Færslur

Kaldársel

Ætlunin var að ganga á Undirhlíðum til suðvesturs, framhjá Stóra-Skógarhvammi, um Móskarðshnúka, framhjá Markrakagili (Melrakkagili), upp á Háuhnúka (262 m.y.s.) og að Vatnsskarði þar sem gengið verður til baka um Breiðdal og Slysadali að upphafsstað.

Markrakagil

Þegar gengið er frá Bláfjallavegi (sunnan við námuna) er fyrst farið um lága melhæð og lágum hæðum síðan fylgt á ásnum. Gil eru í hlíðinni og verður Stóra-Skógarhvammsgil fyrst áberandi. Í Skógarhvammi er skógrækt Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Nú eru liðin u.þ.b. hálf öld síðan byrjað var að gróðursetja tré þarna í hlíðunum og hefur af hlotist hinn myndarlegasti skógur, líkt og í Ingvarslundi nokkru norðar með þeim. Utan í gíg neðan og skammt sunnan við Bláfjallaveginn vottar fyrir fornum hleðslum.
Þá var komið að svonefndum Móskarðshúkum. Hauhnukar-2Örnefnið hefur valdið ágreiningi í gegnum tíðina, en hvað sem því líður er þarna um að ræða bæði fallegar og tignarlegar móbergskletta-myndanir, sem verð er að gefa góðan gaum. Myndræn skál er í “Hnúkunum” og ef gengið er umleikis þá má bæði sjá fallegar myndanir og góð skjól.
Áður en komið var upp á Háuhnúka; efstu hæðir Hlíðarinnar, má sjá steina á stökum móbergsstandi. Þar mun vera um að ræða landamerki Hafnarfjarðar (?) og Krýsuvíkur. Loks var komið á efsta Háahnúkinn. Þar er varða. Staðsetninguna má ráða af hinu fallegasta útsýni í allar áttir; einkum til suðurs og suðvesturs.

Markrakagil

Markrakagil.

Markrakagil er síðan á hægri hönd. Aðrar lýsingar segja Markrakagil og Vatnsskarð vera eitt og hið sama. Landamerki Hafnarfjarðar liggja um gilið og í beina línu í Markraka ofan við Dauðadali suðaustan við Helgafell. Mörkin eru reyndar óviss vegna þessa álitamáls, en samhengi er í nöfnunum á þessum tveimur stöðum. Markraki er eitt af mörgum nafngiftum refsins, melrakkans.
Þá var komið í Vatnsskarð. Ofan við það er varða; líklega hin fornu landamerki, en þarna munu landamerkin hafa legið fyrir aldarmótin 1900 (sjá herforingjakort frá 1919).
VatnsskardOfan í Melkrakagili (Vatnsskarðsgili?) er fallegur berggangur, einn sá fallegasti og aðgengilegasti á Reykjanesskaganum. Hann var barinn augum. Loks var Dalaleiðinni fylgt um Breiðdal og Slysadölum að upphafsstað. 

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1945 lýsir Ólafur Þorvaldsson svonefndri Dalaleið, þ.e. um fyrrnefnda dali að norðanverðu Kleifarvatni: „Áður en við yfirgefum þessar slóðir að fullu, skulum við nú, þegar við hverfum frá Krýsuvík að þessu sinni, fara leið, sem við höfum ekki áður farið. Þessi leið er hin svonefnda Vatns- eða Dalaleið. Nú vill svo til, að nokkur kafli hins nýja vegar frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur liggur með Kleifarvatni að vestan, svo að nú gefst fleiri mönnum kostur á að fara þessa leið en áður var.
Þessi leið mun ekki hafa talizt til höfuðleiða milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, enda sjaldan farin, og þá helzt á vetrum. Þó tel ég hana ekki með öllu ómerkilega, og ber fleira til en eitt. Það er þá fyrst, að þessi leið er stytzta og beinasta lestaleiðin milli Krísuvíkur og Hafnarfjarðar. Hún er greiðasta og hægasta leiðin. Hún liggur í sérkennilegu og fögru umhverfi. Hún var nokkrum annmörkum háð, — og hún gat verið hættuleg.“

Breiðdalur

Breiðdalur – Helgafell fjær.

Þegar komið var að endamörkum var rifjuð upp fyrr ferð um svæðið, líkt og sjá má á eftirfarandi texta: Gengið var frá Krýsuvíkurvegi ofan við Vatnsskarð um Breiðdal, Leirdal og Slysadali, haldið yfir á Skúlatún í Skúlatúnshrauni og síðan niður í Kaldársel framhjá Gvendarselshæðargíga og Kaldárhnúka.
Gengið var niður í sunnanverðan Breiðdalinn og áfram til norðausturs vestan Breiðdalshnúks. Norðan hans var beygt upp á holtin og haldið áfram á þeim til norðausturs, yfir í Leirdal. Þar er Leirdalsvatnsstæðið, annað af tveimur. Beygt var frá því og gengið að Leirdalshöfða og með honum niður í Slysadali. Dalirnir eru vel grónir. Í þeim norðanverðum er nokkuð er líkist tóftum, en Breiddalur-2gæti verið hvað sem er. Dalirnir virðast vera einn, en Bláfjallavegurinn sker nú dalina. Landið þarna er að mestu innan hinna fornu Almenningsskóga Álptaneshrepps, en Slysadalir eru innan lögsögu Hafnarfjarðar. Útlendur ferðamaður var að koma frá Krýsuv
ík á 19. öldinni, hafði farið um Hvammahraun og Fagradal að vetrarlagi. Hin leiðin var um Helluna þarna vestan af, í austanverðum hlíðum Sveifluhálsins ofan við Kleifarvatn, en það mun hafa verið óvegur og ekki fyrir hesta. Vilpur voru í dalnum og voru þær ísi lagðar. Fór svo að maðurinn missti tvo hesta sinna niður um ísinn, en mannskaði varð enginn.

Skílatún

Skúlatún norðanvert.

Áður en komið var upp á þjóðveginn var beygt til austurs, yfir nokkrar klettasprungur. Í þeim óx fallegur burkni. Nokkur jarðföll eru þarna á svæðinu og í nokkrum þeirra litlir og lágir skútar.
Skúlatúnið blasti við í austri. Í Landnámu er tveggja jarða getið innan þess svæðis sem Garðabær nær til. Ásbjörn Özurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarssonar, er sagður hafa búið á Skúlastöðum, en nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns og Álftanes allt. Eru munnmæli um að Skúalstaðir hafi verið þar sem Skúlastaðahraun er, sem er norðan við Lönguhlíðarhorn, innan Almenningsskóga Álftaneshrepps.

Skúlatún

Skúlatún – Helgafell fjær.

Gengið var í átt að Skúlatúni. Að sumra áliti gæti þar hafa verið landnámsbær, en þó er það talið ólíklegt. Skúlatún er þúfótt graseyja í Tvíbollahrauni (Skúlatúnshrauni). Ekki skyldi þó efast fullkomlega eða útiloka með öllu að þar undir kynnu að leynast einhverjar minjar. Skúlatúnshraun (stundum einnig nefnt Hellnahraun eldra) er slétt helluhraun og er talið hafa runnið fyrir 2000 árum.
Tvíbollahraun eða Hellnahraun yngra eru frá því um 950. Það kom úr Brennisteinsfjallakerfinu, líklega frá Stórabolla í Grindaskörðum og stíflaði meðal annars Hvaleyrarvatn. Hraunið myndar ströndina milli Straumsvíkur og Hvaleyrarholts.

Gullkistugjá

Gullkistugjá.

Gengið var norður hraunið, yfir Gullkistugjá og í beina stefnu að nyrsta hluta Gvendarselshæðargíga. Gígarnir eru tilkomumiklir og er hægt á gönguleiðinni norður með þeim austanverðum að lesa jarðfræði gíganna sem og svæðisins, auk tilkomu hraunsins, nokkuð vel, allt nema kannski aldurinn.
Gengið var niður með Kaldárhnúkum og niður að Kaldá, þar sem gangan endaði.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Sjá meira HÉR, HÉR og HÉR.breiddalur

Kaldársel

Gengið var frá Kaldárseli eftir Kúastíg, um Kýrskarð og Gvendarselshæðargíga, yfir Undirhlíðar, niður í Kerin og suður með vestanverðum Undirhlíðum. Litið var niður í dýpi Aðalholu og sigið niður í Aukaholu. Um er að ræða gamlar djúpar (17 m og 10 m) sprungugjár, sem nýrra hraun hefur runnið niður í og smurt veggi og lausagrjót, formað súlur og ýmis litbrigði. Bandspotti reyndist nauðsynlegur til að komast upp úr holunni.

Kerin

Kerin í Undirhlíðum – Helgafell fjær.

Undirhlíðarnar eru framhald af Sveifluhálsinum til norðurs, ef svo má segja. Nyrsti hluti þeirra að austanverðu nefnast Gvendarselshæðir og Gvendarselshæðargígar norðan þeirra. Þeir eru stórbrotnir þar sem þeir liggja á sprungurein austan með hæðinni og út frá henni til norðausturs.
Selfarir voru lengi tíðkaðar við Kaldá og voru hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri síðust til að hafa þar í seli. Selförum var hætt í Kaldárseli árið 1865 eða 1866 og lögðust þar með af í Álftaneshreppi og líkast til á öllu Reykjanesi. Eftir það var reynd búseta í Kaldárseli sem lagðist fljótlega af vegna rýrra landkosta.

Aukahola

Aukahola.

Við Kaldársel eru m.a. bæjarrústir, fjárhústóft og gerði sem eru friðlýstar fornminjar. Nær friðlýsingin einnig yfir hleðslu undir vatnsveitustokk sem lagður var frá Kaldárbonum áleiðis til Hafnarfjarðar 1917 – 1918. Var 1600 m löng trérenna látin flytja vatnið og því sleppt niður í Gráhelluhraun við Sléttuhlíð. Það rann síðan um 3 km neðanjarðar og kom upp í Lækjarbotninum við norðurenda hraunsins. Vatnsból Hafnfirðinga er nú við Kaldárbotna og er vatnasvæðið girt af þ.á.m. Helgidalur sem var áður vinsæll útivistastaður. Kaldá sprettur fram undar Kaldárhöfða og streymir um 1100 m leið ofanjarðar áður en hún hverfur ofan í gljúpt hraunið. Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Ofan við Karlársel eru Gjárnar, merkileg náttúrusmíð.

Sprungur

Vatnsból Hafnfirðinga í Kaldárbotnum.

Kaldárstraumur á upptök í sunnanverðum Bláfjöllum og Lönguhlíð. Hann streymir þaðan til norðvesturs um Húsfellsbruna og Heiðmörk. Grunnvatnsskil liggja frá Straumsvík og í vesturenda Lönguhlíðar. Berggrunnurinn er úr hraunum, grágrýti og móbergsmyndunum. Þótt hraunin þeki víðáttumilkil svæði á þessum slóðum liggja þau að mestu yfir grunnvatnsborði. Sprungur auka mjög vatnsleiðni og hafa afgerandi áhrif á grunnvatnsstreymið. Sprungurnar eru hluti af sprunguskara sem kenndur hefur verið við Krýsuvík. Þær beina grunnvatninu úr sunnanverðri Heiðmörk til suðvesturs í átt til Kaldárbotna.

Aðalhola

Aðalhola.

Athyglisvert er að fyrir vikið streymir grunnvatnið á þessum slóðum ekki hornrétt á grunnvatnshæðarlínur, eins og algengast er, heldur skálægt á þær. Straumþunginn fylgir því sprunguskaranum. Í Kaldárbotnum sést örlítið brot af því vatni sem þarna er á ferð. Meðalrennsli Kaldár skammt neðan upptakanna er 800 l/s samkvæmt mælingum í vatnshæðarmælinum vhm 124, en sveiflur eru miklar í rennslinu. Kaldá er einskonar yfirfall úr grunnvatnsstraumnum. Einum kílómetra neðar er hún öll horfin til grunnvatnsins á ný. Neðan við Undirhlíðar sveigir grunnvatnið út úr sprunguskaranum og flæðir um hraunin til norðvesturs uns það birtist í fjörulindum í Straumsvík og í Hraunsvík, en svo nefnist bugurinn milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Þar upp af ströndinni eru vatnsból Álversins. Sennilegt er að einungis minnihluti lindarennslisins komi í ljós í fjörulindum þegar lágt stendur í sjó en að meirihluti þess sé jafnan í flæðarmálinu sjálfu eða neðan þess. Kaldárstraumur er langmesti grunnvatnsstraumurinn á höfuðborgarsvæðinu. Stærð hans er áætluð 5 – 10 m³/s.
Gengið var frá Kaldárseli frá seltóftunum sunnan undir húsgafli KFUMogK. Kaldá rennur þar um hraunið neðanvert. Sunnan hennar eru áklappaðir letursteinar. Sólin baðaði bakkana og vatnið lét sér við klakana.

Aukahola

Í Aukaholu.

Fylgt var Kúsastígnum að Kaldárhnúkum nyrst á Undirhlíðum og þeim síðan fylgt til suðurs að Kýrskarði um skógræktina til suðurs með vestanverðum hlíðunum. Gengið var upp skarðið og upp að Gvendarselshæð. Gvendarselshæðargígar sáust þar norðar, en haldið var ofan og framhjá einum syðsta gígnum og áfram upp að hinu svonefnda Gvendarseli. Þar eru tóftir selstöðu, en hvort hún hafi verið brúkuð til lengri eða skemmri tíma er erfitt að álykta með því eina að horfa á tóftirnar.
Gengið var niður dal milli Undirhlíða og Gvendarselsgíga og var stefnan tekin að rafmagnsmastri fremst á brún Undirhlíða, að vestanverðu. Þar fyrir neðan eru Kerin, falleg náttúrufyrirbæri, hluti af gígaröð. Hægt er að gagna niður í nyrðri gíginn og um gat upp í þann syðri. Hann er kjörinn áningastaður, enda skjólgóður með afbrigðum. Ofan við barma hans vex ein stærsta villta birkihrísla á Reykjanesskaganum, ca. 5-6 m há. Hið ágætasta útsýni var frá Kerunum suðvestur að Keili og Grænudyngju með Fjallið eina í forgunni. Stighækkandi sólin baðaði hæstu fjallakollana.

Stóri-Skógarhvammur

Stóri-Skógarhvammur framundan.

Undirhlíðastígnum var fylgt til suðurs, yfir Bláfjallalveg og inn að Stóra-Skógarhvammi. Þar hefur átt sér stað mikil gróðursetning trjáplatna s.l. 40 ár á vegum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Guðmundur Þórarinsson, kennari, var m.a. einn frumkvöðla þessarar gróðursetningar og er lundurinn í raun lifandi minnisvarði um þann ágæta , annars hlédrægna, heiðursmann.
Undirhlíðar eru hluti af vestra gosbelti landsins, sem liggur eftir endilöngu Reykjanesi noður í Langjökul, oft kallað Reykjanesgosbeltið. Helstu einkenni þess eru móbergshryggir með hraunþekju inn ámilli. Móbergshryggirnir hafa sennilega myndast á síðasta jökulsskeiði, sem stóð yfir í um 100.000 ár og lauk fyrir um 10.000 árum. Þeir hafa myndast við gos undir jöklum, þars em gosefni ná ekki að renna sem hraun heldur hlaðast þau upp nálægt gosstöðvum sem móbergsfjöll eða móbergshryggir, allt eftir lengd gossprungu.

Aðalhola

Í Aðalholu.

Undirhlíðar er dæmigerður móbergshryggur. Á hlýskeiðum renna gosefnin aðallega sem hraun er mynda breiður í dali og lægðir á milli gosbergsmyndana. Harun,s em myndast hafa eftir síðustu ísöld kallast nútímahraun og eru Kapelluhraun (rann 1151) og Skúlatúnshraun dæmi um slík hraun. Skúlatúnshraun er svonefnt dyngjuhraun, en dyngjuhraun eru í raun stafli af mjög þunnum hraunlögum.
Undirhlíðar eru móbergshryggur með bólstrabergskjarna, sem myndast hefur á ísöld, en síðustu ísöld lauk fyrir u.þ.b. 10.000 árum.
Bólstraberg er stundum nefnt kubbaber eða bögglaberg eftir stærð bólstranna.

Gvendarselshæð

Gvendarsel í Gvendarselshæð.

Fornleifakönnun var gerð árið 1998 og Dalaleið, sem liggur ofan Undirhlíða (Gvendarselshæðar) var könnuð árið 2003. Á svæðinu fundust sex fornleifar á þremur stöðum. Þær eru Gvendarsel (sel frá Görðum, fjórar rústir), óþekktar rústir í gíg vestan við Báfjallaveg og Undirhlíðarvegur, gömul þjóðleið, sem lá til Krýsuvíkur. Undirhlíðavegur er þegar spilltur á kafla þar sem Bláfjallavegur fer yfir hann. Dalaleiðin var forn þjóðleið er lá til Krýsuvíkur.
Vestan við Stóra-Skógarhvamm er alllöng sprunga á misgengi. Um er að ræða eldri sprungu í nýrra hrauni. Óbrennisbrunahraunið hefur runnið niður í gömlu gjána og myndað falleg litbrigði sem og formað hinar ýmsustu hraunmyndanir.
Óbrinnishólar er röð gígaraða í hæð sem stendur upp úr hraunhafinu um 700 metra vestan við Undirhlíðar og tæpum 2 km sunnan við Kaldársel. Hólaröðin sjálf er um 900 metrar á lengd. Hæsti gígurinn er um 44 metra hár yfir næsta umhverfi og 124 metrar yfir sjó.

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar eru nú nánast óþekkjanlegri frá fyrri tíð vegna gífulegrar efnistöku.

Óbrinnishólar tilheyra Krísuvíkureldstöðvakerfinu. Talið er að um tvö gos hafi verið að ræða sem sést af gróðurleifum sem fundust milli gosmyndanna. Um fyrra gosið í Óbrinnishólum er lítið vitað eða hvenær það gaus, en frá því eru a.m.k. 3 gígir og virðist gosið hafa verið á sama stað þá og í því síðara. Hraun frá þessu gosi er nú hulið yngri gosmyndun. Það er aðeins á einum stað sem fundist hefur hraun frá fyrra gosinu og var það í sjálfum gíghólnum. Þetta hraun er frábrugðið hinu hrauninu að það inniheldur verulega meira ólivín. Síðara gosið hófst fyrir 1800 árum og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum. Hæðin sem Óbrinnishólar eru á er að mestu úr bólstrabergi og grágrýti. Eftir endilangri hæðinni er um 50 metra breiður sigdalur. Að vestan takmarkast hann af 4-6 m háu misgengi. Rétt austan við sigdalinn rísa gígarnir og stefnir röðin eins og dalurinn. Óbrinnishólahraun er undir Kapelluhrauni við Straumsvík.

Óbrinnishólar

Í Óbrinnishólahelli.

Eftir að kíkt hafði verið niður í Aðalholu, lítt árennilega, var haldið yfir að Aukaholu skammt sunnar með sprungunni.
Sigið var á böndum niður í hana. Fallegar hraunmyndanir eru niður í sprungunni og enn bættu grýlukertin og klakaseparnir á gólfum um betur. Hellirinn í holunni er á tveimur hæðum. Birta kemur og niður um stórt op sunnan við það sem farið var niður um.
Gengið var til baka um Óbrinnishólabruna með stefnu á Kaldársel. Víða sáust refa- og rjúnaspor, auk þess fjölmargar rjúpur sásust á flugi með hlíðunum.

Kaldársel

Áletrun við Kaldársel.

Kaldársel

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 segir frá Kaldárseli:

Kaldársel
KaldárselKaldársel var við Kaldá og var selstaða frá prestsetrinu á Görðum og tilheyrði Garðakirkjulandi. Elsta heimildin um Kaldársel er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703: „Selstöðu á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott.“10 Í ferðabók sinni sagði Sveinn Pálsson frá seli sem Markús Magnússon prófastur í görðum hafði 1791 og líklega er um Kaldársel að ræða: „Þarna í grenndinni hefur Markús prófastur í seli og hyggst einnig héðan í frá hafa allt fé sitt þar á vetrum og láta tvo menn gæta þess þar. Í þessu skyni hefur hann látið bera þar saman 100 hesta hey, sem slegið er þar efra, svo hægt sé að gefa fé, ef svo verður hart í ári, að tekur fyrir beit. Auk þessa hefur þessi dugnaðar bóndi látið gera nokkrar fjárborgir úr grjóti þar í grennd. Þetta eru eins konar fjárhús, kringlótt og keilulaga og hlaðin þannig saman, að engin spýta er í þeim. Hver þeirra rúmar um 50 fjár.“
KaldárselÍ lok 19. aldar nýttu Hvaleyrarbændur Kaldársel sem selstöðu og leigðu þá selstöðuna af Garðakirkju. Árið 1842 keypti Jón Hjörtsson Hvaleyri og allar hjáleigur jarðarinnar. Jón og Þórunn Sigurðardóttir, kona hans, voru með selstöðu í Kaldárseli á þeim tíma sem þau bjuggu á Hvaleyri og höfðu þau sjálf umsjón með selinu og voru þar stóran hluta úr sumrinu. Selfarir lögðust niður í Kaldárseli eftir að Jón lést árið 1866.
Næst var getið Kaldársels árið 1867 og var þá heilsárs byggð þar. Þá bjó í Kaldárseli Jón Jónsson, kona hans og tvö börn. Líklegast bjó Jón í Kaldárseli í tvö ár og var hann skrifaður þurrabúðarmaður á meðan. Við brottför þeirra úr Kaldárseli lagðist búskapur þar niður í nokkur ár. Árið 1876 voru þrír skráðir til heimilis í Kaldárseli. Það var Þorsteinn Þorsteinsson bóndi,en hann var ókvæntur og barnlaus, með honum var ráðskona og tökubarn. Þorsteinn bjó í Kaldárseli í tíu ár og voru heimilismenn allt frá honum einum upp í sex. Aðalbústofn Þorsteins var sauðfé en einnig hafði hann eitt til tvö hross. Fé hans hafði nokkra sérstöðu því það var nánast allt ferhyrnt, sem hafði einnig þann eiginleika að vera harðgert og þolið beitarfé.

Kaldársel

Í tóftum Kaldársels 1934.

Þorsteinn var í Kaldárseli fram til dauðadags 1866 og við andlát hans lauk fastri búsetu þar og voru þau mannvirki sem enn stóðu í Kaldárseli líklega eftir hann. Ólafur Þorvaldsson lýsti húsakostinum í Kaldárseli í bók sinni Áður en fífan fýkur: „Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergi mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma.“
Danski fornleifafræðingurinn Daniel Bruun var á ferðinni um Kaldársel rétt fyrir aldamótin 1900 og lýsti hann rústunum: „Þar eru nokkrar tóttir bæði af bæjar- og útihúsum, og nokkur fjárskýli bæði opin og lokuð. Sérstaklega ber að geta þar um tvær fjárborgir […] einnig eru þar fjárréttir og loks fjárskjól í hellum í hrauninu. Hjá bæjarhúsunum er fjárhús og hésthús en ekkert fjós.“

Kaldársel

Kaldársel m.t.t. staðsetningar fyrrum – tilgáta ÓSÁ.

Skömmu eftir andlát Þorsteins voru öll húsin í Kaldárseli rifin fyrir utan baðstofuna en hún stóð þar til um aldamótin 1900 og var notuð sem afdrep fyrir fjármenn Setbergsbænda sem ráku fé sitt á þessum slóðum og Krýsvíkinga sem áttu leið þar um á ferðum sínum til og frá Hafnarfirði. Haustleitarmenn Grindavíkurhrepps nýttu sér einnig baðstofuna sem og hinir fjölmörgu erlendu ferðamenn sem leið áttu til Krýsuvíkur. Um 1906 var aftur gerð tilraun til búskapar í Kaldárseli og var það ungur Hafnfirðingur, Kristmundur Þorláksson, sem gerði þá tilraun. Hann byggði yfir gömlu baðstofutóftina og nýtti sem heyhlöðu og byggði þar fjárhús. Hann hafði lömbin á húsi en ærnar við hella norður af Kaldárseli. Tilraun Kristmundar entist þó einungis í einn vetur en löng ganga milli Hafnarfjarðar og Kaldársels, músétin lömb og að honum bauðst vist hjá bóndanum á Hvassahrauni þar sem hann gat tekið fé sitt með sér voru ástæður þess að búskapurinn entist ekki lengur en raun ber vitni. Kristmundur var síðasti bóndinn í Kaldárseli.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg; ljósmynd Daniels Bruun.

Árið 1912 keypti Hafnarfjörður mikið land af Garðakirkju og var Kaldársel þar á meðal. Vatnsskortur var farinn að láta á sér bera í Hafnarfirði og því voru umbætur gerðar árið 1918.
Ákveðið var að flytja hluta vatnsmagns Kaldár í ofanjarðar tréstokk og sleppa því í suðurhorn Sléttuhlíðar. Stokkurinn var um 1.5km á lengd. Vatnið fann sér þaðan leiða neðanjarðar að Lækjarbotnum þar sem vatnsveita Hafnfirðinga var.

Kaldársel

Kaldársel – Gamla þjóðleiðin.

Skiluðu þessar umbætur nægjanlegum vatnsbirgðum til Hafnfirðinga. Árin 1949 – 1953 var ráðist í umbætur á vatnsleiðslunni frá Kaldá, gerð var neðanjarðarleiðsla sem náði frá Kaldá og alla leið til Hafnarfjarðar. Árið 1955 var byggð lögrétt í Kaldárseli fyrir Hafnarfjarðarbæ, Garða- og Bessastaðahrepp. Árið 1925 byggðu félögin K.F.U.M. og K. bæði í Reykjavík og Hafnarfirði hús til sumardvalar barna.17 Börnin voru flest á aldrinum 8 – 10 ára. Í Vísi 28. júlí 1929 lýsti Sigurbjörn Á. Gíslason dagsferð í Kaldársel. Hann lýsti meðal annars húsakynnum K.F.U.M.: „Í skálanum eru 2 smáherbergi, eldhús og svefnstofa, og eitt stórt, þar eru 24 rúm, þrísett upp á við og 2 langborð í miðju, til að matast við. Félögin nota skálann sumpart handa sjálfum sér að sumarbústað og sumpart þó eða einkanlega nú sem drengjabústað. Drengirnir voru í þetta sinn flestir 8 til 10 ára gamlir, bæði úr Reykjavík og Hafnarfirði.“

Kaldársel

Kaldársel um 1932. Leifar Gamla Kaldárssels staðsett framan við nýrri bygginuna.

K.F.U.M. og K. er enn með starfsemi í Kaldárseli þótt húsið sé mikið breytt frá lýsingu Sigurbjörns.
Tóftir Kaldársels standa nú um tæplega 10m vestan við hús K.F.U.M. og K. og er heimreiðin að húsinu alveg upp við þær. Ekki má ráðast í nokkurskonar framkvæmdir sem hafa jarðrask í för með sér án leyfist Minjastofnunar Íslands og í raun ætti að fara með einstakri varúð við allar framkvæmdir við Kaldársel en minjarnar eru friðlýstar og eru þess vegna 100 metra friðhelgað svæði í kringum sig. Fleiri friðlýstar minjar eru á svæðinu, t.a.m. fjárborgarrústir sem liggja á hæð um 280m NVN við Kaldársel.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Töluvert af minjum voru skráðar við Hvaleyrarvatn og tengjast þær flestar seljabúskapi á svæðinu. Þar af er helst að nefna Hvaleyrarsel en það stóð þar sem nú er frekar hár grasivaxinn hóll við sunnanvert vatnið og tvístrast göngustígurinn sem liggur um vatnið og liggur sitthvorumegin við hólinn. Þar mótaði fyrir að minnsta kosti þrem tóftum. Miðju tóftin hefur verið aðal húsið í þyrpingunni og hin tvö mögulega verið búr og skemma.
Hvaleyri var líklega með selstöðu við Hvaleyrarvatn frá upphafi og er jörðin að öllum líkindum elsta bújörð Hafnarfjarðar og hafa fundist minjar frá því í kringum árið 900 á henni.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Að vísu leiddi Sigurður Skúlason líkur að því að Hvaleyrarsel hafi verið við Kaldá og nafnið breyst í Kaldársel20 en það er að öllum líkindum ekki rétt enda er Kaldársel innan afréttar Garðakirkjulands og var Hvaleyrarvatn mun nær bújörð Hvaleyrar. Seljabúskapur í Hvaleyrarseli lagðist niður í kringum 1870 og segir sagan að það hafi gerst eftir að selstúlkan fannst látin við vatnið og talið var að nykur (2662-111) hafði orðið henni að bana: “Selstöðu átti Hvaleyri við Hvaleyrarvatn og þar höfðu bændurnir haft í seli frá fornu fari. Sér enn tættur seljanna við sunnanvert vatnið. Þau hjón Jón og Þórunn héldu uppteknum hætti Hvaleyrarbænda og höfðu í seli á sumrum við Hvaleyrarvatn. Höfðu þau þar jafnan selstúlku og smala. Annaðist selstúlkan mjaltir á málum og matargerð úr mjólkinni auk matargerðar fyrir þau og þjónustubrögð. En smalinn hélt fé í haga og annaðist heimflutning selafurða. Nú bar svo til kvöld nokkurt, að er smalinn kemur heim á stöðul, lætur selstúlkan ekki sjá sig. Smalinn kvíar því ánum einn. Gengur síðan heim í sel að skyggnast eftir stúlkunni og finnur hana hvergi. Gengur því heiman frá seli og niður að vatni og vestur með því. Ekki hafði hann lengi gengið, er hann finnur stúlkuna rétt við vatnsbakkann heldur illa útlítandi. Var hún rifin á hol, eins og eftir óargadýr og traðk mikið var þar í kring eftir hringmyndaða hófa stóra.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Þóttist smalinn vita hvað valdið hafði dauða selstúlkunnar, því sögur hafði hann heyrt að nykur væri í Hvaleyrarvatni og væri annað árið þar og hitt í Urriðakotsvatni. Smalinn varð felmtrisleginn og tók á rás heim til bæjar á Hvaleyri. Var brugðist við skjótt og lík selstúlkunnar sótt og það jarðsett að Görðum. Uppfrá þessu lögðust niður selfarir við Hvaleyrarvatn. En oft mátti sjá grábleikan hest á beit í Seljahrauninu eftir þetta. Þau urðu endalok nykursins að hann fraus í hel frostaveturinn mikla 1918.“
Jón og Þórunn, sem nefnd voru í sögunni, bjuggu á Hvaleyri frá 1864-1868.
Um 200 metrum austan við Hvaleyrarsel á grasivöxnum bakka í skógarjaðrinum má sjá móta fyrir ógreinilegum tóftum Ássels og rúmlega 450 metrum norð-austan við þær inn á milli trjánna við göngustíg er að finna tóftir Jófríðarstaðasels. Eftir að Hvaleyri hætti seljabúskap við Hvaleyrarvatn skiptu Ás og Jófríðarstaðir með sér landinu við vatnið.

Undirhlíðar

Breiðdalur

Breiðdalur.

Minna var um minjar við Undirhlíðar, enda svæðið að mestu úfið hraun og langt frá byggð. Þó er töluvert um leiðir og stíga á svæðinu. Tvennar þjóðleiðir liggja sitthvorumegin við hlíðarnar, þ.e. Undirhlíðavegur við norðurhliðina og Dalaleið við suðurhlíðina, báðar ganga þær frá Krýsuvík að Kaldárseli. Undirhlíðarvegur var sá vegur sem var mest farinn þegar farið var með hesta til eða frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur. Frá Kaldárseli „[…] lá leiðin yfir smáhraunbelti, unz komið var að Undirhlíðum. Lá vegurinn suður með þeim, víða allsæmilegur, moldar- og melagötur. Vegurinn liggur yfir eitt hraunhaft, norðarlega með Undirhlíðum, eða nokkru sunnar en Stórihríshvammur, er farið yfir mel úr rauðu gjalli, og heitir sá melur Vatnsskarðsháls, þaðan er stutt í Vatnsskarð, þar sem hinn nýi vegur liggur nú úr hrauninu upp á hálsinn. Í Vatnsskarði var talin hálfnuð leiðin milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Venjulega var áð þar snöggvast, lagað á hestum, gert að, sem kallað var, stundum kippt ofan, einkum ef lest var ekki þung. […]“

Vatns- og Dalaleið

Vatns- og Dalaleið.

Dalaleiðin var sjaldnar farin, þá helst að vetri til, en var samt stysta og beinasta leiðin. Hún var þó talin sú hægasta og gat verið hættuleg: „Þessa leið var ekki hægt að fara, jafnvel svo árum skipti, nema ísar væru tryggir, og lágu til þess tvær meginástæður. Annars vegar réðu hér um vetrarhörkur, hins vegar náttúrufyrirbæri, sem enn eru óskýrð, svo fullsannað sé. Hér kom fram sem oftar, að ekki fóru ávallt saman óskir ferðamannsins og lögmál náttúrunnar. Til þess að hægt væri að fara þessa leið með hesta að vetri til, varð Kleifarvatn að vera á hestís. Reynslu voru menn búnir að fá fyrir því, að Kleifarvatni var ekki að treysta á ís með hesta fyrr en vetrarsólhvörf. […] Á þessari leið gátu ísar verið ótryggðir víðar en á Kleifarvatni, sem síðar mun að vikið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Hellan.

Á öðrum árstíðum, þegar menn hefðu gjarnan viljað fara þessa leið með hesta, gat það dottið í Kleifarvatn að banna ferðir manna, svo að árum skipti. Þar kemur leyndardómur Kleifarvatns til sögunnar. Kleifarvatn hefur frá ómunatíð verið mjög breytilegt að vatnsmagni. Það er háð eins konar flóði og fjöru, útfalli og aðfalli, – en þetta gerðist ekki allt á einum sólarhring. Annað fallið tekur, eftir reynslu margra kynslóða, hvorki meira né minna en 12 – 20 ár, getur verið nokkuð breytilegt til eða frá. […] Upp úr norðurbotni Breiðdals er farið yfir allbratt melhaft, og þegar norður af því kemur, er komið í Syðri-Leirdal, sem er aðeins sandur og leir, og má svo heita, að samtengdur sé innsta dalnum á þessari leið – Slysadal. Það nafn mun þessi dalur hafa fengið á síðari helmingi nítjándu aldar, eftir að vinnumaður frá Krísuvík missti þar ofan um ís þrjá hesta, sem allir fórust.
Í öllum þessum dölum er að vísu allmikið vatn á vetrum, sem svo leggur í frostum, og ættu þeir því ekki að vera hættulegri yfirferðar en Kleifarvatn. […] En svo er háttað, að nyrzt á Slysadal, þar sem hann er gróinn sem tún væri, eru jarðföll nokkur, sem sennilega hafa myndast þar, sem vatn hefur hlaupið í jörð á vorin. Jarðföll þessi eru að vísu ekki djúp, 2-4m, en nógu djúp til þess, að þegar vatn er og ísar yfir öllu, er í þeim meira vatn en svo, að hesta nái niðri, ef ofan í lenda.“

Gvendarsel

Gvendarsel í Gvendarselshæðum ofan Kaldársels.

Í sprunginni hæð, sem nefnist Gvendarselshæð, sem gengur í norðaustur út frá Undirhlíðum í átt að Helgafelli er að finna leifar Gvendarsels en þar var haft í seli á 19. öld. Sagt var að þar hafi verið svo þykkur rjómi á trogum að haldið hafi uppi vænni silfurskeið.26 Þar eru leifar fjögurra mannvirka, þrír stekkir og ein tóft sem var túlkuð sem búr. Ekkert íveruhús fannst á staðnum en selið er, eins og áður segir, í og við sprungur í hlíðinni og getur vel verið að þær hafi verið nýttar og þá mögulega einungis tjaldað yfir eða í þeim.
Sunnan við Undirhlíðar liggur Skúlatúnshraun, nefnt eftir um 1.3 hektara grashól sem stendur upp úr hrauninu. Árið 1902 heyrði Brynjúlfur Jónsson sagnir af Skúlatúni og taldi víst að þar væri búið að draga saman nafnið Skúlastaðatún. Brynjúlfur var búinn að vera að leita að bæjarstæði Skúlastaða en Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, á að hafa numið land á milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt og á að hafa búið á Skúlastöðum. Fannst Brynjólfi líklegt að Skúlastaðir hafi staðið þarna og að nafnið Skúlatún hafi komið til eftir að hraun flæddi yfir bæinn og landareignina alla. Hann kom til Skúlatúns árið 1907: „[…]Ekkert sést af hinu forna yfirborði láglendisins, nema toppurinn á hæsta hólnum; hann stendur upp úr hraunbreiðunni hérumbil miðri. Það er Skúlatún. Eigi er hann raunar toppmyndaður, heldur flöt bunga nokkuð aflöng frá norðvestri til landsuðurs og er lengd hans nál. 110 fðm., en breidd nál. 60 faðm. Hæstur er hann í landsuður-endann og er þar bratt ofan. Næsthæsti staður á honum er norðvestantil. Suður þaðan er og bunga á honum. Á öllum þessum þrem stöðum er einennilegt stórþýfi, ólíkt því þýfi sem að öðru leyti er á öllum hólnum, er fremur má kalla smátt. Gæti ég trúað, að stórþýfið á þessum þrem stöðum væri myndað úr byggingarleyfum; en fullyrða skal það ekki. Og engan vott mannverka gat eg séð þar neinstaðar. En yfirum vesturhorn hólsins var að sjá sem götutroðninga, er virtust ærið gamlir og höfðu ekkert framhald í hrauninu, hvorugu megin. Sunnanmegin voru þeir dreifðari og óglöggvari, en norðanmeginn þéttari og glöggvari. Hygg eg að þar hafi verið heimreið til bæjar, og mun hann hulinn hrauni norðvesta-undir hólnum. Hefir hann ef til vill staðið á lægra framhaldi af þessum hól, sem upphaflega hefir víst verið talsvert hár. Þó hefir túnið náð yfir hann allan. Því eigi gat eg betur séð, en að hann bæri merki gamallar ræktar. Alstaðar á honum er moldin mjög svartleit og þvöl, og víðasthvar vóx töðugresi milli þúfnanna, loðnara en í vor var á útjörð annarstaðar. Þar á móti var í þúfnakollunum meiri og minni grámosi, og hér og hvar utanmeð var krækiberjalyng farið að færa sig upp eftir hólnum.

Gvendarselshæð

Gvendarselshæð – stekkur.

Auðvitað eru nú þetta svo veikar líkur, að þær dyljast fyrir manni í fljótu bragði. En samt eru þær nógar fyrir mig til þess, að eg er ekki í efa um, að hér gefir verið bær og tún. Og þá virðist nafnið Skúlatún, gefa nægilega bendingu um, að þessi bær hafi einmitt verið Skúlastaðir.“
Brynjúlfur vissi þó ekki að Skúlatúnshraun rann um 900 árum áður en talið er að land var numið og auk þess er staðsetninging ósennileg, ef Ásbjörn á að hafa numið land á Álftanesi öllu væri mun líklegra að bærinn hafi staðið við sjó og þar sem vatnsból væri gott. Engin ummerki um mannvistarleifar fundust við vettvangsathugun. Staðsetning Skúlastaða er þá enn óþekkt en ein kenningin er að landnámsbærinn hafi staðið þar sem seinna byggðust Garðar eða Bessastaðir.

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 – Kaldársel. https://byggdasafnid.is/wp-content/uploads/2021/10/Fornleifaskra%CC%81-Hafnarfjardar-IX-Kalda%CC%81rsel-og-na%CC%81grenni.pdf

Kaldárssel

Kaldárssel – fjárhellar.

Stóra-Eldborg

Þorvaldur Thoroddsen skrifaði um “Ferðir um Suðurland sumarið 1883”. Skrifin birtust m.a. í Andvara 1884:

“Frá Geitahlíðarenda og vestur að Ögmundarhrauni er hraunlaus kafli og er það fásjeð á Reykjanesi. Þetta hraunlausa svæði nær frá Kleyfarvatni suður í sjó milli Sveifluháls og Lönguhlíðarfjallanna, en undir eins og Sveifluháls sleppur, taka við eilíf brunahraun. Í Geitahlíð, sem er suðvesturhlutinn af Lönguhlíð, eru dóleríthamrar efst, en móberg undir; svo er jarðmyndunin frá Herdísarvík norður að Grindaskörðum.

Grænavatn

Grænavatn.

Nyrzt í dældinni milli Lönguhlíðar og Sveifluháls er Kleifarvatn; fram með því liggur vegur úr Hafnarfirði, en nú var eigi hægt að fara hann, því svo mikill vöxtur var í vatninu. Menn hafa tekið eptir því, að Kleifarvatn vex og þverrar á víxl, og vex jafnvel mest, þegar þurrkar ganga — að því er menn segja — hvernig sem því er nú varið; í því er engin veiði, engin branda nema hornsíli. Sunnar, nálægt Krýsuvík, eru tvö mjög einkennileg vötn, Grænavatn og Geststaðavatn, litlu fyrir neðan námurnar; þau eru bæði kringlótt og mjög djúp; sagt er, að sextugu færi hafi verið rennt í Grænavatn og eigi náð botni. Vötn þessi eru á flötum melum og melgarður eða melbryggja hringinn í kringum þau. Skálar eða katlar líkir þessum, en minni og vatnslausir, eru þar í kring.

Krýsuvík

Krýsuvík – Baðstofa framundan; Krýsuvíkurnámurnar sunnan Seltúns.

Krýsuvíkurnámur eru utan í Sveifluhálsi, norður af Krýsuvík, og dálítið fyrir neðan hann. Móberg er í hálsinum öllum, og brennisteinsblettir og sundursoðinn leir allvíða í honum; en mest kveður þó að því við Krýsuvík. Hinar súru gufur koma upp um sprungur í móberginu; í giljum og vatnsræsum, er ganga niður í fjailið, hefir jarðvegurinn við það soðnað allur í sundur; móbergið er orðið að marglitum leir og gegnumofið af brennisteinssúrum steinsamböndum. Víða eru þar stórir, bullandi leirkatlar, sem alltaf sýður í; fremur lítið er þar samt um brennistein, og miklu minna en í námurnar fyrir norðan í Þingeyjarsýslu. Móbergið er víða upplitað og orðið hvítleitt af gufunum, en hraunmolarnir úr því liggja lausir kolsvartir ofan á, af því að soðnað hefir í kringum þá. Undarlegt þykir mjer, ef það getur borgað sig að vinna þær. Ensku fjelögin, sem hafa námurnar, og ætla sjer að taka þar brennistein, kopar og buris, eru byggð í lausu lopti á hlutabrjefum. Englendingur nokkur, J. W. Busby, keypti fyrst Krýsuvíkurnámur 1858 fyrir milligöngu Dr. Jóns Hjaltalíns; sjera S. B. Sivertsen og Sveinn Eiríksson bóndi í Krýsuvík seldu fyrir 1400 dali; eptir kaupbrjefinu mega Englendingar taka allan brennistein í Krýsuvíkurtorfu og Herdísarvíkurlandi, ásamt öllum málmiðartegundum, or þar kynni að finnast; auk þess hafa þeir ýms rjettindi önnur. Síðan hafa námurnar farið hendi úr hendi og verið seld í þeim hlutabrjef.

Ketilsstígur

Ketilsstígur – í hlíðinni hægra megin við Ketilinn.

Frá Krýsuvík fórum við snöggva ferð upp í Trölladyngju, sem jeg þá skoðari miklu nákvæmar seinna um sumarið, og síðan niður að Kaldárseli. Vegurinn liggur um Ketilstíg, síðan norður með Sveifluhálsi að vestan og svo fram með Undirhlíðum. Sveifluháls er allur úr móbergi, og á honum ótal tindar og hnúkar; hvergi hefir gosið í þessum hálsi, og engin eru þar eldmerki, nema mjög gamlir gígir við suðurenda hálsins nálægt Mælifelli. Hálsinn er víða sundursoðinn af súrum eldfjallagufum, og þeir hafa, ef til vill, einmitt þess vegna engin gos komið, af því að gufurnar höfðu þar stöðuga útrás; annars eru öll fjöllin og dalirnir í kring sundurrótaðir af jarðeldum og eintómar gígaraðir fram með hverri hlíð. Undirhlíðar eru nokkurs konar áframhald af Sveifluhálsi, eða þó öllu heldur hjalli, er gengur út undan norðurenda hans, og halda þær áfram norður fyrir Helgafell.

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Fram með Undirhlíðum eru margar gígaraðir, og eru sumir eldgígirnir upp á rönd þeirra rjett við Helgafell. Frá gígum þessum hafa mikil hraun runnið. Undir miðjum hlíðunum eru mjög nýlegir gígir; þeir hafa hlaðizt upp úr uppblásnum hraunsteinum, sem er tyldrað hverjum ofan á annan, og eru þeir því fjarska brattir. Aðalgígurinn er 70 fet á hæð og hefir 40—50° halla út á við. Úr pessum gígum hefir Kapelluhraun runnið niður í sjó sunnan við Hafnarfjörð. Þetta hraun hefir eflaust runnið síðan land byggðist; útlit þess bendir til þess, og í fornum bókum er það kallað Nýja-hraun, þannig t. d. í Kjalnesingasögu, og í íslenzkum annálum er sagt frá því, að skip hafi brotnað 1343 við Nýja-hraun fyrir utan Hafnarfjörð.

Kapelluhraun

Kapelluhraun norðanvert – eldvörp og gamlar sprungur.

Kapelluhraun hefir runnið niður með hlíðunum fyrir neðan Kaldársel niður að Stórhöfða, en beygir þar frá þeim til vesturs og norðurs. Sumir eldgígarnir og hraunstraumarnir við Helgafell eru mjög nýlegir. Á einum stað sá jeg þar mjög einkennilegan, sjerstakan hraunblett; hraunið hafði runnið út úr smáholum utan í litlu melbarði og fossað niður í smálækjum eins og uppsprettur; engir gígir höfðu samt myndazt, eins og vant er að vera við hraun, heldur hafði hraunleðjan beinlíns ollið á nokkrum stöðum út úr sprungu í melbarðinu; sprungan sjest eigi, en opin eru í vanalega stefnu, eins og aðrir gígir þar í nánd, frá norðaustri til suðvesturs; kringum uppvörpin er dálítil hrúga af hraunsteinum og svo hraunpípur niður úr; hraunbletturinn, sem komið hefir úr opum þessum, er mjög lítill, á að gizka 300 faðma langur og 10—20 faðma breiður.
Ásarnir, sem ganga niður undir Hvaleyri, eru nokkurs konar álma út úr Undirhlíðum og skilur hún Kapelluhraun frá Hafnarfjarðarhrauni. Hafnarfjarðarhraun er mjög gamalt; það virðist hafa komið úr stórum gömlum gíg norður af Helgafelli og vestur af Húsfelli, en síðan hefir landið milli þess gígs og Setbergshlíðaenda sokkið, og sjest vel í gjábarminum vestri allt norður undir Elliðavatn. Önnur gjá hefst rjett fyrir vestan Húsfell og gengur í suðvestur með Helgafelli suður um hraun þau, er komin eru frá Grindaskörðum; hún heitir Gullkistugjá; yfir hana verður eigi komizt nema á einstöku stað.”

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1884, Ferðir um Suðurland sumarið 1883, Þorvaldur Thoroddsen, bls. 25-28.

Gullkistugjá

Gullkistugjá.

Rauðshellir

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags, “Rannsóknir fornleifa sumarið 1907” eftir Brynjúlf Jónsson, segir um minjarnar í Helgadal ofan Hafnarfjarðar:

Helgadalur

Helgadalur – vatnsbólið, þurrt í júlí 2021.

“Í sama skiftið sem mér var bent á Skúlatún um leið, að skammt þaðan héti Helgadalur og skoðaði ég því þann stað, og reyndist þetta var þess getið sæist þar til rústa.
Helgadalur er skammt fyrir neðan Helgafell. Það er ofurlítil dalkvos, er þar gengur inn í austurenda Undirhlíða. Gengur melhól] norður úr hlíðinni, austanmegin við upptök Kaldár, myndar sá melhóll vesturhliðina á dalkvosinni. En að austan beygist hliðin lítið eitt að sér. Hraunflóð hefur runnið ofan fyrir austan enda Undirhlíða, og er það framhald hraunflákans, sem nú var getið að lægi kringum Skúlatún. Það hefir breitt sig vítt út og runnið út með Undirhlíðum. Liggur það þvert fyrir neðan dalkvosina yfir að melhólnum og byrgir þannig fyrir hana. Þar hefir það sprungið og myndað gjáhamar, sem snýr móti dalbrekkunni og heldur inni vatni, sem þar kemur upp, svo af því verður ofurlítil tjörn.

Helgadalur

Helgadalur – tóftasvæði.

Rústin er ofantil í miðri brekkunni. Það eru tvær tóftir, er hver gengur af enda annarar frá suðri til norðurs, eða því sem næst. Er hvor tóft nál. 10 faðm. löng og nál 2 faðm. breið út á veggjabrúnirnar; en þær eru raunar óglöggar víða. Dyr sjást á vesturhliðvegg suðurtóftarinnar við suðurgaflinn. Á norðurtóftinni sá ógjörla til dyra og sama er að segja um miðgaflinn. Rústin er öll óglöggvari norðantil; sér aðeins fyrir ummáli hennar. Þeim megin hefir verið húsaþyrping á hlaðinu. Eru þar útflettar rústir, sem ekki er hægt að greina hverja frá annari, né ákveða lögun þeirra húsa, sem þar hafa verið. Ég dró upp mynd af rústinni. [Myndin sú var ekki birt með frásögninni].
Hraunið, sem nú var getið, hefir breitt sig yfir alt láglendi norður og vestur frá enda Undirhlíða og nær til sjávar við Hafnarfjörð. Holtin ein standa upp úr. Er feykilegt landflæmi byrgt undir hraunflákum þeim. Er þar ærið rúm fyrir marga bæi. Og þar eð víst má telja að það hafi verið kostaland, þá hafa þar óefað verið allmargir bæir, sem nú eru hrauni huldir. Eigi verður sagt nær hraun þessi hafa brunnið, heldur en önnur hraunin á Reykjanesskaganum, er þó hafa brunnið eftir landnámstíð og eyðilagt meiri eða minni bygðir svo sem fornu Krýsuvík o. fl. (Sbr. Árb. fornl.fél. 1903 bls. 43—44 og 47—50). Vegur Selvogsmanna til Hafnarfjarðarkaupstaðar, (Grindaskarðavegur) liggur um Helgadal hjá rústinni. Er eigi allskammt þaðan til Hafnarfjarðar.”

Helgadalur

Helgadalur – selsminjarnar.

Brynjúlfur virðist hvorki hafa áttað sig á staðsetningu minjanna með hliðsjón af öðrum selsminjum á Reykjanesskaganum, þ.e. þær eru í góðu skjóli fyrir austanáttinni, og auk þess eru þær við vatnsból fjarri byggðinni við ströndina. Aðstæður er dæmigerðar fyrir selstöðu; grasi gróinn selshúsahóll, gróinn stekkur og grasgróningar umhverfis. Engin ummerki eru eftir garða er gjarnan fylgja bæjarstæðum. Skammt norðar í Helgadal er hlaðinn stekkur ofan við fjárskjól. Fyrirhleðslur eru framan við skjólin, sem einnig eru dæmigerðar fyrir selstöður á þessu svæði.
Selið, sem hefur verið frá Görðum á Álftanesi (það er í fyrrum Garðalandi), hefur verið vel mjög staðsett í upphafi á sínum tíma. Tvennt hefur væntanlega komið til eyðingar þess í framhaldinu. Í fyrsta lagi var það við gömlu Selvogsgötuna (Suðurferðarveginn) milli Hafnarfjarðar og Selvogs um Grindarskörð. Leiðin sú hefur orðið fjölfarnari eftir því sem bæjunum Hafnarfirði og Reykjavík óx fiskur um hrygg. Ekki hefur þótt vænlegt að halda úti selstöðu við svo fjölfarna sumarleið. Vatnsbólið hefur verið mjög eftirsóknarvert, enda fáum öðrum slíkum að dreifa á milli Strandardals og Helgadals, og dalurinn hefur auk þess þótt skjólgóður áningarstaður. Í öðru lagi má telja líklegt að vatn hafi þorrið í dalnum um miðsumar í heitum veðrum, mögulega ítrekað á tilteknu tímabili, líkt og gerst hefur nú í sumar (júlí 2021). Ítrekaðir þurrkað hafa hnúið bóndann á Görðum til að færa selstöðuna af framangreindum ástæðum, þ.e. fjær alfaraleiðinni og að öruggari vatnsöflun við Kaldá neðan Kaldárbotna. Sú selstaða hefur dugað vel um tíma, en fékk hins vegar lítinn frið, líkt og sú fyrri, fyrir ágangi ferðamanna í lok 19. aldar. Sjá má allnokkra umfjöllun um Kaldársel á vefsíðunni.

Helgadalur

Helgadalur – selsminjar.

Leifar selstöðunnar í Helgadal eru greinilega mjög fornar, enda mótar vart fyrir mannvirkjum þar, nema sjá má móta fyrir óvenjustórum stekk, tvískiptum, austan tvískiptra óljósra húsaleifanna, sem væntanlega fela í sér eldhús, búr og baðstofu – ef gaumgæft væri.
Minjarnar eru í landi Garðabæjar þótt skondið sé. Ástæðan er sú að landamerki Hafnarfjarðar og Garðabæjar voru miðuð við gömlu Selvogsgötuna. Hún liggur niður í Helgadal norðan vatnsbólsins, í sveig að vatnsbólinu og síðan upp með hlíðinni austanverðri sunnan tóftanna. Þær eru þó naumlega innan vatnsverndarsvæðis Kaldárbotna, en það ætti þó ekki að takmarka möguleika fornleifafræðinga að skoða þær nánar með t.t. aldurs og nýtingar fyrrum.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Rannsóknir fornleifa sumarið 1907 eftir Brynjúlf Jónsson – Helgadalur, bls. 10-11.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Garðar

Fjallað er m.a. um séra Markús Magnússon í Görðum á Álftanesi í Lesbók Morgunblaðsins árið 1992 og Alþýðublaðinu árið 1958. Í síðarnefndu skrifunum er getið um tengsl Markúar og mannvirkja í og við Kaldársel.

Í Lesbókinni segir:

Garðakirkja

Garðakirkja fyrrum.

“Næstan merkisklerka sem setið hafa í Görðum má telja Markús Magnússon (1748-1825) sem þjónaði Álftnesingum frá 1780 til æviloka. Hann hafnaði biskupsembætti á Hólum, en gegndi um skamma hríð biskupsdómi í Skálholti 1796-1797. Markús lét málefni er vörðuðu bættan þjóðarhag nokkuð til sín taka. Hann var m.a. einn af stofnendum Landsuppfræðingarfélagsins 1779 og hvatti samsveitunga sína mjög til jarðabóta og garðyrkju (Páll Eggert Olason, 1948-1952. HI-.47).
Nálægt hálfri annarri mílu frá Hafnarfirði beygðum við upp frá sjónum að litlu bæjarþorpi, sem heitir Garðar. Þar er prestsetur og kirkja en fáein kot umhverfis aðalbýlið.
Presturinn heitir Markús Magnússon. Hann er prófastur eða umsjónarmaður kirknanna í Gullbringusýslu. Auk heimakirkjunnar í Görðum þjónar nann einnig Bessastaðakirkju… . [P]restsetrinu [fylgir] stórt, grösugt land.
Við heilsuðum Upp á síra Markús og sátum stundarkorn inni hjá honum. Hýbýlum hans verður ekki hrósað fyrir mikil þægindi, en hann hefír nærri lokið við að láta byggja sér nýjan bæ í grennd við hinn gamla, og þar fær hann miklu betri húsakynni. Hann á dálítið bókasafn, 100-150 bindi. (Henry Holland, 1960:71.)”

Kaldársel

Fjárborg á Borgarstandi við Kaldársel. Myndin er tekin af Daniel Bruun 1898.

Í Alþýðublaðinu segir:
“Enn segir í Ferðabók Sveins: Hinn 1. nóvembermánaðar könnuðum við áðurnefndan helli, sem reyndist vera skapaður við jarðeld á sama hátt og Surtshellir, sem lýst er í Ferðabók Eggerts og Bjarna. Hellir þessi er svo fallegur, að hann á skilið sérstaka lýsingu, en dagurinn var svo stuttur, að við gátum eigi gert hana. Verður bún því að bíða betra tíma. Við fundum aðra hella ok könnuðum 40 faðma af einum þeirra, en vissum eigi, hversu langur hann var alls, því að við höfðum hvorki kerti né blys. Þarna í grenndinni hefur Markús prófastur í seli og hyggst einnig héðan í frá að hafa allt fé sitt þar á vetrum og láta tvo menn gæta þess þar. Í þessu skyni hefur hann látið bera þar saman 100 hesta hey, sem slegið er þar efra, svo að hægt sé að gefa fé, ef svo verður hart í ári, að tekur fyrir beit. Auk þessa hefur þessi dugnaðarbóndi látið gera nokkrar fjárborgir úr grjóti þar í grennd.

Kaldársel - fjárhellar

Fjárskjól og heykuml við Kaldársel – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta eru eins konar fjárhús, mönnum sínum, búmaður góður og ýtti mjög á eftir sóknarbændum sínum í garðrækt og jarðyrkju.” Hann var í biskupsstað í eitt ár, en það voru fleiri Garðaprestar. Hann var beðirin að taka Hólastól árið 1787, en baðst undan; vildi heldur sitja í Görðum.
Varla er vafi á því, að selið, sem Sveinn Pálsson getur um, er Kaldársel, enda eru hinir mestu og fallegustu hellar þar í grennd. Er og ljóst af þessari frásögn, að Garðar hafa átt beitiland þar i kringum Helgafell og í Undirhlíðum, og sennilega allt upp í Grindaskörð. Hefur allt þetta víðáttumikla fjalllendi þá legið undir Garða.”

Að ofan má sjá að nefndur Markús hafi látið byggja bæði fjárborgirnar á Borgarstandi sem og hlaðið um fjárskjólin norðan hans, væntanlega í kringum aldarmótin 1800.

Sjá meira um Kaldársel HÉR.

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, 21. desember 1992, Gísli Ragnarsson; Kirkjustaðurinn á Görðum, bls. 40.
-Alþýðublaðið 19. apríl 1958, Stefán Júlíusson; Garðar á Álftanesi, bls, 7.

Kaldársel

Heykuml við Kaldársel.

Kaldársel

Garðakirkja átti selför í Kaldársel, en þótti langt. Þórunn Sigurðardóttir, húsfreyja á Hvaleyri, hafði síðast í seli þar árið 1871. Jón Jónsson bjó þarna með konu sinni 1868-1870 og 1873 fluttist Þorsteinn Þorsteinsson þangað með ráðskonu og bjó þar síðastur manna til 1887. Á síðustu öld reisti K.F.U.M. skála þarna fyrir drengi á sumrin.

Kaldársel

Í Lesbók Morgunblaðsins 1993 er ljóð eftir Úlf Ragnarsson, lækni, sem ber heitið “Haust í Kaldárseli”.

Haustið er komið í Kaldársel.
Það kólnar í gagnsærri stillu
og litirnir brenna á laufi svo vel
að líklega spáir það illu.

Hún kaldá úr Botnunum læðist á laun
og ljóðar af gömlum vana
en týnist svo ofaní helluhraun.
Hvað verður svo um hana?

Kaldársel

Kaldársel um 1930.

Það greinir víst enginn þann undirstraum
sem endar í blikandi sænum.
Hjá Fjallinu eina minn innstra draum
anda ég heyri í blænum.

Og blítt lætur eilífðin alla tíð
uppi á Helgafelli.
En letileg teygir sig Langahlíð
lúin og grá af elli.

Kaldársel

Kaldársel um 1930.

Hún var þó áður svo árdegisblá
sem æskunnar falslausa gaman.
Blóðrauð á vörunum Búrfellsgjá
brosir að öllu saman.

Og víst var þó gangan helsár og hörð
umhraunin á sultarvorum.
Göturnar fornu á Grindarskörð
greina frá þungum sporum.

En himinsins bláskál hvelfir sig
yfir Húsfellsins bunguþaki.
– Hjá Valahnjúkunum var þig
á vængjanna hraða blaki!

Þörf er hafa hraðann á
– hérna er margt að ugga.
Burknarnir fögru í Gullkistugjá
glitra í dauðans skugga.

ÁletrunÍ Ferðabók Þorvaldar Thoroddsens er m.a. getið um komu hans í Kaldársel. “Við Kaldársel lágum við nokkra daga. Það þar er bæði gras og vatn fyrir hesta, en hvort tveggja er annars torfengið í þessum héruðum. Kaldá kemur undan móbergshálsum rétt fyrir neðan Helgafell. Eru þar lón eða augu, og kemur vatnið fram víða í bökkum. Og á botni sést sums staðar, að smásandur dansar upp og niður af vatninu, er streymir upp um holurnar. Áin rennur svo spölkorn eftir hrauninu niður hjá Kaldárseli og hverfur dálitlu neðar undir hraunið, sogast þar niður í sprungur og katla. Neðar er sagt, að rennandi vatn sjáist sums staðar í hraunsprungum.
KaldárselMargar munnmælasögur eru um Kaldá. Segja sumir, að hún renni undir hraunum út allt nes, komi svo upp í sjónum fyrir utan vita og af straumi hennar verði svo Reykjanesröst, en þetta er fjarri öllu sanni. Víða kemur dálítið vatn í sjóinn undan hraunum, en vatnsmagnið í Kaldá er svo lítið, að hún getur eigi komið neinum verulegum straumi til leiðar. Sumir segja máli sínu til sönnunar, að taka megi ferskt vatn ofan á sjónum í Reykjanesröst, en nákunnugir menn hafa sagt mér, að það sé ekki satt. Munnmælin segja líka, að Kaldá hafi fyrr runnið ofanjarðar eftir hinum löngu hraunsprungum, er ganga út Reykjanes, en fyrir því er enginn fótur. Kaldá rennur líklega til sjóar í Hraunum fyrir sunnan Hafnarfjörð. Þar koma margar uppsprettur undan hraunum í fjörunni.

Kaldársel

Í Kaldárseli 1934.

Kaldá hefir nafn sitt af því, að vatnið í henni er eins og annað uppsprettu- eða lindarvatn, aðþað hefir alltaf hér um bil sama hita árið um kring, og finnst þvói vera mjög kalt á sumrum, þegar lofthitinn er miklu meiri. Hiti Kaldár var 21. júlí 5°C, en lofthitinn samtímis 10 1/2°. Við Kaldá var áður sel frá Hvaleyri, sem kallað var Kaldársel, og þar eru víða á hraununum í kring rústir af mörgum fjárbyrgjum. Sumarið 1883 bjó þar gamall, sérvitur einsetukarl, Þorsteinn Þorsteinsson (d. 14. júlí 1887), sem áður hafði verið í Lækjarbotnum. Hann þekkti allvel fjöll og örnefni á þessum slóðum og fylgdi mér um nágrennið.” Þá er getið um ferðir Þorvaldar og félaga út frá Kaldárseli um Undirhlíðar, Grindarskörð og Bláfjöll.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Í Minningarbók um Þorvald Thoroddsen frá 1923 er auk þessa getið nánar um nefndan Þorstein. “Við lágum um tíma í tjaldi hjá Kaldárseli og fórum þaðan um nálæg fjöll, þar bjó þá skrítinn og sjervitur einsetukarl, Þorsteinn Þorsteinsson; hann kom oft á morgnana í tjaldið til þess að biðja um staup, og eitt sinn gaf annar fylgdarmaður minn honum fullan bolla af lampaspiritus, karlinn tæmdi bollann í botn og sagði: “Þetta var hressandi, það er þó eitthvað annað en bannsett KaleikurHafnarfjarðarbrennivínið.”
Í bókinni “Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár” fjallar Daniel Bruun um ferðir hans um Ísland. Þar segir hann m.a. um Kaldársel: “Enda þótt byggingarefni íslenskra bæja væri oftast torf og grjót, eða torf eingöngu, þar sem stafnar voru þó oftast úr timbri, þá notuðu menn að sjálfsögðu betra efni, ef það var fáanlegt. Sunnan við Hafnarfjörð eru víðáttumikil hraun, þar er víða að finna þunnar hraunhellur, sem þekja holrúm, loftbólur undir yfirborði hraunsins. Létt er að brjóta þessar hellur, og víða hafa þær brotnað og fallið niður í hraungjótur. Slíkar hraunhellur hafa með góðum árangri verið nýttar til húsagerðar á bæ einum, sem nú er að vísu í eyði, en var í byggð ekki alls fyrir löngu.
Býlið heitir Kaldársel og er góð sauðjörð. Nafnið sel bendir til, að þar hafi verið selstaða fyrir löngu. Þar eru nokkrar tóttir bæði af bæjar- og Kaldárselútihúsum, og nokkur fjárskýli bæði opin og lokuð. Sérstaklega ber að geta þar um tvær fjárborgir, einnig eru þar fjárréttir og loks fjárskjól í hellum í hrauninu. Hjá bæjarhúsunum er fjárhús og hesthús en ekkert fjós.”
Meðfylgjandi er svo uppdráttur ef selstöðunni, þ.e. helluhlöðnu húsunum í Kaldárseli. Þau voru rifin þegar hús K.F.U.M. voru reist þar á fyrri hluta 20. aldar. Ef einhver, þótt ekki væri nema einn, hefði þá barist fyrir því að fá aðra til að láta tóttirnar ósnertar, ættu Hafnfirðingar nú einstakar minjar um sérstaka mannvirkjagerð frá fyrri tímum. En því miður – enginn hafði þá hugsun þá, líkt og nú.
Hér verður ekki fjallað um fornaldarbæ þann, sem Bynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi, taldi vera Í Helgadal. Sumir vilja tengja þær tóftir við Hinn heilaga “Gral”, sem jafnan hefur skotið upp í umfjöllun kristinna. Telja þeir hinir sömu að örnefni Helgadalur og Helgafell séu þaðan frá komin.
Í göngu um Kaldársel voru framangreindur fróðleikur hafður til hliðsjónar.
Frábært veður. Ganagn tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Minningabók Þorvalds Thoroddsen, 2. bindi, bls. 94, Safn fræðafélagsins II, Kaupmannahöfn 1923.
-Þorvaldur Thoroddsen, Ferðabók 1913-1915, I. bindi, Reykjavík 1958, bls. 154-159.
-Daniel Bruun, Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár, Steindór Steindórsson þýddi, 1987, bls. 325-326.
-Lesbók Mbl., 36. tölubl., 16. okt. 1993, bls. 10 – “Haust við Kaldársel” eftir Úlf Ragnarsson, lækni.
-Sunnudagsblað Þjóðviljans 1965, viðtal við Gísla Sigurðsson um örnefnasöfnun.

Kaldársel

Kaldársel – minjar; ÓSÁ.

Portfolio Items