Færslur

Kaldársel

Gengið var um Kaldársel.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg á Borgarstandi.

Skoðað var gamla sel- og bæjarstæðið ofan við bakka Kaldár og síðan haldið yfir að Borgarstandi þar sem fjárborgin, stekkurinn og fjárskjólin voru skoðuð. Til hliðsjónar var höfð lýsing Ólafs Þorvaldssonar á aðstæðum í Kaldárseli.
Lengi vel mátti sjá veggi tóftanna í Kaldárseli, allt þangað til fólk fór að sækja í þá reglulegt grjótið og nota í annað. Húsaskipanina mátti rekja greinilega fram eftir 20. öld. Vandlega hlaðnir vegginir voru þegjandi vitni þess, að þar hefði fólk haft aðstöðu og búið endur fyrir löngu, stundum við misjafnar aðstæður.

Kaldársel

Kaldársel – sumarbúðir.

Kaldársel á sér ekki langa sögu sem fastur bústaður og saga þess er svipaður öðrum sögum smábýla á þeim tíma.  Bærinn stóð sem næst á miðjum túnbletti, örfáa metra norðan Kaldár.
Árið 1929 kom út í Reykjavík lítil bók með þremur kvæðum eftir séra Friðrik Friðriksson. Kver þetta nefnist “Útilegumenn”, og heitir annað aðalkvæðið “Kaldársel”. Friðrik var síðasti landnámsmaðurinn í Kaldárseli þar sem fyrir eru nú sumarbúðir KFUMogK. Kvæðið er svona:

”Eitt sinn ég kom
að Kaldárseli,
eyðistað
í ógna hrauni,
gömlu býli
og bæjarrústum:
einmana tóttir
eftir stóðu.

Reikaði ég einn
um rústir þessar, ríkti þar yfir
ró og friður,
unaðskyrrð djúp
við elfu niðinn
svölum gaf sál
og sæla gleði.”

Kaldársel

Kaldársel – stekkur.

Elstu heimild um Kaldársel er líklega að finna í Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Þar segir í sambandi við lýsingu Garða á Álftanesi: “Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott”. Þetta telur Jarðabókin ein af hlunnindum Garðastaðar og er augljóst að staðurinn hafi átt landið, eða allt þar til Hafnarfjarðarbær kaupir það árið 1912. Garðar höfðu einnig um tíma selstöðu í Selgjá og jafnvel neðst í Búrfellsgjá. Ummerki þess má sjá enn í dag.
Þótt Kaldársel hafi um aldir verið eign Garðakirkju, ásamt miklu landflæmi til suðurs, austurs og norðurs frá Kaldárseli, er fátt heimilda um selfarir  Garðapresta við Kaldá.

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellir.

Seltættur má finna í nágrenninu, s.s. í Helgadal. Hitt er vitað, að þar var haft í seli frá Hvaleyri á síðasta fjórðungi síðustu aldar (skrifað 1968), en leiguselstöð hlýtur það að hafa verið, þar eð elstu landamerki, sem vitað er um, liggja í a.m.k. eins km vegalengd vestur frá Kaldárseli. Meðan selfarir voru mikið tíðkaðar, urðu landlitlir bændur oft að fá leigt land eða skipta á hlunnindum undir sel sín hjá landríkari bændum, svo að einsdæmi hefði það ekki verið, þótt Hvaleyrarbóndinn leigði selstöð í Garðakirkjulandi.

Kaldársel

Kaldársel um 1930. Tóftir Kaldársels hægra megin við nýreist húsið.

Hvenær þessi selstöð hafi fyrst verið notuð frá Hvaleyri, er með öllu óljóst. Þegar litið er á bændatal Hvaleyrar um árið 1700 og það ástand, sem þar var í búskap manna, þegar jarðamat fór fram 1703, sést, að bændur hafa allir búið svo smátt, að varla er hugsanlegt, að selfarir hafi haft og síst svo langt í burtu sem í Kaldárseli, þar eð allgott selland og nóg vatn var helmingi nær Hvaleyri og auk þess í heimalandi, þar sem selstöðin var við Hvaleyrarvatn.

Kaldársel

Kaldársel – Gamla þjóðleiðin.

Vitað er að séra Markús Magnússon á Görðum lét byggja selstöðuna í Kaldárseli upp auk þess sem hann lét hlaða fyrir nálæg fjárskjól, hlaða fjárborgir o.fl. árið 1800 með það fyrir augum að viðhafa þar fjárhald allt árið um kring.
Það eina, sem nú er vitað með vissu um selfarir í Kaldárseli er að hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri höfðu þar í seli. Jón keypti Hvaleyrina 1842. Hann mun hafa verið ríkasti bóndi, sem nokkru sinni hefur setið Hvaleyri. Jón dó árið 1866. Bjó Þórunn eftir það á Hvaleyri til 1873. Þegar Þórunn dvaldist í “Selinu” á sumrin, sem var þó ekki nema við og við, fór hún stundum með orf sitt og hrífu upp með Kaldá og sló þar á hólmum, það sem slægt var, einnig smámýrarbletti milli kvíslanna í Kaldárbotnum. Þegar Þórunn á Hvaleyri hætti selförum að Kaldárseli, lagðist selstöð þar niður með öllu, og má ætla, eftir því sem síðar kemur fram, að það hafi verið 1865 eða 1866.

Kaldársel

Húsin í Kaldárseli 1898 – Daniel Bruun.

Í húsvitjnarbók Garðaprestakalls sést, að ábúandi er kominn í Kaldársel árið 1867, og er svo að sjá sem það sé fyrsta árið, sem fólk sé þar til ársdvalar. Þessi ábúandi var Jón Jónsson, kona hans og tvö börn. Þau munu hafa verið þar tvö eða þrjú ár. Fátæk voru hjón þessi og bústofn þeirra mjög lítill. Hjálparstelpa var hjá þeim, Sigríður Jónsdóttir frá Setbergi. Hún skrifaði m.a. um dvöl sína í selinu sem og skráði raunsanna huldufólkssögu er þar átti að hafa gerst. Jón flutti síðan með fjölskyldu sína að Ási. Við brottförina lagðist búskapur niður í Kaldárseli í nokkur ár.
Árið 1867 er manntal tekið í Kaldárseli, og er það sennilega fyrsta árið, sem það er í byggð eftir brottför Jóns. Sá, sem þá er orðinn ábúandi, er Þorsteinn Þorsteinsson, upprunninn í Ölfusi. Þetta ár telur húsvitjunarbókin þar þrjár manneskjur í heimili, bóndann, ráðskonu og tökubarn. Árið eftir, 1877, eru þar fjórir í heimili og hefur þá bæst við vinnukona. Árið 1883 er Þorsteinn orðinn einn í Kaldárseli. Hann dó þar þremur árum seinna.

Steinhes

Kaldársel – Steinhes (Steinhús).

Þegar Þorsteinn fellur frá eru í Kaldárseli nokkrar byggingar og önnur mannvirki. Hús öll í Kaldárseli keypti Jón Guðmundsson bóndi að Setbergi svo og flestar kindurnar. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergio mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma. – Danski höfuðsmaðurinn Daniel Bruun kom í Kaldársel árið 1897. Hann teiknaði upp húsakostinn og minjar í nágrenninu, auk þess sem hann tók ljósmyndir, sem birtust síðar í bók um ferðir hans. Lýsir Daniel allvel Kaldárseli og umhverfi þar. Hann segir m.a. um húsatætturnar, að “þær séu frábrugðnar flestum, ef ekki öllum þess konar byggingum hér á landi, þar sem þær séu byggðar úr grjóti einu saman”.

Kaldársel

Kaldársel um 1932. Tóftir Kaldársels uppfærðar  inn á ljósmyndina.

Aðalbústofn Þorsteins var sauðfé og eitt eða tvö hross, kú mun hann aldrei hafa haft þar. Að mestu mun Þorsteinn hafa haft fullorðna féð á útigangi, þar eð heyfengur var þar lítill. Fjárhús með jötu við annan vegg var norðvestan við bæjarhúsin, og mun hann hafa haft lömb sín þar. Fullorðna féð hafði hann við hella, sem voru skammt norður frá bænum, eða þá í fjárborginum uppi á Standinum, sem er nokkru nær. Önnur þeirra er nú horfin með öllu. Þá hafi hann fé sitt við helli í Heiðmörk, svonefndum Þorsteinshelli.
Þegar flytja átti Þorstein látinn til greftrunar að Görðum höfðu burðarmenn á orði, vegna þess hversu þungur hann var, að óþarfi væri að fara með karlfauskinn alla leið þangað og stungu upp á því að hola honum þess í stað niður einhvers staðar á leiðinni. Að Görðum varð hann þó færður að lokum og jarðsettur þar af séra Þórarni Böðvarssyni.

Þorsteinshellir

Fjárskjól við Selgjá (Þorsteinshellir).

Árin 1906 til 1908 var enn gerð tilraun til búsetu í Kaldárseli. Kristmundur Þorláksson frá Stakkavík í Selvogi fékk það til afnota og hélt hann þar afskekktri útigangshjörð sinni til haga og gjafar. Beitahúsavegur Kristmundar var langur þar sem hann var búsettur í Hafnarfirði og árferði óvenjuslæmt. Hann ætlaði að hlaða hús norðvestan við Kaldársel, en mýs lögðust á féð um veturinn svo fjárhaldi þar varð sjálfhætt.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Jón Guðmundsson, bóndi á Setbergi, keypti síðan Kaldársel með það fyrir augum að hafa þarf athvarf fyrir smala og aðstöðu fyrir ferðamenn á ferðum þeirra um upplandið, en húsunum var lítt við haldið svo þau grotnuðu smám saman niður.

Árið 1925 byggði K.F.U.M. hús í Kaldárseli. Eftirfarandi frásögn um upphaf sumarbúða K.F.U.M í Kaldársel birtist í Bjarma árið 1967:

kaldarsel-990

Kaldársel – sumarbúðir.

“Að aflokinni messu á Bessastöðum á annan hvítasunnudag árið 1921, var haldinn stuttur K.F.U.M.-fundur þar í kirkjunni. Þá var stofnaður sjóður, sem hafa skyldi þann tilgang að koma upp sumarbúðum fyrir K.F.U.M. Það voru tveir félagar úr K.F.U.M. í Hafnarfirði, sem lögðu fram hundrað krónur. Seinna mynduðu nokkrir félagsmenn í Hafnarfirði og Reykjavík samtök um þetta mál. Var ákveðið að koma saman fyrsta föstudag hvers mánaðar, annan hvern mánuð í Reykjavík en hinn í Hafnarfirði. Fundir þessir voru bænafundir, þar sem beðið var fyrir málefninu, og að því loknu var lögð fram fórn til sjóðsins. Allt fór þetta fram í mestu kyrrþey. Vorið 1925 var sjóðurinn orðinn nær fjögur þúsund krónur. Var þá farið að hugsa til framkvæmda og lét bæjarstjórn Hafnarfjarðar félaginu í té eignarhald á túninu umhverfis eyðibýlið Kaldársel.

Þetta sama vor var hafizt handa um að byggja skálann. Minnast ýmsir þess enn í dag, er við hin erfiðustu skilyrði varð að bera efnivið allan yfir hraunhálsinn þaðan, sem bifreiðir komust lengst, og upp að Kaldárseli.

Kaldársel

Kaldársel – fyrsti skáli K.F.U.M. Sjá má tóftir selsins að baki hússins.

Um miðjan júní var unnt að vígja skálann. Var þá í honum svefnsalur með 24 rúmum, auk þess lítið herbergi og eldhús. Síðar var hann stækkaður um helming, með því að byggð var fyrir vestan skálann álma til norðurs. Nú fyrir fjórum árum var enn hafizt handa um stækkun skálans, og eru vonir til, að henni verði nokkurn veginn lokið í sumar.

Við framangreinda framkvæmd var það sem eftir var af tóftum selsins í Kaldárseli, sem stóð suðaustan við fyrsta hús K.F.U.M. fram á sjöunda áratug síðustu aldar, fjarlægt. Fáir vita í dag hvar selið stóð ofan við árbakkann.

Saga Kaldársels er hvorki löng né viðburðarrík, en saga er það nú samt.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson – Áður en fífan fýkur – 1968.
-Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 – III. bindi, bls. 180.
-Bjarmi 1967.

Kaldársel

Fjárskjól við Kaldársel.

Gjár

Ómar Smári Ármannsson skrifaði um “Kaldársel og nágrenni” í Fjarðarpóstinn árið 2002:

Kaldársel og nágrenni

Kaldársel

Kaldársel og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

“Gamli bærinn í Kaldárseli stóð á túnblettinum, sem núverandi hús stendur á, þ.e. á móts við miðju þess er snýr að árbakkanum.

Kaldársel

Kaldársel – Teikning Daniels Bruun frá lokum 19. aldar. Inn á teikninguna er felld inn líkleg upphaflegu selshúsin áður en bætt við þau til búsetu.

Áður tilheyrði landið Garðakirkju og hafði hún þar í seli fram til ársins 1836. Frá árinu 1873 hafði Hvaleyri þar leigusel. Sel Garða voru flest í Selgjá vestan Búrfellsgjár. Enn sjást þar tóttir selja með hraunbarminum beggja vegna, einkum að sunnanverðu, svo og fallegir fjárhellar, bæði í gjánni og efst í Urriðavatnshrauni. Hafnarfjarðarbær keypti árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi og Kaldársel þar með.

Heimildir frá 1703
Elsta heimild um Kaldársel er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar segir að Hvaleyri eigi selstöð þar sem heitir Hvaleyrarsel suður af Hvaleyrarvatni í Selshöfða, auk selstöðvar í Kaldárseli. Aðrir munu ekki hafa nýtt það sel. Þegar Hvaleyrarbóndi hætti selförum að Kaldárseli lagðist selstöð þar niður með öllu, annað hvort 1865 eða 1866.

Kaldársel

Gengið um Kaldársel og nágrenni.

Útlendir ferðamenn

Kaldársel

Teikning Daniels Bruun af baðstofunni í Kaldárseli 1882.

Í húsvitjunarbók Garðaprestakalls má sjá að árið 1867 er kominn ábúandi í Kaldársel. Hann hét Jón Jónsson, en hann var þar stutt. Eftir það lagðist búskapur niður um nokkur ár. Árið 1876 kom þangað Þorsteinn Þorsteinsson eða Þorsteinn í Selinu, eins og hann var jafnan nefndur. Enn er efst í Heiðmörkinni fallegur fjárhellir, Þorsteinshellir, sem lengi var talinn týndur. Þorsteinn var nokkuð sérkennilegur í háttum. A hans tíma voru í Kaldárseli nokkrar byggingar, matjurtagarður, sem lá frá bænum niður að ánni mót suðri og vörslugarður. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð. Í því var baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr.

Kaldársel

Kaldársel eftir uppdrætti Daniels Bruun – teikning ÓSÁ.

Tætturnar voru allar vel hlaðnar úr sléttum og þykkum hraunhellum, en hvergi mold eða torf á milli, svo sem venja var.
Jón Guðmundsson á Setbergi keypti húsin í Kaldárseli sem og kindur. Þau voru öll rifin, nema baðstofan, sem stóð uppi fram undir aldamót. Hún var einkum notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá héldu fé sínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högum.

Einnig var gott fyrir Krýsvíkinga að hafa þarna afdrep á ferðum sínum. Haustleitarmenn Grindvíkinga leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárseli.

Kaldársel

Í tóftum Kaldársels 1934.

Þá var mikil umferð útlendra ferðamanna til Krýsuvíkur, einkum til að skoða hinar nýyfirgefnu brennisteinsnámur, sem þar voru. Þeir gistu margir í Kaldárseli. Baðstofan bar þess merki. Í sperrur og súð voru skorin ófá mannanöfn af ýmsum þjóðernum.
Að liðnum aldamótum 1900 var ekkert hús lengur í Kaldárseli. Ferðum útlendinga fækkaði, Krýsvíkingar týndu ört tölunni, fjallleitir Grindjána styttust og hið stóra Setbergsheimili tvístraðist. Og fénaðurinn hvarf úr högunum.

Síðasti bóndinn í Kaldárseli
Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Þorláksson Kaldársel til afnota, síðar stórbóndi í Stakkavík. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir sínar 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Ekki hafði hann not af gömlu tóttunum að öðru leyti en því að hann gat nýtt úr þeim hraunhellurnar, sem hann gerði af miklum dugnaði. Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna. Ærnar hafði hann við gömlu hellana, sem eru skammt norður af Selinu. Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun þar sem honum bauðst vist. Hann var því síðasti bóndinn í Kaldárseli.

Kaldársel

Gengið um Kaldársel og nágrenni.

Letursteinar KFUM-K

Kaldársel

Kaldársel – einn letursteinanna.

Eins og sjá má á uppdrættinum er margt að skoða í nágrenni við Kaldársel. Vestan við Kaldá, fast við árbakkann, eru letursteinar frá upphafi veru KFUM  og K á staðnum. Efst á Borgarstandi er fjárborgin og undir honum að norðanverðu eru tóttir gamals stekkjar og fjárhýsisins. Enn norðar eru hleðslur í Nátthaganum. Austan hans eru fjárhellarnir og hleðslurnar í kringum op þeirra. í einum hellanna er hlaðinn garður eftir honum miðjum.

Stærsti hellirinn er sá syðsti. Í honum er gott rými. Vatnsleiðslan gamla er austan Kaldárselsvegar og er forvitnilegt að sjá hvar hún hefur komið yfir Lambagjá, en í gjánni er mikil hleðsla undir hana. Sú hleðsla mun hafa að nokkru leiti hafa verið tekin úr austari fjárborginni á Borgarstandi.

Kaldársel 1932

Kaldársel 1932. Tóftir selsins hægra megin.

Í Gjám enn norðar eru hellar, hleðslur og hellisop. Austan við gamla veginn að Kaldárseli má enn sjá elstu götuna til og frá selinu, klappaða í bergið. Enn vestar, austan Fremstahöfða, er hálfhlaðið hús, líkt því sem sjá má á gömlu ljósmyndum frá 1892, að gamla selið í Kaldárseli hefur litið út.
Eins og sjá má þarf ekki að ganga alla leið á Helgafell til að finna tilefni til gönguferða í kringum Kaldársel.”

Sjá meira um Kaldársel og  nágrenni m.a. HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Heimild:
-Fjarðarpósturinn – 42. tölublað (31.10.2002), Ómar Smári Ármannsson, Kaldársel og nágrenni, bls. 4.

Lambagjá

Hleðslur undir vatnsleiðsluna um Lambagjá.

Valahnúkar

Gengið var norður gömlu Selvogsgötuna frá Bláfjallavegi neðan Grindarskarða. Selvogsgata er gömul leið á milli Hafnarfjarðar og Selvogs.

Selvogsgata

Selvogsgata á Hellunum.

Haldið var niður Hellurnar þar sem gatan er klöppuð í bergið á kafla undan fótum, klaufum og hófum liðinna alda. Litið var á Strandartorfur (Kaplatóur) og gengið um Mygludali að Valabóli þar sem áð var í Músarhelli. Loks var götunni fylgt niður í Helgadal með viðkomu í Rauðshelli og stefnan tekin þaðan að Kaldárseli.
Í jarðfræðilegu tilliti er Reykjanesskaginn mjög merkilegur. Hann er hluti af Atlandshafshryggnum mikla, sem liggur um þvert Ísland og er eini staðurinn þar sem hægt er að skoða hann ofansjávar. Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanesskaga síðan land byggðist. Það nýjasta sennilega á 14. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum, hafa um 200 eldstöðvar á fjórum eldstöðvarkerfum, verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni, sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landssvæði. Má þar á meðal finna allar helstu gerðir íslenskra eldstöðva.

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu.

Þar sem staðið er á upphafsstaðnum við Bláfjallaveg má sjá þessa virkni “ljóslifandi”. Þegar horft er upp í Bollana (Stórabolla, Miðbolla og Syðstubolla), má sjá hvernig hlíðin, sem þeir eru á, hefur opnast og hraunið runnið niður þá í stríðum straumum. Miðbolli er einstaklega fallegur hraungígur. Utan í honum eru tvö önnur gígop og síðan fleiri í hlíðinni norðan hans. Frá honum má sjá fallegar hrauntraðir og í þeim eru nokkir fallegir hellar. Langahlíð, Dauðadalir og Lönguhlíðarhorn eru á hægri hönd en Kristjánsdalir og Kristjánsdalahorn á þá vinstri.

Grindarskörð

Grindarskörð og nágrenni.

Selvogsgatan lá áfram upp um Grindarskörð austan Stórabolla og áfram niður með Litla-Kóngsfelli, um Hvalskarð og niður í Selvog. Einnig liggur gata, vel vörðuð upp Kerlingargil milli Miðbola og Syðstubolla. Ofan þeirra eru gatnamót. Frá þeim liggur Hlíðarvegur niður að Hlíðarskarði fyrir ofan Hlíð við Hlíðarvatn, þar sem Þórir haustmyrkur er talinn hafa búið við upphaf byggðar. Grindarskörð eru nefnd svo vegna þess að Þórir þessi á að hafa gert þar grindur til að varna því að fé hans leitaði norður og niður hlíðarnar.

Grindarskörð

Grindarskörð.

Selvogsgatan liggur niður Hellurnar um Húsfellsbruna sem eru ágætlega greiðfær, allt suður að hálendinu. Þarna má sjá nokkur hraun, bæði slett helluhran og úfin apalhraun. Austast er hrikalegt Rjúpnadalahraunið úr Drottningu og vestast má sjá Tvíbollahraunið.

Framundan sést Helgafell (vinstra megin – 340 m.y.s) og Húsfell (hægra megin – 278 m.y.s)). Milli þeirra eru Valahnúkar (201 m.y.s). Á þeim trjóna tröllin hæst. Segir sagan að þau hafi verið á leið í Selvog, en orðið sein fyrir og ekki verið komin lengra er sólin reis í austri, ofan við Grindarskörðin. Varð það til þess að þau urðu að steini og standa þarna enn.

Selvogsgata

Selvogsgata – varða.

Helgafellið er eitt af sjö samnefndum fjöllum á landinu. Þau eru t.d. í Mosfellssveit, vestmannaeyjum, Dýrafirði og Þórsnesi á Snæfellsnesi. Hugsanlega er nafnið tengt lögun þessara fjalla, en þau eru að minnsta kosti sum hver regluleg eða heilleg að útliti. Af einhverjum ástæðum var talin helgi á Helgafelli á Snæfellsnesi. Orðið helgur er samandregin mynd úr heilagur, sem er skylt orðinu heill. Örnefni með Helga- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannsnafninu Helgi.

Búrfell

Búrfell og Kringlóttagjá.

Búrfellið (179 m.y.s) er neðan við Húsfellið. Frá Búrfelli rann hraun það sem Hafnarfjörður stendur að hluta til á fyrir um það bil 7200 árum. Hrauntröðin frá fellinu er ein sú stærsta á landinu, Búrfellsgjá.
Gengið var í gegnum Mygludali, en undir þeim er talið vera eitt mesta ferskvatnsmagn á svæðinu. Dalurinn er talinn hafa verið nefndur eftir hryssu Ingólfs Arnarssonar, Myglu, en aðrir telja að nafnið sé til komið vegna myglu er leggst yfir dalinn er líða tekur á sumarið.

Valaból

Í Valabóli.

Litið var við í Valabóli norðaustan í Valahnjúkum. Þar er Músarhellir sem áður var notaður sem áningastaður en síðar sem gististaður Farfugla eftir að þeir girtu staðinn og ræktuðu upp gróðurvin í kringum hann. Fleiri hellar eru hér austur í hrauninu og reyndar víða á þessu svæði.

Að því búnu var haldið að opi Fosshellis og hann þræddur undir sauðfjárveikigirðinguna. Kíkt var á op Hundraðmetrahellis austan Helgadals og síðan á stekki norðaustan við Rauðshelli. Þá var haldið í hellinn og hann skoðaður. Í Rauðshelli er allnokkrar hleðslur, bæði utan hans og innan. Hangikjötslyktin ilmaði enn í hellinum, en hann er talinn hafa hýst margan manninn í gegnum aldirnar.

Helgadalshellar

Í Rauðshelli.

Um tíma var hellirinn nefndur Pólverjahellir eftir pólskri áhöfn báts, sem dvaldist um tíma í Hafnarfjarðarhöfn, en fengu ekki inni í bænum. Þá er talið að um tíma hafi verið sel í og við hellinn, auk þess ekki er ólíklegt að álykta að hann sé sá hellir þar sem 12 þjófar voru handteknir um 1440 og síðan hengdir. Í lýsingu Gísla Sigurðssonar, forstöðumanns Minjasafns Hafnarfjarðar, segir hann í lýsingu sinni um Selvogsgötuna að þeir hafi hafst við í helli í hraunrima austan við Helgadal.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Um þá hugmynd er m.a. fjallað í öðrum FERLIRslýsingum eftir nokkrar ferðir um svæðið til að reyna að finna umrætt skjól. Rauðshellir liggur vel við vatni, hann hefur verið í hæfilegu skjóli frá mannabyggð, en þó nálægt skjólgóðum högum sauðfjárins. Þá hefur hann verið það nálægt þjóðleið að hægt hefur verið að fylgjast með mannaferðum og hugsanlega ræna þá, sem þar áttu leið um. Þess skal getið að útilegumenn dvöldu aldrei lengi á sama stað.

Helgadalur

Helgadalur – stekkur.

Hlaðinn stekkur er skammt frá Rauðshelli. Ekki langt frá, ofan við Helgadal eru fornar tóftir. Jarðfallið, sem gengið er úr í hellinn, er mikið gróið. Set, mold og gróður hafa hlaðist þar upp um aldir. Ekki er ólíklegt að undir þeim kunni að leynast minjar. Þær gætu bæði tengst hinum fornu tóftum í Helgadal, þarna 500 m frá, eða (sels)búskapnum í Kaldárseli. Einnig gætu þær verið frá Görðum á Álftanesi, en landssvæðið tilheyrði þeim fyrr á öldum.
Frá Rauðshelli sést gígurinn í Búrfelli mjög vel. Búrfell er eldborg. Frá henni rann hraun niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð. Þrátt fyrir samheitið Búrfellshraun, bera margir hlutar þess sín eigin nöfn, s.s. Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun, Gálgahraun, Urriðakotshraun, Gráhelluhraun og Smyrlabúðahraun. Heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar. Margir ganga gjarnan upp eftir hrauntröðinni innan girðingar Heiðmerkur, Búrfellsgjá (u.þ.b. 3,5 km) og Lambagjá. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára.

Helgadalur

Helgadalur – misgengi.

Helgadalur er ágætt dæmi um misgengi, líkt og á Þingvöllum. Hluta þessa misgengis má sjá þegar komið er upp á brúnina að vestanverðu. Það er handan Mosana og gengur í gegnum austanverðar Smyrlabúðir.

Helgadalur hefur verið afgirtur og er svæðið innan girðingarinnar, Kaldárbotnar, hluti af vatnsverndasvæði Vatnsveit Hafnarfjarðar. Hún var stofnuð 1904.

Kaldárbotnar

Kaldárbotnar – vatnslindin.

Vatnsból Hafnarfjarðar er í Kaldárbotnum. Þaðan liggur aðfærsluæð til bæjarins meðfram Kaldárselvegi um 6 km að lengd, síðan eftir stofnæðum og dreifilögnum sem flestar liggja í götum bæjarins. Fáeinar dælustöðvar innanbæjar sjá þeim bæjarhlutum sem hæst liggja fyrir vatni. Fyrstu tildrög að vatnsveitu í bænum munu vera þau að Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar var stofnað 1904. Í fyrstu sóttu bæjarbúar vatn í vatnskrana, sem settir voru upp víðs vegar um bæinn. Vatn er leitt til bæjarins frá Kaldárbotnum. Núverandi aðveituæð er frá árinu 1950. Merkilegasta holan sem hefur verið boruð eftir köldu vatni í nágrenni Hafnarfjarðar er við Kaldársel og varð 987 m djúp. Sú hola var köld (2-5 gráður) niður á 750 m dýpi.
Kaldá er náttúrulegt afrennsli linda sem eru í Kaldárbotnum.

Vatnsveitan

Vatnsveitan yfir Lambagjá.

Frá upphafi byggðar í Hafnarfirði og fram til ársins 1909 höfðu bæjarbúar notast við vatn úr ýmsum brunnum innanbæjar. Vatnið var oft óhreint og stundum svo mengað að fólk veiktist alvarlega af því að drekka það. Þannig braust út taugaveikifaraldur fyrri hluta ársins 1908 sem rakin var til mengaðs drykkjarvatns.
Árið 1909 var farið að taka vatn úr lindum í svokölluðum Lækjarbotnum, sem eru í austurjaðri Gráhelluhrauns gegnt Hlíðarþúfum þar sem nú eru hesthús, en vegna þess að vatnið þar þraut í þurrkum og reyndist oft óhreint ákváðu menn að reyna að veita vatni úr Kaldá inn á vatnsvið lindanna. Í þetta var ráðist árið 1918. Þannig var byrjað að nota vatn frá Kaldá strax árið 1918 á óbeinan hátt. Enn má sjá undirstöður vatnsleiðslunnar þar sem hún liggur frá Kaldárbotnum og yfir Sléttuhlíð, þar sem vatninu var hleypt niður í hraunið. Það kom síðan upp í Lækjarbotnum, sem fyrr segir. Mest er mannvrikið þar sem leiðslan lá yfir Lambagjá.

Kaldárbotnar

Í Kaldárbotnum – stíflan.

Árið 1951 var svo tekin í notkun aðveituæð sem náði alla leið upp í Kaldá. Kaldá sjálf var stífluð og vatni úr ánni veitt í gegnum síu og þaðan inn í æðina. Á uppistöðulóninu sem myndaðist ofan við stífluna fóru að venja komur sínar fuglar ásamt því að sandur og allskonar gróðurleifar fóru að berast inn í aðveituæðina. Þess vegna var hlaðin steinþró utan um stærstu uppsprettuna í Kaldárbotnum sjálfum og þaðan lögð pípa sem tengd var beint við aðveituæðina.

Kaldá

Kaldá.

Náttúrulegar aðstæður í nágrenni Kaldár skýra af hverju svo mikið af vatni er í Kaldárbotnum. Eldgos í tugi þúsunda ára hafa hlaðið upp jarðmyndunum á svæðinu. Á meðan ísaldir ríktu hlóðust upp móbergsfjöll og bólstrabergshryggir. Á hlýskeiðum runnu hraun og gígir hlóðust upp en við öll þessi eldsumbrot brotnaði jarðskorpan og seig og reis. Þannig hafa myndast sigdalir og gapandi gjár, sem stundum fóru á kaf í ný hraun.

Kaldárbotnar sjálfir eru í bólstrabergsmyndun. Bólstrabergið er nokkuð gamalt á mælikvarða jarðmyndana á svæðinu og segja má að það sé umflotið ungum hraunum.
Bólstrabergið sjálft er afburða góð náttúruleg sía ásamt því að vera mjög vel vatnsleiðandi, sérstaklega eftir sprungum.

Kaldá

Kaldá.

Megin misgengið sem lindirnar í Kaldárbotnum tengjast hefur örugglega hreyfst oftar en einu sinni. Þannig eru yfirvegandi líkur á að opnast hafi gjá, í einhverjum hamförum á ísöld, undir ísaldarjöklinum og hún fyllst af jökulurð. Við gröft vegna framkvæmda árið 1997 komu í ljós setlög sem stefndu ofan í misgengið og núið grjót (sem við köllum héðan í frá hausagrjót ) kom upp af fimm metra dýpi, þegar grafið var niður með borholufóðringu. Ástæður fyrir þessu mikla vatni sem kemur upp austan við misgengið eru því þrjár. Vatnsleiðandi bergsprungur tengdar misgengjum, setfylling í megin misgenginu sjálfu og bólstrabergið

Kaldársel

Gengið um Kaldársel.

Í eldgosi sem líklega varð á tólftu öld, rann örþunnt hraun niður í Kaldárbotna sjálfa og þaðan niður fyrir Kaldársel og nam þar staðar. Þetta hraun hefur líklega verið mjög heitt og þunnfljótandi því að það fyllti í allar lægðir á leið sinni og storknaði án þess að í því mynduðust kólnunarsprungur og gjótur. Þegar grunnvatnsborð í Kaldárbotnum lækkar niður fyrir efri brún hraunsins hverfur Kaldá.
Eftir að kemur vestur fyrir meginmisgengið í Kaldárbotnum rennur Kaldá ofan á þessu þétta hraunlagi. Þar sem hraunið endar, fyrir neðan Kaldársel, hverfur Kaldá ofan í hraunin þar fyrir neðan.

Kaldársel

Kaldársel – fyrsti skáli K.F.U.M. Kaldársel sést aftan við húsið.

Í Kaldárseli eru reknar sumarbúðir á vegum KFUM og KFUK. Frumkvöðull starfs KFUM og KFUK á Íslandi var æskulýðsleiðtoginn sr. Friðrik Friðriksson, en hann hafði á námsárum sínum í Kaupmannahöfn kynnst starfi KFUM og tekið virkan þátt í því. Haustið 1897 kom hann heim til Íslands og myndaði eins konar undirbúningsfélag með nokkrum unglingspiltum úr Dómkirkjusöfnuðinum vorið 1898. Þann 2. janúar 1899 var KFUM formlega stofnað og fór starfsemin ört vaxandi er á leið vorið. Þá færðu nokkrar fermingarstúlkur það í tal við sr. Friðrik hvort hann gæti ekki einnig stofnað félag fyrir þær. Fékk sr. Friðrik nokkrar konur til liðs við sig og 29. apríl 1899 hafði KFUK einnig verið ýtt úr vör.

Kaldársel

Kaldársel 1965. Tóftir selsins sjást enn suðaustan við húsið.

Um það leyti sem starf KFUM og KFUK hófst hér á landi átti íslensk kirkja að ýmsu leyti í vök að verjast og félagsstarfsemi fyrir börn og unglinga var mjög af skornum skammti. Ýmsir höfðu því efasemdir um að slík kristileg félagsstarfsemi gæti átt framtíð fyrir sér, en ekki leið á löngu uns félögin tóku að blómstra í höndum sr. Friðriks. Augu hans voru næm á þarfir ungu kynslóðarinnar og innan félaganna spruttu fram starfsgreinar á borð við kvöldskóla, bókasafn, skátafélag, knattspyrnufélag, bindindisfélag, taflflokk, hannyrðadeild, lúðrasveit, söngflokka, sumarbúðir o.fl.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Sífellt leitaði sr. Friðrik nýrra leiða til þess að byggja upp félagsstarf á kristnum grunni sem mætt gæti þörfum æskunnar og skapað heilbrigða einstaklinga til líkama, sálar og anda. Einstakir persónutöfrar, manngæska og vitsmunir gerðu hann nánast að dýrlingi í lifanda lífi og í hjarta borgarinnar, við Lækjargötu, minnir stytta hans á mikilvægi þess að styðja æsku Íslands til bjartrar framtíðar.

Kaldársel

Kalsdársel – Teikning Daniels Bruun frá lokum 19. aldar. Inn á teikninguna eru felld inn líkleg upphaflegu selshúsin áður en bætt var við þau til búsetu.

Í Kaldárseli var sel um langan aldur, auk þess sem búið var þar um aldarmótin 1900. Ítarleg lýsing er á Kaldáseli í annarri FERLIRslýsingu (Sjá HÉR og HÉR.)
Sjá MYNDIR.

Frábært veður – sól og milt. Gangan tók 2 klst og tvær mínútur.

-Upplýsingar um Reykjaveginn fengnar af http://www.utivist.is
-Upplýsingar um Vatnsveitu Hafnarfjarðar eru fengnar af http://www.hafnarfjordur.is
-Upplýsingar um Helgafell eru fengnar af http://www.visindavefur.hi.is

Kóngsfell

Kóngsfell.

Kaldársel

Hér verður drepið niður í skrif Ólafs Þorvaldssonar um “Sögu Kaldársels“. Þau birtust í bók hans “Áður en fífan fýkur“, sem gefin var út af Skuggsjá 1968:

Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson.

“Á þeim tíma, sem menn ferðuðust um landið á hinum frumstæðu farartækjum, svo sem eigin fótum eða á hestum, bar allvíða fyrir augu þeirra sitthvað, sem minnti þá á, að þar hefði einhvern tíma fólk hafst við eða haft nokkurn umgang lengur eða skemur. Víða gat að líta rústir og tóttabrot, misstæðileg eftir aldri og efni þeirra. Sums staðar var þyrping húsatótta, sem bentu til þess, að þar hefði bær verið, og oft mátti rekja húsaskipan greinilega. Allt voru þetta þegjandi vitni þess, að þar hefðu endur fyrir löngu menn að verki verið, sem byggðu úr íslensku efni að mestu.

Eftir framanskráðar hugleiðingar um hin fornu eyðibýli skal nú vikið að einu þeirra. Þetta býli er Kaldársel. Staður þessi hefur nokkuð komið við sögu síðustu áratugina, einkum Hafnarfjarðar.

Áður en fífan fýkur

Kápa bókarinnar “Áður en fífan fýkur”.

Ég held því, að ekki sé úr vegi að tína hér nokkuð til af því, sem vitað er um þennan stað áður en hinn nýi tími hélt þar innreið sína. Mun spora þess tíma getið síðar, og þá í þeirri tímaröð, sem þau hafa verið stigin.

Býli þetta á sér ekki langa sögu sem fastur bústaður, og ekki er saga þess á nokkurn hátt frábrugðin sögu svipaðra smábýla á þeim tíma, – en sögu á þetta býli samt – “sigurljóð og raunabögu”. En að Kaldársel eigi sér nokkra sögu, áður en nýi tíminn nemur þar land, mun ekki almenningi kunnugt, og fækkar nú óðum þeim, sem nokkuð vita þar um, umfram það sárafá, sem fært er í letur, þó á víð og dreif, ýmist prentað eða óprentað.

Kaldársel liggur í 6-7 km fjarlægð suðaustur frá Hafnarfirði. Staðurinn dregur nafn af lítilli á, sem rennur fast sunnan við hið forna tún. Bærinn stóð sem næst á miðjum túnbletti, örfá metra frá Kaldá.

Kaldársel

Kaldársel.

Áin rennur á mótum tveggja hrauna, hefur annað komið frá suðri, hitt úr Búrfelli, norðaustur af Kaldárseli. Það þarf ekki lengi að virða fyrir sér þessi hraun til að sjá, að ekki hafa þau úr sama eldgígnum komið, svo ólík er þau að flestu, hraunið sunnan Kaldár tilbreytingarlítið og snautt af gróðri, nema grámosa, allt til Óbrennishóla en kringum Kaldársel með margs konar gróðri. Gjár eru þar með vatni í botni og hraunmyndanir eru þar margvíslegar, og mætti helst líkja þeim við suma staði við Mývatn.

Kaldársel

Kaldársel – Gamla þjóðleiðin.

Árið 1929 kom út í Reykjavík lítil bók með þremur kvæðum eftir Friðrik Friðriksson. Hver þetta nefnist “Útilegumenn” og heitir aðalkvæðið “Kaldársel“. Fyrsta erindið er svona:

Eitt sinn ég kom
að Kaldárseli,
eyðistað
í ógna hrauni, gömlu býli
og bæjarrústum:
Einmana tóttir eftir stóðu.

Næsta erindi var svona:

Reikaði ég einn
um rústir þessar, ríkti þar yfir
ró og friður,
unaðskyrrð djúp
við elfu niðinn
svölun gaf sál
og sæla gleði.

Selstöð í Kaldárseli

Kaldársel

Kaldársel – túnakort 1903.

Elstu heimild, sem ég hef séð um Kaldársel, er að finna í Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Þar segir í III. bindi, bls. 180, í sambandi við Garða á Álftanesi: “Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott”. Þetta telur Jarðabókin ein af hlunnindum Garðastaðar, án kvaða eða afgjalds, og því augljóst, að staðurinn hefur átt landið, og hefur sjálfsagt sá eignarréttur verið ævaforn, og eflaust hefur þar engin breyting á orðið, þar til Hafnarfjarðabær kaupir árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi, og er Kaldársel í þeim keypta hluta.

Þótt Kaldársel hafi um aldir verið eign Garðakirkju ásamt miklu landflæmi til suðurs, austurs og norðurs frá Kaldárseli, er með öllu óvíst, hvort Garðaprestar hafi nokkru sinni haft þangað selfarir. Þó er það engan veginn óhugsandi. Hitt er vitað, að þar var haft í seli frá Hvaleyri á síðasta fjórðungi síðustu aldar, sem leiguselstöð hlýtur það að hafa verið, þar að elstu landamerki, sem vitað er um, liggja í að minnsta kosti eins km vegalengd vestur frá Kaldárseli. Meðan selfarir voru mikið tíðkaðar, urðu landlitlir bændur oft að leigja land undir sel sín hjá landríkum bændum, svo að einsdæmi hefði það ekki verið, þótt Hvaleyrarbóndinn leigði selstöð í Garðakirkjulandi.

Kaldársel

Húsin í Kaldárseli – Daniel Bruun.

Hvenær þessi selstöð hafi fyrst verið notuð frá Hvaleyri, er með öllu óljóst. Þegar litið er á bændatal Hvaleyrar um árið 1700 og það ástand, sem var þar í búskap mann, þegar jarðamat fór fram, 1703, sést, að bændur þar hafa allir búið við sátt, og varla er hugsanlegt, að selfarir hafi haft og síst svo langt burtu sem í Kaldárseli, þar eð allgott selland og nóg vatn var fullkomlega helmingi nær Hvaleyri og auk þess í heimalandi, þar sem var selstöðin við Hvaleyrarvatn. – Í fyrrnefndri Jarðabók frá 1703 segir, að Hvaleyri eigi selstöð, þar sem heitir Hvaleyrarsel, og séu þar sæmilegir hagar og gott vatnsból. Vitað er, hvar þessi selstöð hefur verið, hennar sjást glöggar minjar enn í svonefndum Selhöfða suður af Hvaleyrarvatni; þar nálægt er einnig Seldalur og Selhraun.

Kaldársel

Kaldársel – uppdrættir og ljósmyndir Daniel Bruun.

Það eina, sem nú er vitað með vissu um selfarir í Kaldárseli, er að hjónin Jón Hjartarson (Hjörtsson var hann oftast nefndur) og Þórunn Sigurðardóttir höfðu þar í seli. Jón Hjartarson keypti Hvaleyrina ásamt öllum hjáleigum, sem voru sex, árið 1842. Jón mun vera ríkasti bóndi, sem nokkru sinni hefur setið á Hvaleyri. Þórunn, kona hans, var kvenkostur góður og skörungur mikill, og var hennar meir getið til allra búsforráða heldur en manns hennar, sem þó var hinn mætasti maður. Jón dó árið 1866. Bjó Þórunn eftir það á Hvaleyri til 1873, að einu ári undanteknu, en var þar þó það ár. Þórunn dó 1880.

Kaldárssel

Kaldárssel – ljósm: Daniel Bruun 1897.

Góðar heimildir tel ég mig hafa fyrir búskap þessara Hvaleyrishjóna, eftir að þau komu þangað. Foreldrar mínir þekktu þau allvel, einkum þó Þórunni, þar eð hún lifði mann sinn í fjórtán ár.

Þegar Þórunn dvaldist í “Selinu” á sumrin, sem var þó ekki nema við og við, fór hún stundum með orf sitt og hrífu upp með Kaldá og sló þar í hólmum, þar sem slægt var, einnig smámýrarbletti milli kvíslanna í Kaldárbotnum. Hvert skipti sem hún gekk heim í “Selið”, bar hún með sér það, sem hún kom í svuntu sína af heyinu. Þessi sjaldgæfa vinnuaðferð Þórunnar lýsir hyggindum hennar og nýtni vinnuaflsins, svo sem verst mátti verða, og var talið einsdæmi, jafnvel þá.

Kaldárstígur

Kaldársel – Kúastígur.

Þegar Þórunn á Hvaleyri hætti selförum að Kaldárseli, lagðist selstöð þar niður með öllu, og má ætla, eftir því sem síðar kemur fram, að það hafi verið 1865 eða 1866.

Eftir því sem best verður vitað, hafa selfarir Þórunnar á Hvaleyri verið þær síðustu í Garðahreppi og líklega á öllum Reykjanesskaganum.

Kaldársel verður fastur bústaður

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellar.

Í Húsvitjunarbók Garðaprestakalls sést, að ábúandi er kominn í Kaldársel árið 1867, og er svo að sjá sem það sé fyrsta árið, sem fólk sé þar til ársdvalar. Þessi ábúandi var Jón Jónsson, kona hans og tvö börn, eftir því sem fyrrnefnd húsvitjunarbók ber eðs ér. Þessa fólks er ekki aftur getið í Kaldárseli, þó mun Jón hafa verið þar tvö eða þrjú ár, þó varla nema tvö, eftir því sem sonur Jóns, Sigurjón, hefur sagt mér, en hann lifir enn.

Fátæk voru hjón þessi og bústofn þeirra mjög lítill. Óhægur var þeim búskapurinn og sáu þau brátt, að í Kaldárseli var þeim engin framtíð búin. Þau voru einyrkjar og höfðu engin tök á hjúahaldi sökum fátæktar, en unglingsstelpa var þeim lánuð við og við, húsfreyju til hjálpar, einkum þegar bóndi fór að heiman til matfanga. Þessi hjálparstelpa var Sigríður Jónsdóttir frá Setbergi, móðir Árna Helgasonar ræðismanns í Chicago. Efir hina skömmu dvöl Jóns í Kaldárseli fluttist hann að Ási í Garðahreppi í byggingu Vigfúsar Vigfússonar og Úlfhildar.

Við burtför Jóns frá Kaldárseli lagðist þar búskapur niður um nokkur ár.

Þorsteinn í Selinu

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg á Standinum; ljósmynd Daniels Bruun.

Árið 1876 er manntal tekið í Kaldárseli, og er það sennilega fyrsta árið, sem það er í byggð eftir burtför áðurnefnds Jóns. Sá, sem þá er orðinn ábúandi Kaldársels, er Þorsteinn Þorsteinsson, upprunninn í Ölfusi. þetta ár telur húsvitjunarbók þar þrjár manneskjur í heimili, bóndann, ráðskonu og tökubarn. Árið eftir, 1877, eru þar fjórir í heimili, og hefur þá bæst við vinnukona.

Svo er að sjá, að manntal hafi ekki verið tekið í Kaldárseli frá 1877 fram til 1881. Það er þó vitað, að Þorsteinn var þar þau ár. Árin 1881 og 1882 eru fimm og sex manns í heimili hvort árið, þar á meðal vinnumaður og vinnukona, auk barns, sem er talið sveitarómagi, og vikadrengs. Árið 1883 virðist allmikil breyting hafa orðið á fólkshaldi Þorsteins, því að þá er hann orðinn einn í Kaldárseli.

Kaldársel

Teikning Daniel Bruun af Borgarstandi í Kaldárseli. Fjárborg efst og stekkur og fjárskjól undir að vestanverðu.

Sama er að segja um árið 1884. Árið eftir hefur nokkuð úr þessu raknað. Þá fer til Þorsteins stúlka úr Hafnarfirði, Sigríður Bjarnadóttir, og er hún hjá honum þegar hann deyr í Kaldárseli 14. júlí 1886, þá 67 ára. Þar með lauk búsetu í Kaldárseli.

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.

Báðir hafa þessir fyrrnefndu búendur Kaldársels setið í byggingu Þórarins prófasts Böðvarssonar að Görðum á Álftanesi, þar eð hann hafði öll umráð yfir landi Garðakirkju, en í því lá Kaldársel, eins og fyrr er getið. Ekki hefur mér tekist að hafa upp á byggingarbréfum eða öðrum skriflegum leiguskilmálum, hafi þeir nokkrir verið. Í manntalinu 1867 er Jón, sem áður er nefndur, talinn þurrabúðarmaður, en Þorsteinn er aftur á móti nefndur bóndi.

Þegar Þorsteinn í Kaldárseli fellur frá eru þar nokkrar byggingar og önnur mannvirki, þar á meðal matjurtagarður ekki svo lítill, og lá frá bænum niður að ánni mót suðri, einnig vörslugarður af grjóti umhverfis túnið. Ætla verður, að mest af þessu, jafnvel allt, hafi verið verk Þorsteins, og styður það þá tilgátu, að öll hús eru seld á opinberu uppboði, haustið eftir dauða Þorsteins, ásamt gripum hans og öllum eftirlátnum munum.

Kaldársel

Kaldársel um 1932. Gamla selið (tilgáta) sett inn á ljósmyndia.

Hús öll í Kaldárseli keypti Jón Guðmundsson bóndi að Setbergi svo og flestar kindurnar. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergi mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma.

Kaldársel

Uppdráttur af húsum í Kaldársseli í lok 19. aldar – Daniel Bruun.

– Danski höfuðsmaðurinn Daniel Bruun kom í Kaldársel árið 1897. Lýsir hann allvel Kaldárseli og umhverfi þar. Hann segir meðal annars um húsatætturnar, að þær séu frábrugðnar flestum, ef ekki öllum þess konar byggingum hér á landi, þar sem þær séu byggðar úr grjóti einu saman, en almennt sé annars staðar byggt úr grjóti og torfi eða mýrarhnaus, þar sem grjóts sé vant. Tættur þessar gætu staðið enn lítt eða ekki haggaðar, ef menn hefðu ekki skemmt þær með því að taka úr þeim grjót til einhverra nota. Þó stendur þar enn, eftir sem næst 90 ár, það mikið, að vel sést, hver húsaskipan þar var. tel ég illa farið, að tættur þessar skyldu ekki fá að standa óáreittar og þeim haldið við, ef steinar féllu úr hleðslu, efir því sem þörf gerðist.

Kaldársel

Teikning Daniels Bruun af baðstofunni í Kaldárseli 1897.

Aðalbústofn Þorsteins var sauðfé og eitt eða tvö hross, kú mun hann aldrei hafa haft þar. Að mestu mun Þorsteinn hafa haft fullorðna féð á útigangi, þar eða heyfengur var þar lítill. Fjárhús með jötu við annan vegg var norðvestan við bæjarhúsin, og mun hann hafa haft lömb sín þar. Fullorðna féð hafði hann við hella, sem voru skammt norðan frá bænum, eða þá í fjárborgum uppi á Standinum, sem er nokkru nær. Eitt sérkenni var á flestu fé Þorsteins, það var ferhyrnt, með fáum undantekningum. Fé þetta var oft nefnt horseigt.

Kaldársel

Kaldársel

Þorsteinn í Kaldárseli var alla tíð ókvæntur og barnlaus, bjó með bústýrum þau ár, sem hann var í Selinu, en þau munu hafa verið tíu. Áður var hann búinn að vera allmörg ár á Lækjarbotnum í Seltjarnarneshreppi og þá ýmist skrifaður bóndi eða vinnumaður. Þá bjó á Lækjarbotnum hinu eldri, sem stóðu suður með Selfjalli, og munu sjást þar enn bæjartóftir og fleiri mannvirki frá þeim tíma, ekkja, Hallbera að nafni, stórbrotin kona í meira lagi, en tröll í tryggðum og mannkostum, þar sem henni þótti við eiga. Þorsteinn mun hafa haldið fé þeirra mest á útigangi, það er litlar voru slægjur í Lækjarbotnum.

Þorsteinshellir

Í Þorsteinshelli.

Eggert G. Norðdahl á Hólmi hefur sagt mér, að efst í heiðmörk sé hellir, sem Þorsteinn hafi haft fé sitt við á vetrum, og er hellir sá eftir honum nefndur og heitir Þorsteinshellir. Viðbúið er, að fáir þekki nú helli þennan. Síðasta árið áður en Þorsteinn fór að Kaldárseli bjó hann í Hvammakoti, sem nú heitir Fífuhvammur.

Kaldársel - fjárhellar

Fjárskjól og heykuml við Kaldársel – uppdráttur ÓSÁ.

Með Þorsteini lagðist niður að fullu búskapur í Kaldárseli, en handverk sjást þar enn nokkur eftir hann, en of illa tel ég þau farin. Bráðlega voru öll hús rifin í Kaldárseli nema baðstofa ein, sem látin var standa uppi fram undir aldamót. Var hún á þeim árum einkum notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá héldu fé sínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högunum. Einnig var gott fyrir krýsvíkinga, sem þá áttu aðalleið um Kaldársel, þegar til Hafnarfjarðar fóru, að hafa þarna nokkurt afdrep. Þarna lágu einnig haustleitarmenn Grindavíkurhrepps, sem þá leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárseli. Á þessum árum var mikill straumur erlendra ferðamann, aðallega enskra, til Krýsuvíkur. Voru það einkum hinar svo til nýyfirgefnu brennisteinsnámur þar, sem þessir ferðamenn voru að skoða. Við námurnar stóðu þá enn tvö stór og allvönduð hús frá þeirri starfsemi, og voru þau mikið notuð til gistingar af þessu fólki. Mjög bar baðstofan Í Kaldárseli merki þess, að þar hefðu margir komið, og mjög voru sperrur og súð skorin mannanöfnum, bæði fullum og skammstöfunum, og voru þar nöfn bæði innlendra manna og erlendra.

Kaldársel

Kaldársel – loftmynd.

Að liðnum aldamótum síðustu var svo komið, að ekkert hús stóð lengur í Kaldárseli, og flest gekk þar af sér.

Enn gerð tilraun til búskapar í Kaldárseli

Kaldársel

Kaldársel 1965. Tóftir selsins ( lambhúss Kristmundar) sjást enn suðaustan við húsið.

Árin 1906-1908 er enn gerð tilraun til búskapar í Kaldárseli. Maður sá, sem þá fékk Kaldársel til afnota, var ungur Hafnfirðingur, Kristmundur Þorláksson að nafni, síðar stórbóndi í Stakkavík í Selvogi.

Þegar Kristmundur fékk Kaldárselsland til nytja, átti hann víst framt að fimmtíu kindur, ungar og gamlar. Þennan fjárstofn hafði hann á fáum árum dregið saman og aflað fóðurs fyrir með fádæma dugnaði, án þess þó að niður væri sleppt nokkurri vinnu, þegar hún bauðst. Um sumarið vann hann að því að koma upp smáheyhlöðu með því að byggja yfir hin gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallin.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Þegar hlaðan var komin undir þak, fór Kristmundur að öngla saman heyi í hana. Þennan heyfeng fékk hann víðs vegar í landi Garðakirkju, svo sem hann hafði leyfi fyrir, og mun hafa numið um 30 hestburðum. Þetta þurfti að endast 15-20 lömbum og einum hrút. Ærnar áttu að lofa að mestu á jörðinni, því að fjárland var þarna gott. Ekki hafði hann not gömlu tóttanna þar að öðrum en því, að í þeim var gnægð af góðu og sléttu helluhraungrýti, sem hann varð að nokkru að færa úr stað.

Kristmundur hélt fé sínu í Kaldárseli, en hafði búsetu í Hafnarfirði. Langur var því beitarhúsavegur hans, eða um 1 1/2 stundar gangur í sæmilegu færi. Í myrkri fór hann að morgni og í myrkri heim að kvöldi. Lömbin hafði Kristmundur í húsi og beitti ekkert framan af vetri, en ærnar hafði hann við hella þá hina gömlu, sem eru skammt norður af Selinu. – Brátt kom í ljós, að eitthvað háði nokkrum lömbunum, þau fóru ekki að, þegar gefið var á, en stóðu þess í stað lotin úti við veggi. Músin étur sig venjulega ofan í herðakamb lambanna, ogfái hún að vera óáreitt, étur hún sig stundum langt niður með bóg, og er þá sárið lítt læknanlegt.

Fremstihöfði

Hálfhlaðið fjárhús Kristmundar undir Fremstahöfða.

Allir þessir erfiðleikar, sem Kristmundi mættu þarna, áttu drjúgan þátt í því, að hann treysti sér ekki til að halda áfram búskap í Kaldárseli. Hann flutti fé sitt að Hvassahrauni, þar sem hann fékk vist. Þannig lauk búskap þessa síðasta bónda í Kaldárseli. Með honum gekk hinn gamli tími þar úr garði, alfarinn.

Nýi tíminn hefur innreið sína í Kaldársel

Lambagjá

Hleðsla undir vatnsstokkin í Lambagjá.

Um síðustu aldamót rann upp yfir Hafnarfjörð nýtt tímabil, tímabil nýrra atvinnutækja, nýrra framkvæmda, nýs lífs. Á sama tíma sem síðasta tilraun til búskapar í Kaldárseli beið algjöran ósigur, komu Hafnfirðingar upp hjá sér allstóru fyrirtæki eftir þess tíma framkvæmdum, fyrstu vatnsveitu, sem bærinn fékk. Á því tímabili keypti Hafnarfjarðarbær mikið af landi Garðakirkju, eða allt fjallland sunnan Selvogsvegar, þar á meðal Kaldársel, og hafði bærinn þar með tryggt sér nægjanlegt vatn til langrar framtíðar. Kaldá varð því fyrir valinu til úrbóta þeim vatnsskorti, sem orðinn var ærið ískyggilegur.

Kaldársel

Vatnsstokkurinn norðan Kaldár.

– Árið 1918 var ákveðið að leið vatn úr Kaldá, að vísu lítið brot af vatnsmagni árinnar, í ofanjarðar tréstokk allstórum, og sleppa vatninu lausu við suðurhorn Sléttuhlíðar. Stokkur þessi var rösklega 1 1/2 km að lengd. Eftir að vatninu var sleppt úr stokknum, átti það að finna sér leið neðanjarðar eftir hrauninu til Lækjarbotna, þar sem vatnsveitan var fyrir, og þar með auka vatnsmagn lækjarins, sem þá þyldi, að víðari rör væru sett í upptökuna. þetta bragð Hafnfirðinga lánaðist. vatnið skilaði sér á tilætlaðan stað, og nægjanlegt vatn varð um langt árabil. Var nú kyrrð um hríð í Kaldárseli, nema hvað vatnsstokkurinn krafðist viðhalds og umbóta.

Kaldársel

Kaldársel – fyrsti skáli K.F.U.M. Kaldársel sést aftan við húsið.

Næst lætur nýi tíminn bóla á sér í Kaldárseli árið 1925. Þá fá K. F. U. M. og K. í Reykjavík og Hafnarfirði leigumála fyrir gamla túninu og leyfi til að byggja þar hús. Hús þetta skyldi vera sumardvalarstaður barna úr þessum félögum nokkurn hluta sumars. Mest efni hússins varð að bera á bakinu fjórða hluta leiðarinnar frá Hafnarfirði.

Árin 1949 til 1953 var ráðist í að gera fullkomna og trygga vatnsleiðslu í neðanjarðarleiðslu frá Kaldá til Hafnarfjarðar. Árið 1955 var byggð lögrétt fyrir Hafnarfjarðarbæ, Garða- og Bessastaðahrepp í Kaldárseli.

Kaldárselsrétt

Kaldárselsrétt.

Þessi rétt kom í stað hinnar fornu Gjáréttar, sem lögð var niður fyrir rúmum 40 árum og þá flutt á óhentugan og vatnslausan stað í Gráhelluhrauni.

Niðurlagsorð

Kaldársel

Kaldársel og nágrenni – loftmynd.

Saga Kaldársel, sem hér er sögð, er hvorki löng né stórviðburðarík, en saga er það samt, og þótt ekki væri nema það fólk, sem nú nýtur þess, sem þessi staður hefur að miðla og mun gera um ófyrirsjáanlega framtíð, vissi hann nokkru betri deili en áður, tel ég tilgangi mínum náð og tíma minn við samantekningu þessa þáttar allvel greiddan.”

Heimild:
-Áður en fífan fýkur – Ólafur Þorvaldsson – 1968; Saga Kaldársels, bls. 119-139.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg á Borgarstandi.

 

 

Kaldársel

Á vef Umhverfisstofnunar má lesa eftirfarndi um friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjárna, þ.m.t. Lambagjá.

Kaldársel

Kaldárhraun – Gjár.

Kaldárhraun og Gjárnar í Hafnarfirði voru friðlýst sem náttúruvætti árið 2009. Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna er að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.

Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar. Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur.

Stærð hins friðlýsta svæðis er 208,9 ha.

Í auglýsingu um “náttúruvættið Kaldárhraun og Gjárnar í upplandi Hafnarfjarðar” – nr. 396/2009 3. apríl 2009, segir:

1. gr.

Kaldársel

Gjár.

Um friðlýsinguna.
Umhverfisráðherra hefur ákveðið að tillögu Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands og með samþykki bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar, sem landeiganda og sveitarstjórnar, að friðlýsa Kaldárhraun og Gjárnar, þ.e. Norðurgjá, Suðurgjá og Lambagjá, sem náttúruvætti, skv. 2. tölulið 53. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.
Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar. Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur. Stærð hins friðlýsta svæðis er 207,1 hektari.

2. gr.

Lambagjá

Hleðslur undir vatnsleiðsluna um Lambagjá frá 1919.

Markmið friðlýsingarinnar.
Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna sem náttúruvættis er að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.

3. gr.
Mörk náttúruvættisins.
Mörk náttúruvættisins afmarkast af eftirfarandi ISN-93 hnitum og eru sýnd á meðfylgjandi uppdrætti.
Lóð frístundahúss sem er innan útmarka náttúruvættisins er undanskilin friðlýsingunni.

4. gr.

Lambagjá

Lambagjá.

Umsjón náttúruvættisins.
Umsjón og rekstur náttúruvættisins skal vera í höndum umhverfisnefndar Hafnarfjarðarkaupstaðar, samkvæmt samningi Umhverfisstofnunar og Hafnarfjarðarkaupstaðar sem
umhverfisráðherra staðfestir. Umhverfisstofnun skal sjá um gerð verndaráætlunar fyrir náttúruvættið í samráði við Hafnarfjarðarkaupstað, sbr. d-lið 6. gr. laga um náttúruvernd, nr.
44/1999.

5. gr.
KaldárhraunUmferð um náttúruvættið.
Almenningi er heimil för um náttúruvættið, enda sé gætt góðrar umgengni. Í samræmi við samþykkt um hundahald er óheimilt að hafa hunda í náttúruvættinu án fylgdar og tryggrar stjórnar. Akstur vélknúinna farartækja utan akvega er óheimill í náttúruvættinu.

6. gr.
Verndun jarðmyndana, gróðurs, dýralífs og menningarminja.
Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt jarðmyndanir í náttúruvættinu. Einnig er þar óheimilt að spilla gróðri og trufla dýralíf og eru skotveiðar bannaðar. Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt menningarminjar á hinu friðlýsta svæði.

7. gr.

Kaldárhraun

Kaldárhraun – friðlýsing.

Landnotkun og mannvirkjagerð.
Allar framkvæmdir innan náttúruvættisins eru háðar leyfi Hafnarfjarðarkaupstaðar og Umhverfisstofnunar, sbr. 38. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Framkvæmdir skulu vera í samræmi við samþykkt skipulag og verndaráætlun. Gert er ráð fyrir að gömlum stígum og vegum verði viðhaldið sem gönguleiðum og einnig að fjölga merktum og stikuðum gönguleiðum og stígum um svæðið sem tengst geta öðrum gönguleiðum um uppland Hafnarfjarðar.

8. gr.

Kaldársel

Kaldárhraun og nágrenni – loftmynd.

Undanþágur.
Umhverfisráðherra getur, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og umhverfisnefndar Hafnarfjarðarkaupstaðar, veitt heimild til þess að vikið verði frá reglum þessum í einstökum
tilfellum gangi það ekki gegn markmiðum friðlýsingarinnar.

9. gr.
Refsiákvæði.
Brot gegn friðlýsingu þessari varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, skv. 75. og 76. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

10. gr.
Gildistaka.
Friðlýsingin öðlast þegar gildi.
Umhverfisráðuneytinu, 3. apríl 2009.
Kolbrún Halldórsdóttir.
Steinunn Fjóla Sigurðardóttir

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg á Borgarstandi.

Í Skrá um friðlýstar fornleifar, fyrsta útgáfa 1990, segir m.a. um minjar á hinu friðlýsa svæði: “Kaldársel. 1. Bæjarrústir, rétt sunnan við skála KFUM, svo og aðrar rústir í hinu gamla túni. 2. Fjárborg, nú hrunin, þar sem hæst ber á svonefndum Standi, skammt fyrir norðan bæjarrústirnar.
3. Fjárhústóft og gerði, rétt hjá borginni, þeim megin sem frá bæjarrústunum veit. 4. Hleðsla undir gamla vatnsveitustokkinn til Hafnarfjarðar, þvert yfir gjá. Skjal undirritað af KE 30.04.1964.
Þinglýst 05.05.1964.

Heimild:
-https://ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/fridlyst-svaedi/sudvesturland/kaldarhraun-og-gjarnar/
-Skrá um friðlýstar fornleifar, fyrsta útgáfa 1990.

Kaldárhraun

Kaldárhraun – samningur um náttúruvættið milli Ríkis og Hafnarfjarðarbæjar til 10 ára.

Búrfell
Gengið var um Lambagjá, en hún hefur verið friðuð. Með í för voru skiptinemar á vegum Lionshreyfingarinnar, annar frá Króatíu og hinn frá Slóvaníu.
Rauðshellir

Rauðshellir.

Ætlunin var m.a. að gefa þeim innsýn í myndun landsins og sýna þeim hrauntraðir, hraunhella og eldgíga.
Í Lambagjá eru hlaðnar þverfyrirhleðslur á a.m.k. tveimur stöðum og einnig er hlaðið fyrir þar sem auðvelt hefur verið að komast upp úr gjánni miðsvæðis. Líklegt má telja að gjáin hafi verið notuð sem aðhald eða jafnvel nátthagi um tíma. Hraunhaft er í hrauntröðinni, en gengið var undir það. Þar niðri var fallegt þrastarhreiður og í því þrjú egg. Þrösturinn hafði greinilega verpt í það öðru sinni í sumar. Skammt ofar var annað þrastarhreiður, yfirgefið. Gengið var áfram upp að opi Níutíumetrahellis. Frá því var haldið upp að Selvogsgötu þar sem hún liggur niður í Helgadal og kíkt í Vatnshelli áður en haldið var upp með misgenginu að Rauðshelli. Við op hans var einnig þrastarhreiður á sillu með fjórum eggjum í.

Rauðshellir

Hleðslur í Rauðshelli.

Farið var inn í hellinn og m.a. skoðuð hlaðin fyrirhleðsla, sem þar er. Misvísandi lýsingar eru á Rauðshelli. Til er gömul lýsing, sem mun vera rétt, en einnig hefur verið giskað á að um Hundraðmetrahellinn gæti verið að ræða, en slíkt passar ekki við gömlu lýsinguna. Náttúrulegur bekkur hefur verið þarna þvert yfir hellinn, sem bæði hefur verið hægt að komast yfir og undir. Hún er nú fallin, en rauður liturinn í hellinum er enn áberandi. Hleðslur eru í jarðfallinu og án efa einnig undir gróðurþekjunni, sem þar er. Forn stekkur er skammt norðar.
Þá var gengið upp í Fosshelli og haldið í gegnum hann. Sást vel hversu fallegur hraunfossinn er sem og flórinn í efri hluta hellisins.

Búrfellsgjá

Hlaðið fyrir helli í Búrfellsgjá.

Gengið var yfir að Búrfelli. Í hrauntröðinni er m.a. skúti með fyrirhleðslu. Haldið var upp eftir tröðinni og litið niður í gíginn, sem er ótrúlega tilkomumikill. Háir veggir traðarinnar geyma ótrúlegar hraunmyndarnir, ef vel er að gáð.
Búrfell er eldborg. Frá henni rann hraun niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð. Heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára.
Búrfellið tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krísuvík. Búrfell er hringlaga gígur úr hraunkleprum. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.
Búrfellshraun er innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun.

Búrfellshraun

Búrfellshraunin.

Búrfellið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum.
Sá hraunstraumur sem runnið hefur í Heiðmörk og niður í Garðabæ hefur runnið eftir Búrfellsgjá. Búrfellsgjá þykir með fallegri hrauntröðum landsins. Gjáin er 3,5 km á lengd með meginstefnu í norðvestur. Búrfellsgjá er mjóst upp við gíginn eða um 20-30 metrar milli barma en breikkar þegar lengra dregur og verður mest 300 metrar. Í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð grynnkar hrauntröðin og hverfur, sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Á köflum eru gjárveggirnir þverhníptir og mynda sums staðar grunna hellisskúta sem eru með snarhöllu þaki. Barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar er allt úr Búrfellshrauni.

Búrfellsrétt

Búrfellsrétt. Gerðið fjær.

Gengið var niður gjána og að Gjáarrétt. Réttin var skoðuð sem og Gerðið. Innst í því, undir slútandi klettaveggnum er hlaðið hús, nokkuð heillegt.

Gjáarrétt

Gjáarrétt og nágrenni.

Gjáarrétt hefur sennilega verið lögrétt Garðhreppinga, Bessataðahreppsbúa og Hafnfirðinga í nokkur hundruð ár (Ól. Þorvaldsson). Sigurður í Görðunum segir í minningum sínum: “Réttin okkar var í hrauninu, skammt fyrir sunnan Vatnsenda. Hygg ég, að það hafi verið ein sérkennilegasta rétt á landinu. Hún hét Gjárétt, enda var hún í gjá. Skammt frá eru víðir og fagrir vellir og þar var oft leikið sér og ekki sízt sprett úr spori bæði þegar komið var í réttina og eins þegar réttardeginum var lokið.”

Gjáarrétt

Gjáarrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Gjáarrétt (Gjárétt) var fjallskilarétt (lögrétt) til 1920, en þá var hún flutt niður í Gráhelluhraun og nefndist Hraunrétt. Dilkar voru 12 talsins uns einum dilk Selvogsmanna var bætt við suðaustast í réttinni. Árið 1955 var gerð rétt við Kaldársel. Gjáarrétt var friðlýst að tilstuðlan þjóðminjavarðar 1964.
Frábært veður – hlýtt og stillt. Gangan tók 3 klst og 30 mín.

Upplýsingar um Búrfellshraun er m.a. fengið af http://www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/burfellshraun.htm

Búrfell

Gígur Búrfells – upptök Búrfellshrauns.

Rauðshellir

Ákveðið var að að taka hellahring í Kaldárseli.

Kétshellir

Ketshellir / Setbergsselsfjárhellir.

Byrjað var á að kíkja á Hamarkotsselshelli (Selhellir) og Setbergsselshelli (Ketshellir) undir Setbergshlíð. Hellirinn er um 15 metra langur og opnast í báða enda. Hleðslur eru fyrir opum, einkum Setbergsselshellismegin. Þverhleðsla skiptir hellinum fyrir miðju. Stórar hraunhellur hafa fallið úr þaki inngangsins að norðanverðu, en hellirinn sjálfur hefur veitt fé (og reyndar geitumundir það síðasta, gott skjól á meðan var. Gróið er í kringum Setbergsselið og fallegur stekkur er þar sem Selvogsgatan liðast upp hálsinn, í átt að Kershelli og Smyrlabúðahrauni. Selið er undir hæðinni, utan í Gráhelluhrauninu, en innan við hraunkantinn er enn eitt hellisopið.

Kershellir

Kershellir.

Kershellir er bæði aðgengilegur og rúmgóður. Hann opnast innan úr keri efst á hraunbrún. Ofan við opið er stór varða. Innan úr Kershelli er Hvatshellir, sá sem drengir Friðiks Friðrikssonar söfnuðust saman í á leið þeirra í Kaldársel. Síðar var lagður vegur að búðum KFUM er reistar voru þar. Gamla Kaldársel er undir suðurvegg búðanna (hússins).
Þá voru skoðaðir Kaldárselsfjárhellarnir er FERLIR opnaði fyrir u.þ.b. þremur árum. Þá voru engin spor við munnana og alls engin innan þeirra. Greinilegt er að margir hafa litið þarna við síðan þá.

Helgadalur

Helgadalur – stekkur.

Ummerki eftir heykuml er miðsvæðis, en í nyrsta fjárskjólinu er hlaðinn miðgarður. Syðsta fjárskjólið er stærst og aðgengilegast. Við munnann hafði þröstur verpt fjórum eggjum í hreiður á syllu við innganginn. Fylgdist hann vel með mannaferðum og lét í sér heyra.
Lokst var strikið tekið til austurs áleiðis að Helgadalshellunum; Hundraðmetrahelli og Rauðshelli. Gengið var eftir hleðslunni undir gömlu vatnsleiðsluna úr Kaldárbotnum, henni fylgt áleiðis til suðausturs yfir Lambagjá og síðan vent til austurs að Helgadal. Greinilegt var að einhverjir hafa verið duglegir að hirða grjót úr hleðslunni á köflum. Á leiðinni mátti sjá falleg hraunreipi í helluhrauninu. Ekki var litið inn í Níutíumetrahellinn að þessu sinn, en höfðinu hins vegarstungið niður í Vatnshelli. heyra mátti tónlist vatnsins er dropar þess lentu á sléttum tærum vatnsfletinum og bergmáluðu inni í holrúminu.

Rauðshellir

Rauðshellir.

Þegar komið var að Rauðshelli skein sólin á munnann og hleðslurnar þar fyrir. Einhverjir hafa í seinni tíð nefnt hellinn Pólverjahelli, en þegar hann er skoðaður gaumgæfilega fer hin gamla nafngift ekki á milli mála. Víða í hellinum hefur rauðleitt hraunið runnið upp á veggina og makað hann litskrúðugan. Hleðslurnar fyrir opum og gróið jarðfallið benda til þess að þarna hafi einhvern tímann verið selstaða. Þá staðfestir forn stekkur norðan við það þá kenningu. Misgengi liggur með norðanverðum Helgadal til austurs og vesturs. Undir því á einum stað sést móta fyrir hleðslum.

Helgadalur

Op Hundraðmetrahellisins.

Farið var inn í Hundarmetrahellinn og skoðaðir raunbekkirnir með veggum og einnig litið á hraunfossinn inn undir jarðfallinu við enda hans. Ofan við hraunfossin er rás upp úr hrauninu sunnan við og undir sauðfjárveikigirðinguna, sem þarna er.
Helgafell skartaði sínu fegursta í kvöldsólinni, sem og Valahnúkar og Kaldárbotnar.

Frábært veður.

Helgadalur

Hleðslur í Rauðshelli.

Kaldársel

Gengið var frá húsi K.F.U.M. og K. Ætlunin var að ganga til suðurs að Kaldá, þar sem hún rennur neðan við húsið, og yfir göngubrú, sem þar er á henni með stefnu eftir Kúastígnum að Kýrgili.

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.

Kaldá rennur þar á mótum tveggja hrauna. Annað hraunið rann úr suðri um 1151, en hitt rann úr Búrfelli löngu fyrr eða fyrir u.þ.b. 4750 árum, norðaustan af Kaldárseli. Tóftir selsins voru nokkurn veginn þar sem viðbygging Kaldársels er nú svo og sunnan hennar, ofan árbakkann. Þar má enn sjá móta fyrir garðhleðslum. Sunnan árinnar, á hægri hönd þegar farið er yfir Kaldá, má einnig og sjá tótt á árbakkanum. Eftir stutta göngu að girðingu framundan er komið inn á hluta gömlu Krýsuvíkurleiðanna; Dalaleiðar er lá upp um Kýrgil og áfram til suðurs austan Undirhlíða, og Undirhlíðarvegar er lá áfram til suðurs vestan Undirhlíða, allt að Ketilsstíg yfir Sveifluháls. Sameiginlegi hlutinn er augljós í Kaldárhrauninu og auðvelt að fylgja honum í átt að Kaldárselshnjúkum. Við hnjúkana greindist Krýsuvíkurvegurinn, sem fyrr segir, annar lá upp fyrir Undirhlíðar, Dalaleiðin, og hinn út með Hlíðunum.

Kaldársel

Kaldárssel; hús KFUM og selsrústirnar.

Gamli bærinn í Kaldárseli stóð á túnblettinum, sem núverandi hús stendur á, þ.e. suðaustan við eldra húsið, á móts við miðju þess nýrra er snýr að árbakkanum. Áður tilheyrði landið Garðakirkju og hafði hún þar í seli fram til ársins 1836. Frá árinu 1873 hafði Hvaley þar leigusel. Sel Garða voru flest í Selgjá vestan Búrfellsgjár. Enn sjást þar tóttir selja með hraunbarminum beggja vegna, einkum að sunnanverðu, svo og fallegir fjárhellar, bæði í gjánni og efst í Urriðavatnshrauni. Hafnarfjarðarbær keypti árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi, Kaldársel þar með.

Kaldársel

Tóftir Kaldársels framan við núverandi hús.

Elsta heimild um Kaldársel er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar segir að Hvaleyri eigi selstöð þar sem heitir Hvaleyrarsel suður af Hvaleyrarvatni í Selshöfða, auk selstöðvar í Kaldárseli. Aðrir munu ekki hafa nýtt það sel. Þegar Hvaleyrarbóndi hætti selförum að Kaldárseli lagðist selstöð þar niður með öllu, annað hvort 1865 eða 1866.

Í húsvitjunarbók Garða má sjá að árið 1867 er kominn ábúandi í Kaldársel. Hann hét Jón Jónsson, en hann var þar stutt. Eftir það lagðist búskapur niður um nokkur ár.

Selgjá

Selgjárhellir. Einnig nefndur Þorsteinshellir.

Árið 1876 kom þangað Þorsteinn Þorsteinsson eða Þorsteinn í Selinu, eins og hann var jafnan nefndur. Enn er efst í Heiðmörkinni fallegur fjárhellir, Þorsteinshellir, sem lengi var talinn týndur. Þorsteinn var nokkuð sérkennilegur í háttum. Á hans tíma voru í Kaldárseli nokkar byggingar, matjurtargarður, sem lá frá bænum niður að ánni mót suðri og vörslugarður. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð. Í því var baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Tætturnar voru allar vel hlaðnar úr sléttum og þykkum hraunhellum, en hvergi mold eða torf á milli, svo sem venja var.

 

Kaldársel

Tóft vestan við núverandi hús í Kaldárseli.

Jón Guðmundsson á Setbergi keypti húsin í Kaldárseli sem og kindur. Þau voru öll rifin, nema baðstofan, sem stóð uppi fram undir aldamót. Hún var einkum notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá fengu þar afdrep á ferðum sínum.  Haustleitarmenn Grindvíkinga leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárselisínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högum. Einnig var gott fyrir Krýsvíkinga að hafa þarna afdrep. Þá var mikil umferð útlendra ferðamanna til Krýsuvíkur, einkum til að skoða hinar nýyfirgefnu brennisteinsnámur, sem þar voru. Þeir gistu margir í Kaldárseli. Baðstofan bar þess merki. Í sperrur og súð voru skorin ófá mannanöfn af ýmsum þjóðernum.

Kaldársel

Kaldársel – fyrsti skáli K.F.U.M. Kaldársel sést aftan við húsið.

Að liðnum aldamótum 1900 var ekkert hús lengur í Kaldárseli. Ferðum útlendinga fækkaði, Krýsvíkingar týndu ört tölunni, fjallleitir Grindjána styttust og hið stóra Setbergsheimili tvístraðist. Og fénaðurinn hvarf úr högunum.
Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Þorláksson Kaldársel til afnota, síðar stórbóndi í Stakkavík. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir sínar 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Ekki hafði hann not af gömlu tóttunum að öðru leyti en því að hann gat nýtt úr þeim hraunhellurnar, sem hann gerði af miklum dugnaði. Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna.

Kaldársel

Kaldársel – fjárskjól.

Ærnar hafði hann við gömlu hellana, sem eru skammt norður af Selinu. Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun þar sem honum bauðst vist. Hann var því síðasti bóndinn í Kaldárseli.
Framundan eru Kaldárhnjúkar Syðri. Hlíðin á vinstri hönd og hraunið á þá hægri. Eftir stutta göngu er gengið framhjá Kúadal, en talið er að selssmalinn hafi rölt kvölds og morgna um þessa sömu götutroðninga með kýr úr og í haga. Vestan Kúadals taka Undirhlíðarnar við. Gengið er framhjá Kýrskarði og áfram útfyrir Múla á hægri hönd. Þar á horninu er hellisskúti er nefnist Árnahellir, kenndur við Árna Gíslason í Brekkubæ í Hafnarfirði.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg; ljósmynd Daniels Bruun.

Með Hlíðunum eru tré, sem plantað var af Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, sum fyrir áratugum síðan. Þar er minnisvarði um fyrsta formann Skógfræktarfélagsins, Ingvar Gunnarsson. Afturhlíðar Undirhlíða heita Bakhlíðar eða Gvendarselshæð. Þar er Gvendarsel vestan í hlíðinni. Sjást tóttir selsins og hlaðinn stekkur framan þess.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Framundan undir Hlíðunum, sem áður nefndust Gvendarselshlíðar, eru Kerin. Þau eru fallegir tvíburagígar. Hægt er að ganga upp í efri gíginn úr þeim neðri um gat á milli þeirra, en þar uppi er tilvalinn, skjólgóður, áningastaður.
Sjá meira um Kaldársel HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR. Og er þá um fátt getið…
Frábært veður.

Kaldársel

Teikning Daniels Bruun af baðstofunni í Kaldárseli.

 

Kaldársel

Eftirfarandi er úr bókinni Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur XII, Reykjavík 1957, safnað hefur Guðni Jónsson”

Kaldársel

Heykuml við Kaldársel.

“Í suðaustur frá Hafnarfirði er staður sá, sem heitir Kaldársel. Er það nokkur nær Hafnarfirði en Helgafell, en þó mun vera þangað fullur stundargangur, jafnvel þótt hart sé farið. Nú er að sumarlagi unnt að komast í bíl mest af leiðinni. Fyrir nokkrum áratugum var búið í Kaldárseli, ei eigi að staðaldri, heldur 2-3 ár í senn, því fremur hefir það verið lítil og léleg jörð. Túnið var lítið og hefir verið fátt nautgripa, en fjárbeit hefir sennilega verið þar góð.
Sigríður Jónsdóttir húsfreyja í Hafnarfirði, kona Helga Sigurðssonar, hefir sagt frá því, sem hér er ritað, um dvöl sína í Kaldárseli. er frásögn hennar á þessa leið:

Kaldársel

Gengið um Kaldárselssvæðið.

Ég er upp vaxinn á Setbergi við Hafnarfjörð. Bjuggu þar foreldrar mínir, Jón Guðmundsson og Vilborg Jónsdóttir. Þegar ég var 13 ára gömul, bjuggu hjón í Kaldárseli, er hétu Jón Jónsson og Sigríður Ásgrímsdóttir. Höfðu þau búið þar 2-3 ár. Eftir nýár 1873 var ég lánuð í Kaldársel húsfreyju til aðstoðar, og dvaldi ég þar til vors eða þangað til á venjulegum vinnuhjúaskildaga. Áttu þau hjón eina kú og nokkrar kindur. Stóð kýrin geld frá því um nýár og þar til vika var af góu, þá bar kýrin.
Þegar hún er um það bil fullgrædd, þá er það eitt kvöld að loknum mjöltum, að húsfreyja gengur inn í búrið og verður litið á búrhilluna. Kemur hún auga á tveggja marka ask, mjallahvítan, er stendur tómur á búrhillunni, og þekkti hún þegar, að hann var eigi til á heimilinu. Kemur hún inn og segir: “Verði mér aldrei verra við, Sigga. Frammi á búrhillu stendur tómur askur, sem ég ekki kannast við”. Þá segi ég: “Ef þetta hefði komið fyrir hjá henni mömmu, þá veit ég, hvað hún hefði gert. Hún hefði látið mjólk í hann”.

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellir.

Húsfreyja lét að orðum mínum og hellti askinn fullan af mjólk. Næsta morgun var askurinn horfinn, en kvöldið eftir um mjaltatíma er askurinn kominn aftur og er þá tómur, og gekk þetta svo á hverju kvöldi, þar til vika var af sumri. Lét húsfreyja jafnan mjólk í askinn á hverju kvöldi, og var hann ætíð horfinn næsta dag. Þá dreymir húsfreyju eina nótt, að kona kemur til hennar og segir: “Mikið á ég þér að þakka, og þinnar hjálpsemi og hjartagæzku skal ég lengi minnast. Maðurinn minn hefir legið sjúkur um langan tíma, og hefir þú haldið lífinu í honum með gjöfum þínum og litlu barni, sem við eigum. Vildi ég fegin sýna einhvern lit á að endugjalda þér það, sem þú hefir gjört fyrir mig og mína, en hagur minn leyfir ekki að launa þér þetta, eins og vera bæri. En þegar þú býrð um rúmið þitt, þá muntu finna nokkuð undir neðsta stykkinu, sem þú átt að eiga. Nú þarf ég eigi lengur að mér góðsemi þína”.

Kaldársel

Borgarstandur við Kaldársel.

Konan hvarf síðan burtu, og sá húsfreyja hana ganga norður í klettabyrgi nokkurt, sem er þar fast við túnið. Húsfreyja virtist leggja lítið upp úr þessum draum og vildi láta sem minnst á þessu bera. Ég sagði ýmsum drauminn, en húsfreyja var þá vön að þagga niður í mér og sagði: “Vertu ekki að þessu, Sigga. Þetta er eintóm vitleysa”.
Jón og Sigríður höfðu ákveðið að flytja sig um vorið frá Kaldárseli og niður að Ási. Á krossmessudaginn komu foreldrar mínir bæði upp í Kaldársel til þess að hjálpa þeim með flutninginn. Slær nú mamma upp á glensi við Sigríði og segir: “Nú held ég, að glaðni yfir þér, þegar þú fer að taka upp úr rúminu þínu. Það verður líklega eitthvað fémætt, sem þú finnur”. En húsfreyja vildi eigi láta á það minnast með einu orði.

Fremstihöfði

Hálfhlaðið fjárhús undir Fremstahöfða.

Mamma fer nú að taka fötin úr rúmi Sigríðar og tínir upp hverja spjör, þar til komið er niður á bálkinn. Þá verður henni litið nær höfðalaginu og kemur auga á svarta smátusku á stærð við hundseyra. Dregur hún það upp, og smástækkar það. Flettir hún því í sundur, og kemur þá innan í því stórt og fagurraut alklæðispils, sýnilega nýtt, og var það hinn bezti gripur. Voru á því þrjár leggingar grænar með eitthvað þumlungs millibili og kantabryddað með sama lit. Mamma réttir húsfreyju pilsið, en hún segir: “Æ, blessuð Vilborg, taktu það. Ég hefi ekkert við það að gera”. Mamma svarar þá: “Ekki tek ég pilsið handa mér eða mínum. Þér er ætlað það, og ættir þú sjálf þes að njóta. En viljir þú það ekki, þá skal ég taka pilsið heim til mín og gera úr því föt handa Halldóru dóttur þinni. Hún á að fermast næsta vor”. Þegar hér var komið, kallar pabbi til þeirra og kveðst vera tilbúinn og vill fara að halda af stað. Bað þá húsfreyjan hann að doka við litla stund, fannst henni hún þurfa að kveðja nábúa sína, áður en hún flytti burt fyrir fullt og allt. Mun hafa hreyft sér hjá henni vinarþel og þakklátssemi við hina huldu grannkonu sína, þótt hún léti það lítt uppi.

Kaldársel

Borgarstandur – garður og stekkur.

Gekk nú Sigríður norður í byrgi það, sem fyrr um getur. Féll hún á kné frammi fyrir klettunum, en hvað hún sagði eða hugsaði, fæ ég eigi frá skýrt. Var þetta kveðja henna, þegar hún yfirgaf Kaldársel.”

Selfarir voru lengi tíðkaðar við Kaldá og voru hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri síðust til að hafa þar í seli. Selförum var hætt í Kaldárseli árið 1865 eða 1866 og lögðust þar með af í Álftaneshreppi og líkast til á öllu Reykjanesi. Eftir það var reynd búseta í Kaldárseli sem lagðist fljótlega af vegna rýrra landkosta og músagangs.

-http://tradisjoner.no/text91.html

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.

Valahnúkar

Gengið var frá Kaldárseli á Helgafell, um Valahnúka með viðkomu í Valabóli og síðan stolist um Kaldárhnúka á leiðinni til baka.

Helgafell

Helgafell – steinbogi.

Selfarir voru lengi tíðkaðar við Kaldá og voru hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri síðust til að hafa þar í seli. Selförum var hætt í Kaldárseli árið 1865 eða 1866 og ekki leið á löngu áður en þær lögðust af í Álftaneshreppi og síðan á öllu Reykjanesi. Eftir það var reynd búseta í Kaldárseli sem lagðist fljótlega af vegna rýrra landkosta. Við Kaldársel eru m.a. bæjarrústir, fjárhústóft og gerði sem eru friðlýstar fornminjar.

Þegar gengið er áleiðis á Helgafell er komið að nyrsta hluta Gvendaselsgíga. Gígarnir standa upp úr hrauninu efst á brúninni, sá nyrsti stærstur.
Flestir, sem halda á Helgafell, ganga norður fyrir fjallið og síðan auglýsta gönguleið upp skriðuna.

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Mun auðveldari gönguleið er upp móbergsgil skammt vestar á norðanverðu fjallinu. Þá er komið upp í sléttan dal og þaðan er auðvelt að ganga upp slétthallandi móbergið, áleiðis upp á öxlina og síðan á toppinn. Fjallið er 340 m.y.s.

Ein sjö Helgafell eru til í landinu; þetta suður af Hafnarfirði, í Mosfellssveit, á Þórsnesi á Snæfellsnesi, yst sunnan Dýrafjarðar, í Strandasýslu vestan Hrútafjarðar, í Þistilfjarðarfjallgarði norðaustan Öxarfjarðarheiðar og í Vestmannaeyjum.

Helgafell

Helgafell – móbergsfjall.

Hugsanlega er nafnið tengt lögun þessara fjalla, en þau eru að minnsta kosti sum hver regluleg eða heilleg að útliti. Af einhverjum ástæðum var talin helgi á Helgafelli á Snæfellsnesi.
Orðið helgur er samandregin mynd úr heilagur, sem er skylt orðinu heill. Örnefni með Helga- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannsnafninu Helgi.

Helgafell

Áð efst á Helgafelli.

Ágætt útsýni er af Helgafelli í góðu skyggni. Að þessu sinni var haldið suður fyrir fjallið og niður og í gegnum gataklett, sem þar er. Niðurgangurinn er auðveldur. Þegar komið var niður á jafnsléttu var gengið til austurs með sunnanverðu fjallinu, upp á Valahnúka þar sem heilsað var upp á tröllin, og niður að Valabóli þar sem áð var um stund. Valaból er fallegur trjálundur. Við hann er Músarhellir.

Frá Valabóli var gengið niður í Helgadal, sem áður var vinsæll útivistarstaður, einkum af hálfu skátanna, upp á Kaldárhnúka og komið niður í Kaldárbotnum þar sem vatnsveita Hafnarfjarðar er með vatnsból sín og tekur ferskvatn fyrir bæjarbúa. Venjulega er svæðið girt af, en vegna mikilla snjóa var girðingin á kafi og leiðin því greið um hnúkana.

Valaból

Valaból.

Fyrrnefnd friðlýsing nær einnig yfir hleðslu undir vatnsveitustokk sem lagður var frá Kaldárbonum áleiðis til Hafnarfjarðar 1917 – 1918. Var 1600 m löng trérenna látin flytja vatnið og því sleppt niður í Gráhelluhraun við Sléttuhlíð. Það rann síðan um 3 km neðanjarðar og kom upp í Lækjarbotninum við norðurenda hraunsins.
Neðar sprettur Kaldá fram undar Kaldárhöfða og streymir um 1100 m leið ofanjarðrar áður en hún hverfur ofan í gljúpt hraunið. Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Við Karlársel eru Gjárnar, allmerkileg náttúrusmíð.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Helgafell

Helgafell og nágrenni – örnefni og leiðir – ÓSÁ.