Garðar

“Í Görðum hefur verið kirkja frá fornu fari. Í kaþólskum sið var þar Péturskirkja, helguð Pétri postula. Garðakirkju er fyrst getið í heimildum um 1200 í kirknamáldaga Páls biskups Jónssonar. (ísl. fornbréfasafn 12, 1923-32:9). Á fyrri öldum var Garðakirkja allvel efnuð að jarðeignum og lausum aurum. Garðaprestar höfðu umráð yfir eignum kirkjunnar og fengu af þeim allar tekjur. Í staðinn áttu þeir að halda við kirkjunni og byggja hana upp þegar þurfa þótti.
Gardakirkja-teikningSagt er, að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt, þegar hraunið rann á. Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og
Garðastaður. Gráskinna hin meiri 1, 1983:257.
Í Garða- og Bessastaðamáldaga frá 1397 er tilgreint að Garðakirkja eigi heimaland allt, Hausastaði, Selskarð, Hlið, Bakka, Dysjar, Hraunsholt, Hjallaland og afrétt í Múlatúni. (ísl. fornbréfasafn 4, 1897:107-8). Árið 1558 eignaðist Garðakirkja Vífilsstaði er áður höfðu talist til reita Viðeyjarklausturs, í skiptum fyrir jörðina Hlið sem lögð var til Bessastaða. (ísl. fornbréfasafn 1.3, 1933-39:317-18). Jafnframt átti Garðakirkja rekaítök á fjörum austan Grindavíkur, frá Rangagjögri og í Leitukvennabás að fjörum Kálfatjarnarmanna (sbr. ísl. fornbréfasafn 2, 1883:361-62 og 4, 1897:8).
Árið 1914 var Garðakirkja aflögð og Garðasókn sameinuð Hafnarfjarðarsókn. Nokkru síðar, árið 1928, var prestsetrið flutt til Hafnarfjarðar. Síðasta guðsþjónustan í Garðakirkju var haldin 15. nóvember 1914 og skömmu síðar fékk hin nýreista Hafnarfjarðarkirkja kirkjugripi Garðakirkju til varðveislu og eignar (Ásgeir Guðmundsson 2, 1983: 386-87).
Garðasókn var upptekin að nýju 1960 en Garðagrestakall fáum árum síðar — eða árið1966. Í dag eiga Garðbæingar sókn til Garðakirkju, en undir Garðaprestakall heyra, auk Garðakirkju, kirkjurnar á Bessastöðum og Kálfatjörn, en Kálfatjarnarsókn var upphaflega lögð til Garða 1907.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 21. des. 1992, bls. 39-40.
Garðakirkja