Gengið var upp Vífilstaðahlíð eftir línuveginum. Eftir að hafa skoðað selið, sem er austan við veginn, var litið á hlaðinn stekk upp á klapparholti norðan við það. Stekkurinn er dæmigerður fyrir slíkt selsmannvirki, tvískiptur.
Tóftir selsins hvíla í kvos, í skjóli fyrir austanáttinni. Einnig dæmigerð fyrir sel á Reykjanesskaganum. Þá var haldið niður að Grunnuvötnum syðri og auga haft með hugsanlegum tóttum nálægt vötnunum, en engar slíkar fundust að þessu sinni. Gengið var áfram til austurs á brattann og nú stefnt á Vatnsendaborg efst á Hjöllum með viðkomu í Arnarsetri, vörðu á vestanverðum hálsinum þar sem sést yfir Grunnuvötn. Þaðan er einnig ágæt fjallasýn í góðu skyggni og kjörinn áningastaður eftir göngu um hjallana. Ef gengið er þaðan niður með Grunnuvötnum nyrðri er komið niður á stíg er liggur niður að Vífilsstaðavatni.
Borgin er rétt innan við landamerki Vatnsenda, en á Hjallabrúninni skammt vestan við borgina er fótur af gamalli landamerkjavörðu Vífilsstaða og Vatnsenda. Frá henni sést vel í Kolhól, en á honum er landamerkjahorn.
Gengið var niður Hjallana og til suðurs að Löngubrekku. Henni var síðan fylgt til vesturs að Garðaflötum þar sem skoðaðar voru nýfundnar tóttir.
Gengið var um Búrfellsgjá að Gerðinu vestan Gjáarréttar og það skoðað. Hleðslur í skúta inn undir Gerðinu virðast hafa haldið sér nokkuð vel, en rúmlega 60 ár eru síðan síðast var réttað í gjánni.
Haldið var í gegnum Gjáarréttina að Vatnsgjánni og litið ofan í það gamla vatnsstæði áður en gengið var vestur norðanverða Selgjá og aftur að upphafsreit.
Gangan tók um 3 og ½ klst í hinu besta verði – logn og blíða.