Færslur

Hafnarétt

Ekki er minnst á Hafnarétt í örnefnalýsingum, en hún er þó augljós á loftmyndum frá árinu 1954, auk þess sem minjar hennar sjás enn vel í dag norðvestan við Réttargötu í Höfnum.

Hafnarétt

Hafnarétt.

Byggð hefur lagst þétt að réttinni, en þess hefur verið gætt að forða henni frá eyðileggingu. Sjórinn er þó smám saman að eta landið undan henni.

Hafnarrétt

Hafnarrétt 2021.

Keflavík

Í áfangaskýrslu fyrir Reykjanesbæ um byggða- og húsakönnun gamla hverfisins í Keflavík frá árinu 2012 má lesa eftirfarandi um sögu þess og byggðaþróun:

Sögubrot
Keflavík
“Keflavíkur er fyrst getið í rituðum heimildum um 1270 og þá í sambandi við reka og skipti á hval á Romshvalanesi. Þá er staðarins getið um 1420 þegar enskir fiskimenn fóru að venja komur sínar á Suðurnesin og sóttu þaðan á fiskimið.
Um 1450 voru Þjóðverjar komnir á þessar slóðir og hófu verslun. Skömmu eftir 1600 tóku Danir við og einokunarverslunin hófst formlega árið 1602.
Upphaflega mun jörðin Keflavík hafa verið í eigu Skálholtsstóls, en verður eign konungs við siðaskiptin. Keflavíkurjarðarinnar er fyrst getið í jarðamatsbókum árið 1597. Þá er hún konungsjörð og gjöld af henni greidd til Bessastaða. Hún tilheyrði Rosmhvalaneshreppi til ársins 1908 þegar Keflavík og Njarðvíkurhreppur hinn eldri voru sameinaðir í Keflavíkurhrepp. Búskapur lagðist niður á jörðinni árið 1780.

Keflavík

Duushús og tóftir gamla Keflavíkurbæjarins neðst.

Með einokunarverslun Dana var mælt fyrir að siglt skyldi á tuttugu hafnir á landinu og var Keflavík ein þeirra. Verslun komst þá í hendur kaupmanna frá Kaupmannahöfn.
Efling fiskveiða varð að frumkvæði danskra kaupmanna og ráðamanna. Sem dæmi um hve Keflavík hefur verið eftirsóttur verslunarstaður er að árið 1624 er aðeins einn verslunarstaður með meiri ágóða, þ.e. Ísafjörður.
Fyrsti búfasti kaupmaðurinn í verslunarþorpinu Keflavík var Jacobæus sem þangað fluttist samkvæmt ákvörðun Almenna verslunarfélagsins árið 1787, í lok einokunarverslunarinnar, en Danir héldu uppi verslun í Keflavík allt fram til ársins 1919.
Keflavík
Segja má að Jacobæus hafi lagt grunn að framtíðarbyggð, en þrjú hús voru í Keflavík og komin forsenda varanlegs þéttbýlis.
Um 1800 kom breskur ferðamaður, Henry Holland, til Keflavíkur og segir þar vera 15-20 timburhús og nokkra torfbæi.
Á fyrstu áratugum 19. aldar byggðist upp þorp í Keflavík. Verslunarþorpið dró að sér handverksmenn og ýmsa þjónustu auk þess fólks sem stundaði sjómennsku og fiskverkun.

Keflavík

Keflavík 1890.

Jacobæus lét reisa sjóvarnargarð og uppskipunarbryggju. Þá lét hann stækka tún og gera matjurtargarða og girti af með grjóthleðslum.
Í tengslum við verslunina voru reist verslunar- og pakkhús og og á síðasta áratugi 19. aldar voru þar þrjár verslanir sem sjá má merki um í dag, þ.e. Knudzon, Duus og Fischers verslanir.
Útræði var ekki mikið í Keflavík fyrr en eftir 1800, þegar verslun hafði verið gefin frjáls. Fram að þeim tíma var róið út frá verstöðvum í kring, í Höfnum, Njarðvíkum, Miðnesi og Görðum. Í kjölfar aukinnar útgerðar fjölgaði íbúum ört og fór úr 35 manns um 1800 í 130 manns um 1830. Áramótin 1900 voru íbúar um 300 talsins. Um helmingur íbúa kom úr öðrum sýslum og nærsveitum.Keflavík
Skaftáreldar sköpuðu slíka neyð að fólk flúði heimahaga sína og flutti fjöldi fólks af Suðurlandi til Suðurnesja. Til Keflavíkur fluttist margt fólk utan að landi sem taldi hag sínum og fjölskyldu sinnar betur borgið í Keflavík þar sem uppgangur var, m.a. vegna útgerðar. Þá komu menn til útræðis annars staðar að s.s. frá Mýrum og Borgarfirði.
Keflavík
Mikil fátækt var í Keflavík á 19. öld. Íbúar voru annarsvegar fátækir daglaunamenn og hinsvegar verslunarstjórar og kaupmenn. Framan af bjó alþýðan í torfhúsum eða tómthúsum. Tómthúsmannabyggðirnar voru einkum sunnan og vestan Duushúsa. Ekki eru til neinar minjar um þá byggð nú, en elsta byggð Keflavíkur stendur á því svæði. Árið 1800 eru talin 30 kot í Keflavík, mest torfbæir með timburgafli og 6 hús eingöngu úr timbri Hans Duus keypti Keflavíkurverslun um 1850. Duus verslun starfaði fram til ársins 1919. Þá var verslunin búin að kaupa upp aðrar verslanir ásamt lóðum og lendum og átti því mest allt land undir húsum Keflvíkinga. Árið 1920 lýkur að fullu danskri verslun í Keflavík. Kaupfélag Suðurnesja var stofnað árið 1928.

Keflavík

Vegna hafnleysis var útgerð þilskipa ekki vænleg og sjósókn eingöngu á opnum árabátum fram til 1907, þegar fyrsti vélbáturinn var keyptur til Keflavíkur. Hafnaraðstaðan var þó slæm og lágu bátarnir við bauju á Keflavík milli róðra.
Árið 1905 var kauptúnum sem töldu fleiri en 300 íbúa heimilað að verða sérstakt sveitarfélag og árið 1908 varð Keflavíkurhreppur til. Stærsti útgjaldaliður hins nýja sveitarfélags var fátækraframfærsla. Verkefnin voru ærin svo sem atvinnumál, brunavarnir, hafnargerð og umbætur í vatnsbólum svo eitthvað sé nefnt. Vegna aðstæðna í Keflavík var erfitt með vatnsöflun. Framan af var einungis einn brunnur í þorpinu sem staðsettur er inni í Bryggjuhúsi Duusverslunarinnar.

Keflavík

Keflavík – brunnurinn við Brunnstíg.

Árið 1907 lét Duusverslun grafa brunn við Brunnstíg og dregur gatan nafn sitt af honum.
Um 1930 voru byggðar steinbryggjur á Vatnsnesi og í Grófinni. Í kjölfar þessara hafnarbóta fjölgaði vélbátum. Á fjórða tug 20. aldar var fyrsta hraðfrystihúsið reist og fjölgaði þeim hratt og voru orðin fimm þegar mest varð. Hafskipabryggja var byggð í Keflavík árið 1932 og hófst þar með bygging núverandi hafnar.
Árið 1949 fékk Keflavík kaupstaðarréttindi. Gífurlegur vöxtur hljóp í byggðina á árunum eftir 1950 vegna uppbyggingar Keflavíkurflugvallar og veru varnarliðsins þar.

Þróun byggðar

Keflavík

Keflavík – húskönnunarsvæðið 2012.

Keflavík byggðist upp meðfram strandlengjunni eins og flest sjávarþorp á Íslandi. Hús verslananna stóðu meðfram götu sem síðar var nefnd Hafnargata. Þar fyrir ofan reis hin eiginlega íbúðarbyggð.
Um aldamótin 1900 var byggð tekin að myndast sem tengd var saman með gatnakerfi. Byggðin afmarkaðist af Vesturgötu í norðri, Kirkjuvegi til vesturs, Tjarnargötu til suðurs og strandlengjunni til austurs. Skólinn stóð við Íshússtíg, miðsvæðis í byggðinni á milli verslananna.
KeflavíkKauptúnið skiptist í tvö hverfi sem kölluð voru austurplássið og vesturplássið. Mikið tún, Norðfjörðstún, kennt við Ólaf Norðfjörð, faktor, klauf byggðina í tvennt. Eftir aldamótin 1900 fór byggðin að færast lengra suður og upp á melinn til vesturs. Edinborgarverslun ásamt bryggju reis við Hafnargötu og vegurinn í byggðina frá Reykjavík var að öllum líkindum úr suðri.
Að undirlagi Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar og eiganda Keflavíkurjarðarinnar gerði prófessor Guðmundur Hannesson læknir skipulagsuppdrátt að Keflavík árið 1920. Var uppdrátturinn fyrsti vísir að skipulagi fyrir Keflavík. Þar voru teiknaðar götur yfir Norðfjörðstún þar sem nú eru Túngata, Norðfjörðsgata og Vallargata. Árið 1935 var Norðfjörðstúnið nánast fullbyggt.
Árið 1929 var fyrst kosið í sérstaka byggingarnefnd hreppsins. Engin byggingarsamþykkt var þá til í Keflavík en nefndinni var falið að kveða á um hvar og hvernig byggingum skyldi háttað. Árið 1930 fól hreppsnefnd byggingarnefnd að gera skipulagsuppdrátt að Keflavík.
KeflavíkJón J. Víðis mældi og dró upp Keflavík 1932 fyrir Skipulagsnefnd (Íslands). Um sama leiti var hafist handa við að semja byggingarsamþykkt fyrir Keflavík og tók hún gildi 27. júlí 1932. Þar kom fram að gerður yrði skipulagsuppdráttur samkvæmt skipulagslögum og færi skipulag kauptúnsins að því búnu eftir honum og ákvæðum skipulagslaga. Allar byggingar í kauptúninu skyldu vera samkvæmt uppdrættinum á því svæði sem hann næði yfir en annarstaðar skyldi byggingarnefnd ráða legu gatna og húsa. Sérstakt leyfi byggingarnefndar þurfti til að gera íbúðir í kjöllurum. Kröfur voru settar um að allar íbúðir nytu birtu og að hverri íbúð skyldi fylgja nokkur lóð.
Þegar Guðmundur Hannesson vann að skipulagi Keflavíkur 1932 skrifaði hann greinar í Morgunblaðið þar sem hann dró upp eftirfarandi mynd af bænum: „Keflavík er allstór og myndarlegur bær og hefur vaxið mikið á undanfarandi árum. [….] Ég hafði séð bæinn fljótlega fyrir nokkrum árum. Virtist mér hann þá skipulagslítill og bjóst því við, að ekki yrði hlaupið að því að gera þar skipulag. En þegar ég fékk nú tækifæri til þess að athuga hann nánar, þá reyndist mér hann hálfu betri en ég hafði búist við.
KeflavíkBæjarstæðið er tiltölulega flatlent og götur hafa verið lagðar út og suður og austur og vestur. Flestar göturnar eru 15m breiðar, ef mælt er milli húshliða, og er það meira en víðast í Reykjavík. Byggingareitir hafa ríflega breidd. Þeir hafa ekki verið skyni skroppnir mennirnir sem sáu um allt þetta, jafnvel séð lengra en Reykvíkingar þó sums staðar hafi þeim mistekist. Það varð þá fyrir, eins og vant er, að hyggja að bryggjunum og þörfum útvegsins.
Aðstaðan við sjóinn er erfið, höfnin ekki annað en opin vík, og lítil von um að þar verði fyrst um sinn gerð góð höfn. Við land er fremur útgrunnt í sjálfri víkinni, hraun undir og skerjótt við ströndina. Það búa margir við betra en bjargast þó miður en Keflvíkingar.
Aðalbryggjan er utan til í víkinni og er þar nóg dýpi fyrir báta um háfjöru. Önnur bryggja er þar utar, kynlega lögð og hlykkjótt, en með háfjöru er hún á þurru landi. Hún verður vafalaust lengd áður langt um líður, og getur þá komið að gagni. […….]
Keflavík
Sjálfur [er] bærinn ærið fyrirferðarmikill. Það er nálega 20 mínútna gangur eftir honum endilöngum. Þessi dreifing byggðarinnar er varasöm, því götur verða þá dýrar, ekki síst er ræsi og vatnsveita verða lögð. Hér, eins og víðar, er orsök dreifingarinnar sú, að lóðir fást ódýrari í suðurhluta bæjarins og þar vex því byggðin, en hins vegar eru húsin hvergi sambyggð, þó bæði sé það ódýrara og hlýrra“.
Skipulagsnefndin vann áfram með skipulagshugmyndir Guðmundar Hannessonar. Lögð var áhersla á að aðgreina íbúðar- og atvinnusvæði.

Keflavík
Útgerðinni var ætlað svæði í Grófinni og á Vatnsnesi nærri hafnarmannvirkjum. Iðnaði var valinn staður á Vatnsnesi.
Verslunin átti að vera áfram við Hafnargötu þar sem gert var ráð fyrir sambyggðum húsum með vörugeymslum bakatil. Gert var ráð fyrir íbúðarbyggð á svæði sem afmarkaðist af Vesturgötu til norðurs, Hringbraut til vesturs, Vatnsnesvegi til suðurs og Hafnargötu til austurs. Teiknuð var ný íbúðarbyggð á Duus-túni þar sem fyrir var byggð. Götur lágu í beinum línum frá austri til vesturs og norðri til suðurs. Skipulagið var auglýst eins og lög gerðu ráð fyrir og gerðu hagsmunaaðilar, byggingarnefnd og sjálf hreppsnefndin athugasemdir. Voru menn ósáttir við breytingar frá upphaflegum hugmyndum Guðmundar Hannessonar sem flestar væru til þess að gera uppbyggingu dýrari. Ósátt var um að á helmingi svæðisins væri gert ráð fyrir tvílyftum húsum og sambyggðum húsum.
KeflavíkAðkoman að bænum var um Hafnargötu sem þá þegar var orðin aðalgata bæjarins og hefur ávalt verið það síðan. Skipulagið gerði ráð fyrir tveim opnum svæðum, annars vegar við kirkjuna við Kirkjuveg og hins vegar við bæjarvöll sem afmarkast af Suðurgötu, Tjarnargötu, Sólvallagötu og Skólavegi. Lögð var áhersla á að hagkvæmis[-] og fegurðarsjónarmið skyldu höfð að leiðarljósi við framtíðaruppbyggingu. Fyrsta skipulag Keflavíkur var staðfest í júní 1934.
Á vegum Skipulags ríkisins og Samvinnunefndar um skipulagsmál Keflavíkur, Njarðvíkur og Keflavíkurflugvallar voru síðan unnar aðalskipulagsáætlanir sem staðfestar voru 1973 og 1983 svo Aðalskipulag Reykjanesbæjar 1995-2015.

Keflavík

Keflavík – loftmynd 1954.

Í núgildandi Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008 – 2024 segir: “Þéttbýli í Reykjanesbæ hefur markast af byggð í Keflavík, Innri Njarðvíkum, Ytri Njarðvíkum og Höfnum. Fram til þessa hefur byggðin fyrst og fremst verið austan og norðan Reykjanesbrautar. Þessi fyrrum sveitarfélög voru sameinuð í Reykjanesbæ árið 1994. Njarðvíkurfitjar mynda afgerandi skil í byggðinni, en eru um leið dýrmæt náttúruperla sem gefur bænum ómetanlegt gildi.
Byggð í Reykjanesbæ er fremur lág og eru einnar til þriggja hæða hús áberandi. Bygging hærri húsa hefur þó farið vaxandi á síðast liðnum misserum með allt að sjö til átta hæða húsum við strandlengju.
Fjölbýlishúsahverfi frá sjöunda áratug er í suðurhluta gömlu Keflavíkur og stórt fjölbýlishúsahverfi í norðri frá níunda áratuginum. Þéttleiki byggðar er nokkuð mismunandi eftir hverfum, á bilinu 10 til 30 íbúðir á hektara. Gott samhengi er í ákveðnum bæjarhlutum og fjölbreytni er í húsa- og íbúðargerðum, sérbýli og fjölbýli.
Keflavík
Heildstæður byggðarkjarni eldri timburhúsa er upp af gömlu Keflavík, en elstu hús bæjarhlutans eru timburhús frá því kringum aldamótin 1900. Bærinn byggðist á sínum tíma nokkuð þétt út frá víkinni í eins konar geislum. Uppgangstíma í útgerð má m.a. sjá í íbúðarbyggingum á fimmta áratuginum. Vaxtarkippur varð svo í íbúðarbyggingum á sjötta áratuginum með komu varnarliðsins og aftur í byrjun sjöunda áratugarins þegar fólk flutti frá Vestmannaeyjum eftir gos.

Keflavík

Keflavík – Hafnargata 2020.

Hafnargata, Hringbraut og Njarðarbraut eru helstu götur bæjarins með líflegan bæjarbrag og öflugan þjónustukjarna með blandaðri byggð. Hafnargata og Njarðarbraut mynda upphaf lífæðar bæjarins sem teygir sig til austurs að Tjarnarbraut og Dalsbraut, þar sem ný íbúðarbyggð hefur risið undanfarin ár og er enn í byggingu. Þar er mikilvægi lífæðarinnar fyrir samhengi byggðarinnar fylgt eftir, svo sem við mótun göturýmis, í húshæðum og þéttleika, sem er mestur við lífæðina. Í Höfnum eru elstu íbúðarhúsin frá um 1920 og nokkur ný hús hafa verið byggð á þremur síðastliðnum áratugum.
Trjágróður er ekki áberandi í bæjarlandinu, en víða má sjá myndarleg tré í húsagörðum. Nálægðin við sjó, hafnir, heiðar og berg gefur bæjarumhverfinu sérkenni og margbreytileika”.”

Heimild:
-Reykjanesbær – byggða- og húsakönnun, áfangaskýrsla, febrúar 2012.

Keflavík

Keflavík – loftmynd 1954.

Hafnir

Vilhjálmur Hinrik Ívarsson skráði örnefnalýsingu fyrir Hafnahrepp. Hann var fæddur 12/8 1899 í Eyvík, Grímsnesi, Árnessýslu, og flytur að Merkinesi í Höfnum 1934. Heimildarmenn Vilhjálms Hinriks voru Guðmundur sál. Jósefsson, Staðarhóli, hreppstjóri og manna kunnugastur meðfram Ósum; Magnús Gunnlaugsson, Garðhúsum; Þorsteinn Árnason, Kirkjuvogi; allir látnir; og Ólafur Ketilsson, Kalmanstjörn, einnig látinn.

Hér verður fjallað um ströndina utan við Hafnir frá Eyjatanga að mörkum Merkiness. Auk þess verður fjallað um húsin í höfnum skv. örnefnalýsingu Hinriks Ívarssonar frá árinu 1978.

Vilhjálmur Hinrik Ívarsson

Vilhjálmur Hinrik Ívarsson í Merkinesi.

“Glöggt má sjá elju manna og tilraunir að hefta landbrot sjávarins, því víða má sjá grjóthleðslur fyrir vikum, en en allt hefur komið fyrir ekki.
Þá kemur breið vík, sem takmarkast af löngum sand- og malartanga og heitir hann Eyjartangi. Svo sem 150 metra frá landi liggur eyja frá austri til vesturs með gróðri. Eyju þessa áttu allir grasbýlismenn í Kirkjuvogshverfi. Þar var talsvert æðarvarp, sem var nytjað. (Eftir að minkurinn flæddi yfir, hefur þetta horfið að mestu.) Milli lands og eyjar þessarar liggur áll, sem fær er smærri skipum inn á Ósana um flóð, en sæta verður föllum, því strangur straumur verður þarna með fullu út- eða innfalli. Eyjan ber ekkert sérheiti – nema ef vera kynni Varpey. (Þannig nefnir Jón Víðis hana á mælingakorti af Ósum 1918.) Yzt á Eyjartanga er sundmerki Kirkjuvogssunds, hátt tré með rauðum þríhyrning. Vestan Eyjartanga er nokkuð breitt bogadregið vik, Stóra-Bót. Vestan hennar gengur löng klöpp þvert út í ósinn. Hún heitir Innri-Langaklöpp. Gegnt henni norðan við ósinn er skerjaklasi, sem fer í kaf um flóð. Er það kallað einu nafni Veggir, (líka Eggjar).

Hafnir

Á Hafnavegi 1952.

Þá tekur við mjótt vik, Svartaklettsbót, en vestan hennar er stór, nokkuð há sprungin klöpp, sem er umflotin um flóð. Hún heitir Svartaklöpp sumir Svartiklettur. Lítið vestar gengur löng, lág klöpp til norðvesturs. Hún heitir Ytri-Langaklöpp. Eftir þessari klöpp liggur hafnargarður öflugur með skjólvegg á vestari brún (allt sleipt), en beygir svo í horn til norðausturs. Móti enda þeirrar álmu garðsins er einstakt, kúpulagað sker, sem fer í kaf með hálfföllnu að. Á skeri þessu er stöng með rauðu varúðarmerki. Frá garðinum að skeri þessu munu vera um 100 metrar (nánar síðar). Vestan hafnargarðsins er talsvert sandvik nafnlaust, en afmarkast af löngum klapparana að vestan, sem heitir Þvottaklettar, og er þá komið að Kirkjuvogsvör. Þaðan hafa gengið opin skip til fiskveiða frá aldaöðli, en er nú með öllu lögð niður, eftir að aðstaða batnaði við hafnargerðina.

Örnefni með ströndinni frá Kirkjuvogsvör að hreppsmarki í Valahnjúksmöl á Reykjanesi

Hafnir

Hafnir – loftmynd 1954.

Þvert fyrir Kirkjuvogsvör liggur hátt sker, umflotið í stórstraumsflóði og fer þá í kaf. Það liggur frá norðaustri til suðvesturs og heitir Kirkjusker. Norður úr því gengur annað sker miklu lægra og heitir Flatasker. Suðvestan við Kotvog skagar stór, nokkuð há klöpp, Háaklöpp, og þar norður af Kotvogsklettar. Þá tekur við sjávarkambur, kallaður Garðhúsmöl. Þar, skammt sunnar, skagar rani fram í sjóinn, sem heitir Snoppa, og dálítið sunnar önnur klöpp, heitir hún Trollaraklöpp. Nafngift þessi gerist eftir síðustu aldamót (líklega 1912-14; vantar nákvæma heimild). Einn morgun, er fólk kom á fætur, sá það ljós fyrir neðan túnið í Réttarhúsum, og er að var gáð, stóð þar togari með öllum ljósum, stóð þar á réttum kili um háflóð. Sjór var frekar kyrr, en dimmviðri. Með útfallinu gengu skipsmenn þurrum fótum í land.
Skömmu síðar gerði mikið hafrót, og brotnaði skipið niður, en sumt var rifið. Skip þetta hét Grænland og var þýzkt – fyrsta ferð þess til veiða.

Hafnir

Frá Höfnum – Kotvogur t.v. og Kirkjuvogur t.h.

Þá tekur við lítið malarvik, sem heitir Bás. Næsta örnefni er Haugsendamöl, dálítið breitt malarvik niður undan Haugsendakampi. Svo sem 200 metrum frá ströndinni til suðvesturs er aflangt, nokkuð hátt sker frá austri til vesturs. Það heitir Markasker. Það er landamerki milli Kirkjuvogsjarða og Merkiness. Aðeins suðvestar skagar langur, mjór klapparani til vesturs, ca. 600 m langur, með smáskorum yfir þvert og fer lækkandi allt í sjó fram. Þessi tangi heitir Hlein.
Skömmu eftir síðustu aldamót, 1908, vildi til það hörmulega slys, að togari strandaði í svartabyl að kvöldlagi rétt norðan nefndrar hleinar, en veður var í uppgangi á suðvestan. Um björgun var ekki að ræða, hvorki frá sjó né landi, og fórust þar allir menn. Þegar sá, er þetta ritar, kom fyrst í Hafnir, 1924, sást enn ofan á ketil skipsins um stórstraumsfjöru, og fram á þennan dag ber við, að kolamolar finnast í fjörunni. Sunnan við Hlein er lítið sandvik, Hleinarvik. Dálítið sunnar er vik inn í klappirnar. Það heitir Mönguhola. Munnmæli segja, að einsetukona hafi verið í Merkinesi (samanber síðar Möngusel), sem hélt kindum sínum þar til fjörubeitar.

Nöfn húsa, eyðibýlanöfn og afstöðulýsing í Kirkjuvogshverfi

Hafnir

Frá Höfnum.

Þegar komið er eftir þjóðveginum til Hafna, er fyrst farið framhjá býli á hægri hönd, sem heitir Teigur. Þetta er nýbýli úr landi Kirkjuvogs hins forna. Þá er Ósland á hægri, en Bræðraborg til vinstri. Þá er Sjónarhóll til hægri, en Brautarhóll til vinstri. Þar lítið sunnar var eitt sinn bær, sem hét Hraunprýði, og lítið eitt vestar var býli, sem hét Vífarskot. Á þeim rústum er nú hús, sem heitir Kalmanstunga. Móts við Brautarhól liggur vegur niður að höfninni.
Suðvestur frá Kalmanstungu er tún. Þar stóð bækorn, sem hét Bjarghús. Um 1930 og lengur var þarna fjárhús og hlaða, en allt hefur það verið jafnað út.
Samsíða veginum er markað fyrir tveimur vegastæðum og afmældar lóðir meðfram þeim fyrir smáíbúðir, og koma götur þessar til með að heita Seljavogur sú efri, en Djúpivogur hin lægri. Þrjú hús eru risin við Seljavog, en eitt við Djúpavog.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja – Jón Helgason 1920.

Frá vegamótum Reykjanessvegar ökum við að Kirkjuvogskirkju. Þá er fyrst við beygju vegarins á vinstri hönd Jaðar. Þá er Garðbær fjær veginum og Kirkjuvogur, en uppi á hæðinni móti kirkjunni er Traðhús. (Gamli Kirkjuvogur stóð gegnt kirkjudyrum, en var færður 1943 þangað sem hann stendur nú.) Meðfram norðursíðu kirkjugarðsins stóð nokkuð stórt timburhús, sem hét Norðurhús, en var rifið 1929 og endurbyggt í Keflavík.
Kirkjuvogskirkja var á öldum áður norðan við Ósa í Vogi, en sökum sjávarágangs og landbrots flutt á hól þann í Kirkjuvogi, sem hún stendur enn á. Ekki er öruggt með, hvaða ár þetta hefur verið gert, en sr. Jón Thorarensen fullyrðir, að það gerist fyrir 1575. (Vilhjálmur Hákonarson byggði þessa kirkju 1861).
Ef við erum stödd við höfnina, förum við veg, sem liggur eftir endilöngu hverfinu. Verður næsta hús Höfn, þá Bakki, Sólberg, Sólbakki, en Kirkjuból heitir húsið á götuhorninu og uppi á hólnum sjávarmegin (nú) Hóll (áður Staðarhóll).
Öll þau hús, sem nú hafa verið nefnd, eru byggð á landhluta, sem hét Búðabakki. Öll þessi hús eru á hægri hönd.
Til vinstri eru tún, sem skipt er í skákir. Austast er Hjallatún, þá Kotvogstún, en syðst gengur horn eða tunga, sem er hæst, og heitir það Akrar. Þar eru oft haldnar álfabrennur á gamlárskvöld eða þrettánda.

Hafnir

Kirkjuvogur og Kotvogur 1873.

Nú höldum við yfir vegamótin og eru þá miklar frystihúsbyggingar, þar á meðal geysistór bygging hlaðin úr holstein, en aðeins tóftin ein. Frystihús þetta hefir oft skipt um eigendur, en var byggt upphaflega 1943 af hreppsbúum. Síðasta nafn hlutafélags þess, er átti húsið, var Hafblik h/f.
Vestar á sjávarbakkanum er Kotvogur og er hann nú ekki nema svipur hjá sjón. Fyrr á tímum var þetta stórbýli. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið í Kotvogi, sem var timburhús. Þar fórst í eldinum Helgi Jónsson, kenndur við Tungu, þáverandi eigandi Kotvogs, og dóttir hans 7 ára, ásamt Guðjóni Guðmundssyni, sem var vinnumaður Helga. Stórt timburpakkhús var austast og fjarst eldinum og sakaði ekki. Þetta hús var síðar innréttað og er enn í dag íbúðarhús.

Hafnarétt

Hafnarétt.

Nú ökum við áfram framhjá timburhúsi með kvist til suðvesturs. Þetta er á vinstri hönd og heitir Vesturhús. Þá er Staður og aðeins fjær Grund. Aðeins austar stóð lítið hús fram yfir 1940, sem hét Tunga.
Þegar við höldum áfram, er næst á vinstri hönd Sólvellir (steinhús), en á hægri hönd er nokkuð stórt steinhús. Það er Staðarhóll. Þá er næsta hús sama megin, steinhús, Garðhús, og aðeins nær sjónum timburhús, sem flutt var á þennan stað fyrir fáum árum. Það heitir Sólheimar og þar næst einnig aðflutt timburhús, sem heitir Garður. Tún liggur milli sjávar og þessara húsa, sem nefnt er Garðhúsatún, og milli þess og Kotvogs er túnspilda, sem nefnd er Danskhúsavöllur. Rétt á móti Staðarhól er rofið og ónýtt lítið timburhús, sem hét Klöpp, og tímaspursmál, nær það verður afnumið. Túnin á vinstri hönd eru í ótal skákum og breytast nöfn þeirra mjög eftir eigendum þeirra hverju sinni, en þó eru tvö nöfn, sem haldast enn, Skák, sem nær rétt að skólanum, sem var, heitir Faxagerði, og annað tún litlu vestar heitir Miðmundakrókur.

Hafnir

Hafnir – Kotvogur.

Nú eru þrjú hús ótalin á vinstri hönd. Þá er næst Hvammur, póst- og símstöð. Lítið eitt fjær veginum Nýlenda og þar rétt vestar Ragnheiðarstaðir. Þeir standa í samnefndu túni. Sjávarmegin við Garðhús er klapparhóll grasi vaxinn, sem heitir Bóndhóll. Fyrir tæpum mannsaldri byggðu sér bæ á hól þessum hjón þau, sem hétu Guðmundur Salómonsson og Sigurlaug Þórðardóttir. Settust þau þar að, en höfðu skamman tíma verið þar, er þau fluttu þaðan og gengu svo frá, að ekki sér verksummerki. Fátöluð voru þau hjón um orsök þess, en þeir, sem kunnugastir voru þeim hjónum, gáfu í skyn, að þeim hafi ekki verið vært þar, og ollu því draumar tveir og jafnvel sýnir. Síðan hefur aldrei verið hróflað við neinu á hól þessum.

Hafnir

Hafnir – Kotvogur.

Suðvestan við Garðhúsatún er talsverður túnblettur og vestan til í honum miðjum var bækorn fram yfir 1930. Þar bjó Vilhjálmur Jónsson. Bærinn hét Í Görðum, en í daglegu tali Villabær. Út við veginn innan túnsins var lægð ofan í klöpp og hélzt þar oft vatn í með ólíkindum, þó þurrkar væru. Þetta heitir Prettur. Enn er túnskák vestur af Villabletti. Hún tilheyrir Kotvogi, en er nafnlaus. Hér endar vegurinn, en við sjáum mikla grjótgarða og innan þeirra er tún. Í því nær miðju var eitt sinn bær, sem hét Réttarhús. Jörð þessa keypti eigandi Nýlendu, en bæjarrústir jafnaðar út.
Þar skammt suðvestur af eru rústir af bæ, sem hét Vallarhús. Hann mun hafa farið í eyði upp úr aldamótum síðustu. Nú fyrir fjórum árum var byggður þarna sumarbústaður.
Vorhús voru rétt hjá Ragnheiðarstöðum; nú er þar skúr.
Þá taka við Haugsendar. Þar kvað hafa verið byggð fyrir ævalöngu, en enginn veit nú, hvar sá bær hefur verið. Máske sjór hafi brotið upp land, eins og víða gerist hér með ströndinni, en geta má þess, að svo sem 150 metrum suðvestur frá horni garðlags þess, er liggur frá Bræðrum og niður undir sjó, má sjá, sjávarmegin við veginn, litla rúst, svo sem grænan hrygg, og ef vel er gaumgæft, sést móta fyrir garðlagi niður að sjó.”

Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Hafnir – Merkinesi í Höfnum,17/4 1978, Vilhjálmur Hinrik Ívarsson.

Hafnir

Kirkjuvogskirkja 1970.

Hafnir

Við kirkjugarðsvegg Kirkjuvosgkirkju að vestanverðu er skilti. Á því er Höfnum og kirkjum byggðalagsins þar lýst í máli og myndum:

Hafnir
Elstu ritheimild um byggð í Höfnum er að finna í landnámu þar sem greint er frá því að Ingólfur Arnarson hafi gefið Herjólfi Bárðarsyni, frænda sínum og fóstbróður, land á milli Vágs og reykjaness. landssvæði sem er líklega nálægt stærð gamla Hafnahrepps. Herjólfur var langafi Bjarna Herjólfssonar, sæfaranda, sem talið er að hafi ásamt áhöfn sinni, fyrstur Evrópumanna, litið meginland Norður-Ameríku augum. Fjölskylda Bjarna á Íslandi hafði flutt að Drepstokku við Eyrarbakka og þaðan til grænlands og var ástæða ferða Bjarna sú að hann var að heimsækja foreldra sína, en villtist af leið.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Ávallt hefur verið talið að landnámsbýlið Vogur hafi verið norðan Ósa, þar sem heitir Gamli Kirkjuvogyr. Þegar skáli með landnámslagi fannst í túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju kom fram sú tilgáta að þar væru að finna landnámsbæinn og fékk hann því nafnið Vogur.

Hafnir

Kotvogur.

Við fornleifarannsóknir hafa hins vegar vaknað efasemdir um að skálarústin sé bændabýli og hefur sú tilgáta verið sett fram að um sé að ræða rústir útstöðvar eins konar könnunarbúða líkt og á L’Anse aux Meadows á Nýfundnalandi.
HafnirHafnir eru taldar hafa nafn sitt af tveimur fyrrum stórbýlum, Kirkjuhöfn og Sandhöfn, sem stóðu talsvert sunnar en núverandi byggð, en þar var búseta fram á 17. öld. Á síðari tímum hafa Hafnir verið samheiti fyrir 3 hverfi, þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvogshverfi. Byggðin í Höfnum hefur mótast mjög af erfiðum náttúruskilyrðum en þó er líklegt að fyrstu árhundruðin hafi verið búsældarlegra um að litast.
Í kjölfar Reykjaneselda, mikillar jarðeldahrinu á Reykjanesi á 13. öld, tók land að eyðast vegna sandfosk. Byggðin hefur hopað og nú er svo komið að byggð er fyrst og fremst í Kirkjuvogshverfinu auk Merkiness. Eftir því sem landgæði rýrnuðu fór vegur sjávarútvegs vaxandi og varð helsti bjargræðiskostur Hafnamanna. Fiskimiðin voru svo gjöful að efnamenn sóttust mjög eftir jörðum í hreppnum og í gegnum aldirnar voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins.
HafnirÁ 18. öld fór íbúum í þéttbýliskjarnanum í Kirkjuvogshverfi að fjölga og var mikill vöxtur fram á 20. öld. Þá var rekin mikil útgerð stórra áraskipa, bæði frá Kotvogi og Kirkjuvogi. Á 19. öld þótti Kotvogur eitt reisulegasta býli landsins. Blómaskeiðið tók enda er vélbátar fóru að ryðja sér til rúms og fjarlægð á mið fór að skipta minna máli og krafa jókst um bætt hafnarskilyrði.
Nú er byggðin að mestu í gamla Kirkjuvogshverfinu sem nefnist Hafnir í daglegu tali en þar hafa búið 80-120 manns undanfarna áratugi.

Kirkjur í Höfnum

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja.

Kirkja hefur verið [í] Hafnahreppi að minnsta kosti frá 14. öld, en fyrstu sagnir um kirkju eru frá árinu 1332. Miðaldakirkjan stóð hins vegar norðan Ósa en afar lítið er vitað um sögu hennar. Enn má sjá móta fyrir rústum bæjar- og kirkjustæðis og leifum sem gæti verið kirkjugarður og mögulega kæmi fram ný þekking ef rústir Gamla-Kirkjuvogs yrðu rannsakaðar. heimildir eru um að mannabein hafi verið flutt þaðan að Kirkjuvogi eftir uppblástur allt fram að aldamótum 1800. Þessarar gömlu jarðar er getið í Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 en kirkjan hafði verið flutt á núverandi stað árið 1575.
Núverandi kirkja, Kirkjuvosgkirkja, var vígð 26. nóvember 1861. Fordyr og kór var bætt við nokkrum árum síðar. Árið 1970 var ákveðið að fara í viðarmiklar viðgerðir á kirkjunni en í ljós kom að byggingin var í afar slæmu ástandi. Að tilstuðlan Þórs Magnússonar, þjóðminjavarðar, voru Hörður Ágústsson og Þorsteinn Gunnarsson fengnir til að stýra verkinu með það að markmiði að færa kirkjuna nær því sem hún var á 19. öld. Söfnuðurinn var fámennur en með útsjónasemi tókst að ljúka viðgerðum og endurvígði dr. Sigurbjörn Einarsson biskup kirkjuna 10. desember 1972. Á þessum tíma var húsfriðunarsjóður að taka sín fyrstu skref og sást mjög glögglega hve mikil þörf var á þeim sjóði í þess konar verkefni.
Kirkjuhöfn er bær sem stóð aðeins sunnar en Kalmanstjörn. Nafnið bendir til að þar hafi verið kirkja en heimildir eru fátæklegar. Þegar Árni Magnússon skráði efni í jarðarbókina árið 1703, kemur fram að jörðin hafi verið í eyði í um 40 ár. Nokkur ummerki eru um byggð á þeim slóðum sem bærinn mun hafa staðið og talið er að þar hafi einnig verið kirkjugarður en sagnir eru um að bein hafi verið flutt þaðan í kirkjugarðinn í Kirkjuvosghverfinu.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

 

Gunnuhver

Gunnuhver er gufuhvera- og leirpyttaklasi á Reykjanesi, en svo nefnist ysti oddi Reykjanesskagans. Gufu- og leirhverir stafa af suðu í jarðhitageymi. Gufan leitar upp og blandast yfirborðsvatni. Henni fylgja gastegundir. Þær gera vatnið súrt. Af því umbreytist hraungrýti og móberg í leir með tilheyrandi sílitabreytingum.
Gufustreymið jókst áberandi á tímabili er þrýstingur lækkaði í jarðhitageyminum við vinnslu vatns og gufu úr honum. Stærsti leirhver landsins, nú með digrum suðustólpa í 20 m víðum stampi, er efst í brekkunni. Um tíma náði gosstólpinn um 10 m hæð og slettur úr honum hlóðust á barmana.

Gunnuhver

Gunnuhver og nágrenni.

Óróasamt er á Reykjanesi af völdum jarðskjálfta. Þeir koma í hrinum en eru vægir, þeir stærstu rúmlega 5 að stærð. Í helstu hrinunum hefur sprunga sem liggur frá Valbjargagjá til norðausturs um Gunnuhver hreyfst til, síðast fyrir um 40 árum. Við slík umbrot hefur hveravirkni aukist um tíma og efnaríkt vatn úr jarðhitageyminum náð til yfirborðs og myndað goshveri með útfellingum af hverahrúðri. Þetta voru sjóhverir. Kísilhóll er nefndur eftir kísilhellu efst á honum. Í henni eru skálar eftir kulnaða goshveri. Kulnaður bolli “Hversins 1919” er um 100 m sunnar, ofan vegar. Hann var síðast virkur kringum 1970. Skammt þar suðvestan við var Geysir (Reykjanes-Geysir);  virkur kringum aldamótin 1900 og framan af 20. öld. Engin merki sjást um hann nú.

Gunnuhver

Gunnuhver – litadýrð.

Á þessu sumri (2021) hefur hverasvæðið nálægt Gunnuhver tekið verulegum breytingum, einkum vegna þess að jarðsjórinn á hverasvæðinu hefur þornað svo um munar; fagurlituð ölkelda, sem þarna var um tíma, er nú horfin og svo mætti lengi telja.

Einhverjum hálfvita hefur látið sér detta í huga að koma upp skiltum umleikis Reykjanesvita með áletrunni “Payzone” þar sem krafist er kr. 1000 greiðslu fyrir að leggja bifreið um stund á svæðinu. Á skiltunum er vakin athygli á rafrænu eftirliti. Framangreint hefur gert það að verkum að Íslendingar leggja ekki nálægt vitanum.

Hverasvæðið er síbreytilegt og þurrkarnir að undanförnu hafa aukið verulega á litadýrðina – sjá MYNDIR.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Kotvogur

Í bókinni “Hafnir á Reykjanesi”, skrifaða af Jóni Þ. Þór, er saga byggðar og mannlífs í Höfnum rakin í ellefu hundruð ár.

Jón Þ. Þór

Jón Þ. Þór.

“Fornar heimildir eru fáorðar en gagnorðar um upphaf mannvistar í Höfnum. Í Sturlubók Landnámu segir stutt en laggot; Herjólfr hét maðr Bárðarson, Herjólfssonar, frændi Ingólfs landnámsmanns. Þeim Herjólfi gaf Ingólfr land milli Vágs ok Reykjaness (Íslensk fornrit I,1 (1968, 132).
Miklu stuttorðari gat þessi frásögn vart verið, en önnur gerð Landnámu, Hauksbók, hermir, að Herjólfur hafi verið “frændi Ingólfs ok fóstbróðir”, og því hafi Ingólfur gefið honum landið.
Um Herjólf Bárðarson, landnámsmanns í Höfnum, er lítið vitað umfram það, sem segir í áðurtilvitnaðri Landnámugrein. Við vitum ekki, hvort hann var kvæntur, er hann kom til Íslands og settist að í Höfnum, ekki heldur hvort hann kom á eigin skipi með eigin föruneyti. Má þó telja hvort tveggja mjög líklegt. Um stöku afkomendur hans vitum við hins vegar öllu meira, og í hópi þeirra var maður, sem frægur er í þjóðarsögunni, og reyndar í gjörvallri sögu siglinga og landkönnunar við norðanvert Atlantshaf.
Sonur Herjólfs hét Bárður, og kemur hann hvergi við sögu, nema þar sem hans er getið sem föður sonar síns. Sonurinn var skírður Herfólfur, í höfuðið á afa sínum í Höfnum, og segir í Grænlendinga sögu, að hann byggi á Drepstokki, en sú jörð var skammt vestan Eyrarbakka. Kona hans hét Þorgerður, og sumarið 985, eða 986, afréðu þau að bregða búi á Drepstokki og héldu til Grænlands með Eiríki rauða. Á Grænlandi reistu þau sér bæ á Herjólfsnesi og bjuggu þar (Íslendingasögur I (1953), 365-366).
HafnirÞau Herjólfur og Þorgerður á Drepstokki áttu son, sem Bjarni hét, og varð hann án alls efa nafnkenndastur allra afkomenda Herjólfs Báraðarsonar landnámssmanss í Höfnum. Hann þótti snemma mannvænlegur og fýsti ungan utan, svo sem títt var um tápmikla unga menn á þeim tíma. Vegnaði honum vel í förum, og leið ekki á löngu, uns hann stýrði eigin skipi á milli landa. Siglingartækni 10. aldar gerði það að verkum, að farmenn komust sjaldan nema aðra leiðina á milli Íslands og Noregs á sumri hverju, og hermir Grænlendinga saga, að Bjarni hafi veriðð ” sinn vetr hvárt, útan lands eða með feðr sínum” (Íslendingasögur I (1953), 365). Síðasta veturinn, sem hann dvaldist í Noregi, brugðu foreldrar hans búi á Drepstokki og héldu til Grænlands. Er Bjarni kom heim sumarið eftir, spurði hann tíðinda. Af viðbrögðum hans og því, sem á eftir fór, segir í Grænlendinga sögu. Frásögn hans af ferð hans og áhfnar hans til Ameríku, án þess þó að stíga þar á land, varð til þess að landi hans, Leifur Eiríksson, hélt að leita landa í vestri.
HafnirLengra komumst við ekki með sögu afkomenda Herjólfs Bárðarsonar, þeirra sem fæddir eru á Íslandi. Víkur þá sögunni aftur til landnámsins í Höfnum.
Af frásögn Lannámu verður ekki ráðið með neinni vissu, hvenær Herjólfur kom til Íslands. Hann gæti hafa komið með Ingólfi, jafnvel verið skipverji hans, eða að hann gæti hafa komið nokkrum árum síðar og þá væntanlega á eigin skipi með eigin föruneyti. Erfitt er að skera úr um, hvor möguleikinn sé líklegri, en flest bendir til þess, að Herfjólfur hafi numið land fremur snemma á landnámsöld, að öllum líkindum fyrir 900.
Engar nákvæmar lýsingar eru til á landnámi Herjólfs Bárðarsonar. Orðalagið “á milli Vágs og Reykjaness” tekur ekki af tvímæli, en bendir til þess að hann hafi þegið strandlengjuna norðan frá Ósabotnum, suður og austur [?] að Reykjanestá, að gjöf frá frænda sínum. Vafalítið hefur hann þó helgað sér stærra landsvæði en strandlengjuna. Hversu stórt það var vitum við ekki, en hugsanlegt er að Herjólfur hafi fylgt þeirri aðferð er Haraldur konungur hárfagri lagði fyrir menn að fylgja við helgun lands: “Menn skyldu eld gera, þá er sól væri í austri; þar skyldi gera aðra reyki, svá at hvára sæi frá öðrum, en þeir eldar, er gjörvir váru, þá er sól var í austri, skyldi brenna til nætr; síðan skyldu þeir ganga til þess, er sól væri í vestri, ok gera þar aðra elda” (Íslensk fornrit I,2 (1968), 337-339).
Landshættir hljóta að hafa ráðið nokkru um umfang og takmörk landnáms Herjólfs og ekkert var eðlilegra en að suður- og austurmörk þess væru við Reykjanestá og Stapafell, norður- og vesturmörk við Ósabotna [?].
HafnirEnga vitnesku er um það að hafa af fornum heimildum, hve margt fólk var í för með Herjólfi er hann settist að í landnámi sínu, og við vitum ekki, hvar hann reisti sér bú. Hafi hann komið til Íslands á eigin skipi, getur sú tilgáta þó trauðla talist ósennileg, að í föruneyti hans hafi verið q.m.k. tíu til tólf manns. Það fólk hefur trúlega fylgt honum suður í Hafnir og þegið af honum land. Má þá hugsa sér, að byggð hafi fyrst risið þar sem mynduðust þrjú hverfi, í Kirkjuvogi við Ósabotna, á Merkinesi og Kalmanstjörn. Á öllum þessum stöðum var búsældarlegt á landnámsöld, útræði bærilegt og hagar fyrir búfé að líkindum góðir. Hvar Herjólfur sjálfur settist að, vitum við hins vegar ekki með vissu, en hugsanlegt er, að hann eða einhverjir förunauta hans hafi reist sér bú nálægt þeim stað, sem nú er Kirkjuvogshverfi í Höfnum.
Haustið 2002 sást við athugun á loftmyndum. sem teknar voru á þessu svæði, “greinilegt skálalaga form skammt austur af kirkjunni í Höfnum”. Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur, gróf stuttu síðar tvær prufuholur á stað, u.þ.b. 80 metra ANA af Kirkjuvogskirkju og benda fyrstu niðurstöður þeirar rannsóknar til þess, að þarna séu leifar af skála frá landnámsöld.

Hafnir

Hafnir – uppgröftur.

Fátt verður fullyrt af þessari rannsókn um hina fyrstu byggð í Höfnum og varasamt að draga of víðtækar ályktanir af henni á þessu stigi. Frekari fornleifarannsóknir geta þó trúlega varpað ljósi á byggð á þessum slóðum á landnámsöld.
Hreppar voru stofnaðir hér á landi á þjóðveldisöld og voru hvort tveggja í senn, framfærslu- og stjórnunareiningar. Ekki er fulljóst, hvenær landinu var skipy í hreppa né hvaða reglum var fylgt við skipunina, en flest bendir til þess, að hreppaskiptingin hafi komist á fyrir lögtöku tíundar árið 1097, og víðast hvar virðast landshættir hafa ráðið hreppamörkum. Hið síðara var þó ekki algilt og má ef til vill hafa Hafnahrepp til marks um það.

Hafnir

Hafnir – fornleifauppgröftur.

Engar heimildir hafa varðveist, er segi sérstaklega frá stofnun Hafnahrepps, og hljótum við að hafa fyri satt, að hann hafi orðið til sem sjálfstæð framfærslu- og stjórnunareining er hreppaskipting komst á. Hann hefur þó vafalaust verið meðal minnstu hreppa landsins, og óvíst, að tuttugu þingfararkaupsbændur hafi verið búsettir innan endimarka hans.
Þegar þannig stóð á, þurfti sérstakt leyfi lögréttu til hreppastofnunar (Íslensk fornrit I,2 (1968), 180). Við vitum að sönnu ekkert um fjölda bænda í Höfnum á þjoðveldisöld, en árið 1703 var aðeins getið seex lögbýla í Hafnahreppi, og voru þrjú þeirra í eyði, og höfðu verið lengi (JÁM III, 26-34). Býli geta vissulega hafa verið fleiri í hreppnum fyrr á öldum, en óvíst er, hvort þau voru svo mörg, að hreppurinn hafi uppfyllt áðurnefnt skilyrði Grágásalaga um fjölda þingvararkaupsbænda. Ber þó að hafa í huga, að vel getur hreppurinn hafa verið fjölbyggðari fyrir Reykjaneselda á 13. öld.
Líklegast er, að Hafnahreppur hafi í upphafi orðið til úr landnámi Herjólfs Bárðarsonar og að mörk hans hafi lítið sem ekki breyst í aldnanna rás. Vilhjálmur Hinrik Ívarsson í Merkinesi lýsti hreppamörkum eins og þau voru árið 1934 með þessum orðum: “Hafnahreppur takmarkast af Miðneshrepp að norðan, Njarðvíkurhrepp að austan, en Grindavíkurhrepp að sunnan” (Örn. 2502).
Þannig hafa hreppamörkin að líkindum verið frá fyrstu tíð, og þótt þau hafi breyst lítilsháttar á seinni tímum, einkum á 20. öld, gefa þau þá dágóða hugmynd um landnám Herjólfs Bárðarsonar í Höfnum og stærð þess.”

Heimild:
-Hafnir á Reykjanesi – Jón Þ. Þór, sga byggðar og mannífs í ellefu hundruð ár. Reykjanesbær 2003.
Hafnir

Grænás

Eftirfarandi frásögn Skúla Magnússonar um álfa og huldufólk í klettunum í Njarðvíkurásum ofan við Ytri-Njarðvík birtist í Faxa árið 2008.

“Lengi hefur legið orð á því meðal fólks í Njarðvík og Keflavík að álfar eða huldufólk væri í klettunum sem næstir liggja utan við Grænásbrekkuna, að norðan og ofan við hús íslenskra aðalverktaka. Ekki man ég þó eftir sögnum um slíkar verur í Njarðvíkurásunum í elstu og stærstu þjóðsagnasöfnum Íslendinga, hvorki hjá Jóni Árnasyni, Ólafi Davíðssyni né Sigfúsi Sigfússyni. Óljóst er hve gömul þessi trú manna í Keflavík og Njarðvík er þar sem heimildir um hana sem ég þekki eru ekki eldri en frá 20. öld.
Sagnirnar um Háaleitisdrauginn og Guðmund Klárt. virðast þó vitna um að gömul dulræna og forn átrúnaður hafi loðað við Háaleitið, þótt sagnir um það hafi ekki verið skráðar fyrr en á 19. og 20. öld.

Sagnir um huldufólk í Njarðvíkurásunum
NjarðvíkurásarÞau dæmi sem ég þekki um frásagnir af huldufólkinu i Njarðvíkurásum eru öll frá 20. öld. Rétt er að benda á frásögn Helgu Kristinsdóttur frá Akri í Inni-Njarðvík sem birtist í jólablaði Faxa 2007. Þar minnist Helga, sem er látin fyrir stuttu, á örnefnið Álfakirkju, sem talið var tilheyra álfum sem bjuggu í Ásunum.
Álfakirkjan var efst í brekkunni upp af húsi Babtistakirkjunnar amerísku sem þarna stendur. Ekki verður ráðið af frásögn Helgu hve gamalt örnefnið Álfakirkja er, en átrúnaður á það virðist þó vera kominn upp a.m.k. á seinni hluta 19. aldar, að því er skrif Helgu benda til.
Þegar ég var innan við tíu ára gamall heyrði ég föður minn segja sögur af tveimur atvikum sem hentu hann sem stálpaðan krakka inn í Njarðvíkurásum. Það sem einkum togaði krakka og unglinga þangað upp eftir var góð berjaspretta. Lögskilarétt fyrir Hafnir og hreppana yst á Rosmhvalanesi, Ásarétt, var líka hlaðin úr grjóti uppi á hömrunum í Grænási, skammt neðan við lögreglustöðina sem þar stendur, og þarna voru réttir hvert haust allt frá því að réttin var þarna hlaðin árið 1900 eða 1901, eins og lesa má um í fundargerðabók sýslunefndar Gullbringusýslu. Þegar herinn tók þetta landi til afnota var það lýst bannsvæði og réttirnar hurfu og heyra nú sögunni til.
Útiskemmtanir og upphaf þeirra í Ásunum Auk réttanna sem haldnar voru hvert haust í Ásunum voru útiskemmtanir haldnar þar uppi er líða tók á 20. öld og sótti þær fólk úr Njarðvík og Keflavík. Almenningur hafði því allmikli kynni af Ásunum og þær stundir lifða enn í minningu þeirra sem muna timann fyrir stríðið 1940. Ungmennafélag Keflavíkur hélt líka árlega íþróttakeppni og skemmtanir í Hjallatúni, líklega frá um 1930, og allt þar til herinn tók landið 1940. Þá var efnt til keppna og skemmtana í kvosinni í Keflavík, þar sem nú er stóra fánastöngin í skrúðgarði bæjarsins. Upphaf þess garðs má rekja til útiskemmtananna í Hjallatúni sem féllu niður við hernámið.

Huldufólkið hopaði ekki úr Ásunum
En huldufólkið hopaði ekki úr Njarðvíkurásunum þótt fólkið hyrfi þaðan að mestu. Ystu mörk línu þeirrar sem myndaði bannsvæði hersins austan á Háaleiti var dregin skammt ofan við klettabeltið í Ásunum og hið gamla Hjallatún féll líka undir bannsvæðið, en þar niður af komu síðar olíutankar hersins. Á mörkum þess var svo reist meira en mannhæðarhá girðing með gaddavír og vék hún loks ofar í heiðina þegar smíði nýrrar flugstöðvar hófst 1985-1987 og nýr vegur var lagður þangað af Njarðvíkurfitjum. Hluti af þessu svæði, ofan við og í Hjallatúnum, var þó áfram innan girðingar fram að því að herinn hugðist fara á brott alfarinn á árunum 1993-2001.
Huldufólkið hélt tryggð við heimahaga sína í Ásunum og fór hvergi þrátt fyrir allann þann gauragang sem fylgdi vígvélum og vinnutólum næstu árin í nágrenni við bústaði þess. Líklegt er að huldufólkinu hafi liðið þar vel.

Frásagnir föður míns
NjarðvíkurásarFyrri frásögn föður míns um atvik sem hann sagði mér frá og gerðist i Njarðvíkurásum varð líklega þegar hann var 9 eða 10 ára, 1933 eða 34 og fram um fermingu. Svo vildi til að faðir minn og eldri bróðir hans, Snorri Sólon (f. 1916 – d. 1944) fóru saman hjólandi á reiðhjólum sínum inn í Ása til að týna þar krækiber einn sólskinsdag. Líklega var þetta nær þeim tíma þegar faðir minn var á fermingaraldri. Snorri hefur þá verið um tvítugt eða tæplega það. Berjaferðinni lauk fyrr en ætlað var og með skjótari hætti. Bræðurnir hjóluðu eins og leið lá inn undir klettana í Grænási, skildu hjólin eftir við veginn og gengu upp undir klettana þar efra. Þeir gleymdu sér við berjatínsluna og urðu brátt viðskila. I miðju kafi varð Magnúsi föður mínum snögglega litið upp og sá þá torkennilegan mann sem hann bar engin kennsl á. Hann sat á steini skammt frá, horfði út á sjóinn og reykti pípu. Við þetta brá föður mínum svo að hann tók þegar til fótanna, hljóp niður á veg, náði í hjólið og hélt heim á leið. Snorra brá í brún við þessi hlaup og hjólaði á eftir bróður sínum uns hann náði honum og fékk skýringar á háttalagi hans. Sagði Magnús þá Snorra alla söguna en sjálfur hafði Snorri ekki séð neinn mann þar uppfrá meðan á berjatínslunni stóð.
Þegar faðir minn sagði mér þessa sögu rúmum 20 árum seinna hafði óttinn vikið fyrir skilningi á að huldar vættir væru til í ríki nátturinnar. Að mati hans bar mönnum að umgangast huldufólk með virðingu og það viðhorf mótaði mig frá bernsku þótt ég hefði aldrei séð það sjálfur því skyggn var ég ekki.
Hin sagan sem faðir minn sagði mér af torkennilegum verum í Njarðvíkurásum gerðist fyrir stríðið 1939. Þá var hann ásamt fleiri strákum á ferð til Keflavíkur þegar þeir komu auga á konu upp við Ásana. Hún vakti athygli þeirra því hún var að tína eitthvað í svuntu sína við klettana og leit út eins og hún hefði snöggvast brugðið sér af bæ. Sem fyrr segir er töluverður spotti neðan úr byggð í Ytri-Njarðvík á þessum árum og engan mann sáu drengirnir koma þar neðan að. Í hvorugt skiptið gat faðir minn þó um hvernig fólkið var klætt og hvort klæði þess væru í sterkum litum, t.d. rauð, græn eða blá. En helst er að sjá að þetta hvortveggja hafi birst skyndilega þeim sem til sáu. Við fyrstu athugun gæti litið út sem hér hefði verið ósköp venjulegt mennskt fólk á ferð en ekki huldar verur.
Slíkt mætti líka álykta af sögunni „Konan í Hafnaheiðinni” sem Jón Thorarensen skráði eftir frásögn Ólafs Ketilssonar og birti í Rauðskinnu. En þessa ókunnugu og torkennilegu veru sá Ólafur á ferð sinni yfir Hafnaheiði um 1906 en fékk aldrei skýringar á hvernig á ferðum hennar stóð. Klæðnaður hennar stakk í stúf við allt umhverfi og aðstæður þarna suður frá. Ekki var konan þó klædd í litklæði. Á þessum slóðum eru allskemmtilegar samfelldar klappir ekki langt frá leiðinni yfir Hafnaheiðina sem ekki sjást þó frá bílveginum. Aðstæður þar minna mjög á Ásana enda er sagt að huldufólk búi einatt í gömlu bergi, ekki nýrra eldhrauni sem víða má sjá á Reykjanesskaga.

Rauðklæddi maðurinn

Njarðvíkurásar

Njarðvíkurásar.

Að morgni þriðjudags 26. ágúst sl. hélt ég frá stöðvarhúsi SBK í Grófinni með áætlunarbíl. Ég sat fremst í bílnum hægra megin næst aðaldyrum og sá eins vel út úr bílnum og fram fyrir hann og kostur var. Auk mín og bílstjórans komu í rútuna ensk hjón við upphaf ferðar en síðan bættist í hópinn íslensk kona. Enginn var í biðskýlinu í Ytri-Njarðvík svo við héldum áfram að hringtorginu sem er við gatnamót Reykjanesbrautar, Sjávargötu og Gónhóls.
Þegar rútan beygði inn á hringtorgið varð mér litið upp eftir þar sem Ásarnir blöstu við. Þá kom ég skyndilega auga á rauðklæddan mann sem stóð framan við klettana. Mér varð starsýnt á þennan mann bæði vegna klæðnaðar hans og vaxtarlags. Ég hélt strax að þarna væri einhver íbúi úr húsunum neðan við Ásana á morgunrölti en ýmislegt mælti gegn því. Frá bílnum að sjá var hann í dökkrauðum kufli eða mussu sem virtist samfelld frá hálsi niður á fætur og með sérkennilega rauða húfu sem liktist alpahúfu listamanns á 19. öld. Maðurinn var dvergvaxinn og hélt ég fyrst að hann sæti á hækjum sér fremur en að hann stæði uppréttur, en fljótlega sá ég að hann virtist þó keikur og hnarreistur þar sem hann var fyrir framan klettavegginn. Ég sá síðan að hann stóð uppréttur við klettinn. Hann stóð þarna grafkyrr og horfði beint til austurs yfir byggðina og út á sjó. Ég sá vel á milli hans og klettanna og því á bak hans að hluta og gat ráðið af því að hann stóð uppréttur.
Þennan morgun var veðrið milt og gott, suðvestan átt með stuttum hellidembum en glaðasólskini inn á milli. Fjölbreytileiki birtunnar gerði allt umhverfið dulúðugt, fínn suddinn spilaði saman við sílglitrandi, nýfallna og litfagra daggardropana og varpaði dularblæ yfir umhverfið, hæðir og lægðir í umhverfinu og landinu öllu en jörðin merlaði í úðanum í ótal litbrigðum. Þegar ég sá Rauðklæðung leit út fyrir regnbogaveður og síðar þennan dag mynduðust fagrir regnbogar á himni.

Mennskur maður af holdi og blóði?
Hann hvarf síðan þegar við ókum áfram upp brekkuna að húsum Keilis þar sem hópur fólks beið rútunnar. Enginn í bílnum virtist hafa veitt honum athygli nema ég, þótt litirnir á fötum hans hefðu verið svo sterkir að mér datt ekki annað í hug en að allir í rútunni sæju manninn þarna eins og ég enda datt mér ekki annað í hug, meðan við ókum upp Grænásbrekkuna, en að þarna færi mennskur maður af holdi og blóði. Ég gerði því engum vart við sýn mína enda aðrir farþegar það aftarlega að ógjörningur var fyrir mig að ná til þeirra. Enginn annar en ég virtist hafa séð rauðklædda manninn því enginn mælti orð af vörum meðan við ókum þessa stuttu leið.

Áhrifamikil sýn
Rauðklæddi maðurinn minnti mig helst á dverginn sem lék hlutverk álfsins í alþekktri kvikmynd Óskars Gíslasonar, Síðasti bærinn í dalnum. Það átti bæði við um vaxtarlagið og andlitið. Hann var greinilega ófríðari en gengur, skegglaus, andlitið mjög dökkleitt og nefið frekar uppbrett. Höfuðið var sverara og digrara en almennt gerist og þrátt fyrir smæð sína var hann allur meiri um sig og þéttvaxnari en maður á að venjast. Sérstaka athygli vakti hinn sterki dökkrauði litur á klæðnaði hans og að sjá þennan skæra lit innan um dökka klettana og grængresi var svo áhrifamikið að því gleymi ég aldrei.
Ég hélt í fyrstu að ég hefði séð einn af íbúum við göturnar neðan við Ásana en þegar við ókum til Reykjavíkur rann það upp fyrir mér að ég hefði sennilega séð einn af íbúunum í Ásunum og væri hann hvorki af holdi og blóði. Sögur föður míns virtust staðfesta þetta og einnig þjóðsögur fyrri tíma. Fomlegur og sérkennilegur klæðnaður styrkti mig í þessari trú. Mér varð skemmt í huga gömul ósk mín að sjá huldufólk hafði skyndilega ræst og þetta var eins og í ævintýrunum.
Þegar ég kom aftur heim til Keflavíkur um kvöldið og rútan ók niður Grænásbrekkuna sátu tveir strákar á fermingaraldri undir klettunum skammt frá þeim stað þar ég hafði séð Rauðklæðung. En hann var hvergi sjáanlegur þá stundina að minnsta kosti.”

Heimild:
-Faxi, Rauðklæddi maðurinn í Njarðvíkurásum, Skúli Magnússon, 4. tbl. 01.12.2008, bls. 10.

Njarðvíkurásar

Njarðvíkurásar.

Stafnes

Í Árbók Hins ísl. fornleifafélags árið 1903 er að finna grein Brynjúlfs Jónssonar; Rannsókn í Gullbringusýslu og Ánessýslu sumarið 1902. Fjallar hann þar m.a. um Stafnes, Básenda, Þórshöfn og Gamla Kirkjuvog við Ósa.

Stafnes

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

er í fornum máldögum oftast kallað »Starues«, og ef það er upprunanafn bæjarins, bendir það til þess, að þar hafi í fyrri daga verið starengi. En hafi svo verið, þá er líklegast, að það sé uú komið í sjó. Skal eg ekkert um það segja. En sannfróðir eru menn um það, að þar hafa margar hjáleigur lagzt í eyði og þar af sumar af sjógangi.
Nokkrar af eyðihjáleigunum heyrði eg nefndar, og eru þær þessar: Urðabær, Sandhús, Refabær, Hólmabær, Gosa (Gosabær=Gottsvinsbærr), Vallarhús, Lodda (þ. e. Loðvíksstofa). Þar hefir víst verið einna bezt lýsing um aldamótin 1800, því þangað flúði Bátsendakaupmaður er kaupstaðurinn fór af. Nú sjást varla merki til tófta í Loddu, því öskuhaugur hefir seinna verið borinn ofan á þær og gróið upp sem hóll í túninu hjá heimabænum.
Í túninu er ein at þessum hringmynduðu fornbyggingum, sem kallaðar eru »lögréttur«. Þessi er Líka kölluð það. Hún er einkennileg og frábrugðin öllum öðrum, er eg hefi séð, að því leyti, að á henni eru 6 dyr eða hlið, sem skifta henni í 6 jafna parta. Mundi svara því að 2 sæti hefði verið undir hverjum parti. Að öðru leyti er ekki hægt að gizka á hvaða tilgang hlið þessi hafa haft. Og því óskiljanlegri eru þau, ef maður vill geta þess til, að hringurinn sé sáðgarður eða fjárrétt. Og ekki lítur þó út fyrir, að það séu skörð. Þau eru hér um bil jafnstór og jafnlangt milli þeirra, eins og þau séu skipulega sett af mönnum. Annað er hér þó ekki, sem bendir á þingstað, hvorki munnmæli né búðatóftir. Þær gætu að vísu verið horfnar. Sumstaðar hefir sandfok sléttað túnið.
Sumstaðar geta kot verið bygð ofan á búðatóftir. Á tveim stöðum, skamt frá »lögréttunni«, var eins og vottaði fyrir tóftum, en mjög var það óglögt, enda var þá þessi hluti túnsins ósleginn. Skal eg ekkert frekara um þetta segja.

Bátsendar

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

heita skamt fyrir austan Stafnes. Þar liggur strandlengjan til austurs inn í Ásabotna. Á Bátsendum var kaupstaður, sem kunnugt er, og stóð á hraunnefi milli tveggja mjórra víka. Var höfnin á eystri víkinni. Var innsigling fremur vandasöm, en höfn trygg er inn var komið, þó svo, að binda varð skipin á 3 vegu, en með því móti gátu 2 skip legið þar undir eins. Sér enn um fjöru, járnbolta þá, sem greiptir cru í klappirnar, til að festa skipin við. Hafa verið höggnar holur í klappirnar fyrir þá og blýi rent utan með þeim. Hraunnefið, sem kaupstaðurinn stóð á, er hæst framantil og var þar bær. Sér þar enn nokkuð af rúst bæjarins á grastorfu lítilli. Þar fyrir ofan er lægð yfir þeim þvert milli víkabotnanna og í þeirri lægð sér leifar af undirstöðum verzlunarhússins. Hefir það verið hér um bil 12 fðm. langt og 6 fðm. breitt. Þó er ekki öldungis víst, að það hafi verið alt eitt hús, svo óslitin er undirstaðan ekki. En útlit er til þess. Af kaupstaðnum sjást nú ekki aðrar leifar en nú hefir verið sagt. En miklar girðingar hafa verið þar fyrir ofan, líklega bæði túngarðar og jurtagarðar. En nú er þar alt blásið.

Básendar

Festarkengir á Básendum.

Kaupstaðurinn eyddist í flóðinu mikla nóttina fyrir 9. jan. 1800. Fólkið komst nauðulega undan, nema ein gömul kona, sem heldur kaus að verða eftir og taka því er guð vildi verða láta, en að reynt yrði að hrökklast með hana heim að Stafnesi. Síðasti kaupmaður á Bátsendum er nefndur I Hansen, danskur að ætt. Hann flúði til Loðvíksstofu, sem fyr getur. Um vorið fór hann utan og kom eigi aftur til Íslands.
Nafnið »Bátsendar« er óviðkunnanlegt og óefað afbökun. En hvað hefir það þá upprunalega veriðr Naumast getur það hafa verið »Bátsandar« (af: sandur), því að, þó þar sé blásið nú, þá hefir það eigi verið fyrrum, þá er nafnið var gefið. Og enn eru þar meiri klappir en sandar, bæði með sjónum og fyrir ofan, svo ástæðulítið virðist að gefa þar örnefni af söndum. Líklegra virðist mér, að þágufallsmyndin: »á Bátsendum« sé afbökun úr þágufallsmyndinni: að Bátsundum (af: sund). Það nafn hefði getað átt við sjávarsund þar fyrir framan. Og alkunnugt er, að bæjarnöfn og önnur örnefni eru langoftast nefnd í þágufalli hér á landi. Verður það því jafnan, eí þágufallið afbakast, að sú afbökun verður ósjálfrátt fram einnig í öðrum föllum.

Þórshöfn

Þórshöfn

Þórshöfn.

heitir vík ein, löngum spöl fyrir innan Bátsenda.

Hallgrímshellan

“Hallgrímshellan” í geymslum Þjóðminjasafnsins.

Þar er þrautalending og óbrigðul höfn í öllum norðlægum áttum. Þó eru þar engin mannvirki að sjá, enginn vottur þess, að þar hafi bygð verið, enda er engin sögn um það. En því get eg Þórshafnar, að mér þykir það líklegt, að sveitarnafnið »Hafnir* sé þannig myndað, að miðað hafi verið við Þórshöfn og Kirkjuhöfn, sem eru andspænis hvor annari út með Hafnavík, sín hvorumegin. Mun þeirri sveit hafa verið tileinkað alt svæðið milli þessara hafna.

Milli Bátsenda og Þórshafnar var mér vísað á vörðubrot, er steinnværi í með áhöggnu fangamarki Hallgríms Péturssonar og ártali. Það er og svo; íangamarkið er HP; en ártalið er 1728.

Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

hefir til forna staðið langt inn með Ósum að norðanverðu. Ósarnir eru sem dálítill fjörður, sem gengur til austurs inn úr Hafnavík. Inst skiftist hann í smávoga, og kallast þeir Ósabotnar. Er löng bæjarleið frá Þórshöfn inn að KirkjuVógi forna. Þar sem bærinn var, er rústabunga mikil. Þar er alt nú blásið hraun, þó er rústin að nokkru leyti grasgróin. Er eigi hægt að sjá grein á húsaskipun og eigi sést með vissu hvar kirkjan hefir verið. En kunnugir menn vita það, því mannabein hafa fundist þar, er kirkjugarðurinn blés upp. Voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800, að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt.”

Heimild:
-Árbók Hins ísl. fornleifafélags, 01.01.1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Ánessýslu sumarið 1902 eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 39-41.

Ósabotnar

Ósabotnar – götukort.

Njarðvíkurkirkja

Í Reykjanesbæ er nú búið að leggja göngustíg með strandlengjunni allri frá Helguvík að Stapanum. Ef hann er genginn allur varir gangan í 2 klst og 2 mín.

Upphaf

Á leiðinni er búið að merkja nokkra staði og koma fyrir fróðlegum upplýsingaspjöldum. Reyndar er stígurinn ekki alveg samfelldur því milli Kirkjuvíkur í Ytri-Njarðvík og Víkingaheima í Innri-Njarðvík er krækt um eldri stigu. Á Fitjunum eru t.d. Njarðvíkurtjarnir, ríkar af fuglalífi sem og Tjörnin í Innri-Njarðvík. Þegar gengið er frá Grófinni verður fyrst fyrir (við upphaf stígsins) svonefndur Skessuhellir. Frá og með honum má lesa eftirfarandi upplýsingar í þessari röð:

1. Skessan í fjallinu.
Hér býr skessan í fjallinu. Til eru margar bækur um skessuna og vinkonu hennar Siggu sem hafa notið mikilla vinsælda. Eðli þessarar stóru skessu er ljúft. Hún er alla vinur og boðin og
búin til að nota stærð sína og krafta til hjálpar í vanda smákrílanna, vina sinna.

Hellir skessu

Hönnun hellisins og framkvæmd við gerð skessunnar var í höndum listahópsins Norðurbáls. Við undirbúning verkefnisins leituðu þeir ráða hjá skessunni sem kom með ábendingar um gerð hellisins en í hann er notað efni úr nálægu umhverfi sem gerir hann samofinn landinu. Hellisveggirnir er hlaðanir upp að skúta í berginu og er hellirinn alls 150 fermetrar að stærð.
Við hleðsluna var smíðuð þakgrind úr rekaviðarbjálkum og á gólfinu er grjóthleðsla með völum sem skassan hefur dundað sér við að leggja. Hellirinn er skreyttur að hætti skessunnar með allskonar glingri, gærum, skeljum, netabobbingum o.fl.
Skessan er í fullri stærð og situr sofandi í ruggustól í eldhúsinu.

2. Iðandi líf Stakksfjarðar.
Reykjanesbaer-1Stakksfjörðurinn er matarkista fyrir sjófugla og hvali. Ef horft er til hafs má sjá sjófugla um allan fjörð. Þar sem síli leita upp í yfirborðið má sjá hópa máfa, eins og ritur, sílamáfa, 
silfurmáfa og svartbaka steypa sér í sjóinn eftir sílinu. Og krían blandar sér einnig í hópinn. Svartfuglar sitja á sjónum milli þess sem kafa undir yfirborðið til að ná sér í bita úr sílatorfunni. Pípunefirnir, fýllinn og skrofan, sveima um hafflötinn í leit að æti í yfirborðinu. Drottning hafsins, súlan, er sjaldan langt undan, komin úr Eldey að sækja sér fæðu. Það er mikilfenglegt að horfa á súlukastið, takið eftir því hvernig hún leggur aftur vængina rétt áður en hún rýfur vatn til að komast dýpra eftir fiskinum. Undir yfirborðinu má stundum greina hvali eins og hrefnur, sem renna sér með opið ginið inn í sílatorfuna. Háhyrningar og smærri tannhvalir sækja oft líka í sílatorfur.

3.  Baldur.
Baldur er fyrsti frambyggði alhliða fiskibáturinn, sem byggður var fyrir íslenskar aðstæður. Hann er 40 tonn. Egill Þorfinnsson, skipasmiður í Keflavík, teiknaði Baldur en Ólafur
Björnsson réði fyrirkomulagi, stýrishúsi o.fl.. Baldur hf í Keflavík lét byggja Baldur í Djupvig Varv í Svíþjóð, hann kom til Keflavíkur í fyrsta sinn 19. mars 1961 og hóp þegar veiðar. Á BAldri voru stundaðar veiðar með línu, net, humartroll og dragnót, sem hann er frægastur fyrir. Á Baldri var nota skuttog, í fyrsta sinn á íslensku skipi, vorið 1961 við humartroll, það sannaði strax yfirburði umfram síðutog. Á Baldri voru fyrst notaðir vírar í stað tóga við dragnót. Það dró mikið úr slysahættu, létti vinnu og dró úr kostnaði.
Baldur var alla tíð mikil happafleyta, fékk t.d. viðurnefninn “Gullmolinn”. Þegar honum var lagt eftir 42 ár, þann 28. febr. 2003, hafði hann fært að  landi tæp 28 þúsund tonn, auk
sandkola o.fl. Aldrei henti nokkurt slys bát eða menn öll þessi ár.

4. Ankeri Brúarfoss.
Þetta ankeri er af Brúarfossi sem HF Einskipafélag Ísands lét smíða í Danmörku 1927. Félagið átti Brúarfoss í 30 ár enda eitt af farsælustu skipum félagsins fyrr eða síðar.

5. Keflavík.

Reykjanesbaer-6

Gamalt heiti á víkinni og bóndabænum Keflavík.
Jörðin Keflavík komst snemma í konungseign þótt hvorki væri hún stór né kostamikil en allt frá miðöldum var hún eftirsótt vegna nálægðar við fiskimiðin og sem heppileg verslunarhöfn.
Undir lok 18. aldar hófst nýtt skeið í sögu jarðarinnar þegar kaupmaðurinn og fjölskylda hans ásamt starfsfólki flutti á staðinn.
Hver verslun fékk úthlutað ákveðnu svæði við ströndina og út frá verslunarhúsunum gegnu síðan bryggjur eins og sjá má á teikningunni hér fyrir ofan. Á 20. öld hafa sjóvarnargarðar og
landfyllingar breytt landslaginu töluvert en að vísu má enn sjá leifar af miðbryggjunni.
Húsunum fjölgaði í þorpinu eftir því sem leið á 19. öldina. Hús dönsku verslunarinnar voru fremst Reykjanesbaer-8meðfram ströndinni og eru sum þeirra enn uppistandandi. Upp af þeim var fyrst
þyrping toprfbæja þar sem bjuggu Íslendingar. Uppúr aldamótunum 19. og 20. aldar tóku bárujárnsklædd hús við og upp úr miðri 20. öld tók við tími steinsteypunnar auk þess sem húsin stækkuðu og hverfunum fjölgaði.

6. Keflavík á 19. öld.
Myndin hefur verið tekin undir lok 19. aldar. Á henni má sjá árabáta fjær í Stokkavör og nær í uppsátri Fischerverslunar. Líklegast eru þetta uppskipunarbátar sem notaðir voru til að
ferja varning í og úr skipum sem lágu utar þar sem hafnaraðstæður voru ekki fyrir hendi.
Stokkavör er í landi Keflavíkurjarðarinnar. Þar voru árabátar dregnir á land en verðmæti jarðarinnar var alla tíð nátengt fiskveiðum. Uppúr miðri 18. öld var kaupmönnum leyft að setjast
að á verslunarstöðum og þá hófts eiginleg þéttbýlismyndun á Íslandi.

Reykjanesbaer-3

Fyrsti kaupmaðurinn sem settist að í Keflavík var Holger Jacobæus árið 1766. Síðar áttu fleiri kaupmenn eftir að setjast hér að. Öflugasta verslunin framan af var Duusverslun sem var rekin frá 1848 til 1920.
Húsið til vinstri er Miðpakkhúsið, við hliðina er geymsluskúr og til baka verslunar- og ibúðarhús Fischerverslunar en öll þessi hús tilheyrðu henni. Gamla búð var byggð fyrir Duusverslun
árið 1870, þar fyrir ofan má sjá hólinn þar sem bændabýlið Keflavík stóð en túnið er nú friðlýst.
Reykjanesbaer-2Til hægri á myndinni má sjá tvö af verslunarhúsum Duusverslunar. Húsið sem stendur þvert á núverandi Duusgötu og var byggt fyrir Holger Jakobæus og fjölskyldu, var rifið. Lengst til 

hægri aðeins neðar sést í gaflinn á Bryggjuhúsi Duusverslunar sem enn stendur.

7. Keflavík 1920.
Undir lok 19. aldar hafði íslenskt samfélag breyst varanlega. Þéttbýlið hafði skotið rótum og landsmenn gátu nú eflt sjávarútveg með margvíslegum hætti til dæmis með útgerð þilskipa
og saltfiskverkun. Margvíslegum höftum hafði verið létt af versluninni, til dæmis var hægt að flytja saltfisk beint á Spánarmarkað sem skipti miklu máli.

Reykjanesbaer-4

Örnefnið Myllubakki er ungt en það tengist myllu sem P.C. Knutszon lét reisa í Keflavík um 1833 til kornmölunar. Myllan var þó fljótlega tekin úr notkun.
Örnefnið gekk svo í endurnýjun lífdaga þegar grunnskólinn við Sólvallagötu fékk nafnið Myllubakkaskóli að undangenginni hugmyndasamkeppni hjá nemendum og kennurum.
Myndin er tekin á Framnesi um 1920 um það bil á því svæði sem þú stendur. Næst eru íbúðar- og verslunarhús Edinborgarverslunarinnar, nú Hafnargata 31, þar niður af er
Edinborgarbryggjan. Verslun Edinborgar var stofnuð í Reykjavík árið 1895 í félagi við tvo skoska athafnamenn. Verslunin var með útibú víðar en í Keflavík.
Reykjanesbaer-5Stóra húsið aðeins fjær er læknishúsið, Hafnargata 26, þá kemur hús Ingibergs Ólafssonar, hafnargata 24, og síðan koma hús við Hafnargötu 16, 18 og 29. Þrír bátar sjást í
Nástrandarvör og utar sést Myllubakkinn.

8. Jarðfræði – Örnefni.
Sjóvarnargarðurinn er úr grágrýti sem rann fyrir 200.000 árum. Grjótið er sprengt úr hraunlagastabbanum í Helguvík. Á stöku stað í þessu stórgrýti eru þær frumeindir sem bergið er
gert úr það stórar að auðvelt er að greina þær.
Ólivínið sem er grænt á litinn myndar græna flekki á sumum steinanna og ef betur er að gáð má sjá þar ljósa eða glæra plagíóklasa og dökka ágit kristalla.
Reykjanesbaer-7Einnig má sjá rauðar járnútfellingar sem myndast hafa á yfirborðum einstaka hrauntaums og jafnvel bregður fyrir hraunreipum sem eru kólnunarfyrirbæri á dyngjuhraunum.
Víða má sjá blöðrur sem myndast hafa í hrauninu þegar það afgasaðist og sumstaðar sést hvernig gasi hefur skilið eftir sig rákir eða rör þegar það steig upp í gegnum hálfstorknaða
hraunkvikuna.
Örnefni er sérnafn á tilteknum stað. Nöfnin lýsa stöðum, t.d. sérkennum hvers staðar, eða bera vitni um minnistæða atburði eða þjóðsögur.
Íslensk örnefni hafa fylgt landnámsmönnum. Þeir hafa snemma gefið stöðum í landnámi sínu nöfn. Þessi nöfn geta tekið breytingum með breyttum staðháttum og búsetu.
Reykjanesbaer-9Örnefni á stærstu stöðunum urðu almannaeign en örnefni á smáum stöðum í einstökum landareignum voru aðeinns þekkt af heimamönunnum ein sog er enn í dag. Örnefnin eru
vegvísar í landinu. Nauðsynlegt var að þekkja þau til að vita hvar maður var staddur.

9. Básinn.
Vélvæðing bátaflotans hófst á Íslandi í byrjun 20. aldar. Þá áttfaldaðist afli landsmanna og þjóðartekjur margfölduðust á nokkrum áratugum.
Víða um land hafði verslunin forgöngu um vélvæðinguna. Í Keflavík var Duusverslunin öflugust en kraftar hennar beindust á þessum tíma að skútuútgerð í Reykjavík. Það kom í hlut
einstaklinga að byggja upp vélbátaútgerðina hér.

Reykjanesbaer-10

Á þriðja áratugnum tóku forvígismenn fjögurra útgerða sig til og komu sér upp aðstöðu í Básnum á Vatnsnesi. Þar byggðu þeir bryggju og reistu hús upp af henni, þannig að hægt var að keyra aflann beint frá borði inn í hús. Aðstaðan var komin í gagnið fyrir vetrarvertíðina árið 1929. Frumkvöðlar frystiiðnaðarins í Keflavík komu m.a. úr þessum hópi en honum var ýtt úr vör á Vatnsnesi á 4. og 5. áratug 20. aldar.
Á myndinni hér fyrir ofan má sjá Básbryggjuna. Upp af bryggjunni má sjá fjölda fiskvinnsluhúsa. Til vinstri er Röstin, fiskvinnsluhús og verbúðir, lengst í eigu Margeirs Jónssonar. Fyrir
miðri myndi sést í gaflinn á íbúðarhúsi Vatnsnesjarðarinnar. Jóhann Guðnason, eigandi jarðarinnar, lét reisa húsið á fjórða áratug 20. aldar. Hann var einn margra frumkvöðla á fyrri hluta aldarinnar.

Árið 1969 var húsið gefið til Byggðasafns bæjarfélagsins af Bjarnfríði Sigurðardóttur, ekkju Jóhanns, til  minningar um hann og foreldra þeirra beggja.

10. Sjávarföllin.

Reykjanesbaer-12

Á hverjum sólarhring er tvisvar flóð og þar af leiðandi tvisvar fjara. Það eru að meðaltali 12 klukkustundir og 25 mínútur á milli tveggja flóða og færist tími háflóðs aftur um 50 mínútur á hverjum sólarhring. Sjávarföllin byrja við suðurströndina og fara svo réttsælis um landið. Flóð við sunnanverða Austfirði verður 10 klukkutímum seinna en í Reykjavík.
Ýmsar veiðar hafa tengst beint flóði og fjöru bæði varðandi lögn og drátt veiðarfæra. Þá er liggjandinn eða ögustundnin milli flóðs og fjöru þekktur þáttur í vinnuferli til sjós. Flóð og fjara
hefur löngum skipt máli við hafnir landsins, sérstaklega með tilliti til hæðarmunar við bryggju. Hæðarmunur á flóði og fjöru geta orðið allt að 5 metrar hér um slóðir.

11. Vatnsnesvitinn – Slysavarnir við Íslandsstrendur.
Til forna höfðu menn margvísleg ráð til að rata á úthafinu en oft reyndist hættulegasti kaflinn vera sá sem næstur var landi, þá skipti miklu máli að vera staðkunnugur.
Reykjanesbaer-13Þegar siglingar milli landa urðu tíðari fóru menn að skoða leiðir til að leiðbeina sæfarendum t.d. með ljósmerkjum.
Fyrsti ljósvitinn sem reistur var á Íslandi var Reykjanesviti, reistur 1878. Í kjölfarið komu svo aðrir vitar einn af öðrum eftir strandlengjunni. Vatnsnesvitinn var reistur árið 1920 til að
leiðbeina sæfarendum sem sigldu hér inn til hafnar.
Sjóslys voru alla tíð algeng við Íslands strendur. Á tímabilinu 1881 til 1930 drukknuðu til dæmis 3442 sem er að meðaltali 70 manns á ári. Það var mikil blóðtaka fyrir fámenna og
fátæka þjóð. Þessi kafli í sögu Íslands er átakanlegur og harmur þeirra sem misstu ástvini sína mikill. Sjóslysið varð oft upphafið af enn meiri harmi þegar heimili voru leyst upp og fjölskyldur sundruðust.
Oddur V. Gíslason prestur í Grindavík vann ötullega að öryggismálum sjómanna og hvatti menn mjög til dáða á 19. öld.

Reykjanesbaer-14

Árið 1928 var Slysavarnarfélag Íslands stofnað. Deildir þess störfuðu um allt land, m.a. í Keflavík og Njarðvík. Síðar sameinuðust öll björgunarfélög landsins í félagið Landsbjörg. Þessar fjöldahreyfingar hafa lyft grettistaki í björgunarmálum þjóðarinnar.

12. Reykjanesbær – bærinn minn.
Lag og texti Gunnars Þórðarsonar og Þorsteins Eggertssonar; Hvergi í heiminum er ég sáttari en í bænum sem fóstraði mig…

13. Keflavíkurhöfn.
Á tímum bátaútvegsins þurfti ekki að hafa mikið fyrir hafnarframkvæmdum þótt fyrir kæmi að menn löguðu til lendingar og varir til að auðvelda sér athafnir eins og þær að draga báta á
land. Kaupmenn höfðu bryggjur við verslunarhús sín en þær voru einungis notaðar fyrir uppskipunarbáta en ekki fyrir stór hafskip.
Reykjanesbaer-15Þegar siglingar til landsins urðu tíðari í kjölfar iðnbyltingarinnar var ljóst að þeir staðir sem ekki gátu boðið upp á þokkalega hafskipahöfn myndu dragast aftur úr og jafnvel leggjast í
eyði. Bygging slíks manvirkis verður þó seint talin einföld eða ódýr aðgerð og víst að margvísleg sjónarmið geta tekist á.
Í Keflavík vildi það þannig til að maður að nafn Óskar Halldórsson, síldarspekúlant og athafnamaður, Reykjanesbaer-16hóf árið 1933 að byggja hafskipahöfn í landi Vatnsness á eigin reikning. Síðar
keypti Keflavíkurbær eignirnar hans og Keflavíkurhöfn, fyrsta hafskipahöfnin á Suðurnesjum, varð til.
Framtak Óskars skipti miklu máli varðandi viðgang byggðarinnar og hvatti menn til frekari framkvæmda í Keflavíkurhöfn og á fleiri stöðum á Suðurnesjum.
Enn má sjá leifar af hafskipabryggju Óskars en Keflavíkurhöfn hefur byggst upp á löngum tíma og eru þar núna nokkrar bryggjur. Ein þeirra er kölluð Kraftaverkið en sjá má að hún er
hlaðin og er hún að öllu leyti handgerð.

14. Stekkjarhamar – holótt grjót.
Reykjanesbaer-17Örnefnið á hamrinum bendir til að hér hafi veriðs tekkur sem minnir á þá tíð þegar lömb voru færð frá ánum til að hægt væri að mjólka þær.
Sagnir eru einungis um að fjárrétt hafi verið í lautinni. Hér voru haldnar samkomur og hingað naut fólk þess að koma í lautarferð. Ástarlautin er líka vel þekkt heiti á svæðinu. Staðurinn
er friðlýstur.
Holótt grjót getur myndast þegar bráðið gosberg storknar svo hratt að gasgufum vinnst ekki tími til að losna úr kvikunni áður en hún stirðnar.
Víða myndast líka holótt grjót við saltveðrun nálægt sjávarströnd. Þar smýgur sjávarlöður inn í smágerðar holur í frauðkenndu bergi eða holur eftir gosgufubólur í storknuðu bergi.

Reykjanesbaer-17

Síðan kristallast saltið út úr vatninu. Þá þenst saltið út, sprengir út frá sér og myndar með tíð og tíma enn stærri og dýpri holur inn í bergið. Þéttari lög í berginu taka síðan til sín vatn og lenda því eftir sem hryggir á milli holanna.
Holótt grjót við sjávarströnd getur þannig upphaflega átt rætur sínar að rekja til gasgufubóla eða saltveðrunar. Sandur sem blæs til í holunum getur síðan stækkað þær enn meir.

15. Berggrunnur.
Berggrunni norðanverðs Reykjanesskaga má skipta í tvennt. Annars vegar eru hraun sem hafa brunnið á nútíma og þekja allt svæðið frá Hvaleyrarholti við Hafnarfjörð að Vogastapa
hér í austri. Hins vegar eru hlýskeiðshraun (grágrýtishraun) sem einkenna svæðið hér um kring og á Rosmhvalanesi.
Talið er að dyngjuhvirfill sé á Háaleiti á flugvallarsvæðinu og hafi hraunin á öllu Rosmhvalanesinu runnið þaðan bæði vestur til  Sandgerðis, norður til Garðs og yfir Keflavíkursvæðið og
norðanverða Njarðvík. Sunnar tekur við Njarðvíkurhraunið.

Reykjanesbaer-18

Þetta Háaleitisgrágrýti virðist vera eitt hraun á yfirborðinu en allmikið rofið t.d. er áberandi brún ofan við gömlu hitaveitugeymana í Njarðvík. Þykkt hraunanna er óljós en í holum sem boraðar hafa verið í Helguvík nær það 40 metra niður fyrir núverandi sjávarmál. Ef hraunið á upptök í Háaleiti er það talið vera allt að 90 metra þykkt.

16. Smiðshúsavör.
Reykjanesbaer-18Vör er sá staður þar sem róið var til fiskjar út frá verstöð þangað sem menn fóru með báta sína og skipshafnir þegar notaðir voru árabátar til fiskveiða. Vör er stytting á orðum eins og
lendingarvör eða róðrarvör.
Menn ýttu árabátum sínum úr vör. Þeir lögðu af stað í róður frá þeim stað því þar var jafnan lítil vík og minni öldugangur. Þannig var auðveldara að ýta bátum út í sjó eða leggja þeim aftur
í fjöruna. Í dag ýta menn ýmsu úr vör. Þannig hefur tenging við að ýta úr vör færst yfir á ýmsi verkefni sem menn eru að byrja. Þá er þeim ýtt úr vör.

Reykjanesbaer-19

Jörðin Ytri-Njarðvík var einkar verðmæt sökum útræðis frá henni eins og tíðkaðist á Suðurnesjum. Í aldaraðir byggðist upp hverfi kotbýla á sjávarjörðum en byggðin var ótraust, óx á góðum tímum en lá í dvala þegar illa áraði. Varanlegt þéttbýli myndaðist í Ytri-Njarðvík í upphafi tuttugustu aldar með því að kotbýlin náðu að skjóta rótum og vaxa vegna framfara í sjávarútvegi. Landbúnaður var ávallt stundaður samhliða sjósókninni langt fram á 20. öld.

17. Ytri-Njarðvík – sjósókn, höfnin og fólkið.
Reykjanesbaer-20Á 19. öld hófst salfiskverkun með miklum krafti hér á landi. Fólkið sóttist eftir að flytja á sjávarsíðuna. Fjölskyldur sem bjuggu í kotum, eins og Þórukoti og Höskuldarkoti, gátu komið
undir sig fótunum með því að veiða þorsk og verka hann sjálft í saltfisk.
Með vélvæðingu bátaflotans í upphafi 20. aldar urðu bátarnir fljótari á miðin og gátu sótt lengra. Fiskafli margfaldaðist og lagði grunn að varanlegu þéttbýli víðs vegar við ströndina.
Eftir því sem leið á 20. öldina skipti góð hafnaraðstaða sköpum um það hvort byggðin þróaðist eða lagðist af. Njarðvíkingar börðust lengi fyrir höfn en þrátt fyrir loforð ríkisvaldsins
gekk ekki þrautarlaust að koma verkefninu af stað.
Reykjanesbaer-21Karvel Ögmundsson, útvegsmaður í Njarðvík, tók þá til sinna ráð, fjármagnaði og sá um fyrstu framkvæmdir við Njarðvíkurhöfn. Hann fékk síðar greitt í ríkisskuldabréfum. Karvel sem
var heiðursborgari Njarðvíkur koma víða við, byggði m.a. fyrsta frystihúsið í Njarðvík árið 1938.
Skipasmíðar eiga sér langa sögu í Njarðvík. Fyrsta skipasmíðastöðin ásamt dráttarbraut var reist í Innri-Njarðvík árið 1935 af Eggerti Jónssyni frá Nautabúi.
Eggert var mikill athafnamaður með töluverð umsvif í Innri-Njarðvík. Allmargir vélbátar voru smíðaðri í stöðinni og gekk reksturinn vel.
Eftir rétt um áratugar starf kom upp ágreiningur milli Eggerts og skipasmiða sem unnu hjá honum, þeir vildu eignast hlut í fyrirtækinu. Þegar Eggert neitaði þessari hugmynd, sögðu
þeir upp störfum og stofnuðu árið 1945 Skipasmíðastöð Njarðvíkur í Ytri-Njarðvík. Stöðin er starfrækt enn í dag og er sú eina sem eftir er í bæjarfélaginu.

18. Ytri-Njarðvík – þróun byggðar.

Reykjanesbaer-22

Skipulagt mála á Íslandi allt fram á 20. öld var með þeim hætti að landinu var skipt upp í bændajarðir, lögbýli. Allt var skilgreint út frá þeim. Hvort sem það voru afréttarlönd eða lendingarstaðir báta (varir). Fjöldi lögbýla á Íslandi hefur verið nokkuð stöðugur allt fram á 20. öld eða rúmlega 4000. Frá miðöldum og fram undir lok 18. aldar voru flestir ábúendur lögbýla leiguliðar ríkra landeiganda, þeirra strærstir voru kirkjan og krúnan.
Til að standa skil á leigugjöldum af jörðunum gripu margir, einkum við sjávarsíðuna, til þess ráðs að leigja út part af jörðinni, sem hjáleigur eða tómthús, til að efla tekjur sínar.
Reykjanesbaer-23Fjölskyldan sem bjó á hjáleigunni mátti stunda landbúnað og halda skepnur en tómthúsfólkið mátti bara stunda sjóinn.
Ytri-Njarðvík var eitt þessara lögbýla og henni tilheyrðu nokkur kot sem voru hjáleigur eða tómthús. Með eflingu sjávarútvegs efldist byggðakjarninn og ekki síst minnstu einingarnar,
kotin. Þórukot og Höskuldarkot er góð dæmi um þessa þróun.
Fjölskyldurnar er nýttu sér nálægðina við sjóinn og gátu byggt upp efnahag sinn. Búskapur bar nokkur framan af, til dæmis áttu margir eina kú en einkum ræktaði fólk matjurtir, s.s. kál
og kartöflur við hús sín.
Þéttbýlið í Ytri-Njarðvík á sér ævarfornar rætur í þessu gamla íslenska kerfi. Eftir því sem leið á 20. öldina urðu jarðirnar að lóðum og lóðirnar minnkuðu. Smám saman hætti heimilið
að verða sjálfstæð eining og varð hluti af stærra samfélagi, bæjarsamfélaginu.

19. Bolafótur – Hallgrímur Pétursson.

Reykjanesbaer-24

Ævi skáldsins var viðburðarík, hann ólst upp á biskupsetrinu á Hólum en rúmlega tvígugur var hann við nám í Kaupmannahöfn þegar hópur Íslendinga kom þangað frá Alsírborg. Hann var hluti af hóp sem sjóræningjar höfðu rænt í Tyrkjaráninu um áratug fyrr og selt í ánauð til Norður-Afríku.
Í hónum var Guðríður Símonardóttir og tókust með þeim heitar ástir. Vorið 1637 birtust þau í Keflavík og var hún þá langt gengin með fyrsta barn þeirra, Eyjólf. Framundan var ótrúlega
erfiður tími fyrir þetta langt að komna par. Hér á þessu túni hefur kotbýlið Bolafótur verið, þar sem þau hjón bjuggu um einhvern tíma á fyrstu búskaparárum sínum.
Á Suðurnesjum bjuggu þau líklega í um 14 ár. Hallgrímur vann við það sem til féll, m.a. fyrir kaupmann í Keflavík og við sjósókn. Þrátt fyrir mikla erfiðleika kom náungakærleikurinn þeim
til hjálpar. Grímur Bergsson í Njarðvík, lagði á sig að aðstoða þau með því að borga sektargjöld vegna þess að barnið þeirra fæddist utan hjónabands.
Reykjanesbaer-25

Hallgrímur gerðist prestur á Hvalsnesi. hagurinn vænkaðist en þó var harmurinn ekki langt undan. Dóttir þeirra Steinunn dó aðeins nokkurra ára gömul. Á Hvalsnesi er legsteinn hennar sem talið er að Hallgrímur hafi sjálfur gert og er hann einn mesti dýrgripur í eigu kirkna á Suðurnesjum.
Pretsembættið á Hvalsnesi var upphaf á farsælum ferli Hallgríms í prestastétt en lengst þjónaði hann í Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd. Þar samdi hann Passíusálmana. Um miðjan
aldur veiktist Hallgrímur af holsveiki eða líkþrá og dó árið 1674 sextugur að aldri en Guðríður lifði mann sinn og lést í hári elli árið 1681.

20. Stekkjarkot 1855-1924.

Reykjanesbaer-26

Endurbygging Stekkjarkots var afmælisverkefni í tilefni af 50 ára afmæli Njarðavíkurkaupstaðar 1992. Stekkjarkot var opnað af forseta Íslands, frú Vigdísi Finnbogadóttur í ágúst 1993.
Reykjanesbaer-28Stekkjarkot var þurrabúð og gefur hugmynd um bústað sem algengir voru á þessum slóðum á 19. öld. Þurrabúð merkti að íbúarnir máttu ekki halda skepnur s.s. kýr eða kindur. Slík
kot voru ávallt byggð í landareign annarra og borguðu kotbúar fyrir afnotin til dæmis með sjávarfangi eða þeir réru á bátum landeigandans. Þurrabúðafólkið varð þannig að treysta algerlega á það sem hafið gaf.
Stekkjarkot á sér slitrótta sögu en fyrst er það byggt á árunum 1855-1857 sem vitað er. Búsetan þar lagðist síðan af 1887. Kotið var byggt upp aftur árið 1971 en 1924 var kotið
komið í eyði. Stekkjarkot náði því að verða grasbýli um 1921 sem hefur gefið kotverjum rétt á að hafa einhverjar skepnur. Kotið sem við sjáum núna er byggt upp með stuðningi endurminninga eins af síðustu íbúunum. Eldri hlutinn á rætur aftur til 19. aldar þar er hlóðaeldurinn. Yngri hlutinn er frá síðari búsetudögum. Baðstofa og eldhús eru alþiljuð, komin kolaeldavél og ekki  virðist hafa farið illa um heimilisfólkið. Saga Stekkjarkots er ekki löng eins og við þekkjum hana en gefur innsýn í þennan síðasta hluta merkilegrar sögu kotbyggða við ströndina.

21. Hvað heitir landslagið – Örnefni.
Til að vita um hvaða stað verið er að tala þarf allt að heita eitthvað. En hvað ræður för þegar nöfn eru valin á landið? Nöfn á stöðum eru kölluð örnefni. Í örnefninu gefur verið falin mikil
saga, stórkostlegar hugmyndir og jafnvel draumsýnir.
Hvað merkir til dæmis örnefnið Njarðvík? Vísar það til Norrænna goðsins Narðar eða er það lýsing á Reykjanesbaer-29þeirri staðreynd að víkin Njarðvík er nær, Nærvík?
Sé víkin kennd við fyrrnefndan Njörð er frá honum að segja að hann var með svo fallega fætur að Skaði valdi sér hann sem mannsefni. Hún hélt reyndar að hún væri að velja Baldur og
kannski þess vegna varð upphafstónninn í hjónabandi þeirra fremur leiðinlegur.
Njörður gat hins vegar ekki hugsað sér að sofa uppi í fjöllunum í Þrymheimum vegna ýlfurs frá úlfum.
Samkomulag þeirra hjóna varð því á þann hátt að hún svaf níu nætur í Nóatúnum og hann síðan níu nætur í Þrymheimum.
Á Njörð var oft heitið af sæfarendum þar sem hann réð vindum og gróðri jarðar. Upphaflega hafði hann verið dýrkaður sem frjósemisguð en börn hans, Freyja og Freyr tóku nær alfarið
við því hlutverki.

22. Eldhúsið í Stapakoti – matur áður fyrr.
Reykjanesbaer-30Skúli Magnússon landfógeti skrifaði áhugaverða ritgerð árið 1785 um margt það sem skiptir máli um íslenskt samfélag. Suðurnesjamönnum lýsti  hann þannig að þeir væru yfirleitt
geðgóðir, guðhræddir, hreinskilnir og góðir gestgjafar.
Enskur ferðamaður að nafni Henry Holland kom hingað til lands árið 1810. Njarðvíkingum lýsti hann svo að þeir væru áhugasamir og forvitnir án þess að vera frekir og að karlmenn
væru líkir öðrum íslenskum körlum, hávaxnir, rjóðir í kinnum og með sítt ljóst hár.
Þessi glæsimenni sem lifðu hér um slóðir nærðust fyrst og fremst á fiskmeti hvers konar, ásamt mjöl- og mjólkurmat. Morgunmaturinn var mjöl- eða rúggrautur með mjólk eða smjöri út
á. Síðar um daginn fékk fólkið sér harðfisk eða herta þorskhausa. Kjöt var bara til hátíðabrigða, kjötsúpa að hausti og reykt eða vindþurrkað kjöt er leið á veturinn.

Reykjanesbaer-31

Elstu byggingar sem fundist hafa á Íslandi eru kallaðar “skálar”. Í skálunum var sofið, unnið, eldaður matur og borðað. Við slíkar aðstæður getur myndast mikill reykur sem ekki er heilsusamlegur.
Þegar byggðin þróðist má sjá að upp af skálanum eða nágrenni hans fóru menn að byggja sérstök hús þar sem matur var eldaður, eldhús. Þar inni voru hlóðirnar. Slík eldhús voru í
notkun allt fram á 19. öld er byrjað var að flytja inn kolaeldavélar. Hlóðirnar voru þó áfram í notkun hjá þeim fátækari og einnig á stærri heimilum þegar mikið stóð til, t.d. þegar soðið var slátur.
Eggert Guðmundsson listmálari fæddist í Stapakoti í Innri-Njarðvík árið 1906. Hann var alla tíð þjóðlegur listamaður, myndefni hans voru Reykjanesbaer-32fornsögur, ljóð, þjóðsögur og saga þjóðarinnar.
Hann hélt fjölda málverkasýninga á Íslandi og erlendis. Verk eftir hann prýða mörg heimili á Suðurnesjum og víðar, einnig eru nokkur verk í listasafna. Hann lést árið 1983.

23. Kópa – Harðfiskur og skreið.
Stutt er á fengsæl fiskimið frá Njarðvík. Mest fiskaðist á fyrst mánuðum ársins þegar þorskurinn gekk á grunnmið til að hrygna. Vetrarvertíð kallast veiðitímabilið frá kyndilmessu til
lokadags (2. febrúar til 11. maí). Fjöldi fólks kom á vertíð suður með sjó.
Lengst framan af var afli vetrarvertíðar verkaður í skreið. Skreið var þurrkaður og hertur fiskur. Hún var verkuð þannig að fyrst var fiskurinn slægður (tekin úr honum innyflin) og hann
síðan látinn þorna í stæðum eða kös fram undir miðjan aprílmánuð.
Reykjanesbaer-33Síðan var fiskurinn þurrkaður (hertur) með því að láta hann liggja á grjótgörðum helst þar sem vindur gat leikið um hann.
Fiskurinn var yfirleitt orðinn fullharnaður í lok júnímánaðar og tilbúinn til sölu hjá kaupmanni eða sem vistir til vetrarins á heimilum landsmanna.
Fiskur var alla tíð mikilvægur hluti af fæðu landsmanna og enn í dag borðar fólk harðfisk með smjöri sem minnir á þann tíma þegar hvers konar brauðmatur var hátíðisfæða en “brauð”
Íslendinga var harðfiskur með smjöri.
Málverkið gerði Eggert Guðmundsson listmálari fyrir Margeir Jónsson, útgerðarmann, en báðir voru fæddir í Stapakoti. Á því má sjá Stapakot og víkina Kópu í Innri-Njarðvík, en þar var
útræði og uppsátur fyrir árabátana. Í Stapakoti var þríbýli. Á vetrarvertíðum voru allt að 40 sjómenn víðs vegar af landinu sem réðu sig í skipsrúm frá Stapakoti. Húsin hægra megin á myndinni voru að sögn geymsluhús fyrir net og sjávarfang.

Stigur-2

Nú tekur við Stapinn. Ekki er ólíkleg að fleiri upplýsingaskilti verði sett upp við strandstíginn. Við hann auk þessa eru ýmis listaverk og minningarmerki, s.s. um Jón Þorkelsson Thorchellius skólameistara í Skálholti, um Sveinbjörn Egilsson, fyrsta rektor Lærða skólans, um staðsetningu fyrstu þjóðhátíðar fjögurra innstu hreppa Gullbringusýslu 15.-16. ágúst 1874, auk þess ýmiss mannvirki á leiðinni megi vel telja til minnisvarða um liðna tíð.
Innan við Grófina er t.d. minnismerki sjómanna eftir Ásmund Sveinsson 
til minningar um drukknaða og horfna sjómenn. Verkið var keypt að frumkvæði Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur með framlagi úr sjóði um minnismerki sjómanna auk fjárstyrks frá nokkrum útgerðum og Keflavíkurbæ.

Sjá meira um söguna HÉR.

Skessuhellir

Í Fréttablaðinu árið 2008 mátti lesa eftirfarandi um Svartahelli í Reykjanesbæ (Keflavík):
svartihellir-1Nýverið flutti óvenjulegur nýr íbúi inn í helli í Hólmsbergi við smábátahöfnina í Gróf í Reykjanesbæ. Það er fimm metra há og fjögur hundruð ára gömul skessa sem þó er með barnshjarta.
Það var Herdís Egilsdóttir rithöfundur sem skapaði skessuna og hún átti líka hugmyndina að því að skessuhellirinn yrði reistur á Reykjanesi nú. „Víða um lönd hafa verið gerð söfn í kringum sögupersónur úr barnabókum. Ég nefndi þetta við Árna Sigfússon bæjarstjóra og hann tók verkefnið strax upp á sína arma.“
Fjöllistahópurinn Norðanbál vann verkefnið í samstarfi við Ásmund Friðriksson verkefnisstjóra og réð útliti og stærð hellisins. Hann er hlaðinn í kringum smá skúta sem heitir Svartihellir en byggingin kostar tæplega sautján milljónir.
Allt sem tengist safninu er stórt í sniðum. Krakkar geta farið ofan í skóna hennar og stór fótsporin. Innanstokksmunir hellisins eru í sama stærðarflokki, borð, stólar og risarúm sem má skríða upp í. „Augu skessunnar eru á stærð við fótbolta og þau hreyfast. Svo andar hún og situr í ruggustól og prjónar þannig að safnið verður líflegt,“ segir Herdís. „Svo er hugmyndin að hengja fötin hennar á snúru meðfram veginum og mála sporin hennar á götur Reykjanesbæjar svo krakkarnir sjái hvar hún hafi verið.“
Herdís hefur skrifað fimmtán bækur um skessuna og vinkonu hennar hana Siggu. Nú er ný bók á leiðinni sem mun fjalla um ævintýri skessunnar í nýja bústaðnum á Suðurnesjum.

Heimild:
-Fréttablaðið 29 ágúst 2008, bls. 42.