Færslur

Bessastaðir

Gengið var um Bessastaðanes með viðkomu í kjallara Bessastaða og á Breiðabólstað vestan Bessastaðatjarnar.

Bessastaðanes

Bessastaðanes – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar farin er heimreiðin að Bessastöðum liggur leiðin framhjá Lambhúsum. Bærinn er horfinn en nálægt veginum og þar var m.a. stjörnuskoðunarstöð seint á 18. öld.
Bessastaða er fyrst getið í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar, þá í eigu Snorra Sturlusonar. Að honum látnum urðu Bessastaðir fyrsta jörðin á Íslandi í konungseign. Þar varð brátt höfuðsetur æðstu valdamanna konungs hér á landi og var svo til loka 18. aldar. Sigurður Jónsson (1896-1965), forstjóri í Reykjavík,
gaf íslenzka ríkinu staðinn til búsetu fyrir ríkisstjóra vorið 1941. Kirkjur hafa staðið á Bessastöðum síðan árið 1000. Elztu heimildir um kirkju þar eru frá árinu 1200. Það tók u.þ.b. 20 ár að byggja núverandi kirkju og hún var vígð 1796. Hún er meðal elztu steinbygginga landsins.

Bessastaðanes

Bessastaðanes – örnefni.

Sem fyrr segir komust Bessastaðir í eigu íslenska ríkisins 1941 þegar maður að nafni Sigurður gaf ríkinu staðinn til bústaðar fyrir ríkisstjóra. Og frá því að Ísland varð lýðveldi 1944 hefur þetta verið bústaður forseta landsins. Árið 1805 var æðsta menntastofnun sem þá var í landinu “Lærði skólinn” fluttur hingað og starfaði hér í 40 ár. Forsetabústaðurinn er með elstu húsum á Íslandi reistur á árunum 1761-1766. Síðan hefur húsinu verið breytt og byggt við það, en er nú einungis notað sem móttökustaður. Forsetinn býr í nýju hús skammt norðar.

Reykjavík

Bessastaðir – gamla kirkjan.

Kirkjan er byggð utan um eldri kirkju sem þar var. Í kirkjunni eru steindir gluggar sem settir voru í hana 1956, og sýna þeir atriði guðspjallasögunni og kristnisögu Íslands.
Sögu byggðar á Álftanesi má rekja allt aftur til fyrstu Íslandsbyggðar og tilheyrði nesið landnámi Ingólfs Arnarsonar. Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, nam land á því svæði sem hét Álftaneshreppur.

Bessastaðir

Bessastaðir – nýja kirkjan.

Álftaneshreppur varð snemma til því byggð óx hratt á fyrstu öldunum eftir landnám. Sennilega hafa mörk Álftaneshrepps verið hin sömu frá upphafi hans fram til 1878 þegar hreppnum var skipt eftir kirkjusóknum í tvö sveitarfélög: Bessastaðahrepp og Garðahrepp.
FERLIR er þekktur fyrir áhuga á sögu og minjum svæðisins svo sjálfsagt þótti að verða við þeirri ósk hans að fá að líta í kjallara Bessastaðastofu. Þar eru minjar frá uppgrefti á svæðinu er stofan gekk í endurnýjun lífdaga á síðasta áratug 20. aldar. Mikið mun hafa gengið á, bæði við og í kringum uppgröft þann. Afurðirnar má t.a.m. sjá í kjallaranum, s.s. minjahluta eldri bæjarstæða, einstaka hluti, muni og sögulegar skýringar.

Bessastaðir

Bessastaðir – kort 1770.

Gengið var áleiðis norður að Bessastaðanesi. Á móts við útihúsin á Bessastöðum er tangi út í Bessastaðatjörn sem heitir Prentsmiðjutangi. Þar var prentsmiðja Skúla Thoroddsens alþingismanns og ritstjóra Þjóðviljans. Hann bjó á Bessastöðum frá 1901-1908. Skammt norðar er gamall brunnur frá Bessastöðum.
Dr. Kristján Eldjárn gerði fornleifakönnun á Bessastaðanesi og gaf hana út (Kristján Eldjárn. Örnefni og minjar í landi Bessastaða á Álftanesi. Árbók hins íslenska fornleifafélags 1981). Í henni eru tíundaðar helstu minjar, sem þar er að finna, s.s. brot af hlöðnum garði ofan við Músarvík, skotbyrgi, tóft, sennilega varðskýli á Rananum yst á Nesinu gegnt Eskinesi (norðan við hana er brunnstæði), tvær fjárborgir eða sauðabyrgi ofan Sauðatanga nyrst og síðan Skansinn norðvestan á því. Ferðin var notuð til að rissa upp minjarnar á svæðinu (sjá meðfylgjandi uppdrátt).

Skansinn

Skansinn við Bessastaði.

„Bessastaðaskans (Ottavirki) er við Skerjafjörð þar sem Dugguós var áður en stíflan var gerð milli Bessastaðatjarnar og sjávar. Skansinn er virki, í stórum dráttum fjórir moldarveggir, sem upphaflega hafa verið mjög háir en eru nú ávalir og grasi grónir.“
Í júní 1627 rændu Tyrkir Grindavík. Tíðindin spurðust fljótt til Bessastaða og lét höfuðsmaðurinn Holger Rosenkranz hlaða virki úr torfi og grjóti fyrir ofan Seyluna, en svo kallast víkin sem skerst inn í nesið Skerjafjarðarmegin.

Skansinn

Skansinn – uppdráttur ÓSÁ.

Á næstu áratugum var farið að hugsa til þess að hafa að staðaldri virki á Bessastöðum. 1667 var innheimtur af landsmönnum skattur til að byggja upp Bessastaðaskans næsta ár og voru Suðurnesjamenn fengnir til þess. Ekki var skansinum haldið við eftir þetta og greri yfir hann að mestu.
Þegar komið er að stíflunni eru rústir á hægri hönd, þær eru af Skansinum, virkinu og bænum þar sem Óli skans bjó. Konan hans hét reyndar Fía en ekki Vala. Þau bjuggu þar í smábýli, sem fór í eyði um aldamótin 1900. Á hægri hönd (þegar gengið er eftir stíflunni) er Seilan, víkin þar sem skip alsírskra sjóræningja strandaði fullt af herteknum Íslendingum árið 1627. Einstreymisloki á stíflunni milli Bessastaðatjarnar og sjávar, sem gerð var 1953. Lokinn heldur vatninu í tjörninni stöðugt í svipaðri hæð.

Breiðabólstaðir

Breiðabólstaðir.

Breiðabólsstaðir eru byggðir úr höggnu grjóti undir lok 19. aldar. Sumir segja að það hafi verið afgangsgrjót úr Alþingishúsinu, líkt og einn veggur fjárhússins á Minna-Knarrarnesi. Lítil tjörn, Breiðabólsstaðatjörn er rétt við Breiðabólsstaði. Nálægt Jörva er gamall varðturn frá stríðsárunum, uppistandandi menjar um stóran herskálakamp, Brighton-kamp, sem teygði loftnet sín um flest tún þar í kring.

Heimildir:
-Fornleifaskrá. Skrá um friðlýstar fornleifar. Ágúst Ó. Georgsson tók saman. Reykjavík 1990
-Kristján Eldjárn. Örnefni og minjar í landi Bessastaða á Álftanesi. Árbók hins íslenska fornleifafélags 1981.

Upplýsingar um Bessastaði eru m.a. af http://alftanes.is

Á Álftanesi

Í Besstaðanesfjöru.

Garðar

Gísli Sigurðsson skrifar um “Garða á Álftanesi” í Alþýðublað Hafnarfjarðar 1972:

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson.

“Lengi hefur það verið rnér undrunarefni, hve fáskrúðugar eru sagnir úr landnámi Ingólfs Arnarsonar hér við Faxaflóa. Segja þó bækur, að Ingólfur hafi verið frægastur allra landnámsmanna. Verður og ekki annað sagt um þá frændur, en þeir hafi frægir orðið: Þorsteinn sonur hans stofnar fyrstur til þinghalds og hurfu margir að því ráði með honum, Þorkell máni sonur Þorsteins var lögsögumaður og um hann hafa myndast næstum því helgisögur, og niðjar þeirra í karllegg voru allsherjargoðar og helguðu alþing á hverju ári. Séu nú sagnirnar héðan úr umhverfinu athugaðar, sjáum við, að mikið tóm blasir við okkur.
Hrafna-Flóki og þeir félagar koma við hér í Hafnarfirði, þegar þeir halda brott eftir misheppnaða tilraun til landnáms.
Þá kemur Ingólfur Arnarson og nemur hér land og setur bústað sinn í Reykjavík. Gaf hann síðan land frændum sínum og vinum, er síðar komu. Um landnám næsta nágranna segir Landnámabók: Ásbjörn Össurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum. — Líklega hefur Ásbjörn komið hingað á árunum 890 til 900, en þá var hingað mest sigling.
Síðan líða um 300 ár, að því nær ekki er minnzt á þetta landssvæði. Þá segir svo í kirknatali Páls biskups, en það er tekið saman nálægt 1200: Þá er Hafnarfjörður og þá er Álftanes. Kirkja í Görðum og á Bessastöðum.

Garðar

Garðar og nágrenni.

Viðfangsefni mitt nú er að ræða lítilsháttar um annan þessara staða; Garða á Álftanesi.
Áður en lengra er haldið, skulum við staldra við frásögn Landnámuum Ásbjörn Össurarson. Landnám hans nær milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, það er yfir Álftaneshrepp hinn forna, það svæði, sem nú skiptist í Álftaneshrepp, Garðakauptún, Hafnarfjörð og Hraunin.
Ásbjörn bjó á Skúlastöðum, er sagt. En hvar voru Skúlastaðir? Af þeim fáu nöfnum, sem kunnug eru héðan úr nágrenninu frá fornri tíð, eru nokkur, sem enginn veit nú hvar eiga við. En það verður að teljast með einsdæmum, að nafnið á bústað landnámsmanns sé glatað.

Garðar

Garðar árið 1900.

En eru, þá nokkur líkindi til, að þann stað megi finna, sem Ásbjörn bjó á, Skúlastaði? Nokkuð sérstætt er nafnið. En það kemur á óvænt, því að hvergi verður Skúla-nafnið fundið meðal frænda Ingólfs eða afkomenda þeirra. Engum blöðum er um það að fletta, að býlið hefur verið einhvers staðar á svæðinu milli Hraunshoitslækjar og Hvassahrauns. Nokkuð öruggt er, að bústaðir landnámsmanna verða er fram líða stundir höfðingjasetur og flestir kirkjustaðir. Til þess að verða höfðingjasetur og kirkjustaður þurfti jörðin að vera allstór, ekki minni en 40 hundruð, segja mér fróðir menn. Hvar er þá þessa lands, þessa stóra staðar að leita hér í umhverfi okkar? Sunnan fjarðar er slíkan stað varla að finna. Ofanbæirnir koma naumast til greina, og þótt búsældarlegt hafi oft verið um Álftanes sjálft, þá stöldrum við varla við þar. Til dæmis eru Bessastaðir ekki nema 8 hundruð að fornu mati. Þá er ekki nema einn staður, sem nefna mætti stóran stað og þar sem síðar verður kirkjustaður með höfuðkirkju. Staður sá, sem mér finnst líklegastur til að hafa verið Skúlastaður og bústaður Ásbjarnar, er því Garðastaður. Héðan er fagurt að sjá til allra átta. Hér er gróðursæld og hér er gjöfull sjór fram undan. Í upphafi kristniboðs á Íslandi var þeim höfðingjum, er kirkjur reistu, lofað, að þeir skyldu hafa svo mikil mannaforráð á himnum sem menn rúmuðust í kirkju þeirra. Varð því margur höfðinginn til þess að reisa kirkju á bæ sínum. Til þess að reisa slík hús sem kirkjur voru þurfti og nokkur efni. Þá þurfti kirkjueigandinn að halda prest, en slíkir prestar voru oft eins konar vinnumenn höfðingja.

Garðakirkja

Garðakirkja 1879.

En hafi nú nafnið Skúlastaðir horfið fyrir nafninu Garðar, hver var þá orsökin? Fróðir menn segja mér, að margt bendi til, að allmikil akuryrkja hafi verið stunduð hér um slóðir, um allt Álftanes, allt fram undir siðaskiptin um miðja 16. öld. Benda þar til nokkur örnefni, svo sem Akurgerði í Hafnarfirði, Akrar við Breiðabólstaði og Akurgerði þar í túni, Tröð, sem er bær á nesinu, og Sviðholt, en því er það nafn, að jörð var þar brennd eða sviðin undan sáningu. Þá er hér einnig víða að finna örnefni eins og Gerði og Garða. Þannig voru akrar varðir til forna, að kringum þá voru hlaðnir garðar, bæði til skjóls og til varnar ágangi fénaðar. Geta má þess til, að Ásbjörn og afkomendur hans hafi látið gera akra og haft akuryrkju ekki litla, garðar miklir hafi verið hlaðnir, og þannig hafi Skúlastaðanafnið grafizt undir görðum og hafi þá orðið til Garðar á Álftanesi. Og staðreynd er, að hér var um aldir stór staður og prestssetur.
Næst eftir að getið er um Garða i kirknatali Páls biskups, er þeirra minnzt í Sturlungu, þar sem segir, að 1264 hafi Gissur jarl riðið á Kjalarnes og gist að Einars bónda Ormssonar í Görðum. Var honum þar vel tekið og var hann þar nokkrar nætur.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Leitukvennabásar.

Þá er þess getið næst, að þrír menn í Grindavík bera vitni um reka Garðastaðar 1307: Garðastaður á reka bæði rekaviðar og hvalreka á fjörum austan við Ísólfsskála milli Rangjögurs og í Leitukvennabása. Þegar þetta gerðist, er hér þjónandi prestur séra Jón Þórðarson, en herra Haukur hafði þá sýslu.

Garðakirkja

Garðakirkja 1925.

Enn líður nokkur tími eða fram undir aldamótin 1400. Þá tekur nokkuð að rofa til. 1395 lætur Vilchin biskup í Skálholti gera máldaga flestra kirkna í Skálholtsbiskupsdæmi. Ég held að segja megi, að þá sé staðurinn i Görðum og kirkjan nokkuð vel sett að andlegum hlutum og veraldlegum. Er ekki úr vegi að taka hér upp þetta ágæta plagg, máldaga Garðakirkju.
Péturskirkja í Görðum á Álftanesi á heimaland allt, Hausastaði, Selskarð, Hlið, Bakka, Dysjar, Hraunsholt, Hjallaland, afrétt í Múlatúni. 18 kýr, 30 ásauða, 7 naut tvævetur, 6 naut veturgömul, 2 arðuryxn. 6 hross roskin, 16 hundruð í metfé. 10 sáld niður færð. 6 manna messuklæði, utan einn corporale brestur, og að auki 2 höklar lausir, annar með skínandi klæði, en annar með hvítt fustan. 3 kantarakápur, 2 altarisdúkar búnir. 6 altarisklæði og eitt skínandi af þeim. 2 dúkar stangaðir. 2 fordúkar. Skrínklæði lítið. 3 sloppar. Smelltan kross og annan steindan fornan. Koparskrín gyllt. Huslker af silfri. Gylltan kross lítinn. Paxspjald steint. Brík yfir altari. Kertastikur 3 úr kopar. Járnstikur 2. Bakstursjárn vont. Item sæmiiegt Ampli. Klukkur 5. Kaleikar 3, 2 lestir og hinn þriðji forgylltur. Maríuskrift. Pétursskrift. Merki eitt. Sakrarium mundlaug. 1 stóll. 2 pallkoddar. Fornt klæði og skírnarsár. Tjöld vond um kór og dúklaus. 2 reflar vondir um framkjrkju. Glóðarker. Graduale per anni circulum. Lesbækur út 12 mánuði þar til pistlar og guðspjöll, per anni circulum með collectario. Liber Evangeliorum. Omilie Gregorii Actis Apostolorum. Apocalipsis. Passionarius Apostolorum et eliorum santcorum. Altarisbók, Psaltari. Söngbók de tempore frá páskum til adventu. Forn sequentiubók. Messufatakista ólæst. Eins og vænta mátti er hér um eitt bezta heimildargagn að ræða.

Garðar

Garðar fyrrum.

Hér er í fyrsta skipti getið þeirra býla, er heyra staðnum til: Hausastaðir, Selskarð, Hlið, Bakki, Dysjar, Hraunsholt, Hjallaland og upprekstur í Múlatún. Til skýringar á Hjallalandi vil ég geta þess, að hér mun átt við svæði sunnan Grunnuvatna milli Sneiðinga innst á Vífilstaðahlíð og landamerkja Vatnsenda, skammt vestan til við fjárborgina góðu, Vatnsendaborg. Þá er vert að veita því athygli, að getið er um 2 arðuryxn gömul. Arðuryxn geta ekki verið annað en yxn, sem draga arð, plóg við akuryrkju. 10 sáld niður færð! Getur hér varla verið um annað að ræða en að sáð hafi verið korni úr 10 sáldum. Hér hefur þá verið nokkur akuryrkja á staðnum.
Og hvað um kirkjubúnaðinn? Er hann ekki sæmilegur? Myndum við ekki verða hýrir á svip, ef fyrir framan okkur lægju gripir þessir. En látum okkur nægja að sjá þá aðeins með innri sjónum.
Frá árinu 1477 er til ágrip af máldaga. Ber honum það sem hann nær algerlega saman við Wilchinsmáldaga. Þó er kirkjan orðin einu messuklæði fátækari.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.

Næst verður fyrir okkur fróðlegt bréf frá 1558 um viðskipti staðarins við hans Majestet konunginn og umboðsmann hans. Er það all-fróðlegt: Eg Knut Stensen, kongleg Majestetz Byfalingsmaður yfir allt Ísland, kennist með þessu mínu bréfi, að ég hef gjört svoddan jarðaskipti upp á konglig Majestetz vegna við síra Loft Narfason, kirkjunnar vegna í Görðum á Kongsnesi, að ég hef undir kongsins eign til Bessastaða tekið jörðina Hlið er liggur á Kóngsnesi, er þar í landskyld í málnytukúgildi og ein mjöltunna. En þar hefur hann fengið til kirkjunnar í Görðum Viðeyjarklaustursjörð, er heitir Vífilsstaðir í Bessastaðasókn. Tekst þar af landskylda og málnytukúgildi. Og fyrir mismun landskyldanna hefi ég lofað og tilskikkað fyrrnefndum síra Lofti eður Garðakirkju umboðsmanni eina tunnu mjöls á Bessastöðum, að hún takist þar árlega af kóngsins mjöli.
Skal það fylgja hvorri jörð, sem fylgt hefur að fornu og nýju. Skulu þessi jarðaskipti óbryggðanlega standa og vera hér á báðar síður, utan konglig Majestet þar öðruvísi umskipti á gjörir eða skykkan. Samþykkti þessi jarðaskipti herra Gísli Jónsson Superindentent yfir Skálholts stikti. Og til staðfestu og auðsýningar hér um, að svo í sannleika er sem hér fyrir skrifað stendur, þrykki ég mitt signet á þetta jarðaskiptabréf. Skrifað á Bessastöðum 4. dag júlí-mánaðar, Anno Domini 1558. Þá kemur neðan máls ekki ófróðleg klausa um viðskipti við Konglega Majestet og hans Byfalingsmenn. Þessa mjöltunnu hafa prestar í Görðum misst síðan í tíð höfuðsmanns Einvold Krus af óvild, inn féll milli hans og síra Jóns Krákssonar í Görðum.

Steinhes

Steinhes.

Að þetta ofanritað sé rigtug og orðrétt Copia eftir originalnum og höfuðsmannsins bréf vottum vér sem saman lásum og originalinn sjálfan með undirsettu innsigli höfuðsmannsins Knutz Steinssonar sáum og yfirskoðuðum að Görðum á Kóngsnesi 19. júní anno 1675.
Það næsta, sem fyrir okkur verður varðandi Garðakirkju og Garðastað, er að finna í Visitasíubók hans herradóms Brynjólfs biskups Sveinssonar frá 19. sept. 1661 og fjallar um lögfesti á landamerkjum Garðastaðar: Landamerki Garðastaðar eftir lögfesti síra Þorkels eru þessi: Syðri Hraunbrún hjá Norðurhellum og svo suður eftir Smyrlabúðarhraunsjaðri í miðjan Kethelli og svo hraunið allt fram að Steinhesi, svo beint úr Steinhesinu og upp í Syðri-Kaldárbotna og allt Helgafell og í Strandartorfur og í Húsfell. Úr Húsfelli og í Hnífhól og úr Hnífhól og heim í Arnarbæli. Datum Bessastöðum 1661 Jónsmessudag sjálfan.

Jón Halldórsson og Jón Jónsson

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Item lagði nú síra Þorkell Arngrímsson fram vitnisburðarbréf síra Einars Ólafssonar og Egils Ólafssonar og Egils Einarssonar með þeirra áþrykktum innsiglum, datum Snorrastöðum í Laugardal næstan eftir Maríu-messu á jólaföstu anno 1579, að Garðastaður ætti land að læknum fyrir sunnan Setberg, sem er sá lækur sem rennur milli Stekkatúns og Setbergs og allt land að þeim læk, er menn kalla Kaplalæk. Og það Stekkatún, sem er sunnan við greindan læk, byggði síra Einar ætíð með Hamarskoti, og með sama hætti þeir sem enn fyrr bjuggu í Görðum en hann, og aldrei heyrði hann þar orðtak á að Setberg ætti nokkurt ítak í Hamarskotslandi eður neinstaðar í Garðalandi.
Þessu næst koma svo útdrættir gerðir af síra Árna Helgasyni.

Um Garðastað

Fiskaklettur

Fiskaklettur.

Kirkjan á einnig Hjallaland og afrétt í Múlatúni, bæði eftir vísitazíu og máldögum. Plagg þetta er frá 25.8.1780. Þá er vitnað til bréfs undirskrifaðs 1701, og er svo hljóðandi: Nú koma nokkrar afskriftir af máldögum Garðakirkju og þar á meðal eitt er kallast: Nýtt Registur 1583. Svo hljóðandi: Kirkjan í Görðum á Álftanesi á 20 kúgildi, einn hest. Þessar jarðir: Ás, Setberg, Vífilsstaði, Dysjar, Nýjabæ, Selskarð, Akurgerði, Hlið, Hamarskot, Bakka, Hausastaði, Pálshús, Oddshús, Hraunsholt.
Hvernig Ás og Setberg er undan gengið veit ég ekki, né heldur hvar Oddshús hafa verið. Síðan koma skriftir um skóga og skógaítök og svo undirskriftir. Það fer eins fyrir mér og séra Árna. Ekkert veit ég um Ás utan það, að 1703 á konungur hluta jarðarinnar. En það held ég að ég viti um Setberg, að það sé ein sú jörð, sem slapp í gegnum netið, að hvorki lenti í eigu nokkurrar kirkju né í eigu Viðeyjarklausturs. Hún var alltaf bændaeign. Oddshús tel ég aftur á móti að hafi verið þar sem síðar var Oddakot. Oddakot var austast á eyju þeirri, sem nefnzt hefur Hliðsnes. Má þar enn sjá marka fyrir rústum kotsins. Til skamms tíma lifði hér í Hafnarfirði fólk, sem borið var og barnfætt Í Oddakoti.

Setberg

Gamli Setbergsbærinn.

Eftir að Árni biskup Helgason gerir á margvíslegan hátt hreint fyrir sínum dyrum og kirkjunnar í Görðum með upprifjunum og afskriftum af bréfum og máldögum staðarins, er hljótt um stund, eða allt þar til hingað kemur sá mæti klerkur Þórarinn Böðvarsson. Hann hafði ekki lengi setið staðinn, er hann hóf að grannskoða, hvernig háttað væri um eignir Garðastaðar. 1871 fær hann settan rétt til að rannsaka, hve mikið land tilheyrði verzlunarlóðinni, lóð Akurgerðis, sem upphaflega var hjáleiga frá Görðum. En 1677 höfðu farið fram með vilja konungs makaskipti á hjáleigunni og jörð vestur í Kolbeinsstaðahreppi. Bjarni riddari Sivertsen hafði keypt jörðina af konungi, en Knudtzon stórkaupmaður keypti af dánarbúi Bjarna. Munu engin mörk hafa þar verið sett í milli. Vitnisburðir þeir, sem fengust við þessa athugun, eru gagnmerkir, en verða ekki upp teknir hér nú. Eftir að rannsókn hafði farið fram, var málið lagt í dóm — eða til sáttar. Sú sáttargjörð var svo birt árið 1880. Voru þá landamerki samin milli fyrrum hjáleigunnar Akurgerðis og Garðakirkjulands. Voru þau þessi: Fyrst: Klöpp undir brúnni yfir lækinn niðri í fjöru. Varða á svonefndum Ragnheiðarhól. Varða hjá bænum Hábæ í Hrauni. Varða ofanvert við Hólsbæina á Stakkstæði. Varða hjá Félagshúsinu, rétt við Fjarðarhelli. Varða hjá Veðurási. Varða á hól vestan Kristjánsbæjar, og þaðan beina línu í Fiskaklett.
HafnarfjörðurNokkra skýringu munu þessir staðir þurfa. Klöppin undir brúnni: Klöpp þessi liggur nú undir austurvegg Pósthússins í Hafnarfirði.
Ragnheiðarhóll: Þar er nú risið hús Olivers Steins. Hábær: Hann stóð þar sem nú eru Rafveituskrifstofur.
Varða ofan Hólsbæjar var við húsið nr. 2 við Urðarstíg. Félagshúsið er nr. 7 við Hellisgötu. Veðurás eru húsin nr. 9 og 11 við Kirkjuveg. Varðan vestan Kristjánsbæjar: Við hana er Vörðustígurinn kenndur, og er hún eina merkið, sem enn stendur. Og Fiskaklettur stendur enn snoðinn nokkuð rétt við Vöruskemmu Eimskipafélags Íslands. Sú trú er nú kominn á þann klett, að ógæfumerki sé að hrófla við honum.
Eftir þetta verða litlar breytingar á högum Garðakirkjulands, eða allt þar til að Hafnarfjörður fær kaupstaðarréttindi 1. júní 1908. En þá og nokkru síðar verða miklar breytingar, sem er mjög langt mál og allflókið.
Að síðustu verður hér litið yfir landamerki þau, sem gerð voru á árunum kringum 1890.

Landamerki

Arnarbæli

Arnarbæli – varða ofan Grunnuvatna.

Merki á landi Garðakirkju á Álftanesi, samkv. máldögum og fornum skjölum.
1. Á móti Oddakoti í miðjan Ós þann, sem rennur úr Skógtjörn í sjó fram austan til við túngarðinn.
2. Úr Ósnum norður í Hól hjá Skógtjörn, og er þar hlaðin merkjavarða, þaðan í móti landi Skógtjarnar og Brekku í vörðu á hólnum hjá Núpsstíflum, þar er hlaðin merkjavarða.
3. Þaðan út í miðja Tjörn, Lambhúsatjörn, þá sem er milli Bessastaða og Gálgahrauns, og í miðjan tjarnarósinn í mynni Arnarnesslækjar, upp með læknum sunnanverðum upp í Stóra-Krók á sama læk og úr því keldudragi, sem þar er að sunnanverðu og beina stefnu yfir mýrina upp í Dýjakrók (3. sept. 1870) og þaðan í mitt Hnoðraholt, þaðan fyrir norðan Vetrarmýrina, beina línu suður í Arnarbæli, þaðan í austur-landsuður upp í Hnífhól, þaðan í austur-landsuður í mitt Húsfell. Úr miðju Húsfelli beint til suðurs í Efri-Strandartorfur, þaðan beint í suður í Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Melrakkaskarð (Melrakkagil) í Undirhlíðum, þaðan til norðurs við lönd Hvaleyrar og Áss í Steinhús (Steinhes), sem er við Neðri-Kaldárbotna, þaðan móts við Ófriðarstaðaland vestanvert við Gráhelluhraun beina línu í svonefndan Moldarkrika, þá til norðurs í Vörðu á Hlíðarþúfum, þá sömu línu norður í Öxl á Mosahlíð, enn sömu línu í Vörðu á Kvíholti, loks sömu línu mitt á milli Gíslahúss og Bjarnabæjar í vörðu á miðjum Hamri við Hafnarfjarðarbotn, þaðan allt með Hafnarfirði norðanvert í Ós hinn áðurnefnda hjá Oddakoti.

Garðahverfi

Minnismerki um Hausastaðaskóla og Hausastaði.

lnnan framangreindra takmarka eru auk Garðastaðar þessar jarðir Garðakirkju: Selskarð, Hraunsholt, Hamarskot, Langeyri, Skerseyri, Bali, Dysjar, Bakki, Pálshús, Nýibær, Krókur, Ráðagerði, Hóll, Miðendi, Hlíð, Móakot, Hausastaðir og Hausastaðakot, sem allar hafa afmörkuð tún og rétt til að nota að tiltölu kirkjulandið utantúns til allra leiguliðanota, en ekkert útskipt land fyrir utan túnið, svo og þurrabúðir, sem eru eign kirkjunnar með kálgörðum og túnblettum og timburhúsum sömuleiðis. Innan merkja er kirkjujörðin Vífilsstaðir, áður konungseign, á hún sérstaklega: tún og engi fyrir neðan Vífilsstaðavatn, hálfan Leirdal, allan Rjúpnadal, alla Vetrarmýri og mótak niður undan við Arnarneslæk, Maríuhelli og Svínahlíð fram í Sneiðinga.
Ennfremur eru innan merkjanna þessar jarðir:
1. Setberg: Eru merki þeirrar jarðar sem segir í landamerkjaskjali hennar.
2. Urriðakot: Eru merki þeirrar jarðar, sem segir í landamerkjaskjali hennar.
3. Hofstaðir: Sú jörð á sitt eigið tún, en ekkert land utantúns. Með hagbeit í kirkjulandinu fyrir fénað, sem túnið ber.
4. Hagakot: Þjóðeign, á sitt eigið tún, mýrarkorn neðan túns og mótak í barði og beit fyrir fénað þann, sem túnið og mýrin framfleytir.
5. Akurgerði: Túnlaus verzlunarlóð, merki ákveðin með samningi dags. 27. marz 1880 og þinglýst 17. júní sama ár. Þessi landamerki samþykkt af öllum hlutaðeigendum og síðan þinglýst á manntalsþingi í júní 1890.”

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 1. tbl. 10.01.1972, Garðar á Álftanesi, Gísli Sigurðsson, bls. 7, 13 og 14.

Garðar

Garðar.

 

Bessastaðakirkja

Tvíræðar frásagnir hafa birst af skjaldarmerkinu framan á Bessastaðakirkju,

Í Mbl.is, 12. janúar 1997 segir t.d.:

Molke

Molke greifi.

Moltke greifi breytti tugthúsi í konungsgarð Forseti Íslands ætlar að bjóða Íslendingum í Kaupmannahöfn til kaffidrykkju í höll Moltkes við Breiðgötu á mánudag þar sem hann er staddur vegna afmælis drottningar. Pétur Pétursson kann að rekja flestum betur tengsl Moltke greifi breytti tugthúsi í konungsgarð.

Forseti Íslands ætlar að bjóða Íslendingum í Kaupmannahöfn til kaffidrykkju í höll Moltkes við Breiðgötu á mánudag þar sem hann er staddur vegna afmælis drottningar. Pétur Pétursson kann að rekja flestum betur tengsl Moltke-ættarinnar við Ísland og forsetasetrið, en Moltke greifi var stiftamtmaður á Íslandi 1819-23.

Nýjasta hefti danska tímaritsins Heraldisk Tidskrift er fróðleg grein, sem fjallar um skjaldarmerki aðalsættar, sem rekur kyn sitt til furstadæmisins Mecklenburg. Aðalsætt þessi kemur víða við sögu Þýskalands, Danmerkur og Íslands. Hér er um að ræða fjölda nafnkunnra manna, sem kenndu sig við Moltke, en höfðu í skjaldarmerki sínu þrjá fugla, af ætt orra. Svo sem fram kemur í grein Pouls Holtstein í tímaritinu sem til er vitnað, hefir Moltekættin tengst ýmsum öðrum aðalsættum og birtist með grein höfndar fjöldi tilbrigða við upprunalegt skjaldarmerki Moltkeættarinnar. Því hefir lítt verið haldið á loft, að einnig hér á landi hefir skjaldarmerki Moltkeættar lengi gnæft á sögufrægum stað, án þess að sérstök athygli væri á því vakin. Hér er átt við Bessastaði. Yfir dyrum Bessastaðakirkju er mótað skjaldarmerki E.C.L. Moltkes stiftamtmanns. Hann gegndi því embætti um fjögurra ára skeið. Hyggjum nánar að því síðar.

Margur ættarlaukur

Moltke

Moltke – skjaldarmerki.

Íslendingar hafa átt mikil og margvísleg samskipti við nafnkunna menn, sem teljast til Moltkeættar. Svo sem geta má nærri er þar margur ættarlaukur, en ekki feta gangvarar þeirra og gæðingar allir sömu braut. Knud Zimsen borgarstjóri, séra Bjarni Jónsson vígslubiskup og séra Friðrik Friðriksson í KFUM hefðu allir nefnt Joachim Moltke, hirðmeistara Friðriks prins síðar konungs, sem öðling á miklum ættarmeiði.

Einar Olgeirsson foringi kommúnista hafði kynnst Kai Moltke, forystumanni danska kommúnistaflokksins. Einar segir um hann: “Kai Moltke var af hinni frægu og tignu Moltkeætt og var þess vegna kallaður rauði greifinn. Hann var afkastamikill rithöfundur.” Við þessa lýsingu Einars má bæta því að skv. frásögn Kai Moltkes átti Stefán Pjetursson síðar þjóðskjalavörður fótum fjör að launa, er hann leitaði ásjár danska sendiráðsins og óskaði eftir því að vera fluttur heim frá Moskvu. Hann óttaðist ofsóknir réttlínumanna.

Þá deildu menn hart um það hverjir væru höfuðstoð borgarastéttarinnar. Seinna kom í ljós að þeir voru það allir með tölu.

Í frásögn Knuds Zimsens borgarstjóra kemur fram að Joachim Moltke greiði götu margra fátækra stúdenta og veitir sumum þeirra fjárhagslega aðstoð.

Molkes
“Moltke bjó í stórri höll. Hann hafði gaman af að safna til sín kristilega sinnuðum stúdentum, og einu sinni í mánuði hverjum mætti hjá honum stór hópur slíkra manna. Þegar þangað var komið, var haldin bænasamkoma, en að henni lokinni bauð hann öllum til matar. Moltke var vel menntaður og víðlesinn, og báru viðræðurnar í hinum stóra sal hans greinileg merki þess.”
Frásögn séra Bjarna Jónssonar af heimsókn í höll Moltkes er með sérstæðum blæ. Hún ber öll einkenni séra Bjarna, enda kann sá sem hlýðir að hlusta og segja frá. Matthías Johannessen ritstjóri skráir frásögn séra Bjarna: “Ég hef stundum verið spurður, hvað mér hafi komið mest á óvart fyrstu vikurnar í Kaupmannahöfn. Ég held það hafi verið höll Moltkes greifa í Breiðgötu. Olfert Richard sagði við mig, þegar ég hafði dvalist nokkurn tíma í Kaupmannahöfn: “Nú hef ég boð til greifa Moltke og við fylgjumst þangað að.” Ég verð auðvitað undrandi, en þó fullur af tilhlökkun. Og hún breyttist í fögnuð, þegar ég gekk inn, því höll Moltkes greifa var fínasti staður, sem ég hafði séð á ævi minni, og langt hafin yfir allt annað. Hún var jafnvel ennþá fínni en torfbærinn heima í Mýrarholti. Greifanum kynntist ég síðar mjög vel í KFUM.”
Naumast þarf að vekja athygli á því hve vel séra Bjarna tekst að varpa ljóma á æskuheimili sitt, lágreistan torfbæinn með skin frá steinolíuljósi á horni Vesturgötu og Bakkastígs.

Benedikt Gröndal hefir lýst Bessastaðakirkju í bók sinni Dægradvöl:

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja og Bessastaðastofa fyrrum.

“Upp úr turninum er stöng úr járni og stór málmkúla neðan til á henni og var gyllt, á að giska tvær álnir að þvermæli; þar uppi yfir var gylltur veðurviti með nafni Kristjáns 7. (en turninn hlaut þó að hafa verið byggður eftir hans daga) en efst önnur kúla minni… Hvernig á þessu konungsnafni stendur, veit ég ekki, en ofarlega á turninum framanverðum var ferhyrnt skjaldarmerki úr steini, með þremur fuglum, og fjaðurbúskur upp úr höfði hvers þeirra, en þetta er einmitt skjaldarmerki Moltkes eða einhvers af þeirri ætt, en um þetta leyti var Moltke stiftamtmaður. Annars getur vel verið að turninn hafi verið byggður áður, eins og kirkjan, og hafi eitthvað verið gert við hann á þessum tíma, og hafi þá stiftamtmaðurinn tekið sér bessaleyfi til að setja þarna ættarmerki sitt (Moltke er nafn á einhverjum fugli, svörtum að lit, og er orðið líklega slafneskt eða vendiskt, því ættin er frá Mecklenburg eða Pommern). Það var í manna minnum, sem lifðu í mínu ungdæmi, að menn voru teknir frá róðrum í besta veðri (t.a.m. Bjarni í Sviðholti) til að róa með stiftamtmannsfólkið út um allan sjó til skemmtunar, og hafði þá viljað til, þegar þeir áttu að vaða með frúna út í skipið, að þeir duttu í sjóinn viljandi með hana, svo hætt var við þá sjóferð. Þetta var ein af kvöðunum í þá daga.”

Stjórnarráðið
Bjarni í Sviðholti, sá sem Benedikt Gröndal nefnir var Halldórsson. Hann var lögréttumaður. Um eitt skeið var hann ráðsmaður Bessastaðaskóla. Bjarni var vel efnum búinn, talinn með ásjálegustu mönnum, segir Páll Eggert Ólason í æviskrám sínum. Vilji einhver vita deili á úrræðagóðum Álftnesingi, sem hafði ráð undir rifi hverju og kunni að koma sér undan kvöðum hefðarfólks, þá voru meðal afkomenda hans nafnkunnir lærdómsmenn og kraftajötnar. Bjarni Jónsson rektor Latínuskólans (Menntaskólans í Reykjavík) hét nafni afa síns, Bjarna í Sviðsholti. Móðir Bjarna rektors giftist síðar Birni Gunnlaugssyni yfirkennara. Hann var tengdafaðir Jens Sigurðssonar rektors. Og þá fer nú að styttast í Jóhannes og Jón Nordal. Af þessari ættarskrá má sjá að þeir bræður eru komnir af Bjarna í Sviðsholti, lögréttumanni, sem lét ekki kveðja sig frá verki um hábjargræðistímann til þess að sinna dyntum hefðarfólks.

Stiftamtmannsfrúin, sem vöknaði við sjóbaðið á Bessastöðum var systir Bardenfleths, sem var fulltrúi konungs við endurreisn Alþingis árið 1845. Faðir þeirra Bardenflethssystkina var flotaforingi, háttsettur og handgenginn við hirð Danakonunga. “Náðug frúin” leit mjög stórt á sig.” Eru um það margar sögur.

Ludvig Moltke stiftamtmaður og kona hans eignuðust dóttur meðan þau dvöldust hér. Dóttir stiftamtmannshjónanna var vatni ausin að viðstöddu hefðarfólki íslenskrar embættistignar. Guðfeðgin telpunnar voru Magnús Stephensen konferensráð, Ísleifur Einarsson etasráð, Sigurður Thorgrímssen landfógeti, Ólafur Finsen sýslumaður og eiginkonur þeirra síðat nefndu, Mad. Thorgrimsen og Mad. Finsen.
Athöfnin fór fram í september 1820. Stúlkan hlaut þrjú nöfn. Hún var skírð Augusta, Vilhelmine, Thorveiga.

Grímur Thomsen

Grímur Thomsen.

Þess má geta að Grímur Thomsen var fæddur sama ár.
“Ágústa Vilhelmína Þórveig var leikfélagi Ludvigs Knudsens, afa Óslvalds Knudsens. Til er bréf um saltfiskkaup Moltkes eftir að hann fluttist af landi brott. Þar fara kærar kveðjur milli “lille Ludvig” og Ágústu Vilhelminu Þórveigar.
Þegar L.E.C. Moltke er skipaður stiftamtmaður hér á árið 1819 hafði Grímur Jónsson, móðurbróðir Gríms Thomsens gert sér vonir um embættið. Það var hverjum manni augljóst að vonlaust var að keppa við umsækjanda svo göfugrar ættar, auk þess sem hann naut stuðnings vegna mágsemdar við ætt handgengna hirðinni.

Moltke stiftamtmaður hófst þegar handa við komuna til Íslands. Honum þótti ekki sæmandi að kúldrast í húsakynnum fyrirrennara sinna í embætti. (Þar sem verslun Haraldar Árnasonar var síðar). Fékkst samþykki konungs og stjórnvalda til þess að innrétta tugthúsið á Arnarhóli og breyta því í Konungsgarð. Eru um það margar frásagnir samtíðarmanna hve ötullega stiftamtmaðurinn ungi, með sinni “náðugu frú” gekk fram í innréttingum og framkvæmdum.
Í fórum Landsbókasafns og Þjóðarbókhlöðu eru málverk, sem greifinn málaði sjálfur og sýna embættisbústaðinn, lækinn og næsta umhverfi.
Meðal starfsmanna Moltkes greifa meðan hann dvaldist hér var Björn Auðunsson Blöndal, síðar sýslumaður. Hann var skrifari í Konungsgarði um hríð. Um embættistíð Moltkes mætti rita langt mál, en hann hvarf héðan til embættisstarfa í Danmörku. Stefán Gunnlaugsson landfógeti var þá starfsmaður hans um skeið.
Jón Sigurðsson forseti lauk miklu lofsorði á Moltke fyrir góðviljaða fyrirgreiðslu. Greifinn var þá orðinn sendiherra í Stokkhólmi. Þangað fór Jón ásamt Ólafi Pálssyni, síðar dómkirkjupresti, að kanna handrit í eigu Svía. Moltke hlutaðist til um að Jón fengi starfsaðstöðu í konungshöllinni, og fengi þar gott næði til starfa. Auk þess hélt hann þeim félögum dýrlega veislu þar sem fram voru bornir 12 réttir. Meðan Jón dvaldist í Svíþjóð gafst honum kostur á að hlýða á söngkonuna frægu, Jenny Lind. – Höfundur er fyrrverandi útvarpsþulur.

Moltke í Reykjavík

Stjórnarráðið

Stjórnarráðshúsið.

Kona Moltkes (gift 1819) var Reinholdine Frederikke Vilhelmine Bardenfleth (18. apríl 1800 – 14. ágúst 1890), systir Carls Emils Bardenfleth, sem síðar varð stiftamtmaður á Íslandi. Hún fluttist nýgift með manni sínum til Reykjavíkur. Á Íslandi fór orð af því að hún liti mjög stórt á sig. Þeim hjónum leist afar illa á þann bústað sem beið þeirra og fengu þau leyfi til að láta innrétta tugthúsið á Arnarhóli, sem þá stóð ónotað, sem embættisbústað og bjuggu þar. Var húsið eftir það stiftamtmanns- og síðar landshöfðingjabústaður og að lokum Stjórnarráðshús.

Moltke gekkst líka fyrir því 1820 að lögð var steinstétt eftir forarstíg sem kallaður var Tværgaden, frá Aðalstræti austur að læk, og skolpræsi meðfram henni. Þetta þótti mikið mannvirki og var stéttin kölluð Langafortóv. Þar er nú Austurstræti.

Í nýjasta hefti danska tímaritsins Heraldisk Tidskrift er fróðleg grein, sem fjallar um skjaldarmerki aðalsættar, sem rekur kyn sitt til furstadæmisins Mecklenburg. Aðalsætt þessi kemur víða við sögu Þýskalands, Danmerkur og Íslands. Hér er um að ræða fjölda nafnkunnra manna, sem kenndu sig við Moltke, en höfðu í skjaldarmerki sínu þrjá fugla, af ætt orra. Svo sem fram kemur í grein Pouls Holtstein í tímaritinu sem til er vitnað, hefir Moltekættin tengst ýmsum öðrum aðalsættum og birtist með greinahöfndar fjöldi tilbrigða við upprunalegt skjaldarmerki Moltkeættarinnar. Því hefir lítt verið haldið á loft, að einnig hér á landi hefir skjaidarmerki Moltkeættar lengi gnæft á sögufrægum stað, án þess að sérstök athygli væri á því vakin. Hér er átt við Bessastaði. Yfír dyrum Bessastaðakirkju er mótað skjaldarmerki E.C.L. Moltkes stiftamtmanns. Hann gegndi því embætti um fjögurra ára skeið. Hyggjum nánar að því síðar.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Margur ættarlaukar Íslendinga hafa átt mikil og margvísleg samskipti við nafnkunna menn, sem teljast til Moltkeættar. Svo sem geta má nærri er þar margur ættarlaukur, en ekki feta gangvarar þeirra og gæðingar allir sömu braut. Knud Zimsen borgarstjóri, séra Bjarni Jónsson vígslubiskup og séra Friðrik Friðriksson í KFUM hefðu allir nefnt Joachim Moltke, hirðmeistara Friðriks prins síðar konungs, sem öðling á miklum ættarmeiði. Einar Olgeirsson foringi kommúnista hafði kynnst Kai Moltke, forystumanni danska kommúnistaflokksins. Einar segir um hann: „Kai Moltke var af hinni frægu og tignu Moltkeætt og var þess vegna kallaður rauði greifinn. Hann var afkastamikill rithöfundur.” Við þessa lýsingu Einars má bæta því að skv. frásögn Kai Moltkes átti Stefán Pjetursson síðar þjóðskjalavörður fótum fjör að launa, er hann leitaði ásjár danska sendiráðsins og óskaði eftir því að vera fluttur heim frá Moskvu. Hann óttaðist ofsóknir réttlínumanna. Þá deildu menn hart um það hverjir væru höfuðstoð borgarastéttarinnar. Seinna kom í ljós að þeir voru það allir með tölu.
Í frásögn Knuds Zimsens borgarstjóra kemur fram að Joachim Moltke greiðir götu margra fátækra stúdenta og veitir sumum þeirra fjárhagslega aðstoð.
Benedikt Gröndal hefir lýst Bessastaðakirkju í bók sinni Dægradvöl.

Bessastaðakirkja

Skjaldarmerki á turni Bessastaðakirkju?

„Upp úr turninum er stöng úr járni og stór málmkúla neðan til á henni og var gyllt, á að giska tvær álnir að þvermæli; þar uppi yfir var gylltur veðurviti með nafni Kristjáns 7. (en turninn hlaut þó að hafa verið byggður eftir hans daga) en efst önnur kúla minni . . . Hvernig á þessu konungsnafni stendur, veit ég ekki, en ofarlega á turninum framanverðum var ferhyrnt skjaldarmerki úr steini, með þremur fuglum, og fjaðurbúskur upp úr höfði hvers þeirra, en þetta er einmitt skjaldarmerki Moltkes eða einhvers af þeirri ætt, en um þetta leyti var Moltke stiftamtmaður. Annars getur vel verið að turninn hafi verið byggður áður, eins og kirkjan, og hafí eitthvað verið gert við hann á þessum tíma, og hafi þá stiftamtmaðurinn tekið sér bessaleyfí til að setja þarna ættarmerki sitt (Moltke er nafn á einhverjum fugli, svörtum að lit, og er orðið líklega slafneskt eða vendiskt, því ættin er frá Mecklenburg eða Pommern). Það var í manna minnum, sem lifðu í mínu ungdæmi, að menn voru teknir frá róðrum í besta veðri (t.a.m. Bjarni í Sviðholti) til að róa með stiftamtmannsfólkið út um allan sjó til skemmtunar, og hafði þá viljað til, þegar þeir áttu að vaða með frúna út í skipið, að þeir duttu í sjóinn viljandi með hana, svo hætt var við þá sjóferð. Þetta var ein af kvöðunum í þá daga.”
Bjarni í Sviðholti, sá sem Benedikt Gröndal nefnir var Halldórsson. Hann var lögréttumaður. Um eitt skeið var hann ráðsmaður Bessastaðaskóla. Bjarni var vel efnum búinn, talinn með ásjálegustu mönnum, segir Páll Eggert Ólason í æviskrám sínum. Vilji einhver vita deili á úrræðagóðum Álftnesingi, sem hafði ráð undir rifi hverju og kunni að koma sér undan kvöðum hefðarfólks, þá voru meðal afkomenda hans nafnkunnir lærdómsmenn og kraftajötnar. Bjarni Jónsson rektor Latínuskólans (Menntaskólans í Reykjavík) hét nafni afa síns, Bjarna í Sviðsholti. Móðir Bjarna rektors giftist síðar Birni Gunnlaugssyni yfirkennara. Hann var tengdafaðir Jens Sigurðssonar rektors. Af þessari ættarskrá má sjá að þeir bræður eru komnir af Bjarna í Sviðsholti, lögréttumanni, sem lét ekki kveðja sig frá verki um hábjargræðistímann til þess að sinna dyntum hefðarfólks.
Stiftamtmannsfrúin, sem vöknaði við sjóbaðið á Bessastöðum var systir Bardenfleths, sem var fulltrúi konungs við endurreisn Alþingis árið 1845. Faðir þeirra Bardenflethssystkina var flotaforingi, háttsettur og handgenginn við hirð Danakonunga. „Náðug frúin” leit mjög stórt á sig.” Eru um það margar sögur.
Ludvig Moltke stiftamtmaður og kona hans eignuðust dóttur meðan þau dvöldust hér. Dóttir stiftamtmannshjónanna var vatni ausin að viðstöddu hefðarfólki íslenskrar embættistignar. Guðfeðgin telpunnar voru Magnús Stephensen konferensráð, Ísleifur Einarsson etasráð, Sigurður Thorgrímssen landfógeti, Ólafur Finsen sýslumaður og eiginkonur þeirra síðat nefndu, Mad. Thorgrimsen og Mad. Finsen.
Athöfnin fór fram í september 1820. Stúlkan hlaut þrjú nöfn. Hún var skírð Augusta, Vilhelmine, Thorveiga. Þess má geta að Grímur Thomsen var fæddur sama ár.
„Ágústa Vilhelmína Þórveig var leikfélagi Ludvigs Knudsens, afa Óslvalds Knudsens. Til er bréf um saltfiskkaup Moltkes eftir að hann fluttist af landi brott. Þar fara kærar kveðjur milli „lille Ludvig” og Ágústu Vilhelminu Þórveigar.
Þegar L.E.C. Moltke er skipaður stiftamtmaður hér á árið 1819 hafði Grímur Jónsson, móðurbróðir Gríms Thomsens gert sér vonir um embættið. Það var hverjum manni augljóst að vonlaust var að keppa við umsækjanda svo göfugrar ættar, auk þess sem hann naut stuðnings vegna mágsemdar við ætt handgengna hirðinni.

Molkes

Skjaldarmerki Moltkers greifa.

Moltke stiftamtmaður hófst þegar handa við komuna til Íslands. Honum þótti ekki sæmandi að kúldrast í húsakynnum fyrirrennara sinna í embætti. (Þar sem verslun Haraldar Árnasonar var síðar). Fékkst samþykki konungs og stjórnvalda til þess að innrétta tugthúsið á Arnarhóli og breyta því í Konungsgarð. Eru um það margar frásagnir samtíðarmanna hve ötullega stiftamtmaðurinn ungi, með sinni „náðugu frú” gekk fram í innréttingum og framkvæmdum. Í fórum Landsbókasafns og Þjóðarbókhlöðu eru málverk, sem greifinn málaði sjálfur og sýna embættisbústaðinn, lækinn og næsta umhverfi.
Meðal starfsmanna Moltkes greifa meðan hann dvaldist hér var Björn Auðunsson Blöndal, síðar sýslumaður. Hann var skrifari í Konungsgarði um hríð. Um embættistíð Moltkes mætti rita langt mál, en hann hvarf héðan til embættisstarfa í Danmörku. Stefán Gunnlaugsson landfógeti var þá starfsmaður hans um skeið.
Jón Sigurðsson forseti lauk miklu lofsorði á Moltke fyrir góðviljaða fyrirgreiðslu. Greifinn var þá orðinn sendiherra í Stokkhólmi. Þangað fór Jón ásamt ÓIafi Pálssyni, síðar dómkirkjupresti, að kanna handrit í eigu Svía. Moltke hlutaðist til um að Jón fengi starfsaðstöðu í konungshöllinni, og fengi þar gott næði til starfa. Auk þess hélt hann þeim félögum dýrlega veislu þar sem fram voru bornir 12 réttir. Meðan Jón dvaldist í Svíþjóð gafst honum kostur á að hlýða á söngkonuna frægu, Jenny Lind.
Frú Moltke var góður vinur franska fjölfræðingsins Xavier Marmier, sem hingað kom árið 1836. Danska skáldið H.C. Andersen átti þar einnig alúð og vináttu að fagna.
Að lokinni dvöl í Stokkhólmi var Moltke skipaður sendiherra í París. Um embættisstörf hans þar, dvöl Gríms Thomsens í þjónustu Moltkes, velgengni og vonbrigði, leynimakk og milliríkjadeilur er mikil saga og áhugaverð. – Höfundur er fyrrverandi útvarpsþulur.

Heimildir:
-Mbl.is, 12. janúar 1997.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Ehrenreich_Christopher_Ludvig_Moltke
-https://timarit.is/page/1870397#page/n19/mode/2up

Bessastaðir.

 

Bessastaðir

Margt og mikið hefur verið rætt og ritað um Bessastaði og Bessastaðakirkju fyrrum. Hér á eftir verður drepið á fáeitt áhugavert.

Á vefsíðu forseta Íslands segir um sögu Bessastaða:

“Saga Bessastaða er hluti af íslenskri þjóðarsögu allt frá landnámstíð til vorra daga.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Rannsóknir fornleifafræðinga hafa leitt í ljós að fyrstu íbúar á Bessastöðum settust þar að á landnámsöld og búseta hefur verið þar óslitið síðan. Á þjóðveldisöld bjó þar skáldið og höfðinginn Snorri Sturluson eins og getið er um í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar. Eftir dauða Snorra sló Noregskonungur eign sinni á staðinn og síðari hluta miðalda sátu í konungsgarði á Bessastöðum æðstu fulltrúar erlends valds á Íslandi. Við einveldistöku Danakonungs breyttist hérlend stjórnsýsla talsvert og árið 1688 urðu Bessastaðir embættisbústaður fulltrúa konungs, landfógeta og amtmanns allt þar til yfirstjórn landsins fluttist til Reykjavíkur.

Bessastaðir 1720

Bessastaðir 1720.

Bessastaðastofa var byggð 1761-66, í amtmannstíð Magnúsar Gíslasonar. Árið 1805 fluttist Hólavallaskóli, eini lærði skóli landsins, til Bessastaða og hlaut þá heitið Bessastaðaskóli. Hann starfaði þar til 1846 að hann flutti til Reykjavíkur; á þeim árum sóttu skólann m.a. Fjölnismenn og aðrir leiðtogar sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og þar sleit skáldið Benedikt Gröndal barnsskónum eins og hann lýsir í Dægradvöl. 1867 eignaðist skáldið og þingmaðurinn Grímur Thomsen Bessastaði og bjó þar tæpa tvo áratugi. Eftir að hann lést árið 1896 keypti Landsbanki Íslands Bessastaði, Lambhús og Skansinn af ekkju Gríms, Jakobínu Jónsdóttur. Skúli Thoroddsen ritstjóri og alþingismaður og kona hans Theodóra Thoroddsen skáldkona keyptu Bessastaði 1898 og bjuggu þar rausnarbúi með börnum sínum tólf til 1908 og áttu jörðina þar til Skúli lést árið 1916. Jón H. Þorbergsson bóndi bjó á Bessastöðum ásamt konu sinni, Elínu Vigfúsdóttur, á árunum 1917-28 og því næst hjónin Björgúlfur Ólafsson læknir og Þórunn Benediktsdóttir 1928-40. Þá keypti Sigurður Jónasson forstjóri Bessastaði og hann afhenti síðan íslenska ríkinu staðinn að gjöf árið 1941 svo þar mætti verða bústaður ríkisstjóra og síðar forsetasetur.”

Bessastaðir

Bessastaðir.

Í grein í Morgunblaðinu í febrúar árið 2001 segir um Bessastaði á Álftanesi og Bessastaðakirkju:

“Kirkjan, sagan og þjóðin hafa verið rauði þráðurinn í hugvekjunum síðustu misserin. Stefán Friðbjarnarson staldrar við þann söguríka stað, Bessastaði á Álftanesi.
Hvað hjálpar þér í heimsins glaumi,
að heiminum verðirðu´ ekki að bráð?
Þá berast lætur lífs með straumi,
og lystisemdum sleppur taumi,
– hvað hjálpar, nema Herrans náð?
“Og því er hver einn bezt til ferða búinn,
ef bilar hann ei vonin eða trúin”. – (Grímur Thomsen.)

Bessastaðir

Bessastaðir 1720.

Sérhver sæmilega lesinn Íslendingur veit að Ingólfur Arnarson festi fyrstur norrænna manna bú hér á landi. Fjölmargir en færri þó vita að bróðursonur hans, Ásbjörn Özurarson, “nam land milli Hraunholtslækjar ok Hvassahrauns, Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum”, eins og segir í Landnámu. Enginn veit með vissu hvar Skúlastaðir vóru. Getgátur nefna m.a. Bessastaði og Garða, höfuðbýli á svæðinu um aldir. Rannsóknir á mannvistarleifum á Bessastöðum benda sterklega til þess að þar hafi bú verið þegar á landnámsöld (870-930). Ummerki um rask fundust rétt undir landnámsgjóskunni og eru frá 9. öld (Anna Ólafsdóttir Björnsson: Álftaness saga – 1996).

Bessastaðir

Bessastaður 1722.

Bessastaðir tengjast Íslandssögu flestum stöðum sterkar. Hærra rísa Þingvellir, Skálholt, Hólar og Reykjavík. Staðurinn komst í eigu eins virtasta höfðingja Sturlungaaldar, sagnameistarans í Reykholti, Snorra Sturlusonar. Þar dvaldi hann un lengri og skemmri tíma, sbr. Sturlungu. Þar var jafnan annálað höfðingjasetur. Til Bessastaða rekja ýmsir örlagatburðir í sögu þjóðarinnar rætur, illir sem góðir. Þar sátu “kóngsins valdsmenn” um margra alda skeið. Þar sátu þeir þegar sjálfstæðis- og trúarhetjan Jón biskup Arason og synir hans tveir vóru hálshöggnir. Þangað var böðull þeirra, Jón Ólafsson, sóttur. Þar var latínuskóli (prestaskóli) 1805-1846.

Grímur Thomsen

Grímur Thomsen.

Þar fæddist skáldjöfurinn Grímur Thomsen árið 1820. Þar bjó hann myndarbúi eftir nám og farsælan embættisferil í Kaupmannahöfn og sinnti skáldskap og stjórnmálum. Og þar lézt hann árið 1896. Bessastaðir eru nú íslenzkt þjóðhöfðingasetur, bústaður forseta íslenzka lýðveldisins, verndara kirkjunnar.

Höfuðbýlin, Bessastaðir og Garðar, settu um aldir svip á nágrenni sitt. Í bókinni “Garðabær – byggð milli hrauns og hlíða” (samantekt í ritstjórn Erlu Jónsdóttur 1992) segir m.a.: “Á síð-miðöldum var nærvera kirkju og krúnu ekki jafn yfirþyrmandi í neinni þingsókn sýslunnar eins og í Hausastaðaþingsókn. Bæði var að hvergi vóru menn í eins mikilli nálægð við valdsmenn konungs og á Bessastöðum og óvíða bar jafn mikið á jarðasöfnun kirkju og krúnu og þar.” Samkvæmt jarðamati 1695 átti krúnan tilkall til 26 jarða (af 38 lögbýlum í hreppnum) og 10 jarðir vóru kirkjujarðir. “Aðeins ein jörð, Setberg, var í einkaeigu, auk þess sem jarðarpartur úr Ási ofan við Hafnarfjörð var í einkaeign. Setberg hefur reyndar ein jarða í Áltaneshreppi þá sérstöðu að hafa aldrei komið undir kóng eða klerk,” segir í tilvitnaðri bók um Garðabæ. Sá munur var á kirkju- og konungsjörðum að þær fyrrnefndu heyrðu undir innlenda menn.

Bessastaðir

Bessastaðir – kort 1770.

Bessastaðakirkju er fyrst getið í kirknaskrá Páls biskups árið 1200. Þar er og getið Garðakirkju, sem talin var veglegri. Sú síðarnefnda heyrði kirkjuvaldinu. Hin var fyrst bændakirkja en “síðan kirkja höfuðvígis konungsvaldsins um margra alda skeið”, segir í Álftaness sögu. Bessastaðakirkja sem enn stendur var reist árin 1794-1796, en hefur oft verið betrumbætt síðan. Hún setur ríkulegan svip á íslenzka forsetasetrið: Tákn um tengsl kirkju og þjóðar í þúsund ár.

Eitt áttu allar kynslóðir og byggðir Íslands sammerkt: kirkju í miðri sveit, sem var miðstöð mannfunda, menningar og trúar sóknarbarnanna. Kirkjan og þjóðin, kirkjan og kynslóðirnar, kirkjan og einstaklingar hafa átt samleið í þúsund ár – frá vöggu til grafar sérhvers Íslendings. Þessi tryggðabönd kirkju og þjóðar, kirkju og einstaklinga, þarf að treysta og tryggja til langrar framtíðar. Kirkjan er kjölfestan í þjóðarskútunni. Kristinn boðskapur áttavitinn.”

Í Morgunblaðinu í október 2005 segir um Bessastaði á Álftanesi:

“Margir þættir þjóðarsögunnar renna saman á Bessastöðum á Álftanesi, þar sem nú er embættisbústaður forseta Íslands. Sveinn Guðjónsson rifjar upp sögu staðarins, sem nær allt frá landnámsöld til okkar daga.
Saga Bessastaða á Álftanesi er svo samofin sögu og örlögum íslensku þjóðarinnar að þar verður vart greint á milli og líklega kemst ekkert íslenskt höfuðból þar nærri í samjöfnuði. Bessastaðir hafa bæði verið í eign einstakra manna og ríkiseign. Þeir hafa verið stjórnarsetur, kirkjustaður og skólasetur og þar hefur verið rekin prentsmiðja með bóka- og blaðaútgáfu. Bessastaðir hafa verið í eign fræðimanna og skálda, eins og Snorra Sturlusonar og Gríms Thomsen. Þar hafa setið landstjórnarmenn og fyrirmenn, svo sem höfuðsmenn og amtmenn, fógetar, ríkisstjóri og forsetar. Þar hafa starfað merkir skólamenn eins og Hallgrímur Scheving og vísindamenn á borð við Sveinbjörn Egilsson og Björn Guðlaugsson. Þar hafa stundað skólanám ýmsir öndvegismenn, og skal ástmögur þjóðarinnar, Jónas Hallgrímsson, nefndur í þeim hópi.

Ýmis atvinnustarfsemi hefur farið fram á Bessastöðum og þar gerðar tilraunir, svo sem um fjárrækt og fálkafang, útræði og búskap, og þar var eitt sinn rekin ullarverksmiðja. Á Bessastöðum voru gerðar veðurathuganir og rekin rannsóknarstöð í stjörnuathugun. Þar fór fram læknakennsla og rekin lyfjabúð. Hinir ólíklegustu þættir þjóðarsögunnar hafa fléttast saman á Bessastöðum sem best sést á því að þar var eitt sinn fangelsi sakamanna og jafnframt leiknir fyrstu sjónleikir, sem leiknir voru á Íslandi, að því er best er vitað.

Saga Bessastaða er ekki eingöngu saga höfuðbóls og menntaseturs. Vegna embættisstöðu Bessastaðabænda um langan aldur voru örlög og lífskjör þjóðarinnar nátengd þessu höfuðbóli. Það er saga kúgunar, eymdar og yfirtroðslu. Og vegna embættistengsla Bessastaðamanna við dönsku krúnuna fyrr á öldum ber saga Bessastaða vitni um erlenda ásælni og yfirdrottnun. Á sama hátt má segja að hlutverk Bessastaða á okkar tímum, sem embættisbústaður forseta Íslands, sé tákn um sjálfstæði þjóðarinnar og þjóðlegt viðnám gegn ásælni erlends valds.

Bessastaðir

Bessastaðir – fornleifarannsóknir.

Fornleifarannsóknir hafa leitt í ljós að búseta hefur verið á Bessastöðum allt frá landnámsöld. Álftanesið var í landnámi Ingólfs Arnarsonar, en hvergi verður ráðið af heimildum hver sá Bessi var, sem Bessastaðir eru kenndir við. Þegar endurbætur hófust á Bessastaðastofu árið 1987 kom í ljós að undir henni voru allt að 3,5 metra þykk mannvistarlög og hafa þar fundist minjar um fyrstu búsetu manna þar, meðal annars leifar af tveimur stórum skálum, eldhús og búr, jarðhús, útihús og garðar. Af fornleifarannsóknunum má ráða að Bessastaðir hafi verið allstórt býli allt frá upphafi. Bæjarhóllinn er einn sá stærsti á Íslandi, rúmlega 50 metra breiður og 150 metra langur, og hefur hann að geyma mikilvægar og áþreifanlegar upplýsingar um þróun búsetu á Bessastöðum.

Bessastaðir

Bessastaðasel í Lækjarbotnum.

Bessastaða er ekki getið í rituðum heimildum fyrr en um tveimur öldum eftir að búseta þar hófst. Það er ekki fyrr en á Sturlungaöld sem Bessastaðir fara að koma verulega við sögu, en þá voru þeir í eigu skáldsins og stórhöfðingjans Snorra Sturlusonar. Ekki er vitað með vissu hvernig Snorri hefur eignast jörðina, en hann var mikill jarðeigandi og leitaði víða fanga í þeim efnum og sótti þá oft fjármálin meira af kappi en rétti, svo sem farið hefur með fleirum bæði fyrr og síðar, en Sturlungaöldin einkenndist af hatrammri baráttu nokkurra höfðingjaætta um auð og völd í landinu.

Miðstöð konungsvaldsins
Eftir fall Snorra Sturlusonar taldi Hákon gamli, Noregskonungur, sig eiga tilkall til arfs eftir Snorra og sló eign sinni á staðinn. Þannig urðu Bessastaðir miðstöð konungsvaldsins á Íslandi, og um leið uppistaða í jarðeignum og jarðeignavaldi konungs hér á landi. Sátu umboðsmenn konungsvaldsins jafnan á Bessastöðum og á löngum kafla Íslandssögunnar voru Bessastaðir tákn æðsta valdsins í þjóðfélaginu.
Bessastaðir komu mjög við sögu siðaskiptanna enda stóð konungsvaldið að hinum nýja sið og umboðsmenn þess veittust gegn biskupunum Ögmundi Pálssyni og Jóni Arasyni, sem þrjóskuðust við. Siðbótarmenn konungs fóru í herferðir frá Bessastöðum og þar voru lögð á ráðin um aftöku Jóns Arasonar og sona hans.

Henrik Bjelke

Henrik Bjelke.

Af þeim umboðsmönnum erlenda konungsvaldsins sem sátu á Bessastöðum varð Henrik Bjelke, höfuðsmaður og lénsmaður, einna nafntogaðastur, enda gerðust í hans tíð einhverjir örlagaríkustu atburðir íslandssögunnar, sem tengjast Bessastöðum. Það voru hyllingareiðarnir 1662, þegar Friðriki konungi þriðja voru svarnir erfða- og einveldiseiðar. Við einveldistökuna urðu ýmsar breytingar á íslenskri stjórnsýslu og var hinn forni konungsgarður á Bessastöðum þá gerður að embættisbústað tveggja æðstu umboðsmanna konungs hér á landi, landfógeta og amtmanns, þar til landsstjórnin fluttist til Reykjavíkur á nítjándu öld.

Árið 1867 komust Bessastaðir í eigu skáldsins og alþingismannsins Gríms Thomsen, en hann fæddist þar árið 1820. Grímur bjó á Bessastöðum ásamt konu sinni Jakobínu Jónsdóttur, þar til hann lést árið 1896, en þá keypti Landsbanki Íslands jörðina. Tveimur árum síðar eignuðust hjónin Theodóra Thoroddsen skáldkona og Skúli Thoroddsen ritstjóri og þingmaður Bessastaði. Síðar bjuggu þar Jón H. Þorbergsson bóndi (1917-28) og Björgúlfur Ólafsson læknir (1928-40) og árið 1940 keypti Sigurður Jónasson forstjóri Bessastaði. Þegar embætti ríkisstjóra var stofnað var nokkur óvissa um hvar ríkisstjóri skyldi hafa aðsetursstað og kom þá upp sú tillaga að hann sæti á Bessastöðum. Hermann Jónasson, þáverandi forsætisráðherra, spurðist fyrir um það hjá eiganda jarðarinnar hvort hann vildi selja staðinn til þessara nota og bauðst Sigurður þá til að afhenda ríkinu Bessastaði að gjöf, og var því boði tekið. Þetta var árið 1941, en Bessastaðir hafa síðan verið aðsetur forseta Íslands frá stofnun lýðveldisins 1944.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Bessastaðakirkja hefur vissa sérstöðu í íslenskri kirkjusögu að því leyti að hún stóð á höfuðbóli, en var ekki höfuðkirkja. Bessastaðir voru veraldlegt höfuðból, en ekki kirkjulegt og stundum stóð þar stríð milli hins veraldlega og andlega valds í afstöðunni til kirkjunnar.
Ekki verður rakið með vissu hvenær kirkja var fyrst sett á Bessastöðum, en líklegt er að það hafi verið nokkuð snemma í kristni hér á landi og eru elstu heimildir um kirkju þar frá árinu 1200. Bessastaðakirkja hefur í upphafi verið bændakirkja, en í elsta máldaga hennar, frá 1352, segir að þar skuli vera “kvengildur ómagi úr kyni Sveinbjarnar”. Er þar líklega átt við Sveinbjörn Ólafsson, sem var fimmti ættliður frá landnámsmanninum Ásbirni Özurarsyni, sem bjó á þessum slóðum á 11. öld.

Nokkrar tilraunir voru gerðar til að efla kirkjuna á Bessastöðum og hefja hana til vegs og virðingar, en það gekk illa eftir og gekk á ýmsu með viðhald hennar. Í byrjun 17. aldar var hún orðin hrörleg og var þá ný timburkirkja reist, allstór. Hún var þó vanviðuð og illa smíðuð og fauk í ofviðri 1619. Þá var reist þar torfkirkja, sem stóð alllengi með viðgerðum og var hún meðal annars timburþiljuð. Henrik Bjelke höfuðsmaður lét á sinni tíð gera við kirkjuna og gaf hann henni stóra klukku.

Kristján sjöundi

Kristján konungur söundi.

Kristján konungur sjöundi ákvað svo að láta reisa steinkirkju á Bessastöðum og var leitað frjálsra samskota um allt land og einnig í Danmörku og Noregi, auk þess sem konungur lagði fram fé til kirkjusmíðinnar. Við byggingu kirkjunnar var hafður sá háttur á að hlaða múrveggi nýju kirkjunnar utan um gömlu kirkjuna og voru múrveggirnir hafðir mjög þykkir, rúmur metri, úr hlöðnu, kölkuðu grjóti. Hin nýja steinkirkja var vígð 1796 og stendur enn og er með elstu steinbyggingum landsins. Smíði turnsins lauk þó ekki fyrr en 1823. Breytingar voru gerðar á innviðum Bessastaðakirkju á árunum 1945 til 47 og steint gler var sett í gluggana árið 1956. Þá fór gagnger viðgerð fram á Bessastaðakirkju árið 1998.

Bessastaðastofa

Bessastaðir

Bessastaðir – tákn valdsins.

Húsnæðið á Bessastöðum þótti ekki alltaf upp á marga fiska og þótt ýmis hús hefðu verið reist þar í aldanna rás hafði sjaldnast verið vandað til verka og oft byggt af vanefnum. Það var ekki fyrr en Magnús Gíslason, fyrsti íslenski amtmaðurinn á Bessastöðum, kom til sögunnar að rofa tók til í húsnæðismálum þessa forna höfuðbóls. Þegar hann átti að fara að setjast þar að, fyrst settur amtmaður 1752 og aftur þegar hann var skipaður 1757, þótti honum í bæði skiptin að ekki væru íbúðarhæf húsin á Bessastöðum. Danska stjórnin réðst þá í byggingu tveggja steinhúsa samtímis, það er embættisbústaðar Bjarna Pálssonar landlæknis á Nesi við Seltjörn og Bessastaðastofu, embættisbústaðar Magnúsar Gíslasonar amtmanns. Bessastaðastofa var reist á árunum 1761 – 66 og þótti hið veglegasta hús, 33 álnir og 3 tommur að lengd, 16 álnir og 16 tommur á breidd og nálægt 5 álnum á hæð og veggir hlaðnir úr tilhöggnum kalklímdum grásteini. Verulegar breytingar voru gerðar á húsinu er ríkisstjóri fékk það til umráða 1941 og aftur þegar húsið var endurbyggt á árunum 1989-1990.
Bygging Bessastaðastofu var að vissu leyti tákn um nýja tíma í landinu. Furðulegt má teljast hversu lengi hafði dregist að koma upp vönduðu og varanlegu húsnæði á slíku höfuðbóli sem konungsgarðinum á Bessastöðum. Þegar Bessastaðastofa loks reis var hlutverk staðarins sem stjórnarseturs á enda runnið. En þá reis þar annað og ekki ómerkara setur, íslenskt menntasetur, sem mikill ljómi hefur stafað af í vitund íslensku þjóðarinnar allt fram á okkar dag. Sú saga verður ekki rakin hér enda efni í aðra og lærðari grein.”

Í áhugaverðu riti Júlíusar Ó. Einarssonar um Bessastaði – Sögubrot – frá árinu 2021 og finna má á Netinu má m.a. lesa eftirfarandi:

Formáli höfundar

Júlíus Ó. Einarsson

Júlíus Ó. Einarsson.

“Hér er ekki sögð saga Bessastaða því til þess er ritið of lítið en sagan stór, enda orðaði Árni Óla rithöfundur það þannig að saga Bessastaða væri saga þjóðarinnar í stórum dráttum.
Hér fara á eftir stuttar frásagnir af ýmsum þáttum úr sögu Bessastaða, því auðvitað er ekki pláss fyrir mjög ítarlega umfjöllun um hina ótal ólíku atburði sem marka meira en þúsund ára ábúð. Mér tekst þó vonandi að gefa nokkuðskýra mynd af staðnum og vægi hans í sögu þjóðarinnar. Ég hvet lesandann um leið til þess að leita sér meiri fróðleiks um allt það sem kann sérstaklega að vekja áhuga hans á komandi blaðsíðum. Sums staðar vísa tenglar á vefsíður með efni sem bætir drjúgmiklu við fróðleikinn sem hér er að finna. Þá er líka heimildaskrá þar sem má finna megnið af þeim heimildum sem stuðst er við. Bókasöfn landsins geyma flestar heimildirnar og í þeim ritum eru áhugaverðar, fróðlegar og skemmtilegar frásagnir sem bæta heilmiklu við þá mynd sem hér er dregin upp. Í fyrsta kaflanum er tæpt lauslega á sögu Bessastaða til þess að lesandinn fái heildaryfirsýn en síðari kaflar segja frá ýmsu markverðu ásamt því sem fléttað er inn ýmsu forvitnilegu úr þjóðsögum. Byggt er að mestu á rituðum heimildum en líka stuðst við áður óbirt efni úr fórum mínum. Fyrir utan fróðleiks- og skemmtigildi þessa rits, er það ætlunin að upplýsingar um örnefni, sögustaði, rústir, fuglalíf og almennt náttúrufar glæði göngutúrinn lífi fyrir þá sem kjósa að fara á tveimur jafnfljótum um Bessastaðanes og opni þeim sýn á það sem annars kann að vera hulið á þessum sögulega stað.

Júlíus Ó. Einarsson

Rit Júlíusar Ó. Einarssonar um Bessastaði á Álftanesi – Sögubrot.

Lítil áhersla er hér á Bessastaði sem aðsetur forseta Íslands en fyrir utan það sem fram kemur í fjölmörgum skrifuðum heimildum um forseta og Bessastaði, er fróðleik um efnið að finna á vefsíðu forsetaembættisins. Ég starfaði á Bessastöðum um tæplega fimm ára skeið frá ársbyrjun 2010 til hausts 2014 og hafði búsetu á staðnum á þeim tíma. Ekki varð komist hjá því að saga Bessastaða ásamt húsum og minjum vektu áhuga minn. Meðal verkefna minna á Bessastöðum var að taka á móti gestum forseta, sýna staðarhúsin og munina, og segja frá. Meðfram þeirri reynslu safnaðist mest af þeim fróðleik sem birtist hér lesandanum. Ég fékk snemma þá hugmynd að opna Bessastaði fyrir almenningi en áður höfðu aðeins gestir forseta og takmarkaðir hópar átt kost á innliti. Þáverandi forseti tók afar vel í hugmyndina og mér var falið að skipuleggja, undirbúa og hafa heildarumsjón með framkvæmdinni. Í kjölfarið var Bessastaðastofa opnuð almenningi 10. febrúar 2012 í tengslum við Safnanótt. Síðan hefur verið kappkostað að gefa almenningi færi á að heimsækja staðinn og fræðast um hann um leið og gengið er um staðarhúsin og nánasta umhverfi.
Bessastaðir eru réttnefnd þjóðareign. Í mínum huga er saga Bessastaða jafn mikil þjóðareign og staðurinn sjálfur, sem er ástæða þess að rafrænni útgáfu bókarinnar er dreift án endurgjalds. Vonandi verður hún til gamans og gleði öllum þeim sem vilja kynna sér efnið eða heimsækja Bessastaði með gönguferð eða innliti.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja

Í Bessastaðakirkju.

Víst þykir að kirkja hafi staðið á Bessastöðum allt frá 12. öld og jafnvel fyrr. Ekki er víst að þar hafi nokkru sinni setið prestur en lengst af var kirkjunni þjónað frá Görðum á Álftanesi. Líkt og reyndin var með önnur hús á Bessastöðum um margra alda skeið, var lengi vel illa staðið að kirkjubyggingum staðarins og kirkjum illa haldið við. Jafnvel var það stundum svo líka að kirkjan var höfð til annarra og jarðbundnari nota en helgihalds en meðal annars lýsir Sauðlauksdalsannáll því árið 1751 að prestshjónin á Bessastöðum „brúkuðu Bessastaðakirkju fyrir hesthús og svínabæli, glerglugga til kálgarðs, en fjalir til eldiviðar“.
Framan af voru kirkjur á Bessastöðum reistar úr timbri og jafnvel aðeins af torfi og grjóti. Ástand kirkjubygginga var aldrei beysið og hver kirkjan reist á eftir annarri. Timbur var flutt til Bessastaða til byggingar kirkju árið 1617 en árið áður hafði konungur tilkynnt á Alþingi að lagt yrði gjald á allar kirkjur landsins sem renna skyldi til smíðinnar. Kirkjan sem byggð var þótti stór og til þess tekið í annálum hve háreist hún var en þess jafnframt getið að enga hefði hún bita „hvað byljavindur íslenzkur vel sá“, eins og segir í Vatnsfjarðarannál yngri og fer merking þeirra orða ekki milli mála. Enda hrundi Bessastaðakirkja til grunna í stormi árið 1619. Önnur var svo byggð upp úr viðum hinnar föllnu árið eftir og hafði sú torfveggi og torfþak. Sú kirkja laskaðist svo eða hrundi árið 1624 þó að annálar nefni ekki hvort það var af völdum veðurs eða þess að byggingin var of veikburða og reis ekki undir sér sjálf.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja og Bessastaðastofa fyrrum.

Byrjað var að reisa steinkirkjuna sem nú stendur árið 1777. Byggingartíminn var afar langur, enda varð margt til að tefja smíðina og kirkjan var loks vígð árið 1795. Kirkjuturninn stóð um hríð lægra en sjálfir kirkjuveggirnir og var ekki lokið við smíði hans fyrr en árið 1823. Einhver áhöld voru um það lengi vel hvort turninn skyldi byggður til stjörnuskoðunar eða til að þjóna sem hefðbundinn kirkjuturn. Hið síðara varð niðurstaðan og efri hluti turnsins byggður í þá mynd sem hann er í dag en vanefnin eru augljós ef hann er skoðaður innanvert.
Mörgum þykir Bessastaðakirkja einkar fögur bygging og að hún samsvari sér vel, enda eru hlutföll hennar þannig að breidd og lengd byggingarinnar ásamt breidd og hæð kirkjuturnsins eru allt nokkurn veginn í hlutföllunum 1:2. Byggingin er teiknuð í svokölluðum ferskeytum, sem voru ríkjandi í hönnun dómkirkja á miðöldum og voru í hávegum í guðfræði þeirra tíma. Ekki er vitað fyrir víst hver teiknaði Bessastaðakirkju en víst er að hann var undir sterkum áhrifum þessarar hefðar.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Kirkjan var byggð utan um timburkirkjuna sem síðast stóð og var orðin afar hrörleg. Aðföng til byggingarinnar sem ekki voru fáanleg hérlendis, svo sem viður og kalk, var flutt sjóleiðina frá Kaupmannahöfn og skipað á land á bakka Bessastaðatjarnar. Grjót það sem notað var í undirstöður og veggi kirkjunnar var annarsvegar hraunsteinar úr Gálgahrauni og grágrýti úr Garðaholti, sem flutt var á pramma yfir Lambhúsatjörn.
Um það leyti sem smíði turnsins var að ljúka, var kirkjan þegar farin að gjalda fyrir viðhaldsleysi og Árni Helgason prófastur í Görðum sagði um hana árið 1843 af því tilefni að hún væri sú vesælasta í hans prófastsdæmi. Áfram hrörnaði byggingin, hún fór að leka og jafnvel hrundi loftið í kórnum að hluta eftir að staðurinn var kominn í eigu Gríms Thomsen. Raunar segir Benedikt Gröndal í Dægradvöl að Grímur hafi notað kirkjuna meðal annars til þess að þurrka þvott. Það var ekki fyrr en eftir að Skúli Thoroddsen eignaðist Bessastaði, að ráðist var í nauðsynlegt og löngu tímabært viðhald á staðarhúsunum.
Ýmsar breytingar voru gerðar í gegnum tíðina á innréttingum Bessastaðakirkju en líka á ytra útliti. Náðu þær meðal annars til þakkvista, glugga og jafnvel var grafhýsi byggt utan í norðurvegg kirkjunnar á árunum 1784-1786, og það síðar rifið. Enn sést móta fyrir dyraopinu sem var milli kirkju og grafhýsis í steinhleðslunni utan á norðurveggnum. Þá voru líka lengi vel útidyr á syðri langvegg kirkjunnar. Ef til vill má segja að róttækustu breytingarnar á kirkjunni frá upphafi, séu útskipti á öllum innviðum hennar og gólfi, sem fram fóru á árunum 1946-48. Þessar breytingar voru afar umdeildar á sinni tíð og eru jafnvel enn. Í bókinni „Steinhúsin gömlu á Íslandi“ er talað um framkvæmdina
sem „býsna harkalegar viðgerðir og breytingar“. Illa mun hafa verið gengið um gömlu innviðina sem voru rifnir innan úr kirkjunni og þeir látnir liggja úti í öllum veðrum þar til ungur fornleifafræðingur fór að boði Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar til þess að líta eftir þeim. Hann kom því til bjargar sem bjargað varð og margt var flutt til geymslu hjá Þjóðminjasafninu. Þessi fornleifafræðingur var Kristján Eldjárn, sem sjálfur varð síðar forseti lýðveldisins og sat sem slíkur á Bessastöðum árin 1968-1980.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja – steindur gluggi.

Mörgum sérfræðingnum um byggingarlist og byggingasögu þykir að steindir gluggar kirkjunnar séu gróft lýti í samhengi byggingarinnar þó að þeir séu að sönnu afskaplega fallegir gripir í sjálfu sér. Sagt hefur verið jákvætt um gluggana að þeir hylji það þó hvernig kirkjan var leikin að innan við endurbæturnar á fimmta áratugnum. Steindu gluggarnir komu þannig til að Ásgeir Ásgeirsson valdi sér þá sjálfur sem sextugsafmælisgjöf frá ríkisstjórn Íslands. Listamennirnir Guðmundur Einarsson frá Miðdal og Finnur Jónsson teiknuðu gluggana í samráði við forsetann og þeir smíðaðir í Englandi. Í dag er upphækkun í gólfi einu skilin milli kórs og kirkju. Fremst er lítill söngpallur og orgel, kirkjubekkir og predikunarstóll eru einfaldir að gerð og nokkuð hefðbundnir, teiknaðir af Guðjóni Samúelssyni húsameistara. Predikunarstóllinn er skorinn út af Ríkarði Jónssyni. Innst í kirkjunni á austurvegg hanga minningarskildir um látna forseta og að auki eru tveir stórir legsteinar múraðir upp á sitthvorn langvegginn, þeirra Magnúsar Gíslasonar amtmanns og Páls Stígssonar hirðstjóra.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja – altaristafla.

Altaristafla kirkjunnar er máluð af Muggi (Guðmundi Thorsteinssyni). Hún er eign Listasafns Íslands en er lánuð kirkjunni. Sé grannt skoðað, má telja víst að Muggur hafi aldrei lokið fyllilega við verkið.
Ýmsir áhugamenn um Bessastaði eru áfram um að færa kirkjuna að einhverju leyti til eldra horfs. Tæplega er raunhæft að ætla að færa innviði til upprunalegs orfs og því síður að notast við eldri viði og búnað sem hefur varðveist að einhverju leyti. Nokkrar útfærslur á endurgerð koma til greina, sem allar væru fallnar til þess að sýna kirkju- og staðarsögunni sóma. Ekki er víst að af slíkum hugmyndum verði og þeir sem eru því mótdrægir leiða rök að því að hvert tímabil í notkunarsögu kirkjunnar sé jafn rétthátt öðru og allar breytingar í þessa veru myndu draga úr notagildi kirkjunnar til daglegra athafna.”

Síðasti valdsmaðurinn

Bessastaðakirkja

Skjaldarmerki Trampe greifa á turni Bessastaðakirkju.

Deilt hefur verið um skjaldarmerkið efst framan á Bessastaðakirkju. í Riti Júlíusar segir: “Trampe greifi, sem hafði verið dómari á Lálandi, var skipaður amtmaður á Íslandi 1804, eftir að Ludvig Erichsen kammerráð lést fyrr á því sama ári. Trampe vék sjálfviljugur af Bessastöðum og settist að í Reykjavík til þess að latínuskólinn gæti komið sér þar fyrir og hafið skólastarf.
Ofan við efri gluggann á framhlið turns Bessastaðakirkju er innfelldur skjöldur úr sandsteini. “Skjaldarmerki ættar Trampe greifa er mótað í skjöldinn en hann var stiftamtmaður þegar smíði turnsins var lokið árið 1823.”
Fékk hins vegar eftirfarandi svar frá Karli Sigurbjörnssyni, fyrrverandi biskupi Íslands: “Blessaður og sæll. Þú varst að spyrja um skjaldarmerkið á Bessastöðum, það mun vera merki Moltkes greifa sem var stiftamtmaður hér þegar turnsmíðinni var lokið, 1823. Bestu kveðjur. – Karl Sigurbjörnsson”

Sjá framhaldið um skjaldarmerkið HÉR.

Rit Júlíusar um “Sögubrot Bessastaða” má finna HÉR.

Heimild:
-https://www.forseti.is/sagan/bessasta%C3%B0ir/
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1042945/
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/587259/
-https://juliuseinarsson.files.wordpress.com/2021/01/bessastadir-sogubrot-3.pdf

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja.

Bessastaðakirkja

Í Mbl.is 12. janúar 1997 er fjallað um Moltke greifa á Bessastöðum.

Molthes

Moltkes greifi.

Nýjasta hefti danska tímaritsins Heraldisk Tidskrift er fróðleg grein, sem fjallar um skjaldarmerki aðalsættar, sem rekur kyn sitt til furstadæmisins Mecklenburg. Aðalsætt þessi kemur víða við sögu Þýskalands, Danmerkur og Íslands. Hér er um að ræða fjölda nafnkunnra manna, sem kenndu sig við Moltke, en höfðu í skjaldarmerki sínu þrjá fugla, af ætt orra. Svo sem fram kemur í grein Pouls Holtstein í tímaritinu sem til er vitnað, hefir Moltekættin tengst ýmsum öðrum aðalsættum og birtist með grein höfndar fjöldi tilbrigða við upprunalegt skjaldarmerki Moltkeættarinnar. Því hefir lítt verið haldið á loft, að einnig hér á landi hefir skjaldarmerki Moltkeættar lengi gnæft á sögufrægum stað, án þess að sérstök athygli væri á því vakin. Hér er átt við Bessastaði. Yfir dyrum Bessastaðakirkju er mótað skjaldarmerki E.C.L. Moltkes stiftamtmanns. Hann gegndi því embætti um fjögurra ára skeið. Hyggjum nánar að því síðar.

Margur ættarlaukur

Moltkes

Ættarsetur Molkets greifa.

Íslendingar hafa átt mikil og margvísleg samskipti við nafnkunna menn, sem teljast til Moltkeættar. Svo sem geta má nærri er þar margur ættarlaukur, en ekki feta gangvarar þeirra og gæðingar allir sömu braut. Knud Zimsen borgarstjóri, séra Bjarni Jónsson vígslubiskup og séra Friðrik Friðriksson í KFUM hefðu allir nefnt Joachim Moltke, hirðmeistara Friðriks prins síðar konungs, sem öðling á miklum ættarmeiði.

Einar Olgeirsson foringi kommúnista hafði kynnst Kai Moltke, forystumanni danska kommúnistaflokksins. Einar segir um hann: “Kai Moltke var af hinni frægu og tignu Moltkeætt og var þess vegna kallaður rauði greifinn. Hann var afkastamikill rithöfundur.” Við þessa lýsingu Einars má bæta því að skv. frásögn Kai Moltkes átti Stefán Pjetursson síðar þjóðskjalavörður fótum fjör að launa, er hann leitaði ásjár danska sendiráðsins og óskaði eftir því að vera fluttur heim frá Moskvu. Hann óttaðist ofsóknir réttlínumanna.

Molkes

Skjaldarmerki Moltkers greifa.

Þá deildu menn hart um það hverjir væru höfuðstoð borgarastéttarinnar. Seinna kom í ljós að þeir voru það allir með tölu.

Í frásögn Knuds Zimsens borgarstjóra kemur fram að Joachim Moltke greiðir götu margra fátækra stúdenta og veitir sumum þeirra fjárhagslega aðstoð.

“Moltke bjó í stórri höll. Hann hafði gaman af að safna til sín kristilega sinnuðum stúdentum, og einu sinni í mánuði hverjum mætti hjá honum stór hópur slíkra manna. Þegar þangað var komið, var haldin bænasamkoma, en að henni lokinni bauð hann öllum til matar. Moltke var vel menntaður og víðlesinn, og báru viðræðurnar í hinum stóra sal hans greinileg merki þess.”
Frásögn séra Bjarna Jónssonar af heimsókn í höll Moltkes er með sérstæðum blæ. Hún ber öll einkenni séra Bjarna, enda kann sá sem hlýðir að hlusta og segja frá. Matthías Johannessen ritstjóri skráir frásögn séra Bjarna: “Ég hef stundum verið spurður, hvað mér hafi komið mest á óvart fyrstu vikurnar í Kaupmannahöfn. Ég held það hafi verið höll Moltkes greifa í Breiðgötu. Olfert Richard sagði við mig, þegar ég hafði dvalist nokkurn tíma í Kaupmannahöfn: “Nú hef ég boð til greifa Moltke og við fylgjumst þangað að.” Ég verð auðvitað undrandi, en þó fullur af tilhlökkun. Og hún breyttist í fögnuð, þegar ég gekk inn, því höll Moltkes greifa var fínasti staður, sem ég hafði séð á ævi minni, og langt hafin yfir allt annað. Hún var jafnvel ennþá fínni en torfbærinn heima í Mýrarholti. Greifanum kynntist ég síðar mjög vel í KFUM.”
Naumast þarf að vekja athygli á því hve vel séra Bjarna tekst að varpa ljóma á æskuheimili sitt, lágreistan torfbæinn með skin frá steinolíuljósi á horni Vesturgötu og Bakkastígs.

Benedikt Gröndal hefir lýst Bessastaðakirkju í bók sinni Dægradvöl:

Bessastaðakirkja

Skjaldarmerki á turni Bessastaðakirkju?

“Upp úr turninum er stöng úr járni og stór málmkúla neðan til á henni og var gyllt, á að giska tvær álnir að þvermæli; þar uppi yfir var gylltur veðurviti með nafni Kristjáns 7. (en turninn hlaut þó að hafa verið byggður eftir hans daga) en efst önnur kúla minni… Hvernig á þessu konungsnafni stendur, veit ég ekki, en ofarlega á turninum framanverðum var ferhyrnt skjaldarmerki úr steini, með þremur fuglum, og fjaðurbúskur upp úr höfði hvers þeirra, en þetta er einmitt skjaldarmerki Moltkes eða einhvers af þeirri ætt, en um þetta leyti var Moltke stiftamtmaður. Annars getur vel verið að turninn hafi verið byggður áður, eins og kirkjan, og hafi eitthvað verið gert við hann á þessum tíma, og hafi þá stiftamtmaðurinn tekið sér bessaleyfi til að setja þarna ættarmerki sitt (Moltke er nafn á einhverjum fugli, svörtum að lit, og er orðið líklega slafneskt eða vendiskt, því ættin er frá Mecklenburg eða Pommern). Það var í manna minnum, sem lifðu í mínu ungdæmi, að menn voru teknir frá róðrum í besta veðri (t.a.m. Bjarni í Sviðholti) til að róa með stiftamtmannsfólkið út um allan sjó til skemmtunar, og hafði þá viljað til, þegar þeir áttu að vaða með frúna út í skipið, að þeir duttu í sjóinn viljandi með hana, svo hætt var við þá sjóferð. Þetta var ein af kvöðunum í þá daga.”

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja og Bessastaðastofa fyrrum.

Bjarni í Sviðholti, sá sem Benedikt Gröndal nefnir var Halldórsson. Hann var lögréttumaður. Um eitt skeið var hann ráðsmaður Bessastaðaskóla. Bjarni var vel efnum búinn, talinn með ásjálegustu mönnum, segir Páll Eggert Ólason í æviskrám sínum. Vilji einhver vita deili á úrræðagóðum Álftnesingi, sem hafði ráð undir rifi hverju og kunni að koma sér undan kvöðum hefðarfólks, þá voru meðal afkomenda hans nafnkunnir lærdómsmenn og kraftajötnar. Bjarni Jónsson rektor Latínuskólans (Menntaskólans í Reykjavík) hét nafni afa síns, Bjarna í Sviðsholti. Móðir Bjarna rektors giftist síðar Birni Gunnlaugssyni yfirkennara. Hann var tengdafaðir Jens Sigurðssonar rektors. Og þá fer nú að styttast í Jóhannes og Jón Nordal. Af þessari ættarskrá má sjá að þeir bræður eru komnir af Bjarna í Sviðsholti, lögréttumanni, sem lét ekki kveðja sig frá verki um hábjargræðistímann til þess að sinna dyntum hefðarfólks.

Stiftamtmannsfrúin, sem vöknaði við sjóbaðið á Bessastöðum var systir Bardenfleths, sem var fulltrúi konungs við endurreisn Alþingis árið 1845. Faðir þeirra Bardenflethssystkina var flotaforingi, háttsettur og handgenginn við hirð Danakonunga. “Náðug frúin” leit mjög stórt á sig.” Eru um það margar sögur.

Ludvig Moltke stiftamtmaður og kona hans eignuðust dóttur meðan þau dvöldust hér. Dóttir stiftamtmannshjónanna var vatni ausin að viðstöddu hefðarfólki íslenskrar embættistignar. Guðfeðgin telpunnar voru Magnús Stephensen konferensráð, Ísleifur Einarsson etasráð, Sigurður Thorgrímssen landfógeti, Ólafur Finsen sýslumaður og eiginkonur þeirra síðat nefndu, Mad. Thorgrimsen og Mad. Finsen.
Athöfnin fór fram í september 1820. Stúlkan hlaut þrjú nöfn. Hún var skírð Augusta, Vilhelmine, Thorveiga.

Kona Moltkes (gift 1819) var Reinholdine Frederikke Vilhelmine Bardenfleth (18. apríl 1800 – 14. ágúst 1890), systir Carls Emils Bardenfleth, sem síðar varð stiftamtmaður á Íslandi. Hún fluttist nýgift með manni sínum til Reykjavíkur. Á Íslandi fór orð af því að hún liti mjög stórt á sig. Þeim hjónum leist afar illa á þann bústað sem beið þeirra og fengu þau leyfi til að láta innrétta tugthúsið á Arnarhóli, sem þá stóð ónotað, sem embættisbústað og bjuggu þar. Var húsið eftir það stiftamtmanns- og síðar landshöfðingjabústaður og að lokum Stjórnarráðshús.

Bessastaðir
Moltke gekkst líka fyrir því 1820 að lögð var steinstétt eftir forarstíg sem kallaður var Tværgaden, frá Aðalstræti austur að læk, og skolpræsi meðfram henni. Þetta þótti mikið mannvirki og var stéttin kölluð Langafortóv. Þar er nú Austurstræti.

Stór málmkúla neðan til á henni [Bessastaðakirkju] og var gyllt, á að giska tvær álnir að þvermæli; þar uppi yfir var gylltur veðurviti með nafni Kristjáns 7. (en turninn hlaut þó að hafa verið byggður eftir hans daga) en efst önnur kúla minni . . . Hvernig á þessu konungsnafni stendur, veit ég ekki, en ofarlega á turninum framanverðum var ferhyrnt skjaldarmerki úr steini, með þremur fuglum, og fjaðurbúskur upp úr höfði hvers þeirra, en þetta er einmitt skjaldarmerki Moltkes eða einhvers af þeirri ætt, en um þetta leyti var Moltke stiftamtmaður. Annars getur vel verið að turninn hafi verið byggður áður, eins og kirkjan, og hafí eitthvað verið gert við hann á þessum tíma, og hafi þá stiftamtmaðurinn tekið sér bessaleyfí til að setja þarna ættarmerki sitt (Moltke er nafn á einhverjum fugli, svörtum að lit, og er orðið líklega slafneskt eða vendiskt, því ættin er frá Mecklenburg eða Pommern). Það var í manna minnum, sem lifðu í mínu ungdæmi, að menn voru teknir frá róðrum í besta veðri (t.a.m. Bjarni í Sviðholti) til að róa með stiftamtmannsfólkið út um allan sjó til skemmtunar, og hafði þá viljað til, þegar þeir áttu að vaða með frúna út í skipið, að þeir duttu í sjóinn viljandi með hana, svo hætt var við þá sjóferð. Þetta var ein af kvöðunum í þá daga.”

Heimildir:
-Mbl.is, 12. janúar 1997.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Ehrenreich_Christopher_Ludvig_Moltke
-https://timarit.is/page/1870397#page/n19/mode/2up

Bessastaðir

Bessastaðir.

Gálgaklettar

Í Melkorku árið 1954 birtist grein eftir Guðrúnu Sveinsdóttur undir fyrirsögninni “Gönguför um Gálgahraun”.

Melkorka“Á Álftanesi við Arnarnesvog er Gálgahraun. Fram við sjóinn, beint á móti BessastöÖum gnæfa Gálgaklettar. Við klettaræturnar þekur grasið gömul tóftarbrot. Í klettaskorum vex ljónslöpp, tófugras, burkni, þursaskegg o. fl. Efst uppi situr svartbakur, einn síns liðs, en annars er hér urmull fugla í sandbleytunni og smátjörnunum, sem útfirið hefur skilið eftir. Á milli grasigróinna sandlbala, vaða stelkar og sendlingar, en í þangbendunni, sem öldurnar hafa skolað langt upp á land, gösla rifnar og óhreinar rolluskjátur með lömbin sín. Smáfuglár þjóta á milli klettanna, sem endur fyrir löng báru uppi líkami ógæfusamra vesalinga, sem mannanna réttlæti dæmdi til lífláts á þessum stað. Við erum þrjár á ferð, frú Unnur Skúladóttir, Signý, bróðurdóttir hennar, 11 ára gömul, og sú er þetta ritar.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Við nemum staðar og fáum okkur sæti í brekkunni, að vestanverðu við stóra klettinn. Landslagið er sérkennilegt og víður sjóndeildarhringurinn. Hér er friðsælt, við njótum veðurblíðunnar og finnum hve staðurinn er laus við ömurleg áhrif þess, sem hér hefur áður gerzt. Hinzta hvíla hinna ógæfusömu, sem fengu ekki að bera beinin í kristinna manna reit, hefur áreiðanlega hlotið sína vígslu, sem hrakið hefur á brolt allt óhreint og helgað staðinn.
Gömul frásögn hermir, að einu sinni sat lítil stúlka undir Gálgaklettum. Var hún þá, sem í leiðslu, hrifin upp í ljóshvolf vítt og undrafagurt. Að eyrum hennar bárust tónar, fegurri en mannlegt eyra má heyra og var sem bylgjur hinna fögru tóna bæru með sér blikandi litskrúð. Loftið var þrungið angan blóma og hreinleika ópilltrar náttúru. Svo sterk voru áhrifin af þessari óviðjafnanlegu fegurð, að hún minntist þess ekki, kvort hún hafði séð fólk á þessum stað, en samt fannst henni sem þarna hefði farið fram einhver helgiathöfn. Þegar hún kom aftur til sjálfrar sín, þar sem hún sat í brekkunni, flutti hún með sér þessa vísu:
Æðra ljós, sem lyftir sál
lífið að mér rétti.
Mig vermir eilíft andans bál
undir Gálgakletti.

Esja

Esjan.

Þarna sátum við og virtum fyrir okkur umhverfið fjær og nær. Regnskúrirnar í Esjunni færðust lengra í vesturátt, en Snæfellsnesið og jökullinn voru enn umvafin skærri birtu og bláma, og andspænis okkur litum við höfuðbólið Bessastaði.
„Sjáðu nú Signý min, þarna á Bessastöðum fæddist hann pabbi þinn,” sagði Unnur, „og þar var hún Unnur frænka þín heimasæta,” bætti ég við. „Finnst þér ekki einkennilegt að horfa héðan heim að þeim stað, sem geymir svo margar minningar æskuáranna, þar sem þú þekkir hvern krók og kima inni og hverja þúfu úti fyrir?” spurði ég Unni.
„Jú víst er það einkennilegt, ég átti þar heima í 9 ár. Ég man það eins og það hefði skeð í gær, þegar ég kom fyrst að Bessastöðum.”
Náttúran og sólskinið var hið sama og á sólskinsdögum æskuáranna, þegar Unnur var heimasæta á Bessastöðum. Það hlaut að vera hið ákjósanlegasta tækifæri til að fá að skoða í myndabók minninganna hjá henni. Það bar margt á góma þennan dag, atburðir alda og ára, og eilífðarinnar, sem geymir allt í fórum sínum. Svo fáum við kannske einbverntíma seinna að skoða og skilja allt, sem okkur langar til. Þegar ég kom heim, fannst mér samt, að það mundi ekki skaða að rissa á blað til minnis frásögn Unnar þennan dag, og nú vill Melkorka skrá þessar minningar. Frú Unnur er elzt af börnum Skúla Thoroddsen alþingsmanns og konu hans frú Theodóru, sem er nýlega látin í hárri elli. Þau voru bæð þjóðkunn og ætt þeirra og uppruna er óþarft að rekja hér. Þau eignuðust 13 börn og var heimili þeirra jafnan umfangsmikið. Það kom sér því vel, að þar voru tvær atkvæðakonur að verki, húsfreyjan sjálf og Guðbjörg Jafetsdóttir. Guðbjörg var dóttir Jafets Einarssonar gullsmiðs í Reykjavík. Jafet var bróðir Ingibjargar konu Jóns Sigurðssonar forseta. Bessastaðir
Guðbjörg ólzt að meslu leyti upp í Reykjavík, en var um tíma í Njarðvíkum hjá Ingveldi systur sinni, konu Ásbjarnar Ólafssonar. Guðbjörg var mjög glæsileg kona og vel gefin til munns og handa. Á milli tvítugs og þrítugs kcmur hún á heimili séra Guðmundar á Breiðabólsstað og Katrínar konu hans. Theodóru dóttur þeirra, sem er 9 árum yngri en Guðbjörg, þykir mikill fengur að því að fá á heimilið Reykjavíkurstúlkuna, sem les og talar reiprennandi dönsku, og ber með sér nýjan og hressandi andblæ frá umheiminum. Árið 1884 giftist Theodóra, 21 árs að aldri, og fer þá Guðbjörg á undan til Ísafjarðar, til þess að setja heimilið á laggirnar. Ætlað er, að hún verð ungu hjónunum til aðstoðar fyrst í stað, en þegar von er á fyrsta barninu, finnst öllum nauðsynlegt að hún hafi hönd í bagga með fæðingu þess og fyrstu skrefum. Þegar þar að kemur er Guðbjörg orðin nátengd heimilinu, og með hverju barni verða böndin sterkari. Guðbjörg lézt á heimili Katrínar Thoroddsen læknis árið 1944, 90 ára að aldri.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja.

Vorið 1899 fór Guðbjörg fóstra okkar suður á Álftanes með bræður mína tvo, Þorvald og Skúla, sem þá voru 7 og 9 ára. Fenginn var ráðsmaður, áður bóndi, frá Ísafjarðardjúpi, Gunnar Sigurðsson að nafni, og tvær vinnukonur. Svo var hafinn búskapur á Bessastöðum. Þar var fyrir blindur maður, sem Ólafur hét, virðist hann hafa fylgt staðnum. Ólafur var skýr og greindur maður og afburða vel að sér í fornum fræðum. Síðan var fenginn fjósamaður, Guðmundur að nafni, ættaður sunnan með sjó, og svo drengur til snúninga. Auk þess fólk af bæjunum í kring, til aðstoðar þegar þörf gerðist.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Um haustið bættumst við Guðmundur bróðir minn í hópinn. „Thyra” gamla lá fyrir landi og bátur flutti okkur upp að Fischersbryggju. Þar var saman komið múgur og margmenni og mest áberandi í þeim hóp voru skólapiltarnir með fínu húfurnar sínar. Guðbjörg var þar komin til þess að taka á móti okkur og hún fór með okkur, fyrst til fröken Kristínar Thorlacius, sem lengi var hjá Jóni Árnasyni þjóðsagnaritara, en Katrín kona hans var ömmusystir okkar.
Seinna kom Katrín Magnússon, kona Guðmundar prófessors, til sögunnar, en hún var dóttir Skúla Sívertsen í Hrappsey, sem var ömmubróðir okkar. Katrín fór út með okkur til þess að skoða bæinn. Benti hún okkur á allt hið markverðasta og okkur þótti, sem von var, mikið til koma. Einhvern næstu daga var svo gengið suður Mela, suður í Skerjafjörð og þaðan róið úr Þormóðsstaðavör beint í Skansinn inn tjörnina. Nú vorum við komin heim að Bessastöðum. Ég sá, að þar var ákaflega fallegt, en ég saknaði fjallanna. Heima á Ísafirði voru þau svo nálægt okkur, en hérna voru þau óralangt í burtu.

Ég reyndi að hugga mig við Esjuna og Jökulinn. Eitt sinn í svartasta skammdeginu, um jólaleytið, kom ég út og sá sólina. Ég hafði aldrei áður séð sólina um þetta leyti árs, ég stóð hugfangin, eins og kraftaverk hefði gerzt fyrir augum mínum, mér lá við gráti. Þá fann ég það fyrst, að ég gat sætt mig við að sakna fjallanna minna.
Að Grími Thomsen látnum hafði lítið verið hirt um húsið. Það var að mestu í sama horfi þegar við komum þangað. Mér fannst mikið til um, hversu veglegt anddyrið var, stofurnar stórar, hátt til lofts, þykkir veggir og djúpar gluggakisturnar. Uppi á loftinu var þó enn merkilegra. Þar voru 4 herbergi, 2 sitt í hvorum enda, en geimur þar á milli. Þetta var áður svefnloft skólapilta og enn mátti sjá hvar verið höfðu lokrekkjur þeirra. Guðbjörg svaf með okkur börnin í svokölluðu Amtmannssonalofti, í austurenda hússins, en úr gluggunum blöstu við Gálgaklettar, þess vegna urðu þeir mér fljótt að umhugsunarefni. Á kvöldin þegar ég fór upp að hátta, hugsaði ég oft um hverjir hefðu sofið þarna í lokrekkjunum á loftinu og ég lék mér að því að skipa þeim hverjum á sinn stað. Það voru afar mínir, bæði Jón Thoroddsen og séra Guðmundur á Kvennabrekku, og svo Jónas Hallgrímsson og fleiri Fjölnismenn og fjöldinn allur af öðrum þjóðkunnum mönnum. Þrátt fyrir alla þessa heiðursmenn, fann ég oft til myrkfælni á loftinu, en sú tilfinning fékk byr í báða vængi, því að margir töldu sig sjá og heyra sitt af hverju, sem ekki þoldi dagsins ljós né hæfði heilbrigðu lífi. Einna helzt var það Ólafur gamli, sem varð var við ýmislegt “óhreint” á sveimi kringum staðinn og alltaf áskildi hann sér að ganga síðastur frá bakdyrunum á kvöldin. Þar hrækti hann, fussaði og sveiaði, svo að ekkert óhreint kæmist inn.

Laugavegur

Laugavegur 32.

Um haustið var ráðinn til okkar heimiliskennari. Björn Jensson yfirkennari hafði verið beðinn að útvega gáfaðan og duglegan pilt til þeirra starfa. Fyrir valinu varð Björn Líndal, sem síðar varð lögfræðingur og alþingismaður. Hann kenndi okkur tvo næstu vetur, en las auk þess sjálfur undir 5. og 6. bekk. Smiðir úr Reykjavík voru fengnir til þess að vinna að nauðsynlegum umbótum og breytingum. Sveinn Jónsson, stofnandi Völundar, sá um smíðina. Þá var byggður kvistur, þvert í gegnum húsið að sunnan og norðanverðu, kirkjan var dubbuð upp að utan og innan, en allt var það gert í samræmi við það sem áður hafði verið. Á þessum árum, 1899—1901, var hafin smíði á húsi, sem ætlað var undir prentsmiðju Þjóðviljans, sem þá hafði verið gefinn út á Ísafirði. Það hús stóð niður við Bessastaðatjörn, á sjávarbakkanum. Seinna var það flutt til Reykjavíkur og stendur nú innarlega við Laugaveginn nr. 32.
Sumarið 1900 kom móðir mín snöggva ferð með systur mínar, Katrínu og Kristínu. Þær urðu eftir hjá okkur, svo þá vorum við orðin 6 systkinin á Bessastöðum. Foreldrar mínir voru enn einn vetur á ísafirði, en fluttu svo alfarin þaðan til okkar með yngstu systkinin, sem þá voru Jón, Ragnhildur og Bolli, sem þá var 7 vikna. Það var vorið 1901.
Að vestan komu tveir prentarar. Var annar þeirra Jón Baldvinsson, sem síðar varð kunnur stjórnmálamaður, en hinn var Einar Sigurðsson frá Seli. Auk þeirra var einn lærlingur. Uppi á prentsmiðjuloftinu, sem oft var kallað Glymjandi, varð nokkurskonar latínuskóli. Þar lásu, auk bræðra minna, Jakob Smári og Sigurður Sigurðsson, síðar sýslumaður Skagfirðinga. Heimiliskennari var öll þau ár sem við vorum á Bessastöðum, og var það alltaf einhver duglegur latínuskólapiltur.
Þegar í upphafi var gestkvæmt og glaðværð mikil á Bessastaðaheimilinu, en eins og nærri má geta dró ekki úr því við komu foreldra minna. Hvorugt voru þau hneigð fyrir búsýslu, en þá hlið önnuðust þau enn sem fyrr Guðbjörg fóstra okkar og Gunnar Sigurðsson, auk fjölda vinnuhjúa.
Faðir minn var stopull við heimilið. Hann rak enn um nokkurt árabil verzlun á Ísafirði og um þingtímann dvaldizt hann að mestu í Reykjavík. Ritstjóri Þjóðviljans var hann frá 1887 til æviloka.
Heima á Bessastöðum sat hann löngum inni á skrifstofu sinni og oft sat móðir mín þar hjá honum. Sjaldan held ég að hann hafi látið blaðagrein eða annað af því tagi frá sér fara, svo að hún hafi ekki fylgzt með gangi málanna. Foreldrar mínir voru að mörgu leyti kynlegar andstæður að eðlisfari, en áttu þó svo óvenju vel saman, líklega fyrst og fremst vegna þess, að hugur þeirra stefndi að sama marki, að tímanlegri farsæld og menningarþroska í landinu, sem einungis gat dafnað hjá þjóð, sem var frjáls og óháð erlendu valdi. Á stjórnmálasviðinu var faðir minn einbeittur og gat verið harður í horn að taka, en í daglegu lífi voru þau bæði mannvinir, sem máttu ekkert aumt sjá. Þá var hans megin hlýjan og mildin, en hennar eðli var að ganga rösklega að verki með að rétta hjálparhönd, enda hafði hún þar frjálsar hendur.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Hér er eitt lítið dæmi um hjálpsemi hennar: Móðir mín var eitt sinn stödd niður við höfnina. Þar var skip að fara í strandferð og stóð þar veikluleg og illa klædd kona með börn sín og farangur. Einhvernveginn fær móðir mín vitneskju um, að það eigi að flytja konu þessa sveitarflutningi. Það var kalt í veðri, og móðir mín gerir sér lítið fyrir, tekur af sér hlýja og góða sjalið sitt og vefur utan um konuna. Svo kom hún heim með mun lélegri flík, sem hún hafði fengið í næstu búð handa sjálfri sér.
Á Bessastöðum voru menn árrisulir. Þar var unnið af kappi að hverju sem var, búsýslu, heimilisstörfum, lestri, ritstörfum, prentiðn o. s. frv. Þó að mamma tæki ekki mikinn þátt í búsýslunni, hafði hún nóg að gera við að sinna gestum, innlendum og erlendum, og við að vaka yfir velferð barnanna og heimilisins á ýmsa vegu, en þegar pabbi kvaddi hana til aðstoðar og samfylgdar við sig, þá yfirgaf hún allt annað á augabragði og fylgdi honum hvert sem vera skyldi. Eins og nærri má geta var oft glatt á hjalla þar sem var saman komið svo margt fólk í blóma aldurs síns, og alltaf bættist við álitlegur hópur gesta og gangandi. Stundum var slegið upp dansi í forstofunni, en annars skemmtu menn sér við tafl og spil. Sérstaklega var teflt mylla, refskák og kotra. Síðast en ekki sízt var til skemmtunar allskonar fróðleikur, sögur, söngur, ljóðalestur og kveðist á og látið fjúka í kviðlingum, því að bæði voru menn heima fyrir, sem gátu látið til sín taka í þeim efnum og margir þeirra gesta, sem að garði komu, voru heldur ekki í neinum vandræðum með að koma saman vísu, eins og t. d. Þorsteinn Erlingsson, Lárus Sigurjónsson, Jónas Guðlaugsson, Jóhann Gunnar og Guðmundur Kamban og margir fleiri, þótt eigi hafi þeir allir orðið þjóðkunnir á því sviði.
Af þeim mönnum, sem þegar hafa verið nefndir, má sjá að þessi staður hefur á ýmsum tímum haft að geyma marga af mætustu mönnum þjóðarinnar. Geta menn því gert sér í hugarlund, að það eru ljúfar minningar, að hafa átt sín beztu æskuár í hópi nokkurra þeirra og á þessum merka stað.
Frásögn þessi var rituð í ágústmánuði árið 1951. Birt með leyfi frú Unnar Skúladóttur.”

Heimild:
-Melkorka, 10. árg., 2. tbl. 1954, Guðrún Sveinsdóttir, Gönguför í Gálgakletta, bls. 39-43.

Bessastðir

Bessastaðir.

Skansinn

Í Fréttabréfi Ættfræðifélagsins 2013 fjallar Guðfinna Ragnarsdóttir m.a. um Óla Skans.

Óli Skans, Óli Skans
ógnar vesalingur Vala hans, Vala hans
Veit nú hvað hún syngur…
Óli hlaut, Óli hlaut
auman reynsluskóla.
Vala braut, Vala braut
viðbeinið í Óla.
Óli, Óli, Óli skans.
Voðalegur vargur er hún
Vala konan hans.

Skansinn

Skansinn – uppdráttur ÓSÁ.

Allir kannast við þessar ljóðlínur. En hver var hann þessi Óli Skans?
Fullu nafni hét hann Ólafur Eyjólfsson og var sonur hjónanna Eyjólfs Jónssonar (1794-1861) og Málfríðar Ólafsdóttur (1804-1875) en þau bjuggu á Skansinum á Álftanesi. Ólafur var fæddur 26. nóvember 1842 og lést 11. júní 1914.
Skansinn var hjáleiga frá Bessastöðum. Þar var einnig lendingin frá Bessastöðum. Skansinn var gamalt virki, kringlóttur, upphlaðinn garður fyrir fallbyssur fógetanna á Bessastöðum „og til skamms tíma voru kúlur úr byssum þessum uppi á lofti í Bessastaðakirkju“ segir í bókinni Sjósókn – Endurminningar Erlends Björnssonar Breiðabólsstöðum. Endurminningarnar voru skráðar af Jóni Thorarensen og gefnar út í Reykjavík 1945.
Á Skansinum, segir Erlendur enn fremur, var lítil torfbaðstofa með þili á suðurgafli. Túnbleðillinn fóðraði eina kú.

Niðursetningur að norðan

Skansinn

Skansinn og bær Óla skans.

Málfríður Ólafsdóttir, móðir Óla Skans, var ættuð að norðan. Hún er sögð niðursetningur á Litla-Vatnsskarði Holtastaðasókn í Húnavatnssýslu árið 1816. Hún fermdist 1819 frá sama stað. 1835 er hún komin suður og er þá á Hvaleyri í Garðasókn í Gullbringusýslu. Í Mt. 1845 er hún húsfreyja á Skansinum við Bessastaði og 1860 er hún sögð sjómannsfrú á sama stað.
Eyjólfur, faðir Óla Skans, er sagður fósturpiltur í Káraneskoti í Meðalfellssókn í Kjós í Mt. 1801, hann er léttadrengur á Reynivöllum í Reynivallasókn í Kjós árið 1816 og tómthúsmaður og veiðimaður á Hvaleyri í Garðasókn 1835 og sjómaður á Skansinum við Bessastaði 1860.

Lífsglaður
Í endurminningum sínum lýsir Erlendur Ólafi þannig: Guðfinna Ragnarsdóttir: Óli Skans „Hann var meðalmaður að vexti, heldur grannur, dökkur í andliti, langleitur, ennið lágt, nefið frekar stutt, en allhátt. Gekk hann alltaf alrakaður. Hann var með frekar ljósleitt, slétt og sítt hár, sem var skipt fyrir miðju. Eyrun voru stór og áberandi. Hakan var óvenjulega breið. Hann var lotinn í herðum. Var hann þrifnaðarmaður hinn mesti, kátur, fjörugur og lífsglaður, en enginn söngmaður. Hann var kenndur við fæðingarstað sinn og kallaður Óli Skans, og er við hann kennt hið alkunna danslag, sem allir þekkja, en vísan er svona:

“Óli Skans, Óli Skans,
er nú hér á róli.
Fía hans, Fía hans
fær hjá honum skjólið.
Óla er kalt á kinnunum
Fía vill ei orna´honum.
Fram í eldhús til hennar
tíðum leggur göngurnar.

Ekki stemmir þessi gamla vísa við þá romsu sem við syngjum og ekki er gott að vita hver þessi Fía er sem ekki vill orna honum um kinnarnar. Eftir því sem ég best fæ séð átti Ólafur aðeins eitt barn, og ekki var móðir þess nein „Fía“. Og Vala kemur heldur hvergi við sögu.

Málfríður Ólína
Barnsmóðir Ólafs var Ragnheiður Illugadóttir var fædd 1855. Ragnheiður var langömmusystir mín. Hún lést 62 ára gömul, árið 1917, og hvílir í merktu leiði í Garðakirkjugarði á Álftanesi. Í Íslendingabók er hún er sögð lausakona og bústýra, lengst af í Hafnarfirði. Hún var ein fjögurra systra frá Skógtjörn á Álftanesi.

Skansinn

Skansinn – uppdráttur.

Foreldrar hennar voru Illugi Árnason (1806-1865) og Halldóra Gamalíelsdóttir (1820-1894). Þau bjuggu á Skógtjörn og Svalbarða á Álftanesi.
Dóttir Ólafs og Ragnheiðar fékk nafn föðurömmu sinnar og föður og var skírð Málfríður Ólína Lára. Hún var fædd 2. nóvember 1877 í Lásakoti á Álftanesi. Þegar hún fæðist eru báðir foreldrar Óla Skans látin og sömuleiðis Illugi faðir Ragnheiðar. Aðeins móðuramman Halldóra er á lífi, en hún virðist hvergi koma hér við sögu.

Hjá pabba sínum
Þau Ólafur og Ragnheiður hafa ekki átt mörg ár saman, því í mt 1880, þegar Málfríður Ólína litla er aðeins tveggja ára, er hún á framfæri föður síns sem þá er í Hlíð á Álftanesi. Ragnheiður virðist fljótt hafa leitað á önnur mið og 14. júlí 1881, þegar Málfríður Ólína er á fjórða árinu, á hún soninn Níels Níelsson með dönskum sjómanni. Sá sonur dó erlendis, úr spönsku veikinni, árið 1918. Síðan virðist hún hefja sambúð með Sigurði Ólafssyni, húsmanni í Hafnarfirði. 1884 og 1886 eiga þau Ragnheiður og Sigurður svo dæturnar Jóhönnu, sem dó strax, og Halldóru. Í mt. 1890 er Ólína 12 ára og er þá til heimilis í Hraunprýði í Garðasókn, hjá móður sinni, 30 ára, og Sigurði sambýlismanni hennar, 50 ára, ásamt Halldóru, sem þá er 4 ára og Níelsi sem er 9 ára. Halldóra flutti til Noregs, var tvígift og átti amk 10 börn.
Hvenær sambúð þeirra Ragnheiðar og Sigurðar lauk veit ég ekki, en 1895 á Ragnheiður dótturina Júlíönu Guðmundínu með Guðmundi Jónssyni, ættuðum úr Borgarfirði. Júlíana var húsfreyja á Litlu-Strönd í Rangárvallasýslu. Hún lést 1945 aðeins fimmtug að aldri. Hún mun hafa átt tvo syni. [Saga þeirra sona kann að vera áhugaverð].

Liðlegur sjómaður
Um Ólaf kvað faðir skrásetjarans, Erlendur, efirfarandi vísu:
Eyjólfs greiða kund við kjörum,
kola og seiðum fargar sá.
Ólafur skeiðar Skans úr vörum
skeljungs breiðan völlinn á.
Og Erlendur heldur áfram: „Ólafur þessi var vinnumaður nokkur ár hjá móður minni, og var hann einn fyrsti háseti hjá mér, er ég byrjaði formennsku. Hann var liðlegur sjómaður, og féll mér ágætlega við hann.“

Holdsveiki
Skansinn
Af einkabarni Ólafs, Málfríði Ólínu, er það að segja að hún flutti til Reykjavíkur 1895 og giftist þar árið 1900 Jóhannesi Kristjánssyni, sem ættaður var úr Borgarfirði.
Í mt 1901 býr hún á Smiðjustíg 4 í Reykjavík, ásamt Jóhannesi manni sínum, og eins árs barni þeirra. Í fyllingu tímans eignuðust þau Ólína og Jóhannes sjö börn og er stór ættbogi frá þeim kominn.
Af Ólafi er það að segja að í mt 1890, þegar Málfríður Ólína er hjá móður sinni, stjúpa og hálfsystkinum í Hraunprýði, er hann vinnumaður í Landakoti á Álftanesi. En einhvern tíma á næsta áratug veikist hann af holdsveiki og flytur til Reykjavíkur 1898. 1901 er hann skráður sjúklingur á Holdsveikraspítalanum í Laugarnesi. Þar er hann enn í mat 1910 og þar kveður hann þetta jarðlíf 11. júní 1914. Þá hafði Málfríður Ólína, einkadóttir hans, nýlega eignast sitt sjöunda og síðasta barn. Málfríður Ólína lést 77 ára gömul 29. maí 1954.
Hvort hann Óli Skans, þessi fyrrum káti, fjörugi og lífsglaði maður, sem holdsveikin lék svo grátt, leit barnabörnin sín nokkurn tíma augum, fer engum sögum. Hann er orðinn veikur maður þegar það elsta fæðist og umgengnin við holdsveika var í algjöru lágmarki.
En trúlega munum við öll, eftir þennan lestur, skyld sem óskyld, minnast hans og örlaga hans, þegar við tökum sporið, dönsum og syngjum hástöfum Óli Skans, Óli Skans…”.

Heimild:
-Fréttabréf Ættfræðifélagsins; Óli Skans, Guðfinna Ragnardóttir, 3. tbl. 01.09.2013, bls. 14-15.
Ættriðngafélagið

Íslandsuppdráttur 1595

Á vefsíðunni https://www.kb.dk/ má líta ýmsan aldraðan fróðleik um Ísland, s.s. gömul Íslandskort og uppdrætti. Hér er ætlunin að sýna nokkur þeirra með skírskotun til meðfylgjandi texta hverju og einu til handa. Textinn er, af skiljanlegum ástæðum, á dönsku:

Reykjanesskagi – kort 1900

Reykjanesskagi 1900

Reykjanesskagi 1900.

Arbejdskort over Island med Opmaalingsnet til Atlasblade i 1:100 000 indtegnet.
Udgivelsesdato; 1900-1905.
Lokalitet; Island.
Opmålingsnettet er indtegnet på: Uppdráttr Íslands af Ó. N. Ólsen og B. Gunnlaugsson [Generalstabens topografiske Afdeling].

Reykjanesskagi – uppdráttur 1879 – Kålund

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi 1879 – Kålund.

Guldbringe og Kjos Sysler OphavKålund, P.E. Kristian.
Udgivelsesdato; 1879.
Lokalitet; Island.

Ísland – uppdráttur 1849

Ísland

Ísland 1849.

Uppdráttr Íslands Ophav Gunnlaugsson, Bjørn Olsen, Oluf Nicolai.
Udgivelsesdato; 1849.
Lokalitet; Island.
Kommentargjörðr að fyrirsögn Ólafs Nikolas Ólsens eptir landmælíngum Bjarnar Gunnlaugssonar … gefinn út af hinu Íslenzka Bókmentafélagi F. C. Holm sculp. Kjöbenhavn Paralleltitel: Carte d’Islande /d’après le mesurage de Björn Gunnlaugsson; exécutée sous la direction de O. N. Olsen ; publiée par la Societété Littéraire d’Islande hið bókmenntafélag Med liste over koordinater for trigonometriske stationer og liste over sysler og herreder i randen uden for kortet.

Ísland – uppdráttur 1844

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi 1944.

Uppdráttr Íslands: No. 1: Suðvestr-fjórðúngr Ophav Gunnlaugsson, Bjørn Olsen, Oluf Nicolai Scheel, Hans Jacob.
Lokalitet; Island.
Opstilling KBK 1115-0-1844/2a-d. KommentarStik gjörðr að fyrirsögn Ólafs Nikolas Ólsens eptir landmælingum Bjarnar Gunnlaugssonar … reiknað hefir Hans Jakob Scheel gefinn út af hinu Íslenzka Bókmentafèlagi grafið hefir F. C. Holm hið bókmenntafèlag Indsat: Bjergprofiler og snit Koordinaterne for 124 trigonometriske stationer angivet i randen af kortet Titelblad og signaturforklaring er med islandsk og fransk tekst OphavsretMaterialet er fri af ophavsret.

Ísland – uppdráttur 1944

Reykjanesskagi 1944

Reykjanesskagi 1944.

Uppdráttr Íslands: No. 1: Suðvestr-fjórðúngr OphavGunnlaugsson, Bjørn Olsen, Oluf Nicolai Scheel, Hans Jacob.
Udgivelsesdato; 1944.
Lokalitet; Island.
Kommentargjörðr að fyrirsögn Ólafs Nikolas Ólsens eptir landmælíngum Bjarnar Gunnlaugssonar … reiknað hefir Hans Jakob Scheel gefinn út af hinu Íslenzka Bókmentafèlagi grafið hefir F. C. Holm Indsat: Bjergprofiler og snit Koordinaterne for 124 trigonometriske stationer angivet i randen af kortet Faksimileudgave af kort sandsynligvis udarbejdet til: Islands Kortlægning.

Ísland – uppdráttur 1761

Íslandsuppdráttur

Íslandsuppdráttur 1761.

Islandiae delineatio, prout haec Solenni mensurandi negotio sub Auspiciis Potentissimi Regis Daniae facto, & a. 1734. demum per Cnopfium Archit. militarem ad finem perducto, debetur; divisæ in quatuor partes, Islandice Fiördung, quarum quævis in suas minores regiunculas Islandice Sislu, danice Syssel dictas subdividitur OphavHomann, Johann Baptist Knoff, Thomas Hans Henrik Homanns Arvinger.
Udgivelsesdato; 1761.
Lokalitet; Island.

Hólmakaupstaður – kort 1715

Hólmakaupstaður

Hólmakaupstaður 1715.

[Holmskaupstad] = [Reykjavik] OphavHoffgaard, Hans.
Udgivelsesdato; 1715.
Emne Island, Syd Vest Reykjavik og omegn.
OpstillingKBK 1115,1-0-1715/1 KommentarKoloreret håndtegning H. Hoffgaard Tekst nederst på kortet: Paa Holmen Haabet kom aar Sytten hundrede og fembten Tillige voor Conböy Som war dend Svendske Fallecken/ Dend Tied jeg paa Gafonen laa mig tieden Ey fortrød og omskiøndt blandt gledskabt Hatex, waer skjult dend blege død/Som sig da tegne lod da heste flock reed granden da hørtes jammer og råb af Skougaard og Kiøbmanden og svie som så derpå og oh elendig strand! Det Hierte briste maatte da Kiøbmanden/reckte haand.

Ísland – uppdráttur 1700

Íslandskort 1700

Íslandskort 1700.

Novissima Islandiæ tabula OphavSchenk, Pieter Schenk, Petrus Valk, Gerard.
Udgivelsesdato; 1700.
Lokalitet; Island.

Ísland – uppdráttur 1684

Íslandsuppdráttur

Íslandsuppdráttur 1684.

Isle D’ Islande Ophav Mallet, Allain Manesson.
Udgivelsesdato; 1684.
Lokalitet; Island.

Ísland – uppdráttur 1683

Íslandskort 1683

Íslandskort 1683.

Isle D’ Islande Ophav Mallet, Allain Manesson.
Udgivelsesdato; 1683.
Lokalitet; Island.

Reykjaneskagi – uppdráttur 1650

Íslandskort 1683

Íslandskort 1650.

Sydlendinja Fiording Ophav Mejer, Johannes (1606-1674).
Udgivelsesdato; 1650?
Lokalitet; Island.

Ísland – uppdráttur 1595

Íslansuppdráttur 1595

Íslandsuppdráttur 1594.

Islandia Ophav Ortelius, Abraham Velleius, Andreas Vedel, Anders Sørensen.
Udgivelsesdato; 1595.
Lokalitet; Island.

Bessastaðastofa – uppdráttur 1724

Íslandskort 1724

Íslandskort 1724.

Ældre islandske specialkort : 1: Plan og Prospect af Bessesteds Kongs Gaard udi Island bygt Anno 1722 Ophav Raben.
Udgivelsesdato; 1720-1722. Emne; Bessestaðir -Søkort – Bessested Hafnarfjördur.
Lokalitet; Island.

Þingvellir 1720

Þingvellir 1720

Þingvellir 1720.

Ældre islandske specialkort: 3: Plan og Prospect af Øver Aae Alting Tagen Anno 1720 Ophav Raben.
Udgivelsesdato; 1720-1722.
Lokalitet; Island.

Bessastaðir – uppdráttur 1720

Bessastaðir 1770

Bessastaðir 1770.

Ældre islandske specialkort : 2: Plan og Prospect af Bessesteds KongsGaard, og St. Nicolai Kirke Ophav Raben.
Udgivelsesdato; 1720-1722. Emne; Bessestaðir – Søkort – Bessested Hafnarfjördur.
Lokalitet; Island.

Bessastaðir 1750

BessastaðirBessastaður 1750.
Ældre islandske specialkort : 2: Plan og Prospect af Bessesteds KongsGaard, og St. Nicolai Kirke Ophav Raben.
Udgivelsesdato; 1720-1722. Emne; Bessestaðir Bessested Hafnarfjördur.
Lokalitet; Island.

Bessastaðir – kort 1750
Ældre islandske specialkort: 4: Haune: Fjord Ophav Raben.
Udgivelsesdato; 1720-1722. Emne; Bessestaðir – Søkort – Bessested Hafnarfjördur.
Lokalitet; Island.

Ísland – uppdráttur 1770

Íslandskort

Íslandskort 1770.

Island RessourcetypeKort GenreTopografi.
Udgivelsesdato; 1770.
Lokalitet; Island.

Gullbringusýsla 1944

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi 1944.

Soe og Land Charta over Guldbringe og Kioese=Sysseler samt een deel af Aarness Syssel udi Iisland OphavAressen, Magnus Aresen, Magnus Arason, Magnus Raben, Peter Sheel, Hans Jacob.
Kort i farver.
Emne; Guldbringe Syssel Gullbringusýsla Kioese Syssel Kjósarsýsla
Lokalitet; Island
Koloreret håndtegning i delvis eleveret plan Efter Deres Kongl. Maj:t allernaadigste Ordre og Befalning paa det accurateste i de aar 1721 og 1722 optaget og forfærdiget af Magnus Aressen og nu i det aar 1733 copieret af Hans Jacob Sheel Med signaturforklaring Iflg. Geodætisk Institut betegnet Admiral Rabens kort nr. 4. Se også: Islands Kortlægning. En historisk Fremstilling af N. E. Nørlund. Geodætisk Instituts Publikationer VII. København 1944.

Básendar [höfn] 1736

Básenra 1726

Básendahöfn 1726.

Bosand og Kieblevigs Havner udi Island OphavBech, Hans Christian – Søkort.
Emne; Island, Syd Vest Bosand Keflavík.
Lokalitet; Island.
Årstallet er rettet til 1736 – Hans Christian Bech 1726.

Grindavík [höfn] 1751

Grindavík 1751

Grindavíkurhöfn 1751.

Grindevigs havn udi Island, Hans Christian Klog, Christoph – Søkort.
Emne; Island, Syd Vest Grindevig Grindavik.
Lokalitet; Island.
KommentarKoloreret håndtegning H[ans] C[hristian] B[ech] an: 1751 tegnet af Christoph Klog.

Heimild:
-http://www5.kb.dk/maps/kortsa/2012/jul/kortatlas/subject341/da?sort=creator_ssi+asc%2C+score+desc%2C+cobject_random_number_dbsi+desc

Reykjanesskagi 8844.

Reykjanesskagi 1844.

Bessastaðir

Í skýrslu Þjóðminjasafns Íslands 2013, Guðmundar Ólafssonar, um Bessastaðarannsókn II – Kirkjugarður og miðaldaminjar,uppgraftarsvæði 12-15, má lesa eftirfarandi niðurstöðu:
Bess II-2“Helstu niðurstöður rannsóknarinnar árið 1988 eru þær að undir bílaplaninu norðan Bessastaðastofu á svæðum U12-U14, reyndist vera þykkur öskuhaugur frá 17., 18. og 19. öld. Þar voru fá mannvirki en nokkuð fannst þar af leirkera-, krítarpípu- og glerbrotum. Undir heimreiðinni á svæðum U14-U15, voru grafnar fram 75 grafir og þar kom í ljós að kirkjugarðurinn hafði náð mun lengra til norðurs á 18. og 19. öld en nú er.
Norðurveggur hans fannst undir miðri núverandi heimreið.
Áhugaverðar mannvirkjaleifar fundust einnig frá miðöldum á svæði U12. Þar reyndust vera mörg byggingarskeið sem erfitt var að greina á milli en þau höfðu skipt margsinnis um hlutverk. Hleðslubrotin voru svo mörg að byggingarnar virtust líka hafa verið endurnýjaðar mjög oft.
Enda þótt minjarnar væru aðeins rannsakaðar að hluta var ljóst út frá afstöðu gjóskulaga að á suðurhelmingi svæðisins höfðu staðið mannvirki allt frá síðari hluta 10. aldar eða byrjun 11. aldar. Kolefnisgreining á klæðisbút (Þjms 1988-213-224) styður þessa aldursgreiningu. Flest mannvirkin á svæðinu voru komin úr notkun um 1500. Elsta mannvirkið var hugsanlega leifar af garðlagi. Ofan á eða við þá hleðslu voru síðan reist hús sem af viðarkolablettum að dæma gætu upphaflega hafa verið íveruhús, þó að þau virtust fljótlega hafa fengið annað hlutverk.
Vonir standa til Bess-II-3þess að þegar úrvinnslu fleiri svæða hefur verið lokið, verði hægt að tengja þessar minjar betur við aðrar miðaldaminjar. Skordýraleifar bentu til þess að þarna hafi um tíma verið kamar, útihús eða úrgangur frá slíkum húsum en varðveisluskilyrði lífrænna minja á þessu svæði voru sérlega góð. Af áhugaverðum minjum má t.d. nefna leifar af kjól og tveimur skinnskóm frá þessum tíma og skordýraleifar, eins og elstu kóngulóarbjöllu sem fundist hefur hér á landi.

Nokkrir gripir undirstrikuðu sérstöðu Bessastaða sem höfðingjaseturs á Íslandi. Þar má nefna brot úr þremur til fjórum kakalofnum frá 16.-17. öld, sem sýna að hér var ekkert venjulegt heimili, þegar haft er í huga að á Íslandi öllu var talið að aðeins sjö til átta býli byggju þá við slíkan munað (Kålund, 1916:60). Tuttugu og sex brot úr passaglösum eru líka margfalt fleiri en þekkist annars staðar á Íslandi. Á biskupssetrinu á Hólum hafa fundist fáein brot og í Skálholti hefur aðeins fundist eitt brot úr passaglasi. Einn óvæntasti fundur þessa árs voru samt vínberjakjarnarnir sem fundust í miðaldalagi á svæði U12. Þeir vitna um stöðu Bessastaða sem höfðingjaseturs ásamt fleiri gripum, eins og t.d. passaglösunum og kakalofnunum, sem sýna að yfirstéttin á Íslandi reyndi eftir bestu getu að halda í við yfirstéttina í Norður-Evrópu og fygja siðum þeirra og lífsstíl”.
Í dag er uppgraftarsvæðið undir heimreiðinni (frá kirkjuhliðinu) að Bessastöðum.
Sjá meira um fornleifar á Bessastöðum Hér og Hér.

Heimild:
-Guðmundur Ólafsson, Bessastaðarannsókn II. Kirkjugarður og miðaldaminjar, uppgraftarsvæði 12-15 – skýrslur Þjóðminjasafns Íslands 2013.

Bessastaðir

Bessastaðir.

 

Bessi

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1981 segir Kristján Eldjárn frá minjum og örnefnum næst íbúðarhúsunum á Bessastöðum:
Bessastadir-991“Heima við bæjarhúsin, norður af flötinni milli húss og kirkju, þar sem fánastöng stendur nú, er hóll með snarbrattri brekku norður af, og segir Benedikt Gröndal (og Björn Erlendsson) að þetta heiti Bessastaðahóll, og voru nýsveinar látnir velta þar niður heldur ómjúklega á dögum skólans. Á jökulruðningnum sem áður var nefndur er þetta greinilegasta hólmyndunin, og mundi það ef til vill segja sína sögu um nafn bæjarins. Frá kirkju og vestur að Lambhúsum var nefndur Langivöllur, og var það þó einkum sunnanmegin (Lambhúsatjarnarmegin), sunnan heimreiðar en nú er þetta nafn haft um allt vesturtúnið.
Í norður og norðaustur af Bessastaðahól, niðri við tjörnina, voru áður fyrri allmikil ummerki eftir ýmiss konar búsumstang, og lýsir Benedikt Gröndal því nokkuð, en ummerki þessi eru nú að mestu horfin, meðal annars af því að sjór hefur brotið þarna mikið land, og er því erfitt að marka nákvæmlega fyrir hvar hvað eina var. Traðir lágu ofan að smiðju og þar var Sjóbúðarflöt, og þar var Skevingstún, kennt við Hallgrím Scheving kennara á Bessastöðum.
Hjá Sjóbúðarflöt var tóft sem víst var kölluð Sjóbúð, og enn fremur mun bessastadir-993þarna hafa verið uppsátur, Bessastaðavör. Af öllu þessu sést aðeins votta fyrir leifum af gömlum garði sem sjór hefur brotið af meðan enn flæddi inn í tjörnina. Þessi nöfn mega nú heita óþekkt. Norður frá bílstjórahúsi (sem nú er) var hólmynd í túninu og nefndist Smiðjuhóli og minnir á smiðjuna, en sést ekki lengur. Þarna norður frá bústjórahúsi og bílstjórahúsi nær sjó heitir nú Prentsmiðjuflöt, sem er nafn frá dögum Skúla Thoroddsen, enda sér þar enn steyptan grunn undan prentsmiðjuhúsi hans.
Í Bessastaðatjörn er áðurnefndur hólmi þar sem æður verpur og nefnist hann Bessahólmi í landamerkjaskránni og það nafn nota bæði Benedikt Gröndal og Björn Gunnlaugsson. Það á því mikinn rétt á sér, en nú er hólminn stundum kallaður Bessi í daglegu tali og einnig heyrist nafnið Bessastaðahólmi, sem kynni að vera það upprunalegasta. Björn Erlendsson telur að Bessastaðahólmi sé algengast og hermir þau munnmæli, að Bessi bóndi á Bessastöðum sé heygður þar. Í tíð Ásgeirs Ásgeirssonar forseta var hólminn mikið stækkaður til suðurs með því að aka að honum grjóti og hnausum á ís. Lítill hólmi er nær Eyvindarstöðum og var hann einnig gerður að undirlagi Ásgeirs Ásgeirssonar, sem kallaði hann Kóra eftir fæðingar stað sínum, Kóranesi á Mýrum. Ásgeir lét einnig grafa skurð þvert yfir tangann norður af bílstjórahúsi og búa þannig til ey eða hólma, sem kallast Sandey, en nýtt er þetta nafn að sjálfsögðu. Allt hefur þetta verið gert vegna æðarfuglsins. Ósinn út úr tjörninni hét Dugguós, en hann er nú úr sögunni, síðan stíflan var gerð. Áður fyrri, meðan enn fjaraði í tjörninni, kom upp með fjöru klettahryggur eða brík frá tanganum áðurnefnda (nærri Prentsmiðjunni) og að Stekkjarmýrarhól í Breiðabólstaðalandi og var þessi leið oft farin, ekki síst ríðandi. Þetta var kallaður Steinboginn.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 78. árg. 1981, bls. 136-138.

Bessastaðatjörn

Bessastaðatjörn.