Í Melkorku árið 1954 birtist grein eftir Guðrúnu Sveinsdóttur undir fyrirsögninni “Gönguför um Gálgahraun“.
“Á Álftanesi við Arnarnesvog er Gálgahraun. Fram við sjóinn, beint á móti BessastöÖum gnæfa Gálgaklettar. Við klettaræturnar þekur grasið gömul tóftarbrot. Í klettaskorum vex ljónslöpp, tófugras, burkni, þursaskegg o. fl. Efst uppi situr svartbakur, einn síns liðs, en annars er hér urmull fugla í sandbleytunni og smátjörnunum, sem útfirið hefur skilið eftir. Á milli grasigróinna sandlbala, vaða stelkar og sendlingar, en í þangbendunni, sem öldurnar hafa skolað langt upp á land, gösla rifnar og óhreinar rolluskjátur með lömbin sín. Smáfuglár þjóta á milli klettanna, sem endur fyrir löng báru uppi líkami ógæfusamra vesalinga, sem mannanna réttlæti dæmdi til lífláts á þessum stað. Við erum þrjár á ferð, frú Unnur Skúladóttir, Signý, bróðurdóttir hennar, 11 ára gömul, og sú er þetta ritar.
Við nemum staðar og fáum okkur sæti í brekkunni, að vestanverðu við stóra klettinn. Landslagið er sérkennilegt og víður sjóndeildarhringurinn. Hér er friðsælt, við njótum veðurblíðunnar og finnum hve staðurinn er laus við ömurleg áhrif þess, sem hér hefur áður gerzt. Hinzta hvíla hinna ógæfusömu, sem fengu ekki að bera beinin í kristinna manna reit, hefur áreiðanlega hlotið sína vígslu, sem hrakið hefur á brolt allt óhreint og helgað staðinn.
Gömul frásögn hermir, að einu sinni sat lítil stúlka undir Gálgaklettum. Var hún þá, sem í leiðslu, hrifin upp í ljóshvolf vítt og undrafagurt. Að eyrum hennar bárust tónar, fegurri en mannlegt eyra má heyra og var sem bylgjur hinna fögru tóna bæru með sér blikandi litskrúð. Loftið var þrungið angan blóma og hreinleika ópilltrar náttúru. Svo sterk voru áhrifin af þessari óviðjafnanlegu fegurð, að hún minntist þess ekki, kvort hún hafði séð fólk á þessum stað, en samt fannst henni sem þarna hefði farið fram einhver helgiathöfn. Þegar hún kom aftur til sjálfrar sín, þar sem hún sat í brekkunni, flutti hún með sér þessa vísu:
„Æðra ljós, sem lyftir sál
lífið að mér rétti.
Mig vermir eilíft andans bál
undir Gálgakletti.“
Þarna sátum við og virtum fyrir okkur umhverfið fjær og nær. Regnskúrirnar í Esjunni færðust lengra í vesturátt, en Snæfellsnesið og jökullinn voru enn umvafin skærri birtu og bláma, og andspænis okkur litum við höfuðbólið Bessastaði.
„Sjáðu nú Signý min, þarna á Bessastöðum fæddist hann pabbi þinn,” sagði Unnur, „og þar var hún Unnur frænka þín heimasæta,” bætti ég við. „Finnst þér ekki einkennilegt að horfa héðan heim að þeim stað, sem geymir svo margar minningar æskuáranna, þar sem þú þekkir hvern krók og kima inni og hverja þúfu úti fyrir?” spurði ég Unni.
„Jú víst er það einkennilegt, ég átti þar heima í 9 ár. Ég man það eins og það hefði skeð í gær, þegar ég kom fyrst að Bessastöðum.”
Náttúran og sólskinið var hið sama og á sólskinsdögum æskuáranna, þegar Unnur var heimasæta á Bessastöðum. Það hlaut að vera hið ákjósanlegasta tækifæri til að fá að skoða í myndabók minninganna hjá henni. Það bar margt á góma þennan dag, atburðir alda og ára, og eilífðarinnar, sem geymir allt í fórum sínum. Svo fáum við kannske einbverntíma seinna að skoða og skilja allt, sem okkur langar til. Þegar ég kom heim, fannst mér samt, að það mundi ekki skaða að rissa á blað til minnis frásögn Unnar þennan dag, og nú vill Melkorka skrá þessar minningar. Frú Unnur er elzt af börnum Skúla Thoroddsen alþingsmanns og konu hans frú Theodóru, sem er nýlega látin í hárri elli. Þau voru bæð þjóðkunn og ætt þeirra og uppruna er óþarft að rekja hér. Þau eignuðust 13 börn og var heimili þeirra jafnan umfangsmikið. Það kom sér því vel, að þar voru tvær atkvæðakonur að verki, húsfreyjan sjálf og Guðbjörg Jafetsdóttir. Guðbjörg var dóttir Jafets Einarssonar gullsmiðs í Reykjavík. Jafet var bróðir Ingibjargar konu Jóns Sigurðssonar forseta.
Guðbjörg ólzt að meslu leyti upp í Reykjavík, en var um tíma í Njarðvíkum hjá Ingveldi systur sinni, konu Ásbjarnar Ólafssonar. Guðbjörg var mjög glæsileg kona og vel gefin til munns og handa.
Á milli tvítugs og þrítugs kemur hún á heimili séra Guðmundar á Breiðabólsstað og Katrínar konu hans. Theodóru dóttur þeirra, sem er 9 árum yngri en Guðbjörg, þykir mikill fengur að því að fá á heimilið Reykjavíkurstúlkuna, sem les og talar reiprennandi dönsku, og ber með sér nýjan og hressandi andblæ frá umheiminum. Árið 1884 giftist Theodóra, 21 árs að aldri, og fer þá Guðbjörg á undan til Ísafjarðar, til þess að setja heimilið á laggirnar. Ætlað er, að hún verð ungu hjónunum til aðstoðar fyrst í stað, en þegar von er á fyrsta barninu, finnst öllum nauðsynlegt að hún hafi hönd í bagga með fæðingu þess og fyrstu skrefum. Þegar þar að kemur er Guðbjörg orðin nátengd heimilinu, og með hverju barni verða böndin sterkari. Guðbjörg lézt á heimili Katrínar Thoroddsen læknis árið 1944, 90 ára að aldri.
Vorið 1899 fór Guðbjörg fóstra okkar suður á Álftanes með bræður mína tvo, Þorvald og Skúla, sem þá voru 7 og 9 ára. Fenginn var ráðsmaður, áður bóndi, frá Ísafjarðardjúpi, Gunnar Sigurðsson að nafni, og tvær vinnukonur. Svo var hafinn búskapur á Bessastöðum. Þar var fyrir blindur maður, sem Ólafur hét, virðist hann hafa fylgt staðnum. Ólafur var skýr og greindur maður og afburða vel að sér í fornum fræðum. Síðan var fenginn fjósamaður, Guðmundur að nafni, ættaður sunnan með sjó, og svo drengur til snúninga. Auk þess fólk af bæjunum í kring, til aðstoðar þegar þörf gerðist.
Um haustið bættumst við Guðmundur bróðir minn í hópinn. „Thyra” gamla lá fyrir landi og bátur flutti okkur upp að Fischersbryggju. Þar var saman komið múgur og margmenni og mest áberandi í þeim hóp voru skólapiltarnir með fínu húfurnar sínar. Guðbjörg var þar komin til þess að taka á móti okkur og hún fór með okkur, fyrst til fröken Kristínar Thorlacius, sem lengi var hjá Jóni Árnasyni þjóðsagnaritara, en Katrín kona hans var ömmusystir okkar.
Seinna kom Katrín Magnússon, kona Guðmundar prófessors, til sögunnar, en hún var dóttir Skúla Sívertsen í Hrappsey, sem var ömmubróðir okkar. Katrín fór út með okkur til þess að skoða bæinn. Benti hún okkur á allt hið markverðasta og okkur þótti, sem von var, mikið til koma. Einhvern næstu daga var svo gengið suður Mela, suður í Skerjafjörð og þaðan róið úr Þormóðsstaðavör beint í Skansinn inn tjörnina. Nú vorum við komin heim að Bessastöðum. Ég sá, að þar var ákaflega fallegt, en ég saknaði fjallanna. Heima á Ísafirði voru þau svo nálægt okkur, en hérna voru þau óralangt í burtu.
Ég reyndi að hugga mig við Esjuna og Jökulinn. Eitt sinn í svartasta skammdeginu, um jólaleytið, kom ég út og sá sólina. Ég hafði aldrei áður séð sólina um þetta leyti árs, ég stóð hugfangin, eins og kraftaverk hefði gerzt fyrir augum mínum, mér lá við gráti. Þá fann ég það fyrst, að ég gat sætt mig við að sakna fjallanna minna.
Að Grími Thomsen látnum hafði lítið verið hirt um húsið. Það var að mestu í sama horfi þegar við komum þangað. Mér fannst mikið til um, hversu veglegt anddyrið var, stofurnar stórar, hátt til lofts, þykkir veggir og djúpar gluggakisturnar. Uppi á loftinu var þó enn merkilegra. Þar voru 4 herbergi, 2 sitt í hvorum enda, en geimur þar á milli. Þetta var áður svefnloft skólapilta og enn mátti sjá hvar verið höfðu lokrekkjur þeirra.
Guðbjörg svaf með okkur börnin í svokölluðu Amtmannssonalofti, í austurenda hússins, en úr gluggunum blöstu við Gálgaklettar, þess vegna urðu þeir mér fljótt að umhugsunarefni. Á kvöldin þegar ég fór upp að hátta, hugsaði ég oft um hverjir hefðu sofið þarna í lokrekkjunum á loftinu og ég lék mér að því að skipa þeim hverjum á sinn stað. Það voru afar mínir, bæði Jón Thoroddsen og séra Guðmundur á Kvennabrekku, og svo Jónas Hallgrímsson og fleiri Fjölnismenn og fjöldinn allur af öðrum þjóðkunnum mönnum. Þrátt fyrir alla þessa heiðursmenn, fann ég oft til myrkfælni á loftinu, en sú tilfinning fékk byr í báða vængi, því að margir töldu sig sjá og heyra sitt af hverju, sem ekki þoldi dagsins ljós né hæfði heilbrigðu lífi. Einna helzt var það Ólafur gamli, sem varð var við ýmislegt “óhreint” á sveimi kringum staðinn og alltaf áskildi hann sér að ganga síðastur frá bakdyrunum á kvöldin. Þar hrækti hann, fussaði og sveiaði, svo að ekkert óhreint kæmist inn.
Um haustið var ráðinn til okkar heimiliskennari. Björn Jensson yfirkennari hafði verið beðinn að útvega gáfaðan og duglegan pilt til þeirra starfa. Fyrir valinu varð Björn Líndal, sem síðar varð lögfræðingur og alþingismaður.
Hann kenndi okkur tvo næstu vetur, en las auk þess sjálfur undir 5. og 6. bekk. Smiðir úr Reykjavík voru fengnir til þess að vinna að nauðsynlegum umbótum og breytingum. Sveinn Jónsson, stofnandi Völundar, sá um smíðina. Þá var byggður kvistur, þvert í gegnum húsið að sunnan og norðanverðu, kirkjan var dubbuð upp að utan og innan, en allt var það gert í samræmi við það sem áður hafði verið. Á þessum árum, 1899—1901, var hafin smíði á húsi, sem ætlað var undir prentsmiðju Þjóðviljans, sem þá hafði verið gefinn út á Ísafirði. Það hús stóð niður við Bessastaðatjörn, á sjávarbakkanum. Seinna var það flutt til Reykjavíkur og stendur nú innarlega við Laugaveginn nr. 32.
Sumarið 1900 kom móðir mín snöggva ferð með systur mínar, Katrínu og Kristínu. Þær urðu eftir hjá okkur, svo þá vorum við orðin 6 systkinin á Bessastöðum. Foreldrar mínir voru enn einn vetur á ísafirði, en fluttu svo alfarin þaðan til okkar með yngstu systkinin, sem þá voru Jón, Ragnhildur og Bolli, sem þá var 7 vikna. Það var vorið 1901.
Að vestan komu tveir prentarar. Var annar þeirra Jón Baldvinsson, sem síðar varð kunnur stjórnmálamaður, en hinn var Einar Sigurðsson frá Seli. Auk þeirra var einn lærlingur. Uppi á prentsmiðjuloftinu, sem oft var kallað Glymjandi, varð nokkurskonar latínuskóli. Þar lásu, auk bræðra minna, Jakob Smári og Sigurður Sigurðsson, síðar sýslumaður Skagfirðinga. Heimiliskennari var öll þau ár sem við vorum á Bessastöðum, og var það alltaf einhver duglegur latínuskólapiltur.
Þegar í upphafi var gestkvæmt og glaðværð mikil á Bessastaðaheimilinu, en eins og nærri má geta dró ekki úr því við komu foreldra minna. Hvorugt voru þau hneigð fyrir búsýslu, en þá hlið önnuðust þau enn sem fyrr Guðbjörg fóstra okkar og Gunnar Sigurðsson, auk fjölda vinnuhjúa.
Faðir minn var stopull við heimilið. Hann rak enn um nokkurt árabil verzlun á Ísafirði og um þingtímann dvaldizt hann að mestu í Reykjavík. Ritstjóri Þjóðviljans var hann frá 1887 til æviloka.
Heima á Bessastöðum sat hann löngum inni á skrifstofu sinni og oft sat móðir mín þar hjá honum. Sjaldan held ég að hann hafi látið blaðagrein eða annað af því tagi frá sér fara, svo að hún hafi ekki fylgzt með gangi málanna. Foreldrar mínir voru að mörgu leyti kynlegar andstæður að eðlisfari, en áttu þó svo óvenju vel saman, líklega fyrst og fremst vegna þess, að hugur þeirra stefndi að sama marki, að tímanlegri farsæld og menningarþroska í landinu, sem einungis gat dafnað hjá þjóð, sem var frjáls og óháð erlendu valdi. Á stjórnmálasviðinu var faðir minn einbeittur og gat verið harður í horn að taka, en í daglegu lífi voru þau bæði mannvinir, sem máttu ekkert aumt sjá. Þá var hans megin hlýjan og mildin, en hennar eðli var að ganga rösklega að verki með að rétta hjálparhönd, enda hafði hún þar frjálsar hendur.
Hér er eitt lítið dæmi um hjálpsemi hennar: Móðir mín var eitt sinn stödd niður við höfnina. Þar var skip að fara í strandferð og stóð þar veikluleg og illa klædd kona með börn sín og farangur. Einhvernveginn fær móðir mín vitneskju um, að það eigi að flytja konu þessa sveitarflutningi. Það var kalt í veðri, og móðir mín gerir sér lítið fyrir, tekur af sér hlýja og góða sjalið sitt og vefur utan um konuna. Svo kom hún heim með mun lélegri flík, sem hún hafði fengið í næstu búð handa sjálfri sér.
Á Bessastöðum voru menn árrisulir. Þar var unnið af kappi að hverju sem var, búsýslu, heimilisstörfum, lestri, ritstörfum, prentiðn o. s. frv. Þó að mamma tæki ekki mikinn þátt í búsýslunni, hafði hún nóg að gera við að sinna gestum, innlendum og erlendum, og við að vaka yfir velferð barnanna og heimilisins á ýmsa vegu, en þegar pabbi kvaddi hana til aðstoðar og samfylgdar við sig, þá yfirgaf hún allt annað á augabragði og fylgdi honum hvert sem vera skyldi.
Eins og nærri má geta var oft glatt á hjalla þar sem var saman komið svo margt fólk í blóma aldurs síns, og alltaf bættist við álitlegur hópur gesta og gangandi. Stundum var slegið upp dansi í forstofunni, en annars skemmtu menn sér við tafl og spil. Sérstaklega var teflt mylla, refskák og kotra. Síðast en ekki sízt var til skemmtunar allskonar fróðleikur, sögur, söngur, ljóðalestur og kveðist á og látið fjúka í kviðlingum, því að bæði voru menn heima fyrir, sem gátu látið til sín taka í þeim efnum og margir þeirra gesta, sem að garði komu, voru heldur ekki í neinum vandræðum með að koma saman vísu, eins og t. d. Þorsteinn Erlingsson, Lárus Sigurjónsson, Jónas Guðlaugsson, Jóhann Gunnar og Guðmundur Kamban og margir fleiri, þótt eigi hafi þeir allir orðið þjóðkunnir á því sviði.
Af þeim mönnum, sem þegar hafa verið nefndir, má sjá að þessi staður hefur á ýmsum tímum haft að geyma marga af mætustu mönnum þjóðarinnar. Geta menn því gert sér í hugarlund, að það eru ljúfar minningar, að hafa átt sín beztu æskuár í hópi nokkurra þeirra og á þessum merka stað.
Frásögn þessi var rituð í ágústmánuði árið 1951. Birt með leyfi frú Unnar Skúladóttur.”
Hafa ber í huga að þrátt fyrir Bessastaðadekur til handa útvöldum með einskisvirðu skrauti hafa miklu mun fleiri og merkilegri landmenn og -konur lagt hönd á plóg ávöxtunar til framfara landsins er aldrei hafa hvorki náð eyrum né augum “elítunnar” vegna eigin hógværðar. Allt þetta gleymda fólk eru “menn og konur” að meiri og ber að virða með sæmilegri hætti en með prjáli Bessastaðaeilítunnar…
Heimild:
-Melkorka, 10. árg., 2. tbl. 1954, Guðrún Sveinsdóttir, Gönguför í Gálgakletta, bls. 39-43.