Skansinn
Í júlí 1627 segir í Öldinni okkar:
Víkingar frá Algeirsborg ræna fólki og myrða – námu brott allt að fjögur hundruð manns, myrtu fjörutíu og rændu miklum fjármunum. Brenndu auk þess og eyðilögðu mikil verðmæti.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

“Geigvænlegir atburðir hafa gerst: Víkingar frá Norður-Afríku hafa gengið á land í Grindavík, Vestmannaeyjum og víða á Austfjörðum, rænt fólki og fémæti og drepið fjölda manna. Meðal þeirra er séra Jón Þorsteinsson í Kirkjubæ í Eyjum. Minnstu munaði að víkingar þessir réðust einnig til atlögu að Bessastöðum, og tálmaði það fyrirætlan þeirra, að eitt skip þeirra tók niðri á boða á Skerjafirði.
Víkingar þessir, sem flestir voru frá Algeirsborg, komu hingað til lands á fjórum skipum. Það er talið að þeir hafi drepið hér um fjörutíu manns, flesta í Vestmannaeyjum, sært nokkra og haft á brott með sér hátt á fjórða hundrað Ísledninga og nálega tuttugu Dani, þar á meðal tvo Vestfjarðarkaupmenn. Fjögur kaupskip hremmdu þeir og höfðu tvö þeirra á brott með sér.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – teikning dr. Bjarna Sæmundssonar 12. apríl 1895.

Í Grindavík voru teknir tólf Íslendingar og þrír Danir og þar að auki áhöfn duggu þeirrar, sem átti að fara til Skutulsfjarðar.
Fyrsta víkingaskipið kom til Grindavíkur 20. dag júnímánaðar og varpaði akkerum á grunninu úti fyrir höfninni. Var sendur frá því bátur að dönsku kaupskipi er þar lá og létust víkingar vera hvalveiðimenn í þjónustu Danakonungs og báðust vista, en fengu ekki.
Grindavíkurkaupmaðurinn, Láritz Bagge, mannaði þá bát og lét róa út í skipið. Voru sendimenn þegar gripnir. Þessu næst greiddu víkingar atlögu, hremmdu kaupskipiðog réðust til uppgöngu í kaupstaðinn.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Flúði kaupmaður á land upp með öllum þeim, sem hjá honum voru í kaupmannshúsunum, en víkingar hófu að ræna búðirnar og byggðarlagið. Flest fólk fór að dæmi kaupmanns, nema Járngerðarstaðafólk, er féll í hendur víkingum. Engan drápu víkingar þó í Grindavík og ekki hirtu þeim um að hafa þá á brott með sér, er lasburða voru og einskis verðir sem þrælar á markaði.
Þegar víkingar létu út frá Grindavík, sáu þeir kaupfar danskt á leið vestur með landinu. Var þetta Skutulsfjarðarduggan. Tókst þeim að blekkja skipstjórnarmenn á henni með danskri veifu og ná henni á sitt vald. Sigldu þeir síðan á tveimur skipum fyrir Reykjanes og Garðskaga og inn Faxaflóa og huguðst ganga þessu næst á land á Álftanesi.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja og Bessastaðastofa fyrrum.

Fréttir af ráninu í Grindavík bárust þegar til Bessastaða, þar sem hirðstjórinn, Holgeir Rósinkrans, var fyrir á herskipi, sem lá á Seylunni. Lét hann undir eins safna liði um Nesin og halda vörð nótt og dag. Kaupför þau, sem komin voru, sendi hann inn á Leirvog í Mosfellssveit, en bændur voru kvaddir til virkishleðslu í Bessastaðanesi og þangað dregnar fallbyssur, sem heima voru á Bessastöðum. Aðkomumenn komu, voru kyrrsettir, og vildi svo til, að meðal þeirra voru þrír Frakkar, sem kunnu með skotvopn að fara, og hinn íslenski ævintýramaður, Jón Indíafari, sem hefur verið skytta á herskipum Danakonungs.

Víkingaskipin lögðu inn á Skerjafjörð laugardaginn 23. júní og stefndu á Seyluna. Steig þá hirðstjóri á hest með sveit manna, og reið flokkurinn fram og aftur með langar stengur, sem smíðaðar höfðu verið. Var það gert í því skyni, að víkingum virtist þar sveit altygjaðra hermanna.
Víkingar tóku að skjóta úr fallbyssum sínum, er þeir nálguðust, og var þeim svarað með fallbyssuskotum úr virkinu og af hirðstjóraskipinu á Seylunni. Véku þá víkingar skipum sínum undan norður á fjörðinn, en við það tók stærra skipið niðri, þar sem heita Löngusker, og stóð þar fast.

Skansinn

Skansinn við Bessastaði.

Lét hirðstjóri þá hætta skothríðinni, því að honum þótti ekki vogandi að egna víkingana til bardaga, ef vera kynni, að þeir létu sér strandið að kenningu verða. Hófu víkingar að flytja fanga og þungavarning úr hinu strandaða skipi yfir á hitt, en fleygðu því í sjóinn, er torveldast var viðfangs. Tókst þeim loks eftir hálfan annan sólarhring að ná skipinu af grynningunum og færðu skip sín þá utar, þar sem þeir voru óhultari. Þar selfluttu þeir fólk og varning á ný á milli skipanna, sigldu síðan brott og létu í haf með feng sinn.”

Árið 1628 komu nokkrir þeirra handteknu aftur heim. Þar á meðal voru tvo systkin frá Járngerðarstöðum við þriðja mann. Það var hollenskur kaupmaður sem leyst hafði Grindvíkingana út. Fólk þetta sagði þær fréttir að hinir herteknu væru flestir í ánauð í Algeirsborg, þeir sem ekki létust skömmu eftir komuna til Norður-Afríku.
Á Suðurnesjum eru nokkrar minjar og sagnir tengdar komu Tyrkjanna. Má þar nefna Ræningjastíginn í Heiðnabergi í Krýsuvík, komu Tyrkjanna í Krýsuvíkurselið ofan við bjargið, samskipti séra Eríks á Vogsósum við þá og Ræningjadysin austan við Ræningjahól, Eiríksvarðan á Svörtubjörgum ofan við Selvog, “Tyrkjavarðan” vestan við Stað í Grindavík, sem ekki má raska, Fornavörin neðan við Járngerðarstaðahverfi, en þar er talið að Tyrkinn hafi varpað akkerum, blóðþyrnirinn (þistill) neðan við Sjólyst í Grindavík, hellir við Húsfjall ofan við Hraun, en þangað ætluðu Þórkötlustaðabúar að flýja ef Tyrkinn kæmi á ný, Dýrfinnuhellir, en sagan segir að þangað hafi samnefnd kona flúið með börn sín og dvalið meðan Tyrkir höfðust við í plássinu, byrgin undir Sundvörðuhrauni, en ein tilgátan er sú að þau hafi verið hlaðin til að veita fólki skjól ef Tyrkinn kæmi aftur til Grindavíkur og dysin á Hrauni, en þar eiga Tyrkir er Rauðka drap að hafa vera verptir skv. sögunni, svo eitthvað sé nefnt.
Við Bessastaði má enn sjá Skansinn og minjarnar umhverfis hann, auk fallbyssu í kjallara Bessastaðastofu.Tyrkjaránið