Færslur

Reykjanesskagi

Fjölmargir, bæði innlendir sem útlendir, fara að Reykjanesvita á hverju ári. Þar virða þeir fyrir sér hið fallega umhverfi, vitann á Vatnsfelli, Valahnúk og Karlinn utan við ströndina. Fuglakliðið í Hnúknum vekur jafnan mikinn áhuga sem og átök sjávar og strandar þegar hreyfing er á vindi og vatni.
En það er fjölmargt fleira að sjá og skoða við Reykjanesvita.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Fellin við nýja vitann, sem tekinn var í notkun 1908, heita Hverhólmar, Írafell og Vatnsfell. Í því er dálítið vatn í dýjaveitum, sem safnast þar saman af snjó- og regnvatni.
Við strönd Reykjaness og báðu megin nessins hafa orðið mörg og mikil sjóslys á þessari öld (20. öldinni). Við Reykjanes strandaði m.a. eitt af stærstu skipum sem strandað hefur við Ísland, olíuskipið Clam. Það var 28. febrúar 1950. Skipið vari vélarvana eftir að hafa rekið upp í fjöru í Reykjavík og á leið til útlanda dregið af dráttarbáti, sem það slitnaði frá í ofsaveðri.

Clam

Clam á strandsstað.

Um borð voru 50 skipverjar. (Hvers vegna 50 manns voru um borð í vélarvana skipi sem draga átti til útlanda af dráttarbáti bíður sagnfræðinga að rannsaka). Þarna fórust 27 manns en 23 tókst að bjarga. Til eru og sagnir af björgun skipsáhafna er báta þeirra rak inn í Blásíðubás í vondum veðrum. Undir berginu austan Valbjargargjár eru margir sjávarhellar. Einn þeirra er opinn upp og hægt að komast áleiðis niður í hann og horfa á hvernig sjórinn er smám saman að grafa undan berghellunni.
Fyrsti ljósviti á Íslandi var reistur á Valahnjúki 1878.

Reykjanesvit

Reykjanesviti 1878.

Í miklum jarðskjálftum 8-9 árum síðar hrundi úr hnjúknum og sprungur mynduðust ofan á honum. Var þá talið að reisa yrði vitann á öruggari stað og var þá núverandi viti á Vatnsfelli byggður og tekinn í notkun 1908.
Annar viti (oft nefndur Litli viti), minni, var reistur sunnar á svonefndu Austurnefi. Ástæðan er sú að lítið eldfell, sem nefnist Skálarfell, skyggir á ljósið frá stóra vitanum á nokkru svæði þegar siglt er úr suðri. Hóllinn sem er á móti Vatnsfelli og er á vinstri hönd þegar ekið er fram hjá vitavarðarhúsinu á leið út að Valahjúk nefnist Bæjarfell.

Þegar gamli Reykjanesvitinn var reistur um 1878 voru auk þess bygður bær fyrir vitavörðinn sem og hlaðinn brunnur undir Bæjarfelli. Þetta var fallega hlaðinn brunnur, sem enn stendur. Gengið er inn í brunninn, sem þótti sérstakt. Slíka brunna má t.d. sjá við Merkines við Hafnir og á Snæfellsnesi (Írskabrunn). Nálægt brunninum er a.m.k þrjár tóftir.

Reykjanes

Reykjanesviti og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Til eru uppdrættir og riss af vitasmíðinni, umhverfinu og öðrum mannvirkjum á svæðinu. Verkinu var stjórnað af dönskum, sem lögðu fram verkfræðikunnáttuna, en íslenskir handaflið.
Frá vitavarðahúsinu var hlaðinn og flóraður stígur yfir að Valahnúk. Stígurinn sést enn vel. Gamli vitinn var hlaðinn úr grjóti og var sumt tilhöggvið. Sjá má leifar gamla vitans undir Valahnúk, skammt frá hlöðnu hesthúsi, sem enn stendur. Grjótið var sótt í yfirborðsklöpp norðan við Valahnúk. Þar hefur jafnþykk klöppin verið brotin niður af bakka og sést hlaðin gata liggja þar niður með kantinum.

Reykjanes

Reykjanesviti og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Norðan nýja vitans má sjá grunn af sjóhúsinu ofan við Kistu, en þangað var efni í hann flutt sjóleiðina og skipað á land. Enn austar með ströndinni er hlaðin tóft af húsi, líklega upp úr selstöðu, eða hugsanlega frá hinum gömlu Skjótastöðum.

Neðan við Bæjarfellið, við Keldutjörnina, er hlaðið gerði umhverfis klettasprungu. Í sprungunni er vatn þar sem gætir sjávarfalla. Áður var vatnið volgt, en hefur nú kulnað. Þarna lærðu ungir Grindvíkingar að synda og í kringum 1930. Ofan við Keldutjörn er hlaðinn túngarður.
Hlaðið er undir pall austan við Valahnúk. Þar höfðust menn frá Kirkjuvogi/Kotvogi við í tjöldum er þeir unnu m.a. reka á Valahnúkamölum. Til eru sagnir um iðju þeirra eftir mikla trjáreka. Dæmi eru og um að menn hafi gist í hellisskúta uppi í Valahnúkum, en ekki orðið svefnsamt vegna draugagangs.

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.

Í Skálfelli er djúpur hellir, Skálabarmshellir. Við op hans er torræð áletrun. Austan undir Skálafelli er hlaðið skjól, líklega fyirr refaskyttu, en mörg greni voru þaðan í sjónmáli niður á Rafnkelsstaðabergi.
Jarðfræðin á svæðinu er merkileg. Sprungurein gengur í gegnum það til SA. Sjá má hvernig gosið hefur á reininni á nokkrum stöðum (Stamparnir) og hvernig gosin hafa raðað sér upp eftir aldri. Ströndin ber glögg merki átakanna við Ægi. Landið hefur ýmist verið að stækka vegna nýrra gosa og minnka þegar sjórinn hefur verið að brjóta það miskunnarlaust niður þess á milli. Karlinn utan við ströndina er ágætt dæmi um það.

Heimild m.a.:
-Leó. M. Jónsson – Höfnum

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Kaupstaðagatan

Ljóst er að hjarta landsins slær á Reykjanesi.

Hjartasteinn

Hjartasteinn við Ósa.

Í ferð FERLIRs um norðanverða Ósabotna var gengið fram á meirt, en mjúkt hjarta, þar sem það var grópað litskrúðugt í grjóthart grágrýtið – skammt frá þeim stað þar sem hella með fangamarki Hallgríms Péturssonar, prests í Hvalsnesi, átti að hafa verið til langs tíma, en er nú varðveitt í geymslum Þjóminjasafnsins (engum til ánægjuauka). Umhverfið er sandauðn og berar klappir, óspillt land, en inni á milli þeirra vaxa harðgerar landnámsplöntur. Líkja má aðstæðum við frumbýlið forðum.
Hjartað gæti, einhvern tímann, hafa slegið í suðvestrænum landvættarskrokki griðungsins, en síðan fengið að slá áfram er griðingurinn varð að þjóðsagnakenndum steini. Þannig er hjartað og bein skírskotun til sögunnar, þjóðsagnanna sem og jafnvel allrar tilveru lífsins. Einnig er táknrænt að hjartað skuli vera þarna, inni á Varnarsvæði hersins, á íslensku landi undir erlendum yfiráðum [2003].

Þórshöfn

Þórshöfn.

Annars bjóða norðanverðir Ósar upp á fjölbreytilega möguleika. Þar má sjá gömlu Kaupastaðagötuna; fallega götu er liggur svo til bein á kafla um heiðina, tóftir Gamla Kirkjuvogs, sem taldar eru vera frá fyrstu byggð á svæðinu, tóftir við Djúpavog og gamlan brunn, tóftir Stafnessels, tóftir á Selhellu, garða út í sjó vestan Djúpavogs, verslunina við Þórshöfn og áletranir á klöppum, Gálga (sem engar eru þó heimildir til að hafi verið notaðir sem aftökustaður, en uppi á einum þeirra er manngerð tóft) og Básenda, hinn gamla verslunarstað svo eitthvað sé nefnt. Verndarnir skiptu sér áður fyrr af ferðum fólks um þetta svæði (ofar ströndum), en voru sem betur fer hættir því nokkru áður en þeir hurfu af landi brott.
FERLIR fékk þó margsinnis að ganga óáreittur um þetta svæði meðan á hersetunni stóð – og njóta alls þess, sem það hefur upp á að bjóða, en auk minjanna og sagnanna er dýra- og náttúrufegurð þarna veruleg.

Kaupstaðagata

Kaupstaðagatan ofan við Gamla-Kirkjuvog.

Nýlega (skömmu fyrir brottför verndarana) var gengið fram á þá tvo slíka saman, alvopnaða, en reykspúandi, skammt vestan við Gálga. Þrátt fyrir meint hlutverk sitt gáfu þeir sér góðan tíma til að spjalla við göngufólkið um umhverfið og söguna, sem þeir sýndu verulegan áhuga. Þótt hugur þeirra væri á reiki víðsfjarri var áhuginn þó nærri. Og hann óx í réttu hlutfalli við umræðuna. Við Gálga innanverða er t.d. upplýsingaskilti fyrir göngufólk um aftökusiði og upp á íslenskan máta. Þaðan er ágæt útsýn milli klettastapanna og ímyndaðs aftökustaðar með tré á millum.
Sunnan Ósabotna er Hunangshellan, en henni tengist þjóðsagan af viðureign Hafnarbúa við finngálknið. Þar er einnig gamla gatan (eða réttara sagt göturnar) milli Njarðvíkur og Hafna.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel.

Sunnar er staður er nefndur hefur verið Gamli kaupstaður, sem sumir álíta að hafi verið verslunarstaður eða verslunarsvæði fyrrum. Framhjá honum á Kaupstaðagata að hafa legið áleiðis yfir heiðina til Grindavíkur. FERLIR skoðaði þann stað fyrir nokkru og má vel gera sér í hugalund að þar hafi verið sammerkur áningarstaður á leiðum fyrrum. Þessi leið er a.m.k. bein og greið.
Kirkjuvogssel er sunnan þjóðvegarins og skammt norðvestan Gamla kaupstaðar. Þar eru verulega tóftir húsa og fallega hlaðinn stekkur, auk gerðis og fleiri mannvirkja er tilheyrðu selstöðunni fyrr á öldum. Enn ofar eru Möngusel og Merkinesselin.

Ósar

Ósar.

Af veginum á Þrívörðuhæð sjást Ósar, eða Kirkjuvogur, en svo nefnist fjörðurinn sem talinn er hafa myndst vegna landsigs. Vísbendingar um það er að minnst er á 50 kúa flæðiengi, sem lægi undir jörðina Vog sem var norðan Ósa, í Vilkinsmáldaga frá 1397.
Ósar eru eitt af náttúruverndarsvæðum landsins. Þar er óvenjuleg fjölbreytni í lífríki fjöruborðsins auk fuglalífs.
Frábært veður.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

Hvalsnesleið

Stefnan var tekin á Keflavíkurflugvallarsvæðið upp á von og óvon. Svæðið innan Vallargirðingarinnar hefur verið landanum lítt aðgengilegt í u.þ.b. sex áratugi og lítið verið gert að því að skoða það m.t.t. hugsanlegra minja.

Hvalsnesgata

Hvalsnesvegur.

Eins og flestum er kunnugt um hefur flugvallarsvæðinu sjálfu verið mikið raskað vegna mannvirkjanna og flugbrautanna, sem þar eru. M.a. var heill gígur, sem stóð efst á heiðinni, jafnaður undir brautina á sínum tíma.
Á dögunum fór FERLIR með staðkunnugum frá Norðurkoti og Fuglavík (sjá aðra lýsingu) upp frá bæjunum í svarta þoku, inn um gat á varnargirðingunni í von um að finna þar einhverjar minjar. Í þeirri ferð fannst m.a. fallega gróin fjárborg og tóft utan í henni. Vatnsstæði var skammt sunnan við borgina.
FERLIR fékk góðar móttökur (sem reynar ávallt fyrrum) hjá Tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli til að komast inn á verndarsvæðið. Fulltrúi Flugmálastjórnar tók einnig vel í málaleitan FERLRs og fékkst leyfi til að fara inn fyrir það allar heilagasta. Eftir að hafa fengið fylgd um svæðið, hlið opnuð og síðan lokað á eftir göngufólkinu með loforð um að það fengi að fara út aftur að göngu lokinni, var gengið af stað.

Hvalsnesleið

Gengið um Hvalsnesleið.

Fljótlega var gengið fram á djúpt markaða götu er liðaðist um heiðina, með stefnu áleiðis að Básendum eða Stafnesi til Keflavíkur. Gatan beygir hins vegar til norðurs þarna nokkru vestar. Að sögn Sigurðar Eiríkssonar í Norðurkoti er þarna hins vegar um að ræða hina gömlu Hvalsnesleið. Fallnar vörður voru við götuna og hefur verið nokkuð lagt í þær á sínum tíma. Ein var þó svo til alveg heil. Stóð hún á klapparhól sunnan götunnar. Leiðarsteinn vísaði til norðurs, að götunni. Önnur varða var á hól austar, svo til alveg við girðinguna. Þessi gata hefur greinilega verið mikið farin á sínum tíma, en ekkert í seinni tíð. Líklega má telja, miðað við hversu miklu hefur verið kastað upp úr götunni á kafla, að hún hafi verið notuð um nokkurn tíma. Vörðubrotin hafa greinilega verið látin óhreyfð. Fá kennileiti eru þarna utan nokkurra hóla.

Hvalsnesleið

Varða við Hvalsnesleið.

Frá heilu vörðunni lá röð stórra, mjög heillegra, varða til vesturs. Leiðarsteinn stóð út úr þeim öllum og benti hann til suðurs. Vörðunum var fylgt að þeirri síðustu, en frá henni sást í turninn á Hvalsneskirkju. Svo virðist sem hætt hafi verið að varða leiðina áfram niður að Hvalsnesi. Ekki var að sjá stíg í móanum á milli varðanna, sem lágu svo til í beina stefnu. Að sögn Sigurðar er þarna um að ræða svonefnda vetrarleið að Hvalsnesi og skýrir það hversu lítt gatan sést í móanum. Leiðin yfir heiðina var mjög villandi í vpondum veðrum. Skráð var t.d. á sínum tíma að fjöldi manns hafi orðið úti á heiðinni á tiltölulega skömmum tíma. Flestir voru þeir að vísu á leið frá kaupmanninum í Keflavík eftir að hafa fengið sér þar svolítið of mikið í tána.

Fuglavíkursel

Fuglavíkursel.

Melabergsgatan er þarna skammt norðar, að mestu utan girðingarinnar. Gatan, sem skoðuð var innan vallarsvæðisins kemur inn á hana við Melabergsvötnin, að sögn Sigurðar.
Þá var gengið að fjárborginni, sem minnst er á hér að framan. Þetta er nokkuð stór gróin borg. Tóft er austan í tóftinni og einnig virðist hafa verið mannvirki sunnan undir henni. Að sögn Sigurðar er hér um að ræða selstöðu frá Fuglavík. Hólarnir ofan (austan) selstöðunnar heita Selhólar. Á þeim er varða. Vestar er vatnsstæðið.
Ljóst er að leita þarf þetta svæði mun betur.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Hvalsnesleið

Hvalsnesgata – vörðukort.

Jamestown
FERLIRsmeðlimir hafa ánafnað gönguhópnum brot úr seglskipinu Jamestown er strandaði fyrir utan Hafnir í júnímánuði árið 1881.
Eftirfarandi brot úr frásögn um Jamestown má sjá á vefsíðu Leós M. Jónssonar í Höfnum:

Jamestown

Strandsstaður Jamestown.

”Á morgni hvítasunnudags, 26. júní árið 1881 brá mönnum í Höfnum á Suðurnesjum í brún; heljarstórt seglskip hafði strandað við Hvalsnes [Hvalvík] á milli Hestakletts og Þórshafnar gegnt Kotvogi í Kirkjuvogshverfi. Þeir sem fyrstir komu á vettvang sáu að skipið var mannlaust og auðséð að það hafði verið lengi á reki því allur seglbúnaður þess og reiði var horfinn.

Hestaklettur

Hestaklettur – Hafnir að handan.

Við nánari skoðun kom í ljós að skipið, sem mun hafa verið um 4000 tonn á núverandi mælikvarða og því engin smásmíði, – líklega með allra stærstu skipum sem til Íslands höfðu komið fram að því. Skipið var fullhlaðið unnum borðviði af mismunandi tegundum, m.a. harðviði og allt kjörviður. Í Suðurnesjaannál Sigurðar Sívertsen er m.a. fjallað um þetta strand. Þar er þess geta hve vel hafi verið um farminn búið og greinilega unnið af mikilli verkþekkingu. Þar segir m.a. að tekist hafi að bjarga miklu af farmi Jamestown og hafi timbrið verið notað til húsbygginga, ekki einungis á Suðurnesjum, en þar má enn sjá hús sem byggð voru úr þessu efni, heldur einnig austur um sveitir.

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Ósa – að Jamestownsrekanum.

Menn af Suðurnesjum mynduðu með sér félag um kaup á strandgóssinu og tókst að semja við sýslumann um kaupin. Eftir óveður nokkrum dögum eftir strandið brotnaði skipið í spón og hvarf. Það er til marks um veðurfar og sjólag við strönd Hafnahrepps að þetta stóra skip mölbrotnaði á fáum dögum eftir að hafa , eins og seinna kemur í ljós, verið á reki stjórnlaust á Norður-Atlantshafinu um 4ra mánaða skeið.

Í annálum er þessa strands getið . Í jólablaði tímaritsins Faxa frá árinu 1967 er merkilegt viðtal við Friðrik Gunnlaugsson (þá 95 ára) þar sem hann segir ítarlega frá björgun farmsins úr Jamestown. Ennfremur er að finna frásögn Ólafs Ketilssonar, fyrrum hreppstjóra Hafnahrepps, af þessu strandi í bókinni Sunnlenskir sagnaþættir (sem Gunnar S. Þorleifsson safnaði) en þar segir Ólafur frá strandinu, björgun farms og afdrifum skipsins.

Jamestown

Ankeri Jamestown í Sandgerði.

Í annálum er Jamestown talið amerískt skip, sagt vera líklegast frá Boston. Af lýsingu á stærð þess að dæma hefur það verið með stærstu seglskipum á sinni tíð, um eða yfir 100 m á lengd og um 20 m á breidd (til samanburðar má hafa að venjulegur fótboltavöllur mun vera 90-100 m á lengd). Þetta risaskip átti sér talsverða sögu sem ef til vill skýrir orsök þess að það strandaði mannlaust á Suðurnesjum.
Jamestown var með 3 þilför á sama tíma og flest stærri seglskip voru tveggja þilfara. Það var smíðað í Richmond og hleypt af stokkunum í nóvember 1879.

Jamestown

Annað ankeri Jamestown í Höfnum.

Skipið Jamestown var yfirgefið úti á rúmsjó þegar eimskipið Ethiopia bjargaði skipverjum. Það var þá undir stjórn Wm. E. Withmore skipstjóra sem er frá borginni Bath. Hinn 10. nóvember lagði skipið Jamestown af stað undir stjórn Withmore skipstjóra með verðmætan farm sem sigla skyldi með til Liverpool.

Scott skipstjóri á eimskipinu Lake Manitoba skýrði frá því að hann hafi farið um borð í Jamestown frá Boston þar sem það var á reki mannlaust og mikið laskað. Hann segir að 17 feta djúpur sjór hafi verið í skipinu sem var hlaðið timbri. Þrátt fyrir skemmdirnar hafi möstrin verið uppi en mikið skemmd, mest af seglabúnaði hafi verið horfið en lítill hluti lafað útfyrir borðstokkinn. Scott segir að þeir hafi gert ítrekaðar tilraunir til að draga skipið en ekki tekist að festa dráttartaug í það og orðið að hætta við.

James Town

Frá James Town í Ameríku.

Eftir að hafa rekið um á Norður-Atlantshafinu mánuðum saman hefur yfirgefið flakið rekið á land á strönd Íslands”.
Í bókum má finna frásögn Ólafs Ketilssonar á Kalmannstjörn, hreppstjóra í Höfnum af strandi Jamestown. Þar nefnir hann þennan einkennilega stein sem hafi verið barlest skipsins.
Í Bath Daily Times mánudaginn 21. nóvember 1881 er enn fjallað um Jamestown. Þar segir: ,, Svo virðist sem frægð Jamestown ætli engan enda að taka. Í tímaritinu Maine Mining Journal segir að fyrsta framleiðsla af málmgrýti frá námunni á Deer Island hafi skrautlegan feril að baki og hafi endað á óvæntum stað. Málmgrýtið hafi Jamestown tekið sem barlest þegar það hélt til Swansee (svo !) í Englandi með timburfarm fyrir nærri ári. Járngrýtið er líklega enn í greypum þessa ólánsfleys þar sem það bar beinin.”

Georg H. Wadleigh

Georg H. Wadleigh.

Svo vill til að sumarið 1881 var staddur hér á landi bandarískur sjóliðsforingi og skipstjóri á bandaríska gufuskipinu Alliance sem þá kom til Reykjavíkur, Georg H. Wadleigh að nafni. Hann skýrði svo frá: ,,Skipið Jamestown frá Boston, hlaðið timbri, rak að landi og strandaði þann 26 júní 1881 norðan við Reykjanestá um 30 mílum frá Reykjavík. Hér með greini ég frá öllu því sem ég hef skráð varðandi strand þessa skips og aðstæður. Hafís hefur verið óvenjumikill þennan vetur og náð lengra til suðurs með ströndinni en venjulega. Greinilegt er að áhöfn Jamestown hefur yfirgefið það nokkru fyrir strandið.”

Wadleigh sjóliðsforingi áætlar stærð skipsins um 1200 tonn í skýrslu sinni. Hann getur þess að rannsókn yfirvalda á staðnum hafi leitt í ljós að afturmastrið hafi verið höggvið af niður við dekk og axarför hafi verið sjáanleg á miðmastrinu og greinileg ummerki um að reynt hafi verið að höggva það sundur. Þá hafi allan stýrisbúnað vantað á skipið. Stærstur hluti reiðans hafi hangið út yfir borðstokkinn og illa farinn. Á bógum hafi nafnið Jamestown verið lesanlegt en undir því aðeins mátt greina ,,Boston”.

Jamestown

Jamestown – auglýsing.

Á koparplötu yfir káetu hafi staðið nafnið Jamestown og á einni af þremur þilfarsvindum hafi mátt lesa merkingu. Allar lestarlúgur voru opnar, segir Wadleigh, og allt lauslegt horfið að undanskildu úldnu fleskstykki. Hann segist einnig hafa tekið eftir grasvexti á þilfarinu sem bendi til þess að skipið hafi verið lengi á reki. Timbri sem bjargað hafi verið úr skipinu segir Wadleigh að hafi verið skipt þannig að þriðjungur fór til Þeirra sem unnu að björgun þess en 2/3 hlutar hafi verið boðnir upp á staðnum fyrir um 10 þúsund krónur. Ætla má að einungis um helmingur af farmi skipsins hafi bjargast á land, segir Wadleigh í skýrslu sinni og getur einnig um danskan skipstjóra sem segist hafa farið um borð í Jamestown úti á rúmsjó 21. júní 1881 og þá hafi allt lauslegt ásamt mestu af tréskrauti skipsins verið horfið”.
Sjá meira um strandið HÉR.

Leó M. Jónsson:
Upphaflega birtist þessi grein í heild í tímaritinu Skildi nr. 34. 4tbl. 10. árg. 2001. Skjöldur er gefinn út af Útgáfufélaginu Sleipni í Reykjavík. Ritstjóri: Páll Skúlason.
http://www.leoemm.com/jamestown.htm

Jamestown

Jamestown – saga.

Gömlu-Hafnir

Í “Fornleifakönnun á framkvæmdarsvæði Magnesíumverksmiðju 2.-3. nóvember 1996”, framkvæmd af Fornleifadeild Þjóðminjasafnins sama ár má lesa neðangreint um minjar á svæði Gömlu-Hafna, vestan Drauga að Hafnarbergi. Fornleifakönnunin var gerð vegna fyrirhugðrar magnesíumverksmiðju sunnan við Hafnir á Reykjanesi, sem síðan ekkert varð úr – sem betur fer.

Aðdragandi

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir. Horft til vesturs. Austast er bæjarhóll Kirkjuhafnar, vestar eru bæjarhólar Stóru- og Litlu-Sandhafnar og loks leifar bæjarhóls Eyrarhafnar.

Þann 31. október hafði Hallgerður Hreggviðsdóttir hjá Verkfræðistofu Stefáns Ólafssonar samband við Þjóðminjasafn Íslands. Óskaði hún eftir því að safnið tæki að sér fornleifakönnun á svæði sunnan við Hafnir þar sem fyrirhugað er að reisa magnesíumverksmiðju. Áhersla var lögð á að verkið þyrfti að vinna sem allra fyrst.

Gömlu-Hafnir

Hafnarsandur – Herforingjaráðskort 1903.

Svæðið tilheyrir Hafnahreppi og er samkvæmt herforingjaráðskorti frá árinu 1910 í mælikvarða 1:50.000 í Hafnarbergi. Á staðfræðikorti Landmælinga Íslands frá 1989 í mælikvarða 1:25.000 er svæðið nefnt Hafnasandur.
Framkvæmdasvæðið afmarkast í vestur af Eyrarbæ norðan Hafnabjargs að Kirkjuhöfn til austurs. Þrjú gömul eyðibýli eru merkt á landakort á þessu svæði. Vestast er Eyrarbær sem sagður er hafa farið í eyði um 1770 og eru bæjarrústir hans sýndar á korti norðan við Hafnarberg. Annað eyðibýlið Sandhöfn, sem fór í eyði um 1600, skiptist í Litlu og Stóru Sandhöfn. Þar var talin vera besta höfnin. Þriðja eyðibýlið er Kirkjuhöfn sem fór í eyði litlu fyrr en Sandhöfn. Munnmæli herma að þar hafi verið kirkja sem aflögð var á 14. öld. Í Prestatali og prófasta er hins vegar ekki getið um kirkju á þessum stað.
Svonefndar Hafnir í Hafnahreppi voru við Kirkjuhöfn og Sandhöfn.

Vettvangskönnun

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; örnefni (LMÍ).

Vettvangskönnunin var gerð dagana 2. – 3. nóvember. Hún fór þannig fram að skýrsluhöfundar gengu skipulega um svæðið og merktu öll mannvirki sem fundust inn á skannaða loftmynd. Mælikvarði loftmyndarinnar er óviss en mun sennilega vera um 1:1500 – 4500. Um leið og gengið var fram á minjarnar var lausleg lýsing af þeim töluð inn á diktafón. Einnig voru flestar minjarnar ljósmyndaðar. Gert hafði verið ráð fyrir að ljúka vettvangskönnuninni á einum degi, en þar eð mun fleiri minjar komu í ljós en gert hafði verið ráð fyrir tók verkið alls tvo daga. Veður var bjart báða dagana og 4 – 5 stiga frost. Allhvasst var fyrri daginn en logn þann síðari.
Unnið var við vettvangskönnun laugardaginn 2. nóvember og sunnudaginn 3. nóvember.
Hér á eftir er lýsing á hverju mannvirki fyrir sig. Númerin vísa í samsvarandi númer á yfirlitskortum aftast í skýrslunni þar sem lega minjanna er sýnd. Kortin eru teiknuð eftir loftmynd af svæðinu.

Mannvirki 1 (fjárétt?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fjárrétt?

Grjóthlaðin ferhyrnd rétt um 13 x 15 m að innanmáli. Hún stendur fremst fram á sjávarbakka. Veggjahæðin er allt að 80 cm og veggjaþykkt er um 80 cm. Ofan á vegginn hefur verið settur gaddavír. Innan í réttinni er yfirborðið mjög mishæðótt og hefur hún að hluta fyllst af sandi. Inngangur er við SA hornið. Við austurgaflinn, sem snýr út að sjónum, er yfirborðið allt að 1,5 m hærra en í suðuvesturhelmingi réttarinnar. Að utanverðu er um tveggja metra fall frá gaflinum niður í grýtta fjörnuna. Í NVhorni réttarinnar er lítið byrgi og er SA hlið þess opin. Austurhlið byrgisins er flutningabretti úr tré. Byrgið er jafnhátt og réttarveggirnir og á því er flatt torfþak.
Af hleðslunum að dæma virðist þetta ekki vera mjög gamalt mannvirki. Þær eru í allgóðu ásigkomulagi og virðist hafa verið haldið við. Byrjað að hrynja smávegis úr hleðslunni í suðurveggnum.

Mannvirki 2 (garðbrot)
Þetta eru leifar af garði eða garðbroti sem að mestu er sokkinn í sand. Steinaröð stendur upp úr sandinum á stöku stað og sýnir hvar garðurinn hefur legið. Hann er um 50 m að lengd og liggur í suðvestur úr víkinni austan við mannvirki 1. Breiddin er um 60 – 80 cm.

Eyrarbær

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Samkvæmt merkingu á landakortum ættu rústir Eyrarbæjar að vera um 50 m suður af mannvirki 1. Við gátum ekki séð merki um rústir á þeim stað. Annaðhvort hefur bærinn sokkið í sand, orðið uppblæstri að bráð eða hann hefur ekki verið rétt staðsettur á kortinu. Hugsanlegt er t.d. að mannvirki hafi t.d. verið reist ofan á bæjarrústirnar.

Hafnarbjarg
Gengið var meðfram ströndinni hjá Hafnarbjargi til að kanna hvort þar væru sýnilegar minjar um varir, bátalægi, uppsátur eða fiskgarða. Fjaran er mjög stórgrýtt og brött og ekki varð vart við nein mannvirki á norðvesturhluta Hafnarbjargs.

Mannvirki 3 (túngarður)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varnargarður.

Garðhleðsla, hugsanlega túngarður. Garðurinn liggur frá Hafnabergi til austurs og markar sennilega tún eða landamerki Eyrarbæjar og Sandhafnar til suðurs. Vestasti hluti garðsins er sokkinn í sand og að miklu leyti hruninn. Grjótdreif úr hleðslunni er á um 3 m breiðu svæði. Um 50 m frá ströndinni er um 2,5 m breitt rof í garðinn fyrir vegarslóða. Þaðan liggur hleðslan áfram til austurs. Sandur hefur lagst upp að henni beggja vegna þannig að hún er að mestu í kafi. Víða er nokkur grjótdreif og hrun úr hleðslunni, einkum að norðanverðu. Í rofabarði við vegarslóðann virtist veggjaþykktin geta hafa verið um 1 m að breidd, en þar sem sandurinn hefur safnast upp að hleðslunni hefur einfaldri og um 0,3 m breiðri steinhleðslu verið bætt ofan á vegginn. Hæð hleðslunnar ofan sands er allt að 0,5 m.

Mannvirki 4 (tóft?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; refagildra.

Hugsanlegt mannvirki á lágum hól. Að norðanverðu virðist mega greina leifar af einfaldri hruninni grjóthleðslu um 0,2 m breið og um 8 m löng. Innanmálið hefur sennilega verið um 2 m, en ekkert er eftir af suðurhlið og vesturhlið. Hugsanlega eru nokkrir steinar hluti af austurhliðinni. Erfitt var að finna þetta mannvirki á loftmynd og er staðsetning þess e.t.v ekki alveg nákvæm á kortinu.

Mannvirki 5 (garður)
Þetta er garður sem liggur í einfaldri röð. Hlaðinn úr misstórum steinum frá 0,4 – 0,5 m í þvermál niður í 0,05 – 0,1 m í þvermál. Garðurinn liggur í norðvestur-suðaustur.
Austast beygir hann til norðurs? Hann er horfinn á köflum og ekki er alls staðar hægt að sjá hann en til vesturs nær hann alveg niður að sjó. Garðurinn endar við hraunás þar sem mannvirki 6 – 8 eru til staðar.

Mannvirki 6 (byrgi?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fiskbyrgi.

Grjóthlaðinn ferhyrningur hlaðinn úr einfaldri steinaröð, í allt að 0,6 m hæð. Hann er um 1,5 x 2 m að utanmáli og grasi vaxinn að innan. Steinarnir eru um 0,2 – 0,3 m í þvermál. Undirstöðurnar eru alls staðar sýnilegar. Suðurhliðin er sennilega verst farin. Mannvirkið stendur uppi á hæð við austurenda garðs nr. 5

Mannvirki 7 (byrgi)
Grjóthlaðið byrgi norðaustan undir klettunum þar sem garður 5 endar. Hleðslan er einföld steinaröð sem er að mestu horfin í sand eða hrunin. Hún er um 4 m að lengd og 1,4 m að breidd um miðjuna og aðeins mjórri við suðurgaflinn. Þar er byrgið aðeins um 1 m að breidd.

Mannvirki 8 (byrgi?)
Um 5 – 10 m austan við mannvirki 7 er um 9 m löng og 4 m breið þúst og allt að 0,4-0,5 m há. Þar virðist vera svipað mannvirki og mannvirki 7, sem er nánast alveg sokkið á kaf í sand. Steinaröð sést á þriggja metra löngum kafla að sunnan eða vestanverðu.

Mannvirki 9 (varða?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varða (leifar fiskbyrgis).

Grjóthlaðið mannvirki. Tvær hliðar eru hlaðnar í horn um 1,2 x 1,2 m hvor hlið. Hleðslan virðist vera allt að 0,6 cm há og hlaðin úr 0,3 – 0,4 m stórum steinum sem raðað er saman. Hugsanlega er þetta leifar af vörðu.

Mannvirki 10 (fiskbyrgi?)
Mannvirki 10, 11 og 12 eru leifar af þremur litlum byrgjum, sennilega fiskbyrgjum.
Mannvirki 10 er hlaðið úr einfaldri steinaröð og virðist nánast hafa verið ferkantað. Það er 2 x 3 m að utanmáli og er vestasta hliðin allt að 0,5 m há. Byrgið er talsvert hrunið og á norðurhliðnni stendur aðeins neðsta steinaröðin eftir. Enginn inngangur er sýnilegur. Að innan er byrgið grasivaxið og mosagróið.

Mannvirki 11 (fiskbyrgi?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fiskbyrgi.

Grjóthlaðið byrgi um 1,5 x 2 m að innanmáli. Virðist vera hringlaga að utan, að minnsta kosti 1,5 m að hæð. Hleðslan er einföld steinaröð, með 0,3 m breiðum og um 0,4 – 0,5 m háum inngangi á austurhlið. Hleðslan virðast vera tiltölulega nýlega hlaðin eða lagfærð. Tóftin er hálffull af sandi.

Mannvirki 12 (fiskbyrgi)
Sennilega leifar af fiskbyrgi. Veggirnir hafa verið hlaðnir úr einfaldri steinaröð.
Tóftin, sem er hrunin, er um 3 x 3,5 m að utanmáli. Ekki verður séð af yfirborði hvort hún hefur verið hringlaga eða ferningslaga. Undirstöður virðast þó fremur hafa verið ferningslaga. Hún er allt að 0,5 m að hæð þar sem hún er hæst.

Mannvirki 13 (vegarslóði)

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir. Um svæðið er markaður göngustígur með grjóti og viðardrumbum.

Traðir sem liggja meðfram ströndinni yst frá Eyrarbæ að Sandhöfn. Þetta er um 1,5 m breiður slóði sem varðaður er einfaldri steinaröð beggja vegna. Steinarnir eru að jafnaði um 0,1 – 0,2 m stórir. Sums staðar hafa rekaviðardrumbar verið lagðir í stað steina til að afmarka vegarslóðann. Þetta virðist ekki vera ýkja gömul hleðsla. Hugsanlega er þetta nýleg gönguleið sem gerð hefur verið að hömrunum við Hafnaberg.

Mannvirki 14 (rétt?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; rétt?

Stór tvískipt grjóthlaðin tóft upp á og utan í dálítilli hæð. Veggirnir að mestu hrundir.
Nú eru þeir ekki nema um 0,2 – 0,3 m háir. Upphaflega virðast þeir hafa verið allt að 0,8 m breiðir. Hugsanlega er þetta leifar af rétt eða fiskreit. Minni reiturinn hallar til norðurs. Hann er 15 x 13 m að innanmáli.
Stærri reiturinn er grjóthlaðinn um 45 x 25 m að innanmáli. Hleðslan er að mestu horfin í sand. Einföld steinaröð stendur upp úr sandinum, allt að 0,5 m há.

Mannvirki 15 (lendingarstaður?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; sjóbúð?

Hér hefur líklega verið lendingarstaður, uppsátur eða vör. Hér er sendin skor þar sem gott hefur verið að draga upp báta. Fyrir ofan lendinguna er grasi vaxinn hóll þar sem hugsanlega eru einhverjar rústir án þess að hægt sé að segja það með vissu. Á hólnum austanverðum er eins og 90° horn sem bendir til þess að þar sé um hleðslur að ræða.

Mannvirki 16 (bæjarhóll, Litla Sandhöfn?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; mannvirki sunnan Stóru-Sandhafnar.

Um 5-6 m hár grasi gróinn hóll sem virðist vera gamall bæjarhóll. Hér og hvar glyttir á hleðslur í hólnum. Hugsanlega eru þetta leifar eyðibýlisins Litlu-Sandhafnar.

Mannvirki 17 (bæjarhóll, Stóra Sandhöfn?)
Mikill og grasivaxinn bæjarhóll, um 30 – 40 m langur og 4 – 5 m hár. Uppi á hólnum sést víða í hleðslur upp úr grasinu. Sunnan undir hólnum er um 10-15 m grjóthlaðið gerði. Hugsanlega er hóllinn leifar eyðibýlisins Stóru-Sandhafnar.

Mannvirki 18 (rústahóll?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; sjóbúð?

Grasi vaxinn hóll norð norðaustur af hól 16. Hóllinn er alveg niður við fjöruna og virðist sjórinn vera búinn að brjóta stórann hluta af honum. Þetta eru sennilega leifar af rústahól þó nú sjáist ekki móta fyrir rústum á yfirborði hans.

Mannvirki 3 (landamerkjagarður?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; tveir varnargarðar.

Garðurinn beygir og klofnar í tvær áttir skammt suður af mannvirki 17. Annar hluti hans heldur áfram til suðausturs en hinn beygir niður að sjónum til austurs.

Mannvirki 19 (varða)
Varða hlaðin úr grjóti upp á um tveggja metra háum hraunkolli. Varðan er ekki alveg ferningslaga að flatarmáli heldur nokkuð óregluleg. Hún er um 1-1,5 m í þvermál og um 1 m á hæð. Steinarnir eru þaktir stórum skófum sem bendir til þess að varðan sé gömul. Hún er um 100 metrum suðvestur af bæjarhól nr 17. Erfiðlega gekk að finna staðinn á loftmyndinni og er staðsetningin hugsanlega ónákvæm á korti.

Mannvirki 20 (bæjarhóll?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varða ofan fiskbyrgja.

Grösugur sandhóll ósléttur að ofan. Hann er sennilega um 5 – 6 m hár og um 20 – 30 m í þvermál. Gæti verið gamall bæjarhóll þó ekki sjáist lengur móta fyrir minjum á yfirborði. Þær gætu verið komnar á kaf í sand. Hugsanlega er þetta leifar eyðibýlisins Kirkjuhafnar.

Mannvirki 21 (Garðar og reitir)
Niður við ströndina eru leifar af grjóthleðslum fremst á klettunum norðan við hólinn. Þær eru að minnsta kosti 5 m langar og allt að tveggja metra breiðar. Þetta er hluti af lengri hleðslu sem liggur í sjó fram. Fleiri garðar eða reitir eru í framhaldi af henni þarna fremst á bakkanum. Einn er um 8 m langur og annar garður um 4 m breiður. Þetta eru allt hleðslur sem standa fremst á bakkanum.

Mannvirki 22 (tóft og garður)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varnargarður.

Grjóthlaðið mannvirkið fremst á sjávarbrún. Veggirnir eru allt að 1,2 m að hæð.
Hleðslurnar eru nokkuð hrundar og engin hvilft er í mannvirkið að ofan. Það er um 8 m að lengd og 3 m að breidd. Grjóthleðslan heldur áfram um 20 metra inn í landið og er á kafi í sandi og grasi. Sunnan við 22 eru garðbrot sem liggja í allar áttir. Ekki verður því lýst nánar að sinni en æskilegt væri að mæla þetta svæði betur upp.

Mannvirki 23 (fiskreitur?)
Þetta er grjóthleðsla sem hefur þrjár hliðar sýnilegar. Lengd og breidd þessa reits var ekki mæld en hleðslan er tvöföld, allt að 0,6 m breið, að mestu leyti hlaðin úr allt að 0,6 m stórum steinum og púkkað upp á milli með smágrýti.

Mannvirki 24 (rétt?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; Kirkjuhöfn efst t.h. Framar er meintur grafreitur og kirkja, Ofar er hringlaga gerði.

Grjóthlaðin ferköntuð rétt innan í reit nr. 23. Steinarnir í hleðslunni eru minni en í mannvirki 23. Hleðslan er einföld steinaröð allt að 0,8 m há. Réttin er full að innan af sandi. Enginn inngangur í hana er sýnilegur. Þvermál hennar er 15 x 11 m að utanmáli.
Í framhaldi af reit 23 eru fleiri samsíða reitir til austurs.

Mannvirki 25 (fiskreitur?)
Mannvirkið er um 16 m langur reitur, sennilega fiskreitur, sem er í framhaldi af reit 23. Hann er um 4 m norðan vegarslóða og liggur niður að sjó. Umhverfis reitinn er hlaðinn garður úr lábörðu grjóti. Hleðslan er um 0,5 – 0,6 m breið og er allt að 0,5-0,6 m há. Flestir steinarnir eru um 0,2 – 0,3 m í þvermál. Garðurinn hefur þrjár hliðar, vestur-, suður- og austurhlið. Fjaran afmarkar hann að norðanverðu. Reiturinn sem garðurinn afmarkar er um 40 m langur og um 40 m breiður. Á suðurhliðinni er um 50x60x20 cm stór steinn sem stendur upp á endann. Austan við hann er um 1 m breitt rof eða op í garðhleðsluna. Líklega hefur þetta verið inngangur inn í reitinn.
Suðurhliðin nær ekki alveg að næsta reit og endar hleðslan um 15 m áður en komið er að mannvirki 26.

Garðar 23-28

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varnargarður ofan Kirkjuhafnar.

Garðarnir 23 – 28 eru framan við hól 20 ofarlega til vinstri. Til hægri í baksýn eru Sandvík og Eyrarvík. Horft til vesturs.
Mannvirki 26, 27 og 28 eru þrír samsíða reitir sem girtir eru af með grjóthleðslum og skipt er niður með einföldum steinaröðum. Þessir reitir eru nánast fullir af sandi og grónir. Innan reitanna eru sums staðar dreifðar grjóthrúgur en ógerlegt er að sjá hvort þær séu leifar frekari mannvirkja. Hugsanlega eru þetta steinar sem brimið hefur kastað upp á land.

Mannvirki 26 (fiskreitur?)
Ferhyrndur reitur, hlaðinn úr hraungrýti með hvössum brúnum. Hann er um 13 m breiður og 15 m langur, 0,6 m hár og víða hruninn. Hann nær ekki niður að fjöru.

Mannvirki 27 (fiskreitur?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fiskbyrgi.

Ferhyrndur reitur svipaður að stærð og reitur 26 og samhliða honum. Vesturhlið reits 27 er er einföld steinaröð sem jafnframt er austurhlið 26.

Mannvirki 28 (fiskreitur?)
Reitur sem er um 13 m að lengd og 12 m að breidd, austan við reit 27. Grjóthleðslan umhverfis er fremur sporöskjulaga en ferhyrningslaga.

Mannvirki 29 (bæjarhóll?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; bæjarhóll Kirkjuhafnar.

Um 5 – 6 m hár grasi gróinn hóll sem er um 15 m í þvermál. Á yfirborði eru engar hleðslur sýnilegar. Í hjólförum sem liggja upp hólinn sér hins vegar í grjót sem virðist hafa spólast upp og gæti það bent til að þar séu grjóthleðslur undir. Þar sem hóllinn stendur einn og sér er mjög líklegt að þetta sé rústahóll. Hugsanlega eru þetta einhverjar leifar af eyðibýlinu Kirkjuhöfn?
Í fjörunni norður af hól nr 29 er vík. Þar gæti hafa verið lendingarstaður eða vör.

Mannvirki 30 (varða)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; meint dys við Kirkjuhöfn.

Varða sem er um 1 x 1,5 m í þvermál og allt að 0,8 m há er upp á háum hraunhól sunnan vegarins. Á steinunum eru allmiklar skófir sem bendir til þess að hún sé gömul. Hún er í suðaustur af hól nr 29.

Mannvirki 31 (fiskbyrgi?)
Grjóthlaðið byrgi upp á litlum klettahól, um 10 m austan og neðan við vörðu nr. 30. Utanmál byrgisins eru um 2 x 2 m. Þetta er einföld grjóthleðsla sem er allt að 1 m há. Sandur hefur safnast í byrgið innanvert svo að þar er veggurinn aðeins um 0,5 m hár. Hún virðist hafa verið ferköntuð og inngangur gæti hafa verið á suðurhlið. Steinarnir eru nokkuð stórir að jafnaði, um 0,3 – 0,4 m í þvermál.

Mannvirki 32 (fiskreitir?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; garðar austan Kirkjuhafnar.

Samliggjandi garðar eða fiskreitir. Þeir eru a.m.k. sex talsins en voru nú skráðir á eitt númer. Reiturinn sem er næst veginum er um 15×12 m að innanmáli. Hleðslan er úr hraungrýti og lögð ofan á mjög óslétt landslag. Sandhæðir eru í norður og norðausturhluta reitsins. Þær eru 2-3 metrum hærri en yfirborð í suðurhluta reitsins. Hleðslan er um 0,6 m breið og allt að 1 m há þar sem hún er hæst. Víða er hún hrunin. Reitirnir eru beint upp af eða suður af víkinni sem virðist hafa verið góð til lendingar og nefnd var hér að framan. Svo virðist sem reitasvæðið afmarkist að sunnanverðu og norðanverðu af stökum garðhleðslum sem liggja frá veginum alveg niður að sjó.

Mannvirki 33 (varða)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varða við gömlu þjóðleiðina. Junkaragerði framundan.

Varða um 1 x 1,5 m að breidd. Hún er ferstrend og dregst að sér og um 2 m há. Hún er ekki gömul og gæti hugsanlega verið merkjavarða. Steinarnir í vörðunni eru nokkuð misstórir. Þeir minnstu eru um 0,15 – 0,2 m í en flestir eru um 0,3- 0,4 m í þvermál.

Mannvirki 34 (varða?)
Varða eða mælipunktur sem hlaðin er þannig að tveir stórir steinar, um 0,4 – 0,5 m í þvermál eru lagðir með um 0,4 m millibili og stór steinn lagður ofan á. Þar ofan á eru lagðir nokkrir fleiri steinar. Þeir mynda þannig strýtulaga vörðu með gati neðst í gegn. Hún er um 1,3 m að breidd og um 0,4 m breið. Hæðin er um 0,8 m. Þetta virðist ekki vera gamalt mannvirki.
Á hrauntoppunum hér í kring eru ýmsar smávörður sem verða ekki skráðar hér.

Mannvirki 35 (gerði eða reitur?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fjárborg.

Leifar af grunnu gerði eða reit, um 8 m að innanmáli. Erfitt er að sjá hvernig gerðið hefur verið í laginu. Að innanverðu er það er á kafi í sandi. Norðvesturhliðin er bein en suðurhlutinn er bogadreginn. Hæð hleðslunnar, sem er mikið hrunin, er um 0,4-0,5 m að utanverðu. Gerðið er rétt sunnan við vörðu nr. 34. Þetta gæti verið mjög gamalt mannvirki.

Mannvirki 36 (byrgi?)

Grjóthleðsla upp á litlum hraunkletti. Hleðslan er um 2 x 2 m í þvermál. Hugsanlega eru hér leifar af borghlöðnu byrgi sem hefur fallið saman. Þar sem hleðslan er hæst er hún allt að 1 m að hæð en að jafnaði er hæð hennar um 0,5 m. Stórar skófir hafa víða náð að myndast á steinunum sem bendir til að mannvirkið sé mjög gamalt. Þetta er um 50 m norðan við hitt.

Mannvirki 37 (garður)

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – Stúlknavarða. Varðan er nú fallin.

Grjótgarður, sums staðar sokkinn á kaf í sand. Hann liggur meðfram fjörunni, til suðvesturs frá Kalmansvör. Við endann á afleggjara frá gamla vegarslóðanum beygir garðurinn til norðausturs og er þar sennilega um 150 m að lengd. Hann hverfur á kafla undir vegarslóða og liggur í nokkrum boga austan við veginn. Suðaustur hornið er bogadregið og þaðan stefnir garðurinn til norðausturs niður að afleggjara heim að fiskeldishúsi. Þar hverfur garðurinn undir veg en heldur áfram norðan vegarins til norðausturs eins langt og augað eygir. Honum var ekki fylgt frekar eftir. Aðeins efsti hluti garðsins stendur upp úr sandinum og er þar allt að 0,4 m að hæð. Hann er um 0,6 m breiður og víðast hlaðinn úr 0,2 – 0,3 m stórum steinum.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fjárborg.

Hlaðið mannvirki úr grjóti innan garðs nr. 37. Það er fimmhyrnt og um 26 m langt. Suðurhluti þess er um 9 m breiður og um 13 m langur. Þar breikkar norðurhlutinn um tvo metra til vesturs. Veggjahleðslan er um 0,5 – 0,6 m breið og allt að 0,7 m há þar sem hún er hæst. Sandur hefur lagst upp að hleðslunni bæði að utan og innan. Suðausturhornið er alveg fullt af sandi upp á veggjabrún. Inni í tóftinni, aðeins norðan við miðbik hennar er grjóthrúga sem virðist vera leifar af grjóthleðslu sem er að mestu horfin í sand. Þar sést í einfalda steinaröð sem liggur í um 2 m langt horn. Ekki er hægt að sjá neinn inngang í þetta mannvirki, þó sums staðar sé veggurinn hruninn. Garðurinn er einföld röð af steinum sem stundum liggja langsum og stundum þversum í hleðslunni. Steinaröðin er efsti hluti af grjótgarði sem sokkinn er í sand. Sums staðar sjást tvö steinalög, en sandurinn hefur lagst upp að garðinum báðum megin. Suðurendi garðsins endar um 10 – 15 m austan við suðurhorn garðs nr. 37 og
liggur síðaan eins langt og augað eygir til aust-norðausturs. Sennilega er þetta gömul hleðsla.

Niðurstöður

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Mun fleiri minjar reyndust vera á svæðinu en gert hafði verið ráð fyrir. Þetta eru minjar sem tengjast gömlu eyðibýlunum Eyrarbæ, Sandhöfn og Kirkjuhöfn. Greinilegt er að þarna hefur verið útgerð og að flestar minjar á svæðinu tengjast þannig starfsemi, s.s. fiskkarðar, fiskreitir og fiskbyrgi. Einnig eru þarna nokkrir sandhólar. Hleðsluleifar og fl. bendir til þess að hólarnir séu gamlir rústahólar og má ætla að þeir geymi leifar eyðibýlanna Sandhafnar og Kirkjuhafnar. Leifar Eyrarbæjar fundust ekki.
Merkustu minjarnar eru bæjarhólarnir. Sjálfsagt er að varðveita þá, en æskilegast er að varðveita minjasvæðin umhverfis bæina sem heildir.

Umsögn um staðsetningu verksmiðju
Fyrirhugaðri magnesíumverksmiðju er ætlaður staður suður og upp af Sandvík.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; loftmynd.

Afstöðumynd sýnir að verksmiðjan mun fara yfir hluta af tún- eða landamerkjagarði sem merktur er sem mannvirki nr. 3 í þessari skýrslu. Einnig liggur verksmiðjusvæðið alveg upp að hól nr. 17 og virðist honum því stafa nokkur hætta af fyrirhuguðum framkvæmdum. Eins og fram hefur komið teljum við að að hóllinn sé gamall bæjarhóll og geymi leifar eyðibýlisins Stóra-Sandhöfn. Samkvæmt gögnum úr svæðisskipulagi fyrir Suðurnes 1987-2007 mun Sandhöfn hafa farið í eyði um 1600. Túngarðurinn er sennilega frá sama tíma og bærinn. Hér eru því að öllum líkindum minjar sem eru a.m.k. orðnar 400 ára gamlar og þar með verndaður samkvæmt þjóðminjalögum nr 88. frá 1989. Því má bæta við að bæjarhólar hlaðast upp á löngum tíma. Miðað við umfang bæjarhólanna á þessu svæði má gera ráð fyrir byggingarskeiðum sem ná yfir margar aldir, hugsanlega allt frá upphafi landnáms.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; hringlaga gerði við Kirkjuhöfn.

Verði verksmiðja reist á þessum stað er ljóst að garðhleðslurnar munu hverfa á stórum kafla. Þær eru hins vegar ekki einstakar í sinni röð og ætti fornleifakönnunin sem gerð var að vera nægileg skráning á þeim. Bæjarhóllinn er hins vegar miklu merkilegri og við honum má ekki hrófla nema að undangenginni rannsókn. Fornleifarannsókn á hólnum mundi sennilega taka um 2 – 5 ár og kostnaður við hana gæti numið um 5 – 10 milljónum króna á ári.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; meint kirkja og bæjarhóll Kirkjuhafnar.

Ef framkvæmdaaðilar vilja komast hjá þeim kostnaði sem fornleifarannsókn hefur í för með sér þarf að hliðra verksmiðjunni til þannig að svæðið sem þarf að raska vegna verksmiðjunnar sé vel utan ystu marka bæjarhólsins. Best væri að afmarka verndarsvæðið þannig að vinnuvélar fari ekki of nálægt því. Að þessum skilyrðum uppfylltum telur Þjóðminjasafn Íslands ekki ástæðu til að standa í vegi fyrir framkvæmdum á svæðinu, enda séu aðrar minjar en hér hefur verið rætt um ekki í hættu.” – Reykjavík 19. nóvember 1996, Guðmundur Ólafsson Sigurður Bergsteinsson, deildarstjóri fornleifadeildar fornleifafræðingur. Heimildir:
Sveinn Níelsson (1950). Prestatal og prófasta. Reykjavík.

Heimild:
-Rannsóknarskýrslur Fornleifadeildar Þóðminjasafnsins 1996 XIV – Fornleifakönnun á framkvæmdarsvæði Magnesíumverksmiðju 2.-3. nóvember, Fornleifadeild Þjóðminjasafnins – Reykjavík 1996/2008.
-https://www.thjodminjasafn.is/media/rannsoknir/1996-14-Magnesium-verksmidja-fornleifakonnun.pdf

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; kort í skýrslu um Fornleifakönnun 1996. Númerin eru vísun í framanskráðan texta.

Reykjanes

Sagt er að ysti hluti Suðvesturkjálkans nefnist Reykjanes, þ.e. svæðið vestan línu er dregin er á milli Stóru-Sandvíkur í norðri og Sandvíkur í suðri.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Allt er svæðið mjög eldbrunnið og sundurskorið af gjám, enda snautt að gróðri. Eldfjöll eru þar mörg en öll fremur lág. Þau eru einkum tvenns konar, hraundyngjur, s.s. Skálafell og Háleyjarbunga og gossprungur eða gígaraðir s.s. Stampar og Eldvörp. Gígaraðir tvær eru miklum mun yngri en dyngjurnar og sennilega orðnar til á sögulegum tíma. Nokkuð er og um móbergsfjöll þarna og ber einna mest á Sýrfelli. Utan í því er fallegur gígur, Hreiðrið (Stampur)
Mikill jarðhiti er víða á Reykjanesskaganum. Reykjanestáin er þar ekki undanskilin. Á Reykjanestánni er mikið hverasvæði, leirhverir og vatnshverir. Allt er land þar sundurtætt af jarðeldum, gígum, leirpittum, gufuhverum o.fl. Stærsti leirhverinn heitir Gunna. Um þann hver er til sú þjóðsaga að kona ein, sem Guðrún hét hafi gengið aftur. Lék hún menn grátt, reið húsum og fældi fénað. Lokst var galdraprestur nokkur fenginn til koma draugnum fyrir og gerði hann það í Gunnu.

Reykjanesviti

Reykjanesvitinn á Valahnúk.

Viti er á Reykjanesi, sá fyrsti sem byggður var á Íslandi árið 1879, Hann var reistur upp á Valahnúk, en 8 eða 9 árum seinna gerði mikla jarðskjálfta og komur þá þrjár stórar sprungur skammt frá honum, bær vitavarðarins skemmdist og enn meira rask varð á jörðu og mannvirkjum. Var vitinn endurbyggður þar sem hann er nú á árunum 1907-1908. Hann stendur í 78 m.y.s.
Reykjanesinu er gjarnan skipt í 4 eða 5 eldstöðvakerfi, Reykjanes-Grindavík-Vogar (oft talið sem tvö kerfi), Krýsuvík-Trölladyngja, Brennisteinsfjöll-Bláfjöll og Hengill-Selvogur. Hliðrunarbelti með austur-vestur stefnu í gegnum þessi kerfi veldur tíðum jarðskjálftum á Reykjanesi og á því hafa myndazt háhitasvæði á yfirborði, s.s. á Reykjanesi, í Eldvörpum, í Svartsengi, í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum. Eldstöðvakerfin hafa öll skilað blágrýti (þóleiískt berg) til yfirborðsins á nútíma nema Hengilssvæðið. Píkrít er að finna í gömlu og minni dyngjunum á svæðinu en ólivínþóleit í hinum yngri og stærri. Fjöldi dyngnanna frá nútíma er u.þ.b. 30 og gossprungur eru í tugatali. U.þ.b. 52% Reykjanesskagans (mælt úr botni Kollafjarðar til Þorlákshafnar) er þakinn hraunum, sem runnu eftir síðasta skeið ísaldar (43 km²). Flest fjöll, t.d. Keilir, eru úr móbergi frá síðasta kuldaskeiði.

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Reykjanes er yzti hluti Suðurnesja. Þar eru mikil ummerki eldvirkni og vart sést þar stingandi strá. Mest ber á dyngjum, s.s. Háleyjarbungu og Skálafelli, og gossprungum eða gígaröðum, sem eru mun yngri en dyngjurnar og hafa að öllum líkindum myndast á sögulegum tímum. Jarðhiti er mikill á skaganum, ekki færri en fimm háhitasvæði. Eitt þeirra er á Reykjanesi, þar sem sjá má leir- og vatnshveri. Stærsti leirhverinn heitir Gunna. Guðrún var ódæll draugur, sem olli usla. Galdraprestur var fenginn til að koma henni fyrir í hvernum. Rétt þar hjá er saltvinnsla og fiskþurrkun og þar mun líklega rísa magnesíumverksmiðja í framtíðinni. Árið 2003 var hafin bygging stórs varmaorkuvers á Reykjanesi í tengslum við stækkun Norðuráls á Grundartanga við Hvalfjörð.

Reykjanesviti

Reykjanesvitinn fyrri.

Fyrsti viti landsins var reistur uppi á Valahnjúki árið 1878. Árið 1887 ollu jarðskjálftar miklu hruni úr hnjúknum, þannig að nýr viti var reistur á árunum 1907-08, þar sem hann stendur enn þá 73 m yfir sjó. Skammt undan Reykjanestá er 52 m hár drangur í sjónum. Hann heitir Karl. Utar sést til Eldeyjar í góðu skyggni. Hún er 77 m há og á henni er mesta súlubyggð í heimi, u.þ.b. 70 þúsund fuglar. Eldey hefur oft verið klifin, en til þess þarf sérstakt leyfi, þar sem hún er á náttúruverndarskrá. Á Eldeyjarsvæðinu hefur líklega gosið a.m.k. 10 sinnum og þrisvar hafa orðið til eyjar, sem hurfu nokkurn veginn jafnskjótt og þær urðu til.
Gengið var frá Gunnuhver, suðurmeð austanverðu Skálafelli og niður á Krossavíkurbjarg, öðru nafni Hrafnkelsstaðaberg. Bergið er 10 – 40 metra hátt. Undir því fórst bátur í marsmánuði 1916 með 10 eða 11 manna áhöfn. Skipshöfnin komst í land, að sagan segir fyrir dugnað Kristjáns Jónssonar frá Efri-grund, sem hélt skipinu föstu í klettunum meðan skipshöfnin var að komast úr því. Skipið dróst síðan út og brotnaði. Undir berginu eru Skemmur – básar inn undir bergið á kafla. Eitt mesta björgunarafrek, sem unnið hefur verið undan ströndum landsins, var unnið þarna fyrir utan er kútter Ester frá Reykjavík bjargaði áhöfnum fjögurra báta, eða 40 manns. Undir berginu þarna stendur bergstandur úti í sjó, líklega leifar af steinboga. Heill og stór steinbogi er í borginni skammt vestar og sést hann vel þegar staðið er inni á bjargbrúninni.

Reykjanes

Litliviti.

Nýjasti Reykjanesvitinn, stundum nefndur Litli viti, er á Tánni. Hann er staðsettur þarna vegna þess að stóri vitinn á reykjanesi er í hvarfi við Skálafellið á kafla nokkuð austur í grindavíkursjó. Vestan við hann er Blásíðubás. Í óverðinu í mars 1916, mestu hrakningum í sjóferðasögu grindavíkur, bjargaðist einn bátanna upp í básinn og áhöfnin bjargaðist. Blásíðubás er stærstur básanna við Grindavíkurstrendur og einn sá fallegasti. Vitað er að þrisvar hafi skipshafnir lent og bjargast þar á síðustu stundu frá því að lenda í Reykjanesröstinni og sogast þannig til hafs.

Valbjargargjá

Valbjargargjá.

Áður en komið er út að Valbjargargjá mótar fyrir bás. Ofan við hann er varða. Þarna varð eitt af stærstu sjóslysum, sem orðið hafa á þessum slóðum, þegar olíuskipið Clam strandaði og 27 menn drukknuðu. Eitthvert ofboð hljóp í skipshöfnina eftir að skipið strandaði. Björgunarbátar voru settir út í brimið, en það velti þeim á svipstundu. Ekki voru nema 20-30 metrar í land. Þremur mönnum skolaði lifandi á land. Þegar björgunarsveitin úr Grindavík kom á vettvang voru enn 24 menn um borð í skipinu. var þeim öllum bjargar á línu milli skips og lands.

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Valahnúkamölin er fyrsta örnefnið í Grindavíkurlandi vestan megin. Þar eru landamegi Hafna, eða Kalmanstjarnar í Höfnum og Staðar í Grindavík. Mörkin hafa ekki verið krýsulaus. Hafnamenn nefndu t.d. básinn ausanvið Valbjargargjá Kirkjuvogsbás, svona til að koma Hafnalandinu örlítið austar, en Grindvíkingar hafa ekki sætt sig við það.
Fallegt útsýni er af berginu yfir að Valahnúk. Draugshellirinn í miðjum hnúknum sést vel, efst í grasbrekku. Við hann eru tengdar rammar draugasögur (sjá Rauðskinnu).

Reykjanes - sundlaug

Sundlaugin á Reykjanesi.

Gengið var vestur eftir Valahnúksmölum og niður að Keldutjörn. Reykjanesvitinn speglaðist fagurlega í vatninu. Vestan við tjörnina eru hleðslur eftir hina gömlu sundlaug Grindvíkinga, en í gjánni innan þeirra lærðu margir Grindjánar að synda á fyrri hluta 20. aldar. Líklega hefur verið hitavermsl í gjánni þótt hún sé nú kulnuð.
Gengið var vestur að flóruðum stíg er lá á milli Valahnúks, þar sem fyrsti vitinn hér á landi var reistur, og vitavarðarhússins. Vestan við Valahnúk er lægð í hellulandið. Í henni er flóraður vegur niður undir helluna. Þangað var efnið í gamla vitann og vitavarðahúsið m.a. sótt. Leifar gamla vitans liggja undir Valahnúk og bíða endurnýjun lífdaga. Það voru danskir er höfðu hönd í bagga við byggingna á sínum tíma sem og gerð brunnsins í túninu neðan við Bæjarfell.

Karl

Karlinn.

Karlinn stendur teinréttur utan við ströndina, 52 m hár móbergsdrangu. Eldey ber í sjónarrönd.
Reykjanesið, svonefnda, býður upp á ótrúlega mikla útivistarmöguleika. Minjasvæðið tengt vitagerð nær frá Kistu að Hrafnkelsstaðarbergi. Þar má sjá grunn gamla sjóhússins, lendinguna neðan þess, gerði, stíg, flóraðagötu niður að sjó vestan Valahnúks, flóraðan stíg milli hans og vitavarðahússins gamla, brunninn undir Bæjarfelli, leifar gamla vitans undir Valahnúk, vitann á Vatnsfelli og Litla vita á Reykjanestá svo eitthvað sé nefnt.

Reeykjanes

Dásemdir Reykjanesskagans má í dag finna víða, þökk sé jarðvánni….

Berg- og jarðmyndarfræðin (sköpunarsagan) eru þarna allt um kring, fugla- og gróðurlíf er með fjölbreyttara móti, auk þess sem landslagið er bæði hrikalagt og fagurt í senn. Og ekki skemmir fyrir að svæðið er einungis spölkorn frá Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu (Grindvíkingar gætu hæglega gengið þangað líkt og í sundlaugina fyrrum).
Frábært veður – sól og afar hlýtt – Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir:
-natmus.is
o-Frá Suðurnesjum – frásagnir frá liðinni tíð – Frá Valahnúk til Seljabótar eftir Guðstein Einarsson – 1960.

Reykjanes

Við Reykjanesvita – uppdráttur ÓSÁ.

Ytri-Njarðvík

Í Skýrslu Reykjanesbæjar um “Breytingu á deiliskipulagi í Innri-Njarðvík v/kirkjugarð og Thorkellinsgarð” árið 2020 má m.a. lesa eftirfarandi sögulegt ágrip Njarðvíkna sem og sögu Innri-Njarðvíkurkirkju.

Sögulegt ágrip

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz.

Í ritgerð sinni Guðir og goð í Örnefnum skoðar Helgi Biering Þjóðfræðingur meðal annar Njarðar forskeytið í örnefnum á Íslandi. Þar segi hann meðal annars um Njarðvíkurnar.
Ekki er mikið um Njarðar forskeyti í örnefnum á Íslandi en þó eru tvær Njarðvíkur og svo skemmtilega vill til að þær eru á sitthvorum enda landsins. Önnur þeirra er á suðvesturhorni landsins en hin er á norðaustur horninu.

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz.

Sú sem er á Suðvesturhorninu er ekki stór landfræðilega heldur einungis lítil vík sem gengur inn úr Staksvík í Faxaflóa og er sá hluti víkurinnar sem er við svokallaðar Njarðvíkurfitjar, eða Fitjarnar eins og þær eru nefndar í daglegu tali. Hún er í landnámi Steinunnar gömlu en samt er líklegt að nafnið á víkinni hafi verið komið fyrir hennar tíð. Þó er áhugaverð kenning í Bókinni Saga Njarðvíkur þar sem haft er eftir Þórhalli Vilhjálmssyni, sem gegndi starfi forstöðumanns Örnefnastofnunar Þjóðminjasafnsins þegar bókin var gefin út, að nafnið tengist ekki átrúnaði á Njörð né heldur séu sambærileg heiti í Noregi kennd við goðið.

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz.

Heldur snúist örnefnið um það að upphaflega hafi þær haft forliðinn “nær” í merkingunni “nærri”. Hann vill meina að Njarðvík á Suðurnesjum heiti svo vegna þess að hún er næsta vík við landnámsjörðina Kvíguvoga, en Njarðvík eystri í N-Múlasýslu beri sitt heiti vegna þess að hún er í næsta nágrenni við Fljótsdalshérað. Ritari ætlar ekki að leggja neinn dóm á það er hitt gæti allt eins verið rétt að nafnið komi af tilbeiðslu við Njörð sem sjávarguð og þá getur Njarðvík vel passa við að vera til marks um góða lendingarstaði og nefnd Njarðvík Nirði til heiðurs.

Njarðvík

Frá Njarðvík.

Það gæti vel passað við Njarðvíkurfitjar þar sem þar er mjúk og sendin strönd með grýttar- og klettastrandir í báðar áttir. Þegar skoðað er kort og myndir af Njarðvík sést hve þar er góð lending fyrir skip eins og Knerri og langskip landnámsmanna voru. Tvennt er sameiginlegt með þeim syðri og eystri, annarsvegar eru báðar með sendinn botn og góðar strendur til að lenda skipi á þannig að lágmarks hætta er á að skemmdir á skipi tefji för, slæmar lendingar á báðar hendur með klettum og skerjum. Og báðar eru sennilega lausar við mjög krappa öldur eða brim inni í botni þar sem þær eru báðar grónar alveg niður í fjöru.

Njarðvík

Innri-Njarðvík – Stekkjakot og Víkingasafnið.

Fram til 1889 var Njarðvík hluti Vatnsleysustrandahrepps, en varð þá sjálfstætt sveitarfélag. En það hafði verið staðfest með dómi árið 1596. Árið 1908 var Njarðvíkurhreppur sameinaður Keflavíkurkauptúni, enda var þar hluti verslunarlóðar Keflavíkur innan Njarðvíkurhrepps. Njarðvík var áður skipt í Innri- og Ytri Njarðvík, sem seinna mynduðu eitt sveitarfélag.
Njarðvíkurnar fengu þá sjálfkrafa verslunarréttindi og hreppurinn fékk nafnið Keflavíkurhreppur. Árið 1942 var hreppunum skipt og Njarðvík varð aftur sjálfstætt sveitarfélag.

Njarðvík

Kot í Innri-Njarðvík.

Heldur er það rýrt sem fjallar um það landsvæði sem Njarðvíkurnar tilheyra í Landnámu. Og í raun er það eingöngu um það að Ingólfur hafi gefið Steinunni gömlu landsvæði og hvernig hún deildi því niður á sitt fólk. „Steinuður hin gamla, frændkona Ingólfs, fór til Íslands og var með Ingólfi hinn fyrsta vetur. Hann bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, Borgaði hún honum fyrir með “heklu flekkótta enska og vildi kaup kalla; henni þótti það óhættara við riftingum.” Úr Landnámabók, merkir að hún vildi ekki fá landið að gjöf heldur borgaði fyrir líklega með enskri flík, með því vildi hún tryggja eignarhald sitt ef Ingólfi eða erfingjum hans myndi snúast hugur. Eyvindur hét maður, frændi Steinunnar og fóstri; honum gaf hún land milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns.“

Njarðvíkur

Njarðvíkur um 1910.

Landnámsmenn hafa siglt hingað á knörrum sem ekki hafa hentað til fiskveiða, of stór og þurftu góð hafnarskilyrði, minni bátar voru meðfærilegri og auðveldara til dæmis að draga þá á land milli róðra í vörum. Reyndar voru fiskibátarnir sumir hverjir töluverð fley, gott dæmi um þessi stærri skip er hákarlaskipið Ófeigur sem varðveittur er á Byggðasafninu á Reykjum. Í Eiríkssögu rauða er sagt frá ferðum Eiríks og fleiri landnámsmanna til Grænlands og áfram til Vínlands og Íslands.

Víkingar

Víkingaskip – knerrir í legu.

Knerrin voru farskip landsmanna svo lengi sem þeir entust, en ólíklegt er að í landnemahópnum hafi ekki verið menn sem kunnu til skipasmíða. Þeir hafa fljótlega tekið til við að gera heppilega báta til fiskveita við landið, og sterk rök benda til þess að þegar á söguöld – 985, þegar Eiríkur rauði og fleiri Vestlendingar lögðu í landnámsferð til Grænlands – hafi verið komin fram sú gerð fiskibáta sem notuð var víða um land allt fram á þessa öld (20. öld) og hákarlabáturinn Ófeigur sem smíðaður var 1875 og enn er varðveittur þykir góður fulltrúi fyrir.

Ytri-Njarðvík

Ytri-Njarðvík – túnakort 1919.

Landnemarnir voru járnaldarmenn ritaði Kristján Eldjárn, fólk sem byggði verkmenningu sína á víðtækri notkun járns og mikilli leikni í meðferð þess innan þeirra takmarka sem algjör skortur á vélmenningu setti. Lágt tæknistig hefur hins vegar áreiðanlega valdið því að þorri fólks hefur þurft að eyða megninu af tíma sínum til að afla sér fæðis og klæða. Þar hefur verið í mörgu að snúast því hvert heimili þurfti að afla allra sinna fanga sjálft og sjálfsþurftarsamfélagið var afar háð árstíðabreytingum. Allt árið þurfti að sinna skepnum, að vetrarlagi var stunduð tógvinna, þá var gripið til enn fornaldarlegra tækja, halasnældu og kljásteinavefstól, hvorutveggja frá steinöld. Að sumarlagi þurfti að sinna kornyrkju og líklega hafa menn heyjað, lítilsháttar, en treyst á útibeit. Veiðar stundaðar allt árið, fugl, fiskur og selur. Þá var berjum, sölvum og öðrum jarðargróðri verið safnað.

Innri-Njarðvík

Stapakot – túnakort.

Mikilvægt var að einhver á heimilinu kynni til allra verka, hvort sem var við matseld, klæðagerð, smíðar hverskonar, húsbyggingar, umönnun búfjár o.s.frv. í þessu felst hugtakið sjálfsþurftarbúskapur. Eitthvað þurfti þó alltaf að kaupa að, til dæmis efni eins og góðan við og járn. Treysta varð á innflutning járns, þótt menn hafi reynt að vinna járn úr mýrarrauða þá var það ekki gerlegt nema fyrstu aldirnar, verkþekkingu þurfti og síðan töluverðan skóg til viðarkolagerðar, hvorutveggja minnkaði eftir því sem leið á. Í upphafi var Ísland viði vaxið eins og Ari fróði sagði en ólíklegt má telja að viðurinn hafi alls staðar verið nægilega góður til hús- og skipasmíða. Þá kom til góða, rekafjörur, sem sést að þær hafa verið mjög eftirsóttar, rekinn hins vegar dugði ekki og flutti því landinn inn við. Þannig gerði landlægur efnisskortur á þessum grundvallarþætti húsagerðar og skipasmíða.

Njarðvíkur

Njarðvíkur – Áki Grenz.

Búsetu á jörðinni Njarðvík er fyrst getið á 13. öld. Svo virðist sem 25 jarðir hafa verið í byggð á 13. öld í Rosmhvalaneshreppi og í Vatnsleysustrandarhreppi teljast 19 jarðir örugglega hafa verið byggðar á 13. öld. Alls er talið að sæmileg vitnesja sé um 54 býli á Suðurnesjum á 13. öld en í lok 16 aldar voru þau orðin 65 talsins.
Ályktað hefur verið að byggð hafi verið að þéttast hér á 12. og 13. öld með vaxandi hjáleigu– og kotbúskap og ennfremur hefur verið bent á að hjáleigur hafi flestar verið í fiskveiðihéruðunum sunnanlands og megi því tengja fjöldun þeirra viðleiti til að lifa af sjávarfangi.
Fram til þessa hafa fræðimenn flestir verið þeirrar skoðunar að útflutningur skreiðar frá Íslandi til Noregs hafi komist á um 1330 og valdið því að fleiri tóku að stunda sjósókn en áður hafði tíðkast.”
Framhaldið um sjálfsþurftarbúskapinn þekkja meðvitaðir. Minjar um hann er víða að finna, ef vel er að gáð…

Heimild:
-Reykjanesbær, Innri-Njarðvík, Kirkjugarður og Thorkellinsgarður – Breyting á deiliskipulagi. Húsakönnun 2020.

Innri-Njarðvík

Innri-Njarðvík – loftmynd 1954.

Njarðvík

Í Skýrslu Reykjanesbæjar um “Breytingu á deiliskipulagi í Innri-Njarðvík v/kirkjugarð og Thorkellinsgarð” árið 2020 má m.a. lesa eftirfarandi sögulegt ágrip Njarðvíkna sem og sögu Innri-Njarðvíkurkirkju.

Innri-Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.

Hítardalsbók segir: “Maríukirkja og hins [heilaga] Þorláks biskups í Njarðvík á eina kú, altarisklæði tvö, et cetera” Bókin gæti verið frá 1367 en líklegt er þó að kirkjan sé frá 13. öld í gömlum ritum er talað um KirkjuNjarðvík, sem ekki er óumdeilt að hafi verið notað um bæinn. Þegar á miðöldum eru Njarðvíkurjarðirnar tvær.
Kirkjueignir á Suðurnesjum komust í eigu konungs árið 1515 og voru í eigu konungs í 275 ár eða til ársins 1790. 17. Febrúar 1790 kaupa bræðurnir Ásbjörn og Egill Sveinbjarnarsynir kirkjujörðina Innri-Njarðvík ásamt hjáleigunum. Hákoti, Stapakoti, Tjarnarkoti, Móakoti og Hólmfastskoti.

Hólmfastskot

Tóftir Hólmfastskots.

Halldór Jónsson, hertekni, var hertekinn í Tyrkjaráninu í Grindavík 1627, en Halldór kom aftur til Íslands.
Sonur hans, Jón Halldórsson lögréttumaður, sat jörðina Innri Njarðvík frá 1666. Ásamt konu sinni Kristínu Jakobsdóttur. Jón fæddist að Járngerðarstöðum í Grindavík árið 1623 en dó í Innri Njarðvík 19. apríl 1694.
Jón Halldórsson barðist fyrir því að kirkja yrði reist í Innri Njarðvík. Brynjólfur biskup Sveinsson gaf leyfi þann 16. september 1670, með þeim skilmálum að Jón sæi til þess að allur tilkostnaður við embættið og þjónustu forsmáðist ekki á nokkurn hátt. Auk þess fékk Jón leyfi landfógeta Jóhanns Kleins til að byggja kirkjuhúsið, en Brynjólfur gaf leyfi til guðsþjónustugjörðar.

Njarðvík

Frá Innri-Njarðvík.

Jón lét byggja kirkju sem var vígð 13. nóvember 1670 af sr. Rafni Ólafssyni á Stað í Grindavík. Kirkjan fékk hálfkirkjurétt en Njarðvíkingar voru þó enn bundnir Kálfatjarnarkirkju og skyldaðir til að gjalda henni kirkjugjöld, urðu miklar rekistefnur út af þessu fyrirkomulagi.

Bolafótur

Bolafótur í Ytri-Njarðvík – bústaður Hallgríms Péturssonar.

Kálfatjarnarprestar þjónuðu kirkjunni til ársins 1700 er Jón biskup Vídalín, lét lögtaka að hálfkirkjan í Njarðvík væri orðin alkirkja og skyldi vera annexía frá Hvalsnesi.
Sama ætt hefur búið á gamla stórbýlinu Innri-Njarðvík í yfir 300 ár. Saga ættarinnar og Njarðvíkurkirkju er samofin þar sem bændurnir voru einnig kirkjuhaldarar. Síðasti fulltrúi ættarinnar var Jórunn Jónsdóttir (1884-1974). Hún bjó í húsinu Innri-Njarðvík frá upphafi sem var byggt árið 1906 ásamt eiginmanni sínum Helga Ásbjörnssyni (1867-1953) en þau giftust árið 1905.
Húsið og jörðin voru komin í eigu athafnamannsins Eggerts Jónssonar frá Nautabúi í Skagafirði fyrir dauða Helga. Afkomendur Eggerts ákváðu að gefa Njarðvíkurbæ húsið við lát Jórunnar og erfingjar hennar gáfu innbúið.

Njarðvík

Minnismerki um Jón Thorkellius í Innri-Njarðvík.

Merkir og þjóðkunnir menn eru af Innri-Njarðvíkur ættinni, nefna má, Jón Þorkelsson Thorkillius (1697-1759) kallaður faðir barnafræðslunnar á Íslandi og Sveinbjörn Egilsson (1791-1852), hann var fyrsti rektor Lærða skólans í Reykjavík.
Ari Jónsson lét byggja kirkjuna upp að nýju árið 1827, var það fyrsta altimbraða kirkjan.
Árið 1811 verður Njarðvíkurkirkja annexía frá Kálfatjarnarkirkju en áður hafði henni verið þjónað frá Hvalsnesi í um eina öld. 1815 var það staðfest með lögum að Njarðvíkurkirkja skyldi vera lögð til Útskála, en kirkjan var þó þjónað frá Kálfatjörn.
Ásbjörn Ólafsson hafði forgöngu um að byggja nýja timburkirkju um 1859.
Árið 1884 var ljóst að sú kirkja þarfnaðist verulegra viðgerða, í kjölfarið var ákveðið að byggja steinkirkju.

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz.

Magnús Magnússon kallaður múrari átti heima í Miðhúsum í Garði, hafði lært steinsmíði við gerð Alþingishússins árið 1880-1881, hann var sjómaður, fórst 1887, 45 ára gamall, Ekki er vitað hverjir trésmiðir voru en máli var Árni Pálsson, faðir Ástu málara.
Grjótið var sótt í heiðina fyrir ofan byggðalagið og niður í Kirkjuvík, var dregið á sleðum þegar klaki og snjór voru.

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.

Árið 1917 var Innri Njarðvíkurkirkja lögð niður, en sóknin lögð til Keflavíkur. Árið 1943 vannst loks sú barátta að endurvekja kirkjuna og var þegar hafist handa, var farið í miklar viðgerðir, til dæmis var nýr turn settur á kirkjuna samkvæmt teikningum Guðjóns Samúelssonar. Búnir voru til nýir gluggar, þeir steyptir o.fl
Kirkjan var endurvígð 24. september 1944 eftir miklar viðgerðir. Kirkjan fór í gegnum annað viðgerðartímabil sitt á árunum 1980-1990 undir umsjón Harðar Ágústssonar og Leifs Blumenstein.

Njarðvík

Stapakot, uppgert kotbýli frá fyrri tíð í Njarðvíkum og nútíma Víkingasafnið að baki.

Kirkjan er friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Heimild:
-Reykjanesbær, Innri-Njarðvík, Kirkjugarður og Thorkellinsgarður – Breyting á deiliskipulagi. Húsakönnun 2020.

Stóra-Krossskjól

Stóra-Krossskjól á Njarðvíkurheiði.

Njarðvíkursel

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um Innri-Njarðvík má lesa eftirfarandi um Seltjörn og nágrenni:

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel (Selið) sunnan Seljavatns (Seltjarnar).

“Jörð eða hverfi næst austan Ytri-Njarðvíkur. Upplýsingar gaf Finnbogi Guðmundsson í Tjarnarkoti og Guðmundur sonur hans.
Uppi í heiðinni upp af vegi, þegar farið er austanverðu, er þar í lægð gömul selstaða við lítið vatn, sem heitir Seljavatn. Þar í er hólmi með litlu kríu- og andavarpi. Norðanvert við vatnið er svonefndur Háibjalli eða Seltjarnarhjalli. Suður af tjörninni eru tættur, sem heita Sel. Þar suðvestur af eru Hraunslágar. Þær eru við austurenda Rauðamels, en það er melflæmi allmikið hér í hrauninu. Norðvestur af Seljavatni er allstór hóll með vörðu, sem heitir Selhóll.”

Njarðvíkursel

Stekkur norðan Njarðvíkursels sunnan Seljavatns (Seltjarnar).

Forvitnilegt er að sjá að tjörnin hafði áður heitið “Seljavatn”, þ.e. í fleirtölu, sem bendir til þess að fleiri en eitt sel hafi verið við vatnið. Eftir skoðun svæðisins staðfestist að örnefnið hafi verið réttnefni á sínum tíma.

Í “Fornleifaskráningu við Seltjörn í Reykjanesbæ vegna deiliskipulags” árið 2018 segir: “Í Sýslu- og sóknarlýsingu er tjörnin kölluð Seljavatn og að þar hafi verið sel frá Innri-Njarðvík. „Þessi selstaða, sem er í hrauninu upp frá Stapanum, er nú sökum peningafæðar aflögð.“

Seltjarnarhjallasel

Rjúpa á vörðunni ofan við Selstjarnarhjallasel.

Þetta er skrifað árið 1840. Þó ekki hafi fundist heimildir um að búið hafi verið að staðaldri í Seli, benda minjarnar til þess að á einhverjum tímapunkti hafi verið búskapur þar þó hann hafi ekki verið nægjanlega lengi til að lenda í heimildum. Alþekkt er að selstöður breyttust í hjáleigur og öfugt, hjáleigur breyttust í selstöður. Sel er mjög líklega dæmi um slíkt.”

Þá segir: “Sex fornleifar voru skráðar á deiliskipulagsreitnum. Vafalítið eru þetta fornleifar sem tengjast búskap eða nytjum í Seli þar sem skepnur voru hafðar og veiðar í Seltjörn mikilvægar”. Um er að ræða seltóftirnar, stekk, rétt og kofa, vörðu og götu.

Seltjarnarhjallasel

Seltjarnarhjallasel.

Seljabúskapur lagðist af á Reykjanesskaganum í lok 19. aldar. Tóftir “Njarðvíkursels” sunnan Seljavatns (Seltjarnar) hafa enn verið í vitund Njarðvíkurmanna um miðja 20. öld enda eru þær af kynslóð seinni tíma selja. Þegar fyrsti Grindavíkurvegurinn (vagnvegurinn) var lagður af Stapanum árið 1913 lá leiðin niður að vestanverðum Háabjalla, suður með austanverðri Seltjörn og áfram að Arnarseturshraunsbrúninni þar sem stefnan var tekin á Gíghæð. Vegavinnuflokkurinn var í fyrsta áfanga með tjaldbúðir við gatnamót Suðurnesjavegar og hins nýja Grindavíkurvegar. Í öðrum áfanga nýttu vegagerðarmenn sér til skjóls tóftir Njarðvíkursels árið 1914. Þeir hafa eflaust lagfært einhverjar af þeim húsum sem fyrir voru og jafnvel byggt ný. Minjar eftir vegagerðarmennina eru meðfram öllum Grindavíkurveginum, allt þar til þeir komu að endastöðinni niður við Norðurvör Járngerðarstaða 1918.

Seltjarnarhjallasel

Seltjarnarhjallasel – stekkur.

Við skoðun og leit að mögulegum minjum undir Seltjarnarhjalla (Háabjalla) komu í ljós selsleifar, s.s. stekkur og hringhlaðið hús auk annarra tófta. Á Bjallanum ofan við tóftirnar var fallin varða á klapparhól. Rjúpa hafði nýtt sér aðstöðuna. Skammt neðan hennar voru nánast jarðlægar leifar fjárborgar. Frá ofanverðu selinu mátti marka götu upp Njarðvíkurheiði áleiðis að Njarðvíkum. Ljóst er að þarna hefur fyrrum verið selstaða, að öllum líkindum mun eldri en sú fyrrnefnda, sennilega forveri hennar. Trjám hefur verið plantað í selstöðuna um nokkurt skeið. Þetta skógræktarsvæði undir Háabjalla (Seltjarnarhjalla) hefur nú verið nefnt “Sólbrekkur”.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Innri-Njarðvíkur. Ari Gíslason skráði.
-Fornleifaskráning við Seltjörn í Reykjanesbæ vegna deiliskipulags, 2018.

Seltjörn

Seltjörn (Seljavatn) og nágrenni.

Stúlknavarða
Á Njarðvíkurheiði er varða. Undir vörðunni eru klappaðir stafirnir AGH og að því er virðist ártalið 1773. Í Faxa árið 1955 segir svo um þessa vörðu:
“Steinninn í heiðinni”.

Stúlknavarða

Stúlknavarðan.

Kjartan Sæmundsson, Ásgarði í Njarðvíkum, hefir sent blaðinu nokkrar línur varðandi stein, sem er þar í heiðinni rétt fyrir ofan. Segir hann að á stein þennan séu grafnir stafirnir AGH 1773. – Sýnilega hafi verið grafið eitthvað meira á steininn en sé nú máð og illlæsilegt. Hann segir að steinn þessi sé kallaður Stúlkusteinn og fylgi honum sú saga, að þar hafi orðið úti ung stúlka, kaupmannsdóttir úr Keflavík, sem dag nokkurn í góðu veðri hafi farið á rjúpnaveiðar með föðrur sínum.

Stúlknavarða

Stúlknavarða.

Síðar um daginn hafi gert suðvestan fárviðri með snjókomu. Hafi stúlkan þá orðið viðskila við förður sinn og síðar fundist þarna undir steininum látin. Telur Kjartan líklegt, að þetta sé eina stúlkan, sem orðið hafi úti í snjóbyl frá Keflavík. Vill Kjartan að minningu þessarar stúlku sé viðhaldið með því að skýra letrið á steininum og í því sambandi óskar hann þess, að ef einhver kann gleggri skil á sögunni um Stúlkustein, t.d. hvað stúlkan hafi heitið og hversu gömul hún hafi verið, þegar hún varð úti, þá sé hann látinn vita, eða því sé komið á framfæri í Faxa. Einnig býðst hann til að sýna steininn, hverjum sem þess óska”.

Áletrunin, einkum bókstafirnir, sést enn vel á steininum, sem varðan stendur á. Þá sést varðan og vel frá Reykjanesbrautinni (sunnan vegarins). Þarna skammt frá til suðausturs er hlaðin tóft ofan við klapparhæð, ekki langt fyrir ofan rústir frá hernum, sem þarna standa enn.

Úr tímaritinu Faxa, 17. júní 1955, bls. 67 (Í flæðamálinu) – SG endurritaði 2002.

Stúlknavarða

Stúlknavarða.