Ófeigskirkja var örnefni í Garðahrauni – allt til þangað til Álftanesvegurinn var lagður árið 1910. Þá var “kirkjan” brotin undir vegstæðið, enda lá hún vel við höggi; brunahóll tilvalinn til undirlags.
Hóllinn sá var reyndar dæmigerður fyrir ástleitni vegagerðarmanna þess tíma í nálæga hraunhóla – allt til þessa dags. Varla var til sá gígur, eldvarp eða auðunninn hóll að hann þyrfti ekki að nýta til vegagerðar. Í þá daga – og reyndar allt til þessa dags – hafa “vegagerðarmenn” virst blindir fyrir öðru en verkefnum sínum hverju sinni. Til að bæta fyrir fyrrnefnt “slys” var örnefnið “Ófeigskirkja” fært yfir á næsta nálæga hól, svona til að sýna fram á að honum hafi bara alls ekki verið spillt. Aðrir benda nú á klettastand í hrauninu, öllu álfakirkjulegri.
Annars er Garðahraun, þrátt fyrir nálægðina við þéttbýlið, hið fallegasta hraun. Litbrigðin eru óvíða meiri, svo mikil að það hefur orðið uppspretta listaverka hinna mestu listamanna þjóðarinnar, t.d. Kjarvals.
Kristján Eiríksson skráði örnefni í Garðahverfi veturinn 1976-77. Studdist hann m.a. við lýsingu Gísla Sigurðssonar á Garðahverfi, og var hún borin undir kunnuga í hverfinu og síðan samin ný lýsing að fyrirsögn þeirra.
Guðmann Magnússon, fv. hreppstjóri, á Dysjum (Austur-Dysjum) gaf einnig upplýsingar um Garðahraun og lét í té skriflega lýsingu af því austan Álftanesvegar. Þar getur hann m.a. um Ófeigskirkju.
“Gamli vegurinn (götuslóði) úr Reykjavík út á Álftanes lá yfir Hraunsholtslæk og út með ströndinni. Hann greindist í tvo slóða í Hraunviki. Hefur annar suðvestlæga stefnu nokkurn veginn á Holtsendann (þar sem sandnámið var). Hann var við líði fram um 1920, en er nú að mestu uppgróinn. Er þetta hinn fyrrnefndi Móslóði. Eftir honum var farið með klyfjahesta og reiddur mór úr Hraunsholtsmýri, áður en akvegur kom til sögunnar. (Ath.: G.S. nefnir hann Gálgahraunsstíg syðra, en ekki kannast Guðmann við það nafn, og mun það rangt. …).
Hinn götuslóðinn úr Hraunviki hefur vestlæga stefnu, og hefur hann verið alfaraleið á liðnum öldum. Víða sjást djúpir troðningar og hófaför í klöppunum. Hann greinist um mitt hraunið. Liggur annar í Garðahverfið, en hinn út á Álftanes. Rétt sunnan við, þar sem vegirnir skiptast, er Skyggnir, stór, einstæður klettur. Skammt frá Skyggni var síðasta birkihríslan í Garðahrauni. Stóð hún af sér ágang manna og dýra fram undir 1940.”
Troðningar sjást meðfram fjörunni í Hraunviki og upp með hraunbrúninni vestan við vikið, en um 50 m frá flæðarmáli, þar sem lítið vörðutyppi er á brúninni liggur gatan upp á hraunið og er þar geil í brúnina. Hraunið er allslétt um 400 m bein vestur frá Hraunviki og liggur leiðin um það slétta svæði og skiptist gatan sumstaðar í fleiri en eina rás en er allsstaðar mjög skýr. Hún liggur síðan í hlykk fram hjá hraunklettum þar sem hraunið er einna hæst og beygir til norðvesturs vestan við klettana. Þar sem gatan beygir er hraunið allslétt og gætu troðningar legið þaðan til suðurs og suðvesturs en ekki eru þeir skýrir.
Frá beygjunni liggur gatan beint í um 300 m – og er þar samsíða fyrirhuguðu vegarstæði, sumstaðar innan við 20 m frá því. Þar beygir gatan til vesturs og liggur síðan niður úr hrauninu á móts við hleðslu. Í flagmóunum vestan við hraunið má rekja götuna áfram til vesturs og hefur hún nokkuð beina stefnu á Selskarð. Þar sem gatan nálgast fjörumál í Lambhústjörn eru götupaldrar á stuttum kafla en síðan hverfur hún alveg í mýri og flög. Vestan við Selskarð sést framhald götunnar en þar hefur verið gerður malarvegur, nú aflagður. Líklegt er að gatan hafi klofnað við Selskarð og austari
grein legið út á Bessastaði en hin á vesturhluta Álftaness. Á móts við núverandi Garðaholtsveg liggur annar slóði upp í hraunið, um 100 m norðan við Garðastekk og liggur til norðausturs og sameinast aðalgötunni eftir um 250 m. Þetta mu vera gatan sem lá í Garðahverfi. Sú gata er mun ógreinilegri en aðalgatan út á Álftanes.
Í hrauninu er gatan víðast alldjúp geil, allt að 1 m djúp og 1-2 m breið. algróin. Brotnað hefur af götunni á einum stað við Lambhústjörn. Þessi leið hefur verið notuð fram á síðustu ár 19. aldar en sumarið 1873 var lagður vegur yfir Flatahraun frá Sjónarhóli í Engidal, og framhald á honum áleiðis á Hraunsholtið 1879. Endanleg vegtenging við Reykjavík kom þó ekki fyrr en 1897-99. Eftir það mun aðalleiðin á Álftanes hafa fylgt hinum uppbyggða vegi milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og beygt útaf honum í Engidal.
Þar sem gamla þjóðleiðin kemur niður úr Gálgahrauni að vestan er lítil hleðsla úr hraungrýti utan í hraunkantinum norðan við götuna. Utan í hraunbrún, vallgróinn hvammur næst, fjær eru flagmóar.
Hleðslan er 3 m löng, einföld hraungrýtishleðsla, hvergi meir en tvö umför. Austan við hana er vallgróin hvilft upp í hraunbrúnina og er sokkin grjóthrúga um 16 m austar sem gæti hafa verið á móti hleðslunni. Á milli er óreglulegur þúfnarimi sem gæti verið yfirgróin vegghleðsla. Hefur verið einhverkonar rétt eða aðhald, mögulega stekkur.
Um 70 m suður af botni Lambhústjarnar, um 200 m vestur af vesturbrún Gálgahrauns er ferhyrnd tóft, fast austan við hestagirðingu sem nú er. Í blásnum móa, stórgrýttum Ferhyrnd regluleg tóft, grjóthlaðin með tvöfaldri, 0,7 m breiðri hleðslu. Hvergi er dyr að sjá.
Tóft þessi er skammt norðan við þjóðleiðina út á Álftanes, í jaðri fyrirhugaðs vegarstæðis. Sennilega kálgarður. 40 m í norðvestur frá þessum stað er 8 m löng steinaröð milli tveggja jarðfastra steina og gæti sá nyrðri hafa verið undirstaða undir stóra vörðu en hrúga af sokknu grjóti er í kringum hann.
Skammt norðan Álftanesvegar, þar sem Flatahraunið endar, er Grenishóll, hæðarhryggur til norðurs. Þar var síðast unninn refur um 1870 af Magnúsi Brynjólfssyni, hreppstjóra á Dysjum.
Ófeigskirkja nefndist klettur, sem brotinn var, þegar Álftanesvegurinn var lagður 1910. Hefur nafnið færzt á gervigíg aðeins norðan við Álftanesveginn. Íbúðarhúsið Hraun er skammt vestan við hann. Er það eina húsið, sem byggt er á þessu svæði, og sennilega verða ekki byggð fleiri, því allt hraunið á að verða útivistarsvæði.”
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Garðahverfi – Kristján Eiríksson
-Jónatan Garðason.
-Adolf J.E. Petersen: ‘Samgönguleiðir til Reykjavíkur að fornu og nýju.’ Reykjavík miðstöð þjóðlífs, Rv. 1977, s. 79-97.