Færslur

Alfaraleiðin

Nemar á Menntavísindasviði við Háskóla Íslands skrifuðu um “Reykjanesbrautina fyrr og nú” árið 2009:

Eiríksvegur

Eiríksvegur, vagnvegur, ofan Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd.

“Þegar rýnt er í sögu Reykjanesbrautarinnar, veg númer 41 í þjóðvegakerfi Vegagerðarinnar, er ljóst að hún er merkileg að mörgu leyti og hefur brautin gegnt mikilvægu hlutverki bæði fyrir íbúa Suðurnesja sem og aðra landsmenn. Hún markaði tímamót í sögu almenningssamgangna á Suðurnesjum þegar hún var lögð, síðar steypt og svo aftur þegar hún var tvöfölduð. Fyrstu skrefin í gerð hennar úr slóða í veg, sem hæfði öðru en hestvögnum, voru erfið m.a. vegna afstöðu ráðamanna og peningaskorts. Á þessum tíma bjó fólk jafnvel enn í torfkofum og fátækt var landlæg. En með þrjósku, baráttu og miklum vilja hafðist gerð Reykjanesbrautarinnar sem hefur svo breyst og þróast í áranna rás og óhætt er að segja að ástand hennar sé með besta móti í dag. Við munum fara yfir sögu hennar og skoða hvernig hún hefur breyst frá slóða í veg eins og hann lítur út í dag.

Slóðinn – Alfaraleið; Almenningsvegur; Stapagata

Alafarleið

Alfaraleiðin milli Hafnarfjarðar og Hvassahrauns.

Vegurinn suður á nes er ævaforn; mannsfætur og hestshófar höfðu meitlað hann í hraunið í gegnum árin og aldirnar. Árið 1861 tók hins vegar gildi tilskipun um vegi á Íslandi og var þar lagður grunnur að skipulegri vegagerð hérlendis; þjóðvegir skyldu vera 5 álna (um 3,14 m) breiðir, ruddir á fastlendi, hlaðnir á votlendi, með brúm á mýrum og yfir ár og læki (Bjarni Guðmarsson 1997a:24).
Svo er veginum lýst suður á nes í Sögu Keflavíkur en þá er átt við hina gömlu þjóðleið sem lá frá Innnesjum, þ.e. Hafnarfirði, til Útnesja, þ.e. Voga, Njarðvíkur, Keflavíkur, Hafna, Garðs og Sandgerðis.

Almenningsvegur

Almenningsvegur og aðrir vegir á Vatnsleysutrönd.

Vegurinn frá Hvaleyri í Hafnarfirði til Kúagerðis var nefndur Alfaraleið en vegurinn frá Kúagerði til Voga Almenningsvegur eða Menningsvegur. Síðasti hluti þessarar gömlu þjóðleiðar, þ.e. leiðin frá Vogum til Njarðvíkur, var nefnd Stapagata. Vegur þessi var vel varðaður og stutt á milli varða sem vísuðu ferðalöngum rétta leið. Á leiðinni, við Kúagerði, var afbragðs áningarstaður þar sem nóg var af góðu vatni í tjörninni. Einnig var þar stór og góður hagi í grenndinni (sbr. Ferlir). Myndin hér fyrir neðan sýnir hvernig þessa gamla þjóðleið lá en hún er merkt með gulu og síðan er brautin eins og hún er í dag merkt með gráu.

Almenningavegur

Almenningsvegurinn genginn.

Árið 1893 lagði Jens Pálsson alþingismaður og Útskálaprestur fram frumvarp til vegalaga sem tók gildi ári síðar. Þar var kveðið á um að flutningsbrautir skyldu lagðar um þéttbyggðustu héruð landsins sem auðveldaði yfirferð hestvagna sem nú voru teknir að ryðja sér til rúms á Íslandi. Þetta frumvarp hefði getað komið sér einkar vel fyrir þá sem bjuggu suður með sjó en því var ekki að heilsa. Á þessum árum voru strandsiglingar við lýði á Faxaflóasvæðinu og þótti það vera betri kostur fyrir íbúana þar og því kom ekki til álita að leggja veg. Á þessum tíma má kannski segja að barátta Suðurnesjamanna hafi byrjað en þeir voru að sjálfsögðu ekki ánægðir með þessa lyktan mála.

Stapagata

Gengin Stapagatan um Reiðskarð.

Það var síðan árið 1899 sem frumvarp um vagnfæran veg á milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur var lagt fram á þingi. Þá eins og endranær voru skiptar skoðanir um ágæti slíks vegar. Því var það ekki fyrr en árið 1903 að ákvörðun var tekin um að vegur skyldi lagður milli Hafnarfjarðar og Vogastapa (sbr. Bjarni Guðmarsson 1997a:25-26).
Það sést glöggt á eftirfarandi frásögn að menn urðu að beita öllum brögðum til að þessi akvegur yrði lagður:
Þegar Björn Kristjánsson var orðinn þingmaður Gullbringusýslu vildi hann láta gera akveg milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur. Þar var þá algerlega veglaust nema hestastígur, troðinn á þúsund árum. Þingmenn voru tregir að veita fé í þennan veg. Þá fékk Björn hesta handa öllum þingmönnum, sem áttu þá sæti í fjárveitinganefnd og bauð þeim í skemmtiför til Keflavíkur. En þegar nokkuð var komið út í hraunið dró úr ferðahug gestanna. Þeir óttuðust tjón lífs og lima, ef lengra væri haldið út í þessa ófæru. Þeir sneru við, en veittu fé til að gera veginn (Jónas Jónsson frá Hriflu 1955:5).

Suðurnesjavegurinn

Suðurnesjavegur

Suðurnesjavegur vestan Þorbjarnarstaða.

Framkvæmdir við akveginn, þ.e. Suðurnesjaveg, hófust síðan árið 1904 og var Sigurgeir Gíslason í Hafnarfirði verkstjóri þess. Vegagerðin hófst við sýslumannshúsið í Hafnarfirði og fyrsta árið var lagður um tveggja kílómetra langur spotti. Þremur kílómetrum var bætt við árið eftir og árið 1906 bættist enn við veginn eða um 2,5 km. Þá náði vegurinn loks að Hvassahrauni árið 1907. Árið 1908 náði vegurinn að Stóru-Vatnsleysu og ári seinna, eða um vorið 1909, var málið rætt á sýslunefndarfundi í Keflavík og þá var ákveðið að vegurinn skyldi ná alla leið til Keflavíkur. Vegakaflarnir mættust loks í Vogunum árið 1912 en vinnan Keflavíkurmegin hafði byrjað árið 1911.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði ofan Péturskots, skammt vestan kapellunnar.

Þá fyrst varð fært hestvögnum alla leið frá Reykjavík suður til Keflavíkur. Það er skemmtilegt að segja frá því að á sama tíma og karpað var um hestvagnaveg voru bifreiðar að ryðja sér rúms á Íslandi þannig að þessi vegur átti eftir að greiða leið þessarar nýju tækni. Árið 1913, þegar hestvagnavegur milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur var fullbúinn, tókst bifreið í fyrsta sinn að komast til Keflavíkur. Þar með urðu kaflaskil í samgöngumálum á Íslandi (sbr. Bjarni Guðmarsson 1997a:27, 25-30). Fyrsta bifreiðin, sem vitað er að fór þessa leið, var fyrsti Fordinn sem kom til Íslands þann 20. júní árið 1913 og fór hann leiðina til Keflavíkur þá um haustið (sbr. Guðlaugur Jónsson 1983:63 65).

Reykjanesbraut

Suðurnesjavegur – fyrsta bílferðin. Keilir í bakgrunni.

Fyrsta langferð þeirra félaga í bifreiðinni var til Keflavíkur, og kveðst Sveinn hafa valið þá leið fyrst, af því að honum hafði verið sagt að þar væri vegurinn einna bestur. Það reyndist og rétt vera að öðru leyti en því að krókar miklir voru á honum í hraununum og hættulegir ókunnugum vegfaranda á hraðskreiðu farartæki. […] Í þessari ferð var bifreiðin fullsetin, því að auk þeirra Sveins og Jóns Sigmundssonar voru þeir með í ferðinni, Björn, bróðir Sveins, Gísli Sveinsson, síðar sendiherra og Baldur Sveinsson, blaðamaður.

Keflavíkurvegur

Gamli og nýi Keflavíkurvegurinn hlið við hlið sestan Kúagerðis 1962.

Allt gekk vel suður eftir en er komið var á Vogastapa á heimleiðinni um kvöldið hætti vél bifreiðarinnar að ganga, höfðu leiðslur stíflast af hinni illa hreinsuðu brennsluolíu (Guðlaugur Jónsson 1983:65).

Samkvæmt frásögninni hér á undan er greinilegt að það var tímafrekt að aka þessa leið. Um haustið 1913, eftir að hvert hraðametið af öðru hafði verið slegið, tókst að fara þessa leið akandi á rétt innan við tveimur klukkustundum. Það þótti nokkuð gott miðað við að ferðalagið hafði áður tekið um átta til tólf klukkustundir (sbr. Bjarni Guðmarsson 1997b:46).

Keflavíkurvegur

Unnið við nýja Keflavíkurveginn.

Á myndinni hér fyrir ofan má sjá hvernig vegurinn leit út í þá daga. Hafði mikil vinna verið lögð í hann eins og hægt er að ímynda sér eftir um átta ára framkvæmdir.

Eftir að lagningu vegarins lauk tók við eilíf barátta um að halda veginum við en hann vildi grafast niður og verða ein klöpp. Það fór illa með bifreiðarnar sem um hann fóru enda var hann lagður fyrir hestvagna. Þó má segja að þá hafi grunnurinn verið lagður að veginum eins og við þekkjum hann í dag (sbr. Skúli Vigfússon 1956:18).

Keflavíkurvegurinn – steypti vegurinn

Keflavíkurvegur

Keflavíkurvegur – fyrsti Fordbíllinn hér á landi.

Keflvíkingar eru vaskir menn og djarfhuga. Nú ættu þeir að senda bíl eftir þingfulltrúa sínum og fjárveitinganefnd og aka með þá á þeim tíma dags, þegar umferð er mest og halda þessum framagestum síðan góða veizlu í höfuðborg Suðurnesja, en skora jafnframt á þá að sýna nú landsföðurslegt lundarlag og lofa að gera versta veg landsins öllum vegum betri með skynsamlegu átaki í nokkrar vikur (Jónas Jónsson frá Hriflu 1955:5).
Svo komst Jónas frá Hriflu að orði árið 1955 þegar til tals kom að nú þyrfti að gera almennilega við veginn margumrædda. Skúli Vigfússon atvinnubílstjóri á Suðurnesjum skrifaði síðan grein árið 1956 í Faxa, blað Suðurnesjamanna, þar sem hann gagnrýndi hvernig staðið væri að lagfæringum á Suðurnesjaveginum.

Keflavíkurvegur

Unnið við Keflavíkurveginn.

Árið 1942, þegar setuliðið flutti til Suðurnesja, var þess fyrsta verk, að lagfæra allan veginn frá Hafnarfirði til Keflavíkur. Þær endurbætur hófust með því, að vegurinn var allur breikkaður, en áður var þar hvergi hægt að mætast á stórum bílum, nema á útskotum, þar sem þau þá voru fyrir hendi. Eftir þessa miklu lagfæringu var borið ofan í allan veginn, og var þar sannarlega ekki klipið við nögl sér, ekki saltað í hann eins og við bílstjórar köllum ofaníburð Vegagerðar ríkisins hér á Suðurnesjum (Skúli Vigfússon 1956:18).

Keflavíkurvegur

Unnið við Keflavíkurveginn.

Á þessum árum buðust Bandaríkjamenn til þess að leggja til vélakost og liðsafla frá vegadeild hersins ef ríkisstjórnin kostaði lagfæringuna á veginum. Því miður varð aldrei neitt úr því að þiggja boðið og töldu menn það vera sökum þess að Íslendingar vildu ekki standa í þakkarskuld við Bandaríkjamenn. Svona flæktist stoltið fyrir mönnum í þá daga og eyðilagði það margar bifreiðarnar sem þarna ók um á þessum árum. Talið er að meðalaldur þeirra bifreiða, sem oft fóru um þennan veg, hafi verið um tvö ár en þá var viðhalds- og bensínkostnaður orðinn það mikill að það borgaði sig varla að gera við þá. (sbr. Skúli Vigfússon 1956:18).

Keflavíkurvegur

Keflavíkurvegurinn steyptur.

Háværar raddir um að leggja yrði nýjan veg með bundnu slitlagi tóku að fá hljómgrunn árið 1958 þegar vegamálastjóri kom fram með þá yfirlýsingu að með tilkomu sementsverksmiðjunnar á Akranesi yrði Suðurnesjavegurinn sennilega fyrstur til að verða steyptur (sbr. Faxi 1958). Í byrjun árs 1960 fór boltinn loks að rúlla eftir þessar yfirlýsingar vegamálastjóra. Það var svo í lok ársins 1960 sem framkvæmdir hófust við nýjan Suðurnesjaveg sem nú gengur undir nafninu Reykjanesbraut. Þá hafði Ingólfur Jónsson, þáverandi samgönguráðherra, skýrt frá framkvæmdunum sem fólu í sér að fyrst yrði steyptur 15 km kafli og seinna yrði lokið við afganginn af leiðinni sem yrði alls 37 km allt frá Engidal til Keflavíkur.

Keflavíkurvegur

Keflavíkurvegurinn steyptur (MWL).

Öllum undirbúningi undir steypu átti að vera lokið vorið 1965. Kostnaðurinn var áætlaður um 240 milljónir króna og gaman að segja frá því að fyrirhugað var að breikka veginn í framtíðinni sem átti þó ekki eftir að gerast í nánustu framtíð (sbr. Faxi 1964).
Eins og áður sagði hófust framkvæmdir við steypta veginn árið 1960. Þá um sumarið var mælt fyrir nýjum vegi og var ákveðið að hafa vegstæðið frá Hafnarfirði og suður fyrir Hvassahraun með tilliti til þess hvar flugvöllur gæti hugsanlega komið í framtíðinni. Á þessum tíma hafði vegurinn inn í Hafnarfjörð verið færður upp fyrir bæinn sökum mikillar umferðar sem lá í gegnum hann. En sú umferð var m.a. tilkomin vegna framkvæmda við Keflavíkurflugvöll. Það var svo föstudaginn 25. nóvember 1960 að Vegagerðin hóf framkvæmdir við undirbyggingu vegarins og stóðu þær framkvæmdir yfir þar til þeim lauk þann 26. október 1965 en þá var vegurinn formlega opnaður eftir um fimm ára vinnu.

Keflavíkurvegurinn

Keflavíkurvegurinn steyptur (MWL).

Vegagerðin sá um undirvinnuna til Kúagerðis en þegar þangað var komið tóku Íslenskir Aðalverktakar við og kláruðu undirvinnuna ásamt því að steypa veginn (sbr. Vegminjasafnið 1983).
Steypti vegurinn markaði ekki einungis tímamót í sögu Suðurnesjamanna heldur einnig í sögu vegagerðar á Íslandi því hann var fyrsti steypti vegurinn í þjóðvegakerfi landsins.
Flutningsgeta jókst gífurlega í kjölfarið og öll umferð bifreiða milli Suðurnesjanna og höfuðborgarsvæðisins varð miklu greiðfærari. Þetta olli einnig straumhvörfum í öllum samskiptum milli íbúa þessara svæða og átti sinn þátt í því að atvinnulífið á Suðurnesjum efldist þó nokkuð (sbr. Alþingi 1990).

Ingólfur Jónsson

Ingólfur Jónsson (1909-1984).

Steypti vegurinn var formlega opnaður þann 26. október árið 1965. Þeir sem fyrstir fóru um hann voru þáverandi vegamálastjóri og Ingólfur Jónsson samgönguráðherra á þeim tíma en þeir þurftu ekki að greiða vegatoll. Það var aftur á móti Valgeir Sighvatsson bifreiðarstjóri sem fékk miða nr. 1 þar sem hann var í áætlunarferð á rútubifreið sem hann ók. Valgeir sagði að mikil bylting hafi orðið að fá þennan veg þar sem áður hafi tekið um tvær stundir að aka frá Reykjavík til Keflavíkur (sbr. Valgeir Sighvatsson 2009). Valgeir kemur svo aftur við sögu Reykjanesbrautarinnar síðar.
Þegar vegurinn var tekinn í notkun var öllu millilandaflugi beint til Keflavíkurflugvallar með tilheyrandi aukinni umferð.

Framkvæmdin við Suðurnesjaveginn var viðamikil og efnisfrek.

Reykjanesbraut

Reykjanesbraut ofan Straums 2020.

Samkvæmt upplýsingum frá vegamálastjóra er Suðurnesjavegur byggður samkv. þýzkum stöðlum um fyrsta flokks þjóðvegi. Lega hans í hæð og fleti er reiknuð fyrir 100 km. á klst. Akbrautin er 7,5 m. breið og tveggja metra breiðir vegbakkar hvorum megin hennar. Í undirbyggingu vegarins hafa verið notaðir um 1.500.000 rúmmetrar af fyllingarefni og spprengdar [sic] hafa verið úr vegarstæðinu 55.000 rúmmetrar af klöpp og fjarlægðir 200.000 rúmmetrar af moldarjarðvegi, 32.785 metrar af akbrautinni er úr 22 cm. þykkri steinsteypu og í hana hafa farið 55.200 rúmmetrar af steypu og 160 tonn af steypustyrktarjárni. 3.780 km. af akbrautinni er úr malbiki, 9 cm. þykku, nema stuttur tilraunakafli, þar sem malbikið er 5 cm. Í þennan hluta akbrautarinnar hafa farið 5.650 tonn af malbiki með 400 tonnum af asfalti (Faxi 1965:146).

Gjaldskylda

Reykjanesbraut

Keflavíkurvegurinn – gjaldskýli ofan Straums.

Kostnaður við slíkar vegaframkvæmdir er umtalsverður og því þurfti að leita leiða til að afla fjár til verksins. Ákvörðun um að setja upp tollskúr var tekin þar sem ökumenn skyldu greiða sérstakt gjald aðra leiðina til að mega aka veginn. Sú ákvörðun átti eftir að skapa mikla óánægju meðal fólks, sér í lagi meðal Suðurnesjamanna, og upp hófust mikil blaðaskrif um málið. Fólk var mjög undrandi yfir því að slíkt gjald skyldi aðeins lagt á þennan eina veg og taldi það vera mismunun þar sem að þetta þekktist hvergi annars staðar á landinu. Vegatollur þessi var notaður til að borga lánið sem tekið hafði verið til að gera veginn.

Krýsuvíkurvegur

Gamli Krýsuvíkurvegurinn við Reykjanesbraut í Hafnarfirði.

Vegaframkvæmdir voru yfirleitt kostaðar með framlagi ríkissjóðs (Ingvar Guðmundsson 1965:193-197). Sagan segir að margur hafi ekið Krýsuvíkurleiðina til að sleppa við að greiða gjaldið en það þótti afar hátt í þá daga.
Tollur þessi var við lýði frá árinu 1965 til loka ársins 1972 en þann 31. desember það sama ár var innheimtu umferðargjalds hætt (sbr. Vegminjasafnið1983).

Tvöföldun Reykjanesbrautarinnar

Reykjanesbraut

Reykjanesbraut tvöfölduð ofan Lónakots.

Umferð um Reykjanesbrautina hefur aukist jafnt og þétt í gegnum tíðina og því miður með aukinni slysatíðni. Augljósar úrbætur voru að aðskilja akstursstefnur til að draga úr slysum.
Tillaga til þingsályktunar á Alþingi um tvöföldun Reykjanesbrautarinnar var fyrst flutt af Kolbrúnu Jónsdóttur og Júlíusi Sólnes á þinginu árið 1987 til 1988. Þar kom meðal annars fram að Reykjanesbrautin í þáverandi mynd fullnægði engan veginn þeim kröfum sem gerðar voru til höfuðsamgönguæðar milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins. Vegagerðin taldi ekki nauðsynlegt að aðskilja aksturstefnur fyrr en umferðarþunginn næði 8.000-10.000 bifreiðum á sólarhring. Umferðin á Reykjanesbrautinni hafði aukist jafnt og þétt og fjöldi bifreiða sem um hana óku náði yfir 8000 bifreiðum á sólarhring í september 1988. Þrátt fyrir það fékk sú umræða engan hljómgrunn í það skiptið (sbr. Alþingi 1990).

Reykjanesbraut

Reykjanesbraut – tvöföldun vestan Hafnarfjarðar.

Lagning fullkominnar hraðbrautar með aðskildum akstursstefnum þótti mörgum jafn nauðsynlegt og það var að leggja veg með bundnu slitlagi á milli Keflavíkur og Reykjavíkur áður. Í janúar 1992 bárust samgönguráðherra áskoranir frá um fjögur þúsund manns um nákvæma athugun á hugmynd nokkurra aðila um tvöföldun Reykjanesbrautar. Á árunum 1987–1992 voru þingsályktunartillögur, um tvöföldun Reykjanesbrautar frá Hafnarfirði að Flugstöð Leifs Eiríkssonar, fluttar sex sinnum á Alþingi (sbr. Alþingi 1992). Á meðan umferðarþunginn jókst ár frá ári og þrátt fyrir tíð umferðarslys var lítið aðhafst.”

Nú er unnið að tvöföldun á síðasta Reykjanesbrautar millum Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar, þ.e. frá gatamótum Krýsuvíkurvegar og Hvassahraun. Framkvæmdunum á að vera lokið snemmsumars 2026.

Heimild:
-Reykjanesbrautin fyrr og nú – Birgitta María Vilbergsdóttir, Elín Ólafsdóttir og Karl Einar Óskarsson, Háskóli Íslands 2009.

Reykjanesbraut

Reykjanesbraut tvöfölduð ofan Straums.

Junkaragerði

Gengið var um Junkaragerði í Höfnum sunnan Skiptivíkur, skoðaðar tóftir Sólheima og Traðarhúss, auk Kalmanstjarnar, sem brann ekki alls fyrir löngu. Annars eru Junkaragerðin tvö á Suðurnesjum; annars vegar þessi í Höfnum og hins vegar ofan og vestan við Stórubót í Grindavík. Hér verður á göngunnu m.a. rifjaðar upp sagnir og þjóðsögur úr Junkaragerðinu í Höfnum.

Junkaragerði

Gamla Junkeragerði.

Sagt er að bærinn heiti eftir 12-18 erlendum mönnum sem þar áttu að hafa búið og kallaðir voru junkarar. Voru þeir taldir ölkærir, karlmenni mikil en óeirðarmenn um kvennafar. Vildu landsmenn koma þeim af höndum sér og nótt eina söguðu þeir næstur sundur nefjur (ræðin) á hástokkum báts þeirra. Reru junkarar svo fyrir dag en er líða tók á morgun gerði hvassan vind og hrukku nefjurnar í sundur. En ekki náðist tilætlaður árangur því að junkarar reru við hné sér og björguðu sér þannig í land. Næst leystu menn skautana af árunum, söguðu þeir meir en til miðs og negldu skautana aftur svo að ekki sáust verksummerki. Nokkru síðar reru junkarar, gerði þá andvirði mikið og brotnuðu árarnar hver af annari. Spurðist ekki til þeirra síðan.

Kalmannstjörn

Kalmannstjörn – brunnur.

Sagnir af Galdra-Jóni eru tengdar Junkaragerði í Höfnum. Bærinn var var fyrrum hjáleiga frá Kalmanstjörn og hefur verið búið þar samfleytt í margar aldir. Var það eitt með elstu býlum í Höfnum. Jón Þórðarson í Junkaragerði varð fullra 70 ára, dó líklega 1819. Hann var gáfaður en dulur og harður í horn að taka. Sem unglingur flæktist hann með kaupfari til Noregs og komst alla leið norður til Finnmerkur og dvaldist þar eitt eða tvö ár og var það mál gamalla manna að Jón hefði numið fræði sín hjá Finnum.

Sögurnar af Jóni voru á hvers manns vörum í gamla daga. Með afbrigðum var Jón sagður mikill aflamaður til sjávarins og þótti það ekki einleikið hve drjúg var stundum kösin á skiptivellinum. Þá er hásetar Jóns fóru að gera að afla sínum, var það álit þeirra allra að fiskurinn væri stundum miklu meiri en þeim hafði virst hann vera í skipinu.

Kalmannstjörn

Kalmannstjörn.

Jón var hinn mesti hófsemdarmaður í hvívetna. Neytti hann aldrei víns nema á hátíðum, og aldrei gaf hann hásetum sínum í staupinu eða út í kaffið, sem kallað var; en það var þó algengur siður í Höfnum, að húsbændur gáfu hjúum og hásetum vel í kaffið, er vel fiskaðist eða mikið var að gera í landi, og var þá unnið með brennivínskrafti, sem kallað var.
Eitt sinn svaraði Jón gamli því til er hann var spurður hvaðan hann hafi fengið brennivín það er ölvaði hann. Jón gamli hló við og sagði:
Kalmannstjörn“Keflavíkurkaupmennirnir sjúga blóðið úr Suðurnesjabændunum, en ég sýg brennivínið úr beykikoppum þeirra í staðinn.”
Jón Þórðarson var smiður góður, en mest fékkst hann þó við járnsmíðar. En þó að hann væri alla daga í smiðjunni, þá þurfti hann aldrei að kaupa kol. Sótti hann þau árlega á hestum suður á Reykjanes, en hvernig sem reynt var að njósna um ferðir Jóns, er hann fór í þessar kolaferðir, þá tókst mönnum aldrei að rekja slóð hans þrátt fyrir það, þótt öll leiðin sé ægisandur einn.

Gömlu-Hafnir

Hafnarsandur – Herforingjaráðskort 1903.

Vissu menn aldrei um þessar ferðir Jóns, fyrr en hann var kominn aftur með kolin. Er það óyggjandi sannleikur, að karlinn sótti kolin á Reykjanes, og voru margir menn í Höfnum, er sáu kolin hjá Jóni.

Meðal þeirra var Brandur Guðmundsson í Kirkjuvogi, sem sagði að hann hefði oftar en einu sinni séð kolin hjá Jóni. Sagði Brandur, að þetta hefðu verið falleg steinkol, en aldrei gat hann fremur en aðrir fengið það upp úr Jóni, hvar á Reykjanesi kolin væru að finna. Þó var það eitt sinn, að bóndanum á Kalmanstjörn tóks að gjöra Jón gamla vínhreifan um jólin, og var þá ekki dregið úr hömlu að reyna að veiða karlinn, en þó að karl væri kenndur, varðist hann allra frétta, en sagði þó svo að lokum, að ekki þyrfti að leita langt frá Sýrfelli. Annað hafðist aldrei upp úr Jóni gamla um kolin á Reykjanesi.

Junkaragerði

Sólheimar, Junkaragerði, Traðarhús og Kalmannstjörn fyrir sunnan Hafnir. Séð til norðausturs.

Fyrir austan bæinn Junkaragerði er hæð sú, er nefnist Stóri-Dilkur. Hæð þessi er gróðurlaus á alla vegu, há og glögg frá umhverfinu af sjó að sjá.

Í gamla daga bjó einhverju sinni í Junkaragerði bóndi sá er Eyvindur hét. Hann var vænn yfirlitum, mikill að vexti og burðum og fáskiptinn um hag annarra. Hann var ókvæntur er saga þessi gerðist og stundaði sjó sumar og vetur og græddist fé. Hann var talinn hafa draumkonu, er varaði hann við veðrum og þóttust hjú hans hafa séð hana hverfa stundum frá svefnstofu hans á nóttum. Fór það þá stundum þannig að búsýsla hans og sjósókn varð mjög næturblendin.

Junkaragerði

Junkaragerði – uppdráttur ÓSÁ.

Eitt sinn er Eyvindur leitaði til Dilksins. Sá hann þá bygging er hann gat eigi lýst. Var það líkast mörgum húsum er stóðu í röðum hvert aftur af öðru, og æ hærra, er aftar dró. Það næsta og mesta var opið og bjart þar inni. Þar stóð bláklædd og fögur kona. Var hálsmál hennar, ermar og faldur bryddað rauðum borðum. Hún bauð Eyvind velkominn og leiddi hann inn í stóran sal. Þar voru rósofnir stólar með háum bökum og drekahöfðum til hliða en úr loftinu héngu skálar í löngum festum og loguðu ljós í hring á börmunum. Alls staðar bar skraut fyrir augað en umhverfis ríkti annarlegur blær sem eins og eyddi öllum hávaða.
Álfkona reyndi að freysta hans, en allt kom fyrir ekki. Eyvindur þóttist þá ætla að grípa til hennar, en við það sortnaði honum fyrir augum og áköf suða greip eyru hans en þegar það hvarf, stóð hann utan í Dilkinum og við það hraðaði hann sér sem mest hann mátti heim til bæjar.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varða við gömlu þjóðleiðina. Junkaragerði framundan.

Eftir þessa nótt var Eyvindi brugðið. Hann festi eigi hugann við neitt og allt fór úrhendis í búskap hans. Oft lagði hann leiðir sínar til Dilksins, en allt kom það fyrir ekki. Þá var það vetrarkvöld eitt árið eftir að Eyvindur kom heim neðan frá naustum og lagði sig. Jafnskjótt og hann gleymdi sér, dreymdi hann að aldraður maður kæmi að rúmi hans og mælti:
“Illa ferst dóttur minni við þig er hún hefir gert þig afhuga öllu öðru en sér en læsir þó jafnframt fyrir þér bústað sínum. Skaltu nú minnast þess að sjáir þú eitthvað óvenjulegt á himninum í vetur, skalt þú þann sama dag, seint að kvöldi, ganga til Dilksins og mun ég þá greiða þar fyrir þér.”

Junkaragerði

Junkaragerði – Dilkurinn.

Leið svo tíminn fram yfir Kyndilmessu. Þetta kvöld á vökunni brá Eyvindur sér út en kom ekki aftur. Var hans leitað oft og lengi en aldrei fannst hann né kom fram eftir þetta og var það hald manna að hann hefði náð til álfkonunnar í Dilkinum og hún tekið hann í fulla sátt. Nokkrum vikum seinna bar svo við, er komið var út í skemmu Eyvindar að þar var veizlumatur mikill er enginn kannaðist við og var það álitin sending úr brúðkaupi hans til hjúa sinna. En lengi var það svo í Junkaragerði að rifjuð var upp sagan um Eyvind og hvarf hans í bústaði álfanna í Stóra-Dilkinum.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Ahugaverdir_stadir/Junkaragerdi/
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=231
-http://www.leoemm.com/hafnahreppur.htm

Junkaragerði

Junkaragerði – loftmynd.

Merkines
Gengið var til suðurs upp á Hafnasand frá bátagörðunum austan við Merkines með það fyrir augum að reyna að finna þar gamlar hlaðnar refagildrur.
Merkines

Varða ofan Merkiness.

Eftir u.þ.b. fimm mínútna göngu var komið að hárri vörðu með klofi, líkt og “Stúlkur” vestan gömlu Hafna. Hún var í línu í vörðu ofan við Merkinesvörina austari. Varðan var greinlega hlaðin upp úr annarri. Fótur hennar, mun stærri og hringlaga, sást enn. Austan hennar var hlaðið byrgi refaskyttu. Það var greinilega hlaðið úr eldra mannvirki, sporöskjulaga gerði. Norðan þess var gamalt gerði eða jafnvel stekkur með leiðigarði. Gæti einnig hafa verið rúningsrétt. Ekki var að sjá að mótaði fyrir öðrum mannvirkjum þarna. Ekki er minnst á þessar mannvistarleifar í örnefnalýsingum. Þær voru rissaðar upp og GPS-punktar teknir.

Merkines

Merkines – gerði.

Gengið var vestur yfir sandinn og kíkt á og utan í alla hóla á leiðinni. Oft sást móta fyrir gömlum föllnum hleðslum, sem bæði gátu hafa verið refagildrur eða vörður. Ljóst er að landið þarna hefur tekið miklum breytingum frá fyrri tíð. Vörðulína á hraunhólum sást liggja til suðurs uppi á sandinum, frá Höfnum áleiðis að Sandfellshæð.
Við landamerki Kalmanstjarnar sáust vörður í línu frá Prestastígnum í átt að Merkinesi. Einungis var um vörðubrot að ræða, sumstaðar veruleg, utan í hraunhólum. Vörðunum var fylgt áleiðis að Merkinesi. Önnur vörðuð leið lá norðan þjóðvegarins til vesturs. Mótaði fyrir henni milli varða og vörðubrota. Sennilega er þar um að ræða götu á milli bæjanna Kalmanstjarnar (Junkaragerðis) og Merkiness. Heil varða var við götuna ofan við gróinn hól á sjávarkambinum (kemur við sögu síðar).

Merkines

Merkines – tóft.

Neðan hans er Skiptivík, en inn í hana rak m.a. skipshöfn af árabát, sem lengi hafði verið í hafvillum á fyrri hluta 20. aldar. Segir af sjóferð þeirri í Rauðskinnu. Var áhöfnin talin af og m.a. verið haldin skyggnilýsingarfundur að Merkinesi sem og minningarathöfn um áhöfnina áður en hana bar þar að landi – sæmilega lifandi. Kokkurinn hafði verið kenndur við brugggerð, sem hafði komið sér að góðum notum í volkinu því hann kunni þess vegna að eima vatn úr sjó og gat þannig haldið lífi í bátsverjum.
Á hólnum ofan við Skiptivík er varða, sem fyrr er nefnd. Við hólinn er t.d. kennd ástarsaga vel metinnar bóndadóttur nokkurrrar og óbreytts vinnumanns, annars vegar í Höfnum og hins vegar að Kalmanstjörn, en þeim var meinað að eigast sökum stéttarmunar. Hittust þau þó jafnan við hólinn og áttu þar með sér góðar stundir.

Merkines

Merkines – varða á hól.

Götunni var fylgt að görðunum vestan við Merkines. Þar var fyrst fyrir gamall vörslugarður, sem grjót hafði verið hirt úr. Lá hann efst við bæjartúnin frá vestri til austurs. Þegar komið var inn á túnið sást brunnur þar undir hól. Þar mun Merkinesbrunnurinn vera. Hann er brotinn niður í klöppina. Gætir þar sjávarfalla líkt og í svo mörgum öðrum brunnum á Reykjanesi.
Tekið var hús á ábúandanum, Bjarna Marteinssyni, en hann ólst upp að Merkinesi ásamt Viljhálmi Vilhjálmssyni, þeim síðar ástsæla sögnvara. Afi Bjarna var Guðmundur Sigvaldason, bóndi á Merkisteini. Þá bjó Vilhjálmur Hinrik í Merkinesi. Bjarni brást vel við og leiðbeindi þátttakendum um heimasvæðið.

Bjarni sagði tvíbýlt hafa verið fyrrum á Merkinesi; annars vegar Merkines (Vesturbær) og hins vegar Merkisteinn (Austurbær). Kotbýlið Bjarg hafi verið ofar, en húsið (timburhús) hafi verið rifið að hluta og grindin ásamt öðru borin út í Hafnir og síðan áfram til Keflavíkur.

Merkines

Merkinesbrunnur.

Túnflötin austan Merkisteins var nefnd Sigla. Sérhver blettur, hóll og lægð hétu eitthvað í þá gömlu daga. Annars hefði landslag túnanna og umhverfisins mest mótast af sandinum, sem fauk ofan af Hafnasandi, en gréri síðan upp. Mikill munur væri á gróðri nú og þá var, á ekki lengri tíma. Til dæmis væri krækiberjalyng nú svo til við bæjardyrnar, en áður þurftu börnin að fara langan veg upp í heiði tl berja. Vel má sjá þess merki umbreytinganna við hina mörgu fallega hlöðnu garða, sem þarna eru. Þar hefur sandurinn fokið að görðunum innanverðum.
Gengið var að sjóbúð vestast í túninu. Bjarni sagði mannhæðaháa garða hafa verið þarna áður fyrr, en sjórinn hefði brotið þá niður að mestu. Þó má enn sjá móta fyrir hluta þeirra. Sjóbúðin stendur enn heilleg og er ágætt minnismerki hins liðna. Bjarni sagði ömmu hans hafa unnið við salfiskverkun í búðinni. Hún hafi látist við þá vinnu er hún var að bera fisk á þurrkvöllinn vestan búðarinnar.

Merkines

Möngutóft.

Þá var gengið að stórfallegum brunni, er getið er í örnefnalýsingum, ofar í túninu. Gengið er ofan í brunninn á þrepum. Hann er u.þ.b. tveggja mannhæða hár og fallega hlaðinn. Bjarni taldi brunninn ævagamlan og hans væri getið í gömlum heimildum. Mundi hann eftir því að byggt var þak yfir brunninn og á því voru á því dyr og skjár. Kristján Eldjárn hafi eitt sinn komið að Merkinesi, m.a. til að kíkja á brunninn. Er hann líkur Írskrabrunni á Snæfellsnesi.

Merkines

Verkunarhús.

Á hól vestan við brunninn er tóft útihúss. Skammt frá henni er álfhóll, sem aldrei mátti hrófla við. Bjarni sagði Hinrik eitt sinn hafa hringt í hann til Reykjavíkur og beðið hann um að koma í hvelli og fjarlægja herfi, sem hann hafði skilið eftir á hólnum, því annars kynni eitthvað slæmt henda. Skömmu síðar gerði mikið flóð svo flæddi í bæinn. Vildi fólk tengja það herfinu á hólnum.

Merkines

Vörin – Bjarni Marteinsson.

Austar er aðalvörin til seinni tíma. Ofan við hana er forn tóft og vestan hennar eru beitninga- og verkunarhúsin (steypt að hluta). Bjarni sagðist einungis muna eftir tóftinni óyfirbyggðri eins og hún er nú. Margar minningar væru hins vegar tengdar verkunarhúsunum. Hinrik hafi m.a. notað þau til bátasmíða og þangað hafi hauslaust lík, sem rak upp í vörina, verið borið eftir fundinn. Jafnan hafi húsin þótt draugaleg, a.m.k. í hugum barnanna á bæjunum. Tóku þau stundum á sig stóran krók eftir að dimma tók til að þurfa ekki að fara nálægt þeim. Bjarni rifjaði upp sögu af því að álagasteinn hafði verið fjarlægður af hól þeim, sem hlaðið byrgi stendur á norðvestan við bæjarhúsin. Fljótlega eftir það hafi orðið hvert mannslátið eftir annað í fjölskyldunni. Var það talið hafa tengst tilfærslu steinsins. Afi hans hafði sagt að mikilvægt væri að viðhalda byrginu, en það væri nú farið að láta verulega á sjá.

Merkines

Merkines.

Við vörina var steyptur varnargarður og hlaðin bryggja, en sjórinn er nú búinn að brjóta hvortveggja niður. Þó má sjá móta fyrir hvorutveggju ef vel er að gáð.
Við gamla garðinn var nýrekinn rekaviðardrumbur. Á honum héngu sérkennilega, en fallegar, skeljar. Bjarni sagðist telja að um svonefnt “helsingjanef” væri að ræða, en það hafi verið trú manna að helsingjar, sem enginn vissu hvaðan kæmu, ættu þar uppruna sinn (gömul þjóðsaga).

Merkines

Merkines (Steinunn Marteinsdóttir).

Drumburinn væri nýrekinn. Víst er að skeljarnar voru fallegar á að líta – og virtust lifandi er þær voru ausnar sjó. Þær héngu á einhvers konar sogarmi, en út úr þeim komu einhvers konar klær – áhrifaríkt.

Bjarni sagði allar vörður á svæðinu hafa haft einhverja þýðingu, ýmist sem mið eða leiðarvörður. Gæti hann nefnt mörg dæmi þess efnis. M.a. væri sagt frá mörgum þeirra í Rauðskinnu. Austar með ströndinni er Hlein, skerjarani, á landamerkum Merkiness. Ofan við Hlein er Mönguhola, lægð í strandbrúnina (sjá aðra FERLIRslýsingu).

Merkines

Merkines – uppdráttur ÓSÁ.

Göngunni lauk við bátagarðinn. Bjarni sagði bátana hafa verið tekna upp úr vörinni og borna inn fyrir garðinn þar sem þeir voru jafnan hafðir í skjóli um veturinn.
Austar eru tóftir af fjárhúsi, sem enn stóð er Bjarni var að alast þarna upp, fyrrum verbúð, en norðan við garðinn eru matjurtargarðar.
Handan við heimtröðina að vestanverðu, utan í svonefndum Bratt, voru miklir rófugarðar á árum áður. Rófurnar hafi m.a. verið seldar beint til kaupenda í bænum.
Bjarna var þökkuð leiðsögnin. Ákveðið var að FERLIR kæmi fjótlega aftur að Merkinesi með það fyrir augum að rissa upp minjasvæðið, en það mun ekki hafa verið gert áður. Ljóst er að þarna eru margar merkilegar minjar, auk þess sem halda þarf örnefnunum til haga svo sem kostur er.
Frábært veður – stilla og hiti. Gangan tók 3 klst og 3 mín – í rólegheitum.

Merkines

Varða og byrgi refaskyttu ofan Merkiness.

Kotvogur

Gengið var um Ósa, Kirkjuvog og Kotvog, yfir að Merkinesi og Junkaragerði.

Hunangshella

Hunangshella.

Gangan byrjaði á Þrívörðuhæð ofan við Ósa, eða Kirkjuvog en svo nefnist fjörðurinn sem talinn er hafa myndst vegna landsigs. Gömlu leiðinni til Hafna var fylgt að þorpinu. Vísbendingar um það er að minnst er á 50 kúa flæðiengi, sem lægi undir jörðina Vog sem var norðan Ósa, í Vilkinsmáldaga frá 1397. Ósar eru eitt af náttúruverndarsvæðum landsins. Þar er óvenjuleg fjölbreytni í lífríki fjöruborðsins auk fuglalífs. Næst veginum er vík sem nefnist Ósabotn. Hún liggur á milli Þjófhellistanga að vestanverðu og Steinboga sem er lítill klettatangi að austanverðu. Spölkorni lengra er Hunangshella, klöpp norðvestan vegarins. Á henni er vörðubrot.

Hafnarvegur

Hafnarvegur.

Gamall niðurgrafinn vegur í Hafnir lá í gegn um skarð sem er í klöppinni – nú grasi gróið. Sjálf Hunangshellan er stærri hluti klapparinnar sjávarmegin, nokkuð löng klöpp sem hallar móti norðvestri. Á háflóði eru 25-30 metrar á milli Hunangshellu og sjávarborðs. Þjóðsagan segir að á þessum stað hafi skrímsli legið fyrir ferðamönnum í myrku skammdeginu og gert þeim ýmsa skráveifu. En þessi meinvættur var svo vör um sig að engin leið reyndist að komast í færi til að vinna á henni – ekki fyrr en einhverjum hugkvæmdist að smyrja hunangi á klöppina. Á meðan dýrið sleikti hunangið skreið maður með byssu að því og komst í skotfæri. Sagt er að hann hafi til öryggis rennt þrísigndum silfurhnappi í hlaup framhlaðningsins en fyrir slíku skoti stenst ekkert, hvorki þessa heims né annars.

Hafnir

Teigur.

Komið var að gamalli heimreið. Á hægri hönd er eins konar steyptur strompur. Það mun vera það eina sem eftir er af mannvirkjum býlis sem hét Teigur og er reyndar ekki strompur heldur gömul undirstaða vindrafstöðvar sem framleiddi rafmagn fyrir loðdýra- og síðar svínabú sem þar var sett á stofn snemma á 6. áratug síðustu aldar. Það var rekið fram á síðari hluta 8. áratugarins og mun hafa verið eitt fyrsta stóra svínabú landsins og sem slíkt merkilegur áfangi í nútímaiðnvæðingu landsins en fóðrið var matarúrgangar frá mötuneytum í herstöðinni á Vellinum (en með honum streymdu hnífapör og annað dót í Hafnir). Bóndinn í Teigi hét Guðmundur Sveinbjörnsson, var frá Teigi í Fljótshlíð, lærður skósmiður og hafði rekið skósmíðastofu í Reykjavík þegar hann setti upp búið í Teigi.

Kotvogur

FERLIRsfélagar á ferð í Höfnum.

Komið var í Kirkjuvogshverfi, sem nú nefnast Hafnir í daglegu tali, en þar hafa búið 80-120 manns sl. 2 áratugi. Fyrr á öldum voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins en þær eru samheiti fyrir 3 hverfi (lendingar), þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvog. Nú er byggðin öll í gamla Kirkjuvogshverfinu auk íbúðarhúss í Merkinesi og í Junkaragerði.

Á 19. öld var Kotvogur í Höfnum eitt stærsta býli landsins. Þar bjuggu m.a. 3 forríkir útvegsbændur mann fram af manni, þeir hétu allir Ketill og eru oftast nefndir Katlarnir þrír. Annað stórbýli var Kirkjuvogur í Höfnum þar sem búið hafa margir höfðingjar.

Hafnir

Í Kotvogi.

Á 19. öldinni bjó í Kirkjuvogi dannebrogsmaðurinn Wilhjálmur (Chr(istinn) Hákonarson (1812-1871), en þannig er nafn hans stafað á leiði hans í Kirkjuvogskirkjugarði. Vilhjálmur átti 2 dætur. Önnur þeirra hét Anna. Heimiliskennari í Kirkjuvogi var þá ungur menntamaður, Oddur V. Gíslason, og felldu þau Anna hugi saman. Þegar ungi maðurinn bað um hönd dótturinnar brást faðir hennar hinn versti við og þvertók fyrir ráðahaginn. Afleiðingin varð eitt frægasta og æsilegasta brúðarrán Íslandssögunnar. Sættir tókust þó síðar. Oddur varð prestur í Grindavík við mikinn orðstír og var m.a. upphafsmaður að sjóslysavörnum á Íslandi. Af honum er mikil saga sem endar í Bandaríkjunum.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja – Jón Helgason 1920.

Vilhjálmur Kr. Hákonarson reisti þá kirkju sem nú stendur í Höfnum. Hún er úr timbri og var vígð árið 1861. Vilhjálmur lést 10 árum seinna 59 ára að aldri. Ekkert er eftir af Kirkjuvogsbænum en kirkjan stendur nánast á bæjarhlaðinu enda nefnist hún Kirkjuvogskirkja og sóknin Kirkjuvogssókn. Ketill Ketilsson (1823-1902) dannebrogsmaður og útvegsbóndi í Kotvogi, stundum nefndur Mið-Ketill vegna þess að hann tók við búi af föður sínum og Ketill sonur hans tók svo við búi af honum, hefur ekki viljað vera minni maður en Vilhjálmur í Kirkjuvogi og byggði kirkju úr timbri á Hvalsnesi í Miðneshreppi, en þá jörð átti hann. Kirkjuna lét hann síðar rífa og byggja aðra stærri og íburðarmeiri úr tilhöggnu grjóti. Sú kirkja var vígð 1887 og stendur enn.

Hafnir

Við Kotvog.

Sem dæmi um stærð Kotvogs á dögum Mið-Ketils á 19. öld má nefna að þá var bærinn alls 16 hús og mörg þeirra stór, 38 hurðir á lömum og 72 í heimili á vertíðinni. Bærinn í Kotvogi var enn reisulegur og stór um aldamótin 1899/1900. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið og fórst þrennt í brunanum. Pakkhús úr timbri var austast og fjærst eldinum og skemmdist því ekki . Því var breytt í íbúðarhús og notað sem slíkt til 1984. Það stendur enn ásamt nokkrum útihúsum en allt er það illa farið og ekki svipur hjá sjón (stendur á kampinum strax vestan við fyrrum Sæfiskasafnið). Stór grasi vaxinn hóll rétt hjá Kotvogi hægra megin götunnar þegar horft er í vestur nefnist Virkishóll.

Kirkjuvogur

Kirkjuvogshreppur – herforningaráðskort 1903.

Gamli Hafnahreppur var stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum mælt í ferkílómetrum – víðáttumikil hraunúfin flatneskja og sandflæmi að stórum hluta. Nyrðri hluti landsins er nokkuð gróið hraun en syðri hlutinn eldbrunnið, uppblásið og hrikalegt svæði. Strandlengjan er einn stærsti skipalegstaður landsins, hrikalegir klettar, sker og boðar þar sem þung úthafsaldan myndar oft tilkomumikið og rosalegt brim.
Á sl. 25 árum hefur hraunið ofan við Hafnir tekið stakkaskiptum vegna aukins grasvaxtar sem er árangur landgræðslu sem stunduð hefur verið með flugvélum á Reykjanesskaganum auk þess sem sáð hefur verið í vegkanta af starfsmönnum Vegagerðar ríkisins. Í hrauninu upp af Ósum má enn sjá leifar landgræðslugirðingar sem mun hafa verið lokið við um 1939 en hún skipti Reykjanesskaganum í 2 svæði. Girðingin lá eftir hrauninu og niður í Merkinesvör og hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma. Sunnan hennar var sauðfé bannað. Síðar var svæðið stækkað með því að sett var horn á girðinguna uppi í hrauninu og girt norður að Ósum og sá hluti girðingarinnar sem lá fram í sjó að vestanverðu var lagður niður.

Merkines

Gengið að Merkinesi.

Mikið og fjölbreytt fuglalíf er í hrauninu, m.a. talsvert af rjúpu í góðum árum, talsvert af kjóa og einstaka smyrill. Nokkuð er um æðarfugl við Ósa en æðarvarp er ekki svipur hjá sjón eftir að minnkurinn kom á svæðið. Mikið er um sjófugl og mest byggð í Hafnabergi og Eldey. Hafnir eru eitt af mestu veðravítum landsins og þar er sjaldan logn. Hvöss austanátt með rigningu getur staðið svo dögum og vikum skiptir, einkum á haustin og eirir engu sökum vindálags. Oft bresta stórviðri á fyrirvaralaust eins og hendi sé veifað. Mest og hættulegust veður nefna Hafnamenn ,,aftakastórveltu af suðvestri” (í einni slíkri eyðulögðust tún að vestanverðu í Kirkjuvogshverfi og í Merkinesi). Hríðarbyljir og skafrenningur eru algengir að vetri – snjói á annað borð.

Merkines

Merkinesburnnur.

Eftir nokkra göngu vestur með ströndinni var komið að Merkinesi. Í Merkinesi bjó síðast (Vilhjálmur) Hinrik Ívarsson ásamt eiginkonu sinni Hólmfríði Oddsdóttur. Hinrik í Merkinesi var fyrrverandi hreppstjóri Hafnahrepps, þekktur sjósóknari, refaskytta, báta- og húsasmiður og hagyrðingur (faðir m.a. Ellýar Vilhjálms söngkonu og Vilhjálms Vilhjálmssonar flugmanns og söngvara en þau eru öll látin). Hlaðinn hringlaga steingarður sem er hægra megin vegarins spölkorn norðan Merkiness nefnist Skipagarður. Þetta var kálgarður en hér áður fyrr voru vertíðarskipin dregin upp og höfð í skjóli við garðinn. Skammt sunnan Merkiness er grasi vaxinn hóll vinstra megin vegarins. Hóllinn nefnist Syðri Grænhóll. Sunnan hans mun ekki hafa fundist stingandi strá, sem heitið gat, fyrr en melgresi fór að taka við sér en því var fyrst sáð til að hefta sandfok utar á skaganum fyrir rúmum 60 árum. Í túninu suðaustan við Merkines er forn brunnur, sem gengið er niður í, líkt og Ískrabrunnur á Snæfellsnesi.

Junkaragerði

Sólheimar, Junkaragerði, Traðarhús og Kalmannstjörn fyrir sunnan Hafnir. Séð til norðausturs.

Spölkorn sunnan Grænhóls sér á þak Junkaragerðis en það er fornt býli og verstöð sem nú er notað sem íbúð. Upphlaðinn túngarður á hægri hönd eru einu minjarnar sem eftir eru af býlinu og verstöðinni Kalmanstjörn (þaðan var Oddur Ólafsson læknir á Reykjalundi og alþingismaður) en íbúðarhúsið var rifið 1990. Á Kalmanstjörn var búið fram á miðjan 8. áratug 20. aldar.
Gamli vegurinn út á Hafnaberg og áfram út á Reykjanes lá á milli Kalmanstjarnar og Junkaragerðis. Í lýsingu skráðri af Hinriki í Merkinesi fyrir Örnefnastofnun segir m.a: ,,Fyrr á öldum, er sagt, að ,,þýzkir” hafi haft mikinn útveg á opnum skipum í Höfnum. Meðal annarra staða höfðu þeir búðir, þar sem nú heitir Junkaragerði, en svo voru þeir nefndir. Þessir menn voru ribbaldar miklir og ,,óeirðamenn um kvennafar”, þeir voru illa séðir af landsmönnum, sem vildu fyrir alla muni koma þeim af höndum sér.” Til er þjóðsaga um hvernig Hafnamenn fóru að því að losa sig við Junkarana. Vestan vegarins, neðan við brekku, er Hundadalur. Þar er fiskeldisstöð.

Gömlu hafnir

Gömlu Hafnir.

Á vinstri hönd má sjá nokkrar vörður en við þær liggur Prestastígur – vel vörðuð forn gönguleið úr Höfnum yfir Hafnasand og Eldvörp yfir í Staðarhverfi í Grindavíkurhreppi, um 5-6 tíma gangur.
Nýr uppbyggður vegur var lagður frá Höfnum út á Reykjanes um miðjan 9. áratug nýliðinnar aldar. Hann liggur fjær sjó en sá gamli sem reyndar var ekkert annað en slóð og skurður á víxl. Eins og áður sagði tekur einungis um 10 mínútur að ganga yfir holtið frá bílastæðinu ofan Laxeldisstöðvarinnar og niður á gamla veginn skammt sunnan Kalmanstjarnartúns. Af gamla veginum þar sjást 5 áberandi stórir grasi vaxnir hólar, Gömlu Hafnir. Þessir hólar koma við sögu í bókum Sr. Jóns Thorarensens, (Litla skinnið, Rauðskinna, Marína ofl.) en sögusvið þeirra er Hafnir (Jón var ættaður og ólst upp í Kotvogi).
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-leoemm.com

Kotvogur

Kotvogur og Kirkjuvogskirkja.

Ósabotnar

Í Faxa 1984 fjallar Jón Thorarenssen um “Örnefni með ströndinni frá Básendum suður um Ósabotna og Hafnir og allt suður að Skarfasetri á Reykjanesi“.

“Árbók Ferðafélags Íslands 1984 er helguð Reykjanesskaganum vestan Selvogsgötu og mun þá átt við Selvogsgötu í Hafnarfirði.
ÓsabotnarÁður fyrr höfðu Selvogsbúar mikil verslunarviðskipti í Hafnarfirði og munu hafa komið af Selvogsheiði niður á þessa Hafnarfjarðargötu er þeir fóru í kaupstað og ber hún síðan nafn þeirra.
Öll er Árbók þessi hin vandaðasta að efni og útliti og hin forvitnilegasta fyrir okkur Suðurnesjamenn. Höfundar eru fjórir, þeir séra Gísli Brynjólfsson, vel þekktur hér á Suðurnesjum, hann skrifar um byggðir Suðurnesja. Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifar kaflann „Um heiðar og hraun”. Hann er mjög kunnur jarðfræði Skagans hefur lengi stundað þar rannsóknir. Þá skrifa náttúrufræðingarnir Hörður Kristinsson og Arnþór Garðarsson í ritið. Hörður um gróðurskilyrði en Arnþór um björgin og fuglalíf, sem er fjölskrúðugra hér en víðast hvar annarsstaðar á landinu. Ég hvet Suðurnesjabúa til að eignast og lesa þessa ágætu Árbók.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Við sem búum norðanverðu á Skaganum erum flestir kunnugir þeim miklu athöfnum og jarðarbótum sem Hestamannafélagið Máni hefur unnið að. Iðgræn tún hylja nú stór landssvæði, sem áður voru fokmelar vegna hrjúfra handa er þar höfðu um gengið. Svipað má segja um Leiruna þar sem Golfklúbbur Suðurnesja hefur gert stórvirki í fegrun og ræktun lands sem bændur höfðu yfirgefið þar sem aðal afkomuleið Leirubúa, fiskveiðar, var brostin en landkostir rýrir.
Ég vona að séra Gísli Brynjólfsson bregðist ekki illa við þó að ég taki hér upp eftir honum þar sem frásögn hans um Leiru hefst.
Leiran“Miðja vegu milli Keflavíkur og Útskála liggur við sjávarsíðuna Leiran, sem er eitthvert það besta fiskiver, með því að þar má sækja sjó á báðar hendur” segir í sóknarlýsingu 1839. En nú mun langt síðan nokkurri fleytu hefur verið róið til fiskjar úr Leirunni enda hefur hún sannarlega fengið öðru hlutverki að gegna en sjósókn nú hina síðari áratugi. En fyrst nokkur orð um byggðaþróun í Leirunni samanborið við næsta nágrennið, Keflavík. Árið 1816 bjuggu 54 menn á 6 heimilum í Leiru en 39 menn á 3 heimilum í Keflavík.
Árið 1880 voru nákvæmlega jafnmargir íbúar í Keflavík og Leiru eða 154. Nú búa 2 menn í Leirunni en í Keflavík eru íbúar 6747.”
Þessi stutta tilvitnun í Árbókina sýnir okkur glöggt hve sveiflurnar í tilverunni eru hraðar. Það sem var brúnn melur í gær getur verið iðgrænt engi á morgun og sjórinn sem var fullur af lífsbjörg á báðar hendur fyrir fáum árum er sem dauðahaf í dag. Allt er þetta athöfnun okkar mannanna að þakka eða kenna. Hugsum því fyrir morgundeginum.” – J.T.

Básendar 1726

Básendahöfn 1726.

“Skúli Magnússon, landfógeti, segir í sýslulýsingu sinni um Básenda: “Verzlunarhöfnin Básendar er í Stafneslandi. Þar er höfn 2 skipum á milli lands og skerjagarðsins, en þó hættuleg, einkum í véstanstormum, þegar hásjávað er.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Nokkur skip hafa farist þar, einkum fyrrum, enda var ekki siglt á þessa höfn um hríð. Höfnin er því eigi örugg, nema um hásumar og með því að nota járnhringa þá, sem reknir hafa verið bæði í kletta í skerjagarðinum, og í jarðfasta fjöruklettana. Eru þeir festir með blýi, svo að hægt sé að binda skipin í þá. í innra skipalæginu eru 4 járnhringar og 3 í hinu ytra. Í fyrrnefndu skipalægi er dýpið 2 1/2 faðmur um fjöru, en 4 1/2 faður í hinu síðarnefnda. Þarna hækkar og lækkar í sjónum um 9 fet, þegar stórstreymt er. Innsiglingin er hættuleg, og verður að gefa nánar gætur að siglingamerkjunum á landi. Kringum hinar lágu klappir, sem verzlunarhúsin standa á, er allt þakið svörtum sandi, og eru aðstæður því illar til fiskverkunar”.

Þórshöfn

Þórshöfn – loftmynd.

Nokkru sunnar er Þórshöfn. Þar er hin forna höfn verzlunarskipa á síðari hluta 19. aldar. Samkvæmt lýsingu Skúla fógeta, er leiðin 170 faðmar inn, en breidd 51 faðmur, ef skip rista 6 fet. Þessi höfn var notuð er Hansakaupmenn og Þjóðverjar ráku verzlun hér, en árið 1601 var síðasta verzlunarár brim væri, því að skerjagarður að þeirra þar.

Þórshöfn

Þórshöfn.

Flest gátu 5 skonnortur legið þar í einu, allar bundnar. Þarna í Þórshöfn gerðist sá atburður á árunum 1890-1895, að útvegsbændur á Suðurnesjum komu þar saman til þess að ræða fiskverð. Segja má að hér hafi verið eins konar upphaf íslenzkrar kjarabaráttu sjómanna um fiskverð. Þarna var mættur Ketill dbrm. í Kotvogi með sonum sínum og Salómon Björnsson frá Kirkjuvogi, Einar Sveinbjörnsson í Sandgerði, Jón Sveinbjörnsson frá Húsatóftum, Magnús Bergmann í Fuglavík, og úr Grindavík Sæmundur Jónsson og Tómas Guðmundsson.
Rétt austan við Þórshöfn er Hvalvík og Hvalvíkurhólmi þar ytra. Nokkru austar og innar er komið að hinum gamalkunna og merka stað Bárðarvör (sjá Útnesjamenn), sem áður var stundum kölluð Prestatorfa, þegar Hvalsnessprestar þjónuðu Kirkjuvogssókn, en Hvalsnes var lagt niður sem prestsetur árið 1811.

Einbúi

Einbúi.

Fram til þess tíma var Bárðarvör ferjustaður Hvalsnesspresta yfir Ósana í Kirkjuvogsvör, og þessa leið notaði síra Hallgrímur Pétursson stöðugt á árunum 1644-1651, þegar hann þjónaði Kirkjuvogskirkju frá Hvalsnesi. Eftir það var Bárðarvör kölluð Grímsvör um tíma, en það nafn hvarf fljótt og frá síðustu aldamótum er óhætt að segja, að vörin hafi aldrei verið kölluð annað en Bárðarvör. Bárðarvör er smá vík, er skerst inn norðan við Einbúa, sem er hár hringmyndaður grashóll, og sést víða að, bæði á landi og af sjó, og er því mikið kennimerki sjósóknarmanna.
Fyrir utan Bárðarvör er Hestaklettur (sjá Útnesjamenn), stór og mikil klettaborg. Við austurhorn Hestakletts var ætíð farið, þegar ferjað var yfir Ósa. Á austurhorni Hestakletta sitja ætíð dílaskarfar og blaka vængjum til að þurrka sig.

Vörðuhólmi

Einbúi og Vörðuhólmi.

Nokkuð austur af Hestakletti er Selsker, hættulegt sker. Það er alltaf talið hættulegt að fara nærri því. Þar drukknaði síra Árni Hallvarðsson og sjö manns með honum 31 . marz 1748.
Einbúi er eins konar löng eyja frá norðri til suðurs og umflotin sjó, en á f jörum má víða vaða yfir rásina, sem umlykur hann, en strax með aðfalli er það ekki hægt.

Vörðuhólmi

Varða á Vörðuhólma.

Suðurendinn heitir Vörðuhólmi. Við suðurenda hans fellur sjór með útfallinu frá þessari löngu eyju, en skammt frá er Runkhólmi, svo þrengslin verða mikil með útfirinu í þessum þrönga ósi, og beljandinn ofsalegur, en stórsteinar, strýtumyndaðir, hér og þar í botninum, svo að þetta ér stórhættulegur staður fyrir báta. Einu sinni fór ég niður þennan ós, einn á tveggja manna fari. Ég var að grafa sandmaðk og mig langaði að fara niður beljandann. Ég hef líklega verið 16 ára, sterkur og liðugur þá, og mér fannst ég geta allt. Þar hallaði niður í ósinn eins og brekku. Ég lagði í ósinn, en straumkastið tók strax af mér ráðin og fyrir Guðs mildi slapp ég lifandi, en ég skammaðist mín mikið fyrir þetta tiltæki. Það er fyrst nú að ég segi frá þessu, sem gerðist fyrir 65 árum.
Fyrir utan Runkhólma er svokallaður Síðutangi, þá Skotbakki. Að Síðutanga og Skotbakka bárust hlutir eða partar úr hinu fræga strandi „James Town”. (Við Einbúa og Skotbakka var ágætur maðkasandur).
Fyrir austan Skotbakka er svo Gamli Kirkjuvogur, sem hét fyrrum Vogur á Rosmhvalanesi, vegna þess, að öll ströndin frá Stafnesi, inn með öllum Ósum að Hunangshellu er á Rosmhvalanesi. Það sýnir bezt breytta landskosti í tímanna rás, að Espólín segir frá því í 2. deild Árbókarinnar, að árið 1467 hafi Björn Þorleifsson, hirðstjóri, selt Eyjólfi Arnfinnssyni nokkrum Voga á Rosmhvalanesi fyrir 5 jarðir á Vestfjörðum.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

Í jarðabók Árna Magnússonar segir að 1703 hafi Gamli Kirkjuvogur legið í auðn lengur en 120 ár, en það bæjarstæði var í Kirkjuvogslandi. Af þessum orðum Árna Magnússonar, að bæjarstæðið hafi verið í Kirkjuvogslandi má ætla, að landamerkin milli Stafness og Kirkjuvogs hafi ekki verið um Djúpavog, heldur um Bárðarvör, eða Runkhólmaós, þó kannski heldur, eftir því sem gamalt fólk í Höfnum og fóstri minn, Ketill, töluðu um.
Fyrir innan Gamla Kirkjuvog kemur svo Djúpivogur, þar næst Beinanes, þá Seljavogur, þá Stóra-Selhella, þá Stóru-Selhelluvogur, þá Litla-Selhella, þá Litlu-Selhelluvogur, þá Brunnvogsklettar, þá Steinbogi og svo loks hin fræga varða Hunangshella, sem nú er hálf hrunin og brot af vörðunni eftir.

Ósabotnar

Ósabotnar – kort.

Hér endar Rosmhvalanes, því að Hunangshella var og er landssvæðavarða. Lína sem hugsaðist dregin frá Hunangshellu í Háaleitsþúfu (var norðaustast á Keflavíkurflugvelli, en er horfin nú), og frá Háaleitisþúfu í Duusgróf í Keflavík. Allt fyrir norðvestan þessa hnu er Rosmhvalanes. Það er stór hluti Reykjanesskagans.

Hunangshella

Hunangshella.

Hunangshella dregur nafn sitt af sögu, sem prentuð er hjá Jóni Arnasyni, þjóðsagnasafnara, (1. b., bls. 613). Það var skrímsli grimmt, hættulegt og skotharðast allra dýra. Maður einn tók sig til og bar hunang á helluna, því óvætturin var sólgin í það. Maðurinn lá svo í leyni þar hjá. Óvætturinn kom og tók að sleikja hunangið af hellunni. Þá skaut maðurinn skrímslið með vígðum silfurhnöppum. Það hreif. Síðan heitir staðurinn Hunangshella. Hjá Hunangshellu endar Rosmhvalanes, eins og áður er sagt.
Hjá Hunangshellu enda Ósabotnar. Hunangshella er merkur staður. Varðan þar í hellunni er í ólagi. Ég skora á útivistarmenn eða einhver félagasamtök, eða Lionsmenn á Suðurnesjum, að reisa þessa gömlu vörðu við á björtum og blíðum sumardegi. Það er ræktarsemi við gamla tímann og virðing fyrir hinum gömlu landamerkjum Suðurnesjamanna, sem eru milli Rosmhvalaness og Reykjanes skagans. Ennþá eiga Suðumesin gott fólk, hraust og afkastasamt til að gera þetta.

Hunangshella

Varða á Hunangshellu.

Þegar farið er frá Hunangshellu suður koma næst Þríhólar þá Leirdalur og Leirdalshólmi, þá Stekkir, Stekkjarnes og Stekkjarneshólmar, þá Hellisvik, innan við Hellishæð (hjá Hellisviki beið Oddur V. Gíslason eftir því að Anna Vilhjálmsdóttir kæmi til sín á vökunni 30. des. 1870). Þá kemur Torfdalsvík síðan Torfdalur, þar á tanganum er hin ævaforna sundvarða sveitarinnar. Þá kemur Maðkasandur, Maðksandsklöpp, þá Bótin, Langaklöpp, Svartiklettur, síðan Þvottaklettar, sem eru austan við Kirkjuvogsvör. Nú er þar ekkert skip og engin mannaferð.

Hafnir

Hafnir – spil við Kirkjuvogsvör.

Kirkjuvogsvör má muna sinn fífil fegri, þegar um og yfir 100 ungra manna réru úr vörinni á hverjum róðrardegi á vertíðum. Upp af Kirkjuvogsvör voru tvö naust, austurnaust, sem voru víð og stór og rúmuðu marga teinæringa, og svo vesturnaust, sem rúmuðu í mesta lagi þrjá teinæringa. Bæði voru þessi naust vel varin fyrir sjógangi, veðrum og vindum. Fyrir vestan og utan Kirkjuvogsvör er Kirkjuskerið, stórt sker og hátt, sem er aðalskjólið fyrir Kirkjuvogsvör og hlífir henni í briminu. Þar utar, en fast við Kirkjusker, er Flatasker, sem hlífir sömuleiðis. Með aðfalli fór strax að koma lá í Kirkjuvogsvör, þegar Flatasker var komið í kaf. Kirkjuvogssund er langt. Sundið er tekið þegar Bælið er um Junkaragerði, en Keilir um Svartaklett. Þegar komið er inn fyrir Flataskersenda og Einbúa og Kiðaberg úti á Stafnesheiði ber saman, þá er vinkilsnúið inn í vörina.

Hafnir

Við Kotvog.

Ingigerður Tómasdóttir, húsfreyja í Kotvogi, d. 1804, sagði, að full sáta af heyi hefði fengist síðast af Kirkjuskerinu og grastónni þar, sem síðast var á kollinum á skerinu. Sömuleiðis hefði í þá tíð varla verið klyfjafært milli Þvottakletta og heimatúnsins. Nú er þar stórt og breitt svæði. Sýnir þetta hver ósköp landið hefur eyðst á liðnum tímum.
Vestan við Kirkjuvogsvörina eru Þvottavötnin, bergvatnsuppspretta úr lágri klöpp. Þar var ætíð skolaður þvottur og þvegin ull. Þá kemur sker fyrir vestan, sem heitir Fúsi, sem við krakkarnir veiddum við varaseiði. Músasund heitir sundið á milli Kirkjuskersins og lands. í sundinu er smá sker, sem heitir Árarbrjótur, smá tangi á móts við Kotvog. Hola nefnist lendingin fyrir neðan Kotvogsbæinn. Þá kemur Skellisnoppa vestar, sker sem brim skellur mikið á, en í mínu ungdæmi kallað Skellir, hitt nafnið mun eldra. Við Skelli er bundin smá frásögn, er nú skal greina: Árið 1912, seint í maí, var sem oftar háskólaborgari einn gestur í Kotvogi nokkrar nætur. Dýrafræði og grasafræði voru eftirlætisgreinar hans. Hann eyddi dögum sínum seint og snemma í fjörunni.

Kotvogur

Kotvogur.

Dag einn, er var orðið nokkuð hásjávað, sá hann steypireiði mikla koma á mikilli ferð að sunnan og þræða rétt utan við ystu sker. Kom hún rétt af Skelli, vinkilbeygði þar og tók stefnu norður og djúpt út af Stafnestöngum, og svo var ferðin mikil á skepnunni, að hún var brátt horfin úr augsýn norður í Nesdjúpið svokallaða. Þennan dag var hányrðingur, ládeyða og hreinviðri. Nú hafa þessi dýr verið svo ofsótt, að þau þræða ekki við ystu sker Íslands lengur.

Merkines

Sjávarhús við Merkines.

Sunnan við Skelli og lengra úti eru Hásteinar, sérstæðir klettar, sem ekki sjást nema um stærstu fjörur. Þar hafa skip oft farist, og árið 1872 varð þar skipsskaði og manntjón frá Kirkjuvogi í tíð Þórunnar Brynjólfsdóttur, er átti skipið og gerði það út (sjá Rauðskinnu, Guðmundur í Réttarhúsum, stórmerk frásögn). Sunnar í fjörunni, Snoppa, stór klöpp ofarlega í fjörunni, með djúpa sprungu eftir endilöngu í áttina til hafs. Fyrir neðan Snoppu er brúðhjónasæti álfanna í klettahrygg þar. Sunnar eru svo Haugsendafjörur þar var þangskurður ágætur og var ég þar oft í þangfjörum á unglingsárum mínum. Þar er Markasker og Haugsendavarðan aðeins sunnar uppi á kampinum. Hún er sundmerki fyrir Merkines, og þegar hana ber við Bræður, klofinn hól þar efra, þá er farið inn Merkinessund.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Við höldum stöðugt áfram suður með ströndinni. Þá koma næst Merkinesklettar, Skiptivík, Dilkar, hár hóll og annar minni fyrir innan Junkaragerði, þá Junkaragerðisklettar, klakkar norðan við Kalmanstjarnarsund þá Hólmi, Draugar, Stekkjarvikið (sbr. Marínu), Kirkjuhafnarvikið, Kirkjuhöfn, Sandhöfn, Sandhafnarlending, Kópa, Eyrarvík og Eyrarbær, þar sér fyrir bæjarrústum, nálægt sjávarbakkanum og grasi gróið umhverfis.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; vörslugarður.

Þar er mjög fallegt. Lendingin beint niður af bænum, örstutt nokkrir metrar. Stutt hefur verið að sækja fisk þaðan, meðan hann var nógur við landið, og hægt hefur verið að kalla heim að bænum, þegar veður voru góð. Eyri eða Hafnareyri, eins og sóknarpresturinn á Hvalsnesi kallaði bæinn, var síðasti byggður bær fyrir sunnan Kalmanstjörn, á Eyrartanganum rétt við norðurendann á Hafnabergi. Bærinn fór í eyði árið 1776.
Til gamans set ég hér húsvitjun sóknarprestsins á Hvalnesi 1773, sem er á þessa leið: Hafnareyri 1773: Ormur Þórarinsson, húsbóndi, 46 ára., Gunnvör Árnadóttir, húsfreyja, 49 ára., Katrín Hjaltadóttir, 20 ára., Magnús Hjaltason, 10 ára., Bartólomeus Jónsson, lausamaður, 61 árs.
Út af Eyraroddanum er röst, Eyrarröst, og stórt sker, Eyrarsker, rétt sunnan við tangann. Ég spurði Bjarna Guðnason, sem var í Kotvogi og formaður í 50 ár, hvar hann hefði fengið verstan sjó á allri formannstíð sinni. Hann svaraði: i ,Það var í Eyrarröstinni, þó var ég þá með teinæring”. Þetta var um Eyrarbæinn, en nú held ég áfram örnefnaröðinni.

Hafnaberg

Hafnaberg.

Næst fyrir sunnan norðurenda Hafnabergs kemur svo skerið Murtungur (Guðmundur Salórnonsson, fræðimaður, bóndi og meðhjálpari Kirkjuvogskirkju um í áraraðir, kallar sker þetta Murling. Þetta getur verið réttara, því að hann var talinn fróður og minnugur, og eftir hann er afbragðs ritgerð í 3. bindi Rauðskinnu).

Hafnarberg

Hafnarberg.

Þá kemur Klaufln, sprungnir klettar, þá Hafhaberg. Berg þetta er um hálfa viku sjávar á lengd og rúmir 20 faðmar þar sem hæst er, en ógengt. Í berginu er stór geigvænlegur hellir, sem heitir Dimma. Þá kemur Stráksrif (Bjarghóll þar upp af), þá Boðinn, Lendingarmelar, Rekavík, Skjótastaðir (eyðijörð), Stóra-Sandvík, Litla-Sandvík, Mölvík, Kistuberg, Þyrslingasteinar, Kinnarberg, þá Önglabrjótanef. Út af þessu nefi er norðurstrengur Reykjanesrasta rinnar, sem talin er sterkari en suðurstrengurinn, þá Karlinn, klettur hrikalegur í sjó fram. Einu sinni í sumarblíðu og logni var ég á háti, er fór milli Karlsins og lands.

Valahnúkur

Valahnúkur.

Þá er næst Kerlingarbás, Kirkjuvogsbás, Valahnjúkur (þar sem fyrsti vitinn var), Valahnjúksmöl, Skarfasetur, þar út af þessu nefi er suðurstrengur Reykjanesrastarinnar, og er hann talinn minni en norðurstrengurinn, eins og áður Segir. Rétt fyrir austan Skarfasetur er Blásíðubas.
Þar með endar þessi örnefnakeðja, sem fylgt hefur verið eftir minni og bestu vitund.” – Lokadagur 11. maí 1984 – Jón Thorarensen.

Heimild:
-Faxi, 6. tbl 01.07.1984, Jón Thorarenssen, Örnefni með ströndinni frá Básendum suður um Ósabotna og Hafnir og allt suður að Skarfasetri á Reykjanesi, bls. 207-211.
Faxi

Kotvogur

Í bókinni “Hafnir á Reykjanesi“, skrifaða af Jóni Þ. Þór, er saga byggðar og mannlífs í Höfnum rakin í ellefu hundruð ár.

Jón Þ. Þór

Jón Þ. Þór.

“Fornar heimildir eru fáorðar en gagnorðar um upphaf mannvistar í Höfnum. Í Sturlubók Landnámu segir stutt en laggot; Herjólfr hét maðr Bárðarson, Herjólfssonar, frændi Ingólfs landnámsmanns. Þeim Herjólfi gaf Ingólfr land milli Vágs ok Reykjaness (Íslensk fornrit I,1 (1968, 132).
Miklu stuttorðari gat þessi frásögn vart verið, en önnur gerð Landnámu, Hauksbók, hermir, að Herjólfur hafi verið “frændi Ingólfs ok fóstbróðir”, og því hafi Ingólfur gefið honum landið.
Um Herjólf Bárðarson, landnámsmanns í Höfnum, er lítið vitað umfram það, sem segir í áðurtilvitnaðri Landnámugrein. Við vitum ekki, hvort hann var kvæntur, er hann kom til Íslands og settist að í Höfnum, ekki heldur hvort hann kom á eigin skipi með eigin föruneyti. Má þó telja hvort tveggja mjög líklegt. Um stöku afkomendur hans vitum við hins vegar öllu meira, og í hópi þeirra var maður, sem frægur er í þjóðarsögunni, og reyndar í gjörvallri sögu siglinga og landkönnunar við norðanvert Atlantshaf.

Hafnir

Hafnir.

Sonur Herjólfs hét Bárður, og kemur hann hvergi við sögu, nema þar sem hans er getið sem föður sonar síns. Sonurinn var skírður Herfólfur, í höfuðið á afa sínum í Höfnum, og segir í Grænlendinga sögu, að hann byggi á Drepstokki, en sú jörð var skammt vestan Eyrarbakka. Kona hans hét Þorgerður, og sumarið 985, eða 986, afréðu þau að bregða búi á Drepstokki og héldu til Grænlands með Eiríki rauða. Á Grænlandi reistu þau sér bæ á Herjólfsnesi og bjuggu þar (Íslendingasögur I (1953), 365-366).
Hafnir
Þau Herjólfur og Þorgerður á Drepstokki áttu son, sem Bjarni hét, og varð hann án alls efa nafnkenndastur allra afkomenda Herjólfs Báraðarsonar landnámssmanss í Höfnum. Hann þótti snemma mannvænlegur og fýsti ungan utan, svo sem títt var um tápmikla unga menn á þeim tíma.

Hafnir

Hafnir – Kirkjuvogur.

Vegnaði honum vel í förum, og leið ekki á löngu, uns hann stýrði eigin skipi á milli landa. Siglingartækni 10. aldar gerði það að verkum, að farmenn komust sjaldan nema aðra leiðina á milli Íslands og Noregs á sumri hverju, og hermir Grænlendinga saga, að Bjarni hafi veriðð ” sinn vetr hvárt, útan lands eða með feðr sínum” (Íslendingasögur I (1953), 365). Síðasta veturinn, sem hann dvaldist í Noregi, brugðu foreldrar hans búi á Drepstokki og héldu til Grænlands. Er Bjarni kom heim sumarið eftir, spurði hann tíðinda. Af viðbrögðum hans og því, sem á eftir fór, segir í Grænlendinga sögu. Frásögn hans af ferð hans og áhfnar hans til Ameríku, án þess þó að stíga þar á land, varð til þess að landi hans, Leifur Eiríksson, hélt að leita landa í vestri.
Hafnir
Lengra komumst við ekki með sögu afkomenda Herjólfs Bárðarsonar, þeirra sem fæddir eru á Íslandi. Víkur þá sögunni aftur til landnámsins í Höfnum.

Hafnir

Hafnir – landnámsskáli.

Af frásögn Landnámu verður ekki ráðið með neinni vissu, hvenær Herjólfur kom til Íslands. Hann gæti hafa komið með Ingólfi, jafnvel verið skipverji hans, eða að hann gæti hafa komið nokkrum árum síðar og þá væntanlega á eigin skipi með eigin föruneyti. Erfitt er að skera úr um, hvor möguleikinn sé líklegri, en flest bendir til þess, að Herfjólfur hafi numið land fremur snemma á landnámsöld, að öllum líkindum fyrir 900.
Engar nákvæmar lýsingar eru til á landnámi Herjólfs Bárðarsonar. Orðalagið “á milli Vágs og Reykjaness” tekur ekki af tvímæli, en bendir til þess að hann hafi þegið strandlengjuna norðan frá Ósabotnum, suður og austur [?] að Reykjanestá, að gjöf frá frænda sínum.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – Kirkjuhöfn, Sandhöfn og Eyrarhöfn; uppdráttur ÓSÁ.

Vafalítið hefur hann þó helgað sér stærra landsvæði en strandlengjuna. Hversu stórt það var vitum við ekki, en hugsanlegt er að Herjólfur hafi fylgt þeirri aðferð er Haraldur konungur hárfagri lagði fyrir menn að fylgja við helgun lands: “Menn skyldu eld gera, þá er sól væri í austri; þar skyldi gera aðra reyki, svá at hvára sæi frá öðrum, en þeir eldar, er gjörvir váru, þá er sól var í austri, skyldi brenna til nætr; síðan skyldu þeir ganga til þess, er sól væri í vestri, ok gera þar aðra elda” (Íslensk fornrit I,2 (1968), 337-339).
Landshættir hljóta að hafa ráðið nokkru um umfang og takmörk landnáms Herjólfs og ekkert var eðlilegra en að suður- og austurmörk þess væru við Reykjanestá og Stapafell, norður- og vesturmörk við Ósabotna [?].
Hafnir
Enga vitnesku er um það að hafa af fornum heimildum, hve margt fólk var í för með Herjólfi er hann settist að í landnámi sínu, og við vitum ekki, hvar hann reisti sér bú. Hafi hann komið til Íslands á eigin skipi, getur sú tilgáta þó trauðla talist ósennileg, að í föruneyti hans hafi verið a.m.k. tíu til tólf manns. Það fólk hefur trúlega fylgt honum suður í Hafnir og þegið af honum land.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Má þá hugsa sér, að byggð hafi fyrst risið þar sem mynduðust þrjú hverfi, í Kirkjuvogi við Ósabotna, á Merkinesi og Kalmanstjörn. Á öllum þessum stöðum var búsældarlegt á landnámsöld, útræði bærilegt og hagar fyrir búfé að líkindum góðir. Hvar Herjólfur sjálfur settist að, vitum við hins vegar ekki með vissu, en hugsanlegt er, að hann eða einhverjir förunauta hans hafi reist sér bú nálægt þeim stað, sem nú er Kirkjuvogshverfi í Höfnum.
Haustið 2002 sást við athugun á loftmyndum. sem teknar voru á þessu svæði, “greinilegt skálalaga form skammt austur af kirkjunni í Höfnum”. Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur, gróf stuttu síðar tvær prufuholur á stað, u.þ.b. 80 metra ANA af Kirkjuvogskirkju og benda fyrstu niðurstöður þeirar rannsóknar til þess, að þarna séu leifar af skála frá landnámsöld.

Hafnir

Hafnir – uppgröftur.

Fátt verður fullyrt af þessari rannsókn um hina fyrstu byggð í Höfnum og varasamt að draga of víðtækar ályktanir af henni á þessu stigi. Frekari fornleifarannsóknir geta þó trúlega varpað ljósi á byggð á þessum slóðum á landnámsöld.

Hafnir

Hafnir – Kotvogur.

Hreppar voru stofnaðir hér á landi á þjóðveldisöld og voru hvort tveggja í senn, framfærslu- og stjórnunareiningar. Ekki er fulljóst, hvenær landinu var skipy í hreppa né hvaða reglum var fylgt við skipunina, en flest bendir til þess, að hreppaskiptingin hafi komist á fyrir lögtöku tíundar árið 1097, og víðast hvar virðast landshættir hafa ráðið hreppamörkum. Hið síðara var þó ekki algilt og má ef til vill hafa Hafnahrepp til marks um það.

Hafnir

Hafnir – fornleifauppgröftur.

Engar heimildir hafa varðveist, er segi sérstaklega frá stofnun Hafnahrepps, og hljótum við að hafa fyri satt, að hann hafi orðið til sem sjálfstæð framfærslu- og stjórnunareining er hreppaskipting komst á. Hann hefur þó vafalaust verið meðal minnstu hreppa landsins, og óvíst, að tuttugu þingfararkaupsbændur hafi verið búsettir innan endimarka hans.

Hafnir

Hafnir (MWL).

Þegar þannig stóð á, þurfti sérstakt leyfi lögréttu til hreppastofnunar (Íslensk fornrit I,2 (1968), 180). Við vitum að sönnu ekkert um fjölda bænda í Höfnum á þjóðveldisöld, en árið 1703 var aðeins getið seex lögbýla í Hafnahreppi, og voru þrjú þeirra í eyði, og höfðu verið lengi (JÁM III, 26-34). Býli geta vissulega hafa verið fleiri í hreppnum fyrr á öldum, en óvíst er, hvort þau voru svo mörg, að hreppurinn hafi uppfyllt áðurnefnt skilyrði Grágásalaga um fjölda þingvararkaupsbænda. Ber þó að hafa í huga, að vel getur hreppurinn hafa verið fjölbyggðari fyrir Reykjaneselda á 13. öld.

Hafnir

Hafnir.

Líklegast er, að Hafnahreppur hafi í upphafi orðið til úr landnámi Herjólfs Bárðarsonar og að mörk hans hafi lítið sem ekki breyst í aldnanna rás. Vilhjálmur Hinrik Ívarsson í Merkinesi lýsti hreppamörkum eins og þau voru árið 1934 með þessum orðum: “Hafnahreppur takmarkast af Miðneshrepp að norðan, Njarðvíkurhrepp að austan, en Grindavíkurhrepp að sunnan” (Örn. 2502).
Þannig hafa hreppamörkin að líkindum verið frá fyrstu tíð, og þótt þau hafi breyst lítilsháttar á seinni tímum, einkum á 20. öld, gefa þau þá dágóða hugmynd um landnám Herjólfs Bárðarsonar í Höfnum og stærð þess.”

Heimild:
-Hafnir á Reykjanesi – Jón Þ. Þór, saga byggðar og mannlífs í ellefu hundruð ár. Reykjanesbær 2003.
Hafnir

Stafnes

Í Árbók Hins ísl. fornleifafélags árið 1903 er að finna grein Brynjúlfs Jónssonar; “Rannsókn í Gullbringusýslu og Ánessýslu sumarið 1902“. Fjallar hann þar m.a. um Stafnes, Básenda, Þórshöfn og Gamla Kirkjuvog við Ósa.

Stafnes

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

er í fornum máldögum oftast kallað »Starues«, og ef það er upprunanafn bæjarins, bendir það til þess, að þar hafi í fyrri daga verið starengi. En hafi svo verið, þá er líklegast, að það sé uú komið í sjó. Skal eg ekkert um það segja. En sannfróðir eru menn um það, að þar hafa margar hjáleigur lagzt í eyði og þar af sumar af sjógangi.
Nokkrar af eyðihjáleigunum heyrði eg nefndar, og eru þær þessar: Urðabær, Sandhús, Refabær, Hólmabær, Gosa (Gosabær=Gottsvinsbærr), Vallarhús, Lodda (þ. e. Loðvíksstofa). Þar hefir víst verið einna bezt lýsing um aldamótin 1800, því þangað flúði Bátsendakaupmaður er kaupstaðurinn fór af. Nú sjást varla merki til tófta í Loddu, því öskuhaugur hefir seinna verið borinn ofan á þær og gróið upp sem hóll í túninu hjá heimabænum.

Stafnes

Stafnes – dómhringur.

Í túninu er ein at þessum hringmynduðu fornbyggingum, sem kallaðar eru »lögréttur«. Þessi er líka kölluð það. Hún er einkennileg og frábrugðin öllum öðrum, er eg hefi séð, að því leyti, að á henni eru 6 dyr eða hlið, sem skifta henni í 6 jafna parta. Mundi svara því að 2 sæti hefði verið undir hverjum parti. Að öðru leyti er ekki hægt að gizka á hvaða tilgang hlið þessi hafa haft. Og því óskiljanlegri eru þau, ef maður vill geta þess til, að hringurinn sé sáðgarður eða fjárrétt. Og ekki lítur þó út fyrir, að það séu skörð. Þau eru hér um bil jafnstór og jafnlangt milli þeirra, eins og þau séu skipulega sett af mönnum. Annað er hér þó ekki, sem bendir á þingstað, hvorki munnmæli né búðatóftir. Þær gætu að vísu verið horfnar. Sumstaðar hefir sandfok sléttað túnið.
Sumstaðar geta kot verið bygð ofan á búðatóftir. Á tveim stöðum, skamt frá »lögréttunni«, var eins og vottaði fyrir tóftum, en mjög var það óglögt, enda var þá þessi hluti túnsins ósleginn. Skal eg ekkert frekara um þetta segja.

Bátsendar

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

heita skamt fyrir austan Stafnes. Þar liggur strandlengjan til austurs inn í Ásabotna. Á Bátsendum var kaupstaður, sem kunnugt er, og stóð á hraunnefi milli tveggja mjórra víka. Var höfnin á eystri víkinni. Var innsigling fremur vandasöm, en höfn trygg er inn var komið, þó svo, að binda varð skipin á 3 vegu, en með því móti gátu 2 skip legið þar undir eins. Sér enn um fjöru, járnbolta þá, sem greiptir cru í klappirnar, til að festa skipin við. Hafa verið höggnar holur í klappirnar fyrir þá og blýi rent utan með þeim. Hraunnefið, sem kaupstaðurinn stóð á, er hæst framantil og var þar bær. Sér þar enn nokkuð af rúst bæjarins á grastorfu lítilli. Þar fyrir ofan er lægð yfir þeim þvert milli víkabotnanna og í þeirri lægð sér leifar af undirstöðum verzlunarhússins. Hefir það verið hér um bil 12 fðm. langt og 6 fðm. breitt. Þó er ekki öldungis víst, að það hafi verið alt eitt hús, svo óslitin er undirstaðan ekki. En útlit er til þess. Af kaupstaðnum sjást nú ekki aðrar leifar en nú hefir verið sagt. En miklar girðingar hafa verið þar fyrir ofan, líklega bæði túngarðar og jurtagarðar. En nú er þar alt blásið.

Básendar

Festarkengir á Básendum.

Kaupstaðurinn eyddist í flóðinu mikla nóttina fyrir 9. jan. 1800. Fólkið komst nauðulega undan, nema ein gömul kona, sem heldur kaus að verða eftir og taka því er guð vildi verða láta, en að reynt yrði að hrökklast með hana heim að Stafnesi. Síðasti kaupmaður á Bátsendum er nefndur I. Hansen, danskur að ætt. Hann flúði til Loðvíksstofu, sem fyr getur. Um vorið fór hann utan og kom eigi aftur til Íslands.
Nafnið »Bátsendar« er óviðkunnanlegt og óefað afbökun. En hvað hefir það þá upprunalega veriðr Naumast getur það hafa verið »Bátsandar« (af: sandur), því að, þó þar sé blásið nú, þá hefir það eigi verið fyrrum, þá er nafnið var gefið. Og enn eru þar meiri klappir en sandar, bæði með sjónum og fyrir ofan, svo ástæðulítið virðist að gefa þar örnefni af söndum. Líklegra virðist mér, að þágufallsmyndin: »á Bátsendum« sé afbökun úr þágufallsmyndinni: að Bátsundum (af: sund). Það nafn hefði getað átt við sjávarsund þar fyrir framan. Og alkunnugt er, að bæjarnöfn og önnur örnefni eru langoftast nefnd í þágufalli hér á landi. Verður það því jafnan, eí þágufallið afbakast, að sú afbökun verður ósjálfrátt fram einnig í öðrum föllum.

Þórshöfn

Þórshöfn

Þórshöfn.

heitir vík ein, löngum spöl fyrir innan Bátsenda.

Hallgrímshellan

“Hallgrímshellan” í geymslum Þjóðminjasafnsins.

Þar er þrautalending og óbrigðul höfn í öllum norðlægum áttum. Þó eru þar engin mannvirki að sjá, enginn vottur þess, að þar hafi bygð verið, enda er engin sögn um það. En því get eg Þórshafnar, að mér þykir það líklegt, að sveitarnafnið »Hafnir* sé þannig myndað, að miðað hafi verið við Þórshöfn og Kirkjuhöfn, sem eru andspænis hvor annari út með Hafnavík, sín hvorumegin. Mun þeirri sveit hafa verið tileinkað alt svæðið milli þessara hafna.

Milli Bátsenda og Þórshafnar var mér vísað á vörðubrot, er steinnværi í með áhöggnu fangamarki Hallgríms Péturssonar og ártali. Það er og svo; fangamarkið er HP; en ártalið er 1728.

Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

hefir til forna staðið langt inn með Ósum að norðanverðu. Ósarnir eru sem dálítill fjörður, sem gengur til austurs inn úr Hafnavík. Inst skiftist hann í smávoga, og kallast þeir Ósabotnar. Er löng bæjarleið frá Þórshöfn inn að KirkjuVógi forna. Þar sem bærinn var, er rústabunga mikil. Þar er alt nú blásið hraun, þó er rústin að nokkru leyti grasgróin. Er eigi hægt að sjá grein á húsaskipun og eigi sést með vissu hvar kirkjan hefir verið. En kunnugir menn vita það, því mannabein hafa fundist þar, er kirkjugarðurinn blés upp. Voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800, að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt.”

Heimild:
-Árbók Hins ísl. fornleifafélags, 01.01.1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Ánessýslu sumarið 1902 eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 39-41.

Ósabotnar

Ósabotnar – götukort.

Keflavík

Í umfjöllun um “Duus-verslunina í Keflavík” hafa vaknað ýmsar spurningar, ekki síst í tengslum við tilteknar “eftirlifandi” minjar á svæðinu.

Duus-hús
“Peter Duus kaupir verslunina í Keflavík 3. júní 1848 af Martin Smith sem hafði rekið þar verslun um árabil. Peter Duus var kvæntur Ástu Tómasdóttur Bech. Þau voru ung þegar þau kynntust í Reykjavík. Foreldrar Ástu bjuggu á Kjalarnesi. Ásta hafði búið lengi í Kaupmannahöfn þegar þau Peter Duus hittast. Þau giftu sig fljótlega og fóru til Kaupmannahafnar en stoppuðu ekki lengi þar því Peter bauðst verslunarstjórastaða í Reykjavík.

Duus

Duus – bryggjuhús.

Þaðan fara þau til Skagastrandar og síðan til Eyrarbakka þar sem þau efnuðust vel. Þegar þau frétta að verslunin í Keflavík var til sölu hafa þau trúlega verið fljót að grípa tækifærið, því þá var Keflavík stærsti verslunarstaðurinn á suð-vesturlandi. Þegar þau kaupa verslunina eru fyrir í Keflavík tvær verslanir, K-nudtzons verslun og Verslun Sveinbörns Ólafssonar (Miðverslun). Seinna kom Ziemsen, sem við þekkjum sem Ziemsen í Rvík. Kaupverð eignanna var 3.700 ríkisdalir. Ef miðað er við verkamannalaun í þá daga og í dag, myndi eignin reiknast á kr.19.824.000.

Duus-hús

Duus-hús fyrrum.

Peter Duus og Ásta innleiddu ýmsar nýjungar í Keflavík t.d létu þau gera stóran matjurtagarð við íbúðarhús sitt og ræktuðu þar ýmsar káltegundir. Deilur hlutust af við Leirubændur og dómsmál vegna landamerkja, en kartöflugarður hjónanna utan í Hólmsbjargi reyndist vera innan Leirulands.
Peter Duus og Ásta eignuðust 4 börn sem hétu, Hans Pétur, Lovísa Henrietta Florentina, Anna Guðrún og Lúðvík Tómas Henrik.
Áfram reka þau verslunina með miklum myndarbrag til ársins 1868 eða í 20 ár. Þóttu þau hin mestu sómahjón og segir Sr. Sigurður Sívertsen á Útskálum svo um Ástu: „Hún var mikill kvenskörungur. Mesta reglukona, stjórnssöm, utanhúss sem innan.” Um Peter Duus sagði Sigurður: „Hann var reglu- og atorkumaður, áreiðanlegur, stjórnsamur, vandaður húsfaðir og tápmikill.”

Duus-verslun

Peter Duus.

Hans Pétur Duus tók við Duusverzlun eftir föður sinn Pétur Duus. Hafði faðir hans selt honum verzlunina í hendur 1864 og var verzlunin þá metin á 15000 ríkisdali. Hann rak verslunina í 4 ár.

Árið 1868 taka við versluninni sonur þeirra Hans Peter, og tengdasonur Daníel Johnsen. Þeir ráku verslunina saman í 6 ár en þá kaupir Hans Peter Daníel mág sinn útúr fyrirtækinu.

Hans Peter Duus kvæntist Kristjönu Sveinbjarnardóttur. Hún var dóttir Sveinbjarnar Ólafssonar sem var kaupmaður í Keflavík þegar Peter og Ásta koma hér fyrst. 15 ára aldursmunur var á Kristjönu og Hans Peter. Þegar þau taka við versluninni þá er Kristjana 24 ára en Hans Peter 39 ára.
Kristjana var mikil kjarnorkukona. Jón biskup Helgason frændi Hans Peters sagði að hún hafi verið „einstök mannkosta- og merkiskona”. Hann segir um frænda sinn Hans Peter að hann hafi verið „einstakt valmenni sem öllum var hlýtt til sem hann þekktu.”

Duus-verslun

Hans Pétur Duus.

Árið 1896 keypti H. P. Duus verzlun verzlunarfasteign N. H. Knudtzons í Keflavík ásamt íbúðarhúsi fyrir 8 þús. krónur, einnig saltgeymsluhús í Kotvogi í Höfnum og annað á Járngerðarstöðum í Grindavík fyrir 2 þús. krónur.
Hús Knudtzonsverzlunar voru: Íbúðar- og verzlunarhús, er snéri gafli að götu, var sölubúð í norðurenda, en íbúð í suðurenda. Það hús er nú Ungmennafélagshúsið við Hafnargötu, en í þá daga æfinlega nefnt Norðfjörðshús, eftir síðasta verzlunarstjóra Knudtzonsverzlunar. Skammt frá austurhlið hússins voru 3 vörugeymsluhús, neðsta hýsið snéri gafli að götu, hin þar upp af og mynduðu þau til samans vegg upp með íbúðarhúsinu og byrgðu mjög fyrir birtu og sól. Fjórða húsið var austast og byggt við götuna, það snéri hlið að götu. Mun það ennþá standa. Þá voru stakkstæði nokkur fyrir austan húsin. Eftir að Duusverzlun varð eigandi að eigninni, lét Ólafur Ölavsen stækka þau og umbæta.

Duus

Duus 1882 – eitt glæislegasta hús á Suðurnesjum.

Árið 1900 keypti Duusverzlun eignir og hús Fichersverzlunar í Keflavík. Var sú verzlun í miðri Keflavík. Stendur aðalhúsið ennþá og er nú eign h.f. Keflavík. Mið bryggjan og nokkur gömul vörugeymsluhús fylgdu eign þessari, voru þau flest rifin, enda voru þau næsta hrörleg, en „pakk”-húsið, sem stóð fyrir enda bryggjunnar var látið standa og för þá þegar fram mikil viðgerð á því.
Næsta haust var hafist handa um byggingu sjóvarnargarða. Hafði sjór gengið mjög á landið, þar sem lægst var og flætt upp á Hafnargötuna í stórstreymi.
Var Símon Eiríksson steinsmiður fenginn til verksins og var byrjað við norðanverða miðbryggju. Á næstu árum voru byggðir varnargarðar með sjó fram alla leið út í gróf. Þá var byrjað á að byggja miðbryggjuna úr steini (var áður timburbryggja). Var unnið að þeirri smíð árum saman. Um líkt leyti var byrjað á byggingu steingarðsins mikla, er umlukti á tvo vegu hina stóru lóð fyrir ofan Duusverzlun, er þá var flutt í Fichersbúðina.”

Duus

Duus-listasafn.

Í Duushúsum, þessum gömlu verslunar- og fiskvinnsluhúsum, er nú rekið fjölbreytt menningarstarf. Saga þeirra nær aftur á 19. öld en elsta húsið, Bryggjuhúsið, var reist árið 1877 af Duus-verslun. Byggingarsaga húsalengjunnar er því vel yfir aldarlöng. Byggt var við húsin eftir þörfum hverju sinni. Um miðja 20. öld hætti verslunin rekstri og voru húsin þá notuð í tengslum við útgerð. Undir lok síðustu aldar keypti bærinn húsin fyrir safna- og menningarstarf. Nú hefur öll lengjan verið endurbyggð en því verki lauk árið 2014.
Í Duus-húsum eru níu sýningarsalir af misjafnri stærð. Þar af eru tveir salir helgaðir sérstaklega Lista- og Byggðasafni Reykjanesbæjar. Byggðasafnið er með grunnsýningu sína um sögu svæðisins á Miðlofti Bryggjuhúss. Þar svífur sagan frá tímum dönsku verslunarinnar yfir vötnum.

HPD-steinninn

HPD-steinninn úr fyrrum Duus-húsum.

Framangreint er skrifað vegna þess að þegar Duus-húsin voru endurbyggð um og eftir síðustu aldarmót fannst í grunni þeirra letursteinn. Letursteinninn er með áletruninni “HPD”, sem væntanlega má rekja til framangreinds Hans Péturs Duus. Líklega hefur hann á sínum tíma verið hornsteinninn í Bryggjuhúsabyggingu Hans Péturs.

Helguvík

Sturlaugur Björnsson við HPP-áletrun á berginu við Helguvík. Þessi áletrun hefur nú verið eyðilögð vegna áhugaleysis minjayfirvalda.

Ekki virtist vera áhugi á að varðveita steininn þann við endurbygginguna svo safnari, sem þekkti gildi hans, tók hann til tímabundinnar varðveislu.
HPD-steinninn er nú varðveittur á góðum stað í nálægð Keflavíkur – í hæfilegri fjarlægð frá Þjóðminjasafninu.
Sérstakt má telja að áletrunin “HPD” gæti mögulega verið að einhverju leyti verið skyld þeirri og sjá má á “Hallgrímshellunni” svonefndu, sem fulltrúar Þjóðminjasafnsins fjarlægðu á sínum tíma í óþökk heimamanna úr vörðu við gömlu kaupstaðagötuna milli Básenda og Þórshafnar. Ártalið 1628 á henni hefur hins vegar vakið verulegar vangaveltur, sem ekki hefur enn verið séð fyrir endann á.

Þórshöfn

Þórshöfn – áletranir á klöpp.

Duus virðist koma fyrst við sögu Keflavíkur á ofanverðri 19 öld. Gæti verslunarsaga Duus á svæðinu hafa átt sér enn lengri rætur? Fyrrum voru þarna verslunarstaðir á Básendum og Þórshöfn norðan Ósa. Við báða staðina eru fjölmargar áletranir og letursteinar. Ein þeirra, óútskýrð; “HP”, á klöpp við Þórshöfn gæti mögulega verið fangamark Hans Peturs Duus, en hann verslaði m.a. í Þórshöfn.

Sjá meira

Heimild:
-Faxi 01.06.1948, Marta V. Jónsdóttir, Duus kaupmaður, bls. 2.
-Faxi 17.06.1948, Marta V. Jónsdóttir, Duusverslun, bls. 3-4.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Duus_Safnah%C3%BAs
-https://sofn.reykjanesbaer.is/duushus/um-safnid/um-safnid

HP

HP á klöpp ofan Þórshafnar. Stafagerðin líkist fyrrum einkennismerki Duus.

Andrews

Á RÚV 3. maí 2023 var eftirfarandi umfjöllun um “Flugslys á Fagradalsfjalli sem breytti rás viðburða” í tilefni af því að áttatíu ár voru frá því bandarísk sprengjuflugvél fórst í Kastinu á Fagradalsfjalli skammt frá Grindavík.

Andrews

Minnismerkið á Stapanum um áhafnameðlimi Hot Stuff er fórst í Kastinu á Fagradalsfjalli 3. maí 1943.

Fimmtán voru um borð en aðeins einn komst lífs af. Tilefnið var auk þess tilfærsla á minnismerkinu um atburðinn, en því hafði áður verið komið fyrir austan Grindavíkurvegarins miðja vegu milli Stapans og Grindavíkur. Áhrif tæringar frá nálægri Svartsengisvirkjuninni varð til þess að ástæða var að færa minnismerkið upp á ofanverðan Stapa norðan gatnamóta Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar. Þaðan er ágætt útsýni (í góðu skyggni) yfir að slysstaðnum í kastinu í vestanverðu Fagradalsfjalli. Gerður hefur verið göngustígur ofan í endurgerðan gamla Grindavíkurveginn frá hringtorgi ofan gatnamótanna.

“Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var viðstaddur minningarathöfnina á Stapa í dag.
Hershöfðingjar í Bandaríkjaher, sendiherra og forseti Íslands minntust í dag fjórtán bandarískra hermanna sem fórust í flugslysi á Fagradalsfjalli fyrir áttatíu árum.

Andrews

Frá minningarathöfninni við minnismerkið á Stapanum 3. maí 2023.

Fimm ár eru frá því minnisvarði um flugslysið 3. maí 1943 var reistur en nú verið færður að Stapa við Reykjanesbraut. Fimmtán voru um borð í sprengjuflugvélinni Hot Stuff þegar hún brotlenti á Fagradalsfjalli og komst aðeins einn lífs af. Um borð voru bandarískir hermenn og Frank Maxwell Andrews hershöfðingi.
Minningarathöfnin í dag var einkar hátíðleg þótt bæði væri hvasst og kalt. Mannanna fjórtán var minnst með ræðum, blómsveigar lagðir og þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir auk flugvélar frá Bandaríkjaher.

Andrews

Frá minningarthöfninni á Stapanum.

„Mér finnst það heiður að vera fulltrúi Andrews-herstöðvarinnar sem dregur nafn sitt af Andrews hershöfðingja, og fara fyrir flughermönnum frá herstöðinni við þessa athöfn,“ segir Todd Randolph, yfirmaður Andews-herstöðvarinnar í Bandaríkjunum.
Carrin Patman, sendiherra Bandaríkjanna, segir mikilvægt að minnast þeirra sem fórust. Þeir hafi barist fyrir lýðræðingu.

„Já, mjög svo og enn frekar núa þegar Ísland og Bandaríkin standa aftur saman í andófinu gegn innrás Rússa í Úkraínu,“ segir Patman.

Andrews

Annað upplýsingaskilti af tveimur við minnismerkið. 

Þegar slysið varð hafði enginn jafn háttsettur embættismaður og Andrews hershöfðingi fallið í stríðinu úr röðum bandamanna.
„Rás viðburða hefði orðið önnur hefði það ekki gerst. Hann hefði farið fyrir liði bandamanna sem réðist inn í Normandí í júní 1944. En í stað hans tók Eisenhower við keflinu,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Andrews

Á öðru skiltinu er m.a. lýst 12 flugslysum er urðu á nálægum slóðum á stríðsárunum.

„Hann var þá háttsettur yfirmaður í flughernum á þeim tíma og frumkvöðull í því sem nefnt er Flugher Bandaríkjanna nú. Hann er einn helsti höfundurinn að aðskilnaði herjanna, landher frá flugher til að yfirráðum í lofti sem hernaðaraðferð,“ segir Randolph.

Andrews

Tíu áhafnameðlimir Hot-Stuff er fórust í Kastinu 1943.

Fagradalsfjall sést vel frá minnisvarðanum á Stapa. Frumkvæðið að því að setja upp minnisvarðann eiga tveir bræður [Þorsteinn og Ólafur Marteinssynir] og sem hafa mikinn áhuga á sögunni og halda úti vefsíðu með korti af flugslysum.

„Þeir höfðu reynt lendingu í Keflavík en vegna veðurs fundu þeir ekki völlinn. Við erum að horfa hérna á Fagradalsfjall sem flestir kannast við eftir að það gaus. En hérna vestast, þar sem er smá hækkun [Kastið], það var þar sem vélin rakst á fjallið,“ segir Þorsteinn Marteinsson, áhugamaður um sögu flugslysa.

Á tveimur upplýsingaskiltum við minnismerkið má m.a. lesa eftirfarandi:
B-24 Liberator-sprengjuflugvélin Hot Stuff – Sigurganga og örlagarík endalok
“Bandaríska B-24 sprengjuflugvélin Hot Stuff og áhöfn hennar var fyrsta flugvél 8. flughersins sem lauk 25 árásarferðum frá Bretlandi yfir meginland Evrópu í heimsstyrjöldinni síðari.

Andrews

Áhöfn Hot Stuff.

Yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Evrópu, Frank M. Andrews, hafði verið boðaður til skrafs og ráðagerða í Washington, óskaði eftir því við vin sinn Ted Timberlake ofursta, yfirmann 93. sprenguflugdeildar, að fá far með Robert “Shine” Shannon höfuðsmanni og áhöfn hans á Hot Stuff, en Andrews var einnig kunnugur Shannon. Hershöfðinginn var reyndur flugmaður og skyldi vera aðstoðarflugmaður í ferðinni.
Rétt fyrir brottför kom í ljós að með Andrews í för voru átta aðrir farþegar, nánustu starfsmenn hershöfðingjans, biskup Meþódistakirkjunnar sem fór fyrir prestadeild Bandaríkjahers og tveir herprestar. Sprenguflugvélin rúmaði ekki svo marga farþega og urðu því fimm úr áhöfninni eftir og biðu annarrar ferðar.

Andrews

Robert “Shine” Shannon.

Hot Stuff lagði upp frá Bovington flugvelli í Englandi að morgin 3. maí og skyldi hafa viðkomu í Prestwick í Scotlandi og Reykjavík á leiðinni vestur um haf. Veður var gott í fyrstu en fór versnandi þegar kom upp að suðurströnd landsins með dimmviðri og rigningu. Flugvélin sást hringsóla yfir breska herflugvellinum í Kaldaðarnesi en hélt áfram förinni lágt vestur með strönd Reykjaness. Ólendandi var í Reykjavík og þegar ekki tókst að finna Keflavíkurflugvöll sökum dimmviðris var ákveðið að halda aftur til Kaldaðarness. Lágskýjað var og hvass vindur með slagviðri. Bar flugvélina af leið og hafnaði hún á brún Fagradalsfjalls og sundraðist.

AndrewsVið slysið fórust allir um borð nema stélskyttan, George Eisel liðþjálfi, sem slapp lítt meiddur en lá klemmdur í byssuturninum. Bjóst hann við dauða sínum í brennandi flakinu, en byssukúlur sprungu um allt í eldinum. Slagviðrið vann þó um síðir á bálinu og barst Eisel hjálp þegar leitarflokkar fundu flakið tæpum sólarhring eftir slysið”.

Frank Maxwell Andrews – yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Evrópu – 3. feb. 1884-3. maí 1943
Andrews“Frank M. Andrews hershöfðingi fæddist 3. febrúar 1884 í Nashville í Tennssee. Hann hóf nám í háskóla Bandaríkjahers í West Point árið 1902 og brautskráðist árið 1906. Hann starfaði í flugdeild Bandaríkjahers í fyrri heimsstyrjöldinni og árið 1935 valdi Douglas Mac Arthur yfirhershöfðingi hann til þess að gegna starfi yfirmanns nýrrar aðgerðardeildar flughersins.
Andrew var ötull talsmaður þess að bandaríski flugherinn yrði gerður að sjálfstæðri liðsheild og er honum jafnan eignaður heiðurinn að því að sú skipan komst á árið 1947.
Andrews var einnig ákafur hvatamaður að smíði stórra sprengjuflugvéla og eggjaði stjórnvöld til kaupa á fjölda nýrra sprengjuflugvéla af gerðinni B-17 “Fljúgandi virki” en hlaut ekki stuðning yfirstjórnar hersins. Framsýni hans sannaðist þó þegar Bandaríkin drógust inn í síðari heimsstyrjöldina og stjórnvöld létu smíða B-17 og B-24 Liberator sprenguflugvélar í stórum stíl.

Andrews

Hot Stuff.

Andrews hafði verið hækkaður í tign árið 1941 og var þá falin yfirstjórn bandarískra herja við Karíbahaf sem önnuðust varnir aðkomuleiða til Bandaríkjanna úr suðri, þ.á.m. um Panamaskurð. Eftir innrás bandamanna í Norður-Afríku haustið 1942 var honum falin stjórn alls herafla Bandaríkjanna við sunnanvert Miðjarðarhaf sem átti þátt í að vinna sigur á Afríkuher þýska hershöfðingans Erwins Rommels.

Andrews

Einkennismerking Hot Stuff.

Í febrúar 1943 var Andrew skipaður yfirmaður herja Bandaríkjanna í Evrópu með aðsetur í Bretlandi og 3. maí sama ár valdi bandaríska yfirherráðið hann til þess að stjóra sameinuðum herafla bandamanna sem undirbúa skyldi innrás á meginland Evrópu. Andrew fékk þó aldrei boðin um þess merku hækkun í tign því hann fórst sama dag þegar Liberator flugvél hans, sem gekk undir nafninu “Hot Stuff” og flytja átti hann til Bandaríkjanna, fórst á Fagardalsfjalli á Reykjanesi.

Andrews

Slysstaðurinn í Kastinu. Þaðan hefur nú, á áttatíu ára tímabili, verið hirt nánast allt er gefur slysstaðnum gildi.

Flugvélin hafði horfið frá lendingu í Keflavík vegna veðurs og var á leið til flugbækistöðvar breska flughersins í Kaldaðarnesi. Við lát Andrews hershöfðingja tók Dwight D. Eisenhower, síðar Bandaríkjaforseti, við stjórn Evrópuherstjórnarinnar en hann hafði áður gegnt starfinu árið 1942.
Andrews hershöfðingi og þrettán samferðarmenn hans voru grafnir með mikilli viðhöfn í Fossvogskirkjugarði 8. maí 1943. Líkamsleifar þeirra voru flutta heim til Bandaríkjanna árið 1947 og var Andrews lagður til hinstu hvílu í þjóðargrafreit Bandaríkjanna í Arlingtonkirkjugarði í útjarðri Washingtonborgar”.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur

Georg C. Bonesteel, hershöfðingi og yfirmaður Bandaríkjahers á Íslandi opnaði Keflavíkurflugvöll (Meeks) formlega 24. mars 1943.

“Upphaflega var flugvöllurinn lagður af Bandaríkjaher í Seinni-Heimsstyrjöldinni og tekin formlega í notkun 23. mars 1943. Banndaríkjamenn nefndu hann “Meeks Field” í höfuðið á ungum flugmanni, George Meeks að nafni, sem fórst á Reykjavíkurflugvelli og var fyrsti Bandaríkjamaðurinn sem lést á Íslandi í styrjöldinni. Að styrjöldinni lokinni var flugvöllurinn og bækistöðin, sem við hann stóð, afhentur Íslendingum til eignar og var hann þá nefndur Keflavíkurflugvöllur eftir stærstu nágrannabyggð hans, Keflavík.

Andrews

Leiði Andrews og félaga í Fossvogskirkjugarði.

Flugvellirnir við Keflavík voru reyndar tveir, Meeks og Pattersonflugvöllur ofan Njarðvíkurfitja, sem þjónaði orrustuflugsveit Bandaríkjahers til stríðsloka. pattersonflugvöllur var ekki notaður eftir stríðslok. Keflavíkurflugvöllur var rekinn af bandarísku verktakafyrirtæki til ársins 1951, er Bandaríkjaher kom aftur til landsins samkvæmt varnnarsamningi Íslands og Bandaríkjana sem gerður var að tilstuðlan Norður-Atlantashafsbandalagsins, NATO.

Andrews

Grafsteinn Andrews í Arlingtonkirkjugarði.

Bandaríkjaher (varnarliðið á Íslandi) reisti bækistöð sína við Keflavíkurflugvöll. Þar var afgirtur bær sem hýsti allt að 5700 hermenn, starfsfólk og fjölskyldur þeirra allt til ársins 2006 þegar herstöðin var lögð niður. Í dag her herstöðin hverfi í Reykjanesbæ og gengur undir nafninu Ásbrú”.

Konunglegur flugvöllur í Bretlandi var nefndur eftir Frank M. Andrews, Andrews Field, í Essex, England. Þetta var fyrsti flugvöllurinn, sem verkfræðideild bandaríska hersins endurbyggði þar í landi.

Andrews

Andrews Theater á Keflavíkurflugvelli.

Þetta var 1943, skömmu eftir slysið í Kastinu. Hann var þekktur fyrir að vera fyrsti endurgerði flugvöllurinn í Bretlandin 1943, hét áður RAF Station Great Saling, á heimsstyrjaldarárunum síðari. Flugvöllurinn var notaður af  USAAF 96th sprengjuflugdeildinni og 322nd sprengjusveitinni á stríðsárunum sem og  nokkrum RAF deildum áður en honum var lokað 1946. Í dag er þarna lítill einkaflugvöllur.

Andrews breiðstræti, vegur er liggur að alþjóðaflugvellinu Filippseyja, Ninoy Aquino International Airport Terminal 3, var nefndur eftir honum. Þá var “Andrews Theater” á Keflavíkurflugvelli einnig nefnt eftir Frank í minningu hans.

Sjá meira um minnisvarðan HÉR.

Heimildir m.a.:
-https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-05-03-flugslys-a-fagradalsfjalli-breytti-ras-vidburda
-RÚV, Flugslys á Fagradalsfjalli breytti rás viðburða – Áttatíu ár eru frá því bandarísk sprengjuflugvél fórst á Fagradalsfjalli skammt frá Grindavík. Fimmtán voru um borð en aðeins einn komst lífs af, Kristín Sigurðardóttir, 3. maí 2023.
-Minnismerki ofan Stapa um Andrews og félaga.
–https://en.wikipedia.org/wiki/Frank_Maxwell_Andrews

Andrews

Afsteypa af Hot Stuff, Liberator-24, á minnisvarðanum.

Hafnir

Norðan við Kirkjuvogskirkju í Höfnum, utan garðs, er upplýsingaskilti um “Hafnir og kirkjur í Höfnum“. Þar má lesa eftirfarandi:

Hafnir“Elstu ritheimildir um byggð í Höfnum er að finna í Landnámu þar sem greint er frá því að Ingólfur Arnarsson hafi gefið Herjólfi Bárðarsyni, frænda sínum og fóstbróður, land á milli Vágs og Reykjaness. Landsvæði sem er líklega nálægt stærð gamla Hafnahrepps. Herjólfur var langafi Bjarna Herjólfssonar, sæfaranda, sem talið er að hafi ásamt áhöfn sinni, fyrstur Evrópumanna, litið meginland Norður-Ameríku augum. Fjölskylda Bjarna á Íslandi hafði flutt að Drepstokki við Eyrarbakka og þaðan til Grænlands og var ástæða ferða Bjarna sú að hann var að heimsækja foreldra sína, en villtist af leið.

HafnirÁvallt hefur verið talið að landnámsbýlið Vogur hafi verið norðan Ósa, þar sem heitir Gamli Kirkjuvogur. Þegar skáli með landnámslagi fannst í túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju kom fram sú tilgáta að þar væri að finna landnámsbæinn og fékk hann því nafnið Vogur.

Við fornleifarannsóknir hafa hins vegar vaknað efasemdir um að skálarústin sé bændabýli og hefur sú tilgáta verið sett fram að um sé að ræða rústir útstöðvar eins konar könnunarbúðir líkt og á L’Anse aus Meadows á Nýfundnalandi.

Hafnir

Hafnir – landnámsskáli?

Hafnir eru taldar hafa nafn sitt af tveimur fyrrum stórbýlum, Kirkjuhöfn og Sandhöfn sem stóðu talsvert sunnar en núverandi byggð, en þar var búseta fram á 17. öld. Á síðari tímum hafa Hafnir verið samheiti fyrir 3 hverfi, þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvogshverfi. Byggðin í Höfnum hefur mótast mjög af erfiðum náttúruskilyrðum en þó er líklegt að fyrstu árhundruðin hafi verið búsældarlegra um að litast.

Í kjölfar Reykjaneselda, mikillar eldvirknishrinu á Reykjanesi á 13. öld tók land að eyðast vegna sandfoks.

Hafnir

Hafnir.

Byggðin hefur hopað og nú er, svo komið að byggð er fyrst og fremst í Kirkjuvogshverfinu auk Merkiness. Eftir því sem landgæði rýrnuðu fór vegur sjávarútvegs vaxandi og varð helsti bjargræðiskostur Hafnamanna. Fiskimiðin voru svo gjöful að efnamenn sóttust mjög eftir jörðum í hreppnum og í gegnum aldirnar voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins.

Á 18. öld fór íbúum í þéttbýliskjarnanum í Kirkjuvogshverfi að fjölga og var mikill vöxtur fram á 20. öld. Þá var rekin mikil útgerð stórra áraskipa, bæði frá Kotvogi og Kirkjuvogi. ´

Á 19. öld þótti Kotvogur eitt reisulegasta býli landsins. Blómaskeiðið tók enda er vélbátar fóru að ryðja sér rúms og fjarlægð á mið fór að skipta minna máli og krafa jókst um bætt hafnarskilyrði.

Kirkjur í Höfnum

HafnirKirkja hefur verið í Hafnahreppi að minnsta kosti frá 14. öld, en fyrstu sagnir um kirkju eru frá árinu 1332. Miðaldakirkjan stóð hins vegar norðan Ósa en afar lítið er vitað um sögu hennar. Enn má sjá móta fyrir rústum bæjar- og kirkjustæðis og leifum sem gæti verið kirkjugarður og mögulega kæmi fram ný þekking ef rústir Gamla-Kirkjuvogs yrðu rannsakaðar. Heimildir eru um að mannabein hafi verið flutt þaðan að Kirkjuvogi eftir uppblástur allt fram að aldamótum 1800. Þessarar gömlu jarðar er getið ú Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 en kirkjan hafði verið flutt á núverandi stað árið 1575.

Núverandi kirkja, Kirkjuvogskirkja, var vígð 26. nóvember 1861. Fordyri og kór var bætt við nokkrum árum síðar. Árið 1970 var ákveðið að fara í viðamiklar viðgerðir á kirkjunni en í ljós kom að byggingin var í afar slæmu ástandi. Að tilstuðlan Þórs Magnússonar þjóðminjavarðar voru Hörður Ágústsson og Þorsteinn Gunnarsson fengnir til að stýra verkinu með það að markmiði að færa kirkjuna nær því sem hún var á 19. öld.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja – Jón Helgason 1920.

Söfnuðurinn var fámennur en með útsjónarsemi tókst að ljúka viðgerðum og endurvígði dr, Sigurbjörn Einarsson biskup kirkjuna 10. desember 1972. Á þessum tíma var húsfriðunarsjóður að taka sín fyrstu skref og sást mjög glögglega hve mikil þörf var á þeim sjóði í þess konar verkefni.

Kirkjuhöfn er bær sem stóð aðeins sunnar en Kalmanstjörn. Nafnið bendir til að þar hafi verið kirkja en heimildir eru fátæklegar. Þegar Árni Magnússon skráði efni í jarðabókina árið 1703, kemur fram að jörðin hafi verið í eyði í um 40 ár. Nokkur ummerki eru um byggð á þeim slóðum sem bærinn mun hafa staðið og talið er að þar hafi einnig verið kirkjugarður en sagnir eru um að bein hafi verið flutt þaðan í kirkjugarðinn í Kirkjuvogshverfinu.”

Hafnir

Hafnir – skilti.