Færslur

Viðey

Í Morgunblaðinu árið 1990 er grein um Viðey. Í henni er kafli undir fyrirsögninni “Ástarsaga afhjúpuð?” Fjallað er um þrjá letursteina  vestan í eynni sunnan við svonefndan Hulduhól. Ein áletrunin á svonefndum Dvergasteini og önnur á klöpp við Nautahúsin.

“Fundist hafa áletranir frá fyrrihluta síðustu aldar á jarðföstum steinum á vesturhluta Viðeyjar og voru nokkrar þeirra áður óþekktar.

Viðey

Mögulegt er að á einum steininum séu ristir upphafsstafir ungra frændsystkina af Stephensens-ættinni sem bjó í eynni á þessum árum, líklega merki um stutt ástarævintýri. Á öðrum steini er aðeins ártalið 1810 í rómverskum tölum og á þriðja steininum, sem kunnugir hafa reyndar lengi vitað um, eru nöfn tveggja manna ásamt krossmarki og ártali.

Forgengileg ást klöppuð í stein?

Magnús Sædal Svavarsson, byggingastjóri í Viðey, kom fyrir skömmu auga á áletranir sem klappaðar höfðu verið í jarðfasta steina í Viðey. Ein þeirra gæti verið þögult vitni um ástarævintýri ungra frændsystkina í eynni á fyrrihluta síðustu aldar. Séra Þórir Stephensen staðarhaldari skoðaði nýlega steinana með blaðamanni og ljósmyndara Morgunblaðsins.
„Þegar ég sá þessa áletrun fyrst bjóst ég náttúrulega við að hér hefði einhver vinnumaðurinn verið á ferð, hefði verið við gegningar í húsunum,” segir séra Þórir þegar við skoðum stein í nánd við Nautahúsin svonefndu, norðaustan til á Vestureynni. Þar sést stafurinn M og síðan TH sem stundum var notaður í stað íslenska bókstafsins Þ. „Hann gæti hafa verið að dunda við þetta í tómstundum sínum. Svo fór ég í manntalið 1821; það er enn til. Þar er ekkert mannsnafn sem þetta fangamark á við. Ég fór að velta því fyrir mér hvort tveir vinnumenn hefðu verið að verki.
ViðeyÞegar ég ræddi þetta við aðra var mér bent á að ég væri ekki nærri nógu rómantískur! Þegar einhver eða einhverjir séu að krota svona i stein geti það ekkert síður verið elskendur. Ég íhugaði þetta og fór aftur í manntalið. Vorið 1821 kemur Magnús Stephensen, sonur Stefáns amtmanns og bróðursonur Magnúsar Stephensens konferensráðs, heim frá Kaupmannahöfn, þá nýútskrifaður kandídat í lögfræði. Hann hafði alist upp hjá Magnúsi konferensráði frá því hann var á fyrsta ári. Hann elst upp með Þórunni, dóttur Magnúsar, en þau hafa ekki sést í nokkur ár er Magnús kemur heim. Kannski, og ég ítreka kannski, er þessi áletrun merki um það að með þeim hafi kviknað einhver ástarhugur, hún skrifað stafinn hans, Magnús skrifað fangamark hennar og ártalið.
Hann fer aftur að heiman 1823, fær sýslumannsembætti í Skaftafellssýslum 2. september. Magnús er þá svo fátækur að ekki kemur til greina fyrir hann að kvænast; fyrst þurfti hann að koma undir sig fótunum. Næsta ár kemur Hannes bróðir hans heim frá Höfn með guðfræðipróf; hann varð seinna einn af forystumönnum sjálfstæðisbaráttunnar við Dani. Segir sagan að hann hafi verið einn af þrem þingmönnum sem dönsku dátarnir, er voru sendir hingað vegna þjóðfundarins 1851, hafi átt að drepa ef nauðsyn krefði. Á Jónsmessunni 1825 giftist Þórunn Hannesi.
Magnús sýslumaður kvæntist ekki fyrr en 1828, þá prófastsdóttur úr Mýrdalnum.”

Heimild:
-Morgunblaðið, 112. tbl. 19.05.1990, Forgengileg ást klöppuð í stein?, bls. 18-19.
Viðey

Ás - letursteinn

Letursteinn er við bæinn Ás ofan Hafnarfjarðar, fyrrum Garðahreppi. Steinninn er við fyrrum brunninn í bæjarlæknum skammt sunnan við bæjarstæðið. Þar við er nú hlaðin bogadregin steinbrú. Á letursteininn eru höggnar tvær myndir af ásum og sveigður kross ofar. Á tvær hliðar hans er höggvið rúnaletur, óskiljanlengt.

Ás - letursteinn

Ás – letursteinn.

FERLIR hefur reynt að leita uppruna steinsins. Hann er við göngustíg umhverfis Ástjörn, nálægt tveimur hlöðnum steinbrúm, sem gerðar voru fyrir ca. 40 árum. Rúnaletrið passar ekki við þekkt rúnaletusstafróf.
Ábending fékkst um steininn. Þegar komið var á vettvang þakti snjór svæðið (sem betur fer). Nuddaður var snjót á steininn og þá komu rúnirnar í ljós.

Ás - letursteinn

Ás – letursteinn.

Talið var í fyrstu að þetta vera letustein frá því að Haukur Halldórsson og félagar, heiðingjalistamennirnir, gistu í Straumi. Svipur er með myndunum á steininum og steinmyndum við Fjörukránna.
Hauki var send fyrirspurn um steininn á Facebook. Hann svaraði; sagðist ekki kannast við hann.
Tryggva Hansen, steinlista- og -hleðslumanni var send fyrirspurn. Hann býr upp við Rauðavatn. Tryggvi var mikilvirkur hleðslumaður fyrrum og í góðum tengslum við Hauk og félaga. Ekkert svar hefur borist frá Tryggva.
Svar barst loks frá Tryggva: “Kann að meta þetta. Haukur var þarna, en hann virðist ekki muna eftir letursteininum þeim arna. Skondið. Á steininum virðist þó eitthvert táknrænt hafa  verið”…

Ás - letursteinn

Ás – letursteinn.

Þessi steinn hefur verið þarna við „alfaraleiðina frá Ási (Hrauntungu- og Stórhöfðastíginn) “ í a.m.k. nokkra áratugi, en enginn virðist hafa veitt honum hina minnstu eftirtekt, hvað þá að um hann hafi verið fjallað opinberlega.

Ás - brúarsmíði

Ás – brúarsmíði.

Eftirfarandi frétt mátt lesa í Fjarðarpóstinum árið 1997 um brúargerðina nálægt steininum. Í framhaldi af því var póstur sendur á brúarsmiðinn, Guðjón Kristinsson.
Guðjón svaraði: “Sæll ég kannast við andlitin, en man ekki eptir rúnasteininum. Þarf að bregða mjer og líta á þetta.”
Talið er víst að ekkert þýði að senda Minjastofnun fyrirspurn um tilvist steinsins, að teknu tilliti til fyrrum viðbragða stofnunarinnar við öðrum slíkum.
Áletrunin á steininum að Ási gæti verið mun eldri en í fyrstu var ályktað.
Allar ábendingar um tilurð steinsins og/eða sögu hans eru vel þegnar á ferlir@ferlir.is.

Heimildir:
-Fjarðarpósturinn, 15. árg. 1997, Rómversk göngubrú á Áslandi, bls, 6.

Ás - letursteinn

Ás – letursteinn.

Stóri-Hólmur

Farið var að Stóra-Hólmi þar sem Guðmundur og Bjarni Kjartanssynir tóku á móti hópnum. Veður var í einu orði sagt stórkostlegt – sól og blíða – þrátt fyrir vonda spá. Enda höfðu bræðurnir orð á því að þeir myndu ekki eftir annarri eins blíðu og höfðu þeir þó báðir alið þar allan sinn aldur.

Stori-Holmur-201Þeir bræður byrjuðu að draga úr úr bíl sínum tveggja metra langa loftmynd af svæðinu þar sem á voru letruð öll nöfn staða og bæja með ströndinni. Farið var yfir kortið og þeir gengu síðan með hópnum um svæðið og bentu á hitt og þetta. M.a. var gengið um gamla garðlagið, skoðuð var gamla lindin undir klettunum (þar sem áður var Steinkot), skoðað gamla barnaskólahúsið og litið á hlöðnu brunnana, bæði við Hólm og eins niður undan Leiru, en þar er mjög fallega hlaðinn brunnur suð-austast á golfvellinum. Annars er merkilegt hvað golfararnir hafa getað eyðilagt mikið af minjum á svæðinu – menn sem segjast vilja varðveita og viðhalda minjum á landi sínu. Þeim er reyndar vorkunn því lítill áhugi virðist hafa verið að varðveita gamlar minjar á svæðinu næst Keflavík. Norðan við húsið á Stóra-Hólmi er bátslaga ósleginn blettur með hleðslum í kring. Þar sögðu bræðurnir að væru sagnir um heigðan fornmann og hefði aldrei mátt hrófla við blettinum. Hann hefði lengst af verið girtur af, en er nú aðgengilegur. Í hólnum voru greinilegar hleðslur.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Við Bæjarskersréttina hitti hópurinn fyrir Reyni Sveinsson (Fræðasetrinu) og Péturs Bryngarðsson, sagnfræðing í Sandgerði. Pétur benti á Bæjarskersréttina og leiddi hópinn að Bæjarskersleiðinni og gekk með henni fyrsta áfangann upp að Stekknum. Þar er álfaborg og Álfaklettur. Norðaustan í klettunum eru nokkrar tóttir og bera þau öll merki selja. Pétur hélt að þarna hefði fyrrum verið sel frá Býskerjum. Þarna fyrir ofan blasir Álaborgin syðri (rétt) við og er hún mjög heilleg. Pétur sagði að elsta réttin á svæðinu, svo vitað sé, hafi verið Álaborgin nyrðri ofan við Flankastaði, síðan hafi Álaborg syðri verið byggð ofan við Bæjarsker, en hún hafði síðan verið flutt í réttina, sem við komið var fyrst að. Austan við réttina (borgina) eru þrjár tóttir, mis gamlar. Um er að ræða hús, nokkurn vegin jafnstór. Þau gætu vel hafa verið frá sama tíma og borgin upphaflega.

Leiran

Leiran – örnefni; ÓSÁ.

Þá var leiðin elt að Vegamótahól þar sem mætast Bæjarskersleið og Sandgerðisleið.

Sandgerðisleiðin er greinileg í áttina að gamla Sáðgerði (Sandgerði). Þaðan var gengið að Digruvörðu, sem var mið úr Sandgerðissundinu í Keili. Norðan vörðunnar fannst Sjónarhól og neðan hennar er Árnakötluhóll. Á milli þessara hóla átti Dauðsmannsvarðan neðri að vera. Dauðsmannsvarðan efri er ofan við Norðurkot, fast við varnargirðinguna, við gömlu leiðina niður að Hvalsnesi.

Sandgerðisgata

Gangið um Sandgerðisgötu.

Leitað var og fundin var gömul varða á einum hólanna austan Sandgerðisleiðar. Skömmu síðar fannst önnur gömlu varða vestan leiðarinnar. Hún er mjög álitlegur staður – skammt utan við götuna. Þriðja varðan er á hól sunnan við Árnakötluhól. Nú er vitað hvaða svæði leturhellan (sem getið er um í gömlum heimildum) gæti verið á. Þetta er tiltölulega lítið svæði og ætti að vera auðvelt að leita skipulega á því. Mosinn var hins vegar frosinn nú svo frekari leit varð að bíða.
Þá var gengið yfir móann niður að Bæjarskersrétt. Loks var litið á fornmannaletursteininn í Garði og var reynt að finna út hvers konar letur var á honum miðjum. Erfitt að segja til um það, en virðast vera rúnir. Þegar reynt var að taka mynd af letrinu festist myndavélin svo hún vildi ekki smella af. Þegar hins vegar var komið aftur að Leiru virtist allt vera í lagi. Svona getur þetta verið.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Guðmundur Kjartansson f. 1. nóv. 1937 og Bjarni Kjartansson f. 17. apríl 1939 (Tjarnargötu 27, Reykjanesbæ, sími: 421 1570).

Leiran

Leiran – örnefnamynd Guðmundar og Bjarna.

 

Setberg

Gengið var yfir Setbergsholtið og um norðanvert Urriðavatn.
Gamli Setbergsbærin er vestan í holtinu. Enn má sjá tóftir Urriðakot-2hans og garða. Burstirnar hafa snúið á móti vestri, niður að Hamarskotslæk með útsýni yfir Hafnarfjörð. Hlöðnu vörslugarðanir standa margir hverjir enn þrátt fyrir umsvifin á golfvelli Setbergsmanna. Komið var við á Galdraprestshól, en hóllinn stendur fast við gamla veginn upp að Urriðakoti. Við hann er kennd saga prests nokkurs sem koma hafði átt undir á altari kirkju einnar norðlenskrar. Afkvæmið varð prestur og þótti göldróttur með afbrigðum. Til eru margar sögur af fjölkyngi hans.
Norðan við Urriðakot er Lambatangi. Á honum er nokkrar fornar hleðslur, en landamerki Setbergs og Urriðakots eru á honum vestanverðum. M.a. má, ef vel er gáð, hlaðna refagildru. Hlaðnir garðar eru á austanverðum tanganum og skammt norðar er fallega hlaðið gerði í klettasprungu. Álftir höfðu verpt í einum hólmanna austan við tangann.

Urriðakot - letursteinn.

Urriðakot – letursteinn.

Í túninu neðan við Urriðakotsbæinn, sem Jón Guðmundsson, fyrrum stórbóndi á Setbergi (áður bóndi á Bryggju og á Tortu, þeim bæjum einum í Biskupstungum er Skálholtsstóll, auk Haukadals, náði ekki að söðla undir sig), sonur Guðmundar Jónssonar hins fjárglögga í Haukadal (fyrrum bónda á Álfsstöðum á Skeiðum), leit augum hinsta sinni vorið 1907, áður en hann flutti sig háaldraður á láglendið, er letursteinn klappaður af ábúandanum 1846.
Gengið var til baka um gömlu götuna að stíflunni. Sefgrasið í víkinni var orðið nokkuð hátt miðað við árstíma (sbr. meðfylgjandi mynd), en venjulega lítur það ekki svona út fyrr en um mánaðarmótin júní-júlí. Engan fisk var að sjá við stífluna, sem er líka nokkuð óvenjulegt.
Gengið var þvert yfir golfvöllinn á bakaleiðinni. Golfarnir hættu leik sínum, tóku ofan og biðu fullir lotningar á meðan FERLIRsfélagar liðu hjá.
Veður var frábært – logn og sól.

Urriðakotsvatn

Urriðakotsvatn.

Flekkuvík

Brunnar eru bæði vestan og norðan við Flekkuvíkurhúsið. Nyrðri brunnurinn er sjávarmegin við húsið. Hann er dýpri og virðist nýrri. Hinn brunnurinn er suðaustan við húsið, í túninu nálægt gömlu heimreiðinni. Túnið er að mestu sunnan og ofan við húsið. Syðst í því, svo til alveg undir túngarðinum ofanverðum er Flekkuleiði; lágur gróinn hóll, einn af nokkrum. Á leiðinu er “rúnasteinn”, sem segir að þar “Hvíli Flekka”. Í raun er um 16. eða 17 aldar leturstein að ræða skv. áliti sérfræðinga. Sagan segir að Flekka, norsk landnámskona, sem áður byggði Flekkuvík, hafi viljað láta grafa sig í jarðri túnsins þar sem hún hefði útsýni yfir innsiglinguna að bænum. Þar mun hún hvíla, blessunin.
Ekki er ólíklegt að ætla að Flekka hafi verið grafinn á ystu mörkum hins ræktaða lands á þeim tíma, m.a. til að vernda það fyrir hugsanlegum yfirgangi þeirra, sem á eftir kynnu að koma, en miklir fólksflutningar voru til landsins á landnámsöld og landamörk því fljót að breytast.
Rúnasteinn Flekku er einn af a.m.k. þremur á Reykjanesskaganum.
Árni Óla (1961) fjallar m.a. um letursteininn á Flekkuleiði “Rúnasteinn í Flekkuvík”, í bókinni Strönd og Vogar. Úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs Arnarsonar. Reykjavík, bls. 207-215 (sjá meira HÉR).

Flekkuleiði

Eftirfarandi umfjöllun Árna Óla um rúnasteininn í Flekkuvík birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1959:
“Utan við Hvassahraun á Reykjanesskaga gengur inn Vatnsleysuvík og inn úr henni utarlega skerst önnur lítil vík, sem Flekkuvík nefnist. Stendur bær samnefndur fyrir botni víkurinnar. Þar í túninu er lítill hóll, eða stór þúfa, sem kallast Flekkuleiði, og þar ofan á liggur hraunhella með rúnaletri. Stendur þar skráð: „Hér hvílir Flekka”.

Hver var Flekka?
flekka-22Sagnir herma að hún hafi verið landnámskona, komin frá Flekkufirði í Fjörðum, og eitthvað vensluð Ingólfi Arnarsyni, enda frá sama byggðarlagi og hann. Ingólfur fekk henni fyrst bústað í Kjós. Reisti hún þar bæ og heitir hann enn Flekkudalur, við hana kenndur. Hún var vitur kona og framsýn, en eigi mjög við alþýðuskap. Hún undi sér ekki í Kjósinni, vegna þess að hún sá ekki til sævar frá bæ sínum. Fluttist hún svo vestur á Vatnsleysuströnd og reisti sér þar bæ við eyðivík nokkra. Hefir víkin síðan verið við hana kennd og kölluð Flekkuvík og hlaut bærinn sama nafn. Þarna var þá afskekktur staður, víkin umgirt apalhrauni á þrjá vegu, en á hrauntöngum beggja megin víkurinn svarraði brimið og voru átök þess ekki mjúk. En í víkinni sjálfri var góð lending og mikill veiðiskapur var þar jafnan skammt undan landi. Þó var innsigling á víkina viðsjál og gat verið hættuleg, ef ekki var rétt farið. Þess vegna mælti Flekka svo fyrir, áður en hún andaðist, að sig skyjdi heygja þar efst í túni, fyrir opinni innsiglingarleiðinni. Lét hún svo um mælt, að aldrei skyldi skip farast þar á réttu sundi, meðan nokkuð sæist af kumli sínu. Hafa menn haft trú á þessu síðan.

Jónas Hallgrímsson rannsakar leiðið.

Sumarið 1841 fór Jónas skáld Hallgrímsson til Flekkuvíkur til þess að athuga rúnasteininn og rannsaka hvort hér gæti verið um fornt kuml að ræða. Mönnum kom ekki saman um hvernig lesa átti úr úr rúnunum. Að vísu gátu allir lesið nafnið Flekka, en yfir því voru skammstafanir, sem menn greindi á um hvernig skilja bæri.
sumir að lesa ætti „hér hýsi aðrir „hér hvílir”. Finnur Magnússon las: „hér hýsir” og taldi áletrunina frá heiðni. Þótti Jónas að fýsilegt að fá úr því skorið hvort hér væri um að ræða grafreit frá fornöld, því væri rétt lesið “hvílir”, þá átti svo að vera. En Jónas rak sig á óvænta erfiðleika. Mönnum þar syðra stóð hinn mesti stuggur af komu hans þeir vissu erindið. Þeir vildu ekki láta hrófla við Flekkuleiði, því að þá væri hætt við að falla myndi úr gildi hin góðu ákvæði hennar um innsiglinguna á Flekkuvík. Jónas varð þá að útvega leyfi til rannsóknarinnar hjá séra Pétri Jónssyni á Kálfatjörn, sem kallaðist landsdrottinn, vegna þess að kirkjan á jörðina. En Páll bóndi Vigfússon í Flekkuvík mun lengi hafa verið tregur, því að Jónas segir: „Eg hét þeim að láta Flekku kyrra, ef eg fyndi hana, og kvaðst gera þetta í virðingarskyni, svo sem oft hefði verið gert við helga menn”. Lét Páll þá til leiðast og samþykkti að rannsókn færi fram „móti tilhlýðilegri borgun fyrir jarðusla í óslegnu túni”.
Jónas lýsir Flekkuleiði þannig: „(Það er) í hafsuður frá bænum, 6 faðma fyrir innan túngarðinn, í þúfnareit; snýr frá útsuðri til landnorðurs og hallast þangað lítið eitt. Það er 5 alna langt og lxk flekka-21al. breitt, svo sem álnar hátt. Hraunhella ein lítil og slétt ofan liggur á miðri hæðinni, sokkin í jörðu; á henni stendur með greinilegu letri (sjá mynd). Öll grasi 
gróin, en vottar samt í brúnunum fyrir grjóti, ekki ólíkt því sem það væri hleðsla . . . Letursteinninn er nú tekinn upp og mældur: Lengd 15—16% þuml, breidd 12 þuml, þykkt 4—5 þuml. Hann er því sem sjá má, lítil og heldur ólöguleg hraunhella . . Af því hingað og þangað var að sjá steinsnyddur út úr brúnum hæðarinnar, þótti líklegt, að vera mundi steinhleðsla. Grassvörðurinn var því allur af skorinn og moldinni sópað af grjótinu; var þetta jarðlag hvergi meira en hálft fet á þykkt. — Þá kom það í Ijós, að undir var einlæg, jarðföst klöpp, eður réttara sagt hraungarður, svo þar hefir aldrei nokkur maður heygður verið. 

flekka-32

Það er því ljóst, að annaðhvort hefir Finnur Magnússon rétt að mæla, eða þetta eru brellur einar, og hefir þá einhver hrekkjakarl látið hér steininn til þess að blekkja menn trúgjarna”. Sjálfsagt hefir Páll bóndi í Flekkuvík krafizt þess fyrirfram, að gengið yrði frá leiði Flekku að lokinni rannsókn, eins og það hafði áður verið. Og þótt Jónas geti ekki um það, hefir hann orðið að gera upp leiðið að nýu, enda þótt hann væri sannfærður um, að þetta væri enginn merkisstaður. Hann hefir ekki mátt ganga í berhögg við þá tröllatrú, sem menn höfðu á Flekkuleiði.
Matthías próf. Þórðarson hefir sagt, að skammstafanirnar á rúnahellunni eigi áreiðanlega að þýða „hér hvílír”, og hann álítur að áletrunin muni vera frá 17. eða 18. öld, gerð vegna munnmælanna um það, að þarna væri Flekka heygð. Flekkuleiði eins og það er nú í sumar kom eg að Flekkuvík og skoðaði Flekkuleiði, rúmum hundrað árum eftir að Jónas var þar.
Leiðið er mjög svipað og hann lýsir því, bæði að stærð og lögun, og bendir það til þess, að það hafi verið hlaðið upp þegar að rannsókn lokinni. En umhverfið er orðið breytt, þúfnareiturinn, sem Jónas talar um, er horfinn og er leiðið nú í sléttu túni. Ofan á leiðiskollinum liggur hraunhellan litla með áletruninni, og er sokkin í jörð, eins og þegar Jónas kom að henni. Af stærð hellunnar, eins og hér er að framan greint, geta menn dregið, að stafirnir sé ekki stórir. Og nú eru þeir ekki lengur „greinilegir”, eins og Jónas kallar þá. Á þessari rúmu öld hafa þeir eflaust máðst og slitnað. Kveður svo ramt að þessu, að sums staðar sér aðeins móta fyrir leggjum þeirra. Mosi og skófir hafa einnig sezt í risturnar, en yfirborð hellunnar hrufótt, svo að varla má greina á milli hvað ; eru holur í steininum og hvað er klappað. Þess verður naumast langt að bíða, að áletrunin máist af með öllu, ef stafirnir verða ekki skírðir.
flekka-41Eg reyndi að hreinsa mosa og skófir úr ristunum, eftir því sem unnt var, bar síðan krít í þær, svo að þær yrði gleggri. Því næst tók eg af þeim meðfylgjandi mynd. Ef mynd þessi er borin saman við uppdrátt Jónasar, sést nokkur munur á 4. rúninni og seinustu rúninni í nafninu. Um 4. rúnina er það að segja að Kaaland sagði að hún gæti ekki verið rétt hjá Jónasi, þar ætti ekki að standa heldur J,, eins og kemur líka fram á Ijósmyndinni. Þessi rún er nokkurn veginn glögg enn, en Jónasi hefir annaðhvort sést yfir annan skálegginn, eða þá að hann hefir ritað hana skakkt í minnisbók sína. Seinasta rúnin er nú einna máðust, og vottar aðeins fyrir stryki út úr aðalleggnum, en fráleitt held eg að þar hafi nokkurn tíma verið höggvinn bogi í líkingu við það, sem sýnt er á teikningu Jónasar. Þess má geta hér að á árunum 1937—39 ferðaðist Anders Bæksted hér um landið til að athuga rúnir og hefir skrifað bók um þær. Hann kom til Flekkuvíkur í júlí 1938 og tók mynd af Flekku-steininum og skírði síðan upp rúnastafina. Eru þeir allir eins og hér á myndinni, nema seinasta rúnin. Hann segir að rúnirnar sé „greinilegar”, en telur þær ungar, máske frá 18. öld, og miðar þá við gerð þeirra. Hann segir að annar bóndinn í Flekkuvík hafi kunnað söguna um að Flekka væri grafin þarna og vekti yfir innsiglingunni, en menn leggi nú ekki lengur trúnað á þá sögu.

Hvaðan er Flekkunafnið.
Mér finnst það augljóst á öllu, að nafnið Flekkuvík hafi komið með landnemum frá Noregi eins og fjölmörg önnur nöfn. Hér eru bæirnir Flekkudalur og Flekkuvík, og þeir eru báðir í landnámi Ingólfs Arnarsonar. Það er þegar athyglisvert, þegar þess er gætt, að suður úr Dalsfirði í Noregi. Litlu utar en þar sem Ingólfur átti heima, skerst fjörður, sem heitir Flekkufjörður. Hann er kenndur við bæinn Flekku, sem þar er. Nafnið er skrifað á ýmsan hátt í gömlum skjölum, svo sem Fleke, Flocke, Flecke og Fleche, en nú er það skrifað Flekke. Sagt er að það sé alveg einstætt meðal gamalla bæarnafna, og vita menn ekki hvað það þýðir. Sumir gizka á, að það sé dregið af „flek” = blettur, en verði þó ekki skýrt. Getgáta hefir og komið um að það sé dregið af dílagrjóti (flekkóttu grjóti”) sem þar er, en þó þykir það ekki sennilegt, því að grjót hefði þá átt að vera í nafninu.
Annars úir og grúir af „Flekku”-nöfnum í Noregi. Þar er Flekkuvík, Flekkuós, Flekkuey, Flekkustaðir (og ýmis önnur, sem virðast dregin af karlkynsnafninu Flekkur: Flekkstveit, Flekshaug, Flekstad, Fleksvik). Ennfremur eru þar nöfn eins og Flikka, Flikke, Flikeid, Flikkerud, Flikkeshaug, Flikki, Flikkin, Flikkurud, Flikstade. Menn segja að ekki megi blanda þessum nöfnum saman við Flekkunöfnin, en bó verði þau ekki skýrð. Samt dregur bærinn Flekkefjord á Ögðum nafn sitt af bóndabænum Flikke.
flekka-45Hér skal ekkert fullyrt um hvort hér sé um einn nafngiftaflokk að ræða, en þótt Flikk-nöfnin sé undan skilin, þá eru Flekkunöfnin svo mörg, að eitthvað sérstakt mun hafa ráðið þeim. Er þá nokkur goðgá að hugsa sér að til hafi verið í forneskju einhver vættur sem Flekka hét, og við hana sé þessi staðanöfn kennd? Jafnvel að hún hafi átt sér bónda, sem Flekkur hét (sbr. nafnið Álaflekkur). Flekkuleiði ætti að varðveita Þótt Flekkuleiði sé ekki kuml, er það skemmtilegt og mætti helzt ekki glatast. Það segir sína sögu um það hvernig þjóðtrú myndast. Flekka vakir yfir útræðinu í Flekkuvík, eins og Þuríður sundafyllir vakir yfir byggðinni og miðum þeirra í Bolungavík.
Það er eflaust alþýðuskýring, að Flekkuvík dragi nafn af konu sem hét FJekka, alveg eins og menn sögðu að Krýsuvík dragi nafn af fjölkunnugri konu er þar bjó og hét Krýs. Þó er ekki loku fyrir það skotið að í Flekkuvík hafi einhvern tíma búið kvenskörungur, sem menn hafi kennt við bæ sinn og kallað Flekku. Menn hafa haft ýmsar sveiflur á því, allt fram á þessa öld, að kenna fólk þannig við bæi.
Við skulum ekki missa sjónar á þessum ímyndaða kvenskörung í Flekkuvík. Hún hefir búið þar rausnarbúi, haft margt fólk í heimili og rekið mikla útgerð. Flekkuvík hefir þá verið betri jörð og blómlegri en nú er. Þá hefir verið mikið og grösugt undirlendi fyrir botni víkurinnar og út með henni beggja vegna. Þetta land hefir sjórinn verið að brjóta um margar aldir, og í tíð þeirra manna. sem enn lifa, hefir sjórinn gert þarna mikil landspjöll. Þar sem háir heybólstrar stóðu á dögum Flekku húsfreyju, lemur nú brimið berar klappir. Flekka-47En útgerðin hefir þá, eins og síðar, verið helzti bjargræðis-vegurinn. Húsfreyjan í Flekkuvík hefir borið umhyggju fyrir starfsfólki sínu. Ef til vill hefir einhver bátur farizt þar á víkinni, vegna þess að hann þræddi ekki rétta leið, og lenti upp á sker. Þá hefir húsfreyjan látið setja upp sundmerki, svo að slíkt slys henti þar ekki aftur. Sundmerkin hafa verið tvær vörður, önnur fram við sjó, en hin uppi í túni. Þá var rétt innsigling, ef þessar tvær vörður bar saman. Og þá hefir húsfreyjan látið svo um mælt, að aldrei mundi farast bátur á Flekkuvík, ef stýrt væri eftir sundmerkjunum.
Svo líða árin. Húsfreyjan í Flekkuvík hverfur til feðra sinna, en minning hennar lifir vegna ummæla hennar. Aldrei ferst bátur á réttri leið inn Flekkuvík. Menn skilja ekki, að það er sundmerkjunum að þakka, en halda að það sé að þakka ummælum húsfreyjunnar.
Ákvæði hennar Flekkusteinn-198haldi hlífiskildi yfir bátunum, og þau verði alltaf í gildi. Þess vegna vanrækja þeir að halda sundmerkjunum við. Neðri vörðuna tekur brimið, en efri varðan, uppi í túninu, molnar niður, af því að hún var úr torfi. Þar verður eftir dálítill hóll. Við hann er tengd minningin um Flekku húsfreyju, og þá er þess skammt að bíða að menn fari að trúa því að þessi rúst sé haugur Flekku, þarna hafi hún valið sér hvílustað til þess að geta alltaf vakað yfir innsiglingunni á víkina. Og þá hlýtur að draga að því, að menn fari að trúa, að ekki farist skip á víkinni meðan nokkur merki legstaðar Flekku sjást. Og svo kemur einhver framtakssamur maður, sem er Flekku hjartanlega þakklátur fyrir vernd hennar, höggur rúnir á litla hraunhellu og leggur helluna á leiði Flekku til þess að það gleymist aldrei.
Einhvern tíma löngu seinna eru hlaðnar nýar sundvörður. Önnur er nú niðri á sjávarbakkanum, en hin hátt uppi í hrauni. En þegar sigld er rétt leið inn á víkina og vörðurnar ber saman, þá er Flekkuleiði í beinni línu á milli þeirra.”

(Heimildir:
-O. Rygh: Norske gaardsnavne, Norsk alkunnabok (Fonna forlag).
-Jónas Hallgrímsson: Rit III, 1 og 2.
-Anders Bseksted: Islands Runeindíkriíter (Bibl Arna Magnaeana II) Á.Ó.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 20. september, 1959, Rúnasteinn í Flekkuvík, bls. 393-396.

Hvalsneskirkja

Í Alþýðublaðinu 13. október 1964 birtist eftirfarandi frétt eftir OÓ: “Fundinn er við Hvalsnesskirkju legsteinn Steinunnar dóttur Hallgríms Péturssonar. Steinn þessi hefur verið týndur í hátt á aðra öld, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að hafa upp á honum.”
HvalsneskirkjaSíðan segir frá því hvernig bóndinn á Bala, Guðmundur Guðmundsson, formaður sóknarnefndar Hvalsnessóknar hafi verið að vinna við að steypa stétt upp að kirkjunni og ætlað að fjarlægja steina sem standa myndu upp úr steypunni. Byrjar hann á steini sem stóð við norð(vestur)- horn kirkjunnar og ætlar að velta honum við og nota í uppfyllingu undir steypuna. Kemur þá í ljós, að letur var á steininum, vel læsilegt. Lét hann Gísla [Guðmundson] kirkjuhaldara þegar vita af fundinum, sem við nánari athugun sá að hér var um að ræða legstein Steinunnar Hallgrímsdóttur”.
Steinn SteinunnarÍ greininni kemur fram að menn hafi vitað um tilvist þessa steins því um hann hafi verið heimildir í gömlum skrifum en þó var ekki vitað hvar hann var fyrr en hann kom upp í tengslum við kirkjubyggingu í Hvalsnesi árið 1820. Síðan hafi hann glatast á ný og hvorki Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi, né Matthías Þórðarson þjóðminjavörður fundið hann þrátt fyrir ítrekaða leit í byrjun þessarar aldar. ãÁreiðanlega hafa þeir báðir gengið á honum” segir svo, “því hann er búinn að liggja á hvolfi fyrir utan kirkjudyrnar síðan hún var byggð fyrir 77 árum [1887].” Síðan heldur greinarhöfundur áfram: “Legsteinninn er gerður úr sléttri grásteinshellu sem sennilega hefur verið um 70 sm. á kant en höggvið hefur verið utan af honum svo hann félli betur í hleðsluna sem hann var notaður í. Við þessar lagfæringar skemmdist letur steinsins nokkuð, en enn er vel læsilegt:
STEINU
HALLGRIM
DOTTI
164…”
Niðurlag greinarinnar er eftirfarandi: “Talið er líklegt að séra Hallgrímur hafi sjálfur höggvið þennan stein. Hann þjónaði í Hvalsnesi í 7 ár, frá 1644 til «51, hefur Steinunn því bæði fæðst og látist þar, en hún var þriggja og hálfs árs gömul er hún dó. Var hún mjög efnilegt barn og tregaði faðir hennar hana Hvalsneskirkjamikið og orti eftir hana tvenn eftirmæli.”
Það er þyngd steinsins og stafagerðin sem grípa mann sterkustum tökum. Er það á eins manns færi að lyfta honum?
Vegna þeirrar greinar sem hér birtist hafði ég samband við Sigurbjörn Stefánsson bónda í Nesjum í Hvalsneshverfi til þess að kanna hvort fyrir lægju upplýsingar um þyngd steinsins. Þær voru ekki haldbærar en sóknarnefndarformaðurinn, Reynir Sveinsson, bauðst til þess að ganga úr skugga um það. Hann fór síðan með baðvigtina sína til kirkju og lyfti steininum með aðstoð Bryndísar Gunnarsdóttur sóknarnefndarkonu upp á vogina. Steinninn reyndist vera 110 kg. Og þyngri var hann, áður en höggvið var af honum til þess að hann yrði þénugri sem gangstéttarhella.
Hallgrímur PéturssonÞað var víst enginn aukvisi sem valdi þessa voldugu grjóthellu og bar heim í smiðju og síðan að gröf barnsins eftir að hafa meitlað í hana nafn litlu dóttur sinnar og dánarár. STEINUNN HALLGRÍMSDÓTTIR 1649. Það er eins og heljarafl sorgarinnar hafi gert manninn tröllsterkan. Hallgrímur hefur verið um það bil 35 ára og heimildir segja að hann hafi verið stór vexti. Því má vel hugsa sér að þessi fyrrverandi járnsmíðanemi og sjómaður hafi verið rammur að afli. Gróf stafagerðin er síðan til vitnis um að þarna var ekki vanur steinsmiður að verki heldur faðir barnsins að tjá sorg sína og missi í vanmætti sínum.
Maður sér fyrir sér frumstæð verkfæri hins fátæka prests, heyrir glamur af hamri og meitli, sér tár hrökkva í grátt rykið, sér hann hagræða hellunni á gröf síns eftirlætis og yndis, og ljóðið og steinninn verða eitt, allt eins og Snorri orðaði það. Ljóðið munu margir lesendur Bautasteins kannast við. SteinunnEftirmælin, sem í raun eru tvenn og vefast saman í eitt máttugt harmljóð, dótturtorrek, eftir þessa litlu stúlku sem Hallgrímur segir með eigin orðum að hafi verið svo næm skynsöm, ljúf í lyndi.
Steinunn mín litla hvílist nú, skrifar hann til að sefa sorg sína.
Og úr ljóði Hallgríms fást þær upplýsingar að hún hafi aðeins verið þriggja og hálfs árs þegar hún dó. Hálft fjórða ár alls var ævi, eigi þó fullkomin, segir pabbi hennar.
Það er mikið haft við svo lítið barn að yrkja eftir það dýr ljóð og leggja stein á gröf þess á tímum, þegar barnadauði var daglegt brauð hinna fátæku og sneyddi ekki heldur hjá húsum hinna ríku. Það bendir til þess að Steinunn Hallgrímsdóttir hafi verið einstaklega efnilegt og heillandi barn ellegar faðir hennar óvenjulegur maður. Og auðvitað var umræddur faðir óvenjulegur maður. Og konan hans, móðir barnsins, átti að baki óvenjulega ævi. Hún hafði lent í herleiðingunni miklu til Alsír 1627 í Tyrkjaráninu svokallaða og var ein örfárra sem áttu afturkvæmt. Fundum þeirra bar saman í Kaupmannahöfn haustið 1636 og er ekki ætlunin að rekja langa sögu þeirra hér. Þó er rétt að minna á að fyrstu sjö búskaparár sín bjuggu þau við fátækt og allsleysi á Suðurnesjum þar til Hallgrímur var vígður til prests í Hvalsnesi þrítugur að aldri.

Heimild:
-Steinunn Jóhannesdóttir, rithöfundur.Hvalsneskirkja

Stóra-Vatnsleysa

Tekið var hús á Sæmundi bónda á Stóru-Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd. Komið var kvöld. Suðaustan andvari strauk kinn. Sæmundur hafði beðið FERLIR um að reyna að leysa þá torráðnu gátu að lesa úr fornri áletrun á stökum steini í túninu, en það hafði engum tekist til þessa (svo hann vissi til a.m.k.).
LetursteinninnÞegar komið var út á hlaðið benti Sæmundur á hól í suðvestri og sagði: “Þetta er nónhóll”. Þá sneri hann sé 47° til suðurs og bætti við: “Og þarna er hádegishóll – á bak við húsin”. Hóll sá lá sunnanlægt við Keili. “Annars var venjulega miðað við Keili þegar bent var á suðrið”. Enda munaði þar litlu. Líklega hefur viðmiðið verið þvert á útnorður frá Vatnsleysu.
Þegar komið var örskammt suður fyrir núverandi íbúðarhús benti Sæmundur á hleðslur og sagði að þarna væri talið að hefði fyrrum verið kirkja (kirkja allrarheilagrarmessu), sem getið er um í annálum árið 1262. Henni hafi verið þjónað frá Kálfatjörn og bar prestinum að messa þar annan hvern helgidag – að minnsta kosti. Kirkjugatan millum jarðanna gæfi það og til kynna. Sæmundur dró fram gögn máli sínu til stuðnings. Hann sagði bæ hafa verið byggðan á rústum kirkjunnar, en sagan segir að þar hafi fólki ekki orðið vært vegna draugagangs. Kvað svo rammt að honum að hurðir hafi ekki tollað á hjörum. Bærinn var þá yfirgefinn og hann síðan rifinn. Kirkjan hefur skv. þessu staðið á hæsta hólmum ofan við Vatnsleysuvíkina. Austan við hæðina hallar hún undan. Líklegt er að þar hafi veirð kirkjugarður forðum. A.m.k. er letursteinn þar staðfestur vottur um slíkt.
Steinn þessi er stór grágrýtissteinn, sjávarbarinn. Hann er ca. 80 c, hár, 100 cm breiður og 40 cm þykkur. Skýringin á hvers vegna svona stórt lábarið grjót hafi verið langt uppi á landi kom síðar. Ekki væri ólíklegt að þarna væri grafreitur og að steinninn voru einu sýnilegu ummerkin eftir hann.
Byrjað var að skoða letursteininn, sem nú er þarna í túninu suðaustan við bæinn. Í fyrstu virtist áletrunin torráðin og í rauninni óskiljanleg, en þegar gengið var handan við steininn, varð lausnin augljós. Steininum virtist hafa verið velt um koll og áletrunin því óljós. Að þessu staðfestu komu í ljós klappaðir stafir; GI er sameinast með krossmarki að ofanverðu. Til hliðar, hægra megin að ofan, er ártalið 1643 eða 1649. Enn hefur ekki verið fundið út hvert tilefni áletrunarinnar var. Þetta gæti verið legsteinn, sem fyrr sagði. Steinninn er ólíklega á upprunalegum stað því uÁletrunndir er klöpp, þótt gróið hafi yfir. Norðvestan við steininn eru að því er virðist leifar grjótgarðs. Sæmundur sagði þetta vera úrkast úr túninu. Ofan úrkastsins gæti kirkjugarðurinn hafa verið. Letursteinninn hefur því verið í honum, vel áberandi er hann stóð upp á rönd, en af sömu ástæðu og aðrir steinar verið færðir til í eina samfellu svo hægt væri að nýta svæðið sem slægju. Fyrr á árum þurfti að nýta sérhvern blettur með stækkandi stórgripabúum.
Þarna undir eru því bæði leifar af kirkju frá 13. öld og grafreitur. Letursteinninn bendir til þess. Steinninn er það þungur að hefur ekki verið færður langa vegarlengd með fyrri tíma tækjabúnaði.
Sæmundur kvaðst muna að þegar grafið var fyrir núverandi húsi hafi verið komið niður á hlaðinn kjallara, u.þ.b. 130 cm háan, en húsið hafi þá verið byggt nálægt fimm metrum norðar. Það stæði á ísaldarkampinum og þá hafi grafreiturinn og kirkjan einnig verið á honum þarna suður af húsinu. Hvað væri undir veginum að bænum vissi enginn, en hann hefði að hluta verið lagður ofan á jarðveginn, sem þá var. Þar væri skýringin komin á hinu lábarða grjóti svona langt uppi í landinu. Landið hafi legið lægra fyrrum er ísaldarjökullinn þrýsti því niður, en er hann hopaði lyftist landið og meðlagið sömuleiðis (þ.m. sjávargrýtið).
LetursteinnHafist var handa við að reisa letursteininn upp eins og honum hafði verið komið fyrir upphaflega. Með tveimur járnkörlum og jafnmörgum kraftakörlum vana gamalli áreynsluhefð tókst smám saman með lagni að lóðrétta láréttliggjandi letursteinninn. Þegar hann féll við, var sem ásýnd hans opinberaðist.
Áletrunin er ekki nákvæmlega efst og fyrir miðju steinsins, en ef grannt er skoðað má sjá að krossinn hefur verið gerður miðsvæðis. Gé-ið vinstra megin er stærra en I-ið hægra megin svo hlutföllin hafa eðlilega raskast miðað við miðjusetninguna.
Þegar steinninn hafði verið færður í rétta stöðu kom í ljós að fallegt listaverk er efst á honum hægra megin, ofan við ártalið, líkast fugli. Ef skoðaðir eru legsteinar í kirkjugörðum nú til dags má einmitt sjá fuglastyttur ofan á þeim. Hér gæti verið um samsvörun að ræða – 365 ára gamla.
Aðspurður um fleiri fornminjar í nágrenninu sagði Sæmundur þær vera fáar núorðið. Í norðaustri frá kirkjunni eru tún. Þar voru fyrrum nokkur kot (sjá HÉR), en þegar túnin voru sléttuð á fyrri hluta 20. aldar, auk þess sem ágangur sjávar hafi gert það nauðsynlegt, hefði öllu verið nýtilegu ýtt niður að ströndinni með það að markmiði að hindra frekari landeyðingu. Þar með hefðu leifar kotanna með öllu tilheyrandi þurrkast út á svæðinu.
Sæmundi var vinsamlegast bent á að nú mætti ekki, skv. þjóðminjalögum, raska neinu innan 20 metra radíus frá letursteininum. Hann sagði það nú lítið mál; “steinninn hefði áður verið færður svo líta mætti á staðsetninguna nú sem geymslustað fyrir hann – ef þurfa þætti”.
Í samtali við Sæmund komu fram upplýsingar um “holustein” ofan á jarðfastri klöpp á hugsanlegum óþekktum mörkum Ísólfsskála og Hrauns á Núpshlíðarhálsi. Lýsingin passar vel við landamerkjalýsingu Ísólfsskála. Ætlunin er að skoða vettvanginn fljótlega.
Sæmundur sagðist ekki vita að letursteininn hafi verið skráðan em “fornleif”. Honum var heldur ekki kunnugt um að fornleifayfirvöld landsins hefðu yfirleitt haft nokkurn áhuga á honum sem slíkum. Að bænum hafi fyrir einhverju sinni komið fornleifafræðingur. Sá hafi gengið um svæðið, staðnæmst stuttu austan við bæinn, bent til norðurs á hlaðna bátarétt, sem þar er og sagt: “Ég skrái þetta, það er augljóslega meira en hundrað ára”. “Þá hlýt ég að vera mun eldri en ég er”, svaraði Sæmundur, “því ég tók þátt í að hlaða þetta þegar ég var kominn fram yfir tvítugt”. Ekki er gott að segja hvort mannvirkið hafi ratað inn á fornleifaskrá eða ekki.
Frábært veður.
Letursteinninn

Njarðvíkurkirkja

FERLIR barst eftirfarandi ábending frá áhugasömum athugulum lesanda:
Letursteinn“Takk fyrir frábæran vef, þvílík fjársjóðskista sem hann er af fróðleik um Reykjanesskagann. Ég var að skoða gamla Njarðvíkurbæinn, sem nú er orðinn hluti af Byggðasafni Reykjanesbæjar og stendur við Innri Njarðvíkurkirkju. Utan  við húsið er steinn með ártalinu 1918. Neðan við ártalið er óljós áletrun. Einar G. Ólafsson, sem er einskonar staðarhaldari þarna í sumar, segir mér að ekki sé vitað hvaðan þessi steinn er kominn. Mér datt í hug hvort það gæti verið möguleiki að þarna væri kominn steininn frá Brekku undir Stapanum og auglýst var eftir á ferlir.is. Gaman væri að heyra hvort þið Ferlismenn búið yfir einhverri vitneskju um steininn í Njarðvík.”
FERLIR hafði skoðað steininn árið 2004. Þá var talið að lausnin lægi í undirletrinu “OKTU”?? Á milli ártalsins og bókstafanna er grópað  band. Bókstafirnir undir munu líklega hafa verið upphafsstafir eða tilefni. Steinninn gæti verið kominn úr kirkjugarðinum. Eða verið hornsteinn úr húsvegg. Fróðlegt var þá talið að bera þetta undir kunnuga í Innri-Njarðvík því steinninn er að öllum líkindum þaðan.
Eftir að hafa rætt við aldna Njarðvíkinga varð niðurstaðan þessi: Um er að ræða legstein, væntanlega úr kirkjugarðinum í Innri-Njarðvík eða jafnvel skammt utan hans. Ártalið á þessum litla sjávarbarða steini er 1918. Innri-NjarvíkurkirkjaEflaust hefur steinninn átt að vera táknrænn fyrir viðkomandi; tekinn af vettvangi þeim er fólkið þá var lifandi. Undir ártalinu er lárétt skraut (táknrænn lárviðarsveigur). Undir því vinstra megin eru upphafsstafirnir OK. Þá kemur kross. Hægra megin hans eru upphafsstafir, ógreinilegri, en gætu verið JJ. Legsteinninn virðist hafa verið á gröf tveggja einstaklinga er dáið hafa þetta árið. Hann er fátæklegur, en segir ákveðna sögu. Afkomandi einstaklinganna; sonur, dóttir, móðir, faðir, afi eða jafnvel amma, gæti hafa ákveðið að letra á steininn upphafsstafi ástvina sinna og leggja á gröfina í minningu þeirra. Líklega hefur verið um fátækt fólk að ræða er nýtt hefur sér nálægan stein og eigið afl svo minning hinna látnu mætti enn lifa um ókomin ár.
Ef um legstein er að ræða lýsir hann miklum tilfinningum í garð hinna látnu einstaklinga. Erfitt er að grópa með einföldum járnum í lábarið grágrýtið, auk þess sem sérhverju höggi hefur fylgt sár tilfinning þess er misst hefur ástvin sinn.
Lausnarinnar að áletruninni gæti verið að finna í kirkjubókum Innri-Njarðvíkurkirkju frá árinu 1918, frostavetrinum mikla. Í stað þess að hafa legssteininn við fótskör minjasafnsgesta utan garðs væri rétt að koma honum fyrir inni í kirkjugarðinum við Innri-Njarðvíkurkirkju, t.d. innan við sálnahliðið.

Urriðakot

Eftir að framkvæmdir hófust við vegagerð á Urriða[kots]holti (2007) spurðist FERLIR fyrir um hvað hefði orðið að letursteininum frá 1846 er verið hafði skáhalt til suðurs neðan frá bænum – því við vettvangsferð um svæðið virtist hann við fyrstu eftirgrennslan vera horfinn.

Steinninn þar sem hann er nú (2008)

Bæjarverkfræðingur Garðabæjar sendi erindið áfram til hlutaðeigandi aðila. Svar kom um hæl: “Verktakinn hafði fært steininn til á meðan á framkvæmdum stendur og er ætlunin að koma honum aftur fyrir á sínum stað að þeim loknum”.
Farið var aftur á vettvang að þessu sögðu. Rétt neðan við suðvesturhorn bæjartóftanna lá myndarlegur steinn. Á honum var áletrunin og vístaði hún upp. Það verður því að teljast bæjaryfirvöldum og verktakanum til hróss að hafa hlíft steininum, eins og sagt hafði verið.
Örnefnalýsing Urriðakots segir m.a.: “Bærinn Urriðakot lá í halla vestan í Urriðakotsholti (Urriðavatnsholti).”
Í Jarðabók Árna og Páls segir: “Urriðakot, hálfbyli so kallað, því það hefur ekki fyrirsvar nema til helmings á móts við lögbbýlisjarðir.”
Áður en hlíðinni var rótað upp var þarna heilstætt kotbýlislandslag með hlöðnum túngarði, túnblettum, heimarétt, fjárhúsi, lambhúsi, bæjarhúsum, Snorralaut (að ganga Snorra í merkingunni að ganga örna sinna), brunni, heimtröð og brunni svo eitthvað sé nefnt. Í túni er og enn letursteinn með áletruninni “JTh 1846″. Steinninn var í traðarveggnum, en þegar hann var sléttaður fór hann í túnið. Það mun hafa verið Jón Þorvarðarson, bóndi í Urriðakoti, sem hjó áletrunina. Um stafina er hogginn rétthyrndur rammi.”
Efst á holtinu er listaverkið “Táknatréð”. Við listaverkið eru útlistingar á höfundunum, M. Augustyniak, M. Amzalag og G. Friðriksdóttur, hugmyndum þeirra og stefnum. Um Gabríelu segir m.a.: “Sagt er um verk Gabríelu að í þeim birtist innra landslag, þar sem ímyndaður kynjaheimur forsögulegs tíma rennur saman við samtímann. Hún framkallar heim þar sem engin rökvís Táknatréðorð geta dregið skýr mörk á milli myrkra tilfinninga og gleði, og í stað öryggiskenndar þarf áhorfandinn að kljást við djúpstæð mannleg tákn og minni, á andartaki þar sem allt virðist í þann mund að tortímast og fæðast á ný.” Flest í textanum er auðvitað bara bull (að slepptum hinum listræna mælikvarða), en taka þarf viljan fyrir verkið (með fullri virðingu fyrir listafólkinu).
Sennilega hefði farið langbest á því að staðsetja mjög nærtækan friðaðan leturstein á þeim stað þar sem listaverkið “Táknatréð” er nú. A.m.k. hefur hann hvorki tortímst né endurfæðst, einungis legið þarna áfram, bæði með litlum tilkostnaði og auk þess með áletruninni, sem hann hefur borið í rúmlega öld – tákni þeirrar handa sem þá markaði sögu Urriðakots. Væri það vel við hæfi í ljósi allra þeirra umbreytinga, sem bæði landslagið er nú að ganga í gegnum á svæðinu og á aðbúnaði mannanna m.v. fyrri tíð.
Eitt pínulítið kríuegg, sem fyrir ótrúlega heppni hafði sloppið í hreiðri sínu millum hjólfara ofurstórvirkra vinnuvéla, var kannski hin mesta áminning (sanna og áhrifamesta minnismerkið) á Urriða[kots]holti þetta síðdegið. Kríumóðirin flaug yfir með tilheyrandi verndarlátum, líkt og mæður hafa gert svo lengi sem vitað er – og mun vonandi verða um ókomna tíð – líka í hinu nýja uppbyggjandi mannfólkshverfi á Urriða[kots]holti.
Málið er að stundum ferst bæjarráðsmönnum og -konum ekki fyrir í allri vitleysunni. Í dægurþrasinu er nefnilega svo mikilvægt að hafa bæði skynsemi og gáfur til að sjá í gegnum orðskrúðið. “Elítan” fágæta lifir og hrærist í orðskrúðinu líkt og dvergbleikjan í grunntjörninni. Hún er í mjög svo afmörkuðu umhverfi, en líkt og dvergbleikjan er henni sama um það og þá er búa ofan og utan tjarnarinnar. Þar búa bara miklu, miklu, mun fleiri…. og þeim er ekki sama….
Þegar gengið var um Urriðaholtið og hið smá gaumgæft virtist augljóst hvað skipulagsaðilum og öðrum hönnuðum svæðisins hafði yfirsést. Líkt og árstíðirnar eiga sér mjög svo ákveðna stund og tiltekinn stað á holtið sér nærtæka nálgun. Hana sjá einungis þeir/þau er gefa sér tíma og hafa vilja til að skilja.
Kríuegg á Urriðaholti