Kaldársel

Kaldársel og nágrenni (samantekt Ómar Smára Ármannssonar – úr “Sögu Hafnarfjarðar”, handskrifuðum Minningum Sigurðar Þorleifssonar og handriti Gísla Sigurðssonar á Bókasafni Hafnarfjarðar).

Kaldárssel

Kaldárssel 1882 – ljósm: Daniel Bruun.

Gamli bærinn í Kaldárseli stóð á túnblettinum, sem núverandi hús stendur á, þ.e. á móts við miðju þess er snýr að árbakkanum. Áður tilheyrði landið Garðakirkju og hafði hún þar í seli fram til ársins 1836. Frá árinu 1873 hafði Hvaleyri þar leigusel. Sel Garða voru flest í Selgjá vestan Búrfellsgjár. Enn sjást þar tóttir selja með hraunbarminum beggja vegna, einkum að sunnanverðu, svo og fallegir fjárhellar, bæði í gjánni og efst í Urriðavatnshrauni. Hafnarfjarðarbær keypti árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi og Kaldársel þar með.
Elsta heimild um Kaldársel er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar sem heitir Hvaleyrarsel suður af Hvaleyrarvatni í Selshöfða, auk selstöðvar í Kaldárseli.
Aðrir munu ekki hafa nýtt það sel. Þegar Hvaleyrarbóndi hætti selförum að Kaldárseli lagðist selstöð þar niður með öllu, annað hvort 1865 eða 1866.

Kaldársel

Teikning Daniel Bruun af Borgarstandi í Kaldárseli.

Í húsvitjunarbók Garðaprestakalls má sjá að árið 1867 er kominn ábúandi í Kaldársel. Hann hét Jón Jónsson, en hann var þar stutt. Eftir það lagðist búskapur niður um nokkur ár.

Selgjá

Selgjárhellir. Einnig nefndur Þorsteinshellir.

Árið 1876 kom þangað Þorsteinn Þorsteinsson eða Þorsteinn í Selinu, eins og hann var jafnan nefndur. Enn er efst í Heiðmörkinni fallegur fjárhellir, Þorsteinshellir, sem lengi var talinn týndur. Þorsteinn var nokkuð sérkennilegur í háttum. Á hans tíma voru í Kaldárseli nokkar byggingar, matjurtargarður, sem lá frá bænum niður að ánni mót suðri og vörslugarður. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð. Í því var baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Tætturnar voru allar vel hlaðnar úr sléttum og þykkum hraunhellum, en hvergi mold eða torf á milli, svo sem venja var.

Kaldársel

Húsin í Kaldárseli – Daniel Bruun.

Jón Guðmundsson á Setbergi keypti húsin í Kaldárseli sem og kindur. Þau voru öll rifin, nema baðstofan, sem stóð uppi fram undir aldamót. Hún var ein notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá heldu fé sínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högum. Einnig var gott fyrir Krýsvíkinga að hafa þarna afdrep á ferðum sínum. Haustleitarmenn Grindvíkinga leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárseli. Þá var mikil umferð útlendra ferðamanna til Krýsuvíkur, einkum til að skoða hinar nýyfirgefnu brennisteinsnámur, sem þar voru. Þeir gistu margir í Kaldárseli. Baðstofan bar þess merki. Í sperrur og súð voru skorin ófá mannanöfn af ýmsum þjóðernum.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Að liðnum aldamótum 1900 var ekkert hús lengur í Kaldárseli. Ferðum útlendinga fækkaði, Krýsvíkingar týndu ört tölunni, fjallleitir Grindjána styttust og hið stóra Setbergsheimili tvístraðist. Og fénaðurinn hvarf úr högunum.

Kaldársel

Heykuml við Kaldársel.

Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Þorláksson Kaldársel til afnota, síðar stórbóndi í Stakkavík. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir sínar 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Ekki hafði hann not af gömlu tóttunum að öðru leyti en því að hann gat nýtt úr þeim hraunhellurnar, sem hann gerði af miklum dugnaði. Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna. Ærnar hafði hann við gömlu hellana, sem eru skammt norður af Selinu. Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun þar sem honum bauðst vist. Hann var því síðasti bóndinn í Kaldárseli.

Kaldársel

Uppdráttur af húsum í Kaldársseli í lok 19. aldar – Daniel Bruun.

Eins og sjá má á uppdrættinum er margt að skoða í nágrenni við Kaldársel. Vestan við Kaldá, fast við árbakkann, eru letursteinar frá upphafi veru KFUM og K á staðnum. Efst á Borgarstandi er fjárborgin og undir honum að norðanverðu eru tóttir gamals stekkjar og fjárhýsins. Enn norðar eru hleðslur í Nátthaganum. Austan hans eru fjárhellarnir og hleðslurnar í kringum op þeirra. Í einum hellanna er hlaðinn garður eftir honum miðjum.

Kaldársel

Kaldársel – fjárskjól.

Stærsti hellirinn er sá syðsti. Í honum er gott rými. Vatnsleiðslan gamla er austan Kaaldárselsvegar og er forvitnilegt að sjá hvar hún hefur komið yfirl Lambagjá, en í gjánni er mikil hleðsla undir hana. Sú hleðsla mun hafa að nokkru leiti hafa verið tekin úr austari fjárborginni á Borgarstandi. Í Gjám enn norðar eru hellar, hleðslur og hellisop. Austan við gamla veginn að Kaldárseli má enn sjá elstu götuna til og frá selinu, klappaða í bergið. Enn vestar, austan Fremstahöfða, er hálfhlaðið hús, líkt því sem sjá má á gömlum ljósmyndum Daniel Bruun frá 1892, að gamla selið í Kaldárseli hefur litið út.

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.