Rauðshellir

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags, “Rannsóknir fornleifa sumarið 1907” eftir Brynjúlf Jónsson, segir um minjarnar í Helgadal ofan Hafnarfjarðar:

Helgadalur

Helgadalur – vatnsbólið, þurrt í júlí 2021.

“Í sama skiftið sem mér var bent á Skúlatún um leið, að skammt þaðan héti Helgadalur og skoðaði ég því þann stað, og reyndist þetta var þess getið sæist þar til rústa.
Helgadalur er skammt fyrir neðan Helgafell. Það er ofurlítil dalkvos, er þar gengur inn í austurenda Undirhlíða. Gengur melhól] norður úr hlíðinni, austanmegin við upptök Kaldár, myndar sá melhóll vesturhliðina á dalkvosinni. En að austan beygist hliðin lítið eitt að sér. Hraunflóð hefur runnið ofan fyrir austan enda Undirhlíða, og er það framhald hraunflákans, sem nú var getið að lægi kringum Skúlatún. Það hefir breitt sig vítt út og runnið út með Undirhlíðum. Liggur það þvert fyrir neðan dalkvosina yfir að melhólnum og byrgir þannig fyrir hana. Þar hefir það sprungið og myndað gjáhamar, sem snýr móti dalbrekkunni og heldur inni vatni, sem þar kemur upp, svo af því verður ofurlítil tjörn.

Helgadalur

Helgadalur – tóftasvæði.

Rústin er ofantil í miðri brekkunni. Það eru tvær tóftir, er hver gengur af enda annarar frá suðri til norðurs, eða því sem næst. Er hvor tóft nál. 10 faðm. löng og nál 2 faðm. breið út á veggjabrúnirnar; en þær eru raunar óglöggar víða. Dyr sjást á vesturhliðvegg suðurtóftarinnar við suðurgaflinn.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Á norðurtóftinni sá ógjörla til dyra og sama er að segja um miðgaflinn. Rústin er öll óglöggvari norðantil; sér aðeins fyrir ummáli hennar. Þeim megin hefir verið húsaþyrping á hlaðinu. Eru þar útflettar rústir, sem ekki er hægt að greina hverja frá annari, né ákveða lögun þeirra húsa, sem þar hafa verið. Ég dró upp mynd af rústinni. [Myndin sú var ekki birt með frásögninni].
Hraunið, sem nú var getið, hefir breitt sig yfir alt láglendi norður og vestur frá enda Undirhlíða og nær til sjávar við Hafnarfjörð. Holtin ein standa upp úr. Er feykilegt landflæmi byrgt undir hraunflákum þeim. Er þar ærið rúm fyrir marga bæi. Og þar eð víst má telja að það hafi verið kostaland, þá hafa þar óefað verið allmargir bæir, sem nú eru hrauni huldir. Eigi verður sagt nær hraun þessi hafa brunnið, heldur en önnur hraunin á Reykjanesskaganum, er þó hafa brunnið eftir landnámstíð og eyðilagt meiri eða minni bygðir svo sem fornu Krýsuvík o. fl. (Sbr. Árb. fornl.fél. 1903 bls. 43—44 og 47—50). Vegur Selvogsmanna til Hafnarfjarðarkaupstaðar, (Grindaskarðavegur) liggur um Helgadal hjá rústinni. Er eigi allskammt þaðan til Hafnarfjarðar.”

Helgadalur

Helgadalur – selsminjarnar.

Brynjúlfur virðist hvorki hafa áttað sig á staðsetningu minjanna með hliðsjón af öðrum selsminjum á Reykjanesskaganum, þ.e. þær eru í góðu skjóli fyrir austanáttinni, og auk þess eru þær við vatnsból fjarri byggðinni við ströndina. Aðstæður er dæmigerðar fyrir selstöðu; grasi gróinn selshúsahóll, gróinn stekkur og grasgróningar umhverfis. Engin ummerki eru eftir garða er gjarnan fylgja bæjarstæðum.

Helgadalur

Helgadalur – stekkur.

Skammt norðar í Helgadal er hlaðinn stekkur ofan við fjárskjól. Fyrirhleðslur eru framan við skjólin, sem einnig eru dæmigerðar fyrir selstöður á þessu svæði.
Selið, sem hefur verið frá Görðum á Álftanesi (það er í fyrrum Garðalandi), hefur verið vel mjög staðsett í upphafi á sínum tíma. Tvennt hefur væntanlega komið til eyðingar þess í framhaldinu. Í fyrsta lagi var það við gömlu Selvogsgötuna (Suðurferðarveginn) milli Hafnarfjarðar og Selvogs um Grindarskörð. Leiðin sú hefur orðið fjölfarnari eftir því sem bæjunum Hafnarfirði og Reykjavík óx fiskur um hrygg. Ekki hefur þótt vænlegt að halda úti selstöðu við svo fjölfarna sumarleið. Vatnsbólið hefur verið mjög eftirsóknarvert, enda fáum öðrum slíkum að dreifa á milli Strandardals og Helgadals, og dalurinn hefur auk þess þótt skjólgóður áningarstaður. Í öðru lagi má telja líklegt að vatn hafi þorrið í dalnum um miðsumar í heitum veðrum, mögulega ítrekað á tilteknu tímabili, líkt og gerst hefur nú í sumar (júlí 2021). Ítrekaðir þurrkað hafa hnúið bóndann á Görðum til að færa selstöðuna af framangreindum ástæðum, þ.e. fjær alfaraleiðinni og að öruggari vatnsöflun við Kaldá neðan Kaldárbotna. Sú selstaða hefur dugað vel um tíma, en fékk hins vegar lítinn frið, líkt og sú fyrri, fyrir ágangi ferðamanna í lok 19. aldar. Sjá má allnokkra umfjöllun um Kaldársel á vefsíðunni.

Helgadalur

Helgadalur – selsminjar.

Leifar selstöðunnar í Helgadal eru greinilega mjög fornar, enda mótar vart fyrir mannvirkjum þar, nema sjá má móta fyrir óvenjustórum stekk, tvískiptum, austan tvískiptra óljósra húsaleifanna, sem væntanlega fela í sér eldhús, búr og baðstofu – ef gaumgæft væri.

Helgadalur

Selvogsgata um Helgadal.

Minjarnar eru í landi Garðabæjar þótt skondið sé. Ástæðan er sú að landamerki Hafnarfjarðar og Garðabæjar voru miðuð við gömlu Selvogsgötuna. Hún liggur niður í Helgadal norðan vatnsbólsins, í sveig að vatnsbólinu og síðan upp með hlíðinni austanverðri sunnan tóftanna. Þær eru þó naumlega innan vatnsverndarsvæðis Kaldárbotna, en það ætti þó ekki að takmarka möguleika fornleifafræðinga að skoða þær nánar með t.t. aldurs og nýtingar fyrrum.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Rannsóknir fornleifa sumarið 1907 eftir Brynjúlf Jónsson – Helgadalur, bls. 10-11.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.