Færslur

Njarðvíkursel

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um Innri-Njarðvík má lesa eftirfarandi um Seltjörn og nágrenni:

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel (Selið) sunnan Seljavatns (Seltjarnar).

“Jörð eða hverfi næst austan Ytri-Njarðvíkur. Upplýsingar gaf Finnbogi Guðmundsson í Tjarnarkoti og Guðmundur sonur hans.
Uppi í heiðinni upp af vegi, þegar farið er austanverðu, er þar í lægð gömul selstaða við lítið vatn, sem heitir Seljavatn. Þar í er hólmi með litlu kríu- og andavarpi. Norðanvert við vatnið er svonefndur Háibjalli eða Seltjarnarhjalli. Suður af tjörninni eru tættur, sem heita Sel. Þar suðvestur af eru Hraunslágar. Þær eru við austurenda Rauðamels, en það er melflæmi allmikið hér í hrauninu. Norðvestur af Seljavatni er allstór hóll með vörðu, sem heitir Selhóll.”

Njarðvíkursel

Stekkur norðan Njarðvíkursels sunnan Seljavatns (Seltjarnar).

Forvitnilegt er að sjá að tjörnin hafði áður heitið “Seljavatn”, þ.e. í fleirtölu, sem bendir til þess að fleiri en eitt sel hafi verið við vatnið. Eftir skoðun svæðisins staðfestist að örnefnið hafi verið réttnefni á sínum tíma.

Í “Fornleifaskráningu við Seltjörn í Reykjanesbæ vegna deiliskipulags” árið 2018 segir: “Í Sýslu- og sóknarlýsingu er tjörnin kölluð Seljavatn og að þar hafi verið sel frá Innri-Njarðvík. „Þessi selstaða, sem er í hrauninu upp frá Stapanum, er nú sökum peningafæðar aflögð.“

Seltjarnarhjallasel

Rjúpa á vörðunni ofan við Selstjarnarhjallasel.

Þetta er skrifað árið 1840. Þó ekki hafi fundist heimildir um að búið hafi verið að staðaldri í Seli, benda minjarnar til þess að á einhverjum tímapunkti hafi verið búskapur þar þó hann hafi ekki verið nægjanlega lengi til að lenda í heimildum. Alþekkt er að selstöður breyttust í hjáleigur og öfugt, hjáleigur breyttust í selstöður. Sel er mjög líklega dæmi um slíkt.”

Þá segir: “Sex fornleifar voru skráðar á deiliskipulagsreitnum. Vafalítið eru þetta fornleifar sem tengjast búskap eða nytjum í Seli þar sem skepnur voru hafðar og veiðar í Seltjörn mikilvægar”. Um er að ræða seltóftirnar, stekk, rétt og kofa, vörðu og götu.

Seltjarnarhjallasel

Seltjarnarhjallasel.

Seljabúskapur lagðist af á Reykjanesskaganum í lok 19. aldar. Tóftir “Njarðvíkursels” sunnan Seljavatns (Seltjarnar) hafa enn verið í vitund Njarðvíkurmanna um miðja 20. öld enda eru þær af kynslóð seinni tíma selja. Þegar fyrsti Grindavíkurvegurinn (vagnvegurinn) var lagður af Stapanum árið 1913 lá leiðin niður að vestanverðum Háabjalla, suður með austanverðri Seltjörn og áfram að Arnarseturshraunsbrúninni þar sem stefnan var tekin á Gíghæð. Vegavinnuflokkurinn var í fyrsta áfanga með tjaldbúðir við gatnamót Suðurnesjavegar og hins nýja Grindavíkurvegar. Í öðrum áfanga nýttu vegagerðarmenn sér til skjóls tóftir Njarðvíkursels árið 1914. Þeir hafa eflaust lagfært einhverjar af þeim húsum sem fyrir voru og jafnvel byggt ný. Minjar eftir vegagerðarmennina eru meðfram öllum Grindavíkurveginum, allt þar til þeir komu að endastöðinni niður við Norðurvör Járngerðarstaða 1918.

Seltjarnarhjallasel

Seltjarnarhjallasel – stekkur.

Við skoðun og leit að mögulegum minjum undir Seltjarnarhjalla (Háabjalla) komu í ljós selsleifar, s.s. stekkur og hringhlaðið hús auk annarra tófta. Á Bjallanum ofan við tóftirnar var fallin varða á klapparhól. Rjúpa hafði nýtt sér aðstöðuna. Skammt neðan hennar voru nánast jarðlægar leifar fjárborgar. Frá ofanverðu selinu mátti marka götu upp Njarðvíkurheiði áleiðis að Njarðvíkum. Ljóst er að þarna hefur fyrrum verið selstaða, að öllum líkindum mun eldri en sú fyrrnefnda, sennilega forveri hennar. Trjám hefur verið plantað í selstöðuna um nokkurt skeið. Þetta skógræktarsvæði undir Háabjalla (Seltjarnarhjalla) hefur nú verið nefnt “Sólbrekkur”.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Innri-Njarðvíkur. Ari Gíslason skráði.
-Fornleifaskráning við Seltjörn í Reykjanesbæ vegna deiliskipulags, 2018.

Seltjörn

Seltjörn (Seljavatn) og nágrenni.

Stúlknavarða
Á Njarðvíkurheiði er varða. Undir vörðunni eru klappaðir stafirnir AGH og að því er virðist ártalið 1773. Í Faxa árið 1955 segir svo um þessa vörðu:
“Steinninn í heiðinni”.

Stúlknavarða

Stúlknavarðan.

Kjartan Sæmundsson, Ásgarði í Njarðvíkum, hefir sent blaðinu nokkrar línur varðandi stein, sem er þar í heiðinni rétt fyrir ofan. Segir hann að á stein þennan séu grafnir stafirnir AGH 1773. – Sýnilega hafi verið grafið eitthvað meira á steininn en sé nú máð og illlæsilegt. Hann segir að steinn þessi sé kallaður Stúlkusteinn og fylgi honum sú saga, að þar hafi orðið úti ung stúlka, kaupmannsdóttir úr Keflavík, sem dag nokkurn í góðu veðri hafi farið á rjúpnaveiðar með föðrur sínum.

Stúlknavarða

Stúlknavarða.

Síðar um daginn hafi gert suðvestan fárviðri með snjókomu. Hafi stúlkan þá orðið viðskila við förður sinn og síðar fundist þarna undir steininum látin. Telur Kjartan líklegt, að þetta sé eina stúlkan, sem orðið hafi úti í snjóbyl frá Keflavík. Vill Kjartan að minningu þessarar stúlku sé viðhaldið með því að skýra letrið á steininum og í því sambandi óskar hann þess, að ef einhver kann gleggri skil á sögunni um Stúlkustein, t.d. hvað stúlkan hafi heitið og hversu gömul hún hafi verið, þegar hún varð úti, þá sé hann látinn vita, eða því sé komið á framfæri í Faxa. Einnig býðst hann til að sýna steininn, hverjum sem þess óska”.

Áletrunin, einkum bókstafirnir, sést enn vel á steininum, sem varðan stendur á. Þá sést varðan og vel frá Reykjanesbrautinni (sunnan vegarins). Þarna skammt frá til suðausturs er hlaðin tóft ofan við klapparhæð, ekki langt fyrir ofan rústir frá hernum, sem þarna standa enn.

Úr tímaritinu Faxa, 17. júní 1955, bls. 67 (Í flæðamálinu) – SG endurritaði 2002.

Stúlknavarða

Stúlknavarða.

Andrews

Á RÚV 3. maí 2023 var eftirfarandi umfjöllun um “Flugslys á Fagradalsfjalli sem breytti rás viðburða” í tilefni af því að áttatíu ár voru frá því bandarísk sprengjuflugvél fórst á Fagradalsfjalli skammt frá Grindavík.

Andrews

Minnismerkið á Stapanum um áhafnameðlimi Hot Stuff er fórst í Kastinu á Fagradalsfjalli 3. maí 1943.

Fimmtán voru um borð en aðeins einn komst lífs af. Tilefnið var auk þess tilfærsla á minnismerkinu um atburðinn, en því hafði áður verið komið fyrir austan Grindavíkurvegarins miðja vegu milli Stapans og Grindavíkur. Áhrif tæringar frá nálægri Svartsengisvirkjuninni varð til þess að ástæða var að færa minnismerkið upp á ofanverðan Stapa norðan gatnamóta Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar. Þaðan er ágætt útsýni (í góðu skyggni) yfir að slysstaðnum í kastinu í vestanverðu Fagradalsfjalli. Gerður hefur verið göngustígur ofan í endurgerðan gamla Grindavíkurveginn frá hringtorgi ofan gatnamótanna.

“Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var viðstaddur minningarathöfnina á Stapa í dag.
Hershöfðingjar í Bandaríkjaher, sendiherra og forseti Íslands minntust í dag fjórtán bandarískra hermanna sem fórust í flugslysi á Fagradalsfjalli fyrir áttatíu árum.

Andrews

Frá minningarathöfninni við minnismerkið á Stapanum 3. maí 2023.

Fimm ár eru frá því minnisvarði um flugslysið 3. maí 1943 var reistur en nú verið færður að Stapa við Reykjanesbraut. Fimmtán voru um borð í sprengjuflugvélinni Hot Stuff þegar hún brotlenti á Fagradalsfjalli og komst aðeins einn lífs af. Um borð voru bandarískir hermenn og Frank Maxwell Andrews hershöfðingi.
Minningarathöfnin í dag var einkar hátíðleg þótt bæði væri hvasst og kalt. Mannanna fjórtán var minnst með ræðum, blómsveigar lagðir og þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir auk flugvélar frá Bandaríkjaher.

Andrews

Frá minningarthöfninni á Stapanum.

„Mér finnst það heiður að vera fulltrúi Andrews-herstöðvarinnar sem dregur nafn sitt af Andrews hershöfðingja, og fara fyrir flughermönnum frá herstöðinni við þessa athöfn,“ segir Todd Randolph, yfirmaður Andews-herstöðvarinnar í Bandaríkjunum.
Carrin Patman, sendiherra Bandaríkjanna, segir mikilvægt að minnast þeirra sem fórust. Þeir hafi barist fyrir lýðræðingu.

„Já, mjög svo og enn frekar núa þegar Ísland og Bandaríkin standa aftur saman í andófinu gegn innrás Rússa í Úkraínu,“ segir Patman.

Andrews

Annað upplýsingaskilti af tveimur við minnismerkið. 

Þegar slysið varð hafði enginn jafn háttsettur embættismaður og Andrews hershöfðingi fallið í stríðinu úr röðum bandamanna.
„Rás viðburða hefði orðið önnur hefði það ekki gerst. Hann hefði farið fyrir liði bandamanna sem réðist inn í Normandí í júní 1944. En í stað hans tók Eisenhower við keflinu,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Andrews

Á öðru skiltinu er m.a. lýst 12 flugslysum er urðu á nálægum slóðum á stríðsárunum.

„Hann var þá háttsettur yfirmaður í flughernum á þeim tíma og frumkvöðull í því sem nefnt er Flugher Bandaríkjanna nú. Hann er einn helsti höfundurinn að aðskilnaði herjanna, landher frá flugher til að yfirráðum í lofti sem hernaðaraðferð,“ segir Randolph.

Andrews

Tíu áhafnameðlimir Hot-Stuff er fórust í Kastinu 1943.

Fagradalsfjall sést vel frá minnisvarðanum á Stapa. Frumkvæðið að því að setja upp minnisvarðann eiga tveir bræður [Þorsteinn og Ólafur Marteinssynir] og sem hafa mikinn áhuga á sögunni og halda úti vefsíðu með korti af flugslysum.

„Þeir höfðu reynt lendingu í Keflavík en vegna veðurs fundu þeir ekki völlinn. Við erum að horfa hérna á Fagradalsfjall sem flestir kannast við eftir að það gaus. En hérna vestast, þar sem er smá hækkun [Kastið], það var þar sem vélin rakst á fjallið,“ segir Þorsteinn Marteinsson, áhugamaður um sögu flugslysa.

Á tveimur upplýsingaskiltum við minnismerkið má m.a. lesa eftirfarandi:
B-24 Liberator-sprengjuflugvélin Hot Stuff – Sigurganga og örlagarík endalok
“Bandaríska B-24 sprengjuflugvélin Hot Stuff og áhöfn hennar var fyrsta flugvél 8. flughersins sem lauk 25 árásarferðum frá Bretlandi yfir meginland Evrópu í heimsstyrjöldinni síðari.

Andrews

Áhöfn Hot Stuff.

Yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Evrópu, Frank M. Andrews, hafði verið boðaður til skrafs og ráðagerða í Washington, óskaði eftir því við vin sinn Ted Timberlake ofursta, yfirmann 93. sprenguflugdeildar, að fá far með Robert “Shine” Shannon höfuðsmanni og áhöfn hans á Hot Stuff, en Andrews var einnig kunnugur Shannon. Hershöfðinginn var reyndur flugmaður og skyldi vera aðstoðarflugmaður í ferðinni.
Rétt fyrir brottför kom í ljós að með Andrews í för voru átta aðrir farþegar, nánustu starfsmenn hershöfðingjans, biskup Meþódistakirkjunnar sem fór fyrir prestadeild Bandaríkjahers og tveir herprestar. Sprenguflugvélin rúmaði ekki svo marga farþega og urðu því fimm úr áhöfninni eftir og biðu annarrar ferðar.

Andrews

Robert “Shine” Shannon.

Hot Stuff lagði upp frá Bovington flugvelli í Englandi að morgin 3. maí og skyldi hafa viðkomu í Prestwick í Scotlandi og Reykjavík á leiðinni vestur um haf. Veður var gott í fyrstu en fór versnandi þegar kom upp að suðurströnd landsins með dimmviðri og rigningu. Flugvélin sást hringsóla yfir breska herflugvellinum í Kaldaðarnesi en hélt áfram förinni lágt vestur með strönd Reykjaness. Ólendandi var í Reykjavík og þegar ekki tókst að finna Keflavíkurflugvöll sökum dimmviðris var ákveðið að halda aftur til Kaldaðarness. Lágskýjað var og hvass vindur með slagviðri. Bar flugvélina af leið og hafnaði hún á brún Fagradalsfjalls og sundraðist.

AndrewsVið slysið fórust allir um borð nema stélskyttan, George Eisel liðþjálfi, sem slapp lítt meiddur en lá klemmdur í byssuturninum. Bjóst hann við dauða sínum í brennandi flakinu, en byssukúlur sprungu um allt í eldinum. Slagviðrið vann þó um síðir á bálinu og barst Eisel hjálp þegar leitarflokkar fundu flakið tæpum sólarhring eftir slysið”.

Frank Maxwell Andrews – yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Evrópu – 3. feb. 1884-3. maí 1943
Andrews“Frank M. Andrews hershöfðingi fæddist 3. febrúar 1884 í Nashville í Tennssee. Hann hóf nám í háskóla Bandaríkjahers í West Point árið 1902 og brautskráðist árið 1906. Hann starfaði í flugdeild Bandaríkjahers í fyrri heimsstyrjöldinni og árið 1935 valdi Douglas Mac Arthur yfirhershöfðingi hann til þess að gegna starfi yfirmanns nýrrar aðgerðardeildar flughersins.
Andrew var ötull talsmaður þess að bandaríski flugherinn yrði gerður að sjálfstæðri liðsheild og er honum jafnan eignaður heiðurinn að því að sú skipan komst á árið 1947.
Andrews var einnig ákafur hvatamaður að smíði stórra sprengjuflugvéla og eggjaði stjórnvöld til kaupa á fjölda nýrra sprengjuflugvéla af gerðinni B-17 “Fljúgandi virki” en hlaut ekki stuðning yfirstjórnar hersins. Framsýni hans sannaðist þó þegar Bandaríkin drógust inn í síðari heimsstyrjöldina og stjórnvöld létu smíða B-17 og B-24 Liberator sprenguflugvélar í stórum stíl.

Andrews

Hot Stuff.

Andrews var hækkaður í tign árið 1941 og var falin yfirstjórn bandarískra herja við Karibahaf sem önnuðust varnir aðkomuleiða til Bandaríkjanna úr suðri, þ.á.m. um Panamaskurð. Eftir innrás bandamanna í Norður-Afríku haustið 1942 var honum falin stjórn alls herafla Bandaríkjanna við sunnanvert Miðjarðarhaf sem átti þátt í að vinna sigur á Afríkuher þýska hershöfðingans Erwins Rommels.

Andrews

Einkennismerking Hot Stuff.

Í febrúar 1943 var Andrew skipaður yfirmaður herja Bandaríkjanna í Evrópu með aðsetur í Bretlandi og 3. maí sama ár valdi bandaríska yfirherráðið hann til þess að stjóra sameinuðum herafla bandamanna sem undirbúa skyldi innrás á meginland Evrópu. Andrew fékk þó aldrei boðin um þess merku hækkun í tign því hann fórst sama dag þegar Liberator flugvél hans, sem gekk undir nafninu “Hot Stuff” og flytja átti hann til Bandaríkjanna, fórst á Fagardalsfjalli á Reykjanesi.

Andrews

Slysstaðurinn í Kastinu. Þaðan hefur nú, á áttatíu ára tímabili, verið hirt nánast allt er gefur slysstaðnum gildi.

Flugvélin hafði horfið frá lendingu í Keflavík vegna veðurs og var á leið til flugbækistöðvar breska flughersins í Kaldaðarnesi. Við lát Andrews hershöfðingja tók Dwight D. Eisenhower, síðar Bandaríkjaforseti, við stjórn Evrópuherstjórnarinnar en hann hafði áður gegnt starfinu árið 1942.
Andrews hershöfðingi og þrettán samferðarmenn hans voru grafnir með mikilli viðhöfn í Fossvogskirkjugarði 8. maí 1943. Líkamsleifar þeirra voru flutta heim til Bandaríkjanna árið 1947 og var Andrews lagður til hinstu hvílu í þjóðargrafreit Bandaríkjanna í Arlingtonkirkjugarði í útjarðri Washingtonborgar”.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur

Georg C. Bonesteel, hershöfðingi og yfirmaður Bandaríkjahers á Íslandi opnaði Keflavíkurflugvöll (Meeks) formlega 24. mars 1943.

“Upphaflega var flugvöllurinn lagður af Bandaríkjaher í Seinni-Heimsstyrjöldinni og tekin formlega í notkun 23. mars 1943. Banndaríkjamenn nefndu hann “Meeks Field” í höfuðið á ungum flugmanni, George Meeks að nafni, sem fórst á Reykjavíkurflugvelli og var fyrsti Bandaríkjamaðurinn sem lést á Íslandi í styrjöldinni. Að styrjöldinni lokinni var flugvöllurinn og bækistöðin, sem við hann stóð, afhentur Íslendingum til eignar og var hann þá nefndur Keflavíkurflugvöllur eftir stærstu nágrannabyggð hans, Keflavík.

Andrews

Leiði Andrews og félaga í Fossvogskirkjugarði.

Flugvellirnir við Keflavík voru reyndar tveir, Meeks og Pattersonflugvöllur ofan Njarðvíkurfitja, sem þjónaði orrustuflugsveit Bandaríkjahers til stríðsloka. pattersonflugvöllur var ekki notaður eftir stríðslok. Keflavíkurflugvöllur var rekinn af bandarísku verktakafyrirtæki til ársins 1951, er Bandaríkjaher kom aftur til landsins samkvæmt varnnarsamningi Íslands og Bandaríkjana sem gerður var að tilstuðlan Norður-Atlantashafsbandalagsins, NATO.

Andrews

Grafsteinn Andrews í Arlingtonkirkjugarði.

Bandaríkjaher (varnarliðið á Íslandi) reisti bækistöð sína við Keflavíkurflugvöll. Þar var afgirtur bær sem hýsti allt að 5700 hermenn, starfsfólk og fjölskyldur þeirra allt til ársins 2006 þegar herstöðin var lögð niður. Í dag her herstöðin hverfi í Reykjanesbæ og gengur undir nafninu Ásbrú”.

Konunglegur flugvöllur í Bretlandi var nefndur eftir Frank M. Andrews, Andrews Field, í Essex, England. Þetta var fyrsti flugvöllurinn, sem verkfræðideild bandaríska hersins endurbyggði þar í landi.

Andrews

Andrews Theater á Keflavíkurflugvelli.

Þetta var 1943, skömmu eftir slysið í Kastinu. Hann var þekktur fyrir að vera fyrsti endurgerði flugvöllurinn í Bretlandin 1943, hét áður RAF Station Great Saling, á heimsstyrjaldarárunum síðari. Flugvöllurinn var notaður af  USAAF 96th sprengjuflugdeildinni og 322nd sprengjusveitinni á stríðsárunum sem og  nokkrum RAF deildum áður en honum var lokað 1946. Í dag er þarna lítill einkaflugvöllur.

Andrews breiðstræti, vegur er liggur að alþjóðaflugvellinu Filippseyja, Ninoy Aquino International Airport Terminal 3, var nefndur eftir honum. Þá var “Andrews Theater” á Keflavíkurflugvelli einnig nefnt eftir Frank í minningu hans.

Sjá meira um minnisvarðan HÉR.

Heimildir m.a.:
-https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-05-03-flugslys-a-fagradalsfjalli-breytti-ras-vidburda
-RÚV, Flugslys á Fagradalsfjalli breytti rás viðburða – Áttatíu ár eru frá því bandarísk sprengjuflugvél fórst á Fagradalsfjalli skammt frá Grindavík. Fimmtán voru um borð en aðeins einn komst lífs af, Kristín Sigurðardóttir, 3. maí 2023.
-Minnismerki ofan Stapa um Andrews og félaga.
–https://en.wikipedia.org/wiki/Frank_Maxwell_Andrews

Andrews

Afsteypa af Hot Stuff, Liberator-24, á minnisvarðanum.

Rockville

Í Víkurfréttum árið 2020 var umfjöllun um “Rockville á Miðnesheiði“:

Rockville

Rockville.

“Ratsjárstöð Varnarliðsins í Rockville á Miðnesheiði var byggð árið 1953. Hún var starfrækt til ársins 1997, þegar henni var lokað og ný stöð opnuð skammt frá (M-1). Það eru því tuttugu ár um þessar mundir frá lokun stöðvarinnar. Í dag er fátt sem minnir á tilvist ratsjárstöðvarinnar. Fáein grenitré vekja athygli þegar horft er til svæðisins úr fjarska, tré sem uxu í skjóli húsa sem síðar voru rifin en um áratugur er síðan Rockville var jafnað við jörðu.

Þegar Rockville var og hét voru þar um tuttugu hermannaskálar, mötuneyti, pósthús og íþróttahús. Á staðnum voru einnig áberandi tröllvaxnar hvítar kúlur. Inni í þeim voru ratsjár sem höfðu það hlutverk að fylgjast með flugumferð og þá helst véla frá Sovétríkjunum.

Íslendingar sóttu í klúbbana

Rockville

Rockville.

Í Rockville var einnig bar eða klúbbur sem naut mikilla vinsælda. Íslendingar sóttu m.a. klúbbinn í Rockville mjög stíft. Í Víkurfréttum árið 1996 var greint frá því í nóvember að Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli, sem var sérstakt lögregluembætti, hafi stöðvað stóran hóp Íslendinga sem voru á leið á skemmtun í klúbbi Varnarliðsins í Rockville. Hluti hópsins var kominn inn á klúbbinn og fóru lögreglumenn inn á staðinn og vísuðu fólkinu út. Nálægt eitthundrað manns voru á gestalista og ætluðu á staðinn en fengu ekki inngöngu.

Rockville

Rockville.

Þorgeir Þorsteinsson, þáverandi sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, sagði í samtali við Víkurféttir á þeim tíma að þetta næði ekki nokkurri átt. Klúbbar varnarliðsins væru fyrst og fremst fyrir varnarliðsmenn og gesti þeirra og að það gengi ekki að stórir hópar Íslendinga væru að sækja varnarliðsklúbba. Helst áttu lögregluyfirvöld erfitt með að hafna Íslendingum inngöngu sem boðið var í klúbbana í varnarstöðinni í gegnum alþjóðleg félög eins og Lions og Kiwanis en þessir klúbbar voru starfandi á Keflavíkurflugvelli. Þorgeir sagði fulla ástæðu til að taka í taumana gagnvart Rockville-klúbbunum en þar höfðu nokkrar „íslenskar“ skemmtanir farið fram þá um haustið. Jafnvel kom til greina að loka alveg á heimsóknir Íslendinga í Rockville.

Veitingamenn fundu fyrir Íslendingaveislum
RockvilleVeitingamenn á Suðurnesjum fundu mikið fyrir Íslendingaveislunum í klúbbum kanans. Það væri erfitt að keppa við klúbbana á Vellinum og í Rockville en margfalt lægra vín- og bjórverð var sögð ástæða þess að Íslendingar sóttust eftir því að komast í klúbbana.

Ári eftir að Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli vísaði Íslendingunum út úr klúbbnum í Rockville var stöðinni lokað og starfsemin flutt. Þá varð Rockville að draugabæ um nokkurt skeið eða þar til Byrgið gerði samning við utanríkisráðuneytið um afnot af húsakosti í Rockville fyrir meðferðarstöð. Byrgið var með starfsemi í Rockville í nokkur misseri eða þar til í júní 2003 að þeim var gert að yfirgefa staðinn. Byrgið flutti í uppsveitir Árnessýslu, Rockville varð aftur draugabær og nokkrar byggingar urðu eldi að bráð. Byggingar þar höfðu svo vart verið rifnar þegar tilkynnt var um brottför Varnarliðsins frá Íslandi.

Fátt sem minnir á gamla tíð

Rockville

Rockville 1957.

Eins og áður segir þá er það trjágróður á svæðinu sem er það eina sem minnir á gömlu ratsjárstöðina þegar horft er til svæðisins úr fjarska. Þegar nær er komið þá má ennþá upplifa malbikaðar götur og sökkla þeirra bygginga sem þarna stóðu.”

Í Víkurfréttum 1996 er umfjöllun undir fyrirsögninni “Fyrirhuguð Íslendingaskemmtun í Rockville-klúbbi varnarliðsins – Sýslumaðurinn sendi hundrað manna hóp heim”:

“Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli stöðvaði stóran hóp í Rockville sl. laugardagskvöld. Hluti fólksins var kominn inn á staðinn og fóru lögreglumenn þar inn og vísuðu fólkinu út. Nálægt eitt hundrað manns sem voru á lista og ætluðu á staðinn fengu ekki inngöngu.

Rockville

Rockville 2022.

„Klúbbar varnarliðsins eru fyrst og fremst fyrir varnarliðsmenn og gesti þeirra,“ sagði Þorgeir Þorsteinsson, sýslumaður, og sagði að það gengi ekki að stórir hópar íslendinga væru að sækja varnarliðsklúbba. Þorgeir sagði fulla ástæðu til að taka í taumana gagnvart Rockville-klúbbnum en þar hafa nokkrar „íslenskar“ skemmtanir farið fram að undanförnu. Jafnvel kæmi til greina að loka alveg fyrir það að Íslendingar færu í Rockville. Hann sagðist ekki þekkja nóg hvað hafi farið fram í Yfirmannaklúbbnum en eftirlit með skemmtanahaldi á vellinum yrði hert.

Rockville

Rockville.

Keilumenn og þeir sem stunda pílukast á Suðurnesjum fara mikið upp á Keflavíkurflugvöll til að stunda íþróttir sínar. Að sögn eins forráðamanna Keilufélags Suðumesja stendur þetta starfsemi eina keilusalarins á Suðurnesjum fyrir þrifum en talið er að um 30% af allri keiluspilamennsku fari fram á vellinum.”

Í Víkurfréttum 1998 var eftirfarandi umfjöllun um ratsjástöðina Rockville undir fyrirsögninni “Örlögin óráðin“:

Rockville

Rockville – sendimastur.

“Ratsjárstöð Varnarliðsins í Rockville á Miðnesheiði hefur verið lokað. Mannvirki á svæðinu standa auð. Tækja- og húsbúnaður hefur verið fjarlægður en húsakostur bíður örlaga sinna – sem eru óráðin.

Réttnefni
Vamarliðið reisti fjórar ratstjárstöðvar til eftirlits með flugumferð og til loftvama hér á landi á sjötta áratugnum. Fyrstu ratsjárstöðinni var
valinn staður í heiðinni ofan við Sandgerði og nefnd Rockville, sem þótti réttnefni í hrjóstugum berangrinum á þessum stað.

1953-1997

Rockville

Rockville – sendimatur.

Byggingar stöðvarinnar voru reistar af verktakafyrirtækinu Sameinuðum verktökum og var hún tekin í noktun í lok októbermánaðar 1953. Hinar þrjár stöðvamar risu síðan á Heiðarfjalli á Langanesi, Stokksnesi við Hornafjörð og á Straumnesfjalli.
Tækni þess tíma leyfði ekki sjálfvirka tengingu stöðvanna og því dvöldu rúmlega 100 liðsmenn bandanska flughersins á hverjum stað og önnuðust eftirlit með umferð flugvéla og stýrðu orrustuþotum varnarliðsins í veg fyrir óþekktar flugvélar til könnunar hver á sínu svæði.

Stöðvum lokað

Rockville

Rockville – ratsjárstöðin.

Liðsmenn 932. loftvamasveitar bandaríska flughersins starfræktu ratsjárstöðina í Rockville frá upphafi og samræmdu auk þess aðgerðir ratsjárkerfisins í heild. Starfsmenn þar voru því í við fleiri en á hinum stöðvunum og bjuggu þeir í íbúðaskálum á staðnum og á Keflavíkurflugvelli.
Tveimur ratsjárstöðvanna var lokað haustið 1960. Það voru stöðvamar á Stokksnesi og Straumnesfjalli. Ástæðan var mikill kostnaður og erfileikar við reksturinn, enda engar sovéskar flugvélar farnar að fljúga í námunda við landið. Þessi í stað var ratsjárbúnaður stöðvanna í Rockwille og á Heiðarfjalli endurbættur. Starfrækslu stöðvarinnar á Heiðarfjalli var hætt í janúar árið eftir er búnaður hennar skemmdist í óveðri. Var sú starfsemi umsvifalaust flutt að Stokksnesi, þar sem rekin hefur verið ratsjárstöð síðan.

Í veg fyrir Sovét

Rockville

Rockville – varðskúr.

Langdrægar ratsjárflugvélar bandaríska flotans og síðar flughersins, með aðsetur á Keflavíkurflugvelli, önnuðust ratsjáreftirlit úr lofti umhverfis landið um langt árabil. Reglubundið flug af þessu tagi hófst árið 1961 eða skömmu eftir að ratsjárstöðvunum á norðanverðu
landinu var lokað og skömmu áður en iangdrægar sprengju- og könnunarflugvélar Sovétríkjanna hófu að leggja leið sína út á Atlantshafið. Flugvélar þessar gerðu ekki boð á undan sér líkt og flugvélar í reglubundnu millilandaflugi og jókst umferð þeimt stöðugt næsta aldarfjórðunginn og náði hámarki um miðjan níunda áratuginn.

Endurnýjun búnaðar

Rockville

Rockville.

Árið 1981 tóku Atlantshafsbandagið og bandaríski flugherinn, sem rak ratsjárstöðvar Vamarliðsins, höndum saman um að endurbæta loftvamakerfið á Íslandi og tók ný stjómstöð loftvarna til starfa í Rockville árið 1988. Annað skrefið í endurnýjun loftvamakerfisins var
síðan stigið með smíði fjögurra nýrra ratsjárstöðva og ratsjármiðstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Ratsjármiðstöðin tók að fullu til starfa 2. október 1997 og var þá starfsemi í Rockville hætt. Það skal þó tekið fram að starfsemi fjarskiptamiðstöðvar norðan við núverandi húsakost Rockville verður áfarm starfrækt.

Hvað verður um Rockville?

Rockville

Rockville.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvað verður um húsakost þann sem áður hýsti liðsmenn 932. loftvarnasveitar Bandaríkjahers.
Nokkrir aðilar hafa sýnt svæðinu áhuga. Stríðsminjasafn hefur verið nefnt, meðferðarstofnun eða jafnvel fangelsi. Það er þó ljóst að
það mun kosta mikla fjármuni að endumýja húsakost á svæðinu. T.a.m. þarf að skipta um allar raflagnir, þar sem 110 volta straumur er á svæðinu. Einnig hafa verið nefndar aðrar lausnir á því hvemig nýta megi svæðið án þess að það þurfi að kosta miklu til. Þarna er kjörinn vettvangur fyrir lögreglu, slökkvilið og björgunarfólk að hafa æfingaaðstöðu og einnig hefur heyrst af aðila sem vilji setja þama upp stríðsleikjagarð. Endalokin verða þó örugglega þau að þama verður haldin heræfing með það að markmiði að fjarlægja öll mannvirki af svæðinu svo eftir standi hrjóstugur berangurinn.”

RockvilleÍ Víkurfréttum 2005 er fjallað um “Síðustu daga Rockville“:
“Eitt helsta kennileiti Suðurnesja hverfur innan tíðar. Rockville, húsin með hvítu kúlunum eins og einhver myndi orða það, verður rifið í ár
en þessi staður á sér langa og á tíðum skemmti lega sögu.

Það var í október 1953 sem 932. ratsjársveit bandaríska flughersins kom sér fyrir í nýbyggðri ratsjársstöð sem nefnd var Rockville. Stöðin, sem byggð var af varnarliðinu á Íslandi, eins og það var kallað, var ein af fjórum stöðvum sem byggðar voru. Ein var á Stokksnesi, önnur á Langanesi og sú þriðja á Straumnessfjalli en Rockville var samt sem áður miðstöð loftvarna á Íslandi.
Rockville var með sitt eigið orkuver og var stöðin þess vegna sjálfbær hvað varðar rafmagn. Á svæðinu voru u.þ.b. 20 hermannaskálar, matsalur, pósthús, íþróttasalur, bar, verslanir, bíósalur og kapella.

Vökul augu á Miðnesheiði

Rockville

Rockville.

Rockville gegndi mikilvægu hlutverki í kalda stríðinu en þá fylgdust liðsmenn ratsjársveitarinnar reglulega með ferðum sovéskra herflugvéla hér við land og beindu orrustuflugvélum varnarliðsins í veg fyrir þær til eftirlits.
Árið 1961 urðu breytingar á starfsemi varnarliðsins í kjölfar þess að sjóherinn tók yfir starfsemi hersins á Keflavíkurflugvelli en þar hafði flugherinn ráðið ríkjum. Ratsjársveitin hélt þó áfram venjubundinni starfsemi í Rockville.
Ný ratsjárstöð var tekin í notkun á Miðnesheiði í nóvember árið 1992 en í kjölfarið minnkaði starfsemin í Rockville og færðist hún hægt og rólega upp á Keflavíkurflugvöll þar sem þeirra biðu ný húsakynni.

Rockville

Rockville.

Starfsmenn sem sváfu á vistinni í Rockville hófu að flytja sig á brott árið 1996 og var húsakynnum og starfsemi hætt jafnt og þétt það ár. Ekki fóru þó allir því starfsmenn tölvuviðhalds hjá ratsjársveitinni sátu vaktir í Rockville ef eitthvað af þeim búnaði sem þar var þyrfti að nýta. Aðrir í deildinni hófu að flytja burt tæki og hús gögn. Íslenskir verktakar fluttu ýmis fjarskiptatæki fyrir Bandaríkjaher á þeim tíma og kláruðust þeir flutningar í janúar 1998. Þá höfðu allir í 932. ratsjársveit bandaríska flughersins yfirgefið Rockville sem breyttist, eftir 44 ára starfsemi, í draugabæ.

Vopnin og Biblían
RockvilleFljótlega eftir að herinn hafði yfirgefið Rockville voru nokkrir sem sýndu svæðinu áhuga en þar á meðal voru forsvarsmenn meðferðarstöðvarinnar Byrgisins. Einu ári síðar eða árið 1999, eftir viðræður forsvarsmanna Byrgisins og Utanríkisráðuneytisins, voru undirritaðir samningar um afnot Byrgisins af mannvirkjum í Rockville. Þessi fyrrum ratsjárstöð Bandaríkjahers var orðin að heimili kristilegs líknarfélags. Þar sem áður fyrr voru hermenn með vopn voru nú áfengis- og fíkniefnaneytendur með biblíu.
En hvernig var reynsla þeirra sem þar dvöldu en báru ekki fána Bandaríkjanna?

„Rockville bjargaði lífi mínu”

Rockville

Þjóðviljinn 22.06.1989.

Magnús Svavar Emilsson var einn af þeim sem leit á Rockville sem heimili sitt. Víkurfréttir tóku viðtal við hann árið 2002 en þá var hann yfirmatsveinn Byrgisins. Magnús hefur barist við áfengisdjöfulinn meirihlutann af lífsleið sinni en hann er 52 ára í dag. Víkurfréttir höfðu samband við Magnús á dögunum en hann hefur sagt skilið við áfengið fyrir fullt og allt.
„Rockville bjarg aði lífi mínu og þetta var líka besti staðurinn sem ég hef verið á,” sagði Magnús. „Það var erfitt að yfirgefa Rockville sérstaklega þar sem að við unnum svo mikið sjálfir að breytingum og lagfæringum.”
Magnús sagðist ekki hafa orðið var við hermenn á meðan að hann var í Rockville: „Þeir létu okkur alveg í friði og í raun og veru var allt látið í friði í Rockville á meðan við áttum heima þarna.”
Að sögn Magnúsar bjargaði Rockville ekki að eins lífi hans heldur hundruðum mannslífa.

Rockville

Forseti Íslands í boði Byrgisins í Rockville.

„Það væru fleiri af okkur farnir yfir móðuna miklu ef við hefðum ekki Rockville á sínum tíma, þetta var besti staðurinn.”
En Magnús ásamt u.þ.b. 100 öðrum vistmönnum urðu frá að hverfa árið 2003 þegar Byrgið fékk ekki áframhaldandi samning um afnot af svæðinu.
Magnús sagði það dapurlegt að yfirgefa staðinn sem bjargaði lífi hans. „Það var dapurlegt, mjög dapurlegt.”
Magnús heimsótti Rockville í fyrra en í þeirri ferð vöknuðu skemmtilegar minningar um hann og aðra vistmenn Byrgisins en það sem kastaði skugga á minningar hans var útlit staðarins. „Það er sorglegt að vita til þess hvernig þetta er farið í dag,” sagði Magnús.

100 milljónir faldar í Rockville

Rockville

VF – 47. tbl. 26.11.1992.

Þegar Byrgið yfir gaf Rockville fyrir fullt og allt lokaði Guðmundur Jónsson, forstöðumaður Byrgisins, hliðinu á táknrænan hátt. Hann henti
lyklinum að hliði Rockville út í móa og sagði að þarna hefðu farið 100 milljónir fyrir lítið en þá vitnaði Guðmundur til þess kostnaðar við uppbyggingu Rockville fyrir starfsemi Byrgisins.
Leitað var eftir því hjá Guðmundi Jónssyni að lýsa sinni reynslu af Rockville en það tókst ekki þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir yfir tæpt mánaðar skeið.

Draugabær enn á ný

Rockville

DV – 26. tbl. 31.01.1989.

Ekki litu þó allir á Rockville sömu augum og vistmenn Byrgisins. Fyrir marga var þetta ágætur staður til að svala skemmdarfíkn, sérstaklega þegar Byrgið var farið og Rockville hóf sitt annað draugatímabil.
Rockville var lagt í rúst á aðeins nokkrum dögum. Það sem áður tók mánuði að byggja upp og lagfæra tók að eins nokkra daga að eyðileggja. Ungmenni vöndu ferðir sínar að gömlu ratsjárstöðinni og brutu rúður, spenntu upp hurðir og kveiktu í allskyns munum sem skildir voru eftir.
Svæðið sem eitt sinn bjargaði mannslífum er nú orðinn höfuðverkur hersins og lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli. Útköll vegna skemmdarverka, mannaferða og annarra verkefna eru þó nokkur. Það sem af er á þessu ári hafa 9 mál komið upp, 8 mannaferðir
og einn bruni sem Víkurfréttir greindu frá.

Rockville hverfur

Rockville

VF – 27. tbl. 05.07.2001.

Heilbrigðisyfirvöld og aðrir hafa lýst yfir áhyggjum sínum vegna þeirrar slysahættu sem stafar af Rockville en auðveldur aðgangur er að svæðinu. Bandaríkjaher hefur reynt að fjármagna rif Rockville í nokkur ár og virðist það verkefni vera á enda en útboð vegna niðurrifsins er lokið.
Rockville sem gegnt hefur hinum ýmsu hlutverkum í gegnum tíðina þ.á.m. verndunar lands og þjóðar og mannúðarstörf um verður horfið af Miðnesheiðinni í ár eftir 52 ára veru á Suðurnesjum.”

Í Vísi 2005 er greint frá eldi í ratsjárstöðinni:
“Mikill eldur var í Rockville, gömlu ratsjárstöðinni á Miðnesheiði, í nótt. Samkvæmt Víkurfréttum var fjölmennt slökkvilið sent á staðinn á þriðja tímanum í nótt og logaði þá mikill eldur í byggingu hjá kúluturnunum sem eru eitt helsta kennileiti staðarins. Engin starfsemi hefur verið á staðnum frá því að Byrgið var þar með aðstöðu. Ekkert rafmagn er á staðnum en samkvæmt Víkurfréttum leikur grunur á íkveikju. Blaðamenn Víkurfrétta voru stöðvaðir af herlögreglumönnum og ekki hleypt að brunavettvangi í nótt. Þeir vildu einnig banna ljósmyndurum að ganga um móann utan girðingar gömlu ratsjárstöðvarinnar þannig að hægt væri að ná myndum af slökkvistarfi. Það var ekki fyrr en blaðamenn settu sig í samband við lögregluna í Keflavík að herlögreglunni var ljóst að ljósmyndurum væri heimilt að ganga um móann. Ljósmyndurum var þó meinaður aðgangur að sjálfum brunavettvangi.”

Rockville

Fréttablaðið 4. júní 2003.

Í Víkurfréttum 2006 er enn fjallað um Rockville; “Rockville – minningin ein!”:
“Eitt helsta kennileitið á Miðnesheiði er að hverfa. Það er verið að rífa Rockville – gamla ratsjárstöð Varnarliðsins suður með sjó. Tvær gríðarstórar hvítar kúlur hafa verð aðalsmerki Rockville í hálfa öld. Önnur kúlan er fallin og hin verður farin innan nokkurra daga.

Það var í október 1953 sem ratsjársveit bandaríska flughersins kom sér fyrir í nýbyggðri ratsjársstöðinni. Rockville var með sitt eigið orkuver og var stöðin þess vegna sjálfbær hvað varðar rafmagn. Á svæðinu voru u.þ.b. 20 hermannaskálar, matsalur, pósthús, íþróttasalur, bar, verslanir, bíósalur og kapella. Starfsmenn Rockville voru um það bil tvö hundruð talsins. Stór hluti þeirra bjó á vistinni í Rockville en fjölskyldufólkið bjó á Keflavíkurflugvelli.

Rockville

Rockville.

Rockville gegndi mikilvægu hlutverki í kalda stríðinu en þá fylgdust liðsmenn ratsjársveitarinnar reglulega með ferðum sovéskra herflugvéla hér við land og beindu orrustuflugvélum varnarliðsins í veg fyrir þær til eftirlits.

Miðnesheiði

H-1 á Miðnesheiði.

Ný ratsjárstöð var tekin í notkun á Miðnesheiði í nóvember árið 1992 en í kjölfarið minnkaði starfsemin í Rockville og færðist hún hægt og rólega upp á Keflavíkurflugvöll þar sem þeirra biðu ný húsakynni.

Fljótlega eftir að herinn hafði yfirgefið Rockville voru nokkrir sem sýndu svæðinu áhuga en þar á meðal voru forsvarsmenn meðferðarstöðvarinnar Byrgisins. Þeir fluttu á svæðið árið 1999 en urðu frá að hverfa 2003. Síðan þá hefur stöðin grotnað niður – þar til nú að hún er að verða minningin ein.”

Í Víkufréttum 2010 er frétt: “Kapellu tvívegis forðað frá glötun“:

Varnarliðið

Slökkviliðsmaðurinn 1. tbl. 01.07.1999.

“Kapella slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli fékk andlitslyftingu fyrir helgi þegar fyrrverandi og núverandi starfsmenn slökkviliðsins komu saman til að mála og bera á tréverkið. Kapellan var vígð af herra Karli Sigurbjörnssyni biskupi Íslands þann 15. desember árið 2000 á 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi.

Í janúar 1999 kom fram hugmynd meðal slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli að bjarga Kapellunni í Rockville frá glötun, en eftir lokun stöðvarinnar komust skemmdarvargar á kreik og höfðu þegar unnið nokkur spjöll á Kapellunni ásamt öðrum mannvirkjum. Umrædd Kapella á sér nokkuð merka sögu.

Varnarliðið

Kapellan.

Amerískur verktaki, „Metcalf Hamilton“ og íslenskur undirverktaki, „Sameinaðir Verktakar“ reistu húsið sem skrifstofu fyrir eftirlitsaðila með uppbyggingu Radsjárstövarinnar við Stokksnes hjá Höfn í Hornafirði árið 1953. Árið 1956, þegar framkvæmdum var lokið, var húsinu breytt í kapellu, að beiðni staðarmanna, frekar en að rífa hana niður. Skömmu eftir virkjun radsjárstöðvarinnar kom í ljós að byggingin truflaði radarinn, svo annað hvort var að rífa húsið eða flytja það til.

Rockville

Rockville um 1960.

Starfsmenn stöðvarinnar byggðu því nýjan grunn á viðurkenndum stað og íslenskir verktakar sem voru á svæðinu fluttu bygginguna í heilu lagi eitt kvöldið með tækjum sínum og þáðu nokkra kassa af bjór fyrir vikið og þótti báðum býttin góð. Í upphafi var engin bjalla í Kapell­unni en einhvern veginn innviklaðist slökkviliðið í að útvega bjöllu, sem fékkst af gömlum slökkviliðsbíl í Bandaríkjunum og fylgir bjallan Kapellunni enn í dag.

Árið 1988 var starfsemi radsjárstöðvarinnar á Stokksnesi breytt og fyrir atbeina góðra manna var Kapellan flutt frá Höfn til Rockville að fengnu samþykki Bygginarnefndar Varnarsvæða.

Rockville

Rockville á lokaárunum.

Árið 1997 var starfsemi breytt í Rockville og notkun allra mannvirkja þar hætt, þeim lokað og hiti tekinn af þeim. Fljótlega tók að bera á skemmdarvörgum á svæðinu og skemmdarverk unnin á hinum ýmsu mannvirkjum þar ásamt Kapellunni.

Slökkviliðsmenn, sem þekktu til Kapellunnar, rann í brjóst áhugi til að forða henni frá frekari skemmdum og komu að orði við slökkviliðsstjóra með uppástungu um að bjarga henni frá glötun með því að flytja hana á lóð slökkviliðsins og gera hana upp sem Kapellu fyrir slökkviliðsmenn, sem gjarnan þurfa að vinna á stórhátíðisdögum, ennfremur sem athvarf slökkviliðsmanna sem ef til vill þurfa á áfallahjálp að halda eftir stórslys.

Rockville

Framkvæmdir við H-1. Rockville í bakgrunni. VF – 39. tbl. 06.01.1988.

Slökkviliðsstjóri bar hugmyndina upp við yfirmann varnarliðsins en hann bauð slökkviliðsstjóra að gera það sem hann teldi kapellunni og hans mönnum fyrir bestu. Að fengnu leyfi Bygginganefndar, enn einu sinni, var húsið flutt á lóð slökkviliðsins, með góðri hjálp verktaka á svæðinu.

Svo ólíklega vildi til að sami starfsmaður hins íslenska verktaka hefur verið viðriðinn tilfærslu á þessu húsi öll þrjú skiptin sem það hefur verið fært til á þessu 44 ára tímabili þ.e. Stefán Ólafsson verkstjóri hjá Íslenskum Aðalverktökum.

Slökkviliðsmenn tóku til óspilltra mála og hafa unnið við uppbyggingu þessarar Kapellu ýmist í fríum sínum eða á milli stunda á vaktinni. Margir fleiri en slökkviliðsmenn hafa lagt hönd á plóginn ýmist einstaklingar eða fyrirtæki auk íslenska ríkisins með fjárframlögum, efni og/eða vinnu. Altaristöflu málaði Erla Káradóttir slökkviliðsmaður.

Rockville

“Björgunarsveit” kapellunnar á Keflavíkurflugvelli.

Nokkuð athyglisverð staðreynd fylgir kapellunni. Strax í upphafi truflaði hún starfsemi radarstöðvarinnar á Stokksnesi. Að endingu var stöðin á Stokksnesi lögð niður. Kapellan var því flutt í Rockville á Miðnesheiði. Það varð hlutskipti Rockville að vera lagt niður. Kapellan var því aftur flutt og nú í Varnarstöðina á Keflavíkurflugvelli. Það varð hlutskipti Varnarliðsins að vera lagt niður. Kapellan þjónar þó enn sínum tilgangi enda slökkviliðið ennþá til staðar en í annarri mynd en áður.

Landamerkjavarða

Rockville

Varðan við Rockville með skyldinum.

Syðst á Rockville svæðinu, sunnan vegar sem er í kringum Rockville er vel hlaðin og stæðileg varða. Varðan er hringlaga upphlaðin, um 1.70 m á hæð, ummmál um 1.50 m.
Skjöldur er á vörðunni, á honum stendur að varðan sé hlaðin 1957, og merkt FL4N 3012 Landmælingar Íslands. “Röskun varðar refsingu”.

Heimildir:
-VF – 24. júní 2020 – https://www.vf.is/mannlif/vf-i-40-ar-rockville–a-midnesheidi
-VF – 18. júlí 2010.
-VF – 21. nóvember 1996.
-Vísir – 3. júní 2005.
-VF – 5. febrúar 2006.
-VF – 49. tbl. 17.12.1998.
-VF – 27. tbl. 07.07.2005.
-VF – 2. tbl. 11.01.2007.

Rockville

Rockville í dag – VF.

Kalka

Á Háaleiti var varða sem er fyrst getið um í gömlu landamerkjabréfi frá 1270 en þar segir: „En lyngrifamörk skilur gata sú, er liggur fyrir innan Torfmýrar og upp á Háfaleiti til vörðu þeirrar, er stendur á leitinu þar, sem hæst er milli Kirkjuvogs, Njarðvíkur og Djúpavogs. En rekamörk millum Djúpavogs, Starness og Hvalsness skilur gróf sú, er verður fyrir innan klettana til hægri handar, er riðið er frá Kirkjuvogi.“

Kalka

Kalka.

Í örnefnaskrá frá Keflavík segir um vörðuna á Háaleiti: „Það voru til ýmis örnefni hérna í heiðinni, nálægt þar sem Flugturninn er, þar var kallað Háaleiti og Ameríkanarnir þýddu þetta á sitt tungumál og kölluðu það High Lady, en þar var varða í gamla daga, sem kölluð var Kalka, hún var hvít á litinn. Hennar er getið í þjóðsögum, því þar voru peningar grafnir, m.a., og þar sáu menn loga og loga, þar sem peningarnir voru. Þegar að var komið, þá var allt slokknað.“ Tvær frásagnir eru að minnsta kosti til um fjársjóð og draug á Háaleiti og hefur önnur þeirra verið birt í Rauðskinnu en hin í Lesbók Morgunblaðsins.

Í blaðinu Faxa segir eftirfarandi um vörðuna Kölku: „Þetta hérað [Keflavíkurflugvöllur] nær yfir 9200 ha. — sem var áður algjörlega óræktað heiðarland — sem ríkið tók með lögnámi af landi 5 hreppa: Hafnahreppi, Miðneshreppi, Gerðahreppi, Njarðvíkurhreppi og Keflavík, — og úr landi ca. 30 jarða. Endamörk þessara hreppa námu við Háaleyti og Kölku og hafi nokkrar landamæraerjur verið á þessum háheiðum — 167 fet hæst yfir sjávarmál — þá eru þær nú úr sögunni að eilífu, þar eð enginn veit nú hyrningarsteina þessa lengur.“

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur – flugturninn er þar sem Kalka var.

Í umfjöllun Hallgríms Th. Björnssonar í Faxa 1950 er að finna styttri umfjöllun og Kölkuvísur eftir Ágúst L. Pétursson. Þar segir: „Kalka er heiti á landamerkjavörðu sem stóð uppi á Háaleiti, þar nú er Keflavíkurflugvöllur og braggahverfi honum tilheyrandi. Einnig er þess getið til, að hún hafi verið notuð sem innsiglingarmerki á dögum Selstöðukaupmanna í Suðurnesjum. Varðan er sögð verið hvít kölkuð, svo að hún sæist langt að, og hefir hún dregið nafn þar af. Var þessi ævagamla varða við líði, þar til nú á stríðsárunum, að setuliðið jafnaði hana við jörðu. Rekur varðan raunir sínar í eintali því, sem hér fer á eftir. Kölkuvísur eru 15 erindi en hér á eftir eru aðeins birtur hluti þeirra.

Úr Kölkuvísum:
Eitt sinn var ég ung og fríð,
átti farfan hvíta.
Ýmsir þráðu alla tíð
upp til mín að líta.
Oft mér sendi sólin fríð,
signuð ástarskeyti.
Óðal mitt var alla tíð
upp á Háaleiti.
[…]
Villtum mönnum vegum á
vildi ég forða grandi.
Björgun veitti brögnum þá,
bæði á sjó og landi.
[…]
Stórveldis kom hingað her,
hertur fítons anda.
Ólmir vildu meina mér
á minni jörð að standa.

Hermenn þustu hingað, en
helgri ró ei skeyttu.
Óli Thórs og Bjarni Ben
björg mér enga veittu.

Hersins vakti harða geð
hrygð, en enga kæti,
sínum vítisvélum með
veltu mér úr sæti.

Byggð var reist við bústað minn,
bæði daga og nætur.
Missa þarna meydóm sinn
margar landsins dætur. […]

Varða þessi, sem nú er horfin, hefur verið landamerki jarða allt frá miðöldum, hreppamörk síðar meir, innsiglisvarða og áberandi kennileiti á háheiðinni á Háaleiti.

Heimildir:
-Brynjúlfur Jónsson, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, 18. árg. 1903, bls. 41.
-Örnefnaskrá Keflavík. Viðtal um Keflavík 1.
-Lesbók Morgunblaðsins, 12. júní 1949, bls. 290, og Jón Thorarensen, Rauðskinna, bls. 42-46.
-Jón Tómasson. „Keflavíkurflugvöllur og Keflavík“, Faxi, 12. árg. 1952, 5. tbl, bls. 70.
-Hallgrímur Th. Björnsson, Faxi, 10. árg. 1950, 1. tbl. bls. 8.
-Faxi, 10. árg. 1950, 1. tbl., bls. 8.

Kalka

Njarðvík – Kalka efst. Teikning Áka Grenz.

Keflavíkurflugvöllur

Í Morgunblaðinu 8. des. 1996, fjallar Friðþór Eydal um “Samgöngubyltingu á Háaleiti”. Um haustið voru liðin rétt fímmtíu ár frá því Íslendingar fengu afhentan Keflavíkurflugvöll til umráða. Með tímanum varð þessi flugvöllur einn mikilvægasti tengiliður landsmanna við umheiminn og raunar hefur mikilvægi hans í samgöngum farið vaxandi með árunum. Friðþór Eydal rekur hér sögu þessa flugvallar sem smám saman hefur breyst úr hemaðarmannvirki fyrst og fremst í alþjóðlegan flugvöll.

Kaldaðarnes

Í seinni heimsstyrjöldinni byggði breski flugherinn (RAF) flugvöll í Kaldaðarnesi og rak þar flugstöð allt þar til Ölfusá flæddi yfir bakka sína 6. mars 1943 og olli miklum skemmdum á flugvellinum. Árið 1999 var reistur minnisvarði við Selfossflugvöll um veru breska flughersins í Kaldaðarnesi.

“Föstudaginn 25. október, fyrir réttum fimmtíu árum, var bjartur dagur í sögu íslenskra flugmála. Þann dag tók Ólafur Thors forsætis- og utanríkisráðherra við Keflavíkurflugvelli fyrir Íslands hönd, en flugvöllurinn var lagður af Bandaríkjaher í síðari heimsstyrjöldinni.
Við hernám Íslands vorið 1940 var enga flugvelli að finna í landinu. Stjórn breska hernámsliðsins lá á að koma á fót eftirliti úr lofti til vamar hugsanlegri innrás Þjóðverja. Breski flotinn sendi brátt sveit lítilla sjóflugvéla af Whalrus-gerð til landsins í þessu skyni og ráðstafanir voru gerðar til að senda landflugvélar flughersins af Fairey Battle-gerð í þeirra stað. Að mati Breta buðu sléttir og harðir bakkar Ölfusár í Kaldaðarnesi upp á nánast eina hentuga flugvöllinn af náttúrunnar hendi í nágrenni Reykjavíkur þar sem hefja mátti flug með litlum tilkostnaði.

Kaldaðarnes

Flugvöllurinn á Kaldaðarnesi. Í seinni heimsstyrjöldinni byggði breski flugherinn (RAF) flugvöll í Kaldaðarnesi og rak þar flugstöð allt þar til Ölfusá flæddi yfir bakka sína 6. mars 1943 og olli miklum skemmdum á flugvellinum. Árið 1999 var reistur minnisvarði við Selfossflugvöll um veru breska flughersins í Kaldaðarnesi.

Hafa ber í huga að flestir herflugvellir til þess tíma voru grasi vaxnar grundir líkt og í Kaldaðarnesi. Sá hængur var þó á að flugvallarstæðið lá austan árinnar sem á það að auki til að flæða er klakastíflur myndast í ánni á vetrum. Bretum var þetta vel ljóst en lá á og gerðu reyndar í fyrstu ekki ráð fyrir að stunda neitt flug á Íslandi að vetri til sökum rysjótts veðurfars, enda hættan af þýskri innrás þá hverfandi afsömu ástæðu.

Síðari hluta ársins 1940 varð ljóst að þýski kafbátaflotinn léti ekki sitja við árásir á skip undan Bretlandsströndum og myndi færa athafnasvæði sitt vestar á Atlantshaf eftir því sem varnirnar styrktust.

Kafbátur

Verkefni breska flughersins á Kaldaðarnesi sem og flughers Bandaríkjamanna sem kom í kjölfar Bretanna var að fylgjast með ferðum þýskra kafbáta í nágrenni Íslands. Hér er einn þeirra, U-570, í fjörunni við Þorlákshöfn 30. ágúst 1941. Áhöfnin hafði siglt honum upp í fjöru þar sem skipverjar óttuðust að hann sykki. Hann var þó lítt skemmdur og var dreginn til Hvalfjarðar þar sem gert var við hann og síðan siglt til Skotlands. Fékk hann þar nafnið HMS Graf og var notaður af breska sjóhernum við háleynilegar aðgerðir.

Flugvélar höfðu þegar sannað gildi sitt við varnir gegn kafbátum og því brýnt að koma upp aðstöðu fyrirstærri og öflugri eftirlitsflugvélar sem víðast, svo veita mætti skipalestum vemd lengra frá landi. Hófu Bretar byggingu Reykjavíkurflugvallar haustið 1940 og var hann tilbúinn til takmarkaðrar notkunar vorið eftir, um það bil er þýskir kafbátar fóru að heija á skipalestir sem beint hafði verið á hafsvæðið suður af landinu, en svo vestarlega höfðu þeir ekki sótt fyrr. Þá var og hafist handa við að stækka flugvöllinn í Kaldaðarnesi. Báðir flugvellirnir voru þó einungis búnir einni flugbraut í fyrstu og voru því sléttaðir lendingarstaðir á nokkrum stöðum er nota mátti í neyð. Einn slíkur neyðarflugvöllur var gerður á Garðskaga og voru það fyrstu flugvallarframkvæmdir á Suðurnesjum.

Rauðhólar

Reykjavíkurflugvöllur á árum síðari heimsstyrjaldar.

Bandaríkjamenn hófu að styrkja herlið Breta hér á landi sumarið 1941 með það fyrir augum að leysa þá síðarnefndu af hólmi. Bandaríkin voru þá ekki orðin þátttakendur í styrjöldinni, en skyldu m.a. annast loftvarnir og eftirlit með skipaleiðum suður af landinu.
Bandaríska herráðið áætlaði byggingu stórs flugvallar fyrir sprengju- og eftirlitsflugvélar sínar á suðvesturhorni landsins í þessu skyni og annan minni fyrir orrustuflugsveit til loftvarna, sem allt of þröngt var um á Reykjavíkurflugvelli með öðrum flugsveitum er þar höfðu aðsetur.

Garðaskagaflugvöllur

Breski herinn hernam Ísland þann 10. maí 1940 til að koma í veg fyrir mögulega innrás Þjóðverja. Herinn var að flestu leyti vanbúinn og efnalítill og þurfti að koma sér upp aðstöðu og þjónustu með litlum fyrirvara og sem minnstum tilkostnaði. Bretar hófu strax leit að heppilegu flugvallarstæðum víða um landið. Fengu þeir snemma augastað á Garðskaga og ef til vill fleiri stöðum. Fáir staðir voru jafn ákjósanlegir fyrir bráðabirgðaflugvöll og Garðskaginn. Þarna var slétt og ræktað land, fyrrum kornakrar um aldir.
Jarðvegur á Garðskagaflötum er harður, þéttur og sendinn þannig að vatn sest sjaldan lengi á sléttlendið. Bretar sömdu við bændur á þeim fimm bæjum sem höfðu notað þetta svæði sem tún og beitiland en það voru Hafurbjarnarstaðir, Kolbeinsstaðir, Ásgarður, Hólabrekka og Útskálar.
Flugvallargerð á Garðskaga var ákveðin og var hafist handa snemma um sumarið 1940, og flugvöllurinn tekinn í notkun sumarið 1941. Þetta var fyrsti flugvöllur á Reykjanesskaganum og líklega einn fyrsti flugvöllur sem Bretar gátu nýtt sér hér á landi.
Túnum bænda á Garðskaga var með auðveldum hætti breytt í 1050 m langa flugbraut sem var 90 m breið og lá frá Garðskagavegi suður undir Hafurbjarnarstaði. Flötin var sléttuð og tyrfð að nýju eftir því sem þurfti og sáu heimamenn um verkið. Þetta var fyrsta reynsla þeirra af Bretavinnu og áttu margir þeirra eftir að helga setuliðinu störf sín næstu áratugina. Notaðir voru þeir vörubílar sem Garðmenn og Sandgerðingar áttu á þeim tíma auk hestvagna.
Verkamennirnir sjálfir lögðu til handverkfæri s.s. skóflur, haka og sleggjur. Þegar flugvallarstæðið hafði verið sléttað voru ræmur ristar í torfið svo skeljasandurinn kæmi vel í ljós við báða enda brautarinnar og með langhliðunum. Þannig var flugvöllurinn vel sýnilegur úr lofti. (Skráning stríðsminja á Suðurnesjum
Eiríkur Hermannsson og Ragnheiður Traustadóttir 2019)

Beindust augu Bandaríkjamanna strax að Suðurnesjum, enda Bretar þegar með vísi að flugvelli á Garðskaga og utanverður Reykjanesskaginn nánast hindrunarlaus til flugs.
Árás Japana á herstöðvar Bandaríkjanna á Hawaieyjum þann 6. desember breytti gangi styrjaldarinnar og áætlunum Bandaríkjamanna. Stóru sprengju- og eftirlitsflugvélarnar er hingað var ætlað að koma vora sendar til Kyrrahafsins. Þörfín á stórum flugvelli af þessu tagi var þó enn fyrir hendi þótt á annan veg væri. Ljóst var að flytja þyrfti mikinn fjölda flugvéla frá Bandaríkjunum til Bretlands til þátttöku í styrjöldinni í Evrópu. Bretar höfðu fest kaup á fjölda flugvéla í Bandaríkjunum og Kanada og flogið mörgum þeirra yfir hafið með viðkomu á Reykjavíkurflugvelli. Flugvöllum Bandaríkjahers var valinn staður þar sem heitir Háaleiti skammt suðvestan Keflavíkur og inn af Njarðvíkurfitjum.
Bretar höfðu gert tillögur að stækkun flugvallarins á Garðskaga, en þær mæltust ekki vel fyrirsökum skorts á landrými fyrir það risa mannvirki er nú voru á teikniborðinu. Úrslitum um staðarvalið réð Háaleitið sjálft sem hafði að geyma heppileg jarðefni til fyllingar undir flugbrautirnar sem byggja varð upp, og ekki þótti hagkvæmt að flytja langan veg. Samdist svo með íslenskum og bandarískum stjórnvöldum að íslenska ríkið skyldi útvega landrými fyrir flugvelli og tengda starfsemi og yrði því skilað ríkinu með öllum mannvirkjum til eignar að styrjöldinni lokinni.
Framkvæmdir hófust með byggingu herskálahverfis byggingarsveitar flughersins, Camp Nikel, milli Ytri-Njarðvíkur og Keflavíkur í byrjun febrúar 1942. Síðar í sama mánuði hófst lagning flugvallarins upp af Fitjum. Verkið var unnið af byggingarsveit flughersins ásamt u.þ.b. 100 íslenskum verkamönnum og vörubílstjórum. Íslensku starfsmennirnir hurfu á braut í júníbyrjun sökum nýrra reglna um hernaðaröryggi er þá tóku gildi og bönnuðu alla umferð Íslendinga innan flugvallarsvæðisins.

Meeks

Meeksflugvöllur var nefndur eftir lautinant George Everett Meeks sem fórst í flugslysi á Reykjavíkurflugvelli 27 ára að aldri, fyrstur rúmlega 200 Bandaríkjamanna sem létust á Íslandi á stríðsárunum. Meeks stundaði nám við háskóla Bandaríkjaflota í tvö ár en gekk síðan í bandaríska flugherinn og lauk flugþjálfun árið 1940. Hann kom til landsins með 33. orrustuflugsveitinni 6. ágúst 1941. Það gerðist fyrir hádegi 19. ágúst 1941 að George Meeks var að koma á orrustuflugvél sinni inn til lendingar á Reykjavíkurflugvelli, frá norðri. Hermaður mun hafa hjólað út á flugbrautina og flugmaðurinn þá fengið merki um að taka upp aftur. Hann var í lágflugi. Í stað þess að halda áfram í beinni stefnu eftir brautinni þá beygði hann til vinstri með þeim afleiðingum að hann flaug á loftnetsvírstreng, sem var strengdur á milli tveggja mastra. Annað mastrið brotnaði og hluti af öðrum væng vélarinnar. Vírdræsa vafðist um skrúfu vélarinnar og hún steyptist stjórnlaus í Skerjafjörðinn við Nauthólsvík. Flugmaðurinn mun hafa látist samstundis.

Skömmu áður hóf bandarískt verktakafyrirtæki framkvæmdir fyrir Bandaríkjaher hér á landi og tóku starfsmenn þess við af heimamönnum sem fengin voru verkefni annars staðar. Illa gekk þó að fá hæfa bandaríska verkamenn til starfa á Íslandi á þessum tíma og var horfið að því ráði að senda byggingarsveit flotans til landsins, starfsbræðrum sínum í flughernum til fulltingis. Lauk þætti verktakafyrirtækisins í framkvæmdunum í september. Flugvöllurinn ofan við Fitjar sem nefndur var Patterson var tilbúinn til takmarkaðrar umferðar strax sumarið 1942, er flugvélum 8. flughersins bandaríska var flogið til Bretlands með viðkomu á Grænlandi og Íslandi. Byggingarsveit flotans hóf lagningu flugvallarins á Háaleiti um sumarið og lauk verkinu árið eftir, en vinna við Patterson lagðist niður um veturinn. Bandaríkjamenn nefndu flugvöllinn á Háaleiti Meeks eftir ungum bandarískum orrustuflugmanni er fórst í flugslysi á Reykjavíkurflugvelli 19. ágúst 1941 skömmu eftir komuna til landsins. Hét Patterson flugvöllur eftir öðrum ungum flugmanni er einnig lét lífið hér á landi nokkru síðar.
Meeks flugvöllur, er við nú þekkjum sem Keflavíkurflugvöll, var tekinn í notkun í apríl 1943 og lauk byggingu beggja flugvallanna og tilheyrandi mannvirkja þá um haustið.
Alls risu 49 herskálahverfi á víð og dreif um flugvallarsvæðið og annars staðar á Suðurnesjum í tengslum við flugvellina og varnir þeirra. Voru þar eldsneytistankar, hermannaskálar, verkstæði, vörugeymslur, nýjar skiptastöðvar, vopnageymslur, loftvarnarbyssur og ratsjárstöðvar. Á Vogastapa reis spítali með 250 sjúkrarúmum og skammt þar frá fjarskiptastöðin Broadstreet er annaðist samskipti við flugvélar á flugleiðinni milli Evrópu og Bandaríkjanna. Má þar enn sjá veggi byggingar er reyndar reis eftir stríð í sama tilgangi.

KeflavíkurflugvöllurFlugumferð var að mestu aðskilin á flugvöllunum við Keflavík. Um Meeks fóru eingöngu ferju- og áætlunarvélar auk B-24 Liberator kafbátaleitarflugvéla breska flughersins, er aðsetur höfðu á Reykjavíkurflugvelli sem var of lítill til að slíkar flugvélar gætu athafnað sig þar full hlaðnar. Höfðu Bretar þann háttinn á að fljúga vélum sínum tómum til Keflavíkur og hlaða þær þar eldsneyti og djúpsprengjum áður en lagt var upp í leiðangur til varnar skipalestum. Slíkar ferðir gátu tekið 14 klukkustundir. Að flugi loknu var lent í Reykjavík.

Keflavíkurflugvöllur

Camp Turner á Keflavíkurflugvallasvæðinu – enn af 49 slíkum.

Bretar höfðu aðsetur í Camp Geck herstöð sunnan austur-vestur-flugbrautarinnar gegnt flugstöð Leifs Eiríkssonar og var þar eina starfsemi þeirra á Keflavíkurflugvelli. Fluttu þeir flugskýli sitt þangað frá Kaldaðarnesflugvelli sumarið 1943, en flugvöllurinn þar hafði eyðilagst í flóðum þá um veturinn. Þess má geta að kafbátaleitarflugvélar Bandaríkjaflota er störfuðu hér á landi til ársloka 1943 höfðu aðsetur á Reykjavíkurflugvelli.

Patterson

Bandaríkjamenn byggðu Patterson árið 1942 og var lokað þremur árum síðar. Hann var aðallega notaður til að sinna orrustuflugvélum hersins er önnuðust loftvarnir á Suðvesturlandinu.

Í stríðslok lagðist starfsemin á Pattersonflugvelli af er orrustuflugsveitin sem þar hafði aðsetur var leyst upp. Hefur sá flugvöllur ekki verið notaður síðan, en almennt millilandaflug hófst um Meeks.
Keflavíkursamningurinn, er undirritaður var haustið 1946, kvað á um brottför Bandaríkjahers, sem þá taldi einungis um 1.000 menn er önnuðust reksturflugvallarins. Flugvellirnir og önnur mannvirki urðu eign Íslendinga eins og til stóð og samið var um rekstur Meeks-flugvallar við bandarískt verktakafyrirtæki fyrir hönd Íslands og Bandaríkjanna sem áttu enn mikilla hernaðarlegra hagsmuna að gæta. Nefndist hann upp frá þessu Keflavíkurflugvöllur.

KeflavíkurflugvöllurSíðustu bandarísku hermennirnir héldu af landi brott 8. apríl 1947 og tóku bandarískir borgarar þá við rekstri vallarins. Reksturinn var að flestu leyti sambærilegur við það sem verið hafði á stríðsárunum, nema að nú var umferðin að miklu leyti áætlunarflug evrópskra og bandarískra flugfélaga, auk flugs Bandaríkjahers vegna herliðsins í Evrópu.
Keflavíkursamningurinn kvað á um að Íslendingar skyldu þjálfaðir í sem flestum störfum á Keflavíkurflugvelli og var fljótlega ráðið í störf verka- og iðnaðarmanna og þjónustustörf af ýmsu tagi.
KeflavíkurflugvöllurÞað var þó ekki fyrr en seint á árinu 1949 að Íslendingar hófu að vinna sérhæfð tæknistörf, t.d. við flugumferðarstjórn.
Sumarið 1948 tók bandaríska fyrirtækið Lockheed Overseas Aircraft Service við rekstri flugvallarins og annaðist hann til ársins 1951. Talsverðar endurbætur voru gerðar á flugvellinum og byggt yfir starfsemina á þessu tímabili. Eitt af þeim verkefnum var bygging flugstöðvar, sem jafnframt hýsti hótel, og tekin var í notkun vorið 1949.

KeflavíkurflugvöllurVið stofnun varnarliðsins vorið 1951 tók flutningadeild bandaríska flughersins við rekstri vallarins og hótelsins, en flugmálastjórnin á Keflavíkurflugvelli annaðist afgreiðslu farþegaflugvéla sem leið áttu um flugvöllinn og aðra almenna flugþjónustu. Þar eð uppbygging mannvirkja varnarliðsins varð að mestu á svæðinu umhverfis flugstöðina, sem byggð var á þeim tíma er Keflavíkurflugvöllur var ekki herstöð, komu strax fram hugmyndir um byggingu nýrrar flugstöðvar svo koma mætti á aðskilnaði borgaralegs flugs og hernaðarstarfseminnar, báðum aðilum til hagsbóta og aukins öryggis. Ekkert varð þó af framkvæmdum fyrr en á öndverðum níunda áratugnum.

Keflavíkurflugvöllur

Ríkisstjórnir Íslands og Bandaríkjanna undirrituðu samning haustið 1946 sem kvað á um um brottför Bandaríkjahers, sem þá taldi einungis um 1.000 menn sem störfuðu við rekstur Keflavíkurflugvallar. Samningnum sem jafnan er nefndur Keflavíkursamningurinn veitti Bandaríkjastjórn heimild til þess að nota flugvöllinn til millilendingar herflugvéla á leiðinni til og frá Evrópu í tengslum við hersetuna í Þýskalandi. Flugvellirnir og önnur mannvirki urðu eign Íslendinga eins og til stóð en Bandaríkjastjórn stóð áfram straum af rekstrarkostnaði flugvallarins sem hlaut nafnið Keflavíkurflugvöllur.

Hermenn önnuðust í fyrstu stjórn herflugvéla, en íslensku flugumferðarstjórarnir stjómuðu annarri umferð um völlinn. Var svo uns gerður var samningur við varnarliðið í júní 1955 sem meðal annars kvað á um að íslensk flugmálayfirvöld skyldu annast stjórn allra loftfara er leið ættu um Keflavíkurflugvöll. Flugfélagið Loftleiðir flutti flugstarfsemi sína til Keflavíkurflugvallar árið 1962 og tveimur árum síðar tók það við rekstri flugafgreiðslunnar og þjónustu við almenna flugumferð um Keflavíkurflugvöll fyrir hönd íslenskra stjórnvalda undir yfirumsjón flugvallarstjórans á Keflavíkurflugvelli.

Um svipað leyti var rekstri flugvallarhótelsins hætt, en hann hafði þá lengst af verið að mestu í þágu varnarliðsins og herflugsins. Loftleiðir, og síðar Flugleiðir, ráku áfram þjónustu í flugstöðinni uns starfsemin flutti í flugstöð Leifs Eiríkssonar vorið 1987. Með tilkomu nýrrar flugstöðvar og viðhaldsdeildar Flugleiða, auk annarrar almennrar flugstarfsemi við flugvöllinn norðanverðan, varð loks sá aðskilnaður frá athafnasvæði varnarliðsins sem báðir aðilar höfðu stefnt að frá stofnun þess.” – Höfundur er upplýsingafulltrúi varnarliðsins í Keflavík.

Heimild:
-Morgunblaðið 8. des. 1996, Samgöngubylting á Háaleiti, Friðþór Eydal, bls. 26-27.
Keflavíkurflugvöllur

Patterson

Í “Húsakönnun Patterson” árið 1019, skráða af Helga Biering, þjóðfræðingi, kemur eftirfarandi fram um hernaðarmannvirkið Pattersonflugvöllinn ofan Fitja í Njarðvíkum:

Patterson

Patterson 1942.

“Þann 11. júní 1941 komu átta yfirmenn Bandaríska hersins til Íslands og viku síðar, eða þann 18. júní, greindu þeir frá því að frá sjónarhóli verkfræðinganna hefði Ísland lítið upp á að bjóða. „Án trjáa var engan innlendan við að hafa og í raun þyrfti að flytja allt inn sem á þarf að halda. Hafnir eru litlar og ráða ekki við skip sem eru stærri en 470 fet og rista ekki dýpra en 21 fet. Veðurfarið biði upp á vetrarhita sem væri að meðaltali -1°C (30°F) og sumarhita með meðalhita um 11°C (52°F), rigningu með um 127 Sentímetra meðal ársúrkomu og vetrarvinda sem vætu um 36m/sek. Einungis hraungrjót, möl og sandur væri nóg af á hinni hráslagalegu eyju“.

Patterson

Flugbraut lögð “Bretajárni” (Marston-mats).

Einnig sögðu þeir að hér væru tveir nothæfir flugvellir sem byggðir höfðu verið af Bretum en þeir þyrftu breytinga við til að fullnægja stöðlum og til að bera aukna umferð þyngri flugvéla. Fyrir utan flugvöllinn í Reykjavík og á Kaldaðarnesi við Selfoss voru nokkrar lélegar flugbrautir, svo sem á Garðskaga, og nýttu eingöngu til nauðlendinga.
Flugbrautirnar á Melgerðismelum utan við Akureyri og Höfn í Hornafirði voru of langt frá til að falla að hugmyndum bandarískra hernaðaryfirvalda.

Patterson

Patterson 1958.

Í upphafi veru Bandaríkjahers var ætlunin með flugvelli við Keflavík og Njarðvík að hafa einungis einn flugvöll. Hann skyldi staðsettur á svokölluðum Sviðningum ofan við Njarðvíkurfitjar. Skyldi sá flugvöllur klæddur svokölluðum „Marston-mats“. En mottur þær voru gataðar járnplötur sem kræktust saman og mynduðu þannig heilu flugvellina og gátu borið uppi flugvélar á jarðvegi sem annars hefði ekki verið hægt að lenda á. Þessi járn gengu undir nafninu „Bretajárn“ hjá Íslendingum sem fundu mikil og fjölbreytt not fyrir þau eftir stríðið.
Sviðningarnir urðu fyrir valinu eftir að flugherinn hafði kannað nokkra staði svo sem Garðskaga og Sandskeið.

Patterson

Patterson-flugvöllur.

Það kom svo í hlut byggingarsveitar flughersins að byggja flugvöllinn og skyldi hafist handa með hraði. Skyldi flugvöllurinn vera með tvær 1600 metra langar flugbrautir og skálahverfi fyrir flugsveitina. Eins átti byggingarsveit flughersins ráða til verksins íslenska verkamenn. Fyrstu liðsmenn 21. Byggingarsveitar hersins komu til landsins haustið 1941 en framkvæmdir við flugvallargerðina hófust 1942. Þegar verkfræðideildin kom til landsins fóru að berast sérhæfð verkfæri til flugvallagerðar ásamt öðrum búnaði.

Varnarsvæði

Varnarsvæðið á Miðnesheiði – herforingjaráðskort. Pattersonflugvöllur neðst t.h.

Til að byrja með fékk fjöldi Íslendinga vinnu við flugvallargerðina á Reykjanesi. Nokkur fjöldi Íslendinga fékk vinnu við flugvallagerðina. Fengu sumir þeirra þjálfun í meðferð þungavinnuvéla sem áttu enga sína líka hér á landi, má þar nefna jarðýtur, krana, grjótmulningsvélar og malbikunarvélar. En með setningu öryggisreglna á svæðinu sumarið 1942 var öllum Íslendingunum sagt upp störfum og eftir það luku um 4500 Bandaríkjamenn verkinu. Hér var í raun um að ræða tvo samtengda flugvelli með sex löngum steinsteyptum og malbikuðum flugbrautum; annars vegar aðalflugvöllurinn á Háaleiti, Meeks-flugvöllur sem síðar varð Keflavíkurflugvöllur, og hins vegar Pattersonflugvöllur á Njarðvíkurheiði en hann var ekki notaður eftir stríð.

Patterson

Patterson 12. maí 1944 – Douglasvél í ferjuflugi.

Pattersonflugvöllur var minni og einungis notaður fyrir orrustuflugvélar til varnar flugvöllunum báðum. Flugvellirnir voru teknir í notkun árin 1942 og 1943 og þar með gátu Bandaríkjamenn flutt sig frá Reykjavíkurflugvelli með meginhluta starfsemi sinnar. Fyrir utan flugvallagerð á Sviðningunum og Miðnesheiði stóð herinn fyrir vegabótum frá Reykjavík og hafnarbótum í Keflavík vegna aðflutninga.

Patterson

Patterson; geymsla og varðskýli.

Reiknað hefur verið út að heildarkostnaður við gerð flugvallanna tveggja og aðrar tilheyrandi framkvæmdir hafi jafngilt 9% vergrar landsframleiðslu Íslendinga árið 1943.
Pattersonflugvöllur var gerður af Bandaríkjaher í síðari heimsstyrjöld og var tekinn í notkunn 1942. Hann var mikilvægur áningarstaður herflugvéla á leið yfir Norður-Atlantshaf í styrjöldinni og var færður Íslendingum til eignar árið 1946 ásamt Meeks flugvelli. Vorið 1951 gerðu Ísland og Bandaríkin með sér varnarsamning og hafði bandaríska varnarliðið flugbækistöð á Keflavíkurflugvelli til ársins 2006.

Patterson

Húsakönnun.

Við hernám Íslands vorið 1940 var enga flugvelli að finna í landinu. Breska hernámsliðinu lá á að koma á fót eftirliti úr lofti til varnar hugsanlegri innrás Þjóðverja og sendi breski flotinn strax sveit lítilla sjóflugvéla til landsins sem starfaði þar um sumarið. Sléttir og harðir bakkar Ölfusár í Kaldaðarnesi buðu upp á nánast eina hentuga flugvöllinn af náttúrunnar hendi í nágrenni Reykjavíkur en flestir herflugvellir til þess tíma voru grasi vaxnar grundir líkt og í Kaldaðarnesi. Sá hængur var þó á að flugvallarstæðið lá austan árinnar sem á það til að flæða þegar klakastíflur myndast í ánni á vetrum. Bretum var þetta vel ljóst en lá á og gerðu reyndar í fyrstu alls ekki ráð fyrir að stunda neitt flug á Íslandi yfir vetrarmánuðina.

Patterson

Bandaríkjamenn byggðu árið 1942 og var lokað þremur árum síðar. Hann var aðallega notaður til að sinna orrustuflugvélum hersins sem sinntu loftvörnum á suðvesturlandinu.

Flugstarfsemi hófst í Kaldaðarnesi um haustið en jafnframt var hafist handa við flugvallargerð í Reykjavík.
Síðari hluta ársins 1940 varð ljóst að þýski kafbátaflotinn léti ekki sitja við árásir á skip undan Bretlandsströndum og myndi færa athafnasvæði sitt vestar á Atlantshaf eftir því sem varnirnar styrktust. Flugvélar höfðu þegar sannað gildi sitt við varnir gegn kafbátum og því brýnt að koma upp aðstöðu fyrir stærri og öflugri eftirlitsflugvélar sem víðast svo veita mætti skipalestum vernd lengra frá landi.
Reykjavíkurflugvöllur var tilbúinn til notkunar sumarið 1941 um það bil er þýskir kafbátar fóru að herja á skipalestir suður af landinu. Þá var hafist handa við að stækka flugvöllinn í Kaldaðarnesi. Báðir flugvellirnir voru þó einungis búnir einni flugbraut í fyrstu og voru því sléttaðir lendingarstaðir á nokkrum stöðum sem nota mátti í neyð. Einn slíkur neyðarflugvöllur var gerður á Garðskaga og voru það fyrstu flugvallarframkvæmdir á Suðurnesjum.

Patterson

Ein af mörgum sprengigeymslunum við Pattersonflugvöll.

Bandaríkin hófu að styrkja herlið Breta hér á landi sumarið 1941 samkvæmt samningi við íslensk stjórnvöld með það fyrir augum að leysa breska herinn af hólmi. Bandaríkin voru ekki orðin þátttakendur í styrjöldinni en skyldu m.a. annast loftvarnir með orrustuflugvélum á Reykjavíkurflugvelli. Bandaríska herráðið ráðgerði að byggja stóran flugvöll fyrir sprengju- og eftirlitsflugvélar á suðvesturhorni landsins. Og þar sem allt of þröngt var um orrustuflugsveitna á Reykjavíkurflugvelli með öðrum flugsveitum sem þar voru var einnig byggður annar minni fyrir hana á Njarðvíkurheiði.

Patterson

Húsaköunnin.

Bandaríkjamenn sáu strax að Suðurnesin væru vel til þess fallin að byggja slíka flugvelli, enda Bretar þegar með vísi að flugvelli á Garðskaga og utanverður Reykjanesskaginn nánast hindrunarlaus til flugs.
Árás Japana á herstöðvar Bandaríkjanna á Hawaiieyjum 6. desember 1941 breytti gangi styrjaldarinnar og áætlunum Bandaríkjamanna. Stóru sprengju- og eftirlitsflugvélarnar sem áætlað var að senda til Íslands voru sendar til bækistöðva við Kyrrahaf. Þörfin á stórum flugvelli af þessu tagi var þó enn fyrir hendi þótt á annan veg væri. Ljóst var að flytja þyrfti mikinn fjölda flugvéla frá Bandaríkjunum til Bretlands til þátttöku í styrjöldinni í Evrópu en Bretar höfðu fest kaup á fjölda flugvéla í Bandaríkjunum og Kanada og flogið mörgum þeirra yfir hafið með viðkomu á Reykjavíkurflugvelli.

Patterson

Patterson – sprengigeymslur.

Flugvöllum Bandaríkjahers var valinn staður upp af Njarðvíkurfitjum og á Háaleiti ofan Keflavíkur. Bretar höfðu gert drög að stækkun varaflugvallarins á Garðskaga en þær mæltust ekki vel fyrir sökum skorts á landrými fyrir það risa mannvirki sem Bandaríkjaher hafði á teikniborðinu. Úrslitum um staðarvalið réð jökulgarðurinn á Háaleiti sem hafði að geyma heppileg jarðefni til fyllingar undir flugbrautirnar og ekki þótti hagkvæmt að flytja langan veg. Samdist svo um að íslenska ríkið útvegaði landrými fyrir flugvelli og tengda starfsemi sem skilað yrði aftur með öllum mannvirkjum til íslensku þjóðarinnar til eignar að styrjöldinni lokinni.

Patterson

Patterson – sprengigeymslur.

Framkvæmdir hófust við lagningu flugvallarins upp af Fitjum í febrúar 1942 og var verkið unnið af byggingarsveit flughersins ásamt u.þ.b. 100 íslenskum verkamönnum og vörubílstjórum.
Íslensku starfsmennirnir hurfu á braut í júníbyrjun þegar nýjar reglur um hernaðaröryggi tóku gildi og bönnuðu alla umferð annarra en hermanna innan flugvallarsvæðisins. Skömmu áður hóf bandarískt verktakafyrirtæki framkvæmdir fyrir Bandaríkjaher hér á landi og tóku starfsmenn þess við af heimamönnum sem fengin voru verkefni á vegum hersins annars staðar.

PattersonIlla gekk þó að fá hæfa bandaríska verkamenn til starfa á Íslandi og var gripið til þess ráðs að senda nýstofnaða byggingarsveit flotans til landsins sem tók við mannvirkjagerðinni ásamt byggingarsveitum hersins. Flugvöllurinn sem hlaut nafnið Patterson Field var tilbúinn Flugvellir Bandaríkjahers við Keflavík við verklok síðla árs 1943. Stærri völlurinn Meeks Field síðar Keflavíkurflugvöllur þjónaði millilandaflugi og þar gat fjöldi flugvéla haft viðdvöl í einu. Flugvöllurinn hefur verið stækkaður verulega. Minni flugvöllurinn, Patterson Field var aðsetur orrustuflugvéla sem önnuðust loftvarnir.

Varnarsvæði

Varnarsvæðið á Miðnesheiði – einstök hverfi (campar).

Á flugvallarsvæðinu risu alls 43 herskálahverfi sem hýst gátu 10.000 manns auk flugskýla, eldsneytistanka og annarra mannvirkja sem tengdust starfseminni. Alls störfuðu um 3.000 manns við gerð þessara tveggja flugvalla þegar mest var og lauk verkinu árið eftir en vinna við Patterson lá niðri um veturinn. Bandaríkjamenn nefndu flugvöllinn á Háaleiti Meeks-Field eftir ungum bandarískum orrustuflugmanni sem fórst í flugslysi á Reykjavíkurflugvelli 19. ágúst 1941 skömmu eftir komuna til landsins. Patterson-flugvöllur var að sama skapi nefndur eftir öðrum ungum flugmanni sem einnig lét lífið hér á landi nokkru síðar.
Meeks-flugvöllur sem nú nefnist Keflavíkurflugvöllur var tekinn í notkun í apríl 1943 en smíði beggja flugvallanna og tilheyrandi mannvirkja var lokið þá um haustið. Alls risu 49 herskálahverfi á víð og dreif um flugvallarsvæðið og annars staðar á Suðurnesjum í tengslum við flugvellina og varnarviðbúnað sem fylgdi starfseminni.

KeflavíkurflugvöllurFlugumferð var að mestu aðskilin á flugvöllunum við Keflavík. Um Meeks-flugvöll fóru eingöngu ferju- og áætlunarvélar en auk þess fengu kafbátaleitarflugvélar breska flughersins af gerðinni B-24 Liberator sem aðsetur höfðu á Reykjavíkurflugvelli þar aðstöðu. Starfrækslu Patterson-flugvallar var hætt í stríðslok en almennt millilandaflug hófst þá um Meeks-flugvöll.

PattersonRíkisstjórnir Íslands og Bandaríkjanna undirrituðu samning haustið 1946 sem kvað á um um brottför Bandaríkjahers, sem þá taldi einungis um 1.000 menn sem störfuðu við rekstur Keflavíkurflugvallar. Samningurinn sem jafnan er nefndur Keflavíkursamningurinn veitti Bandaríkjastjórn heimild til þess að nota flugvöllinn til millilendingar herflugvéla á leiðinni til og frá Evrópu í tengslum við hersetuna í Þýskalandi. Flugvellirnir og önnur mannvirki urðu eign Íslendinga eins og til stóð en Bandaríkjastjórn stóð áfram straum af rekstrarkostnaði flugvallarins sem hlaut nafnið Keflavíkurflugvöllur.
Síðustu bandarísku hermennirnir héldu af landi brott 8. apríl 1947 og tók flugfélagið American Overseas Airlines við flugvallarrekstrinum og réð bandaríska og íslenska starfsmenn til verksins. Starfsemin var að flestu leyti sambærileg við það sem verið hafði á stríðsárunum, nema að nú var umferðin að miklu leyti evrópskar og bandarískar farþegaflugvélar sem millilentu ásamt bandarískum herflugvélum.

Varnarsvæði

Varnarsvæði Keflavíkurflugvallar – fylgir Tilkynningu frá ríkisstjórninni 21. maí 1942.

Keflavíkursamningurinn kvað á um að Íslendingar skyldu þjálfaðir í sem flestum störfum við flugvallarreksturinn og var fljótlega ráðið í störf verka- og iðnaðarmanna og þjónustustörf af ýmsu tagi. Það var þó ekki fyrr en seint á árinu 1949 að Íslendingar hófu að vinna sérhæfð tæknistörf, t.d. við flugumferðarstjórn.
Við stofnun varnarliðsins vorið 1951 tók flutningadeild bandaríska flughersins við rekstri Keflavíkurflugvallar og hótelsins, en Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar annaðist afgreiðslu farþegaflugvéla sem leið áttu um flugvöllinn og aðra almenna flugþjónustu. En Patterson flugvöllur fékk það hlutverk að vera geymslusvæði fyrir tækjabúnað og sprengiefni þar til að herinn fór aftur árið 2006.

 Allt frá fyrstu dögum veru Bandaríkjahers á Suðurnesjum var þörf á að reisa húsnæði fyrir starfsemina. Ýmist geymslubragga, flugskýli og hvað eina sem þurfti til að veita skjól þarfnaðist skjóls fyrir veðri og vindum.

Braggar

Braggi á stríðsárunum.

Braggar og önnur fljótt byggð bráðabirgðahúsnæði voru í upphafi það sem reist var. Síðar komu svo hús sem voru ætluð til að standa allt að 25 ár ásamt byggingum sem reistar voru til langs tíma.

Í upphafi var nánast eingöngu reist bráðabirgðahúsnæði og síðar einnig töluvert mikið af stálgrindarhúsum. Eftir að herinn kom aftur hóf hann að reisa sprengjugeymslur sem enn standa víðs vegar um flugvallasvæði Patterson svæðisins.
Þau mannvirki sem eftir standa eru þöglir minnisvarðar liðinna áratuga, ára seinni heimstyrjaldarinnar og kalda stríðsins á Íslandi. Hönnuðir þeirra húsa sem Húsakönnunin nær yfir er verkfræðideild Bandaríska hersins.

Flugslys

Patterson

Vogshóll 27. des. 1942 – Catalina flugbátur.

Eitthvað var um flugslys á og í kringum Patterson flugvöllinn og ætla ég að minnast á þau sem þar urðu. Hugsanlegt er að eitthvað sé af hlutum á Vogshól þar sem tvær af þessum flugvélum komu niður á nánast sama blettinn.

27. desember 1942 fórst Catalina flugbátur á Vogshól sem er við austurenda Patterson, vélin var á leiðinni í kafbátaleit þegar hún lenti í hvössum éljabakka og fórst um fimmtán mínútum eftir að hún fór á loft. Allir níu áhafnarmeðlimirnir fórust Njarðvíkurheiði.
11. janúar 1943 magalenti P-40 Warhawk á Patterson flugvellinum. Flugmaðurinn slapp og flugvélin skemmdist minniháttar og var löguð.

Patterson25. janúar 1944 brotlenti UC-45E Expeditor stuttu eftir flugtak frá Patterson. Brotlendingarstaðurinn er ekki staðfestur. Flugmaður og farþegar lifðu slysið af.
22. apríl 1944 brotlenti Stinson Vigilant á Patterson. Flugvélin skemmdist mikið og var afskrifuð. Flugmaðurinn lifði af slysið.
12. maí 1944 hlekktist tveggja hreyfla Douglas Boston á Patterson flugvelli. Eldur kom upp í henni og hún eyðilagðist í eldinum.

Patterson

Vogshóll 11. júní 1944 – P-47 Thunderbolt.

Allir þrír áhafnarmeðlimirnir komust ómeiddir frá þessu.
11. júní 1944 magalenti P-47 Thunderbolt á Patterson vegna tæknilegra vandamála. Vélin skemmdist töluvert en flugmaðurinn slapp ómeiddur.

8. júlí 1944 hrapaði svo P-47 Thunderbolt í Vogshól skömmu eftir flugtak en flugmaðurinn slapp út í fallhlíf. Sami flugmaður var í sömu stöðu rétt um mánuði fyrr þegar önnur P-47 hrapaði við Húsatóftir hjá Grindavík.”

Heimildir:
-Húsakönnun Patterson, Helgi Biering þjóðfræðingur, 2019.
-Morgunblaðið 8. des. 1996, Samgöngubylting á Háaleiti, bls. 26-27.

Patterson

Sprengigeymsla við Pattersonflugvöll.

Broadstreet

Ofan við Vogastapa í Njarðvíkurheiði eru yfirgefin hús, fyrrum loftskeytastöð Bandaríkjahers á eftirstríðsárunum. Í “Húsakönnun Patterson 2019” eftir Helga Biering, þjóðfræðing, er m.a. fjallað um Broadstreet:

Broadstreet

Broadstreet – Það sem eftir stendur af steinsteyptu byggingunni við Broadstreet 2023. Þessi byggin var byggð 1948 og notuð frá 1949 til 1955.

“Við gamla Grindavíkurveginn, rétt norðan við Seltjörn, reisti flugfjarskiptadeild Bandaríkjahers (Army Airways Communications System) þyrpingu nokkurra húsa sem nefndur var Camp Broadstreet. Í Broadstreet var loftkseytastöð sem sá um langdræg fjarskipti við flugvélar í millilandaflugi og einnig við flugstjórnarmiðstöðvar. Campurinn opnaði í mars 1942.

Broadstreet

Broadstreet 2023.

Stöðin var stundum kölluð útvarpsstöðin vegna tilgangs hennar í fjarskiptum, en aftur á móti kom hún ekkert nálægt útsendingum talaðs máls og tónlistar. Broadsteet var eins og aðrar slíkar stöðvar með eigin vatnsveitu og stórar rafstöðvar. Kampurinn var samsettur af 36 íbúðum og skálum, auk þess voru sex lítil steinhlaðin hús sem hýstu loftskeytasendana við stærstu loftnetin.

Broadstreet

Broadstreet og nágrenni.

Stöðin sendi sjálfkrafa út skeyti sem bárust þangað um símakapla frá ýmsum fjarskiptamiðstöðvum á flugvallarsvæðinu. Að auki flutti stöðin á Broadstreet ýmis veður- og flugtengd boð á milli stöðva beggja vegna Atlatnshafsins.

Broadstreet

Broadstreet 1958 – loftmynd.

Hús þetta var reist 1948 af bandarísku verktakafyrirtæki sem rak stöðina eftir stríð. Þar var hýst loftskeytasendistöð loftflutningadeildar Bandaríkjahers á árunum 1949 – 1955.”

Broadstreet

Broadstreet – loftmynd 2022.

Í útdrætti úr kaflanum “Fjarskipti varnarliðsins” í óbirtu handriti um sögu bandaríska varnarliðsins á Íslandi 1951–2006 eftir Friðþór Eydal segir eftirfarandi um Broadstreet og tengsl þess við önnur fjarskipti Bandaríkjahers:

Bandaríski flugherinn byggði á upphafsárum varnarliðsins fjarskipti sín á margskiptu kerfi Bandaríkjahers sem komið hafði verið upp á stríðsárunum og náði vítt um heiminn. Fjarskiptastöðin Broadstreed við Vogastapa á Reykjanesi var ein slíkra stöðva og þjónaði m.a. flugupplýsingakerfi og öðrum langdrægum fjarskiptum varnarliðsins ásamt móttökustöð í Camp Garrity skammt norðan við vesturenda austur-vesturflugbrautar Keflavíkurflugvallar.

Broadstreet

Broadstreet 2023.

Uppbygging langdræga sprengjuflugflotans (SAC) og tuga nýrra bækistöðva hans víða um heim krafðist þess að komið yrði upp nýju, sjálfstæðu fjarskiptakerfi og hófst uppsetning þess árið 1951. Hlaut það heitið U.S. Air Force Global Communications System – GLOBECOM – og byggði á neti öflugra fjarskiptastöðva um heim allan með fjölrásatengingum á helstu tíðnisviðum, þ. á m. langbylgju með háum loftnetsmöstrum sem hentuðu þó illa í námunda við flugvelli. Var nýrri GLOBECOM-sendistöð því valinn staður við rætur Þorbjarnarfells ofan við Grindavík.

Broadstreet

Broadstreet 2023.

Smíði stöðvarinnar hófst árið 1953 og var hún tekin í notkun árið eftir. Stöðin samanstóð af sendistöðvarbyggingu, rafstöð og íbúðar- og skrifstofuskála ásamt stuttbylgjuloftnetum af ýmsum gerðum og tveimur, 183 m (600 feta) og 244 m (800 feta) háum, langbylgjumöstrum sem gnæfðu yfir stöðinni og sáust víða að. Jafnframt var tekin í notkun ný fjarskiptamiðstöð og símstöð á Keflavíkurflugvelli.

Keflavíkurflugvöllur

Herstöðin á Miðnesheiði.

Var sendistöðinni í Broadstreet breytt í móttökustöð fyrir GLOBECOM-kerfið árið 1955 (USAF Strategic Receiver Station). Við þetta kerfi bættist síðan langdrægt talstöðvarsamband við flugvélar.”

Heimildir:
-Húsakönnun Patterson 2019, Helgi Biering, þjóðfræðingur.
-Útdráttur úr kaflanum Fjarskipti varnarliðsins í óbirtu handriti um sögu bandaríska varnarliðsins á Íslandi 1951–2006 eftir Friðþór Eydal.

Broadstreet

Broadstreet 2023.

Reykjanesviti

Fyrsti vitinn við Íslandsstrendur var byggður á Valahnúk á Reykjanesi árið 1878.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – grjóthleðsla neðan Valahnúks.

Við Bæjarfell má sjá tóftir frá þeim tíma sem og fallega hlaðinn brunn, sem gerður var um leið og vitinn sem og vitavarðahúsið. Flóraður stígur er frá því að vitagötunni uppá hnúkinn. Norðan Valahnúka er einnig hlaðin gata þangað sem grjót í vitann var sótt. Þá má sjá grunn af sjóhúsi, sem var notað sem birgðaskemma, ofan við Kistu norðan við Kistuberg u.þ.b. 2 km frá vitanum. Gamli Reykjanesvitinn, var endurnýjaður árið 1897 en hann hafði orðið fyrir skemmdum í jarðskjálftum. Vitinn stóð fram við sjávarbrún, þar sem bjargið stendur þverhnípt. „Nýi“ Reykjanesvitinn var byggður á árunum 1907-1908 á Bæjarfelli. Hann er mun stærri en sá gamli var og er 73 m. yfir sjávarmáli.

Í huga margra er starf vitavarðarins helgað ákveðnum ljóma og dulúð. Margir þjóðkunnir menn hafa gegnt slíku starfi um lengri eða skemmri tíma. Tækifærin á því að gegna starfi vitavarðar með fasta búsetu við vita í þjóðfélagi nútímans eru hverfandi. Sjálfvirkni vitabúnaðar og hagræðing í rekstri hefur séð til þess. Nú hefur verið lagt niður fast starf vitavarðar við Reykjanesvita, elsta vitastað landsins, en þar var byggður viti árið 1878. Þá lét af starfi Pétur Kúld Ingólfsson fyrir aldurs sakir. Í framtíðinni verður vitavarslan með öðrum hætti.

Reykjanesviti

Reykjanesvitar – fyrr og nú.

Af 105 ljósvitum sem Siglingastofnun rekur hringinn í kringum landið er nú aðeins einn vitavörður starfandi með fasta búsetu við vita sem hefur það jafnframt að aðalstarfi. Það er Óskar Sigurðsson á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Engin áform eru uppi um að leggja það starf niður enda sinnir Óskar mikilvægum veðurathugunum og rannsóknum auk vitavörslunnar.

Reykjanesviti

Frá sýningu við Reykjanesvita.

Eftirliti með vitum hefur að sjálfsögðu ekki verið hætt. Því er sinnt af bæði laus- og fastráðnu starfsfólki stofnunarinnar um allt land. Auk þess eru farnar viðhalds- og eftirlitsferðir frá Siglingastofnun. Á tveggja ára fresti er leigt út skip til þess að sinna viðhaldi á baujum og skerjavitum. Alls eru um 20-30 vitar sem ekki er hægt að nálgast frá landi.
Þann annan desember árið 2003 var þess minnst að 125 ár eru liðin frá því að fyrst var tendrað vitaljós á Íslandsströndum þegar nýreistur Reykjanesviti var formlega tekinn í notkun þann 1. desember 1878.

-skip.sigling.is/frettir_utgafa/til_sjavar1998_1/Reykjanesviti
-www.ntsearch.com/search.php?q=html&v=56″>html

Reykjanesviti

Reykjanesviti – uppdráttur ÓSÁ.

Steinabátar

Í bókinni “Steinabátar” fjallar höfundurinn, Sturlaugur Björnsson, um áletrunina H.P.P. á klettavegg ofan Helguvíkur í Keflavík:

Sturlaugur

Sturlaugur við áletrunina á berginu ofan Helguvíkur. (FERLIR 2003)

“Í gegnum árum hef ég átt ótal ferðir út á Berg, og vitað, að uppi af botni Helguvíkur er greypt fangamark í klettana þar fyrir ofan. Þegar við krakkarnir fórum í leiðangur og fórum þarna um, töldum við að þar stæði H.P.D. Á seinni árum fór ég að velta fyrir mðer, hvers vegna hans Pétur Duus hefði valið þennan stað. leturgerðina og tengingu stafanna má sjá í bryggjuhúsinu, þar eru þeir skrifaðir á þil með svertu, sem notuð var við merkingu á saltfiskpökkum.
SturlaugurEkki er ólíklegt, að H.P.D. (sonur Péturs Duus og konu hans Ástu Duus) hafi gert sér að leik, á sínum yngri árum, að skrifa fangamark sitt með þessum hætti, þar sem efni til þess var svo nærtækt. En að fara út á berg með hamar og meitil til að klappa fangamark sitt í forboðið land er nokkuð annað.
Það gerðist svo fyrir fáum árum, er ég átti leið þarna um, að ég skoðaði fangamarkið og viti menn, það hefur þá staðið þarna H.P.P.
SturlaugurFyrir nokkrum mánuðum er ég sem oftar að fletta í bókum Mörtu Valgerðar “Minningar frá Keflavíkur”, og er að skoða meðfylgjandi mynd, sem er sögð “Úr Duus verslun um 1900”. Í textanum með myndinni eru mannanöfn og eitt nafnanna er “Hans P. Pedersen bókhaldari”. Gæti verið um að ræða Hans Petersen, stofnanda ljósmyndavöruverslananna?
Nú veit ég að svo er, H.P.P. var í fóstri hjá yngri Duus hjónunum (H.P.Duus og Kristjönu Duus). Hægt er að hugsa sér Hans P. Petersen á yngri árum, einan á góðum degi með tól sín undir áhrifum þess sem fyrir augu hans hefur borið í bryggjuhúsinu, og grópa fangamark sitt á þessum þá kyrrláta og fallega stað.”

Heimild:
-Steinabátar, Sturlaugur Björnsson, H.P.P, útg. 2000, bls. 96.

Hans P. Petersen 1916-1977

Hans P. Petersen 1916-1977. Margir Íslendingar þekkja ljósmyndavöruverslunina Hans Petersen. Stofnandi búðarinnar, Hans Pétur Petersen (1873-1938), byrjaði verslunarferil sinn í Aðalstræti í H.P Duus en þar vann hann í tuttugu ár. Síðast sem forstjóri verslunarinnar í Reykjavík. Hann opnaði eigin verslun í Skólastræti árið 1907 en flutti fljótlega í Bankastræti og fór að höndla með ljósmyndavörur. Hann var umboðsaðili fyrir Kodak ljósmyndavörur. Fyrst höndlaði hann með nýlenduvöru og veiðarfæri og auk þess rak hann kaffibrennslu. Hann var einnig einn stofnenda Skipasmíðastöðvar Reykjavíkur.