Farið var í Rauðshelli norðan Helgadals. Á leiðinni þangað, rétt eftir að komið var niður af misgenginu norðan við hellinn, var gengið fram á greinilega mjög gamlan tvískiptan stekk. Mjög líklega hefur stekkurinn verið í tengslum við hellinn því sagnir eru um að Rauðshellir hafi verið notaður sem fjárhellir, enda vart til ákjósanlegri hellir til slíkra nota. Hvergi hefur verið minnst á þennan stekk svo vitað sé.
Leitað var að ummerkjum, letri eða rúnum í og við Rauðshelli, en án árangurs. Á einum stað, ofan og norðan við miðopið, gat þó verið áletrun því svo virtist sem stafurinn C eða G hafi verið klappaður þar, á stærð við undirskál. Gengið var í gegnum hellinn, sem er um 80 – 100 metra langur í heild. Hægt er að ganga í gegnum nyrsta hlutann. Þá er komið í jarðfall þar sem fyrirhleðslur eru fyrir opum í báðar áttir, stærri og meiri þó að sunnanverðu. Þar er aðalskjólið og lengsti hluti hellisins innan við breiða hraunsúlu. Hann lokast í hinn endann. Á milli opa í forsal eru sléttar grasi vaxnar syllur, sem gæti mögulega hafa verið bæli. Þar hefur birtu notið hvað lengst. Sunnar er enn eitt opið og þar eru tvískiptar rásir lengra til suðurs.
Þar sem enn naut birtu þennan daginn var ákveðið að skoða betur garðhleðsluna undir Smyrlabúðahrauni. Hún liggur þar í hálfboga og virðist vera hlaðin utan í hraunkant. Innan garðsins eru sléttur skjólgóður bali. Þegar staðurinn er skoðaður er ekki með öllu útilokað að þarna kunni að hafa verið Smyrlabúð. Garðurinn hefur sigið allnokkuð, en hann sést enn vel. Hann gæti hafa verið aðhald fyrir hesta og jafnvel fé á leið Selvogsmanna að og frá Hafnarfirði. Bollinn er skjólgóður og þar hefur auðveldlega verið hægt að slá upp búðum því ekki var alltaf gistingu að fá í bænum. Góð beit er þarna ofan og út með með hraunkantinum. Varða er á holti sunnar. Þarna gætu menn hafa gist nóttina áður en þeir héldu í kaupstað og jafnvel á bakaleiðinni ef svo bar undir. Giskað er á að staðurinn hafi gleymst í seinni tíð og nafnið þá færst yfir á fjallshólinn þar austur af, við suðurjaðar Smyrlabúðahrauns. Þarna eru allavega ummerki um mannvirki á ákjósanlegum áningastað um Selvogsgötu.
Um Smyrlabúð segir Gísli Sigurðsson, fyrrv. lögreglumaður, í leiðarlýsingu sinni um Selvogsgötu: “Þegar brunann þrýtur, til vinstri, er hæð eða ás með aflíðandi halla móti vestri, að austan eru brattar skriður en hamrabelti með smápöllum hið efra. Þetta er Smyrlabúð. Nokkuð hefur verið um þetta nafn deilt, eða réttara sagt nafn á þessari hæð, og hafa þar ýmsir haldið fram nafninu Smillibúð. Út úr því nafni hef ég aldrei getað fundið og hef eindregið haldið á lofti nafninu Smyrlabúð. Ekki skal ég fullyrða hvað liggur þessu nafni til grundvallar…..”.
Þess skal og getið að í sögnum um Garða á Garðaflötum er talað um Smyrlabúð svo áningastaðurinn, ef rétt er, gæti verið mjög gamall. Ef haldið er áfram með umleitun Gísla gæti búðin hafa heitið Millibúð og hraunið dregið nafn sitt af henni – Millibúðahraun. Síðar, þegar staðurinn gleymdist, og nafnið færðist á hæðina hefur þótt betur viðeigandi að nefna hana Smyrlabúð. Dæmi er um að nöfn hafi breyst í gegnum tíðina, s.s. Nærvík varð að Njarðvík, Arnstapi varð Afstapi og þannig mætti lengi telja.
En þetta eru nú bara vangaveltur. Hins vegar er garðlagið þarna og slétt kvosin innan þesss. Þar gætu leynst fleiri minjar.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 2 mín.