Urðarás

Gengið var frá Sprengilendi (ekki er vitað af hverju nafnið er dregið) rétt innan við hreppamörk Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandar, yfir Alfaraleið, um Taglhæð og stefnan tekin á Lónakotssel undir Skorás. Skorásvarðan sést vel ofanvert. Skorásinn er þversprunginn klapparveggur og ber hæðin því nafnið með réttu. Taglhæðin er á mörkunum þar sem hún rís suðaustur af Sprengilendinu. Taglhæð er flöt en mikil um sig og liggur rétt fyrir ofan Alfaraleiðina. Suður af selinu eru Krossstapar, fallegir klofnir hraunhólar.

Urðarás

Kyrrt var í Lónakotsselinu þennan gamlárdagsmorgun. Jörð var alauð, ekki hreyfði strá og tóftirnar kúrðu undir Skorásnum. Ofan við selið og vestan við neðsta krossstapann eru greni. Þar er skúti, sem hlaðið hefur verið fyrir að hluta.
Urðarás er suður af efsta Krossstapanum í Almenningi, mjög stórt jarðfall sem snýr í suður-norður. Jarðfallið er umlukið björgum en ofan í því er töluverður gróður. Ein heimild segir að kerið heita Urðarás og er það nafn vel við hæfi. Vestan í jarðfallinu er Urðarásgrenið og reyndar er fleiri greni þarna á næsta leiti. Gróðurinn gæti verið tilkominn vegna skjólsins í lægðinni.
Ekki liggur ljóst fyrir hvernig nafnið Urðarás er til komið. Gæti það m.a. verið með tvennum hætti; annars vegar vegna sérstöðu og ólíks umhverfis. Orðið ás stendur jafnan fyrir hæð, en umhverfis Urðarás eru háir barmar, líkt og á Krossstöpunum þarna norðar.
Urðarás er merkilegt jarðfræðifyrirbæri; Urðarás. Um er að ræða svenefndan “brothring”. Hraunið hefur fallið niður á nokkrum kafla eftir að neðanjarðarhrauná, sennilegast úr Hrútagjárdyngju, hefur stíflast og glóandi hraunkvikan með þrýstingi sprengt sér leið upp með þeim afleiðingum að rásþakið hefur brotnað upp og síðan sigið niður aftur þegar glóandi hraunið flæddi undan. Sambærileg fyrirbæri má sjá á og við stærstu hella landsins, s.s. í Hallmundahrauni. Ólíklegt, enda var það ekki að sjá, að hraunkvikan hafi náð upp á yfirborðið, en hins vegar náðst að tæmast eftir öðrum leiðum eftir að þakið brast. Nokkurn veginn jafnslétt er neðan brothringssins, en svolítill halli ofan hans. Þessar aðstæður gætu skýrt það að ekkert hraun hafi komið upp úr annars djúpri rásinni. Eftir stendur stórbrotinn “brotadalur” í miðju hrauni. Þetta eru algeng fyrirbæri á Hawai og víðar þar sem hraun renna í kvikugosum. Gaman er að eiga a.m.k. eitt slíkt á Reykjanesskagnum, og það eitt hið fallegasta á landinu.

Lónakotssel

Lónakotssel.

Erfitt er fyrir óvana að finna Urðarás á færi, en hann er þess greinilegri úr loftið séður. Ekki er ólíklegt að ætla, enda hefur það sennilega aldrei verið gert, að skoða syðst í jarðfallinu hvort þar, neðst, kynnu að leynast göng á stórum helli, en ætla má, og önnur dæmi sýna slíkt, að í slíkum tilvikum er þetta gerist, er um mikið magn af glóandi hraunkviku í neðanjarðarrásum að ræða. Hún hefur komið niður frá eldstöðinni í Hrúatgjárdyngju, en neðan Urðaráss er tiltölulega slétt hraun. Þar hefur rennslið verið litið og því glóandi kvikan ekki náð að renna áfram að ráði. Afleiðingin, eða afurðin, var þetta merkilega jarðfyrirbæri.
Til fróðleiks er gaman að geta þess að þetta jarðfræðifyrirbæri hafði verið uppgötvað hér á landi löngu áður en erlendir vísindamenn uppgötvuðu merkilegheit þess. Þannig var að á vísindaráðstefnu erlendis á níunda áratugnum fjallaði vísindamaður um nýlega uppgötvun; brothringi á Hawai. Að fyrirlestri loknum stóð íslenskur vísindamaður upp og sagði þetta varla geta talist merkilegt því einn vísindamanna Íslands, Kristján Sæmundsson, hefði þá tveimur áratugum fyrr ritað um fyrirbærið í Sunnudagsblað Tímans. Þar lýsti hann brothringjum hér á landi. Hin nýlega uppgötvun teldist því til þeirra eldri á Íslandi.

Urðarás

Urðarás.

Upplýsingar hafði borist frá helsta hraunhellasérfræðingi heims, Chris Wood, að sennilega hafi Urðarás og svæðið þar fyrir ofan að geyma geysistóran hraunhelli. Brothringir myndast er stórar hraunrásir neðanjarðar á gostíma stíflast og þær brjóta af sér þakið vegna mikils þrýstings. Þegar glóandi hraunið nær að renna á ný fellur þakið niður og brothringurinn verður til. Þannig opnast stærstu og þekktustu hraunhellar landsins í brothringjum.
Líklegt má telja að hin stóra hraunrás geti verið á nokkru dýpi, en það gefur jafnframt von um að hún geti verið nokkuð heilleg. Hraunið kom úr Hrútargjárdyngju fyrir u.þ.b. 5000 árum. Hrútagjárdyngjuhraun ná frá Hvaleyrarholti að Vatnsleysuströnd (Vatnsleysuvík).
Nú var ætlunin að gaumgæfa Urðarásinn eins vel og mögulegt var með tilliti til framangreinds. Þegar svæðið var sett í samhengi og skoðað vandlega uppgötvaðist a.m.k. þrennt: Í fyrsta lagi virðast Krossstaparnir (Miðkrossstapi og Hraunkrossstapi vera í beinni línu við Urðarás og hafa myndast með mjög svipuðum hætti. Í öðru lagi var ekki að finna op niður í rás í Urðarásnum sjálfum, enda ólíklegt að hún finnist eða sé til staðar. Bæði er það vegna þess að þrýstingur glóandi hraunkvikunnar í rásinni hefur stöðvast á milli kvikuhólfanna eftir að hafa náð að þrýsta upp þakinu og mynda hraunhóla. Glóandi kvikan náði síðan að bræða grannbergið og renna frá þannig að hólarnir (þökin) sigu niður í miðjunni, en storknir jaðrarnir stóðu eftir.

Urðaráshellir

Urðaráshellir.

Í þriðja lagi fannst fallegur hellir vestan við Urðarás. Þegar svæðið í kringum ásinn var skoðað komu í ljós nokkrir skútar þar sem hraunkvika hefur streymt um. Þeir eru flestir stuttir, nema einn. Þegar kíkt var til hliðar inn undir grunnt jarðfall komu í ljós fyrirhleðslur fyrir rásop. Einhver hafði hlaðið upp í opið að hálfu, sennilega til að koma í veg fyrir að fé rataði þangað inn, en inni var slétt gólf. Eftir að hafa fært hleðsluna var komið inn í 10-15 metra langan rýmilegan helli, hér nefndur Urðaráshellir. Út frá honum á þremur stöðum voru lág op, ekki þó nægilega rýmilega fyrir mann. Eitt opanna er sérstaklega áhugavert. Það er kringlótt. Þegar lýst var inn var að sjá miklu mun víðari rás, en vegna myrkurs þar inni var ekki hægt að áætla rýmið. Áhugavert væri að láta myndavélarana þarna inn og skoða hvað þar kann að leynast. Bein voru í hellinum. Líklega hefur refur borið þau þangað.

Urðarás

Skjól við Urðarás.

Ljóst er að Urðarásinn hefur myndast með svipuðum eða eins hætti og Krossstapanir norðan hans. Ásinn er efstur og þar hefur stærsta kvikuhólfið verið. Sunnan Urðaráss er þunnt en úfið apalhraun, sem runnið hefur í mjórri ræmu til norðurs milli hans og norðvesturbakka Skógarnefs. Líklegt er að það hraun hafi fundið sér leið upp á yfirborðið úr þessari stóru rás miklu mun sunnar, eða einhverri annarri. Ef svo er minnka enn líkur á að sú stóra rás, sem þarna hefur verið, muni finnast. Hraunið á þessu svæði er blandað; annars vegar slétt helluhraun vestan Krossstapanna og hins vegar úfið apalhraun sunnan við þá og austan.
Krossstaparnir eiga að vera þrír. Getum hefur verið leitt að því hver þriðji krossstapinn er og hafa nokkrar fjarrænar tillögur komið fram. Langlíklegast er að Urðarásinn sé sá, sem leitað hefur verið að. Bæði er aðkoman að honum lík og að hinum tveimur norðan hans þótt hann sé sýnu umfangsmestur og þá eru þeir allir í svo til beinni línu með jöfnu millibili. Urðarásinn er bæði við úfnara hraun, auk þess sem meira “hraun” er í honum en hinum tveimur. Hraunkrossstapi væri því réttnefni á hann, en það nafn hefur krossstapinn norðan hans borið.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Urdaras

Urðarás.