Stóri-Hólmur

Farið var að Stóra-Hólmi þar sem Guðmundur og Bjarni Kjartanssynir tóku á móti hópnum. Veður var í einu orði sagt stórkostlegt – sól og blíða – þrátt fyrir vonda spá. Enda höfðu bræðurnir orð á því að þeir myndu ekki eftir annarri eins blíðu og höfðu þeir þó báðir alið þar allan sinn aldur.

Stori-Holmur-201Þeir bræður byrjuðu að draga úr úr bíl sínum tveggja metra langa loftmynd af svæðinu þar sem á voru letruð öll nöfn staða og bæja með ströndinni. Farið var yfir kortið og þeir gengu síðan með hópnum um svæðið og bentu á hitt og þetta. M.a. var gengið um gamla garðlagið, skoðuð var gamla lindin undir klettunum (þar sem áður var Steinkot), skoðað gamla barnaskólahúsið og litið á hlöðnu brunnana, bæði við Hólm og eins niður undan Leiru, en þar er mjög fallega hlaðinn brunnur suð-austast á golfvellinum.

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur – SG.

Annars er merkilegt hvað golfararnir hafa getað eyðilagt mikið af minjum á svæðinu – menn sem segjast vilja varðveita og viðhalda minjum á landi sínu. Þeim er reyndar vorkunn því lítill áhugi virðist hafa verið að varðveita gamlar minjar á svæðinu næst Keflavík. Norðan við húsið á Stóra-Hólmi er bátslaga ósleginn blettur með hleðslum í kring. Þar sögðu bræðurnir að væru sagnir um heigðan fornmann og hefði aldrei mátt hrófla við blettinum. Hann hefði lengst af verið girtur af, en er nú aðgengilegur. Í hólnum voru greinilegar hleðslur.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Við Bæjarskersréttina hitti hópurinn fyrir Reyni Sveinsson (Fræðasetrinu) og Péturs Bryngarðsson, sagnfræðing í Sandgerði. Pétur benti á Bæjarskersréttina og leiddi hópinn að Bæjarskersleiðinni og gekk með henni fyrsta áfangann upp að Stekknum. Þar er álfaborg og Álfaklettur.

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur – SG.

Norðaustan í klettunum eru nokkrar tóttir og bera þau öll merki selja. Pétur hélt að þarna hefði fyrrum verið sel frá Býskerjum. Þarna fyrir ofan blasir Álaborgin syðri (rétt) við og er hún mjög heilleg. Pétur sagði að elsta réttin á svæðinu, svo vitað sé, hafi verið Álaborgin nyrðri ofan við Flankastaði, síðan hafi Álaborg syðri verið byggð ofan við Bæjarsker, en hún hafði síðan verið flutt í réttina, sem við komið var fyrst að. Austan við réttina (borgina) eru þrjár tóttir, mis gamlar. Um er að ræða hús, nokkurn vegin jafnstór. Þau gætu vel hafa verið frá sama tíma og borgin upphaflega.

Leiran

Leiran – örnefni; ÓSÁ.

Þá var leiðin elt að Vegamótahól þar sem mætast Bæjarskersleið og Sandgerðisleið.

Sandgerðisleiðin er greinileg í áttina að gamla Sáðgerði (Sandgerði). Þaðan var gengið að Digruvörðu, sem var mið úr Sandgerðissundinu í Keili. Norðan vörðunnar fannst Sjónarhól og neðan hennar er Árnakötluhóll. Á milli þessara hóla átti Dauðsmannsvarðan neðri að vera. Dauðsmannsvarðan efri er ofan við Norðurkot, fast við varnargirðinguna, við gömlu leiðina niður að Hvalsnesi.

Sandgerðisgata

Sandgerðisgata.

Leitað var og fundin var gömul varða á einum hólanna austan Sandgerðisleiðar. Skömmu síðar fannst önnur gömlu varða vestan leiðarinnar. Hún er mjög álitlegur staður – skammt utan við götuna. Þriðja varðan er á hól sunnan við Árnakötluhól. Nú er vitað hvaða svæði leturhellan (sem getið er um í gömlum heimildum) gæti verið á. Þetta er tiltölulega lítið svæði og ætti að vera auðvelt að leita skipulega á því. Mosinn var hins vegar frosinn nú svo frekari leit varð að bíða.
Þá var gengið yfir móann niður að Bæjarskersrétt. Loks var litið á fornmannaletursteininn í Garði og var reynt að finna út hvers konar letur var á honum miðjum. Erfitt að segja til um það, en virðast vera rúnir. Þegar reynt var að taka mynd af letrinu festist myndavélin svo hún vildi ekki smella af. Þegar hins vegar var komið aftur að Leiru virtist allt vera í lagi. Svona getur þetta verið.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Guðmundur Kjartansson f. 1. nóv. 1937 og Bjarni Kjartansson f. 17. apríl 1939 (Tjarnargötu 27, Reykjanesbæ, sími: 421 1570).

Leiran

Leiran – örnefnamynd Guðmundar og Bjarna.