Gengið var yfir Setbergsholtið og um norðanvert Urriðavatn.
Gamli Setbergsbærin er vestan í holtinu. Enn má sjá tóftir hans og garða. Burstirnar hafa snúið á móti vestri, niður að Hamarskotslæk með útsýni yfir Hafnarfjörð. Hlöðnu vörslugarðanir standa margir hverjir enn þrátt fyrir umsvifin á golfvelli Setbergsmanna. Komið var við á Galdraprestshól, en hóllinn stendur fast við gamla veginn upp að Urriðakoti. Við hann er kennd saga prests nokkurs sem koma hafði átt undir á altari kirkju einnar norðlenskrar. Afkvæmið varð prestur og þótti göldróttur með afbrigðum. Til eru margar sögur af fjölkyngi hans.
Norðan við Urriðakot er Lambatangi. Á honum er nokkrar fornar hleðslur, en landamerki Setbergs og Urriðakots eru á honum vestanverðum. M.a. má, ef vel er gáð, hlaðna refagildru. Hlaðnir garðar eru á austanverðum tanganum og skammt norðar er fallega hlaðið gerði í klettasprungu. Álftir höfðu verpt í einum hólmanna austan við tangann.
Í túninu neðan við Urriðakotsbæinn, sem Jón Guðmundsson, fyrrum stórbóndi á Setbergi (áður bóndi á Bryggju og á Tortu, þeim bæjum einum í Biskupstungum er Skálholtsstóll, auk Haukadals, náði ekki að söðla undir sig), sonur Guðmundar Jónssonar hins fjárglögga í Haukadal (fyrrum bónda á Álfsstöðum á Skeiðum), leit augum hinsta sinni vorið 1907, áður en hann flutti sig háaldraður á láglendið, er letursteinn klappaður af ábúandanum 1846.
Gengið var til baka um gömlu götuna að stíflunni. Sefgrasið í víkinni var orðið nokkuð hátt miðað við árstíma (sbr. meðfylgjandi mynd), en venjulega lítur það ekki svona út fyrr en um mánaðarmótin júní-júlí.
Engan fisk var að sjá við stífluna, sem er líka nokkuð óvenjulegt.
Gengið var þvert yfir golfvöllinn á bakaleiðinni. Golfarnir hættu leik sínum, tóku ofan og biðu fullir lotningar á meðan FERLIRsfélagar liðu hjá.
Veður var frábært – logn og sól.