Kalka

Á Háaleiti var varða sem er fyrst getið um í gömlu landamerkjabréfi frá 1270 en þar segir: „En lyngrifamörk skilur gata sú, er liggur fyrir innan Torfmýrar og upp á Háfaleiti til vörðu þeirrar, er stendur á leitinu þar, sem hæst er milli Kirkjuvogs, Njarðvíkur og Djúpavogs. En rekamörk millum Djúpavogs, Starness og Hvalsness skilur gróf sú, er verður fyrir innan klettana til hægri handar, er riðið er frá Kirkjuvogi.“

Kalka

Kalka.

Í örnefnaskrá frá Keflavík segir um vörðuna á Háaleiti: „Það voru til ýmis örnefni hérna í heiðinni, nálægt þar sem Flugturninn er, þar var kallað Háaleiti og Ameríkanarnir þýddu þetta á sitt tungumál og kölluðu það High Lady, en þar var varða í gamla daga, sem kölluð var Kalka, hún var hvít á litinn. Hennar er getið í þjóðsögum, því þar voru peningar grafnir, m.a., og þar sáu menn loga og loga, þar sem peningarnir voru. Þegar að var komið, þá var allt slokknað.“ Tvær frásagnir eru að minnsta kosti til um fjársjóð og draug á Háaleiti og hefur önnur þeirra verið birt í Rauðskinnu en hin í Lesbók Morgunblaðsins.

Í blaðinu Faxa segir eftirfarandi um vörðuna Kölku: „Þetta hérað [Keflavíkurflugvöllur] nær yfir 9200 ha. — sem var áður algjörlega óræktað heiðarland — sem ríkið tók með lögnámi af landi 5 hreppa: Hafnahreppi, Miðneshreppi, Gerðahreppi, Njarðvíkurhreppi og Keflavík, — og úr landi ca. 30 jarða. Endamörk þessara hreppa námu við Háaleyti og Kölku og hafi nokkrar landamæraerjur verið á þessum háheiðum — 167 fet hæst yfir sjávarmál — þá eru þær nú úr sögunni að eilífu, þar eð enginn veit nú hyrningarsteina þessa lengur.“

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur – flugturninn er þar sem Kalka var.

Í umfjöllun Hallgríms Th. Björnssonar í Faxa 1950 er að finna styttri umfjöllun og Kölkuvísur eftir Ágúst L. Pétursson. Þar segir: „Kalka er heiti á landamerkjavörðu sem stóð uppi á Háaleiti, þar nú er Keflavíkurflugvöllur og braggahverfi honum tilheyrandi. Einnig er þess getið til, að hún hafi verið notuð sem innsiglingarmerki á dögum Selstöðukaupmanna í Suðurnesjum. Varðan er sögð verið hvít kölkuð, svo að hún sæist langt að, og hefir hún dregið nafn þar af. Var þessi ævagamla varða við líði, þar til nú á stríðsárunum, að setuliðið jafnaði hana við jörðu. Rekur varðan raunir sínar í eintali því, sem hér fer á eftir. Kölkuvísur eru 15 erindi en hér á eftir eru aðeins birtur hluti þeirra.

Úr Kölkuvísum:
Eitt sinn var ég ung og fríð,
átti farfan hvíta.
Ýmsir þráðu alla tíð
upp til mín að líta.
Oft mér sendi sólin fríð,
signuð ástarskeyti.
Óðal mitt var alla tíð
upp á Háaleiti.
[…]
Villtum mönnum vegum á
vildi ég forða grandi.
Björgun veitti brögnum þá,
bæði á sjó og landi.
[…]
Stórveldis kom hingað her,
hertur fítons anda.
Ólmir vildu meina mér
á minni jörð að standa.

Hermenn þustu hingað, en
helgri ró ei skeyttu.
Óli Thórs og Bjarni Ben
björg mér enga veittu.

Hersins vakti harða geð
hrygð, en enga kæti,
sínum vítisvélum með
veltu mér úr sæti.

Byggð var reist við bústað minn,
bæði daga og nætur.
Missa þarna meydóm sinn
margar landsins dætur. […]

Varða þessi, sem nú er horfin, hefur verið landamerki jarða allt frá miðöldum, hreppamörk síðar meir, innsiglisvarða og áberandi kennileiti á háheiðinni á Háaleiti.

Heimildir:
-Brynjúlfur Jónsson, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, 18. árg. 1903, bls. 41.
-Örnefnaskrá Keflavík. Viðtal um Keflavík 1.
-Lesbók Morgunblaðsins, 12. júní 1949, bls. 290, og Jón Thorarensen, Rauðskinna, bls. 42-46.
-Jón Tómasson. „Keflavíkurflugvöllur og Keflavík“, Faxi, 12. árg. 1952, 5. tbl, bls. 70.
-Hallgrímur Th. Björnsson, Faxi, 10. árg. 1950, 1. tbl. bls. 8.
-Faxi, 10. árg. 1950, 1. tbl., bls. 8.

Kalka

Njarðvík – Kalka efst. Teikning Áka Grenz.