hafa verið kirkja til forna. Elstu heimildir um Vog er að finna í Landnámu. Þar segir að Ingólfur hafi gefið Herjólfi frænda sínum land á milli Vogs ok Reykjaness. Síðar breyttist nafnið í Kirkjuvog. Kirkjuvogur var fluttur suður yfir Ósa á seinni hluta 16 aldar, með kirkjunni, og stendur nú við Hafnir.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur.

Mannabein hafa fundist í uppblæstri á gamla bæjarstæðinu og voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800 að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt. Gengið var að gamla bæjarhólnum, en Kaupstaðaleiðin liggur rétt ofan við hólinn. Á honum er greinileg hleðsla. Neðan bæjarhólsins er þrjár tóttir. Í tveimur þeirra eru greinilegar hleðslur. Sú syðsta virðist hafa verið gerði. Í skýrslunni er þar sagður vera gamall kirkjugarður. Sunnan við gerðið er tangi. Fremst á honum er hlaðið gerði, en tanginn hefur greinilega sigið nokkuð eins og annað land á svæðinu, eða um 8 mm á ári skv. staðfestum mælingum.

Ósabotnar

Ósabotnar.

Kirkjuvogssel er skammt sunnan þjóðvegarins að Höfnum, vestan undir hól inni á sprengisvæði varnarliðsins. Fengið var góðfúslegt leyfi til að fara inn á svæðið s.l. sumar og skoða selið. Það hefur verið látið óhreyft. Göm þjóðleiðinni var fylgt aftur til austurs. Þegar komið er upp lága brekku sést hlaðinn garður á hægri hönd. Sunnar sést í háan grashól. Á honum er tótt. Neðan hans, rétt ofan við sjóinn, en lítið norðar, er hlaðinn garður. Fer hann nú á kafl í flóði. Gatan liggur í átt að Stafnesseli, þó lítillega til hægri, og yfir holtið. Á holtinu liggur hún einnig til suðurs, að gerði og tótt norðvestan Djúpavogs, þeim sem minnst var á áðan og eru undir Illaklifi.
Skammt austar er önnur tótt, mun stærri. Þarna er Gamli Kirkjuvogur sagður vera skv. fornleifaskýrslunni. Í henni segir m.a.: “Til forna lá jörðin hins vegar inn með Ósunum að norðanverðu. Þar er mikil rústabunga, grasi gróin. Húsaskipun er ekki hægt að greina. Vestan við bæjarhólinn, ca. 8 m, eru nokkrir steinar, en undir þeim er gamli bæjarbrunnurinn.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – rústir á bæjarhólnum.

Sunnan við bæjarhólinn má sjá leifar af því sem virðist vera forn kirkjugarður. Einnig má sjá leifar túngarðs norðan við hólinn og hlaðinn brunn vestan við hann, en tóttir enn lengra í vestur, sem gætu verið tóttir útihúsa. Greinilegar traðir eru frá bænum í norður upp á Kaupstaðaleiðina.
Fremur fátt er vitað um Kirkjuvog hinn forna. hans er ekki getið í öðrum fornritum en Landnámu. En árið 1334 segir frá því á annálum að Þorleifur nokkur hafi drepið Þorbjörn prest í kirkju og lagði sig síðan sjálfur með hnífi.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – Kaupstaðagatan.

Í Jarðabók 1703 er tekið fram að gamli Kirkjuvogur sé fornt eyðibýli í Kirkjuvogs landi. “Aðrir halda því fram að þetta bæjarstæði sé í Stafness landi”. Líklega er talið að jörðin hafi farið í eyði um 1580”.

Gengið var eftir stígnum upp Illaklif, eftir rudda götuhlutanum og áfram götuna fyrir Djúpavog. Þaðan var haldið beint yfir holtin, stystu leið.
Í leiðinni var gert kort af öllu svæðinu þar sem tóttir og einstakir staðir eru merktir inn á.
Sjá MYNDIR.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – bæjarhóllinn.

Kirkjuvogssel

Lagt var af stað í hríðarbyl og snjókomu frá höfuðborgarsvæðinu. Á Vatnsleysuströnd birti til. Þegar komið var að Ósabotnum var komið sólskin.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel.

Gengið var að Kirkjuvogsseli suðaustan Hafnarvegar. Selið er undir hól innan varnarsvæðisins og hefur fengið að vera óhreyft um langan tíma. Tóttir eru á tveimur stöðum í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Neðan þeirra er stekkur og enn neðar og norðar er reglulegur hringur, sem gæti hafa verið kví eða lítil rétt. Selstígurinn sést vel þar sem hann liggur frá selinu í átt að Ósabotnum.Hópurinn gekk frá selinu til norðurs og inn fyrir aðalvarnarsvæðið með leyfi yfirvalda. Ætlunin var að leita að tóttum Stafnessels, sem þar átti að vera, skv. korti, ofarlega í heiðinni þar sem hallar til vesturs. Mikið landrof hefur átt sér stað á svæðinu, auk þess sem framkvæmt hefur verið alveg að brekkunum. Þó má sjá talsvert gras efst undir brekkunum og einnig er ekki ólíklegt að selið hafi verið þar undir eða ofan við klettana.

Stafnessel

Stafnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Leið er vörðuð að klettunum og eru vörðurnar, sem greinilega eru mjög gamlar, flestar hrundar. Þó er ein stærst og stendur enn nokkuð neðan við brekkurnar. Hún hefur líklega verið sundvarða inn að Ósabotnum því hún ber frá skerjunum í Keili. Þá var gengið niður að Djúpavogi og þaðan til norðvesturs eftir gömlu Kaupstaðaleiðinni. Skammt ofan við voginn er
200-300 m langur beinn mjög fallegur kafli á leiðinni, sem greinilega hefur verið ruddur og flóraður á kafla. Þegar hópurinn kom að enda kaflans skein sólin á svæðið svo hún sást mjög vel þar sem hún liggur upp holtið. Skv. öðru korti átti Stafnessel að vera þarna skammt sunnar. Það reyndist vera rétt.

Þar suðvesturundir stórum klapparhól kúrði selið – nokkrar tóttir.

Kirkjuvogssel

Stekkur í Kirkjuvogsseli.

Gengið var niður á Ósaleiðina og henni fylgt að Gamla Kirkjuvogi þar sem tóttirnar af gamla bænum og kirkjugarðurinn voru skoðaðar, auk garðanna og brunnsins. Þar sem greinilega var að verða mjög lágsjávað var ákveðið að halda áfram framhjá Skotbakka og Þórshöfn yfir að Básendum. Þegar þangað var komið var gengt út í öll sker.
Farið var fetið út í stærsta skerið vestan Básendalægis. Þar í klöpp á því norðanverðu er festahringur í keng, nokkuð ryðbrunninn. Í hring þennan var festi hér á öldum áður og í hana voru kaupskipin, er þarna lágu, fest. Klöppin var öll upp úr sjó, sem ekki er algengt þarna. Eftir að hafa dáðst að litbrigðunum (rautt, brún, grænt og gult) umhverfis hringinn var haldið í rólegheitum  suður með skerinu. Þar var að sjá annan keng, en í hann vantaði hringinn. Eftir að hafa áð við Draughól var haldið með steingarðinum, sem umlykur Básenda, að Stafnesi þar sem ferðin endaði.
Í því er hópurinn gekk í hlað á Stafnesi um kl. 12:00 byrjaði að snjóa.
Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – uppdráttur ÓSÁ.

Portfolio Items