Færslur

Búrfell
Gengið var um Lambagjá, en hún hefur verið friðuð. Með í för voru skiptinemar á vegum Lionshreyfingarinnar, annar frá Króatíu og hinn frá Slóvaníu.
Rauðshellir

Rauðshellir.

Ætlunin var m.a. að gefa þeim innsýn í myndun landsins og sýna þeim hrauntraðir, hraunhella og eldgíga.
Í Lambagjá eru hlaðnar þverfyrirhleðslur á a.m.k. tveimur stöðum og einnig er hlaðið fyrir þar sem auðvelt hefur verið að komast upp úr gjánni miðsvæðis. Líklegt má telja að gjáin hafi verið notuð sem aðhald eða jafnvel nátthagi um tíma. Hraunhaft er í hrauntröðinni, en gengið var undir það. Þar niðri var fallegt þrastarhreiður og í því þrjú egg. Þrösturinn hafði greinilega verpt í það öðru sinni í sumar. Skammt ofar var annað þrastarhreiður, yfirgefið. Gengið var áfram upp að opi Níutíumetrahellis. Frá því var haldið upp að Selvogsgötu þar sem hún liggur niður í Helgadal og kíkt í Vatnshelli áður en haldið var upp með misgenginu að Rauðshelli. Við op hans var einnig þrastarhreiður á sillu með fjórum eggjum í.

Rauðshellir

Hleðslur í Rauðshelli.

Farið var inn í hellinn og m.a. skoðuð hlaðin fyrirhleðsla, sem þar er. Misvísandi lýsingar eru á Rauðshelli. Til er gömul lýsing, sem mun vera rétt, en einnig hefur verið giskað á að um Hundraðmetrahellinn gæti verið að ræða, en slíkt passar ekki við gömlu lýsinguna. Náttúrulegur bekkur hefur verið þarna þvert yfir hellinn, sem bæði hefur verið hægt að komast yfir og undir. Hún er nú fallin, en rauður liturinn í hellinum er enn áberandi. Hleðslur eru í jarðfallinu og án efa einnig undir gróðurþekjunni, sem þar er. Forn stekkur er skammt norðar.
Þá var gengið upp í Fosshelli og haldið í gegnum hann. Sást vel hversu fallegur hraunfossinn er sem og flórinn í efri hluta hellisins.

Búrfellsgjá

Hlaðið fyrir helli í Búrfellsgjá.

Gengið var yfir að Búrfelli. Í hrauntröðinni er m.a. skúti með fyrirhleðslu. Haldið var upp eftir tröðinni og litið niður í gíginn, sem er ótrúlega tilkomumikill. Háir veggir traðarinnar geyma ótrúlegar hraunmyndarnir, ef vel er að gáð.
Búrfell er eldborg. Frá henni rann hraun niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð. Heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára.
Búrfellið tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krísuvík. Búrfell er hringlaga gígur úr hraunkleprum. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.
Búrfellshraun er innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun.

Búrfellshraun

Búrfellshraunin.

Búrfellið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum.
Sá hraunstraumur sem runnið hefur í Heiðmörk og niður í Garðabæ hefur runnið eftir Búrfellsgjá. Búrfellsgjá þykir með fallegri hrauntröðum landsins. Gjáin er 3,5 km á lengd með meginstefnu í norðvestur. Búrfellsgjá er mjóst upp við gíginn eða um 20-30 metrar milli barma en breikkar þegar lengra dregur og verður mest 300 metrar. Í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð grynnkar hrauntröðin og hverfur, sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Á köflum eru gjárveggirnir þverhníptir og mynda sums staðar grunna hellisskúta sem eru með snarhöllu þaki. Barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar er allt úr Búrfellshrauni.

Búrfellsrétt

Búrfellsrétt. Gerðið fjær.

Gengið var niður gjána og að Gjáarrétt. Réttin var skoðuð sem og Gerðið. Innst í því, undir slútandi klettaveggnum er hlaðið hús, nokkuð heillegt.

Gjáarrétt

Gjáarrétt og nágrenni.

Gjáarrétt hefur sennilega verið lögrétt Garðhreppinga, Bessataðahreppsbúa og Hafnfirðinga í nokkur hundruð ár (Ól. Þorvaldsson). Sigurður í Görðunum segir í minningum sínum: “Réttin okkar var í hrauninu, skammt fyrir sunnan Vatnsenda. Hygg ég, að það hafi verið ein sérkennilegasta rétt á landinu. Hún hét Gjárétt, enda var hún í gjá. Skammt frá eru víðir og fagrir vellir og þar var oft leikið sér og ekki sízt sprett úr spori bæði þegar komið var í réttina og eins þegar réttardeginum var lokið.”

Gjáarrétt

Gjáarrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Gjáarrétt (Gjárétt) var fjallskilarétt (lögrétt) til 1920, en þá var hún flutt niður í Gráhelluhraun og nefndist Hraunrétt. Dilkar voru 12 talsins uns einum dilk Selvogsmanna var bætt við suðaustast í réttinni. Árið 1955 var gerð rétt við Kaldársel. Gjáarrétt var friðlýst að tilstuðlan þjóðminjavarðar 1964.
Frábært veður – hlýtt og stillt. Gangan tók 3 klst og 30 mín.

Upplýsingar um Búrfellshraun er m.a. fengið af http://www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/burfellshraun.htm

Búrfell

Gígur Búrfells – upptök Búrfellshrauns.

Rauðshellir

Ákveðið var að að taka hellahring í Kaldárseli.

Kétshellir

Ketshellir / Setbergsselsfjárhellir.

Byrjað var á að kíkja á Hamarkotsselshelli (Selhellir) og Setbergsselshelli (Ketshellir) undir Setbergshlíð. Hellirinn er um 15 metra langur og opnast í báða enda. Hleðslur eru fyrir opum, einkum Setbergsselshellismegin. Þverhleðsla skiptir hellinum fyrir miðju. Stórar hraunhellur hafa fallið úr þaki inngangsins að norðanverðu, en hellirinn sjálfur hefur veitt fé (og reyndar geitumundir það síðasta, gott skjól á meðan var. Gróið er í kringum Setbergsselið og fallegur stekkur er þar sem Selvogsgatan liðast upp hálsinn, í átt að Kershelli og Smyrlabúðahrauni. Selið er undir hæðinni, utan í Gráhelluhrauninu, en innan við hraunkantinn er enn eitt hellisopið.

Kershellir

Kershellir.

Kershellir er bæði aðgengilegur og rúmgóður. Hann opnast innan úr keri efst á hraunbrún. Ofan við opið er stór varða. Innan úr Kershelli er Hvatshellir, sá sem drengir Friðiks Friðrikssonar söfnuðust saman í á leið þeirra í Kaldársel. Síðar var lagður vegur að búðum KFUM er reistar voru þar. Gamla Kaldársel er undir suðurvegg búðanna (hússins).
Þá voru skoðaðir Kaldárselsfjárhellarnir er FERLIR opnaði fyrir u.þ.b. þremur árum. Þá voru engin spor við munnana og alls engin innan þeirra. Greinilegt er að margir hafa litið þarna við síðan þá.

Helgadalur

Helgadalur – stekkur.

Ummerki eftir heykuml er miðsvæðis, en í nyrsta fjárskjólinu er hlaðinn miðgarður. Syðsta fjárskjólið er stærst og aðgengilegast. Við munnann hafði þröstur verpt fjórum eggjum í hreiður á syllu við innganginn. Fylgdist hann vel með mannaferðum og lét í sér heyra.
Lokst var strikið tekið til austurs áleiðis að Helgadalshellunum; Hundraðmetrahelli og Rauðshelli. Gengið var eftir hleðslunni undir gömlu vatnsleiðsluna úr Kaldárbotnum, henni fylgt áleiðis til suðausturs yfir Lambagjá og síðan vent til austurs að Helgadal. Greinilegt var að einhverjir hafa verið duglegir að hirða grjót úr hleðslunni á köflum. Á leiðinni mátti sjá falleg hraunreipi í helluhrauninu. Ekki var litið inn í Níutíumetrahellinn að þessu sinn, en höfðinu hins vegarstungið niður í Vatnshelli. heyra mátti tónlist vatnsins er dropar þess lentu á sléttum tærum vatnsfletinum og bergmáluðu inni í holrúminu.

Rauðshellir

Rauðshellir.

Þegar komið var að Rauðshelli skein sólin á munnann og hleðslurnar þar fyrir. Einhverjir hafa í seinni tíð nefnt hellinn Pólverjahelli, en þegar hann er skoðaður gaumgæfilega fer hin gamla nafngift ekki á milli mála. Víða í hellinum hefur rauðleitt hraunið runnið upp á veggina og makað hann litskrúðugan. Hleðslurnar fyrir opum og gróið jarðfallið benda til þess að þarna hafi einhvern tímann verið selstaða. Þá staðfestir forn stekkur norðan við það þá kenningu. Misgengi liggur með norðanverðum Helgadal til austurs og vesturs. Undir því á einum stað sést móta fyrir hleðslum.

Helgadalur

Op Hundraðmetrahellisins.

Farið var inn í Hundarmetrahellinn og skoðaðir raunbekkirnir með veggum og einnig litið á hraunfossinn inn undir jarðfallinu við enda hans. Ofan við hraunfossin er rás upp úr hrauninu sunnan við og undir sauðfjárveikigirðinguna, sem þarna er.
Helgafell skartaði sínu fegursta í kvöldsólinni, sem og Valahnúkar og Kaldárbotnar.

Frábært veður.

Helgadalur

Hleðslur í Rauðshelli.

Helgadalur

Gengið var frá Kaldárseli, fyrir vatnsverndargirðinguna, yfir austari Kaldárhnúk og niður í Helgadal. Ætlunin var að leita að útilegumannahelli þeim er getið er um í Setbergsannál á 15. öld, en þar segir m.a. að “12 þjófar [voru] í einu teknir syðra í helli þar sem nefnt er Húsfell”.

Helgadalur

Í Helgadalshellum.

Með í huga hvar annállinn var skrifaður og hvenær var ákveðið að miða við Helgadal, en hann mun hafa verið vel þekktur á þeim tíma, enda talið að áður hafi verið í eða við dalinn. Gamla þjóðleiðin frá Hafnarfirði í Selvog lá um dalinn og má sjá tótt við götuna í dalnum sunnanverðum. Haldið var suður og austur fyrir hæðina, yfir í hraunið austan Mygludala á milli Húsfells og Búrfells. Beygt var til suðurs að Víghól og staðan metin. Norðan og austan við hólinn er eldra hraun, en að austan er Húsfellsbruni og að norðan er Búrfellshraun. Þar er Kringlóttagjá sunnan við fellið. Meginstofn þeirra hrauna sem Hafnarfjöður og Garðabær standa á runnu frá þessari eldstöð fyrir um 7300 árum. Á þessu svæði eru allnokkur jarðföll og op. Sunnan Víghóls sér vel í “Gálgakletta”.

Húsfell

Húsfell – Víghóll neðst til vinstri.

Ekki er vitað hvaðan nafnið Víghóll er komið, en ef menn vilja leika sér svolítið með nafngiftir á svæðinu gætu sumar þeirra hafa tengst veru útilegumanna og sakamanna í hraununum. Þeir hafa áreiðanlega gætt þess vel að ekki væri hægt að koma þeim að óvörum. Hafi það hins vegar gerst gætu þeir hafa flúið á Víghól og einhverjir þeirra verið vegnir þar. Hafi einhverjir yfirvaldsins menn einnig verið drepnir við þá atlögu gæti hefndarþorsti hafa blossað upp í sigurvegurunum og þeir ákveðið að hengja hina handteknu þegar í stað í hæsta gálga á svæðinu. En þetta eru nú einungis hugrenningar, ekki tilvitnun í fyrri lýsingar.

Rauðhellir

Í Rauðshelli.

Hvað sem þessum hugrenningum líður á eftir að fara eina ferð á svæðið til að sannreyna hvar útilegumannahellirinn er. Nú er einn staður líklegri en aðrir, þ.e. Rauðshellir norðaustan Helgadals. Þar við sést móta fyrir hleðslum, nokkurs konar aðhaldi, en auðvelt ætti þaðan að hafa verið fyrir þjófana að ná sér í fé á fæti, bæði í Búrfellsgjá og Selgjá og einnig í Kaldársel. Inni í helli, sem er um 60 metra langur, er hleðsla. Ætlunin er að aka næst að sauðfjárveikigirðingunni sunnan Helgadals og ganga þaðan frá Fosshelli um austurjaðar Mygludala, um hraunið þar austan við og nálgast síðan Helgadal úr austri. Ef ekkert nýtt finnst á þeirri leið má telja líklegt að framangreindur staður sé sá sem líklegast kemur til greina að hafa hýst útilegumennina forðum. Hins vegar verður sennilega aldrei hægt að ákvarða það með neinni vissu, fremur en svo margt annað.

Helgadalshellar

Í Rauðshelli.

Rauðshellir er ekki langt frá Selvogsgötunni, en auðvelt er að dyljast í honum. Einnig er hægt að komast út úr honum á fleiri en einum stað svo undankomuleiðir hafa verið fyrir hendi. Inni í eystri hluta hellisins er ráshluti er veitir gott skjól. Þar er nokkuð þurrt og erfitt að koma auga á þann eða þá, sem þar væru, séð frá opinu.
Veður var frábært – sól og stilla. Gangan tók um 2 og ½ klst.

Rauðshellir

Hleðslur í helli í Helgadal.

Húsfell
Í Þjóðviljanum sunndaginn 15. júlí 1973 fjallar Gísli Sigurðsson, umsjónarmaður Minjasafns Hafnarfjarðar, um Selvogsgötuna.
Leiðinni frá Helgadal upp fyrir Hellur lýsir hann svo: “Leiðin úr dalnum liggur í troðningum tveim megin við rúst, sem ég hygg að sé fjárhúsarúst. Hún stendur nú undir vernd fornminjavarðar, allt frá því að Brynjólfur fræðimaður Jónsson frá Minna-Núpi var hér á ferð 1897”.

Helgadalur

Tóftir í Helgadal.

[Innskot: Samkvæmt þessu virðist rústin í sunnanverðum Helgadal, við götuna upp úr dalnum, sú sem FERLIR leitaði að og skoðaði á sínum tíma og taldi gamla, vera einmitt þessi rúst].
Gísli heldur áfram: “En hraunriminn austur frá Helgadal geymir sína sögu. Í Setbergsannál segir svo frá við árið 1474: “Þjófnaðaröld mikil um Suðurland. Voru 12 þjófar í einu teknir syðra í helli þar sem nefnt er Húsfell. Voru þeir allir hengdir um sumarið”. [Í annarri heimild er sagt að þjófarnir hafi verið handteknir 1633]. Í hraunrima þessum er hellir og hygg ég, að þar sé hellir sá, sem um getur í annálum. Kannske getum við giskað á hvar þjófar þessir voru réttaðir þegar við komum lengra….. Þegar kemur suður fyrir [Strandartorfur] taka við Hellurnar….

Gálgaklettar

Gálgaklettar við Selvogsgötu.

Þegar við höfum farið um 10 mín. gang upp Hellurnar eru á hægri hönd klettar, sem heita Gálgaklettar. Mér er að detta í hug, að þegar Álftnesingar hafi verið búnir að fanga útileguþjófana í heimahögum sínum hafi þeir farið með þá að klettum þessum og hengt þá þar. Þegar komið er eftir hellunum upp þar sem aðalbrekkan byrjar, er þar jarðfall mikið. Þar í eru hellar nokkrir. 1927 eða 8 var einn þessara hella notaður af rjúpnaskyttum, sem stunduðu veiði upp um fjöllin og lágu þarna um nætur…”.

Gengið var suður Selvogsgötu frá línuveginum ofan við Helgafell. Farið var eftir ruddri götunni í gegnum mjótt hraunhaft og henni fylgt áfram upp fyrir Strandartorfur á hægri hönd.

Selvogsgata

Selvogsgata ofan Helgafells.

Þegar komið var að Hellunum var gengið upp þær þangað til komið var upp fyrir “aðalbrekkuna”. Þar eru að vísu klettar, en þeir hafa varla dugað til að hengja þar mann, nema hann hafi verið þess styttri í annan endann. Jarðfallið, sem nefnt er að framan var ekki skoðað að þessu sinni, en ætlunin er að fara fljótlega aftur þessa leið. Hins vegar var gengið til norðausturs frá stígnum að grágrýtisklettum, sem þar eru. Ekkert forvitnilegt sást þar.

Hins vegar, eftir um 500 metra göngu frá stígnum, í stefnu til austurs frá klettunum, blasti forvitnilegur staður við. Þar eru klettar, eftirlíking af Gálgaklettunum í Gálgahrauni og álíka háir. Góð aðkoma er að klettunum úr norðri og sjást þeir mjög vel frá Húsfelli. Klofið í klettunum er svo til alveg eins, þó ekki jafnvel gróið og í þeim nyrðra. Roðagylltur himininn skapaði fallega umgjörð um dökka klettana. Hafa ber í huga að þjófarnir þurfa ekki endilega hafa verið hengdir eftir handtökuna. Hins vegar gætu þessir klettar hafa fengið nafngiftina Gálgaklettar vegna þess hversu líkir þeir eru nöfnum sínum í Gálgahrauni, nánast eftirlíking.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Hraunið þarna, Húsfellsbruni er hrikalegt á köflum, en hvylftir eru inni í því á stangli. Þær virðast vera eldra hraun. Gengið var í átt að Húsfelli, en enginn hellir fannst að þessu sinni. Þarna eru þó víða op og gjár. Ef 12 menn hafa hafst við í helli þar sem nefnt er Húsfell má telja líklegt að hellirinn sé í eða nálægt fellinu. Í honum ættu að sjást ummerki og í honum eða við hann gætu verið hleðslur eftir fjárhald. Slík ummerki eru reyndar í og við Rauðshelli norðaustan við Helgadal. Ekki er vitað hvert nafnið er á fellinu sunnan hans.
Svæðið við Húsfell er mjög lítið gengið og hefur lítt verið skoðað. Ákveðið hefur verið að ganga næst um sunnanvert Húsfellið og síðan frá því að “Gálgaklettum”, upp á Hellurnar og skoða betur jarðfallið, sem Gísli skrifar um. Það gæti leynt á sér.
Veður var með miklum ágætum – sól og stilla. Gangan tók 3 klst og 14 mín.

Helgadalur

Tóftir í Helgadal.

Rauðshellir

Farið var í Rauðshelli norðan Helgadals. Á leiðinni þangað, rétt eftir að komið var niður af misgenginu norðan við hellinn, var gengið fram á greinilega mjög gamlan tvískiptan stekk. Mjög líklega hefur stekkurinn verið í tengslum við hellinn því sagnir eru um að Rauðshellir hafi verið notaður sem fjárhellir, enda vart til ákjósanlegri hellir til slíkra nota. Hvergi hefur verið minnst á þennan stekk svo vitað sé.

Rauðhellir

Í Rauðshelli.

Leitað var að ummerkjum, letri eða rúnum í og við Rauðshelli, en án árangurs. Á einum stað, ofan og norðan við miðopið, gat þó verið áletrun því svo virtist sem stafurinn C eða G hafi verið klappaður þar, á stærð við undirskál. Gengið var í gegnum hellinn, sem er um 80 – 100 metra langur í heild. Hægt er að ganga í gegnum nyrsta hlutann. Þá er komið í jarðfall þar sem fyrirhleðslur eru fyrir opum í báðar áttir, stærri og meiri þó að sunnanverðu. Þar er aðalskjólið og lengsti hluti hellisins innan við breiða hraunsúlu. Hann lokast í hinn endann. Á milli opa í forsal eru sléttar grasi vaxnar syllur, sem gæti mögulega hafa verið bæli. Þar hefur birtu notið hvað lengst. Sunnar er enn eitt opið og þar eru tvískiptar rásir lengra til suðurs.

Smyrlabúð

Smyrlabúð.

Þar sem enn naut birtu þennan daginn var ákveðið að skoða betur garðhleðsluna undir Smyrlabúðahrauni. Hún liggur þar í hálfboga og virðist vera hlaðin utan í hraunkant. Innan garðsins eru sléttur skjólgóður bali. Þegar staðurinn er skoðaður er ekki með öllu útilokað að þarna kunni að hafa verið Smyrlabúð. Garðurinn hefur sigið allnokkuð, en hann sést enn vel. Hann gæti hafa verið aðhald fyrir hesta og jafnvel fé á leið Selvogsmanna að og frá Hafnarfirði. Bollinn er skjólgóður og þar hefur auðveldlega verið hægt að slá upp búðum því ekki var alltaf gistingu að fá í bænum. Góð beit er þarna ofan og út með með hraunkantinum. Varða er á holti sunnar. Þarna gætu menn hafa gist nóttina áður en þeir héldu í kaupstað og jafnvel á bakaleiðinni ef svo bar undir. Giskað er á að staðurinn hafi gleymst í seinni tíð og nafnið þá færst yfir á fjallshólinn þar austur af, við suðurjaðar Smyrlabúðahrauns. Þarna eru allavega ummerki um mannvirki á ákjósanlegum áningastað um Selvogsgötu.

Garðaflatir

Tóft á Garðaflötum.

Um Smyrlabúð segir Gísli Sigurðsson, fyrrv. lögreglumaður, í leiðarlýsingu sinni um Selvogsgötu: “Þegar brunann þrýtur, til vinstri, er hæð eða ás með aflíðandi halla móti vestri, að austan eru brattar skriður en hamrabelti með smápöllum hið efra. Þetta er Smyrlabúð. Nokkuð hefur verið um þetta nafn deilt, eða réttara sagt nafn á þessari hæð, og hafa þar ýmsir haldið fram nafninu Smillibúð. Út úr því nafni hef ég aldrei getað fundið og hef eindregið haldið á lofti nafninu Smyrlabúð. Ekki skal ég fullyrða hvað liggur þessu nafni til grundvallar…..”.

Garðaflatir

Garðaflatir – minjar.

Þess skal og getið að í sögnum um Garða á Garðaflötum er talað um Smyrlabúð svo áningastaðurinn, ef rétt er, gæti verið mjög gamall. Ef haldið er áfram með umleitun Gísla gæti búðin hafa heitið Millibúð og hraunið dregið nafn sitt af henni – Millibúðahraun. Síðar, þegar staðurinn gleymdist, og nafnið færðist á hæðina hefur þótt betur viðeigandi að nefna hana Smyrlabúð. Dæmi er um að nöfn hafi breyst í gegnum tíðina, s.s. Nærvík varð að Njarðvík, Arnstapi varð Afstapi og þannig mætti lengi telja.
En þetta eru nú bara vangaveltur. Hins vegar er garðlagið þarna og slétt kvosin innan þesss. Þar gætu leynst fleiri minjar.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 2 mín.

Garðaflatir

Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.

Helgadalur

Gengið var frá Kaldárseli að hellunum austan Kaldársels, s.s. 90 metra helli, Vatnshelli, Gjáhelli, Rauðshelli, 100 m helli, Fosshelli o.fl. Á leiðinni var gamla vatssleiðsluhleðslan skoðuð. Frá hellunum var gengið yfir að Rjúpnadalahrauni og refagildran undir norðurhorni Húsfells skoðuð. Þá var leitað að gömlu fjárskjóli í Húsfelli, sem sagnir eru til um. Það fannst eftir nokkra leit. Framan við það eru gamlar hleðslur. Frá fjárskjólinu var gengið um gjárnar norðvestan Húsfells, um Mygludali og í Valaból.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Þegar komið var niður í Helgadal var ætlað bæjarstæði fornbýlis, sem þar á að vera, skoðað í dalnum. Ekki er ólíklegt er að þarna sé komið bæjarstæði það sem lengi hefur verið leitað að og heimildir kveða á um. Á landnámsmaður að hafa byggt sér bæ í Helgadal, en þrátt fyrir leitir hafa leifar hans ekki fundist. Hér gæti einnig verið um hina fornu Skúlastaði að ræða, en þeir eiga skv. sögunni að vera næstelsta bæjarstæði norrænna manna hér á landi. Við þetta ætlaða bæjarstæði liggur gömul þjóðleið. Fróðlegt væri að fá við tækifæri áhugasaman fræðing til að kíkja á aðstæður þarna.

Kaldá

Kaldá.

Framangreint eru nú einungis vangaveltur um hugsanlega möguleika því ekki er vitað til þess að svæðið eða þessi staður í Helgadal hafi verið skoðaður sérstaklega m.t.t. þessa.
Gengið var á Kaldárhnjúka og Kaldárbotnar skoðaðir áður en ferðin endaði við Kaldá.
Ferðin tók nákvæmlega 2 klst í ágætu veðri.

Helgadalur

Í Rauðshelli.

Níutíumetrahellir

Gengið var frá Kaldá að Níutíumetrahellinum. Nokkrir duglegir krakkar voru með í för. Þótt opið gefi ekki til kynna að þarna sé langur hellir er hann nú samt sem áður jafn langur og nafnið gefur til kynna.

Helgadalshellar

Í Fosshelli.

Fyrst er komið niður í nokkurs konar lágan forsal, sem þrengist síðan smám saman uns fara þarf niður á fjóra fætur. Sem betur fer var moldin á botninum frosin svoauðveldara var að feta sig áfram inn eftir hellinum. Eftir spölkorn vítkar hann á ný, en þó aldrei verulega. Svo virðist sem hellirinn beygi í áttina að Lambagjá, sem er þarna norðvestan við opið. Sennilega er þessi rás ein af nokkrum, sem runnið hafa í gjána á sínum tíma og myndað þá miklu hraunelfur, sem runnið hefur niður hana til norðvesturs og síðan til vesturs í átt að Kaldárseli.
Þá var haldið niður í Helgadal við horn vatnsverndargirðingarinnar. Þar í brekkunni er Vatnshellir, op niður í misgengi, hægra megin við stíginn. Annað op á helli, ofan í sama misgengið. Gæta þarf sín vel þegar farið er ofan í Vatnshelli. Opið er tiltölulega lítið, en þegar komið er niður virðist leiðin greið til vesturs. Svo er þó ekki því kristaltært vatnið er þarna alldjúp. Það sést hins vegar ekki fyrr en stigið er í það. Ef komast á áfram þarf bát. Það fer þó eftir vatnshæðinni, en vatnið í Kaldárbotnum stöðvast þarna við misgengið á leið sinni til sjávar. Það er ástæðan fyrir tilvist vatnsbóls Hafnfirðinga þarna skammt vestar, undir Kaldárhnúkum.

Helgadalshellar

Í Rauðshelli.

Áður en haldið var inn í Hundraðmetrahellinn, sem opnast innan úr sprungu, var gengið að Rauðshelli, sem er þar skammt norðvestar. Einhvern tímann hefur hluti hellisins verið notaður sem fjárskjól, a.m.k. gróið jarðfallið við annað op hans. Gömul sögn er til af Rauðshelli, en hellirinn fékk síðar nafnið Pólverjahellir eftir að skipshöfn leitaði þar skjóls. Sjá má bælið við stærra opið. Hellirinn sjálfur er rúmgóður og lítið sem ekkert hrun í honum. Hægt er að ganga svo til uppréttur inn eftir honum, en í heildina er hellirinn hátt í hundrað metra langur. Hann beygir til hægri þegar inn er komið og síðan til vinstri. Fremst í hellinum eru fallegar hraunsyllur. Skammt norðar er forn stekkur. Hann er ekki á fornminjaskrá.

Vatnshellir

Í Vatnshelli.

Þegar komið er niður í sprunguna þar sem Hundraðmetrahellirinn er sést op til norðvesturs. Sá hluti nær einungis nokkra metra. Fallegir steinbekkir eftir storknaðan flór er með veggjum rásinnar er liggur til suðausturs. Hún þrengist smám saman og lækkar uns skríða þarf áfram. Loks lokast hellirinn svo til alveg. Hrunið hefur úr loftinu. Áður fyrr var hægt að skríða áfram og koma upp á milli steina í jarðfalli nokkru austar, en nú þarf grannan mann til ef það á að vera hægt. Mjög erfitt er að finna leiðina í hellinn þeim megin.

Helgadalur

Op Hundraðmetrahellisins.

Þá var haldið inn í stóra rás við eystri op Hundraðmetrahellis, sem er í rauninni hluti af þeirri fyrri, og inn í Fosshellinn. Í geyminum áður en komið er að fossinum er komið að miklu hruni. Ekki er óhugsandi að rás kunni að leynast efst og norðvestast í hruninu ef nokkrir steinar væru færðir til. Fossinn kemur úr rás í u.þ.b. þriggja metra hæð. Hefur hann storknað þar í þessari fallegu hraunmyndun. Farið var upp í rásina. Fallegur flór sést þar í henni. Gengið var upp eftir honum og áfram út úr rásinni skammt austan fjárgirðingar, sem þar er. Annað op er skammt vestar, en ekki var farið inn í það að þessu sinni. Fosshellirinn gæti verið um 40 metra langur.

Músarhellir

Í Músarhelli.

Frá Fosshelli var gengið upp í Valaból og komið við í Músarhelli. Hann er í rauninni rúmgóður skúti, sem hlaðið hefur verið framan við og gert rammað hurðargat á. Bekkur er þar inni og gestabók. Farfuglar gerðu afdrep þetta á sínum tíma, en síðan hafa skátar og fleiri nýtt sér það af og til. Í Valabóli er fallegur og skjólsæll trjálundur með sléttum grasblettum. Valahnúkar gnæfa yfir með fallegum bergmyndunum.
Veður var ágætt – lygnt, en fremur skuggsýnt. Það kom þó ekki að sök því góð leiðarljós lýstu veginn.
Gangan tók um 2 klst. Frábært veður.

Valaból

Valaból.

Helgadalur

Gengið var að Helgadal, framhjá opi Níutíumetrahellis, niður skástigu gömlu Selvogsgötunnar, framhjá opi Vatnshellis og áfram upp að sögðum gömlum tóttum í austurhlíð Helgadals. Sjá má hvar gamla Selvogsgatan hefur beygt að vatninu í Dalnum og síðan haldið áfram á ská upp eftir hlíðinni, sunnan við tóttirnar. Svo virðist sem þarna gætu hafa verið nokkur hús. Sjá má móta fyrir stíg niður að vatninu, hugsanlega garði sunnan við tóttirnar og tótt niður við vatnið.

Helgadalur

Tóftir í Helgadal.

Gamall skáti sagði að Skátafélag Hafnarfjarðar (Hraunbúar) hafi á sínum tíma ætlað að byggja skála í Helgadal þar sem skemmtileg skátamót voru haldin um tíma. Rótað hefði verið og grafið fyrir uppistöðum, en síðan hafi verið horfið frá skálabyggingunni. Hvar það var nákvæmlega í dalnum er ekki alveg ljóst á þessari stundu.
Tóttarsvæðið í Helgadal sést vel, en erfitt er að greina einstaka tættur. Vatnsverndargirðingin liggur fast við þær. Í frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá árinu 1907 (áhíf 1908) kemur fram að þær hafi ekki verið vel greinanlegar þá, fyrir tæpri öld síðan, en hann lýsir þeim á þessum stað, sbr. meðfylgjandi mynd. Í þeirri frásögn lýsir hann og heimtröð og garðlagi við Skúlatún sunnan við Helgafell.
Fróðlegt væri að láta einhvern tíma grafa í tóttirnar til að fá úr því skorið hvað þarna hafi verið og hversu gamalt það er.
Gangan tók u.þ.b. 45 mínútur í ágætu veðri.

Helgadalur

Helgadalur – uppdráttur ÓSÁ.

Helgadalur

Í Norðanfara 1880 er fjallað um stofnun “Hið íslenska fornleifafjelags”:

Norðanfari“Næstliðið sumar stofnuðu nokkrir hinna helztu embættismanna í Reykjavík nýtt fjelag er nefnist «Hið íslenzka fornleifafjelag», og barst oss með síðasta pósti næstl. ár boðsbrjef og lög nefnds fjelags frá formanni þess herra landfógeta Árna Thorsteinsson til birtingar í blaði voru. Vjer þurfum ekki að vera margorðir um fjelag þetta, því vjer vonum og teljum víst, að landar vorir muni jafnt sjá nauðsyn sem nytsemi pess, og ætlum vjer að þeir sem unna frægðarljóma fornaldarinnar og framfór og menntun binnar yfirstandandi og komanda tíðar, muni bezt geta sýnt áhuga sinn með því að ganga í fjelagið senda því forngripi og styrkja pað á annan hátt. Eitst. Boðsbrjef.
Áhugi Íslendinga á að viðhalda fornleifum og safna þeim hefir hingað til eigi verið jafnmikill og kapp það, sem um margar aldir hefir verið lagt á, að varðveita sögur vorar, mál og þjóðerni, og er þó ljóst, að engin skýring yfir fornsögur vorar er betri, en þau þögulu vitni, er felast fá fet undir yfirborði jarðarinnar.

Sel

Heimildir eru um Sel frá 14. öld og var það lengst af kirkjujörð auk þess sem útræði var mikið úr Selsvör, enda upphaflega um sel frá Víkurbænum að ræða. Bærinn var síðar oft nefndur Stóra-Sel. Steinbær var reistur þar árið 1884 sem stendur enn.
Uppdráttur Hoffgards frá árinu 1715 sýnir m.a. Sel enda eitt af höfuðbýlum á þessu svæði og prestsetur. Nýlegar fornleifarannsóknir sýna að undir steinbænum eru leifar af torfbæ. Selsbærinn stóð þar sem í dag er Holtsgata 41b.

Margar af fornleifum vorum hafa lógazt og farið forgörðum. Fjöldi þeirra hefir komizt í hendur útlendra manna, sem eigi hafa skeytt þeim nema til stundargamans, og eigi skilið þýðing þeirra fyrir oss. Það eru að eins sumar þeirra, er hafa lent á útlendum söfnum, en þó hvergi svo margar, að þær geti getið nokkra ljósa eða samfasta hugmyndum menntunarástand lands vors á ýmsum tímum.
Síðan hið íslenzka forngripasafn var stofnað, hefir það að vísu borgið mörgum íslenzkum fornleifum, sem annars hefði glatazt eða tvístrazt, en mikið vantar þó á, að það, einkum sökum fjeskorts geti verndað svo íslenzkar fornleifar sem skyldi, og er því ljóst að brýn þörf er á, að landsmenm leggi sig enn betur fram, en hingað til hefir verið um það að vernda fornleifar vorar, þess vegna hafa nálega 40 menn gengið í fjelag, “sem nefnist hið íslenzka fornleifafjelag, og er það fyrirætlan fjelagsins að starfa að því af öllu megni, að Forngripasafn vort geti auðgast þannig af fornmenjum, að menn með því geti rakið lífsferil þjóðarinnar um hinar liðnu aldir. Einkum mun fjelagið verja kröptum sínum til að leita að fornleifum bæði í jörð og á, vernda þær, lýsa þeim og gjöra þær bæði þjóð vorri og erlendum fræðimönnum sem kunnastar.
Áður hefir það opt borið við að menn hafa grafið eptir feim menjum í gróðahug, en það kemur sjaldan fyrir, að slíkur gröptur svari kostnaði, heldur glatast þá jafnan sá fróðleikur, sem ætla má að fengizt hefði, ef rjett hefði verið farið að. Fjelagið mun því eptir efnum styrkja að því, að við slíkar rannsóknir sje farið eptir vísindalegum reglum, og grafið sje með nægilegu eptirliti, til þess að þjóð vor geti haft nokkra trygging fyrir, að svo rjett sje að farið, sem bezt má verða. Sje því að einhver viti til fornra mannvirkja sem þurfa friðunar, uppgraptar eða vísindalegrar rannsóknar, vonast fjelagið eptir að menn leiti sín, og mun það þá veita fullting sitt. Það er áform fjelagsins að láta rannsaka þingvöll, fyrst og fremst Lögberg, og mun rannsóknum þessum þar eptir verða framhaldið víðar.
Fjelagið leyfir, sjer því, að skora á alla á menn, innlenda og útlenda, er unna hinum fornu fræðum vorum, að ganga í fjelagið, annaðhvort með tveggja króna tillagi á ári hverju, eða 25 króna tillagi í eitt skipti. Svo eru menn og beðnir, að styrkja fjelagið í öllum starfa þess, þar á meðal með því að vísa á fornleifar og menjar frá fyrri öldum, senda þær til ráðstöfunar á forngripasafnið, láta skýrslur í tje um fornleifar, sem enn kunna að vera lítt þekktar, eða um gripi, sem æskilegt er að fá vitneskju um.”
Stjórn fornleifafjelagsins, 27. nóvbr. 1879.
Árni Thorsteinsson, Bergur Thorberg.
formaður. Björn Magnúss. Ólsen.
Jón Árnason. Jón þorkelsson.
Magnús Stephensen, Sigurður Vigfússon,
fjehirðir, varaformaður.
Hins íslenzka fornleifafjelags. – Indriði Einarsson.

Heimild:
-Norðanfari, 11.-12. tbl. 24.02.1880 – Hið íslenska fornleifafjelag, bls, 21.

Helgadalur

Helgadalur – minjar.

Torfdalur

Stefnan var tekin á Torfdal ofan við bæinn Helgadal í Mosfellssveit (Mosfellsdal). Dalurinn er fremur stuttur. Um hann rennur Torfdalslækur, vatnslítill nema í leysingum. Neðarlega myndar hann fossagil, Stórutorfugil. Ætlunin var að staðsetja Selhól, sem getið er í örnefnalýsingu svog mögulegar selminjar af draganda nafngiftar hólsins.

Torfdalur

Torfdalur – kort.

Að sögn bóndans í Helgadag, Ásgeirs Péturssonar, eftir að hafa ráðfært sig við húsfreyjuna, er hafði sótt örnefnalýsingu jarðarinnar sér til halds og trausts, mun Selhóll skaga út úr norðvesturhorni Grímarsfells, “augljós er upp væri komið”. Að sögn lægju “gamlar götur upp frá bænum áleiðis að Selhól, sem þó virtist ekki greinanlegt í dag”.
Í Jarðabókinni 1703 segir um selstöðu frá Helgadal (bls. 317); “Landþröng er mikil, og hafði jörðin áður í lánga selstöðu í Stardal frí, en nú verða ábúendur hana út að kaupa”. Þá segir: “Vatnsskortur er margoft um vetur að stórmeini.”

Torfdalur

Torfdalur – Varða á Selhól.

Skv. Jarðabókinni á Helgadalur að hafi selstöðu í Stardal ásamt allmörgum öðrum. Selfarir voru hins vegar einungis að sumarlægi. Ef aðstæður eru skoðaðar má telja að vatnsskortur hafi aldrei háð Helgadalsábúendum því þrjár ár renna við bæjarstæðið. Lýsingin virðist því eitthvað hafa skolast til hvað þetta varðar.
Þá má telja af líkindum að Helgadalssel hafi mögulega verið þar sem nefnt hefur verið Varmársel. Í Jarðabókinni er nefnilega ekki getið um selstöðu frá Varmá í landi Stardals og reyndar er alls ekki getið þar um selstöðu frá jörðinni, enda ólíklegra út frá landfræðilegum aðstæðum.

Torfdalur

Torfdalur – gata.

Í örnefnalýsingu Helgadals um göngusvæðið segir m.a.: “Jörð í Mosfellsveit, næst austan Æsustaða. Upplýsingar gáfu Hjalti og Ólafur Þórðarsynir, Æsustöðum, einnig frá föður þeirra.
“Suður með Grímarsfelli upp af hæðinni, er graslendur dalur er heitir Torfdalur, lokast hann að sunnan af Torfdalshrygg, en vestan Torfdals tekur við Suður-Reykjaland. Í króknum, er Torfdalshryggur og Grímarsfell mætast, eru brattar grasbrekkur er heita Stóratorfa. Norðan hennar er hóll er heitir Selhóll, og þar er einnig allmikið klettagil, Stórutorfugil. Upp af Selhól eru klettar sem heita Standur.”
Í athugasemdum um lýsinguna segir m.a.: “Guðjón Sigurður Jónsson, Borgarholtsbraut 25, Kópavogi, skráði athugasemdir við örnefnaskrá Helgadals í september 1983. Þær eru ýmist ritaðar inn á ljósrit af skránni eða færðar sem svör á spurningalista.
“Stóridalur er í Þormóðsdalslandi. Grímarsfell, ekki Grímansfell.

Torfdalur

Torfdalur ofanverður.

Torf var rist í Torfdal. Reiðingur var tekinn í Torfdalnum og notaður yfir hey sem stóðu í heygörðum. Ekki er vitað um sel við Selhól og ekki hvenær síðast var haft í seli í Helgadal.”
Gata var rakin frá Helgadal upp eftir Torfdal, skammt neðan Hádegisvörðu og allt upp þangað er gil skiptu að Grímarsfelli. Sjóskaflar þökktu svæðið svo erfitt var um staðfestingu minjatilvistar þar.
Þegar horft var yfir Stórutorfu mátti telja líklegast að selminjar myndu vera undir lágum melhól norðan torfunnar. Á honum er vörðubrot. Önnur mannanna verk var ekki að sjá í Torfdal (utan framreisluskurðar undir Torfdalshrygg).
Ástæða er til að skoða Torfdalinn nánar þegar vorar.

Torfdalur

Torfdalur – gata.

Sumarið eftir var aftur gengið um Torfdalinn ofan Helgafells. Rifjuð var upp örnefnalýsing þeirra Hjalta og Ólafs: “Sunnan Helgadalsbæjar er hæð, sem nær vestur að Æsustaðafjalli. Á henni, beint suður af Helgadalsbæ er Hádegisvarða. Suður með Grímarsfelli upp af hæðinni, er graslendur dalur er heitir Torfdalur, lokast hann að sunnan af Torfdalshrygg, en vestan Torfdals tekur við Suður-Reykjaland. Í króknum, er Torfdalshryggur og Grímarsfell mætast, eru brattar grasbrekkur er heita Stóratorfa. Norðan hennar er hóll er heitir Selhóll, og þar er einnig allmikið klettagil, Stórutorfugil. (Um það rennur Norðurreykjaá.) Upp af Selhól eru klettar sem heita Standur. Austan við Stórutorfu og Stand, sunnar í fellinu, ofarlega, er dæld, sem heitir Stóridalur. Þar neðar og vestur af er urð mikil sem heitir Skollurð, er hún í Þormóðsdalslandi, og enn austar skerst djúpt gil sunnar í fellið er heitir Vondagil (mun nefnt Illagil á korti). Á háfellinu, upp af Torfdal, er kollóttur móbergshóll er heitir Kollhóll; er hann á há-Suðurfellinu vestanverðu. Enn vestar er Nóngilslækur, á merkjum Helgadals og Æsustaða. Má telja, að Suðurá byrji þegar Torfdalslækur og Nóngilslækur koma saman.
Í suðausturkrika dalsins, í Helgadalstúni og upp af því, er Bæjargil, enn vestar Torfdalsgil og Nóngil, sem er á mörkum Helgadals og Suður-Reykja. Nóngil er forn eyktamörk frá Helgadal. Í Torfdalsgili er Torfdalsfoss og í Nóngili Nóngilsfoss.”

Í athugasemdum Guðjóns Sigurðar við Örnefnalýsinguna segir m.a.: “Niður af Hádegisvörðu (á Hádegishæð) er djúpur hvammur sem nefnist Bolabás . Torf var rist í Torfdal. Reiðingur var tekinn í Torfdalnum og notaður yfir hey sem stóðu í heygörðum. Ekki er vitað um sel við Selhól og ekki hvenær síðast var haft í seli í Helgadal.”

Torfdalur

Torfdalsfoss.

Í króknum þar sem Torfdalshryggur og Grímarsfell mætast eru brattar grasbrekkur sem nefnast Stóratorfa, en „…norðan hennar er hóll er heitir Selhóll, og þar er einnig allmikið klettagil, Stórutorfugil. Upp af Selhól eru klettar sem heita Standur“ (Ólafur Þórðarson). Ekki er vitað hvort sel var við Selhól og ekki heldur hvenær síðast var haft í seli í Helgadal. Hvorki Sigurði Helgasyni, fyrrverandi bónda í Helgadal, né öðrum er kunnugt um rústir við Selhól eða sel í Torfdal.

Líklegt má telja, ekki síst vegna þess hversu stutt er frá bæ að Selhól, að þar hafi um tíma verið heimasel. Í heimaseljum voru venjulega einungis eitt mannvirki; stekkur eða afdrep, allt eftir tilgangi selstöðunnar. Þegar framangreindri götu frá bæ var fylgt upp með Stórutorfugili austan Norðurreykjaár, upp með Hádegisvörðu og upp á Stórutorfu suðaustan Selhóls (á Selhól er varða, sem vandað hefur verið til) má sjá á einu barðinu móta fyrir mannvistarleifum. Líkast til er þar um að ræða fornan stekk eða annað mannvirki, að mestu gerður úr torfi, en þó má einnig sjá þar grjót. Minjarnar er skammt austan við ána ofan við flæður, sem í henni eru. Selstöður voru nytjastaðir, hvort sem var fyrir fé, nautgripi, fuglatekju, kolagerð, hrístöku, torfristu, mótekju eða annað þ.h. Af nafni dalsins má e.t.v. draga þá ályktun að Torfdalur dragi, líkt og svo margir nafnar hans á landinu, nafn af torfskurði, hugsanlega mótaki því að torf merkir að fornu bæði grastorf og mór (“elditorf”). Þess vegna má ætla að ekki hafi verið lagt í mikil mannvirki í dalnum því stutt er heim til bæjar.
Frábært veður.

Heimildir:
-Ólafur Þórðarson frá Æsustöðum. Örnefnalýsing Helgadals, skráð 1968 sem endurbót á lýsingu Ara Gíslasonar og aftur endurbætt 22. sept. 1983.
-Athugasemdir við lýsinguna: Guðjón Sigurður Jónsson, Borgarholtsbraut 25, Kópavogi, skráði athugasemdir við örnefnaskrá Helgadals í september 1983.
-Ásgeir Pétursson, bóndi í Helgadal.
-Jarðabók ÁM 1703.

Torfdalur

Helgadalur framundan – Hádegisvarða.