Garðar

Í Fornleifaskráningu Garðabæjar 2009 er fjallað um  Garðabæ – fornleifar og áhugaverða staði:

Fornleifar og byggð
Syðst í landi Garðabæjar eru eldfjöll og hraunbreiður, en norðar og nær sjó eru grónir vellir og mýrarflákar inn á milli hraunkarga og klapparholta. Tvö friðlönd teygja sig inn fyrir bæjarmörkin að sunnanverðu, Heiðmörk og Reykjanesfólkvangur.

Vífilsstaðavatn

Við Vífilsstaðavatn.

Innan Garðabæjar eru tvö vötn og einnig renna þar tveir lækir. Vífilsstaðavatn er austan undir Vífilsstaðahlíð og Urriðavatn (Urriðakotsvatn) er á milli Urriðakots og Setbergs. Úr Vífilsstaðavatni rennur Hraunsholtslækur og úr Vatnsmýri rennur Arnarneslækur og falla þeir báðir til sjávar í Arnarnesvogi. Inn í strönd Garðabæjar skerast vogar og víkur, þar sem áður fyrr voru víða ágætis varir. Landbrot hefur átt sér stað í Garðabæ, þó í mun minna mæli en t.d. á Seltjarnarnesi.

Kringlóttagjá

Í Kringlóttugjá sunnan Búrfells.

Landslag og umhverfi í Garðabæ hefur tekið miklum breytingum á síðustu áratugum eftir að þéttbýli fór að myndast. Mest þéttbýli er milli Hafnarfjarðar og Kópavogs og svo allt frá Arnarnesi norður að Hraunsholti og Vífilsstöðum. Nokkuð hefur verið um þéttbýlismyndun í landi Urriðakots þar sem byggð rís nú á Urriðaholti þar sem heimatún bæjarins var áður. Verslunarkjarni hefur einnig risið þar norður af við götuna Kauptún. Jafnframt er golfvöllur á stórum hluta Urriðakotsjarðarinnar. Óbyggð svæði innan Garðabæjar einkennast mest af hraunbreiðum, víða miklum körgum, en í Garðahverfi má enn finna talsvert af túnum og graslendi.88 Hér á eftir verður fjallað um helstu minjaflokka sem skráðir voru í Garðabæ, einkenni þeirra og ástand.

Bæjarhólar, bæjarstæði og býli

Arnarnes

Litla-Arnarnes- bæjarstæði.

Bæjarhólar myndast þar sem bæir hafa staðið á sama stað um aldir. Hólarnir verða til úr gólflögum sem hafa hlaðist upp í tímans rás, byggingarefni, torfi og grjóti og öskuhaugum. Í bæjarhólum er helst að leita upplýsinga um húsakost, fæðu og almenn lífsskilyrði til forna og þar eru mestar líkur á að finnist merkir gripir. Bæjarhólar eru því mikilvægir minjastaðir en jafnframt eru þeir sá minjaflokkur sem einna verst hefur farið í uppbyggingu í landbúnaði, sem og þéttbýli, á þessari öld.
Samantektin hér að ofan byggir á upplýsingum úr bókinni Garðabær – byggð milli hrauns og hlíða.
Alls eru til heimildir um 52 bæjarstæði og bæjarhóla í landi Garðabæjar. Flest eru bæjarstæðin í hinu þéttbýla Garðahverfi og er þar oft um að ræða kot og þurrabúðir sem voru í byggð í takmarkaðan tíma og þar sem þykk mannvistarlög hafa hugsanlega ekki náð að hlaðast upp. Þó skal hafa þann fyrirvara í huga að upplýsingum um minjar í Garðahverfi er í sumum tilvikum ábótavant, þar sem upplýsingar um útlit og ástand minjastaða voru oft lauslegar í skráningu Ragnheiðar Traustadóttur og Rúnu K. Tetzschner frá 2005.

Urriðakot

Urriðakot – bæjarstæði.

Bæjarhóla með miklum mannvistarleifum er einna helst að finna þar sem bæir lögbýla og hjáleiga Garða hafa staðið öldum saman. Næsta víst má telja að mannvistarleifar sem ná aftur til landnáms megi finna við Garða. Í Urriðakoti, Arnarnesi, Hraunsholti og Selskarði eru vel sýnilegir bæjarhólar. Á bæjarhól Urriðakots eru leifar síðasta bæjarins frá miðri síðustu öld, en Urriðakot fór í eyði 1958. Rústirnar eru grafnar ofan í bæjarhólinn, sem er nokkuð hár og breiður og hafa raskað að nokkru leyti þeim mannvistarleifum sem þar hvíla, en þó er öruggt að í honum er enn að finna fornar mannvistarleifar sem stafar hætta af fyrirhuguðum framkvæmdum á Urriðaholti. Á Arnarnesi er bæjarhóll Arnarneskots vel sýnilegur. Hóllinn er þýfður og ójafn og 13×13 m að stærð, þó fornleifarnar kunni að ná yfir stærra svæði undir sverði. Hóllinn er hæstur um 1,3 m á hæð.

Urriðakot 1958

Urriðakot – loftmynd 1958.

Bær Hraunsholts hefur að líkindum lengi verið á sama stað og þar er enn stór bæjarhóll. Erfitt er að átta sig fyllilega á ummáli bæjarhólsins sökum framkvæmda á og í kringum hann, en hóllinn er að líkindum um 40×40 m að stærð. Nokkuð mikið af 20. aldar keramikbrotum eru á hólnum og eru þau án efa ættuð úr róti sökum framkvæmda á og við hólinn. Á hólnum sáust einnig brunnin bein og tennur úr nautgripum sem gætu verið ættuð úr nálægum öskuhaugi. Síðasta íbúðarhúsið á Selskarði var steypt og grunnur þess grafinn ofan í bæjarhólinn. Syðsti hluti steyptra undirstaðanna sjást enn, en nyrðri og meiri hluti grunnsins er hinsvegar horfin því gríðarmikil hola, um 25×20 m að stærð, hefur verið grafin ofan í bæjarhólinn. Hliðar holunnar eru grónar en sjá má að hleðslugrjót hefur oltið úr sárinu.
Bærinn hefur staðið á náttúrulegri upphækkun en mannvistarlög eru varla undir 1 m á þykkt.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – loftmynd 1954. Hér sést gamla bæjarstæðið.

Bæjarhóll Vífilsstaða hefur verið sléttaður og er því horfinn, þó vafalaust megi enn finna einhverjar mannvistarleifar undir sverði. Bæjarhóll Arnarnesbæjarins hefur einnig verið sléttaður, en nokkrar mjög lágar aflíðandi bungur eru enn á flötinni og gætu þær verið leifar þess efnis sem rutt var þegar bæjarhólinn var sléttaður (sem var líklega þegar farið var að byggja á Arnarnesinu á sjöunda áratugnum).
Hofstaðabærinn sem nú stendur er byggður 1923 og er tvílyft steinhús með kjallara. Ekki er greinilegur bæjarhóll á svæðinu því umhverfið er vel sléttað. Sennilega eru þó talsvert miklar búsetuminjar í kringum Hofstaði, bæði á lóðinni sem og undir malbiki fjær frá húsinu. Fullvíst er að búseta hefur verið á Hofsstöðum allt frá fyrstu tíð, en víkingaaldarskáli var grafinn upp skammt frá núverandi Hofstaðabæ.
Bæjarhóll Setbergs er utan marka Garðabæjar og er því ekki til umræðu hér þó hluti af jörðinni hafi verið skráður.
Talsvert landbrot á sér stað í Garðahverfi sem hefur haft slæmar afleiðingar fyrir fornminjar. T.a.m. eru bæjarstæði Austur og Vestur Dysja að brotna ofan í sjó. Jafnframt eru sagnir til um að Nýibær hafi áður fyrr staðið á

Bakki

Bakkirof á sjávarbakka.

Nýjabæjarskeri, sem er nú umlukið sjó. Annars hafa bæjarhólar og bæjarstæði í Garðahverfi að þó nokkru leyti orðið fyrir barðinu á túnasléttun og seinni tíma byggingum. Þó eru sjáanlegar tóftir, hleðslur eða hólar á Garðhúsum, Hóli, Sjávargötu, Garðabúð, Katrínarkoti, Köldukinn, á ónefndu býli norðan Köldukinnar , Arndísarkoti og síðast en ekki síst stendur Króksbærinn enn og er opinn fyrir almenning. Mikil og þétt búseta hefur verið í Garðahverfi öldum saman og því er næsta víst að miklar mannvistarleifar leynast þar víða undir sverði, þó svo að í sumum tilvikum verði þeirra ekki vart á yfirborði.
Ljóst er að miklar mannvistarleifar leynast enn undir sverði á lögbýlum og hjáleigum í Garðabæ. Bærinn er í fremur örum vexti og því mikilvægt að ítreka að engar framkvæmdir sé ráðgerðar á bæjarhólum og bæjarstæðum nema í samstarfi við Fornleifavernd ríkisins og þá með tilheyrandi mótvægisaðgerðum.

Útihús í og við heimatún

Urriðakotshraun

Fjárhústóft Guðmundar í Urriðakotshrauni.

Eins og algengt var á Íslandi voru skepnuhús á skráningarsvæðinu dreifð um tún bæja til að dreifa áburði. Hlutfall útihúsa á nokkrum býlum í Garðahverfi var þó, eins og gefur að skilja, nokkuð lægra en á hreinum landbúnaðarsvæðum. Þess í stað voru fleiri staðir tengdir sjósókn.
Alls voru skráð 67 útihús innantúns í landi Garðabæjar og eru þá meðtalin öll þau útihús sem þekkt eru á hjáleigum og smábýlum. Verður þetta hlutfall að teljast fremur lágt ef haft er í huga að 19 jarðir eru skráðar innan marka Garðabæjar. Tún Setbergs er þó mestmegnis í landi Hafnarfjarðar og lendir einungis eitt útihús Garðabæjarmegin. Engin útihús eru þekkt frá Hagakoti þar sem ekkert túnakort er til af jörðinni og ekkert útihús er merkt hjá Ráðagerði á túnakorti Garðahverfis. Þó er ljóst að skepnuhús hefur verið áfast íbúðarhúsinu í Ráðagerði. Alls eru 54 útihús skráð sem hafa óþekkt hlutverk og eru þessi hús oftast skráð af túnakortum.
Innan Garðabæjar eru þekktar heimildir um sex fjárhús og eitt lambhús. Tóftir fjárhúsa og lambhúsa eru í túni Urriðakots, heimildir eru um tvö fjárhús í túni Hofsstaða (nú komin undir byggð), heimildir eru um fjárhús á Miðengi og Hausastöðum og tóftir fjárhúsa sjást enn í túni Hausastaðakots.

Garðahverfi

Bakki – útihús, tóftir að baki.

Tvö fjós eru skráð, bæði í Garðahverfi. Heimild er um fjós á Miðengi, en tóft fjóss er að finna á Dysjum. Heimildir voru tiltækar um þrennar kvíar við heimatún í Garðabæ en hvergi sáust leifar þeirra. Örnefnið Kvíaflöt er við tún Urriðakots, á Hraunsholti var heimild um kvíar og sömu sögu að segja af Nýjabæ.

Smiðjuhóll

Smiðjuhóll við Arnarnes.

Leifar tveggja hesthúsa eru þekktar, annarsvegar innan byggðar Garðabæjar og hinsvegar í Garðahverfi. Í Hraunsholti er tóft hesthúss sem hlaðin er úr torfi og grjóti og standa veggir hennar enn nokkuð heilir, hæstir um 1,5 m að innanverðu, en tóftinni stafar hætta af trjágróðri sem vex allt í kring. Skammt frá Katrínarkoti í Garðahverfi er svo lítil þúst og hleðsluleifar sem taldar eru af hesthúsi. Í Garðabæ er eitt örnefni sem bendir til smiðju innantúns, en að það er Smiðjuhóll í túni Arnarness, sem nú er búið að slétta úr.
Ljóst er að víða í Garðabæ geta leynst leifar útihúsa undir sverði innan túna eldri bæja. Þar sem Garðahverfi varð snemma nokkuð þéttbýlt og svæðið hefur byggst hratt upp undanfarna áratugi, var eldri húsum víða rutt út og vitneskja um þau hefur í mörgum tilfellum týnst niður á skömmum tíma. Vel er hugsanlegt að slíkar leifar hafi þegar verið alveg eyðilagðar við byggingu íbúðarhúsa og annarra þéttbýlismannvirkja en rétt er að ítreka að varlega skal fara í allt umrót, sérstaklega innan heimatúna eldri bæja.

Mannvirki tengd sauðfjárrækt (utan heimatúna)

Selgjá

Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Nokkuð stór hluti skráðra fornleifa í landi Garðabæjar tengjast sauðfjárbúskap og er marga slíka staði að finna utan túns og í úthögum. Markverðasti staðurinn er að líkindum svokölluð Selgjá sem var friðlýst af Kristjáni Eldjárn árið 1964, en í örnefnaskrá segir að Álftnesingar hafi haft þar í Seli allt fram á 18. öld. Selgjá er hrauntröð frá Búrfelli og náttúrulegt aðhald með fjöldi fjárbyrgja. Hún er framhald Búrfellsgjáar, sem nær alla leið að Búrfelli, en er sá hluti hrauntraðarinnar sem liggur norður frá Hrafnagjá og skiptist milli lands Urriðakots og Garðakirkjulands. Selgjá er fremur grunn og víða um 120 m breið og er hún slétt og gróin í botninn. Í norðurenda Selgjár er Selgjárhellir, náttúrulegur hraunhellir sem hlaðið hefur verið fyrir og þannig nýttur sem fjárskýli. Suður frá Selgjárhelli, bæði fast við hellinn og allt að 750 m frá honum meðfram austur og vestur hliðum gjárinnar, eru skráð 19 mannvirki sem tengjast seljabúskap, tóftir, garðlög og hleðslur við hella. Selgjá er heildstætt og stórt minjasvæði innan marka höfuðborgarsvæðisins sem mikilvægt er að varðveita. Skammt norðan við Selgjá eru aðrir staðir sem einnig voru friðlýstir 1964, Sauðahellir efri og svokallaðir Norðurhellar og má líta á þessa hella sem hluta af heild með Selgjánni. Sauðahellirinn er sérstaklega merkilegur, en op hans er hlaðið upp með mjög fallegum, yfirbyggðum inngangi sem hægt er að standa í hálf uppréttur og sem liggur niður að tveim náttúrulegum hellum, sínum á hvora hönd. Sauðahellir og Norðurhellar voru eflaust nýttir við seljabúskap líkt og rústirnar í Selgjá.

Setbergssel

Setbergssel – fjárhellir.

Sex önnur sel eru skráð innan Garðabæjar. Fyrst er að nefna Kjöthelli, einnig nefndur Selhellir, sem var selstaða Setbergs frá fornu fari. Elsta heimildin um Kjöthelli er landaskiptabréf dagsett 6. júní 1523. Í jarðabók Árna og Páls eru hagar sagðir þar góðir. Kjöthellir er um 20 m langur og opinn í báða enda, lofthæð er ríflega 2 m og breidd um 4 m. Um miðbik hellisins er hlaðið skilrúm sem skiptir honum í tvennt. Skilrúmið kann að benda til að hellirinn hafi verið nýttur af tveim jörðum, þá Hamarskoti og Setbergi og hefur nyrðri helmingurinn að líkindum tilheyrt Setbergi. Hleðslur eru við hellisopin og er meira lagt í þá nyrðri en þar eru hlaðin, bogadregin göng sem liggja að opinu. Hlaðið hefur verið þak yfir innganginn að hluta með hraunhellum, þó það sé nú að nokkru leyti hrunið.

Setbergssel

Kjötshellir.

Í næsta nágrenni Kjöthellis er tóft sem að líkindum tengist Selstöðunni. Um 70 m frá henni er hlaðið aðhald í náttúrulegri lægð. Hátt í 200 m vestur af Kjöthelli er Kershellir sem er nokkuð stór hraunhellir sem hugsanlega var einnig nýttur sem selstaða. Inni í honum er hleðsla sem er nokkuð ógreinileg vegna hruns úr lofti. Önnur selstaða er á mörkum Setbergs og Hamarskots við svokallaða Gráhellu í Gráhelluhrauni. Mannvirkið er hlaðið upp að klettinum Gráhellu, sem myndar suðurvegg þess, og samanstendur af einni tóft og hlöðnum grjótgarði fast austan við hana. Lítill skúti gengur suður úr enda tóftarinnar inn í Gráhellu. Bogadregið garðlag úr hraungrýti gengur frá norðausturhorni tóftarinnar og sveigir til suðurs að Gráhellu sem hefur mögulega verið aðhald fyrir sauðfé eða heystæði.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Í landamerkjalýsingu í örnefnaskrá kemur fyrir örnefnið Seljahlíð sem er betur þekkt sem Sandahlíð. Örnefnið Seljahlíð bendir til að þar hafi einhvern tíma verið sel. Þar fundust hins vegar engar tóftir né mannvirki á vettvangi. Næst er að nefna tóftir Vífilsstaðasels sem eru að finna upp á Vífilsstaðahlíð skammt frá mastri 29 í Ísallínu. Í landi Hraunsholts var svokallað Hraunsholtssel að finna sunnan við Hádegishól. Nú er búið að ryðja hraunið sunnan Hádegishóls undir byggð. Til selsins sást hins vegar enn árið 1987. Loks er sel skráð undir Görðum sem er að finna á svokölluðum Garðaflötum í Garðakirkjulandi skammt frá Búrfelli, en nafn þess er ekki lengur þekkt. Um 5 m frá henni er mögulega rúst annars mannvirkis sem er afar sigið.

Búrfellsgjáarrétt

Búrfellsgjáarrétt.

Samtals voru skráðar 23 réttir í landi Garðabæjar sem skiptast á sjö jarðir og þar af sjást sautján enn á yfirborði. Flestar eru réttirnar skráðar í landi Urriðakots. Þar sést til fimm rétta en heimildir eru til um aðrar þrjár sem nú eru horfnar. Skammt sunnan túns var rúst réttar sem hét Grjótréttin eða Grjótréttin eystri en ekki sést lengur til hennar og má vera að grjót úr henni hafi verið nýtt í nálægar byggingar en nokkuð er um mannvirki úr seinni heimstyrjöld í næsta nágrenni. Grjótréttin vestri var skammt vestan túngarðs og er hún einnig horfin. Svokölluð Hraunrétt var við hraunbrúnina við Vetrarmýri en er horfin, mögulega undir stórverslanir IKEA og Byko við Kauptún. Fast austan við túngarð Urriðakots er lítil rétt hlaðin úr grjóti. Réttartangi skagar út í Urriðakotsvatn og um 30 m vestur af honum á Hrauntanga er hlaðin kró upp við hraunhellu sem er innan Lambhagagarðs en óvíst er hvort króin er samtíða honum. Króin er hlaðin úr hraungrýti og er sigin og fornleg. Við austanverða hraunbrúnina við Vesturmýri, um 200 m suður af Byko við Kauptún 6 eru leifar réttar sem er byggð við náttúrulega hraunbrún og skarð í hrauninu.

Urriðakot

Urriðakot – Stekkjatúnsrétt.

Stekkjartúnsrétt er í litlu viki í hraunkarganum fast austan í golfvelli. Hægt er að greina leifar eins hólfs og garðbrots sem gengur út frá því, en réttin er mikið röskuð.
Leifar annarrar réttar eru einnig fast við sama golfvöll, um 220 m suðaustar. Af þeirri rétt má greina eitt hólf auk garðlags. Innan í hólfinu er lítill hellisskúti. Lítið, grjóthlaðið aðhald er einnig í hraunkarganum sem markar vesturbrún Flatahrauns, um 110 m suðaustur af rétt. Í landi Vífilsstaða voru réttir á svokölluðum Réttarflötum um 200 m norðaustur af Maríuhellum en þær eru nú horfnar undir malbikað bílastæði. Í Hagakoti fundust leifar tveggja rétta við vettvangsathugun og voru báðar við jaðar Hafnarfjarðarhrauns. Sú fyrri er mynduð úr þrem vikum inn í hraunjaðarinn að norðanverðu sem er lokað fyrir með signum garðlögum, einu fyrir hvert vik. Öll garðlögin eru hlaðin úr hraungrýti, grónu skófum og mosa.

Hagakot

Hagakot – Hagakotshellir.

Hitt aðhaldið í Hagakoti er einnig við norðurjaðar Hafnarfjarðarhrauns. Það er eitt hólf, hlaðið úr meðalstóru hraungrýti. Fjórar réttir eru skráðar í Hraunsholti og er ein þeirra að líkindum horfin undir byggð og einungis þekkt úr ritheimildum. Gatan Langalína liggur eftir endilöngum tanga sem heitir Réttartangi eða Aðrekstrartangi og eru miklar líkur á þar hafi verið að finna hlaðna rétt en þétt byggð er nú á svæðinu. Hinar réttirnar eru í eða við Hafnarfjarðarhraun og sjást enn. Rétt er norðarlega í Hafnarfjarðarhrauni, um 90 austur af Hraunhólum 19. Veggir réttarinnar eru nokkuð tilgengnir og signir. Annað minna aðhald er að finna í lægð í hrauninu skammt frá. Lægðin er gróin í botninn og er þar að finna litla, hlaðna tóft úr hraungrýti og torfi sem fellur vel inn í umhverfið. Tveir litlir hellar opnast einnig inn af lægðinni og eru þeir afar stórgrýttir á botninum, en engin mannvirki fundust við þá.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá – hellir efst í gjánni.

Fjórða réttin í Hraunsholti er við norðurjaðar Hafnafjarðarhrauns og kallast Stöðulgjóta. Stöðulgjóta var heimarétt sem tók um 30-40 kindur.92 Aðhaldið er eitt hólf og er hlaðið úr hraungrýti, en suður- og vesturveggir aðhaldsins eru úfið hraun sem norður- og austurveggir eru hlaðnir upp að. Í Garðakirkjulandi nyrst í Búrfellsgjá er að finna fallegar minjar, Gjárétt, skammt sunnan við Hrafnagjá. Gjárrétt var hlaðin 1840 og var fjárskilarétt Álftaneshrepps til 1922, en réttað var í henni að einhverju marki allt til 1940. Til suðausturs frá réttinni liggur nokkuð sigið garðlag að öðru aðhaldi við vesturbarm Búrfellsgjáar sem nýtir náttúrulega hraunveggi að norðan, vestan og sunnan, en austurveggurinn er hlaðinn úr hraungrýti. Innst í aðhaldinu er svo hlaðið byrgi við náttúrulegan hraunvegginn. Alls er rústasvæðið, réttin, garðlagið og aðhaldið, rúmlega 50 x 50 m að stærð. Skráðar voru sex réttir í Garðahverfi. Ein þeirra var á Bakka og var hún ferhyrnd og hlaðin úr hraungrýti, en hinar eru á Görðum. Um 220 m norður af hjalli nokkrum sem stendur við Balakletta er lítil rétt hlaðin úr hraungrýti.
Réttin er eitt hólf en frá því liggur garðbrot til norðurs. Fast suður af þessari rétt er önnur lægð í Flatahrauni sem myndar aðra rétt. Þar mynda náttúrulegir hraunveggir ásamt hleðslum réttarstæðið. Skammt suðvestur og nær sjó er gerði hlaðið úr hraungrýti.

Garðastekkur

Garðastekkur, tóftin lengst til vinstri, og Garðarrétt.

Garðastekk er svo að finna sunnan undir hraunbrúninni á móts við Garðaholtsveg. Garðastekkur er hlaðin utan í hraunkantinn og skiptist í fjögur hlaðin hólf en milli þeirra og hraunsins myndast einnig tvö hólf til viðbótar. Þá sjást leifar af fimmta hólfinu nyrst og í krika vestan við stekkinn er grasi gróin tóft. Að lokum má nefna að til er heimild um svokallaða Hraunrétt sem ekki sést lengur til.
Einn nátthagi eða vörslugarður, Lambhagagarður, er hér skráður með Setbergi, þó hann teygi sig einnig að hálfu inn á land Urriðakots. Hann liggur þvert á landamerkjagirðingu milli Setbergs og Urriðakots sem skiptir Hrauntanga milli jarðanna tveggja. Hann er signari og ógreinilegri í Setbergslandi en í Urriðakoti, en þar er hann einna best varðveittur syðst á um 10 m kafla sem liggur að Urriðakotsvatni.

Setberg

Setberg – fjárhústóft í Fjárhúsholti.

Sjö beitarhús eru skráð í landi Garðabæjar, á fjórum jörðum og sjást leifar þeirra allra. Í Setbergi eru skráð tvenn beitarhús sem lenda Garðabæjarmegin. Beitarhús er á svæði sem kallast Hústún. Beitarhúsið er í vestanverðri Setbergshlíð og hlaðið úr grágrýti. Oddnýjarfjárhús eru í vestanverðum Oddnýjardal, undir austanverðum Norðlingahálsi. Þetta er tvískipt tóft, fjárhús og hlaða, sem grafin er inn í brekku. Hlaðan er grjóthlaðin en fjárhúsið úr múrsteinum með grjóthlöðnum sökkli. Eitt beitarhús er skráð í landi Hraunsholts og kallast Hvammurinn eða Hvammsfjárhús. Tóftin er um 80 m vestur af brú yfir Hraunsholtslæk sem er framhald
göngustígs frá Lindarflöt. Aðhald var VSV við tóftina er þar er lægð í hrauninu. Tvenn beitarhús er einnig að finna í landi Urriðakots. Annað þeirra var byggt af Guðmundi Jónssyni bónda við hraunkraga sem myndar vesturbrún Flatahrauns. Beitarhúsið er hlaðið úr hraungrýti sem hefur verið tilhöggið í múrsteinslaga kubba. Hitt beitarhúsið er Fjárhústóftin syðri sem er um 470 m NV af Selgjárhelli. Beitarhúsið er hlaðið við náttúrulegt bjarg sem myndar að hluta til suðurvegg hennar. Á Vífilsstöðum eru tvenn beitarhús og er annað þeirra fremur illgreinanlegt. Hitt beitarhúsið, Vífilstaðabeitarhús er hlaðið úr hraunhellum sem sumar hverjar hafa verið höggnar til.

Urriðakot

Fjárhústóft í Urriðakotshrauni.

Í landi Garðabæjar eru skráð níu fjárskýli en tvö þeirra hefur verið fjallað um framar í skýrslunni í tengslum við selstöðu. Það eru Selgjárhellir og Sauðahellir í landi Urriðakots. Hin fjárskýlin sjö eru á tveimur jörðum. Á Vífilsstöðum eru skráð þrjú fjárskýli, þar af tveir hellar. Sauðahellirinn nyrðri er lítill og náttúrulegur hellir. Hlaðnir kampar eru beggja vegna við hellismunann en þar var sauðum gefið á gadd og heyið borið frá bæ. Maríuhellar eða Vífilsstaðahellar eru á mörkum Vífilsstaða og Urriðakots. Þetta eru tveir hellar sem voru að öllum líkindum einn hellir í fyrndinni en hrun úr loftinu skipti honum í tvennt. Um 25 m eru á milli munna hellanna, sá nyrðri tilheyrði Vífilsstöðum en hinn Urriðakoti. Fjárborgin, er um 3 m austur af Vífilsstaðabeitarhúsi. Fjárborgin var aldrei fullbyggð, átti að vera hringlaga og opnast til norðausturs. Í landi Garða eru skráð fjögur fjárskýli. Búrfellshellir er sunnarlega í Búrfellsgjá. Munni hellisins er 5-6 m breiður og snýr til suðurs. Hleðsla er fyrir honum og dyr á henni miðri. Fjárborg er á hraunbrún Gálgahrauns, beint andspænis Görðum. Undirstöðurnar eru einungis eftir. Heimildir eru einnig um Fjárborgir í landi Garða sem voru á svæði sem kallast Gjá og fyrir neðan þær voru hellar sem kölluðust Selhellar.

Urriðakot

Urriðakot – stekkjarrétt við Stekkjartún.

Alls eru sex stekkir skráðir í landi Garðabæjar en þeir hafa verið fleiri. Í landi Urriðakots eru raskaðar leifar stekks. Hann er í viki sem gengur í vesturbrún Flatahrauns fast vestan við golfvöll. Það eina sem er eftir af stekknum er um 5 m langt garðbrot. Á Vífilsstöðum eru varðveittir tveir stekkir og sést til þeirra beggja.
Finnsstekkur er undir suðvestur horni Smalaholts. Máríuvellir eða Stekkatún er lítil flöt í hraunjaðri Flatahrauns, fast uppi við Vífilsstaðahlíð. Þar er stekkjartóft. Í Hraunholti er stekkur er kallast Stekkurinn. Hann er í svokallaðri Stekkjarlaut. Þetta eru líklega leifar stekksins en töluverðar framkvæmdir hafa verið í og umhverfis lautina og stekknum mögulega raskað. Bakkastekkur er í landi Bakka, á svokölluðu Bakkastekksnefi. Stekkurinn er hringlaga og hlið er á honum austanverðum. Þaðan til austurs liggur aðhaldshleðsla. Í landi Hofstaða er heimild um stekk sem kallaðist Stekkurinn. Hann var við mýrarjaðar austan bæjar, þar sem nú er þétt byggð.

Túngarðar

Arnarnes

Arnarnesbærinn 1958 – loftmynd.

Eins og gefur að skilja, þegar haft er í huga að í landi Garðabæjar er nú risið þéttbýli, er lítið eftir af ósnortnum túnum. Ekki er ólíklegt að túngarðar hafi á einhverjum tíma verið umhverfis heimatún flestra ef ekki allra bæja og býla innan núverandi marka Garðabæjar, í það minnsta þeirra sem áttu á annað borð einhverja túnskika umhverfis bæina. Leifar túngarða hafa varðveist á flestum jörðum.
Innan Garðabæjar eru leifar túngarða að finna á Setbergi, Urriðakoti, Vífilsstöðum, Arnarnesi, Hraunsholti og Garðahverfi. Ástand Setbergstúngarðs er misjafnt en þeir hlutar sem eru best varðveittir eru norðarlega, meðfram austurjaðri túnsins í landi Garðabæjar. Vesturpartur garðsins sem er í landi Hafnarfjarðar er kominn undir byggð.

Urriðakot

Urriðakot – Túnakort 1918.

Urriðkotstúngarður er vel varðveittur og afmarkar sama svæði og sýnt er á túnakorti frá 1918. Hæstur er Urriðakotstúngarður um 1 m en víða er hann öllu signari. Miklar líkur eru á að uppbygging byggðar á Urriðaholti komi til með að raska garðinum en minnt er á að honum má ekki raska nema að fengnu leyfi Fornleifaverndar ríkisins. Þannig er Garðastekkur skráður sem rétt vegna þess að hlutverk hans breyttist í tímans rás.
Vífilsstaðatúngarður er að mestu horfinn en þó má finna slitrur af honum meðfram austurjaðri gamla túnsins, mestmegnis eru það grjótnibbur í reglulegri röð en allra nyrst er enn torf í garðinum. Leifar tveggja túngarða er enn að finna á Arnarnesi. Annars vegar Arnarnestúngarð sem er vel greinilegur á óbyggðum lóðum Mávaness 3 og 5 en afgangur hans er kominn undir byggð eða sléttaður. Hinsvegar er túngarður Litla Arnarness sem er um 11 m austur af bæjarhól Litla-Arnarness og er suðvesturendi um 40 m ANA af Súlunesi 33. Túngarður Litla Arnarness er sigin og greinist sem gróin aflöng bunga í þýfinu og sem röð af meðalstóru grjóti. Vísbending um að garðurinn sé að líkindum nokkuð gamall er að hann er klipptur þvert af gamalli leið. Að auki var í landi Arnarness svonefnt Gerði sem var kofatóft og garðbrot á grænum bletti og er jafnvel talið að þar kunni að hafa verið akurreitur áður fyrr. Fornleifarnar eru nú horfnar undir byggð á Arnarnesholti, en árið 2006 fór fram björgunaruppgröftur á minjunum en niðurstöður hans eru óbirtar.

Hraunsholt

Hraunsholt – Túnakort 1918.

Hraunsholtstúngarður hefur að mestu leyti verið sléttaður en er þó greinanlegur um 150 m austur af bæjarhól sem grjótfyllt „renna” í jörðinni og er stærsta grjótið allt að 0,5 m að ummáli. Til eru heimildir um fimm aðra túngarða innan núverandi byggðarmarka Garðabæjar sem ekki eru sjáanlegir ofan svarðar lengur. Þar af eru tveir í landi Hraunsholts sem búið er að slétta úr, Garðlagið gamla og Gerðisgarður sem báðir voru að líkindum nærri þeim túngarði sem enn sést til.
Túngarðar Hofsstaða, Hagakots og Selskarðs með öllu horfnir undir byggð eða verið raskað með öðrum hætti. Ekkert túnakort er til af Hagakoti og því er ekki hægt að staðsetja Hagakotstúngarð í þéttri byggð Flatahverfisins en samkvæmt Sigurlaugu Gísladóttur á Hofstöðum eru talsverðar líkur á að leifar Hofstaðatúngarðsins leynist undir sverði á grónum sléttuðum fleti suðaustan við Tónlistarskóla Garðbæjar og norðvestan við Hofslund, þar sem enn er óbyggt svæði.
Talsverðar leifar túngarða er að finna í Garðahverfi. Veglegasta garðlagið er Garðatúngarður. Í fornleifaskráningu Ragnheiðar Traustadóttur og Rúnu Tetzschner frá 2003 segir: „Talað var um Austurgarð austur frá Garðahliði en Vesturgarð vestur frá því. […] Austan Dysja var kallaður Dysjatúngarður.

Garðar

Garðar – túngarður – Hlíð utar.

Fornleifaskráning fór fram árið 1984 og fundust þá hlutar Vesturgarðsins. Ofan Garða er hann varðveittur frá Garðhúsum til Háteigs og birtist síðan aftur á um 70 m kafla ofan Hlíðar en endar við girðingarhorn við heimkeyrslu Grjóta.
[…]. Ætla má að allir íbúar Garðahverfis hafi sameinast um byggingu þessa mikla túngarðs undir stjórn séra Markúsar enda hefur þeim líklega borið skylda til. Eins og fram kemur voru þarna eldri garðlög fyrir en mannvirkjagerð af þessu tagi hefur tíðkast frá fornu fari.” Garðatúngarður hefur girt af mest allt Garðahverfið, þ.e. tún Garða og hjáleiga. Vestur af Garðatúngarði voru hlaðnir margir minni garðar sem hólfuðu niður tún einstakra býla og eru þau garðlög mörg hver jafnframt sjóvarnargarðar er verja tún, enda talsvert landbrot á þessum slóðum og eru þeir hlutar sem liggja að strönd meiri mannvirki.

Önnur garðlög og gerði

Garðaholt

Garðaholt – túngarður. Hlíð framundan.

Auk túngarða og sjóvarnargarða voru skráð 36 garðlög í landi Garðabæjar. Af þeim sjást um 30 á yfirborði. Einn gamall kirkjugarður er þekktur innan marka bæjarins, Garðakirkjugarður en umhverfis hann er grjóthlaðinn garður. Elstu minningarmörkin sem fundist hafa í garðinum eru frá 17. öld, en víst er að kirkja hefur staðið á Görðum allt frá fyrstu tíð. Tveir landamerkjagarðar voru skráðir á vettvangi.
Annar garðurinn, skilur milli Setbergs og Urriðakots og liggur um 750 m til NNV frá Urriðakotsvatni. Hann er siginn og hefur seinna meir verið bættur með gaddavírsgirðingu sem nú er fallin. Hinn landamerkjagarðurinn er skráður í landi Urriðakots og skildi milli þeirrar jarðar annarsvegar og landa Hagakots, Vífilsstaða, Hraunsholts og Setbergs hinsvegar. Garðlagið kallast í daglegu tali Fjárréttargirðing og hefur því jafnframt þjónað sem vörslugarður. Samkvæmt Svani Pálssyni heimildamanni er Fjárréttargirðingin horfin undir byggð og malbik að nokkrum hluta, en þó má enn rekja garðlagið um 800 m í Hafnarfjarðarhrauni. Annar vörslugarður er skráður í landi Garðabæjar og er hann einnig að finna í landi Urriðakots, nánar til tekið frá rétt, yfir Flatahraun og liggur hann í að Vífilsstaðahlíð. Mögulega er um að ræða aðrekstrargarð í réttina.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Túnakort 1918.

Talsvert ítarlegar heimildir eru um kálgarða í Garðabæ og kemur þar helst til að þeir eru gjarnan merktir inn á túnakort sem teiknuð voru af flestum túnum á svæðinu árið 1918. Margir þessara kálgarða eru sjálfsagt ekki mjög fornir en þó má gera ráð fyrir að elstu garðarnir geti jafnvel verið frá fyrstu árum kálræktar á Íslandi. Samtals eru skráðir 24 kálgarðar í landi Garðabæjar, flestir upp af áðurnefndum túnakortum og eru leifar 15 garða enn sjáanlegar. Í Urriðakoti, skammt vestan við bæjarhúsin, sjást leifar kálgarðs sem er merktur er á túnakort. Kálgarðurinn er alls um 30×30 m stór. Á Vífilsstöðum sést enn kálgarður sem sýndur er á túnakorti fast sunnan og austan við gamla bæinn. Garðurinn er grjóthlaðinn og einungis sést móta fyrir leifum tveggja veggja, suður og austur. Á túnakorti Hofsstaða eru sýndir tveir kartöflugarðar sem báðir eru nú horfnir undir byggð. Annar kartöflugarðurinn var áður þar sem nú er bakgarður og sólpallur við síðasta bæjarhús Hofsstaða, sem stendur enn. Hinn kartöflugarðurinn var kallaður Kristjánsgarður og var þar sem nú er leikskólinn Kirkjuból. Á túnakorti Arnarness eru sýndir tveir kálgarðar fast við bæjarhúsin. Þeir eru báðir horfnir en bæjarhóll Arnarness og túnið allt var sléttað þegar byggð var skipulögð á nesinu. Í Hraunsholti voru samkvæmt túnakorti þrír kálgarðar árið 1918 og sést einn þeirra enn. Garðbrot er um 5 m suðvestan við bakgarð Hraunsholtsvegar 2 og er þar sami garður og sýndur er á túnakorti um 80 m vestur af bæjarhúsi Hraunsholts. Hinir tveir kálgarðarnir sem sýndir eru á túnakorti Hraunsholts eru nú horfnir, annar var um 10 m suður af bæ en hinn var um 20 ASA af bæ. Nú eru leifar seinni tíma girðingar á þessum slóðum, fúnir timburstaurar og vír.

Dysjar

Dysjar, Bakki, Pálshús – Túnakort 1918.

Engar heimildir eru til um kálgarð í Hagakoti vegna þess að ekkert túnakort er til af þeirri jörð og er nú þétt byggð þar sem túnið var áður. Nokkrir kálgarðar eru hinsvegar skráðir í Garðahverfi. Á Dysjum eru tveir kálgarðar sýndir á túnakorti og sést enn til annars. Túnakortið sýnir kálgarð umhverfis bæjarhús Dysja og er hann enn greinilegur, hlaðinn úr torfi og grjóti. Hinn garðurinn var við útihús sem einnig er horfið og sýnir túnakortið garðinn fast við traðir norður af bæjarhúsunum. Túnakort Bakka sýnir kálgarð fast við sjávarbakkann framan við bæjarhúsin, enn hann hefur að líkindum horfið í sjó og sést ekki lengur. Á Görðum eru skráðir tveir samfastir kálgarðar umhverfis bæjarstæði Hóls og voru þeir nýttir áfram eftir að Hóll lagðist í eyði og voru kallaðir Hólsgarðar. Búið er að jafna þá við jörðu og var hleðslugrjótinu ýtt upp í allmikla hrúgu sem enn mun vera sýnileg. Austan og sunnan við Ráðagerðisbæinn er kartöflugarður, hlaðinn úr grjóti, sem jafnframt er sýndur á túnakorti 1918.

Garðahverfi

Garðatúngarður,

Túnakort Miðengis sýnir tvo kálgarða suður af bæjarhúsunum. Vestari garðurinn heitir Fjósgarður en sá eystri Framgarður, báðir voru garðarnir grjóthlaðnir. Í Hlíð voru skráðir fjórir kálgarðar sem allir eru sýndir á túnakorti. Kringum bæjarhúsin í Hlíð var kálgarður sem var samansettur af fimm hólfum.
Við fornleifaskráningu 1984 fannst hluti garðsins sem var þá mjög lág og yfirgróin hleðsla. Þurrabúðin Gata var í landi Hlíðar og við býlið var grjóthlaðin kálgarður sem nú er horfinn. Önnur þurrabúð í landi Hlíðar var Holt og umhverfis hana var kálgarður sem kallaðist Holtsgerði. Holtsgerði er ferhyrndur garður um 32 x 30 m að ummáli. Skammt frá Holtsgerði er Illugagerði sem einnig var ræktað frá Holti, en það gerði Illugi Brynjólfsson ábúðandi á Holti um aldamótin 1900. Illugagerði er grjóthlaðið og fannst við fornleifaskráningu 1984. Í Móakoti var kálgarður við bæjarhúsin sem sýndur er á túnakorti. Grjóthlaðnar leifar kálgarðsins eru beint vestur af bæjartóft Móakots. Á Hausastöðum eru heimildir um kálgarð af túnakorti sunnan bæjarhúsanna, en ekki sést til garðsins lengur. Túnakort Hausastaðakots sýnir kálgarða umhverfis bæjarhúsin og var þeim viðhaldið eftir að býlið fór í eyði. Kálgarðsleifarnar eru raunar greinilegustu leifarnar á bæjarstæði Hausastaðakots. Á túnakort Selskarðs eru teiknaðir tveir kálgarðar. Annar kálgarðurinn er austan við bæjarhúsin en hinn var að öllum líkindum þar sem fornleif er nú að finna.

Garðar

Garðar – Túnakort 1918.

Í landi Garðabæjar eru skráð 11 garðlög með óþekkt hlutverk, flest þeirra eru gerði.
Í landi Setbergs er lítið garðbrot á svokölluðum Hrauntanga við Urriðakotsvatn. Garðlagið er rúmlega 20 m langt og snýr nokkurn veginn austur-vestur. Garðlagið er afar sigið og gæti verið gamalt. Á Vífilsstöðum er garðlag í úfnu og hálfgrónu hrauni um 5-10 m vestan við Vífilsstaðabeitarhús. Garðlagið er illa hlaðið og virðist grjótinu hafa verið staflað í lengju og í botni gjárinnar endar það í ólögulegri hrúgu en er lögulegra upp suður gjábarminn. Mögulegt er að hey hafi verið gefið undir garðinum. Í landi Hraunsholts er að finna eitt garðbrot með óþekkt hlutverk. Átta þessara garðlaga eru síðan í Garðahverfi. Í landi Pálshúsa er garðlag sem sýnt er á túnakorti frá 1918. Það er sýnt sem ferhyrndur garður með hlöðnum veggjum austan Pálshúsabæjar. Garðlag er í landi Nýjabæjar og sést að hluta. Á Görðum eru fimm garðlög sem ekki hafa skýrt hlutverk. Eitt þeirra er og er sýnt á túnakorti frá 1918. Þessi niðursokkni grjóthlaðni garður fannst líklega við fornleifaskráningu 1984. Annað garðlag er á túnakorti 1918 og sýnt sem tveir samfastir garðar í stæði hjáleigunnar Sjávargötu. Samkvæmt fornleifaskráningu frá 1984 er þetta ferhyrndur grjóthlaðinn garður, annar annar minni grjótgarður gengur úr honum í átt til sjávar en endar við girðingu milli Garða og Miðengis. Þriðja garðlagið er teiknað á túnakort frá 1918 og sést enn. Fjórða garðlagið er einnig á túnakorti frá 1918 og er það grjóthlaðið gerði með stefnuna norðvestur-suðaustur. Fimmta garðlagið í landi Garða er Hallargerði.

Sjóminjar

Álftanes

Álftanes – sjóbúð.

Minjar tengdar sjósókn voru einna algengastar minja í Garðahverfi og þarf það e.t.v. ekki að koma á óvart þegar blómleg sjósókn þar í gegnum aldirnar er höfð í huga. Samtals voru skráðar 54 fornleifar tengdar sjósókn í Garðabæ, þar af voru 47 þeirra í Garðahverfi.
Af þessum fornleifum hefur þegar verið fjallað um 11 sjóvarnargarða en hér að neðan fylgir umfjöllun um aðrar minjar í þessum flokki.
Algengastar sjóminja í Garðabæ eru varir. Samtals voru skráðar 15 varir/lendingar, á átta lögbýlum í Garðahverfi. Nánast allar varirnar eru nú horfnar að mestu eða öllu leyti. Varirnar voru misgóðar og sumar þeirra þurfti að hreinsa reglulega þar sem stórgrýti vildi safnast í þær samkvæmt örnefnaskrá. Mögulega hafa einhverjar þeirra verið náttúrulegar.
Dysjabryggja er náttúrulegur tangi sem lent var við. Hið sama má segja um Bakkabryggju, Miðengisbryggju og Hausastaðabryggju.
Heimildir eru þekktar um uppsátur á níu stöðum í Garðabæ. Líklegt má telja að einhver uppsátranna hafi horfið í sjó en töluvert landbrot á sér stað í Garðahverfi. Á Arnarnesi og Hraunsholti hafa tvenn uppsátur hins vegar horfið undir byggð.

Brúsastaðir

Brúsastaðir – uppsátur.

Sjö naust á sex lögbýlum voru skráð í Garðabæ, öll í Garðahverfi. Í sex tilfellum bera ritaðar heimildir einungis tilvist þeirra vitni og öll ummerki þeirra eru horfin. Í Lambhúsatjörn er vík við norðvesturhorn Gálgahrauns og þar er hleðsla sem líklega eru leifar nausts.

Norðurnes

Norðurnes – sjóbúð.

Þrjár sjóbúðir voru skráðar í Garðabæ og eru þær allar í Garðahverfi. Ummerki um tvær þeirra sjást ekki á yfirborði en Katrínarkotsbúð sést enn og er í landi Hausastaða. Tóftir hennar eru rétt við sjóvarnargarð, nánar tiltekið á svokölluðum Guðrúnarvelli. Þekktar eru heimildir um tvær verbúðir, báðar í landi Hausastaða. Í Jarðabók Árna og Páls er getið um verbúð sem notuð var af Selskarði. Þegar bókin var gerð hafi verbúðin verið notuð í um 30 ár. Staðsetning hennar er óþekkt. Örnefnið Búðarós ber hinni verbúðinni vitni. Nafnið er líklega dregið af verbúð en engar sannanir fyrir tilvist hennar hafa komið í ljós á þessum slóðum. Fleiri minjar um sjósókn en þær sem hér hafa verið upptaldar er að finna í Garðabæ.

Hleinar

Hleinar – hjallur. Hvaleyri framundan og Keilir.

Heimild um einn hjalla er þekkt innan bæjarmarkanna. Hann var í landi Bakka en farin í sjó þegar skráning var gerð þar árið 2003. Árið 1870 var Garðaviti reistur sem mið af sjó fyrir fiskibáta. Áður en vitinn var reistur, var þar fyrir torfvarða og kveikt á lugt til leiðarvísis. Vitinn stóð á háholtinu, fyrir ofan Háteig og var notaður fram til 1912. Á stríðsárunum var vitinn notaður sem skotbyrgi af Bretum en húsið síðan selt. Tóft er byggð utan í klappir alveg við sjávarmál.

Garðahverfi

Garðaviti.

Tóftin er hlaðin úr grjóti og styrkt með sementi og telja má líklegt að hlutverk hennar tengist sjósókn. Heimild um hvalstöð, í landi Garða, er að finna í örnefnaskrá Hafnarfjarðar. Þar kemur fram að hvalstöð hafi verið á Rauðnefstanga en ekki kemur fram á hvaða tíma hún var í notkun en hún lagðist af vegna slyss sem þar varð. Á svæðinu sjást nú um sjö grjóthlaðnar tóftir með görðum á milli. Áttunda tóftin er enn undir þaki með timburstoðum. Leifar lýsisbræðslu eru skráðar í landi Dysja sem norskur maður á að hafa sett upp. Ekki kemur fram á hvaða tíma þetta var gert. Þarna sjást nú tvær tóftir, grjóthlaðin grunnur með grófri steinsteypu og minni tóft norðan við hann.

Arnarnes

Arnarnessker.

Heimild um þangtekju er að finna í landi Arnarness. Þar kemur fram í rituðum heimildum að þang hafi verið tekið á Arnarnesskeri. Það er tangi sem er alþakinn fersku þangi og fer í kaf á flóði. Í Hraunholti er varðveitt hleðsla sem líkist helst hálfmána í laginu. Hleðslan er um 10 m frá sjó, sokkin og bogadregin. Önnur minni hleðsla lokar þeirri stærri að hluta og myndar grjótfyllta rennu. Þetta eru mögulega leifar uppsáturs, herslugarðs eða jafnvel verbúðar.
Þá eru upptaldar þær minjar um sjósókn sem skráðar voru í Garðabæ. Eins og með marga aðra minjaflokka má minna á að ekki er ólíklegt að fleiri minjar leynist undir sverði, í þessu tilfelli við sjávarsíðuna. Rétt er að ítreka að fara þarf varlega í frekari framkvæmdir við sjávarsíðuna.

Leiðir

Fógetagata

Fógetagata.

Alls voru skráðar 120 leiðir, brýr og vöð í Garðabæ. Mikið af heimildum er til um leiðir á svæðinu og munar þar helst um bókina Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar sem og örnefnaskrár lögbýlanna.
Alls voru skráðar fimm leiðir í Garðabæ sem voru e.k. þjóðleiðir. Þær eru sýndar á korti Björns Gunnlaugssonar frá 1844 en það var endurbætt í bókinni Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar.
Í fyrsta lagi er að nefna alfaraleið frá Álftanesi til Reykjavíkur og Seltjarnarness og kallaðist Álftanesgata eða Fógetagata. Gatan lá frá Álftanesi um Gálgahraun og er nyrst alfaraleiðanna og skráð á þremur lögbýlum í Garðabæ. Gatan sést m.a. á yfir 200 m löngum kafla skammt austan við Súlunes 26 í landi Arnarness. Önnur alfaraleið lá sunnar og var skráð á fimm stöðum í Garðabæ, en einungis sést til hennar á einum þeirra. Leiðin gekk undir nöfnunum Alfaraleiðin og Gömlu Fjarðargötur og lá frá Elliðavatni norðan við Vífilsstaðavatn að Hraunholtslækjarvaði. Það hélt hún áfram um Engidalsnef að svokölluðum Vegamótum, en þar komu saman nokkrar leiðir sem sjást á kortum bókinni Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Suðurtraðir.

Í landi Vífilsstaða lá gatan um Vífilsstaðamela, á svipuðum stað og malbikaður vegur er nú. Líklegt er að gömlu göturnar liggi þar undir. Gatan lá úr Krossgötum, ofanvert við Hagakotstúnið en þar er hún horfin undir byggð í Flata- og Lundahverfi. Hluti af Gömlu Fjarðargötum sjást á milli lóða í Hraunshólum 6-8. Steyptur göngustígur sem liggur frá Stekkjarflöt að Hraunshólum var lagður yfir götuna. Alfaravegur 1 á af Gömlu Fjarðargötu norður með túngarði og yfir Hraunsholtslæk að Háubrekku sem var vinsæll áningarstaður ferðamanna. Þessi hluti leiðarinnar er horfinn undir byggð. Alfaravegur 2 lá einnig af Gömlu Fjarðargötum, milli hraunbrúnar og túngarðs að fyrrnefndum Krossgötum. Þessi hluti leiðarinnar er einnig horfin undir byggð. Þriðja alfaraleiðin í landi Garðabæjar er Hafnarfjarðarvegur sem var lagður á árunum 1897-1898. Hann lá frá Reykjavík til Hafnarfjarðar og er ennþá í notkun. Innan marka Garðabæjar lá Hafnarfjarðarvegur úr Engidal niður að Arnarneslækjarbrún. Líklegt er að malbikað hafi verið yfir gömlu göturnar við vegaframkvæmdir.

Selvogsgata

Selvogsgata.

Fjórða alfaraleiðin er Selvogsgata sem lá úr Hafnarfirði um Grindaskarð til Selvogs. Í landi Garðabæjar sést til götunnar fast vestur undir Setbergshlíð innan lögbýlisins Setbergs. Leiðin er að mestu leyti utan merkja Garðabæjar.
Að síðustu ber að að nefna Álftanesveg sem lá frá Suðurtraðahliði á Hraunsholtstúni, með hraunbrúninni í Engidal. Vegurinn lá frá Hafnarfjarðarvegi og sameinaðist Álftanesgötu í landi Garða. Árið 1910 var þetta vagnleið og notuð til flutninga. Gatan er ekki sýnd á korti Björns Gunnlaugssonar frá 1844 og því líklega yngri.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Jónshellnastígur.

Af skráðum leiðum í Garðabæ voru 21 heimreiðar/traðir, þ.e. slóðar sem lágu frá túnjaðri að bæjarstæðum. Flestar heimreiðanna voru skráðar upp af túnakortum frá 1918 og örnefnalýsingum og eru nú horfnar, en leifar einna traða sjást enn. Á Vífilsstöðum eru greinilegar leifar af upphlöðnum tröðum sem lágu frá bæ og niður að læk. Traðirnar sjást enn á kafla norðan lækjarins. Mikið af leiðum eru skráðar innan lögbýla, m.a. brunngötur og leiðir að selum. Heimildir eru til um 36 slíkar leiðir. Það sést til fimm þessara leiða í dag. Í Urriðakoti sést til einnar leiðar, Grásteinsstígs. Gatan er rudd gegnum hraun frá golfveli og hlykkjast áfram talsverðan spöl. Innan merkja Vífilsstaða sést til þriggja leiða.

Jónshellar

Í Jónshellum.

Jónshellnastígur hlykkjast í gegnum hraunbreiðu frá gamla bæjarstæðinu að Jónshellum. Það sést til Vífilsstaðaselsstígs þar sem hann liggur frá Ljósukollslág og upp holtið að selinu. Þessi leið er að hluta til hin sama og Gjáréttargötur. Að síðustu sést Grunnavatnsstígur sem lá frá vatnsósnum, inn með Vífilsstaðahlíð og upp Grunnavatnsskarð. Leiðin sést á um 500 m bili vestan í Grunnavatnsskarði en er fremur ógreinileg. Í landi Garða er ein leið, Garðagata. Gatan lá frá Görðum í Garðastekk og sést til gatnanna um 100 m norðan við hann. Annar slóði liggur frá stekknum til norðausturs og sameinast Álftanesgötu og er það líklega Álftanesstígur sem m.a. er sýndur er á korti á bls. 64 í Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar.

Arnarnes

Gamla þjóðleiðin frá Kópavogi yfir Arnarnesháls. Litla-Arnarnes t.v.

Gera má ráð fyrir því að frá flestum býlum við strönd í Garðabæ og öllu Garðahverfi hafi legið gata að sjó. Heimildir eru hins vegar aðeins þekktar um 10 slíkar leiðir og eru þær allar í Garðahverfi. Í öllum tilvikum sjást leiðirnar á túnakorti Garðahverfis frá 1918. Líklegt má telja að leiðir að sjó hafi einnig verið í Arnarnesi og Hraunsholti þó ekki hafi varðveist heimildir um þær.
Skráðar voru þrjár leiðir að kirkju innan Garðabæjar. Stórakróksgata eða Kirkjustígur lá frá Urriðakoti og að Garðakirkju en ekki sést lengur til götunnar. Leiðin lá norðaustur við Stórakrókshól og þaðan yfir hraunið að Garðakirkju.

Garðahverfi

Gata að Hlíð.

Í landi Garða eru skráðar tvær kirkjuleiðir. Dysjabrú lá frá Mónefi yfir Dysjamýri. Þetta vegbrot átti að auðvelda leið að kirkju meðan Hafnfirðingar áttu kirkjusókn að Görðum. Gálgahraunsstígurinn syðri tók við þar sem Dysjabrú endaði. Þessi leið var að öllu jafnaði farin að kirkju en Kirkjustígur í miklum leysingum99.
Í Garðabæ eru einnig 13 leiðir sem ekki er hægt að flokka í ofangreinda flokka (þ.e. í alfararleiðir/heimreiðar/sjávargötur/götur til staða innan jarða eða kirkjuleiðir). Gott dæmi er Dýrtíðarvinnuvegur sem liggur þráðbeinn yfir hluta Hafnarfjarðarhrauns. Hann var lagður árið 1918 undir járnbraut. Vegurinn var aldrei kláraður og sést það vel þar sem norðaustur hluti hans endar. Þar er búið að ryðja hraunið en eftir að bera grjót í hann. Leið sem liggur yfir Hafnarfjarðarhraun var skráð í Hagakoti. Hún hefst rétt við brúnna yfir Hagakotslæk niður af Lindarflöt 16 og 28. Leiðin endar við Suðurhraun 12 innan merkja Hafnarfjarðar. Þar stefnir hún á gamlar götur sem varðveist hafa bak við Fjarðarkaup og hugsanlega sameinast þeim.

Hagakotsstígur

Hagakotsstígur.

Vífilsstaðagata var á Arnarneshæð en er líklega horfin vegna framkvæmda á svæðinu.100 Gatan hefur, eins og nafnið gefur til kynna, líklega legið frá Vífilsstöðum og tengst Álftanesgötu í landi Arnarness. Vífilsstaðavegur hinn nýji var lagður árið 1908 á milli Hafnafjarðarvegar og Vífilsstaða. Vegurinn er enn í notkun en hefur verið hækkaður og malbikaður. Gjáréttargata lá frá Urriðakoti og upp á Urriðakotsháls. Hún er nú að mestu leyti undir nýrri vegi en afar greinileg þegar komið er í Selgjá. Gjáréttarstígur eða Hraunsholtsstígur lá frá Hraunsholti að Urriðakoti og í Gjáréttir. Stígurinn sést enn hlykkjast áfram í gegnum Hafnarfjarðarhraun. Dýrtíðarvinnuvegur liggur t.d. þvert á stíginn. Krossgötur voru á mel í horni Flatahrauns en þar er nú slétt grasflöt milli Stekkjaflatar og Hraunholtslækjar. Þar komu saman a.m.k. sex leiðir sem heimildir geta um. Í landi Garða var skráður vegur sem er upphlaðinn að hluta. Vegurinn liggur til austurs frá hleðslu en ekki er tekið fram hversu langur vegurinn er eða hvert hann virðist stefna. Mýrarbrú var í landi Hraunsholts en heimildum ber ekki saman um staðsetningu hennar. Gatan er annað hvort sögð hafa verið í Austurmýri eða Lágumýri en á hvorugum staðnum sást til gatnanna. Leiðir milli lögbýla eru þrjár í Garðabæ þó vafalaust hafi aðrar götur einnig verið notaðar í þeim tilgangi. Hagakotsstígur lá frá Hagakoti að Urriðaholti en nefndist Urriðakotsstígur þar. Hagakotsstígur hófst við stiklur sem var vað á Hagakotslæk. Stígurinn hlykkjast yfir Hafnafjarðarhraun og sést vel til hans í landi Hagakots.
Gjáréttarstígur Álftnesinga, einnig kallaður moldargötur, var í landi Urriðaholts og tók við af Hagakotsstíg ef haldið var inn með norðurhlíð Urriðaholtshlíðar að Maríuhellum. Á þessum slóðum er nú malarborinn jeppaslóði en nokkuð rask hefur orðið á leiðinni vegna bygginga við Kauptún.

Engidalsgata

Engidalsgatan gamla.

Innan Garðabæjar voru skráð 12 vöð og sjö brýr, en meirihluti þeirra er nú horfin. Þessar minjar voru dreifðar um skráningarsvæðið en flestar eru utan Garðahverfis.
Að samanlögðu má skipta gatnakerfi Garðabæjar í þrennt. Þetta eru alfaraleiðir, leiðir innan bæja og svokallaðir tengivegir. Að sunnan og austan hafa legið alfaraleiðir og síðar frá Reykjavík. Frá þessum götum hafa svo legið heimreiðar að flestum bæjum og býlum. Auk þeirra voru víða styttri slóðar innan landareigna, oftast t.d. frá bæ og að sjó. Nauðsynlegt er einnig að skoða Garðahverfið sem eina heild, þar var gatnakerfi á milli lögbýla enda óvenju þéttbýlt þar. Lögbýlin eru öll innan Garðatúngarðs og aðeins hægt að fara inn um nokkur hlið á honum. Segja má að þar sé komin smækkuð mynd af leiðakerfi utan hverfisins, þar eru alfaraleiðir, smærri tengivegir og leiðir milli
bæja.

Vatnsból

Urriðakot

Urriðakot – vatnsþró.

Í Garðabæ voru skráð 27 vatnsból á 15 jörðum. Sjálfsagt hafa vatnsból verið víðar utan Garðahverfis þó staðsetning þeirra sé nú týnd. Lítið er um uppsprettur og læki í Garðahverfi og líklegt að heimildir um vatnsból séu þar nokkuð tæmandi.
Vatnsveita var í Urriðakoti og sjást merki hennar ennþá. Vatnsveitan samanstendur af hlöðnum brunni í mýrarjaðri, rétt utan túns. Frá honum lá Brunnrásin eftir mýrinni og út í Urriðakotsvatn. Brunnrásin sést ennþá og fallin grjóthleðsla sem gæti hafa verið brunnur. Í Urriðakoti er jafnframt heimild um annan brunn í Selgjá.
Á Vífilsstöðum var steyptur vatnsgeymir í hlíð upp frá ósi Vífilsstaðavatns og vatn þaðan var leitt í Vífilstaðahælið. Vatnsból Garðabæjar er í Dýjakrókum en þar í mýrinni eru ótal uppsprettur. Ekki er ljóst hvort að vatn hafi verið tekið þaðan áður en vatnsbólið var byggt. Önnur heimild er um vatnsból í læknum niður undan bæ á Vífilsstöðum.
Auk áðurgreindra vatnsbóla var brunnur í Hagakoti, Hofstaðabrunnur og Lindin voru í landi Hofstaða, Arnarnesbrunnur og Gvendarbrunnur í Arnarnesi og í Hagakoti voru Hraunholtsvatnsbólið og Hraunholtsbrunnurinn en ekki sést til þeirra nú.
Í Garðahverfi voru fimm brunnar skráðir. Á Görðum er Garðalind sem var aðalvatnsból Garðahverfisins alls. Í Garðalind er rennandi vatn og voru tröppur niður að vatninu. Vatnsgjáin er náttúrulegt vatnsból í botni Búrfellsgjáar. Það var notað sem vatnsból Gjáréttar og tröppur hlaðnar niður að vatninu. Í Móakoti er hlaðinn brunnur tæpa 20 m norðaustan við bæ. Katrínarkotsbrunnur er í landi Hausastaða og var grafinn í túnið eftir að hætt var að nota Hausastaðabrunn . Brunnurinn er hlaðinn og voru hlaðnar tröppur niður að honum. Grjótabrunnur er í landi Hausastaðakots, norður frá Grjóta. Þetta er hlaðinn brunnur sem fylltur hefur verið upp. Í Garðahverfi eru heimildir um níu aðra brunna sem ekki sést til. Þetta eru Dysjabrunnur, Pálshúsabrunnur, Nýjabæjarbrunnur, Króksbrunnur, Garðhúsabrunnur, tveir brunnar austan Háteigsbæjar, Miðengisbrunn, Karkur og Hausakotsbrunn.

Herminjar

Garðaholt

Camp Gardar Tilloi.

Í Garðabæ voru á hernámsárunum fjögur braggahverfi og eru þau sýnd á korti í bókinni Ísland í hershöndum. Þau voru Tilloi og Garðar sem voru við Garða, Slingsby hill í Hranholti og Russel á Urriðaholti. Ólíkt flestum öðrum þéttbýlisstöðum hér á landi þar sem umsvif hersins voru mikil urðu ekki til íslensk braggahverfi í Garðabæ eftir stríðslok.
Nú er einungis eitt þeirra varðveitt, Camp Russel í Urriðaholti. Slingsby Hill, við Hraunholt, er horfið undir byggð en ekki er vitað hvað varð um braggahverfin við Garða. Hætt er við að staðsetning slíkra minjastaða, sem alveg eru horfnir af yfirborði og sáust e.t.v. aðeins um stutt skeið, týnist fljótt niður þéttbýli. Þrátt fyrir að braggabyggðin hafi fljótt horfið í Garðabæ leynast herminjar enn víða og voru samtals skráðar 18 slíkar minjar á níu bæjum.
Í Setbergi eru varðveittir tveir minjastaðir sem tengjast mannvirkjum seinni heimsstyrjaldar. Á Flóðhjalla þar sem hann rís hæstur eru leifar vígis frá Bretum sem ætlað var til varnar mögulegri innrás Þjóðverja í Hafnarfirði. Mannvirkin samanstanda af garðlagi og tveimur greinilegum tóftum innan þess. Mögulega hafa verið fleiri mannvirki innan garðlagsins en þau sjást ekki greinilega. Á náttúrulegan stein innan garðlagsins hefur verið klappað ártalið 1940 og fangamörkin J.E. Bolan og D.S..

Camp Russel

Camp Russel – kort.

Skotbyrgi er á norðausturbrún Setbergshamars, um 60 m frá steinsteyptum landamerkjasteini. Skotbyrgið er grjóthlaðið, nánast hringlaga og hrunið að mestu.
Í Urriðakoti er varðveitt steypt vatnsból frá hernum austur af Dýjamýri. Jafnframt eru heimildir sem greina frá því að tvö skotbyrgi hafi verið í landi Urriðakots. Enn eru samt ótaldar umfangsmestu minjarnar á Urriðakotsholti sem og Garðabæ öllum. Þetta eru leifar Camp Russell og þar má greina fjölmarga húsgrunna og aðrar minjar. Í skýrslu Ragnheiðar Traustadóttur og Rúnu K. Tetzschner frá 2005 eru kort sem sýna staðsetningu minja á svæðinu og eru þær um 40 talsins.

Hnoðraholt

Hnoðraholt – skotbyrgi.

Á Vífilsstöðum hafa varðveist tvö skotbyrgi. Á svokölluðu Hnoðraholti er steinsteypt, hálfniðurgrafið skotbyrgi. Gott útsýni er frá því, einkum til norðurs og austurs. Hitt skotbyrgið er í norðurenda Vífilsstaðahlíðar, um 50 m vestan við vörðu sem í seinni tíð gengur undir nafninu Gunnhildur og er líklega dregið af enska orðinu „Gunhill”. Skotbyrgið er niðurgrafið og er veggur hlaðinn úr hraungrýti umhverfis innganginn.
Ógreinilegar leifar skotbyrgis eru að finna í landi Arnarness. Skotbyrgið er um 100 m sunnan við Arnarnesbrúnna og sést sem gróin upphækkun í grýttu og blásnu umhverfi. Heimild um annað skotbyrgi í landi Arnarness í svokölluðum skotmóa sem er á mörkum Kópavogs og Garðabæjar en ekkert sést til þess nú.

Hafnarfjörður

Langeyri – leifar bragga.

Í Hraunholti eru leifar tveggja mannvirkja úr síðari heimsstyrjöld. Annað þeirra er skotbyrgi. Það er um 7 m suðvestur af botni Lækjarfitjar og enn undir þaki. Byrgið er steinsteypt, niðurgrafið og þarf að fara niður nokkrar tröppur til að komast inn en það hefur nú verið fyllt af rusli. Herminjar með óþekkt hlutverk eru um 10 m SSV af brú yfir Hraunholtslæk. Þetta er steyptur grunnur sem er nánast ferkantaður. Hér er mögulega um tvö mannvirki að ræða. Þar sem leifar braggahverfisins eru líklega horfnar undir byggð eru þetta einu minjarnar sjáanlegar á yfirborði um veru hersins á lögbýlinu.
Í landi Bakka er getið um tvö loftvarnarbyrgi í örnefnaskrá sem séu að fara í sjó. Í fornleifaskráningu frá 1984 segir að tóft hafi verið byggð ofan í eitt þeirra en þau hafi verið mörg með skotgröfum á milli. Líklega sést ekkert til þeirra lengur.

Langeyri

Langeyri og nágrenni – örnefni.

Á Görðum eru ummerki um tvær herminjar. Þrír steyptir grunnar, líklega undirstöður undir bragga, eru sitthvoru megin við Herjólfsgötu, þar sem hún mætir Herjólfsvegi og Garðabraut. Þessar leifar kunna að vera það eina sem eftir er af braggahverfinu sem var á svæðinu og fyrr var minnst á. Tvö samtengd skotbyrgi eru ofan Garðakirkju, beint útfrá útsýnisskífu. Þau eru steinsteypt, ferhyrnd og á milli þeirra hlykkjast skotgröf sem sést enn vel. Jafnframt var aðal loftvarnarbyrgi Breta efst á Garðholtsenda en þar er nú hús og ekkert sér til herminja. Í Hausastaðakoti eru tvö mannvirki tengd hernaði. Annað þeirra er byggt ofan í tóft sem sýnd er á túnakorti frá 1918. Lögun mannvirkisins og tóftarinnar eru óljós. Hitt mannvirkið eru þrjár sambyggðar tóftir. Þær eru á spildu sem merkt er á túnakort frá 1918 sem eign Hausastaðakots. Tóftirnar eru byggðar inn í hól og líklega verið skotbyrgi.

Urriðaholt

Langeyri – herminjar.

Elliðavatnsvegur eða Flóttavegur var lagður af Bretum á stríðsárunum. Vegurinn liggur á milli Hafnafjarðar og Suðurlandsvegar. Leiðin er skráð á tveimur stöðum í landi Vífilsstaða og lá frá Urriðaholti, um Vífilsstaðaland, Rjúpnadal og ofan Vatnsenda við Rauðavatn. Þessi leið er enn notuð og hefur verið malbikuð. Lagning þessa vegar hefur hins vegar líklega raskað eldri götum sem fyrir voru á svæðinu.
Ljóst er að umfang og staðsetning herminja í Garðabæ býður vel uppá að kynna þennan hluta sögu sveitarfélagsins fyrir almenningi og gera minjarnar aðgengilegar. Ekki er ólíklegt að fleiri minjar um hersetu séu að finna innan merkja Garðabæjar þó mikið hafi án efa horfið í þéttbýlið.

Verndun og kynning minja á skráningarsvæðinu

Garðahverfi

Garðahverfi – örnefni.

Eins og kemur fram í kafla um fornleifaskráningu þá teljast minjar í heimatúnum bæja sem eru enn í byggð sem og minjar innan bæjarmarka þéttbýlis að jafnaði í hættu. Því töldust flestar þær fornleifar sem skráðar voru í Garðabæ í hættu vegna ábúðar, þ.e. vegna nábýlis við þéttbýli enda hafa ýmsar framkvæmdir við vegi, byggingar og annað það umrót sem fylgir þéttbýli skemmt fjölmargar fornleifar í Garðabæ síðustu áratugi. Einnig töldust fjölmargar fornleifar vera í stórhættu á skráningarsvæðinu. Það er í flestum tilvikum tilkomið vegna fyrirhugaðra framkvæmda annars vegar og landbrots sem verður við sjávarsíðuna hins vegar. Þrátt fyrir góðan vilja yfirvalda í Garðabæ til þess að rannsaka og varðveita fornleifar hafa talsvert margir minjastaðir horfið af yfirborði innan bæjarmarkanna frá því að fornleifaskráning fór fyrst fram árið 1984. Í eldri skráningum er því oft getið um minjastaði sem þá sáust á yfirborði en síðan verið skemmdir. Það er því rétt að ítreka að til að gagn sé í fornleifaskráningu sem þessari þarf hún að vera nýtt í skipulagsgerð og ef vel á að vera, kynnt framkvæmdaaðilum, bæjarstarfsmönnum og almenningi.

Garðahverfi

Garðahverfi – bæir, garðar og götur.

Garðabær í heild sinni býður upp á fjölmarga möguleika í minjavernd og kynningu á minjum. Svæðin ofan byggðar s.s. Heiðmörk, Búrfellsgjá og Selgjá eru vinsæl útivistarsvæði og þar eru víða skipulagðar gönguleiðir og -stígar. Einnig hafa verið gerð kort yfir helstu hlaupa- og gönguleiðir innan bæjarins og sýnt hvar upplýsingaskilti og útsýnisskífur eru staðsett. Þetta er mjög gott framtak en betur má ef duga skal. Eflaust mætti setja fleiri skilti með upplýsingum um minjar t.d. í Selgjá. Innan Garðabæjar er einnig fjöldi herminja sem mætti nýta til kynningar fyrir almenning sem og minjar um sjósókn í Garðahverfi. Á vegum bæjarins var unnið að því að gera niðurstöður rannsókna á Hofsstöðum sýnilegar og í þeim tilgangi reistir gagnvirkir upplýsingaskjáir og útlínur tóftanna byggðar upp. Framtakið er gott og gerir minjarnar mun aðgengilegri fyrir bæði almenning og ferðamenn sem leggja leið sýna til bæjarins. Gagn væri einnig að því að reisa upplýsingaskilti á vettvangi annarra fornleifarannsókna á svæðinu og koma þannig upplýsingum til almennings sem á leið um svæðið hvað var verið að rannsaka.

Garðabær

Garðabær – bæjarmerkið.

Þrátt fyrir að þéttbýlt hafi verið í Garðabæ um áratugi er þar enn að finna talsvert af fornleifum. Einhverjar leifar sjást enn í tæpum helmingi minjastaða sem þar eru þekktir. Allar þær fornleifar sem skráðar voru í Garðabæ hafa varðveislu- og minjagildi en þær sem eru yngri en 100 ára hafa ekki jafna stöðu á við hinar samkvæmt ramma laganna. Þessar fornleifar eru þó engu að síður mikilvægt að varðveita og má í því samhengi minna á skemmtilegar herminjar víða á svæðinu.
Innan merkja Garðabæjar er að finna þrjár friðlýstar fornminjar. Allar voru þær friðlýstar af Kristjáni Eldjárn árið 1964. Þetta eru Gjárétt, Selgjá og Norðurhellar.
Gjárrétt er í enda Búrfellsgjár og er merkilegur minnisvarði um fjárbúskap í Garðahreppi. Þar var fjárskilarétt hreppsins á 19. og 20. öld en rétttin var hlaðin árið 1840. Í réttinni sést vel hvernig menn hafa nýtt sér til fullnustu náttúruna við byggingu réttarinnar. Aðhald tengist Gjárétt með garðlagi en nýtir náttúrulega hraunveggi úr öllum áttum nema til austurs. Hraunbrúnin slútir yfir vesturhluta aðhaldsins og myndar þannig grunnan helli eða byrgi í vesturhluta þess.

Selgjá

Selgjá

Selgjá.

Selgjá er framhald Búrfellsgjár og er þar að finna fjölmargar tóftir, sumar í landi Urriðakots en flestar í landi Garða. Litið var á Selgjá sem eitt samfellt minjassvæði vegna þess hversu landfræðilega afmörkuð hún er. Því var hún öll skráð undir einu númeri og fellur í þessari skráningu undir númer Urriðakots. Í gjánni eru samtals 33 tóftir í 11 sambyggingum sem flestar eru byggðar upp að brúnum gjárinnar. Þetta eru m.a. stekkir, hleðslur, garðlög, hellar og sel. Staðurinn er án efa einn allra merkilegasti minjastaður Garðabæjar enda mannvirkin minnisvarði um sauðfjárbúskap og ómetanleg heimild um selstöðu allt fram á 18. öld. Selgjárhellir markar nyrsta hluta Selgjár.
Norðurhellar voru friðlýstir ásamt Selgjá. Selstæðið vestan í Selgjánni gekk undir nafninu Norðurhellar. Þeir eru skammt norðan við Selgjá og ættu Selgjárhellir og Sauðahellir efri að teljast með þeim, enda hlutar af sama hellakerfi. Alls fundust á svæðinu átta hellar fyrir utan þá fyrrnefndu.
Fjöldi annarra athyglisverðra minjastaða er að finna í Garðabæ og hér verða nefndir nokkrir minjastaðir- og –flokkar sem teljast, fyrir einhverra hluta sakir sérstaklega áhugaverðir.

Selgjá

Selgjárhellir. Einnig nefndur Þorsteinshellir.

1. Sauðahellir efri/syðri er örskammt norðvestur af Selgjárhelli. Hann tilheyrir víðáttu miklu hellakerfi, en margir þeirra voru notaðir sem fjárskýli og hlaðið framan við op þeirra. Sauðahellir er mestur þeirra en við hellisopið hefur verið hlaðið upp J-laga inngangi og þannig myndast um 3 m langur gangur með 3-4 þrepum sem liggja niður í hellana. Við enda gagnanna greinist hellirinn í tvo minni hella. Hellirinn sýnir vel hvernig náttúran var nýtt til búskapar og hefur mikið varðveislu- og kynningargildi.

2. Kjöthellir og umhverfi hans eru þekkt selstaða frá því á fyrri hluta 16. aldar. Tvær tóftir eru í næsta nágrenni við hellinn og telja verður líklegt að þær tengist selstöðunni. Annar hellir, Kershellir er í tæplega 200 m fjarlægð og líklega einnig verið sel. Hann er stærri en Kjöthellir og tveir hellar ganga inn af honum. Í báðum þessum hellum hafa verið hleðslur sem skiptu þeim í tvennt. Minjarnar eru sérstakar, fornar og áhugaverðar og hafa því sérlega gott varðveislu- og kynningargildi.

Flóðahjalli

Tóftin á Flóðahjalla.

3. Stríðsminjar upp á Flóðahjalla og víðar. Eins og fram kemur í kaflanum um herminjar leynast þær víða. Ástand þeirra er í heildina séð nokkuð gott en töluvert af þeim hefur þó vafalaust glatast. Þær herminjar sem eftir standa hafa því flestar varðveislugildi og jafnframt gott kynningargildi. Sem dæmi um svæði sem mætti kynna almenningi eru víðtækar minjar á Urriðaholti og aðrar sértækar minjar í góðu ástandi annars staðar líkt og vígið á Flóðhjalla.

4. Garðalind. Aðgengi að ferskvatni er eitt af þeim höfuðatriðum sem landnámsmenn þurftu að hafa í huga þegar þeir settu niður bæjarstæði. Gera má ráð fyrir að oftast hafi menn reynt að setja bæi niður við lækjarsprænur eða fersk vötn en þar sem slíku er ekki fyrir að hafa skiptu brunnar höfuðmáli. Í Garðabæ sést vel hvernig bæir hafa verið staðsettir í nálægð við vatn en einnig eru brunnar við sjávarsíðuna. Allt Garðahverfið sótti vatn í einhverju magni í Garðalind. Umhverfi lindarinnar er greinilega manngert og reynt að gera aðgengi auðvelt með tröppum og steini til skjóls. Brunnurinn hefur gott varðveislu- og kynningargildi.

Arnarnes

Litla-Arnarnes- bæjarstæði.

5. Litla Arnarnes og umhverfi þess er dæmi um svæði sem er nokkuð óraskað innan þéttbýlisins. Bæjarhóllinn er að öllum líkindum óraskaður, um 13x3m og mest um 1,5 m á hæð. Ekki er vitað neitt um aldur kotsins en það var ekki í byggð þegar Jarðabók Árna og Páls var skrifuð 1703. Túngarður kotsins er varðveittur að hluta og er hann m.a. skorin af götu sem bendir til þess að hann sé nokkuð forn. Í næsta nágrenni við bæjarhól kotsins eru einnig þrjár dysjar, m.a. Þorgautsdys. Þar á að vera dys sakamanns er líflátinn var á Kópavogsþingi. Líklegt má telja að fleiri minjar séu undir sverði á svæðinu það hefur því í heild mikið
varðveislu- og rannsóknargildi.

Hausastaðir

Hausastaðir – minnismerki um Hausastaðaskóla.

6. Hausastaðaskóli og húsagarður umhverfis hann eru minjar skóla, þess fyrsta hérlendis fyrir fátæk alþýðubörn. Til beggja þessara minja sést enn. Skólinn var rekinn á árunum 1791-1812 og átti að hýsa 12 börn af báðum kynjum í heimavist. Þar fór fram kennsla í lestri og guðsorði ásamt garðrækt og fleiri greinum. Áþreifanleg ummerki skólahalds varðveitast sjaldan sem gerir þessar minjar enn merkilegri. Hausastaðaskóli hefur því mikið varðveislu-, og rannsóknargildi auk þess sem sögulegt gildi hans er talsvert. Svæðið býður upp á mikla möguleika til fræðslu fyrir almenning.

Garðahverfi

Garðatúngarður.

7. Garðatúngarður sem og Garðahverfið allt er einn af merkilegustu minjastöðum Garðabæjar. Garðatúngarður liggur þvert fyrir ofan Garðahverfið ásamt því að aðgreina byggðina frá nytjalandi. Garðatúngarður var hlaðinn á seinni hluta 18. aldar og þá voru fjarlægðir aðrir garðar sem voru þar fyrir. Það voru líklega varnargarðar um akurreiti. Garðahverfi er einstakt dæmi um menningarlandslag sem sýnir byggðaþróun allt frá landnámi til okkar tíma. Býlin þar eru svo þétt að tala mætti um vísi að litlu þorpi sem girt var af með garðlögum. Varnargarður lá meðfram sjávarsíðunni og hlið á honum niður að naustum og vörum. Hlið voru á Garðatúngarði og leiðir til býlanna lágu þar í gegnum og stjórnuðu samgöngum um hverfið. Staðurinn hefur í heild sinni mikið varðveislu- og rannsóknargildi sem auðvelt að er kynna almenningi. Þar eru m.a. merkilegar minjar um búsetu, sjósókn, búskap, samgöngur og skólahald. Á svæðinu mætti kynna fleiri minjastaði en nú er gert með tiltölulega litlum tilkostnaði, t.d. með því að setja upp skilti á helstu bæjarstæðum og öðrum áhugaverðum stöðum ásamt því að skipuleggja og merkja gönguleiðir.

8. Hofhóll. Hóllinn er grasivaxinn öskuhaugur, líklega frá Hofstöðum. Jónas Hallgrímsson gróf í hólinn á 19. öld og sagði þetta vera öskuhaug. Hóllinn er á opnu, grænu svæði sem haldist hefur óraskað innan þéttbýlisins hingað til. Hóllinn hefur varðveislu- og rannsóknargildi enda eini minjastaður sinnar tegundar sem þekktur er innan Garðabæjar.

Hausastaðir

Hausastaðir. Bæjarstæði Hausastaða og Katrínarkots.

9. Katrínarkotsbúð er sjóbúð og ein af fáum áþreifanlegum minjum sem varðveist hafa um sjósókn í Garðabæ. Einungis ritaðar heimildir og túnakort bera flestum hinna minjastaðanna vitni. Tóftir Katrínarkotsbúðar eru nálægt sjó og eru á svokölluðum Guðrúnarvelli í landi Hausastaða. Tóftirnar hafa mikið varðveislu- og rannsóknargildi.

Garðahverfi

Móakot – bæjarhóll.

10. Bæjarhólar og bæjarstæði. Þrátt fyrir þéttbýli í Garðabæ hafa varðveist fjölmörg bæjarstæði og –hólar á svæðinu. Þeim hefur ekki verið raskað að ráði og eru slíkir staðir einna mikilvægustu minjastaðirnir. Í allt voru skráðir rúmlega 50 bæjarhólar eða býli og sjást bæjarhólar um 40 þeirra ennþá. Þeir geyma mikinn fróðleik um fortíðina sem er ómetanlegt fyrir sögu Garðabæjar og þróun byggðar þar. Þessir staðir hafa því allir mikið varðveislu- og rannsóknar- og kynningargildi.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Garðabæ 2009.

Garðar

Garðar og nágrenni – örnefni. ÓSÁ.