Færslur

Sandgerði

Í Alþýðublaðinu 17. sept 1965 skrifar Grétar Oddsson um “Sandgerði” – og birtir myndir af bænum.

“Sandgerði liggur vestan á Reykjanesskaganum og er um stuttan lágheiðarveg að fara frá Keflavík, ekki er það meira en svo sem tíu mínútna akstur. —

Sandgerði

Sandgerði 1965.

Heiðin er auðnarleg, eins og Reykjanesskaginn allur, en efst á henni er ratsjárstöð, með hvítum kúplunni, minnir í fljótu bragði á máríska virkisborg.

Sandgerði

Sandgerði.

Það fyrsta sem maður sér í Sandgerði er urmull af nýjum og fallegum íbúðarhúsum og þorpið hefur yfir sér þokkalegan svip, þrátt fyrir auðnarlegt og ívið kuldalegt umhverfið.

Sandgerði er ekki gamalt pláss, frekar en svo mörg önnur kauptún á Íslandi. Fyrstu drög að þorps myndun á staðnum munu hafa verið gerð, þegar Matthías Þórðarson, faðir Ástþórs Matthíassonar útgerðarmanns í Vestmannaeyjum, stofnaði þar til útgerðar með vélbáti rétt eftir aldamótin. Þá var ekki önnur byggð á staðnum, en jörðin Sandgerði og frá henni mun hafa verið sóttur sjór frá því hún byggðist. Hvenær það var, veit enginn og ekki er vitað til að hún sé landnámsjörð.

SandgerðiMesta útræði í nágrenni Sandgerðisjarðarinnar var um aldaraðir frá Stafnesi. Þaðan var ívið styttra á miðin, en sá litli munur var mikill á tímum áranna og seglanna. Þegar vélbátarnir komu til sögunnar var engin leið að koma þeim við á Stafnesi, vegna þess, hve höfn er þar ótrygg, en hins vegar er dágóð smábátahöfn frá náttúrunnar hendi í Sandgerði. Varð því úr að útgerðin fluttist þangað, en Stafnes lagðist af sem verstöð, þó að þar hafi efalaust vérið ein allra stærsta útgerðarstöð á landinu um aldabil.

Básendar

Básendavík.

Skammt sunnan við Stafnes stóð verslunarstaðurinn Básendar, þar til nóttina milli 8. og 9. janúar 1799, að staðurinn eyddist í ægilegu flóði, sem einnig eyddi þá verslunarstaðnum í Hraunhöfn á Snæfellsnesi, þar sem nú standa Búðir. Er þetta mesta flóð sem um getur á Suðurnesjum og jafnframt það afdrifaríkasta. Það mun hafa verið á Básendum, þar sem Skúli Magnússon síðar landfógeti var innanbúðar hjá Danskinum og neitaði að pretta viðskiptavinina.

SandgerðiNæst kemur það sögu Sandgerðis að árið 1913 selur Matthías Þórðarson Lofti Loftssyni útgerðarmanni aðstöðu sína í verstöðinni og skömmu síðar settist Haraldur Böðvarsson þar að með sinn útgerðarrekstur og einnig fleiri. Haraldur var í Sandgerði um skamma hríð milli þess sem hann hætti útgerð frá Vogum á Vatnsleysuströnd og flutti til Akraness. Segir sagan að meðan Haraldur stóð við, hafi verið hörð keppni milli hans og Lofts um útgerðaraðstöðuna í landi. Ekki fer hjá því að öll þessi umbrot í útgerðinni hafi kallað á hafnarframkvæmdir og var fyrst gerð trébryggja og bólverk, en byrjað var á núverandi hafnargarði einhvern tímann á árunum upp úr 1940 og er hann nú orðinn 300 metra langur.”

Sandgerði

Sandgerði – Hamarssund.

Innsiglingin inn til Sandgerðis hefur löngum verið örðug stærri bátum. Hafa þeir gjarnan orðið að sæta sjávarföllum til að komast út og inn um Hamarssund, en svo heitir innsiglingin. Síðan 1962, eða sl. 3 ár hefur stöðugt verið unnið að hafnarbótum. Garðurinn lengdur um 42 metra og Grettir hefur unnið að dýpkun á sundinu 4-6 mánuði á ári hverju. Það er seinunnið verk og erfitt, enda stórgrýtt í botni. Til þessa hafa framkvæmdirnar kostað um 20 milljónir króna.

Sandgerði

Bátar í vör.

Sú sögn er til um Hamarssund að þar eigi aldrei að farast skip, en sá fyrirvari fylgir, að fara verði rétt í sundið. Þjóðsagan segir, að kerling ein, sem bjó á Bæjarskerjum hafi átt börn tvö, pilt og stúlku. Þeim barst á í sundinu og fórust bæði. Kerlingu varð svo um þetta slys, að hún mælti svo um, að aldrei skyldi farast þar skip, væri rétt farið. Boðar tveir, sem eru norðan og sunnan við sundið heita eftir börnum kerlingar, Þorvaldur og Bóla. Raunin hefur líka orðið sú, að bát hefur aldrei svo vitað sé hlekkst á í sundinu sjálfu, en komið hefur fyrir að borið hefur út úr því og getur þá verið tvísýnt um afdrifin.

SandgerðiVerslunarstaður myndaðist fyrst í Sandgerði um leið og útgerð hófst þaðan, eða á árunum 1907-1908 og þar hefur verið verslað stöðugt síðan. Búsettu fólki fer fyrst að fjölga fyrir alvöru á árunum upp úr 1940 og nú eru um 1000 íbúar í Miðneshreppi, en svo heitir sveitarfélagið.

Hér áður á árum var fjörugt verbúðalíf í Sandgerði. Þá mátti heita að tvöföld áhöfn væri á hverjum báti. Helmingur áhafnarinnar var í landi og beitti línuna, gerði að fiskinum og vann önnur aðkallandi störf, en sjómennirnir réru yfirleitt með skrínukost. Þá hafði hver bátur sína verbúð, þar sem mennirnir nutu svefns og matar og höfðu ráðskonu til halds og trausts. —

Sandgerði

Sandgerði – vitinn.

Yfirleitt voru verbúðir þannig innréttaðar að fiskhús og beitingaaðstaða var niðri, en íbúðir uppi. Frægust hrakningasaga tengd við Sandgerði, er um það, þegar vélbáturinn Kristján hraktist vélarvana um hafið í vondum veðrum í hálfan mánuð eða meira og var löngu búið að telja hann af. Þá bjarg það lífi áhafnarinnar, að vélstjórinn hafði fengist eitthvað við brugg og gat eimað drykkjarvatn úr sjó í litlum mæli þó. Þegar þeir loks gátu hleypt bátnum á land við Stafnes í vitlausu veðri voru þeir búnir að brenna hann hér um bil upp til agna til að halda þessari einstæðu bruggun í gangi.

SandgerðiNú hefur orðið ákaflega mikil breyting á. Verbúðalífið, eins og það þekkist fyrr á árum er að mestu horfið, enda línuvertíð úr sögunni svona hér um bil. Nú munu skráðir 10 stórir vélbátar í Sandgerði og urmull smærri báta og trilla. Sú var þó tíðin, að vertíðarbátar voru þar miklu fleiri, en smærri. 1918 voru til dæmis gerðir 90 bátar út frá Sandgerði, en ekki voru það allt merkilegar fleytur að stærðinni til. Nú landa 40—60 bátar í Sandgerði á hverri vertíð, en sú breyting hefur orðið á, að bátarnir eru lausari við en áður og geta notfært sér löndunarmöguleika víðar jafnframt. –

Sandgerði

Sandgerði – fræðasetur.

Fyrir tveimur árum eða svo byggði Guðmundur Jónsson á Rafnkelsstöðum síldarverksmiðju í Sandgerði, þá fyrstu á staðnum. Fyrir var lítil beinamjölsverksmiðja,- sem Garðar h.f. hafði reist í upphafi, en Guðmundur keypti hána og stækkaði og breytti. Bátar hans lenda allir í Sandgerði, þó að þeir séu skráðir í Garðinum.

Aðal útgerðarfélögin á staðnum í dag eru Miðnes og Garður: Miðnes er stöðin sem Haraldur Böðvarsson byggði upphaflega, en Guðmundur á Rafnkelsstöðum á Garð, sem Matthías Þórðarson lagði grundvöllinn að, og Loftur Loftsson eignaðist síðar.

Sandgerði

Sáðgerði í Sandgerði.

En þetta eru aðeins stærstu aðilarnir sem reka útgerð frá Sandgerði. Aðrir minni eru ótaldir, fyrirtæki eins og Djúpáll h.f., Arnar h.f. og Barðinn á Húsavík, sem á útgerðaraðstöðu í Sandgerði. Og líklega eru þeir fleiri.

Sandgerði

Sandgerði – höfnin.

Þó að Sandgerðishöfn hafi nú í áraraðir ekki verið talin með öndvegishöfnum landsins, er nú svo komið eftir stöðugar hafnarbætur og dýpkun á innsiglingunni, að hafskipafært er orðið inn á glóði. 1000-1500 tonna skip geta hiklaust farið þar inn og athafnað sig við garðinn, sem er öruggur legugarður í öllum veðrum. Sú tíð er löngu liðin að formenn flýðu með báta sína frá garðinum og út á leguna í vondum veðrum.

Sandgerði

Sandgerði – erfið innsigling.

Geysimikið er byggt af húsum í Sandgerði, ekki síður en annars staðar á SV landi. Þar eru að rísa, eða eru risin stór hverfi af fallegum einbýlishúsum og óðum er verið að snyrta til í kringum þau.
SandgerðiÁður en langt um líður verður subbuskapurinn, sem löngum hefur auðkennt íslensk útgerðarpláss horfinn með öllu og ekkert eftir sem minnir á bernskuárin annað en rauðu Miðneshúsin, sem eru hvað mest áberandi umhverfis höfnina og upp af garðinum.

Sveitarstjóri í Sandgerði er Þórir Sæmundsson, ungur maður. Hann fræddi okkur um það helsta sem er á döfinni hjá sveitarfélaginu. Hafnarbæturnar hafa að sjálfsögðu verið kjarni framkvæmdanna, en margt fleira kemur til. Sveitarfélagið er að láta reisa áhaldahús niðri á fjörukambinum alllangt innan við höfnina, en þar á kambinum er líka að rísa nokkur fjöldi fiskverkunarhúsa. Suðurgata, sem er aðalgata bæjarins og sú sem fyrst er komið á ofan af heiðinni verður malbikuð í haust.

Bygging íþróttahúss átti að hefjast í sumar, en sú framkvæmd var stöðvuð af ríkisvaldinu, en Þórir fullyrðir að byrjað verði á því næsta sumar. Þá er verið að virkja nýtt vatnsból og verður neysluvatn þá bæði nægt og gott.

Sandgerði

Sandgerðishöfn í dag.

Borað var eftir vatninu og gekk það vel. Þá hefur verið lokið við að leggja Vallargötu.

Mjög knýjandi nauðsyn er að stækka barnaskólann og verður það gert eftir að íþróttahúsið hefur verið reist. T.d. um þann fjölda sem sækir skóla í Sandgerði má taka, að íbúar Miðneshrepps eru í dag 1031, en þar af eru ekki nema tæp 500 á kjörskrá, þannig, að meira en helmingur íbúanna er innan við 21 árs aldur. Í sambandi við þetta má svo geta þess, að skólastjórabústaður hefur verið endurnýjaður.

Sandgerði

Sandgerði – loftmynd.

Þá er talið það helsta sem bæjarfélagið, eða eigum við heldur að segja sveitarfélagið, hefur á sinni könnu í bili og er þá ekki minnst á eilífðarmál hvers bæjarfélags, eins og vatns og skolplagnir.

Til þessa hefur lítið verið um annan iðnað í Sandgerði en fiskiðnaðinn einan og má eiginlega segja, að svo sé enn. Þó eru nú sem óðast, eftir því sem bærinn vex örar að spretta upp þjónustufyrirtæki við útgerðina og byggingariðnaðinn, vélsmiðjur, trésmiðjur og þess háttar.”

Heimild:
-Alþýðublaðið 17. sept. 1965, Sandgerði, Texti og myndir: Grétar Oddsson, bls. 7-10.

Sandgerði

Frá Sandgerðishöfn.

Grímsvarða

Þriðjudaginn 23. desember 2014 mátti lesa eftirfarandi í Víkurfréttum:

Guðmundur

Guðmundur Sigurbergsson.

“Grímsvarða við Sandgerðisveg hefur verið endurreist og er nú minnisvarði um þá sem látist hafa á Miðnesheiði. Það var fyrir tilstuðlan þeirra Guðmundar Sigurbergssonar og Sigurðar Eiríkssonar í Norðurkoti að varðan var endurreist.

Þeir Guðmundur og Sigurður eru áhugamenn um sögu Miðnesheiðar og hafa m.a. endurhlaðið vörður á þjóðleiðinni yfir heiðina.

Miðnesheiði er mannskæðasta heiði landsins og í kirkjubókum á Útskálum eru nafngreindir næstum 60 einstaklingar sem orðið hafa úti á heiðinni í aldanna rás. Talið er að þeir séu mun fleiri. Nú er Miðnesheiði sakleysisleg á að horfa en ástæða þess að svo margir hafa orðið úti þar er að heiðin veitir lítið skjól og þar eru fá kennileiti og því var auðvelt að villast þar á árum áður þegar hverrgi sást til ljósa.

Heimild:
-https://www.vf.is/frettir/minnisvardi-um-latna-a-midnesheidi-1

Grímsvarða

Á hinni nýju Grímsvörðu er kross sem Guðmundur Sigurbergsson byrjaði að höggva til á Þorláksmessu 2013.

 

Sandgerði

Nokkur minnismerki eru í Suðurnesjabæ; Garði og Sandgerði.

Eggert Gíslason (1927-2015)

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Eggert Gíslason.

Hann gerði Garðinn frægann
Eggert Gíslason, skipstjóri, fæddist 12. maí 1927 í Kothúsum í Garði. Foreldrar hans voru Gísli Árni Eggertsson skipstjóri og Hrefna Þorsteinsdóttir kona hans.
Eggert lauk fullnaðarprófi frá Gerðaskóla 1940 og fiskimannaprófi hinu meira frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1949.
Hann hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1964. Aflakóngur árið 1952 á Víði GK-510. Varð aflakóngur 1957 á Víði II og margfaldur aflakóngur í heimaverstöð og á landsvísu árin 1955-1959.
Eggert var frumkvöðull í notkun ýmissa tækninýjunga. Hann notaði dýptarmæli til að finna síldina og kastaði síðan nótinni eftir skrúfuvatninu. Þá varð Eggert fyrstur íslenskra skipstjóra til að ná verulegum árangri í notkun ASDIC-fiskileiktartækis, en með asdicinu var hið fullkomna fiskileitartæki komið til sögunnar. Þá var Eggert í hópi frumherja við notkun kraftblakka á síldveiðum.

Minnisvarðinn stendur við Byggðasafnið í Garði sunnan við Reykjanesvita.

Þormóðsslysið 1943

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Þormóðsslysið.

Þormóðsslysið varð 18. febrúar 1943. Vélskipið Þormóður BA 291 frá Bíldudal fórst við Garðskaga 18. febrúar 1943 eftir langa og stranga baráttu í óveðri á utanverðum Faxaflóa. Með skipinu fórst þrjátíu og einn, tuttugu og fjórir farþegar og sjö í áhöfn. Fern hjón voru í hópi farþega og eitt barn.

Skipverjar á Þormóði BA 291:

Gísli Guðmundsson, skipstjóri
Bárður Bjarnason, stýrimaður
Lárus Ágústsson, 1. vélstjóri
Jóhann Kr. Guðmundsson, 2. vélstjóri
Gunnlaugur Jóhannsson, matsveinn
Björn Pétursson, háseti
Ólafur Ögmundsson, háseti.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Þormóðsslysið.

Farþegar úr Dalahreppi:

Benedikta Jensdóttir
Guðbjörg Elíasdóttir

Farþegar frá Patreksfirði:

Séra Þorsteinn Kristjánsson
Þórður Þorsteinsson

Farþegi frá Hvammstanga:

Guðmundur Pétursson

Farþegar frá Bíldudal

Ágúst Sigurðsson
Jakobína Pálsdóttir
Áslaug Jensdóttir
Bjarni Pétursson
Fjóla Ásgeirsdóttir
Gísli Kristjánsson
Séra Jón Jakobsson
Jón Þ. Jónsson
Karl Eiríksson
Kristján Guðmundsson
Indíana Jónsdóttir
Loftur Jónsson
Málfríður Jónsdóttir
Óskar Jónsson
Salóme Kristjánsdóttir
Þorkell Jónsson
Sigríður Eyjólfsdóttir
Bjarni 7 ára sonur Sigríðar og Þorkels
Þorvaldur Friðfinnsson

Minnisvarðinn er á Garðskaga, á sjóvarnargarðinum skammt frá vitanum og var afhjúpaður árið 2023.
Annar minnisvarði um Þormóðsslysið er á Bíldudal.

Hallgrímur Pétursson (1614-1674)

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Hallgrímur Pétursson.

Prestur og sálmaskáld, hann var þekktastur fyrir Passíusálmana.

Hallgrímur fæddist árið 1614 í Gröf á Höfðaströnd, en ólst upp á Hólum. Hann fór til iðnnáms til Danmerkur og Þýskalands um 1630. Hann lærði járnsmíði og steinsmíði en kom síðar til Kaupmannahafnar og stundaði þar nám í Frúarskóla. Í Kaupmannahöfn kynntist hann Guðríði Símonardóttur sem kom til Kaupmannahafnar ásamt fleirum sem rænt var í Tyrkjaráninu 1627. Þau felldu hugi saman og komu til Íslands 1637 og settust þau að á Bolafæti í Njarðvík (sjá næsta minnisvarða).
Hallgrímur varð prestur í Hvalsnesi árið 1644 og bjó þar til 1651 og líkaði Hallgrími þunglega vistin þar. Honum fæddist dóttir þar, Steinunni, en hún dó ung og varð föður sínum mikill harmdauði. Hallgrímur gerði legstein yfir gröf Steinunnar og er steinninn nú í Hvalsneskirkju. Lengi vel var steinninn týndur en fannst um miðja 20. öld í kirkjustéttinni á Hvalsnesi.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Magnús Magnússon.

Árið 1651 fékk Hallgrímur veitingu fyrir Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Þar líkaði honum visitin vel og þar bjó hann og þjónaði til dauðadags. Í Saurbæ orti hann Passíusálmana og aðra sálma sem enn eru sungnir.

Minnisvarðann, sem er við Hvalsneskirkju, gerði Páll Guðmundsson á Húsafelli.

Magnús Magnússon (1915-1994)
Í Listigarði norðan garðvegar er grágrýtissteinn. Á honum er skjöldur: “Til minningar um Magnús Magnússon Bræðraborg, f. 29. ágúst 1915 – d. 26. 4. 1994.
Garður þessi er gefinn bæjarfélaginu Garði á 90 ára árstíð Magnúsar sem var mikill áhugamaður um ræktun og umhverfi. Gefendur eru: Unnur Björk Gísladóttir og afkomendur þeirra hjóna.”

Sigurður B. Sivertsen

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Sigurður Sívertsen.

Sóknarprestur á Útskálum f. 2.11.1808 – d. 24.5.1887.
Stofnandi Gerðaskóla 1872.

Sveitarstoð og styrkur
stöðugt reyndist hann
landiog lýð til heilla
lífsstarf fagurt vann.

Sigurður B. Sívertsen (f. 2. nóvember 1808 í Seli í Reykjavík, d. 24. maí 1887 á Útskálum í Garði), var prestur á Útskálum.

Hann var sonur hjónanna Brynjólfs Sívertsens (Sigurðssonar) prests á Útskálum (áður dómkirkjuprests í Reykjavík og prests í Holti undir Eyjafjöllum) og Steinunnar Helgadóttur konu hans. Sigurður var vígður aðstoðarprestur föður síns með konungsundanþágu vegna aldurs þann 18. september 1831. Hann bjó á Gufuskálum í Leiru 1833 en tók við Útskálum af föður sínum 1. mars 1837 og var prestur þar til ársins 1886, þá orðinn blindur. Kona hans var Helga Helgadóttir (1809-1882) og komust 3 barna þeirra upp. Hálfbróðir Sigurðar var Helgi G. Thordersen biskup, en þeir voru sammæðra.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Sigurður Sívertsen.

Séra Sigurður var mikill og góður búmaður og hlaut verðlaun bæði frá Búnaðarfélagi Suðuramts og frá danska landbúnaðarfélaginu. Hann var forgöngumaður um stofnun barnaskóla í Garði, sem hefur starfað þar óslitið frá árinu 1872. Hann varð riddari af Dannebrog árið 1874. Sigurður var ötull og vel metinn og góður kennimaður. Hann stundaði ritstörf alla tíð á meðan hann hélt sjón og eftir að hann varð blindur lét hann skrifa fyrir sig. Eftir hann liggja æviminningar, greinar í blöðum, Suðurnesjaannáll og Bæjaannáll í Útskálaprestakalli auk fleiri rita sem ekki hafa verið gefin út.

Minnisvarðinn stendur framan við Gerðaskóla.

Minnisvarði til minningar um drukknaða sjómenn

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; minnismerki um drukknaða sjómenn.

Leiði óþekkta sjómannsins í Útskálakirkjugarði. Við minnisvarðan er skilti: “Árið 1946 fannst sjórekið lík í Lambastaðavör í Garðahreppi. Lík þetta var þannig á sig komið að það var með öllu óþekkjanlegt.
Við kistulagningu atvikaðist það svo að ekki náðist til prests, en Þorlákur Benediktsson í Akurhúsum flutti þar hugnæma bæn.
Var líkið svo jarðsett í Útskálakirkjugarði og hefur leiði þess síðan verið leiði hins óþekkta sjómanns.
Þessi frásögn birtist í jólablaði Faxa árið 1960.”

Súlan er fagurlega skreydd. Undir henni eru nokkrir skildir með nöfnum drukkaðra sjómanna.

Jón Forseti RE 108

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Jón forseti.

Minnismerkið er skjöldur á grágrýti. Ofan á því er eftirmynd af togaranum. Á skildinum stendur: “28. febrúar 1928 strandaði togarinn Jón Forseti RE 108. Togarinn strandaði á skerinu Kolaflúð sem er beint framunan Stafnesvita. 15 manns fórust og 10 menn björguðust við illan leik.
Strandið varð til þess að flýta stofnun Slysavarnafélags Íslands.
23. júní sama ár var Slysavarnasveitin Sigurvon stofnuð í Sandgerði og er hún elsa sveit innan SVFÍ.
Jón Forseti var fyrsti togarinn sem smíðaður var fyrir Íslendinga.

Blessuð sé minning þeirra sem fórust í þessu slysi.”

Minnisvarðinn stendur við bifreiðastæði skammt frá Stafnesvita og var upphaflega afhjúpaður árið 2009. Við minnisvarðann eru 15 stórir steinar sem tákna þá 15 sem fórust við strandið.

Minnisvarði um drukknaða sjómenn

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; mnnismerki um drukknaða sjómenn.

Minnisvarðinn eru þrír stuðlabergsstandar. Við þá er skilti: “Minnisvarði um drukknaða sjómenn.

Þegar brotnar bylgjan þunga
brimið heyrist yfir fjöll,
þegar hendir sorg við sjóinn
syrgir tregar þjóðin öll. – J. Magnússon.”

Minnisvarðinn var reistur á Sjómannadaginn 1999.
Varðinn er verk systkinanna Írisar Jónsdóttur og Þorsteins Jónssonar og var reistur að frumkvæði Axels Arndal Vilhjálmssonar, formanns sjómannadagsráðs Sandgerðis. Undir minnismerkinu eru steinar og skidir með nöfnum horfinna sjómanna.

Minnisvarðinn stendur nyrst í Hvalsneskirkjugarði.

Álög – Minnisvarði um drukknaða

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Álög.

Horfnir sjómenn Sandgerði – Minnisvarði um drukknaða í Sandgerði.
Minnisvarðinn er eftir Steinunni Þórarinsdóttur og var afhjúpaður á Sjómannadaginn 1986 í tilefni af 100 ára afmæli Miðneshrepps.
Þrjár rústfríar öldur tákna að hafið sé eilíft, en maðurinn er úr pottstáli og ryðgar, sem táknar að maðurinn sé forgengilegur.

Minnisvarðinn stendur við innaksturinn í Sandgerði, sunnan Sandgerðisvegar skammt norðan íþróttasvæðisins.

Grímsvarða

Grímsvarða

Suðurnesjabær – minnisvarði; Grímsvarða.

Á minnsivarðanum er skjöldur: “Grímsvarða endurreist 2014.
Til minningar um þá sem látist hafa á Miðnesheiði. Vörðurnar voru tvær”.

Grímsvarða eða Grímsvörður við Sandgerðisveg voru sunnan vegarins, skammt frá gamla Sandgerðisveginum. Vörðurnar voru fjarlægðar þegar nýi Sandgerðisvegurinn var lagur. Varða á þeim stað hefur nú verið endurreist og er nú minnisvarði um þá sem látist hafa á Miðnesheiði. Það var fyrir tilstuðlan þeirra Guðmundar Sigurbergssonar og Sigurðar Eiríkssonar í Norðurkoti að varðan var endurreist.

Þeir Guðmundur og Sigurður eru áhugamenn um sögu Miðnesheiðar og hafa m.a. endurhlaðið vörður á þjóðleiðinni yfir heiðina, s.s. Einmenningshólsvörðu, Gotuvörðu og Efri-Dauðsmannsvörðuna gegnt Vegamótahól.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Grímsvarða.

Miðnesheiði er mannskæðasta heiði landsins og í kirkjubókum á Útskálum eru nafngreindir næstum 60 einstaklingar sem orðið hafa úti á heiðinni í aldanna rás. Talið er að þeir séu mun fleiri. Nú er Miðnesheiði sakleysisleg á að horfa en ástæða þess að svo margir hafa orðið úti þar er að heiðin veitir lítið skjól og þar eru fá kennileiti og því var auðvelt að villast þar á árum áður þegar hvergi sást til ljósa.

Prestsvarða

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Prestsvarða.

Sagt var, að síra Sigurður Sívertsen, sem prestur var á Útskálum fyrrum, hafi einhverju sinni verið þarna á ferð að vetrarlagi. Kom hann úr Keflavík og ætlaði heim til sín að Útskálum. Talið var að leiðin væri tveggja tíma gangur eða meira eftir þeim vegi sem þá var farinn. En við lestagang voru allar vegalengdir miðaðar á þeim tímum. Þegar prestur kom út á móts við miðja Leiru villtist hann af leið. Fannst honum líðan sín þannig að hann treystist ekki til þess að halda áfram ferðinni. Prestur tók það ráð að leggjast fyrir og vera kyrr alla nóttina. Nokkru síðar lét síra Sigurður hlaða upp vörðu á þessum stað. Var hún ferstrend eins og margar grjótvörður. En eitt var það, sem gerði hana frábrugðna öðrum vörðum. Á hlið þeirri sem að austri snéri var allstór flöt hella sem á var höggvið sálmavers.

Leturhella er við Prestsvörðuna. Á hana er letrað:

“1876 21.JAN Í FRIDI LEGST ÉG
FYRIR Í FRIDI ER ÉG ÞVÍ ÞÚ
EINN DROTTINN ERT ÞAÐ SEM
LÆTUR MIG BÚA ÓHULTAN Í NÁÐUM.”

Framangreint vers er greinilega úr Davíðsálmi 4. kafla 9. vers: „Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum.”

Varðan er skammt sunnan við gamla Garðveginn sunnan Leirunnar.

Ólafur Jónsson (1853-1920) – Einar Ólafsson (1877-1925)

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Ólafur Jónsson.

“Til minningar um Ólaf Jónsson (stóra) frá Kotvogi í Höfnum f. 19.10.1853, d. 31.12.1920.
Makar: Sólveig Einarsdóttir Kötluhóli Leiru og Ingibjörg Tómasdóttir Naustakoti Hvalsnesi.

Einar Ólafsson frá Klapparkoti Miðneshreppi f. 8.9.1877 d. 30.7.1925.
Maki: Ágústa Jónsdóttir Réttarholti Skagaströnd.
Blessuð sé minning þeirra.”

Minnisvarðinn, steinn með skilti er sýnir framangreinda áletrun stendur í Útskálakirkjugarði.

Efri-Dauðsmannsvarða

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Efri-Dauðsmannsvarða.

Vestan við Vegamótahól, þar sem voru gatnamót Sandgerðisgötu og Bæjarskersvegar, liggur gatan undir nýja Sandgerðisveginn, en kemur aftur undan honum í Draugaskörðum. Ofan við þau eru t.d. endurhlaðin Efri-Dauðsmannsvarðan. Þar liggur hann áfram til suðurs framhjá Dynhól. Fallnar vörður eru vinstra megin götunnar svo til alla leið upp að Gotuvörðu. Á þeirri leið fer gatan aftur undir Sandgerðisveginn, liggur síðan samhliða honum spölkorn, og fer þá enn á ný undir hann til vesturs.

Vegmótahóll er nefndur eftir vegamótum Bæjarskersgötu og Sandgerðisgötu, sem þar eru sunnan hans. Sandgerðisgata er greinileg með sunnanverðum Vegamótahól og þar sem hún liggur vestur með hólnum, yfir slóða og í gegnum lúpínubreiðu. Handan hennar er hann vel greinilegur og víða hefur verið kastað upp úr veginum. Norðar sést vel til Digruvörðu í heiðinni.

Efri-Dauðsmannsvarða er sunnan Sandgerðisvegar og sést vel frá veginum, innan girðingar beitarhólfsins.

Neðri-Dauðsmannsvarða

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Neðri-Dauðsmannsvarða.

Skammt vestar og sunnan við Sandgerðisveginn gamla er vörðubrot; Dauðsmannsvarðan neðri. Þar segir sagan að maður hafi orðið úti, líkt og svo margir aðrir á Miðsnesheiði í gegnum tíðina. Auk hins hefðbundna segir sagan að þar eigi að vera áletrun á steini. Sú áletrun hefur enn ekki fundist þrátt fyrir ítrekaða leit.

Til fróðleiks er rétt að geta þess að auk Dauðsmannsvarðanna efri og neðri, er til Dauðsmannsvarða í heiðinni við Fuglavíkurleiðina. Henni er gerð nánari skil í annarri FERLIRslýsingu.

Neðri-Dauðsmannsvarða er fallin og sést einungis ógreinlega þar sem hún hverfur í móann vestan Vegamótahóls.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Dauðsmannsvarða.

Dauðsmannsvarða ofan við Bjarghús
Enn ein Dauðsmannsvarðan er í heiðinni ofan við Bjarghús. Hún stendur nokkuð heil enda hafði Sigurður Eiríksson í Norðurkoti lappað duglega upp á hana. Varðan er ekki við þekkta leið, en er eftir sem áður þannig staðsett að greiðfært hefur verið þarna yfir heiðina millum Keflavíkur og Fuglavíkurhverfisins.

Fornmannaleiði í Garði – Haugbúinn
Skammt frá bænum Vegamótum í Garði, sem nú er kominn í eyði, er stór steinn, hellulaga, og eru undir og við hann þrír steinar, sem hann hvíldi áður á. Munnmæli eru um, að eitthvert torráðið fornletur hafi verið á steininum. Ef vel er að gáð má sjá leifar áletrunarinnar þvert yfir steinhelluna. Hún virðist vera sem rúnir, en hefur hingað til verið ólæsileg þeim er til þekkja. En sögn er, að undir þessum steini hvíli fornmaður nokkur, og steininn megi alls ekki hreyfa.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Haugbúinn.

Nú er það á öldinni sem leið, að á Lykkju í Garði bjó Þorsteinn Ólafsson, faðir Björns hafnsögumanns í Hafnarfirði og afi sér Þorsteins Björnssonar fríkirkjuprests í Reykjavík. Þorsteinn Ólafsson var framkvæmdamaður mikill og kappsfullur. Eitt sinn stóð hann í einhverjum byggingum og vantaði tilfinnanlega stóran stein. Kom honum þá í hug að steinninn á leiði fornmannsins mundi henta sér ágætlega. Þorsteinn vissi þó hverjar sagnir gengu um steininn, að hann mætti ekki hreyfa, því að þá mundi illt hljótast af. En hann var maður ófælinn og kjarkmikill og lét sér ekki smámuni fyrir brjósti brenna, enda var hann hið mesta karlmenni. Varð það svo úr, að hann safnaði mönnum til að bera steininn heim, og urðu þeir 8 saman. En steinninn var svo þungur, aðþeir áttu fullt í fangi með hann, enda þótt þeir væru svo margir. Eftir mikið og langt erfiði komu þeir honum þó á þann stað, en Þorsteinn hafði ætlað honum.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Haugbúinn.

Eftir að þessu stórvirki var lokið, var Þorsteinn að vinna eitthvað úti við. Skyndilega syfjaði hann þá svo mjög, að hann mátti ekki halda sér vakandi. Fór hann því heim, gekk upp á baðstofuloft, hallaði sér upp í rúm og var þegar sofnaður. Dreymir hann þá, að upp úr baðstofustiganum kemur maður, stór og aðsópsmikill, og skipar honum harðalega að skila steininum þangað sem hann var tekinn. Þorsteinn hrökk upp við þetta og þóttist sjá á eftir manninum niður stigann.

Var Þosteinn nú glaðvaknaður. Ekki setti hann þetta neitt fyrir sig, heldur fór á fætur og gekk út til vinnu sinnar, sem hann hafði frá horfið.

En hér fór sem áður, að skyndilega sækir hann svefn svo að hann má ekki halda sér vakandi. Lagðist hann þá út af og sofnaði skjótt. Kemur þá sami maðurinn að honum aftur og er nú enn byrstari í bragði, er hann skipar Þorsteini að skila steininum. Þorsteinn hrekkur upp við þetta og íhugar draum sinn. En vegna þess að hann trúði ekki á neina fyrirburði, ætlaði hann að humma þetta fram af sér. Og enn fer hann til vinnu sinnar.
Fór nú sem fyr, að brátt syfjar hann svo, að hann má ekki annað en leggjast til svefn og sofnar þegar. Kemur hinn ókunni maður þá til hans í þriðja sinn og er nú ærið gustmikill. Gengur hann að Þorsteini, tekur um fót hans og kreistir fast og segir að honum skuli hefnast fyrir, vilji hann ekki skila steininum.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Haugbúinn.

Nú vaknar Þorsteinn og er honum þá nokkuð brugðið. Finnst honum sem hinn ókunni maður haldi enn heljartaki um fót sinn. Og rétt á eftir laust æðisverk í fótinn, svo hann mátti varla bera þær kvalir hljóðalaust.
Hann sagði nú konu sinni frá draumum sínum, en hún sagði að steininn skyldi þegar flytja á sinn stað. Þorsteini var ekki um það, vildi ógjarna láta undan því er hann kallaði draumarugl. En ú varð konan að ráða.

Voru þá fengnir menn til að flytja steininn aftur á sinn stað, og urðu þeir fjórir saman.
Einn af þessum mönnum hét Stefán Einarsson og var frá Króksvelli í Garði. Hann sagði mér svo frá síðar, að þeim hefði virzt steinninn mjög léttur og veitzt miklu auðveldara fjórum að bera hann en þeim 8, sem höfðu sótt hann.
Síðan hefur enginn hróflað við steininum.

Við fornleifauppgröft á hólnum, sem letursteinninn liggur undir, fyrir nokkrum árum kom í ljós að þar er enga dys að finna, einungs grjótklöpp.

Ellustekkur í Garði

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Ellustekkur.

Skammt ofan við þjóðveginn í gegnum Leiruna er lítill grasi gróinn hóll eða þúfa, sem kölluð er Elínarstekkur (Ellustekkur). Það var að sögn heygð Elín, niðursetningur frá Gufuskálum, sem dó á dularfullan hátt á 18. öld.

Sögu þessa og staðsetningu stekksins hef ég eftir ábendingum Ólafs Sigurjónssonar frá Litla-Hólmi.
“Þegar bílvegur var lagður um Leiruna, um og eftir 1920, var honum valið stæði ofan við byggðina, skammt austan við Elínarstekk. Þessi vegur var síðan breikkaður, eins og fleiri þjóðvegir á árum seinni heimstyrjaldarinnar, og náði þá uppundir stekkinn.

Ellustekkur

Ellustekkur.

Það var sumarið 1787 að Elín Stefánsdóttir, blásnauður niðursetningur á Gufuskálum, fannst örend í snærisspotta í hjalli þar skammt frá bænum. Vegna deilna hennar og vinnumanns, þar á bænum, þótti dauði hennar ekki einleikinn.

Haldgóðar vísbendingar fengust þó ekki um að Elín hafi verið myrt, þrátt fyrir réttarhöld. Þess vegna var talið að hún hefði tekið líf sitt í skyndilegu æði, sem að hefði borið um nótt.
Elín var því, samkvæmt kirkju- og landslögum, heygð utan vígðrar moldar og var holað niður utan túngarðs í Leirunni, í sauðfjárstekk frá bænum á Gufuskálum.

Ellustekkur er sunnan Garðvegar, skammt austan Garðs.

Gerðaskóli – Skólinn í Garði

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Gerðaskóli.

Veturinn 1871-72 gekkst Sigurður fyrir því að bændur í Garði hlaði veggina í skólann í Gerðum. Voru það heljar þykkir veggir úr grjóti, utan og innan og sandur á milli. Auk aðalhússins voru byggð baðstofa með þriggja rúma lengd, þrjú rúm hvoru megin, var hún upphaflega ætluð börnum sem sóttu skólann lengra að. Aftan við hana var feykimikið eldhús handa skólanum. Þessar byggingar stóðu þar sem nú heitir í Fjósum eða Skúlhúsum. Húsaskipan var svo háttað, að tvær kennslustofur voru niðri og loft uppi til íbúðar fyrir kennara, en efst var hanabjálki. Var byggingunni lokið á öndverðu hausti árið 1872.
Gerðaskóli var svo settur 7. október 1872. Var mikið fölmenni þar saman komið. Hélt séra Sigurður þar skörulega ræðu og skýrði þar meðal annars frá tilætlan sinni og framkvæmdum. Til kennara hafði séra Sigurður valið Þorgrím Þ. Guðmundsson. Prestur fékk kennara í hendur bók þá, er enn er til hér í skólanum og heitir Dagbók barnaskólans í Gerðum. Í þá bók skyldi rita nöfn allra þeirra barna er í skólann gengu, lengri eða skemmri tíma, svo og skýrslu um kennslu hans og yfirheyrslur barnanna að hverri viku liðinni og svo vitnisburð um framför barnanna, gáfur og siðferði.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Gerðaskóli.

Nemendur fyrsta skólárið voru 15 talsins. Námsgreinarnar sem kenndar voru í Gerðaskóla fyrstu árin voru, kristindómur (kver og biblíusögur), lestur (nýja testamentið, lestrarbók), skrift (eftir skrift kennarans), réttritun, reikningur. Skólinn stóð til aprílloka fyrstu tvö árin, eftir það ákvað nefndin að skólinn skyldi vera í tveimur deildum og börnum skipt eftir aldri, kunnáttu og þroska, og skyldi skóla vera lokið 14. mars og var þá ákveðið að kennarar skildu vera tveir og stóð svo lengi.
Hætt var að nota bygginguna til skólahalds árið 1887. Síðar var húsið notað sem samkomuhús um áraraðir.

Minnismerki um Gerðaskóla er grágrýtissteinn. Steinninn stendur skammt frá Sjólyst ofan Gerðahafnar. Á skildi á steininum stendur: “Gerðaskóli – Hér stóð fyrsta hús Barnaskólans í Gerðum, byggt af fríviljugum samskotum. Í því var kennt 1872-1887.”

Tómasarhóll

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Tómasarvarða.

Á Tómasarhól er Tómasarvarða. Hvorutveggja er skammt frá Fuglavíkurseli, innan varnargirðingarinnar á Miðnesheiði.
Margir urðu úti á þessari leið á 18. og 19. öld og er að finna í heiðinni nokkrar
vörður til minnis um þá; a.m.k. þrjár tilteknar Dauðsmannsvörður, Tómasarhóll og
Ólafsvarða eru dæmi um slíkar vörður.

Ólafsvarða
“Landamerkjavörður og stakar vörður eru víða að finna á heiðinni. Hlutverk hverrar og einnar er ekki alltaf ljóst og mun e.t.v. ekki verða hægt að segja til með vissu hvort þær séu allar landamerkjavörður fyrr en skráningar liggja fyrir á öðrum landmerkjavörðum, eða mörkum milli jarðanna neðar í landinu, að teknu tilliti til þróunar byggðar frá landnámi, en landamerki færðust til frá einum tíma til annars þegar jarðir skiptust upp – ein af annarri.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Ólafsvarða.

Sumar þessara stöku varða gætu líka verið minnismerki um fólk, sem hefur orðið úti á heiðinni, en nákvæm vitneskja um það hafi síðan glatast. Fjöldi slíkra varða er hins vegar þekktur á Reykjanesi. Ein er innan girðingar en það er Ólafsvarða og rétt utan girðingar norðanmegin við flugvöllinn er Dauðsmannsvarða og Tómasarhóll. Ólafsvarða mun raskast við framkvæmdina og lendir undir flugbrautinni en aðrar stakar vörður eru ekki í hættu. Má hugsa sér sem mótvægisaðgerð að taka grjótið og endurhlaða Ólafsvörðu rétt utan við Vestan við Rafnkelsstaði í Garði er Kisturgerði”. segir í Fornleifaskráningu á Miðnesheiði árið 2014.

Ekki er vitað hvaða Ólafur þetta var. Í örnefnaskrá segir: „Þá er Ólafsvarða. Með gamla veginum ofan við Melabergsvötn er Neðri-Glæsir. Það er varða á hól. Þar rétt ofar er önnur, sem heitir Efri-Glæsir.” Ólafsvarða er um 10 metrum norðan við Hvalsnesleiðina-Melabergsgötur. Hún er heil, um 1,40 á hæð og 1,10 á breidd. Varðan hefur hátt minjagildi.

Kistugerði

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Kistugerði.

Þar segir þjóðsagan að sé fornmanngröf og í henni gullkista. Gerðið er í rauninni pollur undir klapparvegg, grænlitur. Reyndar eru áhöld um að staðsetningu gerðisins. Sumir telja það uppi á klöppunum og skammt utar, en skv. sögunni á að vera letursteinn með rúnum við það. Sá steinn er nokkru neðar og norðar, við gerðið undir berghömrunum. Þjóðsagan segir að fjársjóður Rafnkels hafi verið grafinn með honum þarna í gerðinu. Reyni einhver að grafa hann upp mun þeim hinum sama sýnast bærinn standa í ljósum logum. Sagan er svipuð sögunni um fjársjóðinn í Silfru við Járngerðarstaði í Grindavík og fleiri álíka.
Einhverjir munu hafa viljað leita fjársjóðsins fyrir nokkrum árum með stórtækum tækjum. Við það valt letursteinninn, sem verið hafði við gröfina, niður hallann og staðnæmst þar sem hann nú er, skammt ofan við ströndina.
Erfitt er að lesa út úr rúnunum á steininum, en þær eru svipaðar og á álagsteininum Heródesi við Grindavík.girðinguna þar sem Hvalsnesleiðin-Melabergsgötur koma að girðingunni vestan við flugvöllinn, enda reist til að minnast sögulegs atburðar, manns sem varð úti á leiðinni.

Letursteinninn er niður undir fyrrum sjávarhamri skammt austan Rafnkelsstaða.

Þórshöfn – HP-áletrun

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Þórshöfn.

Í ritgerð Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi um Miðnesheiðina 1903 segir: „Milli Bátsenda og Þórshafnar var mér vísað á vörðubrot, er steinn væri í með áhöggnu fangamarki Hallgríms Péturssonar og ártali. Það er og svo; fangamarkið er HP; en ártalið er 1728.“ Hallgrímur Pétursson, prestur og sálmaskáld, var á Suðurnesjum frá árinu 1637 til 1651, prestur í Hvalsnesi síðustu 7 árin, en þá fluttist hann þaðan fyrir fullt og allt og gerðist prestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Hann andaðist 27. október árið 1674, sextugur að aldri. Ritaðar heimildir geta ekki um heitið „Hallgrímshella“ sem menn eru teknir að kalla stein þennan.
Engar vísbendingar fundust um aðrar mannvistarleifar en brýnt er að forvörður meti hvort og þá til hverra aðgerða þurfi að grípa til þess að bjarga þessari áletrun frá glötun.

HPD-steinninn

HPD-steinninn úr fyrrum Duushúsum.

Framangreind “Hallgrímshella” er nú í vörslu Þjóðminjasafnis. Ártal á henni passar ekki við ártíð Hallgríms Pétursson. Ofan við Þórshöfn er hins vegar áletrun á “steinaltari”; HP. Vilja margir meina að þar sé komið fangamark nefnds Hallgríms, en hann ku á fyrstu árum sínum sem prestur í Hvalsneskirkju farið fótgangandi millum hennar og heimilis síns að Bolafæti í Njarðvíkum. Líklegra er þó að þarna sé um að ræða fangamark Hans Péturs kaupmanns Duus, en hann var einmitt kaupmaður í Keflavík á þeim tíma sem ártölin á steinhellunni gefa til kynna, um 1880. Samskonar fangamark er á hornsteini Duushúsa og á pakkhúslofti verslunarinnar. Hans Pétur verslaði í Þórshöfn á þessum tíma.

Minnisvarði um drukknaða sjómenn

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; minnismerki um drukknaða sjómenn.

Um er að ræða hvítmála styttu af sjómanni við fyrrum sjólist ofan við Gerðahöfn. Á fótstalli styttunar er skilti er á stendur. “Til minningar um drukknaða sjómenn – Mangi frá Mel; Listaverk eftir Helga Valdimarsson”.

Minning um Gíslu S. Vigfúsdóttur
Um er að ræða hvítmála styttu af biðjandi konu utan við hlið kirkjugarðs Útskálakirkju. Á fótstalli hennar er skilti: “2023 – Ég bið fyrir þér (I pray for you) – Verk eftir Helga Valdimarsson. Gefið Útskálakirkju til minningar um konuna mína, Gíslu S. Vigfúsdóttur”.

Skagagarðurinn
Minnisvarði um Skagagarðinn hinn forna er sunnan Garðbrautar þar sem hús nr. 25 stóð áður. Á skilti við minnismerkið segir m.a.: “Skagagarðurinn mun hafa verið um 1500 metra langur og var fyrr á öldum um einn og hálfur metri á hæð og afar þykkur. Í tímans rás hefur hann hins vegar flast út og fengið ávalan svip.
Lengi ver var talið að garðurinn væri frá 13. og 14. öld, en fyrstu ritheimildir um hann eru frá árinu 1528. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó leitt í ljós að garðurinn hefur varla verið hlaðinn síðar en á 10. öld.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Skagagarðurinn.

Garðinum hefur sennilega verið ætlað að halda sauðfé frá kornökrum á norðanverðum skaganum, en örnefni og fornar akurreinar benda til umfangsmikillar akuryrkju á Suðurnesjum fyrr á öldum.
Ljóst er að garðurinn hefur girt með öllu fyrir skagann. Því við báða enda hans tóku við miklir túngarðar, en samkvæmt lögum íslenska þjóðveldisins var hver maður skyldugur til að verja vikum á ári til garðhleðslu.”

Heimildir m.a.:
-Fornleifaskráning á Miðnesheiði 2000.
-Fornleifaskráning vegna aðalskipulags á Keflavíkurflugvelli – 2014.
-https://eirikur.is/minnisvardar/sudurland/

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Jón forseti.

 

 

 

 

 

Sandgerðisvegur

Sandgerðisgata er víða vel greinanleg og vörðuð þótt sumar vörðurnar séu fallnar og sums staðar hafi verið rótað í henni með stórvirkum tækjum.

Sandgerði

Sandgerði og nágrenni – herforingjaráðskort 1903.

Stefnan var tekin upp heiðina, um malargryfjur og slóða ofan byggðarinnar í Sandgerði. Digravarða er áberandi kennileiti í heiðinni, en hún var endurhlaðin fyrir skömmu. Þó má enn sjá leifar gömlu hleðslunnar. Á henni sést vel umfang þessa forna siglingamerkis og viðmiðs. Sumir hafa viljað skipta á Digruvörðu og rostungnum í skjaldarmerki kaupstaðarins, en það sýnir vel hversu mikilvægu hlutverki varðan hefur gegnt í gegnum tíðina.
Ofar í heiðinni fannst stakt vörðubrot, en svo virtist sem þar væri á ferð hluti leiðar yfir í Garð. Sá hluti hennar sást vel þegar skoðað var bæjarstæði Skálareykja á dögunum, en þá bar gamla leið í landið til suðurs upp heiðina, áleiðis að Sjónarhól, og áfram til suðurs vestan við Þrívörður.

Rockville

“Bæjarmerki” Rockville.

Bæjarmerki Rockville var barið augum sem og vörðuminnismerkið norðan þess. Það er dæmigert fyrir einstakt þarfaverk nútíma hugdettu, en tengist ekki þörfinni á gerð leiðarmerkja fyrri tíma. Reynar er orðið áberandi hversu duglegt nútímafólk er að hlaða vörður til minningar um veru sína á tilteknum stöðum þá stundina, en gleymir að vörður voru fyrrum hlaðnar í nauðsynlegum tilgangi, þ.e. að auðvelda fólki að rata milli staða. Í slæmum veðrum eða lélegu skyggni gátu vel hlaðnar vörður með stuttu millibili skipt sköpum um líf eða dauða. Gamlar vörður höfðu tilgang og gefa nútímafólki til kynna að þar við sé eitthvað sem vert er að gefa nánari gaum.

Sandgerðisvegur

Sandgerðisvegur – kort ÓSÁ.

Sandgerðisvegurinn gamli liggur beggja vegna vörðunnar. Skammt vestan hennar er varða norðan vegarins, Einmenningsvarða á Einmenningshól.
Milli varðanna eru gatnamót Sandgerðisgötu og Fuglavíkurleiðar. Hún kvíslast niður heiðina, fyrst til norðveturs og síðan til vesturs niður að Norðurkoti og Fuglavík. Bæði austast og vestast er erfitt að greina leiðina vegna jarðvegseyðingar á heiðinni, en ef vel er gaumgæft er tiltölulega auðvelt að rekja sig eftir henni Sigurður þekkir leiðina vel. Hann hafði sett í hana hæla til að auðvelda eftirfylgnina, en nýlega tók hann þá upp svo nú er öllu erfiðara ókunnugum að rata þessa gömlu þjóðleið um annars kennilausalitla heiðina.

Grímsvarða

Sigurður Eiríksson og Guðmundur Sigurbergsson við Grímsvörðu endurreista.

Sandgerðisleiðinni var fylgt til norðvesturs. Hún fer undir Miðnesheiðaveginn nálægt bæjarmörkum Sandgerðis (skilti norðan vegarins), og fylgir síðan veginum framhjá Grímsvörðum. Þar eru nú á lágu klapparholti “sýnishorn” af vörðunum tveimur, sem þar voru fyrrum, en voru fjarlægðar og notaðar til vegagerðar. Skammt vestan vegar að að einni “hlustunarstöð varnarliðsins” fer gamla þjóðleiðin undir núverandi þjóðveg. Vestan vegar að “hlustunarstöð varnarliðsins” sunnan þjóðvegarins fer gamla þjóðleiðin aftur undir þjóðveginn og inn í beitarhólfið, sem þar er. Þarna vantar tröppu. Innan beitarhólfsins er auðvelt að fylga leiðinni því vörðubrot gefa auk þess legu henar til kynna. Skammt sunnar á holti eru hlaðin byrgi verndaranna þar sem þeir hafa verið við æfingar.
Þjóðleiðini var fylgt niður með Draugaskörðum. Á þeim er endurhlaðin varða; Dauðsmannsvarðan efri. Vestan hennar liggur Sandgerðisvegurinn enn undir núverandi Miðnesheiðarveg, að Vegamótahól. Þarna vantar tröppu.

Sandgerðisgata

Sandgerðisgata.

Gamla Sandgerðisgatan (Sandgerðisvegurinn, sbr. Sig. B. Sívertsen – sóknarlýsing um 1880) var gengin frá Sandgerði að Grófinni í Keflavík. Gatan sést þar sem hún kemur undan einum húsgrunnanna á nýbyggingarsvæðinu ofan bæjarins og liðast síðan upp móann. Vestan við Vegamótahól, þar sem voru gatnamót Sandgerðisgötu og Bæjarskersvegar, liggur gatan undir nýja Sandgerðisveginn, en kemur aftur undan honum í Draugaskörðum. Ofan við þau eru t.d. Efri-Dauðsmannsvarðan. Þar liggur hann áfram til suðurs framhjá Dynhól. Fallnar vörður eru vinstra megin götunnar svo til alla leið upp að Gotuvörðu. Á þeirri leið fer gatan aftur undir Sandgerðisveginn, liggur síðan samhliða honum spölkorn, og fer þá enn á ný undir hann til vesturs.

Einstæðingshóll

Á Einstæðingshól.

Vestan Sandgerðisgötunnar liggur gatan síðan áfram framhjá Einstæðingsvörðu þar sem voru gatnamót Fuglavíkurvegar og áfram upp að Gotuvörðu, sem fyrr segir. Gotuvarðan er endurhlaðin, en skammt norðan og austan hennar eru tvær fallnar vörður. Sunnan Gotuvörðu fer gamla gatan enn á ný undir Sandgerðisveginn. Þar liðast hún niður móana áleiðis að Keflavíkurborginni ofan Grófarinnar og niður með Brennivínshól. Á leiðinni fer gatan undir Garðveginn og síðasti sýnilegi hluti hennar er skammt vestan hólsins.

Sandgerði

Sandgerðisbærinn.

Sandgerði er með elstu höfuðbólum á Suðurnesjum. Þaðan hefur alla tíð verið stunduð mikil útgerð enda Sandgerði einhver mikilvægasta verstöð landsins, á sama tíma og dró úr mikilvægi flestra annarra verstöðva á Rosmhvalsnesi.
Árið 1990 fékk Sandgerði kaupstaðarréttindi og er því með yngstu kaupstöðum landsins.
Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Sandgerðisgatan liggur um beitarhólfið.
Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi.

Sandgerðisvegur

Sandgerðisgata – vegamótahóll framundan.

Vegmótahóll er nefndur eftir vegamótum Bæjarskersgötu og Sandgerðisgötu, sem þar eru sunnan hans. Sandgerðisgata er greinileg með sunnanverðum Vegamótahól og þar sem hún liggur vestur með hólnum, yfir slóða og í gegnum lúpínubreiðu. Handan hennar er hann vel greinilegur og víða hefur verið kastað upp úr veginum. Norðar sét vel til Digruvörðu í heiðinni.
Skammt vestar og sunnan við Sandgerðisveginn gamla er vörðubrot; Dauðsmannsvarðan neðri. Þar segir sagan að maður hafi orðið úti, líkt og svo margir aðrir á Miðsnesheiði í gegnum tíðina. Auk hins hefðbundna segir sagan að þar eigi að vera áletrun á steini. Sú áletrun hefur enn ekki fundist þrátt fyrir ítrekaða leit.

Sandgerðisvegur

Gengið um Draugaskörð á Sandgerðisvegi.

Norðar eru Draugaskörð. Á þeim var hlaðin varða á einum af þrem Draugaskarðshólum, nefnd Efri-Dauðsmannsvarða. Svo er klapparhóll, sem heitir Grímsvörður. [Grímsvörður voru allnokkru ofan Draugaskarða].
Skammt ofar varð að sprengja þar úr [er nýi þjóðvegurinn (malbikaði) var lagður. Þá voru vörðurnar teknar, en hóllinn er með marki SE og G frænda hans].
“Vafi hefur verið á hvar Einstæðingur er, hvort hann er hér eða í Leirunni. Einstæðingsmelur er þó vestan við Sandgerðisgötuna þar sem Fuglavíkurgatan kemur inn á hana.” Þar sést Einstæðingur og varðan á honum, litlum grónum hól í melnum. Guðmundur, sem var með í för, hefur þegar gert ráðstafnir til að hlaða upp vörðuna og áletraður steinninn í hana bíður tilbúinn í Norðurkoti.

Sandgerði

Listaverkið Álög á Oddnýjarhól.

Ef haldið er á ný niður eftir Sandgerðisgötu (-vegi) og örnefnin rakin upp eftir sem leið lá, verður fyrst fyrir Oddnýjarhóll norðan við veginn, skammt suður frá merkjum. Á hólnum, sem er við innkeyrsluna í Sandgerði, er nú listaverkið “Álög”. Vart er hægt að hugsa sér stórfenglegri sýn en þá sem blasir við þegar keyrt er inn í Sandgerði. Þar mætast himinn og haf og útsynningurinn lemur skerjagarðinn með brimföldum sem tóna við hið fagra listaverk. Verkið er eftir listakonuna Steinunni Þórarinsdóttur og þar gefur að líta þrjár rústfríar öldur sem tákna að hafið er eilíft en maðurinn sem stendur þar hjá er úr pottstáli því hann er forgengilegur. Verkið var sett upp á 100 ára afmæli Miðneshrepps 1986 til minningar um látna sjómenn.

Neðri-Dauðsmannsvarða

Neðri-Dauðsmannsvarða.

Næst ofar er Árnakötluhóll. Hærra og norðaustur af honum er Neðri-Dauðsmannsvarða. Henni hefur ekki verið haldið við, og þar var letur á hellu rétt hjá. Hefur það ekki fundizt nú um sinn. Hefur það líklega verið leiði meiri háttar manns. Þetta er beint upp af Stekknum fyrrnefnda. Upp af Neðri-Dauðsmannsvörðu er Sjónarhóll. Hann er á merkjum móti Sandgerði. Suður af Sjónarhól er Vegamótahóll. Þar á milli eru smáholt nafnlaus. Upp af Vegamótahól í Draugaskörðum er nefndur Dynhóll. Austur af honum eru Samföstuhólar. Þá ber við himin og eru með smáþúfum á. Græn þúfa er á Breiðhól syðri, sem er fyrir norðan Digruvörðu, úr Breiðhól til Gotuvörðu, þaðan í Háaleitisþúfu.

Digravarða

Digravarða.

Sigurður Eiríksson í Norðurkoti hefur merkt nokkra af þessum hólum eftir lýsingum eldri manna er þekktu vel til fyrrum.
Digravarða rís há og mikil i norðri. Hún var sundvarða í Hamarssundið, [um Sundbolla í Keili].
Þegar staðið er við Vegamótahól má sjá niður að Býjaskerum (Bæjarskerum). Bæjarsker er ef til vill elsta höfuðból Suðurnesja en margt bendir til þess að þar hafi búið Steinunn gamla, sem Ingólfur Arnarson gaf mestallan norðanverðan Reykjanesskaga. Væntanlega hefur Steinunn stundað útgerð af kappi, en Bæjarskerseyrin þótti lengi ein besta veiðistöð Suðurnesja. Landbrot vegna ágangs sjávar hefur þó leikið eyrina grátt og eftir ofsaflóð veturinn 1769 og síðar Básendaflóðið 1799 hnignaði útgerð þar mjög.

Bæjarsker

Bæjarskersleið – álfasteinn.

Á Bæjarskerum á eftirfarandi þjóðsaga að hafa gerst: “Guðrún nokkur bjó að Býjarskerjum á Miðnesi. Hún átti unga dóttur sem hét Pála(?). Þegar hún var ungbarn tók hún svo snöggri og mikilli breytingu að menn álitu að hún væri orðin umskiptingur, svo var hún ólík öðrum börnum og öllum sínum. Hún var lág og gild, greppleg í ásýnd og óálitleg mjög með gular tennur og neglur beygðar fyrir góma og líkastar klóm. Að öllu leyti var hún afar ellileg að sjá. Þegar hún var í einrúmi hjá þeim er hún trúði sagði hún honum ýmislegt er hún annars leyndi svo sem það að hún héti eigi það sem hún væri kölluð. “Ég heiti Odda, maður minn; er eldri en þið haldið og barna móðir,” sagði hún.
En ef hún var spurð meira um það, eyddi hún því og brá í annað tal.

Býjaskersborg

Býjaskersborg.

Einu sinni kom maður þangað, sem Þorlákur hét, að Býjarskerjum. Hann var einn þeirra manna er neitaði öllu “ónáttúrlegu”. Hann hafði oft komið þar áður og átt í stælum um ýmislegt og séð Oddu og heyrt skrafað þar margt og um ýmislegt þess háttar og hlegið að, einkum þó sögnum um umskiptinga. Nú þegar hann var kominn þarna slógu menn á glens við hann og spurðu hvort þeir ættu ekki að sýna honum umskipting. Jú, hann hló að því og kvaðst hafa sterka löngun til að sjá slíkt náttúruafbrigði. Sóttu menn þá stelpuna því móðir hennar var eigi heima. Síðan harðlokuðu þau dyrunum svo stelpa kæmist eigi út.

Bæjarskersrétt

Bæjarskersrétt.

Það er gömul trú að umskiptingar þoli eigi klukknahljóð fremur en aðrar kynjaverur og mjög illa var stelpunni við alla skræki og blístur. Þar uppi í baðstofunni var blístrukeyri sem menn höfðu stundum hrætt hana með. Þegar stelpa var komin inn greip einhver keyrið og blés í endann. Þá brá svo við að stelpa brá hart undan og varð sem vitstola. Augun þöndust út af æðinu og hún titraði öll af ósköpum þeim er yfir hana komu.

Býjasker

Býjasker – Grásteinn.

Þar næst réðist hún á súðina, læsti sig fasta með nöglunum og skreið upp í mæni af einum saman handkrafti svo að fætur löfðu í lausu lofti. Eftir því sem hert var blístrið fór hún harðar svo það var líkast sem köttur klifrar í ákafa. Þannig skreið hún upp og ofan og einnig hliðhallt. Það undruðust allir mest af öllu. Loksins þegar þetta hafði lengi staðið yfir öllum til mestu undrunar opnaði maður baðstofuhurðina og stelpa þeyttist út eins og fjaðrafokka. Þá varð Þorláki að orði: “Já, svo framarlega sem nokkur umskiptingur hefur nokkurn tíma verið til þá er þessi djöfull umskiptingur. Og þessu hefði ég aldrei trúað hver helst sem hefði sagt mér nema ég hefði séð það sjálfur sem nú er orðið. En margt er ótrúlegt þó það sé satt og er þetta eitt af því.”

Bæjarsker

Bæjarsker 1919.

Snerist nú allt glens í undrun fyrir bæði Þorláki og öðrum. Aldrei fékk móðir Oddu að vita neitt um þetta. En eftir þetta efaði enginn á bænum að Odda væri umskiptingur og vildu fyrir hvern mun koma henni af sér. Spurðu menn nú Guðrúnu hvort hún hefði nokkurn tíma haft hana í kirkju með sér. Hún kvað nei við.
Skoruðu menn þá á hana að fara einn sunnudag með hana í Útskálakirkju því þeir vissu engar kynjaverur standast klukknahljóm né helgisöngva. Þekktist Guðrún ráðið án þess að hún mundi viðurkenna að dóttir sín væri kynjavera. Lét hún nú til leiðast og var Odda sett upp á stólpagrip sem hest. Riðu þær svo uns þær heyrðu hringinguna frá Útskálum. En þá ærðist stelpan, orgaði og froðufelldi og varð svo þung á hestinum að hann féll þar niður og varð eigi komið á fætur aftur en Odda var froðufellandi og óð. Var þá afráðið að snúa aftur með Oddu og gekk það erfiðlega enda ágerðist ofsinn og æðið svo hún bráðdó á leiðinni til baka.”

Álaborg

Álaborg syðri.

Ofan við Býjarsker er Arnarbæli og skammt ofar Álaborg, rétt auk tófta. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir að “Holt eitt með klettum og grasi vaxið á milli klettanna er upp í heiðinni milli Býjaskerja og Sandgerðis rétt fyrir ofan (sunnan) túngarðinn, er Arnarbæli heitir. Annar klettur er þar fyrir neðan Sandgerði sem brúkaður hefur verið fyrir hróf á sumarinn, er heitir Hamar. Þaðan þóttust menn sjá álfafólk vera að setja skip sín og upp í Arnarbæli nóttina fyrir Bátsendaflóðið – þann 4. janúar 1798 [á reyndar að vera 1799] – sem mörgum sveitum olli hins mesta tjóns og töpunar.”

Eldingar

“Loftandar”.

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er talað um “loftanda” á Miðnesheiði, sbr.: “Vor eitt um 1820 í heiðríkju hér um bil milli hádegis og miðmunda heyrðist skruðningur í lofti því líkast sem stórskip væri í flughasti dregið um kastmöl. Þetta heyrðist víða á Suðurnesjum, í Keflavík, Grindavík, Garði og Hafnarfirði. En á Miðnesinu sást skýflóki líða hér um bil skafthátt fyrir ofan sjóndeildarhring úr landsuðri til útsuðurs; fyrst dökkur, en er hann kom fyrir sól að sjá, hvítbleikur. Að honum horfnum kom þessi skruðningur upp – sögðu Nejsamenn. Var þetta kallaður loftandi. Sögur svipaðar þessari gengu manna á meðal og voru alltaf kallaðar loftanda verkan.”

Álaborg

Í Álaborg syðri.

Jón Jónsson frá Bæjarskerjum sagði að “við Vegamótahól koma saman vegirnir frá Bæjarskerjum og Sandgerði, svo var einn vegur frá Vegamótahól til Keflavíkur.”
Í leiðinni var litið á Dauðsmannsvörður, en þær munu vera þrjár á þeim slóðum. Ein, þ.e. sú nyrsta er rétt ofan við Sandgerði. Á hellu við hana á, skv. örnefnalýsingu [gömlum sögnum], að vera áletrun.

Dauðsmannsvarða

Neðri-Dauðsmannsvarða við Sandgerðisgötu.

Enn hefur hin meinta áletrun við Neðri-Dauðsmannsvörðu við Sandgerðisveginn ekki komið í ljós. Varðan er hálfhrunin, en þó má enn sjá ferkantaða lögun hennar. Varðan er nokkuð utan við götuna, í slakka, svo hún hefur ekki þjónað neinum sem leiðarmerki í lifandi lífi. Sagan segir að þarna hafi maður eða jafnvel menn orðið úti og varðan verið hlaðin til minningar um hann eða þá. Áletrun átti að hafa verið klöppuð á stein í eða við vörðuna. Kominn er tími til að endurhlaða vörðuna með því grjóti sem í og henni liggur.

Dauðsmannsvarða

Efri-Dauðsmannvarða við Sandgerðisveg.

Efri-Dauðsmannsvörðan er skammt frá götunni ofan við Draugaskörð og enn önnur í heiðinni ofan við Berghús. Ekki hafa fundist áletranir við þær. Dauðsmannsvarðan, sem er á efsta Draughólnum við Draugagil, var hlaðin upp fyrir skemmstu.
Við Rockvilleroad voru fyrrum mannvirki í radarstöðinni kynnt til sögunnar sem og tilgangur hennar.
Einstæðingsvarða er á mel [fyrrum malargryfjum] skammt neðan Gotuvörðu, sem er nú áberandi kennileiti sunnan við götuna. Einstæðingsmelur er þar og á honum Einstæðingshóll – varðan er nú sokkin í grashólinn. Sigurður og Guðmundur hafa mikinn áhuga á að endurreisa vörðuna, enda munu, sem fyrr segir, gatnamót Fuglavíkurgötu og Sandgerðisgötu hafa verið þarna nálægt hólnum. Sigurður þekkir Fuglavíkurleiðina mjög vel, en hún er nú víða horfin, bæði vegna jarðvegseyðingar, framkvæmda sem og gróins gróanda. Hún sést þó enn á köflum.

Sandgerðisvegur

Sandgerðisvegur – áð við Gotuvörðu.

Þarna á melnum voru námur og öll verksummerki eftir þann hluta Fuglavíkurleiðarinnar, nema hóllinn, hafa verið þurrkuð út.
Þegar komið var upp að Gotuvörðu var áð, enda komið sólksinsdreif. Hvers vegna nafnið er til komið er óþekkt. Þarna gæti t.a.m. gotufata hafa fallið af hesti, sbr. Méltunnuklif austan Grindavíkur (þar sem méltunna féll af hesti og klifið hlaut nafn af). Sumir hafa talið að þarna gæti hafa átt að standa “Götuvarða”, en þeir sem gleggst þekkja til segja það hafi ekki verið. Sigurður Eiríksson í Norðurkoti og Guðmundur Sigurbergsson frændi hans endurhlóðu vörðuna fyrir skemmstu. Í henni er steinn með nafni vörðunnar.

Sandgerðisvegur

Gengin Sandgerðisgata.

Tugir manna (hundruðir samtals til lengri tíma) urðu úti á skömmum tíma á gömlu þjóðleiðunum um Miðnesheiði fyrr á öldum. Flestir voru þeir á leið frá kaupmanninum í Keflavík, síðladags eða undir kvöld.
Sagan af Runka (Runólfi), þess er Hafsteinn miðill hafði jafnan beint samband við á skyggnilýsingarfundum sínum, er ágætt dæmi um þetta. Lík hans fannst illa útleikið eftir að hans hafði verið saknað um tíma. Var jafnvel talið um tíma að honum hafi verið fyrirkomið, en síðar sættust menn á að dauða hans hafi borið að af “eðlilegum” ástæðum.
Eflaust standa ennþá fleiri vörður, eða fallnar, á Miðsnesheiði sem minningarmörk um fólk, er varð þar úti á sínum tíma, en eru núlifandi fólki flestu gleymt. og enn rölta menn um heiðina, meira og minna “dauðir” fyrir sögu þeirra, sem þar hafa orðið til í gegnum aldirnar.

Keflavíkurborg

Keflavíkurborg.

Keflavíkurborg sést framundan þegar gatan er fetuð áleiðis niður að Grófinni. Leifar af borginni sjást enn, en líklegt má telja að grjót úr henni hafi veri tekið í nýrri mannvirki líkt og var með vörður og önnur hlaðin steinmannvikri fram að þeim tíma. Brennivínshóll er við ofan við Grófina, norðan götunar, skammt frá Keflavíkurborg. Þar var til siðs að taka tappa úr flösku á leið yfir heiðina (hóllinn er merktur af SE). Reynslan sýndi að það þótti miður heppilegt því margir áttu erfitt með að rata réttar leiðir eftir það.

Sandgerðisgata

Sandgerðisgata – varða á Vegamótahól.

Ljóst er að Sandgerðisgatan sést um langan veg á fyrrgreindum 8 km kafla milli bæjarins og Grófarinnar. Hún er reyndar horfin þar sem nýjasti vegurinn hefur verið lagður ofan á hana sem og þar sem malargryfjum hefur verið komið fyrir á leiðinni. Annars sést hún vel í móum Miðnesheiðar, fjölmörg vörðubrot eru við hana (vinstra megin á leið frá Sandgerði) og ýmsar mannvistarleifar tengdum sögum og atburðum á leiðinni má enn berja augum.

Sandgerðisgata

Sandgerðisgata ofan Keflavíkur. Gotuvarða framundan.

Sandgerðisvegur

Lagt var síðdegis af stað frá Bjarmalandi 5 í Sandgerði. Íbúandi eru Reynir Sveinsson og Día, konan hans. Ætlunin var að fylgja hinni gömlu Sandgerðisgötu frá Sandgerði til Keflavíkur. Gatan var sögð vera víða vel greinanleg og vörðuð þótt sumar vörðurnar væru fallnar og sums staðar hafi verið rótað í henni með stórvirkum tækjum. Í raun verður gatan ekki rakin nema af leiðsögumönnum eða öðrum kunnugum nú til dags svo vel sé.

Digravarða

Digravarða.

Stefnan var tekin upp heiðina, um malargryfjur og slóða þar við sem vængbrotinn veiðibjölluungi kúrði í háu grasi, en fá dauðleg merki, hvorki vörður né vörðubrot, gáfu gamla þjóðleið til kynna þarna upp Miðnesheiðina. Digravarða er áberandi kennileiti í heiðinni, en hún var endurhlaðin fyrir skömmu. Þó má enn sjá leifar gömlu hleðslunnar. Á henni sést vel umfang þessa forna siglingamerkis og viðmiðs. Sumir hafa viljað skipta á Digruvörðu og rostungnum í skjaldarmerki kaupstaðarins, en það sýnir vel hversu mikilvægu hlutverki varðan hefur gegnt í gegnum tíðina.

Sandgerðisgata

Gengið um Sandgerðisgötu.

Ofar í heiðinni fannst stakt vörðubrot, en svo virtist sem þar væri á ferð hluti leiðar yfir í Garð. Sá hluti hennar sást vel þegar skoðað var bæjarstæði Skálareykja á dögunum, en þá bar gamla leið í landið til suðurs upp heiðina, áleiðis að Sjónarhól, og áfram til suðurs vestan við Þrívörður.
Bæjarmerki Rockville var barið augum sem og vörðuminnismerkið norðan þess. Það er dæmigert fyrir einstakt þarfaverk nútíma hugdettu, en tengist ekki þörfinni á gerð leiðarmerkja fyrri tíma.

Gotuvarða

Gotuvarða.

Reynar er orðið áberandi hversu duglegt nútímafólk er að hlaða vörður til minningar um veru sína á tilteknum stöðum þá stundina, en gleymir að vörður voru fyrrum hlaðnar í nauðsynlegum tilgangi, þ.e. að auðvelda fólki að rata milli staða. Í slæmum veðrum eða lélegu skyggni gátu vel hlaðnar vörður með stuttu millibili skipt sköpum um líf eða dauða. Gamlar vörður höfðu tilgang og gefa nútímafólki til kynna að þar við sé eitthvað sem vert er að gefa nánari gaum.
Ákveðið var að ganga yfir að Gotvörðunni gegnt gatnamótum Miðnesheiðarvegar og vegar áleiðis að Grófinni í Keflavík.

Einstæðingur

Einstæðingshóll – varðan Einstæðingur.

Gotvarðan er tiltölulega nýlega endurhlaðin af Sigurði Eiríkssyni frá Norðurkoti og Guðmundi Sigurbergssyni. Í vörðunni er skilti með nafni vörðunnar. Sandgerðisvegurinn gamli liggur beggja vegna vörðunnar. Skammt vestan hennar er varða norðan vegarins, Einmenningsvarða á Einmenningshól.
Milli varðanna eru gatnamót Sandgerðisgötu og Fuglavíkurleiðar. Hún kvíslast niður heiðina, fyrst til norðveturs og síðan til vesturs niður að Norðurkoti og Fuglavík. Bæði austast og vestast er erfitt að greina leiðina vegna jarðvegseyðingar á heiðinni, en ef vel er gaumgæft er tiltölulega auðvelt að rekja sig eftir henni Sigurður þekkir leiðina vel. Hann hafði sett í hana hæla til að auðvelda eftirfylgnina, en nýlega tók hann þá upp svo nú er öllu erfiðara ókunnugum að rata þessa gömlu þjóðleið um annars kennilausalitla heiðina.

Dauðsmannsvarða

Efri-Dauðsmannvarða við Sandgerðisveg.

Sandgerðisleiðinni var fylgt til noðrvesturs. Hún fer undir Miðnesheiðaveginn nálægt bæjarmörkum Sandgerðis (skilti norðan vegarins), og fylgir síðan veginum framhjá Grímsvörðum. Þar eru nú á lágu klapparholti “sýnishorn” af vörðunum tveimur, sem þar voru fyrrum, en voru fjarlægðar og notaðar til vegagerðar. Skammt vestan vegar að að einni “hlustunarstöð varnarliðsins” fer gamla þjóðleiðin undir núverandi þjóðveg. Vestan vegar að “hlustunarstöð varnarliðsins” sunnan þjóðvegarins fer gamla þjóðleiðin aftur undir þjóðveginn og inn í beitarhólfið, sem þar er. Þarna vantar tröppu. Innan beitarhólfsins er auðvelt að fylga leiðinni því vörðubrot gefa auk þess legu henar til kynna. Skammt sunnar á holti eru hlaðin byrgi verndaranna þar sem þeir hafa verið við æfingar.
Þjóðleiðini var fylgt niður með Draugaskörðum. Á þeim er endurhlaðin varða; Dauðsmannsvarðan efri. Vestan hennar liggur Sandgerðisvegurinn enn undir núverandi Miðnesheiðarveg, að Vegamótahól. Þarna vantar tröppu.

Sandgerði

Á Vegamótahól.

Vegmótahóll er nefndur eftir vegamótum Bæjarskersgötu og Sandgerðisgötu, sem þar eru sunnan hans. Sandgerðisgata er greinileg með sunnanverðum Vegamótahól og þar sem hún liggur vestur með hólnum, yfir slóða og í gegnum lúpínubreiðu. Handan hennar er hann vel greinilegur og víða hefur verið kastað upp úr veginum. Norðar sét vel til Digruvörðu í heiðinni.
Skammt vestar og sunnan við Sandgerðisveginn gamla er vörðubrot; Dauðsmannsvarðan neðri. Þar segir sagan að maður hafi orðið úti, líkt og svo margir aðrir á Miðsnesheiði í gegnum tíðina. Auk hins hefðbundna segir sagan að þar eigi að vera áletrun á steini. Sú áletrun hefur enn ekki fundist þrátt fyrir ítrekaða leit.

Sandgerðisgata

Sandgerðisgata.

Til fróðleiks er rétt að geta þess að auk Dauðsmannsvarðanna efri og neðri, er til Dauðsmannsvarða í heiðinni við Fuglavíkurleiðina. Henni er gerð nánari skil í annarri FERLIRslýsingu.
Gamla Sangerðisleiðin var rakin niður heiðina, áleiðis að Sandgerði. Tiltölulega auðvelt er að fylga henni þrátt fyrir jarðrask ofan við byggðina. Gatan gefur sjálfa sig tiltölulega vel til kynna. Hún liggur svo til beint að svæði milli 3-4 húss efst í byggðinni, 20-30 metrum ofan hennar. Þar þyrfti, öðrum til göggvunar, að hlaða vörðu.
Sandgerðisgata ætti að liggja nokkuð ljóst fyrir þeim, sem auðvelt eiga með að lesa landið. Fróðlegt er að ganga þessa leið milli Sandgerðis og Keflavíkur, ekki síst í ljósi þeirrar miklu umferðar fólks, sem var um heiðina fyrrum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Sjá MYNDIR.

Sandgerðisgata

Sandgerðisgata.

Bæjarsker

Í “Fornleifaskráningu fyrir Bæjarsker á Reykjanesi vegna deiliskipulags” segir m.a. um Bæjarsker og nágrenni:

Bæjarsker (býli)

Bæjarsker

Bæjarsker 1910.

Nafnið Bæjarsker eða Býjasker á Rosmhvalanesi er nefnt í fjölmörgum heimildum. Elsta heimildin um bæinn kemur fram í Landnámabók og um og eftir 1300 kemur bæjarnafnið oft fram í Diplomatarium Islandicum eða Íslensku fornbréfasafni. Jörðin hefur því að líkindum byggst upp snemma. Samkvæmt heimildum var hálfkirkja á jörðinni og örnefnið Kirkjuklettur er til að mynda að finna á túnakorti Býjaskerjahverfisins.
Örnefnið Lögrétta er einnig að finna á jörðinni sem bendir til þess að þar gæti hafa verið þingstaður. Hér á eftir má sjá upptalningu á þeim heimildum þar sem bærinn er nefndur og tilvitnanirnar sjálfar:

Bæjarsker

Bæjarsker 1940.

[Um 1270]: Skrá um rekaskipti á Rosmhvalanesi. “ok þar vr sionhending j hinn hæsta stein aa markskeri. Þadann eigv sydvr biasker j midiann eyktiar holm.”( DI II, 77).
[Um 1270]: “Þetta er hvalskipte rost hvelínga: at þann hval sem meire er enn xij vætter ok half vætt ok rekvr millvm æsvbergs ok keflv vikur til motz vid niardvikínga skall skiptta j nív stade. […] Hinn vij hlvt eiga biasker ok kirkiv niardvik halfan hvort.” DI II, 78-79. [1367]: “lxvi. Kirkia hins heilaga Olafs kongs ad Byiaskerium a. etcetera. les wilchinsbok “; (Hítardalsbók DI III, 221)

Býjaskershverfi

Býjastaðahverfi – túnakort 1919.

10.6.1370: “Og af ollum bæium sudur Þadan [frá Hvalsnesi] til Voga allar skylldur [til Hvalsness] vtan af Biaskerium oc Þeim tveimur kotum sem Þar fylgir jordunni. tekst Þar af heima tiund. af Hvalsnesi skal syngia til Biaskeria annan huern dag helgan.” (DI III, 256-257 [Hvalness])
1397: “Kirkia hins heilaga Olafs konungs ad Biaskerium […].” (DI IV, 105).
5.9.1444: Skúli Loptsson selur Hallsteini Höskuldssyni Þingnes í Borgarfirði fyrir 60 hdr. “hier j mot gaf nefndur hallzsteinn halfa iord er heiter biasker er stendr aa Rosthualanesi firir halfan fiorda tug hundratha […]”. (DI IV, 658-659).
22.8.1488: Guðmundur Skúlason prestur selur Ólafi biskupi og heilagri Hólakirkju: “haalfa jord er heiter biaskier er liggur aa rosthualanesi j hualsnes kirkiv sokn fyrir fiorvtigi hvndrada […].” (DI VI, 637).
21.6.1489: “medkienning Sniolf(s) prests ad hann hafe luckt peninga fyrir Biaskier Gudmunde Skulasine.” (DI VI, 659. Sjá einnig bréf 22.07.1491, DI VI, 758).

Bæjarsker

Bæjarsker 1960.

[1490]: Dómur útnefndur af Diðrik Píning “aa biaskeria þingi”. (DI VI, 719).
10.4.1517: Ögmundur ábóti í Viðey selur Hannesi Eggertssyni Kirkjuból í Selárdal, Suðureyri og Tungu í Tálknafirði fyrir “[…] halfa Biaskier oc Þoristadi er liggia aa Hrosshvalanesi […].” (DI VIII, 608. Sjá einnig bréf 14.9.1517, DI VIII, 637 og bréf 7.7.1519, DI VIII, 699).
1525: Máldagi Hóladómkirkju. “(Þ)etta jarda gödz atti holakirkia j sama tima. […] biasker half.” DI IX, 301-302. 11.9.1539: Dómur tólf mann útnefndra “aa biaskerivm aa rosmhvalanesi.” DI X, 474.

Býjastaðahverfi

Býjastaðahverfi – herforingjaráðskort 1903.

1547-1548: Fógetareikningar. “Jtem met Beerskeeriom v legekör. […].” (DI XII, 116. Sjá einnig Fógetareikninga 1548-1549, DI XII, 142; 1549-1550, DI XII, 157; 1550, DI XII, 176; 1552, DI XII, 403).
1.9.1552: Skýrsla um jarðeignir sem Jón biskup seldi frá Hólastól. “Biasker half xxc.” DI XII, 459-460.
25.12.1550: Skrá um eignir Hóladómkirkju. “Hafa þessar jarder. sem hier epter skrifast. logast og j burttu sellst fra Holakirkiu aa medan biskup Jon hefur halldit kirkiuna. […] Býasker half .xx. c.” (DI XI, 872).
1686: 45 hdr., 100 ál.,konungseign (Björn Lárusson, 122).
1695: 45 hdr. (Björn Lárusson, 122).
1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, með hjáleigunum Sidstakoti, Midkoti, Holkoti, Barusgierde, eyðihjáleigunum Hialltakoti, Lambhúsi, Nordurkoti, Krossabrecku og Glæser auk tveggja ónefndra hjáleiga (JÁM III, 55-58).
“Eyvindr [frændi Steinunnar gömlu] bjó nokkura vetr síðan í Heiðabæ ok fór síðan á Rosmhvalanes til Bæjarskerja […],”(ÍF I, 391).
1703: “[…] staðfestu þennan framburð og sönnuðu með eiði, eptir uppátekt Páls [Beyers] og tilnefnd sýslumanns, á Býjaskerja-, Kálfatjarnar- og Kópavogsþingum, 2 lögréttumenn.” (Vallaannáll, Annálar I, 451).

Bæjarsker

Bæjarsker – íbúðarhúsið 1960.

1703: “Torfrista og stúnga engin nema í sendinni jörðu valla nýtandi. Fjörugrasatekja nokkur. Hrognkelsafjara nokkur. Murukjarnar og söl er brúkaðar fyrir peníng […] lendíng slæm, önnur langt frá í flæðiholma og þar fyrir mjög bæði hætt fyrir skip og erfið […]. Tún gánga mjög af sjer fyrir sandi og sjáfarágángi. Engjar eru öngvar. Land graslítið, mestalt grjót og sandur. Flæðihætt mjög. Eldiviðartak ekkert nema af fjöruþángi. Vatnsból slæmt og þrýtur stundum,” segir í JÁM III, 55.
“Ofan við túnið er kúagerði ,” segir í örnefnaskrá AG. Þar kemur jafnframt fram að örnefnið Hesthúshóll sé á jörðinni (Ö-Bæjarsker AG, 2). “Sölvatangi. Langt rif, sem er milli sundanna. Sölvatekja,” segir í örnefnaskrá MÞ (Ö-Bæjarsker MÞ, 3).

Bæjarstaðarétt

Bæjarstaðarétt – uppdráttur.

[Um 1840]: “Á Býjaskerjum […], er það ekki full 46 hndr. með 5 hjále<i>gum (aðrar 5 höfðu einhvörn t(íma) áður fyrr verið byggðar). […] Á fyrri dögum skyldu hafa verið margar hjáleigur fyrir utan þær, sem nú eru byggðar, sem nú sjást engin merki til, hvar staðið hafa” segir í Sýslu- og sóknarlýsingum (Gullbringu- og Kjósarsýsla, 80, 97).
1847: 45 5/6 hdr., bændaeign, með hjáleigunum Hólkoti, Báruskeri og Norðurkoti, (JJ, 87).
1919: “Stakkagerði, þ. búð eyðilögð f. nák. 20 árum,” segir á túnakorti. Þar eru einnig hjáleigurnar Hólahús og Syðstakot merktar sem og þurrabúðin Laufás.
Þurrabúðin Setberg, eyðibýlið Hábær og þrjú nýbýli, Vinaminni, Reynistaður og Sólbakki er nefnd í örnefnaskrá (Ö-Bæjarsker AG, 1-2). Örnefnið lögrétta er á jörðinni (Ö-Bæjarsker AG, 2).

Jarðarítök: Jörðin brúkar skóg til kolagerðar í almenningi. Að auki nýtir heimabóndinn grasnytjar af hjáleigunum Lambhúsi, Norðurkoti, Krossbrekku og tveimur ónefndum eyðihjáleigum (JÁM III, 55-58.)

Álaborg

Álaborg nyrðri.

“Meðan fjöruþang var eina eldsneytið, var Eyrin óþrjótandi náma og fengu margir aðrir en eigendur að njóta góðs af því, fyrir litla eða enga þóknun,” segir í örnefnaskrá (Ö-Bæjarsker MÞ, 2).
1919: “Túnin mestöll slétt og sléttuð[,] blettir aðeins hér og þar smáþýfðir.” Tún (Býjasker A), 2.6 hekt., garðar 1320 m2. Tún (Býjasker V), 2.6 hekt., garðar 1280 m2. Tún (Hólshús), 1.15 hekt., garðar 300 m2. Tún (Syðstakot), 1.4 hekt., garðar 1830 m2. Tún (Laufás), 0.33 hekt., garðar 400 m2. Öll torfan samtals 8.08 hekt., og garðar 5130 m2.

Bæjarskersrétt (rétt)

Álaborg syðri

Álaborg syðri.

“Við Bæjarskersréttina hitti hópurinn fyrir Reyni Sveinsson (Fræðasetrinu) og Pétur Bryngarðsson, sagnfræðing í Sandgerði. Pétur benti á Bæjarskersréttina og leiddi hópinn að Bæjarskersleiðinni […]. Pétur sagði að elsta réttin á svæðinu, svo vitað sé, hafi verið Álaborgin nyrðri ofan við Flankastaði, síðan hafi Álaborg syðri verið byggð ofan við Bæjarsker, en hún hafði síðan verið flutt í réttina, sem við komið var fyrst að,” segir á Ferlir.is. Katrín Gunnarsdóttir skráði réttina árið 2008: “Um 50 m frá Bæjarskersvegi í suður eftir Stafnesvegi, rétt ofan við veginn. Réttin er upphlaðin að mestu, en með einstaka hliðum sem eru eingöngu úr timbri eða timbrið er til stuðnings hleðslum, og einnig er það notað í hlið í hólf réttarinnar. […] Hleðslugarðar eru fyrir utan réttina, en þeir eru einhlaðnir, og ræðst hæðin af stærð steinanna sem eru í þeim […]. Rétt þessi var tekin í notkun upp úr 1930, en áður var notuð Álaborgarrétt.” Bæjarskersrétt er um 340 m austan við bæ.

Bæjarskersrétt

Bæjarskersrétt.

Réttin er í heiði, víða eru moldarflög, stakir steinar og melur inn á milli klapparhóla. Mosi og gras er ríkjandi á þessu svæði. Réttin er 24 x 24 m að stærð og er grjóthlaðin. Meðfram veggjum er víða timbur sem notað er til stuðnings og er hluti af veggjum. Jafnframt eru timburhlið í öllum opum. Veggirnir eru 0,4-1,1 m á hæð, 2 m á breidd og það má greina 3-4 umför af grjóthleðslu í þeim. Í miðjunni er almenningur og þaðan eru op til allra átta inn í dilka, í allt eru þau níu talsins. Til vesturs eru fjórir dilkar sem allir eru varðveittir. Að austan er réttin röskuð og allir dilkar horfnir, einungis opin úr almenningnum bera þeim vitni. Opin eru þrjú talsins þar. Þar er nú einungis einn dilkur úr timbri og lágreist hleðsla skammt sunnar. Fyrir norðan réttina er hólf 7 sem afmakast af einfaldri steinaröð. Hleðslan er 0,2 m á hæð og 1 m á breidd. Þar ofan á var líklega vírgirðing en það er ljóst að umfang þess er mun minna en í réttinni sjálfri. Hólfið er ekki inni í réttinni sjálfri, mögulega var það fyrir hesta. Rúmum 8 m austan við réttina er garðlag. Það er 17 m langt og liggur norður-suður í moldarrofi. Það er 1 m á breidd og 0,2 m á hæð. Ekki er ljóst hver tilgangur þess er, það tengist réttinni að öllum líkindum eða er undirhleðsla undir vírgirðingu.

Fjárhús (fjárskýli)

Bæjarsker

Bæjarsker – fjárhús.

Tóftin er hlaðin upp á klettabelti að austan og er uppi á lágum hól. Tóftin er í grónum hvammi, fast vestan við lágt klettabelti. Hvammurinn er afmarkaður til suðurs og austurs af klettum, annars er gras áberandi á svæðinu. Tóftin er 9,5 x 9,5 m að stærð og skiptist í tvö hólf. Veggirnir eru 0,3-1 m á hæð, stórþýfðir og algrónir. Það glittir hér og þar í grjót án þess að um greinileg umför sé að ræða. Þeir eru eingöngu grjóthlaðnir, líkt og flestar aðrar minjar á svæðinu. Lýsingin hefst til suðurs í hólfi 1. Það er 4×2 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Klettarnir til austurs eru 0,8 m á hæð og brattir. Hólfið er opið til vesturs, hluti af nyrðri langhlið nær 2,5 m vestar en suðurlanghlið. Hólf 2 er norðar og stærra. Það er 8,5×2,5 m að innanmáli og opið til vesturs. Sem fyrr afmarka klettar austurvegg.

Heimild:
-Fornleifaskráning fyrir Bæjarsker á Reykjanesi vegna deiliskipulags, Reykjavík 2017.

Álaborg syðri

Álaborg syðri.

Skagagarður

Í Fornleifaskráningu vegna deiliskipulags í Garði árið 2017 er m.a. fjallað um Skagagarðinn og Skálreyki:

Skagagarðurinn

Skagagarður

Skagagarðurinn.

“Lokaðist það af svonefndum Skagagarði, sem hlaðinn var frá túngarði Útskála og þvert fyrir tána yfir í túngarðinn á Kirkjubóli. Sér leifar hans hér og hvar enn,” segir í örnefnalýsingu. Í sýslu- og sóknalýsingu frá um 1860 segir ennfremur: “Fyrir ofan Skagann hefur legið garður einn mikill, sem enn er kallaður Skagagarður, frá túngarðinum á Útskálum beint yfir í Túngarðinn á Kirkjubóli.”
Enn sér fyrir Skagagarði sunnan Skagabrautar en norðan hennar er hann farinn í tún og þar sjást engin ummerki hans.

Í Chorographicu Árna!Magnússonar frá 1720 segir: “Garður (sú sveit) hefur nafn af girðingum. Menn meina landið hafi afgirt verið frá Hrafnkelsstöðum og so continue að Þórustöðum.” Í sýslu-og sóknalýsingu frá 1839: “… Ein hefir höfuðgirðing verið yfir þveran Skagann, sem Skagagarður kallast; á honum voru að sögn læst hlið.” Í annarri lýsingu frá um 1840 segir ennfremur: “Mikill garður hefir í fyrndinni þaðan [frá Flankastöðum] legið, sem enn sést merki til, og hefir náð allt inn að Útskálum. Er það sögn manna, að með þeim garði hefðu allir átt að fara, sem innan að sóttu jólagleði þessa [á Flangastöðum], svo ekki villtust menn, þó niða myrkur væri.

Garðsskagi

Skagagarðurinn – loftmynd 1954.

Þessi fornaldargarður liggur sunnanvert fyrir Skaganum eða heiðar megin, en Skaginn er sléttlendur og hagbeitarpláss frá Útskálum. Er þessi garður, sem heita má gersamlega niður fallinn, kallaður Skagagarður og hefir líkast til í fyrndinni verið varnargarður fyrir skaganum á hverjum verið hafa yrktir sáðakrar, og má enn sjá merki garðlaga, sem hlaðin hafa verið kringum sáðreitina. En á þessum aðalvarnargarði áttu að hafa verið læst hlið.”

Í grein Magnúsar Grímssonar, Fornminjar um Reykjanesskaga frá 1860 segir um Skagagarð: “Rústirnar af garði þessum, sem nú eru að mestu grasi grónar og líta út eins og ávalur hryggur, eru glöggar nema á stöku stöðum, þar sem mælt er, að hlið hafi verið á honum. Garðurinn hefur að mestu verið hlaðinn úr stórgrýti og að líkindum afar hár og þykkur, eftir sem út lítur 3/4 álna á þykkt. Nú geta 2 menn riðið samsíða ofan á rúst hans víðast hvar. Með!þessum garði hefur Skaginn með öllum ökrum og hofinu (?) verið alveg afgirtur.”

Skagarður

Skagagarðurinn – loftmynd.

Kristján Eldjárn skrifar í Árbók Ferðafélags Íslands árið 1977: “En Skagagarðurinn mikli, sem byggðin hefur nafn af og prestarnir lýsa svo fagurlega, hann er enn til, friðlýstur og heill, að öðru leyti en því að á einum stað var rofið skarð í hann 1964 til að komast þar í gegn með veg sem liggur frá Sandgerði til Út-Garðs…. Á milli Út-Garðs (Útskálahverfis) og Kirkjubólshverfis er víðáttumikið land, sem ætíð hefur verið lítt eða ekki byggt fyrr á tíð og raunar enn á vorum dögum. Þetta er sendið land og grýtt og virðist ekki kostamikið. Upp undir heiðinni og þá ofarlega eða efst á Skaganum liggur Skagagarðurinn þvert yfir hann í nokkurn veginn beinni línu frá Útskálum, þ.e. Túngarðinum á Útskálum, þótt sú samkoma sjáist ekki nú, og þar til hann hverfur fyrir ofan bæina Kolbeinsstaði og Hafurbjarnarstaði í Kirkjubólshverfi, þar sem hann hefur á sama hátt náð sambandi við túngarð.

Skagagarðurinn

Skagagarðurinn.

Þessi beini garður, hinn!raunverulegi Skagagarður, hefur verið röskir 1500 m að lengd. Hann er sannarlega þess virði að skoða hann. Hugsum okkur að við komum eftir þjóðveginum frá Sandgerði og stefnum til garðs. Fyrir ofan Kolbeinsstaði klofnar vegurinn í tvennt. Til hægri liggur vegur til Inn-Garðs og síðan áfram til Keflavíkur. Til vinstri liggur áðurnefndur vegur til Út-Garðs og hann förum við. Þá sjáum við fljótlega Skagagarðinn nærri vegi til vinstri handar og ekki líður á löngu þar til við komum þar sem vegurinn sker garðinn. Þar er ráð að staldra við, ef maður hefur hug á að átta sig á Skagagarðinum. Við lítum um öxl og sjáum hvernig hann nær sambandi við túnin í Kirkjubólshverfi, og til hinnar handarinnar sjáum við glöggt hvernig garðurinn stefnir til norðausturs rétt utan við Útskálakirkju.

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Hér er auðvelt að sjá hvernig garðurinn tengir saman Útskálahverfi og Kirkjubólshverfi og hvernig hann girðir af Skagann, nokkurn veginn á mörkum hans og heiðarinnar. Hér er mjög auðskilið að þetta er aðalvarnargarður Skagans og einnig hvernig hann hefur getað tengst túngörðum til beggja hliða, sem vel hugsanlega hafa náð alla leið til Rafnkelsstaða að austan og Þórustaða að vestan eins og Árni Magnússon segir, eða jafnvel alla leið til Flankastaða eins og prestarnir segja. Í Kirkjubólshverfinu má enn rekja þessa garða að mestu leyti og á loftmynd sjást þeir greinilega og hvernig þeir enda við sjó rétt fyrir sunnan Þórustaði. Í Garðinum sést þetta miður sökum þess hve mjög hefur byggst þar en þó hygg ég að einnig þar mætti sjá búta af túngörðum ofan gömlu túnanna. Ekki fer hjá því að Skagagarðurinn veki undrun fyrir mikilleika sakir. Sú spurning hvarflar jafnvel í hug manns sem snöggvast að hann sé alls ekki mannaverk, heldur náttúrulegur ávalur ás. Slíkt væri dálaglegt.

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Til þess að vera ekki einn um ábyrgðina fékk ég þrjá glögga menn til að gera með mér áreið á garðinn haustið 1976. Einn þeirra var dr. Sigurður Þórarinsson. Hann sagði orðrétt þegar hann sá garðinn: “Það er ekkert í náttúrunnar ríki sem getur búið þetta til.” Reyndar urðum við allir vel sammála um að vissulega væri Skagagarðurinn mannaverk. Hann má heita þráðbeinn, og þegar vel er að gáð er fleira sem sýnir að hann er af mannahöndum gerður. Hann hefur verið borið saman úr grjóti og jarðvegshnausum og áreiðanlega verið bæði hár og þykkur en með tímanum flast út og að nokkru sandorpist. Við þetta hefur hann smátt og smátt fengið þennan ávala svip og að lokum orðið firnabreiður í grunninn, víða líklega um 15m.

Skagagarður

Skagagarður.

Skýrar hleðslur sjást varla í honum nú, þótt steinar standi upp úr víða, og þegar skarðið var rofið í hann vegna vegarins 1964 tók verkstjóri (Björn Jóhannesson)!ekki eftir greinilegri hleðslu svo hann muni. Reyndar er túngarðurinn á Hofi í Garði fróðlegur til samanburðar við Skagagarð. Hann er með ólíkindum mikill og ávalur nokkuð á svipaðan hátt, en til muna minna útflattur. Og beint upp frá gerðum, við hornið á íþróttavellinum sem nú er, má sjá vænan bút af mjög fornlegu garðlagi sem að öllu leyti minnir á Skagagarðinn sjálfan. Að sögn prestanna góðu áttu nokkur hlið að hafa verið á Skagagarðinum. Ekki er það nema eðlilegt, en í raun réttri er þetta hermt í sögum til þess að skýra nokkur skörð sem nú eru í garðinn. En sum þeirra eru langtum of víð til að teljast hlið, og kem ég nú ekki auga á nærtæka skýringu á skörðum þessum. Garðurinn kann að hafa verið rofinn af einhverjum ástæðum, en þó mætti fremur virðast við athugun sem skörðin hafi verið frá upphafi og þá ef til vill fyllt upp í þau með einfaldri grjótgirðingu, sem síðan hefur hrunið eða verið fjarlægð. Hefur garðurinn kannski aldrei verið fullgerður í sinni stóru mynd?”

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Í bók Jóns Böðvarssonar, Suður með sjó frá 1988 segir: “Nýjar rannsóknir jarðfræðinganna Guðrúnar Larsen og Hauks!Jóhannessonar hafa leitt í ljós að Skagagarðurinn á Suðurnesjum er miklu eldri en áður var haldið. Niðurstöðu þessa fengu þau eftir að hafa grafið gegnum garðinn á þremur stöðum. Að sögn Hauks mælist garðurinn nú 1500 metra langur, og hefur náð meðalmanni í öxl fyrr á öldum…. Garðurinn er stöllóttur að innanverðu en sléttur að utan, þannig að unnt hefur verið að reka fé út yfir hann án þess það kæmist inn aftur og hefir það líklega komið sér vel vegna!akurreina innan garðsins. Ofan á Skagagarði er grjóthleðsla sem telin er jafngömul torfgarðinum. Haukur segir að aldur garðsins megi greina all nákvæmlega út frá öskulögum sem sjást þegar grafið er í gegnum hann. Ljóst er að hann hafi verið reistur skömmu eftir að öskulag, kennt við landnám, féll í upphafi tíundu aldar. Svokallað miðaldalag er myndaðist við gos í sjó út af Reykjanesi árið 1226 lagðist ofan á garðinn, sem þá var að miklu leyti kominn í kaf vegna foks.”
Í skýrslu Garðars Guðmundssonar og fleiri í Árbók hins íslenska fornleifafélags frá 2002-2003 segir: “Hrun úr garðinum er undir miðaldalaginu frá 1226 og landnámslagið er í torfi garðsins. Magnús Á. Sigurgeirsson telur garðinn hlaðinn á 10.-11.öld.”

Garður

Skagagarður.

Viðbót 2017: Garðurinn var rakinn frá Skálareykum norður að Skagabraut. Hann er ekki mjög áberandi en sést þó alla leiðina sem lágur hryggur,5-8m breiður og mest 0,3-0,4m hár, algróinn. Hann fjarar heldur út eftir því sem nær dregur Skagabraut. Rúmum 100 m sunnan Skagabrautar er líkt og rask hafi orðið á garðinum á rúmlega 10 m löngum kafla sem sést helst á því að þar er garðurinn mjög ógreinilegur og gróður með öðru móti en í móanum umhverfis. Þar sem raskinu sleppir liggur greinilegur hryggur líkt og í framhaldi af garðinum en heldur meira í austur en fyrr, í stefnu skammt vestan við Skagabraut 23. Þessi hryggur tilheyrir líklega ekki garðinum heldur virðist hann liggja fast vestan við hrygginn þótt hann sé orðinn mjög óljós á þessu bili. Garðinn má rekja þokkalega á loftmynd í stefnu á heimreiðina að Skagabraut 36. Leiða má að því líkum að heimreiðin sé ofan á garðlaginu forna, sem haldi svo áfram til norðurs skammt vestan við bæjarhól á Útskálum og allt niður að sjó. Áður hafði í skráningu verið vikið að því að líklega væri garðurinn horfinn norðan Skagabrautar en á loftmyndum virðist votta fyrir honum í túninu tæpa 100 m NNV af íbúðarhúsinu á Útskálum.

Skálareykir

Skálareykir

Skálareykir – tóftir.

Í örnefnalýsingu segir: “Skálareykir eru gamlar bæjarrústir fast við miðjan Skagagarð. Þar sér fyrir túngarði og húsarústum…Skálareykja finnst ekki getið, hvorki 1703 né 1847. Eru til ýmsar tilgátur um býli þetta, m.a. að Ketill gufa hafi byggt skála, annan að Gufuskálum og annan að Útskálum. Svo var byggður nýr bær, þar sem reykirnir sáust frá báðum hinum skálunum, og því nefndur Skálareykir. Önnur segir, að þar sjáist merki og að þar hafi verið draugagangur, er setti bæinn í eyði, en trúlegra er, að það hafi verið vatnsskortur og fjarlægð frá sjó.

Skálareykir

Tóftir Skálareykja.

“1839:”Í mæli er að bær!hafi þá staðið á Skaganum nálægt þessum garði, sem Skálareykir hafi verið kallaðir; hafa allt til þessa sést þar bæjarrústir og mót til túngarðs. Ekki eru nema munnmæli, að þaðan hafi staðurinn verið fluttur að Útskálum, en hitt er víst, að þar hafi einhverntíma verið jörð byggð, þó hennar sé ekki getið.”
SSGK, 162;c.1840: “Nálægt þessum garði er í mæli, að hafi staðið bær, sem Skálareykir hafi heitið, og sjáist þar nú til bæjarrústa og túngarðsgirðingar umhverfis. Hvergi hef ég í jarðabókum séð þá jörð nefnda, enda hef ég fátt fengið í hendur af gömlum skjölum.”
SSGK,184;c.1860: “Með þessum garði hefur Skaginn með öllum ökrum og hofinu (?) verið alveg afgirtur, og þá hefur að líkindum enginn bær staðið fyrir utan hans nema einn, sem enn sér rústir af og hét á Skálareykjum [Skálareykir hdr.]. Sá bær hefir staðið þétt við garðinn miðjan, Skagamegin, og má vera að þar hafi verið gæzlumaður akranna og garðsins, ef bærinn er svo gamall eins og garðurinn. Á Skálareykjum sér enn fyrir túngörðum og bæjar- og húsarústum í meðallagi stórum.”

Skálareykir

Skálareykir – tóftir.

1902: “Fyrir austan þær (girðingar), þar sem nú er fjárrétt, er sagt að bær hafi verið og heitið Skálareykir. Er sagt að á þeim bæ hafi hvílt sú skylda, að verja akrana og girðingarnar fyrir ágangi af skepnum. Ekki er getið hvers vegna hann er kenndur við reyki. Má vera það bendi til þess, á þessu svæði hafi fyrrum verið jarðhitar, sem seinna hafi kólnað, og með þeim jarðhita hafi akuryrkjan þar staðið og fallið.”
BJ í Árbók 1903, 36. Rústir býlisins má greina um 200 m sunnan við fiskverkun H. Péturssonar og um 300 m suðvestan við nýlegt íbúahverfi við Spóaland. Rústir býlisins eru í þýfðu túni. Hluti þess er afgirtur og nýttur til hrossabeitar. Nokkuð af ökuslóðum liggja í kringum og og þvert yfir rústirnar.
1977 segir í Árbók Ferðafélagsins: “Minnast verður á Skálareyki. Rétt er það sem prestarnir herma að garðlag harla fornlegt afmarkar þar vænan blett rétt utan við garðinn og þó reyndar báðum megin við hann, því að garðurinn liggur gegnum girðinguna eins og best sést á loftmynd. Innan í girðingunni mótar fyrir mjög vallgrónum mannaverkum, en tvær grjóthlaðnar og snotrar húsatóftir miklu unglegri ofan á. Þar sagði fólk í Garði að gullkista væri grafin. Hvort þarna hefur verið! bær skal ósagt látið, en þessar minjar eru friðlýstar með garðinum sem rétt er, því að þær eru eins og samvaxnar honum. Nafnið mun líklega að hálfu dregið af Útskálum, en að hálfu er það óráðin gáta.”

Skálareykir

Skálareykir – uppdráttur.

KE í ÁFÍ 1977, 117. Rústir býlisins eru báðu megin Skagagarðs sem sést vel á þessu svæði og ná yfir svæði sem er um 200 x 130 m stórt. Bæjarhóllinn hefur líklega verið þar sem tóft A er nú en hún virðist vera fremur ung. Gætu því eldri byggingarstig verið undir tóftinni. Er hóllinn um 15 x 15 m að stærð og 0,5 m hár. Er hann veglegasti hóllinn á svæðinu og grasi vaxinn. Tóft A: Ofan á hólnum er tóft, líklega af fjárhúsi. Er hún 10 x 10 m að stærð og skiptist í tvö hólf. Bæði snúa í NA-SV. Hólf I, hið austara, er 6 x 2,2 m að innanmáli og hefur um 2 m breitt op á syðri skammhlið. Fyrir utan opið er röð fremur stórra steina. Hólf II er 6 x 2,5 m að innanmáli og er op á því fyrir miðri vestari langhlið. Er opið ríflega 1 m breitt. Veggir tóftarinnar eru flestir 2 m breiðir nema sá sem aðskilur hólfin tvö, hann er aðeins um 1 m að breidd. Allir eru veggirnir 0,6 m háir. Líklega eru þeir grjót- eða torf- og grjóthlaðnir og sér í steina í öllum veggjum. Hleðslur eru grónar grasi. Gerði B: 5 m norðvestan við tóft A er ferhyrnt gerði. Hefur það líklega umlukið kálgarð eða rétt. Er það 16 x 15 m að stærð og snýr í NA-SV. Breidd veggja er um 1,5 m og hæð þeirra 0,3 m. Á stöku stað sést glitta í grjót í gegnum grassvörðinn. Ekki er eins þýft innan garðlagsins og utan þess.

Skálareykir

Skálareykir – loftmynd.

Erfitt er að átta sig á aldri garðlagsins en líklega er það ekki mjög fornt. Gerði C: 20 m sunnan við tóft A er annað gerði. Er það 26 x 7 m að utanmáli og snýr í NA-SV. Skammhliðar gerðisins virðast hafa rofnað í burtu en víða vantar einnig hluta í langhliðar. Breidd veggja er um 0,8 m og hæð þeirra er 0,4 m. Ekkert grjót sést í hleðslunum. Nánast engar þúfur eru innan garðlagsins. Líkt og garðlag B kemur helst til greina að um sé að ræða kálgarð eða einhvers konar aðhald.

Skagagarður

Skaggarður – loftmynd.

Aldur garðlagsins er óræður. Tóft D: 3 m suðvestan við tóft A er afar ógreinileg tóft útihúss. Er hún u.þ.b. 11 x 9 m að utanmáli og snýr í VNV-ASA. Virðist hún við fyrstu sýn aðeins vera upphækkun í landslaginu eða framhald af bæjarhólnum en ef vel er að gáð má greina leifar tveggja hólfa. Snúa bæði til NNV-SSA. Sést glitta í grjót á nokkrum stöðum sem líklega er úr veggjum útihússins. Tóft þessi er líklega mun eldri en tóft A. Garðlag E: Túngarður liggur utan um býlið. Afmarkar hann svæði sem er sporöskjulaga, u.þ.b. 200 x 130 m að stærð og snýr í N-S. Garðurinn er mikið siginn og sést sem hryggur í túninu, 3-5 m breiður og um 0,2 m hár. Víðast hvar er fremur greinilegur nema norðaustast þar sem hann hverfur sjónum á um 80 m vegalengd. Aðeins sést í grjót á stöku stað. Tóft F:!95 m suður af tóft A og upp við garðlag E er lágur hóll. Er hann 9 x 4 m að stærð, 0,3 m hár og flatur að ofan. Líklegast verður að teljast að útihús hafi staðið þar en að hleðslur þess séu nú útflattar. Tóft G: Austast við garðlag E, um 45 m suðaustan við tóft A er hóll. Er hann 8 x 7 m að stærð og ríflega 1 m hár. Stingur hann nokkuð í stúf við hið flata umhverfi í kring. Engar greinilegar rústir eru á honum en ójöfnur ofan á honum gætu verið leifar mannvirkis.

Skagagarðurinn gerður sýnilegur

Skagagarðurinn

Skagagarðurinn – minnismerki.

Suðurnesjabær fékk í sumar (2020) styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða sem lið í sérstöku fjárfestingarátaki stjórnvalda vegna COVID-19-faraldursins.

Suðurnesjabær sótti um styrk úr sjóðnum vegna verkefnisins. Það nefnist „Aðkomusvæði við Skagagarðinn“, nýr ferðamannastaður í Garði. Verkefnið felur í sér hönnun og verklegar framkvæmdir. Markmiðið er að gera Skagagarðinn sýnilegan og vekja athygli á honum.

Heimild:
-Garður á Reykjanesi: Fornleifaskráning vegna deiliskipulags – Birna Lárusdóttir, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2017.

Heimildaskrá:
-ÁFÍ 1977: Kristján Eldjárn. 1977. „Skagagarður – fornmannaverk“. Árbók Ferðafélags Íslands bls. 107-119. Ferðafélag Íslands.
-Árbók 1902: Brynjúlfur Jónsson. 1903. „Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902.“ Árbók Hins Íslenska Fornleifafélags, bls. 31-52.
-Árbók 2002-2003: Garðar Guðmundsson o.fl. „Fornir akrar á Íslandi. Meintar minjar um kornrækt á fyrri öldum.“ Árbók Hins íslenzka!fornleifafélags, bls. 79-106.
-Árni Magnússon. 1953. „Chorographica Islandica.“ Safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fornu og nýju: annar flokkur. Bókmenntafélagið, Reykjavík.
-Birna Lárusdóttir!(ritstj.). 2008. Fornleifaskráning í Sveitarfélaginu Garði I: fornleifar frá Rafnkelsstöðum að Útskálum (auk hjáleigna). FS404k08011. Fornleifastofnun Íslands.
-Fasteignabók 1956-57: Fasteignabók I. Mat fasteigna í sýslum samkvæmt lögum nr. 33 frá 1955. Reykjavík 1956-57.
-Herforingjaráðskort 1910: Generalstabens topografiske kort. Nr. 17, Suðurnes N.A. Mælt 1908, útg. 1910. Kjöbenhavn.
-Jón Böðvarsson. 1988. Suður með sjó: Leiðsögn um Suðurnes. Rótaríklúbbur Keflavíkur, Keflavík.
-Loftmynd 1974: LMI-Kort-D16-D-5481. Landmælingar Íslands.
-Magnús Grímsson. 1940. „Fornminjar á Reykjanesskaga.“ Landnám Ingólfs. Safn til sögu þess II, 243-62. Reykjavík.
-SSGK: Sýslu- og sóknalýsingar Gullbringu- og Kjósarsýslu. Landnám Ingólfs. Safn til sögu þess III. Reykjavík. 1937-39.
-Túnakort 1919: Túnakort fyrir Rosmhvalaneshrepp frá því um 1919. Þjóðskjalasafn Íslands.
-Umsögn Minjastofnunar Íslands um deiliskipulag í Garði, dags.!5. september 2017. MÍ201708-0023/6.09/ÞH 34
-Ö-Útskálar: Örnefnaskrá fyrir Útskála. Ari Gíslason skráði. Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Skagagarður

Skagagarðurinn í Garði.

Letursteinn

Löng leit hafði verið gerð að “Hallgrímshellunni” svonefndu, en hún átti að vera aflöng steinhella á klöpp skammt norðan Þórshafnar við Ósa. Á hellunni átti að vera áletrun (HPS), sem m.a. hefur verið eignuð séra Hallgrími Péturssyni, presti í Hvalsnesi. Leitinni löngu lauk loks í munasafni Þjóðminjasafns Íslands í Kópavogi þar sem Lilja Árnadóttir, yfirmaður munasafnsins, gat upplýst aðspurð að umrædd hella væri í vörslu safnsins.

Flekkuleiði

Flekkuleiði – rúnasteinn.

Þar var steinninn innskráður með eftirfarandi hætti: “Þungur steinn aflangur sem í er klappað stöfunum HPS og beint þar fyrir aftan er klappað ártalið 1628. Steinn þessi var rétt vestan við Þórshöfn norðan Ósabotna, fast við gamla veginn. Menn hafa viljað halda, að Hallgrímur Pétursson hafi klappað þarna fangamark sitt, en hann kom ekki að Hvalsnesi fyrr en 1644 og er aðeins 14 ára árið 1628.” Gripurinn hefur númerið 1974-120 í safninu og átti að vera í einu gripahúsa þess.
Af ljósmynd að dæma, sem tekin var af hellunni á vettvangi árið 1964, virtist ártalið vera 1638.
Lilja og starfsfélagi hennar, Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir, starfsmaður munasafns Þjóðminjasafns Íslands, gátu síðan staðsett helluna og buðu FERLIR að koma og skoða hana.

Hallgrímshella

Hallgrímshellan í Þjóðminjasafninu

FERLIRsfélagar héldu þá og þegar á fund “Hallgrímshellunnar”. Hún hafði legið í geymslum Þjóðminjasafnsins í 31 ár, eða allt frá því að hún var brottnumin af af klapparholtinu norðan Þórshafnar við Ósa árið 1974, þar sem hún hafði verið allt frá fæðingu. Jafnvel áhugasamasta fólkið á Stafnessvæðinu hafði ekki hugmynd um að hellan hefði verið fjarlægð eða hvað hafði orðið um hana. Flest hélt það reyndar að hellan væri þarna ennþá.

Sem fyrr segir hafa sumir tengt þessa áletrun séra Hallgrími Péturssyni, sem varð prestur í Hvalsnesi um og eftir 1644. Hann þjónaði jafnframt kirkjunni í Höfnum, sem er handan við Ósana. Þar eru örnefni er gefa til kynna ferjusiglingar milli Hafna og austanverða Ósa.

Hallgrímshella

Hallgrímshellan á vettvangi á 20. öld.

Hallgrímur kom til Njarðvíkur eftir dvöl í Kaupmannahöfn árið 1637 ásamt Tyrkja-Guddu og öðrum Íslendingum, sem numdir höfðu verið á brott af “Tyrkjum” tíu árum fyrr (1627). Það skipti því máli hvaða ártal var nákvæmlega á þessari tilgreindu hellu. Þess ber að geta að mikið er um áletranir á klöppum á þessu svæði við Ósa, bæði við Þórshöfn og við Básenda. Á fyrrnefnda staðnum eru klappaðir bókstafirnir HP á hásæti (miðju) klappar og á síðarnefnda staðnum eru m.a. nokkrar áletranir frá 16. og 17. öld.

Við nákvæma skoðun á hellunni í geymslu Þjms. virtist ártalsáletrunin vera 1628. Eða hvað? Er hugsanlegt að þarna sé ekki um ártal að ræða, heldur eittvað annað? Gæti áletrunin verið HSP 16Z og 8? Gæti áletrunin falið í sér hugsun umfram staðhæfingu? Hvað bjó að baki áletruninni? Hvert var tilefnið?

Básendavegur

Básendavegur að Stafnesi.

Hvað fær einhvern til að fara með áhöld á stað nálægt alfaraleið til að klappa vandlega áletrun á stein á þeim tiltekna stað? Hvers vegna að klappa haglega á stein milli mikilla verslunarhafna, en ekki þar og þá? Svaranna er reyndar að leita í nálægð við staðinn. Hann er mitt á milli Þórshafnar og Básenda (sjá aðrar umfjöllun á vefsíðunni – sem gæti nú hafa fallið í “faldar síður”).

Ljóst má vera að “Hallgrímshellan”, eins og henni er nú fyrir komið, verður að teljast ómerkilegur innanhússsafngripur, en í ljósi fyrrum staðsetningar og sögulegs samhengis, má með nokkurri sanngirni telja hana allmerkilega væri hún á sínum upprunalega stað.

Hallgrímshella

Hallgrímshellan í geymslu Þjóðminjasafnsins.

Ef hellan tengist ekki séra Hallgrími þá tengist hún áreiðanlega einhverjum öðrum. T.d. gæti hún verið grafskrift manns, sem varð úti á þessum stað þetta tiltekna ár. Fjölmörg dæmi eru um slíkt á og við Miðnesheiðina, eins og annálar kveða á um. Slíkar grafskriftir eru á nokkrum stöðum á þessu svæði, t.a.m. við Dauðsmannasvörðuna neðri, auk þess vandlega er klappað í hellu við Prestsvörðuna þar sem séra Sig. Sívertssen hafði næstum orðið úti fyrr á öldum. Þá gæti áletrunin verið eftir einhvern er tengdist versluninni í Þórshöfn eða á Básendum.

Ýmislegt annað kemur til greina, en þótt ekki væri fyrir annað en grafskriftina gæti “Hallgrímshellan” talist merkileg og jafnvel orðið tilefni frekari rannsóknar á tilefni skriftarinnar.

Þórshöfn

Þórshöfn – áletrun.

Vonast er til að framkvæmdaráð Þjóðminjasafnsins bjóði heimamönnum helluna einhvern tímann til varðveislu á ný eða að heimamenn og aðrir áhugasamir biðji um að fá hana aftur á heimaslóðir.

Margir merkilegir steingripir eru í geymslum Þjóðminjasafnsins og jafnvel víðar. Flestir þeirra bárust Þjms. á fyrri hluta 20. aldar. Síðustu áratugi hefur lítið borist þangað af steinum, nema ef vera skyldi eftir björgunaruppgrefti, því svæðisbundin byggðasöfn hafa að mestu tekið að sér að varðveita þá heima í héraði.
Ekki er ljóst hvaða áletrunarstein megi telja elstan í safninu, en eflaust væri hægt að komast að því með því að skoða skriflegar heimildir og skrár safnsins.

Hallgrímshellan

Hallgrímshellan í geymslum Þjóðminjasafnsins.

Vel færi á því að vekja upp málefnalega umræðu hér á landi um “eignarhald” og eðlilega staðsetningu fornleifa, ekki síst með hliðsjón af þeirri athygli er þær kunna að fá af hálfu ferðalanga sem og nýtan- og heimanleika (upprunaleika) þeirra á einstökum svæðum. Ferðamálasamtök víðs vegar um landið, sveitarstjórnarfólk og jafnvel fleiri aðilar, mættu gefa sér svolítinn tíma frá dagsins amstri og taka þátt í slíkri samræðu. “Hallgrímshellan” gefur og bæði tilefni til hugleiðinga og spurninga, s.s.: “Hver á fornleifarnar í landinu?” og “hvar eiga þær að vera?” Eiga þær t.d. að vera sem næst upprunastað sínum og heimafólki, því og sem flestum gestum þess til fróðleiks, áhugasvölunar og áminningar um gildi þeirra. Eða eiga þær að vera varðveittar í lokuðum geymslum á einu landsvæði frekar en öðru þar sem örfáir fá að nálgast þær? Og hvers vegna ætti frekar að vera hægt að varðveita “sérstaka” fornmuni í geymslum á höfðuborgarsvæðinu en í öðrum sambærilegum geymslum annars staðar á landinu, t.d. á Raufarhöfn?

Hallgrímshella

Hallgrímshellan skoðuð í geymslu Þjóðminjasafnsins.

Forngripir, eins og allar aðrar jarðfundnar fornleifar, eru eign ríkisins. Má rekja þá löggjöf aftur til 18. aldar. Ljóst er að byggðasöfnin um allt land, auk Þjms., varðveita fornleifar af ýmsum toga. Hlutverk þeirra hefur verið skilgreint í seinni tíð. Aðstæður hafa því breyst frá því að hinir ýmsu ártalssteinar eða steinar með öðrum áletrunum bárust Þjóðminjasafninu eða Hinu íslenska fornleifafélagi á undan því.

Hallgrímshella

Hallgrímshellan í Þjóðminjasafninu.

Ástæða er til í ljósi breyttra aðstæðna að endurmeta og endurskoða matið, sem lagt var til grundvallar því hvar minjum skyldi safnað saman og þær varðveittar? Er jafnvel kominn tími til, í ljósi breyttra aðstæðna, nýrra krafna og annarra nýtingamöguleika, að endurmeta staðsetningu áður uppsafnaðra fornminja með það fyrir augum að gera sem flesta þeirra sýnilegri og meðvitaðri almenningi og gestum landsins? Horfa má til þess að gildi þeirra enduspeglast af sýnileikanum, en auk þess geta fornleifar haft tilfinningagildi.

Hallgrímshella

Hallgrímshellan – áletrun.

Áður fyrr var fornmunaverðmætum safnað saman miðlægt til varðveislu og til að koma í veg fyrir eyðingu þeirra. Í dag býr sérhver landshuti og jafnvel einstök minni svæði yfir ákjósanlegum varðveisluskilyrðum. Og í dag ferðast fornleifafræðingar um malbikaða vegi landsins í bílum eins og annað fólk. Það gerir flest forvörslufólk einnig. Allir aðilar, sem áhuga hafa, komast nú á milli landshluta á tiltölulega skömmum tíma, flesta daga ársins. Hvað er því til fyrirstöðu í dag að forngripir fái að dvelja og varðveitast “heima” þar sem þeir eiga sínar sögulegu rætur? Lagaákvæði um fornleifaskráningu, bann við röskun minja og virkara eftirlit minnka líkur á að fornleifar glatist. Viðkvæmari gripi má hæglega varðveita í staðbundnum söfnum, kirkjum, opinberum byggingum eða öðrum slíkum. Geymslur Þjóðminjasafnis eru engum til gagns og ánægju.

Heródes

Heródes; álaga- og rúnasteinn. Hefur verið látinn ósnertur.

Skv. 3. gr. “Þjóðminjalaga” (107/2001) er Þjóðminjasafn Íslands höfuðsafn á sviði þjóðminjavörslunnar í landinu. Það “annast söfnun, skrásetningu, varðveislu og rannsóknir á minjum um menningarsögu þjóðarinnar”. Safnið hefur sinnt sínu hlutverki vel þrátt fyrir þröngan stakk. En “hver á fornleifarnar?” Er það sá, sem ber ábyrgð á þeim? Hver ber ábyrgð á þeim skv. lögum? Svarið er bæði ENGINN og ALLIR. Enginn má raska eða færa fornleifar úr stað nema með leyfi Fornleifaverndar ríkisins og allir eiga að ganga þannig um fornleifar að þær skemmist ekki. Á fornleifum í vörslu safna bera ekki aðrir ábyrgð, a.m.k. ekki skv. lögunum.

Af hverju ekki að leyfa, a.m.k. þeim fornleifum er það þola, að vera sem næst þeim stað sem þeir eiga sinn “sögulega uppruna”, þ.e.a.s. ef þess er nokkurs kostur?

Letursteinar

Letursteinar í geymslu Þjóðminjasafnsins.

Í 9. gr. sömu “Þjóðminjalaga” er ýtarleg skilgreining á fornleifum:
“Þær eru hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á, svo sem áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum, á klettum, klöppum eða jarðföstum steinum… Minjar 100 ára og eldri teljast til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar”.

Í flókinni “Reglugerð um þjóðminjavörslu” frá árinu 1998 segir í
8. gr. að “meginstarfsemi Þjóðminjasafns Íslands fer fram á vettvangi þriggja sviða. Nefnast þau safnsvið, útiminjasvið og fjármálasvið.” Í 21. gr. sömu reglugerðar er kveðið á um söfnun fornleifa, sbr.: “Útiminjasvið skal, ýmist eitt sér eða í samvinnu við aðrar starfseiningar, söfn, stofnanir eða þjónustuaðila, láta safna minjum, sem falla undir sviðið, skrá þær, varðveita, forverja og rannsaka og sinna sýningarhaldi og fræðslu um minjarnar.”

Garður

Garður – rúnasteinn á fornmannaleiði.

Í 16. gr. reglugerðarinnar segir að “munadeild varðveitir, skráir, rannsakar og sýnir muni Þjóðminjasafns Íslands og veitir ráðgjöf og fræðslu á sínu fagsviði. Í umsjá deildarinnar eru allir munir skráðir í Þjóðminjasafn sem og munir í sérsöfnum innan vébanda þess nema hlutaðeigandi sérsafn hafi stöðu deildar innan safnsviðs.”. Lán á munum eru bundin takmörkunum því skv. 76. gr. reglugerðarinnar segir að “safnstjóri getur, með samþykki þjóðminjavarðar, heimilað að safngripir í eigu Þjóðminjasafns Íslands séu hafðir til sýnis í þeim húsum, er undir það heyra. Safnstjóra er heimilt, með samþykki þjóðminjavarðar, að lána söfnum, stofnunum eða öðrum ábyrgum aðilum safngripi í eigu Þjóðminjasafns Íslands á sérstakar sýningar á þeirra vegum, en skilyrði skal þá setja um tryggingar og örugga vörslu, sbr. 10. gr. þjóðminjalaga.” Reyndar er um ranga tlvísun að ræða því reglugerðin er eldri en núgildandi lög. Ný reglugerð hefur enn ekki verið samnin.

Letursteinn

Letursteinn í geymslu Þjóðminjasafnsins.

En á yfirleitt að geyma minjar, hverju nafni sem þær nefnast, á einum miðlægum stað? Svarið er auðvitað bæði nei og já. Almennt eiga minjar heima sem næst uppruna sínum. Þó geta verið til svo sérstakar, verðmætar eða viðkvæmar minjar að þær þarf að varðveita við sérstök skilyrði. Einstakar minjar, sem telja má á einstakan hátt sameiginlegan arf þjóðar og endurspegla með áhrifaríkum hætti menningu hennar, gætu hugsanlega átt heima á þjóðminjasafni, en þó einungis þær helstu. Á tímum aukinnar ferðamennsku og áhuga er þörf á að dreifa og draga athygli ferðamanna að sögulegum minjasvæðum. Með það í huga er t.d. er mikilvægt að endurmeta hvort og hvar t.a.m. einhverjar minjar, sem nú eru geymdar í lokuðum geymslum, ættu betur heima með hliðsjón að framansögðu. Á vefsíðu Byggðasafns Hafnarfjarðar er m.a. fjallað um skráningu og varðveislu fornleifa. Þar segir að “hún muni jafnframt einfalda bæjaryfirvöldum stefnumörkun t.d. varðandi umgengnireglur og merkingar og einnig getur ferðaþjónustan haft mikinn hag af slíkri heildarskrá.” Hér er gert ráð fyrir að ferðamenn hafi áhuga á fornleifum innan bæjarlandsins.

Hallgrímshella

Hafnir – letursteinn.

“Hallgrímshellan” er vel til þess fallin að vera “steingervingur” (sbr. persónugervingur) fyrir aðrar fornleifar (forngripi, fornmuni), sem nú hvíla í lokuðum geymslum (gripahúsum), en mættu með réttu vera úti í mörkinni þar sem atburðir eða tilefni gáfu til tilurðar þeirra.
Vonandi verður “Hallgrímshellan” tilefni til uppbyggilegrar umræðusköpunar og hugsanlega til að breyta afstöðu einhverra til þess hvar geymdar og gleymdar fornleifar eiga að varðveitast í framtíðinni hér á landi. Hafa ber í huga að fornleifar eru verðmæti í fleiri en einum skilningi.

Starfsfólki Þjóðminjasafnsins, sem var boðið og búið til að upplýsa um “Hallgrímshelluna” og gefa FERLIRsþátttakendum tækifæri til að skoða hana, er hér með þakkað fyrir liðsinnið.

Sjá meira HÉR og HÉR.

Heimildir m.a.:
-Þjóðminjalög – 101/2001.
-Reglugerð um þjóðminjavörslu – 1998.
-Byggingarlög nr. 73/1997.
-http://www.natmus.is/thjodminjar/fornleifar/
-Lovsamling for Island II, 276; III, 131-13; VII, 673-74.
-Kristján Eldjárn: Kuml og haugfé úr heiðnum sið á Íslandi, Reykjavík 2000.
-Orri Vésteinsson – Fornleifar, heimildir og samtíminn (2001).
-http://www.kistan.is/efni.asp?n=503&f=3&u=2
-http://www.hafnarfjordur.is/byggdasafn/fornleifar.html

Básendar

Básendar – letursteinn.

Gamli-Kirkjuvogur

Gengið var frá Ósabotnum að Hunangshellu, en við hana er gömul þjóðsaga um finngálkn kennd.
Haldið var eftir gömlu Kaupstaðaleiðinni um Draugavog og að Selhellu. Framan við tangann er tótt og önnur inn á honum. Vestan við tóttina er fallegt vatnsstæði í klöpp.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni.

Efst við sunnanverðan Selvoginn, sem er næsti vogur, er tótt. Gengið var inn fyrir voginn og inn á þjóðleiðina, ofan við Beinanesið að og áfram fyrir Djúpavog. Í botni vogarins liggur girðing upp í heiðina, í átt að varnarsvæðinu. Norðan vogarins, þegar upp á holtið er komið, er Kaupstaðaleiðin rudd svo til þráðbein á drjúgum kafla. Hún var einkar falleg í kvöldsólinni. Í stað þess að fylgja leiðinni niður að tóttum sunnan við Illaklif var haldið áfram vestur yfir holtið, að kletthól, sem þar er beint framundan. Vestan undir hólnum er allnokkuð gras og í því tóttir Stafnessels.

Stafnessel

Stafnessel.

Á landakorti frá árinu 1945, sem haft var meðferðis, er selið merkt þarna og reyndist það rétt vera. Í því eru a.m.k. þrjár tóttir. vatnsstæði er bæði á klapparholti norðan við selið svo og á klapparhól svo til beint í vestur, ofan við Gamla Kirkjuvog. Þar er sögð hafa verið kirkja til forna. Elstu heimildir um Vog er að finna í Landnámu. Þar segir að Ingólfur hafi gefið Herjólfi frænda sínum land á milli Vogs ok Reykjaness. Síðar breyttist nafnið í Kirkjuvog. Kirkjuvogur var fluttur suður yfir Ósa á seinni hluta 16 aldar, með kirkjunni, og stendur nú við Hafnir.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur.

Mannabein hafa fundist í uppblæstri á gamla bæjarstæðinu og voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800 að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt. Gengið var að gamla bæjarhólnum, en Kaupstaðaleiðin liggur rétt ofan við hólinn. Á honum er greinileg hleðsla. Neðan bæjarhólsins er þrjár tóttir. Í tveimur þeirra eru greinilegar hleðslur. Sú syðsta virðist hafa verið gerði. Í skýrslunni er þar sagður vera gamall kirkjugarður. Sunnan við gerðið er tangi. Fremst á honum er hlaðið gerði, en tanginn hefur greinilega sigið nokkuð eins og annað land á svæðinu, eða um 8 mm á ári skv. staðfestum mælingum.

Ósabotnar

Ósabotnar – uppdráttur ÓSÁ.

Kirkjuvogssel er skammt sunnan þjóðvegarins að Höfnum, vestan undir hól inni á sprengisvæði varnarliðsins. Fengið var góðfúslegt leyfi til að fara inn á svæðið s.l. sumar og skoða selið. Það hefur verið látið óhreyft. Göm þjóðleiðinni var fylgt aftur til austurs. Þegar komið er upp lága brekku sést hlaðinn garður á hægri hönd. Sunnar sést í háan grashól. Á honum er tótt. Neðan hans, rétt ofan við sjóinn, en lítið norðar, er hlaðinn garður. Fer hann nú á kafl í flóði. Gatan liggur í átt að Stafnesseli, þó lítillega til hægri, og yfir holtið. Á holtinu liggur hún einnig til suðurs, að gerði og tótt norðvestan Djúpavogs, þeim sem minnst var á áðan og eru undir Illaklifi.
Skammt austar er önnur tótt, mun stærri. Þarna er Gamli Kirkjuvogur sagður vera skv. fornleifaskýrslunni. Í henni segir m.a.: “Til forna lá jörðin hins vegar inn með Ósunum að norðanverðu. Þar er mikil rústabunga, grasi gróin. Húsaskipun er ekki hægt að greina. Vestan við bæjarhólinn, ca. 8 m, eru nokkrir steinar, en undir þeim er gamli bæjarbrunnurinn.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – rústir á bæjarhólnum.

Sunnan við bæjarhólinn má sjá leifar af því sem virðist vera forn kirkjugarður. Einnig má sjá leifar túngarðs norðan við hólinn og hlaðinn brunn vestan við hann, en tóttir enn lengra í vestur, sem gætu verið tóttir útihúsa. Greinilegar traðir eru frá bænum í norður upp á Kaupstaðaleiðina.
Fremur fátt er vitað um Kirkjuvog hinn forna. hans er ekki getið í öðrum fornritum en Landnámu. En árið 1334 segir frá því á annálum að Þorleifur nokkur hafi drepið Þorbjörn prest í kirkju og lagði sig síðan sjálfur með hnífi.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – Kaupstaðagatan.

Í Jarðabók 1703 er tekið fram að gamli Kirkjuvogur sé fornt eyðibýli í Kirkjuvogs landi. “Aðrir halda því fram að þetta bæjarstæði sé í Stafness landi”. Líklega er talið að jörðin hafi farið í eyði um 1580”.

Gengið var eftir stígnum upp Illaklif, eftir rudda götuhlutanum og áfram götuna fyrir Djúpavog. Þaðan var haldið beint yfir holtin, stystu leið.
Í leiðinni var gert kort af öllu svæðinu þar sem tóttir og einstakir staðir eru merktir inn á.
Sjá MYNDIR.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – bæjarhóllinn.

Stóri-Hólmur

Farið var að Stóra-Hólmi þar sem Guðmundur og Bjarni Kjartanssynir tóku á móti hópnum. Veður var í einu orði sagt stórkostlegt – sól og blíða – þrátt fyrir vonda spá. Enda höfðu bræðurnir orð á því að þeir myndu ekki eftir annarri eins blíðu og höfðu þeir þó báðir alið þar allan sinn aldur.

Stori-Holmur-201Þeir bræður byrjuðu að draga úr úr bíl sínum tveggja metra langa loftmynd af svæðinu þar sem á voru letruð öll nöfn staða og bæja með ströndinni. Farið var yfir kortið og þeir gengu síðan með hópnum um svæðið og bentu á hitt og þetta. M.a. var gengið um gamla garðlagið, skoðuð var gamla lindin undir klettunum (þar sem áður var Steinkot), skoðað gamla barnaskólahúsið og litið á hlöðnu brunnana, bæði við Hólm og eins niður undan Leiru, en þar er mjög fallega hlaðinn brunnur suð-austast á golfvellinum.

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur – SG.

Annars er merkilegt hvað golfararnir hafa getað eyðilagt mikið af minjum á svæðinu – menn sem segjast vilja varðveita og viðhalda minjum á landi sínu. Þeim er reyndar vorkunn því lítill áhugi virðist hafa verið að varðveita gamlar minjar á svæðinu næst Keflavík. Norðan við húsið á Stóra-Hólmi er bátslaga ósleginn blettur með hleðslum í kring. Þar sögðu bræðurnir að væru sagnir um heigðan fornmann og hefði aldrei mátt hrófla við blettinum. Hann hefði lengst af verið girtur af, en er nú aðgengilegur. Í hólnum voru greinilegar hleðslur.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Við Bæjarskersréttina hitti hópurinn fyrir Reyni Sveinsson (Fræðasetrinu) og Péturs Bryngarðsson, sagnfræðing í Sandgerði. Pétur benti á Bæjarskersréttina og leiddi hópinn að Bæjarskersleiðinni og gekk með henni fyrsta áfangann upp að Stekknum. Þar er álfaborg og Álfaklettur.

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur – SG.

Norðaustan í klettunum eru nokkrar tóttir og bera þau öll merki selja. Pétur hélt að þarna hefði fyrrum verið sel frá Býskerjum. Þarna fyrir ofan blasir Álaborgin syðri (rétt) við og er hún mjög heilleg. Pétur sagði að elsta réttin á svæðinu, svo vitað sé, hafi verið Álaborgin nyrðri ofan við Flankastaði, síðan hafi Álaborg syðri verið byggð ofan við Bæjarsker, en hún hafði síðan verið flutt í réttina, sem við komið var fyrst að. Austan við réttina (borgina) eru þrjár tóttir, mis gamlar. Um er að ræða hús, nokkurn vegin jafnstór. Þau gætu vel hafa verið frá sama tíma og borgin upphaflega.

Leiran

Leiran – örnefni; ÓSÁ.

Þá var leiðin elt að Vegamótahól þar sem mætast Bæjarskersleið og Sandgerðisleið.

Sandgerðisleiðin er greinileg í áttina að gamla Sáðgerði (Sandgerði). Þaðan var gengið að Digruvörðu, sem var mið úr Sandgerðissundinu í Keili. Norðan vörðunnar fannst Sjónarhól og neðan hennar er Árnakötluhóll. Á milli þessara hóla átti Dauðsmannsvarðan neðri að vera. Dauðsmannsvarðan efri er ofan við Norðurkot, fast við varnargirðinguna, við gömlu leiðina niður að Hvalsnesi.

Sandgerðisgata

Sandgerðisgata.

Leitað var og fundin var gömul varða á einum hólanna austan Sandgerðisleiðar. Skömmu síðar fannst önnur gömlu varða vestan leiðarinnar. Hún er mjög álitlegur staður – skammt utan við götuna. Þriðja varðan er á hól sunnan við Árnakötluhól. Nú er vitað hvaða svæði leturhellan (sem getið er um í gömlum heimildum) gæti verið á. Þetta er tiltölulega lítið svæði og ætti að vera auðvelt að leita skipulega á því. Mosinn var hins vegar frosinn nú svo frekari leit varð að bíða.
Þá var gengið yfir móann niður að Bæjarskersrétt. Loks var litið á fornmannaletursteininn í Garði og var reynt að finna út hvers konar letur var á honum miðjum. Erfitt að segja til um það, en virðast vera rúnir. Þegar reynt var að taka mynd af letrinu festist myndavélin svo hún vildi ekki smella af. Þegar hins vegar var komið aftur að Leiru virtist allt vera í lagi. Svona getur þetta verið.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Guðmundur Kjartansson f. 1. nóv. 1937 og Bjarni Kjartansson f. 17. apríl 1939 (Tjarnargötu 27, Reykjanesbæ, sími: 421 1570).

Leiran

Leiran – örnefnamynd Guðmundar og Bjarna.