Færslur

Hvalsnesleið

Þeir eru ekki margir núlifandi er hafa fengið tækifæri til að skoða fornleifarnar innan girðingar varnarsvæðis Keflavíkurflugvallar.

Sigurður Eiríksson

Ómar og Sigurður við Dauðsmannsvörðu í Miðnesheiði.

Að beiðni Stefáns Gunnars Thors hjá VSÓ ehf. fyrir hönd Isavía tóku skýrsluhöfundar, Ragnheiður Traustadóttir og Ómar Smári Ármannsson, að sér fornleifaskráningu á Miðnesheiði innan girðingar Keflavíkurflugvallar vegna aðalskipulags flugvallarins árið 2014.
Á hinu skráða svæði er að finna fornar leiðir, vörður, byrgi, fjárborgir, selstöðu og fjöldann allan af ummerkjum um veru hersins á stríðsárunum auk yngri byrgja frá hernum. Heiðin hafði verið nýtt sem beitiland í gegnum aldirnar, leiðir hafa legið þar í gegn og auk þess skipt sköpun fyrir mið sjómanna áður en nýtísku staðsetningartæki leystu þau af hólmi.

Hvalenesleið

Hvalsnesleið – varða.

Skýrsluhöfundar töldu auk þess nauðsynlegt að skrá minjar að hluta til utan við girðinguna til að gæta samhengis, enda skiptir máli að skoða minjaheildir sem slíkar. Eins reyndist það nauðsynlegt til að rekja aðrar götur á heiðinni: Hvalsnesveg/Melabergsgötur, Stafnesleið yfir heiðina framhjá Háaleiti til Keflavíkur, Fuglavíkurleið og Gömlu Fuglavíkurleiðina.

Svæðið er ekki aðgengilegt fyrir almenning og voru fornleifarnar skráðar í fylgd öryggisvarða.

Hvalsnesleið

Hvalsnesleið – vörður.

Ómar Smári hafði áður fengi nokkrum sinnum leyfi til að fara inn fyrir varnagirðinguna og skoða svæðið vegna fornleifa, m.a. í fylgd með Sigurði Eiríkssyni frá Norðurkoti sem er fæddur og uppalinn í Fuglavíkurhverfi. Sigurður er manna fróðastur um örnefni og fornleifar á svæðinu. Auk þess veitti Jón Ben Guðjónsson frá Stafnesi gagnlegar upplýsingar.
Þeim og öðrum, sem veittu aðstoð við gerð þessarar fornleifaskráningar, er þökkuð aðstoðin.
Með skýrslunni fylgir fornleifaskrá og stafrænn hnitagrunnur.

Sjá skýrsluna HÉR.

Hvalsnesleið

Vörður við Hvalsnesleið – Ási.

Jamestown

Í Ægi árið 1930 er m.a. fjallað um “Reykjanesstrandið mikla” utan við Valahnúksmöl á Reykjanesi og “Stóra strand” Jamestown við Hvalvík utan við Ósa, gegnt Höfnum:

“Hr. hreppstjóri Ólafur Ketilsson á Óslandi í Höfnum, hefur sent »Ægi« ágæta grein um skipströnd þar syðra. Með því hér er um langt mál að ræða, en rúm í «Ægi« af skornum skammti, er eigi unnt að birta greinina í einu lagi, en þar eð hún er bæði ítarleg og skemmtileg, verður hún að birtast í pörtum eftir því sem rúm leyfir.

Valahnúksmöl (Reykjanesstrandið mikla).

Valahnúkur

Valahnúkur og Valahnúskmöl.

Á fyrsta tug 19. aldarinnar, rak á land á svo nefndri Valahnúkamöl á Reykjanesi, geysilega stór timburfloti; var flotinn benslaður með sverum járnböndum þversum og langsum. Í flota þessum voru mörg hundruð ferköntuð tré frá 12—18 álna löng, og frá 12—18 þml. á kant.

James Town

Frá James Town í Ameríku.

Flest voru trén úr furu — Pitch-pine, og svo nokkur eikartré. Um stærð flotans má nokkuð marka af því, að 18 al. löng trén stóðu upp á endann, sem bindingur til og frá í flotanum, og svo haganlega var hann byggður, að hvergi var hægt að fela hönd á millum trjánna, en fleiri þúsund smá eikarbútar frá 1—3 al. voru líka í flotanum, kallaðir tylftarstykki, til uppfyllingar í allar holur millum trjánna. Sagt var að floti þessi hefði átt að fara til Englands frá Ameríku, en að skipið hefði farist, sem hafði hann í drætti en sennilega hefur skipið verið komið upp undir Reykjanes er það fórst, því mikið af fataræflum og öðru dóti var á flotanum, sem sýndi að menn höfðu verið á honum, fyrir skemmstu, áður en hann bar að landi.

Hestaklettur

Hestaklettur – Hafnir að handan.

Uppboð var haldið á öllum trjánum, eftir að búið var að bjarga öllu undan sjó, en um verð á trjánum er mér ekki vel kunnugt, en dýrasta tréð fór á 12 dali (24 kr.) og keypti það Brandur heitinn Guðmundsson langafi Björns Þórðarsonar kaupmanns á Laugavegi 46.
Tugi ára var svo verið að saga niður í borðvið öll þessi tré, sem keypt voru mestmegnis af Vatnsleysustrandar, Rosmhvalaness, Grindavíkur og Hafnahreppsbúum; var allt reitt á hestum, þegar búið var að koma því í borð. Aðeins Hafnahreppsmenn fluttu flest trén heil sjóveg, höfðu stundum 5—6 tré aftan í skipinu í einu; var þá lagt á stað frá Reykjanesi um stórstraumsfjöru, og norðurstraumurinn svo látinn hjálpa til með róðrinum. Síðustu tré Hafnamanna voru sótt 1852, af Gunnari sál. Halldórssyni, föður séra Brynjólfs sál. mágs mín, sem var prestur að Stað í Grindavík.*

Jamestown (stóra strandið).

Vorið 1881, á hvítasunnumorgun rak á land norðanvert við Kirkjuvogssund, geysilega stórt skip, í hafrótar-vestanroki, var sjáanlegt, meðan skipið var að veltast í brimgarðinum, að það mundi mannlaust með öllu. Ekki var hægt að komast út í skipið þrjá fyrstu dagana eftir að það strandaði, fyrir brimi. Þegar skipið strandaði, lá á »Þórshöfn« skammt þar frá, er skipið strandaði, danskt kaupskip frá H. P. Duusverzlun í Keflavík.

Jamestown

Jamestown – ankeri í Höfnum.

Skipstjórinn hét Petersen; sagði hann okkur strax, sem skipið var strandað, að það væri amerískt timburskip, fullt stafna á milli af tómum plönkum, og 3500 tonn að stærð. Var svo að heyra, sem skipstjóri væri nákunnugur skipinu, því hann sagði okkur líka nákvæmlega um allan útbúnað á því ofandekks, sem allt stóð heima, er komið var um borð í skipið. Hefur skipstjóri sennilega verið búinn að hitta skipið í hafi, áður en að það strandaði hér við land.

Á fjórða degi var sjór loks orðinn það dauður, að komist var um borð, og er óhætt að fullyrða að mörgum manninum var orðið meir en mál að komast um borð í báknið!

Jamestown

Ólafur Ketilsson við ankeri af Jamestown.

Og aldrei gleymi ég þeirri stund, þegar ég, þá 16 ára unglingur, stóð í fyrsta sinni inn á þilfari »Jamestown«, og horfði undrandi og hugfanginn á þetta 60 faðma langa skipsbákn 1 Set ég hér stutta lýsingu á »Jamestown« hinu stærsta skipi, sem strandað hefur við Ísland, síðan landið byggðist.
»Jamestown« var þrímastraður barkur, og eins og áður er sagt, nákvæmlega 60 faðmar á lengd, en um breidd þess man ég ekki með vissu, en það var jafnbreitt og franska skútan var löng, sem um sumarið var höfð til að flytja planka úr því.
Þrjú þilför voru í skipinu, og óskiptur geimur hver lest, og hver lest troðin eins og síld í tunnu, af tómum plönkum, og enn þá eftir 50 ár blasir við augum mínum einn óskaplegi geimur, efsta lestin, þegar búið var loks að tæma hana, 60 faðma langa, og hátt á þriðju mannhæð á dýpt, á af því nokkurn veginn gera sér grein fyrir, hver kynstur hafi rúmast í öllum þessum geim, af plönkum.
Tveir stórir salir voru á efsta þilfari; var annar salurinn miðskips, en hinn Willum aftasta og mið siglutrés, var aftari salurinn hið mesta skrauthýsi, eða réttara sagt, hafði verið, því búið var að brjóta þar allt og bramla, sennilega bæði af manna- og náttúrunnar völdum, en fyrir aftan öftustu siglu, var hálfdekk, sem tæplega var manngengt undir, hefur að öllum líkindum verið forðabúr skipsins, því þar var að finna ýmislegt matarkyns, svínsflesk, nautakjöt m. m., og hrannir af spýtnabraki, póleruðu mahoni, bæði í útskornum rósum og þiljum, sem borist höfðu þangaðúr salnum, og auk þess voru þar kynstrin öll bæði af skrám, lömum og skrúfum, sem allt var úr kopar. 6 herbergi höfðu verið sitt til hvorrar hliðar í salnum, sennilega allt svefnherbergi, en allt var það orðið brotið að mestu, en mátti þó sjá, að öll höfðu herbergin verið mjög skrautleg, því útskornar, póleraðar mahoní-rósir á millum bita, og mahoníþiljur voru sums staðar óbrotnar, en flest voru þó skilrúm millum herbergjanna brotin að meiru og minnu. Fremri salurinn var að öllu íburðarminni, en var þó að nokkru leyti skipt í svefnherbergi, en ekki líkt því eins vönduð, og sjáanlegt var að borðsalur hafði verið í öðrum enda salsins, þó ekkert fyndist þar afborðbúnaði, eða neinu því, sem verðmæti var í.
Af öllu því tröllasmiði, sem sjá mátti á skipi þessu, var þó þrennt, sem mesta undrun mína vakti, — fyrst miðsiglutréð, tveir feðmingar að gildleika, með 18 afarsverumjárngjörðum, annað undirbugtspjótið, sem kallað er, 36 þml. á kant, og það þriðja, stýrislykkjurnar (3) úr kopar, en hvað þær hver um sig voru þungar, get ég ekki gert neina ágiskun um, en ég vil þó geta þess, að einn sunnudag fórum við Eiríkur sál. bróðir minn, ásamt þriðja manni, til þess að reyna að ná efstu lykkjunni, því hún hékk á einum nagla, og því að kalla mátti laus úr sæti sínu (stýrið var brotið af). —

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Ósa – að Jamestownsrekanum

Bundum við afarsverum nýjum kaðli í lykkjugatið, en vorum þeir aular að hafa dálítinn slaka á kaðlinum, svo þegar við loksins vorum búnir að losa naglann, og vega hana úr sætinu (falsinu), þá purpaði hún kaðalinn eins og brennt bréf hefði verið, um leið og hún hrökk niður, og munaði minnstu að hún mélaði bátinn, sem við vorum í.
Sægur af fólki, hvaðanæva af landinu, kom um sumarið til þess að skoða þetta skipsbákn, og mátti stundum heyra óp og vein, og guð almáttugur ! þegar verið var að drösla kvenfólkinu upp þennan 17 tröppu riðlandi stiga, sem náði upp að öldustokk skipsins.
Eftir að »Jamestown« strandaði og ráðstöfun hafði verið gerð til þess af landshöfðingja Hilmar Finsen, að fara að bjarga til lands plönkunum, neituðu suðurnesjabændur algerlega að hreyfa hönd að björgun, töldu það alveg óvinnandi verk, en vildu hins vegar fá skipið keypt með öllu, eins og það stóð. En er því var neitað, buðu sig fram til að bjarga úr skipinu þrír menn í Reykjavík, þeir kaupmennirnir Páll sál Eggerz og Jón sál. Vídalín og Sigurður Jónsson járnsmiður, sem enn þá er á lífi, nú á níræðisaldri. Komu þeir hingað á strandstaðinn snemma í júnímánuði á franskri skútu (Loggortu); var skipstjóri Ólafur Benediktsson Waage. Fengu þeir félagar mikið af verkafólki hér, því þeir buðu óvenjulega hátt kaup í duglega menn, 25 aura um tímann! 3 kr. um daginn fyrir 12 tíma þrælkun, þótti þá óheyrilega hátt kaup, og allt borgað í skíru gulli og silfri, á hverju laugardagskvöldi. Keflavíkurkaupmennirnir voru ekki í þann tíð vanir að borga verkafólki í gulli og silfri vinnu sína, heldur i uppskrúfuðum vörum, þurrum og blautum! Var þessari nýjung um greiðslu verkkaups tekið með hinum mesta fögnuði af suðurnesjabúum, og margur sá maðurinn, sem átti laglegan skilding um haustið í kistuhandraðanum, því í þá daga þekktust ekki tálsnörur núlímans, bíóin, kaffihúsin m. m., sem nú tæma vasa verkamannsins verkalaunum sínum!

JamestownHvað margir »Loggortu«farmar af plönkum voru fluttir til Reykjavíkur man ég ekki með vissu, en jafnaðarlega var verið i tvo daga að ferma skútuna, og svo aðra tvo daga að flytja í land í stórum flotum, því öllu var skipað í land upp á helming. Þegar kom fram í júlímánuð fóru bændur líka að bjarga upp á helming, voru þá oft frá 12—20 plankar á hvern mann, í helmingaskiptum, og stundum var það mikið meira, sem hver maður hafði í sinn hlut eftir daginn, þegar svo stóð á að sunnanstormur var, því þá var plönkunum dyngt í sjóinn og látnir reka til lands, frá 600—800 st. í einu!
Í júlímánaðarlok var loksins efsta lestin tæmd af timbrinu. í tvo mánuði voru fleiri tugir manna að tæma eina skipslest og þó þrásinnis fleygt í sjóinn mörg hundruð plönkum á dag! Það ætti að gefa nútíðarmanninum nokkurn veginn ljósa hugmynd um hver ógrynni af plönkum hafi verið í öllum (3) lestum skipsins.
Þegar efsta lestin var tæmd, var fyrsta uppboðið haldið, var sjávarströndin á fleiri hundruð faðma svæði þá ein óslitin plankahrúga. Voru í hverju númeri frá 10—20 plankar. Voru plankarnir 6—9 ál. langir, en 3 1/2 tom. þykkir, og af mismunandi breidd 6—11 tom. Kristján sál. Jónsson, hæstaréttardómari, var þá sýslumaður i Gullbringusýslu, og hélt hann fyrsta uppboðið. Stóð uppboðið í tvo daga; var verð á plönkunum 25—50 au. og mundu það þykja góð timburkaup nú. Að plankauppboðinu loknu, var sjóboðið haldið. Keypti faðir minn möstrin og alla kaðla (vantinn) og víra m. m. á 24 kr„ en skipið sjáltt með öllu timbri sem í því var í mið og neðstu lest, var hæstbjóðandi H. P. Duus, kaupmaður í Keflavík, fyrir kr. 301,00, en hann bauð í það fyrir föður minn og aðra suðurnesjabændur, en kom þar aldrei nálægt eftir uppboðið.

Jamestown

Grjót úr ballest Jamestown.

Strax eftir uppboðið var byrjað að skipa upp úr skipinu aftur og því haldið áfram stanslaust til 10. sept., en þá kom suðvestanrok með stórbrimi og klofnaði skipið þá í tvennt og rak hver spíta til lands. Var stórfengleg sjón að sjá allan þann flota, þegar hann kom að landi, mundi engum manni hafa dottið í hug, ef ekki hefði vitað, að öll sú plankabreiða væri úr einu skipi og þó var búið að taka meiri partinn úr miðlestinni og allt úr efstu lestum er skipið brotnaði.
Ég minnist þess, að þegar skipið var nýstrandað, kom til föður míns maður, sem hét Sölvi Sölvason, og lengi var búinn að vera í siglingum. Sagði hann föður mínum, að hann þyrði að taka 18 sextíulesta skonnortufarma úr skipinu, en faðir minn taldi það þá öfgar einar. En það hefði verið áhættulaust að tvöfalda þá tölu. Allt var skipið eirslegið í sjó og koparseymt og voru það laglegir koparboltar, sem gengu í gegnum botnrangirnar. Sendi faðir minn mörg þúsund kg. til Englands af kopar. Það eina, sem tapaðist og aldrei sást, var afturstafn skipsins með stýrislykkjunum. Hefir það sennilega sokkið sökum þyngslanna af lykkjunum.
Hver kynstur að sumir af suðurnesjabændunum söfnuðu að sér af plönkunum, má meðal annars marka af því, að faðir minn seldi í einu til Jóhanns nokkurs snikkara á Eyrarbakka 1200 st. og sá ekki á eftir, að á hafði verið tekið.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir í Hraunu. Húsið var að mestu byggt úr viðum Jamestown.

Þegar leið á sumarið fór að kvisast að ballest skipsins væri afar mikils virði, jafnvel meira verðmæti en skipið sjálft með öllum farminum. Um nýjársleytið kom svo fyrirspurn til föður míns frá landshöfðingja um hvað orðið hefði af ballestinni og hvort ekki væri hægt enn þá að bjarga henni, því hún (ballestin) hefði verið auðæfi mikil, óhreinsað silfurgrjót frá Mexico. Hleypti þessi fregn heldur en ekki púðri í okkur strákana og var ekki dregið á langinn að fara og slæða botninn á strandstaðnum. En allir þessir silfurloftkastalar okkar hrundu og urðu að engu, þó við værum að slæða dag eftir dag, fengum við aldrei einn einasta mola og gátum aldrei séð einn einasta stein í botninum þó við sæjum vel í botn.

Jamestown

Ankeri úr Jamestown. Viktor Guðmundsson stendur hjá.

Vorið eftir kom svo Sigurður Jónsson, járnsmiður, sem áður er nefndur, í sömu erindagerðum og var ég oft með honum við að slæða, en það fór á sömu leið. Við höfðum erfiðið og ekkert annað. Sennilega hefir svo farið, að þegar skipið brotnaði, hefir botninn sagast fram í briminu og hvolft þar úr sér á leirbotni áður en botninn rak til lands. Hins vegar alveg óskiljanlegt, að í þau 50 ár, sem liðin eru síðan að skipið strandaði, skuli aldrei einn moli hafa borist til lands í öllum þeim hafrótum, sem komið hafa i þessi 50 ár.

Ólafur Ketilsson

Ólafur Ketilsson í Höfnum.

Það eina, sem mér er kunnugt um að náðst hafi af ballestinni, er einn hnullungsmoli, sem Sigurður Ólafsson, bóndi í Merkinesi náði. Skreið hann eitthvað niður með afturstafni skipsins og fann þá þennan mola. Var Sigurður mikill járnsmiður sem kunnugt er. Fór hann með molann í smiðju sína og bræddi úr silfrið, en hve mikið hann fékk af silfri veit ég ekki, því ég sá það aldrei.
Eg hefi orðið nokkuð langorður um þetta stóra strand, þó ótal margt sé enn þá ósagt, en sökum þess að mér er ekki kunnugt um, að nokkur maður, allt til þessa hafi skrifað einn sögulegan staf strandinu viðvíkjandi, þá hefi ég ekki viljað láta undir höfuð leggjast að skrásetja það helsta um þetta mikla strand, svo jafn-stórmerkur viðburður ekki týndist algerlega úr annálum Íslands.
Einkennileg tilviljun má það kallast, að tvö alstærstu timburströndin, sem borið hefir að ströndum þessa lands skuli hafa lent í Hafnahreppi.”
Sjá meira um Reimleika í Valahnúkshelli í tengslum við “Reykjanesstrandið mikla og einnig meira um Jamestown-strandið.

Heimildir:
-Ægir – 11. Tölublað (01.11.1930) – bls. 138-140.
-Ægir – 12. Tölublað (01.12.1930) – bls. 273-275.

Ásláksstaðir


Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd eru að mestu byggðir úr viðum Jamestown.

Gísli Sigurðsson skrifaði um dauða Runólfs Runólfssonar í Kólgu (Klapparkoti) í Faxa árið 1965:

Gísli Guðmundsson“Alla nítjándu öldina og að minnsta kosti fyrsta tug þessarar aldar sóttu menn af öllum Suðurnesjum verzlun sína til Keflavíkur. Ekki var það fyrr en eftir 1910, sem farið var að vinna að vegabótum þar um slóðir, þannig að gera vegi akfæra. Áður voru aðeins ruddir götuslóðar, og fóru menn á milli fótgangandi á vetrum, en á hestum á sumrum, þeir sem höfðu þá yfir slíkum þægindum að ráða. En yfirleitt munu svonefndir tómthúsmenn, sem mikið var af á Suðurnesjum, ekki hafa átt annars kost en ganga í kaupstaðinn og bera á bakinu nauðsynjar sínar, ef þeir fengu þá nokkra fyrirgreiðslu erinda sinna, því oft kom það fyrir, ef fátækir áttu í hlut, að Keflavíkurkaupmennirnir létu þá bíða allan daginn eftir áheyrn, og svo loks, er þeir veittu mönnum viðtal, var það ef til vill aðeins til þess að neita bænum þeirra. Var þá ekki um annað að ræða en halda heim með þau málalok.
Nærri má geta, að ekki hafa það verið neinar skemmtigöngur að fara tómhentur heimleiðis og vita af heimilinu bjargarlitlu og þar að auki að leggja upp úr kaupstaðnum undir myrkur á haustdegi, svangur og kaldur, eftir að hafa beðið milli vonar og ótta um úrslit erindis síns, enda fór alloft svo, að þeir, sem heima biðu, urðu fyrir sárum sorgum, er heimilisfaðirinn kom eigi heim, því ferð hans hafði lokið einhvers staðar á heiðunum á Suðurnesjum. Geyma heiðarnar þar áreiðanlega margar sorgarsögur um hinztu stundir þessara göngumanna, er þeir háðu baráttu sína við hryggð og gremju yfir erindislokunum í kaupstaðnum og hungur og þreytu eftir að hafa gengið villtir vegar, ef til vill mikinn hluta nætur, áður en þeir settust niður til að taka sér örlitla hvíld. En hvíldin sú varð oft hin síðasta, því svo var þá af þeim dregið, að þeir gátu eigi veitt viðnám svefninum, sem þá vildi ásækja þá, og sofnuðu því svefninum langa. Og kannske lagði svo nóttin til líkblæjuna með því að láta fönnina leggjast yfir allt, og gat þá liðið alllangur tími, þar til hinn týndi maður varð fundinn.

Dauðsmannsvarða

Efri-Dauðsmannvarða við Sandgerðisveg.

Ein slík raunasaga verður nú sögð hér. Hún hefir þó á sér verulegan þjóðsagnablæ, sem skapazt hefir í sambandi við þjóðtrú þeirra tíma, en þá vildu menn stundum kenna slys slík sem að framan er lýst illum fylgjum, er villtu um menn og voru stundum svo magnaðar, að þær veittu mönnum árásir, er drógu þá til dauða.
Stundum kom það fyrir, að menn urðu varir við ýmis dýr, komin úr sjó, og veittu þau fólki eftirför og stundum árásir. Nokkur sannleikur mun vera í sumum sögum, er greina frá slíkum viðureignum, en oftast munu þær frásagnir hafa lagazt svo í meðferð manna, að erfitt verður að greina það frá, sem satt kann að vera, enda gæti verið vafamá!, hvort rétt væri að fara út í slíka greiningu, þó tiltækilegt þætti.
Það er þá upphaf sögunnar, að árið 1879 bjó maður að nafni Runólfur Runólfsson í þurrabúðarkoti einu, sem í daglegu tali var alltaf nefnt Kólga, en hét réttu nafni Klapparkot á Miðnesi og mun upphaflega hafa verið kofi byggður til að salta í fisk, en síðan tekinn til íbúðar, því að þess voru nokkur dæmi. Þetta ár er Runólfur sagður vera orðinn ekkjumaður, 52 ára að aldri. Bjó hann með bústýru, Kristínu Sigurðardóttur, er þá var 24 ára gömul. Hjá þeim dvaldist og sonur Runólfs, Bjarni að nafni. Kristín bústýra var dóttir Sigurðar Kortssonar af svonefndri Írafellsætt, en það herma sagnir, að sú ætt hafi átt fylgju þá, sem nefnd hefir verið Írafells-Móri, og á fylgja sú að hafa gert fólki ýmislegt til óþurftar og jafnvel skaða.

Sandgerði

Sandgerði og nágrenni. Herforingjaráðskort 1903.

Hinn 16. nóvember 1879 fór Runólfur í Kólgu til Keflavíkur, og segir ekkert af þeirri ferð hans fyrr en á vökunni um kvöldið, að hann á heimleið sinni úr Keflavík kom að Landakoti, en sá bær er í Sandgerðishverfi. Ekki er þess getið, hvort hann hafði nokkurn farangur meðferðis. Gekk hann til baðstofu og þáði beina, eins og títt var á bæjum, er gesti bar að garði. Bóndi í Landakoti var þá Þórarinn Pálsson skáld, síðast að Hofi í Garði. Er Runólfur fór af stað frá Landakoti, er sagt að hann hafi beðið Þórarin bónda að lána sér vatnastöng, er hann átti. Hugðist Runólfur nota stöngina að vopni, „því að mér fannst,” segir hann, „einhver skrattinn vera að glettast við mig, er ég gekk norður Löndin.” Svo nefndust flatir, er lágu milli Sandgerðis og Bæjarskers, þar sem nú er Suðurgata í Sandgerði. Vegslóði lá yfir heiðina úr Keflavík að Bæjarskerjum, og var svo gengið yfir Löndin af þeim, sem heima áttu innar á nesinu. Þórarinn segir Runólfi stafinn velkominn, en bauð að fylgja honum á leið, þar eð hann taldi, að Runólfur væri drukkinn. Hann afþakkaði fylgd Þórarins, þar sem hann átti örskammt heim, eða aðeins yfir Sandgerðistúnið og eftir malarkambi milli Flankastaða og Sandgerðis, þá túnið á Flankastöðum og malarkamb, sem náði þaðan og heim að bæ hans. Báðir þessir malarkambar liggja milli sjávar og tjarna, sem eru fyrir ofan þá, en þeir eru hvor um sig 200—300 metrar á lengd. Öll leiðin, sem ófarin var frá Landakoti, var um 15 mínútna ganga.

Sandgerði

Sandgerði – loftmynd 2023.

Varð það úr, að Runólfur fór einn frá Landakoti, og er það hið síðasta, sem menn vita um hann lifandi. Er hann kom eigi heim um kveldið og nóttina, var hafin leit daginn eftir. Veður hafði verið vont um nóttina, rok og rigning ásamt náttmyrkrinu. Ekki leið á löngu, þar til leitarmenn fundu merki þess í þarahrönn, sem var í flæðarmáli fyrir neðan malarkamb þann, er liggur suður frá Flankastaðatúni, að þar hefði viðureign nokkur átt sér stað, og það mjög hörð, því þarinn var mjög troðinn á nokkru svæði. Gengu menn brátt úr skugga um, að þar hefði Runólfur í Kólgu háð harða glímu um líf sitt við einhverja óvætti og beðið lægra hlut, því þar lágu partar af líkama hans, sem virtist hafa verið allur tættur sundur. Sumir líkamshlutar hans fundust suður í svonefndu Bakkakotsviki, sem er sandvik sunnan undir túninu í Sandgerði.

Sandgerði

Sandgerði – Landakot; loftmynd 2023.

Saga gekk um það, að kvöldið, sem Runólfur kom að Landakoti, hafi það borið við á bæ einum þar í nágrenni, er fólk var í þann veg að ganga til náða, að þá hafi maður komið þar á baðstofuglugga með miklum asa og beðið um að opna fyrir sér í guðs nafni, því að djöfullinn sjálfur væri á hælum sér. Fólk allt á bænum hafði orðið mjög óttaslegið við þetta ávarp á glugganum og mun þess vegna ekki hafa brugðið strax við að ganga til dyra. En þar skipti engum togum, því að, er maðurinn hafði gert vart við sig á þennan hátt, urðu ryskingar þar í gluggatóftinni, og heyrðist fólkinu, sem inni var, að maðurinn væri dreginn frá glugganum. Var það álit manna, að þar mundi Runólfur verið hafa, og hefir þá verið búinn að eiga í höggi við ófögnuð þennan allt kvöldið, frá því hann fór frá Landakoti. Sumir töldu, að þarna hefði Írafells-Móri unnið eitt af sínum ódáðaverkum. Aðrir, og miklu fleiri, álitu aftur á móti, að maðurinn hefði orðið fyrir árás af sjávardýri.
Hér lýkur þessari frásögn. Er hún skráð hér eins og ég heyrði hana sagða af mönnum, sem komnir voru til fullorðinsára, þegar atburður þessi gerðist, svo að þannig hefir sagan gengið meðal fólks.
ÚtskálakirkjaÍ prestsþjónustubók Útskálaprestakalls er dánardagur Runólfs skráður 16. október 1879, og fylgir þessi athugasemd, sem sýnist varpa nokkru ljósi yfir hin raunverulegu ævilok hans: „Runólfur Runólfsson, Klapparkoti, 52 ára, varð úti voveiflega á heimleið úr Keflavík í slagveðri af rigningu og stormi, allskammt frá bæ sínum um miðja nótt. Meint, að hann hrakizt hafi niður í fjöru fyrir sunnan Flankastaðatúngarð, hvar sjór hafi tekið hann, því bein hans fundust löngu seinna, sundurlimuð, og fatnaður.” Grafinn er hann, samkvæmt sömu prestsþjónustubók, 8. jan. 1880 eða 12 vikum frá dánardegi.
(Saga þessi er áður prentuð í sjöunda hefti af Íslenzkum sagnaþáttum og þjóðsögum, eftir dr. Guðna Jónsson).”

Sjá meira um Runólf HÉR og HÉR.

Heimild:
-Faxi – 10. tölublað (01.12.1965), Gísli Guðmundsson, “Dauði Runólfs í Kólgu”, bls. 225-226.

Dauðsmannsvarða

Dauðsmannvarða við Sandgerðisveg.

Sandgerðisvegur

Sandgerðisgata er víða vel greinanleg og vörðuð þótt sumar vörðurnar séu fallnar og sums staðar hafi verið rótað í henni með stórvirkum tækjum.

Sandgerði

Sandgerði og nágrenni – herforingjaráðskort 1903.

Stefnan var tekin upp heiðina, um malargryfjur og slóða ofan byggðarinnar í Sandgerði. Digravarða er áberandi kennileiti í heiðinni, en hún var endurhlaðin fyrir skömmu. Þó má enn sjá leifar gömlu hleðslunnar. Á henni sést vel umfang þessa forna siglingamerkis og viðmiðs. Sumir hafa viljað skipta á Digruvörðu og rostungnum í skjaldarmerki kaupstaðarins, en það sýnir vel hversu mikilvægu hlutverki varðan hefur gegnt í gegnum tíðina.
Ofar í heiðinni fannst stakt vörðubrot, en svo virtist sem þar væri á ferð hluti leiðar yfir í Garð. Sá hluti hennar sást vel þegar skoðað var bæjarstæði Skálareykja á dögunum, en þá bar gamla leið í landið til suðurs upp heiðina, áleiðis að Sjónarhól, og áfram til suðurs vestan við Þrívörður.

Rockville

“Bæjarmerki” Rockville.

Bæjarmerki Rockville var barið augum sem og vörðuminnismerkið norðan þess. Það er dæmigert fyrir einstakt þarfaverk nútíma hugdettu, en tengist ekki þörfinni á gerð leiðarmerkja fyrri tíma. Reynar er orðið áberandi hversu duglegt nútímafólk er að hlaða vörður til minningar um veru sína á tilteknum stöðum þá stundina, en gleymir að vörður voru fyrrum hlaðnar í nauðsynlegum tilgangi, þ.e. að auðvelda fólki að rata milli staða. Í slæmum veðrum eða lélegu skyggni gátu vel hlaðnar vörður með stuttu millibili skipt sköpum um líf eða dauða. Gamlar vörður höfðu tilgang og gefa nútímafólki til kynna að þar við sé eitthvað sem vert er að gefa nánari gaum.

Sandgerðisvegur

Sandgerðisvegur – kort ÓSÁ.

Sandgerðisvegurinn gamli liggur beggja vegna vörðunnar. Skammt vestan hennar er varða norðan vegarins, Einmenningsvarða á Einmenningshól.
Milli varðanna eru gatnamót Sandgerðisgötu og Fuglavíkurleiðar. Hún kvíslast niður heiðina, fyrst til norðveturs og síðan til vesturs niður að Norðurkoti og Fuglavík. Bæði austast og vestast er erfitt að greina leiðina vegna jarðvegseyðingar á heiðinni, en ef vel er gaumgæft er tiltölulega auðvelt að rekja sig eftir henni Sigurður þekkir leiðina vel. Hann hafði sett í hana hæla til að auðvelda eftirfylgnina, en nýlega tók hann þá upp svo nú er öllu erfiðara ókunnugum að rata þessa gömlu þjóðleið um annars kennilausalitla heiðina.

Grímsvarða

Sigurður Eiríksson og Guðmundur Sigurbergsson við Grímsvörðu endurreista.

Sandgerðisleiðinni var fylgt til norðvesturs. Hún fer undir Miðnesheiðaveginn nálægt bæjarmörkum Sandgerðis (skilti norðan vegarins), og fylgir síðan veginum framhjá Grímsvörðum. Þar eru nú á lágu klapparholti “sýnishorn” af vörðunum tveimur, sem þar voru fyrrum, en voru fjarlægðar og notaðar til vegagerðar. Skammt vestan vegar að að einni “hlustunarstöð varnarliðsins” fer gamla þjóðleiðin undir núverandi þjóðveg. Vestan vegar að “hlustunarstöð varnarliðsins” sunnan þjóðvegarins fer gamla þjóðleiðin aftur undir þjóðveginn og inn í beitarhólfið, sem þar er. Þarna vantar tröppu. Innan beitarhólfsins er auðvelt að fylga leiðinni því vörðubrot gefa auk þess legu henar til kynna. Skammt sunnar á holti eru hlaðin byrgi verndaranna þar sem þeir hafa verið við æfingar.
Þjóðleiðini var fylgt niður með Draugaskörðum. Á þeim er endurhlaðin varða; Dauðsmannsvarðan efri. Vestan hennar liggur Sandgerðisvegurinn enn undir núverandi Miðnesheiðarveg, að Vegamótahól. Þarna vantar tröppu.

Sandgerðisgata

Sandgerðisgata.

Gamla Sandgerðisgatan (Sandgerðisvegurinn, sbr. Sig. B. Sívertsen – sóknarlýsing um 1880) var gengin frá Sandgerði að Grófinni í Keflavík. Gatan sést þar sem hún kemur undan einum húsgrunnanna á nýbyggingarsvæðinu ofan bæjarins og liðast síðan upp móann. Vestan við Vegamótahól, þar sem voru gatnamót Sandgerðisgötu og Bæjarskersvegar, liggur gatan undir nýja Sandgerðisveginn, en kemur aftur undan honum í Draugaskörðum. Ofan við þau eru t.d. Efri-Dauðsmannsvarðan. Þar liggur hann áfram til suðurs framhjá Dynhól. Fallnar vörður eru vinstra megin götunnar svo til alla leið upp að Gotuvörðu. Á þeirri leið fer gatan aftur undir Sandgerðisveginn, liggur síðan samhliða honum spölkorn, og fer þá enn á ný undir hann til vesturs.

Einstæðingshóll

Á Einstæðingshól.

Vestan Sandgerðisgötunnar liggur gatan síðan áfram framhjá Einstæðingsvörðu þar sem voru gatnamót Fuglavíkurvegar og áfram upp að Gotuvörðu, sem fyrr segir. Gotuvarðan er endurhlaðin, en skammt norðan og austan hennar eru tvær fallnar vörður. Sunnan Gotuvörðu fer gamla gatan enn á ný undir Sandgerðisveginn. Þar liðast hún niður móana áleiðis að Keflavíkurborginni ofan Grófarinnar og niður með Brennivínshól. Á leiðinni fer gatan undir Garðveginn og síðasti sýnilegi hluti hennar er skammt vestan hólsins.

Sandgerði

Sandgerðisbærinn.

Sandgerði er með elstu höfuðbólum á Suðurnesjum. Þaðan hefur alla tíð verið stunduð mikil útgerð enda Sandgerði einhver mikilvægasta verstöð landsins, á sama tíma og dró úr mikilvægi flestra annarra verstöðva á Rosmhvalsnesi.
Árið 1990 fékk Sandgerði kaupstaðarréttindi og er því með yngstu kaupstöðum landsins.
Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Sandgerðisgatan liggur um beitarhólfið.
Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi.

Sandgerðisvegur

Sandgerðisgata – vegamótahóll framundan.

Vegmótahóll er nefndur eftir vegamótum Bæjarskersgötu og Sandgerðisgötu, sem þar eru sunnan hans. Sandgerðisgata er greinileg með sunnanverðum Vegamótahól og þar sem hún liggur vestur með hólnum, yfir slóða og í gegnum lúpínubreiðu. Handan hennar er hann vel greinilegur og víða hefur verið kastað upp úr veginum. Norðar sét vel til Digruvörðu í heiðinni.
Skammt vestar og sunnan við Sandgerðisveginn gamla er vörðubrot; Dauðsmannsvarðan neðri. Þar segir sagan að maður hafi orðið úti, líkt og svo margir aðrir á Miðsnesheiði í gegnum tíðina. Auk hins hefðbundna segir sagan að þar eigi að vera áletrun á steini. Sú áletrun hefur enn ekki fundist þrátt fyrir ítrekaða leit.

Sandgerðisvegur

Gengið um Draugaskörð á Sandgerðisvegi.

Norðar eru Draugaskörð. Á þeim var hlaðin varða á einum af þrem Draugaskarðshólum, nefnd Efri-Dauðsmannsvarða. Svo er klapparhóll, sem heitir Grímsvörður. [Grímsvörður voru allnokkru ofan Draugaskarða].
Skammt ofar varð að sprengja þar úr [er nýi þjóðvegurinn (malbikaði) var lagður. Þá voru vörðurnar teknar, en hóllinn er með marki SE og G frænda hans].
“Vafi hefur verið á hvar Einstæðingur er, hvort hann er hér eða í Leirunni. Einstæðingsmelur er þó vestan við Sandgerðisgötuna þar sem Fuglavíkurgatan kemur inn á hana.” Þar sést Einstæðingur og varðan á honum, litlum grónum hól í melnum. Guðmundur, sem var með í för, hefur þegar gert ráðstafnir til að hlaða upp vörðuna og áletraður steinninn í hana bíður tilbúinn í Norðurkoti.

Sandgerði

Listaverkið Álög á Oddnýjarhól.

Ef haldið er á ný niður eftir Sandgerðisgötu (-vegi) og örnefnin rakin upp eftir sem leið lá, verður fyrst fyrir Oddnýjarhóll norðan við veginn, skammt suður frá merkjum. Á hólnum, sem er við innkeyrsluna í Sandgerði, er nú listaverkið “Álög”. Vart er hægt að hugsa sér stórfenglegri sýn en þá sem blasir við þegar keyrt er inn í Sandgerði. Þar mætast himinn og haf og útsynningurinn lemur skerjagarðinn með brimföldum sem tóna við hið fagra listaverk. Verkið er eftir listakonuna Steinunni Þórarinsdóttur og þar gefur að líta þrjár rústfríar öldur sem tákna að hafið er eilíft en maðurinn sem stendur þar hjá er úr pottstáli því hann er forgengilegur. Verkið var sett upp á 100 ára afmæli Miðneshrepps 1986 til minningar um látna sjómenn.

Neðri-Dauðsmannsvarða

Neðri-Dauðsmannsvarða.

Næst ofar er Árnakötluhóll. Hærra og norðaustur af honum er Neðri-Dauðsmannsvarða. Henni hefur ekki verið haldið við, og þar var letur á hellu rétt hjá. Hefur það ekki fundizt nú um sinn. Hefur það líklega verið leiði meiri háttar manns. Þetta er beint upp af Stekknum fyrrnefnda. Upp af Neðri-Dauðsmannsvörðu er Sjónarhóll. Hann er á merkjum móti Sandgerði. Suður af Sjónarhól er Vegamótahóll. Þar á milli eru smáholt nafnlaus. Upp af Vegamótahól í Draugaskörðum er nefndur Dynhóll. Austur af honum eru Samföstuhólar. Þá ber við himin og eru með smáþúfum á. Græn þúfa er á Breiðhól syðri, sem er fyrir norðan Digruvörðu, úr Breiðhól til Gotuvörðu, þaðan í Háaleitisþúfu.

Digravarða

Digravarða.

Sigurður Eiríksson í Norðurkoti hefur merkt nokkra af þessum hólum eftir lýsingum eldri manna er þekktu vel til fyrrum.
Digravarða rís há og mikil i norðri. Hún var sundvarða í Hamarssundið, [um Sundbolla í Keili].
Þegar staðið er við Vegamótahól má sjá niður að Býjaskerum (Bæjarskerum). Bæjarsker er ef til vill elsta höfuðból Suðurnesja en margt bendir til þess að þar hafi búið Steinunn gamla, sem Ingólfur Arnarson gaf mestallan norðanverðan Reykjanesskaga. Væntanlega hefur Steinunn stundað útgerð af kappi, en Bæjarskerseyrin þótti lengi ein besta veiðistöð Suðurnesja. Landbrot vegna ágangs sjávar hefur þó leikið eyrina grátt og eftir ofsaflóð veturinn 1769 og síðar Básendaflóðið 1799 hnignaði útgerð þar mjög.

Bæjarsker

Álfklettur ofan Bæjarskerja.

Á Bæjarskerum á eftirfarandi þjóðsaga að hafa gerst: “Guðrún nokkur bjó að Býjarskerjum á Miðnesi. Hún átti unga dóttur sem hét Pála(?). Þegar hún var ungbarn tók hún svo snöggri og mikilli breytingu að menn álitu að hún væri orðin umskiptingur, svo var hún ólík öðrum börnum og öllum sínum. Hún var lág og gild, greppleg í ásýnd og óálitleg mjög með gular tennur og neglur beygðar fyrir góma og líkastar klóm. Að öllu leyti var hún afar ellileg að sjá. Þegar hún var í einrúmi hjá þeim er hún trúði sagði hún honum ýmislegt er hún annars leyndi svo sem það að hún héti eigi það sem hún væri kölluð. “Ég heiti Odda, maður minn; er eldri en þið haldið og barna móðir,” sagði hún.
En ef hún var spurð meira um það, eyddi hún því og brá í annað tal.
Einu sinni kom maður þangað, sem Þorlákur hét, að Býjarskerjum. Hann var einn þeirra manna er neitaði öllu “ónáttúrlegu”. Hann hafði oft komið þar áður og átt í stælum um ýmislegt og séð Oddu og heyrt skrafað þar margt og um ýmislegt þess háttar og hlegið að, einkum þó sögnum um umskiptinga. Nú þegar hann var kominn þarna slógu menn á glens við hann og spurðu hvort þeir ættu ekki að sýna honum umskipting. Jú, hann hló að því og kvaðst hafa sterka löngun til að sjá slíkt náttúruafbrigði. Sóttu menn þá stelpuna því móðir hennar var eigi heima. Síðan harðlokuðu þau dyrunum svo stelpa kæmist eigi út.

Bæjarskersrétt

Bæjarskersrétt.

Það er gömul trú að umskiptingar þoli eigi klukknahljóð fremur en aðrar kynjaverur og mjög illa var stelpunni við alla skræki og blístur. Þar uppi í baðstofunni var blístrukeyri sem menn höfðu stundum hrætt hana með. þegar stelpa var komin inn greip einhver keyrið og blés í endann. Þá brá svo við að stelpa brá hart undan og varð sem vitstola. Augun þöndust út af æðinu og hún titraði öll af ósköpum þeim er yfir hana komu. Þar næst réðist hún á súðina, læsti sig fasta með nöglunum og skreið upp í mæni af einum saman handkrafti svo að fætur löfðu í lausu lofti. Eftir því sem hert var blístrið fór hún harðar svo það var líkast sem köttur klifrar í ákafa. Þannig skreið hún upp og ofan og einnig hliðhallt. Það undruðust allir mest af öllu. Loksins þegar þetta hafði lengi staðið yfir öllum til mestu undrunar opnaði maður baðstofuhurðina og stelpa þeyttist út eins og fjaðrafokka. Þá varð Þorláki að orði: “Já, svo framarlega sem nokkur umskiptingur hefur nokkurn tíma verið til þá er þessi djöfull umskiptingur. Og þessu hefði ég aldrei trúað hver helst sem hefði sagt mér nema ég hefði séð það sjálfur sem nú er orðið. En margt er ótrúlegt þó það sé satt og er þetta eitt af því.”

Bæjarsker

Bæjarsker 1919.

Snerist nú allt glens í undrun fyrir bæði Þorláki og öðrum. Aldrei fékk móðir Oddu að vita neitt um þetta. En eftir þetta efaði enginn á bænum að Odda væri umskiptingur og vildu fyrir hvern mun koma henni af sér. Spurðu menn nú Guðrúnu hvort hún hefði nokkurn tíma haft hana í kirkju með sér. Hún kvað nei við.
Skoruðu menn þá á hana að fara einn sunnudag með hana í Útskálakirkju því þeir vissu engar kynjaverur standast klukknahljóm né helgisöngva. Þekktist Guðrún ráðið án þess að hún mundi viðurkenna að dóttir sín væri kynjavera. Lét hún nú til leiðast og var Odda sett upp á stólpagrip sem hest. Riðu þær svo uns þær heyrðu hringinguna frá Útskálum. En þá ærðist stelpan, orgaði og froðufelldi og varð svo þung á hestinum að hann féll þar niður og varð eigi komið á fætur aftur en Odda var froðufellandi og óð. Var þá afráðið að snúa aftur með Oddu og gekk það erfiðlega enda ágerðist ofsinn og æðið svo hún bráðdó á leiðinni til baka.”

Álaborg

Álaborg syðri.

Ofan við Býjarsker er Arnarbæli og skammt ofar Álaborg, rétt auk tófta. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir að “Holt eitt með klettum og grasi vaxið á milli klettanna er upp í heiðinni milli Býjaskerja og Sandgerðis rétt fyrir ofan (sunnan) túngarðinn, er Arnarbæli heitir. Annar klettur er þar fyrir neðan Sandgerði sem brúkaður hefur verið fyrir hróf á sumarinn, er heitir Hamar. Þaðan þóttust menn sjá álfafólk vera að setja skip sín og upp í Arnarbæli nóttina fyrir Bátsendaflóðið – þann 4. janúar 1798 [á reyndar að vera 1799] – sem mörgum sveitum olli hins mesta tjóns og töpunar.”
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er talað um “loftanda” á Miðnesheiði, sbr.: “Vor eitt um 1820 í heiðríkju hér um bil milli hádegis og miðmunda heyrðist skruðningur í lofti því líkast sem stórskip væri í flughasti dregið um kastmöl. Þetta heyrðist víða á Suðurnesjum, í Keflavík, Grindavík, Garði og Hafnarfirði. En á Miðnesinu sást skýflóki líða hér um bil skafthátt fyrir ofan sjóndeildarhring úr landsuðri til útsuðurs; fyrst dökkur, en er hann kom fyrir sól að sjá, hvítbleikur. Að honum horfnum kom þessi skruðningur upp – sögðu Nejsamenn. Var þetta kallaður loftandi. Sögur svipaðar þessari gengu manna á meðal og voru alltaf kallaðar loftanda verkan.”

Álaborg

Í Álaborg syðri.

Jón Jónsson frá Bæjarskerjum sagði að “við Vegamótahól koma saman vegirnir frá Bæjarskerjum og Sandgerði, svo var einn vegur frá Vegamótahól til Keflavíkur.”
Í leiðinni var litið á Dauðsmannsvörður, en þær munu vera þrjár á þeim slóðum. Ein, þ.e. sú nyrsta er rétt ofan við Sandgerði. Á hellu við hana á, skv. örnefnalýsingu [gömlum sögnum], að vera áletrun.
Enn hefur hin meinta áletrun við Neðri-Dauðsmannsvörðu við Sandgerðisveginn ekki komið í ljós. Varðan er hálfhrunin, en þó má enn sjá ferkantaða lögun hennar. Varðan er nokkuð utan við götuna, í slakka, svo hún hefur ekki þjónað neinum sem leiðarmerki í lifandi lífi. Sagan segir að þarna hafi maður eða jafnvel menn orðið úti og varðan verið hlaðin til minningar um hann eða þá. Áletrun átti að hafa verið klöppuð á stein í eða við vörðuna. Kominn er tími til að endurhlaða vörðuna með því grjóti sem í og henni liggur.

Dauðsmannsvarða

Efri-Dauðsmannvarða við Sandgerðisveg.

Efri-Dauðsmannsvörðan er skammt frá götunni ofan við Draugaskörð og enn önnur í heiðinni ofan við Berghús. Ekki hafa fundist áletranir við þær. Dauðsmannsvarðan, sem er á efsta Draughólnum við Draugagil, var hlaðin upp fyrir skemmstu.
Við Rockvilleroad voru fyrrum mannvirki í radarstöðinni kynnt til sögunnar sem og tilgangur hennar.
Einstæðingsvarða er á mel [fyrrum malargryfjum] skammt neðan Gotuvörðu, sem er nú áberandi kennileiti sunnan við götuna. Einstæðingsmelur er þar og á honum Einstæðingshóll – varðan er nú sokkin í grashólinn. Sigurður og Guðmundur hafa mikinn áhuga á að endurreisa vörðuna, enda munu, sem fyrr segir, gatnamót Fuglavíkurgötu og Sandgerðisgötu hafa verið þarna nálægt hólnum. Sigurður þekkir Fuglavíkurleiðina mjög vel, en hún er nú víða horfin, bæði vegna jarðvegseyðingar, framkvæmda sem og gróins gróanda. Hún sést þó enn á köflum.

Sandgerðisvegur

Sandgerðisvegur – áð við Gotuvörðu.

Þarna á melnum voru námur og öll verksummerki eftir þann hluta Fuglavíkurleiðarinnar, nema hóllinn, hafa verið þurrkuð út.
Þegar komið var upp að Gotuvörðu var áð, enda komið sólksinsdreif. Hvers vegna nafnið er til komið er óþekkt. Þarna gæti t.a.m. gotufata hafa fallið af hesti, sbr. Méltunnuklif austan Grindavíkur (þar sem méltunna féll af hesti og klifið hlaut nafn af). Sumir hafa talið að þarna gæti hafa átt að standa “Götuvarða”, en þeir sem gleggst þekkja til segja það hafi ekki verið. Sigurður Eiríksson í Norðurkoti og Guðmundur Sigurbergsson frændi hans endurhlóðu vörðuna fyrir skemmstu. Í henni er steinn með nafni vörðunnar.

Sandgerðisvegur

Gengin Sandgerðisgata.

Tugir manna (hundruðir samtals til lengri tíma) urðu úti á skömmum tíma á gömlu þjóðleiðunum um Miðnesheiði fyrr á öldum. Flestir voru þeir á leið frá kaupmanninum í Keflavík, síðladags eða undir kvöld.
Sagan af Runka (Runólfi), þess er Hafsteinn miðill hafði jafnan beint samband við á skyggnilýsingarfundum sínum, er ágætt dæmi um þetta. Lík hans fannst illa útleikið eftir að hans hafði verið saknað um tíma. Var jafnvel talið um tíma að honum hafi verið fyrirkomið, en síðar sættust menn á að dauða hans hafi borið að af “eðlilegum” ástæðum.
Eflaust standa ennþá fleiri vörður, eða fallnar, á Miðsnesheiði sem minningarmörk um fólk, er varð þar úti á sínum tíma, en eru núlifandi fólki flestu gleymt. og enn rölta menn um heiðina, meira og minna “dauðir” fyrir sögu þeirra, sem þar hafa orðið til í gegnum aldirnar.

Keflavíkurborg

Keflavíkurborg.

Keflavíkurborg sést framundan þegar gatan er fetuð áleiðis niður að Grófinni. Leifar af borginni sjást enn, en líklegt má telja að grjót úr henni hafi veri tekið í nýrri mannvirki líkt og var með vörður og önnur hlaðin steinmannvikri fram að þeim tíma. Brennivínshóll er við ofan við Grófina, norðan götunar, skammt frá Keflavíkurborg. Þar var til siðs að taka tappa úr flösku á leið yfir heiðina (hóllinn er merktur af SE). Reynslan sýndi að það þótti miður heppilegt því margir áttu erfitt með að rata réttar leiðir eftir það.

Sandgerðisgata

Sandgerðisgata – varða á Vegamótahól.

Ljóst er að Sandgerðisgatan sést um langan veg á fyrrgreindum 8 km kafla milli bæjarins og Grófarinnar. Hún er reyndar horfin þar sem nýjasti vegurinn hefur verið lagður ofan á hana sem og þar sem malargryfjum hefur verið komið fyrir á leiðinni. Annars sést hún vel í móum Miðnesheiðar, fjölmörg vörðubrot eru við hana (vinstra megin á leið frá Sandgerði) og ýmsar mannvistarleifar tengdum sögum og atburðum á leiðinni má enn berja augum.

Sandgerðisgata

Sandgerðisgata ofan Keflavíkur. Gotuvarða framundan.

Garðsstígur

Gengið var eftir Garðsstíg (Garðvegi) til suðurs að Grófinni í Keflavík. Leiðin lá um svonefndan Garðstíg efri, þ.e. um Langholtin, Ytra- og Innra-Langholt.
Önnur leið var mun neðan Langholtanna milli Garðs og Berghóla, skammt ofan heimagarða Leiru, Hólma og Gufuskála, en á Berghólum komu leiðirnar saman síðasta spölinn í Grófina í Keflavík.

Ellustekkur

Ellustekkur.

Neðri leiðin sést spottkorn enn rétt ofan garðs við Hólm og Gufuskála. Viðhald og virðing hennar hefur verið vanrækt, líkt og um aðrar gamlar þjóðleiðir á Suðurnesjum.
Gengið var sem sagt um ofanverðan Inn-Garð. Ætlunin var m.a. að skoða Elínarstekk (Ellustekk), tóftir Heiðarhúss, Hríshólavörðu, Þrívörður, Árnaborgina og/eða Smalaskálaflatir/-borg. Einnig að ganga um Langholtin, skoða Langholtsvörður, Ranglát og Pretsvörðuna og halda síðan til suðurs utan Bergvatna að Grófinni ofan við Keflavík.

Hríshólavarða er í stefnu vestsuðvestur frá Ellustekk (Elínarstekk). Hún stendur á Hríshólum. Gamlar götur út úr Garði lágu við Langholt og Hríshólavörðu. Þær nefndust Efrivegur. Neðrivegur lá ofan við Leirubæina. Enn sést móta fyrir götum þessum, einkum norðvestan og ofan við Langholtin. Einnig á Berghólum og áleiðis að Grófinni.

Ellustekkur

Svæðið innan við Garð hefur verið raskað að nokkru, bæði með vegaslóðum og malar- og grjótnámi, auk þess sem allnokkur gróðureyðing hefur orðið á Miðnesheiðinni. Þess vegna er sá hluti gömlu þjóðleiðarinnar sem hefur varðveist því merkilegri og mikilvægt að gæta þess vel að honum verði ekki raskað frekar (en nauðsynlegt er).

Það verður að teljast til fyrirmyndar að búið er að merkja margar minjar í og við Garð. Veg og vanda af því hefur Guðmundur Garðarsson (Bóbi) haft, en hann á m.a. ættir að rekja til Rafnkelsstaða.

Garður

Garður og nágrenni – herforingjaráðskort 1903.

Keflavíkurjörðin var ekki stór og eru merki glögg og um óumdeilt eignarland að ræða. Sömu sögu er að segja frá jörðum í Gerðahreppi. Þegar jarðabókin var tekin saman árið 1703 voru alls sextán jarðir í byggð í Garði og Leiru auk Útskála. Jarðirnar voru þessar: Hrúðurnes, Stórihólmur, Litlihólmur, Gufuskálar, Meiðsataðir, Ívarshús, Kothús, Varir, Brekka, Skeggjastaðir, Gauksstaðir, Gerðar, Miðhús, Lambastaðir, Rafnkelsstaðir og Krókur og að auki er getið Heiðarhúsa, sem stóð á heiðinni upp af Meiðastöðum og Rafnkelsstöðum.

Ranglát

Ranglát.

Heiðarhús varð klausturseign og síðar konungs. Síðar fór hún í eyði, en var nýtt frá nærliggjandi jörðum. Töluverðar breytingar hafa síðustu áratugi átt sér stað í Garðinum. Leiran er komin í eyði og á landi landnámsjarðarinnar Stóra-Hólms er nú golfvöllur. Í Gerðalandi hefur byggðin á hinn bóginn vaxið ört og þar er myndarlegt þéttbýli. Saga og þróun þessarar byggðar var m.a. rakin í “innanbæjargöngu” um Garð daginn áður þar sem t.a.m. var skoðað fornmannaleiði í miðri byggðinni, rakin saga útgerðar niður við Gerðahöfnina, sagt frá vörum, sjósókn og sjósköðum með ströndinni, lýst sögu Útskálakirkju og nágrenni og skýrt einkennismerki Garðs, Skagagarðurinn mikli, sem og rakin saga þess mannvirkis er enn er bæði ásjálegt og áþreifanlegt milli Garðs og Kirkjubóls.
Þegar komið var út fyrir þéttbýlið á innleið, en eins og heimamenn vita voru einungis tvær áttir í Garði, þ.e. austur og vestur (hinar voru inn (suður) og út (norður)), var staðnæmst við gróna þúst ofan við þjóðveginn; Ellustekk.

Prestsvarða

Prestsvarða.

Skúli Magnússon segir í Faxa, október 1999, frá Elínarstekk (Ellustekk) utan við Garð.
“Skammt ofan við þjóðveginn í gegnum Leiruna er lítill grasi gróinn hóll eða þúfa, sem kölluð er Elínarstekkur (Ellustekkur). Það var að sögn heygð Elín, niðursetningur frá Gufuskálum, sem dó á dularfullan hátt á 18. öld.
Sögu þessa og staðsetningu stekksins hef ég eftir ábendingum Ólafs Sigurjónssonar frá Litla-Hólmi.
Þegar bílvegur var lagður um Leiruna, um og eftir 1920, var honum valið stæði ofan við byggðina, skammt austan við Elínarstekk. Þessi vegur var síðan breikkaður, eins og fleiri þjóðvegir á árum seinni heimsstyrjaldarinnar, og náði þá uppundir stekkinn.
Það var sumarið 1787 að Elín Stefánsdóttir, blásnauður niðursetningur á Gufuskálum, fannst örend í snærisspotta í hjalli þar skammt frá bænum. Vegna deilna hennar og vinnumanns, þar á bænum, þótti dauði hennar ekki einleikinn.
Haldgóðar vísbendingar fengust þó ekki um að Elín hafi verið myrt, þrátt fyrir réttarhöld. Þess vegna var talið að hún hefði tekið líf sitt í skyndilegu æði, sem að hefði borið um nótt.
HolurtElín var því, samkvæmt kirkju- og landslögum, heygð utan vígðrar moldar og var holað niður utan túngarðs í Leirunni, í sauðfjárstekk frá bænum á Gufuskálum.
Láti Elínar og aðdraganda þess, svo og hulun líks hennar og frágangi þess, er lýst í Dóma- og þingbókum Gullbringusýslu. Óttuðust grafarnir að Elín gengi aftur og skáru höfuð hennar af um hálsinn, lögðu líkið á grúfu, en lögðu höfuðið við þjóhnappana. Átti það að tryggja að hún lægi kyrr.
Fyrir meðferðina á líkinu hlutu mennirnir dóma og ákúrur yfirvalda. En aldrei fór neinum sögum af ókyrrleika sem eignaður var þessari ólánsömu konu.
Heimildarmaður minn, Ólafur Sigurjónsson, kallaði stekkinn aldrei annað en Elínarstekk, en í heimildum Jóns Helgasonar í Sunnudagsblaði Tímans 9. febr. 1969, bls. 108-112, virðist hann nefndur Gufuskálastekkur og hefur það að öllum líkindum verið upprunalegt nafn hans. Eftir greftrun Elínar hefur nafn stekksins breyst en hið eldra heiti líklega fallið úr daglegu máli og gleymst.”

Garðsstígur

Þrívörður.

Ellustekks er getið í örnefnalýsingu fyrir Rafnkelsstaði. Þar segir: “Hér voru býli, sem eru farin í eyði: Þórðarbær, Bjarnabær, Pálsbær og Finnsbær. Rétt ofan við nýja veginn er Ellustekkur, sem ber við himin frá bæ séð.” Grænagróf er í berginu innan Rafnkelsstaða, beint niður af Ellustekk. Stekkurinn mun því vera í Rafnkelsstaðalandi, en ekki Gufuskála.

Efri vegur liggur að norðanverðum Langholtum neðan Hríshólavörðu. Varðan sést vel ofan við Ellustekk. Síðan liggur hún niður fyrir holtin. Fyrst hefur henni verið raskað með trönum, síðan stríðsathöfnum og loks námuvinnslu. Handan þessa svæðis sést gatan vel neðan við holtin.
Til norðurs lá leiðin neðan við Heiðarbæ og kom niður þar sem nú er elliheimilið í Garði. Sunnan við Langholtin er gatan vel greinileg þar sem hún liðast um móann áleiðis að Berghólum.

Gengið var neðan tófta Heiðarhúss ofar í heiðinni. Þar mótar fyrir húsum og görðum. Í Þjóðsögum Jón Árnasonar segir: “Það er í munnmælum haft að Heiðarhús sem eru spölkorn fyrir ofan Inngarðinn hafi í fornöld verið mesti stórbær svo að þar væru þrjátíu hurðir á hjörum, en hafi aflagt fyrir reimleika sakir. Var sá draugur nefndur Heiðarhúsadraugur. Skyldi einn þar búandi maurapúki peningaauðugur hafa gengið aftur til skildinganna. Þókti þar ekki viðvært lengi fram eftir jafnvel þó þar séu tún hin beztu.

Garðsstígur

Gengið um Garðsstíg.

Sigurður og Svanhildur kona hans bjuggu í Heiðarhúsum um 1805. Svanhildur var talin forneskjukerling. Sigurður reri þar í Garðinum sem fleiri og kom oft seint heim á kvöldin frá sjónum. Einu sinni seint um kvöld er Svanhildur sat inni, en Sigurður var ekki kominn frá sjónum, var kallað á gluggann hjá henni: “Ég vil mitt.” Þá svaraði hún: “Taktu þitt og farð’ í burtu.” Svo fóru leikar að þeim þókti þar svo óskemmtilegt að þau fóru þaðan.”
Í athugsasemdum við örnefnalýsingu Rafnkelsstaða segir að “Heiðarhús eru nú löngu komin í eyði. Þó man Halldór [Þorsteinsson í Vörum] eftir karli, sem búið hafði tómthúsbúi í Heiðarhúsum og var við þau kenndur. Þarna var talsvert ræktað land, sem Rafnkelsstaðamenn og Meiðastaðamenn deildu um áður fyrr, en hvorugir gátu helgað sér það, því að það var í óskiptu landi.”

Hér fyrir neðan voru býli, sem eru farin í eyði: Þórðarbær, Bjarnabær, Pálsbær og Finnsbær. Rétt ofan við nýja veginn er Ellustekkur, sem ber við himin frá bæ séð. Grænagróf er dokk niður í bergið. Þar er mikil huldufólks byggð.
Þá er hið óskipta land uppi í heiðinni. Beint hér upp af er eyðibýlið Heiðarhús. Virðist það hafa verið allmiklar byggingar og mikil jörð. Þar innar eru Smalaskálaflatir og Hríshólavarða, og framhald af henni er svo Langholt, sem nær áfram fyrir ofan Leiruna.

Garðsstígur

Garðsstígur – fisktrönur.

Grænugróf er fyrir neðan veginn, niður af Ellustekk. Heiðarhús eru nú löngu komin í eyði. Þó man Halldór eftir karli, sem búið hafði tómthúsbúi í Heiðarhúsum og var við þau kenndur. Þarna var talsvert ræktað land, sem Rafnkelsstaðamenn og Meiðastaðamenn deildu um áður fyrr, en hvorugir gátu helgað sér það, því að það var í óskiptu landi.

Það er í munnmælum haft að Heiðarhús sem eru spölkorn fyrir ofan Inngarðinn hafi í fornöld verið mesti stórbær svo að þar væru þrjátíu hurðir á hjörum, en hafi aflagt fyrir reimleika sakir. Var sá draugur nefndur Heiðarhúsadraugur. Skyldi einn þar búandi maurapúki peningaauðugur hafa gengið aftur til skildinganna. Þókti þar ekki viðvært lengi fram eftir jafnvel þó þar séu tún hin beztu. Sigurður og Svanhildur kona hans bjuggu í Heiðarhúsum um 1805. Svanhildur var talin forneskjukerling. Sigurður reri þar í Garðinum sem fleiri og kom oft seint heim á kvöldin frá sjónum. Einu sinni seint um kvöld er Svanhildur sat inni, en Sigurður var ekki kominn frá sjónum, var kallað á gluggann hjá henni: “Ég vil mitt.” Þá svaraði hún: “Taktu þitt og farð’ í burtu.” Svo fóru leikar að þeim þókti þar svo óskemmtilegt að þau fóru þaðan.

Hríshólavarða

Hríshólavarða.

Innsti bærinn í Garði er Rafnkelsstaðir, þá koma Meiðastaðir, síðan Kothús niðri við sjóinn og Varir þar skammt fyrir utan. Í landi þessara jarða standa nú íbúðarhús, sem reist hafa verið á seinni árum eftir að fólki fór mikið að fjölga í Garðinum. Í vörunum var mikið útræði, enda lending þar góð um sund sem Varaós var. Ósvarða er ofarlega í heiðinni. Frá Rafnkelsstöðum að Garðskaga teljast 14 nafngreindar varir er segja nokkuð til um fjölda uppsátra þarna við ströndina fyrrum.
Neðan við fiskhúsin er ós, sem nefnist Kópa. Inn úr henni eru Meiðastaðavör og Rafnkelsstaðavör, erfiðar varir. Fyrir ofan veg, uppi í heiði, er Árnarétt, skilarétt. Hana byggði Árni Þorvaldsson, sem hér var stórbóndi. Réttin er skemmtilega hringhlaðin, víðast hvar mannhæðar há.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir m.a. frá Bergþóri er bjó á Rafnkelsstöðum. “Hann var maður fjáður einkum að sjávarútvegi og átti mörg skip. Það var þá siður að gjalda sjómönnum skiplag sitt í mjöli, hverjum tvo fjórðunga eða þá annan í mjöli en hinn í hörðum fiski og færið skyldu þeir fá að vertíðarlokum; flestir létu þá fá stykki úr gömlu færi.
Þar var með sjómönnum Bergþórs unglingspiltur úr Norðurlandi ósjóvanur. En er hann vó skiplagið í þetta skipti vildi hann ekki gjalda drengnum nema helminginn og lét hann gjalda þess er hann var ekki sjóvanur.” Sagan er lengi en óþörf ílengdar hér.

Langholt

Ratsjárstöð á Langholti.

Ofan þjóðvegarins eru löng holt; Ytra-Langholt og Innra-Langholt. Innra-Langholt tilheyrir allt Innleiru. Yst á Langholtinu eru steyptir stöplar. Við þá er grónar hringlaga hleðslur, líklega skjól, sem hlaðið hefur verið upp úr ytri-Langholtsvörðunni. Undir holtinu að austanverðu eru grunnar hús. Þarna mun hafa verið loftskeytastöð frá hernum. Tvö möstur voru þarrna, annað hærra en hitt. Norðan svæðisins eru einar af síðustu heillegu fiskitrönum á Suðurnesjum. Að þessu sinni setti blómstrandi silfurskúfur litskrúðugan blæ á umhverfi þeirra.
Innan við mitt Langholtið er stór varða; Innri Langholtsvarðan. Hún var mið af sjó ofan við Leiru.

Í örnefnalýsingu eftir Símon Guðmundsson með ábendingum Guðbjörns Þórarinssonar kemur m.a. eftirfarandi fram um Langholtin og svæðið þar fyrir ofan: “Þau kallast Langholt (ft.). Sandmelur skilur þau í sundur í Ytra-Langholt og Innra-Langholt. Innra-Langholt tilheyrir allt Innleiru. Merki munu liggja yfir melinn á milli þeirra. Vörður eru á báðum Langholtum, lítil á Ytra-Langholti, en stór og mikil á því innra. Þær eru kallaðar Langholtsvörður. Það var gömul trú, að einhverjar vættir væru í Langholtum: Illvættur í Ytra-Langholti, en hollvættur í Innra-Langholti.

Garðsstígur

Garðsstígur – fjárborg við Langholt.

Þrívörður eru þrjár og sjást þær vel í suðvestur frá Ytra-Langholti. [Um þær liggja mörk Gufuskála og Rafnkelsstaða í miðjar Sjálfkvíar niður við berg.]
Hríshólavarða er í stefnu vestsuðvestur frá Ellustekk og eru merki í hana eins og áður segir. Klapparhólar eru í kringum hana og stendur hún á einum slíkum. Þeir kallast Hríshólar. – Gamlar götur út í Garð lágu neðan við Langholt og Hríshólavörðu. Götur þessar voru nefndar Efrivegur.” Athugasemdir: “Í landamerkjabréfinu er talað um Hríshalavörðu. Það er líklega misritun fyrir Hríshólavörðu, en svo hafa Símon og Guðbjörn alltaf heyrt vörðu þessa nefnda og Hríshólar heita þar í kring.
Í lýsingu Ara er getið um Grímshól. Hvorki kannast Símon né Guðbjörn við hann í landi Gufuskála og mun hann þar hvergi til.”

VarðaOfan við Langholtin sést móta fyrir smárétt, stekk eða jafnvel fjárborg. Réttin er vestan í stærsta og grónasta hólnum á svæðinu. Sést hleðsla að innanverðu, en vel er gróið að utanverðu. Umhverfis eru góðar grasflatir í annars gróðussnauðu svæðinu. Af móanum og einstaka torfusneplum að dæma hefur þessa svæði verið vel gróið fyrrum. Ekki er að sjá að mannvirkis þessa sé getið í örnefnalýsingum, en hóllinn gæti verið nefndur Grímshóll – eða um gæti verið að ræða Smalaskálann tengdum Smalaskálaflötum þar norðan við. Þorvaldur Halldórsson í Vörum sagðist aðspurður vita hvar Grímshóll hefði verið. Hann væri í Rafnkelsstaðalandi. Hóllinn hefði verið jafnaður út, en hann hefði haft forgöngu um að ýta þar upp hólsmynd að nýju. Guðmundur Garðarsson sagðist aðspurður ekki hafa heyrt um þetta mannvirki. Njáll Benediktsson í Garðinum hefði eflaust vitað eitthvað um þetta, en hann væri því miður látinn. Miðað við örnefnalýsingar er ekki ósennilegt að þarna gæti verið um Smalaskála að ræða er Smalaskálafalatir þar norðan við draga nafn sitt af.

Heiðarhús

Heiðarhús.

Syðst á Langholti er mikil varða; Ranglát. Ásgeir M. Hjálmarsson í Garði sagði vörðuna hafa verið reista af opinberum aðilum, en ekki er vitað hvenær það var. Hún átti að þjóna þeim tilgangi að það var dregin lína úr henni yfir flóann í eitthvað kennileiti upp í Hvalfirði. Þetta var einskonar landhelgislína þannig að bátar úr byggðalögum fyrir sunnan hana, Keflavík og Vogum, máttu ekki fara norður fyrir hana, sama gilti fyrir báta sem voru gerðir út frá Garði, þeir máttu ekki fara suður fyrir línuna. Menn voru mjög ósáttir við þetta, því var varðan jafnan nefnd Ranglát.

Garðsstígur

Garðsstígur ofan Garðs.

Tugir manna urðu úti á gömlu þjóðleiðunum um Miðnesheiði fyrr á öldum. Flestir voru þeir á leið frá kaupmanninum í Keflavík, síðladags eða undir kvöld.
Sagan af Runka (Runólfi), þess er Hafsteinn miðill hafði jafnan beint samband við á skyggnilýsingarfundum sínum, er ágætt dæmi um þetta. Lík hans fannst illa útleikið eftir að hans hafði verið saknað um tíma. Var jafnvel talið um tíma að honum hafi verið fyrirkomið, en síðar sættust menn á að dauða hans hafi borið að af “eðlilegum” ástæðum.
Eflaust standa ennþá fleiri vörður, eða fallnar, á Miðsnesheiði sem minningarmörk um fólk, er varð þar úti á sínum tíma, en eru núlifandi fólki flestu gleymt. Og enn rölta menn um heiðina, meira og minna “dauðir” fyrir sögu þeirra, sem þar hafa orðið til í gegnum aldirnar.
Miðnesheiðin mun hafa, skv. framangreindu, mörgum orðið torveld á leið þeirra frá kaupmanninum í Keflavík. Heimildir eru um að um 60 manns hafi orðið úti á leiðum Miðnesheiðarinnar á u.þ.b. 40 ára tímabili 19. aldar.”

Garðsstígur

Varða við Garðsstíg.

Magnús Þórarinsson segir frá ferðum manna millum byggðalaga á Suðurnesju fyrr á tímum sem og ástæðum þeirra í “Frá Suðurnesjum – Frásagnir frá liðinni tíð – 1960.”
“Frá því að föst verslun hófst í Keflavík hafa Suðurnesjamenn, allir vestan Vogastapa, þar með talin Grindavík og nokkuð úr Vogum og Strönd, átt margar göngur til kaupstaðar síns. Mestar voru voru þessar ferðir um vetrartímann, því þá voru allir karlmenn heima við heimili sín. Að vísu fengu flestir bændur, fyrir aldamót, aðalbirgðir til heimila sinna á kauptíðinni á sumrin fluttar á næstu höfn með kaupskipunum, en sífellt þurfti þó að senda menn í Keflavík eftir einhverju, sem vantaði, veiðarfærum og öðru, eftir hendinni. Tómthúsmenn flestir voru fátækir, sem engar höfðu matarbirgðir, og því oftar urðu þeir að “skreppa í Keflavík”, eins og það var oftast nefnt, og bera heim á bakinu forða sinn, ef forða skyldi kalla. Keflavíkurferðirnar urðu mörgum örlagaríkar.

Garðsstígur

Gengið um Garðsstíg.

Þótt margir fleiri “yrðu úti” en þeir, sem í Keflavík skruppu, urðu þeir þó flestir í þessum ferðum, og eru oft til þess eðilegar orsakir, eins og í pottinn er búið. Þeir fóru stundum svangir að heiman og illa klæddir með poka undir hendinni, vafinn utan um tóma flösku. Veit ég ekki til þess að nokkrum hafi hlekkst á leið til Keflavíkur. Oft var ös í búðunum og afgreiðsla í stirðara lagi, því enn var ekki aflagt að gera mannamun. Flestir fengu þó fljótlega mettaða flöskuna, sem var nauðsynlegt, sögðu þeir, til þes að hressa samviskuna og taka úr sér hrollinn. Flýtti það síst fyrir afgreiðslunni. Voru þeir svo að vasast í búðunum fram á kvöld, en lögðu af stað í ófærð og náttmyrkri, stundum í misjöfnu verði, yfir veglausa heiði, meira og minna drukknir, með einhverja byrði á bakinu. Að öllu leyti illa undir tveggja tíma göngu búnir og vanlíðan haldnir eftir daginn. Varð þá athvarfið hjá sumum að fá meira úr flöskunni, þar til afl og dómgreind var horfið. Mátti svo skeika að sköpuðu um framhald ferðarinnar.

Garðsstígur

Garðsstígur.

Þeir, sem betur voru staddir, hjálpuðu hinum meðan máttu, tóku á sig byrði þeira og gengu undir þeim, uns þeir örmögnuðust líka og þá varð að skilja hina eftir. Ég heyrði margar sögur af slíkum ferðalögum á unglingsárum mínum og kynntist þeim af eigin reynd, er ég varð nokkru eldri.

Gunnar Markússon, 56 ára, giftur húsmaður frá Lambastöðum, varð úti nóttina fyrir skírdag 1834. Mun hafa verið drukkinn, sem hann var hneigður til. Fannst á laugardag fyrir páska, óskaddaður framan við melbarð.”

Það er gömul trú, að einhverjir vættir væru í Langholtum: Illvættur í Ytra-Langholti, en hollvættur í Innra-Langholti. Þrívörðurnar sjást vel í suðvestur frá Ytra-Langholti. Austasta varðan stendur, en miðvarðan er fallin, nokkru ofar, skammt austan við Garðstíginn. Þrívörður eru mörk Leiru og Garðs.

Garðsstígur

Garðsstígur – fjárborg.

Enn ofar í heiðinni er Árnarétt, heilleg og fallega hlaðin. Hún var skilarétt. Réttina byggði Árni Þorvaldsson, sem hér var stórbóndi áður fyrr. Réttin er skemmtileg í annars kennilausalitlu landslaginu og víðast hvar mannhæðar há. Líklega er hér um sömu rétt að ræða og þegar getið er um “litla rétt” í Smalaholti.
Neðar eru löng holt; Ytra-Langholt og Innra-Langholt. Innra-Langholt tilheyrir allt Innleiru. Syðst á því er mikil varða; Ranglát. Ásgeir M. Hjálmarsson í Garði sagði vörðuna hafa verið reista af opinberum aðilum, en ekki er vitað hvenær það var. Hún átti að þjóna þeim tilgangi að það var dregin lína úr henni yfir flóann í eitthvað kennileiti upp í Hvalfirði. Þetta var einskonar landhelgislína þannig að bátar úr byggðalögum fyrir sunnan hana máttu ekki fara norður fyrir hana, sama gilti fyrir báta sem voru gerðir út frá Garði, þeir máttu ekki fara suður fyrir línuna. Menn voru mjög ósáttir við þetta, því var varðan jafnan nefnd Ranglát.
Tengdafaðir Ásgeirs, Guðni Ingimundarsson, sagði honum þetta, en það var Halldór Þorsteinsson útgerðamaður frá Vörum sem sagði honum þetta fyrir mörgum árum. Halldór er nú látinn.

Neðan við sunnanverð Langholtin má sjá stóra vörðufætur við götuna. Grjótið hefur verið fjarlægt, væntanlega til nota í önnur og yngri mannvirki. Skammt sunnar eru gatnamót að götu upp frá Hólmi. Hún er mjó og hlaðin til kantana. Efst við sýnileika þeirrar götu er vörðubrot í grónum hól.

Garðsstígur

Garðsstígur – upphaf göngu.

Í Rauðskinnu segir frá Prestsvörðunni: “Í heiðinni skammt fyrir ofan Leiru er mannhæðar há grjótvarða sem alltaf var nefnd Prestsvarða. Sagt var, að síra Sigurður Sívertsen (1808-1887), sem prestur var á Útskálum fyrrum, hafi einhverju sinni verið þarna á ferð að vetrarlagi. Kom hann úr Keflavík og ætlaði heim til sín að Útskálum. Talið var að leiðin væri tveggja tíma gangur eða meira eftir þeim vegi sem þá var farinn. En við lestagang voru allar vegalengdir miðaðar á þeim tímum. Þegar prestur kom út á móts við miðja Leiru villtist hann af leið. Fannst honum líðan sín þannig að hann treystist ekki til þess að halda áfram ferðinni. Prestur tók það ráð að leggjast fyrir og vera kyrr alla nóttina. Nokkru síðar lét síra Sigurður hlaða upp vörðu á þessum stað. Var hún ferstrend eins og margar grjótvörður. En eitt var það, sem gerði hana frábrugðna öðrum vörðum. Á hlið þeirri sem að austri snéri var allstór flöt hella sem á var höggvið sálmavers.”
Sálmaversið á hellunni er 4. Davíðs Sálmur 8. vers. (“Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum”).

Bergvík. Þegar Símon var að alast upp bjó Pétur Pétursson í Bergvík. Hann hafði grætt nokkuð stóran túnblett frá bænum og niður á sjávarbakka. Guðrúnarkot og Brandsbær stóðu nyrzt í jaðri hans.
Suðaustast á þessum bletti er svolítill hóll, sem kallaður er Gónhóll. Nafn sitt dregur hann af því að þegar flekaveiði var á Bergvík var farið upp á hann og gáð, hvort nokkuð væri komið á flekana. (Ath.: Á undan Pétri bjó í Bergvík Ásgrímur nokkur og er líklegt, að flekaveiði hafi verið stunduð á Bergvík í hans tíð).

Garðsstígur

Gengið um Garðsstíg.

Hólmsberg endar til norðurs í Berghólum, en svo heita fjórir hólar í suðsuðvestur frá Bergvíkurbæ. Hóllinn næstur Bergvíkurtúni, beint upp af Gónhól, var nefndur Gapastokkur. Hann var hár og klettóttur sjávarmegin og illfær. Vel var gengt upp á hann annars staðar. Símon telur, að nafn sitt dragi hann af því, að strákar hafi farið nokkuð djarflega framan í honum og sýnt gapaskap þegar þeir voru að klifra. Huldufólkstrú lá á þessum hól. Áðurnefnd Stóravör er beint niður undan Gónhól og þóttust menn þar oft heyra mannamál og áraglamur að og frá landi, einkum að kvöld- og næturlagi. Trúðu menn, að þar væri huldufólk úr Gapastokk á ferð.
Austsuðaustur af Gapastokk er stór ílangur klettur, sem er eins og hús í laginu. Svolítill hnúður var á norðvesturenda hans. Steinn þessi var nefndur Álfakirkja. Hinir Berghólarnir eru svolitlu vestar en Gapastokkur. Syðsti hóllinn af þeim var nefndur Borgin og var hann hafður fyrir mið norður í Leirnum. Var kallað að vera á Borgarslóð, þegar Borgin var aðeins norðvestur undan hinum Berghólunum – en djúpmið voru miðuð Grindavíkurfjöll.

Langholt

Leifar herstöðvar í Langholti.

Þjóðvegurinn út í Leiru og út í Garð lá sunnanhalt á Hólmsbergi og rétt fyrir ofan bæina í Leirunni. Suðvestan við veginn, heldur nær Keflavík en Leiru, var stórt barð og hlaðin varða á því. Var þar oftast hvílt sig. Barð þetta hét Meyjarsæti. Heiðarlandið tók svo við suðvestan þjóðvegarins. Voru það einkum blásnir melar og börð á stöku stað. Engin örnefni voru á því, nema þau sem fram koma í landamerkjalýsingunni hér á eftir. Svæði þetta var einu nafni nefnt Heiði, og svo var einnig nefnt ofan Gufuskála.
Þrívörður eru áður nefndar á hornmerkjum. Línan frá Þrívörðum í Sjálfkvíar liggur á milli Langholtanna, og er Innra-Langholt því í Innleiru. Það liggur nálægt því frá suðaustri í norðvestur.
Áðurnefndur Línlækur kemur ofan úr Línlækjarholtum í Heiðinni. Suðaustur af þeim holtum eru Bjarnastapar og Kalka var suðaustanvert á þeim.
Yst á Berghólum, þar sem gatan kemur upp á bergið, er grón fjárborg. Vel má sjá móta fyrir hleðslum að innanverðu. Í miðju borgarinnar hefur verið hleðsla. Þá eru hlaðnir útveggir frá borginni að sunnanverðu. Borg þessi hefur stundum verið nefnd Hólmsborg, en hennar er ekki getið í örnefnalýsingum. Gatan liggur ofan borgarinnar. Skammt norðar er hlaðið veggbrot við götuna. Það er greinilega úr vörðu, sem þar hefur staðið því útlínur og tvö umför í henni sjást enn. Norðan þess lá gatan um slakka í holtinu, en námur og rask hafa afmáð verksummerki eftir hana.
Skammt sunnar má sjá vörðu vinstra megin götunnar. Hægra megin hennar eru svo hleðsluleifar af gamalli rétt.

Garðsstígur

Gengið um Garðsstíg.

Stekkjarnefin skiptist í tvennt, Vestra- Stekkjarnef og Eystra-Stekkjarnef. Stekkjarnefin eru grjóthólar, brattir sjávarmegin. Þau fara í kaf um flóð. Þau eru hæst fremst. Sagt var, að fyrr á öldum hefði Stekkjar-nef verið gróið land og stekkur verið á því. Suðaustan við Stekkjarnef er Bergvík. Bergvíkurvör (41) er með Stekkjarnefi að suðaustan. Aðeins suðaustar í víkinni er Stóravör. Þar hafði verið miklu betri lending hér áður en í Bergvík, en þar hafði sjór gengið svo á landið, að ekki var lengur hægt að hafa þar skip. Við Stóruvör byrjar lágt berg, sem síðan fer hækkandi alla leið að Ritunípu, en við hana takmarkast Bergvík að suðaustan. Hægt er að ganga fjöruna undir þessu bergi – inn undir Ritunípu – með stórstraumsfjöru. Berg þetta tilheyrir Hólmsbergi, sem nær úr Bergvík og alla leið inn í miðja Keflavíkurgróf. Þar sem bergið er hæst í Bergvík, er það nálægt 25 föðmum og er þar töluvert varp. Verpa þar einkum svartfugl, rita, fýll og lundi.
Á vorin og sumrin var mikið af bjargfugli á víkinni og þar var fyrir eina tíð stunduð flekaveiði. Pétur Pétursson, sem bjó í Bergvík, þegar Símon var ungur maður, mundi eftir þeim veiðum. Áðurnefnd Ritunípa er þverhnípt berg með dálítilli urð fyrir neðan.
SvartfuglTöluvert suðaustan við Ritunípu skerst Helguvík Inn í Bergið. Suðaustan hennar er Hellisnípa. Hún dregur nafn af hellisskúta inn undir bergið, austanhallt niður af nípunni. Með lágsjávuðu var hægt að róa inn í skútann. Þverhníptir klettar í sjó eru frá Hellisnípu og inn að Stakksnípu. Svolítil vík er norðvestan við Stakksnípuna. Hún var venjulega nefnd Stakksvík. Stórgrýtisurð gekk í sjó fram að norðan við Stakksnípu. Svolítill urðarfótur er undir Stakksnípu. Beint fram af henni er hár klettur, sem heitir Stakkur. Hann er dálitlu lægri en nípan. Dálítið gras var ofan á Stakk og hafa að líkindum verpt þar endur og kría. Hægt er að klífa Stakk, en heldur mun það slæmt.
Af Stakk dregur Stakksfjörður nafn sitt, en svo nefnist allur fjörðurinn frá Stakk og að Brunnastaðatöngum. Svartfugl verpti hvergi í Hólmsbergi nema í Bergvík.
Selvík er suðaustan Stakksnípu, nokkuð breið vík og eru líðandi klappir við hana. Suðaustan hennar er Hellunef, lágt berg fram í sjóinn. Frá Hellunefi liggur fremur lágt ávalaberg og endar í Brenninípu (5=3). Hugsanlegt er að gróður hafi verið fram á Brenninípu til forna og þá verið hægt að afla sér þar brennis til eldiviðar.
Sunnan við Brenninípu er Keflavík. Með henni að norðan, er berg (einir 15-20 m) alveg inn að Keflavíkurgróf. Það er syðsti hluti Hólmsbergs.

Garðsstígur

Garðsstígur.

Áður en komið var að kirkjugarðinum og þar með mörkum Keflavíkur beygir gatan til vesturs. Þessi kafli sem og kaflinn frá Berghólum hefur verið endurgerður fyrir bílamferð. Hins vegar liggur gamla gatan svo til beint áfram með stefnu ofan við Kirkjugarðinn. Við hann eru endurhlaðnar vörður.
Garðstígur liggur áleiðis að Keflavíkurborg ofan við Grófina. Enn má sjá leifar og lögun borgarinnar á klapparhrygg. Gatan liggur síðan niður með henni að austanverðu, áleiðis niður að Grófinni.
Gangan var 7.8 km. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Jón Árnason III 348.
-Óbyggðanefnd.
-Sigríður Jóhannsdóttir – örnefnalýsing Rafnkelsstaða 8. júní 1978.
-Guðmundur Jónsson bóndi á Rafnkelsstöðum og Guðjón Björnsson.
-Njáll Benediktsson skráði 1979 – örnefnalýsing Gerðum.
-Ari Gíslason – Gerðar – örnefnalýsing.
-Sigríður Jóhannsdóttir bar lýsingu Ara Gíslasonar undir Halldór Þorsteinsson í Vörum, og gerði hann þá fáeinar athugasemdir – 3. júní 1978.
-Saga Gerðarhrepps.
-Magnús Þórarinsson – Frá Suðurnesjum – Frásagnir frá liðinni tíð – 1960.
-Ásgeir Ágústsson – Gerðahreppi.
-Rauðskinna I – XII.
-Örnefnalýsing fyrir Leiru og Gufuskála – Örnefnastofnun.

Garðsstígur

Garðsstígur

Gamli Kirkjuvogur

Brynjúlfur Jónsson ritaði m.a. um Gamla-Kirkjuvog í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1903 undir fyrirsögninni ” Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902″:
Gamli-kirkjuvogur-223“Kirkjuvogur hefir til forna staðið langt inn með Ósunum að norðanverðu. Ósarnir eru sem dálítill fjörður, sem gengur til austurs inn úr Hafnavík. Innst skiftist hann í smá-voga, og kallast þeir Ósabotnar. Er löng bæjarleið frá Þórshöfn inn að Kirkjuvogi forna. Þar sem bærinn var, er rústabunga mikil. Þar er alt nú blásið hraun, þó er rústin að nokkru leyti grasgróin. Er eigi hægt sð sjá grein á húsaskipun og eigi sést með vissu hvar kirkjan hefir verið. En kunnugir menn vita það, því mannabein hafa fundist þar, er kirkjugarðurinn blés upp. Voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800, að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt.

Hafnir

Hafnir fyrrum.

Kotvogur stóð þó þar, sem hann er enn, sunnanmegin við Ósana. En kirkjusókn átti hann að Kirkjuvogi og allir bæir fyrir innan Kalmanstjörn. En þaðan, og frá þeim bæjum, er sunnar voru, var kirkja sótt að Kirkjuhöfn. Til Kirkjuvogs sóttu líka Suðurnesjabæirnir: Fuglavík, Melaberg, Hvalsnes og Stafnes, ásamt hjáleigum. Stóð það fram að 1370, er Oddgeir biskup vigði kirkju á Hvalsnesi. Enn átti Innri-Njarðvík sókn að Kirkjuvogi: hélzt það, þó Kirkjuvogur væri fluttur suður fyrir Ósa, og þangað til 1760, er Ólafur biskup Gíslason, vígði kirkju í Njarðvík. Fremur er það fátt, sem menn vita um Kirkjuvog hinn forna.

Ósabotnar

Ósabotnar – kort; ÓSÁ.

Þess er getið í Árbókum Espólíns II. 68. að 1467 seldi Ólafur biskup Rögnvaldsson Eyjúlfi Arnfinnssyni »Voga« í Rosmhvalsnesshreppi fyrir 5 jarðir á Vestfjörðum. Nú er enginn bær í Rosmhvalsnesshreppi, er heitir »í Vogum«. Mun hér því átt við Kirkjuvog hinn forna og ef til vill Kotvog með, eða þó öllu heldur Djúpavog, sem mun hafa verið hjáleiga frá Kirkjuvogi og staðið við Osabotnana. Svo segir í landamerkjabréfi frá 1270: »En lyngrifamörk skilur gata sú, er liggur fyrir innan Torfmýrar og upp á Háfaleiti til vörðu þeirrar, er stendur á leitinu þar, sem hæst er milli Kirkjuvogs, Njarðvíkur og Djúpavogs. En rekamörk millum Djúpavogs, Starness og Hvalsness skilur gróf sú, er verður fyrir innan klettana til hægri handar, er riðið er frá Kirkjuvogi.

Gamli-Kirkjuvogur

Brunnur við Djúpavog.

Hér virðist »Djúpivogur« vera bæjarnafn. Og það getur ekki verið annað nafn á Kirkjuvogi, þar eð hann er líka nefndur í sömu málsgreininni. Nokkru fyrir innan Kirkjuvog hinn forna gengur gróf mikil frá Ósabotnunum þvert til norðurs. Gengur sjór nokkuð inneftir henni, og heitir þar enn Djúpivogur…, Þar litlu innar ætti bærinn, Djúpivogur, að hafa verið. Merki sjást ekki til þess; en það er ekki að márka. Sjór hefir mjög gengið á land í Ósunum, og getur bæjarstæðið verið brotið af.
Þó hefir það ekki verið sjávargangur, heldur sandfok, sem eytt hefir Kirkjuvogi hinum forna. Hvenær það var, vita menn ógjörla.
Kaupstadagatan-221Jarðabók Á. M. telur hann hafa verið í eyði meir en 120 ár þá er hún var rituð. Hefir það því eigi verið síðar en á 16. öld, en getur vel haía verið fyr. Það liggur nærri að ætla, að þá hafi sami maður átt bæði Kirkjuvog og Kotvog, er hann flutti Kirkjuvog heim á tún í Kotvogi. Bendir það til þess, að Kotvogur hafi frá upphafi verið talinn hjáleiga frá Kirkjuvogi, þó Ósarnir væri á milli. Þess er getið, að Kirkjuvogskirkja átti 1/2 Geirfuglasker. — Kirkjubólskirkja og Hvalsnesskirkja áttu 1/4 hvor.

Enn má geta þess, til merkis um það hve landið hefir brotnað, að í Ósunum var ey mikil, milli Kotvogs og Kirkjuvogs forna, og var hún slægjuland.

Einbúi

Einbúi – landamerki.

Nú í seinni tíð hefir hún bæði blásið upp og sjór brotið hana, því flóð falla mjög svo yfir klappir þær, sem undir jarðveginum láu. Þar fann Vilhjálmur sál. Hákonarson, á yngri árum sínum, skeifu, er kom fram undan 3 al. háum bakka. Hún var miklu stærri en skeifur eru nú á dögum. En þá var forngripasafnið enn ekki stofnað. Var ekkert hirt um skeifuna og er hún glötuð fyrir löngu.”
Magnús Grímsson skrifaði um Gmla-Kirkjuvog í “Fornminjar um Reykjanessskaga”: “Ósar heitir sá vogur sá hinn mikli, sem hér gengur til austurs inn í landið. Norðan megin við Ósana, gagnvart Kirkjuvogi, er kölluð gamli-kirkjuvegur-224Preststorfa, því þar er presturinn vanur að fá flutning yfir að Kirkjuvog, þegar hann fer þá leiðina. Litlu innar í Ósnum er einstakur hólmi dálítill, sem heitir Einbúi. Þar á eru rústir af sjómannabúðum, sem líklega hafa verið þar frá Vogi, sem síðar verður getið. Út í einbúa má nú ganga þurrum fótum um fjöruna. Skotbakki er þá næst kallaða þar inn með, og er hann upp undan Kirkjuvogsey, sem er grasi vaxin og eigi mjög lítil,framarlega í Ósunum. Annars kalla men, að ósarnir byrji ei utar en við sker þau, sem liggja norður undan Kirkjuvogstúni, austanverðu. Af hverju nafnið Skotbakki er dregið, gat ég ekki fengið neina sögu um. Þar er flutningur yfir um Ósa, þá ekki er fær hin leiðin vegna brims.
gamli-kirkjuvogur-335Þegar inn kemur með Ósunum, svo eigi er nema snertu korn að botnum þeirra, verður fyrir nes eitt lítið. Gengur sinn smávogur eða vík upp með því hvoru megin, og er hin eystri víkin nokkuð stærri en hin vestari. Upp undan nesi þessu hefir staðið bæ á hól einum, og eru þar húsarústir miklar. Þær eru nú fullar orðnar af sandi túnið allt upp blásið. Túnið hefur verið stórt mjög, og frá bænum, allskammt þaðan í landsuður, eru rústir, sem líklega eru kirkjurústir. Hefir kirkjan verðið hér um bil 5 faðma löng og 3 faðmar breið. Til kirkjugarðsins sést til og frá, en mjög óglöggt, svo ekki verður hann mældur.

Einbui-221

Kirkjugarðurinn er alveg upp blásinn; engin sjást þar mannabein og engir legsteinar. Niður á nesinu og með eystri voginum eru stórkostlegar rústir, líklega sjóbúðir, vergögn og þess háttar. Allar eru þær úr grjóti og mikið mannvirki á. Þar hafa verið 5 eða 6 varir ruddar út í hin eystra voginn. Af rústunum fram á nesinu eru 3 mestar, allar hér um bil kringlóttar, en stutt bil á milli. Það hafa menn fyrir satt, að hér hafi einhvern tíma, ekki fyrir mörgum árum, sézt kjalfar í hellu við voginn, og ætti það vera vottur þess, hversu mjög hér hefði verð sóttur sjór. Nú eru Ósarnir og vogar þessi varla gengir íslenzkum skipum fyrir útgrynni og sandrifjum.

Einbúi

Einbúi.

Er ei ólíklegt, að frá bæ þessum hafi útræði verið haft í Einbúa, sem fyrr er getið. Vogurinn austan til við nesið heitir Vogur eða Djúpivogur, og bærinn hét í Vogi. Kirkjan hefir verið flutt þaðan að Kirkjuvogi, þar sem nú er hún, fyrir sunnan Ósana. Með kostnaði og fyrirhöfn mætti grafa upp bæinn í Vogi, og væri það máske gjöranda til þess að sjá byggingarlag og húsaskipun, sem þá hefir verið; því þetta hefir auðsjáanlega verið stórbær á sinni tíð. Á seinni tímum hafa sumir kallað rústir þessar Gamla-Kirkjuvog, og má vera, að nafnið Vogur hafi breyzt í Kirkjuvogur, áður en kirkjan var flutt þaðan.
Inn úr Ósunum ganga ýmsir smávogar: Seljavogur, Kýrvogur, Skollavogur og Brunnvogur, en Djúpavog kalla þeir nú nyrzta horn þeirra. Ekki vita menn neitt merkilegt um örnefni þessi.”
Sjá meira um Gamla Kirkjuvog HÉR, HÉR og HÉR.
Sjá MYNDIR.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 18. árg. 1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902, eftir Brynjólf Jónsson, bls. 41-42
-Magnús Grímsson. Fornminjar um Reykjanessskaga. Landnám Ingólfs. Reykjavík 1935-36. Bls. 257-258. Magnús Grímsson, fæddist 3. júní 1825, dó 18. janúar 1860.

gamli-kirkjuvogur-221

Stóri-Hólmur

Gengið var um Stóra-Hólm og Litla-Hólm í Leiru.
Í Landnámu segir, að Ingólfur Arnarson hafi gefið frændkonu sinni, Steinunni, Rosmhvalanes allt utan Hvassahrauns, en hún kaus að gefa fyrir heklu flekkótta og vildi kaup kalla. Henni þótti það Stóra-Hólmshúsiðóhættara við riftingu. Steinunn kom út til Íslands, ekkja eftir Herlaug bróður Skalla-Gríms og með henni synir hennar tveir, Njáll og Arnórr. Talið er að Steinunn hafi búið að Stóra Hómi (síðar nefndur Stór-Hólmur) í Leiru. Kaup Steinunnar við Ingólf héldu betur en mörg önnur landkaup er Landnáma greinir frá. Síðar kom Ketill gufa út til Íslands, og lenti á hrakhólum. Hann sóttist eftir landi að Gufuskálum í Leiru, en Steinunn fékk hann til að fara annað gegn því að fá verbúðarrétt á Hólmi. Er samkomulag þeirra talið upphaf verstöðva utanhéraðsmanna á Suðurnesjum. Slíkir samningar um aðstöðu og nýtingarétt áttu sér síðan um þúsund ára skeið í atvinnusögu þjóðarinnar.
Litla-HólmshúsiðLandnám Steinunnar tókst og er hún talin meðal fyrstu landsnámsmanna Íslands. Vitsmunir hennar, hagkvæmni og samkomulagsvilji í skiptum við aðra mun hafa verið ástæða þess að við hana festist viðurnefnið og virðingarheitið “hin gamla”.

Í örnefnalýsingu fyrir Hólm segir m.a.: “Þetta var höfuðbólið í Leirunni, næst við Gufuskála. Upplýsingar eru frá þeim sömu og fyrr var getið og þar að auki Jóel  Jónsson, Kötluhól.
Litlihólmur var býli byggt úr landi Stórahólms. Þar var sérstök lending og þar er enn búið. [Við Stóra-Hólm voru] Bakkakot, Nýlenda, Rófa, Garðhús, Ráðagerði og Kötluhóll er nefndur 1703 og enn er hann til sem býli. [Býlið Steinar (Steinakot) er þar einnig að finna.]

Litla-Hólmskot

Í Litlahólmslandi eru hjáleigubýli, Litlahólmskot og Þórukot. Í Sjálfkvíum rak hval 1882. Þetta var stór jörð, margar kýr og mikið að gera. Þess má geta að aldrei fórust skip í Leiru nema frá Litlahólmi. Þá er næst að geta Bakkakots, sem einnig var sérbýli með sérlendingu og grasbýli. Þar voru tvö kot, Traðarkot, þar [sem] þær (svo) voru heitir nú Kúamóatraðir, og Steinar sem fóru í eyði 1930. Innan við Steina tók við Nýlenda. Tún hennar liggur að Bakkakoti. Þar ofar var hjáleiga sem hét Hábær. Þar austur af var Rófa. Upp af henni er hóll sem heitir Kollhóll.
Kötluhóll er grasbýli ofan við Bakkakot. Efst upp við garðinn ofan við bæinn er hóll sem virðist vera holur innan. Heitir hann Kötluhóll. Túngarður er á merkjum móti Garðhúsum. Norðan við Kötluhól er svo Rófan sem fyrr getur. Þar utar og neðar var Nýlenda. Beint fram undan LindBakkakoti er Leiruhólmi. Milli Bakkakots og Hrúðurness, er síðar getur, er Lásalón). Kötluhóll  á fjörustykki frá Stekkjarnefi að Flúðarsnös. Vatnshóll er á merkjum móti Litlahólmi.
Efst við veginn er holt sem heitir Sundvörðuholt. Þar ofar eru Ytra-Langholt og Innra-Langholt. Á vesturhluta Langholts var 1793 hlaðin varða, nefnd Ranglát. Var hún merki þess hvar mætti leggja línu.
Þá er að athuga Stórahólmslandið. Að vestanverðu eru merkin þannig: Á Stórahólmshólma vestan til við svonefndar Stíflur en það er lágt rif er liggur frá hólmanum að Bakkakotslendingu um stórstraumsfjöru, þá til landsuðurs að merktum steini í litlu sandlóni, svo í austurlendingarkamp hjá Nýlendu. Svo er merkt klöpp efst á Hjallarifi.

Brunnur

Þaðan til landnorðurs austast að Skarfatanga.
Hólmssund hét sundið sem farið var hér um. Inn úr því voru allmargar varir, svo sem Stór[a]hólmsvör, Ráðagerðisvör, svo Hrúðurnesvör og Melbæjarvör er síðar getur. Stór[a]hólmsvör er sú sem sagt er frá 1840. Hafi vörin verið rudd með miklum kostnaði fyrir um 50 árum og fékk sá verðlaun frá konungi fyrir. Fram undan hér er Leiruhólmi. Hólmi þessi var áður grasi vaxinn og þar munu Þjóðverjar hafa haft bækistöðvar sínar. Grjótbelti liggur inn að Hólmssundi, slítur þar sundur og heitir Hrúðurlón. Hjá Stórahólmi var þurrabúð sem heitir Krossabrekka. Þar er bærinn nú. Þar fyrir ofan var kot þar sem nú heita Fjósvellir. Þar upp af var Garðhús. Neðan við Stórahólm er Nikulásarnaust og Nikulásarvör.”
FornmannagröfSumir hafa haldið því fram að Steinunn gamla hafi búið á Steinum ofan og milli Stóra-Hólm og Litla-Hólms og að gröf hennar sé í sléttum hól ofan við Stóra-Hólm, neðan Kötluhóls.
Norðan við íbúðarhúsið að Stóra-Hólmi er bátslaga hleðslur. Kunnugir segja að þar hafi Hólmkell, fornmaður, verið grafinn. Aðrir segja hann hafa heitið Stórólfs og bletturinn nefnist Stórólfsleiði. Þennan blett mátti aldrei slá, enda girtur af til langs tíma.
Sagan segir að smali hafi látist þar eftir áverka. Áður en hann lést óskaði hann þess að verða grafinn við götuna heim að bæ. Mun hann hafa verið grafinn “skammt innan við hliðið”. Yfir honum á að vera hella og á henni áletrun. Hella þessi hefur ekki fundist þrátt fyrir leitir.
GarðurÍ örnefnalýsingu fyrir Innrileiru segir m.a. um Hólm: “Verður nú haldið til baka út í Litla-Hólm. Bærinn stóð á háum hól og var norðurhluti hans öskuhaugur. Húsið sem nú er stendur aðeins ofar á hólnum en gamli bærinn.
Stórt tún var á Litla-Hólmi, suðaustan og sunnan við bæinn. Liggur það að túni Bakkakots, sem er við sjóinn suðaustur af Litla-Hólmi. Frá Bakkakoti var gata niður í naust. Aðeins suðaustan við naustin stóðu tvö sjávarhús. Var saltaður fiskur í því austara, en veiðarfæri geymd í hinu. Þessi hús voru pakkhús frá Bakkakoti.
Lending frá Litla-Hólmi var beint niður frá bænum og voru þar einnig sjávarhús fast suðaustan hennar – einnig nefnd pakkhús, en svo voru stærri sjávarhús kölluð á þessum slóðum. Lendingin var kölluð Litla-Hólmsvör (og var langmest mannvirki af öllum vörum í Leiru. Um hana segir svo í bókinni, Undir Garðskagavita: „Litla-Hólmsvör er byggð af Páli bónda Jónassyni, er þar bjó á seinni hluta 19. aldar. Vörin er 50 metra löng, 10 metra breið og vegghæð einn til tveir metrar. Af þessu mikla mannvirki eru 20 metrar byggðir í sjó. Margir steinar í vegghleðslunni munu vega yfir 1 tonn, sumir allt að 2 1/2 tonn. Er hleðslan gerð af meistarahöndum og raunar hið mesta þrekvirki, svo að gengur undrum næst, hvernig verkfæralaus maður hefur getað framkvæmt þetta. Páll Jónsson bjó seinast í Vörum í Garði og dó þar skömmu eftir aldamótin, fimmtugur að aldri.“
Norðvestast í Litla-Hólmstúni voru tvö tómthúskot. Var það efra kallað Litla-Hólmskot, en það neðra Stóra-Hólmsvörhét Móhús. Örskammt var á milli þeirra. Kot þessi munu hafa farið í eyði nálægt 1916.
Suðvestur af miðju Bakkakotstúni voru þrjú tómthúskot frá norðaustri til suðvesturs. Nokkrir faðmar eru á milli þeirra. Næst Bakkakoti var Traðarkot, þá Steinar og fjærst Hábær.
Stórhólmur er nálægt því beint í suður frá Bakkakoti, þó aðeins vestan við suður. Bærinn stóð á miklum hól, Stórhólmshól, ofarlega í túni.
Neðan við hólinn, aðeins austanhallt, var brunnstæði og var þangað sótt vatn, bæði til bæjar og gripa. Fjós var sambyggt gamla bænum.
Lendingin er beint í norðaustur af bænum. Krossabrekka var tómthús, neðanhallt í miðju túni, á milli lendingar og gamla bæjar. Heldur ofar en á þeim stað er nú nýja húsið á Stóra-Hólmi.
HólmurRófa var grasbýli vestur frá Stórhólmi og lágu túnin saman. Bærinn stóð nokkurn veginn í miðju túni. Nýlenda var norðnorðvestast í Rófutúni, Henni fylgdi dálítið tún til austsuðausturs og norðausturs. Tún Stórhólms var neðan og austan þess.
Kötluhóll er suðaustan Rófu. Hann er grasbýli. Tún Rófu og Kötluhóls lágu saman. Bærinn á Kötluhól var suðvestast í túninu.
Suðaustur af Kötluhólstúni voru Garðhús ft., grasbýli. U.þ.b. 100-150 m eru milli Kötluhóls og Garðhúsa.”
Stóri-Hólmur í Leiru er í jarðabók 1861 langstærst metna jörð í Rosmhvalaneshreppi. Um aldamótin [1900] var byggð mjög blómleg í Leirunni. Þá áttu þar heima 134 manns á 29 heimilum, 11 eru taldir bændur, hinir tómthúsmenn. Þá gekk þaðan um einn tugur heimaskipa á vetrarvertíð og á vorvertíð fóru þaðan 62 fleytur þegar flest var.
Skoðaðar voru tóftir hinna gömlu bæja við Stóra-Hólm og Litla-Hólm. Á síðarnefndu jörðinni eru Litla-Hólmskot og Móhús ofan við gamla bæinn. Reynistaður var ofar og nær Langholti. Á síðarnefndu jörðinni má enn sjá tóftir gamla Stóra-Hólms, Rófu, Nýlendu, Steina, Hábæjar, Kötluhóls og Bakkakots. Síðar verður fjallað um innri Leirubæina þar sem nú er golfvallasvæði .
Frábært veður. Gangan tók 2. klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Stóra-Hólm (og Litla-Hólm).
-Undir Garðskagavita, bls. 334.

Litla-Hólmsvör

Sandgerðisvegur

Gamla Sandgerðisgatan (Sandgerðisvegurinn, sbr. Sig. B. Sívertsen – sóknarlýsing um 1880) var gengin frá Sandgerði að Grófinni í Keflavík.
Gatan gatansést þar sem hún kemur undan einum húsgrunnanna á nýbyggingarsvæðinu ofan bæjarins og liðast síðan upp móann. Vestan við Vegamótahól, þar sem voru gatnamót Sandgerðisgötu og Bæjarskersvegar, liggur gatan undir nýja Sandgerðisveginn, en kemur aftur undan honum í Draugaskörðum. Ofan við þau eru t.d. Efri-Dauðsmannsvarðan. Þar liggur hann áfram til suðurs framhjá Dynhól. Fallnar vörður eru vinstra megin götunnar svo til alla leið upp að Gotuvörðu. Á þeirri leið fer gatan aftur undir Sandgerðisveginn, liggur síðan samhliða honum spölkorn, og fer þá enn á ný undir hann til vesturs. Vestan Sandgerðisgötunnar liggur gatan síðan áfram framhjá Einstæðingsvörðu þar sem voru gatnamót Fuglavíkurvegar og áfram upp að Gotuvörðu, sem fyrr segir. Gotuvarðan er endurhlaðin, en skammt norðan og austan hennar eru tvær fallnar vörður. Sunnan Gotuvörðu fer gamla gatan enn á ný undir Sandgerðisveginn. Þar liðast hún niður móana áleiðis að Keflavíkurborginni ofan Grófarinnar og niður með Brennivínshól. Á leiðinni fer gatan undir Garðveginn og síðasti sýnilegi hluti hennar er skammt vestan hólsins.
Sandgerði er með elstu höfuðbólum á Suðurnesjum. Þaðan hefur alla tíð verið stunduð mikil útgerð enda Sandgerði einhver mikilvægasta verstöð landsins, á sama tíma og dró úr mikilvægi flestra annarra verstöðva á Rosmhvalsnesi.
Digravarða Árið 1990 fékk Sandgerði kaupstaðarréttindi og er því með yngstu kaupstöðum landsins.
Um staðhætti við Sandgerði má lesa á vefsíðu Sandgerðisbæjar: “Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes. Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri.
Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Sandgerðisgatan liggur um beitarhólfið. Á þá leið vantar sárgrætilega tvær “prílur” – inn og út úr beitarhólfinu.
Norðan Sandgerðis eru Flankastaðir. Þar myndaðist snemma byggðarhverfi. En með vaxandi byggð hefur Sandgerði náð þangað og er nú skammt á milli hverfa. Að sunnan liggur land Bæjarskerja að Sandgerði. Seinustu árin hefur byggðin í Sandgerði teygt sig þangað og nú eru þessi gömlu hverfi sambyggð. Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða og ekki síst á sjálfri heiðinni.
Um 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis. Bærinn Sandgerði stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn.
Varða Á seinni hluta síðustu aldar var byggt stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanum. Þar bjó Sveinbjörn Þórðarson og seinna sonur hans, Einar. En þeir feðgar voru eigendur Sandgerðis. [Gamli Sandgerðisbærinn mun hins vegar hafa staðið niður við sjó, en þegar hann var fluttur upp að tjörninni var hann jafnan nefndur Efra-Sandgerði].
Sandgerðisvör var við svokallaðan Hamar, þar sem nú er aðalgarður hafnarinnar.
Til að komast inn á Sandgerðisvík þarf að fara í gegnum Hamarssund, en það er norðan við Bæjarskerseyri. Sundið er fremur þröngt og getur verið vandratað fyrir ókunnuga. Eru um 800 metrar frá mynni sundsins að höfninni sjálfri. Á tímum árabáta var sund þetta þrautarsund. Það var notað við landtöku þegar önnur sund lokuðust vegna brims og urðu ófær bátum.”
Í lýsingu Magnúsar Þórarinssonar í „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; – Melaberg“, í ritinu “Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð”, sem Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík gaf út árið 1960, bls. 118-123, segir m.a.: “Sundpolli var Keilir um Digruvörðu. [Digravarða er eitt helsta auðkenni Sandgerðisbæjar og á eftir að koma við sögu á leiðinni].
Sjósókn var mikil frá Sandgerði á tíma opnu skipanna. Enn er viðbrugðið sjósókn Sveinbjörns Þórðarsonar og sona hans, Jóns og Einars. Fleiri hefi ég í huga, en hvar á staðar að nema, ef byrjað er? Fór saman dugnaður þessara manna og góð aðstaða, því þarna var bezta sundið og góð lending. Mest var lent í Stokkavörinni, þar var bezt og hreinlegast á land að leggja; voru skipin sett þar upp í kampinn, svo mörg sem komust, en oft lágu líka skip Sandgerðinga á mjúkri þarasænginni í Fúlu. Hún var oft ill umferðar, sem áður segir, og því fremur dróst úr hömlu að setja skipin, enda kom það fyrir oftar en eitt sinn, er flóð hækkaði mjög að óvörum, sem oft kemur fyrir á Miðnesi, að skipin tók út.
Varða Um aldamótin síðustu rak fjögur skip út úr Fúlu á morgunflóði einu eftir austanrok. Einhver hafði orð á því við Guðrúnu húsfreyju, hvert tjón þetta væri. „Það er ekkert með skaðann,“ sagði hún „en skömmin.“ 1880 tók út frá Sandgerði sexmannafar með öllum veiðarfærum. Það skip átti Þórarinn Andrésson á Flankastöðum, segir Suðurnesjaannáll.
Þannig var umhorfs í Sandgerðisnaustum fyrir og fram yfir aldamót, að allir bændur í hverfinu, sem gerðu út skip, áttu timburskúr, en sjómennirnir kofa eða byrgi. Var þetta stór þyrping húsa af ýmsu tagi. Skipin, sem í notkun voru, stóðu í röð neðan við húsin. Önnur, sem ekki voru notuð í svipinn, stóðu eða hvolfdu fyrir ofan skúrana. Dekkbátarnir stóðu að vetrarlagi, tveir eða þrír, hlið við hlið uppi á bakkanum fyrir ofan Fúlu. Allt bar þetta vitni dugmiklum athafnamönnum á þeirra tíma vísu. Eigi veit ég, hvenær verzlunarskipin (skonnorturnar) byrjuðu að leggjast á Sandgerðisvík, en frá 1880 og fram yfir aldamót komu skip kaupmanna í Keflavík þangað á hverju sumri, fyrst með salt til næstu vertíðar, svo með vörur til viðskiptamanna og loks að sækja fiskinn, er hann var þurr orðinn. Voru oft tvö eða þrjú skip á víkinni í einu. Þar komu líka á hverju sumri „spekulantar“, eins og þeir voru þá nefndir. Var lestin útbúin sem verzlunarbúð. Sóttu kvenfólk og krakkar mjög að skipum þessum, því þar var gnægð álnavöru og leikfanga. Gjaldeyrir þessa fólks var oftast örfáir fiskar, er hlotnazt höfðu að gjöf, helzt á sumardaginn fyrsta, eða ullarhár. Og krakkar áttu stundum hagalagða, sem dugðu fyrir bolta eða blístru.
Ekki lágu verzlunarskipin suður á Álnum, heldur fyrir norðan sund, innan við Þorvald. Þau lágu Gatanætíð kirkjuna framan við Skarfakletta, og röðin frá suðri til norðurs, ef fleiri voru en eitt. Þau komu ekki nema í góðviðri og fóru strax, ef brimvottur sást eða hvassviðri, af hvaða átt sem var, og skipstjórum leið illa ef skörp var útræna.
Í örnefnaskrá frá Berent Magnússyni, Krókskoti, og Magnúsi Þórarinssyni er Ari Gíslason skráði, segir m.a. um Býjasker (Bæjarsker): “Í Sandgerðistúni útnorður frá Krókskoti suður af Sandgerðisbæ er stór hóll, grasi vaxinn, sem heitir Álfhóll. Á þessum hól eru rústir. Þetta er allmikið suður af Sandgerðisbæ. Þar upp af eru Uppsalir. Þar er sagt að hafi verið 18 hurðir á járnum. Þar voru rústir, sem nú hefur verið byggt á. Það er norðaustur frá Krókskoti. Þar er nú verið að byggja upp af Uppsölum, ofan við grænan hól, sem heitir Oddstóft. Þar suður af er gil eða melur, sem heitir Gulllág, líkast því að það sé farvegur eftir vatn og hafi runnið í sjó sunnan við Krókskot. Þar upp af, en ofan grjóthóla, er varða, sem heitir Kríuvarða. Upp af henni er töluverður dalur með vatni í á vetrum og heitir Leirdalur. Þar upp af hækkar landið, og er hér uppi nefnt Brúnir. Þar er stór hóll, sem heitir Grænhóll, grasi vaxinn og urð í kring. Þar austur af er melur, er liggur frá norðri til suðurs alla leið frá Digruvörðu og ofan undir Garð. Þessi melur heitir Langimelur. Hann er á mörkum móti Leirunni.
Varða Í viðbót við lýsingu Magnúsar Þórarinssonar í bókinni “Frá Suðurnesjum”, bls. 123-128. Upplýsingar gáfu bændurnir þar, Theódór og Jón. Ari Gíslason skráði: “Nú er að flytja sig upp fyrir veginn. Fast niður við veg rétt norðan við merkin er Kampastekkur. Þar upp af eru lautir og skorningar, sem nefndir eru Gil. Ofan þeirra er klettahóll, sem nefndur er Einbúi og ekki er vert að snerta við. Þar ofar, norður og vestur, er Stórhóll. En beint þar norður af er Stekkur. Þá er norður af Stórhól Svefnhóll, með smálægð á milli, þar niður af. Niður við rétt er Stakkstæði. Þar er hóll. Þar voru klappir og þurrkaður fiskur á þeim. Þetta er sunnan við gamla Keflavíkurveginn. Svo er skilarétt gömul ofan við veginn rétt við Stakkstæðið. Nú er að fara aftur og fara upp. Ofan þessa er Skurðholt, og syðst í Skurðholtum er Litli-Bekkjarhóll. Norður af honum og hærra er Stóri-Bekkjarhóll. Nyrzt í þeim sunnan við veg er Tóhóll. Upp af honum er Grænabrekka. Norðan við Tóhól var í gamla daga fjárhús, og rétt þar upp af er Hleypisundshóll. Hann er á merkjum móti Fuglavík. Suður og upp af Hleypisundshól eru Folaldavötn, en þau eru í Fuglavíkurlandi. Þar upp af til norðurs eru Gömlu-Þrívörður, og til austurs og norðausturs Litlu-Þrívörður. Norðar eru Draugaskörð. Á þeim var hlaðin varða á einum af þrem Draugaskarðshólum, nefnd Efri-Dauðsmannsvarða. Svo er klapparhóll, sem heitir Grímsvörður. [Grímsvörðurvoru allnokkru ofan Draugaskarða].
Skammt ofar varð að sprengja þar úr [er nýi þjóðvegurinn (malbikaði) var lagður. Þá voru vörðurnar teknar, en hóllinn er með marki SE og G frænda hans]. Þar upp undan, suðaustur af Gömlu-Þrívörðum, eru svonefnd Torfmýrarvötn. Þetta eru þrjár tjarnir í mýri og mosatóum. Ein þeirra þornar aldrei. Ein er stór og aldrei slegin. Suður af þeim og milli þeirra eru klappir, nefndar Grímsvörðusker.
Á Vegamótahól “Vafi hefur verið á hvar Einstæðingur er, hvort hann er hér eða í Leirunni. Einstæðingsmelur er þó vestan við Sandgerðisgötuna þar sem Fuglavíkurgatan kemur inn á hana.” Þar sést Einstæðingur og varðan á honum, litlum grónum hól í melnum. Guðmundur, sem var með í för, hefur þegar gert ráðstafnir til að hlaða upp vörðuna og áletraður steinninn í hana bíður tilbúinn í Norðurkoti.
Ef haldið er á ný niður eftir Sandgerðisgötu (-vegi) og örnefnin rakin upp eftir sem leð lá, verður fyrst fyrir Oddnýjarhóll norðan við veginn, skammt suður frá merkjum. Á hólnum, sem er við innkeyrsluna í Sandgerði, er nú listaverkið “Álög”. Vart er hægt að hugsa sér stórfenglegri sýn en þá sem blasir við þegar keyrt er inn í Sandgerði. Þar mætast himinn og haf og útsynningurinn lemur skerjagarðinn með brimföldum sem tóna við hið fagra listaverk. Verkið er eftir listakonuna Steinunni Þórarinsdóttur og þar gefur að líta þrjár rústfríar öldur sem tákna að hafið er eilíft en maðurinn sem stendur þar hjá er úr pottstáli því hann er forgengilegur. Verkið var sett upp á 100 ára afmæli Miðneshrepps 1986 til minningar um látna sjómenn.
Næst ofar er Árnakötluhóll. Hærra og norðaustur af honum er Neðri-Dauðsmannsvarða. Henni hefur ekki verið haldið við, og þar var letur á hellu rétt hjá. Hefur það ekki fundizt nú um sinn. Hefur það líklega verið leiði meiri háttar manns. Þetta er beint upp af Stekknum fyrrnefnda. Upp af Neðri-Dauðsmannsvörðu er Sjónarhóll. Hann er á merkjum móti Sandgerði. Suður af Sjónarhól er Vegamótahóll. Þar á milli eru smáholt nafnlaus. Upp af Vegamótahól í Draugaskörðum er nefndur Dynhóll. Austur af honum eru Samföstuhólar. Þá ber við himin og eru með smáþúfum á. Græn þúfa er á Breiðhól syðri, sem er fyrir norðan Digruvörðu, úr Breiðhól til Gotuvörðu, þaðan í Háaleitisþúfu.
Sigurður Eiríksson í Norðurkoti hefur merkt nokkra af þessum hólum eftir lýsingum eldri manna er þekktu vel til fyrrum.
Digravarða rís há og mikil i norðri. Hún var sundvarða í Hamarssundið, [um Sundbolla í Keili].
Við Neðri-Dauðsmannsvörðu Þegar staðið er við Vegamótahól má sjá niður að Býjaskerum (Bæjarskerum). Bæjarsker er ef til vill elsta höfuðból Suðurnesja en margt bendir til þess að þar hafi búið Steinunn gamla, sem Ingólfur Arnarson gaf mestallan norðanverðan Reykjanesskaga. Væntanlega hefur Steinunn stundað útgerð af kappi, en Bæjarskerseyrin þótti lengi ein besta veiðistöð Suðurnesja. Landbrot vegna ágangs sjávar hefur þó leikið eyrina grátt og eftir ofsaflóð veturinn 1769 og síðar Básendaflóðið 1799 hnignaði útgerð þar mjög.
Á Bæjarskerum á eftirfarandi þjóðsaga að hafa gerst: “Guðrún nokkur bjó að Býjarskerjum á Miðnesi. Hún átti unga dóttur sem hét Pála(?). Þegar hún var ungbarn tók hún svo snöggri og mikilli breytingu að menn álitu að hún væri orðin umskiptingur, svo var hún ólík öðrum börnum og öllum sínum. Hún var lág og gild, greppleg í ásýnd og óálitleg mjög með gular tennur og neglur beygðar fyrir góma og líkastar klóm. Að öllu leyti var hún afar ellileg að sjá. Þegar hún var í einrúmi hjá þeim er hún trúði sagði hún honum ýmislegt er hún annars leyndi svo sem það að hún héti eigi það sem hún væri kölluð. “Ég heiti Odda, maður minn; er eldri en þið haldið og barna móðir,” sagði hún.
En ef hún var spurð meira um það, eyddi hún því og brá í annað tal.
Í Draugaskörðum Einu sinni kom maður þangað, sem Þorlákur hét, að Býjarskerjum. Hann var einn þeirra manna er neitaði öllu “ónáttúrlegu”. Hann hafði oft komið þar áður og átt í stælum um ýmislegt og séð Oddu og heyrt skrafað þar margt og um ýmislegt þess háttar og hlegið að, einkum þó sögnum um umskiptinga. Nú þegar hann var kominn þarna slógu menn á glens við hann og spurðu hvort þeir ættu ekki að sýna honum umskipting. Jú, hann hló að því og kvaðst hafa sterka löngun til að sjá slíkt náttúruafbrigði. Sóttu menn þá stelpuna því móðir hennar var eigi heima. Síðan harðlokuðu þau dyrunum svo stelpa kæmist eigi út.
Það er gömul trú að umskiptingar þoli eigi klukknahljóð fremur en aðrar kynjaverur og mjög illa var stelpunni við alla skræki og blístur. Þar uppi í baðstofunni var blístrukeyri sem menn höfðu stundum hrætt hana með. þegar stelpa var komin inn greip einhver keyrið og blés í endann. Þá brá svo við að stelpa brá hart undan og varð sem vitstola. Augun þöndust út af æðinu og hún titraði öll af ósköpum þeim er yfir hana komu. Þar næst réðist hún á súðina, læsti sig fasta með nöglunum og skreið upp í mæni af einum saman handkrafti svo að fætur löfðu í lausu lofti. Eftir því sem hert var blístrið fór hún harðar svo það var líkast sem köttur klifrar í ákafa. Þannig skreið hún upp og ofan og einnig hliðhallt. Það undruðust allir mest af öllu. Loksins þegar þetta hafði lengi staðið yfir öllum til mestu undrunar opnaði maður baðstofuhurðina og stelpa þeyttist út eins og fjaðrafokka. Þá varð Þorláki að orði: “Já, svo framarlega sem nokkur umskiptingur hefur nokkurn tíma verið til þá er þessi djöfull umskiptingur. Og þessu hefði ég aldrei trúað hver helst sem hefði sagt mér nema ég hefði séð það sjálfur sem nú er orðið. En margt er ótrúlegt þó það sé satt og er þetta eitt af því.”

Á Sandgerðisgötu

Snerist nú allt glens í undrun fyrir bæði Þorláki og öðrum. Aldrei fékk móðir Oddu að vita neitt um þetta. En eftir þetta efaði enginn á bænum að Odda væri umskiptingur og vildu fyrir hvern mun koma henni af sér. Spurðu menn nú Guðrúnu hvort hún hefði nokkurn tíma haft hana í kirkju með sér. Hún kvað nei við.
Skoruðu menn þá á hana að fara einn sunnudag með hana í Útskálakirkju því þeir vissu engar kynjaverur standast klukknahljóm né helgisöngva. Þekktist Guðrún ráðið án þess að hún mundi viðurkenna að dóttir sín væri kynjavera. Lét hún nú til leiðast og var Odda sett upp á stólpagrip sem hest. Riðu þær svo uns þær heyrðu hringinguna frá Útskálum. En þá ærðist stelpan, orgaði og froðufelldi og varð svo þung á hestinum að hann féll þar niður og varð eigi komið á fætur aftur en Odda var froðufellandi og óð. Var þá afráðið að snúa aftur með Oddu og gekk það erfiðlega enda ágerðist ofsinn og æðið svo hún bráðdó á leiðinni til baka.”
Ofan við Býjarsker er Arnarbæli og skammt ofar Álaborg, rétt auk tófta. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir að “Holt eitt með klettum og grasi vaxið á milli klettanna er upp í heiðinni milli Býjaskerja og Sandgerðis rétt fyrir ofan (sunnan) túngarðinn, er Arnarbæli heitir. Annar klettur er þar fyrir neðan Sandgerði sem brúkaður hefur verið fyrir hróf á sumarinn, er heitir Hamar. Þaðan þóttust menn sjá álfafólk vera að setja skip sín og upp í Arnarbæli nóttina fyrir Bátsendaflóðið – þann 4. janúar 1798 [á reyndar að vera 1799] – sem mörgum sveitum olli hins mesta tjóns og töpunar.”
Gotuvarða Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er talað um “loftanda” á Miðnesheiði, sbr.: “Vor eitt um 1820 í heiðríkju hér um bil milli hádegis og miðmunda heyrðist skruðningur í lofti því líkast sem stórskip væri í flughasti dregið um kastmöl. Þetta heyrðist víða á Suðurnesjum, í Keflavík, Grindavík, Garði og Hafnarfirði. En á Miðnesinu sást skýflóki líða hér um bil skafthátt fyrir ofan sjóndeildarhring úr landsuðri til útsuðurs; fyrst dökkur, en er hann kom fyrir sól að sjá, hvítbleikur. Að honum horfnum kom þessi skruðningur upp – sögðu Nejsamenn. Var þetta kallaður loftandi. Sögur svipaðar þessari gengu manna á meðal og voru alltaf kallaðar loftanda verkan.”
Jón Jónsson frá Bæjarskerjum sagði að “við Vegamótahól koma saman vegirnir frá Bæjarskerjum og Sandgerði, svo var einn vegur frá Vegamótahól til Keflavíkur.”
Í leiðinni var litið á Dauðsmannsvörður, en þær munu vera þrjár á þeim slóðum. Ein, þ.e. sú nyrsta er rétt ofan við Sandgerði. Á hellu við hana á, skv. örnefnalýsingu [gömlum sögnum], að vera áletrun.
Enn hefur hin meinta áletrun við Neðri-Dauðsmannsvörðu við Sandgerðisveginn ekki komið í ljós. Varðan er hálfhrunin, en þó má enn sjá ferkantaða lögun hennar. Varðan er nokkuð utan við götuna, í slakka, svo hún hefur ekki þjónað neinum sem leiðarmerki í lifandi lífi. Sagan segir að þarna hafi maður eða jafnvel menn orðið úti og varðan verið hlaðin til minningar um hann eða þá. Áletrun átti að hafa verið klöppuð á stein í eða við vörðuna. Kominn er tími til að endurhlaða vörðuna með því grjóti sem í og henni liggur. Efri-Dauðsmannsvörðan er skammt frá götunni ofan við Draugaskörð og enn önnur í heiðinni ofan við Berghús. Ekki hafa fundist áletranir við þær. Dauðsmannsvarðan, sem er á efsta Draughólnum við Draugagil, var hlaðin upp fyrir skemmstu.
Efri-Dauðsmannsvarða Við Rockvilleroad voru fyrrum mannvirki í radarstöðinni kynnt til sögunnar sem og tilgangur hennar.
Einstæðingsvarða er á mel [fyrrum malargryfjum] skammt neðan Gotuvörðu, sem er nú áberandi kennileiti sunnan við götuna. Einstæðingsmelur er þar og á honum Einstæðingshóll – varðan er nú sokkin í grashólinn. Sigurður og Guðmundur hafa mikinn áhuga á að endurreisa vörðuna, enda munu, sem fyrr segir, gatnamót Fuglavíkurgötu og Sandgerðisgötu hafa verið þarna nálægt hólnum. Sigurður þekkir Fuglavíkurleiðina mjög vel, en hún er nú víða horfin, bæði vegna jarðvegseyðingar, framkvæmda sem og gróins gróanda. Hún sést þó enn á köflum.
Þarna á melnum voru námur og öll verksummerki eftir þann hluta Fuglavíkurleiðarinnar, nema hóllinn, hafa verið þurrkuð út.
Þegar komið var upp að Gotuvörðu var áð, enda komið sólksinsdreif. Hvers vegna nafnið er til komið er óþekkt. Þarna gæti t.a.m. gotufata hafa fallið af hesti, sbr. Méltunnuklif austan Grindavíkur (þar sem méltunna féll af hesti og klifið hlaut nafn af). Sumir hafa talið að þarna gæti hafa átt að standa “Götuvarða”, en þeir sem gleggst þekkja til segja það hafi ekki verið. Sigurður og Guðmundur frændi hans endurhlóðu vörðuna fyrir skemmstu. Í henni er steinn með nafni vörðunnar.
Tugir manna (hundruðir samtals til lengri tíma) urðu úti á skömmum tíma á gömlu þjóðleiðunum um Miðnesheiði fyrr á öldum. Flestir voru þeir á leið frá kaupmanninum í Keflavík, síðladags eða undir kvöld. Í annarri FERLIRslýsingu eru tíundaðir viðskiptahættir þess tíma, s.s. staup fyrir hitt og þetta, t.d. bæði fyrir að bíða og fyrir afneitun.
Sagan af Runka (Runólfi), þess er Hafsteinn miðill hafði jafnan beint samband við á skyggnilýsingarfundum sínum, er ágætt dæmi um þetta. Lík hans fannst illa útleikið eftir að hans hafði verið saknað um tíma. Var jafnvel talið um tíma að honum hafi verið fyrirkomið, en síðar sættust menn á að dauða hans hafi borið að af “eðlilegum” ástæðum.
Merking Eflaust standa ennþá fleiri vörður, eða fallnar, á Miðsnesheiði sem minningarmörk um fólk, er varð þar úti á sínum tíma, en eru núlifandi fólki flestu gleymt. og enn rölta menn um heiðina, meira og minna “dauðir” fyrir sögu þeirra, sem þar hafa orðið til í gegnum aldirnar.
Keflavíkurborg sést framundan þegar gatan er fetuð áleiðis niður að Grófinni. Leifar af borginni sjást enn, en líklegt má telja að grjót úr henni hafi veri tekið í nýrri mannvirki líkt og var með vörður og önnur hlaðin steinmannvikri fram að þeim tíma. Brennivínshóll er við ofan við Grófina, norðan götunar, skammt frá Keflavíkurborg. Þar var til siðs að taka tappa úr flösku á leið yfir heiðina (hóllinn er merktur af SE). Reynslan sýndi að það þótti miður heppilegt því margir áttu erfitt með að rata réttar leiðir eftir það.
Ljóst er að Sandgerðisgatan sést um langan veg á fyrrgreindum 8 km kafla milli bæjarins og Grófarinnar. Hún er reyndar horfin þar sem nýjasti vegurinn hefur verið lagður ofan á hana sem og þar sem malargryfjum hefur verið komið fyrir á leiðinni. Annars sést hún vel í móum Miðnesheiðar, fjölmörg vörðubrot eru við hana (vinstra megin á leið frá Sandgerði) og ýmsar mannvistarleifar tengdum sögum og atburðum á leiðinni má enn berja augum.
Sjá MYNDIR.

Heimildir m.a.:
-Magnús Þórarinsson, „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; – Melaberg“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík gaf út árið 1960, bls. 118-123.
-Saga Sandgerðis.
-Örnefni frá Berent Magnússyni, Krókskoti, og Magnúsi Þórarinssyni um Býjasker (Bæjarsker). Ari Gíslason skráði.
-Viðbót við lýsingu Magnúsar Þórarinssonar í bókinni “Frá Suðurnesjum”, bls. 123-128. Upplýsingar gáfu bændurnir þar, Theódór og Jón. Ari Gíslason skráði.
-Sigurður Eiríksson – Norðurkoti.
-Sandgerdi.is
-Sigfús III 142.
-Jón Árnason IV 27 og III 10.

Sandgerðisvegur

Sandgerðisvegur

Hvalsnes

Hvalsneskirkja var vígð á jólum 1887. Ketill Ketilsson, stórbóndi í Kotvogi, þáverandi eigandi Hvalsnestorfunnar, kostaði kirkjubygginguna.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Hvalsneskirkja er byggð úr alhöggnum steini og var grjótið sótt í klappir í nágrenninu. Um steinsmíði sá Magnús Magnússon (182-1887) og Stefán Egilsson. Um tréverk sá Magnús Ólafsson (1847-1922). Allur stórviður var fenginn úr fjörunum í nágrenninu, m.a. súlurnar. Viðamiklar viðgerðir fóru fram árið 1945 undir umsjón Húsameistara ríkisins. Kirkjan er friðuð.
Altaristaflan er eftirgerð af Dómkirkjutöflunni, máluð af Sigurði Guðmundssyni (1833-1874) árið 1886 og sýnir hún upprisuna.

Hvalsneskirkja

Legsteinn Steinunnar í Hvalsneskirkju.

Einn merkilegasti gripur kirkjunnar er legsteinn yfri Steinunni Hallgrímsdóttur, sem dó á fjórða ári (1649). Hún var dóttir Hallgríms Péturssonar (1614-1674), eitt mesta sálmaskáld Íslendinga, sem þjónaði þá sem prestur í Hvalsnessókn. Kona hans var Guðríður Símonardóttir. Hallgrímur Pétursson þjónaði á Hvalsnesi fyrstu prestskaparár sín (1644-1651).
Hella þessi var lengi týnd, en fannst 1964 þar sem hún hafði verið notuð í stéttina framan við kirkjuna.
Kirkja hefur líklega verið á Hvalsnesi lengi. Hennar er fyrst getið í Kirknaskrá Páls biskups frá 1200 og stóð hún til ársins 1811 er Hvalsnesprestakall var lagt niður. Íbúarnir voru mjög ósáttir við það og var ný kirkja byggð 1820. Hún var timburkirkja. Núverandi kirkja er fyrsta kirkjan, sem stendur utan kirkjugarðsins. Í kaþólsku tengdust margir dýrlingar kirkjunni. María guðsmóðir, Ólafur helgi, heilög Katrín, Kristur, allir heilagir og hinn heilagri kross.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Útskálakirkja
Útskálakirkja var vígð 1863. Formsmiður af henni var Einar Jónsson frá Brúarhrauni (1818-1891).
Árið 1975 var forkirkjan stækkuð. Að innan er kirkjan máluð og skreytt af Áka Gränz, málarameistara. Hann skýrði jafnframt upp gamla skrautmálningu, sem nær var horfin.Útskálakirkja

Kirkjan er af yngri turngerð og er friðuð.
Altaristaflan er eftir útlendan málara og sýnir boðun Maríu. Predrikunarstóllinn var að öllum líkindum upprunalega í Dómkirkjunni í Reykjavík. Skírnarfonturinn er eftir Ríkharð Jónsson.
Séra Sigurður B. Sívertsen (1808-1887) var prestur í Útskálum í tæplega hálfa öld. Hann vann að mörgum framfaramálum, s.s. jarðabótum og húsbyggingum. Hann lét m.a. byggja kirkjuna, sem nú stendur, en þekktastur er hann fyrir Suðurnesjaannál, sem hann skrifaði.
Kirkja hefur líklega verið á Útskálum frá fyrstu tíð. Hennar er fyrst getið í kirknaskrá Páls biskups frá um 12000. Þá var kirkja einnig á Kirkjubóli, en þeirrar kirkja er síðast getið í heimildum frá 14. öld. Dýrlingar kirkjunnar í kaþólskri tíð voru Pétur postuli og Þorlákur helgi.

Útskálar

Útskálakirkja – rúnasteinn.

Einn hryggilegasti atburður sjóferðasögu Íslands tengist kirkjunni. Þann 8. mars 1685 fórust 136 á sjó, flestir af Suðurnesjum. Um nóttina rak 47 lík á lad í Garðinum og var 42 þeirra búin sameiginleg gröf í Útskálakirkjugarði. Það er talið að aldrei hafi jafn margir verið jarðaðir á sama degi frá sömu kirkju landsins.

Útskálakirkja

Útskálakirkja.