Hunangshella

Eftirfarandi frásögn Ólafs Ketilssonar, Kirkjuvogi í Höfnum, frá árinu 1886 um komu hans í Kirkjuvogssel birtist í Rauðskinnu hinni nýrri árið 1971:

Kirkjuvogskirkja-201

“Frá því á yngri árum og fram yfir fimmtugsaldur fékkst eg oft við refadráp, einkum þó á haustum. Fór eg oft langt upp til heiða, þá er gott var veður, og leitaði tæfu uppi í greni sínu. Það er vandi tófunnar, að liggja inni í greninu á daginn, en fara á kreik milli sólarlags og dagseturs. Var legan því aldrei löng við grenið og liðu stundum ekki nema fáar mínútur frá því að umsátin byrjaði og þar til tófan kom út. Hins vegar voru fjörulegurnar þrautaverk, sem reyndi á þorifin; þá varð oft að liggja 4-6 klukkutíma í kólgugaddi, og mátti aldrei hreyfa sig hið minnsta, því að tófan hefir, eins og kunnugt er, afar skarpa heyrn og verður tortryggin við hvert hljóð, sem hún heyrir og kannast ekki við, eða á ekki von á.
Kirkjuvogssel-201Í desember 1886 fór eg einn dag upp til heiða á refaveiðar. Veður var tvísýnt, er eg lagði af stað, norðaustan stormur og þykkt loft. Þá er eg kom upp að svo nefndum Klofningum, sem er um það bil 1 1/2 tíma gangur frá Kirkjuvogi, hitti eg þar á greni, og  var tófa inni. Eg mjó mér þegar til skýli og lagðist fyrir. En um sama leyti gekk vindur til suðausturs með rokstormi, og  var þá orðið kafþykkt loft, svo að óðum dimmdi, því að ekki sást til tungls. Þá er eg hafði legið um þriðjung stundar var komin krapaslydda og myrkur. Stóð eg því upp og bjóst til heimferðar, og stefndi beint niður í Ósabotna, á svo nefnda Hunangshellu, en þaðan er góður hálftíma gangur með sjónum heim að Kirkjuvogi.
Kirkjuvogssel-202Þá er eg var búinn að ganga nokkurar mínútur, slitnaði skóþvengur minn; en þar eð komið var slagveður, tók eg skóinn í höndina, því að eg bjóst við að vera kominn alveg að svo nefndu Kirkjuvogsseli, en þar eru gamlar seltóftir; ætlaði eg að laga þar þveng minn í skjólinu. Eg kom og þangað eftir nokkurar mínútur. Eg fór inn í eina tóftina, þar sem skýli var sæmilegt, og fór að basla við að laga skóþvenginn og tókst það loks. En er eg var að binda skóinn, þá heyrist mér, sem sagt sé við eyrað á mér: “Ólafur!”

Kirkjuvogssel-201

Kirkjuvogssel – uppdráttur ÓSÁ.

Eg hélt, að þetta hefði verið misheyrn, og tók vettlingana mína og fór að vinda úr þeim. En þá er aftur kallað snöggt í eyra mér: “Ólafur!” Greip eg þá byssuna, spennti hana upp og sagði: “Hver er að kalla?” Eg fékk ekkert svar og heyrði ekkert annað en köll þessi.
Þó að eg yrði ekki hræddur við köllin, urðu þau þó til þess, að eg hljóp við fót undan veðrinu alla leið niður að Hunangshellu, og varð eg því miklu fljótari en ella.
En er eg var að koma að Hunangshellu, þá var því líkast, sem stór fuglahópur þyti við eyru mín, og á sama vetfangi rauk hann upp með afspyrnuveður af norðvestri og moldöskubyl. Var veðrið svo mikið, að eg ætlaði ekki að geta haldið mig að sjónum, og var það þó eina lífsvonin, og með fram flæðarmálinu rakti eg mig loksins heim. Engan efa tel eg á því, að hefði eg ekki heyrt koll þessi í selinu, sem svo mjög flýttu ferð minni, þá hefði eg orðið úti um nóttina.”

(Handrit Ólafs Ketilssonar)

Heimild:
-Jón Thorarensen – Köllin í Kirkjuvogsselinu, Rauðskinna hin nýrri (Reykjavík, 1971), I, 165-167.

Hafnir

Kirkjuvogur 1873.