Færslur

Kaldársel

Á vef Umhverfisstofnunar má lesa eftirfarndi um friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjárna, þ.m.t. Lambagjá.

Kaldársel

Kaldárhraun – Gjár.

Kaldárhraun og Gjárnar í Hafnarfirði voru friðlýst sem náttúruvætti árið 2009. Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna er að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.

Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar. Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur.

Stærð hins friðlýsta svæðis er 208,9 ha.

Í auglýsingu um “náttúruvættið Kaldárhraun og Gjárnar í upplandi Hafnarfjarðar” – nr. 396/2009 3. apríl 2009, segir:

1. gr.

Kaldársel

Gjár.

Um friðlýsinguna.
Umhverfisráðherra hefur ákveðið að tillögu Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands og með samþykki bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar, sem landeiganda og sveitarstjórnar, að friðlýsa Kaldárhraun og Gjárnar, þ.e. Norðurgjá, Suðurgjá og Lambagjá, sem náttúruvætti, skv. 2. tölulið 53. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.
Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar. Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur. Stærð hins friðlýsta svæðis er 207,1 hektari.

2. gr.

Lambagjá

Hleðslur undir vatnsleiðsluna um Lambagjá frá 1919.

Markmið friðlýsingarinnar.
Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna sem náttúruvættis er að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.

3. gr.
Mörk náttúruvættisins.
Mörk náttúruvættisins afmarkast af eftirfarandi ISN-93 hnitum og eru sýnd á meðfylgjandi uppdrætti.
Lóð frístundahúss sem er innan útmarka náttúruvættisins er undanskilin friðlýsingunni.

4. gr.

Lambagjá

Lambagjá.

Umsjón náttúruvættisins.
Umsjón og rekstur náttúruvættisins skal vera í höndum umhverfisnefndar Hafnarfjarðarkaupstaðar, samkvæmt samningi Umhverfisstofnunar og Hafnarfjarðarkaupstaðar sem
umhverfisráðherra staðfestir. Umhverfisstofnun skal sjá um gerð verndaráætlunar fyrir náttúruvættið í samráði við Hafnarfjarðarkaupstað, sbr. d-lið 6. gr. laga um náttúruvernd, nr.
44/1999.

5. gr.
KaldárhraunUmferð um náttúruvættið.
Almenningi er heimil för um náttúruvættið, enda sé gætt góðrar umgengni. Í samræmi við samþykkt um hundahald er óheimilt að hafa hunda í náttúruvættinu án fylgdar og tryggrar stjórnar. Akstur vélknúinna farartækja utan akvega er óheimill í náttúruvættinu.

6. gr.
Verndun jarðmyndana, gróðurs, dýralífs og menningarminja.
Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt jarðmyndanir í náttúruvættinu. Einnig er þar óheimilt að spilla gróðri og trufla dýralíf og eru skotveiðar bannaðar. Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt menningarminjar á hinu friðlýsta svæði.

7. gr.

Kaldárhraun

Kaldárhraun – friðlýsing.

Landnotkun og mannvirkjagerð.
Allar framkvæmdir innan náttúruvættisins eru háðar leyfi Hafnarfjarðarkaupstaðar og Umhverfisstofnunar, sbr. 38. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Framkvæmdir skulu vera í samræmi við samþykkt skipulag og verndaráætlun. Gert er ráð fyrir að gömlum stígum og vegum verði viðhaldið sem gönguleiðum og einnig að fjölga merktum og stikuðum gönguleiðum og stígum um svæðið sem tengst geta öðrum gönguleiðum um uppland Hafnarfjarðar.

8. gr.

Kaldársel

Kaldárhraun og nágrenni – loftmynd.

Undanþágur.
Umhverfisráðherra getur, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og umhverfisnefndar Hafnarfjarðarkaupstaðar, veitt heimild til þess að vikið verði frá reglum þessum í einstökum
tilfellum gangi það ekki gegn markmiðum friðlýsingarinnar.

9. gr.
Refsiákvæði.
Brot gegn friðlýsingu þessari varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, skv. 75. og 76. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

10. gr.
Gildistaka.
Friðlýsingin öðlast þegar gildi.
Umhverfisráðuneytinu, 3. apríl 2009.
Kolbrún Halldórsdóttir.
Steinunn Fjóla Sigurðardóttir

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg á Borgarstandi.

Í Skrá um friðlýstar fornleifar, fyrsta útgáfa 1990, segir m.a. um minjar á hinu friðlýsa svæði: “Kaldársel. 1. Bæjarrústir, rétt sunnan við skála KFUM, svo og aðrar rústir í hinu gamla túni. 2. Fjárborg, nú hrunin, þar sem hæst ber á svonefndum Standi, skammt fyrir norðan bæjarrústirnar.
3. Fjárhústóft og gerði, rétt hjá borginni, þeim megin sem frá bæjarrústunum veit. 4. Hleðsla undir gamla vatnsveitustokkinn til Hafnarfjarðar, þvert yfir gjá. Skjal undirritað af KE 30.04.1964.
Þinglýst 05.05.1964.

Heimild:
-https://ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/fridlyst-svaedi/sudvesturland/kaldarhraun-og-gjarnar/
-Skrá um friðlýstar fornleifar, fyrsta útgáfa 1990.

Kaldárhraun

Kaldárhraun – samningur um náttúruvættið milli Ríkis og Hafnarfjarðarbæjar til 10 ára.

Búrfell
Gengið var um Lambagjá, en hún hefur verið friðuð. Með í för voru skiptinemar á vegum Lionshreyfingarinnar, annar frá Króatíu og hinn frá Slóvaníu.
Rauðshellir

Rauðshellir.

Ætlunin var m.a. að gefa þeim innsýn í myndun landsins og sýna þeim hrauntraðir, hraunhella og eldgíga.
Í Lambagjá eru hlaðnar þverfyrirhleðslur á a.m.k. tveimur stöðum og einnig er hlaðið fyrir þar sem auðvelt hefur verið að komast upp úr gjánni miðsvæðis. Líklegt má telja að gjáin hafi verið notuð sem aðhald eða jafnvel nátthagi um tíma. Hraunhaft er í hrauntröðinni, en gengið var undir það. Þar niðri var fallegt þrastarhreiður og í því þrjú egg. Þrösturinn hafði greinilega verpt í það öðru sinni í sumar. Skammt ofar var annað þrastarhreiður, yfirgefið. Gengið var áfram upp að opi Níutíumetrahellis. Frá því var haldið upp að Selvogsgötu þar sem hún liggur niður í Helgadal og kíkt í Vatnshelli áður en haldið var upp með misgenginu að Rauðshelli. Við op hans var einnig þrastarhreiður á sillu með fjórum eggjum í.

Rauðshellir

Hleðslur í Rauðshelli.

Farið var inn í hellinn og m.a. skoðuð hlaðin fyrirhleðsla, sem þar er. Misvísandi lýsingar eru á Rauðshelli. Til er gömul lýsing, sem mun vera rétt, en einnig hefur verið giskað á að um Hundraðmetrahellinn gæti verið að ræða, en slíkt passar ekki við gömlu lýsinguna. Náttúrulegur bekkur hefur verið þarna þvert yfir hellinn, sem bæði hefur verið hægt að komast yfir og undir. Hún er nú fallin, en rauður liturinn í hellinum er enn áberandi. Hleðslur eru í jarðfallinu og án efa einnig undir gróðurþekjunni, sem þar er. Forn stekkur er skammt norðar.
Þá var gengið upp í Fosshelli og haldið í gegnum hann. Sást vel hversu fallegur hraunfossinn er sem og flórinn í efri hluta hellisins.

Búrfellsgjá

Hlaðið fyrir helli í Búrfellsgjá.

Gengið var yfir að Búrfelli. Í hrauntröðinni er m.a. skúti með fyrirhleðslu. Haldið var upp eftir tröðinni og litið niður í gíginn, sem er ótrúlega tilkomumikill. Háir veggir traðarinnar geyma ótrúlegar hraunmyndarnir, ef vel er að gáð.
Búrfell er eldborg. Frá henni rann hraun niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð. Heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára.
Búrfellið tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krísuvík. Búrfell er hringlaga gígur úr hraunkleprum. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.
Búrfellshraun er innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun.

Búrfellshraun

Búrfellshraunin.

Búrfellið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum.
Sá hraunstraumur sem runnið hefur í Heiðmörk og niður í Garðabæ hefur runnið eftir Búrfellsgjá. Búrfellsgjá þykir með fallegri hrauntröðum landsins. Gjáin er 3,5 km á lengd með meginstefnu í norðvestur. Búrfellsgjá er mjóst upp við gíginn eða um 20-30 metrar milli barma en breikkar þegar lengra dregur og verður mest 300 metrar. Í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð grynnkar hrauntröðin og hverfur, sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Á köflum eru gjárveggirnir þverhníptir og mynda sums staðar grunna hellisskúta sem eru með snarhöllu þaki. Barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar er allt úr Búrfellshrauni.

Búrfellsrétt

Búrfellsrétt. Gerðið fjær.

Gengið var niður gjána og að Gjáarrétt. Réttin var skoðuð sem og Gerðið. Innst í því, undir slútandi klettaveggnum er hlaðið hús, nokkuð heillegt.

Gjáarrétt

Gjáarrétt og nágrenni.

Gjáarrétt hefur sennilega verið lögrétt Garðhreppinga, Bessataðahreppsbúa og Hafnfirðinga í nokkur hundruð ár (Ól. Þorvaldsson). Sigurður í Görðunum segir í minningum sínum: “Réttin okkar var í hrauninu, skammt fyrir sunnan Vatnsenda. Hygg ég, að það hafi verið ein sérkennilegasta rétt á landinu. Hún hét Gjárétt, enda var hún í gjá. Skammt frá eru víðir og fagrir vellir og þar var oft leikið sér og ekki sízt sprett úr spori bæði þegar komið var í réttina og eins þegar réttardeginum var lokið.”

Gjáarrétt

Gjáarrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Gjáarrétt (Gjárétt) var fjallskilarétt (lögrétt) til 1920, en þá var hún flutt niður í Gráhelluhraun og nefndist Hraunrétt. Dilkar voru 12 talsins uns einum dilk Selvogsmanna var bætt við suðaustast í réttinni. Árið 1955 var gerð rétt við Kaldársel. Gjáarrétt var friðlýst að tilstuðlan þjóðminjavarðar 1964.
Frábært veður – hlýtt og stillt. Gangan tók 3 klst og 30 mín.

Upplýsingar um Búrfellshraun er m.a. fengið af http://www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/burfellshraun.htm

Búrfell

Gígur Búrfells – upptök Búrfellshrauns.

Rauðshellir

Ákveðið var að að taka hellahring í Kaldárseli.

Kétshellir

Ketshellir / Setbergsselsfjárhellir.

Byrjað var á að kíkja á Hamarkotsselshelli (Selhellir) og Setbergsselshelli (Ketshellir) undir Setbergshlíð. Hellirinn er um 15 metra langur og opnast í báða enda. Hleðslur eru fyrir opum, einkum Setbergsselshellismegin. Þverhleðsla skiptir hellinum fyrir miðju. Stórar hraunhellur hafa fallið úr þaki inngangsins að norðanverðu, en hellirinn sjálfur hefur veitt fé (og reyndar geitumundir það síðasta, gott skjól á meðan var. Gróið er í kringum Setbergsselið og fallegur stekkur er þar sem Selvogsgatan liðast upp hálsinn, í átt að Kershelli og Smyrlabúðahrauni. Selið er undir hæðinni, utan í Gráhelluhrauninu, en innan við hraunkantinn er enn eitt hellisopið.

Kershellir

Kershellir.

Kershellir er bæði aðgengilegur og rúmgóður. Hann opnast innan úr keri efst á hraunbrún. Ofan við opið er stór varða. Innan úr Kershelli er Hvatshellir, sá sem drengir Friðiks Friðrikssonar söfnuðust saman í á leið þeirra í Kaldársel. Síðar var lagður vegur að búðum KFUM er reistar voru þar. Gamla Kaldársel er undir suðurvegg búðanna (hússins).
Þá voru skoðaðir Kaldárselsfjárhellarnir er FERLIR opnaði fyrir u.þ.b. þremur árum. Þá voru engin spor við munnana og alls engin innan þeirra. Greinilegt er að margir hafa litið þarna við síðan þá.

Helgadalur

Helgadalur – stekkur.

Ummerki eftir heykuml er miðsvæðis, en í nyrsta fjárskjólinu er hlaðinn miðgarður. Syðsta fjárskjólið er stærst og aðgengilegast. Við munnann hafði þröstur verpt fjórum eggjum í hreiður á syllu við innganginn. Fylgdist hann vel með mannaferðum og lét í sér heyra.
Lokst var strikið tekið til austurs áleiðis að Helgadalshellunum; Hundraðmetrahelli og Rauðshelli. Gengið var eftir hleðslunni undir gömlu vatnsleiðsluna úr Kaldárbotnum, henni fylgt áleiðis til suðausturs yfir Lambagjá og síðan vent til austurs að Helgadal. Greinilegt var að einhverjir hafa verið duglegir að hirða grjót úr hleðslunni á köflum. Á leiðinni mátti sjá falleg hraunreipi í helluhrauninu. Ekki var litið inn í Níutíumetrahellinn að þessu sinn, en höfðinu hins vegarstungið niður í Vatnshelli. heyra mátti tónlist vatnsins er dropar þess lentu á sléttum tærum vatnsfletinum og bergmáluðu inni í holrúminu.

Rauðshellir

Rauðshellir.

Þegar komið var að Rauðshelli skein sólin á munnann og hleðslurnar þar fyrir. Einhverjir hafa í seinni tíð nefnt hellinn Pólverjahelli, en þegar hann er skoðaður gaumgæfilega fer hin gamla nafngift ekki á milli mála. Víða í hellinum hefur rauðleitt hraunið runnið upp á veggina og makað hann litskrúðugan. Hleðslurnar fyrir opum og gróið jarðfallið benda til þess að þarna hafi einhvern tímann verið selstaða. Þá staðfestir forn stekkur norðan við það þá kenningu. Misgengi liggur með norðanverðum Helgadal til austurs og vesturs. Undir því á einum stað sést móta fyrir hleðslum.

Helgadalur

Op Hundraðmetrahellisins.

Farið var inn í Hundarmetrahellinn og skoðaðir raunbekkirnir með veggum og einnig litið á hraunfossinn inn undir jarðfallinu við enda hans. Ofan við hraunfossin er rás upp úr hrauninu sunnan við og undir sauðfjárveikigirðinguna, sem þarna er.
Helgafell skartaði sínu fegursta í kvöldsólinni, sem og Valahnúkar og Kaldárbotnar.

Frábært veður.

Helgadalur

Hleðslur í Rauðshelli.

Kaldársel

Gengið var frá húsi K.F.U.M. og K. Ætlunin var að ganga til suðurs að Kaldá, þar sem hún rennur neðan við húsið, og yfir göngubrú, sem þar er á henni með stefnu eftir Kúastígnum að Kýrgili.

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.

Kaldá rennur þar á mótum tveggja hrauna. Annað hraunið rann úr suðri um 1151, en hitt rann úr Búrfelli löngu fyrr eða fyrir u.þ.b. 4750 árum, norðaustan af Kaldárseli. Tóftir selsins voru nokkurn veginn þar sem viðbygging Kaldársels er nú svo og sunnan hennar, ofan árbakkann. Þar má enn sjá móta fyrir garðhleðslum. Sunnan árinnar, á hægri hönd þegar farið er yfir Kaldá, má einnig og sjá tótt á árbakkanum. Eftir stutta göngu að girðingu framundan er komið inn á hluta gömlu Krýsuvíkurleiðanna; Dalaleiðar er lá upp um Kýrgil og áfram til suðurs austan Undirhlíða, og Undirhlíðarvegar er lá áfram til suðurs vestan Undirhlíða, allt að Ketilsstíg yfir Sveifluháls. Sameiginlegi hlutinn er augljós í Kaldárhrauninu og auðvelt að fylgja honum í átt að Kaldárselshnjúkum. Við hnjúkana greindist Krýsuvíkurvegurinn, sem fyrr segir, annar lá upp fyrir Undirhlíðar, Dalaleiðin, og hinn út með Hlíðunum.

Kaldársel

Kaldárssel; hús KFUM og selsrústirnar.

Gamli bærinn í Kaldárseli stóð á túnblettinum, sem núverandi hús stendur á, þ.e. suðaustan við eldra húsið, á móts við miðju þess nýrra er snýr að árbakkanum. Áður tilheyrði landið Garðakirkju og hafði hún þar í seli fram til ársins 1836. Frá árinu 1873 hafði Hvaley þar leigusel. Sel Garða voru flest í Selgjá vestan Búrfellsgjár. Enn sjást þar tóttir selja með hraunbarminum beggja vegna, einkum að sunnanverðu, svo og fallegir fjárhellar, bæði í gjánni og efst í Urriðavatnshrauni. Hafnarfjarðarbær keypti árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi, Kaldársel þar með.

Kaldársel

Tóftir Kaldársels framan við núverandi hús.

Elsta heimild um Kaldársel er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar segir að Hvaleyri eigi selstöð þar sem heitir Hvaleyrarsel suður af Hvaleyrarvatni í Selshöfða, auk selstöðvar í Kaldárseli. Aðrir munu ekki hafa nýtt það sel. Þegar Hvaleyrarbóndi hætti selförum að Kaldárseli lagðist selstöð þar niður með öllu, annað hvort 1865 eða 1866.

Í húsvitjunarbók Garða má sjá að árið 1867 er kominn ábúandi í Kaldársel. Hann hét Jón Jónsson, en hann var þar stutt. Eftir það lagðist búskapur niður um nokkur ár.

Selgjá

Selgjárhellir. Einnig nefndur Þorsteinshellir.

Árið 1876 kom þangað Þorsteinn Þorsteinsson eða Þorsteinn í Selinu, eins og hann var jafnan nefndur. Enn er efst í Heiðmörkinni fallegur fjárhellir, Þorsteinshellir, sem lengi var talinn týndur. Þorsteinn var nokkuð sérkennilegur í háttum. Á hans tíma voru í Kaldárseli nokkar byggingar, matjurtargarður, sem lá frá bænum niður að ánni mót suðri og vörslugarður. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð. Í því var baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Tætturnar voru allar vel hlaðnar úr sléttum og þykkum hraunhellum, en hvergi mold eða torf á milli, svo sem venja var.

 

Kaldársel

Tóft vestan við núverandi hús í Kaldárseli.

Jón Guðmundsson á Setbergi keypti húsin í Kaldárseli sem og kindur. Þau voru öll rifin, nema baðstofan, sem stóð uppi fram undir aldamót. Hún var einkum notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá fengu þar afdrep á ferðum sínum.  Haustleitarmenn Grindvíkinga leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárselisínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högum. Einnig var gott fyrir Krýsvíkinga að hafa þarna afdrep. Þá var mikil umferð útlendra ferðamanna til Krýsuvíkur, einkum til að skoða hinar nýyfirgefnu brennisteinsnámur, sem þar voru. Þeir gistu margir í Kaldárseli. Baðstofan bar þess merki. Í sperrur og súð voru skorin ófá mannanöfn af ýmsum þjóðernum.

Kaldársel

Kaldársel – fyrsti skáli K.F.U.M. Kaldársel sést aftan við húsið.

Að liðnum aldamótum 1900 var ekkert hús lengur í Kaldárseli. Ferðum útlendinga fækkaði, Krýsvíkingar týndu ört tölunni, fjallleitir Grindjána styttust og hið stóra Setbergsheimili tvístraðist. Og fénaðurinn hvarf úr högunum.
Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Þorláksson Kaldársel til afnota, síðar stórbóndi í Stakkavík. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir sínar 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Ekki hafði hann not af gömlu tóttunum að öðru leyti en því að hann gat nýtt úr þeim hraunhellurnar, sem hann gerði af miklum dugnaði. Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna.

Kaldársel

Kaldársel – fjárskjól.

Ærnar hafði hann við gömlu hellana, sem eru skammt norður af Selinu. Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun þar sem honum bauðst vist. Hann var því síðasti bóndinn í Kaldárseli.
Framundan eru Kaldárhnjúkar Syðri. Hlíðin á vinstri hönd og hraunið á þá hægri. Eftir stutta göngu er gengið framhjá Kúadal, en talið er að selssmalinn hafi rölt kvölds og morgna um þessa sömu götutroðninga með kýr úr og í haga. Vestan Kúadals taka Undirhlíðarnar við. Gengið er framhjá Kýrskarði og áfram útfyrir Múla á hægri hönd. Þar á horninu er hellisskúti er nefnist Árnahellir, kenndur við Árna Gíslason í Brekkubæ í Hafnarfirði.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg; ljósmynd Daniels Bruun.

Með Hlíðunum eru tré, sem plantað var af Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, sum fyrir áratugum síðan. Þar er minnisvarði um fyrsta formann Skógfræktarfélagsins, Ingvar Gunnarsson. Afturhlíðar Undirhlíða heita Bakhlíðar eða Gvendarselshæð. Þar er Gvendarsel vestan í hlíðinni. Sjást tóttir selsins og hlaðinn stekkur framan þess.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Framundan undir Hlíðunum, sem áður nefndust Gvendarselshlíðar, eru Kerin. Þau eru fallegir tvíburagígar. Hægt er að ganga upp í efri gíginn úr þeim neðri um gat á milli þeirra, en þar uppi er tilvalinn, skjólgóður, áningastaður.
Sjá meira um Kaldársel HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR. Og er þá um fátt getið…
Frábært veður.

Kaldársel

Teikning Daniels Bruun af baðstofunni í Kaldárseli.

 

Kaldársel

Kaldársel og nágrenni (samantekt Ómar Smára Ármannssonar – úr “Sögu Hafnarfjarðar”, handskrifuðum Minningum Sigurðar Þorleifssonar og handriti Gísla Sigurðssonar á Bókasafni Hafnarfjarðar).

Kaldárssel

Kaldárssel 1882 – ljósm: Daniel Bruun.

Gamli bærinn í Kaldárseli stóð á túnblettinum, sem núverandi hús stendur á, þ.e. á móts við miðju þess er snýr að árbakkanum. Áður tilheyrði landið Garðakirkju og hafði hún þar í seli fram til ársins 1836. Frá árinu 1873 hafði Hvaleyri þar leigusel. Sel Garða voru flest í Selgjá vestan Búrfellsgjár. Enn sjást þar tóttir selja með hraunbarminum beggja vegna, einkum að sunnanverðu, svo og fallegir fjárhellar, bæði í gjánni og efst í Urriðavatnshrauni. Hafnarfjarðarbær keypti árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi og Kaldársel þar með.
Elsta heimild um Kaldársel er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar sem heitir Hvaleyrarsel suður af Hvaleyrarvatni í Selshöfða, auk selstöðvar í Kaldárseli.
Aðrir munu ekki hafa nýtt það sel. Þegar Hvaleyrarbóndi hætti selförum að Kaldárseli lagðist selstöð þar niður með öllu, annað hvort 1865 eða 1866.

Kaldársel

Teikning Daniel Bruun af Borgarstandi í Kaldárseli.

Í húsvitjunarbók Garðaprestakalls má sjá að árið 1867 er kominn ábúandi í Kaldársel. Hann hét Jón Jónsson, en hann var þar stutt. Eftir það lagðist búskapur niður um nokkur ár.

Selgjá

Selgjárhellir. Einnig nefndur Þorsteinshellir.

Árið 1876 kom þangað Þorsteinn Þorsteinsson eða Þorsteinn í Selinu, eins og hann var jafnan nefndur. Enn er efst í Heiðmörkinni fallegur fjárhellir, Þorsteinshellir, sem lengi var talinn týndur. Þorsteinn var nokkuð sérkennilegur í háttum. Á hans tíma voru í Kaldárseli nokkar byggingar, matjurtargarður, sem lá frá bænum niður að ánni mót suðri og vörslugarður. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð. Í því var baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Tætturnar voru allar vel hlaðnar úr sléttum og þykkum hraunhellum, en hvergi mold eða torf á milli, svo sem venja var.

Kaldársel

Húsin í Kaldárseli – Daniel Bruun.

Jón Guðmundsson á Setbergi keypti húsin í Kaldárseli sem og kindur. Þau voru öll rifin, nema baðstofan, sem stóð uppi fram undir aldamót. Hún var ein notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá heldu fé sínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högum. Einnig var gott fyrir Krýsvíkinga að hafa þarna afdrep á ferðum sínum. Haustleitarmenn Grindvíkinga leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárseli. Þá var mikil umferð útlendra ferðamanna til Krýsuvíkur, einkum til að skoða hinar nýyfirgefnu brennisteinsnámur, sem þar voru. Þeir gistu margir í Kaldárseli. Baðstofan bar þess merki. Í sperrur og súð voru skorin ófá mannanöfn af ýmsum þjóðernum.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Að liðnum aldamótum 1900 var ekkert hús lengur í Kaldárseli. Ferðum útlendinga fækkaði, Krýsvíkingar týndu ört tölunni, fjallleitir Grindjána styttust og hið stóra Setbergsheimili tvístraðist. Og fénaðurinn hvarf úr högunum.

Kaldársel

Heykuml við Kaldársel.

Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Þorláksson Kaldársel til afnota, síðar stórbóndi í Stakkavík. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir sínar 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Ekki hafði hann not af gömlu tóttunum að öðru leyti en því að hann gat nýtt úr þeim hraunhellurnar, sem hann gerði af miklum dugnaði. Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna. Ærnar hafði hann við gömlu hellana, sem eru skammt norður af Selinu. Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun þar sem honum bauðst vist. Hann var því síðasti bóndinn í Kaldárseli.

Kaldársel

Uppdráttur af húsum í Kaldársseli í lok 19. aldar – Daniel Bruun.

Eins og sjá má á uppdrættinum er margt að skoða í nágrenni við Kaldársel. Vestan við Kaldá, fast við árbakkann, eru letursteinar frá upphafi veru KFUM og K á staðnum. Efst á Borgarstandi er fjárborgin og undir honum að norðanverðu eru tóttir gamals stekkjar og fjárhýsins. Enn norðar eru hleðslur í Nátthaganum. Austan hans eru fjárhellarnir og hleðslurnar í kringum op þeirra. Í einum hellanna er hlaðinn garður eftir honum miðjum.

Kaldársel

Kaldársel – fjárskjól.

Stærsti hellirinn er sá syðsti. Í honum er gott rými. Vatnsleiðslan gamla er austan Kaaldárselsvegar og er forvitnilegt að sjá hvar hún hefur komið yfirl Lambagjá, en í gjánni er mikil hleðsla undir hana. Sú hleðsla mun hafa að nokkru leiti hafa verið tekin úr austari fjárborginni á Borgarstandi. Í Gjám enn norðar eru hellar, hleðslur og hellisop. Austan við gamla veginn að Kaldárseli má enn sjá elstu götuna til og frá selinu, klappaða í bergið. Enn vestar, austan Fremstahöfða, er hálfhlaðið hús, líkt því sem sjá má á gömlum ljósmyndum Daniel Bruun frá 1892, að gamla selið í Kaldárseli hefur litið út.

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.

Vífilsstaðasel

Sel í landi Garðabæjar (Úr bókinni “Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar”).

Sel í Selgjá

Sel í Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Í bókinni Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar er m.a. fjallað um selin í Selgjá, Vífilstaðasel, Setbergssel, Kaldársel og Hraunsholtssel.
“Selgjá (Norðurhellragjá, Norðurhellnagjá, Norðurhellagjá) er í Urriðakotshrauni. Selgjárhellir er vestast í norðurbrún gjárinnar… ”….nokkuð breið gjá er í hrauninu, sem er framhald af Búrfellsgjá. Þetta er Selgjá (Norðurhellragjá). Í Selgjá eru margar vallgrónar seljarústir, sem flestar eru fremur smáar í sniðum og minni en t.d. Vífilstaðasel. Rústirnar standa flestar þétt við barma gjárinnar beggja vegna, en aðrar eru dálítið fjær. Selstaða þessi er nefnd í Jarðabók 1703 og virðast samkvæmt henni átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli.
Athyglisvert er, að ávallt er rætt um selstöðu þarna í þátíð og jafnvel þannig, að hún virðist að því komin að falla í gleymsku”.
Seljabúskapur var að heita má algjörlega horfinn um aldamótin. Hér á landi hefur endanlegt hvarf seljabúskapar verið sett í samband við að fráfærur lögðust af enda voru það fyrst og fremst ær sem hafðar voru í seljum. Kýrnar skipti minna máli. Eyðing skóga hefur einng átt þátt í samdrætti seljabúskapar vegna þess að eldiviður var forsenda þess að hægt væri að hafa í seli (sjá Hitzler 1979).

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Búsmalinn var hafður í seli á sumrum frá fráfærum til tvímánaðar. Þangað var farið með allan ásauð og stundum flestar kýrnar. Í selinu var jafan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskona), og ef fé var mjög margt hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir ví nótt og dag. Smalinn átti að sjá um að féð væri komið í kvíar á dagmálum og náttmálum til þess að það yrði mjaltað. Selin voru venjulega þrjú hús; mjólkurhús, selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Oft var og selið í beitarhúsum ef þau voru langt frá bæjum. Kvíar voru til að mjalta ærnar í og kofi handa kúm ef þær voru hafðar í selinu (Jónas Jónasson 1945: 60-62).

Selgjá

Sel í Selgjá.

Í Selgjá hafa talist 11 seljasamstæður sem allar eru byggðar upp við gjárbarmana, að minnsta kosti um tuttugu byrgi og 10 eða 11 litlar kvíar. Að því er virðist hefur verið erfitt um vatn í Norðurhellagjárseljum en vatn mun hafa verið sótt í Gjáaréttarvatnsgjá (Vatnsgjá).
Eftir gjánni liggur Norðurhellagjárstígurinn austur eftir gjánni. Þar í norðurbrún gjárinnar er steinn og á hann klappað B. Stígurinn liggur svo austur og upp úr gjánni sunan syðstu seljarústanna undir norðurbrún gjárinnar.

Urriðakotssystur gáfu upplýsingar um þetta, Vilborg og Guðbjörg, einnig eiginmaður Guðbjargar, Páll Kjartansson, en þau höfðu upplýsingar þessar frá föður Guðbjargar, Guðmundi Jónssyni, sem fæddur var og uppalinn í Urriðakoti og bjóð þar um 50 ára skeið.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Heiman frá Vífilstöðum lá Selstígurinn suður á Maríuflöt, suður með hraunjaðrinum, sneiddi sig upp Ljóskollulág, upp á háhálsinn og suður í lægðardragið þar sem Vífilstaðasel stóð. Nú er algengast að fylgja svokölluðum Línuvegi upp á Vífilstaðahlíð og þá blasa við rústir Vífilstaðasels með Selholt (Selshamar) að sunnan en Selás að norðan. Selkvíarnar eru uppi á Selásnum. Austan við Vífilstaðasel er lítill hóll, Selhóllinn. Gísli Sigurðsson hefur það eftir Sigrúnu Sigurðardóttir að gott hafi verið til beitar á sauðum niður um Grunnuvötn og suður á Hjallana.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Um selið segja Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson: “Suðaustanhallt í hvamminum og undir ás, er nefnist Selás, eru rústir af seli frá Vífilsstöðum, sem að öllum líkindum hefur verið meiri háttar og sennilega lengi notað. Rústirnar eru greinilegar miðað við margar aðar seljarústir, sem við höfum séð. Þetta virðist hafa verið venjulegt sel með þremur vistarverum (væntanlega svefnhús, eldhús, mjólkurhús). Sunnanvert við rústirnar eru tvær aðrar rústir (kvíar, stöðull?). Selið hefur verið tiltölulega stórt. Aðalrústin er þannig einir 50 m2 að utanmáli. Vífilsstaðasels er ekki getið í Jarðabók 1703”.
Guðrún P. Helgadóttir orti eftirfarandi um Sigrúnu Sigurðardóttur á Hofstöðum: “Hefur þú séð rústirnar – samgrónar landinu – sem mynda torfveggi – í hallandi brekku – og nefndar eru sel – Vífilsstaðasel.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Í Kaldárseli var selstaða frá Görðum. Í Jarðabók Árna og Páls segir í lýsingu Garða á Álftanesi: “Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott” (Jarðabók III:180). Ólafur Þorvaldsson hefur ritað um Kaldársel í minningum sínum (sjá Ólafur Þorvaldsson 1968:119-140). Byggð mun hafa verið stuttan tíma í Kaldárseli. Mikill skógur hefur verið á þessu svæði og var óspart á hann gengið, rifinn til kolagerðar og eldiviðar og ofan af honum slegið á vetrum til fóðurs. Búpeningur gekk þarna sumar og vetur og hellar hafðir til fjárgeymslu og skjóls fjármönnum. Hrískvöð var á öllum jörðum á Reykjanesi til Bessastaða og Viðeyjar.

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Síðar var hrískvöðinni breytt í fiskakvöð. Um Kaldársel segir Þorvaldur Thoroddsen: “Við Kaldá var áður sel frá Hvaleyri, sem kallað var Kadársel, og þar eru víða í hraununum í kring rústir af mörgum fjárbyrgjum. Sumarið 1883 bjó þar gamall, sérvitur einsetukarl, Þorsteinn Þorsteinsson (d:1887), sem áður hafði verið á Lækjarbotnum. Hann þekkti allvel fjöll og örnefni á þessum slóðum og fylgdi mér um nágrennið”.

Setbergssel

Setbergssel.

Hraunsholtssel var sunnan við Hádegishól Hraunsholts og einnig nefnt Hraunsholtshella. Selstígurinn lá sunnan við Brunann, fram hjá Hádegishól, að selinu (G.S.). G. Ben. sá enn votta fyrir selinu 1987. 16)
Setbergssel var í Ketshelli samkvæmt Jarðabók Árna og Páls. Gísli Sigurðsson, varðstjóri og útivistarfrömuður; lýsti mörgum leiðum í nágrenni við Hafnarfjörð. Í riti um Selvogsgötuna kemur hann m.a. við í tveimur seljum; “Í miðri brekkunni er landið grænna en annars staðar enda var hér í gamla daga Setbergssel eða Setbergsstekkur. Á hægri hönd er varða.

Setbergssel

Í Setbergsseli.

Gengið er niður að Setbergsseli. Komið er að helli, sem tilheyrði stekk þessum, það er að segja helmingur hans. Hinn helmingurinn tilheyrði Hamarskoti, og hét því Hamarskotssel. Hellirinn er hólfaður sundur í tvennt með allveglegum garði”.

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.

Hreiðrið

Haldið var að Kaldárseli. Hraunið, þar sem það er hæst, á milli vegarins með Sléttuhlíð og með Fremstahöfða, heitir Gjár. Vestarlega í því er Gjáahellir. Gengið var að honum. Opið er nokkuð rúmgott. Fyrir innan blasir við rúmgóð hraunrás. Hún lækkar svolítið eftir að komið er inn, en hækkar og vítkar síðan á ný, uns hún endar. Þessi hluti rásarinnar er um 15 metrar. Mold er í botninum og grjótið hefur verið lagað til innan við munnann. Líklegt er að hellir þessi hafi um tíma verið notaður sem fjárskjól. Tiltölulega stutt er í fjárhellana í Kaldárseli, en þeir eru þarna austan við. Hálfhlaðið fjárhús undir Fremstahöfða er einnig þarna skammt suðvestar.

Kaldársel

Gerði í Gjánum ofan Kaldárssels.

Beðið var í nátthaganum norðan Kaldársels uns Þórarinn Björnsson, guð- og hellafræðingur, bættist í hópinn. Leiddi hann hópinn fyrst að náttúrulegum hraunkofa ofarlega á hraunhrygg norðvestan við Kaldársel. Kofinn er í rauninni toppurinn á lóðréttri hraunrás. Dyragat þess snýr á móti suðri, eins og góð dyragöt eiga að gera. Falleg náttúrusmíð.
Þá var haldið til vesturs að Kaðalhelli. Hann er í nokkuð stóru jarðfalli er hallar niður til norðvesturs. Þar uppi í bergveggnum er lág hraunrás, sem nefnd er þessu nafni. Krakkar á vegum KFUMogK í Kaldárseli höfðu þarna afdrep og nefndu hellinn. Kaðal þarf til að komast upp í rásina. Hún er 5-6 metra löng. Ef farið er með hraunveggnum til austurs er komið inn í rúmgóðan sal. Þar uppi er sylla og lág rás, fremur stutt. Ef hins vegar er farið vestur með hraunveggnum er komið inn í skúta. Úr honum liggja göng niður á við og síðan spölkorn inn undir hraunið. Neðst í honum er kristaltær ís, sem aldrei þiðnar fullkomlega. Myndast í honum regluleg og falleg ljósbrot.

Hreiðrið

Í Hreiðrinu.

Loks var haldið áfram til vesturs. Þar í miðri hraunbreiðunni er lítið gat, ca. 60 c, í þvermál, beint niður á við. Hrunið hefur þarna niður í hraunrás. Dýpið er um mannhæð. Þórarinn fann helli þennan á sínum tíma og nefndi hann Hreiðrið. Fleiri virðast ekki hafa komið þar niður ef marka má heilan mosann á börmunum og sporlausa moldina á botninum.
Rásin er alveg heil og liggur bæði til norðurs og suðurs. Norðurleiðin, um 15 metrar, er nokkuð þröng með mold á botni. Suðurleiðin er hins vegar eins og kona – góð á milli. Hún lækkar, en hækkar síðan aftur eftir u.þ.b. 10 metra. Botninn er grófur sem og barmarnir. Rauðleitt grjótið er hrjúft og því þörf að vera með bæði vettlinga og hnjáhlífar.

Hreiðrið

Í Hreiðrinu.

Þegar komið er vel innfyrir birtist gildi hellisins. Á steinum, í lofti og á víðar má sjá mikið af misstórum gasbólum, nokkurs konar eggjum. Bólurnar eru gráleitar og virðast hafa sprottið út úr berginu. Fyrirbæri þetta má sjá í öðrum hellum, en varla í þessum mæli á einum stað. Hægt væri að skríða innar því hraunið virðist vera lagskipt. Botninn er hins vegar mjög grófur. Ætla má að Hreiðrið geti verið um 100 metrar. Hellirinn er vandfundinn. Tekinn var punktur á hann til öryggis.
Þegar út var komið blasti við stjörnubjartur himininn, norðurljós og sindrandi máninn yfir Helgafelli. Blankalogn. Fegurra getur það varla orðið.

Hreiðrið

Jarðmyndanir í Hreiðrinu.

Lambagjá

Farið var í hellana sunnan Þverhlíðar norðan Sléttuhlíðar, haldið í Náttaga norðan Kaldársels og þaðan austur yfir hraunið í Kaldárselsfjárhellana gegnt Smalaskála.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Gengið var um Lambagjá, skoðuð hleðslan undir vatnsleiðsluna frá Kaldárbotnum. Farið var undir haftið í Lambagjá og upp í Áttatíumetrahellirinn, litið í hellana í norðanverðum Helgadal (Vatnshelli) og síðan gengið að Hundraðmetrahellinum og hann skoðaður. Ekki var farið í Rauðshelli að þessu sinni, en skammt frá honum er forn hlaðinn stekkur. Líklegt er að Rauðshellir hafi verið notaður sem aðhald eða jafnvel selstaða fyrrum. Hleðslur eru bæði fyrir opum hans og inni í honum. Vel gróið á milli opa. Kæmi ekki á óvart ef þar leyndust minjar undir. Gengið var í gegnum Fosshellirinn, en hann er einn sá allra fallegasti á svæðinu. Í bakaleiðinni var litið aftur í Rauðshelli og skoðuð bælin, sem þar eru og áletrun á norðanverðum barmi opsins. Þá var gamla Selvogsgatan gengin niður að Kershelli og Hvatshelli. Þeir hellar voru skoðaðir, auk þess sem gengið var um Setbergs-og Hamarkotssel og farið í gegnum Ketshelli áður en hringnum var lokað.
Gangan tók 2 ½ klst. Frábært veður.

Helgadalshellar

Rauðshellir.

Kaldársel

Fróðlegt er að sjá skráningu Minjastofnunar á Kaldárseli. Skv. henni var selið vestan við fyrsta hús KFUM og K frá árinu 1925 þar sem fyrrum var hestagerði (stekkurinn).

Kaldársel 1932

Kaldársel 1932. Tóftir selsins hægra megin.

Á gömlum myndum, allt til 1936, sjást selstóftirnar vel austan við húsið. Daniel Bruun bæði teiknaði og ljósmyndaði selið um 1880. Ef vettvangurinn er skoðaður er augljóst hvar selið var, bæði má þar enn sjá garða og tóftir þess. Grjótið úr tóftunum fór undir gólf viðbyggingar hússins.
Fornleifaskráning þessi lýsir, líkt og svo margar aðrar, litlum metnaði hlutaðeigandi….

Kaldársel

Kaldársel – uppdráttur Minjastofnunar.

Kaldársel

Nokkrum sinnum hafa verið gerðar klaufalegar tilraunir til að fornleifaskrá svæðið í kringum Kaldársel, bæði af fornleifafræðingum og sagnfræðingum. Flestar þeirra eru því að mörgu leyti svolítið skondnar. Um Kaldársel og nágrenni er fjallað víðs vegar hér á vefsíðunni. Hér verður allra vitleysanna ekki getið; einungis rifjuð upp saga staðarins í stuttu máli:

KaldárselKaldársel er við Kaldá þar var selstaða frá prestsetrinu á Görðum og tilheyrði Garðakirkjulandi í Álftaneshreppi samkvæmt Jarðatali Johnsens 1847 og þar hefur jörðin jarðanúmerið 185.
Kaldársels er fyrst getið í árið 1703 í Jarðabók Árna og Páls, þá sem seli frá Görðum á Álftanesi. „Selstöðu á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott.“ Kaldársel liggur 6-7 km suðaustur af þéttbýli Hafnarfjarðar. Staðurinn dregur nafn sitt af ánni sem Kaldá heitir, en bærinn stóð örfá metra frá ánni. Á svæðinu var mikill skógur sem áður fyrr var nýttur til kolagerðar og eldiviðar. Ekki er vitað hvenær landið komst í eigu Garðakirkju, en ljóst er að Garðaprestar höfðu þar í seli. Í ferðabók sinni segir Sveinn Pálsson frá seli sem Markús Magnússon prófastur á Görðum hefur 1791:

Þarna í grenndinni hefur Markús prófastur í seli og hyggst einnig héðan í frá að hafa allt fé sitt þar á vetrum og láta tvo menn gæta þess þar. Í þessu skyni hefur hann látið bera þar saman 100 hesta hey, sem slegið er þar efra, svo hægt sé að gefa fé, ef svo verður hart í ári, að tekur fyrir beit. Aukk þessa hefur þessi dugnaðar bóndi látið gera nokkrar fjárborgir úr grjóti þar í grennd. Þetta eru eins konar fjárhús, kringlótt og keilulaga og hlaðin þannig saman, að enginn spýta er í þeim. Hver þeirra rúmar um 50 fjár.”

Kaldársel

Fjárborg á Borgarstandi við Kaldársel – Daniel Bruun.

Má ætla að hér sé um lýsingu á Kaldárseli er að ræða. Lítið er vitað um Kaldársel frá því Sveinn Pálsson var þar á ferð í nóvember árið 1792 þar til árið 1842. Í lok 19. aldar nýttu Hvaleyrarbændur Kaldársel sem selstöðu og leigðu þá selstöðuna af Garðakirkju. Árið 1842 keypti Jón Hjörtson Hvaleyri og allar hjáleigur jarðarinnar. Jón og Þórunn Sigurðardóttir kona hans voru með selstöðu í Kaldárseli á þeim tíma er þau bjuggu á Hvaleyri. Jón og Þórunn höfðu sjálf umsjón með selinu og voru þar stóran hluta úr sumrinu. Jón lést árið 1866 og eftir það lögðust selfarir í Kaldársel niður.

Kaldársel

Kaldársel um 1932.

Árið 1867 er talið fyrsta árið sem Kaldársel var í byggð allt árið. Þá bjó í Kaldárseli Jón Jónsson, kona hans og tvö börn þeirra. Talið er að Jón og hans fjölskylda hafi búið í Kaldárseli í tvö ár. Á meðan Jón bjó í Kaldárseli var hann skrifaður þurrabúaðarmaður. Við brottför þeirra úr Kaldárseli lagðist búskapur þar niður í nokkur ár. Árið 1876 voru þrír skráðir til heimilis í Kaldárseli. Það var Þorsteinn Þorsteinsson bóndi, en hann var ókvæntur og barnlaus, ásamt ráðskonu og tökubarni. Á þeim tíu árum sem Þorsteinn bjó í Kaldárseli voru heimilismenn allt frá einum og upp í sex. Aðalbústofn Þorsteins var sauðfé, og hafði hann einnig eitt til tvö hross. Fé hans hafði nokkra sérstöðu því var það nánast allt ferhyrnt, sem hafði einnig þann eiginleika að vera harðgert og þolið beitarfé. Þorsteinn var í Kaldárseli fram til dauðadags árið 1886. Þegar hann lést bjó hjá honum stúlka frá Hafnarfirði að nafni Sigríður Bjarnadóttir. Við andlát Þorsteins lauk fastri búsetu í Kaldárseli.

Kaldársel

Kaldársel.

Eftir að Þorsteinn féll frá voru í Kaldárseli nokkrar byggingar og önnur mannvirki sem ætla má að flest hafi verið gerð af Þorsteini. Þar má meðal annars nefna matjurtargarð og hlaðinn garð umhverfis túnið. Er húsakosti lýst á eftirfarnandi hátt í bókinni Áður en fífan fýkur eftir Ólaf Þorvaldsson: „Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergi mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma.“ Húsin í Kaldárseli voru því nokkuð sérstæð þar sem þau voru einungis byggð úr grjóti.

Kaldársel

Uppdráttur af húsum í Kaldársseli í lok 19. aldar – Daniel Bruun.

Þegar Daniel Bruun var á ferðinni um Kaldársel rétt fyrir aldamótin 1900 lýsti hann rústunum á eftirfarandi hátt: „Þar eru nokkrar tóttir bæði af bæjar- og útihúsum, og nokkur fjárskýli bæði opin og lokuð. Sérstaklega ber að geta þar um tvær fjárborgir … einnig eru þar fjárréttir og loks fjárskjól í hellum í hrauninu. Hjá bæjarhúsunum er fjárhús og hesthús en ekkert fjós.“
Fljótlega eftir andlát Þorsteins voru húsin í Kaldárseli öll rifin nema baðstofan, en hún fékk að standa þar til um aldamótin 1900. Var baðstofan notuð sem afdrep fyrir fjármenn Setbergsbænda sem ráku fé sitt á þessum slóðum og Krýsvíkinga áttu leið þar um á ferðum sínum til og frá Hafnarfirði. Einnig nýttu þessa aðstöðu haustleitarmenn Grindavíkurhrepps og hinir fjölmörgu erlendu ferðamenn sem leið áttu til Krýsuvíkur.

Kaldársel

Kaldársel – hálfkláruð fjárhústóft Kristmundar.

Um 1906 var aftur gerð tilraun til búskapar í Kaldárseli, sá maður var ungur Hafnfirðingur að nafni Kristmundur Þorláksson. Kristmundur byggði yfir gömlu baðstofutóftina og nýtti sem heyhlöðu, og einnig byggði hann fjárhús. Kristmundur hafði lömbin á húsi, en ærnar við hella norður af Kaldárseli. Kristmundur stoppaði stutt við í Kaldárseli eða einn vetur. Löng gangan milli Hafnarfjarðar og Kaldársels, músétin lömb og sú staðreind að honum bauðst vist hjá bóndanum í Hvassahrauni þar sem hann gat tekið fé sitt með sér voru ástæður þess að hann ákvað að hætta búskap í Kaldárseli. Kristmundur var síðasti bóndinn í Kaldárseli. Hafnarfjörður keypti mikið land af Garðakirkju árið 1912, þar á meðal Kaldársel.

Kaldársel

Kaldársel – vatnsleiðslan.

Vatnsskortur var farinn að láta á sér bera í Hafnarfirði og því voru umbætur gerðar árið 1918. Ákveðið var að flytja hluta vatnsmagns Kaldár í ofanjarðar tréstokk og sleppa því í suðurhorn Sléttuhlíðar. Stokkurinn var um 1,5 km að lengd. Vatnið fann sér leið neðanjarðar að Lækjarbotnum þar sem vatnsveita Hafnfirðinga var. Skiluðu þessar umbætur nægjanlegum vatnsbirgðum til Hafnfirðinga.
Árin 1949 til 1953 var ráðist í umbætur á vatsnleiðslunni frá Kaldá, gerð var neðanjarðarleiðsla sem náði frá Kaldá og alla leið til Hafnarfjarðar.

Kaldársel

Kaldársel – fyrsti skáli K.F.U.M.

Árið 1955 var byggð lögrétt í Kaldárseli fyrir Hafnarfjarðarbæ, Garða- og Bessastaðahrepp. Árið 1925 byggðu félögin K.F.U.M. og K. bæði í Reykjavík og Hafnarfirði hús til sumardvalar barna. Börnin voru flest á aldrinum 8-10 ára.
Í Vísi 28. júlí 1929 lýsir Sigurbjörn Á. Gíslason dagsferð í Kaldársel. Þar á meðal lýsir hann hinum nýju húskynnum K.F.U.M: Í skálanum eru 2 smáherbergi, eldhús og svefnstofa, og eitt stórt, þar eru 24 rúm, þrísett upp á við og 2 langborð í miðju, til að matast við. Félögin nota skálann sumpart handa sjálfum sér að sumarbústað og sumpart þó eða einkanlega nú sem drengjabústað. Drengirnir voru í þetta sinn flestir 8 til 10 ára gamlir, bæði úr Reykjavík og Hafnarfirði.
K.F.U.M og K. er enn þann dag í dag með starfsemi í Kaldárseli þótt húsið sé mikið breytt frá lýsingu Sigurbörns.

Kaldársels er fyrst getið í árið 1703 í Jarðabók Árna og Páls, þá sem seli frá Görðum á Álftanesi, Staðurinn dregur nafn sitt af ánni sem Kaldá heitir en bærinn stóð örfá metra frá ánni. Á svæðinu var mikill skógur sem áður fyrr var nýttur til kolagerðar og eldiviðar. Ekki er vitað hvenær landið komst í eigu Garðakirkju en ljóst er að Garðaprestar höfðu þar í seli. Í ferðabók sinni segir Sveinn Pálsson frá seli sem Markús Magnússon prófastur á Görðum hefur 1791: “Lítið er vitað um Kaldársel frá því Sveinn Pálsson var þar á ferð í nóvember árið 1792 þar til árið 1842. Í lok 19. aldar nýttu Hvaleyrarbændur Kaldársel sem selstöðu og leigðu þá selstöðuna af Garðakirkju.”

Kaldársel

Kaldársel – í fjárskjóli.

Árið 1842 keypti Jón Hjörtson Hvaleyri og allar hjáleigur jarðarinnar. Jón og Þórunn Sigurðardóttir kona hans voru með selstöðu í Kaldárseli á þeim tíma er þau bjuggu á Hvaleyri. Jón og Þórunn höfðu sjálf umsjón með selinu og voru þar stóran hluta úr sumrinu. Jón lést árið 1866 og eftir það lögðust selfarir í Kaldársel niður.
Árið 1867 er talið fyrsta árið sem Kaldársel var í byggð allt árið. Og er talið að þau hafi búið þar í 2 ár.
Árið 1876 eru 3 skráðir til heimilis í Kaldárseli og var búið það í 10 ár eða til 1886, en þá lauk fastri búsetu í Kaldárseli.

Kaldárssel

Kaldárssel – ljósm: Daniel Bruun.

Þegar Daniel Bruun var á ferðinni um Kaldársel rétt fyrir aldamótin 1900 lýsir hann rústunum á eftirfarandi hátt: „Þar eru nokkrar tóttir bæði af bæjar- og útihúsum, og nokkur fjárskýli bæði opin og lokuð. Sérstaklega ber að geta þar um tvær fjárborgir…einnig eru þar fjárréttir og loks fjárskjól í hellum í hrauninu. Hjá bæjarhúsunum er fjárhús og hesthús en ekkert fjós.“
Þá segir í bókinni “ Áður en fífan fýkur” eftir Ólaf Þorvaldsson: „Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergi mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma.“ Húsin í Kaldárseli voru því nokkuð sérstæð þar sem þau voru einungis byggð úr grjóti.
Fljótlega eftir síðasta ábúandann 1886 voru húsin í Kaldárseli öll rifin nema baðstofan, en hún fékk að standa þar til um aldamótin 1900.
Um 1906 var aftur gerð tilraun til búskapar í Kaldárseli, sá maður var ungur Hafnfirðingur að nafni Kristmundur Þorláksson. Kristmundur byggði yfir gömlu baðstofutóftina og nýtti sem heyhlöðu einnig byggði hann fjárhús. Kristmundur var síðasti bóndinn í Kaldárseli.
Hafnarfjörður keypti mikið land af Garðakirkju árið 1912, þar á meðal Kaldársel. Árið 1955 var byggð lögrétt í Kaldárseli fyrir Hafnarfjarðarbæ, Garða- og Bessastaðahrepp. Árið 1925 byggðu félögin K.F.U.M. og K járnvarið timburhús fyrir sumarbúðir sínar í Kaldárseli.

Kaldársel

Kaldársel 1965. Tóftir selsins sjást enn suðaustan við húsið.